Fjölmiðlun

Bloggarar og blaðamenn

Fjölmiðlun

Rússneska lögreglan drap bloggarann Magomed Jevlojev í lögreglubíl í gær og henti líkinu út í skurð. Hann var að koma til Nazran frá Moskvu í flugi. Í sömu vél var Murat Syasikov, forseti Ingusetia-héraðs. Syasikov hringdi í lögregluna frá flugvellinum í höfuðborginni Nazran. Jelojev hafði bloggað um spillingu og lögregluofbeldi í Ingusetia. Yfirvöld höfðu áður reynt að loka vefsvæði hans, ingushetiya.ru. Ritstjóri þess, Roza Malsagova, flúði land í júlí. Við þekkjum ógnaröldina í Rússlandi. En þessi frétt er merkust fyrir þá sök, að bloggarar eru nú taldir eins hættulegir og blaðamenn.

Langhundar og póstkassar

Fjölmiðlun

Nyhedsavisen gafst upp, því að ritstjórn og dreifing voru allt öðru vísi en hjá Fréttablaðinu. Nyhedsavisen fólst í langhundum, minnti á póstmódern greinar í Lesbókinni. Þetta stórslys má skrifa á danska ritstjórn blaðsins. Hún vildi snobbað dagblað, sem minnti á Informationen. Alþýðlegt svipmót Fréttablaðsins hefði komið þar að meira gagni. Dreifingin bilaði vegna andstöðu við ruslpóst í fjölbýlishúsum. Í Danmörku er ekki hægt að ná yfirburðalestri með því að koma fríblaði í póstkassa fólks. Sem var lykill að velgengni Fréttablaðsins. Ég hef sagt þetta allt nokkrum sinnum áður.

Sólarhrings fegrunaraðgerð

Fjölmiðlun

Í sólarhring fyrir val Sarah Palin sem varaforsetaefnis repúblikana sat YoungTrigg við tölvuna sína. Hann var að auka og bæta texta Wikipedia um Palin. Þetta segir okkur, að hún hafði verið valin sólarhring áður en hún var kynnt opinberlega. Enn merkara er samt hitt, að kosningavél taldi nauðsynlegt að hagræða æviferli hennar í tæka tíð. Hún gaf sér sólarhring til verksins. Allt ferli YoungTrigg við skráningunna er rakið eins og ferli annarra skráninga í Wikipedia. Menn tóku fljótt eftir þessu og leiðréttu spunakarlinn. Þetta sýnir, að veraldarvefurinn skiptir miklu í pólitík.

Sé eftir Pétri Gunnarssyni

Fjölmiðlun

Eyjan.is hefur daprazt upp á síðkastið. Í morgun voru tveggja daga gamlar fréttir á forsíðunni og tveggja daga gamalt blogg. Það er vont konsept að velja ákveðna bloggara og frysta þá inni. Meðan bloggheimur er í stöðugu uppnámi og kollsteypum. Latasti bloggari Eyjunnar hefur ekki bloggað síðan í janúar. Ellefu þeirra hafa ekki bloggað í meira en mánuð. Fréttirnar hafa líka versnað. Til skamms tíma var þar nokkuð um sérsamdar fréttir, sem oft voru betri en fréttir fjölmiðlanna. Núna eru allar fréttir hennar beint upp úr hefðbundnum fjölmiðlum. Ég sé eftir Pétri Gunnarssyni sem ritstjóra.

Umbi bloggar stíft

Fjölmiðlun

Man ekki eftir öðrum embættismanni en umboðsmanni neytenda, sem bloggar reglulega. Gísli Tryggvason notar veffangið neytendatalsmaður.blog.is. Þar kennir margra grasa, sem varða neytendur. Raunar er ólíkt hefðinni, að embættismaður beri skoðanir sínar á torg. Flestir þeirra vilja fela sig bak við þykka múra, þungar hurðir og massíf skrifborð. Fæstir vilja gefa á sér færi eða höggstað. Bloggið er tvíeggjað tæki. Það gerir höfundi kleift að breyta umheiminum. Og það gefur öðrum tækifæri til að draga dár að höfundi. Mér finnst styrkleikamerki, að embættismaður gefi sér tíma til að blogga.

Blaðamenn vilja trúa

Fjölmiðlun

Íslenzkir blaðamenn eru ótrúlega trúgjarnir. Kona segir þeim frá tilraun til barnsráns og þeir trúa henni. Enginn efi er í skrifum þeirra. Önnur kona býður betur. Hún segir þeim frá tilraunum til að ræna sér og tveimur börnum sínum. Þeir trúa henni. Hefðu þó gott af vænum skammti af efahyggju. Þegar ég lít yfir langan feril, sé ég langa röð af lygum. Ótrúlega margir hafa reynt að ljúga að mér. Fyrst trúði ég, lengi skal manninn reyna. Svo trúði ég allt of lengi. En það er langt síðan. Árum saman hef ég sagt blaðamönnum að byrja fyrst á að trúa ekki. Mér hefur því miður mistekizt.

Staðreyndir eru heilagar

Fjölmiðlun

Blaðamenn leiðrétta ekki skoðanir sínar, en þeir eiga að leiðrétta villur sínar. Skoðanir eru ókeypis, en staðreyndir eru heilagar. Eins og Charles Prestwich Scott sagði 1921. Því þurfti Matthías Johannessen ritstjóri að leiðrétta rugl sitt um Guðjón Friðriksson. Guðjón hefur aldrei kennt Jóhönnu Eiríksdóttur. Hann hefur aldrei kennt í Ármúlaskóla. Hefur aldrei skoðað skólaritgerð um ljóð Matthíasar. Honum hefur aldrei verið sagt upp störfum við kennslu. Skrítið er, að Matthíasi tókst að fara með rangt mál á öllum þessum sviðum. Þannig fer fyrir fólki, sem lifir og hrærist í slúðri.

Drottningar- og kranaviðtöl

Fjölmiðlun

Svanhildur Hólm misskilur hugtökin drottningarviðtal og kranaviðtal í viðtali 24 stunda við hana í dag. Hugtökin eiga við, þegar viðmælandinn er umdeilanlegur eða umræðuefnið umdeilanlegt. Þau snúast um, að einn vinkill er sýndur af manni eða máli, þótt tveir eða fleiri vinklar séu í stöðunni. Hugtökin eiga líka við, þegar viðmælandi fer óvænt út í umdeilanlega sálma. Saklaust viðtal getur breyzt í drottningar- eða kranaviðtal, ef blaðamaður gætir ekki að sér. Hugtökin snúast um, að blaðamaður lítur á viðmælanda sem eins konar drottningu eða Davíð og skrúfar frá krana einhliða málflutnings.

Hluti af valdakerfinu

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar eru hættir að veita pólitíkinni aðhald. Þeir hafa lítið gert í nýjum hneykslismálum. Laxveiði pólitíkusa fór að mestu fram hjá þeim. Falsanir Guðna Ágústsson á þingræðum vöktu litla athygli. Þarflaus gisting þingnefndar á hóteli í heimabæ hreyfði við fáum fjölmiðlungum. Eftir dúk og disk fengu fjölmiðlar áhuga á stöðugum ferðum Þorgerðar Katrínar til Peking á kostnað skattborgaranna. Alla vikuna logaði umræða um öll þessi mál í blogginu. Það er að taka við af fjölmiðlum sem varðhundur lýðræðis. Flestir fjölmiðlar eru að eignarhaldi og ritstjórn flæktir í valdakerfi spillingar.

Með fingur á kjarna máls

Fjölmiðlun

Apple vann það afrek með iPhone að venja almenning við nota puttana beint á skjá. Áður var lyklaborð á gemsum, en ekki lengur. Tölvuframleiðendur hafa tekið eftir þessu. Þess vegna eru snertiskjáir alls staðar í undirbúningi. Þeir hafa hingað til verið notaðir við sérstakar aðstæður, eru mjög dýrir. Nú má búast við, að slíkir skjáir verði ódýrari og fylgi tölvum fyrir fólk. Framleiðendur hugbúnaðar sitja eftir og þurfa nú að endurrita forritin með hliðsjón af snertiskjám. Sumir verða fljótari en aðrir og munu uppskera stærri markað. Þannig vindur tækninni endalaust fram, eitt skref af öðru.

Rugl haft eftir Örnólfi

Fjölmiðlun

Ég skil ekki tal forsetaritarans í Fréttablaðinu í gær. Ég skil ekki heldur frétt blaðsins. Örnólfur Thorsson segir þar, að forsetinn sé á ferðalagi í Peking og komi í næstu viku. Sama blað segir á öðrum stað, að forsetinn sé alls ekki í Peking. Hann afhenti handboltamönnum fálkaorður á Bessastöðum. Myndir af þeirri athöfn voru í öllum fjölmiðlum. Hví segir Örnólfur þá, að húsbóndi sinn sé erlendis? Er hann ruglaður eða forstokkaður? Skortir hann virðingu fyrir orðum sínum? Hvað með Fréttablaðið? Fjölmiðlar eiga að leysa þrautir, ekki að búa þær til. Ég hef ekki séð Örnólf bera ruglið til baka.

Bölvaðir negrarnir í Visir.is

Fjölmiðlun

“Dæmi um að hælisleitendur setjist að í svítum bæjarins.” Stórfréttin var á Visir.is í hádeginu. “Bölvaðir negrarnir”, hugsuðu menn og lásu fréttina. Þar var ekkert bitastætt um fyrirsögnina. Neðan við miðju fréttar er þetta haft eftir Hauki Guðmundssyni, forstjóra Útlendingastofnunar. Var bara slúður Hauks í anda stofnunarinnar. Haukur nefndi engin dæmi slúðrinu til stuðnings og Visir.is rukkaði hann ekki um dæmi. Það er léleg blaðamennska að flytja slúður til að efla fordóma fólks. Miklu nær var, að fjölmiðillinn nennti að rekja dæmi um lúxuslíf hælisleitenda til staðfestingar slúðrinu.

Í vinnslu í skúffunni

Fjölmiðlun

Við vitum, hvað setningin þýðir: “Málið er í vinnslu í ráðuneytinu.” Hún þýðir á íslenzku “Málið er niðri í skúffu.” Sérstaklega á þetta við um Geir Haarde og eftirlaun pólitíkusa. Málið er alltaf í vinnslu. Það er alltaf of seint á ferðinni til að hægt sé að taka það fyrir núna. Þetta stafar af, að ríkisstjórnin hyggst ekki leiðrétta ofurhá eftirlaun pólitíkusa. Sama gildir um siðareglur pólitíkusa. Það mál er líka “í vinnslu” hjá forsætis. Það þýðir á íslenzku “í skúffunni”. Ríkisstjórnin hyggst raunar ekki setja reglur um að hefta sína eigin spillingu. Slík mál eru bara “í vinnslu”.

Sagnfræði í mínútutali

Fjölmiðlun

Pólitískir bloggarar hafa öðlast viðurkenningu í Bandaríkjunum. Hundruð hyggjast sækja flokksþing demókrata í þessari viku og repúblikana í næstu viku. Demókratar hafa reist risavaxið tjald, áfast þinghúsinu. Þar hafa bloggarar vinnuaðstöðu og netsamband. Hver þeirra borgar hundrað dollara fyrir aðgangskortið. Margir spunameistarar ætla aðeins að spinna í tjaldinu til að reyna að hafa áhrif á bloggarana. Spunameistararnir átta sig á, að bloggarar birta sögu þingsins frá einni mínútu til annarrar, en fréttir birtast bara einu sinni á dag í sjónvarpinu. Bloggbyltingin skríður fram.

Hávær þögn um laxveiði

Fjölmiðlun

Ég tek undir blogg Teits Atlasonar, eimreidin.is, um laxveiði pólitíkusa á kostnað Baugs. Þar voru Björn Ingi Hrafnsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þ. Þórðarson. Með frúm. Teitur hefur í nokkrum pistlum sett fram spurningar, sem hvergi hefur verið svarað. Hefðbundnir fjölmiðlar ríkis, flokks og Baugs þegja þunnu hljóði um mútur og spillingu. Undanbrögð Guðlaugs hafa ekki verið sannreynd. Þetta sýnir, að fjölmiðlarnir eru allir meira eða minna hallir undir málsaðila. Björn Ingi vinnur hjá Baugsmiðli og Mogginn verndar pólitíkusa Sjálfstæðisflokksins. Þetta er hávær þögn.