Fjölmiðlun

Afsökun með semingi

Fjölmiðlun

Í morgun sá ég enn eitt dæmið um, að fyrirtæki hefur fengið almannatengil til fegrunar. Strætó vísaði fólki frá vögnum á gleðigöngudeginum, því það vanmat þátttökuna. Baðst ekki afsökunar á því, heldur á að hafa „þurft að vísa fólki frá“. Það er engin afsökunarbeiðni, heldur undanbrögð, sem halda ekki vatni. Íslendingar eiga erfitt með að biðjast afsökunar, einkum lögreglan. Iðulega segist hún hafa þurft að gera hitt eða þetta, til dæmis að úða mann. Samt er slík túlkun ekki augljós. „Ég þurfti að drepa hann“ segir morðingi. Túlkun Strætó var svo límd beint á Vísi.is, þar sem latur blaðamaður var á vaktinni.

Lítið er um lausnir

Fjölmiðlun

Undanfarnar vikur hefur ég oft fjallað um vandræði hefðbundinna fjölmiðla heima og erlendis. Í gær kortlagði ég fjölmiðlahrunið í heild, orsakir þess og afleiðingar. Dæmigerð viðbrögð fjölmiðlunga í afneitun eru klisjur: „The older I get the better I was“ (Logi Bergmann). Ég hef rýnt í rannsóknir og umræðu á stofnunum blaðamennsku, svo sem Pew og Poynter. Finn hvergi nothæfar tillögur um, hvernig hrunið verði stöðvað. Væntingar eru um, að nýmiðlar nái að fylla skarð hefðbundinna miðla. En fjárhagsdæmin sannfæra ekki. Sumir segja samskot  eða góðgerðasjóði eiga að fjármagna alvörufréttir. Ekki duga kvótagreifar og Jón Ásgeir.

Þegar traustið týndist

Fjölmiðlun

Hrun hefðbundinna fjölmiðla á sér þrjár meginorsakir:
1. Tæknin breyttist, nýmiðlar komu til sögunnar, tekjur hrundu.
2. Arðsemiskröfur fólu í sér afkastakröfur, sem hindruðu dýrar rannsóknir.
3. Nýir eigendur föttuðu, að notendur hafa takmarkaðan áhuga á gæðum.
Birtingarmyndir eru ýmsar:
1. Rannsóknafréttum stórfækkar.
2. Klipp & lím leysa sannreynslu af hólmi.
3. Kranaviðtöl eru almenn.
4. Ein skoðun plús mótskoðun látnar nægja, skoðanir ekki vegnar og metnar.
5. Mörk efnis og auglýsinga eru óljós.
6. Upplýsingar almannatengla eru meginuppistaða frétta.
6. Fréttahaukar eru reknir og fréttabörn ráðin.
7. Notkun tungumálsins hrakar.
8. Traust á hefðbundnum fjölmiðlum gufar upp.

Fréttahrunið mikla

Fjölmiðlun

Hástig blaðamennsku var árið 1972. Þá fór Washington Post í Watergate, Sunday Times í Thalidomide. Hvort tveggja kostaði rosalega vinnu. Ég þekkti Harold Evans, ritstjóra Sunday Times. Blaðið kom 1967 upp um stórfelldar njósnir Kim Philby. Síðan hallaði undan fæti, Rupert Murdoch eignaðist Times 1981 og rak Evans. Washington Post hefur dregið taum valdhafa og Sunday Times gert hverja bommertuna á fætur annari hjá Andrew Neil. Observer hefur líka hrunið, einkum vegna Kamal Ahmed ritstjóra, málpípu Alastair Campbell, almannatengils Tony Blair. New York Times er útibú CIA og Mossad. Telegraph sigldi á hægri jaðar, aðalheimild íslenzkra Evrópuhatara. Daily Mail rekur stækt útlendingahatur. Þannig fer heimsins dýrð. Allt er rakið í bókinni Flat Earth News eftir Nick Davies hjá Guardian.

Aldeilis frábær krútt

Fjölmiðlun

Þegar ég sótti um skóla í útlandinu fyrir rúmlega hálfri öld, þótti engum það merkilegt. Það var bara gangur lífsins. Nú er önnur kynslóð, svokölluð krútt. Henni hefur verið talin trú um, að hún sé aldeilis frábær. Fyrst segja það foreldrarnir og síðan taka fréttakrúttin við. Þegar krúttið er sent í skóla í útlandinu, skrifar fréttakrútt forsíðuviðtal í krúttblaði við krúttbarnið. Eins og krúttið sé einhver Albert Guðmundsson eða Helgi Tómasson. Sum komast svo upp með að vera krútt alla ævi, komast aldrei í snertingu við veruleika. Bili sjálfstraust krúttsins, fer það bara í nýtt viðtal við fréttakrúttið.

Góð ráð Jóns Hákonar

Fjölmiðlun

Jón Hákon heitinn Magnússon var alvöru almannatengill og hugsaði ekki til einnar nætur. Gaf gott ráð: „Segðu sjálfur frá, segðu það strax, segðu alla söguna og segðu satt.“ Hanna Birna lekadrottning hefði betur fylgt hinu góða ráði. Í staðinn þæfist hún fyrir mánuðum saman, flýr úr einu lyginni í aðra og framlengir þjáningu sína. Pólitíski ferillinn er orðinn samfelld harmsaga: Undirferli gegn þeim, sem eru fyrir henni og yfirgangur gegn minni máttar, svo sem lögreglustjóra og hælisleitendum. Frægast var, er hún reyndi að velta Bjarna Ben úr sæti formanns. Þegar lekamálið er komið á leiðarenda, verður æran horfin.

Krúttin borga ekki

Fjölmiðlun

Eiríkur Jónsson telur, að lestur á Séð & heyrt hafi aukizt mjög við að miða efnið við eldra fólk. Ég samfagna Eiríki og tel, að stefnan sé rétt. Engin skynsemi er í að gera að markhópi þær ungu kynslóðir, sem ekki vilja kaupa fréttir. Löngu eftir að ég var hættur í dagblaðastússi kom ég nokkra mánuði að DV. Það var þá eindregið skrifað fyrir krúttin. Ég taldi það fásinnu og fékk nokkurn hljómgrunn. Vandinn var hins vegar, að hæfileikafólkið, sem þar starfaði, hentaði skrifum fyrir krúttin. Hafði hins vegar ekki vald á vinnu við rannsóknir í pólitík, sem var minn draumur. Tilraunin gekk því of hægt. Síðar fór Reynir Traustason rösklega þá sömu leið og það hefur gengið betur.

Sannreynsla aflögð

Fjölmiðlun

Ekkert lát er á klippingum & límingum & kranamennsku hefðbundinna fjölmiðla. Ekki séríslenzkt fyrirbæri. Svonefnd Cardiff-rannsókn sýnir, að í Bretlandi er 80% frétta í virðulegum hefðbundnum fjölmiðlum efni frá öðrum aðila. Helzt frá blaðurfulltrúum málsaðila. Sannreynsla hrynur í brezkum fjölmiðlum, bull fer beint í gegn. Engin vörn sést í stöðunni, önnur en sú, sem fæst í óháðum vefmiðlum, bloggi og fésbók. Svo og samtökum og stofnunum slíkra aðila. Til að sannreyna gang mála þarf að fylgjast með því, sem þar er sagt. Þar sást, að ýmsar fréttir voru bara bull, svo sem fræg gereyðingarvopn Saddam Hussein.

Óbærilegar afkastakröfur

Fjölmiðlun

Sú skoðun mín, að blaðamennsku hafi farið að hraka hratt um aldamótin, styðst við brezkar og bandarískar rannsóknir. Nick Davies segir frá sumum í bókinni Flat Earth News. Þær sýndu stórauknar afkastakröfur. Blaðamaður skrifar nú 50 fréttir á viku og talar í því skyni við 25, þar af 4 augliti til auglitis og er alls 3 tíma utan skrifstofunnar. Auðvitað engin blaðamennska, heldur klipp & lím & krani. Ég sá þetta um aldamótin, er glærufræðingar komust til valda á miðlunum með markaðsmenn, ímyndartengla og viðburðafræðinga. Á háum launum, gleyptu störf blaðamanna og kunnu ekkert. Jafnframt þráðu blaðaeigendur fé í ævintýri sín, juku arðsemiskröfur. Ég segi frá því rugli í starfssögu minni.

Afleiðing glærufræðinga

Fjölmiðlun

Þegar glærufræðingar taka við stjórn á fjölmiðlum, sjá þeir fljótt, að fín fréttamennska er dýr. Þeir losa sig því við dýra fréttahauka og tímafrekan fréttagröft. Ráða ódýr fréttabörn í staðinn. Afleiðingarnar höfum við séð í tvo áratugi. Hefðbundnir fjölmiðlar grotna niður í kranaviðtöl og klipp & lím áróðurs frá sérhagsmunum á vondri íslenzku. Notendur fjölmiðla venjast bulli, sem stríðir gegn íslenzkri tungu og almennri rökhugsun. Vegna fáfræðinnar verða þeir ónothæfir sem kjósendur. Í skarðið hlaupa nýir fjölmiðlar, þar sem brottreknir fréttahaukar safnast saman til segja fólki heiðarlegar fréttir.

Atgervi flýr fjölmiðla

Fjölmiðlun

Fátækt hefðbundinna fjölmiðla og starfsmannastefna yfirmanna þeirra leiðir til yfirtöku nýrra fjölmiðla á alvörufréttum. Þeir hefðbundnu losuðu sig við dýra blaðamenn, sem gátu kafað ofan í mál og spurt erfiðra spurninga. Sumir þessara hæfileikamanna safnast saman á nýjum fjölmiðlum, svo sem á Kjarnanum. Hjá slíkum fjölmiðlum fáum við alvörufréttir, sem við söknum á hefðbundnum fjölmiðlum. Þar erum við laus við kranafréttir, þar sem ráðherra bullar án þess að vera minntur á réttar staðreyndir. Ráðherrar sækjast eftir samtali við fréttabörn hefðbundinna miðla. Þau leyna heimsku og eymd ráðherranna.

Fátt um fína drætti

Fjölmiðlun

Eini hefðbundni fjölmiðillinn, sem stundar alvöru blaðamennsku, er DV. Þorir, þegar aðrir þegja. Hlutar af Ríkisútvarpinu eru líka góðir, einkum Kastljós og Spegillinn. Að öðru leyti hafa nýir fjölmiðlar tekið við. Þar fer fremstur Kjarninn, sem nánast eingöngu helgar sig uppljóstrunum og vandar sig. Góðir sprettir eru í staðarblöðunum Reykjavík og Akureyri. Að öðru leyti er auðn í fjölmiðlun. Fréttablaðið segir fátt, aðrir þættir 365 miðla eru hálfu verri. Mogginn er rugl á kostnað kvótagreifa, flokkast sem áróðursrit. Ég mundi svo tárast, ef ég þyrfti að nefna þá fjölmiðla, sem ekki eru hér þegar nefndir.

Krani eða ekki krani

Fjölmiðlun

Þegar Karl Garðarsson segir kost og löst á Framsókn, getum við spáð í orðin. Viðtal DV við hann kallar ekki á viðtöl við aðra til jafnvægis. Hefur innra jafnvægi, er ekki kranaviðtal. Þegar hins vegar SDG talar við fjölmiðla, er ekkert á orðum að græða. Þar talar siðblindingi, sem bullar út í eitt. Allt hans tal er samhengislítill vaðall, sem blekkir fábjána, þegar enginn er til jafnvægis. Þegar fjölmiðlar skrúfa frá krananum SDG, verða þeir ætíð að hafa álitsgjafa til að vísa á staðreyndir. Annars verða þeir aðilar að forheimskun kjósenda. Á kranamennsku klikka fjölmiðlar einmitt í aukinni fátækt sinni.

Blindaður af hatri

Fjölmiðlun, Punktar

Eins og fleiri hef ég fengið tölvupóst frá netfanginu tryg49@hotmail.com. Þar tjáir sig maður, sem segist heita Tryggvi Gunnarsson. Aldrei hefur mér dottið í hug, að þetta væri samnefndur umboðsmaður Alþingis. Davíð Oddsson er hins vegar svo trylltur af hatri, að hann verður blindur á augljós atriði. Lagði Reykjavíkurbréf undir davíðskar ofurskammir um Tryggva umba vegna skoðana nafnans. Löngun Davíðs til að klekkja á umbanum byrgði honum sýn á einföld persónuvíxl. Ekki birti til hjá Davíð, þegar honum var bent á þetta. Sagði þá    bréfið vera falsað, sem svo er þó ekki. Eftir dúk og disk baðst Mogginn svo afsökunar, en ekki trylltur Davíð.

Andvana fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Sigmundur Davíð lofaði landsfundi Framsóknar einna minnstu skuldabyrði Evrópu árið 2020. Ég hef ekki séð, að fjölmiðlar taki stórtíðindin upp og kanni, hvernig ruglið gangi upp. Séreinkenni íslenzkra fjölmiðla er, að þeir láta lygnasta mann landsins komast upp með hverja firruna á fætur annarri. Á sama stað túlkaði hann að nýju loforðið um 300 milljarða gjöf til íbúðareigenda. Nú felst svigrúmið í tekjum af bankaskatti upp á smápeninga. Fjölmiðlar eiga að birta línurit yfir sífelldar breytingar SDG á loforðum sínum. Þeir eiga jafnóðum að rekja söguna og kalla í sérfræðinga. En gera ekki, eru andvana, þjóðinni til einskis gagns.