Fjölmiðlun

Allir ljúga um Úkraínu

Fjölmiðlun, Punktar

Þegar ég fattaði, hversu gróflega Nató hafði logið um staðreyndir í Kosovo-stríðinu, setti ég trúverðugleika Nató á núll. Eftir stórlygar Bandaríkjanna um stríðin gegn Afganistan og Írak setti ég trúverðugleika Bandaríkjastjórnar á núll. Þar á sama stað eru Ný-Sovétríki Pútíns. Trúverðugleiki allra þessara aðila er bara hreint núll. Tek ekkert mark á fréttum frá þessum málsaðilum um stöðu mála í Úkraínu, né heldur frá glæpaflokkum þar í landi. Þar af leiðandi hef ég enga skoðun á stöðu mála í Úkraínu. Nema þá einu, að óráðlegt sé að breyta landamærum ríkja einhliða. Það hefur Pútín einmitt gert á Krímskaga.

Fortíð drap framboð

Fjölmiðlun

Hrifningin á framboði Guðna Ágústssonar fjaraði út, þegar spunamenn flokksins áttuðu sig á fortíð hans. Þingmál, þingræður og aðrar skjalfestar heimildir sýna eindregna óbeit á Reykjavík og Reykvíkingum allan feril hans í pólitík. Unnt væri að velta upp möguleikum á endurnýtingu hans í afskekktum kjördæmum, en ekki í höfuðborginni. Skrif á bloggi og fésbók um fortíðarvanda leiddu til nánari skoðunar. Hún sýndi of kolsvarta fortíð fyrir framboð í Reykjavík. Það hefði vakið almenna reiði í borg. Að baki friðarstóls skemmtikrafts vomaði skjalfest fortíðin. Hún drap framboðið, en ekki sendiboðar válegra tíðinda.

Samkeyrsla sannleikans

Fjölmiðlun

Auka má gagnið af þremur sannleiksskýrslum um hrunið. Þær eru meira en þúsund síður hver. Þurfa að vera til í einu stafrænu formi til þess að auðvelt sé að leita í þeim. Það eru einföld vinnubrögð nútímans. Jafnframt þarf að bæta inn í eyður síðustu skýrslunnar með því að setja inn mannanöfn og önnur heiti á viðeigandi staði. Þá geta áhugamenn og fræðimenn rakið sig eftir nöfnum fólks og fyrirtækja og eftir mikilvægum hugtökum. Birgitta Jónsdóttir alþingismaður hefur lagt til samkeyrsluna. Til viðbótar þurfa svo blaðamenn og áhugamenn að staðsetja framangreind lykilorð, gera pakkann fínan. Eitthvað fyrir pírata?

Hávær þögn fjölmiðla

Fjölmiðlun

Hefðbundnu fjölmiðlarnir eru sumir varla að kafa í sannleiksskýrsluna um hrun sparisjóða landsins. Setja þarf inn nöfn þeirra, sem komu að málum sem þjófar og sem umboðssvikarar. Einkum er brýnt, að nöfn manna verði sett við ruplið í SPRON og SpKef. Í Keflavík var málið nátengdast Sjálfstæðisflokknum. Þar sátu menn flokksins við alla kanta trogsins og hámuðu í sig. Þar voru meðal annars bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, er síðan voru endurkjörnir með lófataki. Frábært dæmi um ofurheimsku og siðblindu kjósenda. Raunar er það hinn argasti dónaskapur að gefa út svona skýrslu án þess að birta nöfn allra gerenda.

Les Pál ævinlega

Fjölmiðlun

Páll Vilhjálmsson er skemmtilegasti bloggarinn. Mjög frjór í hugsun og sér ævinlega nýja vinkla, sem öðrum detta ekki í hug. Að minnsta kosti ekki mér. Páll hefur eitt og aðeins eitt skýrt áhugamál; að Íslendingar gangi ekki í Evrópusambandið. Mér finnst það frábært. Lengi bloggaði Páll í umboði einnar af þeim stofnunum, sem snúast um þetta áhugamál. Mig minnir, að Vigdís Hauks hafi losað sig við hann, þegar hún varð þar forstjóri. Vildi væntanlega ekki, að hann skyggði á sig, trúi ég. Satt að segja öfunda ég Pál af að geta ritað linnulaust um eitt og sama mál og aldrei sömu greinina. Ég les hann ævinlega.

Strípuð sjálfhverfa

Fjölmiðlun

Varð fyrst var við fréttabörn um aldamótin. Fólk með óheft sjálfstraust án nokkurrar þekkingar. Síðan hefur hópurinn vaxið, því excel reiknar hag í að ráða tvö börn fyrir verð eins jaxls, sem kann til verka. Slóð fréttabarnanna sést daglega í vondri íslenzku, einkum vefútgáfna að næturlagi. Excel telur ekki ráðlegt að nota prófarkalesara á næturkaupi. Mér sýnist sumir foreldrar hlaða upp stjórnlausu sjálfstrausti í innistæðulausa afkomendur. Sem síðan telja sjálfgefið, að þeir verði stjörnublaðamenn út á strípaða sjálfhverfu. Vita samt lítið um blaðamennsku og ekkert frekar um lífið og tilveruna.

Meðvirkir og samábyrgir

Fjölmiðlun

Erlendis hafa hefðbundnir fjölmiðlar áhrif. Þeir kanna innihald fullyrðinga pólitíkusa og taka þá í nefið, fari þeir með fleipur. Siðblindir loddarar að hætti Sigmundar Davíðs þekkjast ekki á Vesturlöndum. Menn ýkja að vísu og eru óhóflega bjartsýnir, samt varla án sambands við veruleika. Hér trassa fjölmiðlar að fylgja eftir spurningum sínum. Gera sig þannig meðvirka og samábyrga. Hér halda pólitíkusar sig geta bullað í drottningarviðtölum án eftirkasta. Blogg og fésbók koma að vísu fljótt að nokkru í eyðu fjölmiðla. Frumkvæði fjölmiðla væri eðlilegra, en þeir hafa glatað frumburðarréttinum.

Spyrja ekki um svörin

Fjölmiðlun

Flestir þáttastjórar um þjóðmál geta ekki spurt pólitíkusa út í svör þeirra. Geta bara tínt spurningar upp úr bloggi og fésbók. En geta ekki spurt út í svörin. Til þess hafa þeir ekki þekkingu, yfirsýn eða aðstoð í heyrnartóli. Úr bloggi og fésbók hafa fengizt ótal efasemdir um yfirlýsingar Sigmundar Davíðs, um sannleiksgildi þeirra, innihald eða marktækni. Sigmundur svarar flestum spurningum út í hött, með nýrri lygi, nýrri froðu, nýju heimsmeti. Og þá nær þáttarstjóri ekki lengra. Vilji fjölmiðlar veita hér sama aðhald og á Vesturlöndum, verða þeir að geta spurt ítrekað út úr svörum pólitíkusa.

Mál- og stílvillur

Fjölmiðlun

Fyrir aldamót var prófarkalestur fjölmiðla öflugur. Hélt reisn í málfræði, stafsetningu og setningafræði fjölmiðla. Á nýrri öld hefur prófarkalestur minnkað. Einkum sést það í vefútgáfum fjölmiðla og í fyrirsögnum. Haldið er úti sérstöku bloggi og umræðuhópum til að fjalla um minni metnað fjölmiðla, en án árangurs. Blaðamenn eru orðnir háskólamenntaðir og skrifa klossaðan og langdreginn ritgerðastíl. Raunar er sigið í stíl hastarlegra en í málfræði og stafsetningu. Hinir háskólamenntuðu skilja ekki takmörk sín og svara ábendingum oftast með skætingi. Tilfinningunni fyrir tungumálinu hrakar.

Dreifingardrifið dagblað

Fjölmiðlun

Þekki ekkert fríblað, sem hefur eins mikil áhrif og Fréttablaðið. Er hvorki fréttadrifið né auglýsingadrifið, heldur dreifingardrifið. Með tækni þéttari dreifingar en ég sé erlendis. Útflutningur tækninnar mistókst, því ekki var hægt að ná þar þéttri dreifingu. Henni fylgja yfirburðir í öflun auglýsinga á markaðssvæði eins og Fréttablaðið sýnir. Í hagsveiflum er auðvelt að haga síðufjölda eftir auglýsingamagni. Efni er afgangsstærð til að brúa bil milli auglýsinga. Víðast erlendis er lítill metnaður í efni. Því ber Fréttablaðið af öðrum. Lítt er vitnað í erlend fríblöð, en hér er vitnað í Fréttablaðið.

Runka áhorfendum

Fjölmiðlun

Biggest Loser er skrípaleikur, sem gerir grín að offitungum. Ekki þeim til hjálpar, heldur til að runka áhorfendum, sem hlæja að fórnardýrunum. Samtök fagfólks um átraskanir, félag næringarfræðinga, félag fagfólks um offitu og Matarheill kvarta yfir sjónvarpsþættinum. Ég skil það mætavel. Þetta er ekki vitræn leið til að megrast. Barátta við offitu verður annars vegar að byggja á vísindalegri þekkingu og hins vegar á gerbreyttu hugarfari. Framkoman, sem stjórnendur þáttarins sýna, er vonlaus megrunaraðferð. Fylgir ekki vísindum og breytir ekki hugarfari. Það er skrípaleikur; sjónvarp runkar áhorfendum.

Af hverju sveikstu?

Fjölmiðlun, Punktar

Sundurgreining á svörum Bjarna Benediktssonar í Kastljósi í gær sýnir, að hann svaraði fjórum af nítján spurningum. Daði Ingólfsson birtir TÖFLU um það í bloggi sínu. Helgi Seljan spurði mikilvægustu spurninganna ítrekað og Bjarni fór undan í flæmingi. Flestar spurningarnar snerust um: „Af hverju gekkstu á bak orða þinna?“ Við því fékkst ekki svar, bara útúrsnúningur og flótti yfir í önnur mál. Bjarni sýndi þó meiri stillingu en Sigmundur Davíð. Sá þrútnar jafnan, sé hann þráspurður og geti ekki svarað. Að öðru leyti eru þeir eins: Ómerkilegir loddarar og lygarar sem geta ekki verið landsfeður.

Spyrlar þurfa aðstoð

Fjölmiðlun

Er spyrill fær algeran rugludall í settið, þarf hann aðstoð í heyrnartólinu til að sannreyna fullyrðingar. Þá hefði Mikael getað sagt Vigdísi: „Malta er ekki hluti af öðru ríki, heldur sjálfstætt ríki“ Og hann hefði líka getað sagt henni: „Malta fékk 77 undanþágur, þegar landið gekk í Evrópusambandið“. Ekki er nóg, að bloggarar hlæi að pólitískum rugludalli að loknum atburði. Leiðrétting þarf að koma strax. Sá, sem fær rugludalla í settið, verður að vita sjálfur eða hafa aðstoð til að fletta upp ruglinu. Það er vandinn við íslenzka fjölmiðlun, hún er ófróð um málin. Gísli Marteinn vissi hins vegar.

Sparkið nettröllunum

Fjölmiðlun

Rannsókn í Bandaríkjunum gefur til kynna, að 5% virkra í athugasemdum séu nettröll. Sennilega er það vægt metið, mér sýnist þau geta verið upp undir 10%. Þau hafa fyrst og fremst svigrúm í nafnlausum athugasemdum við fréttir. Bloggarar hafa margir lokað fyrir athugasemdir. Vísa umræðunni til fésbókar, þar sem fólk kemur fram undir nafni. Vel gefst að blanda þannig saman bloggi og fésbók. Fésbókarfólk þarf bara að gæta þess að loka fyrir tröllin, þegar þau misnota svigrúmið. Ég strika tröllin út hjá mér og ráðlegg öðrum að gera eins. Þannig nær umræðan á vefnum tilgangi sínum og verður til fyrirmyndar.

Sammiðlun er lausnin

Fjölmiðlun

„Crowdsourcing“ er afkvæmi vefsins. Valda- og áhrifalausir bylta umhverfinu með því að leggja í púkk. Frábær Wikipedia er dæmi. Þar eru fréttir dagsins uppfærðar oft á dag. Hér á landi er lítið um slíka sammiðlun. Ekki veita fjölmiðlar svona þjónustu. Einstaklingar á borð við Láru Hönnu Einarsdóttur hafa virkað eins og hópur. Hefur flokkað og skráð skjáskot stjórnmálanna. Við þurfum að koma upp samstarfshópum um slík verk til að létta á hverjum einstaklingi. Til dæmis þarf að hafa opna á vefnum tímalínu ummæla SDG á þingmanns- og ráðherraferli hans. Þannig er hægt að verjast siðblindum lygurum og loddurum séríslenzkra stjórnmála.