Greinar

Frábær Tryggvagata

Greinar

Hafnarhúsið í Reykjavík er kjörið hús til að nota undir verzlanamiðstöð til eflingar mannlífi í Kvosinni, elzta hluta bæjarins, svo sem Þróunarfélag Reykjavíkur hefur lagt til. Þetta er kjarninn í ágætum tillögum félagsins um að gera Tryggvagötu að miðpunkti borgarlífsins.

Þróunarfélagið vill koma fyrir matvörumarkaði í vörugeymslunni í Tryggvagötu 15, skuggalega og gluggalitla húsinu við hlið Hafnarhússins. Þetta er mikið hús, sem vafalaust gæti rúmað stóran matvörumarkað og að auki markað fyrir nýlenduvörur og aðrar nauðsynjar.

Félagið vill hafa smáverzlanir, veitingastaði og þjónustufyrirtæki á 1. og 2. hæð sjálfs Hafnarhússins í Tryggvagötu 17. Húsið er byggt á þann hátt, að með litlum kostnaði er hægt að ganga inn í margar smáverzlanir bæði utan frá götunum og innan úr porti hússins.

Með því að setja glerþak yfir portið er hægt að koma þar fyrir útimarkaði í sífelldu góðviðri og leysa þann vanda, að fólk hafnar því að verzla í roki og rigningu í miðbænum og kýs heldur að verzla innan dyra í Kringlunni og öðrum hliðstæðum verzlanasamstæðum.

Þessi tvö hús, Tryggvagata 15 og 17, hafa lengi verið dauðir punktar í tilveru Reykjavíkur. Húsin eru bæði vel fallin til þeirrar notkunar, sem Þróunarfélagið leggur til. Þess vegna mundi framkvæmd tillögunnar gerbreyta viðmóti miðbæjarins gagnvart borgarbúum og öðru fólki.

Breyting húsanna tveggja er liður í stærri áætlun, sem gerir ráð fyrir, að neðsta hæð Tollstöðvarinnar í Tryggvagötu 19 verði lögð undir markaði, svo sem blómamarkað og grænmetismarkað. Sú hugmynd virðist vera í einkar eðlilegu samhengi við breytingar á hinum húsunum.

Loks gerir Þróunarfélagið ráð fyrir, að handan Tollstöðvar verði í Tryggvagötu 21 reist hús fyrir lögreglustöð, verzlanir og þjónustu, og einkum þó fyrir nýja miðstöð strætisvagna. Þar með væri búið að ná saman pakka, sem virðist mjög eftirsóknarverður og spennandi.

Þessi breyting á Tryggvagötunni yrði sérstaklega aðlaðandi, ef öll þessi hús væru tengd með gangvegi undir þaki, svo að fólk geti farið úr strætisvagni og rekið öll sín hversdagslegu erindi í friði fyrir veðri og vindum. Slík grið vantar einmitt í Kvosinni um þessar mundir.

Þróunarfélagið leggur til fleiri breytingar á gamla bænum, svo sem endurmótun Hlemmtorgs og aukin bílastæði á baklóðum Laugavegar, ráðstefnumiðstöð í Faxaskála og margt fleira. En Tryggvagötuhugmyndin er þungamiðja athyglisverðra tillagna félagsins.

Hér í blaðinu hefur stundum verið haldið fram, að Laugavegur muni ekki ganga í endurnýjun lífdaganna, fyrr en hann hefur verið varinn með glerþaki fyrir náttúruöflunum, sem standa í vegi fyrir því að unnt sé að búa til klassíska miðbæjarstemmningu í Reykjavík.

Ef innangengt verður frá strætisvagnastöðvum og bílageymsluhúsum við Laugaveginn að götunni sjálfri og frá henni inn á Hlemm annars vegar og hins vegar inn í Austurstræti og inn í hin fyrirhuguðu Tryggvagötuhús, hefur verið efnt til ánægjulegs miðbæjar í Reykjavík.

Hin nýstárlega tillaga Þróunarfélagsins um Tryggvagötu er eitt fárra dæma um, að einstaka sinnum eru settar fram svo rökréttar og skemmtilegar hugmyndir, að eina markverða athugasemdin felst í að furða sig á, að engum skuli hafa dottið þetta fyrr í hug.

Með tillögu Þróunarfélagsins um Tryggvagötu hafa borgaryfirvöld fengið í hendurnar kjörið tækifæri til að gera borgarlífinu mikið gagn með litlum tilkostnaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir hafa gefizt upp

Greinar

Sparnaðarleið menntaráðherra á þessu hausti felst í að reyna að flytja hundrað milljón króna kennslukostnað frá ríki til sveitarfélaga í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, rétt eins og kostnaðurinn hverfi með því að flytja hann milli stofnana í opinbera geiranum af þjóðarbúinu.

Þetta segir okkur, að menntaráðherra hefur gefizt upp á sparnaði og reynir ekki einu sinni að hafa sjónhverfingarnar snyrtilegar. Að því leyti endurspeglar hann ríkisstjórnina í heild. Hún er þegar búin að sætta sig við nýtt Íslandsmet í hallarekstri ríkisins á næsta ári.

Gengislækkunin í sumar markaði tímamót á ferli ríkisstjórnarinnar. Með henni lauk örvæntingarfullum tilraunum til að stjórna, sem einkenndu fjárlagafrumvarpið í fyrra, og hófst tímabil reiðileysis og ráðleysis, sem einkennir fjárlagafrumvarp stjórnarinnar á þessu hausti.

Háskólaprófessorar í hagfræði hafa hver á fætur öðrum gagnrýnt gengislækkunina. Þeir segja hana kennslubókardæmi um, hvernig ekki eigi að fella krónuna. Engin úrræði hafi fylgt lækkuninni, heldur hafi verðbólgan af hennar völdum farið óhindrað um þjóðfélagið.

Fjármálaráðherra hefur ekki haft bein í nefinu til að koma í veg fyrir, að allir hinir ráðherrarnir tækju sér völd yfirráðherra í fjármálaráðuneytinu. Og forsætisráðherra hefur afhent landbúnaðarráðherra þau völd, sem máli skipta, þegar valið er milli forgangsmálanna.

Fjárlagafrumvarp með mun meiri halla en tíu milljörðum er eðlilegt framhald af klúðraðri gengislækkun. Samanlagt gefa þessi tvö atriði skýra mynd af ríkisstjórn, sem hefur ákveðið að láta sér nægja að stritast við að sitja. Á skjaldarmerki hennar er skráð: “Er á meðan er”.

Allir hagfræðingar landsins eru sammála um, að erlendar skuldir þjóðarinnar séu komnar yfir viðurkennd hættumörk, jafnvel hagfræðingur ríkisstjórnarinnar. Í stað fimmtu hverrar krónu af gjaldeyrisöfluninni fer nú þriðja hver króna í að standa undir skuldasúpunni.

Á þessu ári einu hafa erlendar skuldir þjóðarinnar farið úr 60% af landsframleiðslu ársins upp í 65%. Með fjárlagafrumvarpi næsta árs fara þær upp í 70%. Með sama áframhaldi verður þjóðfélagið rjúkandi rúst, þegar kjörtímabili Alþingis lýkur eftir hálft annað ár.

Þegar vel árar, getur verið í lagi, að ríkisstjórnir séu ekki mjög duglegar. Í kreppum er meiri þörf á, að tekið sé til hendinni á toppnum. Við núverandi aðstæður er einmitt nauðsynlegt að hafa ríkisstjórn, sem reynir að auðvelda siglingu þjóðarinnar út úr kreppunni.

Almenningur í landinu hefur lagt sitt af mörkum til að gera þetta kleift. Með hverri þjóðarsáttinni á fætur annarri hefur fólk látið lífskjaraskerðingu yfir sig ganga. Lífskjör almennings hafa raunar rýrnað nokkuð meira en sem nemur samdrætti þjóðarbúskapar á sama tíma.

Þetta tækifæri hefur ríkisstjórnin ekki nýtt sér. Hún hefur ekki nýtt sér friðinn hjá þjóðinni til að standa af sér áhlaup þrýstihópa. Sumir hópanna eru raunar svo öflugir, að heilt ráðuneyti er ekkert annað en sendiráð sérhagsmuna utan úr bæ. Það er landbúnaðarráðuneytið.

Ríkisstjórnin hefur heldur ekki nýtt sér friðinn til að standast áhlaup þeirra sendiherra þrýstihópanna, sem eiga sæti á Alþingi. Ráðherrarnir hafa engan flokksaga á þessum sendiherrum, sem hafa hvað eftir annað kúgað ríkisstjórnina til að þjóna sérhagsmunum úti í bæ.

Drjúgur þáttur vandans felst í þeirri einföldu staðreynd, að uppgefnir og óöruggir ráðherrar hafa ekki bein í nefinu til að leiða þjóðina út úr kreppunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hún er hræðileg

Greinar

Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins eru verðbréfafyrirtæki farin að vara fólk við að fjárfesta eingöngu í ríkisskuldabréfum og benda því á að dreifa áhættunni með kaupum á erlendum bréfum. Á sama tíma minnkar lánstraust íslenzka ríkisins og lánakjör þess versna í útlöndum.

Það er ótrúlegt, að svona skuli geta farið. Ríkið á að vera örugg fjárfesting, því að það hefur skattlagningarvaldið og veðsetur þar á ofan afkomendur okkar fyrir sukki líðandi stundar. Þegar menn segja ríkið áhættusamt, eru þeir að segja, að það geti orðið gjaldþrota.

Núverandi ríkisstjórn hefur haldið hörmulega á fjármálum ríkisins. Hún hefur í senn gert fjármálaráðherra sinn að skattakóngi Íslandssögunnar og hallakóngi hennar. Þetta er staðan fyrir birtingu fjárlagafrumvarps næsta árs, sem markar endanlega uppgjöf ríkisstjórnarinnar.

Hún hefur ákveðið að láta reka á reiðanum á næsta ári og hefur fengið til þess stuðning þingflokka sinna. Tilraunum til að spara í ríkisrekstri hefur að mestu verið hætt. Það mun endurspeglast í fjárlagafrumvarpi með halla, sem fer hátt yfir tíu milljarða króna.

Í fyrra og fram eftir þessu ári reyndi ríkisstjórnin að spara með því að höggva í velferðarkerfið. Í sumar átti hún kost á því að halda áfram að rífa það niður eða byrja að snúa sér að landbúnaði, sem að mestu hefur verið stikkfrí. Hún tók hvorugan kostinn og kaus að láta reka.

Erlendar skuldir þjóðarinnar hafa vaxið úr hættumörkum og upp fyrir þau á skömmum ferli ríkisstjórnarinnar. Skuldirnar eru komnar yfir 65% af landsframleiðslu ársins eftir að hafa í upphafi þessa árs farið yfir 60%, sem eru alþjóðlega viðurkenndu hættumörkin.

Um áramótin námu erlendar skuldir okkar 230 milljörðum króna. Í marz voru þær komnar upp í 234 milljarða. Nú eru þær komnar í 250 milljarða. Eftir óbirtu fjárlagafrumvarpi að dæma munu þær fara í 270-280 milljarða á næsta ári, í 70% af landsframleiðslu.

Forsætisráðherra afsakar sig með kreppunni, sem ríkisstjórnin átti raunar verulegan þátt í að búa til. Samt hefur hann hafnað því að mæta kreppunni sinni með því að höggva á landbúnaðarsukkið, sem eitt sér nemur 18-21 milljarðs árlegu tjóni þjóðarinnar.

Forsætisráðherra getur ekki höggvið á landbúnaðarsukkið, af því að hann ræður ekki við þingflokk sinn. Þar ræður ferðinni svartasta Framsókn, einkum í hópi yngri þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem hafa átt ótrúlega snöggan feril úr frjálshyggju yfir í Framsókn.

Alþýðuflokkurinn getur ekki beitt sér gegn þessu, því að hann hefur við hliðstætt vandamál að stríða á Alþingi, þótt í smærri stíl sé. Í rauninni felst vandamál þjóðarinnar í að hafa valið fimm Framsóknarflokka til að fara með löggjafar- og framkvæmdavaldið í landinu.

Ríkisstjórnin fer langt út fyrir áður þekkta Framsóknarmennsku, ef hún fer með fjárlagahalla ársins 1994 upp í fimmtán milljarða og erlendar skuldir þjóðarinnar upp í 70% af landsframleiðslu. En það mun hún gera samkvæmt óbirtu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1994.

Það er vont að lenda í kreppu, en það eru þó smámunir í samanburði við þá hremmingu þjóðarinnar að lenda í klóm þessarar hræðilegu ríkisstjórnar, sem stritast við að sitja sem fastast, þótt hún hafi misst stýri efnahagsmála og fjármála ríkis og þjóðar út í veður og vind.

Eini ljósi punkturinn í ruglinu er, að hugsanlegt er, að kjósendur átti sig á, að fimmflokkurinn á Alþingi er einskis trausts verður. Og þurrki hann út í kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Með korti og klóm

Greinar

Bankar landsins hafa rottað sig saman um að nýta aðstöðu sína í nýja aðferð til að fá almenning til að borga brúsann af rangri útlánastefnu. Til þess ætla þeir að okra á svokölluðum debetkortum, sem í Danmörku eru ókeypis og án gjaldtöku af kaupmönnum og neytendum

Bankarnir ætla að fæla fólk frá ávísanaheftum með því að þrefalda verð þeirra. Þannig fækka þeir flóttaleiðum fólks undan hinu nýja kerfi, sem felur einkum í sér, að korthafi greiði 10 krónur ofan á hverja færslu. Þetta er augljós tilraun til að hafa fé af neytendum.

Neytendur þurfa núna ekki að greiða eina einustu krónu ofan á færslur í krítarkortakerfinu, auk þess sem þeir fá vaxtalaust lán til nokkurra vikna. Debetkortafærslur eru hins vegar staðgreiðslur og kosta þar á ofan tíu krónur hver. Krítarkortin eru greinilega hagstæðari.

Það er yfirlýst stefna bankanna, að velta debetkorta eigi að draga úr veltu krítarkorta. Þessi stefna felur í sér, að neytendur fái dýra kortaþjónustu í stað þeirrar kortaþjónustu, sem hefur hingað til verið ókeypis. Bankarnir eru með þessu að reyna að hafa fólk að fífli.

Ef bankarnir ýta á eftir þessu með því að gera krítarkortin óhagkvæmari á sama hátt og þeir ætla sér í ávísanaheftum, hefur almenningur helzt þá undankomuleið að færa sig aftur á bak til seðlanna, hins frumstæða gjaldmiðils, sem rafeindamiðlar áttu að leysa af hólmi.

Samráðsmenn bankanna ætla ekki aðeins að hafa fé af neytendum með þessum hætti, heldur ætla þeir að leggja 0,7-1,7% skatt á kortaveltu fyrirtækjanna í landinu. Skattheimtan er rökstudd á þann undarlega hátt, að Áfengisverzlun ríkisins hafi ráð á að borga hana!

Ofan á þetta er svo reynt að telja fólki trú um, að þessi skattheimta muni á einhvern dularfullan hátt lækka vöruverð í landinu. Miklu líklegra er, að hún hækki vöruverð á sama tíma og hún minnkar ráðstöfunartekjur heimilanna. Bankarnir ætla sér að græða einir.

Í alvöruþjóðfélagi væru bankastjórar settir í gæzluvarðhald fyrir samráð af þessu tagi og síðan dæmdir á Hraunið lögum samkvæmt. Hér virðast lög og reglur um samkeppnishömlur, samráð og fáokun ekki ná til banka og bankastjóra, þótt hegðun þeirra fari ekki leynt.

Ef bankar telja debetkort af hinu góða, geta þeir farið dönsku leiðina og haft kortin ókeypis og veltu þeirra skattfrjálsa, bæði fyrir neytendur og kaupmenn. Ef þeir fara ekki þá leið, er það ekki vegna eðlis kortanna, heldur af því að þeir eru að nota tækifærið til að okra.

Bankarnir eru dýrir í rekstri, mun dýrari en bankar í nágrannaríkjunum. Íslenzku bankarnir hafa hingað til fjármagnað mismuninn með óhæfilega miklu bili milli innvaxta og útvaxta. Vaxtabilið sætir vaxandi gagnrýni, svo að bankarnir eru að leita annarra leiða.

Vegna smæðar íslenzka markaðarins eru bankarnir of fáir til að myndazt geti eðlileg samkeppni, sem þrýsti niður rekstrarkostnaði þeirra. Þeir eru raunar svo fáir, að starf þeirra markast fremur af samráðum en samkeppni. Debetkortamálið er skólabókardæmi um þetta.

Til að bæta rekstur bankanna þarf að stöðva pólitískt val á fólki í bankaráð og bankastjórn og að setja í staðinn fólk, sem kann til verka. Jafnframt þarf að beita samkeppnislögum á þann hátt, að bankar komist ekki upp með samsæri á borð við framkvæmd debetkortanna.

Við eigum ekki að leyfa bönkunum að komast upp með að leysa hluta af fortíðarvanda sínum með því að ráðast að neytendum og kaupmönnum með korti og klóm.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinir Hafnarfjarðar

Greinar

Ef verktaki er hæfari eða reyndari en aðrir á einhverju sviði, kemur það fram í, að hann getur boðið lægri upphæð í verkið. Það er einmitt eðli útboða að leiða slíkan mismun í ljós, til hagsbóta fyrir báða aðila. Þetta á að geta gilt í Hafnarfirði eins og annars staðar.

Bæjarstjórinn í Hafnarfirði og aðrir verkkaupar þurfa ekki að taka á sínar herðar ábyrgðina af að úrskurða, að einhver einn aðili sé hæfastur allra til að vinna verkið. Reynslan sýnir, að útboð eru miklu árangursríkari leið til að ná hagkvæmum viðskiptum við verktaka.

Ef verktaki er svo hæfur og reyndur, að hann getur hannað verkið betur en aðrir, kemur það fram, þegar notað er alútboð. Þau eru farin að tíðkast hér á landi að erlendum hætti. Þá er boðin út hönnun og framkvæmd verks í einu lagi, til mikilla hagsbóta fyrir báða.

Það er ekki bara bæjarstjórinn og bæjarstjórnin í Hafnarfirði, sem hafa misstigið sig á sviði verkkaupa. Svipað hefur gerzt í Reykjavík, þar sem verktökum hafa verið afhent framhaldsverk án útboðs, á þeirri lélegu forsendu, að þeir séu raunar þegar byrjaðir á verkinu.

Slík vinnubrögð sýna, að illa hefur verið staðið að upphaflegu útboði. Annaðhvort þarf útboðið að ná til alls verksins eða til svo afmarkaðra hluta þess, að hægt sé að framkalla samkeppni milli tilboða í síðari hlutum þess. Þetta hefur greinilega ekki tekizt í Reykjavík.

Hvorki í Hafnarfirði né í Reykjavík er það frambærileg afsökun, að málin séu nú í þeirri stöðu, að ekki sé hægt að ná þeim árangri með útboði, sem venjulega er ætlazt til. Bæjarstjórnirnar ættu þá um leið að biðjast afsökunar á að hafa farið rangt í málið í upphafi.

Ekki er heldur hægt að drepa málinu á dreif með því að upplýsa, að bæjarstjórnarmaður í Hafnarfirði hafi stutt verkgjöfina allt til þess tíma, er hann stóð andspænis prófkjöri í flokki sínum. Batnandi manni er bezt að lifa, en afsökunarbeiðni hans hefði raunar mátt fylgja.

Prófkjör eru raunar sumpart grein af sama meiði og útboðin. Þau eru aðferð til að ná betri árangri. Ef tilhugsun um prófkjör vekur stjórnmálamann í Hafnarfirði af doðanum og fær hann til að breyta röngum vinnubrögðum sínum í rétt, fela prófkjör í sér bætt stjórnmál.

Verktakamálið í Hafnarfirði er merkilegt fyrir allar þær sakir, sem hér hafa verið raktar, en merkast er það þó fyrir að hafa opnað augu margra fyrir þeim vítahring, sem felst í byggingu virkismúra um bæ, land eða álfu. Slíkir múrar kalla á andsvör. Og allir tapa.

Ef Hafnarfjarðarmálið öðlast fordæmisgildi, endar það með, að hver fyrir sig reisir múr umhverfis sig og sína vini. Þannig munu vinir Hafnarfjarðar fá verkefni í Hafnarfirði og hvergi annars staðar. Þetta er ein auðveldasta leiðin til að brenna peninga og gera þjóðina fátæka.

Vítahringurinn er hættulegur, af því að á hverjum stað og hverri stundu er freistandi fyrir ráðamenn að taka heimamenn fram yfir aðra, í trausti þess, að hinir geri ekki slíkt hið sama; og raunar líka í trausti þess, að útsvarsgreiðendur séu sáttir við hjálparstarfið.

Sú skoðun bæjarstjóra Hafnarfjarðar, að reisa megi virkismúra um Hafnarfjörð og vini hans er auðskoðanleg myndbirting af einu stærsta vandamáli heimsins, sem felst í, að heilu ríkjabandalögin, svo sem Evrópusamfélagið, reisa frumstæða múra í kringum sig og vini sína.

Múrana þarf að brjóta og koma á viðskiptafrelsi milli heimsálfa, milli ríkja og milli sveitarfélaga. Hafnarfjörður tapar eins og aðrir á því að vilja vera einn í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanhæfni á toppnum

Greinar

Sífelldar tafir á niðurstöðu í alþjóðlega fríverzlunarklúbbnum GATT um nýjar reglur milliríkjaviðskipta eru bezta dæmið um, að stjórnmálamenn og embættismenn Vesturlanda eru almennt ekki starfi sínu vaxnir. Þeir vinna gegn hagsmunum almennings hver í sínu landi.

Fulltrúar hvers ríkis fyrir sig reyna að ota fram takmörkuðum sérhagsmunum innan ríkisins gegn almannahagsmunum í sama ríki. Þeir reyna að koma í veg fyrir, að neytendur þess sama ríkis öðlist bætt lífskjör í kjölfar lægra vöruverðs og breyttra atvinnuhátta.

Þjarkið í GATT felur í sér, að ríki bjóða takmarkaðar lækkanir tolla og annarra viðskiptahindrana gegn því, að hin ríkin bjóði fram jafngildar lækkanir á móti. Hugarfarið að baki felur í sér þá firru, að eigin lækkanir séu fórn mín og tjón, en lækkanir hinna séu gróði minn.

Þannig lítur þetta út frá sjónarhóli sykurframleiðenda í Bandaríkjunum, hrísgrjónaræktenda í Japan, bílaframleiðenda í Evrópu og landbúnaðarkerfisins á Íslandi. Allir þessir sérhagsmunir reyna að koma í veg fyrir samkeppni frá innflutningi á heimsmarkaðsverði.

Kostnaðurinn við að vernda störf á þessum sviðum nemur yfirleitt meiri fjárhæðum en launum manna á sömu sviðum, í sumum tilvikum margfalt meiri fjárhæðum. Kostnaðurinn við að vernda störf í landbúnaði á Íslandi er meiri en laun alls fólks í landbúnaði.

Reynslan af verzlunarsögu heimsins segir einmitt þá sögu, að sá græðir mest, sem lækkar tolla og aðrar viðskiptahindranir mest. Fólkið í því landi nýtur fyrir vikið mun betri lífskjara og fjármagn sparast til að leggja í nýjar greinar, sem taka við af hinum úreltu.

Landbúnaður á heima í tempruðu og hlýju loftslagi. Vinnuaflsfrekar greinar á borð við skipasmíði og vefnað eiga heima í láglaunaríkjum. Þekkingariðnaður á heima í ríkjum góðrar menntunar. Og ferðaþjónusta á heima á stöðum, þar sem eitthvað spennandi er að skoða.

Þessi fáu dæmi segja í stuttu máli, að þjóðir verða ríkar á því að láta öðrum þjóðum eftir landbúnað og vinnuaflsfrekar greinar og efla í staðinn eigin þekkingariðnað og atvinnu, sem byggist á aðstæðum og staðháttum, svo sem sjávarútveg og ferðaþjónustu á Íslandi.

Frá sjónarhóli almannahagsmuna eru útflutningur og innflutningur tvær hliðar á sömu krónu, hvorug æðri hinni. Við græðum eins mikið á innflutningi ódýrrar vöru eins og við græðum á útflutningi þeirra afurða og þjónustu, sem við höfum sérhæft okkur í að bjóða öðrum.

Varnarstríðið í varðveizlu sérhagsmuna í fortíðargreinum heldur háu verðlagi og lágum lífskjörum um leið og það brennir peninga, sem betur væri varið í nýjar greinar, sem horfa fram á veg. Þetta er ekki umdeild kenning, heldur almennt viðurkennd í hagfræðinni.

Stjórnmálamenn og embættismenn öflugustu ríkja heims hafa betri aðstöðu en aðrir til að sjá þetta samhengi í heild og skilja það. Þeir eiga framar öðrum að átta sig á, að fríverzlunarstefna hvers ríkis fyrir sig færir því ríki meiri gróða en öðrum ríkjum, en ekki öfugt.

Samt reyna þeir á fundum í fríverzlunarklúbbnum GATT að koma í veg fyrir, að almenningur og framtíðargreinar í eigin landi fái að njóta ávaxta af aukinni fríverzlun í heiminum. Þeir reyna í staðinn að þjóna voldugum sérhagsmunum á borð við íslenzkan landbúnað.

Þannig er það sameiginlegt með íslenzkum og erlendum stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem um þessi mál fjalla, að þeir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Jónas Kristjánsson

DV

Látið fimmflokkinn skjálfa

Greinar

Smám saman er að færast meiri þungi í baráttuna fyrir viðskiptafrelsi og afnámi sérstakra ríkisafskipta af landbúnaði. Þegar þrengir í búi þjóðarinnar, fjölgar þeim smám saman, sem sjá ekki ástæðu til að sætta sig lengur við árlegan 18-21 milljarðs kostnað af núverandi stefnu.

Enn er langt í land. Hagsmunasamtök landbúnaðarins, með ráðuneytið sjálft í broddi fylkingar, hafa komið á fót búvörusamningum, sem gilda til langs tíma og koma í veg fyrir, að nýjar ríkisstjórnir geti vikið að marki frá landbúnaðarstefnu fyrri stjórna. Þannig tefst þróunin.

Nú er þó svo komið, að neytendur og skattgreiðendur geta helzt knúið fram minnkun útgjalda á þessu sviði með því að draga úr kaupum á þeim afurðum, sem þjóðfélagið ábyrgist. Þetta gera þeir í raun og eru þar með farnir að skjóta hagsmunasamtökunum skelk í bringu.

Almenningur veit af biturri eigin reynslu eða reynslu vina og vandamanna, að fólk missir vinnu og fær ekki aðra; að fólk stofnar fyrirtæki og fer á höfuðið, án þess að ríkið komi til skjalanna og ábyrgist vinnuna eða fyrirtækið. Aðeins landbúnaður er undanþeginn lögmálinu.

Fólk er líka farið að átta sig á, að stjórnarráðið er hagsmunavirki landbúnaðar. Við landbúnaðaráðuneytið bætist fjármálaráðuneytið, sem reynir með peningalegum aðgerðum að koma í veg fyrir innflutning á vörum, sem geta talizt fela í sér samkeppni við landbúnað.

Um daginn var komið í veg fyrir innflutning smjörlíkis og nú er verið að leggja stein í götu innfluttrar skinku. Þetta er stutt sjúkdómarökum, sem horft er framhjá, þegar einstaklingar flytja slíka vöru til landsins. Enda vita allir, að sjúkdómarökin eru bara þægindarök.

Heimsmarkaðsverð á búvöru er raunverulegt verð, sem byggist á því, að til eru þjóðir, er geta framleitt á því verði. Þetta gildir um Bandaríkin á sumum sviðum, Ástralíu og Nýja-Sjáland á öðrum, og svo framvegis. Aðrir verða að selja á sama verði og borga með vörunni.

Af því að offramleiðsla er á flestri búvöru og verður um ókomin ár, ríkir kaupendamarkaður á þessu sviði. Það þýðir, að betra er að kaupa búvöru en selja og betra að snúa sér að arðbærum verkefnum á öðrum sviðum, þar sem samkeppnin er ekki eins gróin og hörð.

Ríkið ákveður ekki fyrir hönd neytenda og skattgreiðenda, hvaða vörur þeir noti og fjármagni. Fólk fær sjálft að velja sér gallabuxur, innlendar og erlendar, dýrar og ódýrar, vandaðar og lélegar, með þessu vörumerkinu eða hinu. Þetta valfrelsi ætti einnig að gilda um búvöru.

Okkur hefur miðað áleiðis, þótt hægt fari og umræðan sé orðin áratuga gömul. Hagfræðingar, sem ekki eru bundnir hagsmunatengslum, hafa látið meira en áður í sér heyra. Andófið er ekki lengur bundið við örfáa menn. Fyrr eða síðar hljóta varnir kerfisins að bila.

Fólk er smám saman að átta sig á, að ríkisstuðningur og innflutningsbann stríðir gegn hagsmunum þess. Þeim fjölgar, sem telja eðlilegt, að fólk njóti markaðslögmála á þessu sviði sem öðrum. Næsta skref er, að þessi viðhorf leiði til raunverulegra átaka í stjórnmálum.

Sem þrýstihópur getur almenningur greitt atkvæði í prófkjörum gegn þingmönnum og í kosningum gegn flokkum, sem gagnast ekki í frelsisbaráttunni eða hafa reynzt henni beinlínis andvígir í reynd. Sigur hefst ekki, nema skipt sé út mönnum og flokkum í pólitíkinni.

Þegar fimmflokkurinn fer að skjálfa af ótta við hefnd kúgaðra neytenda og skattgreiðenda, er fyrst hægt að búast við, að þrýstingurinn leiði til uppskurðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ótti við almenningsálit

Greinar

Samkomulagið milli Ísraels og Palestínu um eitt lítið skref í átt til friðar stafar fyrst og fremst af vaxandi áhyggjum málsaðila af áliti almennings og ráðamanna á Vesturlöndum. Það stafar meðal annars af, að farið er að sýna ráðamönnum Ísraels opinbera fyrirlitningu.

Í Evrópu er almenningur þegar farinn að átta sig á, að framferði Ísraelsstjórnar á hernumdu svæðunum og í öðrum löndum brýtur í bága við undirritaða sáttmála, sem eru hornsteinn samfélags þjóðanna. Skammt er í, að almenningur í Bandaríkjunum sjái þetta líka.

Ef Ísrael glatar stuðningi Bandaríkjanna, verður útilokað fyrir hryðjuverkaríkið að halda áfram á óheillabraut barnamorða og annarra stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu eins og þeir eru skilgreindir í alþjóðlegum samþykktum. Þetta eru ráðamenn Ísraels farnir að sjá.

Þegar evrópskir utanríkisráðherrar eru farnir að gera sér upp erindi og annir til að þurfa ekki að sitja til borðs með Símoni Peres; þegar evrópskir fjölmiðlar nota heimsóknir hans til að rifja upp glæpi Ísraels, þá gerist slíkt hið sama fyrr eða síðar einnig í Bandaríkjunum.

Þegar værukærir ritstjórar á Norðurlöndum eru farnir að andmæla bandarískum hugmyndum um ársfund samtaka þeirra í Jerúsalem, er það bara eitt af ótal litlum lóðum á sömu vogarskálina, sem segir Bandaríkjamönnum, að Ísrael sé komið langt yfir strik velsæmis.

Frelsissamtök Palestínumanna hafa fyrir löngu áttað sig á, að stofnun Palestínu hefst ekki með hryðjuverkum. Þau hafa um árabil reynt að fara friðsamar leiðir að markinu. Fyrir bragðið hefur almenningsálitið á Vesturlöndum smám saman verið að snúast á sveif með þeim.

Samningurinn við Palestínumenn stafar ekki af, að Símon Peres sé eins mikið góðmenni og talið er af ruglukollum í fréttamannastétt Íslands, heldur af því að hann er greindari en gengur og gerist. Hann sér á undan öðrum, að óveðursskýin hrannast upp við sjóndeildarhring.

Peres hefur tvenns konar markmið með samningnum við Palestínu. Hann er að létta erlendum þrýstingi af ríkisstjórn Ísraels, svo að hún hafi betra svigrúm við framvindu málsins. Og hann er að deila og drottna með því að kjúfa Palestínumenn í tvær fylkingar.

Annars vegar eru Frelsissamtök Palestínumanna, sem eru tiltölulega friðsamleg og munu taka við heimastjórn í Gaza og Jeríkó. Hins vegar eru róttækir hópar og ofsatrúarhópar Palestínumanna, sem hafa sópað til sín fylgi vegna undanfarinnar hryðjuverkastefnu Ísraelsstjórnar.

Palestínumenn hafa áratugum saman verið einna bezt menntaðir og mest vestrænir allra íslama. Það hlýtur að vera alvarlegt áhyggjuefni, að ofbeldi Ísraels hefur magnað upp í Palestínu svipaða ofsatrú og vesturhatur og einkennir Íran og nokkur önnur ríki íslams.

Klofningur er ekki aðeins í röðum Palestínumanna. Þjóðfélag Ísraela hefur raunar krumpazt enn meira, svo sem mælzt hefur í skoðanakönnunum. Stjórnarandstaðan og umtalsverður hluti almennings telur Palestínumenn vera eins konar hunda, utan mannréttinda.

Við skulum fagna í hófi nýja samningnum. Við skulum bíða eftir brottflutningi ísraleskra landnema frá hernumdum svæðum í Palestínu. Við skulum bíða eftir stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna á hernumdu svæðunum. Þá fyrst er ástæða til mikilla fagnaðarláta.

Og fyrir alla muni skulum við halda áfram að sýna ráðamönnum Ísraels, að við fyrirlítum stríðsglæpi þeirra og glæpi þeirra gegn mannkyni, unz þeir hætta glæpum.

Jónas Kristjánsson

DV

Arðsamir sendiherrar

Greinar

Heimsleikar íslenzka hestsins eru haldnir með vaxandi glæsibrag í hverju Evrópulandinu á fætur öðru, nú síðast í Hollandi. Skipulagðar hestaferðir með útlendinga um landið eru komnar upp í fjórar vikur að lengd. Vel yfir 2000 reiðhestar eru seldir árlega til útlanda.

Íslenzku knaparnir á verðlaunapöllum heimsleikanna eru aðeins broddurinn af fjölmennri stétt atvinnumanna í hestamennsku. Ræktun, uppeldi, tamningar, járningar, lækningar og verzlun með hesta og hey eru komin í hóp litlu vaxtarbroddanna í grasrót atvinnulífsins.

Þetta hefur meira eða minna gerzt án forsjár eða frumkvæðis ríkisins, svo sem vera ber. Ekkert átaksverkefni hefur leikið naut í flagi. Engar atvinnubótanefndir eða byggðastofnanir hafa lagt hönd á plóginn. Ríkið skattleggur meira að segja útflutning á hryssum og stóðhestum.

Ekki má heldur gleyma, að mistökin í hrossaræktinni eru söluhæf vara. Hrossakjöt er selt svo dýru verði til Japans, að ríkið þarf ekki að leggja krónu með því. Það hefur hins vegar unnið gegn kjötsölunni með því að hrekja erlend flutningaflugfélög frá Keflavíkurvelli.

Mest er það fyrir frumkvæði Gunnars Bjarnasonar ráðunautar, að þúsundir útlendinga flykkjast milli landa, þegar íslenzkir hestaleikar eru háðir. Hann sáði korninu, sem leiddi til, að enginn atburður á Íslandi kallar á eins marga útlendinga og einmitt landsmót hestamanna.

Hrossastofninn á landinu er meira en nógu stór til að standa undir allri þessari veltu. Hann má minnka um fjórðung eða þriðjung, ef það bezta er skilið eftir. Hann þarf ekki að fela í sér mikið álag á landið, því að nú orðið eru öll hross geymd í heimahögum, ekki á afréttum.

Ofbeit hrossa er nærri eingöngu bundin við afgirt hólf á láglendi. Hún gerist ekki á viðkvæmum uppblástrarsvæðum. Með aukinni samvinnu hestamanna og landverndarstofnana má ná tökum á þessu afmarkaða vandamáli og koma í veg fyrir ör á landinu af þess völdum.

Með aukinni atvinnumennsku í hestaferðum með útlendinga hefur batnað umgengni á reiðleiðum og í áningarstöðum. Víða er nú orðin töluverð umferð af slíku tagi og án þess að land láti á sjá. Með samvinnu atvinnumanna og landverndarstofnana má tryggja þessa þróun.

Aðgerðir Vegagerðarinnar og bænda víða um land hafa dregið úr möguleikum þessarar gjaldeyrisöflunar. Lagðir hafa verið malbiksvegir, sem hestar þola ekki, en gömlu vegirnir grafnir sundur eða girtir kruss og þvers, svo að þeir nýtast ekki sem reiðvegir í staðinn.

Ofan á þetta hefur verið girt fyrir gamlar reiðleiðir, sem njóta þó enn réttinda í lögum. Sums staðar hefur náðst samkomulag um, að ríðandi menn megi fara þær, en ekki reka þar lausa hesta. Þetta takmarkar svigrúm fyrirtækjanna, sem selja útlendingum hestaferðir.

Markvisst þarf að fara að nýta gamla akvegi sem reiðleiðir og opna fornar reiðleiðir, sem ranglega hefur verið lokað í krafti misskilins eignaréttar. Með þessu tvennu má fjölga tækifærum til skipulagðra hestaferða og auka enn þá atvinnu, sem Íslendingar hafa af slíkum ferðum.

Mikil hringrás er í gjaldeyrisöflun hestamennskunnar. Útlendingur kemur hingað í hestaferð. Hann fær ást á hesti og kaupir hann. Hann fer á heimsleika og til Íslands á landsmót hestamanna. Fjölskyldan kaupir fleiri hesta, ættingjar og vinir. Þetta hleður utan á sig.

Það bezta er, að þetta eru ekki hlutlaus viðskipti, heldur tengjast viðskiptavinirnir Íslandi órjúfanlegum tryggðaböndum. Hesturinn er bezti sendiherra landsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Óþverrinn smitar

Greinar

Eðlilegt er, að fólk setjist til borðs með andstæðingum sínum. Aðilar að kjaradeilum þurfa oft slíkan ramma til að leita sátta. Sama gildir um stjórnmálamenn og starfsmenn í utanríkisþjónustu, sem leita lausnar í erfiðum málum, er snerta hagsmuni hópa eða heilla þjóða.

Menn setjast hins vegar ekki til borðs með morðingjum, þótt þeir séu bara skrifborðsmorðingjar á borð við Eichmann. Menn setjast ekki til borðs með stríðsglæpamönnum og þeim, sem drýgja glæpi gegn mannkyni, eins og slíkir glæpir eru skilgreindir í sáttmálum þjóða.

Þess vegna sezt fólk ekki til borðs með Símoni Peres, sem á þátt í morðum á nokkur hundruð börnum og margbrýtur alþjóðlega sáttmála, sem varða stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Menn dást ekki heldur að því, að hann sé skárri en önnur fól í stjórn Ísraels.

Það stríðir gegn heilbrigðum mannasiðum að setjast til borðs með fólki af tagi Peresar. Með því eru menn óbeint að samþykkja framferði þeirra og óhreinka sig af þeim. Aðeins tilkvaddir samningamenn mega fórna sér í skítverk af tagi kvöldverðar með Símoni Peres.

Miklu frekar er hægt að setjast til borðs með Yasser Arafat, þekktasta leiðtoga Palestínumanna, þótt hann sé á gráa svæðinu sem fyrrverandi hryðjuverkamaður. Á síðustu árum hefur hann sýnt bót og betrun, en stjórnvöld Ísraels hafa hins vegar krumpazt meira og meira.

Eftir fráfall Sovétríkjanna er miklu einfaldara en áður að fara eftir skráðum reglum í alþjóðlegum sáttmálum, þegar menn ákveða borðfélaga sína. Horfin er að mestu hin tvíhliða spenna, sem áður einkenndi heimsstjórnmálin og gerði fólum kleift að skýla sér í fylkingum.

Við val á borðfélögum er ekki nauðsynlegt að stunda sagnfræði áratugi aftur í tímann. Það er nóg að forðast glæpamennina, sem eru að drýgja glæpi um þessar mundir eða hafa drýgt þá á undanförnum mánuðum. Smám saman má taka í sátt þá, sem hættir eru glæpum.

Augljóst er, að ekki má setjast til borðs með ráðamönnum Serbíu og Ísraels. Ekki má heldur setjast til borðs með ráðamönnum Íraks og Indónesíu. Og ekki má setjast til borðs með ráðamönnum Malaví og Kenýa. Einkum má þó ekki setjast til borðs með ráðamönnum Kína.

Rétt er að vekja athygli á þessu síðasta, því að alþjóðlega ólympíunefndin er að falla í þá gryfju að samþykkja ólympíuleika í Kína árið 2000. Með því væri nefndin að veita fjöldamorðingjum og stórglæpamönnum Kínastjórnar svipuð verðlaun og Hitler fékk árið 1936.

Þeir, sem falla í slíkar gryfjur, hætta að verða húsum hæfir. Ef menn vilja í raun fá ráðamenn þjóða til að fara eftir alþjóðlegum sáttmálum, mega þeir ekki reka erindi glæpamanna með óbeinum hætti. Okkur ber að refsa slíkum kvislingum með því að hafna þeim pólitískt.

Það gildir um John Major, forsætisráðherra Bretlands, sem hefur gengið fram fyrir vestræna skjöldu til að koma í veg fyrir aðstoð við Bosníu og drepa á dreif aðgerðum gegn Serbíu. Ennfremur um Francois Mitterrand Frakklandsforseta, sem hefur stutt Major í þessu.

Nóg er af valdamönnum ríkja og stofnana í heiminum, sem hvorki hafa forustu í níðingsverkum um þessar mundir né styðja þau beint eða óbeint. Af nógum er að taka, ef menn vilja bjóða þeim til sín og setjast með þeim til borðs. Ástæðulaust er að óhreinka sig á hinum.

Kvöldverður með barnamorðingja frá Ísrael óhreinkar alla þá, sem þar sátu, meðal annarra nokkra íslenzka ráðherra og embættismenn og aftaníossa kerfisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Hann var verri en ég

Greinar

Deilur núverandi og fyrrverandi ráðherra um spillingu eru í sama fari og þær hafa alltaf verið. Stef deilnanna felst í orðunum: Hann var verri en ég. Þannig er moldryki þyrlað upp af umræðunni um spillingu, svo að almenningur eigi erfiðari leið að kjarna málsins.

Ekkert fordæmi er fyrir því, að pólitískir aðstoðarmenn ráðherra séu gerðir að ráðuneytisstjórum. Með því að gera slíkt í þrígang í þessari stjórnartíð hafa ráðherrar Alþýðuflokksins bætt nýrri vídd við þá spillingu, sem stjórnmálaflokkarnir stunduðu áður í kerfinu.

Verði framhald á þessari iðju, er ljóst, að ráðuneytin verða eyðilögð á sama hátt og utanríkisþjónustan. Eyðileggingin felst í, að hæfir menn fást síður til starfa, af því að þeir hafa ekki sömu von og áður um að vinna sig upp innan kerfisins í æðstu stöður ráðuneytanna.

Eðlilegt er, að svigrúm sé til að fá hæfa menn til að fara milli sviða í þjóðfélaginu. Það er raunar röksemdin, sem spilltir ráðherrar bera fram til varnar gerðum sínum. En þeir hafa þá jafnan í huga pólitíska kommissara eða kvígildi af ýmsu tagi, en ekki utanaðkomandi fólk.

Alþýðuflokkurinn hefur verið mikilvirkur á þessu sviði að undanförnu. Hann hefur deilt út stöðum ráðuneytisstjóra, seðlabankastjóra, sendiherra og ætlar senn að afhenda embætti tryggingaforstjóra ríkisins. Alþýðuflokkurinn er forustuflokkur í þessari grein spillingar.

Ráðherrar Alþýðuflokksins hafa varið sig með því að rekja í smáatriðum spillingu fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins, sem reyndu á tímabili að taka forustu í pólitískri spillingu. Stefið í vörninni er gamalkunnugt: Hann var verri en ég. Þannig er málinu drepið á dreif.

Ráðherrar Alþýðubandalagsins höfðu hugmyndaflug á sviði spillingar. Einn þeirra komst upp í þrjá pólitíska aðstoðarmenn á ríkisjötunni í stað eins. Þeir voru líka duglegir við að gefa peninga ríksins til þóknanlegra fyrirtækja og stela þeim til pólitískra flokksþarfa sinna.

Alþýðubandalagið sérhæfði sig í að nota peninga skattborgaranna til að borga margvíslegan flokksáróður, svo sem hjartnæma bæklinga með litmyndum af ráðherrum Alþýðubandalagsins. Fyrir næstu kosningar munum við sjá, hvort Alþýðuflokkurinn fetar þessa leið.

Fjórflokkurinn er allur spilltur, hvort sem hann heitir Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag eða Alþýðuflokkur. Allir rugla þeir reytum ríkis, flokks og einstaklinga. Allir misnota þeir aðstöðuna, reisa velferðarkerfi gæludýra og skömmtunarstofur hlunninda.

Allt tal stjórnmálamanna um stefnur og pólitík og ágreining er sjónhverfing til að breiða yfir þá staðreynd, að fjórflokkurinn er fyrst og fremst aðferð til að komast yfir peninga skattgreiðenda til að kaupa sér fylgi og aðstöðu og kvígildum sínum og gæludýrum stóla og stöður.

Svona mun þetta verða áfram, því að kjósendur hafa ekki sett stjórnmálamönnum stólinn fyrir dyrnar. Þess vegna mun fjórflokkurinn rækta spillinguna, sem hann hefur komið á fót, og þess vegna munu hugmyndaríkir ráðherrar þreifa fyrir sér á nýjum sviðum spillingar.

Einhvern tíma munu þeir þó fara yfir markið, rétt eins og ítalskir starfsbræður þeirra gerðu fyrir skömmu. Eitt lítið spillingarkorn mun fylla mælinn og vekja kjósendur til þeirra skyldustarfa að reka óværuna af höndum sér. En sá tími er því miður ekki enn í augsýn.

Þess vegna er fjórflokkurinn enn að færa sig upp á skaftið. Alþýðuflokkurinn er hafður í forustuhlutverki, enda er hann flokka reyndastur á sviði spillingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hæstiréttur á bílastæði

Greinar

Þröngt má vera um hæstaréttarhús á bílastæðinu milli Landsbókasafns, Þjóðleikhúss og Arnarhvols, ef leyst eru vandamál, sem húsið hefur í för með sér. Bílageymsluhúsið andspænis Þjóðleikhúsinu getur komið í stað bílastæðisins og mætt nýrri þörf vegna nýja hússins.

Gott er að hafa þröngt milli húsa í miðborg Reykjavíkur, svo að gönguleiðir fólks séu sem stytztar á röltinu milli verzlana, þjónustu og opinberra stofnana. Helzt ætti að vera innangengt milli húsa og frá bílageymslum til húsa til að hlífa fólki sem mest við vetrarveðrum.

Raunar er merkilegt, að skipulagsstjórar skuli ekki hafa komið auga á, að veðurfar er annað meirihluta ársins í Reykjavík en í þeim útlendu borgum, þar sem þeir námu fræði sín. Íslenzkt veðurfar kallar á, að gangstéttir miðborga séu í góðu skjóli og sem mest undir þaki.

Þótt rysjótt veðurfar borgarinnar bjóði aðstæður til að þróa sérstaka, reykvíska skipulagslist, hefur lítið verið reynt að víkja frá suðrænni tízku. Flest opinber mannvirki eru látin standa ein og sér, svo að hægt sé að ganga í kringum þau eins og hvern annan minnisvarða.

Skipulagskröfur til nýja hússins fyrir Hæstarétt víkja ekki frá minnisvarðareglunni. Ef farið er varlega, verður hægt að ganga hringinn í kringum nýja húsið án þess að reka sig á önnur hús. En óneitanlega versnar aðstaðan til að dást að öllum þessum húsum úr öllum áttum.

Staða nýja hússins fyrir Hæstarétt víkur frá hefðum, sem hafa verið í gildi frá því að Stjórnarráð og Alþingishús voru byggð og þangað til kastali Seðlabankans var reistur. En ekki er farið alla leið til einhliða hússins, sem aðeins hefur framhlið út að yfirbyggðri gangstétt.

Þegar þannig er með daufum kjarki vikið frá úreltri hefð án þess að stökkva alla leið inn í nýja hefð, er hætt við, að úr verði eins konar millivegur, stígur óttans, sem yfirleitt reynist vera vandræðaleg leið, eins konar bastarður þess, sem var, og hins, sem verður.

Svo er önnur saga, hvort virðulegt sé að koma Hæstarétti fyrir á bílastæði. Þetta er ein af þremur stofnunum landsins, sem næst ganga Forsetaskrifstofu að virðingu. Hinar tvær eru Alþingi og forsætisráðuneyti, sem eru til húsa í virðulegum og gömlum húsum, er bera af öðrum.

Hægt væri að flytja Hæstarétt í Landsbókasafnið, sem fer að losna til ábúðar, af því að búið er efna til Þjóðarbókhlöðu og reisa hús fyrir hana á háskólasvæðinu. Þar með fengi æðsti dómstóll landsins virðulegt heimili og fallegt andlit út að einni af aðalgötum borgarinnar.

Þetta gerist ekki, af því að yfirkontóristar í stjórnkerfinu vilja sjálfir komast í Landsbókasafnið. Þeir hafa aðstöðu til að koma í veg fyrir flutning Hæstaréttar þangað. Staðsetning Hæstaréttar á bílastæði er bein afleiðing óheftrar frekju embættismanna framkvæmdavaldsins.

Niðurlæging Hæstaréttar í samkeppninni við eina grein framkvæmdavaldsins um hús Landsbókasafns er raunar í stíl við almenna niðurlægingu Hæstaréttar sem afgreiðslustofnunar hins opinbera við sýknun framkvæmdavaldsins af brotum þess á borgurum landsins.

Með því að troða dómstólnum á rönd milli hversdagslegra ráðuneyta er efld ímynd Hæstaréttar sem einnar af deildum framkvæmdavaldsins, ótal virðingarþrepum neðan við Seðlabankann, sem trónir frjálslega í kastala sínum framan við þéttskipaðar lóðir Ingólfsstrætis.

Þannig má lesa í lóðarúthlutun til Hæstaréttar eins og lesið var í gamla daga í myndir af ráðamönnum Sovétríkjanna á þaki grafhýsis Leníns á Rauða torginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Bezt að hafa allt í bænum

Greinar

Þegar rætt var um að leggja niður Reykjavíkurflugvöll og flytja innanlandsflugið til Keflavíkur, sáu margir landsbyggðarmenn, að slíkt mundi valda þeim kostnaði og óþægindum. Þeir vildu áfram geta rekið öll sín erindi í kallfæri frá vellinum í borgarmiðju Vatnsmýrar.

Helzt vildu þeir, að allar opinberar stofnanir og peningastofnanir, sem þeir skipta við, væru í Kvosinni eða í hlíðum hennar. Þeim finnst ódýrast og þægilegast að geta skotizt milli húsa í sjálfum miðbænum og þurfa ekki að fara langt austur fyrir læk eða upp á heiðar.

Nú þegar finnst landsbyggðarmönnum langt að heimsækja Vegagerð ríkisins inn fyrir Rauðará og Rannsóknastofnun landbúnaðarins upp á Keldnaholt. Þeir mundu láta í sér heyra, ef þeir þyrftu að fara alla leið í Borgarnes og á Hvanneyri til að heimsækja þessar stofnanir.

Reykvíkingar og nærsveitungar þeirra eru ekki mikið inni á teppi opinberra stofnana á borð við Vegagerð ríkisins, Skipulag ríkisins, Byggðastofnun, Fasteignamat og Rafmagnsveitur ríkisins. Reykvíkinga vegna mættu þessar stofnanir vera á Sprengisandi eða í Grímsey.

Gestir þessara stofnana eru fyrst og fremst landsbyggðarfólk. Fremstir eru þar í flokki sveitarstjórnarmenn, sem fara hópferðir til Reykjavíkur og reka í einni ferð mörg erindi á ýmsum stöðum í bænum. Þessi skipan er tiltölulega ódýr og þægileg, hefur gefizt vel.

Gamanið færi að kárna, ef þeir þyrftu að fara til Borgarness að heimsækja Vegagerðina, til Ísafjarðar að heimsækja Fasteignamatið, til Sauðárkróks að heimsækja Skipulagið, til Akureyrar að heimsækja Byggðastofnun og til Egilsstaða að heimsækja Rafmagnsveiturnar.Borgfirðingar geta ekki einbeitt sér að heimsóknum til Vegagerðarinnar, Hnífsdælingar til Fasteignamatsins, Skagfirðingar til Skipulagsins, Eyfirðingar til Byggðastofnunar og Héraðsbúar til Rafmagnsveitnanna. Þeir þurfa líka að fara til allra hinna stofnananna.

Ef tillögur opinberrar nefndar um flutning ríkisstofnana ná fram að ganga, mun ferðakostnaður og tímaeyðsla landsbyggðarfólks aukast, einkum sveitarstjórnarfólks, og í sumum tilvikum margfaldast. Við sjáum fordæmið í Noregi af ofurkostnaði af þessum völdum.

Þótt þægilegt væri fyrir Akureyringa að hafa Byggðastofnun heima á hlaði og að fá útsvör starfsmanna hennar, mundu á móti vega óþægindin af því að þurfa að skipta við Vegagerðina í Borgarnesi, Fasteignamatið á Ísafirði og Rafmagnsveiturnar á Egilsstöðum.

Góðviljaðar tillögur nefndarinnar eru dæmi um skort á yfirsýn og framsýni. Nefndarmenn sjá nákvæmlega það, sem þeir eru að fjalla um hverju sinni, og ekkert um fram það. Þeir gera sér enga grein fyrir óbeinum afleiðingum, sem skaða hagsmuni landsbyggðarinnar.

Enda hló samgönguráðherra og hafði málið í flimtingum, þegar hann heyrði tillöguna um flutning Vegagerðarinnar til Borgarness. Er hann þó með harðari byggðastefnumönnum í stjórnmálunum. Viðbrögð hans benda til, að hinar skammsýnu tillögur fái að rykfalla.

Flutningsnefndin áttaði sig ekki á, að Reykjavík er hentug þjónustumiðstöð fyrir alla landsmenn. Þangað vilja menn fara og ekki annað til að reka margvísleg erindi. Helzt kvarta menn um að þurfa að fara í úthverfi bæjarins til að komast í sumar stofnanir.

Mikilvægasta byggðastefnumálið er, að landsbyggðin geti á einum stað gengið að allri þjónustu hins opinbera. Starfsfólk Byggðastofnunar getur staðfest, að svo sé.

Jónas Kristjánsson

DV

Fimmflokkurinn

Greinar

Ef Alþýðuflokknum hlotnaðist embætti landbúnaðarráðherra í nýrri ríkisstjórn eftir næstu kosningar, yrði Sighvatur Björgvinsson ekki ráðherraefnið. Hans yrði talin þörf í einhverju alvöruráðuneytanna, því að þingflokkurinn er fámennur og mannval ekki sérlega mikið.

Landbúnaðarráðherra flokksins yrði Gunnlaugur Stefánsson, sem er meiri framsóknarmaður en meðalþingmaður Framsóknarflokksins. Hann er líka vanur að fá sitt fram með hótunum í þingflokknum og er efstur á lista yfir þá, sem friða þarf með ráðherraembætti.

Helzta vonin um stuðning Alþýðuflokksins við breytta landbúnaðarstefnu er, að Gunnlaugur falli út af þingi. Samkvæmt því er leiðin til úrbóta ekki að efla Alþýðuflokkinn í kosningum, heldur að halda honum niðri í því sex þingmanna fylgi, sem skoðanakannanir sýna núna.

Yfirlýst og prentuð stefna stjórnmálaflokka skiptir litlu, þegar á reynir. Mestu máli skiptir, hver er ráðherra, því að hann er kóngur í ríki sínu samkvæmt stjórnarskránni. Sérstaklega er þetta mikilvægt í landbúnaðarráðuneytinu vegna sérstöðu þess í stjórnsýslunni.

Landbúnaðarráðuneytið gerir búvörusamninga mörg ár fram í tímann og bindur hendur ókominna ríkisstjórna. Í þessum samningum gætir það ekki hagsmuna ríkisins, heldur hagar sér sem jafnan endranær eins og yfirfrakki hinna mörgu hagsmunaaðila í landbúnaði.

Tilgangslaust er fyrir neytendur og skattgreiðendur að vænta breytinga með nýjum og yngri þingmönnum flokkanna. Gunnlaugur er með yngstu þingmönnum Alþýðuflokksins. Sama er að segja um Sjálfstæðisflokkinn, þótt þar sé stundum kvartað út af landbúnaði.

Í stað Ingólfs frá Hellu, Pálma frá Akri og Halldórs Blöndals koma aðrir, sem ekki eru minni ærgildissinnar. Þar á meðal eru Einar Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson, sem eru ekki minni framsóknarmenn en meðalþingmaður Framsóknarflokksins og Gunnlaugur Stefánsson.

Um Alþýðubandalag og Kvennalista er óhætt að segja, að þeir flokkar hafa yfirboðið Framsóknarflokk í ærgildisstefnu og munu gera það, ef öðrum hvorum hlotnaðist embætti landbúnaðarráðherra. Andi Steingríms Sigfússonar svífur yfir þeim vötnum vinstra vængsins.

Marklausar eru yfirlýsingar um landbúnaðarmál frá ungliðahreyfingum og öðrum stofnunum innan stjórnmálaflokkanna. Allir fimm þingflokkarnir eiga það sameiginlegt að setja ærgildið ofar manngildinu. Fé til fæðingardeildar verður að víkja fyrir búvörustyrkjum.

Fimmflokkurinn á þingi heldur þjóðinni í heljargreipum, sem kosta hana um átján til tuttugu milljarða króna á hverju ári. Lífskjörin eru lækkuð ár eftir ár, svo að unnt sé að halda úti innflutningsbanni búvöru, niðurgreiðslum, uppbótum og beinum landbúnaðarstyrkjum.

Kreppan sýnir bannhelgi fimmflokksins á landbúnaði. Ærgildisstefnan er rekin með fullum dampi, þótt þrengst hafi í þjóðarbúi. Kjósendur geta ekki gert sér neinar vonir um, að fimmflokkurinn hrófli við þessu ástandi, hvort sem hann heitir Alþýðuflokkur eða öðru nafni.

Þegar ungliðar flokkanna vaxa upp og komast á þing, verða þeir eins og Gunnlaugur Stefánsson, Einar Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson eða eins og hinir, sem samþykkja bannhelgina með þögn sinni. Meðan fimmflokkurinn ræður ferðinni, blífur stefna Framsóknar.

Það verður fyrst eftir daga fimmflokksins, að manngildi verður sett ofar ærgildi. Það verður, þegar kjósendur hafa mannað sig upp í að reka fimmflokkinn úr starfi.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammtími í Smugunni

Greinar

Tjaldað er til einnar nætur í veiðum íslenzkra togara í Smugunni utan 200 mílna lögsögu Norðmanna og Rússa í Barentshafi. Þetta eru sjóræningjaveiðar, þótt útgerðir kunni að komast upp með svo sem einn túr, áður en smugunni verður lokað með einhliða eða tvíhliða aðgerð.

Úrelt er orðið í samskiptum ríkja, að unnt sé fyrir aðvífandi sjóræningja að veiða utan 200 mílna línunnar þann fisk, sem tengdur er staðnum og er ýmist innan eða utan línunnar. Með einhliða aðgerðum og tvíhliða samningum er verið að fækka slíkum möguleikum.

Ísland er um þessar mundir að vinna að auknum möguleikum strandríkja til að ráða fiskveiðum utan 200 mílna fiskveiðilögsögu. Það er brýnt fyrir langtímahagsmuni okkar að loka sem flestum íslenzkum hafsvæðum utan 200 mílnanna fyrir erlendum veiðiskipum.

Sjóræningjaveiðar okkar manna í Barentshafi skaða langtímahagsmuni okkar sem þjóðar. Þær draga úr líkum á, að réttindi strandríkja á borð við Ísland nái fram að ganga á alþjóðlegum vettvangi, og geta hæglega seinkað því, að við náum tökum á hafsvæðum utan 200 mílna.

Talsmenn veiðanna í Barentshafi játa, að engar líkur séu á, að Íslendingar nái handfestu á þeim miðum. Þeir segja, að fjárhagur útgerðarfélaga sé svo slæmur og ástand þorskstofna við Ísland svo dapurt, að veiðar í Smugunni veiti stundargrið á báðum þessum sviðum.

Ýmis rök mæla með veiðum Íslendinga í Barentshafi. Norðmenn hafa sjálfir látið undir höfuð leggjast að loka Smugunni með samningum og yfirlýsingum. Sjóræningjar hafa verið á veiðum þar, án þess að norsk yfirvöld hafi treyst sér til að beita varðskipum gegn þeim.

Það væri mismunun, ef Norðmenn stugga íslenzkum skipum frá Smugunni, er þeir hafa leyft veiðar sjóræningjaskipa undir þægindafánum ríkja á borð við Belize. Helzt væri, að þeir gætu af einhverjum öðrum ástæðum talið sig eiga hönk upp í bakið á Íslendingum.

Ef um slíkt er að ræða, kemur það vafalítið fram á fundum, sem haldnir verða um málið. Þeir fundir hljóta að leiða til niðurstöðu, því að þjóðir á borð við Íslendinga og Norðmenn leysa alltaf sín mál með þjarki og samningum, þótt ófriðlega kunni að horfa um tíma.

Bent hefur verið á, að fordæmi séu fyrir því, að Norðmenn kaupi sjóræningja af höndum sér. Þeir keyptu Grænlendinga af sér með því að láta þá hafa kvóta. Íslendingar hafa líka liðkað fyrir samningum með því að kaupa sjóræningja af höndum sér, til dæmis norska.

Með bjartsýni má halda fram, að einn túr hjá tuttugu togurum skapi slíka réttarstöðu íslenzkra togara, að Norðmenn muni telja henta sér að gefa eftir gagnvart Íslendingum á einhverju skyldu eða óskyldu sviði. Hagsmunaaðilar segja, að óhætt sé að láta á það reyna.

Íslenzk stjórnvöld leika tveim skjöldum. Annars vegar segist sjávarútvegsráðherra skilja sjónarmið Norðmanna og varar útgerðarfélög við að senda togara í Smuguna. Hins vegar setur hann ekki reglugerð til að stöðva veiðar eða löndun, heldur efnir til málfunda í ríkisstjórn.

Í meðferð málsins togast á skammtímahagsmunir vegna fjárvana útgerðar, aflabrests á þorski og möguleikanna á að selja Norðmönnum sjóránið fyrir aðra hagsmuni; og svo langtímahagsmunir Íslendinga af því að strandríki verði herra yfir nálægum hafsvæðum.

Gamla þumalputtareglan segir, að reynsla veraldarsögunnar sýni, að varðveizla langtímahagsmuna borgi sig almennt betur en varðveizla skammtímahagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV