Fjölmiðlun

Menntun minnkar launin

Fjölmiðlun

Meðallaun BA/BS háskólagenginna blaðamanna eru 386.000 krónur. Meðallaun stúdenta í blaðamennsku eru 405.000 krónur. Meðallaun ómenntaðra eru 421.000 krónur í blaðamennsku. Hærri en laun magistera, sem eru 418.000 krónur. Ómenntað fólk fær hæst kaup. Segir allt, sem segja þarf. Menntun skaðar gengi fólks í blaðamennsku. Kemur heim og saman við mína reynslu, sjómenn voru beztir og bændur næstbeztir. Umpóla þurfti langskólagengnum, svo að þeir skrifuðu skiljanlega. Langskólagengið fólk kann ekki að skrifa. Þess vegna fær það lægri laun en ómenntaðir, sem kunna óspillta íslenzku.

Rafbyssu-blaðamaðurinn

Fjölmiðlun

Útvarpsmaður á Bylgjunni flytur inn rafbyssur handa löggunni til að skoða. Kristófer Helgason hefur meira að segja farið á námskeið í meðferð vopnsins og hefur orðið fyrir skoti. Hann lifði það af og er því til vitnis um ágæti vopnsins. Það hefur orðið milli 200 og 300 manns að bana erlendis. Í metnaðarlausu kranaviðtali Fréttablaðsins í dag rekur hann áróður fyrir meinleysi vopnsins. Hann er í senn vopnasali og blaðamaður, sem þarf að njóta trausts hlustenda. Ég fæ það ekki til að ganga upp. Einn og sami karlinn þykist vera blaðamaður, en er um leið spunakarl og vopnasali.

Togast á um líkið

Fjölmiðlun

Kennsla í blaðamennsku í Háskóla Íslands hefur verið skandall í fimm ár. Stöðugt er skipt um kennara. Jafnan er fiskað eftir dúllu, sem ekki skyggir á Þorbjörn Broddason prófessor. Námið er haft í flimtingum á fjölmiðlum. Í fimm ár hafa smákóngar í Háskóla Íslands eyðilagt nám, sem ætti að varða fjölmiðla miklu. Vegna bölsins reynir stjórnvísindadeild skólans nú að ná greininni af félagsvísindadeild. Aðrir háskólar fá ekki að reyna, Háskóli Íslands fær ríkispeningana. Þetta er háskólinn, sem þykist ætla að troða sér í hóp þúsund eða tíuþúsund beztu háskóla heims, ég man ekki hvort.

Sveppasýking Víkurfrétta

Fjölmiðlun

Víkurfréttir birtu á vefnum í gær tilkynningu frá Keili. Þar er vælt yfir frétt 24 stunda um sveppasýkingu í íbúðum á gamla varnarsvæðinu. Ég vek athygli á texta Víkurfrétta: “Velferð barna á svæðinu er stór þáttur” í sýn Keilis, segir blaðið. Textinn sýnir vel, hvernig almannatenglar vinna. Hann byrjar á lofrullu um ágæti Keilis og fjallar síðan um, að í mörgum íbúðum séu ekki sveppir. Eins og sveppafólkinu sé hugarró að því. Ég las alla tilkynninguna og sá, að hún staðfesti óbeint frétt 24 stunda. Sveppir eru til vandræða á vallarsvæðinu. Víkurfréttir hjálpa til við að fela það.

Vitnað í áróðursstofnun

Fjölmiðlun

Viðskiptablaðið hrósar skýrslu frá Centre for Policy Studies. Blaðið felur, að þetta er frjálshyggjustofnun. Var stofnuð til að dreifa áróðri fyrir minni ríkisumsvifum. Því eru það engar fréttir, að stofnunin telji lægri skatta auka velferð. Fer líka rangt með tölur, segir minna ríkisvald auka þjóðarframleiðslu. Við sjáum til dæmis, að Vestur-Evrópa hefur meiri velferð en Bandaríkin. Þar á ofan kostar álfan miklu meiri aðgerðir í umhverfismálum. Samt hækkar evran og þjóðarframleiðsla eykst hraðar í Evrópusambandinu en í Bandaríkjunum. Hærri skattar auka þjóðarframleiðslu.

Móðgaðir ritþjófar

Fjölmiðlun

Íslenzkur bloggari tók í fyrri viku heila grein upp úr erlendum fjölmiðli. Sagði ekki, hvaðan. Hvort tveggja hét ritstuldur í gamla daga. Bloggið hefur gert hann algengan. Margt ungt fólk þekkir ekki mun á réttu og röngu í því efni. Það er í skólum alið upp við að gera skýrslur, sem margar eru unnar svona. Í Goodbye Gutenberg segir Brent Walth ritstjóri og prófessor frá erfiðum samskiptum við nemendur. Þeir stálu villt og galið af vefnum til að smíða ritgerðir. Skildu ekki, að þeir hefðu gert neitt rangt. Urðu síðan móðgaðir, er þeim var vikið úr námi. Hannes Hólmsteinn er ekki einn.

Sameinaðir bloggarar

Fjölmiðlun

Blogg.gattin.net er bezti bloggsafnarinn. Þar sjást flestir sjálfstæðir bloggarar, sem máli skipta utan fjölskyldu og vina. Einnig sjást hinir, sem máli skipta á Eyjan.is og á stóru veitunum, Blogspot.com, Mbl.is, Visir.is. Til gamans mátti nýlega sjá í gáttinni, að fimm af topp tíu bloggurum þar voru úr ýmsum óháðum áttum. Síðan komu tveir frá Eyjunni og einn frá Vísi, Mogganum, Blogspot. Hvergi les ég á einum stað eins marga nothæfa bloggara. Þeir eru þó ekki fleiri en svo, að stundum skoða ég alla, sem eru að senda inn. Eða ég vel að sjá bara sérvalda bloggara, ef ég hef minni tíma aflögu.

Ekki garga á okkur

Fjölmiðlun

Ég les alltaf blogg Ómars Ragnarssonar. Hann er merkasti stjórnmálamaður landsins. Sem fréttamaður aflaði hann sér skotheldrar þekkingar á umhverfi, virkjunum og stóriðju. Þekkinguna notaði hann til að fara í stríð við eyðingaröflin. Sýnir tröllheimsku þjóðarinnar, að hún hafnaði Ómari sem stjórnmálamanni, kom honum ekki á þing. Þangað á hann meira erindi en 63 af núverandi þingmönnum. Hins vegar er Ómar gallaður sem bloggari. Hann skrifar of langar greinar á vefinn eins og pólitíkusum hættir til. Og hann skrifar fyrirsagnir með upphafsstöfum eins og hann vilji garga á okkur.

Stjörnudýrkun á siðblindu

Fjölmiðlun

Kappakstur.is, vefmiðill um Formúlu 1, lætur ekki veruleikann skyggja á stjörnudýrkunina. Skrúfar frá krana Max Mosley, formanns alþjóðasambands akstursíþrótta. Segist hafa verið leiddur í gildru með árás á einkalífið. “Slúðurblað” hafi atað hann auri með því að birta umfjöllum um “áætlaða kynlífsathöfn”. Ónefndir aðilar (Raikkönen?) innnan sambandsins hafi lýst stuðningi við hann. Kappakstur.is felur, að aulinn var kvikmyndaður í kvalalosta með fimm hórum (Er það einkalíf?). Að hann þeytti smjörklípum, þegar Benz og BMW, Toyota og Honda lýstu frati á hann. Að hann fær ekki að koma til Bahrain. Að hann er afskrifaður. Sir Stirling Moss segir það.

Leiðrétting: Um daginn hafði ég Björgvin G. Sigurðsson ráðherra fyrir rangri sök um vitlausa frumvarpið um stimpilgjöld. Árni Mathiesen ráðherra leggur það fram.

Einstefnubrú frá blaðamennsku

Fjölmiðlun

Fjölfarin brú er milli blaðamennsku annars vegar og stjórnmála og spuna hins vegar. Margir prófa blaðamennsku snemma á lífsleiðinni, en hverfa síðan til stjórnmálaflokka eða almannatengsla. Blaðamenn lyfta góðum siðum á gamla og nýja vinnustaðnum með því að fara yfir brúna. Þeir geta sér gott orð í pólitík og spuna. Og þeirra er ekki saknað í blaðamennsku. En þessi brú hefur einstefnu, bara úr blaðamennsku, ekki til baka aftur. Þeir, sem fara í pólitík og spuna, verða aldrei samir menn aftur. Þeir líta afstætt á sannleikann. Eru orðnir braskarar og verða aldrei aftur nothæfir fagmenn.

Spunalopi gegnumlýstur

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar bregðast, er þeir skýra frá pólitík, þar sem fólk notar tungumál til að leynast. Samanber Samfylkinguna, sem samþykkti texta um stóriðju og stórvirkjanir á flokksstjórnarfundi sínum. Ályktunin var torskilin. Með nokkurri fyrirhöfn fann ég, að hún þýddi: Samfylkingin vill stóriðju, en vill tefja framgang hennar um átta mánuði. Þægilegra hefði verið að lesa skýringuna í fjölmiðli. Svo að ég þyrfti ekki að eyða sjálfur tíma í túlka hana. En slíkt er sumt efni fjölmiðlanna. Það er þvættingur beint af rokki spunakarla. Fjölmiðlarnir gerast meðsekir þeim, sem vilja blekkja fólk.

Afhausa, grýta, hengja

Fjölmiðlun

Menn kalla Geert Wilders ófögrum nöfnum. En hann er þó ekki Chamberlain Vesturlanda. Með stuttmyndinni Fitna ræðst hollenzki pólitíkusinn á undanlátsstefnu á Vesturlöndum. Hann er andvígur tilskipunum um morð á rithöfundum (Salman Rushdie). Andvígur morðum á kvikmyndaframleiðendum (Theo van Gogh). Andvígur afhausunum blaðamanna (Daniel Pearl), grýtingu kvenna og hengingu homma. Talsmenn múslima á Vesturlöndum komast upp með að fordæma ekki villimennsku meðal múslíma. Í slíkum svikráðum eru þeir studdir af þeim, sem kalla Wilders hægri sinnaðan lýðskrumara og rasista.

Auglýsingar í meginmáli

Fjölmiðlun

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, kom út í morgun. Með fylgiritinu er annað fylgirit, sem heitir Tækni og afþreying. Það er fullt af auglýsingum eins og flest aukablöð. Milli auglýsinganna hefur þó verið komið fyrir tveimur fréttum. Ef fréttir skyldi kalla. Önnur er dulbúin auglýsing á símafélaginu Nova og hin er dulbúin auglýsing á símafélaginu Vodafone. Ég minnist þess, að í gamla daga börðust ritstjórar dagblaða gegn ágangi auglýsingadeilda. En núna hafa þær yfirtekið ritstjórnina. Allt efni aukablaðsins er samfelld auglýsing. Ritstjórnin hefur kvatt og farið heim.

Leynihöfundar í dagblöðunum

Fjölmiðlun

Fríblöðin eru betur merkt höfundum en þau seldu. Í Fréttablaðinu er nánast hver smáfrétt merkt höfundi. Engar skoðanir eru ómerktar þar og raunar ekki heldur í 24 stundum. Í því blaði er meira um ómerktar smáfréttir. Mogginn og DV eru hins vegar syndum spillt, Mogginn sýnu verr. Þar er fjöldi frétta ómerktur, mest af slúðrinu og flestar eigin skoðanir, svo sem leiðarinn. Þar eru Víkverji, Staksteinar og Velvakandi. Í DV er mikið slúður ómerkt, bæði innlent og erlent. Víða um blaðið eru Sandkorn. Þar eru Sandkassi og ættfræði ómerkt, líka Svarthöfði endurvakinn. Þetta er úrelt í dagblöðum.

Fitna er góð stuttmynd

Fjölmiðlun

Fitna er góð stuttmynd. Hún sýnir, að ofbeldishneigðir kaflar eru í Kóran múslima. Alveg eins og í Gamla testamentinu. Hún sýnir, að sumir klerkar múslima eru ofbeldishneigðir. Sennilega fleiri en kristnir klerkar. Myndin þyrfti þó að sýna ræfildóm vestrænna múslima gagnvart ofbeldispredikunum klerkanna. Múslimar gagnrýna ekki ofbeldisóða klerka sína. Þeir leyfa þeim að rasa út án þess að tefla fram friðsamlegum röksemdum. Orka vestrænna múslima fer í að heimta skorður við vestrænu tjáningarfrelsi. Það eru ekki meintir rasistar, sem hafa bilað, heldur venjulegir vestrænir múslimar.