Fjölmiðlun

Særum, hneykslum, móðgum

Fjölmiðlun

Femínisti heims númer eitt segir brýnt í nafni lýðræðis að hneyksla fólk, særa það, móðga það. Tilefni Germaine Greer er koma páfans til Ástralíu, heimalands hennar. Ritaði um það grein í Observer um helgina. Hæstiréttur hafnaði nýjum lögum í New South Wales um tímabundið bann við særandi tali og skrifum um kaþólikka. Hæstiréttur Ástralíu og Germaine Greer eru sammála um, að nauðsynlegt sé að ögra fólki til að lýðræði virki. Stundum þarf að særa fólk djúpt. Annars segja fólk og fjölmiðlar bara það, sem talið er falla í kramið. Þannig endar lýðræði með banni við allri stjórnarandstöðu.

Vandi minn í blaðamennsku

Fjölmiðlun

Ég er í skemmtilegum vanda. Ber ég sem skammlífur kennari og langlífur stjóri í blaðamennsku ábyrgð á þeim, sem ég hef ekki kennt eða stjórnað? Er íslenzk blaðamennska nútímans mér að þakka eða kenna? Er vont fyrir mig að hafa sterkar skoðanir á frammistöðu í faginu eins og ýmsu öðru? Er slappt að nefna eitt dæmi um lélega frammistöðu og alhæfa út frá því? Guðmundur Magnússon svarar öllum spurningunum játandi og þakka ég fyrir það. Ég svara hins vegar öllum spurningunum neitandi nema þeirri síðustu. Ég er á hálum ís að alhæfa út frá einu dæmi, þótt ég hafi nýlega nefnt ýmis skyld dæmi.

Þegar illa fer í bloggi

Fjölmiðlun

Þótt Guðmundur Magnússon ofurbloggari sé góður, hefði hann gott af að lesa fyrirlestra á vefsvæði mínu. Hefði þá staðreyndir til að reisa á skoðanir um blaðamennsku. Þarf að gera greinarmun á fréttum og skoðunum. Fréttir eru aðallega fréttir og skoðanir eru aðallega skoðanir. Þær eru oftast reistar á staðreyndum, misjafnlega góðum. Þær eru sjaldan fréttirnar sjálfar. Í fréttum er sannreynslan mikilvægust. Skoðanir eru hins vegar afleiðing frétta. Til dæmis blogg. Það felst til dæmis í mati á, hvað sé gott eða vont. Séu þær reistar á slöppum fréttum fer illa. Fyrir Guðmundi og mér.

Nató á erfitt með spunakarla

Fjölmiðlun

Nató gamli hefur ýmsa reynslu af spunakörlum. Eitthvað bjátar á þar núna, því að fenginn hefur verið spunakarl frá Kók til bjargar, Michael Stopford. Frægasti spunakarlinn var Jamie Shea, er laug fyrir Nató í Kosovo-stríðinu. Alþjóðasamband ristjóra gaf út heila bók, þar sem Shea var í aðalhlutverki. Bókin hét “The Kosovo news & propaganda war”. Samkvæmt henni sagði Shea aldrei satt orð. Hann rægði þá blaðamenn, sem sögðu satt frá stríðinu. Shea þessi er brezkur og nýtur nú hvíldar á elliheimili Nató gamla í Bruxelles. Vonandi verður ekki skrifuð sérstök bók um kók-spunakarlinn Stopford.

Síðasta haldreipið fordæmt

Fjölmiðlun

Brezka ritskoðunin mun úrskurða, að áróðursþátturinn “The Great Global Warming Swindle” hafi falsað ummæli vísindamanna. Til að reyna að gera lítið úr loftslagsbreytingum af mannavöldum. Guardian upplýsir þetta í dag. Hins vegar mun ritskoðunin ekki úrskurða, að þátturinn hafi villt um fyrir fólki samkvæmt brezkum útvarpslögum. Málaferli þessi hafa staðið í hálft annað ár. Þátturinn var sýndur víða um heim, meðal annars hér á landi. Í úrskurði ritskoðunarinnar sætir Martin Durkin framleiðandi harðri gagnrýni fyrir vinnubrögð sín. Þáttur þessi var síðasta haldreipi flatjarðarsinna.

Bloggarar elska dagblöðin

Fjölmiðlun

Sparnaður dagblaða í Bretlandi og Bandaríkjunum kemur niður á rýni, allt frá bókarýni yfir í veitingarýni. Skoðanir eru ekki taldar eins brýnar og í gamla daga. Menningarrýni hefur líka verið að færast yfir á vefinn. Þegar þú kemur heim að kvöldi frumsýningar, geturðu lesið rýni strax á vefnum. Þótt dagblöð hafi enn yfirburði í fréttum, eru þau að glata forustunni í skoðunum. Hér á Íslandi er summa skoðana á vefnum orðin betri en summan í dagblöðum. Eitt geta þau dagblöðin enn huggað sig við: Gamaldags bloggarar íslenzkir hrósa sér enn af að hafa fengið að skrifa grein í dagblað.

Spunakarlar eitra grænan lit

Fjölmiðlun

Alþjóðahátíð auglýsingabransans í Cannes í fyrra var græn. Auglýsingar hafa síðan verið grænar um allan heim. Hvers konar vara og þjónusta er seld á grænum forsendum. Kolefnisjöfnun er illræmdasta ruglið af því tagi. Nú er aftur búið að halda alþjóðahátíð auglýsingabransans í Cannes. Þar fór lítið fyrir græna litnum. Auglýsingabransinn og spunakarlarnir eru á flótta undan réttvísinni. Flestar grænar auglýsingar hafa reynzt vera hrein lygi. Þar á ofan hafa þær skaðað málstaðinn. Fólk telur, að græn stefna sé lygi, úr því að grænar auglýsingar eru lygi. Allt eitrast, sem spunakarlar snerta.

Klippt á vængi persónuníðs

Fjölmiðlun

DV gerir vel í föstudagsblaðinu, tekur út Paul Ramses flóttamann. Hrekur ýmsar lygasögur, sem rasistar dreifa um hann á vefnum. Sýnishorn af þeim má sjá á vef Vilhjáms A. Vilhjálssonar ísraelsvinar, postdoc.blog.is. Það er orðið að samkomuhúsi rasista. Þar skrifa meðal annars Loftur Altice Þorsteinsson og Gunnar Th. Gunnarsson. Gunnar efast um, að Ramses eigi barnið Fidel og Loftur telur hann skyldan hinum illræmda Barack Obama. Af texta ýmissa framámanna í Frjálslynda flokknum má ráða, að þeir séu hallir undir slíkt rugl. Sá flokkur stefnir hægfara í átt til útlendingahaturs.

Fréttirnar eru í blöðunum

Fjölmiðlun

Mæling innlendra frétta sýnir yfirburði dagblaða í innlendum fréttum. Þau birta 80% fréttafjöldans og ljósvakamiðlarnir 20%, þar af á Gufan stærsta hlutann. Blogg var ekki mælt í könnun Creditinfo, á lítið í nýjum fréttum. Morgunblaðið er stærst í fréttum með 33%, Fréttablaðið kemur næst með 30% og 24 stundir með 17%. Hlutur stærri dagblaða hefur minnkað en aukizt hjá minni dagblöðum. Sumum kemur á óvart, en ekki mér, hversu lítill er hlutur sjónvarps í innlendum fréttum. Dagblöðin eru og verða áfram meginuppspretta þekkingar okkar á innlendum samtíma. Elzta birtingarformið ber af öðrum.

Frekjurnar fá íþróttir

Fjölmiðlun

Áhugi Íslendinga á menningu er svipaður og áhuginn á íþróttum. Áhuginn á myndlist einni er svipaður og áhuginn á fótbolta. Þetta hefur fyrr og nú verið mælt í aðsókn. Jafngild eru bíó, menning og sport. Flatarmál dagblaða og mínútur ljósvaka endurspegla ekki áhuga fólks. Af fjölmiðlunum mætti ætla, að íþróttir, einkum fótbolti, væri þjóðarmálið. Svo er ekki, frekur og hávaðasamur 30% minnihluti vill þetta. Frávik eru í Mogga, sem þjónar menningu, og í Fréttablaðinu, sem þjónar ekki sporti umfram öðru. Skrítinn er feikilegur ríkisrekstur íþróttaefnis í RÚV á kostnað skattborgararanna.

Framhjá hliðvörðum fjölmiðla

Fjölmiðlun

Vincent Bugliosi er þekktasti saksóknari Bandaríkjanna, hefur unnið öll morðmál, sem hann hefur sótt. Hann hefur um nokkurt skeið skrifað vinsælar bækur um morðmál. Hin síðasta heitir: The Prosecution of George W. Bush For Murder. Þar rekur hann líkur á, að sækja megi mál gegn forsetanum fyrir fall bandarískra hermanna í Írak. Svo bregður við, að frjálst og óháð sjónvarp Bandaríkjanna hefur ekkert sagt frá bókinni og tæpast nokkurt dagblað heldur. Hefðbundnu fjölmiðlarnir geta þó lítið þaggað, bókin hefur verið rædd í þaula á vefnum. Og hún er komin á metsölulista New York Times.

Spuninn fangar blaðamenn

Fjölmiðlun

SGJ segir í Fréttablaðinu í dag, að til átaka hafi komið milli lögreglu og bílstjóra við Rauðavatn 23. apríl. Ég man ekki eftir neinum átökum. Þetta voru lögregluóeirðir. Löggan réðist á fólk með piparúða og hrinti því í götuna. Vopnaðir réðust á vopnlausa. Fólkið gerði ekki annað en að hrópa að löggunni. Það geta ekki talizt átök, ef annar aðilinn er að verki. Rétta orðið er árás en ekki átök. Þetta minnir á fréttir af árásum ísraelshers á palestínumenn. Oft segja fréttir, að til átaka hafi komið á Gaza. Í báðum tilvikum eru latir blaðamenn fangar fréttatilkynninga frá spunakörlum.

Nafnlausi nauðgarinn

Fjölmiðlun

Barnanauðgarinn nafnlausi er utan verndar fjölmiðla og landsfeðra. Ekkert samkomulag er um, að nafni hans eða mynd sé leynt. Á mínum tíma í faginu sömdu ritstjórar aldrei um neitt og gera ekki enn. Hins vegar hafa ýmsir fjölmiðlar siðareglur. Þar eru takmörk sett nafn- og myndbirtingum. Ekki er birt, ef það skaðar hagsmuni fórnardýra, yfirleitt skyldmenna níðingsins. Slík regla er umdeilanleg, en hefur þó gefizt vel. Öðru máli gegnir um tilraunir til að þrengja hóp hinna grunuðu niður í “háskólaprófessor”. Það er gömul og súr uppfinning Moggans, sem aðrir fjölmiðlar hafa lapið upp.

Tvær hliðar á vondu bloggi

Fjölmiðlun

Mbl.is hefur lokað bloggi nafnleysingjans Johnny vegna nazistaáróðurs hans og afneitunar á helför gyðinga. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson hefur beðið um opinbera rannsókn á ummælum nafnleysingjans. Hvort tveggja er eðlilegt. Fjölmiðill eða annar netþjónn getur ekki borið ábyrgð á Johnny. Opinberir aðilar hljóta að upplýsa, hver er Johnny huglausi. Svo er það allt annað mál, að nafngreindu fólki er fyllilega heimilt að hafa hvaða skoðanir sem er, einnig rangar skoðanir. Menn eiga að fá að reka nazistaáróður og afneita helförinni, bara ekki undir dulnefni. Í því felst skoðanafrelsið.

Tímarit fyrir runkara

Fjölmiðlun

Sá tímarit á biðstofu í gær, hét HLH. Í enskri kynningu segir ritstjórinn, að það eigi fyrst og fremst að sinna sjálfselsku fólks (self indulgence). Einnig líkamlegri heilsu og persónulegu útliti. Loks eigi það að fylgjast með tízkunni (trends). Ég sá strax, að þetta var tímaritið, sem Íslendinga vantar. Það getur runkað hinni hömlulausu sjálfsást, sem einkennt hefur síðustu ár. Er hnakkablað, þar sem allir úða sig ilmvötnum og ganga í fötum samkvæmt skipunum að ofan. Hentar fólki, sem hefur alls engan áhuga á neinu nema sínu örsmáa sjálfi. Þetta er post-citizen tímarit fyrir algera bjána.