Hilary Clinton vann forkosningarnar í New Hampshire á síðasta sólarhring baráttunnar. Skýringin er, að konur hunzuðu kannanir og flykktust yfir í hennar herbúðir á allra síðustu stundu. Þær risu upp gegn fjölmiðlum, sem gátu ekki dulið gleði sína yfir óförunum í Iowa. Karlrembdir bandarískir fjölmiðlar ögruðu þessum konum. Álitsgjafinn Libby Brooks rekur í Guardian Unlimited ótal dæmi um gróið hatur fjölmiðlunga á frambjóðandanum. Fremstur fer þar Carl Bernstein, sem skrifaði undarlega bók um Hilary, “A Woman in Charge”. Nú fá fjölmiðlarnir á baukinn, sem þeir eiga vissulega skilið.