Fjölmiðlun

Íslenzk sætsúpa

Fjölmiðlun

Fjölmiðlaþróun á Íslandi er svipuð og í Bandaríkjunum, þótt hún sé síðar á ferðinni hér. Ungt fólk er áhugalítið um fréttir, kaupir ekki dagblöð og nennir ekki að horfa á sjónvarpsfréttir. Þetta leiðir til vanþekkingar á umheiminum. Þar að auki hefur þróast hér á landi krumpuð útgáfa af fréttum. Það eru gerilsneyddar fréttir, sem forðast blóð, svita og tár. Íslendingar vilja brenglaðar fréttir, nafnlausa sætsúpu, sem sparar fólki áhyggjur af illa séðum veruleika. Bandarískir fjölmiðlar eru lausir við sætsúpuna, en eru samt á undanhaldi. Ég held, að hér séu erfið ár framundan í fjölmiðlun.

Véfrétt talar dulmál

Fjölmiðlun

Rúv.is segir í gær, að “umræddur fíkniefnabrotamaður” hafi tapað máli gegn “fyrrverandi ritstjóra og blaðamanni” Blaðsins. Slíkt er nafnleysi sumra fjölmiðla í dag. Svo geld er sum blaðamennska orðin hér. Fréttamenn skjálfa af ótta við Persónuvernd. Hversu margir eru fyrrverandi ristjórar Blaðsins? Er ekki nærri þeim öllum höggvið í texta fréttar Rúv? Kemur kannski frétt í Rúv.is um, að “gullsmiður í Fálkagötu” sé sakaður um að hafa nauðgað hinni frægu “konu í Vesturbænum”? Því getur Rúv.is ekki sagt sannleikann í þessu máli? Að Sigurjón Egilsson var sýknaður af kæru Franklíns Steiner.

Íslenzk teikning af spámanni

Fjölmiðlun

Eðlileg er birting íslenzkrar teikningar af Múhameð spámanni í DV í morgun og í Sögunni allri á morgun. Hún er í samræmi við samfélag, sem reis á Vesturlöndum í kjölfar byltinganna í Frakklandi og Bandaríkjunum í lok átjánu aldar. Þá var oki presta létt af kristnum þjóðum, þær urðu frjálsar. Allt var þetta í anda Voltaire, sem barðist gegn hræsni og miðaldahyggju, sem enn stýrir heimi Íslams. Bylting fólkksins gerði því kleift að hæðast að trúarhræsni, þar á meðal hræsni múslima. Eðlilegt er, að Salmann Tamini biðjist afsökunar á að hafa reynt að troða íslömskum miðöldum upp á Ísland.

Eins og Rómverji í Róm

Fjölmiðlun

Ef ég er í Tyrklandi, fer ég úr skónum, þegar ég geng inn í mosku. Af því að þar er til þess ætlazt. Ef ég er í Sádi-Arabíu, forðast ég áfengi. Af því að þar er til þess ætlazt. Þetta eru þættir af reglunni: Þegar þú ert í Róm, hagar þú þér eins og Rómverjar. Ég segi ekki múslimum, hvernig þeir eigi að haga sér í heimalöndum þeirra. En ég ætlast til hins sama af þeim. Ég ætlast til, að þeir hagi sér eins og Íslendingar, þegar þeir eru á Íslandi. Finnst fráleitt, að fulltrúi múslima komi hér fram í fjölmiðlum með framandi forskrift um, af hverjum ég megi ekki teikna skrípamyndir.

Undir borði og teppi

Fjölmiðlun

Anna er með Lísu vinkonu í mat hjá pabba og mömmu. Undir borði eru þær að senda skilaboð í gemsa. Pabbi segir, að við borðhald sé dónalegt að vera í sambandi við annað fólk. Anna segir, að þær Lísa séu að senda hvor annarri skilaboð, sem þær vilja ekki, að pabbi og mamma heyri. Gunna horfir á sjónvarp með teppi yfir sér. Undir teppinu er hún að tala við vini sína í skilaboðum í gemsa, án þess að fjölskyldan taki eftir. Engir hafa tekið farsímum eins fagnandi og unglingar. Þeir losna úr sambýli við foreldra við matarborðið og sjónvarpið. Og einbeita sér að samfélagi skilaboðavina.

Mamma á Facebook

Fjölmiðlun

Hvað skal gera, ef pabbi eða manna spyrja, hvort þau megi vera bloggvinur á Facebook eða MySpace? Þetta er spurning, sem sumir unglingar hafa þurft að svara. Þeir nota samfélag bloggvina til að skilgreina sig sem sjálfstæðan einstakling, aðgreindan frá fjölskyldunni. Síðan vill fjölskyldan komast inn í þetta samfélag. Til að halda tengslum við ungling, sem aldrei næst samband við. Hópar ungs fólks hafa myndað samtökin “abolish parent” til að hamla gegn þessu. Þau segja unglingum, hvernig megi halda gamlingjunum utan við. Svo eru líka til dæmi um, að kynslóðir hafi náð saman á Facebook.

Góðu boði hafnað

Fjölmiðlun

Ég bauð prófessorunum Þorbirni Broddasyni og Ólafi Þ. Harðarsyni að kenna hagnýta fjölmiðlun. Starfið var laust. Var ofurhæfur í það, en fórnaði mér af hugsjón. Skartaði hærri einkunn fyrir háskólakennslu en prófessorinn í fjölmiðlafræði. Hampaði einnig kennslubók í fjölmiðlun eftir tveggja ára kennslu. Það er meira en prófessorinn hefur afrekað á langri starfsæfi. Bókin er í formi vefrits hér á síðunni. Veifaði líka hálfrar aldar reynslu í faginu, jafngildi doktorsgráðu. Tilboði hvíta riddarans var auðvitað ekki tekið, enda í valdi haltra fótgönguliða. Svona er Háskóli Íslands í dag.

Gáttir bjarga bloggi

Fjölmiðlun

BloggGáttin er bezta bloggsafn landsins, gerir grisjun kleifa. Er með alla, sem ég þarf að skoða, með Egil Helgason efstan. Þar er fólk af Mogga- og Vísissafni og af Eyjunni og Blogspot, auk BloggGáttar og einstæðinganna. Mogga- og Vísissöfn eru full af bloggi, sem er ætlað fjölskyldu og vinum bloggara. Vísir er að auki með mýgrút nafnlausra. Eyjan hefur þröngan blogghóp, þar sem fæstir eru áhugaverðir. Misheppnað safn, þótt svæðið í heild sé markvert. Svona hugleiðingar skipta máli. Blogg er orðið svo ríkur þáttur skoðana, að fáir komast yfir að lesa það. Nema með hjálp gáttar.

Dauðar pappírsskoðanir

Fjölmiðlun

Skoðanir eru dauðar í dagblöðum. Ég hef fleiri lesendur í blogginu og meiri viðbrögð en ég hafði um áratugi í leiðurum. Fáir lesa slíka og enn síður sjálfmiðjaða Velvakendur eða Stuð milli stríða. Kjallaragreinar eru einkum eftir hagsmunaaðila fyrirtækja, samtaka eða stofnana, oftast skrifaðar af almannatenglum. Stundum hefur Fréttablaðið góða bakþanka og DV góða grein á einum torfundnum stað inni í blaði. Bloggið hefur tekið við. Ég fæ meira út úr skoðunum í BloggGáttinni á fimm mínútum á dag en í samanlögðum blöðunum. Þótt bloggið sé fátækt í fréttum og skúbbi, þá á það alla umræðuna í dag.

Síðbúin ritskoðun

Fjölmiðlun

Arababandalagið samþykkti fjölmiðlasáttmála, sem gerir stjórnvöldum kleift að skrúfa fyrir frjálsa fjölmiðlun. Það var að undirlagi afturhalds- og trúarofstækisstjórnar Sádi-Arabíu og þjófnaðar- og pyndingastjórnar Egyptalands. Þessi ríki kvarta stöðugt yfir réttum fréttum frá Al Jazeera í Katar, sem hlífir ekki stjórnvöldum. Katar sat hjá við kosninguna, Líbanon greiddi atkvæði á móti. Draumar stjórnvalda í fornum heimi Íslams munu ekki rætast. Fólk í löndum þeirra fær sjónvarp frá vestrænum gervihnöttum. Meira máli skiptir, að það hefur greiðan aðgang að sönnum, vestrænum veffréttum.

Villast í veftekjum

Fjölmiðlun

Canon, Lotto og Landsbankinn á mbl.is, Happdrættið, Hátækni og 11-11 á vísir.is. Aumar eru auglýsingar á vefjum fjölmiðla í dag. Gerólíkt þéttum auglýsingum í pappírsmiðlunum. Einungis gamaldags fánar (banners) á forsíðu eins og í upphafi vefaldar fyrir áratug. Lítið er borgað fyrir svona fána. Engar auglýsingar, sem elta efnið eins og á Google. Tekjur að hætti Google á vefnum ná ekki til íslenzkra fjölmiðla, auglýsingastofa og auglýsenda. Hefðbundnir fjölmiðlar verða samt að finna nýja tekjupósta á vefnum til að lifa af andlát pappírs- og sjónvarpsfrétta. Finna tekjur að hætti vefsins.

Vefur étur pappír

Fjölmiðlun

Ekkert getur hindrað, að vefur taki við af pappír sem fréttamiðill okkar. Hefðbundin dagblöð sæta fækkandi áskrifendum, því að ungt fólk kaupir ekki fréttir. Fríblöð standa betur, en munu falla í næstu lotu, er auglýsingar hverfa af pappír yfir á vef. Enn hefur að vísu ekki orðið til frambærilegt viðskiptaumhverfi á vefnum. Fyrr mun umhverfið spillast á pappírnum og millibilsástandið verður erfitt. Fæstir útgefendur átta sig á, hversu alvarlegt málið er. Frétttamennska verður um tíma nöturlegri en áður vegna niðurskurðar útgjalda. Löngu síðar mun vonandi aftur birta. Og þá á vefnum.

Lygasögur af látnum

Fjölmiðlun

Fátt er í Mogganum utan menning og lygasögur af nýlátnum. Þar er sérvitur pólitík, innanhéraðskróníka í Sjálfstæðisflokknum. Þar eru kjallaragreinar eftir hagsmunaaðila fyrirtækja, samtaka og stofnana. Þar er mikið slúður, en eingöngu erlent slúður, sem snertir okkur lítt. Þar er nítjándu aldar Velvakandi, sem talar um sig í þriðju persónu. Þar er sudoku fyrir konuna mína, sem borgar blaðið. Ég geri ráð fyrir, að vit sé í skrifum blaðsins um menningu og félagsfræði. En ég sé aldrei í því paragraff, sem snertir hug minn eða mín áhugamál. Er ekki enn kominn á aldur lesenda minningargreina.

Dauðvona Morgunblað

Fjölmiðlun

Morgunblaðið er dauðvona. Þjónar þeim 20%, sem hafa ofuráhuga á menningu og þeim 20%, sem hafa ofuráhuga á nýlátnu fólki. Vegna tvítalningar eru þetta samtals aðeins 30% þjóðarinnar. Nægir ekki í samfélagi, þar sem ungt fólk kaupir alls ekki fréttir. Enda minnkar sala Morgunblaðsins. Sumir kaupa það enn af gömlum vana. Ég fletti því, þótt ég finni fátt við mitt hæfi. Smám saman rofnar vaninn og nýtt fólk kemur ekki í staðinn. Nafn Morgunblaðsins getur að vísu lifað andlátið. Mundi gera það í nýjum titli 24 stunda, sem á lengri ævi fyrir höndum sem fríblað. En DV mun líklega lifa Morgunblaðið.

Omega fagnar ofbeldi

Fjölmiðlun

Í nýrri hrinu ódæðisverka Ísraels á hernumdum svæðum Palestínu er gott að muna tvennt. Í fyrsta lagi stríðir atferli Ísraels gegn öllum ákvæðum Genfarsáttmálans um meðferð hernumins fólks. Hitt er, að hér er sérstök sjónvarpsstöð helguð stuðningi við helför nútímans. Á Omega sitja örvasa stríðshetjur við borð og dásama Ísrael í bak fyrir. Þeir trúa spásögn um, að sigur Ísraels í stríði í Botnalöndum sé upphaf langþráðs heimsenda. Trúarofstæki þetta er útbreitt í Bandaríkjunum, en sjaldgæft hér. Samt tekst stuðningsmönnum Ísraelsríkis að halda úti sjónvarpi um hugsjón sína.