Fjölmiðlun

Spilltir gaurar í laxi

Fjölmiðlun

Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson létu sem borgarfulltrúar múta sér með laxveiði. Fóru í Miðfjarðará á kostnað Baugs, sem var stór aðili í fyrirhugaðri einkavæðingu Orkuveitunnar. Þeir svikust líka um að greiða skatt af spillingunni. Mér er svo sem sama um Vilhjálm, því að hann er bara pólitíkus. En Björn Ingi er orðinn blaðamaður, sem er afleitt. Það er stétt, sem má ekki láta borga fyrir sig laxveiði. Guðlaugur Þ. Þórðarson ráðherra lét líka múta sér, en segist hafa endurgreitt veiðileyfið. Engar sönnur hefur hann fært fyrir þeirri fullyrðingu. Fýluna leggur langa leið.

Fara tvisvar í hvert hús

Fjölmiðlun

Með hliðsjón af yfirvofandi hruni dagblaðaheimsins er fáránlegt, að blöðin geti ekki komið sér saman um dreifingu. Nú eru tvö kerfi í gangi, Moggans og Fréttablaðsins. DV og 24 stundir eru í kerfi Moggans. Á hverri nóttu og morgni er farið tvisvar í hvert hús til að dreifa dagblöðum. Dreifingin er stærsti kostnaðarliður Fréttablaðsins og 24 stunda. Þess vegna er einboðið, að dagblöðin spari peninga með sameiginlegri dreifingu. Það kemur ekki við neinni sameiningu dagblaða né tilburðum til einokunar. Er bara sjálfsögð viðleitni til sjálfsbjargar á erfiðum tímum. Hér skortir eðlilegan þroska.

Góð innsýn í sorpritið

Fjölmiðlun

Trúnaðarfyrndar dagbækur Matthíasar Johannesen gefa góða sýn inn í spilltan heim Morgunblaðsins. Þar reyndu ritstjórar að stjórna pólitík landsins. Að hatast í Ólafi R. Grímssyni. Að raða í valdastiga Sjálfstæðisflokksins. Að ákveða, hvað þjóðin mætti og mætti alls ekki vita. Að upphefja suma vinstri pólitíkusa og hamla gegn öðrum. Vinstri pólitíkusar töldu sig hólpna, ef þeir fengu að borða hádegissnittur með slúðri hjá Matthíasi og Styrmi. Skrítið var samspil félaganna við Davíð Oddsson í undarlegu lygaslúðri um forsetann. Dagbækur Matthíasar segja ljóta sögu af eina sorpriti landsins.

Mogginn þegir yfir frétt

Fjölmiðlun

Dæmigerð Moggafrétt var á mbl.is í gær. Sagt var frá verði í fiskbúðum. 82% verðmunur var á skötusel í dýrustu og ódýrustu búðinni. Mbl.is gætti vel að segja ekki, hvaða búðir voru dýrastar og ódýrastar. Þannig hindraði Mogginn að neytendur gætu haft gagn af neytendafréttinni. Fólk gat að vísu skrifað hæsta og lægsta verð hjá sér og borið saman við búðina, sem það fer í. Ef nöfnin væru birt, gæti fólk hins vegar sparað sér tíma og kostnað með því að fara alls ekki í dýru búðirnar. Visir.is birti daginn áður frétt um verðmerkingar í bakaríum, nefndi auðvitað nöfn bakaríanna, sem voru sektuð.

Þorbjörn skortir þekkingu

Fjölmiðlun

Dylgjurnar um einkalíf Ólafs F. Magnússonar komu fram í ríkisfjölmiðlinum Kastljósinu. Komu alls ekki fram í blogginu. Þar voru þvert á móti skoðanir um, að dylgjurnar væru marklaus áróður. Bloggið var ábyrgt, ekki ríkisfjölmiðillinn. Þorbjörn Broddason, prófessor í fjölmiðlafræði, fylgist hins vegar lítið með. Hann hélt fram í útvarpinu í gær, að bloggarar hefðu sýnt ábyrgðarleysi í málum Ólafs. Það er hrein firra. Hann reyndi að hengja bakara fyrir ríkið. Prófessorinn hefur oft áður sýnt skort á þekkingu á fjölmiðlum. Enda hefur hann gert fjölmiðlafræði ónothæfa í blaðamennsku.

Nú þarf að klippa saman

Fjölmiðlun

Vonandi gera fréttastofur sjónvarpsstöðva það, sem þær gera bezt. Draga upp úr safni ummæli borgarfulltrúa og forsætisráðherra síðasta árið. Klippa saman ummæli frá ýmsum mánuðum. Sýna pólitíkusa stökkva úr einni skoðuninni í aðra og aftur til baka. Láta kjósendur sjá, hversu rotnir ráðamenn eru inni við beinið. Dagblöð geta birt orð manna, en áhrifamáttur sama efnis er margfaldur í sjónvarpi. Þar sjá áhorfendur andlit landsfeðra og borgarfeðra og sjá andlitin ljúga út í eitt. Ekkert fær kjósendur betur til að skilja, að þeir hafa endalaust verið hafðir að fífli. Af siðlausum pólitíkusum.

Slúðurblaðið var betra

Fjölmiðlun

Framhjáhaldi John Edwards var lengi haldið leyndu í bandarískum fjölmiðlum. Samt skipti það pólitísku máli. Hann vildi verða forseti Bandaríkjanna. Notaði þó veikindi konunnar til að hanga klukkustundum saman með viðhaldi sínu á herbergjum hótela. Maðurinn, sem þóttist vera hreinlyndur pólitíkus, var það ekki. Edwards laug sig á flótta úr einu vígi í annað. Bloggið hljóp í skarð hefðbundinna fjölmiðla. Það fjölyrti um framhjáhaldið. Við boltanum tóku blöð á borð við National Enquirer, sem kallað er slúðurblað. Í þessu tilviki kom blaðið þjóðinni að meira gagni en New York Times, sem þagði.

Lestur er ekki sama og lestur

Fjölmiðlun

Reynir Traustason segir réttilega, að erfitt sé að bera saman lestur seldra dagblaða og fríblaða. Lestur Morgunblaðsins og DV er verðmeiri en tölur sýna, lestur Fréttablaðsins og 24 stunda verðminni. Lestur fríblaða byggist á að grýta þeim í allar áttir í von um lestur. Fólk þarf hins vegar að borga fyrir að fá hin blöðin. Í öðru tilvikinu krækir blaðið í kúnnann og í hinu tilvikinu krækir kúnninn í blaðið. Auglýsendur vilja þó slengja saman þessum tvenns konar lestri. Það skaðar fjárhag seldu blaðanna, enda eru þau á hægu undanhaldi fyrir fríblöðunum. Sala dagblaða er því miður liðin tíð.

Nafnspjöld og golf eru tabú

Fjölmiðlun

Einu sinni var ég í samneyti við erlenda ritstjóra einu sinni og jafnvel tvisvar á ári. Margs er skemmtilegt að minnast úr samræðum við skál. Þar lærði ég, hver sé munurinn á ritstjóra og venjulegum forstjóra. Í fyrsta lagi þykir ritstjóra niðurlægjandi að eiga nafnspjald. Hann sýnir aldrei neitt slíkt spjald. Í öðru lagi þykir ritstjóra niðurlægjandi að spila golf. Slíkt mundi nánast jafngilda brottrekstri úr félaginu. Einnig töluðu allir ritstjórar, sem ég hitti, af fullkominni óvirðingu um landsfeður sína. Stundum fóru þeir í mannjöfnuð um, hver ætti versta þjóðarleiðtogann.

Skoðanir leiðréttast ekki

Fjölmiðlun

Blaðamenn leiðrétta fréttir, ef þeir eru góðir blaðamenn. Þeir leiðrétta fréttir, en ekki skoðanir. Þær verða ekki leiðréttar, af því að þær eru skoðanir, en ekki staðreyndir. Þær eru persónulegar. Þær eru ekki jafnar, sumar eru illa grundaðar og óvandaðar. En þær verða samt ekki leiðréttar. Stundum krefjast menn af fjölmiðlum, að þeir leiðrétti skoðanir, sem þar hafa komið fram. Slíkt vilja fjölmiðlar ekki gera, enda geta þeir það ekki. Stundum kvartar fólk yfir því, sem ég skrifa. Ég leiðrétti mig, ef ég hef farið rangt með staðreyndir. En skoðanir mínar verða seint leiðréttar.

Blogggáttin tekur forustu

Fjölmiðlun

Kom í nótt af fjalli til byggða og sá, að BloggGáttinni hafði verið breytt. Eins og ég lagði til í vor. Í hægri kant eru komnar tilvísanir í fréttir fjölmiðlanna. Mér sýndist þar vera sólarhringur af fréttum, mikil framför frá fréttamiðlun Eyjunnar. Sýndist líka vera hægt að útiloka fjölmiðla, til dæmis fótboltamiðla, sparar mér lestur. Er í GPRS okur-sambandi, svo að ég tímdi ekki að vafra. Get því ekki dæmt um hraða útfærslunnar. En fyrsta sýn segir mér, að þetta sé nýjungin, sem ég hef beðið eftir: Sólarhrings úrval úr öllum fréttum og öllum marktækum skoðunum dagsins á einum stað. Bravó.

Sameiningartákn strjálbýlis

Fjölmiðlun

Hef að undanförnu verið á ýmsum afskekktum stöðum í byggð og utan byggðar. Sameiginlegt einkenni flestra er, að Vodafone næst þar ekki, Síminn er víða utan seilingar, en þó ekki eins víðtækt og Vodafone. Mig minnir, að í vetur hafi Vodafone auglýst byltingu farsíma. Það birti tveggja síðna auglýsingu með korti, sem sýndi, að Vodafone næðist nánast alls staðar nema á jöklum uppi. Ég get staðfest af reynslu, að kort þetta er helber lygi. Svo virðist sem Neytendastofa geti ekki eða vilji ekki gera neitt við svikum af þessu tagi. Merkilegri eru þó viðbrögð notenda, sem mér sýnast vera alls engin.

Huglaus leynipenni í myrkri

Fjölmiðlun

Þennan skrítna texta las ég í Sandkorni DV í dag: “En allar vangaveltur um leynipennann eru byggðar á getgátum, þar sem huglaus höfundurinn heldur sig í myrkviðunum.” Höfundurinn er að tala um FL-myndskeiðið, sem töluvert hefur verið rætt í bloggi. Hann er svo forstokkaður, að hann sakar höfund myndskeiðsins um að vera huglaus leynipenni. Huglaus? Er þá höfundur Sandkorns ekki einmitt huglaus leynipenni, sem heldur sig í myrkviðnum? Menn, sem búa í glerhúsi eiga ekki að skrifa á þennan hátt. Bezt væri auðvitað, að höfundur Sandkorns kæmi úr myrkviðnum fram í dagsljósið.

Völdum logið upp á gyðinga

Fjölmiðlun

Stöð tvö sagði í fréttum í dag, að gyðingar eigi og reki flesta fjölmiðla í Bandaríkjunum. Er rangt hjá Katrínu Pálsdóttur. Flestir fjölmiðlar landsins eru ekki í eigu gyðinga. Fáir eru ritstjórar, en sumir þekktir blaðamenn eru gyðingar. Áhrif þeirra eru að mestu bundin við The New York Times. Fullyrðing Stöðvar tvö er alveg út af kortinu. Margt má vont um gyðinga í Bandaríkjunum segja. En það er flökkusaga að segja þá eiga annars vegar fjölmiðlana og hins vegar bankana. Tilefni fréttar Stöðvar 2 var, að Barack Obama var að safna atkvæðum gyðinga með því að nudda sér utan í Ísrael.

Særum, hneykslum, móðgum

Fjölmiðlun

Femínisti heims númer eitt segir brýnt í nafni lýðræðis að hneyksla fólk, særa það, móðga það. Tilefni Germaine Greer er koma páfans til Ástralíu, heimalands hennar. Ritaði um það grein í Observer um helgina. Hæstiréttur hafnaði nýjum lögum í New South Wales um tímabundið bann við særandi tali og skrifum um kaþólikka. Hæstiréttur Ástralíu og Germaine Greer eru sammála um, að nauðsynlegt sé að ögra fólki til að lýðræði virki. Stundum þarf að særa fólk djúpt. Annars segja fólk og fjölmiðlar bara það, sem talið er falla í kramið. Þannig endar lýðræði með banni við allri stjórnarandstöðu.