Fjölmiðlun

Fimm hugsanlegir skúrkar

Fjölmiðlun

Fréttablaðið hefur þetta eftir umhverfisfræðingi: “Fimm sveitarfélög eiga land að Skerjafirðinum. Og segir hún eitt þeirra losa reglulega úr skólprásarkerfi sínu í fjörðinn.” Blaðið spyr ekki spurningar, sem hefði gert þetta að frétt: Hvaða sveitarfélag? Er það Kópavogur? Í staðinn varpar blaðið grun á fjögur saklaus sveitarfélög, þar á meðal Reykjavík. Þetta er enn eitt dæmið um, að þrenging kemur í stað frétta í fjölmiðlum landsins. Í stað þess að upplýsa fólk, segja fréttina, þrengir fjölmiðill möguleikana niður í fimm. Þetta er afkáralega léleg fréttamennska OVD í Fréttablaðinu.

Örfá orð segja alla söguna

Fjölmiðlun

Edda Jóhannsdóttir, blaðamaður Eyjunnar, gerði vel í viðtali á hlaupum við Robert Fisk. Hann er þekktasti blaðamaður Breta, sérfræðingur í Írak, talar skýrt. Um Obama sagði Fisk: “Þótt demókratinn Barack Obama sé uppáhalds forsetaefni flestra á Vesturlöndum, mun það ekkert hafa að segja. Hvenær gerði bandarískur forseti eitthvað annað en lofa Ísrael og fara í stríð?” Um stríðið í miðausturlöndum sagði hann: “Við erum búin að tapa. Íraks-aðgerðin er dauð og við höfum tapað hálfu Afganistan.” Um hryðjuverk sagði hann: “Við eigum að kalla allan her heim og þá eru hryðjuverk úr sögunni.”

Löggan laug um klipptan fána

Fjölmiðlun

Morgunblaðið varð að leiðrétta dótturstofnun sína, mbl.is. Hún trúði lygi frá löggunni. Sagði stjórnleysingja hafa skorið í tætlur íslenzka fánann á stjórnarráðinu. Það var lygi, fáninn var heill og var dreginn aftur að hún. Löggan hefur sjálfsagt talið henta spuna sínum að koma óorði á andófsfólk. Með því að ljúga fánaklippingu upp á það. Margir fjölmiðlar eru hauglatir og birta jafnan spuna löggunnar beint af skepnunni. Þar á meðal var mbl.is. Morgunblaðið vissi hins vegar betur og birti rétta frétt af gangi málsins. Mikilvægt er, að fjölmiðlungar átti sig á, að löggan segir sjaldan satt.

Aflátsbréf hulins siðameistara

Fjölmiðlun

Hver er hin eðla persóna, sem Reykjavíkurborg hefur ráðið til að skrifa út aflátsbréf fyrir spillta pólitíkusa? Í Fréttablaðinu í dag flaggar Jórunn Frímannsdóttir enn fyrirbærinu “innri endurskoðun”. Það er siðameistari, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið á fót til að segja keisarann vera í fötum. Fréttablaðið hefur ítrekað birt fréttir af syndakvittuninni, sem Jórunn hefur fengið. Samt er ekki vitað, hver er siðprúði maðurinn, sem gengur undir dulnefninu “innri endurskoðun”. Fréttablaðið þarf að fara að upplýsa útsvarsgreiðendur um, hver sé siðameistari einkavinavæðingarinnar.

Newspeak á dagblöðum

Fjölmiðlun

DV flutti beztu fréttina af uppþotum á Akureyri um helgina. Blaðið talaði við óhlutdrægt vitni, Stefán Friðrik Stefánsson, þekktan fréttabloggara. Lötu og ófaglegu fjölmiðlarnir, Mogginn og Fréttablaðið, töluðu hins vegar bara við málsaðila, lögguna. Þessir fjölmiðlar birtu newspeak löggunnar, sem notar orðið varnarúða um piparúða sinn. Af hverju ekki ástarúða? Einnig birtu letingjarnir, að löggan hafi “þurft að” beita vopnum. Réttara er að birta, að löggan “sagðist hafa þurft að” beita friðartækjum sínum. Mogginn og Fréttablaðið komu fram sem málgögn löggunnar. Með ófaglegri blaðamennsku.

Ekki er sama hver á heldur

Fjölmiðlun

Í tilkynningum lögreglunnar er gerður greinarmunur á piparúða og varnarúða. Það heitir piparúði, þegar: “Við leit í bifreið mannsins fundust fíkniefni, piparúði og kylfa.” Varnarúði heitir það við hins vegar við þessar aðstæður: “Komu aðrir lögreglumenn til aðstoðar og þurftu þeir að beita bæði kylfum og varnarúða.” Úðinn heitir nefnilega piparúði, þegar menn beita honum gegn löggunni. En varnarúði, þegar löggan beitir honum gegn fólki. Sérstæð tegund af newspeak, sem sýnir flókna aðferð við að spinna fréttir fyrir hina hlýðnu miðla: Fréttablaðið, Moggann og Ríkissjónvarpið.

Skoðanir eru bannaðar

Fjölmiðlun

Skrítið er, að lög víða í Evrópu banna fólki að halda fram röngum skoðunum. Rangar skoðanir eru það, sem Stóri bróðir ákveður, að séu rangar skoðanir. Tíðast er, að fólk megi ekki afneita helför gyðinga opinberlega. Reglan er teygð og toguð eftir aðstæðum. Jafnvel föðurland Voltaires bannar Brigitte Bardot að segja satt um múslima. Í Kanada munu múslimar senn vinna mál gegn tímariti, sem varaði við framandi siðvenjum þeirra. Slík lög gegn lýðfrelsi eru ekki bara í Kanada og Frakklandi, heldur einnig í Bretlandi, Þýzkalandi og Hollandi. Þar mega menn alls ekki segja sannleikann um múslima og íslam.

Nagandi ótti Geirs Haarde

Fjölmiðlun

Geir Haarde var vel látinn á sínum tíma, þótti skemmtilegur í samkvæmi. Með árunum hefur sigið á ógæfuhliðina. Hann hefur orðið fýldari og hvekktari en áður, einkum þegar hann varð forsætis. Hann sýnir blaðamönnum dónaskap, þegar þeir reyna að fá hann til að tjá sig um brýnustu þjóðmál. Hann vill, að þeir panti viðtöl og hann vill fá að hafna sumum viðtölum. Hann vill, að forsætisráðuneytið sé verndaður vinnustaður. Sumpart stafar fýla hans af nagandi ótta við að ráða ekki við starfið. Hann vill frið, þegar hann hefur siglt þjóðarskútunni inn í kreppu. Ekkert af því lagar hann með dónaskap.

Löggan tapar stríðinu sínu

Fjölmiðlun

Eindreginn stuðningur yfirmanna við ofbeldislöggur æsir þær til frekari átaka. Hann magnast í Fréttablaðinu og ríkissjónvarpinu með kranaviðtölum við yfirmennina. Ofbeldislöggur munu því leita fleiri tækifæra til að snapa fæting við fólkið í landinu. Þær munu úða pipar í fleiri tilvikum. Kröfur um morðvopn á borð við rafbyssur munu magnast um allan helming. Löggæzlan mun breytast í átt til fasistaflokks, sem verður ríki í ríkinu. Takið því símamyndskeið af öllu lögguofbeldi, myndið með tveimur símum úr mismunandi áttum, myndið allt ferlið og setjið á YouTube. Löggan mun tapa því stríði.

Ósvífnasta fjölskyldan

Fjölmiðlun

Fjölskylda Jónínu Bjartmarz er ósvífnasta fjölskylda landsins. Hún fékk ríkisborgararétt fyrir tengdadóttur sína á brotabroti af tímanum, sem það tekur aðrar tengdadætur. Fremjandi verknaðarins var Bjarni Benediktsson, alþingismaður og þáverandi formaður allsherjarnefndar, verðandi ráðherra. Hafinn er flutningur máls, sem Björn Orri Pétursson og Lucia Celeste Molina Sierra höfða gegn Kastljósi vegna meiðyrða. Reynslan sýnir, að dómarar í Reykjavík eru andvígir lýðræði og tjáningarfrelsi. Þeir munu sleikja tærnar á ósvífnu fjölskyldunni, sem telur sig vera yfir annað fólk hafna.

Mikki komst næst árangri

Fjölmiðlun

Mikael Torfason komst næst því að rétta við fjárhag DV fyrir þremur árum. Með því að tengja milli gamals og nýs. Gamla uppreisnarfólkið las það áfram og unga fólkið fékk blöndu af nýrri uppreisn og skemmtun. Tilraun Mikka tókst þó ekki. Auglýsendur voru skelfdir og félagslegur rétttrúnaður skildi aldrei mikilvægi blaðsins. Samt var ljóst, að ekki mátti víkja af vegi hins nöturlega heiðarleika með birtingu nafna og mynda. Enda mistókst í byrjun árs 2007 að núllstilla DV á gamalt ár frá mínum blómatíma, t.d. 1990 eða 2000. Því tíminn flýgur hratt. Um síðustu áramót hófst önnur slík tilraun.

Myndskeiðið segir söguna

Fjölmiðlun

Yfirlögregluþjónninn á Patreksfirði talar í blaðaviðtölum eins og ekki sé til neitt myndskeið af atburðum. Lýsing hans stingur í stúf við veruleikann í öllum atriðum. Fórnardýr löggunnar stóð gegnt löggunum og lagði ekki á flótta fyrr en byrjað var að úða hann. Löggurnar eltu hann og felldu á jörðina, en hann réðist ekki á lögguna. Þetta grófa misræmi í umgengni Önundar Jónssonar við veruleikann kemur mér ekki á óvart. Á fimm áratugum í blaðamennsku hefur reynslan kennt mér, að löggur séu hraðlygnari en allar aðrar stéttir í landinu. Myndsímar eru eina vörn fólks gegn lögguofbeldi.

Margar þjóðir Íslands

Fjölmiðlun

Þjóðir Íslands eru margar og eiga fátt sameiginlegt. Flestir Íslendingar eru fullir hræsni og telja farsælt að velta ekki við steinum. Margir eru félagslega rétttrúaðir og vilja lúta leiðsögn vandamálafræðinga. Aðrir eru forvitnir, vilja kíkja út fyrir boxið, en telja öruggast að búa í boxinu þess á milli. Enn aðrir eru uppreisnargjarnir, hafa efasemdir um alla, sem berja sér á brjóst, einkum um pólitíkusa. Loks eru margir uppteknir af brauði og leikjum. Skrítinn er dans fjölmiðla milli þjóðanna. Þeir skilja fæstir gjána milli þeirra. Ætla sér að gleypa of margar þjóðir í senn.

Hryllilegar nafnbirtingar

Fjölmiðlun

DV hefur átt erfitt síðan árið 2002. Þá sturtaði Óli Björn Kárason því inn í Sjálfstæðisflokkinn, gerði það gjaldþrota. Síðan hefur mistekizt að koma því á skrið, þótt margt hafi verið reynt. Mistekizt hefur að tengja milli gamalla lesenda og unga fólksins, sem því miður vill ekki kaupa fjölmiðla. Smáauglýsingar dagblaða eru líka horfnar á vefinn. Þannig er DV að vissu leyti háð örlögum að utan. Við slíkar aðstæður hættir stýrimönnum til að velja fortíðina. Telja borga sig að sinna hræsnurum, sem hryllir við gusti og nafnbirtingum. Sjónarmið hræsni og uppreisnar munu þó seint sættast.

Fréttnæmt kjaftæði

Fjölmiðlun

Aron Pálmi á athyglisverða sögu, sem margir hafa fylgzt með. Hann er núna frjáls maður á Íslandi og er að byrja að fóta sig. Hefur sótt um vinnu í álverinu. Það er frétt, sem á erindi til okkar. Við viljum vita, hvernig honum gengur í lífinu. Það er bara eðlileg forvitni mannkyns. Samt kvartar Sigurður Þorfinnur Einarsson bloggari. Af hverju er þetta fréttnæmt, spyr hann. Hver þarf á öllu þessu kjaftæði að halda, spyr hann. Ég get frætt Sigurð Þorfinn um, að þetta var fréttnæmt. Frétt sem ég og margir fleiri telja sig þurfa. Mun fleiri en þeir fáu, sem kalla slíkar fréttir kjaftæði.