Fjölmiðlun

Hvað er til ráða?

Fjölmiðlun

Óvinir dagblaða eru Google og Yahoo og Wiki og það, sem á eftir þeim kemur. Safnið því upplýsingum um samfélagið, hellið þeim í gagnabanka. Setjið upp hraðar leitarvélar og verðið að bestu miðstöð upplýsinga um samfélag staðarins. Prófið mismunandi tekjupósta. Til dæmis viðskipti á vefnum, þröngvarp auglýsinga á vefnum, leitarvélar tengdar auglýsingum og þjónustu. Of lengi hafa dagblöð litið á sig sem fjölmiðla, sem safni fréttum og upplýsingum. En stafræni heimurinn krefst þess, að við skilgreinum dagblöð að nýju, ekki bara sem hefðbundna fjölmiðla, heldur sem tæknifyrirtæki.

Hugarfarið er annað

Fjölmiðlun

Hvers vegna les unga fólkið ekki? Af því að hugarfar þeirra er annað en hinna eldri. Nýjar kynslóðir eru aldar upp í sjónmiðlum, svo sem tölvum, leikjum og kapalkerfum. Annað hugarfar er ekki sama og heimskara hugarfar. Greindarvísitala hefur hækkað. Þeir, sem hefðu fengið 115 stig árið 1956, fá nú 100 stig. Þetta hefur einkum gerst á óhlutlægum og sjónrænum sviðum greindar. Nýja fólkið er undir vefinn búið. Fyrir vefinn fór sagnalist eftir þeirri tækni, sem notuð var. Fólk sagði sögur fyrir prent, útvarp eða sjónvarp. Vefurinn knýr tæknina núna til að sameinast í margmiðlun.

Hvers vegna lesa þau ekki?

Fjölmiðlun

Við getum litið á vefinn sem vanda og við getum litið á hann sem lausn á vanda, sem við hefðum hvort sem er staðið andspænis. Félagsvefir á borð við MySpace, Facebook og YouTube hafa ekki hefðbundin gildi siðareglna í blaðamennsku. Vefurinn hefur magnað ótta í blaðamennsku, átt þátt í að draga burt auglýsingar, að magna þéttara eignarhald fjölmiðla, að draga úr notkun ungs fólks á hefðbundnum fjölmiðlum og að draga úr trausti fólks á fjölmiðlun. En vefurinn kann að hafa komið í tæka tíð til að virkja kynslóðir, sem höfðu yfirgefið dagblöðin. Hvers vegna lesa þær ekki?

Froðan í klisjum

Fjölmiðlun

Klisja er þolanleg, ef hún nær tilgangi þínum nákvæmlega. Notaðu hana ekki til að skreyta textann eða til að leggja aukna áherslu, þá hefur hún glatað gildi sínu. Ekki segja: “Orðrómurinn barst eins og eldur í sinu um bæinn.” Ekki nota klisju á yfirborðshátt til að blása út einfalda hugmynd. Ekki segja: “Að ári liðnu hafði hinn langi armur laganna náð til hans.” Farðu rétt með klisju. Ekki segja: “Fleygði barninu út með baðkerinu”. Rétt er “Fleygði barninu út með baðvatninu. Ekki segja: “Eins og þjófur úr heiðskíru lofti”. Rétt er “þjófur á nóttu” eða “þruma úr heiðskíru lofti”.

Þreyttar klisjur

Fjölmiðlun

“Þær seljast eins og heitar lummur.” “Komast út í ferskt loft.” “Forðast eins og heitan eldinn.” “Leggja upp laupana”. “Velta við hverjum steini.” “Í annan stað.” Allt eru þetta dæmi um þreyttar klisjur. “Þau eru súr”, er að vísu gömul klisja, en segir langa dæmisögu í þremur orðum. Slíkar má nota í hófi. Ef það er leiðin framhjá annars löngum texta um, hvernig menn hafna því, sem þeir ná ekki til. Klisjur eru ekki alvondar. Hafðu ekki áhyggjur af örfáum. Ef þú ferð hins vegar að raða þeim upp á þráð, fölnar frásögnin. Með hverri viðbótarklisju margfaldast dapurleiki textans.

Snjáðir frasar

Fjölmiðlun

Klisjur eru snjáðir frasar, sem góðir höfundar reyna að forðast. George Orwell var hreintrúarmaður í stíl og sagði: “Notaðu aldrei myndlíkingu, samlíkingu eða orðtak, sem þú ert vanur að sjá á prenti.” Enginn getur alveg komist hjá miklum forða málshátta eða orðtaka. Þar vegur margt salt mitt á milli orðtaks og klisju. Að nokkru er smekksatriði, hvort menn telja frasa vera orðtak eða klisju. Það verður að velja og hafna. Munurinn felst í, að menn grípa sjálfvirkt til klisju til að spara hugsun. En nota orðtak að yfirlögðu ráði sem bestu leið til að koma ákveðinni hugsun á framfæri.

Minnisbrestur í klisjunum

Fjölmiðlun

Kannski að von, að blaðamenn skrifi illa, þegar fólk talar svona: “Ég dorgaði fyrir framan sjónvarpið allt kvöldið og lá svo andvana alla nóttina.” “Ég mála í pastalitunum, þeir höfða svo til mín.” “Ég var alveg að drepast í bringusvölunum.” “Ég stóð algerlega á fjöllum.” “Lumbraðu nokkuð á garni handa mér?” “Þetta er svo langbesta sultuterta sem ég hef aldrei nokkurn tíma smakkað.” “Hann kom eins og þjófur úr sauðaleggnum.” “Hann kom eins og þruma á nóttu.” “Hann kom eins og skrattinn úr heiðskíru lofti.” “Ég nagaði mig í handarkrikann”. Minnið leikur gamlar lummur grátt.

Meðvitundarlaust fag

Fjölmiðlun

Í vefkennslubók minni í blaðamennsku hér á síðunni eru ýmis dæmi um texta í fjölmiðlum. Blaðamenn skrifa: “Framkvæmd var athugun á dreifingu skoðana íbúa Akraness á atriðum, sem varða afstöðu þeirra til stjórnmálaflokka.” Og: “Ekki er vitað til, að neinn hafi orðið fyrir meiðslum.” Klisjurnar vaða uppi: “Brennandi eldur”, “vítisturn eldsvoðans”, “glæsilegt veitingahús”, “alger stöðvun”, “logar brustu”. Menn “kveikja í brennandi ágreiningi” í pólska þinginu. Jarðskjálftar eru “öflugir”, áhorfendur eru “skelfingu lostnir”. Blaðamenn skilja tæpast, að slíkur texti sé í ólagi.

Fitu- og froðuskurður

Fjölmiðlun

Við gerðum okkur ýmislegt til gamans á námskeiði í textastíl fyrir fagfólk í blaðamennsku. Við tókum forsíðu Moggans og vildum stytta fréttirnar um 75% án þess að fella neitt niður. Þetta tókst ljómandi vel. Flestir áttu auðvelt með að skera fitu, froðu, belging, tvítekningar, þrítekningar, veika frásögn, ramb, áttavillu. Dæmið var tekið úr Mogganum, en ég er því miður hræddur um, að það gildi víðar í íslenzka fjölmiðlun. Blaðamenn hafa aldrei sýnt verkfæri sínu mikinn áhuga og virðast telja auðvelt að skrifa texta sjálfvirkt. Notendur fjölmiðlanna eiga rétt á skiljanlegri afurðum.

Kennslubók í nýmiðlun

Fjölmiðlun

Kennslubókin hér til hægri fjallar um fleira en kjarna blaðamennskunnar, fréttatexta. Hún fjallar líka um ljósmyndir og hönnun. Um sjónvarp og heilmikið um vefinn og aðra nýja fjölmiðla. Fjallar um nýjustu miðlana, persónumiðla á borð við Facebook, YouTube og MySpace, svo og leitarmiðla á borð við Google, Wiki og Yahoo. Um rannsóknir í blaðamennsku og tölvutækni og útreikninga í blaðamennsku. Spáir í nútímann og framtíðina, sem gerist nú hraðar en nokkru sinni fyrr. Fjallar um starf ritstjórans og fortíðina. Margt er þetta alveg nýtt í kennslu í fjölmiðlun hér á landi.

Kennslubók í textastíl

Fjölmiðlun

Takið sérstaklega eftir kennslubók í textastíl, sem er innifalin í bókinni hér til hægri á vefsíðunni. Þetta er textinn, sem ég notaði við kennslu í þeirri grein. Hann tekur róttækt á hefðbundnum gildum í stíl og reynir að færa stílinn í átt til nútíma. Margvíslegt birtingarform, sem áður var ekki til, gerir kröfur til knappari stíls en áður. Sjónvarp hefur ekki pláss fyrir málalengingar, vefurinn enn síður og gemsarnir alls ekki neitt. Þegar menn vilja nota texta til að upplýsa aðra, er mikilvægt að meiningin komist til skila. Þá dugar bara knappur stíll að hætti Laxness og Graham Greene.

Kennslubók í blaðamennsku

Fjölmiðlun

Skoðið hægri hlið þessarar vefsíðu. Þar er komin kennslubók í blaðamennsku. Það eru glósur rúmlega 220 fyrirlestra minna frá níu námskeiðum, sem flest voru haldin við símenntardeild Háskólans í Reykjavík. Rúmlega 90 blaðamenn í starfi voru á námskeiðunum, einu eða fleirum. Glósur með fyrirlestrunum voru sýndar á tjaldi af skyggnum. Þær fela í sér víðtæka kennslubók í blaðamennsku. Þetta er fyrsta kennslubókin í þessari grein og sennilega einnig fyrsta vefkennslubók á íslenzku. Það birtingarform gerir kleift að uppfæra kennslubókina eftir þörfum, svo að hún þarf ekki að úreldast.

Margar tegundir fíkla

Fjölmiðlun

Blackberry fíklar sitja hoknir eins og í tilbeiðslu, reyna að ýta ekki á tvo örtakka í einu. Vilja fá póst á 8 sekúndna fresti. MySpace/YouTube fíklar eru við kaffivél nútímans. Þar hópast saman andfélagslegt fólk, sem vill ekki þvo sér. YouTube kemur í stað sýninga á fjölskyldumyndum í veski. Heimaspilafíklar eru út úr heiminum dag og nótt. Ferðaspilafíklar eru líka út úr heiminum, en stöðva biðraðir í leiðinni. IPodfíklar eru einir í heiminum með eyrnasnúrur, eins og Walkman kynslóðin. Fingraofvirkir nota lyklaborð til allra samskipta til að þurfa ekki að tala. Senda linnulaus skilaboð. Símskeytin eru komin aftur. Nú senda allir myndir í símskeytum.

Margmiðlun kemur

Fjölmiðlun

Associated Press er að breyta fréttum sínum róttækt til að svara kröfum vefsins. Margmiðlun er komin til skjalanna. Vefurinn var fyrst talinn vera viðbót eins og útvarp og sjónvarp. En hann hefur reynst vera miklu meira, þótt hann hryndi miðja vega á fyrsta áratugnum. Árið 1996 snerust áætlanir um endurnýtingu efnis úr öðrum fjölmiðlum og endurpökkun þess. Í nokkur ár komu áskriftir til greina. Síðan kom Google og kenndi heiminum að leita að fréttum í stað þess að taka áskrift. Menn borga ekki lengur fyrir fréttir. Núna snýst vefurinn ekki um endurvinnslu dagblaða.

Heimur lyganna

Fjölmiðlun

Við lifum í heimi, þar sem fátt er sem sýnist. Valdamenn hafa fólk og fjölmiðla að fífli, dreifa röngum fréttum, sem verða að viðurkenndum almannarómi. Alþjóðasamband ritstjóra komst að raun um, að Nató laug engu minna en Serbía um Kosovo, Nató laug linnulaust. Tony Blair og spunakarlinn Alastair Campbell í Bretlandi geta ekki stunið upp sönnu orði. Stjórnsýsla Bandaríkjanna er gegnsýrð lygi. Við munum eftir lyginni um gereyðingarvopn Íraks. Við höfum ítrekað orðið vör við lygar um sókn Írans til atómvopna. Kærur á hendur föngum í Guantanamo eru hluti af þessu einkennilega ástandi.