Fjölmiðlun

Vangeta refsivandarins

Fjölmiðlun

JGB heimtar á næstöftustu síðu Fréttablaðsins í gær, að ég skammi Stöð tvö fyrir tvöfeldni Telmu Tómasdóttur. Hún er í senn fréttaakkeri stöðvarinnar og spunakerling landsmóts sirkushesta. Auðvitað er ég á móti slíkri blöndu. Hún stríðir gegn hefðbundnum starfsháttum blaðamanna. Hún dregur úr trausti á Stöð tvö sem fréttamiðli. JGB titlar mig af þessu tilefni “refsivönd fjölmiðla”. Ég þakka heiðurinn, sem felst í orðunum. Hins vegar hef ég ekki burði til að fylgjast með öllum vanda íslenzkra fjölmiðla. Hef mörg járn í eldinum og missi því af mörgu, sem stendur í eða sagt er í fjölmiðlunum.

Gagnrýni nafnlauss heimildamanns

Fjölmiðlun

VSP á Fréttablaðinu birtir í dag beina tilvitnun í nafnlausan heimildamann. Umsækjandi um stöðu mannréttindastjóra Reykjavíkur segir: “Embættiskerfið í Reykjavíkurborg er augljóslega mjög þunglamalegt og þessi vinnubrögð eru forkastanleg og ófagleg.” Það er föst regla í blaðamennsku að vitna ekki orðrétt í nafnlausan heimildamann. Önnur föst regla segir, að hafa ekki gagnrýni eftir nafnlausum heimildamanni. Undantekningar geta verið á þessum reglum, en ég fæ ekki séð, að þær gildi þarna. Íslenzkir blaðamenn skauta of oft út af hefðum, sem hafa verið notaðar til að efla traustið á faginu.

Löt og léleg fréttamennska

Fjölmiðlun

Þegar ég skrifaði um brottrekstur Paul Ramses í morgun, var ekki vitað um framkvæmdina. Mogginn hafði birt greinargóða frétt um mannvonzku íslenzka lögregluríkisins. Sú frétt var skrifuð í gær. Hvorki vefur Moggans né aðrir vefir minntust neitt á brottförina. Enginn sagði mér snemma í morgun, hvort hneykslið hefði náð fram að ganga. Ekki orð á ruv.is, mbl.is, visir.is, ekki einu sinni á eyjan.is. Þetta þykir mér löt og léleg frammistaða fjölmiðla. Það er stórpólitísk frétt, hvort Paul Ramses var hrakinn brott. Fyrsta veffréttin kom svo kl. 9:33 á visir.is, fjallaði þó mest um mótmæli.

Ritstýrður eða sjálfvirkur

Fjölmiðlun

Tómas Hafliðason, potturinn.com, misskilur skrif mín um blogg.gattin.net og eyjan.is. Ég er ekki að sameina epli og appelsínur, bara tengja. Að tala um not, sem ég hef af miðlum. Annar færir mér fréttir dagsins og hinn færir mér blogg dagsins. Svo einfalt er það fyrir mig. Annar er ritstýrður miðill með góðu úrvali frétta og lakara úrvali bloggs. Hinn er sjálfvirkur miðill, þar sem allir, sem ég nota, kjósa að vera, nema tveir. Ég hef hvorn miðil til síns brúks. Oft les ég alla 130 nafngreinda bloggara dagsins, stundum bara sérvalda 45. Helzt vildi ég geta lesið fréttir og blogg á einum stað.

Eyjan Péturs í toppsætinu

Fjölmiðlun

Pétur Gunnarsson gerði Eyjan.is á stuttum tíma að einum helzta fréttamiðli landsins og mínum helzta fréttamiðli. Undir lok ritstjórnartíma hans var ég farinn að nota Eyjuna eingöngu. Fékk þar fréttir annarra miðla auk frétta Eyjunnar sjálfrar. Þær voru oftast betri og hnitmiðaðri en fréttir annarra fjölmiðla. Aðeins eitt vantar enn í Eyjuna, skrunlista frétta. Svo að ég geti leitað meira en eina-tvær stundir aftur í tímann. Vona, að Hallgrímur Thorsteinsson, nýr ritstjóri, bæti úr. Bloggið á Eyjunni er aftur á móti ekki eins gott. Nær ekki samanburði við víddir Blogg.gattin.net. Sameining?

Böndin berast að Halldóri

Fjölmiðlun

Andrés Jónsson bloggaði merkar vangaveltur um heimildarmann Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Sá sagði Jóni Ásgeiri, að Baugsmálið væri pólitísk aðgerð. Heimildarmaðurinn var fyrrverandi forsætis. Þar koma fjórir til greina í þessari röð: Halldór Ásgrímsson, Þorsteinn Pálsson, Steingrímur Hermannsson og Davíð Oddsson. Samkvæmt Andrési er Halldór heitastur, sem er rökrétt. Ég hafði gagn af að lesa hugleiðingar Andrésar, sem skrifar yfirleitt af viti um pólitík. En við eigum ekki Seymour Hersh eða annan rannsóknarblaðamann. Í Bandaríkjunum hefði slíkur upplýst okkur um nafn heimildarmannsins.

Umbúðirnar eru kjarninn

Fjölmiðlun

Fáir hlusta, þótt íslenzkur landbúnaður borgi sprell í Washington. Sprell er sérgrein spunakarla, sem kalla það “ívent”. Ýmsir aðilar eru fengnir til að gefa vörur og þjónustu. Flug og gisting, matur og auglýsingar fást fyrir lítið. Nokkrir miðlungskokkar voru fluttir til Íslands að sprella á Food & Fun. Voru sagðir heimsfrægir, en spunakarlar gáfust upp á fullyrðingunni. Nú er Food & Fun komið til Washington á kostnað íslenzkra bænda. Nokkrir borgarkokkar sprella þar. Kjarni slíkra atburða felst í umbúðum og sprelli, en ekki neinu innihaldi. Er þolanlegt, ef fjölmiðlar hafa hóf á ýkjunum.

Myrkraverk Össurar og Þórunnar

Fjölmiðlun

Hvaða æði hefur gripið Össur og Þórunni? Eru ráðherrar Samfylkingarinnar að tapa glórunni í myrkrinu þeirra?. Þórunn bannar myndatökur af dauðum birni og Össur bannar myndatökur af undirritun samnings um álver á Húsavík. Halda þau að myrkraverkin hverfi, ef þau eru ekki mynduð? Og hvað hefur Össur að gera með titrandi aðstoðarmann, sem gargar: “Hvaða andskotans máli skiptir einhver undirskrift.” Ég vissi, að þetta fólk er “out of touch”, hefur misst samband við fólk, lifir í ráðherra-limbói. En þarf það að auglýsa myrkraverk sín svona? Þetta er bilun. Samfylkingin virðist vera að bila.

Flokkurinn, Bankinn og Blaðið

Fjölmiðlun

Frétt ársins var falin í Mogganum í gær. Aðgangur Landsbankans að arðsömum upplýsingum um peningamál úr stjórnarráðinu er frétt ársins. Banki eiganda Moggans fékk leyniupplýsingar, sem gerði honum kleift að græða hundruð milljóna. Þannig virkar pólitíkin, hún er samsæri og einkavinavæðing kruss og þvers. Ekkert hefur breyzt síðan Sambandið fékk fyrirfram að vita um gengislækkanir. Risin er upp stétt auðmanna, sem sækir auð sinn í forgang hjá réttum aðilum. Flokkurinn, Bankinn og Blaðið eru ýmsar birtingarmyndir þess ástands, að hópur manna telur sig eiga allt vald. Og á það raunar.

Upphafið jafngildir endanum

Fjölmiðlun

Í kranaviðtali Gufunnar við Össur Skarphéðinsson álráðherra flutti hann merka hundalógík: Ef búið er að veita leyfi til rannsókna, verður að halda áfram leyfisveitingum. Rannsóknir hafa valdið raski og virkjunin veldur því ekki meira raski. Fyrri ríkisstjórn hafði leyft rannsóknir og þá neyðist Össur til að leyfa framhaldið. Upphafið jafngildir endanum. Viljayfirlýsing hans um orkuver á Þeistareykjum og í Gjástykki er því ekki svik við “fagra Ísland” Samfylkingarinnar og málefnasamning stjórnarinnar. Öll stjórnin var sátt við það, sagði Össur í drottningarviðtalinu. Aðrir voru ekki spurðir.

Holur heimsviðburður

Fjölmiðlun

DV talar eins og pólitíkus, þegar bent er á, að atburður í Washington sé engin “óskarsverðlaunahátið meistarakokka”. Blaðið biðst ekki afsökunar á fáránlegri fullyrðingu, heldur þeytir smjörklípum. Rammy’s er enginn heimsviðburður, ekki einu sinni í Washington. Bæjarblaðið Washington Post hefur ekki getið hans. Sömu styrktaraðilar reka Food & Fun í Reykjavík, sem einu sinni var sögð vera heimsviðburður, en var það ekki. Hér og þar fara spunakarlar offari. Siggi Hall og Baldvin Jónsson gera ekki Food & Fun í Washington að heimsviðburði. Þótt DV leggi sitt litla lóð á vogarskálina.

Ráðherra bannar myndir

Fjölmiðlun

Þórunn Sveinbjarnardóttir sefur ekki ætíð. Hún þarf stundum að spinna. Það virkar bara ekki. Fyrirsagnirnar erlendis verða: “Umhverfisráðherra bannar myndir af dauðum hvítabirni.” Minnir á George W. Bush, sem bannaði myndir af líkkistum fallinna hermanna. Svona bann virkar ekki. Það sýnir bara, að keisarinn er ekki í neinum fötum. Það er Þórunn ekki heldur. Ofan á stuttan og ömurlegan feril sem umhverfisráðherra hagar hún sér eins og billegur spunakarl. Hún getur ekki falið, að tveir hvítabirnir liggja dauðir. Vegna þess að hún hefur hvorki stjórn á ráðuneytinu né á öðrum stofnunum þess.

Obama sigrar á internetinu

Fjölmiðlun

Barack Obama kann að nota netið, John McCain kann það ekki, kann ekki einu sinni á tölvu. Obama á milljón vini á Facebook, McCain 150 þúsund. Vinir McCain eru á hefðbundnum fjölmiðlum. Miklar fjárhæðir frá einstaklingum hafa runnið á netinu til kosningasjóðs Obama. Þær hafa gert sjóðinn tvöfalt öflugri en sjóð McCains. Obama hefur því hafnað opinberum styrkjum til baráttunnar. Er því ekki bundinn opinberum reglum um fjármál framboða. Í fyrsta skipti í heiminum hefur netið úrslitaáhrif í kosningum. Howard Dean fór langt á netinu árið 2004, en Barack Obama kemst á leiðarenda árið 2008.

Óskarsverðlaunahátíðin

Fjölmiðlun

Á baksíðu DV sé ég, að Siggi Hall hefur vafið fávísum blaðamanni um fingur sér. Talið honum trú um, að Rammy’s sé svakaleg hátíð matgæðinga. Hún sé “eins konar óskarsverðlaunahátið meistarakokka” samkvæmt orðalagi blaðsins. Rammy’s er óþekkt uppákoma í Washington og á henni er enginn meistarakokkur. Alls enginn. Hvergi var minnst á hana í Washington Post. Siggi er sérfróður í spuna. Á auðvelt með að tala svo við fávita, að þeir vita ekki lengur, hvað þeir sjálfir heita. Ég ráðlegg þeim að brenna sig ekki, heldur fletta upp í Google og Wikipedia. Þannig verða þeir síður að sendisveinum spunans.

Þau heimta kviksetningu

Fjölmiðlun

Fólk má að mínu viti nota gróft orðbragð um þann, sem kviksetti hundinn við Kúagerði. Fólk verður að hafa svigrúm til að tjá hug sinn til óhæfuverka. Fordæming ein nægir. Öðru máli gegnir um ýmsar hugmyndir um refsingar, sem sumir hafa sett fram, til dæmis dauðarefsingu. Mér sýnist, að bloggararnir Jóhannes Ragnarsson og Emma Vihjálmsdóttir hafi heimtað, að níðingurinn verði kviksettur. Það er ekki frambærileg krafa og veldur mér óþægindum. Undarlegra finnst mér, að fáir bloggarar hafa fordæmt þessa skoðun þeirra. Fólk, sem heimtar pyndingar og dauðarefsingar, hefur ekki sálarlíf í lagi.