Fjölmiðlun

Með allt á hreinu

Fjölmiðlun

Gísli Marteinn hafði skoðað fyrri viðbrögð Sigmundar Davíðs við spurningum og kunni þau. SDG grípur fram í, umorðar spurningar og svarar einhverju allt öðru en spurt var um. Viðurkennir aldrei að hafa sagt neitt, sem hann áður sagði. En Gísli Marteinn var með beinar tilvitnanir á blaði, svo að trikkið mistókst hjá SDG. Ýmsir grónir blaðamenn geta lært margt af spurningatækni Gísla Marteins. Svona eiga menn að vinna. Vera með alla veiku punktana á blaði. Og hamra þá, þegar pólitískir bófar beita útúrsnúningi og orðhenglum. SDG hefur hingað til komizt upp með taumlaust rant. Nú vita blaðamenn það.

Þurfa að undirbúa sig

Fjölmiðlun

Í erlendum fréttaþáttum sér maður vel undirbúna fréttamenn, sem láta þriðja flokks pólitíkusa ekki komast upp með rant. Hér er ástandið lakara. Forsætis kemst upp með langdregið þrugl í stað þess að svara sjálfsögðum spurningum. Svarar engu í svörum sínum. Man eftir löngu viðtali í þeim stíl við SDG á Sprengisandi í Bylgjunni í fyrra. Fyrstur fer Gísli Marteinn Baldursson út úr þessu dapra mynztri deyjandi fréttamennsku. Kom vel undirbúinn og lét forsætis ekki komast upp með þvætting. Spurði aftur. SDG reiddist og missti stöðuna úr höndum sér. Birtist okkur sem geðill einræðisblók á undanhaldi.

Fjölmiðlar úti á túni

Fjölmiðlun

Íslenzkir fjölmiðlar eru úti á túni, nota bara kranaviðtöl. Segja okkur ekki, hvenær orð stjórnmálamanns séu lygi. Segja okkur ekki, hversu mikið af orðum stjórnmálamanna séu lygi. Segja ekki frá sálarlífi siðblindra, sem tala bara stanzlausa lygi. Kannski eru fjölmiðlar uppteknir við að finna út úr linnulausum lygum forsætisráðherrans eins, Röðin kemur þá aldrei að óæðri ráðherrum. Fjölmiðlar lepja lygi sjávarútvegs um, að markríldeilan strandi á ofsakröfum Noregs. Það var svo einn „virkur í athugasemdum“ á fésbók minni, sem upplýsti málið. Getulausir fjölmiðlungar ættu að tala varlega um þá, sem eru „virkir í athugasemdum“ og hlaupa í skarðið, segja okkur sannleikann.

Allsráðandi getuleysi

Fjölmiðlun

Hvorki íslenzkir né norskir fjölmiðlar segja satt um makrílvandann. Íslenzkir fjölmiðlar hafa eintóma lygi eftir Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra. Norskir fjölmiðlar hafa eintóma lygi eftir Elisabeth Aspaker sjávarútvegsráðherra Noregs. Þetta segir okkur ekkert. Mér vitanlega hefur bara Ríkisútvarpið sagt frá tveimur sjónarmiðum. Það segir okkur heldur ekki neitt. Aðeins í litlu Færeyjum upplýsa fjölmiðlar sannleikann, þriðju útgáfuna. Ágreiningurinn snýst bara um 0,8% kvótans. Lausnin ætti að vera barnaleikur. Íslenzkir og norskir fjölmiðlar ráða ekki við einfaldar fréttir. Getulausir blaðamenn skrifa um getulausa samningamenn og útkoman er rugl.

Enn bila fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Enn hafa íslenzkir fjölmiðlar ekki sagt okkur, hvað gerðist í makrílviðræðum síðustu viku. Við vitum, að sjávarútvegsráðherra Íslands segir eitt og að sjávarútvegsráðherra Noregs segir þveröfugt. Hverju eigum við að trúa? Af hverju hunzkist þið ekki til að upplýsa neitt? Í öðrum vestrænum ríkjum væru fjölmiðlar búnir að segja, hvorir voru að ná saman og hvor hratt um borðum í fundarlok. Ekki á Íslandi eða í Noregi, þetta eru bananaríki. Fjölmiðlarnir höfðu hvorki mann á fundarstað né í aðalstöðvum Evrópu. Til að segja okkur fréttir af staðreyndum í stað lyga úr krönum. Fjölmiðlar verða sjálfdauðir.

Sjónvarp er óbærilegt

Fjölmiðlun

Sjónvarp drepur alla frásögn. Ferðaþættir breytast í bílferðir sögumanns, drykkju hans og hopp og hí með innfæddum. Náttúruþættir breytast í lífshættu sögumanns í nálægð villidýra. Sagnfræðiþættir breytast í skot af sögumanni að fara niður í gröf, upp úr gröf, upp á hól, niður af hól. Maður rétt sér píramídum og múmíum bregða fyrir. Umræðuþættir verða að rifrildi pólitíkusa og ópum áhorfenda. Allt snýst um sögumann, ekki um söguefni. Erlendis snúast heilar rásir um sjálfhverfu, rásir um mat, ferðir, náttúru, sögu, stjórnmál. Eðli sjónvarps er ímynduð skemmtun og engin fræðsla. Sjónvarp er óbærilegt.

Undanhald fjölmiðla

Fjölmiðlun

Morgunblað kvótagreifa og fjölmiðlar 365-samsteypu Jóns Ásgeirs eru fyrst og fremst málgögn greifa, kvótagreifa, auðgreifa, bankagreifa og valdagreifa. Ríkisstjórnin reynir að færa þá martröð yfir á Ríkisútvarpið. Að því leyti sem brenglaðir fjölmiðlar hafa áhrif og völd, skaða þeir almenning. Að svo miklu leyti, sem fólk hafnar þessum miðlum, tekur það völdin í eigin hendur. Það fær alvörufréttir í Kastljósi, hötuðu DV, Kjarnanum, í bloggi og fésbók. Fólk getur notað nýja fámiðla til að skilja, að rangt er gefið í spilinu. Málgögnin reyna að svæfa vitund fólks. Vilji til varna er allt, sem þarf.

Fattlausir fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Ég tók ekki eftir, að fjölmiðlar hefðu mikinn áhuga á meðferð Alþingis á fríverzlunarsamningi við Kína. Hann er dæmigert rugl, sem flýtur meira eða minna viðstöðulaust gegnum afgreiðslustofnun. Og fjölmiðlar nenna ekki að vinna vinnuna sína. Eini aðilinn, sem nennti að kanna málið og gagnrýna það, er Birgitta Jónsdóttir. Hún sallaði samninginn niður lið fyrir lið. Hann er raunar hluti af íslenzkri áráttu að hafna nánasta umhverfi sínu og leita viðskipta sem lengst í burtu. Reynsla annarra af viðskiptum við Kína er afar blendin, svo ekki sé meira sagt. En fjölmiðlarnir eru með hugann við annað.

Kranablaðamennskan

Fjölmiðlun

Bezt færi á, að Blaðamannafélagið sjálft léti kanna aðkomu fjölmiðlunga að skilningsleysi kjósenda í fyrravor. Komust helztu loforðasmiðir upp með að svara engu um framkvæmd loforða sinna? Loddarinn svalasti var ekki látinn útskýra, hvernig yrði „einfalt“ að framkvæma loforð hans. Spurning er, hvort blaðamenn hafi vikið frá góðri starfsvenju með því að láta loddara vaða á súðum. Erlendis hefðu starfsbræður þeirra spurt nánar út í loforðin. Það ætti að vera tiltölulega „einfalt“ að kanna frammistöðu fjölmiðla að þessu leyti. Vont er, ef blaðamenn gera sig samábyrga í forheimskun kjósenda.

Beðið um bófa og bjána

Fjölmiðlun

Auglýsingin eftir útvarpsstjóra ber þess ekki merki, að óskað sé menntamanns og fjölmiðlamanns. Fyrrum var talið, að útvarpsstjóri þyrfti að vera slíkur. Sem gæti um áramót talað við okkur af siðrænni og vitlegri reisn. Allt slíkt er úr tízku. Með þvaðri mannauðsstjóra er auglýst eftir víxlara af því tagi, sem hefur tröllriðið þjóðfélaginu frá aldamótum. Auglýst eftir siðblindum og menningarsnauðum bófa og bjána, svo töluð sé íslenzka. Nóg er af borubröttum útrásarvíkingum og efnum í slíka. Raunar er verið að auglýsa eftir manni, er tryggi, að ekki sé fylgt forskriftinni um markmið og tilgang ríkisútvarps.

Fjölmiðlar eru samábyrgir

Fjölmiðlun, Punktar

Fjölmiðlungar eiga að hafa áttað sig á, að forsætisráðherra lýgur úr í eitt. Þeir þurfa að vinna heimavinnuna sína í hvert sinn, sem hann opnar munninn. Annars verða þeir bara meðsekir um að dreifa lygum um þjóðfélagið. Reynslan sýnir, að því stærri sem mál eru, þeim mun meira lýgur Sigmundur Davíð. Í hvert sinn sem hann tjáir sig, þurfa fréttamenn að fletta gögnum málsins og finna raunveruleika að baki sýndarveruleikans, sem SDG lifir í. Ekki fyrr í sögu fullveldisins höfum við búið við forsætis, sem gerir engan greinarmun á réttu og röngu. Bullar bara það, sem honum dettur fyrst í hug hverju sinni.

Viljum óbreytta klukku

Fjölmiðlun

Á Vísi í morgun stóð í fyrirsögn: Íslendingar vilja seinka klukkunni. Neðar í fréttinni var sú nánari skýring, að hundruð Íslendinga vildu seinka henni. Á heimasíðu samtakanna fannst loks rétt tala, þá 1214 undirskriftir. Þýðir ekki, að Íslendingar vilji seinka klukkunni. Aðeins, að ótrúlega fáir hafi þessa skoðun miðað við niðurstöður annarra bænarskjala á vefnum. Vísir hefur því snúið málinu á haus. Niðurstaðan er, að sárafáir vilji seinka klukkunni. Bezt er þó að segja 1214 manns vilja seinka klukkunni og fela lesandanum að draga ályktanir. Nákvæmni í faginu fer hrakandi með innreið fréttabarnanna.

Fjölmenni og Þungir

Fjölmiðlun

Sá í frétt, að fjölmenni hafi verið á útifundi um Ríkisútvarpið. Nánar sagt 100 manns. Eftir ýmsu fer, hvort hundrað er fjölmenni. Frumstig lýsingarorða er hættulegt. Miðstig og efsta stig eru auðveldari. Hægt er að segja einn fund hafa verið fjölmennari en annan eða fjölmennastan af tilteknum flokki funda. Í stað frumstigs er oftast betra að nota tölur, sem festa mengið, til dæmis „um hundrað manns“. En blaðamaður getur vitnað í málsaðila, sem segir þetta vera „fjölmenni“. Nýlega voru nánast allir fjölmiðlar sammála um, að dómar hafi verið þungir. Þetta var leiðandi. Hvernig þungir, miðað við hvað?

Kvenmaður með zetu

Fjölmiðlun

Fréttablaðið sveiflar sér snögglega í dag yfir á jaðar þjóðrembunnar. Ólafur Stephensen skorar á forsætis að láta helvítis útlendingana, sem plaga okkur, heyra það. Hann hefur einkum tvennt út á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn að setja. Í fyrsta lagi er það „kvenmaður“, sem flytur okkur athugasemdir sjóðsins. Í öðru lagi hefur kvenmaðurinn nafn, “sem byrjar á zetu“. Þið vitið, að hvort tveggja er afar óþjóðlegt, kvenmenn og zeta. Ritstjórinn vill ekki hlusta á sjóðinn, hafi aldrei „ráðið Íslendingum heilt“ og ekkert gert „til að hjálpa okkur“. Ómar sem englasöngur í eyrum þjóðrembinga. Verði ykkur að góðu.

(Við nánari skoðun er Ólafur líklega að gera grín að þjóðrembu forsætisráðherra. Afsakið framhleypni mína)

Fréttamenn meta fínimenn

Fjölmiðlun

Af hyggjuviti sínu skýra fjölmiðlar okkur frá, að dómarnir í Al Thani málinu séu þungir. Ekki segja fjölmiðlarnir, hvaðan þeir hafi þessa skoðun, sem er þó venja í fréttum. Vafalaust eru þar lögfróðir menn á bæjum, sem geta gefið slíkar yfirlýsingar. Gaman væri að vita hverjir. Mikki og Bingi? Gott væri líka að frétta af forsendum álitsgjafanna. Eru fjármálaglæpir bankabófa og uppistand lagatækna þeirra léttvæg mistök í samanburði við bjórkippuþjófnað undirstéttanna? Líklegast finnst mér, að höfundar fréttanna eigi erfitt með að fatta málið: Hægt er að dæma gullétandi fínimenn fyrir stórglæpi þeirra.