Fjölmiðlun

Clinton-hjónin eru gamaldags

Fjölmiðlun

Clinton-hjónin skilja alls ekki fjölmiðlun nútímans, einkum Bill Clinton. Hann er frá eldri tíma fyrir innreið bloggsins. Hann kunni á hefðbundna fjölmiðla, var vanur að geta skotið frá hulstrinu. Núna hafa ummæli hans verið gripin og dæmd ómarktæk innan fárra klukkustunda. Þetta segir Stephen Foley í Independent.co.uk í morgun. Ummæli eru ekki lengur “off the record” og gemsamyndavélar eru hvarvetna að störfum. Í stað fréttaskýringa, sem fylgja föstum reglum, eru komin hröð skot bloggara, sem fylgja fáum reglum. Barack Obama vann Hillary Clinton, því að hann kunni á fjölmiðlun nútímans.

Höfundasamtök minningargreina

Fjölmiðlun

Minningargreinar eru á Íslandi lykill almennings að pappír og prentsvertu. Slíkt lýðræði ríkir ekki erlendis, þar sem atvinnumenn í blaðamennsku semja flestar minningagreinar. Þær eru meira að segja skrifaðar fyrirfram og bíða í skjalaskápum eins og örlaganornir. Starfsgreinin er svo umfangsmikil, að til eru tvö félög höfunda minningagreina. Annað félagið, IAO, heldur glæsta ársfundi víða um heim, í Bath í Englandi og Las Vegas í Bandaríkjunum. Hitt félagið, SPOW, er þyngra á bárunni, heldur ársfundi á leiðindastöðum á borð við Toronto í Kanada. Skemmtilega Las Vegas þingið verður í næstu viku.

Furðuleg spurning barnsins

Fjölmiðlun

Furðulegt var að heyra viðtal stúlkubarns á sjónvarpinu við Ármann Snævarr, rektor emeritus. Hún spurði, hvers vegna í ósköpunum 88 ára gamall maður væri að semja fræðirit. Auðvitað stakk Ármann upp í barnið, sagðist vera á bezta aldri. Það er furðuleg árátta í samfélaginu að afskrifa fólk, sem er að ná fullum þroska. Margt ungt fólk telur sig vita allt og geta allt. Sjálfstraust þess er botnlaust og því sekkur það bara og sekkur. Sjónvarp er þeim annmörkum háð, að þar er ráðið fólk út á fegurð og sílikon, en ekki út á getu. Mín reynsla er sú, að ég byrjaði að fullorðnast eftir fimmtugt.

Hafði Árna fyrir rangri sök

Fjölmiðlun

Ég bið Árna Mathiesen fjármálaráðherra afsökunar, hafði hann fyrir rangri sök. Ég kannaði málið ekki sjálfur, trúði DV í morgun. Þar sagði, að hann hefði grætt tæpa milljón á einu ári með því að gefa upp rangt lögheimili. Þau voru fríðindi alþingismanna, þegar ég var ritstjóri, en hafa síðan verið aflögð. Árni græðir því ekki þessa tæpu milljón á því að gefa upp lögheimili hjá tveimur Pólverjum í Þykkvabænum. Ég veit ekki, hvers vegna hann gefur upp rangt lögheimili. En ég finn ekki neinn gróða hjá honum í því. Kannski er hann bara svona svifaseinn við að passa réttar skráningar.

Skrípakallar gegn málfrelsi

Fjölmiðlun

Enn vigta skrípakallar Héraðsdóms Reykjavíkur meiðyrði þyngra á metaskálar refsinga en nauðganir og ofbeldi. Þeir hafa kveðið upp enn einn úrskurðinn gegn málfrelsi í landinu. Hafa gert Ísafold, ritstjóra þess og blaðamanni að greiða tízkuupphæðina eina milljón auk birtingar- og málskostnaðar. Ísafold hafði skrifað satt um ástmöginn Ásgeir Þór Davíðsson og strípibúlu hans, Goldfinger. Dómurinn er meginskandall og dómarar Héraðsdóms eru meginskandall. Hatrið á tjáningarfrelsi er nokkurra ára gamalt í kerfinu. Áður var tekið vægar á sannleikanum, jafnvel um sjálfa þjóðkirkjuna.

Spunafólk og frægðarfólk

Fjölmiðlun

Blaðamenn, sem gerast spunakarlar, verða ekki samir menn aftur. Snúi þeir til baka, eru þeir áfram spunakarlar, ekki blaðamenn. Siðferðisgrunnur þeirra er orðinn annar. Þegar spunakarlar kjafta sig inn í stjórnunarstöður fjölmiðla, er voðinn vís. Það er einmitt að gerast hér á landi á nýhafinni öld. Jafnslæm er sú breyting, að blaðamenn verða frægðarfólk í sjónvarpi. Slíkar persónur geta ekki orðið blaðamenn að nýju. Það er einmitt orðið einkenni fjölmiðlanna, að völdin taka annars vegar spunafólk og hins vegar frægðarfólk. Slíkt magnar ógnir kranablaðamennsku og drottningarviðtala.

Yfirfrakki verður að dagblaði

Fjölmiðlun

Morgunblaðið er hætt að vera yfirfrakki á pólitíkinni, orðið að hefðbundnu dagblaði. Segir ekki lengur ríkisstjórn og flokksleiðtogum fyrir verkum. Veitir pólitíkusum ekki lengur misjafnlega vingjarnlega leiðsögn. Kallar menn ekki lengur á beinið, hádegisverðarfund með landsföðurnum Styrmi. Fáir sinntu kallinu, flestir gerðu grín að hádegisverðarfundunum. Blaðið hafði tapað sjálfskipaðri stöðu og virðingu sinni. Lesendur höfðu ekki áhuga á valdataflinu í Hádegismóum. Þeir keyptu ekki aðgang að tilskipunum út í loftið. Nýr ritstjóri hyggst gefa út dagblað, ekki yfirfrakka á pólitík.

Fréttir eru orðnar að spuna

Fjölmiðlun

Brezk athugun bendir til, að 54% af efni fjölmiðla sé meira eða minna frá spunakörlum komið. Versnandi fjárhagur fjölmiðla er orsökin. Þetta hórarí er þar kallað churnalism. Ástandið hefur snarversnað vegna síaukinna krafna um afköst blaðamanna. Í flýtinum er handhægt að grípa til fréttatilkynninga og annars efnis frá hagsmunaaðilum. Almannatenglar búa til heil innslög fyrir sjónvarpsfréttir. Þetta kemur til viðbótar gamalkunnu textreklame, þar sem umfjöllun er gefin sem bónus fyrir auglýsingar. Eigin fréttavinnsla er talin vera of dýr og verður undan að láta í sparnaðaraðgerðum fjölmiðla.

Hvar er nú perravinafélagið?

Fjölmiðlun

Ríkið hefur um síðir neyðst til að greiða hæstu skaðabætur til fórnardýra perrans á Ísafirði. Hann framdi sjálfsmorð fyrir nokkrum misserum. Össur Skarphéðinsson skrifaði þá fagra minningargrein um hann. Hjálmar Jónsson prestur og Hjálmar Árnason pólitíkus sökuðu okkur Mikael Torfason um að hafa drepið perrann. Allir voru þeir skúnkar að fiska í gruggugu vatni. Rétt eins og NFS, fréttasjónvarpið mikla, sem skömmu síðar lagði upp laupana vegna lélegra stjórnenda og starfsmanna. Og hvar eru bloggararnir, sem á sínum tíma æstu hver annan upp gegn DV? Sem kom þó upp um perrann.

Dýrð Styrmis er horfin

Fjölmiðlun

Fyrir aldarþriðjungi sótti ég um húsnæðisstjórnarlán, en fékk ekki. Því að ég neitaði að væla út lán hjá pólitískum stjórnarmönnum. Skömmu síðar var sú spilling aflögð. 1981-2002 gaf ég út 20 bækur um hesta og erlendar stórborgir. Hvorki voru sagðar fréttir af þeim í Mogga né birtir ritdómar um þær. Mér skildist, að Styrmir Gunnarsson vildi, að ég gengi á fund hans og vældi þjónustu út úr honum. Mér datt það ekki í hug. Því ríkti alger þögn á blaðinu um bækurnar. Spilling Styrmis var lífseigari en spilling húsnæðismálastjórnar. En nú er henni líka lokið, þannig fer heimsins dýrð.

Fyrrum ritstjóri hlær síðastur

Fjölmiðlun

Þegar ég var ritstjóri, fór mestur tími í annað en skrif. Jafnframt var ég lokaður inni í úreltu formi leiðarans, sem hentar ekki nútímanum. Ég varð ekki var við, að þeir væru mikið lesnir. Öfugt við ástandið núna, þegar ég hef vikum saman verið efstur á vinsældalista blogg.gattin.net. Þótt texti minn gefi ekki kost á athugasemdum, fæ ég meira af bloggpósti en ég kemst yfir að lesa. Þannig hefur mér ekki tekizt að setjast í helgan stein. Við að hætta sem ritstjóri hef ég öðlazt meiri lestur en áður. Ég sóttist að vísu ekki eftir áhrifum sem ritstjóri, en hlæ síðastur á grafarbakkanum.

Mogginn vaknar við kreppu

Fjölmiðlun

Morgunblaðið er loksins að vakna til vitundar um kreppu blaðsins. Nýir vindar blása með nýjum ritstjóra, Ólafi Stephensen. Alger mannaskipti hafa orðið í fremstu víglínu ritstjórnar. Þessu hefur fylgt fækkun starfsfólks. Hvort tveggja var nauðsynlegt. Mogginn var bæði þreyttur og feitur. Sömu menn höfðu verið of lengi við völd og réðu ekki við aðsteðjandi vanda. Of margir voru á kaupi frá þeim tíma, er blaðið var eins konar seðlaprentvél. Nú hefur blaðið ekki ráð á slíku. Fríblöð hafa tekið við sem blöð fólksins. Seld blöð þurfa að rifa segl og endurfæðast. Mogginn er byrjaður á því.

Fjallað með froðu um froðu

Fjölmiðlun

Las í tímaritinu Blaðamanninum erindi af mislukkuðu málþingi um íslenzku í fjölmiðlum. Græddi ekki eina hugsun á því. Erindin römbuðu út og suður með linnulausri froðu og fáum dæmisögum. Enginn kom nærri kjarna málsins: Í stað íslenzkra fornsagna og Halldórs Laxness er kominn froða, sem menn læra í skólum að semja. Þokukennd hugsun einkennir fjölmiðla, fréttir jafnt sem skoðanir. Málsgreinar eru langar og þreytulegar, nánast hvergi er bogi spenntur. Í kaflanum um textastíl á heimasíðu minni eru 24 fyrirlestrar með dæmum. Þeir skýra, hvers vegna ég tel íslenzkan fjölmiðlatexta lélegan.

Ekki venja að birta almenningi

Fjölmiðlun

“Af augljósum ástæðum er ekki venja að birta almenningi slík kort.” Þannig skrifar Andri Karl blaðamaður í Mbl.is í dag. Hann er að tala um kort vegagerðarinnar af svonefndum svörtum blettum. Það eru blettir, þar sem flest slys verða á vegum. Ofvaxið er skilningi mínum, hvernig Andri Karl telur kortin ekki eiga erindi við fólk. Auðvitað á fólk að sjá, hvar mest hætta er á vegum. Einhver embættismaður hefur í djúpri vizku ákveðið, að fólk megi alls ekki vita, hvar slysahættan sé mest. Hann sagði Andra Karli, og blaðamaðurinn trúði. Varla fann hann upp á vitleysunni sjálfur.

Langdreginn fréttatexti

Fjölmiðlun

Algeng þvogla í texta felst í, að höfundur slengir saman tveimur eða fleiri aðalsetningum í eina málsgrein. Oftast eru þær tengdar með OG eða EN. Þær verða því allt of langar og torskildar. Dæmi um þetta má sjá á bls. 4 í Mogganum í dag. Þar fjallar aðalgreinin um verð á sumarbústaðalóðum. Neðst í þriðja dálki er 45 orða málsgrein. Á bls. 6 er aðalfréttin frá fundi um geðheilbrgiði. Í fremsta dálki er 45 orða málsgrein. Þetta er langt umfram hefð í texta á íslenzku. Í góðum skoðanatexta eru lengstu málsgreinar ekki lengri en 23 orð. Í góðum fréttatexta fer lengd þeirra aldrei yfir 17 orð.