Fjölmiðlun

Spuni utan veruleikans

Fjölmiðlun

Spunakarlinn Björn Richard Johansen frá Noregi minnir á spunakarla Nató, sem hafðir eru í flimtingum meðal blaðamanna. Þessi tegund spunakarla tekur ekkert tillit til veruleikans í spuna sínum. Hann hentar því vel í hruninu. Hernaðarleg uppsetning á dagskrám ráðherra er tilbreytni í hversdagsleika hrunsins. Gaman er að sjá, að vernda þarf forstjóra Fjármálaeftirlitsins fyrir blaðamönnum. Enn skemmtilegra er að sjá dagskipun til forsætis að tala ekki við sjónvarp þann daginn. Og að gera innlendum og erlendum blaðamönnum erfitt fyrir í starfi. Spunakarlinn er sannarlega við hæfi stjórnarinnar.

Vefurinn er kóngurinn

Fjölmiðlun

Thomas Jefferson varð forseti Bandaríkjanna á vængjum dagblaðanna. Franklin Delano Roosevelt varð forseti á vængjum útvarpsins. John Fitzgerald Kennedy varð forseti á vængjum sjónvarpsins. Barack Obama varð forseti á vængjum vefsins. Þessir fjórir frægustu forsetar Bandaríkjanna urðu allir forsetar út á nýjung í fjölmiðlum. Þeir kunnu betur en hinir að nota hver sína nýjung. Obama notaði nýju persónumiðlana til að ná til fólks, FaceBook, Twitter, YouTube, MySpace o.s.frv. Hann fékk milljónir manna til að borga fé í baráttuna, fékk næga sjálfboðaliða. Sjónvarpið er ekki lengur kóngurinn.

Drottningarviðtal Markaðarins

Fjölmiðlun

Drottningarviðtal Markaðarins við Sigurð Einarsson bankastjóra vakti fleiri spurningar en það svaraði. Sigurður er einn skúrkanna, sem kennir eftirliti um að slá ekki á fingur sér. Ef fjármálaeftirlitið hefði bannað IceSave, hefði IceSave ekki orðið til! Engin efi er í huga Sigurðar um, að það sé ekki honum sjálfum að kenna. Erfitt er að taka mark á svo firrtum manni í öðrum málum. Til dæmis þeirri fullyrðingu hans, að Davíð Oddsson hafi hatað bankann og viljað hann feigan. Nóg hefur Davíð gert af sér, en samt ekki þetta. Drottningarviðtal Binga spunakarls við krimmann var einskis virði.

Firrtar sjónvarpsfréttir

Fjölmiðlun

Veruleikafirrtar fréttir Sjónvarpsins og einkum Stöðvar 2 af mótmælafundi í gær sýna eymd íslenzkra fjölmiðla. Hliðvarzla fjölmiðlanna virkar þó ekki, því að girðingin umhverfis sannleikann er víðs vegar slitin. Internetið hefur tekið við af fjölmiðlunum sem álitsafl heimsins. Og er í þann veginn að taka við sem fréttaaflið. Sú breyting tekur nokkur ár. En ljósvaki, sem enginn treystir, flýtir fyrir þróuninni. Þétt blogg og myndskeið af andófinu birtust milli fundar og sjónvarpsfréttatíma. Þegar ritskoðað rugl birtist svo í ljósvaka um kvöldmatarleytið, lýsti það aumum stöðvum betur en andófi.

Hinir sönnu saurgarar

Fjölmiðlun

Þegar fjölmiðill fyrir fávita ræðir “saurgun” Alþingis, skulum við átta okkur á, hver saurgar hvern. Í fyrsta lagi er ekki hægt að saurga Alþingi, því að það er handónýt stofnun atkvæðavéla. Þar skiptast menn í lið og gera eins og þeim er sagt. Alþingi er fullfært um að saurga sig sjálft. Í öðru lagi munum við fjölmiðlana. Því meira sem kreppan eykst, því betur sjáum við ábyrgð fjölmiðla á henni. Þeir voru klapplið útrásarinnar. Elskuðu skúrkinn Davíð umfram alla aðra. Og voru aldrei með á nótunum í framvindu kreppunnar allt frá hausti 2007. Saurgarar nútímans eru einmitt Alþingi og fjölmiðlar.

Stöð 2 er næstum dauð

Fjölmiðlun

Stöð 2 fer á hausinn. Enginn mannlegur máttur getur hindrað það. Enda á stöðin ekkert erindi. Fréttir hennar eru óþarfar, hlægilegar eða skaðlegar. Fjölmiðill, er ekki færir okkur fréttir, sem við þurfum að fá, er einskis virði. Og fjölmiðill, sem lýgur að okkur, má deyja drottni sínum. Enda eru sjónvarpsfréttar auðmanna og spunakarla úreltar. Fólk fær fréttir í óháðu bloggi og myndskeið af andófi fær það á YouTube. Hliðvarzla hefðbundinna fjölmiðla byggðist á trausti fólks á hæfu fólki. Þegar traustið þverr, þurfa kúnnarnir ekki neina hliðvörzlu. Alþýðan tekur þá bara fréttavöldin sjálf.

Lögregluóeirðir gærdagsins

Fjölmiðlun

Fréttablaðið er töluvert betri fréttamiðill en Stöð 2. Sérstaklega var fín forsíðumynd blaðsins í dag af lögregluóeirðum gærdagsins. Þar eru gargandi löggur í aðalhlutverki með gasmanninn góðkunna í miðju hópsins. Ég minntist mynda af óeirðum lögreglunnar í vörubílstjóra-mótmælunum. Þar var góðkunni gasmaðurinn einnig áberandi. Ég hugsaði sem svo, að nú má Geir Jón fara að passa aulana sína. Er þeir fara að slasa aldraðar konur í andófi, mun reiði þjóðarinnar beinast mest að löggunni. Sem valdbeitingarhundi glæpalýðsins.

Þunnur blaðamannafundur

Fjölmiðlun

Geir Haarde sagði fátt í löngu máli á blaðamannafundinum. Eins og nokkrum sinnum áður. Hver trúir honum? Ekki hafa fyrri yfirlýsingar hans staðizt. Björgvin Sigurðsson lofaði öllu fögru á fundinum. Eins og nokkrum sinnum áður. Hver trúir honum? Ekki hafa fyrri loforð hans verið efnd. Blaðamenn fundarins voru lélegir. Gátu ekki einu sinni ungað út spurningu um, hvað Holland og Bretland séu að gera í norræna lánapakkanum. Hlægilegir voru fyrirlestrar Björgvins um nýju bankaráðsmennina. Þeir reyndust flestir vera minni háttar gæludýr pólitískra flokka. Þeir afla bönkunum einskis trausts.

Spunakarl útrásarvíkinga

Fjölmiðlun

Útrásarvíkingar eiga málsvara í Markaðnum, vikulegum sjónvarpsþætti Björns Inga Hrafnssonar. Þar koma þeir vikulega í huggulegt spjall, ólíkt því sem Jón Ásgeir lenti í hjá Agli. Hannes Smárason yljaði þjóðinni undir uggum um daginn. Næst sparkar Sigurður Einarsson bankastjóri í ykkur. Björn Ingi hefur lengi verið virkasti spunakarl útrásarinnar. Hann stóð fyrir næstumþví yfirtöku Hannesar Smárasonar á mannauði Orkuveitunnar, þegar hann var þar í pólitík. Um leið reynir hann að ná Framsókn af Guðna Ágústssyni. Skemmtilegt verður upplitið á gömlu Framsókn, er spunakarlinn hefur tekið þar öll völd.

Bannorð í blaðamennsku

Fjölmiðlun

Tvær fagvillur sá ég í blaðamennsku í gær. Að venju nennti Vísir.is ekki að telja andófsfólk í kröfugöngu og á útifundi. Vitnaði í tölu frá löggunni, þótt hún hafi ætíð áður reynzt lélegt vitni á þessu sviði. Fjölmiðill þarf að gæta sín á lélegum vitnum. Útvarpið braut aðra fagreglu og sagði: “Talið er að um þúsund manns séu nú á mótmælafundi á Austurvelli.” Hver er heimild útvarpsins? Fjölmiðill getur ekki skotið sér bakvið nafnlausa heimild með svona orðalagi. Verður annað hvort að telja sjálfur eða trúa einhverjum aðila, sem er nafngreindur. Orðalagið “talið er” er bannað í blaðamennsku.

Leynispuni skaðar fjölmiðla

Fjölmiðlun

Óformlegt bandalag er milli stjórnvalda og helztu fjölmiðla landsins, nema DV og Stöðvar 2. Ritstjórar Fréttablaðsins, Morgunblaðsins og útvarpsstjóri mæta í Ráðherrabústaðnum. Gestgjafar eru Geir Haarde og helztu spunakarlar stjórnarinnar, Markmiðið er að meta, hvað segja megi fólki um hrunið og hvað ekki. Geir vill, að fjölmiðlarnir dreifi þekktum spuna hans án þess að hann eða hans menn séu bornir fyrir honum. Þetta er þekkt spilling erlendis, en hefur ekki verið stunduð hér um áratuga skeið. Erlendis eru ritstjórar sammála um, að svona vinnubrögð dragi úr trausti á fjölmiðlum.

Syndaregistur pólitíkusa

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar geta betur en áður elt uppi orð pólitíkusa og gert þá hlægilega. Textaleitarvélar finna viðkvæm orð og samhengi þeirra. Þannig hefur DV birt langa skrá yfir lygar Geirs Haarde síðasta mánuðinn. Og langa skrá yfir hálfkæring og smjörklípur Davíðs Oddssonar á þessu ári. Listarnir sýna, að Geir er lygnasti forsætisráðherra Vesturlanda um þessar mundir. Sýna líka, að Davíð er einstæður í röð seðlabankastjóra Vesturlanda. Enginn er eins viðskotaillur og orðljótur og hann. Enda kallast hann gereyðingarvopn í erlendum samskiptum. Brýnt er að fjölmiðlar standi þessa eftirlitsvakt.

Frjáls og óháð gátt

Fjölmiðlun

Munurinn á Blogg.gattin.is og öðrum gáttum er, að hún er opin og henni er ekki ritstýrt. Mbl.is, Visir.is og Eyjan.is eru stýrðar og lokaðar gáttir. Þú notar Blogggáttina, ef þú vilt sjá alla nafngreinda bloggara á einum stað. Ef þú vilt bara sjá tuttugu eða sextíu handvalda bloggara, ferðu líka á Blogggáttina og krossar við nöfn þeirra. Á hinum slóðunum getur þú þetta ekki. Því tel ég, að meiri framtíð sé í Blogggáttinni en öðrum gáttum. Enda er svo komið, að meirihluti markverðra bloggara er utan við samanlagðar gáttir mbl.is, visir.is og eyjan.is. Allir markverðir eru í Blogggáttinni.

Hossa stjörnuspámönnum

Fjölmiðlun

Blaðamenn hafa ekki áttað sig á fréttum mánaðarins. Þeir halda áfram að birta gáfulegar stjörnuspár greiningardeildar Glitnis. Árum saman héldu þeir, að greiningardeildir bankanna væru hús Guðs. Nú hefur annað komið í ljós. Greiningardeildirnar voru bara spunakarlastofur útrásarinnar. Héldu uppi feiknarlegri bjartsýni á, að blaðran mundi halda áfram að stækka. Greiningardeildirnar héldu úti linnlausu þvaðri til að tryggja svefn þjóðarinnar á síðustu metrunum. Það er dónaskapur við notendur fjölmiðla að halda áfram að bera út þvaður stjörnuspámanna Glitnis og annarra banka.

Matarverð Önnu Bjarnason

Fjölmiðlun

Fyrir nákvæmlega þrjátíu árum áraði illa í samfélaginu eins og núna. Frá 13. júní 1978 birtum við daglega á Dagblaðinu kostnað við uppskriftir á neytendasíðunni. Anna Bjarnason stjórnaði því. Birtum sundurliðaðan kostnað á mann við hverja uppskrift, slepptum engu, ekki einu sinni kryddkostnaði. Á þáverandi verðlagi kostaði kvöldmatur fyrir einn frá 150 krónum upp í 700 krónur. Það var meira en fjórfaldur munur. Ekki var hægt að segja, að dýri maturinn væri betri eða hollari en ódýri maturinn. Nú er kominn tími til, að fjölmiðill taki þráðinn upp aftur. Og hjálpi fólki að lifa af hrunið.