Fjölmiðlun

Hallgrímur verndar Egil

Fjölmiðlun

Samkvæmt Einari Ben. Þorsteinssyni, bloggara á Eyjunni, sætir hann ritskoðun Hallgríms Thorsteinsson ritstjóra. Hefur sá að sögn Einars tvisvar kvartað yfir gagnrýni á Egil Helgason, annan bloggara Eyjunnar. Samkvæmt Einari á Hallgrímur að hafa bent á, að Egill væri gullkálfur Eyjunnar. Ætti hann því að fá að vera í friði. Einar sagðist auðvitað ekki taka neitt mark á þessu og mundi halda áfram að gagnrýna Egil, ef sér sýndist. Ég held, að Egill verði að hringja í Hallgrím og biðja hann um að róa sig niður. Kúnstin við að vera ritstjóri er að hafa engin völd. Hallgrímur þarf að læra það.

Nafnleysi hremmir Kára

Fjölmiðlun

Vísir.is birti í dag frétt um ofbeldismann, sem dæmdur var í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Með henni var fyrst mynd af Kára Stefánssyni, forstjóra deCode. Það var tilefni bloggs um, að Kári væri að lemja fólk, brjóta hurðir, keyra undir áhrifum fíkniefna og sveifla kylfum. Myndin var röng, en skaði var skeður. Hann hefði verið minni, ef fréttin hefði sagt, að hinn dæmdi heitir ekki Kári, heldur Gauti Þór Gíslason. Það er einmitt galli á nafnleysi í fréttum, að svigrúm skapast til að hafa menn fyrir rangri sök. Fjölmiðlar eiga að nefna þá, sem fréttir snúast um. Þá er ekkert slúður.

Nýir fréttastjórar góðir

Fjölmiðlun

Ég lofaði í gær fréttastjóraskipti gærdagsins og bæti hér um betur. Fréttir gufunnar eru virtustu fréttir landsins. Með Óðni má reikna með, að traust yfirfærist á sjónvarpið, sem stundum er kallað bláskjár. Mikilvægt er, að fréttir ríkisins séu óumdeildar. Óskar hefur komið víða við á 365-miðlum og alls staðar fengið lof. Fyrirrennari hans var spunakarl í persónuþjarki við suma starfsmenn. Ég hef áður sagt, að spuni eigi ekki heima í fjölmiðlum. Milli spuna og frétta er risamúr milli lygi og sannleika. Ríkisútvarpið og 365-miðlar styrkja stöðu sína með nýjum mannaforráðum í fréttamennsku.

Stefnubreytingar fjölmiðla

Fjölmiðlun

Fyrir nokkrum misserum töldu yfirmenn fjölmiðla, að þeir þyrftu að sýna valdaaðilum ræktarsemi. Skipaðir voru fréttastjórar og markaðsritstjórar eftir þeirri línu. Jafnvel voru spunakarlar á sjó dregnir, svo og uppgjafa pólitíkusar. Nú er komið í ljós, að hlutverk fjölmiðla er ekki að biðja um gott veður hjá valdaaðilum. Þeir þurfa hins vegar að biðja um gott veður hjá almenningi, notendum fjölmiðla. Þess vegna hófust í gær til valda menn, sem hugsa meira um fólkið en valdamennina. Fjölmiðlar leiðréttu kúrsinn, reynslunni ríkari. Fjölmiðlun er utangarðsstarf, sem hentar ekki poturum.

Fréttamennskan sigraði

Fjölmiðlun

Óðinn Jónsson er orðinn fréttastjóri sameinaðrar fréttastofu fjölmiðla Ríkisútvarpsins. Óskar Hrafn Þorvaldsson varð fréttastjóri sameinaðrar fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis.is. Hann var áður fréttastjóri og ritstjóri á DV og ritstjóri á Vísi.is. Mætir menn hafa orðið fyrir vali á báðum stöðum. Ég þekki Óðin bara af umsögnum annarra. En með Óskari hef ég unnið og þekki hann að feikilegum dugnaði og sannri hugsun blaðamanns. Hún er gulls ígildi á tímum spunakarla og afstæðs mats á sannleikanum. Eðlileg fréttasjónarmið hafa sem betur fer orðið ofan á hjá 365 miðlum.

Samanburður á skaðabótum

Fjölmiðlun

DV var með fínan samanburð í gær. Ef þú segir “Maggi glæpur”, kostar það sama og að nauðga konu með grimmdarlegum barsmíðum, 1.500.000 krónur. Ef þú segir “Bubbi fallinn”, kostar það tvo þriðju af hópnauðgun, 700.000 krónur. Ef þú segir “Þóra blönk”, kostar það sama og kynferðisbrot gegn þrettán ára barni, 500.000 krónur. Þetta er ríkið, sem Kafka lýsti í Réttarhöldunum. Við búum í samfélagi, þar sem sannleikurinn er jafn dýr og versta ofbeldi. Við þykjumst vera lýðræðisríki. Höfum samt fjölmiðlakennara á Akureyri, sem segir, að oft megi satt kyrrt liggja. Í ríki hræsni og yfirdreps og lyga.

Atgervisflótti frá 365

Fjölmiðlun

365 miðlar hafa snöggt glatað tveimur af sínum beztu mönnum. Fyrst Björgvin Guðmundssyni og síðan Þóri Guðmundssyni. Þórir er orðinn stjóri hjá Rauða krossinum. Björgvin flúði á Moggann, er spunakarlinn og orkuspillingar-gaurinn Björn Ingi Hrafnsson var gerður að ritstjóra Markaðarins. Um svipað leyti var annar spunakarl gerður að yfirmanni hjá 365, Steingrímur Sævarr Ólafsson. Ari Edwald útgáfustjóri telur spunakarla vera ekki bara jafnoka blaðamanna, heldur þeim fremri. Slík skoðun á fjölmiðlun kann ekki góðri lukku að stýra. Breytingar ársins fela í sér atgervisflótta frá 365 miðlum.

Meckl trúir á helgar kýr

Fjölmiðlun

Gott hjá Agli Helgasyni að koma upp um fjölmiðlafræðinginn Markus Meckl. Sem kennir fjölmiðlafræði á Akureyri og mælir gegn grundvallarfosendu fjölmiðlunar. Hún er, að helgar kýr skuli ekki vera til. Meckl vill hins vegar hafa helgar kýr. Hans helga kýr er íslam. Að fjölmiðlar megi ekki gera grín að íslam í teiknimyndum, samanber Jyllandsposten. Það er einmitt brýnt að gera grín að íslam. Sem er karlrembutrú, nánast eins og sum róttæk kristni. Íslam hefur flutt skaðlegt ofbeldi inn í heim Vesturlanda. Og gera þarf stólpagrín að öllum tegundum safnaða. Enginn söfnuður er heilög kýr.

Æsandi Stefán Friðrik

Fjölmiðlun

Skil ekki, hversu margir fara á taugum út af fréttabloggi Stefáns Friðriks Stefánssonar. Sérstaklega tala andstæðingar hans um, að hann endurskrifi eða klippi og lími fréttir. Mér sýnist Stefán vilja vera fjölmiðill, sem segi fréttir og tjái sig um þær í leiðinni. Ef einhver er sammála honum, er þægilegt fyrir hann að lesa bloggið. Þá þarf hann ekki að lesa sjálfar fréttirnar. Hann fær allt á einum stað hjá Stefáni. Þeir, sem eru ósammála honum, geta hafnað honum sem fjölmiðli með því að hunza vefsvæðið. Svo er hann bara mbl.is, mælist ekki hátt í lestri á afrétti hjá blogg.gattin.is.

Skáld eða skjólstæðingur?

Fjölmiðlun

Dagbækur Matthíasar breyttu söguskoðun fólks. Vinstri menn hættu að tala um Moggann sem hinn sanna fjölmiðil. Sem hinn ábyrga fjölmiðil. Sem sjálfa sagnfræðina. Vilja núna halda leyndu, að þeir þágu að koma í hádegissnittur hjá Matthíasi og Styrmi. Til að skiptast á lygasögum og slúðri. Til að þykjast hafa lesið ljóðin. Mogginn er afhjúpaður sem sjúk valdastofnun í gervi fjölmiðils. Byggð á því sjálfhverfa slúðri, sem sjá má í dagbókunum. Í framhaldi geta menn velt fyrir sér yrkingum Matthíasar í skjóli Moggans. Var hann skáld eða bara einn af skjólstæðingum Morgunblaðsveldisins?

Sjötíuogníu bréf hurfu

Fjölmiðlun

Fyrir sex mánuðum svaraði ég flestum tölvupósti. Þá voru leifar tímans, þegar ég gat sent tölvupóst til að biðja fólk að svara í símann. Þá var tölvupóstur enn svo nýr, að honum var svarað. Síðan fyrir sex mánuðum hefur sigið á ógæfuhliðina hjá mér. Ósvaraður tölvupóstur hefur hlaðizt upp. 79 bréf. Ég ætlaði að ráðast á bunkann í morgun. Þá komst ég að raun um, að ég yrði að hugleiða svör, gefa mér tíma í þau. Ég sá fyrir mér viku vinnu við að ná upp sex mánaða vanrækslu. Mér sortnaði fyrir augum. Ákvað að leysa málið billega með því að eyða öllum ósvöruðum pósti. “Eyða” var lausnin.

Lucas orðheppnari en ég

Fjölmiðlun

“Rússland er olíukeyrt þjófræði. Stjórnað af föntum úr leyniþjónustunni og vinum þeirra.” Þetta er ekki mitt orðalag, heldur Edward Lucas í Guardian í morgun. Stundum er sagt, að ég ofkeyri orðalag. Hef þó aldrei komizt eins hnitmiðað að orði og þessi texti gerir. Sannleikurinn er oft róttækari en svo, að kurteis orð nái yfir hann. Sumir segja til dæmis, að farið sé á svig við sannleikann, þegar hreint og beint er logið. Hví má ekki kalla lygina lygi? Af hverju þarf að klæða orðalag í svæfandi voðir? Til þess að raska ekki ró. Ég sé enga ástæðu til að varðveita linnulausan svefn fólks.

Myllusteinn Fréttablaðsins

Fjölmiðlun

Lykillinn að velgengni Fréttablaðsins er útburður í hús. Blaðið kemst því ekki nær fólki með því að hætta útburði utan höfuðborgarsvæðisins. Slíkt er augljóst og skaðlegt undanhald, mislukkuð sparnaðartilraun. Fréttablaðið þarf ekki að spara af því, að rekstur þess sjálfs sé svo erfiður. Raunar er blaðið frábær seðlaprentvél. Hins vegar þarf það að standa undir tapi af ævintýrum í útvarpi og einkum í sjónvarpi. Og standa undir fjölmennri yfirstjórn, sem fylgir slíkum rekstri. Fréttablaðið ber mestan kostnaðinn. Vandinn er því sá, að ljósvakinn er myllusteinn um háls Fréttablaðsins.

Brosti eins og fáviti

Fjölmiðlun

Átakanlegt var að sjá viðtal Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur við Geir Haarde í sjónvarpinu í gær. Hún spurði hann út í fullyrðingar stjórnarandstöðunnar um, að þingmálum hafi ekki verið þokað fram í sumar. “Þeir hafa þá ekki fylgzt með”, sagði ráðherrann aðeins og brosti eins og fáviti. Hún fylgdi spurningunni ekki eftir. Spurði hann einskis frekar. Bað ekki um neitt dæmi. Geir hafði nýreist hausinn upp úr sandi og gat stungið honum beint í sandinn aftur. Til hvers er svona viðtal? Á ríkissjónvarpinu er Geir talinn goðumlíkur. Þar má hann gera grín að þjóðinni og brosa eins og fáviti.

Þröngur sjóndeildarhringur

Fjölmiðlun

Sumir Moggabloggarar trúa, að mbl.is sé Ísland. Einn hafði atkvæðagreiðslu um vinsælasta bloggara landsins. Um slíkt þarf ekki atkvæði, því mælingar eru betri. Vinsælasti bloggari mbl.is kemst ekki í tíunda sæti á landsvísu. Í svipuðu sæti er vinsælasti bloggari visir.is. Miklu framar er vinsælasti bloggarinn á eyjan.is, sem oft er í þriðja sæti á landsvísu. Kosningin fann heldur ekki vinsælasta bloggara landsins, Ármann Jakobsson. Bloggið hans í fyrra kom út í sérstakri bók um áramótin. Hann er utan mbl.is, visir.is og eyjan.is. Mælist því ekki í hugum þeirra, sem trúa, að mbl.is sé Ísland.