Greinar

Afburða stjórnarskrá

Greinar

Evrópusambandið fékk í fyrra stjórnarskrá, sem ber af öðrum slíkum, þar á meðal þeim bandarísku og íslenzku. Öðrum þræði er eðlilegt, að ný stjórnarskrá sé betri en hinar gömlu. En jafnframt er ljóst, að önnur og betri hugsun er að baki hinnar nýju stjórnarskrár, sem hefur 77% fylgi Evrópubúa.

Evrópska stjórnarskráin hefur mannréttindakafla, sem fer langt upp fyrir nýlegan kafla í íslenzku stjórnarskránni. Evrópska stjórnarskráin leggur meiri áherzlu á félagslegt og menningarlegt réttlæti og spannar fleiri svið, svo sem um réttindi til umhverfisverndar og um réttindi dýra.

Sumt af þessu hefur samevrópskt gildi, svo sem ákvæðið um, að allir skuli hafa rétt til að skrifa til Evrópusambandsins á sínu eigin tungumáli og að fá til baka svar á sama tungumáli. Þannig eru fámenn tungumál varin og þannig er íslenzk tunga ekki varin, því að hún er ekki í sambandinu.

Neytendur, konur, börn og minnihlutahópar eru rækilega varðir í evrópsku stjórnarskránni. Þar er einnig lögð áherzla á frjálsan og væntanlega ókeypis aðgang að skólum og heilsugæzlu, sem Ísland virðist vera að falla frá um þessar mundir. Svipaða sögu er að segja um réttinn til verkfalla.

Evrópska stjórnarskráin reynir að verja fólk gegn of mikilli vinnu með áherzlu á samfellt lágmarksfrí á ári hverju, í viku hverri og á degi hverjum. Það síðasta hefur vakið reiði íslenzkra langferðabílstjóra. Hún gerir líka ráð fyrir fríi foreldra í tengslum við og í framhaldi af fæðingu barna.

Neytendavernd er í evrópsku stjórnarskránni. Vestan hafs verða stjórnvöld að sanna, að vara sé óholl, eins og frægt var í tóbakinu og síðar í erfðabreyttum matvælum. Í Evrópu verða framleiðendur að sanna, að vara þeirra sé ekki óholl. Þetta auðveldar varnir gegn tóbaki og erfðabreyttum mat.

Náttúran nýtur verndar og virðingar í stjórnarskrá Evrópu, sem er óþekkt í sóðabæli Íslands. Það er engin furða, að sameinuð Evrópa hefur tekið algera forustu í umhverfismálum heimsins. Evrópa gerir kröfur til sjálfbærrar þróunar í atvinnulífinu. Þaðan kemur áherzlan á vetni sem orkugjafa.

Stjórnarskrá Evrópu nær einnig til dýra. Í kjölfarið verður verksmiðjuiðnaður í eggjum og kjúklingum bannaður árið 2012. Settar hafa verið reglur um villt dýr og um lágmarksstærð á básum og stíum í gripahúsum. Eitt af markmiðum Evrópu er lífræn ræktun án tilbúins áburðar og tilbúinna eiturefna.

Friður og félagslegur markaðsbúskapur eru einnig markmið í nýju stjórnarskránni, sem verður fyrirmynd breytinga á öðrum stjórnarskrám. Fylgist íslenzka stjórnarskrárnefndin með?

Jónas Kristjánsson

DV

Pyndingarnar

Greinar

Bandaríkjamenn fóru vel með fanga sína í heimsstyrjöldinni síðari eins og önnur vesturveldi. Það létti þeim að vinna friðinn að stríðinu loknu. Meðal Japana og Þjóðverja var ekki ræktað hatur gegn hernáminu. Því komst lýðræði á legg í öxulveldunum og þau urðu meðal hornsteina lýðræðisþjóða.

Nú er öldin önnur. Þótt rannsóknir hafi sýnt, að pyndingar ná engum árangri öðrum en að ná lygasögum upp úr fólki. Þótt þær séu bannaðar samkvæmt alþjóðalögum, sem sett hafa verið að undirlagi vesturveldanna. Nú eru stríðsfangar pyndaðir skipulega bæði í Guantanamo á Kúbu og í Abu Ghraib í Bagdað.

Mikilvægir þættir í bandaríska kerfinu hafa verið andvígir þessari nýju stefnu. Meðal þeirra er innanríkislögreglan FBI, sem hefur ítrekað kvartað við forsetaembættið og gefið út skýrslur, sem gagnrýna pyndingarnar, er hafa haldið áfram síðan myndir birtust um allan heim frá ógeðinu í Abu Ghraib.

William Pfaff, fastur dálkahöfundur International Herald Tribune, telur, að pyndingar hafi verið á stefnuskrá George W. Bush löngu áður en nokkrir stríðsfangar voru til að pynda. Nokkrum dögum eftir hryðjuverkið 11. september 2001 var tilkynnt, að Bandaríkin tækju ekki mark á alþjóðalögum.

Nokkrum mánuðum síðar var búið að gera ráðstafanir í reglugerð til að hindra málsóknir gegn pyndurum hersins. Og í janúar 2002 skrifaði Alberto Gonzales hina frægu greinargerð um lögmæti pyndinga. Hann var síðan verðlaunaður eftir kosningarnar í haust með embætti dómsmálaráðherra.

Samkvæmt Gonzales má fara framhjá bandarískum lögum með því að framkvæma pyndingar utan Bandaríkjanna. Samkvæmt Gonzales má fara framhjá alþjóðalögum með því einfaldlega að láta forsetann lýsa yfir, að allir hinir handteknu séu ekki stríðsfangar, heldur ólöglegir og réttlausir aðilar.

Allar þessar ákvarðanir voru teknar áður en stríðið hófst fyrst gegn Afganistan og síðan gegn Írak. Pfaff telur, að pyndingarnar miðist raunar ekki við að ná í upplýsingar, heldur eigi þær að valda ógn og skelfingu meðal óvina Bandaríkjanna, raunar eins og eyðing borgarinnar Falluja.

Pyndingar Bandaríkjamanna eru skilaboð til heimsins um, að Bandaríkin séu sér á báti, þau taki ekkert mark á áliti umheimsins, þau hagi sér eins og þeim þóknist, þau kvelji andstæðinga sína að geðþótta, þau drepi 100.000 óbreytta borgara í Írak til þess að hinir fari loksins að hlýða.

Tveir gallar eru við bandaríska ógeðið. Þetta er léttasta leiðin til að tapa friðnum eftir stríð og léttasta leiðin til að rústa áliti umheimsins á ógnarstjórn ofstækismanns.

Jónas Kristjánsson

DV

Atlantsgjáin dýpkar

Greinar

Frakkar vinna 1562 stundir á ári og Bandaríkjamenn vinna 1877 stundir, hafa lengri vinnudaga, færri frídaga og mun styttra sumarfrí. Frakkar og fimm aðrar Evrópuþjóðir bæta sér þetta upp með því að hafa 7% meiri framleiðni og með því að leggja áherzlu á lífgæði utan vergrar landsframleiðslu.

Heilsa er betri í Vestur-Evrópu en í Bandaríkjunum, ævilíkur eru lengri og ungbarnadauði er minni. Hjartasjúkdómar og krabbamein hafa minni útbreiðslu. Evrópumönnum líður betur en Bandaríkjamönnum, enda nota þeir 16% landsframleiðslu til tekjujöfnunar meðan Bandaríkjamenn nota aðeins 11% hennar.

Trúarofstæki er útbreitt í Bandaríkjunum, en nánast óþekkt í Evrópu. 68% Bandaríkjamanna trúa, að djöfullinn sé til, og 45% trúa, að endurkoma Krists verði á allra næstu árum. Sömuleiðis er þjóðernisofstæki útbreitt í Bandaríkjunum, 98% telja sig þar þjóðernissinnaða, en aðeins 63% í Evrópu.

Bandaríkjamenn trúa á dauðarefsingu, en Evrópubúar hafa óbeit á henni. Morð eru fjórfalt fleiri á íbúafjölda vestan hafs en austan. 24% Bandaríkjamanna telja, að ofbeldi geti átt við í ýmsum aðstæðum, en aðeins 12% Kanadamanna hafa sömu skoðun, enda líkjast þeir Evópuþjóðum að flestu leyti.

Í Bandaríkjunum lokar yfirstéttin sig inni í vöktuðum hverfum og lokar 2% vinnufærra karlmanna í fangelsum. Af svertingjum á 20-34 ára aldri eru 12% í fangelsi. Svona sjúkt þjóðfélag gæti aldrei þrifizt í Evrópu, þar sem fíkn í áfengi og eiturlyf er talin vera veiki en ekki glæpur.

Ameríski draumurinn snýst um einstaklinginn, að hver sé sinnar gæfu smiður og að hver sé sjálfum sér næstur. Þessi draumur er á hröðu undanhaldi, því að ört fjölgar þeim, sem berjast um á hæl og hnakka án þess að geta lifað mannsæmandi lífi. En evrópski draumurinn er félagslegur og í örum vexti.

Evrópusambandið hefur tekið upp arfinn frá járnkönzlurunum Bismark og Erhard, sem lögðu áherzlu á félagslega velferð til að hafa sátt í þjóðfélaginu, líma það betur saman. Enda er velferðin miklu meiri í Evrópu en í Bandaríkjunum, þar sem margfalt hærra hlutfall fólks er undir fátæktarmörkum.

Evrópumenn spara fé, en Bandaríkjamenn ekki, heldur lifa á krít frá Kína og Japan. Evrópa hafa komið sér upp öflugasta gjaldmiðli heims, meðan dollarinn sígur. Evrópusambandið stækkar örum skrefum og fleiri vilja komast inn. Það hefur fengið nýja stjórnarskrá, sem ber af hinni bandarísku.

Evrópa og Bandaríkin eru gerólík samfélög. Bandaríkin eru ofbeldis- og einræðishneigð í alþjóðamálum, meðan Evrópa leitar sátta. Öll alþjóðamál nútímans snúast um þennan mun.

Jónas Kristjánsson

DV

Ár voldugra afla

Greinar

Náttúruöflin eru ekki síður voldug en máttur mannkyns til eyðingar umhverfisins. Strendur heimsins eru orðnar svo þéttbýlar, að tugþúsundir liggja í valnum eftir flóð af völdum jarðskjálfta. Á sama tíma eru mannanna verk að leiða til hækkunar á yfirborði sjávar í kjölfar jöklabráðnunar.

Hér á Íslandi ber okkur skylda til að taka þátt í að hjálpa þeim, sem eiga um sárt að binda vegna flóðbylgjunnar í Indlandshafi. Það er hluti af siðferðilegum skuldbindingum okkar gagnvart mannkyninu í heild. Af sömu ástæðu þurfum við stöðugt að eiga aðild að föstu hjálparstarfi í Afríku.

Hins vegar eigum við ekki að taka í mál að taka þátt í að hreinsa til eftir hernað og ofbeldi Bandaríkjamanna sums staðar í þriðja heiminum. Þeir verða sjálfir að hreinsa til eftir sig, til dæmis í Falluja, sem þeir hafa jafnað við jörðu. Við höfum nægum verkefnum að sinna annars staðar.

Frétt ársins er, að þátttaka Íslendinga í ofstæki og grimmd Bandaríkjamanna er orðin öllum ljós. Okkar menn eru farnir að leika hermenn í Afganistan með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Núverandi forsætisráðherra er eini vestræni stjórnmálamaðurinn, sem segir, að Íraksstríðið gangi vel.

Maður ársins er Osama bin Laden, fyrir að vera enn á lífi, fyrir að hafa hrakið Bandaríkjaher frá Sádi-Arabíu, fyrir að hafa einangrað Bandaríkin í heiminum og fyrir að hafa breytt þjóðskipulagi Bandaríkjanna í eins flokks fasisma. Það er ekki lítið afrek eins manns í einu af staðföstu ríkjunum.

Álfa ársins er hins vegar Evrópa, sem höktir leiðina fram eftir vegi með nýjan gjaldmiðil, sem er að ýta fárveikum dollar til hliðar sem heimsmynt, sem er búin að setja sér góða stjórnarskrá í anda félagslegs markaðsbúskapar, sem er búin að taka inn tíu ríki Austur-Evrópu af löngum biðlista.

Náin framtíð mannkyns mun í auknum mæli einkennast af spennu milli Evrópu, sem hefur valið sér félagslegan markaðsbúskap, og Bandaríkjanna, sem hafa valið sér stefnu dólgaauðvalds. Í þessari baráttu mun sú stefna hafa betur, sem hefur ekki peninginn í öndvegi, heldur manninn, reisn hans og drauma.

Á þessu ári hefur Ísland færst örlítið í átt frá Evrópu til Bandaríkjanna með stefnu hinna þúsund sára, sem velferðinni hafa verið veitt. Ríkisstjórnin og atkvæðavélar hennar á þingi hafa fjarlægzt ókeypis skólavist og heilsugæzlu, ofsótt öryrkja og breytt skattalögum í þágu hinna ríku.

Þetta er líka árið, þegar Íslandsgreifinn kom frænda sínum og berserki sínum í Hæstarétt, reyndi að koma upp sértækum fjölmiðlalögum og heimsótti glæpamanninn Kuchma í Úkraínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Maður ársins

Greinar

Maður ársins veldur því, að Bandaríkjamenn þurfa að fara úr skóm og beltum í öryggiseftirliti, þegar þeir fara um borð í flugvél. Hann hefur líka gert pyndingar og ofbeldi að tækjum stjórnvalda í Bandaríkjunum og breytt þeim úr vestrænu ríki laga og réttar í ríki geðþóttaákvarðana framkvæmdavaldsins.

Hér er ekki beinlínis verið að tala um George W. Bush forseta, heldur hinn hryðjuverkahöfðingjann, Osama bin Laden, sem enn er ófundinn, þegar þetta er skrifað. Óbeint stýrir hann breyttri utanríkisstefnu Bandaríkjanna og hefur breytt heimsveldinu í spegilmynd hryðjuverkasamtakanna.

Osama bin Laden er talinn hafast við í afskekktu héraði Pakistans nálægt landamærum Afganistans. Þar dvelst hann í ríki, sem er viðurkennt sem staðfast stuðningsríki í stríði Bandaríkjanna gegn hryðjuverkasamtökum. Lengra er tæpast hægt að ganga í ögrun við það langvinna og vonlitla stríð.

Þótt nokkrir stuðningsmenn Osama hafi verið teknir höndum, hafa þúsund nýir stuðningsmenn komið í stað hvers þeirra, því að viðbrögð Bush hafa verið hastarleg. Þeir eru meira að segja farnir að láta að sér kveða í Írak, þar sem þeir voru alls ekki, þegar stríð Bandaríkjanna gegn landinu hófst.

Helzta markmið Osama er að hrekja bandaríska hermenn frá Sádi-Arabíu, hinu helga landi spámannsins. Bandaríkin hafa orðið við því, eru að flytja herinn til furstadæma við Persaflóa af ótta við hryðjuverk í mjög svo heittrúaðri Arabíu. Einnig þannig stýrir Osama gerðum Bandaríkjanna.

Osama hefur knúið Bandaríkin til að taka upp stefnu æðis í hernaði og utanríkismálum og gert þau svo óvinsæl í Evrópu, að meirihluti manna þar telur Bandaríkin vera mestu ógnun við heimsfriðinn um þessar mundir, meiri ógnun en Osama sjálfur. Það er ekki lítið afrek landflótta gamalmennis.

Osama hefur hagað málum svo, að Bandaríkin geta ekki lengur treyst á stuðning Evrópuríkja. Spánverjar eru hættir og Pólverjar eru að draga saman seglin. Í staðinn hafa komið staðfastir stuðningsmenn á borð við geðbilaða ráðamenn í Úsbekistan, Túrkmenistan, Tadsikistan og Kirgistan.

Maður ársins hefur klofið Vesturlönd í herðar niður. Nú talar enginn lengur um vestrænt samstarf. Talað er sér um Bandaríkin og sér um Evrópu, þar sem allur almenningur hefur sagt siðferðilega skilið við Bandaríkin, einnig í löndum á borð við hin staðföstu ríki Bretlands, Ítalíu og Póllands.

George W. Bush er bara tæki í höndum Osama bin Laden. Sá síðarnefndi á skilið að vera útnefndur maður ársins fyrir að hafa með lítilli fyrirhöfn rekið Bandaríkin í feigðarflan.

Jónas Kristjánsson

DV

Traustið er horfið

Greinar

Dollarinn getur ekki verið gjaldmiðill alls heimsins, ef heimurinn hættir að treysta verðgildi hans. Sjúkur miðill getur ekki verið gjaldmiðill heimsins. Við hverja lækkun dollars fjölgar þeim, sem telja öruggara að flýja í evruna, sem óvart er að taka við sem gjaldmiðill heimsins.

Nú eru það einkum Japan og sérstaklega Kína, sem halda gengi dollars uppi með því að safna honum. Seðlabankinn í Kína á ógrynni dollara og getur látið hann rúlla með því að fara að selja. Heimsveldi, sem eyðir og spennir fyrir náð og miskunn Kína, hefur ekki ráð á að heyja stríð í þriðja heiminum.

Stríðið við Afganistan hefur farið illa. Herstjórar ráða öllum þorra landsins og framleiðsla eiturlyfja er kominn í sögulegt hámark. Stríðið við Írak er að fara á verri veg. Meirihluti þjóðarinnar mun í fyrirhuguðum kosningum koma trúuðum sjítum til valda og grafa undan bandarísku hernámi.

Stríðið við Afganistan var dýrt og stríðið við Írak er orðið enn dýrara. Bandaríkin hafa ekki efni á þessu. Ef þau geta ekki fljótlega kallað herinn heim, hrynur dollarinn, af því að útlendingar fara að selja dollara í auknum mæli. Ósigur blasir því við í Írak, eins og í Víetnam fyrir 30 árum.

Bandaríkjastjórn hefur Íran á heilanum, en á ekki peninga fyrir stríði þar. Hún hefur látið slátra tugum þúsunda manna í Írak, en ræður ekki við milljónir Írana. Nú verður hún að horfa á, að ný ríkisstjórn sjíta í Írak mun á næsta ári sækjast eftir vinsamlegri sambúð við stjórn sjíta í Íran.

200.000.000.000 dollarar hafa farið í geðveiki Bandaríkjanna í Írak án þess að nokkuð hafi komið í staðinn. Herinn hefur enga stjórn á landinu, enda bað almenningur í Írak hann ekki um að frelsa sig. Enn einu sinni lenda Bandaríkin í að reyna að frelsa fólk með því að slátra því. Eins og í Víetnam.

Á sama tíma gengur Bandaríkjastjórn berserksgang annars staðar í heiminum. Hún reynir að ófrægja framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóra Kjarnokurstofnunar samtakanna, eins og hún reyndi áður að ófrægja evrópska leiðtoga, sem neituðu að fylgja henni í stríð gegn Írak.

Bandaríkjastjórn berst um á hæl og hnakka gegn aðgerðum í mannréttinda- og umhverfismálum. Í hverju málinu á fætur öðru stendur hún nokkurn veginn ein í heiminum, búin að ljúga svo miklu í fjögur ár, að allir trúa frekar öðrum aðilum, ef þeir eru á öðru máli en Bandaríkjastjórn.

Dollarinn er rúinn trausti og Bandaríkjastjórn er rúin trausti. Hún getur ekki logið meira, af því að menn trúa ekki lengur. Menn mundu frekar trúa Castro eða Gaddafi.

Jónas Kristjánsson

DV

Eruð þið ekki hress?

Greinar

Íslendingar sögðust vera hressir í skammdeginu í viðtölum, sem birtust nýlega í New York Times. Þegar nánar var spurt, kom í ljós, að hamingjan var ekki alger, heldur saknaði einn vistar sinnar í London, annar vildi búa á Spáni og sá þriðji viðurkenndi, að hann væri að byrja að venjast skammdeginu.

Hér á landi er krafan að vera hress. “Ertu ekki hress?”, ertu spurður. Þú svarar ekki: “Nei ég er ekki hress, en þó ekki beinlínis þunglyndur, heldur svona stundum dálítið daufur í skammdeginu.” Þú segist vera hress, þótt fólki sé í rauninni ekki eðlilegt að vera síhresst, heldur í bylgjum.

Fyrr og síðar hafa verið sjónvarpsþættir, þar sem flaggað er formúlunni: “Ertu ekki hress, eru ekki allir hressir hérna?” Krafan er sleitulaus. Sumir fara að halda, að eitthvað sé að, ef þeir eru stundum milt þunglyndir, haldnir kvíða fyrir morgundeginum eða þeim finnst myrkrið verða of langvinnt.

Vikurit er gefið út um hressa fólkið, sem er að gifta sig, sama fólkið og var að skilja fyrir hálfu ári og að gifta sig fyrir ári. Ritið fjallar um undirmálsfólk, sem virðist meira eða minna ruglað, en er rosalega hresst á myndunum. Það getur svo ekki tekið sig saman í andlitinu, þegar hvessir.

Margar síður eru í dagblöðunum um fræga útlendinga, sem eru svo hallærislegir, að þeim helzt ekki árið á makanum. Þeir eru fullir á börunum, halda framhjá og síðast fremja þeir sjálfsmorð eða drekka sig bara í hel. Lesendur virðast hafa mikla aðdáun á þessu fólki, sem kann ekki að lifa lífinu.

Lausnir eru til við öllu. Óþæg börn eru sögð ofvirk og fá rítalín í kroppinn. Þegar þau eldast, útvega þau sér áfengi. Síðan eða samhliða koma létt og þung eiturlyf á svörtum. Íþróttamenn fá stera, konur fá botox. Miðaldra fólk fær svo viagra fyrir kvöldið og prozak til að mæta nýjum degi.

Eins og Bandaríkjamenn erum við þjóð á hamingjulyfjum, löglegum og ólöglegum, gagnslitlum eða gagnslausum. Nú fá þeir seroxat, ef þeir eru feimnir, og bráðum fáum við það líka. Allt er leyst með pillum að ráði lyfjarisa, sem líkt og tóbaksrisar hafa skipulega haldið aukaverkunum leyndum.

Jólin eru erfiður tími í þessari hringrás óhamingjunnar. Menn dansa kringum guð sinn, sem í flestum tilvikum heitir Mammon. Fólk þarf meira rítalín, meira áfengi, meira hass, meira kókaín, meiri stera, meira botox, meira viagra og meira prozak. Og næst þarf að prófa seroxat við feimni.

Ranghugmyndir um eðlilegt ástand sálar og líkama kalla á vonlausan eltingaleik við síhressu, sem nær svo langt, að í könnunum segjumst við rosalega hamingjusöm. Jafnvel um jól.

Jónas Kristjánsson

DV

Allir hata Ameríku

Greinar

Allir hata Ameríku. Ekki bara allur þorri írakskra borgara, sem gerir það, af því að bandarískur her hefur verið og er enn að fremja fjöldamorð á almenningi til að frelsa hann. Allur heimurinn fyrirlítur Bandaríkin fyrir að leika lausum hala sem ríki stríðsæðis, stríðsglæpa og hryðjuverka.

Allir hata Ameríku. ekki bara múslimar, sem sjá sig þurfa að þola krossferð kristinna ofstækismanna, George W. Bush og Condoleezza Rice. Allur heimurinn fyrirlítur þá brengluðu kristni, sem prédikuð er í bandarísku sjónvarpi og stýrir gerðum forseta, sem telur sig vera fulltrúa Guðs á jörð.

Allir hata Ameríku, ekki bara grænfriðungar, sem sjá Bandaríkin kerfisbundið eyða umhverfisvörnum og standa ein með Ástralíu gegn Kyoto-bókuninni, sem öll önnur ríki hafa staðfest og sem allir vita, að gengur ekki nógu langt. Allur heimurinn fyrirlítur Bandaríkin sem óforbetranlegan sóða.

Allir hata Ameríku, ekki bara mannréttindasinnar, sem sjá Bandaríkin kerfisbundið rústa öllum reglum, sem þjóðir heims hafa komið upp gegn stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni. Allur heimurinn fyrirlítur Bandaríkin fyrir að falla niður á frumstætt stig óheftra hefnda á sekum og saklausum.

Allir hata Ameríku, ekki bara dálkahöfundar, sem hvað eftir annað hafa upplýst um lygar og rangfærslur, sem hafa í rúm fjögur ár verið helzta stjórntæki Bandaríkjanna gegn umheiminum. Þannig var innrásin í Írak skýrð og þannig voru leiðtogar á borð við Davíð og Halldór hafðir að fíflum.

Allir hata Ameríku, ekki bara Chirac og Schröder, sem hafa risið upp gegn bandarískri hernaðarstefnu. Þjóðarleiðtogar og stjórnmálamenn allrar Evrópu, líka þeir, sem fyrir hræðslu sakir hafa lágt um hugsanir sínar. Aðeins þrjú ríki í Evrópu féllust á að senda alls 300 viðbótarmenn til Írak.

Allir hata Ameríku, líka þær þjóðir, er lúta forustu, sem skríður fyrir Bandaríkjunum. Stuðningur við Bandaríkin er ávísun á vandræði fyrir þá fáu leiðtoga á borð við Davíð og Halldór, sem enn verja gerðir Bandaríkjanna. Flestir aðrir eru komnir á flótta frá loforðum sínum um hernað í Írak.

Allir hata Ameríku, 80-90% þjóða Vestur-Evrópu og 90-100% þeirra þjóða, sem hafa orðið að þola stefnu Bandaríkjanna. Þetta hatur stafar ekki af öfund, heldur af fyrirlitningu, ekki bara á George W. Bush Bandaríkjaforseta, heldur á þjóðinni, sem endurkaus hann til enn frekari óhæfuverka.

Allir hata Ameríku, af því að hún er núna eina umtalsverða ógnunin við öryggi okkrar allra og eina ríkið, sem er svo tryllt, að það er reiðubúið að fórna vistkerfi mannkyns.

Jónas Kristjánsson

DV

Reykvíkingar tala

Greinar

Hún var sigur Sjálfstæðisflokksins, ekki Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna. Skoðanakönnunin um fylgi flokkanna í borgarstjórn gaf Sjálfstæðisflokknum 41% fylgi, mest fylgi allra flokka. Þetta nægir að vísu ekki til nýs meirihluta, enda er slík útkoma ólíkleg um alla fyrirsjáanlega framtíð.

Í ríkisstjórn hefur Sjálfstæðisflokkurinn komið rustalega fram við fólk, haldið með hinum ríku á kostnað hinna smáu, reynt að afhenda kolkrabbanum ríkisfyrirtæki, ráðizt að mannréttindum og náttúru Íslands, veitt embætti út í hött. Hann á skilið 20% fylgi í félagslega sinnaðri höfuðborg.

Framsóknarflokkurinn fékk hins vegar nákvæmlega það, sem hann á skilið í borginni, 4% fylgi, algeran botn. Þetta er hreint hagsmuna og þakkargerðarfylgi, sveit þeirra, sem ráðherrar flokksins hafa fyrr og síðar útvegað stóla og stöður hjá hinu opinbera. Þetta eru bara flokkskvígildin.

Kjarnaflokkar Reykjavíkurlistans fá minna fylgi en ella í þessari könnun, af því að þeir hafa staðið sig illa á nokkrum afmörkuðum sviðum. Einkum hafa þeir verið úti að aka í skipulags- og gatnagerðarmálum, þar sem illræmdust eru Hringbrautin og mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Sjálfseyðing Reykjavíkurlistans lyftir Sjálfstæðisflokknum upp í 41% fylgi. Við venjulegar aðstæður, þar sem listinn gæfi engan eða lítinn höggstað á sér, væri fylgi flokks, sem lýtur á landsvísu forustu með ítölsku fasistasniði, ekki nema helmingur af þessu í félagslega sinnaðri höfuðborg.

Reykjavíkurlistinn er búinn að vera. Landsforusta Framsóknar veitti honum náðarhöggið í deilunni um nýjan borgarstjóra. Ekki er ástæða til að gráta það, því að listinn var barn síns tíma og hefur verið of lengi við völd, er orðinn fullur hroka eins og ríkisstjórnin, sem líka hefur setið of lengi.

Samkvæmt skoðanakönnuninni mundu Samfylkingin með fimm fulltrúa og Vinstri grænir með þrjá fulltrúa mynda næsta meirihluta í borginni. Hugsanlega yrði það með stuðningi eins fulltrúa Frjálslynda flokksins, sem hefur hingað til staðið nálægt meirihlutanum í flestum borgarmálum.

Ef sameiginlegt borgarstjóraefni Samfylkingar og Vinstri grænna verður valið af viti, mun það tryggja völd þessara tveggja flokka í borginni á næsta kjörtímabili. Þeir hafa nægan tíma til að finna slíkt efni og eru ekki haldnir nógu mikilli sjálfseyðingarhvöt til að fatast að finna það.

Á landsvísu er Framsókn orðin rammt hægri sinnuð. Eðlileg afleiðing þess er, að hún hverfi úr vinstra samstarfi í borginni. Þannig skerpast pólitískar línur hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Eign eða áskrift

Greinar

Auglýsingar í fjölmiðlum sýna, svo ekki verður um villzt, að Íslendingar eru að flytjast milli tímabila í hagsögunni. Að loknum eignatíma er kominn áskriftar- eða afnotatími. Menn kaupa ekki lengur bíl og fasteign með útborgun, heldur kaupa menn afnot eða áskrift að bíl og húsi án þess að eiga krónu.

Þetta hefur verið að gerast víðar á Vesturlöndum, enda ráfar alls staðar fjármagn um banka og sjóði í leit að skuldurum. Menn safna ekki lengur fé til framtíðarkaupa, heldur afla sér aðstöðu til að njóta dauðra hluta hér og nú í samræmi við tekjur og lífsstíl, sem þeir vilja hafa hverju sinni.

Lengi hefur tíðkazt í menningu, afþreyingu og fjölmiðlun, að menn borgi fast gjald fyrir aðgang að þjónustu, fyrir blaðið og sjónvarpið, fyrir símann og bandbreiddina, jafnvel fyrir leiksýningar og hljómleika. Farsíminn sem áhald fæst án greiðslu, ef menn binda sig til viðskipta í tiltekinn tíma.

Það ræður hins vegar úrslitum um, að nýr tími er kominn, þegar meginþættir í lífi fólks á borð við húsnæði og bíl falla inn í þetta kerfi, þar sem lánað er 100% og menn reikna út greiðslubyrði á mánuði, rétt eins og áskriftar- eða afnotagjald. Menn lifa framvegis fyrir greiðslubyrðina.

Fljótlega munu nýjar kynslóðir reikna með að fá ekki bara símann frítt, heldur líka tölvuna, búslóðina, fötin, allt út á föst viðskipti við tiltekinn aðila um tiltekinn tíma. Fyrir allt þetta verður greidd leiga og fólk mun fram og aftur reikna út, hvað það hafi ráð á mikilli greiðslubyrði.

Hingað til hefur verið talið farsælt og hagsýnt að hafa borð fyrir báru, þegar lagt er í fjárfestingar. Framvegis verður enn meiri þörf á slíku, þegar menn skulda meira eða minna allt það, sem þeir nota. Breytingar á stöðu efnahagsmála hafa miklu meiri áhrif á þá, sem hafa allt undir í taflinu.

Efnahagslífið er ekki stöðug og jöfn hreyfing upp á við. Inn á milli koma dýfur. Stundum fer saman, að söluverð íbúða lækkar í kreppu og að menn missa vinnu í kreppu. Þá standa menn andspænis því, að fjárhagsdæmi tilverunnar stendur ekki lengur neinum fótum í veruleika. Menn fljúga í gjaldþrot.

Við þetta verður ekki ráðið. Mikið framboð á ódýru lánsfé er orðið að náttúrulögmáli. Ennfremur er ljóst, að til sögunnar eru komnar kynslóðir, sem líta öðrum augum á dauða hluti en fyrri kynslóðir. Þær nýju kæra sig ekki um að eiga hluti á þurru, eru bara að kaupa sér afnot eða áskrift eða aðgang.

Menn þurfa hins vegar að læra að umgangast þetta kerfi og átta sig á, að miklu meira borð þarf að vera fyrir báru en í fyrra kerfi, svo að ekki fari allt á hvolf, þegar hvessir.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjörnum rignir ekki

Greinar

Íslenzkir kokkar tóku trú á Bocuse hinn franska, er stjarna hans datt af franskra himninum, þegar hann var dottinn af gæðakortinu, nema hjá Michelin-handbókinni. Einnig eru þeir nú að taka trú á Michelin, þegar loksins er komið í ljós, að eftirlitsmenn hennar heimsækja ekki staðina, sem þeir meta.

Norrænir kokkar eru að sameinast um gæðastaðal, “nýnorræna” eldamennsku, sem á samkvæmt viðtali í Mogga að láta Michelin stjörnum “rigna yfir” Norðurlönd. Hornsteinar staðalsins eru Paul Bocuse og Michelin. Þessi staðall er afbrigði af nýklassískri eldamennsku, úreltri eldamennsku fyrir snobba.

Ekki á að forðast frosin hráefni eða niðursoðin. Ekki á að auka áherzlu á grænmeti og fisk. Ekki á að spara við sig fitu, einkum brúnaða. Ekki á að sleppa hveiti og eggjum í sósum og súpum. Ekki á að sleppa forvinnslu og upphitun fyrir máltíð. Ekki á að elda eins snöggt og nákvæmlega þarf.

Sá nýnorrænni á fátt skylt við þann nýfranska, sem bylti vestrænni eldamennsku eftir 1975. Það fáa sem situr af nýfrönskum reglum í nýnorræna staðlinum er, að notuð séu fersk hráefni árstíðarinnar og að borin sé virðing fyrir eðlisbragði hráefna og fyrir staðbundnum hráefnum og hefðum.

Í rauninni er það fyrst og fremst síðasta atriðið, sem er vitrænn hornsteinn nýnorræna staðalsins, Hann á að koma norrænum vörumerkjum á framfæri og býður samstarf við hagsmunaaðila á borð við landbúnað. Hann minnir mig á skemmtilegar tilraunir til sölu á lambakjöti til útlanda.

Nýfranski staðallinn var hugmyndafræði, sprottin af kröfum breyttra tíma, partur af veraldarsögunni, uppreisn franskra kokka gegn klassíkinni, sem einnig var frönsk. Sá nýnorræni er hins vegar saminn af markaðs- og ímyndarsérfræðingum til að gleðja ýmsa aðra en neytendur, það er að segja kerfið.

Norræni staðallinn sýnir, að kokkunum dugar ekki lengur að gefa hver öðrum gullverðlaun. Nú sækja þeir gull sitt og sjálfsmynd til fallins skemmtikrafts í Collonges. Nýi staðallinn er afturhvarf. Ekki mun rigna Michelin-stjörnum, því að það tekur Michelin minnst tíu ár að fatta breytingar.

Kokkar vorir eru þreyttir á gamalfranska sósueldhúsinu, sem viðskiptavinir þeirra girnast, og enn frekar á norrænu hlaðborðunum, sem þeir girnast mest. En ég efa, að norræn nýklassík þeirra hafi aðdráttarafl. Sumt fólk eldar þannig upp úr Gestgjafanum til spari heima hjá sér fyrir gesti.

En það tímir ekki að borga 20.000 krónur á hjón fyrir að fara út að borða. Fínu húsin standa því auð á kvöldin, þegar æði jólahlaðborðanna linnir og alvara lífsins tekur við.

Jónas Kristjánsson

DV

Ben Hur og Khartoum

Greinar

Charlton Heston lék söguhetjuna í tveimur gömlum bíómyndum, er segja mér, að ekkert sé að gerast í heiminum núna, sem ekki hafi gerzt áður í bíómyndum. Í annarri myndinni berst hann við Osama bin Laden, en í hinni við George W. Bush. Þetta voru myndirnar Khartoum frá 1966 og Ben Hur frá 1959.

Ágætur dálkahöfundur Boston Globe, H.D.S. Greenway, á þann heiður að hafa bent á þessar bíómyndir Hestons. Ég hitti hann stundum í gamla daga í International Press Institute, en nú er hann hættur eins og ég, skrifar bara grein í gamla blaðið sitt einu sinni í viku, yfirleitt óvenjulega grein.

Í greininni um Heston fór Greenway þá leið að vekja athygli á, að hann fái ekki frið fyrir pólitík, þótt hann flýi inn í heim kvikmyndanna. Mér finnst aftur á móti skemmtilegt, að við skulum stundum sjá gerendur heimsmála nútímans í hetjum gömlu bíómyndanna, sem sýndar voru fyrir nærri hálfri öld.

Í Khartoum leikur Charlton Heston hershöfðingjann Charles Gordon, sem er sendur upp Nílarfljót til að stríða við ofstækismanninn Mahdi, leikinn af Sir Laurence Olivier. Sá síðarnefndi starir með skegg og túrban beint í myndavélina eins og Osama bin Laden í myndbandi, sýndu á Al Jazeera.

“Við erum að berjast heilögu stríði gegn feitum og spilltum trúvillingum. Okkar stríð vill endurheimta lögmál og reglur Múhameðs spámanns, sem hefur krafizt þess, að fjöll og eyðimerkur skjálfi, borgir hrynji.” Þetta segir Laurence í myndinni, rétt eins og Osama bin Laden segir á myndbandinu.

Í Ben Hur er Charlton Heston kominn til Gyðingalands, þar sem hann leiðir uppreisn rétttrúaðra gegn þungu ofbeldi heimsveldis þess tíma, Rómarveldis. Fulltrúi þess er Stephen Boyd, sem leikur Massala, kominn til Gyðingalands til að klára verk, sem föður hans hafði mistekizt í fyrri herferð.

Við sjáum þar Írak í dag og Bush yngra. Aðstoðarmenn segja við Massala, að landið sé drukkið af trúarofstæki og hatist óskiljanlega mikið við rómverska hernámsliðið. “Annað hvort ertu með mér eða á móti mér”, segir hann við Heston/Ben Hur, sem eigi að síður rís upp til varna gegn Rómarveldi/USA.

Allt er afstætt í þessum heimi. Ef Ben Hur bíómyndin væri framleidd í vetur, mundi hún vera talin vera gagnrýni á Bandaríkin og lofgerð um þá, sem berjast gegn þeim af trúarástæðum og falla fyrir vopnum þeirra. Khartoum væri hins vegar talin lofgerð um krossferð gegn villutrúnni.

Í bíómyndum er allt auðvelt, menn halda með hetjunni gegn bófanum. En í veruleikanum er allt afstætt. Hver er hetjan okkar. Er það Heston í Khartoum eða Heston í Ben Hur?

Jónas Kristjánsson

DV

Góðverkabisness

Greinar

Góðverk eru orðin mikil atvinnugrein, þar sem sérfróðir aðilar á ýmsum póstum, svo sem söngvarar og skipuleggjendur, svo og trúnaðarmenn minnimáttarhópa, taka saman höndum um að búa til viðburð, sem fær almenning til að leggja fram fé, er rennur í meira mæli til aðstandenda en til minnimáttarhópa.

Aðferðin varð fræg, þegar DV sagði um daginn frá fáránlegri 1,7 milljón króna greiðslu til eins söngvara og annarri óskýranlegri meðferð fjármuna í síðasta viðburði af þessu tagi. Ruddaleg framkoma söngvarans í fjölmiðlum hefur síðan bætt gráu ofan á svart, þannig að siðleysið er öllum ljóst.

Þar fór tvennt saman, óbeizlað dómgreindarleysi og óbeizluð frekja, svo sem landsmenn hafa getað lesið í dagblöðum og horft á í sjónvarpi, þar sem dónaskapur hans fór hamförum. Þar fengu menn innsýn í hugarfar, sem aðrir málsaðilar hafa reynt að leyna með silkimjúku tali og helgislepjusvip.

Rök málsaðila hafa verið einföld. Þeir segja efnislega: Við erum í góðverkum og haldið þið kjafti, sveitalubbar. Að baki liggur sú staðreynd, að skipuleggjandi atburðarins getur enga málefnalega grein gert fyrir fjárstreymi hans. Ljóst er þó, að minnihluti teknanna rann til minnimáttarhópsins.

Enginn skyni borinn maður trúir skipuleggjandanum, þegar hann setur upp helgislepjusvip og segist vera annálaður dýrlingur, sem menn eigi að treysta til góðra verka. Menn vilja bara skjölin á borðið, svo að ljóst verði, hvernig og hvert fjármunir runnu, hversu stórtæk græðgin var í raun.

Verstur er hluti trúnaðarmanna minnimáttarhópsins, sem bera blak af atvinnumönnum peningadæmisins samkvæmt spakmælinu um að tilgangurinn helgi meðalið og neita um leið að taka þátt í að upplýsa fjárstreymið. Þeir hafa því miður lent í skrítnum félagsskap fagmanna og vilja ekki viðurkenna það.

Erlendis hafa menn aldagamla reynslu af, að oft er ekki allt sem sýnist á góðverkamarkaði. Sögur Charles Dickens frá London og Túskildingsóperan sýna okkur ýmislegt í aðferðum fyrri alda og fyrri áratuga. Fyrr og síðar hafa fagmenn reynt að fela sig á bak við samúð við minnimáttarhópa.

Ætli menn geti ekki verið sammála um, að hér eftir muni almenningur fá að vita um, hvernig sé í peningapottinn búið, þegar ætlazt er til, að hann leggi fé af mörkum til góðra mála. Það dugir ekki til lengdar að fá fólk til að láta fé í ótilgreinda hít, þar sem atvinnumenn hrifsa mikinn hluta.

Samfélagið verður að viðurkenna, að sjónhverfingar eru hluti af nútímabisness, og átta sig á, að oft er ekki allt sem sýnist, jafnvel þveröfugt. Krafan um gegnsæi gildir hér.

Jónas Kristjánsson

DV

Þingmenn eru ábyrgir

Greinar

Stóra fréttin í aðild okkar að fjöldamorðum og stríðsglæpum Bandaríkjanna í Írak, er, að tveir menn ákváðu hana upp á sitt eindæmi. Á upplognum forsendum gerðu þeir Ísland í fyrsta skipti að stríðsaðila, þótt margar stórþjóðir neituðu að taka þátt í þeirri skelfingu, sem nú er öllum sýnileg.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákváðu einir, að Ísland tæki þátt í þessu ógeðslega stríði. Þeir spurðu ekki neinn, ekki þingflokka sína, ekki utanríkismálanefnd, ekki alþingi. Þeir fóru bara í stríð, þar sem 100.000 óbreyttir borgarar hafa þegar verið drepnir samkvæmt læknisfræðilegri rannsókn.

Næststærsta fréttin er, að þessir tveir menn og liðsmenn þeirra hafa ekki breytt skoðunum sínum, meðan sannleikurinn hefur smám saman að vera að koma í ljós. Hann er sá, að alls engin uppbygging er í Írak, heldur er ástandið þar verra en það var á valdatíma hins illræmda leiðtoga Saddam Hussein.

Spánverjar hafa vikið af hólmi og Póllendingar eru á útleið. Danmörk og Ítalía eru ein eftir af Evrópuríkjum, sem menn þekkja almennt af hinum svonefndu staðföstu ríkjum, er gáfu krossferð trúarofstækismannanna George W. Bush og Tony Blair evrópskan gæðastimpil. Hin eru vasaríki á fjarlægum eyjum.

Í hádeginu á sunnudag virtist þingflokksformaður Framsóknar vera að skipta um skoðun á þessu máli. Rækilega var tekið í lurginn á honum, svo að hann var á mánudaginn aftur kominn í stuðningslið fjöldamorða og stríðsglæpa. Eftir þann dag eru þingflokkar Davíðs og Halldórs í húsi George W. Bush.

Allar fréttir af stríðinu gegn Írak segja okkur, að hafi það verið misráðið í upphafi, er það enn fáránlegra núna, þegar menn hafa séð gegnum blekkingarvefinn. Það er glæpsamlegt að styðja stríð, þar sem bandarískir vitfirringar fara hús úr húsi í Fallúja og víðar til að drepa óbreytta borgara.

Engin uppbygging á sér stað í Írak, þótt Halldór Ásgrímsson virðist trúa því. Hann trúir öllu, sem bandaríska stjórnin segir hverju sinni. Hann getur ekki sakað önnur pólitísk öfl á Íslandi um að tala um fortíðina og vera ekki til viðtals um núverandi ástand í Írak, sem Bandaríkin ein framleiddu.

Ljóst er, að Davíð Oddsson hefur ekki batnað í skapinu við að fara í uppskurð. Á hinu háa alþingi sagði hann þá vera afturhaldskommatitti, sem eru á móti stríðinu. Það eru rök, sem hæfa vel þingmannaliði Sjálfstæðisflokksins, sem ekki hefur æmt eða skræmt, enda almennt andvígt mannréttindum.

Umræðan á alþingi á mánudaginn hefur þó skýrt málin á þann veg, að þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks standa heils hugar að bandarískum fólskuverkum í Írak.

Jónas Kristjánsson

DV

Árás á velferð

Greinar

Mikill var fögnuður eina þingmannsins, sem opinberlega er andvígur velferðarkerfinu, Péturs Blöndal, sem telur farsælast, að hver sé sinnar gæfu smiður og höndli sjálfur sína peninga. Skattalækkunin dregur úr getu ríkisins til að reka velferðina. Því varð þingmaðurinn óvenjulega kátur.

Þótt skattalækkunin hafi verið milduð með því að hækka skattleysismörk og spýta aurum í barnabætur, varð fyrsti þingmaður einstaklingsfrelsisins afar hamingjusamur. Það segir okkur, að nettóniðurstaða frumvarpsins er meira frelsi einstaklingsins og minni velferð af hálfu Stóra bróður.

Við þurfum ekki að deila um, hvert frumvarpið stefni. Um Það hefur Pétur Blöndal sagt allt, sem segja þarf. Frumvarpið leiðir til, að þeir, sem meira bera úr býtum, þurfa minna að leggja af mörkum. Velferðarkerfið verður því veikara en það hefði ella orðið. Frumvarpið er bein árás á velferðina.

Skattar eru ekki rétta aðferðin til að dreifa lífsgæðum eða öryggi þjóðfélagsins. Jafnaðarstefna á miklu fremar heima í dreifingu fjár, þjónustu, sem ríkið veitir fólki,án þess að krefjast endurgjalds. Skattkerfið á hins vegar að vera flatt og jafnt, gera öllum kleift að leggja sitt af mörkum.

Skattprósenta er bezt ein á alla línuna, til dæmis 20% á háar og lágar tekjur, á launatekjur og fjármagns- og eignatekjur. Frumvarpið stefnir ekki í þá átt, því að það hækkar skattleysismörk og það jafnar ekki bilið milli launatekjuskatts og fjármagnstekju- og eignatekjuskatts.

Vissulega er eðlilegt að leggja niður eignaskatt. En ekki er heiðarlegt að láta við það eitt sitja. Samfélagið þarf að geta skattlagt tekjur af eignum á sama hátt og það leggur skatt á vinnu. Það gengur ekki, að misjafnt mat sé lagt á afraksturinn, hvort hann stafar af vinnu, eignum eða fé.

Heiðarlegt væri líka að jafna virðisaukaskattinn, þótt það þýddi, að svokallaður matarskattur verði hækkaður upp í annan virðisaukaskatt. Hitt er svo nauðsynlegt í leiðinni að efla velferðina með því að bæta stöðu þeirra, sem halloka hafa farið vegna örorku, ómegðar, elli eða atvinnumissis.

Aldrei má líta á skatta eina sér án tillits til kerfisins, sem þeim er ætlað að standa undir. Jafna má skatta, svo sem með því að hafa þá 20% alls staðar, í vaski, tekjuskatti á laun og tekjuskatti á fjármagn og eignir. En ekki má lækka skatta í heild, af því að þá bilar velferðin enn frekar.

Ríkisstjórnin leggur fram skattalækkunarfrumvarp til að geta dregið enn meira úr velferðinni en hún hefur áður gert. Þótt þættir málsins séu til bóta, er frumvarpið vont í heildina.

Jónas Kristjánsson

DV