Fjölmiðlun

Mbl.is á Windows

Fjölmiðlun

Ég hló upphátt í morgun, sem gerist sjaldan. Þá var ég að skoða fjölmiðlun, sem ég missti af vegna fjarveru erlendis í vikunni. Mbl.is hélt upp á tíu ára afmæli sitt. Ég gat ekki opnað fréttina á vefsíðu Mbl. Ég varð að nota Windows Media Player til að sjá hana. Eitthvað er skrítið við tækniþróun fyrirtækis, sem þykist vera mest og bezt í vefmiðlun. Það notar þó tækni, sem er er læst við einn framleiðanda. Og reynir að krefja notendur til hins sama. Í nútíma opins hugbúnaðar.

Fleirkvæðisorð

Fjölmiðlun

Félagsfræðingurinn C. Wright Mills sagði: “Flókinn stíll fleirkvæðisorða ræður ríkjum í félagsfræðum. Þessi torskildi stíll stafar ekki af flókinni hugsun. Hann byggist nánast bara á ruglingi í höfði menntamanns um, hver sé staða hans í tilverunni.” Douglas Chadwick hjá New York Times sagði: “Oft skiljum við þeim mun minna, sem höfundar útskýra meira. Apar virðast skilja það, sem aðrir apar segja þeim. En vafasamt er, að vísindamenn skilji það, sem þeir segja hver öðrum.” Talcott Parsons var merkastur félagsfræðinga. Hann samdi þykka bók af rugli til að finna út, að “sækjast sér um líkir”.

Alþýðutexti

Fjölmiðlun

Vondur texti fræðimanna: “Viðurkenning á þeirri staðreynd, að kerfi í málfræði eru breytileg frá einu tungumáli til annars getur verið grunnur að alvarlegri skoðun á vandamálum, sem þýðendur stórverka í heimsbókmenntum standa andspænis, þegar þeir þýða af öðrum málum en ensku.” Þetta er vondur texti í 38 orðum. Helmingi styttra er efnið á máli almennings og þýðir þar: “Þegar við skiljum, að tungumál hafa misjafna málfræði, getum við skilið vandamál þeirra, sem þýða heimsbókmenntir yfir á ensku.” Þetta eru 19 orð. Alþýðustíll er styttri, einfaldari og skýrari en stíll ritgerðahöfunda.

Kansellí nútímans

Fjölmiðlun

Allir hópar fræðinga hafa sérstakt tungumál. Embættismenn notuðu kansellí-stíl áður fyrr. Læknar og lögmenn hafa sitt tungumál nú á dögum. Unglingar hafa sérmál. Alltaf eru menn að greina sig frá fjöldanum, varpa þoku á texta, svo að hann skiljist ekki fólki. Í fræðiritum nútímans má ekki segja: “Ég kannaði skoðanir Skagamanna á pólitík.” Í staðinn þarf að segja: “Framkvæmd var athugun á dreifingu skoðana íbúa Akraness á atriðum, sem varða afstöðu þeirra til stjórnmálaflokka.” Þetta er kansellí-stíll nútímans, textastíll, sem kemur úr háskólaritgerðum félagsvísindamanna.

Áföll eru eðlileg

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar eiga ekki að þurfa að ábyrgjast, að enginn móðgist eða lendi í tilfinningaróti. Slíkt er bara afleiðing af því, að margt fólk býr á einni plánetu. Það er stutt bil milli fólks, einnig á Íslandi, og áreiti er því eðlilegt. Lög um tjáningarfrelsi gera ráð fyrir, að allir séu sæmilega brynjaðir gagnvart ágjöf. Nú er hins vegar í tízku að útiloka áreiti og að veita fólki áfallahjálp. Þar á meðal helztu slúbbertum landsins. Dómstólar fara eftir tízku persónuverndar og dæma fjölmiðla fyrir að segja satt. Með því svíkja dómstólarnir tjáningarfrelsið. Verður vonandi skammvinn tízka.

Kennslubók textastíls

Fjölmiðlun

Meðal efnis í glósubók minni í blaðamennsku verða 24 fyrirlestrar um stíl. Þeir eru ætlaðir fréttamönnum og öðrum, sem þurfa að koma upplýsingum á framfæri og vilja ekki misskiljast. Þar er dreginn dár að stíl fræðimanna og kenndur alþýðustíll. Fólki kennt að setja punkt og stóran staf. Kennt að þétta texta niður um þrjá fjórðu hluta án þess að sleppa neinu. Kennt að forðast klisjur, orðtök og spakmæli, froðuna, sem einkennir texta presta og pólitíkusa. Þar er kennt að nota frumlag, umsögn og andlag án aðskotaorða. Í kennslubókinni er kennt rennsli, fegurð og tónn í hröðum nútímatexta.

Auðskilinn texti á skjá

Fjölmiðlun

Skáldskapur þarf enga textafræðí. Höfundar geta haft stafsetningu, málfræði og setningarfræði sem þeim þóknast. Eða sem kaupendur verka þeirra sætta sig við. Öðru máli gegnir um fréttamenn og aðra, sem þurfa að ná skilningi. Þeir þurfa að skrifa auðskilinn texta. Þeir mega ekki skrifa dulmál. Því miður er íslenzkur texti oft torskilinn, einkum þó langdreginn. Hann er skrifaður án tillits til lögmála góðs stíls. Lögmálin þjóna góðum skilningi á tíma óþolinmæði, hraða og tímaskorts. Fréttamenn og aðrir höfundar slíks texta þurfa að vera auðskildir á einum skjá í senn, birtingarmynd nútímans.

Glósubók í blaðamennsku

Fjölmiðlun

Senn líður að kennslubók minni í blaðamennsku. Hún verður smám saman birt á vefsvæðinu jonas.is. Þetta verða stuttar og harðar glósur úr fyrirlestrum mínum, eins og þær birtust af skjávarpa á tjaldi. Þær spanna frá textastíl yfir í rannsóknablaðamennsku. Frá sögu blaðamennsku yfir í framtíð hennar, frá fréttamennsku yfir í nýmiðlun. Ég reikna með, að þetta verði glósur úr 220 fyrirlestrum. Þeir voru fluttir 2006-2007 fyrir símenntadeild Háskóla Reykjavíkur eða ætlaðir henni í náinni framtíð. Engin kennslubók af slíku tagi er enn til á íslenzku. Hún er tímabær lofsöngur til blaðamennskunnar.

Nýjar siðareglur

Fjölmiðlun

Nýjar, bandarískar hugmyndir um siðareglur blaðamanna taka tillit til, að auka þarf traust fjölmiðla. Þær hljóða svo: 1. Blaðamennska veitir fólki upplýsingar, sem gera það frjálst. 2. Skuldbinding hennar er fyrst og fremst við sannleikann. 3. Hollusta hennar er við borgarana. 4. Eðli hennar er leit að staðfestingum. 5. Hún er sjálfstæð gagnvart þeim, sem fjallað er um. 6. Hún er óháður vaktari valdsins. 7. Hún er torg gagnrýni og málamiðlana. 8. Hún reynir að gera það mikilvæga áhugavert og viðeigandi.9. Hún er víðtæk og í réttum hlutföllum. 10. Hún má beita eigin samvisku.

Ungir afhuga fréttum

Fjölmiðlun

Ungt fólk er að verða frábitið fréttamiðlum. Dagblöð höfða ekki til ungs fólks. Það kaupir ekki áskriftir og mun ekki kaupa þær. Sjónvarp er líka á undanhaldi sem fréttamiðill, unga fólkið sækir í staðinn á vefinn. Þar eru mest freistandi persónumiðlar á borð við Facebook, MySpace og YouTube. Í auknum mælir fylgist ungt fólk ekki með hefðbundnum fréttum af pólitískum málum. Nema endurspeglun þeirra í skemmtiþáttum, þó ekki í Spaugstofunni. Þetta er áhyggjuefni, því að fólk getur tæpast verið hlutgengir borgarar með atkvæðisrétti, ef það fylgist ekki með. Með pólitíkinni og framtíðinni.

Watergate framtíðarinnar

Fjölmiðlun

Persónumiðlun er farin að gnæfa yfir fréttamiðlun. Facebook, MySpace og YouTube eru orðnir stærstu miðlar í heimi, allir persónumiðlar. Í hópi fréttamiðla hefur Google tekið forustu. Sjónvarp segir í auknum mæli pass í fréttum og dagblöð eru á undanhaldi. Þau loka útibúum erlendis og fækka fagmönnum. Dagblöð hafa ætíð verið hornsteinn frétta; dagblöð og bækur eru 95% allrar rannsóknablaðamennsku. Því má spyrja, hverjir birti Watergate-fréttir í framtíðinni. Þegar Google og Wiki eiga að sjá um fréttamiðlun og Facebook, MySpace og YouTube um persónumiðlun. Verður það bara NewYorker?

Pappír og vefur

Fjölmiðlun

Með því að sameina prentmiðlun og vefmiðlun geta dagblöð frestað dauða sínum. En sá dagur mun koma, að dagblöð verða að flytja sig alveg yfir í nýtt viðskiptamynstur. Þar sem enginn séns er á tekjum af áskrift. Segja skilið við úreltan pappír og handvirka dreifingu. Sem betur fer hafa þau forskot inn í stafrænu öldina. Hafa sum komið sér vel fyrir á vefnum. Þau framleiða gildi, einkum staðbundið efni, sem notendur fjölmiðla fá ekki annars staðar. En tíminn er naumur. Blaðamenn þurfa hraðar að laga sig að vefnum, læra snarpari stíl, átta sig á hljóð- og myndbitum. Læra tæknina.

Skrúfað fyrir fréttirnar

Fjölmiðlun

Í frábærri bók Mort Rosenblum um hrun Bandaríkjanna sakar hann fjölmiðlana um hluta af ábyrgðinni. Bandarískt sjónvarp brást alveg, dagblöðin meira eða minna og fréttastofan AP bilaði líka. Al Jazeera flutti réttari fréttir frá Írak en CNN. Upp úr aldamótunum komust framgjarnir viðskiptaskólamenn til valda á fjölmiðlunum. Það var í skjóli grúppa, sem voru þá að eignast fjölmiðla. Drengirnir skrúfuðu fyrir réttar fréttir. Þar á meðal ritskoðaði AP fréttir frá Rosenblum, fróðasta stríðsfréttaritaranum. Landsmenn urðu fáfróðir og endurkusu George W. Bush. Til þess voru refirnir skornir.

Versnandi fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Í bókinni Escaping Plato’s Cave lýsir Mort Rosenblum, hvernig fjölmiðlar hafa versnað í Bandaríkjunum frá aldamótum. Fjölmiðlarnir komust í eigu grúppa, sem hugsa mest um ársfjórðungsuppgjör. Og eigendurnir eru aðallega róttækir hægri sinnar, sem trúa á yfirvöldin. Einkum hafa þeir áhyggjur af gengi George W. Bush. Siðlausir markaðsfræðingar komu í stað frétta- og ritstjóra, fagmanna, skólaðra á vígvelli stríðsfrétta. Fjölmiðlarnir eru farnir að missa af alvörufréttum, sem birtast fyrst á vefnum. Erlendar fréttir eru tæpast lengur birtar, því að þær eru taldar skaða forsetann.

Escaping Plato’s Cave

Fjölmiðlun

Ég þekkti Mort Rosenblum fyrir aldarfjórðungi. Var ritstjóri International Herald Tribune og birti kjallaragreinar eftir mig. Áður og síðar var hann fréttamaður AP, en gerðist bóndi í Frakklandi. Hefur samið nokkrar bækur. Sú síðasta er merkust, kom út fyrir jólin. Hún heitir Escaping Plato’s Cave og fjallar um, hvernig blinda Bandaríkjamanna á umheiminn ógnar tilveru okkar allra. Strax á fyrstu síðu segir hann, að lygar vegi á við sannleika í umræðunni. Eins og George Orwell og Aldous Huxley voru búnir að vara við. Flatjarðarsinnar eru eins mikils virtir og hinir, sem vita hana kúlulaga.