Fjölmiðlun

Bjöggi og Moggi

Fjölmiðlun

“Reksturinn getur aldrei staðið undir þessu,” segir Björgólfur Guðmundsson um hremmingar Moggans í hruninu. Í keisaraviðtali afkastamesta spunakarls landsins, Agnesar Bragadóttur. Þótt Björgólfur Guðmundsson hætti að gefa út Moggann, verður blaðið áfram til. Enn um sinn munu einhverjir telja sig hafa ráð á að reyna að stýra skoðunum fólks. Björgólfur var einn af þeim, eini auðmaðurinn, sem stundaði beina ritskoðun. Hjá bókaforlaginu Eddu. Því verður frábært að losna við Björgólf úr íslenzkri fjölmiðlun. Keisaraviðtal Moggans í dag er skólabókardæmi um misnotkun auðmanna á fjölmiðlum.

Ófaglegir fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Lögreglan gefur alltaf upp rangar tölur um fjölda andófsfólks á fundum. Íslenzkir fjölmiðlar gleypa þær hráar eins og aðrar tilkynningar löggunnar. Í Bandaríkjunum er þessu þveröfugt farið. Þar trúir enginn löggunni. Blaðamenn telja sjálfir og hafa til þess ýmsar aðferðir. Sumir reikna flatarmál svæðis og fjölda fólks á hverri flatareiningu. Aðrir telja eftir ljósmyndum. Þetta er kennt í blaðamannaskólum. Getuleysi fjölmiðlanna hefur aukizt upp á síðkastið. Undarlegt orðalag löggunnar kemur beint fram í texta og tali fjölmiðla. Efni eru “haldlögð” og löggan notaði “varnarúða”.

Endurgreiðsla eða fallöxin

Fjölmiðlun

Álitsgjafar eru varfærnir hér. Hafa ekki neinar tillögur um, hvað eigi að gera við Bjöggana og fleiri útrásarvíkinga. Ef þeir láta þá einhvern tíma sjá sig. Íslenzkir álitsgjafar vilja ekki vera sakaðir um að siga lýðnum á fyrrverandi gæludýr þjóðarinnar. Bandarískir álitsgjafar eru ekki svona varfærnir. Maureen Dowd er einn allra þekktasti álitsgjafi New York Times. Hún lýsir veizluhöldum yfirmanna Lehman Brothers í miðju hruninu. Talar um fallöxi og segist vera að brýna prjónana sína. Hún segir umbúðalaust eins og íslenzkir bloggarar, að glæponar skuli kúgaðir til að endurgreiða þýfið.

Hamfarir raska ró minni

Fjölmiðlun

Hamfarir þriggja vikna hafa ruglað vinnuplanið hjá mér. Ég ætlaði að ganga frá fyrirlestraröð í fjölmiðlun. Þeirri tíundu í röðinni. Áður var ég með raðir um Blaðamennsku, Fréttir, Rannsóknir, Textastíl, Ritstjórn, Nýmiðlun, Framtíð, Forsögu og Umræður. Nýja röðin fjallar einfaldlega um árið 2008 í alþjóðlegri fjölmiðlun. 25 fyrirlestrar um Wiki og Google, Twitter og eBay, FaceBook og MySpace, Flickr og YouTube, Linux og InnoCentive. Um sjónvarp,
prentmiðla og blogg. Um þetta hafa nýlega birzt merkar bækur og greinar í fjölmiðlum. Þetta hefur orðið að bíða í hamförunum, en fer nú aftur í gang.

Voru þeir ekki reknir?

Fjölmiðlun

Ég hélt, að greiningadeildir bankanna hefðu verið reknar. Svo er víst ekki. Greiningadeild Glitnis hefur gefið út nýtt álit á búskap þjóðarinnar. Hver bað um það? Hver hefur áhuga á greiningum Glitnis? Stjóri greiningadeildar Kaupþings er á mörgum síðum í Fréttablaðinu. Var ekki búið að leggja hann niður með hundruðum annarra bankamanna? Við þurfum enn að hlusta á gamla sargið í spunakörlum útrásar og alheimsbanka. Mér var fyrirmunað að skilja grúppíur fjölmiðlanna, sérstaklega markaðs- og viðskiptasíðna. Mér er enn fyrirmunað að skilja, að fjölmiðlar skuli enn draga fífl til álitsgjafar.

Björgvin og aumingjaþjóðin

Fjölmiðlun

Björgvin Valur Guðmundsson hefur fundið hinn raunverulega syndasel hruns íslenzkra fjármála. Það er Íslendingurinn, þrælahyski fram í fingurgóma. Enginn gerir sér ferð niður í bæ til að gera hróp að ráðalausum forsætis. Sem segir eitt núna og annað eftir klukkustund. Enginn alvöru Íslendingur þorir að vera stimplaður andófsmaður, terroristi. Enginn blaðamaður spyr spurninga á borð við þann norska. Sem lét Má Másson í Glitni verða sér til skammar. Hvaða blaðamenn negla bankastjóra græðgisbankanna og forstjóra fjármálaeftirlitsins? Er Egill Helgason ekki bara eini blaðamaður landsins?

Misjafnt talað og textað

Fjölmiðlun

Samanburður á tölfræði leiðir ýmsan mun í ljós. Skoðum gemsana. Finnar tala helmingi meira en Svíar og Norðmenn texta fjórum sinnum meira en Svíar. Bara einum af hverjum fimm Dönum finnst í lagi að hafa gemsann í sambandi í boðum, en fjórum af hverjum fimm Svíum finnst það í lagi. Þrír af hverjum fjórum Dönum finnst í lagi að gefa upp gemsanúmerið sitt, en aðeins tveimur af hverjum fjórum Svíum og Finnum finnst það í lagi. Engar upplýsingar hef ég séð sambærilegar um Ísland. Í Suður-Afríku hringja bændur í mjólkurbúið og leggja á eftir eitt píp. Pípið þýðir, að nú má sækja mjólk. Sparar fé.

Banka- og blaðamenn ábyrgir

Fjölmiðlun

Pétur Blöndal alþingismaður segir álitamál, hvort ekki megi draga bankamenn og fasteigansala til ábyrgðar. Þá, sem hafi hvatt fólk til að taka áhættu, til dæmis með erlendri lántöku við íbúðakaup. Samkvæmt Fréttablaðinu í dag. Þetta er það, sem ég hef verið að segja undanfarið. Fólk ber að vísu ábyrgð á eigin gerðum. En samábyrgir eru þeir, sem blekktu fólkið. Og kerfin að baki þeim, einkum bankar. En það eru fleiri samábyrgir. Svo sem blaðamenn, sem enn taka drottningarviðtöl við greiningarstjóra og aðra lánasölumenn bankanna. Fjölmiðlar voru og eru þáttur í blekkingaleik græðgisbankanna.

Efasemdir um sannreynslu

Fjölmiðlun

Munur er á staðreyndum og skoðunum. Ef bloggari gefur út ranga frétt af myndbirtingu í dagblaði, er það lygi. Staðreyndir geta ekki verið lygi. Ef lygi er birt sem staðreynd, þarf að leiðrétta. Hliðverðir fjölmiðla reyna að gæta þess að fréttir séu ekki lygi, bara staðreyndir. Sumir bloggarar gæta þess því miður ekki eins vel. Skoðanir eru annars eðlis, verða ekki leiðréttar, eru persónulegar. Ef ég vitna ORÐRÉTT í bloggara og segi, að vont sé, að hann vilji ekki sannreyna, geturðu lesið rökin. Ef þau eru góð, máttu trúa því, ef þú vilt. Ef rökin eru léleg, hafnarðu bara skoðuninni. Einfalt.

Blogg og blaðamennska

Fjölmiðlun

Rétt er hjá Andrési Jónssyni, andres.eyjan.is, að meðferð staðreynda er önnur í bloggi en blaðamennsku. Atvinnumenn í fjölmiðlum reyna að hafa staðreyndir réttar fyrir birtingu. Það er ljósi punkturinn í hliðvörzlu blaðamanna. Stafar af, að svertan frýs og myndin fer. Í bloggi hneigjast amatörar hins vegar til að sía upplýsingar eftir birtingu. Það er í eðli bloggs. Leiðréttingar við blogg koma þá fljótt fram á sama vefsvæði, ef vel er að verki staðið. Auðvitað reyna bloggarar að láta þetta ekki koma fyrir. Bloggarar verða eins og fagmenn að læra að birta ekki óstaðfestan orðróm.

Svansson segist ómarktækur

Fjölmiðlun

Menn eiga ekki að blogga um það, sem þeir eru að hugsa. Ekki einu sinni Guðmundur Rúnar Svansson. Hann fór með rangt mál í gær. Afsakar sig með, að hann geti ekki fallizt á neitt athugavert við, að hann bloggi um það, sem hann sé að hugsa. “Bloggarar eru ekki blaðamenn, og svolítið sérstakt að gera factcheck kröfu á þá.” Í ljósi þessa skil ég betur, hvað ég hef oft verið hissa á illa grunduðum skrifum Vilhjálms. Hann telur bara ekki skyldu sína að fara með rétt mál. Honum finnst “svolítið sérstakt” að gera slíka kröfu til sín. Hann telur bara, að ekki beri að taka mark á sér. Ömurlegt.

Egill þýðir Þorstein

Fjölmiðlun

Las leiðara Þorsteins Pálssonar um Davíð Oddsson. Þar var einkum talað undir rós, stundum torskilið fyrir einfeldning eins og mig. Fannst textinn einkum merkur fyrir þá sök, að fyrrverandi formaður talaði til fyrrverandi formanns. En ekki fyrir innihaldið, sem margir hafa áður sagt ágætlega. Tek hins vegar eftir, að margir lofa ritið í blogginu. Ekki þó Egill Helgason. Hann tók sig til í morgun og þýddi leiðarann á íslenzku. Þá skildi ég loks almennilega, hvað Þorsteinn hafði verið að segja. Mér fannst raunar knappur stíllinn mun betri hjá Agli (eyjan.is/silfuregils). Hver hefur sinn smekk.

Sérfræðingaveldi á undanhaldi

Fjölmiðlun

Bloggvinur grínaðist um, að ég vissi ekki, að krossgötur væru í fleirtölu. Fíflið ég hafði sagt þrjár í staðinn fyrir þrennar. Á ég þó reynslunnar vegna að teljast sérfræðingur í texta. Bloggari fann annan höfund vísu, sem sérfræðingar eignuðu Halldóri Laxness. Bloggið hrekur þannig sérfræðinga á undanhald. Samanlögð vizka múgsins er meiri en lærð þekking sérfræðinga, fagmanna. Dæmi um þetta eru blaðamenn. Langt er síðan skoðanir hættu að vera sérfræði og urðu almannaeign. Nú eru sjálfar fréttirnar smám saman að verða blogg. Þær eru líka orðnar ókeypis eins og skoðanirnar. Úrelt stétt?

Fjölmiðlar bera ábyrgð

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð á, hvernig komið er fyrir fólki. Þeir hafa árum saman básúnað vizku greiningarstjóra og ráðgjafa hjá bönkunum. Ég man eftir bankastrák og bankastelpu á biðstofunni á Ríkissjónvarpinu, þegar það var efst á Laugavegi. Komu þar á hverju kvöldi til að segja fólki, hvaða pappíra það ætti að kaupa og selja. Ráðgafar hafa sagt fólki, sem fær kaup í krónum, að taka lán í gjaldeyri. Vegna stuðnings fjölmiðla hefur fólk trúað fíflum og föntum. Enn þann dag í dag koma greiningarstjórar banka í fjölmiðla og bulla. Fjölmiðlar eiga að forðast slíka eins og heitan eldinn.

Góður og uppbyggjandi Össur

Fjölmiðlun

“Hún verður skemmri og hún verður grynnri en Íslendingar halda.” Sagði Össur Skarphéðinsson í Kastljósi í gær um kreppuna. Áður sagði hann skoðun þessa ekki stafa af bjartsýni. Skoðanir hans eru ekki tíu aura virði. En mikils virði væri að heyra rök hans fyrir skoðuninni. Okkar og hans vegna. En Jóhanna Vilhjálmsdóttir spyrill sagði bara: “Það er ofboðslega gott og uppbyggjandi að heyra þessi orð.” Síðan leit hún niður og fór í næstu spurningu á listanum. Ömurleg frammistaða. Fælir mig alveg frá Kastljósi. Enn eitt dæmið um sjónvarpssauð, sem dylst undir feldi fréttaúlfs.