Fjölmiðlun

Langdreginn fréttatexti

Fjölmiðlun

Algeng þvogla í texta felst í, að höfundur slengir saman tveimur eða fleiri aðalsetningum í eina málsgrein. Oftast eru þær tengdar með OG eða EN. Þær verða því allt of langar og torskildar. Dæmi um þetta má sjá á bls. 4 í Mogganum í dag. Þar fjallar aðalgreinin um verð á sumarbústaðalóðum. Neðst í þriðja dálki er 45 orða málsgrein. Á bls. 6 er aðalfréttin frá fundi um geðheilbrgiði. Í fremsta dálki er 45 orða málsgrein. Þetta er langt umfram hefð í texta á íslenzku. Í góðum skoðanatexta eru lengstu málsgreinar ekki lengri en 23 orð. Í góðum fréttatexta fer lengd þeirra aldrei yfir 17 orð.

DV lokar aðgangi fjölmiðla

Fjölmiðlun

Undir forustu DV hafa hagsmunaaðilar kúgað slökkvistjóra Suðurnesja til að loka aðgangi fjölmiðla að samskiptakerfi brunavarna. Trausti Hafsteinsson blaðamaður dró á sjó mikla sveit sótrafta, sem voru sammála um, að opnunin væri afleit. Þar voru ónefndir brunaverðir, ýmsir slökkvistjórar, talsmenn Neyðarlínunnar og formaður félags brunavarða. Allt voru þetta menn, sem vörðu þægindi sín. Engan kallaði Trausti til sögunnar með aðra skoðun á málinu. Sigmundur Eyþórsson hefur neyðst til að loka aðganginum. Var þó opinn aðgangur tíðkaður áratugum saman í samræmi við gegnsæja stjórnsýslu.

Skattaskuld og einkamál

Fjölmiðlun

Sumir álitsgjafar telja óviðurkvæmilegt að 24 stundir segi frá skattaskuld Jakobs Frímanns Magnússonar. Þeir telja hana vera einkamál. Það er aldeilis fráleit skoðun. Sé maður ráðinn til að vera svonefndur miðborgarstjóri í Reykjavík, skiptir máli, að hann sé til fyrirmyndar. Ef allir höguðu sér í sköttum eins og Jakob hefur gert, væri ekki hægt að halda uppi rekstri hjá Reykjavíkurborg. Álagning skatta á ekki að vera neitt einkamál. Þaðan af síður eiga vanskil á sköttum að vera neitt einkamál. Allra sízt hjá mönnum, sem eru í sviðsljósinu vegna áhrifamikilla starfa hjá hinu opinbera.

Verið hrædd við kjúklinga

Fjölmiðlun

Verið þið hrædd, segir Fréttablaðið í drottningarviðtali í dag. Fjallar um sýkingar, sem steðja að okkur, ef við flytjum inn kjúklingakjöt. Þar talar Bjorn@frettabladid.is við hagsmunaaðila án þess að nefna gagnrök yfirvalda. Jarle Reiersen hjá Reykjagarði segir kamfýlóbakter sýkil munu flæða um landið, ef tekin verði upp evrópsk matvælalög. Hlýtur að valda áhyggjum herskaranna, sem hafa ferðazt um Evrópu og úðað í sig ódýrum kjúklingum. Einkum þeim, sem hafa gert það á sólarströndum, skæðasta kamfýlóstað Evrópu að mati Fréttablaðsins. Þetta er kranablaðamennska og innantómur áróður.

Ýkjur í Fréttablaðinu

Fjölmiðlun

Auðunn Arnórsson leiðarahöfundur fer með ýkjur í frétt og fyrirsögn í dag í Fréttablaðinu. Hann segir lögfræðinga telja, að þreyta þurfi stjórnarskrá landsins fyrir aðild að Evrópusambandinu. Ég hélt í sjónhendingu, að hann væri að tala um ályktun á fundi lögfræðinga. Við lestur fréttarinnar kom svo í ljós, að lögfræðingurinn er aðeins einn. Með fullri virðingu fyrir Björgu Thorarensen, þá er hún lögfræðingur, en ekki lögfræðingar. Ýkjum Auðuns er slegið upp í fyrirsögn og inngangi fréttarinnar. Ég efast um, að frétt af þessu tagi færi okkur nokkru nær sanni um væntanlegt Evrópuferli.

Einn stjórinn sér ljósið

Fjölmiðlun

Samkvæmt DV í dag heimilar slökkviliðsstjóri Suðurnesja fjölmiðlum að heyra útkallsrásir embættisins. Sigmundur Eyþórsson telur eðlilegt, að fjölmiðlar fái strax að vita, hvað sé á seyði, og séu vel upplýstir. Þessi stefna hans er afturhvarf til betri tíma. Þá tók Sveinn Þormóðsson myndir á vettvangi lögreglu og slökkviliðs í tæka tíð. Síðasta áratug hafa yfirmenn löggæzlu reynt að skrúfa fyrir aðgang fjölmiðla að vettvangi. Það náði hámarki með Tetra-samskiptakerfinu. Þetta er hluti af kontról-frík stefnu löggustjóra síðustu ára. Núna hefur einn embættismaður séð, að þetta var röng stefna.

Fréttablaðið fagnar þjófnaði

Fjölmiðlun

Í vikunni birti Fréttablaðið bjánaviðtal við leikkonuna Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Hún hrósaði sér af að stela páskaliljum úr almenningsgarði við Tjörnina til að setja í blómavasa. Viðtalið virtist vera byrjendaverk, sloppið hjá eftirliti ritstjóra. Nú hefur blaðið hins vegar bætt í ruglið. Kynnir í dag leikkonuna sem eins konar sigurvegara vikunnar fyrir stuldinn. Gerist í nafnlausum texta, sem er því beint á valdi og ábyrgð ritstjórans. Skýrt dæmi um ábyrgðarleysi og stjórnleysi og sinnuleysi yfirmanna. Þeir hafa líklega óviljandi gert Fréttablaðið að ítrekuðum málsvara þjófnaðar.

Jens er ekki marktækur

Fjölmiðlun

Jens Guð birtir atkvæðagreiðslur á vefsvæði sínu. Þar velja þátttakendur sjálfa sig í úrtakið. Kosningar þessar brjóta öll fræðileg lögmál kannana. Samt kallar Jens þær skoðanakannanir. Hann telur sér jafnframt kleift að gagnrýna fræðilegar skoðanakannanir. Segir nýja könnun á fylgi flokka í Reykjavík vera ómarktæka. Telur veruleikann undir niðri vera flóknari en þann, sem mælingin sýnir. Það má að nokkru satt vera. En Jens mætti þá taka mark á því í sínum eigin atkvæðagreiðslum. Ég á að vísu ekki að eyða tíma í að elta ólar við tvískinna bloggara. En því miður gengur Jens fram af mér.

Mogginn beztur í fréttum

Fjölmiðlun

Morgunblaðið er bezta fréttablaðið, þegar á reynir. Það slær í morgun upp alvörufrétt, ofsaflóði á Möðrudalsöræfum, sem hvolfdi 40 tonna trukki. Fréttablaðið slær hins vegar upp stofnanafrétt. Það er gervifrétt um, að stofnun í Reykjavík ætli að efna til samkeppni um skipulag, bla, bla, bla. Mogginn lýsir í dag atburðum, sem gerðust í gærkvöldi á Möðrudalsöræfum og birtir mynd af trukknum, sem lagðist á hliðina. Í fréttinni er meira að segja lýst á spennandi hátt, hvernig trukkurinn lagðist á hliðina. Lýst er neistaflugi, brothljóðum og olíuspýjum. Til hamingju með Moggann í dag.

Dr Gunni er frábær

Fjölmiðlun

Prívatmaðurinn dr Gunni hefur á eigin kostnað og fyrirhöfn haldið úti fínni okursíðu. Þar eru 500-600 skráningar hans og annarra á okri. Einkaframtak hans slær út félagsrekstur Neytendasamtakanna, ríkisrekstur Neytendastofu og neytendasíður fjölmiðla. Hann sýnir, hversu miklum árangri er hægt að ná án þess að smíða hátimbraðar hallir. Raunar gerir hann skömm til samtökum og stofnunum og fjölmiðlum. Hann er vel að Íslenzku neytendaverðlaununum kominn. Djarfur í tali og skrifar tæpitungulaust. Felur ekki skoðanir sínar í þokukenndar umbúðir að hætti kerfiskarla. Dr. Gunni er sannarlega frábær.

Ruslpóstur í síma

Fjölmiðlun

Ég hef ekki verið plagaður af ruslpósti í gemsa, en erlendis er fólk farið að kvarta. Við þurfum að borga fyrir hver skilaboð, sem við fáum í síma. Geta orðið samanlagt umtalsverðar upphæðir, sem við borgum fyrir að fá auglýsingar. Í tölvunum borgum við hins vegar ekki neitt. Menn eru erlendis farnir að heimta endurgreiðslu afnotagjalda. Ábyrgðin á ruslinu er á herðum símafyrirtækjanna. Því hafa þau verið að reyna að setja upp síur til að losna við ruslið. Fróðlegt væri að vita, hvort einhver er farinn að fá rusl í síma hér á landi. Gott væri þá að grípa til gagnaðgerða sem allra fyrst.

Rússneskt nám og íslenzkt

Fjölmiðlun

Var að lesa grein í Global Journalist um Byron Scott prófessor. Hann reynir að betrumbæta kennslu í blaðamennsku við háskólann í Moskvu. Eftir lýsingu blaðsins var kennslan þar svipuð og hér. Farið var yfir fjölmiðlafræði, en hagnýt atriði voru hornrekur. Því vilja rússneskir fjölmiðlar ekki menntaða blaðamenn. Þeir fá lægra kaup en ómenntaðir. Eins og á Íslandi. Af því að kennslan í Moskvu var út í hött. Eins og á Íslandi. Samkvæmt greininni mun Scott reynast erfitt að færa kennsluna í vestrænt horf. Prófessorarnir hafa efasemdir og eru sjálfir án reynslu af fjölmiðlum. Eins og á Íslandi.

Dagblöð þykja þar fín

Fjölmiðlun

Þótt útbreiðslu dagblaða hraki á Vesturlöndum eflist hún í þriðja heiminum. Þar fjölgar ört fólki, sem kann að lesa, og þar þykir fínt að lesa dagblöð. Útbreiddasta blað á enskri tungu er gefið út í Indlandi. Það er India Times og er gefið út í 3,5 milljónum eintaka. Auglýsingar eru meginefni dagblaða í þriðja heiminum og fréttaefnið dregur oft dám af auglýsingum. Vestrænar hefðir blaðamennsku eru ekki alls staðar hafðar þar í heiðri. Sumpart vegna þjónustu við auglýsendur og sumpart af ótta við yfirvöldin. Sums staðar birta dagblöð hvorki fréttir né brandara til að hafa frið fyrir löggunni.

Næturkappakstur í beinni

Fjölmiðlun

Upp úr miðnætti í nótt mátti heyra í kappakstri, spyrnu og klossbremsun vestast í Vesturbænum. Þetta stóð í um það bil klukkustund, heyrðist út á Seltjarnarnes. Ég vaknaði og hlustaði á lætin. Ekkert hef ég séð um þetta í fjölmiðlum morgunsins. Löggan hefur ákveðið, að kappakstur í húsagötum sé ekki fréttnæmur. Og fjölmiðlar birta ekki annað um löggumál en þann texta, sem löggan sendir þeim í tölvupósti. Fjölmiðlarnir hafa flúið skyldu sína. Þeir hafa því ekki hugmynd um það, sem gerist um nætur. Borgararnir hafa það ekki heldur, nema þeir séu svo heppnir að vakna upp við ólætin.

Hæstiréttur gætir samræmis

Fjölmiðlun

Hæstiréttur gætir samræmis í dómvenju. Hann sér um, að héraðsdómar fari ekki út af kortinu. Honum leizt ekki á, að tveir menn voru í héraðsdómi dæmdir í tveggja milljón króna sekt fyrir nauðgun. Rolandas Jancevicius og Arunas Bartakus gengu hrottalega fram, hæddust að konunni meðan þeir komu vilja sínum fram í biðskýli strætó. Sektin var helmingi hærri en sú upphæð, sem ritstjórar dagblaða eru dæmdir til að greiða fyrir að segja sannleikann um helztu slúbberta samfélagsins. Hæstiréttur lækkaði sektina niður 1,2 milljónir, svipað og ritstjórar eru látnir borga. Svona er Ísland í dag.