Fjölmiðlun

Tvískipt ríkisútvarp

Fjölmiðlun

Með sama framhaldi verður Ríkisútvarpinu skipt í tvennt. Á einum stað verður menning, sem útvarpsstjóri mundi kalla fámiðlun. Þar verður sambandið við fortíðina og menningarsöguna, svo og auðvitað fréttir og fréttatengt, sem fávitar hafna. Þetta verður rekið á fjárlögum í samræmi við bókfært hlutverk Ríkisútvarpsins. Á öðrum stað verður það, sem útvarpsstjóri mundi segja hafa víðari skírskotun. Þar verða nútímatónlist og íþróttir, svo og fávitaþættir eins og nú eru farnir að tíðkast. Sá hluti verður rekinn á auglýsingatekjum og verður fyrr eða síðar seldur einkareknum sérfræðingum í atferli fávita.

Jólabókin eftir ár?

Fjölmiðlun

Nokkrar spurningar vakna, ef Siggi hakkari gabbaði Julian Assange. Var Siggi með gögnin, eða var hann ekki með þau? Hafi hann ekki verið með þau, hversu lengi trúði Assange, að hann væri með þau? Hafi Siggi verið með gögnin, hvað varð þá um þau? Fóru þau til bandarísku njósnaranna, sem tóku strákinn með vestur um haf? Hver er með þessi gögn, ef þau voru og eru til? Tengjast þau tölvunni, er ofaukið var á skrifstofu Alþingis? Hvað varð um símtöl Alþingis og hvað varð um 40 gígabit af gögnum íslenzkra fjármálafyrirtækja? Sæmilegur reyfarahöfundur væri ekki í vanda með gátur af því tagi. Jólabókin eftir ár?

Paranoja í bóksölu

Fjölmiðlun

Mér finnast rafbækur Amazon dýrar, en kaupi þær samt. Viðskiptamátinn hentar mér, þótt ég hafi sumt við hann að athuga. Bókin kemur í hvelli og lestur á skjá er gamlingjanum auðveldari en á pappír. Get léttilega flutt bækur milli MacBook og iPhone. Tek eftir, að ég er hættur að kaupa íslenzkar bækur. Þær eru fáar til sem rafbækur og umgengnin er tæknilega erfiðari. Líklega er það vegna paranoju íslenzkra útgefenda, sem óttast, að ég býtti bókum. Þeir sem óttast, að tæknin hirði af sér tekjurnar, ættu að skoða betur, hvernig mynztur Amazon virkar. Annars týnast þeir bara eins og rétthafar tónlistar.

Faðmlög við ríkisvald

Fjölmiðlun

Hefðbundnir fjölmiðlar biluðu meðal annars á faðmlögum við ríkisvaldið. Tóku opinbera aðila trúanlega. Í Bandaríkjunum skildu njósnastofnanir fjölmiðlana eftir blóðuga á velli. Starfsmenn leyniþjónustunnar voru inni á ritstjórn New York Times og eru kannski enn. Ritstjórar heimsblaðanna tóku trúanlegar lygar kerfisins. „Hvernig eigum við að vita betur“, sagði einn. Svo kemur allt í einu lygin í ljós í tölvupóstum og gagnabönkum. Einkum að þakka tveim einstaklingum, Chelsea Manning og Edward Snowden, svo og samtökum á borð við Wikileaks og ICIJ rannsóknarblaðamanna, sem eru að grafa í skattaskjólum.

Kórréttar gæsalappir

Fjölmiðlun

Hefð gæsalappa er misjöfn eftir löndum. Engilsaxnesk hefð er önnur en þýzk og frönsk er enn önnur. Íslenzkar gæsalappir eru sér á parti og til skamms tíma erfiðar í umgengni á tölvum. Loksins eftir dúk og disk hef ég nú lært að setja réttar íslenzkar gæsalappir án flókinni aðgerða. „Svona“. Biðst forláts að hafa of lengi látið amerískar gæsalappir yfir mig og ykkur ganga. Framvegis verða kórréttar gæsalappir í texta mínum. Hefðir eru til að halda þær, ekki til að hlaupa eftir meintum þægindum frá útlandinu. Mun auðvitað líka halda mig við z-una, sem er frábær stafur án undantekninga frá reglum.

Ofkeyrð óhlutdrægni

Fjölmiðlun

Hefðbundir fjölmiðlar biluðu meðal annars á ofkeyrðri óhlutdrægni. Fóru að birta bara sjónarmið A og B og C. En sögðu okkur ekki, hvert sé rangt og hvert sé rétt. Rugl situr því við sama borð og staðreyndir, trúarofsi situr við sama borð og raunvísindi. Eins konar ping-pong, fyrst talar annar og svo talar hinn. Enginn veit lengur neitt í sinn haus. Fjölmiðlar segja okkur til dæmis ekki, að SDG sé að bulla, sé úti á túni. Ping-pong blaðamennskan rýrði hlutverk hliðvarðarins og skóf traustið af hefðbundnum fjölmiðlum. Einmitt þegar þröngmiðlar vefsins ruddust á völl fjölmiðlunar og töluðu hreint út.

 

Einokunarbófar á stjái

Fjölmiðlun

Netflix-deilan minnir mig á einokunarverzlunina 1602-1787. Kaupmenn áttu þá landshluta. Menn voru dæmdir fyrir að verzla við rangan kaupmann. Leifar af því fáránlega kerfi eru hér enn, verndaðar af ríkisvaldinu. Málið snýst ekki um höfundarrétt, heldur um verzlunarfrelsi. Tilgreindir aðilar þykjast eiga Íslandsverzlunina og vilja banna mönnum að verzla við aðra en þá. Þetta er úrelt og á að banna. En Alþingi hefur jafnan verið hallt undir bófa og hagað reglum í þeirra hag. Menn verða að bindast óformlegum samtökum um að hafna séríslenzkum einokunarbófum. Öðlast frelsi til að skipta við betri kaupmenn.

Hann er enginn Egill

Fjölmiðlun

Í fyrsta sunnudagsþætti sínum byrjaði Gísli Marteinn Baldursson á að hæðast að hraunavinum, sem reyndu að verja Gálgahraun. Síðan rann hann á hefðbundið hliðarspor að ræða, að hraunið héti bara Garðahraun. Í þættinum notaði hann sjaldséð orðaval, sem einkennir nokkra Hannesar-ista. Til dæmis kallaði hann hrunið “svokallað”, ríkissjóð kallaði hann “hít”. Og “óeirðir” var orð hans um búsáhaldabyltinguna. Í bloggi líkti Þráinn Bertelsson honum skarplega við kettling. Rétt lýsing á feninu, er Gísli Marteinn hefur álpast út í. Virðist lítt hafa fullorðnast á útlegð sinni erlendis á kostnað “hítar” borgarinnar.

Falsanir allsráðandi

Fjölmiðlun

Uppljóstranir hafa leitt í ljós, að hagsmunaaðilar og ríkisstofnanir stunda víðtækar falsanir, er komast framhjá hliðvörzlu fjölmiðla. Þannig reka Exxon og aðrir umhverfissóðar öflugar lygar um, að loftslagsbreytingar séu engar og ekki af mannavöldum. Leyniþjónustur og ráðuneyti flytja stórtækar lygar um aðdraganda styrjalda og framvindu þerra. Fremst í flokki eru CIA, brezku leyniþjónusturnar og NATÓ. Dreift er lygum um Saddam Hussein. Bashar Assad og yfirleitt alla, sem eru fyrir vesturveldunum. Fáfróðir fjölmiðlar gleypa við flóðinu. Lygaflaumur í fjölmiðlum varð sérkenni tveggja síðustu áratuga.

Ónýt hliðvarzla

Fjölmiðlun

Cardiff-skýrslan um stöðu fjölmiðlunar sýnir, að staðfestingar hafa að mestu fallið niður. Beztu fjölmiðlar Bretlands lifa á óstaðfestum fréttum Press Association og Reuters, sem síðan eru óstaðfestar af miðlunum. Mikið af restinni er PR almannatengla og blaðurfulltrúa. 18% fréttaefnis beztu miðla er eigin vinna. Fréttastofur eru orðnar að verksmiðjum. Journalism er orðið að Churnalism. Starfsfólki hefur fækkað um helming og afkastakröfur hafa þrefaldazt. Engin tíð er lengur til staðfestinga. Í Bretlandi eru fleiri PR-menn en blaðamenn. Fréttamagnið hefur aukizt, en traustið bilað. Staðan er heldur skárri hér.

Fjölmiðlar deyja

Fjölmiðlun

Um allan hinn vestræna heim þjappast fjölmiðlar í eigu viðskiptahagsmuna. Markaðshagkerfi er tekið upp á ritstjórnum. Dýrri fjölmiðlun er hafnað, svo sem rannsóknablaðamennsku. Ódýrir starfsmenn ráðnir í stað reyndra hauka. Afkastakröfur hindra tímafrekar, brýnar staðfestingar upplýsinga. Fjölmiðlar fyllast af lélegu hráefni úr tölvupósti frá almannatenglum. Traust miðlanna rýrnar og efnahagur þeirra versnar. Byrjaði hjá Los Angeles Times 1995 og er orðið að skriðu. Athugulir notendur hafna fjölmiðlum og snúa sér frekar að þröngmiðlum á vefnum. Markaðshagkerfið er að drepa hefðbundna fjölmiðla.

Framtíðin er í miðöldum

Fjölmiðlun

Framtíðin á vefnum leynist ekki í afmörkuðum tímaritum á borð við Kjarnann. Veraldarvefurinn hafnar hefðbundinni hliðvörzlu fjölmiðlunga og formlegum útkomutímum fjölmiðla. Vefurinn flýtur, minnir á miðaldir fyrir innreið prentlistar. Þá gengu fréttir milli manna á torgum og markaði. Síðan kom prenttæknin og færði fréttamiðlun í það formfasta horf, sem nú er að deyja út. Notkun fréttarita, dagblaða og ljósvaka minnkar ört. Heilar kynslóðir nota ekki gamla miðla. Í staðinn notar fólk blogg og fésbók, tíst og túbu. Fjölmiðlungar taka þátt í byltingunni, en eru þar ekki lengur hliðverðir.

Einbeitingarskortur minn

Fjölmiðlun

Mig skortir EINBEITINGU. Þegar ég sæki fyrirlestur, dettur athyglin ítrekað úr sambandi. Því hef ég búið fyrirlestra mína og námskeið í blaðamennsku á allt annan hátt. Efnið er á myndskeiðum, svo að þú getur notað þau, þegar þér hentar og þú ert í stuði, hvar sem þú ert. Þú getur horft á myndskeiðin, hlustað á þau, lesið textann á skjánum eða á meðfylgjandi skjali. Þú getur svissað fram og aftur milli skilningarvita til að hvíla þig eða notað fleiri en eitt skilningarvit í senn. Námskeiðin eru hér á heimaslóðinni www.jonas.is. Þau eiga að lina skort á kennslu í sjálfu handverki blaðamennskunnar.

Tuttuguþúsund heimsóknir

Fjölmiðlun

Tuttuguþúsund mismunandi Íslendingar heimsóttu bloggið mitt í gær, 19.961 mismunandi IP-tölur. Samkvæmt google.com/analytics. Á einum sólarhring, 15. september. Fyrir utan þrasið mitt á fésbók. Ég þakka fyrir aðild ykkar að þessu óvænta persónulega meti. Þetta blogg er orðið eins og heill fjölmiðill með tugum starfsmanna.

Gegnsæið snarminnkað

Fjölmiðlun

Smám saman eru dómsúrskurðir að verða einkamál dómara og dæmdra. Færri úrskurðir verða birtir, þeir verða birtir seinna og þurrkuð verða út nöfn málsaðila. Þetta er niðurstaða Dómstólaráðs, sem virðist stjórna vaxandi leyndó dómsmála. Eins og víðar í kerfinu er stefnt að niðurskurði gegnsæis. Stefnt er minni getu almennings til að fylgjast með því, er gerist í dómsal. Dómarar vilja vera í friði með sín mál og virðast komast upp með það. Með sama framhaldi verður nauðsynlegt að koma upp stjórnmálaafli gegn þessu. Sem reynir að rífa niður girðingar, er ljósfælnir eigendur valdsins strengja.