Fjölmiðlun

Hræðast vondar skoðanir

Fjölmiðlun

Voltaire sagði: “Ég er reiðubúinn að deyja fyrir tjáningarfrelsi þitt, þótt ég sé þér alveg ósammála.” Pétur Tyrfingsson lýsti í nótt í bloggi þremur reglum um tjáningarfrelsi: Menn mega tjá sig hvernig sem er og komna því á framfæri hvar sem er; engar skoðanir eða lífsstíll eru yfir gagnrýni hafin; trúarbrögð hafa ekki friðhelgi fram yfir annað. Pétur bendir á, að það hafi frá nítjándu öld verið forsenda okkar samfélags. Pétur: “Það er veikleiki margra þeirra sem kalla sig vinstrimenn … að þeir hafa aldrei lært að gera greinarmun á því að vera á móti einhverri skoðun og vilja banna hana.”

Tjáning Mathiesens

Fjölmiðlun

Árni Mathiesen kallar gagnrýni á sig aðför að tjáningarfrelsi sínu. Annan eins nautaskít hef ég ekki séð á prenti árum saman. Hvað kemur það við tjáningarfrelsi, að menn séu andvígir eða geri grín að skoðunum í grein Árna gegn umba Alþingis? Nákvæmlega ekki neitt. Árni nennir eða getur ekki tjáð sig rökvíst. Hann fattar ekki, að almenningur eigi skilið, að hann vandi sig. Honum dettur ekki í hug að vanda sig, þegar hann þarf að koma einhverju frá sér. Hann bullar bara það fyrsta sem honum dettur í hug. Hann er líka bara götustrákur úr Hafnarfirði, fæddur með silfurskeið í munni.

Hundaskítur á forsíðu

Fjölmiðlun

Forsíðumynd Moggans er gamalkunn mynd af manni í rúmi. Hann er sagður hafa slasast, sem sést þó ekki á myndinni. Samt ber Mogginn höfuð og herðar yfir önnur dagblöð í forsíðumynd dagsins. DV er sem oftar ekki með eiginlega forsíðumynd. En með forsíðufréttinni er safnmynd af húsum, sem tengjast ekki fréttinni. Fréttablaðið er með drungamynd af ónafngreindu fólki og meðfylgjandi texta, sem virðist vera óbein auglýsing fyrir Ingvar Helgason. Botninum ná svo 24 stundir með nærmynd af hundaskít á forsíðunni, óhentugt á morgunverðarborði. Ljósmyndastjórar dagblaðanna þurfa að taka sér tak.

Minningargrein á afmælinu

Fjölmiðlun

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar hefðbundna minningargrein í 24 stundir um Styrmi Gunnarsson ritstjóra sjötugan. Jón Baldvin er æskuvinur Styrmis og slær ekki slöku við í lofgerðinni. Greinin er þó einkum markverð fyrir þá sök, að hefðbundinn stíl minningargreina er notaður við afmælisgrein. Mér finnst það ólíkt skynsamlegra en að skrifa um látið fólk. Slíkt er eins og síðbúin auglýsing fyrir vöru, sem hefur verið tekin úr framleiðslu. Lifandi fólk getur lesið greinarnar um sig og hrærzt af hetjudýrkuninni. Bezt væri, að Mogginn notaði meira pláss undir afmæli en hann notar undir minningar.

Skrímslafréttir vinsælar

Fjölmiðlun

Vinsælasta fréttin á Eyjan.is er um karl, sem gengur með barni. Sú næsta í röðinni fjallar um indverska stúlku, sem fæddist með tvö andlit. Fréttamat notenda hefur ekkert breyzt um aldir. Þegar fréttamiðlar komu til sögunnar fyrir fjórum öldum, voru skrímslafréttir vinsælar. Til dæmis af eldspúandi drekum. Þá voru fyrirsagnir svona: “Grátandi móðir. Frétt um grimmilegt og hræðilegt morð á herra Trat.” Sú frétt var raunar sönn, Trat var skorinn í parta. Ekki er fráleitt að ætla, að eitthvað sé hæft í slíkum fréttum núna. Karlinn gengur sennilega með barni og stúlkan er sennilega með tvö andlit.

Viðtal við nafnlausan

Fjölmiðlun

Enn eru nafnlausir greinahöfundar plága á fjölmiðlum. Staksteinar Mogga eru sígilt dæmi. Leiðari blaðsins skiptir minna máli, því engir lesa hann. Nú hefur nafnlaus dálkahöfundur verið fluttur af Mogga yfir á DV. Í tilefni af því hefur í dag hinn nýi vinnuveitandi viðtal við starfsmanninn. Þar með er komið að hástigi dónaskaparins. Höfundur blaðsins er ekki bara nafnlaus, heldur er talað við hann nafnlausan. Fjölmiðlar komust upp með nafnleysi í gamla daga. Ég var á DV lengi að losna við Svarthöfða, sem ég erfði úr dánarbúi Vísis. En það tókst. Í gegnsæi nútímans er nafnleysi fráleitt.

Hvar er hauskúpan

Fjölmiðlun

Enginn fjölmiðill hefur svo ég viti birt mynd af hauskúpunni, sem fannst um páskana á Kjalarnesi. Talað er um hana sem hauskúpu eða hluta af hauskúpu. Handhafi gripsins gaf sig fram og þóttist ekki hafa vitað, að hún væri af manni! Gallinn við fréttina er, að engin mynd birtist af hauskúpunni. Samt hlýtur að skipta máli fyrir notendur frétta, að þeir sjái umdeildan hlut, svo að þeir geti myndað sér skoðun á málinu. Þetta er líklega hluti af “need to know” stefnunni: Að pupullinn skuli fá að vita nákvæmlega það, sem vísir menn og hliðverðir telja hann þurfa að vita. Ekki gramm umfram það.

Ritstjórar tala út úr hól

Fjölmiðlun

Sigurjón Egilsson, þáverandi fréttastjóri Fréttablaðsins, hefur bloggað um dularfullan atburð á ritstjórn þess. Þorsteinn Pálsson ritstjóri gekk hart fram í að fá Sigurjón til að eyða gögnum í tölvupóstmálinu. Það snerist um aðförina að Baugi. Þá hafa ritstjórarnir Styrmir Gunnarsson og Þorsteinn Pálsson ekki svarað frétt Herðubreiðar um vitneskju Styrmis um yfirvofandi húsleit hjá Baugi. Báðir hafa talað út úr hól að hætti lögmanna. Það eykur traustið á frétt Herðubreiðar. Embætti ríkislögreglustjóra reynist vera hlaupatík kolkrabbans og Styrmis. Þorsteinn er kominn í yfirhylminguna.

Skítugar rannsóknir

Fjölmiðlun

Alvarlegasta afleiðing samdráttar í fréttamiðlum eru lakari fréttir. Þegar dregin eru saman segl, er fyrst hætt við þær fréttir, sem eru dýrastar. Það er rannsóknablaðamennskan, sem verður útundan. Hún kostar mikið fé, mikinn tíma, mikla þolinmæði. Svo hefur komið í ljós, að notendur fjölmiðla fagna ekki rannsóknum. Traustið á Washington Post minnkaði í Watergate-málinu, sem gerði blaðið frægt. Skíturinn, sem grafinn er upp í rannsóknum, límist við fjölmiðlana sjálfa. Við höfum fræg dæmi um slíkt hér á landi. Hópar geðsjúklinga svívirða fjölmiðla og fjölmiðlunga, sem velta við steinum.

“Markmiðið náðist”

Fjölmiðlun

Ríkissjónvarpið sagði áðan í kvöldfréttum rangt frá ummælum George W. Bush Bandaríkjaforseta í maí árið 2003. Hann sagði ekki, að “mestu átökin væru afstaðin” í stríðinu gegn Írak. Hann sagði “mission accomplished”, sem þýðir, að markmiðið náðist. Af þessu var tekin minnisstæð ljósmynd um borð í bandarísku herskipi. Hún var raunar síðar ritskoðuð og orðin “mission accomplished” þurrkuð út. Langur vegur er milli “mestu átökin afstaðin” og “mission accomplished”. Ég velti fyrir mér, hvort fölsun ríkissjónvarpsins sé angi af áráttu fjölmiðla nútildags að milda og fegra staðreyndir.

Kenna okkur efahyggju

Fjölmiðlun

Stríðið gegn Írak hefur kennt okkur að vantreysta skyggnum, sem sendimenn nýlenduríkja sýna í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Gereyðingarvopn Íraks voru ekki til, þótt Colin Porter sýndi myndir af þeim. Leyniþjónustur nýlenduríkjanna hafa sætt sig við, að stjórnvöld falsi skýrslur þeirra. Var fyrir löngu orðið ljóst í Bretlandi og um daginn einnig í Bandaríkjunum. Á fölsuðum forsendum var farið í stríð með tilheyrandi glæpum. Hér eftir verður blásið á fullyrðingar leyniþjónustanna, hvort sem þær hafa verið ritskoðaðar eða ekki. Heilbrigð efahyggja tekur við af taumlausri trúgirni.

Sannleikur og sætar skoðanir

Fjölmiðlun

Pólitískur rétttrúnaður fjallar meðal annars um, að fólk eigi bara að viðra sætar skoðanir, en ekki “hatursræðu”. Í Þýzkalandi reynir rétttrúnaður að hindra birtingu sannleikans um hryllingsríkið Ísrael. Í Bandaríkjunum jafngildir landráðum að efast um leiðtogann mikla á stríðstíma. Í Hollandi og á Norðurlöndum bannar rétttrúnaður, að sannleikurinn sé sagður um íslam. Að það er frumstæð eyðimerkurtrú með kvenhatri og ofbeldisdýrkun. Eins og raunar líka Gamla testamentið. Skaðlegur er pólitískur réttrúnaður af þessu tagi. Enginn hefur burði eða vald til að stimpla skoðanir sem “hatursræðu.”

Snarpur málfundur í bloggi

Fjölmiðlun

Björn Bjarnason hóf umræðuna föstudaginn langa. Hallgrímur Thorsteinsson og Össur Skarphéðinsson gripu hana samdægurs. Guðmundur Magnússon og Egill Helgason héldu henni áfram laugardaginn. Hallgrímur og Pétur Tyrfingsson luku henni aðfaranótt sunnudagsins. Þeir ræddu ummæli Björn um vegvísi til Evrópu og um skiptingu pólitíkusa í göslara og masara. Ekkert dagblað komst nálægt umræðunni. Hún hófst og endaði án afskipta hefðbundinna fjölmiðla. Auðvelt var að fylgjast með henni á blogg.gattin.net. Vefurinn hefur mátað pappírinn í snörpum skoðanaskiptum. Málfundurinn hefur verið endurvakinn.

Tala í sínum einkamiðlum

Fjölmiðlun

Umræðan um vegvísi til Evrópu og um göslara og masara í pólitík var flutt á heimasíðum aðila. Athugasemdir nafnleysingja neðanmáls skiptu engu. Þetta er heilbrigð þróun í skoðanaskiptum á vefnum. Nafngreindir menn, sem allir kannast við, skiptast á skoðunum. Hver þeirra talar frá sínum einkamiðli, sínu púlti. Bloggsafnarar eins og Blogg.gáttin.net og Eyjan.is raða svo ummælum upp á þráð fyrir okkur þá lötu. Við getum sett okkur inn í umræðuna alla, þegar okkur hentar. Aðrir fylgjast með henni í rauntíma. Í stað samtals höfundar við aðdáendur er komið samtal milli ábyrgra heimasíðna.

Skrípó af Jesú Kristi

Fjölmiðlun

Nánast daglega birtist í dagblöðum heilsíðu skrípamynd af Jesú Kristi með þyrnikórónu. Hann er hafður fávitalegur á myndinni, en enginn gerir sér rellu út af því. Það er af því að við búum í samfélagi, sem gerir sér ekki rellu út af tjáningu fólks. Veraldlegu samfélagi, sem hafnar bannhelgi. Vesturlönd komu sér upp slíku samfélagi í kjölfar frönsku og bandarísku byltinganna í lok átjándu aldar. Lönd múslima hafa ekki frelsast á sama hátt undan trúarkreddum. Þegar múslimar fara til Vesturlanda verða þeir að laga sig að öðrum siðum, svo sem birtingu teikninga af spámönnum.