Greinar

Færeyska leiðin valin

Greinar

Ríkisstjórnin hyggst færa vandamál, en ekki leysa þau. Hún hyggst auka lántökur í útlöndum til að létta óhóflegum þrýstingi ríkisins af innlendum lánamarkaði og fá vexti lækkaða. Þar með munu aukast skuldir okkar við umheiminn og voru þær þó allt of háar fyrir.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í lánamálum ríkisins stefna að tveggja prósentustiga lækkun vaxta, meðal annars með slíkri lækkun vaxta á ríkisskuldabréfum. Þær fela í sér, að ríkisstjórnin ætlar ekki að taka dýrari lán á innlendum markaði en sem nemur 5% raunvöxtum.

Þar sem ríkið er fyrirferðarmesti aðilinn á lánamarkaði landsins, eru töluverðar líkur á, að ríkisstjórninni takist að knýja markaðinn í heild til að fylgja í kjölfarið. Bankarnir munu lækka sína vexti, enda hafa þeir að undanförnu kennt ríkinu um háa vexti í landinu.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið vel í aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem þannig stuðla að vinnufriði í landinu. Þær auka líkur á, að samtök launþega sætti sig við vanefndir ríkisstjórnarinnar á ýmsum þáttum þjóðarsáttar og gætu þannig gefið stjórninni svigrúm.

Allt er þetta sjónhverfing, því að ríkisstjórnin hyggst ekki draga úr óhóflegri lánsfjárþörf sinni. Hún ætlar að taka lán á erlendum vettvangi í staðinn fyrir innlend lán. Hún hyggst færa sig milli lánamarkaða, en ekki minnka umsvif sín eða fyrirferð í þjóðfélaginu.

Það, sem raunverulega gerist, er, að þjóðin fær tækifæri til að lifa í auknum mæli um efni fram. Reikningurinn fyrir vaxtabreytingunni verður sendur þjóðinni eftir nokkur ár, þegar byrja á að endurgreiða skuldir, sem stofnað verður til í útlöndum vegna breytingarinnar.

Rökstyðja má, að þetta sé nauðsynlegt, því að eðlilegt sé að brúa erfið ár með lánum, sem verði endurgreidd í betra árferði. Sjávarafli kann að aukast að nýju eftir nokkur ár og gera þjóðinni kleift að standa undir meiri skuldum en hún getur í núverandi aflabresti.

Á hitt ber svo að líta, að aflabresturinn er alls ekki eins mikill og búizt var við. Veiðar utan landhelgi á þorski, karfa og rækju hafa snögglega aukizt og loðnuveiði blómstrar. Þetta eykur tekjur þjóðarinnar um fjóra milljarða á ári og munar örugglega um minna.

Gallinn við erlendu lánin er, að ríkisstjórnin er þegar búin að fullnýta þá leið. Hún hefur þegar magnað skuldabyrði þjóðarinnar grimmdarlega. Greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum var um og innan við 20% útflutningstekna frá 1985 til 1990, en er nú að fara í 36%.

Greiðslubyrðin var 23% árið 1991, 26% árið 1992, 29% árið 1993 og hefði að óbreyttu orðið 36% á næsta ári. Með auknum lántökum ríkisins í útlöndum fer talan upp í 40% útflutningstekna árið 1995. Það þýðir, að þá hefur greiðslubyrði þjóðarinnar tvöfaldazt á fimm árum.

Fyrir þremur árum fóru tveir þorskar af hverjum tíu í að standa undir skuldum okkar í útlöndum. Eftir tvö ár fara fjórir þorskar af hverjum tíu í skuldahítina, enda verður þá ekki enn komið að þeim aukna sjávarafla, sem menn vona, að verði um eða undir næstu aldamót.

Tvöfölduð skuldabyrði er geigvænleg tilhugsun öllu hugsandi fólki, þótt málsvarar banka, atvinnulífs og launafólks lofi aðgerðirnar og sumir hverjir hástöfum. Þannig fer stundarfróun með stuðningsmenn skammtíma og sjónhverfinga, sem telja frest á illu beztan.

Leiðin, sem ríkisstjórnin hefur valið, er ekki ný af nálinni í okkar heimshluta. Hún var notuð í Færeyjum með geigvænlegum afleiðingum. Þetta er færeyska leiðin.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaxandi sveiflur

Greinar

Kosningaúrslitin í Kanada sýna ótrúlega sveiflu. 170 þingmanna Íhaldsflokkur, sem hafði meirihluta á þingi, situr eftir með tvo þingmenn, er mega ekki kalla sig þingflokk. Tveir nýir þingflokkar fengu rúmlega 50 þingmenn hvor og Frjálslyndir rúmlega tvöfölduðu þingstyrk sinn.

Í Kanada eru einmenningskjördæmi, sem magna fylgissveiflur. Meðan Íslendingar búa við listakjördæmi, má ekki búast við kanadískum úrslitum hér á landi. En sveiflur hafa líka vaxið hér á landi og verða ekki minni í náinni framtíð, ef miðað er við skoðanakannanir.

Ekki er lengur deilt um nákvæmni skoðanakannana hér á landi. Nokkrir aðilar kanna skoðanir almennings og nota nokkrar aðferðir til þess. Í öllum tilvikum sýna þessar kannanir sömu sveiflur í fylgi flokkanna. Stærðfræðilega eru þessar sveiflur greinilega marktækar.

Kannanir eru hins vegar ekki kosningar. Margir kjósendur hafa ekki gert upp hug sinn, þegar skoðanir eru kannaðar, en eru búnir að því, þegar þeir standa í kjörklefanum. Margir kjósendur skipta um skoðun við lok kjörtímabils. Spágildi kannana er því takmarkað.

Þær eru þó einu spárnar, sem við höfum. Samkvæmt þeim hafa stjórnarflokkarnir tveir glatað trausti í samstarfinu. Fylgi þeirra mælist mun minna en í kosningunum, forustumenn þeirra hafa persónulega lítið fylgi og búa raunar sumir við meiri óvinsældir en vinsældir.

Raunar er aðeins einn foringi í stjórnarliðinu, sem nýtur trausts meðal kjósenda. Það er Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, sem hefur verið í hlutverki eins konar stjórnarandstöðu í stjórninni og er þar gersamlega einangruð. Hún nýtur ekki trausts samráðherra.

Verst er staða Alþýðuflokksins og hefur enn versnað við ráðherraskipti flokksins. Til sögunnar eru komnir tveir skrípakallar, sem fæla kjósendur frá sér og flokknum í hvert skipti, sem þeir sjást á skjánum, enda eru þeir af tegundinni, sem ekki nennir að kynna sér mál.

Athyglisvert er, að í könnunum blómstra flokkar og leiðtogar, sem sárasjaldan sjást á skjánum. Steingrími og Halldóri og Ingibjörgu Sólrúnu bregður þar fyrir svo sem einu sinni í mánuði, en flokkar þeirra, Framsókn og Kvennalisti, eru að nálgast meirihluta í könnunum.

Á sama tíma eru ráðherrar fjármála og utanríkismála, heilbrigðismála og landbúnaðar, svo og forsætisráðherra nánast daglega í stofum almennings. Það er greinilega tvíeggjað að vera á skjánum. Slíkt þarf að vanda og hafa í hófi eins og annað góðgæti í lífinu.

Jarðvegur hefur um langt árabil verið góður fyrir nýjar stjórnmálahreyfingar, Sjaldnast hafa þær orðið langlífar, enda er auðveldara að sigra í einni orrrustu en að halda úti heilu stríði, kosningar eftir kosningar. Að þessu sinni eru engar slíkar hreyfingar á ferð.

Skilin milli stjórnmálaflokka eru orðin dauf og áhugi fólks á þeim hefur minnkað. Landsfundir og flokksráðsfundir stjórnmálaflokka eru að verða eins konar limbó, sem er í litlu samhengi við raunveruleika þjóðarinnar um þessar mundir. Hinum óákveðnu fjölgar stöðugt.

Í þessu ástandi ætti að vera betra að fiska en oft áður. Góð færi eru fyrir nýja flokka og leiðtoga eða nýuppgerða flokka og leiðtoga eins og andrúmsloftið er núna. Og alls ekki er fráleitt, að þjóðin vilji eitthvað annað en núverandi stjórnmálaþvælu og sérhagsmunaræktun.

Íslenzk stjórnmál hefðu gott af kosningasveiflum að kanadískum hætti. Limbó líðandi stundar hefur gengið sér til húðar og framtíðin er opin upp á gátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Hnignun og hrun vesturs

Greinar

Sjónvarpsfréttamynd af misþyrmingum á líki bandarísks hermanns í Mogadishu leiddi til þess, að Bandaríkin gáfust upp á stríðinu við Aidid herstjóra í Sómalíu. Þau eru hætt að eltast við hann og kenna raunar ranglega Sameinuðu þjóðunum um eltingaleikinn við hann.

Ein sjónvarpsmynd sneri við almenningsálitinu í Bandaríkjunum og gerði stjórn Clintons ókleift að standa við stóru orðin um Aidid. Þess vegna mun bandaríski herinn fara frá Sómalíu eftir áramót, svo og aðrir vestrænir herflokkar, og hungrið taka völdin á nýjan leik.

Aidid bætist í hóp hinna mörgu, sem hefur tekizt að bjóða hernaðarmætti Bandaríkjanna birginn. Fyrir voru meðal annarra í þeim hópi þjóðarskelfarnir Saddam Hussein í Írak og Gaddafi í Libýu, Milosevits í Serbíu og Karadzic í Bosníu, Cédras og Francois á Haiti.

Stjórnin í Washington hefur ekki áttað sig á samhengi þessara vandræða sinna. Þess vegna var utanríkisráðherra hennar enn einu sinni að hóta Serbum loftárásum í síðustu viku, jafnvel þótt öllum sé ljóst, að ekki stendur til, frekar en fyrri daginn, að standa við stóru orðin.

Hnignun Bandaríkjanna sem forusturíkis Vesturlanda hefur orðið að hruni á fyrsta valdaári Clintons forseta. Alls staðar sjá Aididar, Saddamar og Cédrasar heimsins, að Bandaríkin eru orðin að pappírstígrisdýri, sem urrar í sífellu, en er að verða tannlaust með öllu.

Bandaríkin eru ekki ein um þennan vanda. Brezka og franska ríkisstjórnin bera mesta ábyrgð á hörmungunum í Bosníu. En Bretland og Frakkland telja sig ekki vera heimsveldi og hafa því ekki úr eins háum söðli að falla og Bandaríkin, sem enn telja sig heimsveldi.

Hnignun og hrun Vesturlanda sem máttarstólpa friðar á jörð kemur beint í kjölfarið á hruni og hvarfi óvinarins í mynd voldugra Sovétríkja. Í ljós er að koma, að bindiefnið í alþjóðapólitískri velgengni Vesturlanda var einmitt hin hernaðarlega spenna milli austurs og vesturs.

Á sama tíma hefur sjónvarpsöldin fært Vesturlöndum foringja, sem lítið bein hafa í nefinu og eru sífellt að reyna að hlaupa á eftir ótryggu almenningsáliti eins og það er á hverjum tíma. Kjósendur eru að hætta að velja sér foringja og velja sér sjónvarpsstjörnur í staðinn.

Bandarískir kjósendur sjá ekki lengur neinn óvin í austri og þeir þola ekki lengur að sjá bandarískt blóð í stríðsfréttum sjónvarps. Bandarískir foringjar sjá þessa stefnubreytingu og taka afleiðingunum á þann hátt, að þeir kasta frá sér heimsveldishlutverki Bandaríkjanna.

Ein afleiðinga hrunsins er, að andstæðingar lýðræðis og annarra vestrænna hefða færa sig upp á skaftið. Áhrifasvæði Vesturlanda mun dragast saman. Um leið verða Vesturlönd innhverfari en áður, einkum þó Bandaríkin, þar sem einangrunarstefna hefur lengi blundað.

Með aukinni innhverfu og einangrunarstefnu á Vesturlöndum munu magnast átök um viðskiptahagsmuni, þannig að fríverzlunarstefna mun verða að víkja fyrir verndar- og sérhagsmunastefnu á borð við þá, sem einkennir aðalstöðvar Evrópusamfélagsins í Bruxelles.

Þegar Sovétríkin hrundu að innan, stóðu Vesturlönd á krossgötum. Þau hafa kosið að fara ekki leiðina í átt til heimsyfirráða vestrænna hefða í lýðræði og fríverzlun, heldur í átt til innhverfu og einangrunar. Þau hafa látið hjá líða að fylgja eftir sigrinum í austri.

Hnignun og hrun Vesturlanda er beint framhald af hnignun og hruni Sovétríkjanna, stutt af kjósendum, sem í vaxandi mæli velja sér núll og nix sem leiðtoga.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklausir landsfundir

Greinar

Hundruð manna sækja aðalfundi stjórnmálaflokka og láta sér sæmilega líka, þótt slíkir fundir séu hættir að skipta nokkru máli í stjórnmálaumræðu þjóðarinnar. Sú umræða hefur að mestu flutzt á síður DV og Morgunblaðsins og að nokkru í samtök og stofnanir úti í bæ.

Áratugum saman hefur verið feiknarleg umræða á opinberum vettvangi um landbúnað. Hún hefur fundið sér farveg utan stjórnmálaflokka og smám saman leitt til nokkurn veginn sömu niðurstöðu flestra þeirra, sem ekki eru beinlínis að tala í umboði sérhagsmuna.

Í hálfan annan áratug hefur einnig verið svipuð umræða á opinberum vettvangi um sjávarútveg. Hún hefur líka fundið sér farveg utan flokkakerfisins og leitt til nokkurn veginn samhljóða niðurstöðu flestra þeirra, sem ekki eru beinlínis að tala í umboði sérhagsmuna.

Þess sér engin merki á stjórnmálaflokki á borð við Sjálfstæðisflokkinn, að þar viti menn um þessa umræðu og niðurstöður hennar. Og enn síður sér þess merki, að sá flokkur eða nokkur annar hyggist taka mark á niðurstöðum þessarar stjórnmálaumræðu eða annarrar.

Menn geta treyst því, að Sjálfstæðisflokkurinn muni áfram, eins og aðrir flokkar, jafnan standa með sérhagsmunum gegn almannahagsmunum, einkum gegn skattgreiðendum og neytendum. Raunar stendur sá flokkur fremst í ofbeldi ríkisins gegn almannahagsmunum.

Menn geta treyst því, að innihald Sjálfstæðisflokksins verði áfram eins og annarra flokka. Þetta eru allt saman tæki til að koma atvinnumönnum stjórnmála í stöður og stóla. Það er vel við hæfi, að fjárreiður flokkanna eru eitt bezt varðveitta leyndarmálið í íslenzkum nútíma.

Skoðanakannanir sýna, að kjósendur eru farnir að átta sig á þessum staðreyndum og forðast flokkana í auknum mæli. Einkum hafa þeir orðið fyrir vonbrigðum með Sjálfstæðisflokkinn, enda hefur hann haft gott tækifæri til að sýna áhugamál sín í landsstjórninni.

Breytingar á þessu ástandi koma ekki frá fulltrúum á landsfundum og öðrum aðalfundum stjórnmálaflokka. Þar mætir fólk ekki til að taka þátt í stjórnmálaumræðu og niðurstöðum slíkrar umræðu. Það er þvert á móti mætt til að fylkja liði um flokk og flokkseigendur.

Flestir gera þetta sjálfvirkt, af því að þeir eru mættir í sínum klúbbi, sumir fæddir þar. Þeir virða verkaskiptingu, þar sem sumir eru settir til að hugsa, aðrir til að stjórna, en flestir til að rétta upp hendi. Þeir hafa daufar eða engar skoðanir á raunverulegum stjórnmálum.

Sumir fulltrúa ætla sér einhvern hlut af kökunni, sem flokkurinn aflar sínum mönnum. Þetta eru hinir framagjörnu, sem komast í nefndir og hafa von um formennsku í nefnd. Í hillingum birtist framboð í byggðakosningum og jafnvel sæti á lista í alþingiskosningum.

Stjórnmálaflokkar og aðalfundir þeirra eru líka vettvangur framapotara, sem ætla smám saman að klifra til valda og fjár á baki handauppréttingamanna flokksins. Hvorki framapotarar né handauppréttingamenn aðalfunda hafa nokkuð til málanna að leggja í stjórnmálum.

Í nokkur hundruð manna hópi er svo eitthvað um sérvitringa, sem halda uppi því, sem sumir kalla málefnalega þverbresti í stjórnmálaflokkum. Sameiginlegt með þessum sérvitringum er, að þeir eru hver fyrir sig og sameiginlega gersamlega áhrifalausir í sínum flokki.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur að þessu sinni verið enn ein staðfesting þeirrar skilgreiningar á stjórnmálaflokkum og aðalfundum þeirra, sem hér hefur birzt.

Jónas Kristjánsson

DV

Misstu andlitið

Greinar

Talhlýðnir fjölmiðlungar í ljósvakanum hafa gert að sínum orðum fullyrðingar um, að bæði spilavítagengin hafi bjargað andlitinu með samkomulagi um nýju spilavélarnar. Í rauninni var þetta rangt, því að gengin gátu ekki bjargað því, sem þegar var tapað í meðferð málsins.

Spilavítagengi Rauða krossins náði nokkrum árangri um helgina í leiftursókn, sem knúði ráðherra spilavíta til undanhalds eftir helgina og síðan spilavítagengi Háskólans til samkomulags. Leiftursókn þessi verður síðar talin marka tímamót í sögu íslenzkra þrýstihópa.

Niðurstaða leiftursóknarinnar varð, að spilavítagengin náðu samkomulagi um skiptingu markaðarins, alveg eins og hliðstæð gengi hafa jafnan gert í skuggahverfum stórborganna. Græðgin hefur jafnan reynzt öflugt sáttaafl. En enginn bjargaði andliti, sem ekkert var orðið.

Allir töpuðu og mest félagið, sem hefur atvinnu af meðferð og endurhæfingu spilafíkla eins og annarra fíkla. Með leiftursókninni hefur félagið auglýst, að það sitji báðum megin borðs og hafi beinar tekjur af framleiðslu vandamála, sem það síðan hefur tekjur af að lina.

Svo markvisst var unnið í leiftursókninni, að fyrirtæki á sviði almannatengsla var kallað til aðstoðar. Má búast við blómaskeiði á því sviði, er fleiri hagsmunagengi í þjóðfélaginu fara að nýta sérfræðikunnáttu til að þrýsta sérhagsmunum sínum fram á borði Stóra bróður.

Í rauninni voru hinar ósögðu hótanir lítils virði. Reynslan sýnir, að fjölmenn samtök með mikilli virkni margra félagsmanna eru máttlítil í stjórnmálum. Stéttasamtök launþega eru á undanhaldi og verða að sæta endurteknum vanefndum á loforðum stjórnvalda.

Ekkert bendir til, að íþróttafélög og hvað þá björgunarfélög eða háskóli geti stýrt viðhorfum félagsmanna, þegar stéttarfélög geta það ekki. Fjölmenn og virk félög geta framleitt mikinn hávaða, sem síðan endurspeglast ekki í atkvæðum á landsfundum, í prófkjörum og í kosningum.

Stjórnmálamenn hafa ekki áttað sig á þessu. Þannig ofmeta þeir mátt spilavítagengja hins íslenzka nútíma til að hafa áhrif á gengi stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Því eru þingmenn hræddir um sinn hag í hávaðanum og hafa vitnað í röðum í ræðustól á Alþingi.

Í öllum málum af þessu tagi tapar fólkið í landinu. Óbeinir og illa skilgreindir almannahagsmunir verða í vaxandi mæli að víkja fyrir markvissum sérhagsmunum þrýstihópa, sem beita aukinni sérfræðikunnáttu til að blekkja Stóra bróður til stuðnings við sérhagsmunina.

Auglýsinga- og ímyndatækni nútímans hefur stungið af getu almennings og stjórnmálamanna til að halda áttum. Fólk lætur sig til dæmis hafa það að ganga um með auglýsingar um eigin heimsku og ósjálfstæði með því að klæðast dýrri merkjavöru með áberandi merkimiðum.

Flest bendir til, að í náinni framtíð muni yfirburðir sérhagsmuna halda áfram að aukast og að almannahagsmunir verði útundan í auknum mæli, enda eru hópar á borð við neytendur og skattgreiðendur tæpast meðvitaðir um óbeinan kostnað sinn af velgengni sérhagsmuna.

Sérhagsmunagengin kunna tæknina við að ná eyrum Stóra bróður, en almenningur horfir bara á. Nú á að senda fólk í auknum mæli í spilavíti, sem þegar hafa valdið hörmungum í mörgum fjölskyldum. Slagurinn um helgina var bara um skiptingu á auknum gróða.

Spilavítagengjanna er mátturinn, en ekki dýrðin. Þau munu græða á aukinni tæknivæðingu og fjölgun spilavíta, en ekki halda andliti, því að það er horfið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný leið úr Gunnarsholti

Greinar

Vistheimilið í Gunnarsholti er ekki meðferðarstofnun eða endurhæfingarstofnun, heldur samastaður þeirra, sem ekki hafa not af meðferð eða endurhæfingu. Það er nánast geymslustaður á borð við elliheimili. Þess vegna er Gunnarsholt ódýrt, 3.800 krónur á mann á dag.

Heilbrigðisráðherra segist ætla að spara fjörutíu milljónir króna með því að leggja niður vistheimilið í Gunnarsholti. Hann fer með ranga tölu, því að það eru ekki nema þrjátíu milljónir, sem hann getur sparað í Gunnarsholti, ef vistmenn verða settir á Guð og gaddinn.

Ofan á þetta hefur heilbrigðisráðherra fullyrt, að hver einasti vistmaður fái aðra vist við sitt hæfi. Þær stofnanir, sem koma til greina, eru allar dýrari en Gunnarsholt á mann á dag, svo að niðurstaðan af flutningi vistmanna getur orðið meiri kostnaður en nokkru sinni fyrr.

Heilbrigðisráðherra hyggst vafalítið leysa þetta með því að stífla meðferðar- og endurhæfingarstofnanir með vistmönnum Gunnarsholts, þannig að fækkun verði á tækifærum þjóðfélagsins til að endurhæfa meðferðarhæft fólk á stofnunum, sem reknar eru á því sviði.

Á sama tíma er heilbrigðisráðherra að skera slíkar stofnanir niður. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður Staðarfell lagt niður og Hlaðgerðarkot nánast rústað. Heildarniðurstaða dæmisins felst þannig í meira umfangi áfengisbölsins í landinu en annars hefði orðið.

Áður hefur komið fram, að ríkisstjórnin styður áfengisbölið með ýmsum hætti. Við því er ekkert að segja, því að hún endurspeglar vafalítið þingviljann eins og Alþingi endurspeglar þjóðarviljann. En lokun Gunnarsholts er bæði flókin og dýr leið að því markmiði.

Ofan á allt þetta hefur svo komið í ljós, að ekki er þingvilji fyrir þessari leið. Röksemdafærsla heilbrigðisráðherra í Gunnarsholtsmálinu hefur verið svo mikið úti að aka, sumpart röng og sumpart fávísleg, að stjórnarsinnar á Alþingi hafa séð gegnum hana eins og aðrir.Ein leið hefur ekki verið reynd í þessari erfiðu stöðu. Hún er sú, að nokkrir bændur á svæðinu sameinist um að gera ríkinu tilboð um að taka heima hjá sér við hlutverki Gunnarsholts gegn því að fá greitt sem svarar ákveðnum hluta af kostnaði ríkisins, til dæmis 80%.

Raunar er gömul og góð reynsla fyrir því að senda fólk í sveit. Við þær aðstæður, sem nú hafa skapazt í landbúnaði með árvissum niðurskurði á kvóta, er hugsanlegt, að fóstrun lítilmagnans geti orðið búgrein, sem komi að einhverju leyti í stað kvótamissis í kúm og kindum.

Víða til sveita eru húsakynni mikil og aðstæður að öðru leyti góðar og ábúendum vel treystandi til að umgangast af ljúfmennsku það fólk, sem af ýmsum ástæðum, svo sem elli eða ólæknanlegum veikindum getur ekki séð um sig, fólk á borð við vistmenn Gunnarsholts.

Útilokað er, að ferðaþjónusta og hrossarækt geti tekið við óhjákvæmilegri minnkun verkefna í hefðbundnum búgreinum. Það er verðugt verkefni fyrir bændur, samtök þeirra og ríkisvaldið að finna, hvort ekki sé flötur á samstarfi á þessu sviði heilbrigðis- og félagsmála.

Vel má hugsa sér, að gerð verði tilraun. Vistmenn Gunnarsholts eru margir hverjir lagnir í höndunum og gætu gert ýmislegt gagn til sveita, sérstaklega í viðhaldi, lagfært girðingar og útihús. Slíkt mundi henta þeim mun betur en fyrirlestrar á endurhæfingarstofnunum.

Flestar leiðir eru skárri en sú fyrirætlun ráðherrans að stífla endurhæfingarstofnanir með fólki, sem ekki er meðferðarhæft. Hér hefur verið bent á eina augljósa.

Jónas Kristjánsson

DV

Gæfulaus ríkisfjármál

Greinar

Til marks um alvöruleysi fjárlaga má hafa það, að nú er komið í tízku að skera vegagerð niður á fjárlögum um áramót og þenja hana síðan út á miðju ári, þegar ákveðið er að reyna að auka atvinnu í þjóðfélaginu. Aukningin á miðju ári er meiri en niðurskurðurinn um áramót.

Það tekur því varla að ræða um fyrstu útgáfu fjárlagafrumvarps sem marktæka viðmiðun í þjóðmálaumræðunni. Fjárlagafrumvarp er bara aðdragandi að fjárlögum, sem ekki eru heldur marktæk, því að lánsfjárlög ríkisins taka við sumu af því, sem ekki rúmast á fjárlögum.

Lánsfjárlögin eru líka marklítil, því að síðan taka við þjóðarsáttir og aukafjárveitingar, sem breyta áherzluatriðum fjárlaga og lánsfjárlaga og snúa þeim jafnvel við, svo sem vegagerðardæmið sýnir. Þannig verða fjárlög og lánsfjárlög ekki einu sinni stefnumarkandi.

Eins og fjárlagafrumvarpið er byggt upp ætti það að fela í sér fimmtán milljarða halla. Með snyrtingum og heppilegri gleymsku er búin til lægri gervitala, sem er nokkrum krónum innan við tíu milljarða halla. Alþingi verður síðan kennt um aukinn halla í meðförum þess.

Megineinkenni frumvarpsins er, að það endurspeglar ekki raunveruleika líðandi stundar. Það felur í sér, að ríkisstjórnin treystir sé ekki í uppskurð á ríkisfjármálunum. Hún heldur bara áfram að krukka í nokkra liði, einkum þá sem varða velferð almennings, sömu liði og í fyrra.

Ríkisstjórnin laskar og leggur niður þær velferðarstofnanir, sem eru ódýrastar í rekstri, og lætur flytja fólk á dýrari stofnanir annars vegar og út á gaddinn hins vegar. Ekki er hægt að sjá neina heila brú í vali ríkisstjórnarinnar milli stofnana í þessari sláturtíð.

Ríkisstjórnin er orðin svo illa haldin af sýndarmennsku, að hún ætlar að kasta 64 milljónum króna á glæ heilsukorta til að geta haldið fram, að 235 milljón króna tekjur af 309 milljón króna heilsukortaskatti séu í rauninni ekki skattur. Þessi blekking hefur ekki tekizt.

Eyðslusemi ríkisstjórnarinnar á afmörkuðum sviðum og kæruleysi ráðherra í umgengni við biðlaun og mannaráðningar sýna, að það er bara stundum, sem kreppan er höfð í huga. Og áfram verða milljarðar, einn eða tveir á mánuði, látnir fjúka í veður og vind landbúnaðar.

Kreppan er ekki meiri en svo, að unnt væri að varðveita velferðarkerfi almennings, ef ríkisstjórnin hefði ekki meiri áhuga á að vernda gömul hagsmunakerfi. Niðurskurður heilsu- og öldrunarstofnana er skiptimynt í samanburði við kostnað af vernduðum hagsmunum.

Í leiðurum þessa blaðs hefur mörgum tugum sinnum verið bent á, hvernig skera megi brott hina vernduðu hagsmuni, án þess að það valdi hagsmunaaðilum meiri þjáningu en núverandi kerfi gerir, og hafa þannig ráð á að halda áfram uppi óbreyttri velferð almennings.

Fjárlagafrumvarpið er bara enn ein staðfesting á því, að ríkisstjórnin telur sig ekki geta tekið neitt mark á ráðleggingum af því tagi og kýs heldur að ana áfram út í ófæruna. Þetta ömurlega skjal er bara enn ein staðfesting á því, að ríkisstjórnin er ekki starfhæf.

Grátlegt er, að kringum ríkisstjórnina er fjölmenn hjörð hagfræðinga og annarra fræðinga, sem eiga að vita betur og gera það sumir, án þess að slíkrar hugljómunar sjái nokkurn marktækan stað í fálmi ríkisstjórnarinnar, svo sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi hennar.

Gæfuleysið hefur frá upphafi fallið að síðum ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður engin breyting á því í fyrirsjáanlegri framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Næturvörðurinn sefur

Greinar

Illskan hefur aukizt í næturofbeldi reykvískra helga. Tilefnislausar fólskuárásir ungmenna leiða í auknum mæli til líkamstjóns, sem er svo mikið, að það er talið fréttnæmt í fjölmiðlum. Þannig hafa margar helgar verið í sumar og einna verst og illræmdust hin síðasta.

Þetta er ekki þolanlegt ástand, jafnvel þótt rökstyðja megi, að það sé að nokkru um að kenna agaleysi foreldra, fyrirmyndum á sjónvarpsskjám, breyttum þjóðfélagsháttum eða einhverju öðru því, sem talið er í flokki meira eða minna óviðráðanlegra ytri aðstæðna.

Grundvallarafsökunin fyrir tilvist þess, sem kallað er “hið opinbera”, er næturvarðarhlutverk þess. Þeir, sem hafna velferðarríkinu eða einstökum þáttum þess, vísa einmitt til þess, að tilgangur ríkisvaldsins sé einungis sá að gæta innra og ytra öryggis borgaranna.

Menn hljóta að telja, að ríkið eða aðrar opinberar stofnanir eigi að sjá um landvarnir og löggæzlu, jafnvel þótt þeir telji, að fólk eigi að borga sín heilsukort og skólagjöld, áfengismeðferðir og krabbameinsuppskurði, hjartalyf og húsnæðisvexti. Næturvarzlan er lágmark.

Hið opinbera bregzt lágmarkshlutverki sínu, næturvörzlunni, ef það telur hana ekki ná til ákveðinna áhættuhópa á ákveðnum áhættustöðum á ákveðnum áhættutímum. Þá er búið að samþykkja, að í þjóðfélaginu séu til skilyrði, sem séu utan hins borgaralega þjóðfélags.

Ekki er nóg, að löggæzlan nái yfirleitt í ofbeldisfólkið og komi yfir það lögum og rétti. Það er að vísu til bóta, en varðar ekki beinlínis næturvarðarhlutverk hins opinbera, sem felst meðal annars í, að borgarar ríkisins geti óhræddir gengið um opinbera staði á öllum tímum.

Þetta er ekki bara hugmyndafræðileg grundvallarkrafa, heldur einnig hagkvæmniskrafa. Hvað gera menn, þegar fyrsti ferðamaðurinn hefur verið drepinn í miðbæ Reykjavíkur? Hvernig ætla menn að mæta því hruni gjaldeyristekna, sem verður í kjölfar þess?

Við verðum líka að muna eftir, að styrjaldarástandið er fastur liður í sjálfum miðbæ Reykjavíkur. Fólk, sem kemur úr venjulegum samkomuhúsum að næturlagi um helgar, sér með eigin augum ástand, sem minnir á sjónvarpsmyndir af uppþotum í Moskvu eða Los Angeles.

Slíkt ástand er ekki í miðbæjum annarra borga í Vestur-Evrópu. Þar getur fólk um helgar gengið að næturlagi um miðbæinn án þess að verða vitni að uppþoti í reykvískum mæli. Þar dettur engum í hug, að ríkið gefi eftir tök sín á nánasta umhverfi aðalstofnana þjóðfélagsins.

Það er ekki nóg að vísa til agaleysis í uppeldi, slæmra fyrirmynda í sjónvarpi og breyttra þjóðfélagshátta. Agaleysi í uppeldi og vondar bíómyndir og nútíminn yfirleitt eru ekkert séreinkenni Íslands. Þessi atriði þurfa ekki að hindra ríkið í að sinna frumskyldu sinni.

Fyrir aldarfjórðungi var miðborg Amsterdam hertekin eins og miðbær Reykjavíkur. Hollendingar eru allra manna frjálslyndastir í umgengni við vandamál, en þeir létu þó til skarar skríða. Víkingasveit lögreglunnar hreinsaði Dam-torg og hefur haldið miðborginni síðan.

Það er sjálfsagt að ræða um, hvernig foreldrar geti komið upp meiri aga, hvernig eigi að meðhöndla ofbeldi í sjónvarpi og hvað sé að í sjálfri þjóðfélagsgerðinni. Það þarf hins vegar ekki að bíða eftir niðurstöðum slíkra hugleiðinga til að halda uppi lögum og reglu.

Lögreglan í Reykjavík getur ekki vikizt undan því að endurheimta völdin í miðbænum að næturlagi um helgar. Það er grundvallarforsenda í tilvist þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Ástmögur Norðurlanda

Greinar

Rúslan Khasbúlatov þingforseta hefur í annað skipti í röð verið boðið að sækja árlegan fund Norðurlandaráðs í byrjun nóvember. Samkvæmt upplýsingum embættismanna Norðurlandaráðs er honum boðið sem fulltrúa látinnar stofnunar, sem er þing Sovétríkjanna heitinna.

Í fyrra var það fulltrúi Finnlands í forsætisnefnd ráðsins, er átti hugmyndina að boði Khasbúlatovs, sem kostaði ráðið um 600.000 krónur íslenzkar. Í þetta sinn virðast það vera embættismenn ráðsins, sem höggva í þennan sama knérunn, sennilega af ánægju með fyrra boðið.

Er Norðurlönd buðu Khasbúlatov í fyrra, var það túlkað á alþjóðavettvangi sem óbeinn stuðningur þeirra við hann gegn Borís Jeltsín Rússlandsforseta. Fróðlegt verður að fylgjast með túlkun nýja boðsins, þegar Khasbúlatov er orðinn skarpara einkennistákn gamla tímans.

Nauðsynlegt er að leiðrétta þann misskilning, að endurtekin boð til Khasbúlatovs hafi einhverja innri merkingu. Þau tákna ekkert, ekki frekar en að tilvera Norðurlandaráðs hefur nokkra meiningu. Boðin eru bara hugsunarlaus framleiðsla vanhæfra afdalamanna norrænna.

Í nærri fjóra áratugi hefur ekkert gerzt í Norðurlandaráði. Veraldarsagan hefur haldið áfram, en ráðið hefur verið utan gátta. Breytingar á samskiptum þjóða hafa komið frá öðrum stofnunum, svo sem Fríverzlunarsamtökunum, Evrópusamfélaginu og tollaklúbbnum GATT.

Norrænt samstarf stefnir ekki lengur að niðurstöðum. Það rekur að vísu nokkrar gagnlegar stofnanir, en starfar ekki að neinum nýjum framfaramálum. Það stendur fyrir nokkur hundruð samstarfsverkefnum og brennir nokkrum milljörðum íslenzkra króna á hverju ári.

Norrænt samstarf felst fyrst og fremst í ferðum og veizlum. Það er ekki lengur efnahagslegt, peningalegt eða viðskiptalegt fyrirbæri, heldur er það eins konar félagslíf. Flest félög og flestar stofnanir stunda ferðir og veizlur og annað blómlegt félagslíf á norrænum vettvangi.

Það eru ekki bara ráðherrar, þingmenn og embættismenn, sem stunda sirkusinn. Bæjarstjórnir og nefndir á vegum sveitarfélaga eru önnum kafnar í vinabæjatengslum. Svipað er að segja um stofnanir ríkisins. Frjáls félög og stéttarfélög leggja mikla áherzlu á norræn samskipti.

Sá klúbbur telst ekki með klúbbum, að hann hafi ekki einhver félagsleg tengsli við norræna systurklúbba. Ferðir fólks á vegum ýmissa myndbirtinga norrænnar samvinnu eru þáttur í lífsstíl fólks, sem velst til forustu, hvort sem það er í saumaklúbbi eða ríkisstjórn.

Daglegar flugsamgöngur milli Íslands og Norðurlanda byggjast á þessu líflega félagslífi, er minnir eindregið á félagslíf aldraðs fólks, sem setzt er í helgan stein og stundar klúbbana sína. Enda eru Norðurlönd setzt í helgan stein sem aldurhnigin ríki í samfélagi þjóðanna.

Norðurlönd hafa lagt sitt af mörkum til umheimsins og veraldarsögunnar. Þaðan er velferðarríkið, sem náði hátindi sínum fyrir um það bil áratug, en er nú á undanhaldi á Vesturlöndum, þar á meðal á Norðurlöndum og ekki sízt á Íslandi, þar sem verið er að brytja það.

Þótt Khasbúlatov hafi gerzt formlegur ástmögur Norðurlanda, hefur það enga pólitíska merkingu, enda hafa embættismenn Norðurlandaráðs afar litla hugmynd um, hvað er að gerast í umheiminum og veraldarsögunni; og mundu vafalaust ekki kæra sig um að frétta af því.

Þetta er bara hefðbundin viðleitni keðjuklúbba aldraðs fólks að stækka keðju félagslífsins, jafnvel til látinna stofnana, svo að hægt sé að fylla tómarúm iðjuleysis.

Jónas Kristjánsson

DV

Heilsukortaskattur

Greinar

Mikill fórnarkostnaður fylgir heilsukortakreddunni. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ná með heilsukortum í peninga til heilbrigðismála mun kosta skattgreiðendur að minnsta kosti 64 milljón krónur á ári ofan á þær 235 milljón krónur á ári, sem nýtast heilbrigðiskerfinu.

Enginn beinn aukakostnaður væri við að ná með hefðbundnum skatti í þessar 235 milljón krónur á ári. Heilsukortin sjálf kosta hins vegar 29 milljónir, gíróseðlar 11 milljónir, póstsendingar 3 milljónir og laun 20 milljónir. Samtals er beinn fórnarkostnaður 64 milljón krónur á ári.

Til þess að ná inn 235 milljón krónum á ári og eiga líka fyrir 64 milljóna fórnarkostnaði á ári þarf ríkið að leggja 309 milljón króna árlegan heilsukortaskatt á landsmenn. Þetta er greinilega afar óhagkvæm aðferð í skattheimtu og hlýtur að eiga sér annarlegar forsendur.

Að baki heimskulegra heilsukorta ríkisstjórnarinnar er sumpart sú óskhyggja, að heilsukortaskatturinn verði ekki talinn vera skattur, af því að hann sé ekki nefskattur, sem allir verði að greiða. Þannig geti fjármálaráðherra fullyrt, að hann sé í rauninni enginn skattur.

Þessi óskhyggja er ekki nægileg skýring, því að fjármálaráðherra mun ekki takast að telja mörgu fólki trú um, að heilsukortin séu ekki skattur. Þau eru skattur alveg eins og afnotagjald til Ríkisútvarpsins er skattur, þótt fræðilega séð geti fólk neitað að greiða hann.

Fólk þarf að greiða afnotagjaldið til að geta fengið sér sjónvarpstæki til þess eins að horfa á myndbönd. Þess vegna er afnotagjaldið skattur. Og fólk þarf að greiða heilsukortin til að fá aðgang að þjónustu, sem kostar miklu meira en 235 milljónir heilsukortaskattsins.

Ástæðan fyrir heilsukortaskattinum er, að við óskhyggjuna bætist sú kredda, að fólk eigi að vera ábyrgt fyrir velferð sinni, en ekki sækja hana ókeypis í hendur ríkisins. Hugmyndafræðilega séð er heilsukortaskatturinn grein á sama meiði og skólagjaldaskatturinn.

Gallinn við framkvæmd kreddunnar er, að hver einstaklingur er látinn greiða brot af verðgildi þjónustu við meðaleinstakling. Það er því augljóslega hagkvæmara fyrir hann að taka á sig skattinn en að segja skilið við velferðarkerfið. Þess vegna er þetta bara skattur.

Ef kreddan væri framkvæmd á þann hátt, að fólk stæði andspænis raunverulegu vali, þar sem það gæti hugsanlega komizt að þeirri niðurstöðu, að það ætti að standa utan velferðarkerfisins, væri verið að framkvæma kredduna um, að fólk eigi sjálft að taka ábyrgð á sér.

Með því að hlaða dæmið í hag velferðarkerfinu, á fólk engan hagkvæman kost annan en að greiða 2000 krónur á ári í heilsukortaskatt. Þess vegna virkar kreddan ekki og þess vegna virkar óskhyggjan ekki og þess vegna er heilsukortaskatturinn aðeins óhagkvæmur skattur.

Þessi dýri skattur hefur þá aukaverkun í för með sér, að undirstéttin í þjóðfélaginu mun ekki greiða hann og þar með ekki fá aðgang að heilbrigðiskerfinu til jafns við venjulegt fólk. Undirstéttin hefur ekki 2000 krónur aflögu, þegar á reynir, og lendir því í vandræðum.

Af því að kreddan nær ekki enn svo langt, að undirstéttin megi deyja drottni sínum, neyðist kerfið til að bæta heilbrigðiskostnaði hennar við annan velferðarkostnað, sem það hefur af undirstéttinni. Sveitarfélög landsins þurfa því að auka félagsmálaútgjöld sín.

Niðurstaða heilsukortaruglsins verður því, að 235 milljónirnar, sem ríkið nær með 64 milljóna tilkostnaði, renna aftur út í sand velferðarkerfisins á öðrum stað.

Jónas Kristjánsson

DV

Litla-Framsókn

Greinar

Verkin tala í stjórnmálum sem á öðrum sviðum. Þótt flokkarnir hafi sumpart misjafnar stefnuskrár, eru þeir nokkurn veginn eins í helztu meginatriðum, þegar til kastanna kemur. Þannig fórnar til dæmis Alþýðuflokkurinn alltaf stefnu sinni í landbúnaði, er á reynir.

Að mestu leyti hallast allir stjórnmálaflokkarnir í reynd að verki, sem er í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins. Sá veruleiki felst í verndun landbúnaðar í stað nýrra greina; miðstýringu í stað frjálshyggju; og velferðarkerfi gæludýra í stað velferðarkerfis almennings.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum verið kallaður stóri eða stærsti Framsóknarflokkurinn. Landbúnaðarráðherrar fyrri flokksins hafa jafnan reynzt harðari hagsmunagæzlumenn en aðrir landbúnaðarráðherrar og einn þeirra var meira að segja höfundur kerfisins.

Sjálfstæðisflokkurinn á aðra rót sína í embættismannakerfinu og hina í atvinnulífinu. Helztu stjórnmálamenn hans hafa oftast verið lögmenn, sem falla betur að ríkis- og borgarkerfinu en atvinnulífinu, þótt sumir þeirra hafi gælt við frjálshyggju á unga aldri.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi allra síðustu árin meira hampað frjálshyggju en oft áður, hefur reyndin verið önnur. Hann hefur færzt nær Framsóknarflokknum, meðal annars vegna mannaskipta í þingflokki hans, sem fela í sér, að hreinum framsóknarmönnum hefur fjölgað.

Lengi hefur verið ljóst, að gamlir þingmenn á borð við ráðherrana Halldór Blöndal og Þorsteinn Pálsson eru hreinir framsóknarmenn í verki. Færri átta sig á, að þetta gildir ekki síður um nýja þingmenn, sem sumir hverjir eiga eftir að verða valdamiklir í flokknum.

Meðal þessara framsóknarmanna þingflokksins eru Sturla Böðvarsson, Einar Guðfinnsson, Vilhjálmur Egilsson og Tómas Ingi Olrich. Afstaða þeirra á þingi bendir til, að innan tíðar verði þeir orðnir nákvæmlega eins og Egill Jónsson frá Seljavöllum og Pálmi Jónsson frá Akri.

Leita verður með logandi ljósi í hópi þingmanna flokksins úr tveimur kjördæmum suðvesturhornsins til að finna einhvern, sem telji aðra atvinnuvegi nýtilegri en landbúnað og telji afkomu skattgreiðenda og neytenda skipta meira máli en afkomu hefðbundins landbúnaðar.

Eins er erfitt að finna nokkurn, sem telur velferðarkerfi almennings skipta meira máli en velferðarkerfi gæludýranna. Enn síður er auðvelt að benda á einhvern, sem í reynd tekur valddreifingu fram yfir þá miðstýringaráráttu, sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn.

Kjörorðið er Báknið burt, en reyndin er Kerfið kjurt. Það endurspeglast í aukinni hlutdeild ríkisbúskaparins í þjóðarbúskapnum í fjármálaráðherratíð Sjálfstæðisflokksins á síðustu misserum. Sú sáralitla einkavæðing, sem sést, er fyrst og fremst einkavinavæðing.

Með því að sameina verstu þætti frjálshyggjunnar við verstu þætti ríkisdýrkunar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið að breytast í miðflokk á borð við Framsóknarflokkinn, í fortíðarflokk miðstýringar og velferðarkerfis gæludýra, þar á meðal og sér í lagi landbúnaðar.

Ein nýjasta birting þessa samruna hefur verið öllum sýnileg í skinkumálinu og málum, sem tengdust því. Komið hefur í ljós, að framsóknarmaðurinn Halldór Blöndal landbúnaðarráðherra er hinn raunverulegi leiðtogi Sjálfstæðisflokksins og höfuð ríkisstjórnarinnar.

Skoðanakannanir sýna, að ekki hæfir lengur að kalla flokkinn Stóru-Framsókn. Allt þetta ár hefur fylgi hans mælzt þannig, að rétt er að kalla hann Litlu-Framsókn.

Jónas Kristjánsson

DV

Gúlagið tapaði naumlega

Greinar

Ólympíunefndin slapp fyrir horn, þegar 45 nefndarmenn völdu Sydney sem vettvang ólympíuleikanna árið 2000. Sú niðurstaða var auðvitað ekki að þakka þeim 43 nefndarmönnum, sem vildu halda þessa leika í gúlaginu í Beijing, miðstöð mannréttindaskorts í heiminum.

Fram á síðustu stund var talið líklegt, að Stóri bróðir í Kína fengi að halda þessa ólympíuleika. Hann hafði flutt mútur inn á nýtt og stærra svið með því að gefa ólympíunefndinni einn af þekktustu forngripum ríkisins, 2.200 ára gamla hermannastyttu frá uppgreftrinum í Xian.

Gamall fasisti frá valdatíma Francos á Spáni, Juan Antonio Samaranch, er formaður nefndarinnar. Hann stjórnaði þeim hópi, sem vildi afhenda alræðisstjórninni í Kína ólympíuleikana og beið lægri hlut í sögulegri atkvæðagreiðslu í Monte Carlo á fimmtudagskvöldið.

Ekki er gæfulegt, að 43 nefndarmenn skyldu styðja sjónarmið Samaranchs gegn meðmælum helztu mannréttindasamtaka heimsins, og enn síður, að nefndin í heild skyldi endurvelja sem formann þennan gamla fasista, sem hefur fyrr og síðar skaðað ólympíuhugsjónina.

En nefndin slapp naumlega fyrir horn í staðarvalinu með 45 atkvæðum gegn 43. Ef Beijing hefði fengið þessa ólympíuleika, hefði það verið svipað áfall og árið 1936, þegar Adolf Hitler notaði ólympíuleikana í Berlín til að fegra og auglýsa sitt viðurstyggilega þjóðskipulag.

Kína er einn síðasti móhíkaninn í flokki kommúnistaríkja og það ríki, sem næst kemst hryllingsríkinu, er rithöfundurinn George Orwell lýsti í bókinni “1984″. Það er skólabókardæmi um alræðisríkið, sem aldrei komst almennilega á legg í Austur-Evrópu járntjaldsins.

Ríkisvaldið í Kína þolir alls enga gagnrýni. Það lítur á sjálfstæðar skoðanir sem landráð og hneppir fólk í þræla- og pyndingabúðir fyrir það eitt að lýsa skoðunum sínum í fámennum hópi. Ríkisvaldið í Kína er eins lítið ólympískt og nokkurt ríkisvald getur verið.

Kínastjórn notaði skriðdreka til að valta yfir námsmenn á Torgi hins himneska friðar. Fjöldamorðin á torginu sýndu umheiminum hið rétta ógnareðli þjóðskipulagsins í Kína, þar sem elliærir valdhafar svífast nákvæmlega einskis til að varðveita alræðið.

Kína er land, þar sem ríkisvaldið lætur skrúfa fyrir allan hita í Beijing til þess að geta logið því að gestkomandi ólympíunefnd, að þar sé sæmilega hreint loft. Kína er land, þar sem ríkisvaldið getur lofað, að ekki nokkur mótmælandi muni dirfast að varpa skugga á leikana.

Ef ólympíuleikar væru haldnir í Beijing, mundi ríkisvaldið láta handtaka tugi þúsunda Kínverja, sem hugsanlega gætu verið grunaðir um að hafa opinn huga, til þess að tryggja, að þeir kæmu hvergi nálægt útlendingum. Svo stórkarlaleg er alræðisárátta kínverskra valdhafa.

Eitt lítið dæmi um hugarfar ráðamanna íþrótta og ríkis í Kína er, að fyrir nokkrum dögum var hótað, að Kínverjar mundu ekki mæta á næstu ólympíuleika, ef þeir fengju ekki vilja sínum framgengt. Þeir töldu, að slík hótun mundi efla stuðning við ólympíuleika í Beijing.

43 félagar í ólympíunefnd gamla fastistans frá Spáni studdu heimsins mesta alræðisríki í atkvæðagreiðslunni á fimmudagskvöldið. Það munaði bara hásbreidd, að þeir fengju vilja sínum framgengt í Monte Carlo. Svo tæpt stendur ólympíuhugsjónin í lok tuttugustu aldar.

Hinn naumi sigur í nefndinni sýnir, að fylgismenn hins forngríska anda, sem er rót ólympíuleika og mannréttinda í senn, verða að halda vöku sinni ár og síð.

Jónas Kristjánsson

DV

Síðasta tækifærið

Greinar

Borís Jeltsín Rússlandsforseti átti að hamra járnið meðan það var heitt og senda þingið heim fyrir fimm mánuðum, þegar fólkið hafði í þjóðaratkvæðagreiðslu lýst trausti á honum sem forseta og einnig á vestrænum efnahagsumbótum hans. Nú kann það að vera of seint.

Rússneska þingið hefur ekkert hliðstætt umboð frá þjóðinni til að stjórna ríkinu. Það er arfur frá tímum Sovétríkjanna, skipað kerfiskörlum þess tíma. Samt hefur það hagað sér eins og það sé hinn raunverulegi valdhafi í landinu og stíflað lýðræðisþróunina að mestu.

Með aðstoð stjórnlagadómstóls og seðlabanka ríkisins, sem einnig eru leifar fyrri tíma kommúnismans, hefur þinginu tekizt að koma í veg fyrir, að Jeltsín stjórnaði ríkinu, þótt hann sé lýðræðislega kjörinn og hafi fengið áðurnefndar traustsyfirlýsingar þjóðarinnar í vor.

Í fimm mánuði hefur verið kristaltært, að rússneska þingið mundi ekki virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar í vor og áfram beita kjafti og klóm gegn efnahags- og lýðræðisumbótum. Jeltsín hefur árangurslaust reynt að friða það með því að fórna umbótasinnum.

Nú hefur Jeltsín loksins höggvið á hnútinn. Ekki er enn ljóst, hvort hann og sjónarmið hans sigra í eftirleiknum. Augljóst er, að tök hans á almenningsálitinu í Moskvu hafa rýrnað frá í vor. Andstæðingar hans hafa í vaxandi mæli látið að sér kveða á götum og torgum.

Herinn lýsti fyrst hlutleysi í valdabaráttunni og síðan stuðningi við forsetann. Innanríkislögreglan styður Jeltsín líka, að minnsta kosti á Moskvusvæðinu, sem er mikilvægast. Og valdhafar í héruðum og löndum ríkisins virðast flestir telja heppilegt að styðja hann.

Upphaflegt hlutleysi hersins í valdastreitunni var aðeins sjónhverfing, túlkuð sem jákvætt hlutleysi í garð Jeltsíns. Það fólst meðal annars í, að honum yrði gert kleift að framkvæma nýjar þingkosningar gegn vilja núverandi þings. Síðan tók herinn opinbera afstöðu.

Ef hallarbylting Jeltsíns nær fram að ganga og þingkosningar verða fyrir jól, fá Rússar tækifæri til að koma á fót löggjafarvaldi, sem endurspeglar mismunandi sjónarmið og hagsmuni í nútímanum, nákvæmlega eins og gerist á Vesturlöndum og er einmitt það, sem vantar.

Ef kommúnistar komast aftur til valda í þingkosningum eða til aðildar að völdum eins og þeir hafa nú komizt í Póllandi, er ekkert við því að segja, því að það er gangur lýðræðisins. Rússar hafa ekki fengið slíkt tækifæri, en fá það vonandi nú, eftir síðbúna aðgerð Jeltsíns.

Smám saman er að koma í ljós, að efnahagsleg örlög ríkjanna í Varsjárbandalaginu sáluga fara eftir stuðningi fólksins við vestrænar umbætur. Tékkum gengur betur en Slóvökum og Eistlendingum betur en Litháum. Pólverjum hefur gengið vel, en nú er hætta á bakslagi.

Rússar hafa skýrara dæmi nær sér. Úkraína lýtur stjórn kommúnista af sama toga og rússneskir þingmenn. Þar hefur valdhöfum tekizt að framkalla þvílíkt efnahagsöngþveiti, að ástandið í Rússlandi er barnaleikur í samanburði. Úkraína er víti til varnaðar Rússum.

Vonandi tekst Borís Jeltsín að fylgja hallarbyltingunni eftir og láta kosningar til nýs þings verða að veruleika. Þá loksins lýkur löngu og dýru þrátefli, sem hefur gert Rússum ókleift að fylgja eftir sumum öðrum þjóðum Varsjárbandalagsins, er hafa valið hinn vestræna veg.

Forseti Sovétríkjanna hefur notað síðasta tækifærið, sem hann hafði. Þess vegna má vona, að Rússar fái nú loksins tækifæri til að verða eigin gæfu smiðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Gráa svæðið þenst út

Greinar

Einfalt er að sjá, hvenær misnotaður er kynningarbæklingur eða annað prentmál, sem stjórnvald gefur út. Það er þegar birt er mynd og ávarp ráðherrans, borgarstjórans eða nefndarformannsins. Þá er sá að búa í haginn fyrir sig eða flokkinn í prófkjöri eða kosningum.

Aðdragandi byggðakosninga virðist verða verri en áður að þessu sinni. Borgarstjóri og formaður léku þennan leik í bæklingi um heilsdagsvist skólabarna og bæjarstjóri Seltjarnarness í bæklingi um þjónustu bæjarins. Fleiri stjórnmálamenn munu feta í þessi spilltu fótspor.

Hér á landi skortir viðnám gegn fjölbreyttri spillingu stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Fátt eitt er til af reglum um slík efni. Það gefur stjórnmálamönnum tækifæri til að halda sig á útjaðri gráa svæðisins og gera tilraunir til að víkka það með nýjum og nýjum fordæmum.

Í nágrannalöndunum hafa verið sett lög, reglugerðir og bókfærðar vinnureglur til þess að mjókka gráa svæðið og hefta ferðir út fyrir það. Þetta hefur verið gert, af því að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa aðstöðu til að úthluta gæðum til sín og annarra aðila.

Fjárreiður stjórnmálaflokka eru meðal atriða, sem bundin hafa verið í lög í flestum nágrannalöndunum. Þar er ákveðið, hvernig sé háttað bókhaldsskyldu flokkanna og aðgangi almennings að bókhaldinu. Ennfremur er ákveðið, hvernig framlög til þeirra skuli bókfærð.

Hér á landi eru stjórnmálaflokkarnir ekki bókhaldsskyldir og almenningur hefur ekki aðgang að því bókhaldi, sem til kann að vera. Engin skjöl eru opinber um framlög til þeirra. Augljóst er, að þetta hömluleysi gefur tækifæri til miklu meiri spillingar en í nálægum löndum.

Átta háskólakennarar hafa sameinazt um að leggja til, að um þetta verði settar hliðstæðar reglur og gilda í nágrannalöndunum. Þeir vísa til aðstöðu flokkanna til að úthluta gæðum, sem leiði aftur á móti til þess, að setja verði um þá strangari reglur en aðra bókhaldsaðila.

Grundvallaratriðið er, að stjórnmálaflokkarnir verði bókhaldsskyldir og að reikningar þeirra verði opnir öllum eins og stórfyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Lög um þetta verði þannig úr garði gerð, að stjórnmálaflokkarnir geti ekki haldið hluta af veltunni utan bókhalds.

Annað meginatriði er, að skattfrelsi framlaga til flokkanna gildi aðeins upp að vissu marki, sem miðað sé við einstaklinga, og að framlög, sem séu umfram þá upphæð á einu ári, séu bæði skattlögð og birtingarskyld. Þá má sjá, hvaðan stórgjafir koma til flokkanna.

Rökstuddur grunur er um, að ýmsir voldugir aðilar í þjóðfélaginu sjái sér hag í að verða við fjárbeiðnum stjórnmálaflokka vegna þess að sömu flokkar hafi eða geti fengið aðstöðu til að taka ákvarðanir, sem hafa umtalsverð áhrif á fjárhag og gengi þessara aðila.

Nýlega höfum við séð dæmi um, að umfangsmiklum verkefnum hefur verið úthlutað af hálfu Hafnarfjarðar og Reykjavíkur án hefðbundins útboðs. Slík vinnubrögð fela í sér pólitíska úthlutun gæða, sem kallar á strangar reglur um þá aðila, sem skammta gæðin í þjóðfélaginu.

Þegar settar verða reglur um fjárreiður stjórnmálaflokka, er rétt að taka inn í myndina fjárreiður stjórnmálamanna vegna prófkjörs og kosninga, svo og fjárreiður þeirra, sem flokkarnir hafa sett til að vera skömmtunarstjórar í þessu landi mikillar opinberrar íhlutunar.

Fráleitt er að ætla, að hér séu menn svo miklu siðvæddari en í nágrannalöndunum, að ekki þurfi að skjalfesta reglur, sem haldi stjórnmálaflokkum frá gráum svæðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Styðja ekki eigið álit

Greinar

Forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness stendur að nefndaráliti um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal Reykjavíkur og Seltjarnarness, en getur ekki svarað fjölmiðlum, þannig að skiljanlegt sé, hvort hún sé með eða móti einmitt þessu sama nefndaráliti.Svipuð viðhorf hafa víðar komið í ljós. Einn nefndarmanna afsakaði sig með því, að nefndin hefði verið skyldug til að standa að einhverju áliti. Milli línanna má lesa, að nefndarmenn hafi ekki tekið hlutverk sitt alvarlega og talið sér heimilt að skrifa undir hvaða plagg sem er.

Það er engan veginn gott veganesti í almennri atkvæðagreiðslu, sem verður 20. nóvember í sveitarfélögunum, ef einmitt þeir, sem semja tillögur um sameiningu, treysta sér ekki til að mæla með tillögum sínum, heldur fara undan í flæmingi og tala út og suður.

Tillögur, sem ekki eru studdar heils hugar af eigin höfundum, verða auðvitað felldar, því að ekki er hægt að ætlast til, að kjósendur botni meira í þeim en höfundarnir, sjái skýrar yfir kosti þeirra og galla eða geti spáð rökréttar í niðurstöður þeirra og ýmsar afleiðingar.

Ljóst er orðið, að undirbúningur að sameiningu er í molum í flestum tilvikum. Hver sveitarstjórnarmaður á fætur öðrum lýsir efasemdum sínum, þekkingarskorti og hræðslu við hið ókunna. Hvernig er þá hægt að ætlast til að kjósendur styðji þessar róttæku breytingar?

Það er ábyrgðarhluti að efna til mikils kostnaðar við að smíða tillögur og efna til kosninga, sem ekki leiða til neinna breytinga, af því að málin falla í hverju sveitarfélaginu á fætur öðru. Það eru slæm vinnubrögð, sem eiga eftir að vera til skammar málsaðilum sameiningar.

Sameining sveitarfélaga er mál, sem þarf að undirbúa svo vel, að höfundarnir skilji það og styðji sjálfir og að töluverður hluti sveitarstjórnarmanna sé reiðubúinn að leggja hönd á plóginn. Þær forsendur eru því miður ekki til í flestum tilvikum, sem hafa verið til umræðu.

Ef markmið sameiningarinnar er að spara peninga í rekstri sveitarfélaga og gera þau hæfari til að mæta kröfum, sem meðal annars stafa af breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þá hlýtur að vera hægt að undirbúa málið svo vel, að það verði fólki skiljanlegt.

Ef hins vegar enn er óljóst, hver verkaskiptingin verður, hverjar verða kröfur til sveitarfélaga í náinni framtíð og hver verður raunverulegur sparnaður af sameiningu, er farsælast að bíða með atkvæðagreiðslur, unz þokunni hefur létt og útkoma fengizt úr reikningsdæmum.

Í félagsmálaráðuneytinu halda menn því fram, að línur hafi einmitt skýrzt í verkaskiptingunni og að vitað sé, hver verði verkefni sveitarfélaga. Þar á ofan sé ljóst, að lítil sveitarfélög muni ekki ráða við þessi verkefni. Efasemdir sveitarstjórnarmanna séu bara fyrirsláttur.

Ef þetta er rétt, verður átakanlegra en ella það ábyrgðarleysi sveitarstjórnarmanna að skipa í sameiningarnefndir, sem framleiða sameiningartillögur, er hvorki nefndarmenn né aðrir sveitarstjórnarmenn hyggjast styðja, þegar á hólminn er komið 20. nóvember.

Í þessari stöðu er bezt, að sameiningarnefndir hundskist til baka með tillögur sínar og að frestað verði kosningum um þær, þangað til unnt reynist að sýna kjósendum kosti tillagnanna. Bezt væri að fá nýja nefndarmenn, sem eru líklegri til að skilja og styðja eigin tillögur.

Við höfum horft á margan skrípaleikinn í pólitíkinni, en undirbúningurinn að almennri atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga tekur flestu fram á því sviði.

Jónas Kristjánsson

DV