Fjölmiðlun

Henda peningum í svartholið

Fjölmiðlun

Hundruð manna hafa tekið sig saman um að bjarga Mogganum. Ég held það verði erfitt. Mogginn hefur ekki hljómgrunn hjá þeim, sem eru minna en 40 ára. Unga fólkið kaupir ekki fréttir, hefur vanizt internetinu. Áskrifendatekjur blaðsins munu áfram minnka og þá einnig auglýsingatekjur. Greinaskrif í prentuðum dagblöðum eru ekki lengur helzti hornsteinn lýðræðisins. Umræða um þjóðfélagsmál hefur flutzt á vefinn. Þar er ýtarlegri og áhugaverðari umræða en á síðum Moggans. Eignarhald Moggans er barátta gegn þróun fjölmiðlunar. Mogginn er svarthol, þar sem peningar hluthafa og skattgreiðenda týnast.

Tvö ríkisrekin málgögn

Fjölmiðlun

Hægri blöðin eru nú rekin á kostnað ríkisbankanna og þar með eiganda þeirra, ríkisins, Morgunblaðíð og Viðskiptablaðið. Skattgreiðendur borga tapið, 150 milljónir á mánuði fyrir Moggann og 10 milljónir á mánuði fyrir Viðskiptablaðið. Að auki hefur Viðskiptablaðið staðið í kennitölusvindli. Það lætur ríkið og þar með skattgreiðendur borga laun brottrekinna starfsmanna á uppsagnarfresti. Málgögn frjálshyggjunnar eru ríkisrekin.

Allir hæfir verða reknir

Fjölmiðlun

Ari Edwald á Stöð 2 hefur lítinn skilning á blaðamennsku. Í tvö ár hefur hann reynt að byggja upp huldumanninn Frey Einarsson. Sá hefur það verkefni að breyta Stöð 2. Úr óhlutdrægri stöð með áhuga á pólitík í stuðningsstöð ríkisstjórnarinnar með drottningarviðtölum við braskara og hægri pólitíkusa. Kippt er burt úttektum á pólitík. Í staðinn koma súkkulaðiviðtöl við Bjarna Benediktssson. Sagt er upp hæfum blaðamönnum, fyrst Sölva Tryggvasyni og nú Sigmundi Erni Rúnarssyni. Inn koma blaðafulltrúar frá Bónushringnum. Stöð 2 tekur nú við því hlutverki Moggans að verja hagsmuni auðs og valda.

Geir Jón ofsækir blaðamenn

Fjölmiðlun

Lögreglustjórarnir í Reykjavík, Stefán Eiríksson og Geir Jón Þórisson, beina nú reiði sinni einkum að blaðamönnum og ljósmyndurum. Löggunni hefur verið skipað að úða gasi beint framan í þá, sem eru að safna fréttum. Það sést vel á ljósmyndum og myndskeiðum. Félag blaðamanna hefur kvartað yfir þessu. Líklega eru þetta venjuleg viðbrögð fasista við fréttum. Stefán og Geir eru ósáttir við, að blaðamenn og ljósmyndarar birti efni, sem sýnir lögguna í óhagstæðu ljósi. Sem stingur í stúf við ósannar fullyrðingar löggustjóranna. Geir Jón er orðinn æstur í tali, telur þjóðina vera að ráðast á lögguna.

Skuggar Viðskiptablaðsins

Fjölmiðlun

Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, skipti um kennitölu á blaðinu mánuði fyrir síðustu áramót. Við það tækifæri rak hann blaðamenn og lét ríkið borga laun þeirra á uppsagnarfrestinum. Með því að neita að borga þau. Þetta er tíðasta svindlið við kennitöluskipti. Ekki er von á kræsilegu siðferði í svona fyrirtæki. Enda hefur Haraldi enn ekki tekizt að upplýsa, hverjir séu eigendurnir. Eyjan.is segir, að Róbert Wessman sé einn eigenda. Það passar við hrósgrein blaðsins um einkavæðingu sjúkrageirans. Hún segir líka, að Sigurður Einarsson, fyrrum ruglaður bankastjóri, sé annar eigandi.

Vinna ekki vinnu sína

Fjölmiðlun

Hlutverk fjölmiðla er að segja okkur staðreyndir, ekki bara hvað málsaðilar kalla staðreyndir. Fjölmiðlar eiga til dæmis að segja okkur, hversu margir taka þátt í útifundum. Blaðamenn eru ekkert of góðir til að telja. Slíkt er kennt í skólum þeirra erlendis. Ágætar reikningsaðferðir eru til. Hér fara blaðamenn hins vegar ekki upp af rassi sínum. Þeir hringja í lögguna, sem segir 2000 manns hafa mætt. Og í aðstandanda, sem segir 4000 manns hafa mætt. Notendur fjölmiðlanna eru auðvitað engu nær. Þetta er skýrt dæmi um, að blaðamenn eru hættir að nenna að vinna vinnu sína.

Slúðri slegið upp

Fjölmiðlun

Fréttablaðið segir í dag á forsíðu: “Atvinnurekendur svíkja út bæturnar”. Þetta er uppslátturinn. Þar er haft eftir formanni Framsýnar, Aðalsteini Á. Baldurssyni, að fyrirtæki sendi starfsfólk á atvinnuleysisbætur. Láti það svo vinna áfram á lækkuðu kaupi. Þannig hafi reglur um atvinnusköpun verið notaðar til að niðurgreiða launakostnað. Í allri fréttinni rekur hvorki formaðurinn né blaðið neitt einasta dæmi þess, að þetta hafi gerzt. Öll fréttin er samfellt slúður. Hvernig er hægt að segja “atvinnurekendur svíkja út bæturnar” án þess að nefna dæmi? Er búið að reka alla hæfa blaðamenn?

Veldu úr 560 bloggurum

Fjölmiðlun

Til að fá eitthvað af viti úr bloggi, þarftu að velja og hafna. Bezt er að halla sér bara að þeim, sem skrifa undir fullu nafni. Það er lítill hluti bloggara og eru nánast þeir einu, sem blogga skynsamlega. Á blogg.gattin.is geturðu fundið um 560 nafngreinda bloggara íslenzka. Þar sem um 200 þeirra blogga daglega, er þetta of langur listi. Farðu heldur í nafnalistann þar og hakaðu við þá, sem þú vilt lesa. Þannig hef ég valið 63 nafngreinda bloggara og get þannig lesið á einum stað allt blogg, sem ég tel máli skipta. Svo fer ég í lista nýrra bloggara, les þá og haka við, ef þeir virðast eiga erindi.

Endurbætt heimasíða

Fjölmiðlun

Vegna umferðarstöppu á blogginu mínu hefur það verið fært á hraðgengari og öflugri netþjón. Jafnframt hefur því verið örlítið breytt. Einkum er leitin betri en hún var, leitar nú eftir orðhlutum í rúmlega tíu þúsund greinum allt frá 1973. Hún leitar eftir tímabilum og raðar yngstu eða elztu greinum fremst. Aðgengilegra er að finna sérefni á borð við veitingarýni, erlendar ferðalýsingar, efni um fjölmiðlun og um hesta. Reiðleiðabankinn er inni og vonandi fer síðar inn aftur hrossaræktarbankinn, sem datt út fyrir tveimur árum. Það verður þá umfangsmesti hluti bankans og sá dýrasti í rekstri.

Heimsmet Egils Helgasonar

Fjölmiðlun

Tíu þúsund innlit á dag væru heimsmet mitt, miðað við fólksfjölda, ef Egill Helgason væri ekki enn hærri. Samkvæmt blogg.gattin.is er hann efstur íslenzkra bloggarra árið 2008 með 5,66% af veltunni. Ég er í öðru sæti með 4,98% veltunnar og Ármann Jakobsson er þriðji með 3,06%. Þetta geta víst talizt ofurbloggarar landsins, þótt þrír framsóknarmenn hafi fyrst fundið upp það hugtak til að tala hver um annan. Björn Bjarnason er númer 36 með 0,60% veltunnar og Össur Skarphéðinsson númer 91 með 0,25% veltunnar. Listi yfir hundrað hæstu bloggarana 2008 birtist á blogg.gattin.is í gær.

Óbærilega ólæsilegar

Fjölmiðlun

Fréttablaðið tók afgerandi forustu í þjónustu um helgina. Það kom út bæði laugardag og sunnudag meðan Mogginn var enn í fríi. Prentsmiðja Moggans var opnuð til að koma út fríblaði, okkur að kostnaðarlausu. En áskriftarblaðið svaf værum svefni. Þetta segir meira en nokkrar yfirlýsingar um ágæti mismunandi dagblaða. Fríblaðið hefur tekið við af áskriftarblaðinu, þjónar okkur betur. Þegar Fréttablaðið tekur upp ígildi minningargreina, hættir Kristín að kaupa dagblað, sem ég þarf ekki. Kaldhæðnislegt er, að Mogginn skuli enn skrimta dauflega í krafti óbærilega ólæsilegra minningargreina.

Haltu kjafti og vertu þæg

Fjölmiðlun

Góður var leiðari Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttablaðinu í dag. Ekki þessi meiningarlausa moðsuða hversdagsins. Prestar eru auðvitað “hyski” sem reynir að sefa réttláta reiði þjóðarinnar. Þeir tóna “haltu kjafti og vertu þæg”, eins og þeir séu spunakarlar stjórnvalda, embættismanna og víkinga. Auðvitað er líka rétt hjá Páli, að yfirvofandi áramótaávörp verða “lágkúra”, allt frá forsetanum og niður úr. Það hefur alltaf verið svo, þjóðin hefur bara alltaf talið lágkúru vera eðlilega. Og notalega. Enginn marktækur getur haft neitt á móti hreinum og beinum skoðunum Páls á innihaldslausri froðu.

Bíllinn fannst og síminn líka

Fjölmiðlun

Jón Kristinn Cortez fann stolinn bíl sinn aftur með hjálp veraldarvefsins. Þar eru margir boðnir og búnir að hjálpa öðrum, þegar löggan má ekki vera að. Vefurinn er mikilvægt tæki til samhjálpar framhjá yfirvöldum. Frægasta dæmið er Ivanna í New York, sem náði stolna farsímanum sínum með hjálp netverja. Lögreglan þvældist fyrir og raunar kerfið allt, en Ivanna fékk símann. Clay Shirky lýsir þessu í bókinni Here Comes Everybody. Kenning hans er, að veraldarvefurinn gefi fólki færi á að mynda félagstengsl á áður óþekktan hátt í nútímanum. Miðaldaþorpið hafi verið endurvakið á vefnum.

Aðspurður ritskoðari

Fjölmiðlun

Aðspurður sagði ég blaðamanni Vísis.is í dag, að ég myndi ekki, hvort ég hefði ritskoðað tiltekna frétt. Ég ritskoðaði svo margt í gamla daga. Samt var aldrei nóg að gert. Um það mætti skrifa heila bók. Mér skildist, að fréttin snerist um, að allt annar fjölmiðill lægi á upplýsingum án þess að birta! Ég kom auðvitað af fjöllum. Gleymdi að vísa blaðamanninum á ritstjóra fjölmiðilsins, sem sagður var liggja á upplýsingum. Gleymdi líka að vísa á Moggaritstjórann, sem er sérfræðingur í geymdum fréttum í skúffum. Kannski vinnur blaðamaður Vísis.is samt vinnuna sína án þess að segja upp starfi.

Spegillinn og Spaugstofan

Fjölmiðlun

Þegar ég byrjaði í blaðamennsku fyrir hálfri öld, voru fjölmiðlarnir lélegir fréttamiðlar. Svo veruleikafirrtir, að fólk varð að lesa Spegilinn til að finna raunverulegar fréttir. Nú eru fjölmiðlar aftur orðnir eins lélegir fréttamiðlar og þeir voru fyrir hálfri öld. Svo veruleikafirrtir, að fólk verður að horfa á Spaugstofuna til að finna raunverulegar fréttir. Góður er sá tími, þegar við þurfum hvorki Spegilinn né Spaugstofuna.