Fjölmiðlun

Fjölmiðlar fjarlægjast heimildir

Fjölmiðlun

Pétur Gunnarsson, eyjan.is/hux/, bloggaði í gærkvöldi nánar um vinnubrögð á fjölmiðlum. Breytingin frá 2002 til 2007 felst í, að nú eru birtar í fjölmiðlum heilar og hálfar tilkynningar frá spunakörlum málsaðila úti í bæ. Blaðamenn taka við sendingum þeirra, “sem tala við þá sem tala við þá sem vita hvað gerðist og þess vegna fjarlægjast fréttirnar atburðinn. Þetta er breyting frá því sem var.” Ég efast ekki um, að þetta er rétt lýsing hjá Pétri. Nýju vinnubrögðin eru andsnúin góðri blaðamennsku og hljóta að grafa undan henni. En ég skil núna, hvers vegna málfar hefur hrunið í fjölmiðlum.

Tala ekki lengur við vitni

Fjölmiðlun

Samkvæmt lýsingu Péturs Gunnarssonar á eyjan.is/hux/ verða lögreglufréttir til á þennan hátt: Spunakarl löggunnar skrifar lýsingu eftir yfirmanni, sem lýsir því sem undirmaður á vettvangi sagði yfirmanninum. Enginn þeirra lenti í atburðunum, sem lýst er. Maðurinn í bílslysinu, brunanum, ráninu talar ekki. Vitnið sjálft talar ekki. Notendur fjölmiðla fá bara illa gerða og mjög svo hagrædda frétt úr kerfinu. Réttar vinnureglur blaðamanna segja hins vegar, að blaðamenn verði sjálfir að tala við þá, sem lenda í fréttum. Samkvæmt þessu eru fjölmiðlar orðnir að málpípum stofnana með spunakarla.

Í leynilegu gæzluvarðhaldi

Fjölmiðlun

Dæmi um eymd hefðbundinna íslenzkra fjölmiðla er mál háskólakennarans, sem nauðgaði dætrum sínum og vinkonum þeirra. Hann var búinn að vera í gæzlu löggunnar í nærri mánuð, án þess að hún teldi heppilegt að segja þjóðinni frá. Það var ekki fyrr en háskólinn leysti manninn frá störfum, að DV skúbbaði fréttinni eftir dúk og disk. Kannski ætlaði löggan aldrei að segja okkur frá manninum. Þetta sýnir, hversu vanhæfir fjölmiðlarnir eru til að segja okkur ekta fréttir. Þeir hirða það, sem spunakarlar löggunnar senda þeim í tölvupósti. Meira eða minna orðrétt. Og leita sjálfir að engu öðru.

Spunakarl les fréttir

Fjölmiðlun

Spunakarl álversins í Straumsvík, Jón Hannes Stefánsson, les fréttir hjá Ríkisútvarpinu. Sigrún Stefánsdóttir dagskrárstjóri, yfirmaður Jóns, vissi ekki af samhliða vinnu hans hjá Rio Tinto. Samkvæmt Fréttablaðinu í morgun lítur hún ekki “á þetta sem neitt mál”. Óðinn Jónsson fréttastjóri er hins vegar ósáttur. Athyglisvert er, að þessi sama Sigrún hefur sjálf verið spunakerling hjá lögreglunni. Hefur kennt henni að stjórna fjölmiðlum. Skilur ekki múrinn milli fréttamennsku sinnar og almannatengsla og sér þess vegna ekki múrinn hjá Jóni Hannesi. Svona drabbast fjölmiðlar í spuna.

Hópur liggur undir grun

Fjölmiðlun

Morgunblaðið innleiddi þá hefð fjölmiðla, að birta ekki nöfn glæpamanna, heldur þrengja hóp hinna grunuðu. Þannig er núna sagt, að “háskólakennari” hafi nauðgað börnum sínum og öðrum börnum. Þar með sleppur samfélagið undan grun, sem beinist í staðinn að einum hóp manna. Hvers á sá hópur að gjalda? Mér hefur lengi fundizt þetta sérkennileg regla. Aðstæður geta að vísu verið þannig, að ekki sé hægt að birta nöfn. Til dæmis vegna hagsmuna barna glæpamannsins. En í slíkum tilvikum undantekningar er óráðlegt að klæða nafnleysið í þrengingu. Sem varpar grun á hóp manna í stað einstaklings.

Lögguvæðing fréttanna

Fjölmiðlun

“Lögreglan hefur innanhúss miklar almannatengsladeildir, sem skrifa að mestu leyti þær lögreglufréttir sem birtast í fjölmiðlum landsins nútildags.” Þetta segir Pétur Gunnarsson ritstjóri Eyjunnar í bloggi sínu, eyjan.is/hux/ í nótt. Mér brá, Pétur fylgist betur með fjölmiðlum dagsins en ég geri. Getur verið, að löggan skrifi fréttir í fjölmiðla? Skrifar þá Landsvirkjun fréttir fjölmiðla af umhverfi, orku og stóriðju? Skrifar þá forseti borgarstjóranr fréttir af borginni? Hafa fjölmiðlar afsalað hluta af starfsskyldu sinni til lygins hagsmunaaðila. Er það ekki lögregluríkið?

Hræsni fjögurra af sex

Fjölmiðlun

Ég valdi sex nafngreinda bloggara, sem skrifuðu af heift um Josef Fritzl, heimtuðu refsingar og pyndingar. Þar af fjórir, sem hafa sett fram skrítnar skoðanir á öðrum sviðum. Skoðanir, sem stuðla að einkalífi manna á borð við Fritzl. Þessir fjórir styðja samfélag einkalífs. Þeir telja, að engum komi við, hvað gerist inni á heimilum. Vilja refsa fjölmiðlum og papparössum fyrir að raska einkalífi fólks. Fjórir af sex kenna sögumanni um ótíðindi. Ef enginn hefði frétt af Fritzl, væri málið auðvitað dautt. Fjórir af sex heiftúðugum voru hræsnarar, reiðubúnir að taka þátt í næstu galdrabrennu.

Bændablaðið er mitt blað

Fjölmiðlun

Aðalblað landsins er Bændablaðið, 19. aldar blað á 21. öld. Þar eru fínar smáauglýsingar, þar fékk ég heyblásara til að blása spónum. Þar er fullt af gagnlegum hlutum og sætum myndum af kúm innan um textreklame auglýsenda. Fríblað, kostað af auglýsingum, sem gagnast bændum. Þar lýsir hugsjónamaður í löngu máli áratuga langri þrá sinni í að þjóna heilsu hesta. Hún leiddi hann til að fara að selja brezkt hestafóður, er fjórar kynslóðir fabríkanta framleiða. Í blaðinu verður aldrei rannsóknablaðamennska. En velgengni þess sýnir, að einstaka sinnum getur félagsrekstur slegið við einkarekstri.

Veruleikinn er oft einn

Fjölmiðlun

Bandarískir fjölmiðlar ganga langt í hlutleysi, vilja birta tvær skoðanir á hverju máli. Þótt veruleikinn sé bara einn. Á sumum málum eru einfaldlega ekki tvær hliðar. Jörðin er kúlulaga, ekki flöt. Því eru flatjarðarsinnar ekki marktækir. Ekki eru tvær jafngildar hliðar á afstöðu til þróunar lífs á jörðinni, til umhverfismála, til stríðsins gegn Írak. Í bókinni Right is Wrong ræðir Arianna Huffington vandann. Afskræmt hlutleysi fjölmiðla leiðir til, að ímyndun fær sama vægi og veruleiki í hugum fólks. Nærri helmingur Bandaríkjamanna ímyndar sér, að Saddam Hussein hafi sprengt tvíburaturnana.

Latur maður – lítið hey

Fjölmiðlun

Ég hef lítið birt af fjölmiðlarýni í þessum greinarkornum. Tilefnin eru að vísu dagleg. En ég nenni bara ekki að fylgjast svo náið með fjölmiðlum, að það gagnist í rýni. Stuttar útgáfur af pappírsfréttum blaða eru á netinu, oftast með minni froðu en í upphaflegu fréttunum, sem ég nota því ekki. Sjónvarp frétta er tilgangslítið. Þar fer hálftími í að koma að efni, sem rúmast á einni síðu í blaði. Myndin truflar auk þess fréttir. Ég hlusta stundum á þær, en horfi ekki. Mér væri þjáning að bæta úr þessu. Því hef ég sjaldan burði til að rýna fjölmiðla. Latur maður, lítið hey, segir klisjan.

Murdoch í glervörubúðinni

Fjölmiðlun

Time segir Rupert Murdoch takast að svæla út Marcus Brauchli, ritstjóra Wall Street Journal. Búast má við tilkynningu næstu daga. Murdoch keypti blaðið nýlega og mun breyta því í stíl við Fox sjónvarpið. Murdoch hefur hagsmuni í pólitík og vill, að fjölmiðlar sínir styðji þá. Til að þóknast dólgunum í Kína kastaði hann BBC út af Star sjónvarpskeðjunni. Einnig lét hann HarperCollins stöðva útgáfu bókar eftir Chris Patten, landstjóra í Hong Kong. Enginn fjölmiðla hans hefur fjallað um Rupert’s Adventures in China eftir Bruce Dover. Allir styðja stríð gegn Írak og Evrópusambandinu.

Sankti Gunnar kærir Árna

Fjölmiðlun

Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri fékk embætti á pólitískum grunni. Hann telur það jafngilda því að vera tekinn í heilagra manna tölu. Hann ætlar að kæra Árna Johnsen alþingismann fyrir gróft orðbragð um sig sem embættismann. Árni skrifaði grein í Moggann, sem var hófstilltari en flest það, sem Árni lætur frá sér fara. Gunnar kastar líka skít í Morgunblaðið, sem birti greinina með fullum rétti. Og einnig í Sjálfstæðisflokkinn. Ég held, að Gunnar sé úti á þekju. Brýnt er að viðhafa gróft orðbragð um meirihluta embættismanna. Um Gunnar Gunnarsson eins og aðra heilaga menn.

Varnarúði – ástarúði

Fjölmiðlun

Piparúðinn heitir varnarúði í Morgunblaðinu. Hví ekki kalla hann ástarúða? Væri í samræmi við söguna 1984 eftir George Orwell. Þar hafði stjórnin búið til tungumál, Newspeak, þar sem svart var hvítt. Innanríkisráðuneytið hét ástarráðuneyti og stríðsráðuneytið hét friðarráðuneyti. Stríðsráðuneyti Vesturlanda heita varnarmálaráðuneyti. Þaðan er orðið varnarúði. Jóhannes Nordal hóf Newspeak á Íslandi. Hann fann upp orðið gengisbreyting yfir gengislækkun. Alltaf er verið að ljúga að ykkur. Mér sýndust löggurnar með úðann ekki vera í neinni vörn. Fremur virtust þær vera að fá fullnægingu.

Sumir halda haus

Fjölmiðlun

Sænska nóbelsnefndin hefur sagt upp samningi við TV4 um að sjónvarpa hinni árlegu hátíð nefndarinnar. Það stafar af, að sjónvarpsstöðin leyfði dólgum Kína að ritskoða síðustu útsendingu. Klipptar voru út setningar, þar sem formaður nóbelsnefndarinnar mærði málfrelsi og fjölmiðlafrelsi. Á tímum sífelldra sorgarfrétta af ræfildómi og hundingshætti ríkisstjórna, þjóða, fyrirtækja, samtaka, einstaklinga. Nóbelsnefndin sænska kemur með logandi fífukveik inn í myrkur samtímans. Mér finnst sérstök ástæða til að fagna framtaki, sem stingur í stúf við kalda gróðahyggju alþjóðavæðingarinnar.

Íslandsmet í textreklame

Fjölmiðlun

Eitt mesta útgáfuhneyksli í mínu minni má sjá í Fréttablaðinu í dag. Þar er að verki fylgiritið Föstudagur. Á efnissíðum þess birtist forsíðuauglýsing og opnuauglýsing á húsi, sem yfirmaður á 365 miðlum er með í sölu. Oft hafa tímarit og fylgirit skautað á gráu svelli í textreklame, en ég man ekki svartari útfærslu en þessa. Ritstjóri Föstudags Fréttablaðsins er Marta María Jónasdóttir, húseigandinn og yfirmaðurinn er Freyr Einarsson. Þegar ég skrifa þetta að kvöldi, hafði ekki heyrst minnsta andvarp frá ritstjórum og útgáfustjóra 365 miðla. Textreklame starfsmanna er því stefna 365 miðla.