Fjölmiðlun

Fimm menn og lygin

Fjölmiðlun

Kortlagt hefur verið, að vestrænir fjölmiðlar hafa brugðist notendum sínum í styrjöldum síðustu ára. Alþjóðasamband ritstjóra fletti ofan af lygum Nató um stríðin í arfaríkjum Júgóslavíu. Nú hefur einnig verið flett ofan af lygum vestrænna ríkisstjórna um Írak, Afganistan og Íran. Risasjónvarp á borð við CNN hefur enga burði til að vefengja lygar stjórnvalda. Stórblöð á borð við New York Times hafa litla burði og hafa krossbilað trekk í trekk. Örfáir stríðsfréttaritarar valda því, að við sjáum gegnum falsið. Robert Fisk, Paul Watson, John Simpson, Mort Rosenblum, Seymour Hersh. Fimm menn.

Múslimar sýna tennur

Fjölmiðlun

Ríki múslima herða reglur gegn fjölmiðlum á hverju ári. Fremst fara þar í flokki vinaríki Bandaríkjanna, einkum Egyptaland, Sádi-Arabía, Jórdanía og héraðið Kúrdistan í Írak. Fleiri blaðamenn eru drepnir og morðingjarnir finnast aldrei. Ef blaðamenn segja satt orð, eru þeir dregnir fyrir rétt og látnir borga milljónir. Eins og raunar er líka gert á Íslandi. Bannlistar um, hvað blaðamenn megi ekki skrifa um, lengjast með hverju árinu á fundi, sem spunamálaráðherrar íslamskra ríkja halda um þessar mundir. Að þessu sinni beinist athyglin að Al Jazeera, sem nú fer varlegar að Sádi-Arabíu.

Hitler er hér

Fjölmiðlun

Evrópa skilur ekki prentfrelsi. Þungamiðjan í bandarísku stjórnarskránni lætur undan síga fyrir öðru frelsi í Evrópu, svo sem persónuvernd og pólitískum rétttrúnaði. Í Evrópu eru menn dæmdir fyrir rangar skoðanir í pólitík, t.d. sagnfræðingurinn David Irving. Margir menningarvitar í Evrópu gagnrýndu skrípamyndirnar í Jyllandsposten. Þeir sögðu, að betra væri að vera kurteis en að lasta skálkinn. Evrópa bannaði Yahoo að halda uppboð á minjagripum nazista. Evrópudómstóllinn hefur tekið afstöðu með persónuvernd gegn prentfrelsi. Var einhver að kenna Hitler um bókabrennur? Hann er hér.

Enskur skaðræðistexti

Fjölmiðlun

Marklaus er afsökunarbeiðni Extrabladet og skaðabæturnar, sem blaðið hefur greitt Kaupþingi. Blaðið gerði mistök, þýddi efni sitt á ensku. Þannig gaf það bankanum færi á að kæra í Bretlandi, þar sem tjáningarfrelsi er lítið. Fjölmiðlar eru þar sjálfvirkt dæmdir fyrir að segja satt eins og á Íslandi. Slík niðurstaða segir ekkert um málsefni og bætir stöðu bankans ekki neitt. Samkvæmt dönskum lögum hefði Kaupþing ekki náð neinum árangri í kærumálum í Kaupmannahöfn. Þetta mál er alveg eins vaxið og þegar Jón Ólafsson kærði Hannes Hólmstein Gissurarson í London fyrir texta, sem var þýddur á ensku.

Sætisbelti Díönu

Fjölmiðlun

Dánarorsök Díönu prinsessu var einföld. Hún fór í bíl með dauðadrukknum bílstjóra, sem keyrði á súlu í veggöngum, og Díana var ekki í sætisbelti. Papparassar drápu ekki prinsessuna. Enginn þeirra hefur verið dæmdur fyrir aðild að láti hennar. Samt talar fólk enn um, að papparassar hafi drepið hana og séu nú að drepa Britney Spears. En það var Kevin Federline, sem gaf henni skammbyssu og hringdi síðan í lögregluna til að lýsa áhyggjum af, að hún væri dauðadrukkin með smábarni. Tugmilljónir vilja lesa, sjá og heyra um sjúka þotuliðið. Þeir, sem flytja fréttirnar, drepa ekki þotuliðið.

Skammbyssa Spears

Fjölmiðlun

Skammbyssa SpearsBritney Spears er bezta dæmið um, að fjölmiðlum er kennt um ófarir fólks. Versti spunakarl heimsins, Alastair Campbell, fyrrum hægri hönd Tony Blair, skrifar, að hún kunni að fremja sjálfsmorð út af blaðaskrifum. Alltaf kenna menn sögumanni um ótíðindi. Kevin Federline gaf Britney Spears skammbyssu og fór síðan í lögguna með áhyggjur af byssu á heimili hennar. Þetta fólk er auðvitað galið, allt frá Federline, um Spears yfir í Campbell, frá séra Hjálmari Jónssyni um Hjálmar Árnason yfir í Össur Skarðhéðinsson. Fjölmiðlar drepa ekki fólk, það er fyllilega einfært um að gera það sjálft.

Tvíeggjað andóf

Fjölmiðlun

Sem ritstjóri og síðar sem kennari í blaðamennsku hef ég ætíð verið á móti nafnlausum höfundum frétta og skoðana. Hef raunar samið siðareglur fyrir DV og Fréttablaðið, sem fela slíkt í sér. Skoðun mín byggist á, að hér sé vestrænt lýðræði, en ekki austræn harðstjórn eins og í Burma. En ég fer að efast, er ritstjórar og útgefendur þora ekki lengur að birta nöfn og myndir af ótta við milljónasektir frá krumpuðum dómurum. Meðan svo er, getur fólk, sem er utan siðareglna fjölmiðla, komið í stað hefðbundinna fjölmiðlunga. Með því að setja slíkt efni undir dulnefni í frjálsa bandaríska netmiðla.

Borgaralegt andóf

Fjölmiðlun

Ritstjórar og útgefendur hafa hland í buxum út af nafni og mynd af fólki í fréttum. Því að dómstólar hafa síðustu árin afskaffað ákvæði í stjórnarskrá um tjáningarfrelsi. Sá er munurinn á Burma og Bandaríkjunum. Í Burma komu nafnlausir borgarar fram fréttum og myndum með því að setja á vestrænt internetið. Eins geta menn gert hér. Notað YouTube, Facebook, MySpace eða aðra frjálsa miðla, sem vistaðir eru í Bandaríkjunum. Þar geta dulnefni sagt: “Maðurinn, sem sagt er frá í DV í gær, að hafi beitt fyrrum eiginkonu ítrekuðu ofbeldi, heitir Jón Jón Jónsson og hér er mynd af honum.” Með þarf að vera stikkorðið “Iceland”, svo að við hin finnum fréttina.

Slúbbertavernd

Fjölmiðlun

Farsímafélög geta rakið efni símtala þinna og sagt, hvar þú ert staddur hverju sinni. Þessar upplýsingar eru geymdar að minnsta kosti fimm ár og líklega endalaust. Ungt fólk er sátt við þetta. Það tekur þátt í YouTube, MySpace og Facebook, setur þar persónulegar upplýsingar. Í sumum tilvikum afar persónulegar. Í samanburði við þetta mikla gegnsæi er gegnsæi í birtum dómum bara smámunir. Dómar hafa frá upphafi Íslandsbyggðar verið kveðnir upp í heyranda hljóði. Persónuvernd vill láta ritskoða dóma fyrir birtingu. Það gagnast ekki venjulegu fólki, heldur slúbbertum einum í feluleik.

Hórdómur Moggans

Fjölmiðlun

Eitt af siðleysisblöðum Moggans kom út á laugardaginn. Þar var Kína til umræðu. Texti blaðsins var eingöngu áróður fyrirtækja, sem vilja hagnast á viðskiptum við Kína. Ekkert kom þar annað fram, en að Kína væri eins konar himnaríki. Hvergi í blaðinu var minnzt á, að Kína er með verstu ríkjum heims. Kína er höfuðborg harðstjórnar og einræðis í heiminum um þessar mundir. Þar er veraldarvefnum stjórnað með harðri hendi og allt andóf kæft í fæðingu. Þegar Mogginn hyggst birta fleiri hórdómsblöð, má hann muna, að lýðræði og gegnsæi er gott. Betra en bissniss við heimsins mesta ósóma.

Texti lagaður

Fjölmiðlun

Grisjaðu textann þinn. Byrjaðu á að hreinsa smáatriði á borð við “upp”, eins og í “lyfta upp”. Það er nefnilega ekki hægt að “lyfta niður”. Einnig “núna”, eins og í “hann er núna þingmaður”. Það er ekki hægt að vera þingmaður án þess að vera það núna. Víða sjáum við bólgnar setningar í fjölmiðlum, yfirleitt eftir þá, sem skólagengnir eru í félagsvísindum: “Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram þrátt fyrir þá staðreynd, að andstaða í þinginu fer vaxandi.” Styttra og skiljanlegra er þetta: “Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram, þrátt fyrir vaxandi andstöðu á þinginu.”

Góð íslenzka

Fjölmiðlun

Góður stíll er Halldór Laxness og Íslendingasögur. Góður stíll er Ernest Hemingway og George Orwell og Graham Greene. Alls staðar nota menn sömu aðferðir við að spúla texta og snurfusa hann. Svo að hann verði frambærilegur fyrir venjulegt fólk. Stíll menntamanna er hins vegar svona: “Skilningur á orsakasamhengi í tengslum við óhóflega drykkju þeirra gæti leitt til betri meðferðar þeirra.” Í samræmi við stíl Íslendingasagna, Halldórs Laxness og almennings verður textinn svona: “Við gætum hjálpað þeim, ef við skildum, hvers vegna þeir drekka úr hófi.”

Góð ameríska

Fjölmiðlun

Stundum er kvartað yfir amerískum áhrifum á íslenska tungu. En góð ameríska spillir ekki íslensku. Það sem menn kvarta raunar um, eru þýðingar og endursagnir af vondri amerísku. Vond ameríska verður vond íslenska. Góð ameríska er hins vegar svipuð góðri íslensku. Sjáið þennan flotta texta úr upphafi fréttaskeytis frá Associated Press: “Stundum horfir Mary Freedland á son sinn og man eftir barninu, sem hjólaði niður Colonel Bell Drive með félögum sínum. Síðan horfir hún aftur og veruleikinn síast inn. Það eru liðnir tveir áratugir og hann er ennþá þetta sama barn.”

Sannleiksflytjendur

Fjölmiðlun

DV tapar áttum í nafnbirtingum, en 24 stundir sækja sig í veðrið. Fyrir helgi birti DV nokkurra síða grein um nafnlausan ofbeldismann, sem lengi hefur lagt fyrri konu sína í einelti. Greinin hrópaði á nafn, sem ekki var birt. Ömurleg frammistaða blaðsins. Ótti og skelfing eru slæmir förunautar rannsókna í blaðamennsku. 24 stundir komu hins vegar í gær fyrst fjölmiðla með nafn axarmannsins. Sem grunaður er um, að hafa ógnað fólki í Glitni við Lækjargötu í fyrradag. Líklega eru 24 stundir að verða sannleiksflytjandinn meðal fjölmiðla. Væri gott, því að nóg er til af aumingjum í þeim hópi.

N.N. var dæmdur

Fjölmiðlun

Persónuvernd vill strika út nöfn í dómum áður en þeir eru birtir. Svo firrt er stjórnsýslan orðin. Slúbbertar skulu verndaðir með því að hylja nöfn þeirra. Því miður nýtur stefnan vaxandi fylgis meðal valdhafa. Það er að undirlagi félagslegra vandamálafræðinga, sem harma erfitt hlutskipti slúbberta. Fræðingar leggja sig í líma við að gefa Steingrími Njálssyni farsíma, svo að hann geti auðveldar ofsótt fólk og látið sér líða betur. Vandamálafræðingarnir eru haldnir þeirri firru, að hinir dæmdu séu hinir ofsóttu. Og þeim draumi, að síbrotamenn muni læknast einn góðan veðurdag.