Fjölmiðlun

Heimþrá Sinuhe

Fjölmiðlun

Elzta sjálfsævisaga heimsins er Sinuhe, skrifuð í Egyptalandi fyrir 4000 árum. Þar segir hermaðurinn Sinuhe frá, að hann hafi geðtruflast í herför í Líbíu. Andlát Sehetepebre faraó hafði þau áhrif, að Sinuhe vafraði út í eyðimörkina og lenti í botnalöndum Miðjarðarhafsins. Þar vegnaði honum vel, varð tengdasonur smákonungs og vann ýmsa sigra í styrjöldum slíkra. Hann þjáðist af heimþrá og hafði bréfaviðskipti við Keperkere faraó um það mál. Leiddi til þess, að hann fékk að koma heim og var gerður að embættismanni við hirðina. Hann dó í friði og tók sjálfsævisöguna með sér í grafhýsið.

Æskujurt Gilgames

Fjölmiðlun

Elzta skáldsaga heimsins er Gilgames, skrifuð fyrir 4000 árum, þar sem nú heitir Írak. Hún segir frá sjálfmiðjaða hálfguðinum Gilgames, afrekum hans og árekstrum við samfélagið. Gæti hafa verið nútímamaður, vildi eyða frægum sedrusskógi í Suður-Íran. Snapaði fæting við skrímslið (grænfriðunginn) Humbaba, sem varði skóginn. Gilgames hafði sigur og eyddi skóginum. Þótti ekki nóg að gert, vildi verða ódauðlegur, leitaði ráða hjá Utnapistim á endimörkum heimsins. Á leiðinni lenti hann í Nóaflóðinu. Að lokum kafaði hann eftir æskujurtinni, en snákur át hana. Gilgames sat eftir með ellina.

Borðorð Sjuruppak

Fjölmiðlun

Elzta rit í heimi eru boðorð Sjuruppak. Hann var fyrir 4600 árum faðir í Mesópótmíu, þar sem nú er Írak. Hann gefur syni sínum 280 ráð um, hvernig hann eigi að haga lífinu. Þar eru boðorðin, sem við þekkjum, og ótalmörg í viðbót. Fyrsta boðorðið er að kaupa ekki asna, sem hrín. Þú átt ekki að plægja akur á vegi. Aldrei að rífast og alltaf fara burt, ef rifizt er. Ekki að ábyrgjast neinn og ekki láta neinn ábyrgjast þig. Ekki fella neina dóma, þegar þú hefur drukkið bjór, ekki vera eins og Össur. Ekki leggjast með þræl þínum, hún étur þig. O.s.frv. upp í: Ekki heimsækja ókunna staði.

Drudge og prinsinn

Fjölmiðlun

Matt Drudge sagði heiminum, að Hinrik bretaprins væri í Afganistan. Öll blöð Bretlands höfðu gert samsæri um að þegja yfir vist hans þar. Vefrit Drudge rauf þagnarmúrinn. Það birti myndina af Barack Obama með túrban í Sómalíu. Það sagði fyrst frá framhjáhaldi Bill Clinton, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Samt hefur Hilary Clinton forsetaframbjóðandi notað Drudge Report til að koma slúðri á framfæri. Drudge er áhrifamesti blaðamaður heimsins í upphafi 21. aldar. Hann er talinn frekar hægri sinnaður og ekki vandur að heimildum. En hann rýfur þó þagnarmúr hefðbundinna letifjölmiðla.

Virku sagnorðin

Fjölmiðlun

Notaðu sagnorðið að ganga, ekki nafnorðið ganga. Notið sögnina að stökkva, ekki nafnorðið stökk. Notið ekki “greiddi atkvæði”, þegar “kaus” er betra. Keyrið textann á virkum umsögnum, ekki á nafnorðum og ekki á nafnorðum með hlutlausum sagnorðum. Menn “hræða”, ekki “framkalla ótta”. Ekki skrifa: “Skortur okkar á staðtölum kom í veg fyrir mat á aðgerðum Sameinuðu þjóðanna við að staðsetja fjárhagsaðstoð á þeim sviðum, þar sem þörfin fyrir aðstoð var mest.” Heldur: “Þar sem okkur skorti staðtölur, gátum við ekki metið, hvort Sameinuðu þjóðirnar hefðu sett fé í brýnustu sviðin.”

Stofnanamálfar

Fjölmiðlun

Skrifaðu hreint út: “Skólunum hefur ekki tekist að kenna grundvallaratriði, af því að þeir skilja ekki, hvernig menningarsvæði móta lærdóm barna”. Ekki stofnanamál: “Orsök vangetu skólanna við að kenna grundvallaratriði felst í að skilja ekki mótunaráhrif menningarlegs bakgrunns á menntunina.” Skrifaðu eins og ævintýrin: “Einu sinni var Rauðhetta á leið um skóginn, þegar úlfurinn stökk undan tré og hræddi hana.” Ekki skrifa stofnanamál: “Einu sinni þegar ganga um skóginn var framkvæmd af Rauðhettu, kom fyrir stökk úlfsins undan tré, sem hafði þau áhrif, að það framkallaði ótta.”

Gamlar grillur

Fjölmiðlun

Gömul grilla segir ekki mega byrja málsgreinar á OG eða EN: “En spurt er, hvort kurteisi sé ei matsatriði. Og sé svo, hvaða reglum er þá hægt að beita.” Eða: “Sakborningurinn virtist í uppnámi. En sækjandinn sagði …” Oftast þarf ekki að nota þessi orð í upphafi og þá má sleppa þeim. Tvær málsgreinar, sem standa saman innan málsliðar, eru um skylt efni. Óþarfi er að tengja þær sérstaklega með smáorðum. Byrja má málsgreinar á ÞAR SEM og SEM. “Þar sem vitað er um innihaldið, getum við gagnrýnt það.” Enda má málsgreinar með forsetningu: “Reglur eru til að lemja nemendur með.”

Ísland í dag

Fjölmiðlun

Kristján S. Guðmundsson skipstjóri telur sig hafa vörn í meiðyrðamáli. Hann segist ætla að verja sig sjálfur með því, að hann hafi sagt sannleikann. Sú vörn er því miður orðin einskis virði vegna nýrrar dómvenju. Björgólfur Guðmundsson og Landsbankinn munu vinna málið gegn honum. Þeir munu fá bætur, sem eftirlaunamanni verður þungbært að greiða. Rétt eins og Gauki Úlfarssyni láglaunamanni verður erfitt að borga meira en milljón samtals vegna Ómars R. Valdimarssonar. Dómstólarnir svívirða ekki bara sannleikann, heldur dæma líka fólk til að greiða þungar bætur. Þannig er Ísland í dag.

Klúbbur skrípakalla

Fjölmiðlun

Sífellt fjölgar í klúbbnum. Þar eru Jónína og Bubbi, Franklín Steiner og Ómar R. Valdimarsson, Björgólfur Guðmundsson og okurbankinn. Þetta eru þeir, sem hafa fengið eða munu fá hálfa eða heila milljón krónur í bætur fyrir illt umtal. Hvort sem umtalið er satt eða ekki. Slíkt skiptir dómstóla engu máli. Haldið þið, að ára þessa liðs komist í fyrra horf við ómerkingu héraðsdóms á orðbragði? Haldið þið, að sálin í þeim verði hvít? Haldið þið, að þeir öðlist aftur meinta fyrri virðingu samfélagsins við að neyða menn til að borga milljón? Nei, þetta verða áfram skrípakallar.

Gísli, kærðu Össur, gerðu það

Fjölmiðlun

Gísli Marteinn Baldursson þarf að gera þjóðinni þann greiða að kæra Össur Skarphéðinsson fyrir gróf meiðyrði. Láta sjálfvirka dómavél Héraðsdóms Reykjavíkur dæma ráðherrann í milljón króna bætur. Þá vakna pólitíkusar vonandi til meðvitundar um, að búið er að hleypa skrímsli inn á völlinn. Sú persónuvernd gengur ekki, að fólk sé látið borga hálfa eða heila milljón króna fyrir meiðyrði, meðan nauðgun kostar minna. Engin hefð er fyrir því, að dómstólar bregðist hart við orðbragði nafngreindra manna. Miklu nær er að beina augum að bloggi nafnleysinga, einkum á spjallrásum á vegum mbl.is.

Furðulegur dómur

Fjölmiðlun

Héraðsdómur Reykjavíkur er að mínu viti skipaður fólki, sem stígur ekki í vitið. Ef það kynni eitthvað í lögfræði, væri það í góðum bisness á háum greiðslum. Annars lendir það kauplágt í Héraðsdómi. Nú hefur dómstóllinn dæmt Gauk Úlfsson bloggara fyrir gróf ummæli um Ómar R. Valdimarsson. Gauki er gert að greiða 300.000 krónur í miskabætur, 500.000 krónur í málsókn, auk launa eigin verjanda. Þetta er langt út af kortinu, svo sem sést af samanburði við væga dóma um ofbeldi og nauðganir. Ómar er þekktur af hvössum skrifum um pólitíska andstæðinga. Hann á ekki að verða sjóveikur.

Nútími eftir ár

Fjölmiðlun

Fyrirhugaða gagnaverið á Keflavíkurvelli er frábært. Það markar tímamót í atvinnusögunni eftir eitt ár. Fyrstu tímamótin voru fiskurinn, önnur var stóriðjan og nú er sú þriðja að koma. Verið hýsir tölvubúnað, netþjóna og gagnageymslu. Útvegar traust rafmagn og hratt samband við umheiminn. Byggir á Farice og Danice, keyrir á 160 gígabæta hraða á sekúndu. Við höfum núna bara fjögurra gígabæta hraða. Ef stjórnvöld standa sig í stykkinu, má búast við fleiri gagnaverum og netþjónabúum. Til dæmis frá Google og Microsoft, sem þurfa gnótt af slíku um allan heim. Við erum að komast inn í nútímann.

Dagblöð deyja hægt

Fjölmiðlun

Nánast daglega berast fréttir af samdrætti dagblaða í Bandaríkjunum. Hann er farinn að leita á hornsteina á borð við Los Angeles Times, New York Times og Washington Post. Dagblöð tapa auglýsingum, einkum smáauglýsingum. Unga fólkið les ekki dagblöð og fæst ekki til að gera það. Þetta háir ekki bara dagblöðum, heldur líka sjónvarpinu. Unga fólkið hefur lítinn áhuga á sjónvarpi og engan áhuga á sjónvarpsfréttum. Allt þetta skaðar fréttirnar. Bandaríkjamenn lesa nánast ekkert um utanríkismál og vita lítið um pólitík. Vefurinn kemur ekki í stað fjölmiðla, hann er ábyrgðarlaus.

Vinsælt framhjáhald

Fjölmiðlun

New York Times rauf þögnina um meint framhjáhald forsetaframbjóðandans John McCain fyrir átta árum með almannatenglinum Vicki Iseman. Blaðið fetar þar með í fótspor fjölmiðla, sem gerðu hríð að Bill Clinton á sínum tíma fyrir framhjáhald með Monica Lewinsky. Framhjáhald getur verið brýnt fréttaefni, ef það er hluti alvarlegra frétta. Eitt dæmi er um slíkt hér á landi. Við þekkjum líka nokkur slík dæmi frá Bretlandi, t.d. Profumo-málið. En hvorki Lewinsky né Iseman tengjast neinu fréttnæmu. Mér finnst fjölmiðlar fara offari, þegar þeir fjalla um framhjáhald með þeim. Einnig New York Times.

Einn kæfður, hinir lifa

Fjölmiðlun

Jeffrey White dómari í San Francisco hefur skipað netþjóni Wikileaks.org að loka fyrir þjónustuna. Wikileaks.org er frægt fyrir birtingu leyniskjala til að berjast gegn spillingu í samfélaginu. Það birti til dæmis skjöl um Abu Ghraib og Guantanamo, sem komu bandaríska hernum illa. Banki á Cayman-eyjum kærði birtingu skjala um peningaþvott og skattsvik. Lokun Wikileaks hafði þó engin áhrif, því að spegilmyndir hennar eru víða um heim. Svo sem í Belgíu, wikileaks.be, og Þýzkalandi, wikileaks.de. Lokunin hefur leitt til aukinnar athygli á efni vefsíðu, sem er meðal brýnustu fjölmiðla heims.