Fjölmiðlun

Éta úr lófa hans

Fjölmiðlun

Undarlegt er, að Björn Ingi Hrafnsson getur látið fjölmiðlunga éta úr lófa sér. Þeir láta hann komast upp með að svara með skætingi. Með að svara ekki efni málsins. Allan daginn í gær fékk Björn Ingi að hreyta út nautaskít á borð við: “Svona árás á karakter eins mans eigi sér varla fordæmi í íslenskum stjórnmálum og dæmi sig sjálf.” Ekki orð um fötin, sem hann neyddi flokkinn til að gefa sér. Hann er einmitt persónugervingur spillingar Framsóknar í hverju málinu á fætur öðru. Þið munið svokölluð athafnastjórnmál hans, samkrull við ágjarna verktaka og fjárglæframenn.

Geldfréttablað

Fjölmiðlun

Í gær segir Mogginn mér, að “karlmaður” hafi verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir langvinna misnotkun tveggja smábarna. Á sömu síðu segir blaðið, að “mennirnir” fimm, sem réðust á fíkniefnalöggur, hafi verið settir í farbann. Nokkru aftar segir blaðið, að sex “sakborningar” hafi verið við þingfestingu Fáskrúðsfjarðarmálsins. Á sömu síðu segir blaðið mér, að fáeinir “grunnskólar” skeri sig algerlega úr í lélegum árangri í samræmdum prófum. Engin nöfn voru nefnd í þessum fréttum. Regla geldfrétta er þessi: Ef einhver getur orðið sár, þá er aðalatriði fréttar ekki birt.

Nomina sunt odiosa

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar eru ekki hluti dómskerfis. Þeir fella ekki dóma, þegar þeir segja hver gerði hvað. Það er fyrsta og síðasta skylda fjölmiðils að svara slíku. Hver ruddist með exi inn á móður með smábarn? Hver handrukkaði í Vogunum um svipað leyti? Í svona málum er enginn vafi á, hver var að verki. Það náðist í mennina. Auðvitað á að birta nöfn þeirra og sýna mynd af þeim. Annað er ræfildómur. Því miður hefur félagslegur réttrúnaður kúgað íslenzka fjölmiðla til að játast undir okið: Nomina sunt odiosa. Þjóðfélag er ekki frjálst, þar sem fjölmiðlar svara ekki spurningunni: Hver gerði hvað?

Nyhedsavisen lifir

Fjölmiðlun

Íslenzka dagblaðinu Nyhedsavisen í Danmörku er borgið. Auðjöfurinn Morten Lund keypti meirihlutann. Það tryggir fríblaðinu úthald fram á næsta ár, þegar það kemst vonandi á réttan kjöl. Eftir sjö milljarða íslenzkra króna tap 2006-2008. Aukna hlutaféð er líklega á lágu verði, því að lítið var um kaupendur. Meiri fyrirstaða er í Danmörku en á Íslandi gegn dreifingu fríblaða heim til fólks. Þar þarf meiri þolinmæði til að koma slíku blaði fyrir vind. Fríblöð eru að verða meirihluti dagblaðaútgáfu sums staðar í Evrópu. En heimsend fríblöð hafa hvergi enn fest rætur nema á Íslandi.

Dómarar hunza stjórnarskrá

Fjölmiðlun

Blaðamannafélag Íslands hefur tekið undir gagnrýni á dómstóla fyrir að virða ekki tjáningarfrelsi í nýlegum dómum. Dómar í héraði og hæstarétti taka ekki lengur tillit til, að skrifað sé í góðri trú og satt sagt frá. Í sumum þessara réttarhalda var ekki vikið orði að því, að satt og rétt var sagt í fjölmiðli. Nýja dómvenjan holar lýðræðið og mun fljótt verða þjóðinni til vandræða. Við þurfum á því að halda, að fjölmiðlar skyggnist bak við tjöldin og segi okkur frá því, sem þeir sjá. Þótt einhverjir móðgist. Með framferði sínu valta dómarar landsins yfir stjórnarskrána.

Geldmiðlarnir

Fjölmiðlun

Fjölmiðlarnir hafa ekki sagt mér eða sýnt mér, hverjir ógnuðu Söru Rós Kavanagh. Þeir ruddust inn á hana og tveggja ára son hennar, sveifluðu exi og hótuðu lífláti. Þeir náðust skömmu síðar og höfðu þá víðar gert óskunda. Ekki einu sinni DV hefur sagt frá nöfnum þeirra eða birt mynd af þeim. Ég veit ekki til hvers fjölmiðlar eru, ef það er ekki til að svara fyrstu spurningu hvers blaðamanns: Hver? Spurningunni, sem fyrst allra er kennd í blaðamannaskólum. Svo kúguð er þjóðin orðin, svo geldir eru fjölmiðlarnir orðnir af félagslegum réttrúnaði. Nafnleysið er niðurlæging geldmiðlanna.

Fólk er fífl

Fjölmiðlun

Ritstjórn Fréttablaðsins hafnaði afslætti á benzíni hjá Skeljungi í samræmi við siðareglur blaðsins. En ritstjórn Stöðvar tvö í sama fyrirtæki hafði ekki hafnað þessu, þegar ég síðast vissi. Þetta endurspeglar mun á dagblaði og sjónvarpsstöð. Dagblað fylgir gömlum hefðum og setur sér siðareglur, sem notendum eru birtar. Sjónvarpsstöð gerir slíkt ekki. Hefð dagblaðs felst í fréttum, en hefð sjónvarps er skemmtun. Fréttatengt efni líkist þar æ meira skemmtiefni. Það sérkennilega og hlægilega er, að fólk treystir sjónvarpi betur en dagblöðum. Enda sagði frægur olíuforstjóri: “Fólk er fífl.”

Prenthæfur sannleikur

Fjölmiðlun

Minna ber á fólki, sem gagnrýnir skrif um atriði, sem það vill ekki sjá. DV hefur ekki verið gagnrýnt harðlega fyrir að birta viðtal við fólk suður með sjó, sem kallar sig rasista. Stundum hefði hvinið meira í tálknunum út af slíku. Kannski er á undanhaldi sú skoðun, að fjölmiðlar framleiði vandamál með því að birta um þau. Betra sé að þegja óþægileg mál í hel. Hitt er augljóst, að vandamál fara ekki, þótt menn stingi haus í sand. Enginn vandi er slíkur, að ekki beri að fjalla um hann. Sannleikurinn hefur alltaf gert menn frjálsa. Mun einnig gera það hér á landi um síðir. Nema í héraðsdómi.

Röng skoðun bönnuð

Fjölmiðlun

Tjáningarfrelsi er misjafnt á Vesturlöndum. Víðast hvar er leyfilegt að segja satt, nema á Íslandi. Á meginlandi Evrópu eru þó sums staðar bannaðar skoðanir. David Irving var dæmdur í fangelsi í Austurríki fyrir að gera lítið úr helför gyðinga. Sums staðar er umtal bannað. Í Frakklandi var eBay knúið til að hætta við uppboð minjagripa frá tíma nazista. Þýzkaland er líka afar viðkvæmt fyrir öllu, sem gerðist á tíma Þriðja ríkisins. Fólk er enn hrætt við það, sem gerðist fyrir sextíu-sjötíu árum. Fyrir tveimur kynslóðum. Það lýsir sér í lögum og dómum aðildarríkja síðustu styrjaldar.

Lesist aftan frá

Fjölmiðlun

Mogginn er hannaður til að vera lesinn aftan frá. Eins og í gamla daga, þegar erlendar fréttir voru á forsíðunni og þær læsilegustu voru á bakinu. Nú er forsíðan hrein fréttasíða, en kynningar á efni blaðsins taka stórt pláss á baksíðunni. Ekki eins vitlaust og það virðist vera. Bandarísk rannsókn sýnir, að þriðjungur fólks flettir blöðum og tímaritum aftan frá. Erlend tímarit taka tillit til þessa, setja fyrirsagnakennt efni aftarlega í margra síðu greinar. Mogginn er ekki lengur strætisvagn allra, heldur sérrit eins og flokksblöðin gömlu, góðu. Nú er hann málgagn aftanfrálesara.

Ping-pong skemmtun

Fjölmiðlun

Ping-pong blaðamennska tröllríður íslenzkum ljósvaka. Andstæðingar eru dregnir ókeypis að borði og látnir rífast um mál í brennidepli. Sannleikur finnst ekki í ping-pongi andstæðinga. Allar pólitískar skoðanir segja samanlagt ekki sannleikann. Hann fæst aðeins fram í rólegu spjalli fróðra manna, sem ekki eru fulltrúar skoðanahópa. Slíkt þykir því miður ekki nothæft í sjónvarpi, þar sem allir eiga að vera hressir og hafa hátt. Ping-pong sjónvarpsþættir eru fyrst og fremst ókeypis sjónvarpsefni á erfiðum tímum, ódýrara en skemmtiþættir. Ping-pong þættir villa á sér heimildir.

Private Eye

Fjölmiðlun

Tímaritið Private Eye gerði á sínum tíma grín að hræsni fólks við andlát Díönu prinsessu. Það birti skrípó af syrgjendum við hlið Buckingham hallar. Þrjár blöðrur stigu upp af hópnum: “Blöðin eru til skammar.” “Já, ég fékk þau hvergi.” “Fáðu mitt lánað, það er með mynd af bílnum.” Myndin sýndi hræsni alls almennings í hnotskurn. Enda varð fólki svo hverft við, að blaðsöluturnar neituðu að hafa blaðið í sölu. Það hefur lagast aftur, en enginn vill auglýsa í Private Eye. Enda ber það af fréttablöðum Bretlands. Það segir fólki og auglýsendum napran sannleika, sem enginn vill heyra

Dagblöð að hrynja

Fjölmiðlun

Dagblaðaútgáfa er að hrynja í Bandaríkjunum. Á Wall Street hefur verðgildi bandarískrar dagblaðaútgáfu lækkað um 42% á þremur árum og um 26% á aðeins einu ári, 2007. Þetta felur ekki í sér sveiflu, heldur er það hrun. Búast má við geigvænlegum sparnaði á bandarískum dagblöðum árið 2008. Samt má reikna með, að margir stórforstjórar í bransanum verði búnir að kveðja hann áður en árið 2009 rennur í garð. Hrunið kemur í enda linnulauss undanhalds bandarískra dagblaða í fjármálum um áratugi. Hrunið byggðist fyrst á hvarfi smáauglýsinga yfir á vefinn og síðan á hvarfi annarra auglýsinga þangað.

Skáldbörn ofsótt

Fjölmiðlun

Börn um allan heim skálda Harry Potter. Vefurinn www.fictionalley.org/ hefur 30.000 sögur úr draumaheimi Hogwarts, þar af nokkur hundruð heil skáldrit. Höfundarnir reyna að lúta lögmálum upprunalegu bókanna. Sögur Rowling eru eins konar stillansar fyrir ótal höfunda, sem flestir eru börn. Warner Bros eignaðist réttinn 2001 og fór að ofsækja börnin. Varð illræmt, börnin tóku til gagnaðgerða og fyrirtækið varð að biðjast afsökunar á fíflaskap. Nú er Warner Bros enn á kreiki, búið að kæra www.hp-lexicon.org/ fyrir að gefa út alfræðirit um flókinn heim Rowling og skáldbarnanna.

Goldfinger í biðröð

Fjölmiðlun

Mér kemur ekki á óvart, að Goldfinger-stjórinn höfði mál gegn Vikunni fyrir að segja óþægilega satt. Hann hefur séð langa röð slúbberta, rugludalla og skemmtikónga höfða mál með árangri. Dómstólar dæma fjölmiðla ætíð fyrir að segja satt. Í hvert skipti dæma þeir hærri sektir en samanlagðar sektir allra nauðgara og ofbeldismanna Íslandssögunnar. Firrtir dómstólar kalla á kærur af þessu rangsnúna tagi. Í Bandaríkjunum vinna fjölmiðlar málaferli, ef ekki er hægt að sanna, að þeir ljúgi. Hér telja dómstólar það bara vera verra brot, að fjölmiðlar segi satt. Hér tapar sannleikurinn sjálfvirkt.