Fjölmiðlun

Samtal fávitanna

Fjölmiðlun, Punktar

Sjávarútvegsráðherra sagði í viðtali við Ríkissjónvarpið, að hann mundi láta athuga, hvað stæði í lögum um stjórnarráðið. Athuga, hvort ákvæði í lögum frá 1999 hafi verið fellt út í lögunum frá 2011. Andvana fréttamaður spurði ekki, hvort betra hefði verið að fletta lögunum, áður en Fiskistofu var sparkað. Lögin frá 2011 eru sýnileg á netinu, hver sem getur flett þeim upp á mínútu. Sigurður Ingi hyggst skipa nefnd í málið. Ráðherrann sagði líka, að gagnrýnin væri misskilningur. Andvana fréttamaður spurði ei, í hverju sá misskilningur fælist. Ráðherrann sagðist nú mundu kortleggja málið. Andvana fréttamaður spurði ekki, hvort heppilegt sé að framkvæma fyrst og kortleggja svo. Fávitar töluðu saman.

Þagnarbandalag heimsfjölmiðla

Fjölmiðlun

Farinn að hafa miklar áhyggjur af lýðræðinu. Hávær er þögn heimsfjölmiðla um samsæri auðs og valda um, að auðræði yfirtaki Vesturlönd. Evrópusambandið og Bandaríkin eru búin að gera uppkast að samningi um réttarstöðu auðrisa sem jafningja fullvalda ríkja, TISA. Sérstakir dómstólar eiga að skera úr deilum þjóðríkja og fjölþjóðafyrirtækja. Draga á úr eftirliti með bönkum og verndun náttúru og neytenda. Í öllum atriðum er dreginn taumur þessa eina prósents, sem stjórnar heiminum í krafti auðs og valda. Ekki orð um þetta í Guardian, New York Times, Spiegel, Le Monde eða El País. Þagnarbandalag heimsfjölmiðla.

Fjölmiðlar rakni úr roti

Fjölmiðlun

Líklega verðum við að bíða eftir næsta tölublaði Kjarnans til að fá viðbrögð stjórnvalda við nýjum uppljóstrunum Wikileaks. Sýna samsæri Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um auðræði í stað lýðræðis. Að samningnum hefur lengi verið unnið og hann er nú til í uppkasti. Á að vera leyniplagg fimm ár fram yfir gildistöku. Ísland var aðili að samsærinu í tíð Össurar Skarphéðinssonar og er það í tíð Gunnars Braga Sveinssonar. Hvorugur hefur sagt eitt orð um þetta mál. Það finnst mér jafngilda landráðum beggja. Tímabært er, að hefðbundnir fjölmiðlar vakni til lífs og segi okkur fréttir af Wikileaks-leka aldarinnar.

Ráðherrann ærulausi

Fjölmiðlun

Bjarka Magnússyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni og fleirum á DV tókst að koma ranglega nefndu lekamáli að leiðarenda. Án hjálpar fleiri fjölmiðla tókst þeim að hrekja Hönnu Birnu innanríkisráðherra úr einni lygi í aðra. Til þess þurfti þrautseigju, því þetta var kallað einelti og sóðaskapur. Fyrst neitaði ráðherrann öllu, kenndi síðan öðrum um, Rauða krossinum um tíma. Síðan faldi ráðherrann sig bak við fleiri en eina útgáfu skjalsins. Minnisblað hét það um tíma og svo hét það öðru nafni. Allan tímann veltu ráðherra og aðstoðarfólk hennar sér um í lyginni. Nú er málið að mestu upplýst og ráðherrann ærulaus.

Skil Ingva Hrafn vel

Fjölmiðlun

Ég skil Ingva Hrafn vel. Sárt er fyrir fréttamenn að láta ljúga að sér. Enn verra er að hafa beðist afsökunar á því, sem er satt. Ég hef líka lent í því og gleymi aldrei. Ráðherra fullyrðir eitthvað og þú hefur ekki innsýn til að vefengja. Sannleikurinn kom svo í ljós og siðblindur ráðherrann vissi hann allan tímann. Það særir fagstoltið að lúta fyrir siðblindingja. Ingvi Hrafn lenti þannig í Hönnu Birnu. Hún náði undirtökunum, hundskammaði hann fyrir þvætting og hann baðst aumur afsökunar. Þegar hann síðar komst að hinu sanna, brjálaðist hann. Skil hann vel og hvet menn til að vantreysta siðblindingjum.
(Hrafnaþing; byrjar á 7:20, hámark upp úr 14:30)

Lítill áhugi á fótbolta

Fjölmiðlun

Íslenzkir fjölmiðlar ýkja áhuga heimsins á fótbolta. Skoðanakannanir sýna, að annar hver Breti og Frakki hefur engan áhuga á fótbolta. Sýna líka, að þann mikla áhuga, sem fjölmiðlar fjalla um, er aðeins að finna hjá fjórðungi íbúa fótboltalanda, svo sem Hollands, Þýzkalands, Grikklands, Rússlands og Ítalíu. Í mörgum löndum er hlutfallið lægra. Yfirleitt er áhugi fólks á boltaíþróttum aðeins brot af því, sem ætla mætti af trylltu rými slíkra íþrótta í sjónvarpi allra landsmanna. Geri samt ekki ráð fyrir, að íslenzk hlutföll séu neitt skárri. Bolti á að vera á sérstakri rás og láta aðaldagskrá fólksins í friði.

Mínir daglegu miðlar

Fjölmiðlun

Mældi daglega notkun mín á miðlum og hún var þessi: Fréttagáttin 15 mínútur, Blogggáttin 15 mínútur, Fésbókin 60 mínútur. Nota ekki hefðbundna fjölmiðla. Skanna fréttafyrirsagnir allra þeirra á Fréttagáttinni, staðnæmist við sumar og sé fyrstu línur fréttar, opna 10 fréttir á dag. Geri sama við allt blogg í tímaröð á Blogggáttinni, opna 10 á dag. Les alls ekki „virka í athugasemdum“, hvorki með fréttum né bloggi. Mest er á fésbók að græða, spakir álitsgjafar tengja blogg og fésbók og fá athugasemdir í fésbók. Les þá afar upplýsandi umræðu, enda undir nöfnum fólksins. Nægir mér til að fylgjast með þjóðmálum.

Fótósjoppuð pólitík

Fjölmiðlun

Ég skil, að Flokkurinn fótósjoppi búfræðinginn úr Skötufirði yfir í amerískan kvikmyndaleikara til að selja okkur nýjan borgarstjóra. Skil hins vegar ekki, að Framsókn skuli vera farin að fótósjoppa leiðtoga sína yfir í kinnskæra og blíða blómarós úr sveitinni. Nýjar fótósjopp-ljósmyndir forsætisráðherra og borgarstjóraefnis Framsóknar eru þannig nokkurn veginn eins. Mætti kallast samruni í fótósjoppi. Almannatenglar Framsóknar telja gula blómarósarímynd henta kjósendum í Reykjavík. Líklega er ætlunin að selja Framsókn undir merki sakleysis! Væri samt anzi langt gengið. En pólitíska fótósjoppið er spennandi rannsóknarefni.

BLÓMARÓS eitt
BLÓMARÓS tvö

Nigel Farage slátrað

Fjölmiðlun

James O’Brien hjá LBC slátraði pólitískri dægurstjörnu í sjónvarpinu í gær. Nigel FARAGE hjá Brezka Sjálfstæðisflokknum, UKIP, varð þar klumsa. Spunakarl hans, Patrick O’Flynn, sá í miðju viðtali, að hann var kominn út í ógöngur og reyndi að hemla. Allt kom fyrir ekki og hinn kunni Evrópuhatari varð sér til skammar. Átrúnaðargoð Heimssýnar og annarra samtaka gegn Evrópusambandinu heillaði fáa í viðtalinu. Þar var farið yfir kynþáttahatur og útlendingahatur hans og tilraunir hans til að safna um sig þjóðrembdum heimskingjum. Spyrla og þáttagerðarfólk eins og O’Brien vantar sárlega hjá íslenzkum fjölmiðlum.

„Disinformation“ sjónvarps

Fjölmiðlun

Ríkissjónvarpið setur upp leikrit í fréttum. Þar koma fram oddvitar flokkanna í hverju kjördæmi fyrir sig. Þeir þylja kosningaloforð flokkanna. Skilaboð sjónvarpsins eru þessi: Ef þú hlustar á öll loforðin, geturðu ákveðið hvern þú kýst. Bara mjög fávíst fólk trúir þessu og aðeins mjög fávísir fréttamenn trúa, að þetta sé málið. Fréttamennirnir virðast lifa í sérstökum heimi, þar sem ekkert síast inn af reynslu undanfarinna kosninga. Raunar er alls ekkert samband milli loforða og efnda. Illa gert er að halda slíku sambandi á lofti. Slík tilraun til að blekkja kjósendur nefnist á fagmáli: „Disinformation“.

Ósjálfstæð fréttabörn

Fjölmiðlun

Fréttabörn endurtaka í sífellu sömu hugsunarvillu: Lögreglan „þurfti“ að gera þetta eða hitt. Nýjasta dæmið er frétt um, að kalla hafi þurft á sérsveitina. Í þessu felst sú skoðun, að þetta hafi verið nauðsynleg aðgerð. Blaðamaður getur ekki haldið slíku fram, aðeins haft eftir einhverjum, að eitthvað hafi „þurft“ að gera. Annars segir hann bara að kallað hafi verið á sérsveitina, sem er óhlutdrægt orðalag. Dæmið sýnir, hversu háð fréttabörnin eru orðin viðmælendum sínum. Éta upp eftir þeim orðalag, sem ættað er frá spunakörlum. Hvenær segir eitthvert fréttabarnið, að löggan hafi „þurft“ að drepa mann?

Ljótur leikur fjölmiðla

Fjölmiðlun

Ríkissjónvarpið tekur þátt í þeim ljóta leik fjölmiðla að telja kjósendum trú um, að kosningaloforð skipti máli. Svo kann að hafa verið fyrir mörgum árum, en á þessari öld hefur svo aldrei verið. Undantekningalaust hafa flokkarnir svikið kosningaloforð sín og í sumum tilvikum gengið þvert á ítrekuð loforð. Svartasta dæmið er Sjálfstæðisflokkurinn, er lofaði þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Í sjónvarpsfréttum þessa dagana lemur okkur hræsni flokkanna. Ríkisútvarpið telur eins og fleiri, að kjósendur séu fífl. Og vill taka þátt í að troða lyginni í okkur. Það er ljótur leikur.

Óvissuferð internetsins

Fjölmiðlun

Hefðbundnir fjölmiðlar hafa látið undan síga þessa öld. Draga úr rannsóknum, sannreyna síður staðreyndir, flytja í auknum mæli tilkynningar málsaðila. Internetið hefur tekið yfir sumt, en annað síður. Til dæmis bera blogg og fésbók saman orð og gerðir pólitíkusa og koma upp um loddara. Myndskeið og tilvitnanir eru klipptar í pakka og sýna siðblinda vindhana. Orðhenglar eru gerðir hlægilegir. En internetið hefur síður burði til að kafa. Rannsóknir eru dýrar, þarfnast betri tekjupósta. Kastljós og Kjarninn sýna þó viðleitni. Við lifum í millibili óvissuferðar, þar sem sum miðlun rís og önnur hnígur.

Ekki fela spunamenn

Fjölmiðlun

Samskipti blaðamanns og leynds heimildamanns felur í sér samning um traust. Brjóti heimildamaður samninginn með því að gefa villandi upplýsingar, er samningurinn rofinn. Spunamenn eru ekki heimildamenn samkvæmt kennslubókum. Þeir gefa villandi og rangar upplýsingar. Vara þarf við slíkum og beinlínis rífa af þeim hjúpinn. Blaðamenn, sem láta fíflast af spunamanni, mega ekki leyna spunamanninum. Þeim ber skylda til að segja til hans til viðvörunar. Sumir spunamenn sigla undir flaggi heimildamanns. Aðgreiningin er þó skýr. Það var brot á góðri siðvenju blaðamanna að leyna spunamanni hins villandi leka úr ráðuneyti Hönnu Birnu.

„If a source who has been granted anonimity is found to have mislead the reporter, the source’s identity should be revealed. Part of the bargain of anonymity is truthfulness“ Kovach & Rosenstiel: Elements of Journalism, 2001, p. 97.

Fólin reyndu að stjórna

Fjölmiðlun, Punktar

Vitleysa fer oft í gang í pólitík, þegar spunakarlar koma saman. Hanna Birna ráðherra og spunakarlarnir Gísli Freyr Valdórsson og Þórey Vilhjálmsdóttir hugðust stjórna almenningsáliti með spuna. Settu í því skyni af stað róg um aumingja frá Afríku. Hefði gengið í gamla daga, en nú er kominn önnur tíð. Hanna Birna lenti í hremmingum og er illa löskuð. Sett var í gang annað stig vitleysunnar með krísustjórn. Þríeykið reyndi í gær að stýra krísunni. Hvorki er hægt að stýra fólki með spuna eða krísustjórn. Eina, sem dugir, er að reyna engu að stýra, koma bara hreint fram. Slíkt dettur fólum aldrei í hug.