Greinar

Tveir sólargeislar

Greinar

Niðurstaða úrskurðarnefndar í kleinumálinu er sólargeisli í skammdegi smákóngakerfisins á Íslandi. Ein af vandræðastofnunum þjóðfélagsins, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hefur fengið verðuga ofanígjöf fyrir ósæmilegt sölubann á kleinur, sem soðnar voru í heimahúsi.

Annar sólargeisli þessa máls eru gamansöm bréfaskipti landlæknis og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, þar sem þeir gera stólpagrín að afskiptasemi og smámunasemi heilbrigðiseftirlitsins. Bréfin benda til, að úrelt sjónarmið þess njóti ekki hljómgrunns í opinbera geiranum.

Mikilvægt er, að menn verði áfram vel á verði, því að heilbrigðiseftirlitið hefur hótað að fá sett ný lög, sem taki af allan vafa um, að það megi áfram ráðskast með svipuðum hætti og það hefur gert áratugum saman, þjóðfélaginu til margvíslegrar bölvunar og kostnaðar.

Þjóðfélagið er sneisafullt af litlum stofnunum, þar sem sitja smákóngar við að semja lagafrumvörp og tillögur til reglugerða, er þeir reyna að fá ráðherra til að styðja. Þegar pólitíkusarnir eru ekki á verði, nær margt af þessu valdboði fram að ganga. Stóri bróðir stækkar og stækkar.

Eftirlitsstofnanir í heilbrigðisgeiranum eru dæmigerðar fyrir þetta vandamál. Þær hafa til dæmis komið upp reglum um gífurlegar kröfur til ástands eldhúsa í þeim stofnunum, sem fá leyfi til að opna vínflöskur og hella innihaldinu í glös, rétt eins og slíkt sé mikið vandaverk.

Eftirminnilegt er hrokabréf, sem stofnun af þessu tagi sendi einu allra bezta matargerðarhúsi landsins, er var alveg óvenjulega skemmtilega búið antikmunum. Í bréfinu voru samstæð húsgögn sett sem skilyrði fyrir því, að þetta stjörnuveitingahús fengi vínveitingaleyfi.

Sumt af ruglinu úr smákóngastofnunum í heilbrigðiseftirliti stafar af reglugerðum, sem þær hafa látið þýða úr norsku. Þar á meðal er bann við sölu á ferskum kjúklingum. Eingöngu er leyft að selja frysta kjúklinga, sem frá sjónarhóli matargerðarlistar eru tæpast ætir.

Stofnanir af þessu tagi eru einnig notaðar til að vernda gróna hagsmuni í þjóðfélaginu. Af þeirri ástæðu fáum við ekki að njóta heimsins beztu osta eins og aðrar þjóðir og verðum í þess stað að sætta okkur við breytilega illa gerðar eftirlíkingar úr einokunarstofnunum.

Almennt svífur yfir vötnum smákóngastofnana í heilbrigðiseftirliti sú árátta, að heppilegt sé að gerilsneyða þjóðfélagið til að firra það sjúkdómahættu. Kaupstaðarbúar þurfa því að vera innundir hjá vinum í bændastétt til að fá ógerilsneydda og drykkjarhæfa mjólk.

Merkilegt er, að Íslendingar skuli sætta sig við, að fá í verzlunum eingöngu aðgang að mjólk, sem hefur verið forhituð, fúkkalyfjuð, gerilsneydd, fitusprengd og misþyrmt svo á annan hátt, að hún er orðin svo ónáttúruleg, að hún hefur alveg misst getuna til að súrna.

Gerilsneyðingarstefnan kemur í stað hins náttúrulega hreinlætis, sem tíðkast til dæmis hjá Frökkum, er bera af öðrum þjóðum í matargerðarlist, án þess að fólk deyi þar úr matareitrun við að nota eingöngu ferska vöru, en ekki frysta, gerilsneydda, forhitaða og innpakkaða.

Niðurstaða úrskurðarnefndar og gamansemi landlæknis í kleinumálinu eru því sannkallaðir sólargeislar í skammdegi smákóngaveldis og reglugerðafargans. Vonandi hefur úrskurðurinn fordæmisgildi og vonandi láta stjórnvöld ekki undan kveinstöfum svekktra smákónga.

Bezt væri að nota tækifæri kleinumálsins til að höggva í reglugerðakerfið og setja lög um að leiða verzlunarfrelsi og ferska vöru til hásætis í matargerð okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðsglæpamaður kemur

Greinar

Einn af kunnari stríðsglæpamönnum heims kemur í opinbera heimsókn til Íslands síðar í þessum mánuði. Það er Símon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, áður hermála- og forsætisráðherra. Hann á langan afbrotaferil að baki og hefur heldur færzt í aukana á síðustu vikum.

Afbrot Peresar stríða gegn alþjóðlegum sáttmálum um meðferð stríðsfanga og um meðferð fólks á hernumdum svæðum, þar á meðal gegn Genfarsáttmálanum. Þau stríða gegn grundvallarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og gegn langri lagahefð Vesturlanda í þjóðarétti.

Mesta athygli hafa vakið barnamorðin, sem Peres og félagar stjórna í Palestínu. Börn, sem kasta grjóti, hafa verið drepin í tugatali á hverju ári. Þetta þekkist hvergi annars staðar í heiminum. Blóð allra þessara barna er á höndum Peresar, þegar hann heilsar forseta Íslands.

Barnamorð og önnur morð, sem Peres og félagar stunda á hernumdum svæðum, flokkast í alþjóðarétti undir manndráp af ásettu ráði. Einnig eru til nákvæmar skráningar um pyntingar, sem þeir standa fyrir og eru bannaðar með alþjóðlegum sáttmálum og lagahefðum.

Ýmsar refsiaðgerðir Peresar eru líka brot á þessum sáttmálum og hefðum. Þar á meðal eru hefndaraðgerðir á borð við að jafna hús fólks við jörð og að koma í veg fyrir, að það geti unnið fyrir sér. Slíka glæpi stundaði Peres í hundraða- og þúsundatali sem hermálaráðherra.

Upp á síðkastið hafa Peres og félagar lært þjóðahreinsun af Milosevic Serbíuforseta og Karadzic, Bosníustjóra hans. Peres og félagar þjóðahreinsuðu með því að láta gera umfangsmiklar loftárásir á bæi og þorp í Suður- Líbanon og hrekja íbúana á þann hátt norður í land.

Yfirlýstur tilgangur loftárása Peresar og félaga var að hreinsa belti í Suður-Líbanon, svo að meintir óvinir Ísraels, sem þar kynnu að vera, hefðu minna skjól af óbreyttum borgurum. Síðar var raunar neitað, að þetta væri tilgangurinn, þegar heimsbyggðin mótmælti honum.

Á þennan hátt létu Peres og félagar eyða heimilum tugþúsunda óbreyttra borgara í öðru ríki og hrekja þá burt af föðurleifð sinni. Hann hefur langa reynslu á þessu sviði, því að fyrir átta árum lét hann gera loftárás á íbúðahverfi í Túnis, sem er um 2500 kílómetra frá Ísrael.

Glæpasaga Peresar nær yfir fleiri svið en hér er rúm til að rekja. Fyrir sjö árum lét hann menn sína óvirða fullveldi Ítalíu með því að ræna þar ísraelskum kjarnorkufræðingi, sem hafði veitt Sunday Times í London upplýsingar um framleiðslu kjarnavopna í Ísrael.

Símon Peres er ekki skárri en aðrir, sem hafa gegnt störfum hermálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra Ísraels á síðasta áratug. Hans afbrot spanna alla bókina frá þjóðahreinsun og skipulegum manndrápum yfir í löglausan brottrekstur, varðhald og mannrán.

Þótt borgarar Ísraels beri sem heild ábyrgð á hryðjuverka- og stríðsglæpastefnu ríkisins vegna stuðnings við hana, svo sem fram kemur í skoðanakönnunum, hafa helztu valdamenn þjóðfélagsins þó skorið sig úr í viðleitni við að auka grimmd þessa krumpaða þjóðfélags.

Hryðjuverka- og stríðsglæpamaður af stærðargráðu Peresar á ekkert erindi til Íslands, þótt sérkennilega gamansamur utanríkisráðherra okkar hafi gaman að prófa, hvað hann geti komizt langt í að ögra fólki. Vonandi láta kjósendur hann gjalda þess í næstu kosningum.

Þeir, sem heilsa Símoni Peres í opinberri heimsókn hans til Íslands, fá blóð saklausra á hendur sínar. Í sögulegum skilningi geta menn aldrei þvegið blóðið af sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Myllusteinninn þungi

Greinar

Ríkisstjórnin þarf að fara að sinna fjármálum ríkisins í alvöru. Það getur ekki gengið fram eftir öllu kjörtímabilinu, að stærsti þáttur þjóðarbúskaparins og mesti örlagavaldur í hagstjórninni fái að leika lausum hala með þeim afleiðingum, að áætlanir fari sífellt úr böndum.

Á miðju ári stendur ríkisstjórnin frammi fyrir þeirri staðreynd, að hallinn á fjárlögum ársins 1993 hefur við upphaf árs verið vanmetinn um sex til sjö milljarða króna. Tekjur hafa reynzt minni en ráð var fyrir gert og útgjöld hafa reynzt meiri en ráð var fyrir gert.

Ríkisstjórnir og hagfræðingar þeirra eiga oft erfitt með að sjá óbeinar afleiðingar gerða sinna marga liði fram í tímann. Það er einn helzt galli ofanstýringar, að hún framkallar vítahring, er leiðir til aðstæðna, sem eru allt aðrar en þær, er landsfeður ráðgerðu í upphafi.

Í þessu tilviki er alls ekki um óbein langtímaáhrif að ræða. Fjármálaóreiða ríkisins er bein og augljós skammtímaafleiðing af því tagi, sem hver húsmóðir getur séð fyrir í fjármálum heimilisins, þótt ráðherrum og hagfræðingum þeirra hafi ekki tekizt að sjá hana fyrir.

Þegar ríkisstjórn vinnur markvisst að minni kaupmætti fólks, fær ríkissjóður að sjálfsögðu minni skatta af tekjum fólks. Þegar þetta sama fólk mætir minnkandi kaupmætti sínum með minni innkaupum, fær ríkissjóður að sjálfsögðu minni skatta af veltu fólks.

Þetta samhengi er svo augljóst, að hvert barn getur séð það. Í ofanstýringu efnahagsmála er oft við að glíma miklu flóknari atburðarás, þar sem hinar óbeinu afleiðingar liggja engan veginn í augum uppi. Einföld er hins vegar atburðarásin, sem ríkisstjórnin sá ekki fyrir.

Þegar ríkisstjórn vinnur markvisst að þjóðarsátt um að halda verðbólgu í skefjum, þarf ríkissjóður að taka þátt í þjóðarsáttinni með framlagi í félagsmálapakka eða verkefnapakka. Þessir pakkar ríkissjóðs eru náttúrulögmál, sem við höfum séð í hverri einustu þjóðarsátt.

Pakkarnir kosta ríkið peninga, sem gera þarf ráð fyrir á fjárlögum. Það hefur ríkissjórnin hins vegar ekki gert. Hún hefur verið blind á hvort tveggja í senn, tekjumissinn af völdum þjóðarsáttarinnar, sem fyrirhuguð var, og útgjaldaukann af völdum sömu þjóðarsáttar.

Ríkisstjórn, sem skilur ekki efnahagsmál eða vill ekki skilja þau, lendir í fleiri vandræðum. Fjármálaóreiða ríkisins stuðlar einnig að háum raunvöxtum í þjóðfélaginu og kemur í veg fyrir, að tilraunir til lækkunar vaxta nái fram að ganga. Þetta ætti öllum að vera ljóst.

Ríkisstjórn, sem skilur ekki efnahagsmál eða vill ekki skilja þau, lendir líka í þeim vanda að búa til gengislækkun í gamla stílnum, þar sem öll gengislækkunin fer út í verðlagið og menn sitja eftir með verðbólguna eina, án þess að geta nýtt hefðbundna kosti verðbólgunnar.

Ríkisstjórnin hefur hegðað sér undarlega á fleiri sviðum efnahagsmála. Með annarri hendinni sker hún niður velferðarkerfið í fjárlögum og bætir síðan við það í þjóðarsátt. Með annarri hendinni sker hún niður framkvæmdir í fjárlögum og bætir síðan við þær í þjóðarsátt.

Utan ríkisstjórnar og hagfræðinga hennar sjá allir, sem sjá vilja, lærðir og leikir, að hún hefur lent í ógöngum í miklum og vaxandi ríkishalla, í of háum vöxtum, í gengislækkun án umtalsverðra hliðarráðstafana og í “inn og út um gluggann” misræmi fjárlaga og þjóðarsátta.

Ríkisfjármálin eru í þungamiðju þessara vandræða ríkisstjórnarinnar. Svo virðist sem þau verði þyngsti myllusteinninn um háls hennar í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanmetið tjón

Greinar

Nokkuð vantar á, að norræna skýrslan um byrði Íslendinga af landbúnaði nái yfir alla þætti vandans. Beinir styrkir, uppbætur og niðurgreiðslur nema níu milljörðum á fjárlögum ríkisins árið 1993, en ekki sjö og hálfum milljarði. Þetta má lesa svart á hvítu í fjárlögunum.

Erfiðara er að meta vantalningu skýrslunnar á tjóni þjóðarinnar af innflutningsbanni búvöru. Ljóst er þó, að þar er ekki tekið tillit til hemla á innflutningi grænmetis og kartaflna, svo og smjörlíkis. Í þessum liðum felst að minnsta kosti tveggja milljarða króna viðbótartjón.

Þannig er tjónið af innflutningsbanni að minnsta kosti átta milljarðar, en ekki þeir sex milljarðar, sem koma fram í skýrslunni. Ýmsir hagfræðingar hafa reynt að meta þennan þátt til fulls og komizt að niðurstöðum, sem nema nálægt tólf milljarða króna áregu tjóni neytenda.

Ef talið er saman tjón skattgreiðenda eins og það kemur fram í fjárlögum og tjón neytenda eins og það kemur fram í ofangreindu mati á innflutningsbanni og -hömlum, koma út úr dæminu upphæðir, sem nema frá sautján milljörðum upp í tuttugu og einn milljarð á ári.

Þær tölur hafa síður en svo orðið úreltar af völdum búvörusamninga. Þetta eru tölur, sem gilda fyrir árið 1993. Órökstuddar og marklausar eru fullyrðingar áróðursvélar hins hefðbundna landbúnaðar um, að búvörusamningar hafi breytt forsendum í þessum dæmum.

Búvörusamningar hafa ekki létt byrðum af herðum neytenda og skattgreiðenda. Búvörusamningar hafa hins vegar fryst ástandið fjölmörg ár fram í tímann til að koma í veg fyrir, að nýjar ríkisstjórnir geti tekið ákvarðanir um að létta byrðar neytenda og skattgreiðenda.

Norræna skýrslan um tjón Íslendinga af völdum landbúnaðarstefnunnar flytur ekki neinn nýjan sannleika og er þeim annmarka háð að vanmeta stórlega tjónið. Þess vegna er engin ástæða fyrir áróðursvél hins hefðbundna landbúnaðar að hafna þægilega lágum tölum hennar.

Af norrænu skýrslunni mætti ætla, að árlegt tjón fjögurra manna fjölskyldu næmi um 90.000 krónum, en þá er aðeins fjallað um hluta tjónsins af innflutningsbanni. Í rauninni er tjón fjölskyldunnar af allri styrkja- og haftastefnu landbúnaðar rúmlega 300.000 krónur á ári.

Auðvitað má ekki gleyma því, að íslenzkum neytendum og skattgreiðendum kæmu allar upphæðir vel, hvort sem þær eru 90.000 krónur á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu eða 300.000 krónur. Þetta eru allt saman háar upphæðir, hvernig sem búvörudæmið er reiknað.

Með hverri einustu reikningsaðferð koma út niðurstöður, sem fela í sér, að lífskjararýrnun þjóðarinnar af völdum styrkja- og haftastefnu landbúnaðar er margföld á við það tjón, sem hún hefur beðið af völdum árferðis og aflabragða, kjarasamninga og þjóðarsátta.

Það segir mikla sögu um forustusveit aðila vinnumarkaðarins, ráðuneyti og ríkisstjórn, svo og sérfræðingahjörðina í kringum alla þessa aðila, að landbúnaðarruglið skuli aldrei vera nefnt, þegar verið er að skrúfa niður lífskjörin með nýjum og nýjum þjóðarsáttum.

Það ætti til dæmis að vera ábyrgðarhluti fyrir verkalýðsrekendur að standa að endurtekinni lífskjaraskerðingu án þess að nefna nokkru sinni einu orði, að spara megi umbjóðendum þeirra alla lífskjaraskerðinguna með því að byrja að höggva í styrkja- og haftakerfið.

Norræna skýrslan markar þau tímamót, að í fyrsta skipti stuðlar íslenzkt ráðuneyti að birtingu upplýsinga um tjón þjóðarinnar af völdum landbúnaðarstefnunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Rosafjör

Greinar

Af ummælum þátttakenda má ráða, að rosafjör hafi verið um verzlunarmannahelgina og af ummælum mótshaldara má ráða, að samkomur hafi farið vel fram. Yfir 20 manns urðu fyrir alvarlegum líkamsárásum um þessa helgi rosafjörs og bera sumir varanlegan skaða.

Sparkað var í höfuð liggjandi fólks. Það var slegið í andlit með brotnum flöskum. Stungið var með hnífum í handleggi og bök. Nokkur nef lágu úti á vanga eftir barsmíðar. Jafnan voru að verki dauðadrukknir menn, sem höfðu afklæðst persónuleikanum í rosafjöri helgarinnar.

Mörg hundruð manns eyddu helginni að mestu leyti í óminni áfengisdauðans og geta ekki rifjað upp neitt af því, sem gerðist um helgina. Fólk dó snemma áfengisdauða og vaknaði til lífsins til að drekka og deyja síðan aftur. Þessi atburðarás fór nokkra hringi hjá mörgum.

Sjálfsblekkingin er á svo háu stigi, að jafnvel þeir, sem þannig sáu hvorki daginn né nóttina, eru sannfærðir um, að rosalegt fjör hafi verið hjá sér um helgina. Sjálfsblekkingin er á svo háu stigi, að timburmenn og önnur þjáning verzlunarmannahelgarinnar gleymist smám saman.

Ef frá eru taldir þeir, sem sváfu áfengisdauða eða stunduðu grófar misþyrmingar á öðru fólki, virðist mikill meirihluti rosafjörsins hafa falizt í að slangra um á óstyrkum fótum og muldra, orga og veina illskiljanlega í líkingu við sjúklinga á geðveikrahælum fyrri alda.

Auðvitað geta drykkjusamkomur verzlunarmannahelgarinnar ekki flokkazt á annan hátt en sem sjálfspyndingar sjálfsblekktra. Það gildir einnig um hina, sem láta sér líka að ráfa lítt eða ekki drukknir um hin skipulögðu svæði rosafjörs og horfa á alla eymdina og volæðið.

Sumir virðast telja sér trú um, að skemmtun felist í að vera innan um drukkið fólk. Aðrir virðast telja sér trú um, að skemmtun felist í að missa stjórn á líkama og sál, afklæðast persónuleikanum, ráfa um óvistlegar grundir og reka upp undarleg hljóð af ýmsu tagi.

Nýjasta verzlunarmannahelgin er enn ein staðfesting þess, að áfengi og önnur eiturefni fara almennt illa í þjóðina. Íslendingar reyna lítt eða ekki að halda haus og valdi á hreyfingum sínum eins og tíðkast í útlöndum, heldur steypa sér á bólakaf í persónuafskræminguna.

Íslendingar eru að því leyti ekki enn orðnir að siðaðri þjóð að vestrænum hætti, að hér vantar almenningsálit, sem lítur niður á draf og slangur, org og ælu, skemmdarverk og barsmíðar, svo og aðra fylgifiska ótæpilegrar notkunar áfengis og annars eiturs á skömmum tíma.

Við lifum því miður í brennivínsþjóðfélagi. Háir og lágir, ungir og gamlir nota áfengi meira en góðu hófi gegnir. Hinir lágu læra af hinum háu og hinir ungu læra af hinum gömlu. Yfir öllu þessu hvílir svartaþoka sjálfsblekkingarinnar um lífslystina og rosafjörið.

Óralangur vegur er frá vínguðum Miðjarðarhafs og heimsbókmennta til timbraðra drykkjurúta norðurhjarans á Íslandi. Hér hafa hin viðurkenndu mörk áfengisneyzlu verið sett einhvers staðar úti í mýri, með tilsvarandi firringu, þjáningu og drykkjusýki þúsundanna.

Tímabært er, að Íslendingar létti af sér oki sjálfsblekkingarinnar og horfist í augu við raunveruleika hins svokallaða rosafjörs. Veruleikinn er sá, að mestur hluti sálrænna, félagslegra og fjárhagslegra vandamála fólks stafar beinlínis af notkun áfengis, lyfja og annars eiturs.

Sjálfsblekkingu þarf til að borga verð utanlandsferðar til að fá að afklæðast persónuleikanum eða taka annan þátt í hópþjáningu á borð við verzlunarmannahelgi.

Jónas Kristjánsson

DV

Siðferðishrun

Greinar

Ísraelar og Króatar eru fyrstu þjóðirnar, sem hafa lært af miklum árangri Serba í þjóðahreinsun og eru að feta í fótspor þeirra. Fleiri munu fylgja á eftir, þar á meðal í Austur-Evrópu og í löndum Sovétríkjanna sálugu, þar sem tryllt þjóðernishyggja fer ört vaxandi.

Ísraelar eiga það sammerkt með Serbum og Króötum að telja sig af sagnfræðilegum ástæðum ekki þurfa að fara eftir vestrænum siðalögmálum í samskiptum þjóða. Allar þessar þjóðir telja hremmingar forfeðra sinna fyrir hálfri öld réttlæta siðlausa framgöngu sína í nútímanum.

Ísraelar eru byrjaðir á landhreinsun í suðurhluta Líbanons. Með loftárásum hrekja þeir tugi þúsunda óbreyttra og algerlega saklausra borgara frá heimkynnum sínum og beita að venju sinni svipuðum röksemdum og Hitler notaði, þegar hann réðst inn í Pólland.

Það eru einkar dapurleg örlög Ísraels að hafa orðið að svipuðu æxli í umheiminum og Hitlers-Þýzkaland var orðið á sínum tíma, þótt í smærri stíl sé, enda miklu fámennara ríki. Ár eftir ár hafa Ísraelar orðið krumpaðri og sérhæfðari ofbeldis- og hryðjuverkaþjóð.

Siðleysi Ísraels er ekki tengt ákveðnum stjórnmálaöflum. Það hefur sinn gang, þótt stjórnarskipti verði í landinu. Það er ekki stjórnkerfið eitt eða herinn einn, sem stendur að baki ofbeldinu, heldur er það samkvæmt skoðanakönnunum stutt af meirihluta þjóðarinnar.

Ofbeldi Ísraela hefur síðustu árin beinzt að barna- og unglingamorðum í Palestínu og að skipulegu niðurrifi efnahagsgerðar landsins. Þeir hafa í þessu skyni þverbrotið alþjóðasáttmála um meðferð fólks á hernumdum svæðum. Þetta hafa þeir gert í bandarísku skjóli.

Ísraelar hefðu samt ekki þorað að leggja út í skipulega landhreinsun í suðurhluta Líbanons, ef þeir hefðu ekki haft tækifæri til að fylgjast með velgengni Serba í þjóðahreinsuninni í Bosníu. Enda kemur í ljós, að máttvana eru viðbrögð bandarískra stjórnvalda við ofbeldi Ísraela.

Króatar eru önnur þjóð, sem hefur krumpazt að fyrirmynd Serba. Á síðustu mánuðum hafa þeir tekið vaxandi þátt í þjóðarmorðinu í Bosníu og beita aðferðum, sem þeir hafa lært af Serbum. Þeir gera það í skjóli efnahagslegs stuðnings, sem Vestur-Evrópa hefur veitt þeim.

Vestur-Evrópa er einmitt þessa dagana að verðlauna Serba og Króata fyrir brjálæðislega framgöngu þeirra með því að koma í veg fyrir að Bosníumönnum berist varnarvopn og með því að reyna að kúga leiðtoga þeirra til að fallast á landvinninga Serba og Króata.

Í kjölfar vel heppnaðs þjóðarmorðs í Bosníu munu Vesturlönd sennilega gefa Serbum upp sakir, taka aftur upp stjórnmálasamband við þá, hefja samskipti í menningu og íþróttum, láta af efnahagslegum refsiaðgerðum og yfirleitt láta eins og ekkert hafi í skorizt.

Allt mun þetta hafa hinar verstu afleiðingar. Helztu brjálæðingar í valdastéttum um heim allan hafa fylgzt vel með máttvana viðbrögðum Vesturlanda við óvenjulega óhugnanlegu ofbeldi Serba í Bosníu. Þátttaka Króata í viðurstyggð Serba er bein afleiðing af þessu.

Í fjölmennustu og voldugustu ríkjum Vesturlanda eru helztu valdastöður skipaðar innantómum kjaftöskum, sem ekki hafa langtímasjónarmið í huga og hafa enga yfirsýn yfir afleiðingar af beinum og óbeinum stuðningi Vesturlanda við óvægna landvinningastefnu Serba.

Máttvana hugleysi og ræfildómur vestrænna leiðtoga á því miður eftir að verða mannkyninu þungur í skauti. Vestrænir kjósendur bera ábyrgð á siðferðishruninu.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýrkeypt reynsla

Greinar

Ráðstöfunartekjur almennings eru að skerðast um samtals fjórðung á sjö ára tímabili, frá 1987 til 1994. Þetta er gífurleg kjaraskerðing á skömmum tíma. Hún sýnir, að þjóðin er fær um að haga seglum eftir efnahagsvindum og getur hert sultarólina, þegar árar sem verst.

Fjórðungs minnkun ráðstöfunartekna segir ekki alla söguna um skerðingu lífskjara almennings. Í öðru lagi er ríkið samhliða að draga úr þjónustu sinni, skera af velferðarkerfi heimilanna. Og í þriðja lagi er allt í einu komið víðtækt atvinnuleysi með öllum þess hörmungum.

Tvennt hefur meðal annars einkennt þetta tímabil. Það er í fyrsta lagi stöðugt verðlag og í öðru lagi þjóðarsáttir á vinnumarkaði. Svo virðist sem almenningur hafi tapað á stöðugu verðlagi og þjóðarsáttum, þótt fleira skipti auðvitað máli, svo sem samdráttur í þorskafla.

Skiljanlegt er, að órói fari að grípa um sig hjá verkalýðsrekendum, þegar félagsmenn þeirra eru farnir að sjá samhengi milli þjóðarsátta og hruns ráðstöfunartekna. Þessa hefur fyrst orðið vart hjá Dagsbrún og nokkrum öðrum verkamannafélögum, en á eftir að magnast ört.

Fólk mun smám saman missa trú á gildi þess að haga sér í samræmi við útlendar hagfræðiformúlur um stöðugt verðlag, þegar það tapar svona greinilega á þeirri fylgispekt. Fátæka fólkið í landinu fer senn að hugsa með angurværð til blessaðra verðbólguáranna.

Hætt er við, að höfundum þjóðarsátta í hagsmunasamtökum vinnumarkaðarins muni reynast erfitt að skýra fyrir fólki, hvers vegna það eigi að taka þátt í þjóðarsáttum, sem skerða ráðstöfunartekjur þess um heilan fjórðung á sjö ára tímabili, og hvernig það muni síðar græða.

Ekkert bendir til þess, að hagfræðingar vinnumarkaðarins eða ríkisstjórnarinnar séu með haldbær rök um framhaldið. Á vegum ríkisstjórnarinnar verður haldið áfram að reyna að skera niður velferðarkerfi heimilanna og spilla þannig lífskjörum enn frekar.

Áfram verður haldið að veiða nokkru meiri þorsk en ráðlegt er, svo að ekki koma neinir stórir þorskárgangar í aflann á næstu árum. Höfundar þjóðarsáttar geta því ekki boðið upp á neina ódáinsakra að baki fjallgarðanna, sem þeir eru að leiða þjóðina um á þessum mögru árum.

Samstaða er um það milli stjórnmálamanna þjóðarinnar, forvígismanna atvinnurekenda og verkalýðsrekenda, svo og hagfræðilegra ráðgjafa allra þessara aðila, að ekki skuli létt byrðum af almenningi með því að skera niður velferðarkerfi fornra atvinnuhátta, einkum landbúnaðar.

Uppreisnarmenn Dagsbrúnar taka þátt í þessari samstöðu. Þótt þeir kveini yfir þjóðarsáttum og kjaraskerðingu, hafa þeir ekki annað að bjóða en allir hinir. Þeir trúa á sömu bannhelgi. Þeir eru sömu kerfiskarlarnir. Munurinn er bara sá, að ráðamenn Dagsbrúnar eru í fýlu.

Þótt stefna þjóðarsátta og stöðugs verðlags sé í vondum málum um þessar mundir, er ekkert, sem bendir til, að vinnudeilur á næsta vetri muni bæta stöðu Dagsbrúnarmanna eða almennings. Fyrirtækin eru ekki aflögufær og bannhelgi hvílir á velferðarkerfi fornra atvinnuhátta.

Meðan þjóðin neitar sér um raunhæfar leiðir út úr ógöngum sínum, getur hún huggað sig við, að lífskjörin eru ekki verri en þau voru fyrir áratug. Kreppan felur í sér, að ráðstöfunartekjur falla niður í það, sem þær voru fyrir áratug. Einn áratugur hefur farið í súginn.

Þjóðin er á uppleið, þegar litið er til langs tíma og hugsað í áratugum. Hún hefur valið sér erfiða fjallvegi. Hún mun læra af reynslunni. En það er dýrkeypt reynsla.

Jónas Kristjánsson

DV

Holur hvalveiðihljómur

Greinar

Holur hljómur er í yfirlýsingum sjávarútvegsráðherra og annarra hvalveiðisinna um, að veiðar verði hafnar að nýju, þótt það verði ekki á þessu ári. Þeir geta ekki svarað einföldum spurningum, til dæmis spurningu forsætisráðherra um, hver eigi að kaupa hvalkjötið.

Auðvitað er þungbært að telja sig hafa unnið málefnalegan sigur í fræðilegri deilu, en fá samt sem áður ekki tækifæri til að fylgja sigrinum eftir í raun. Auðvitað er þungbært að láta Bandaríkjamenn og aðra útlendinga segja sér fyrir verkum á þessu sviði sem öðrum.

Talsmenn okkar í máli þessu virðast alltaf hafa ímyndað sér, að það snerist um vísindi og rök. Okkar menn hafa haft mikið fyrir því að sýna fram á, að hvalveiðistofnar við Ísland séu ekki í útrýmingarhættu og þess vegna megi hefja varfærnislegar veiðar úr stofnunum.

Málið snerist hins vegar alltaf um tilfinningar. Enda sneru Bandaríkjamenn við blaðinu, þegar hvalveiðisinnar höfðu unnið málefnalegan sigur, og sögðust nú vera andvígir hvalveiðum af því að hvalir væru svo fallegir og merkilegir, en ekki vegna útrýmingarhættu einnar.

Vestanhafs býr kjötætuþjóð, sem hakkar í sig kjöt af fallegum kálfum og lömbum, kjúklingum og grísum, en hefur á sama tíma gert hvalinn heilagan á sama hátt og indverskir bramatrúarmenn hafa kúna. Bandaríkjamenn taka hvali í fóstur og umturnast gegn hvalveiðum.

Ekki bætir úr skák, að Bandaríkjamenn eru fremur ofbeldishneigðir í viðskiptum við útlend ríki. Þeir eru sífellt að hóta viðskiptaþvingunum og framkvæma þær. Þrýstihópar á borð við hvalfriðunarmenn eiga greiðan aðgang að opinberum stofnunum viðskiptaþvingana.

Við höfum engin loforð í höndum frá Japönum um, að þeir muni kaupa af okkur afurðir hvalveiða. Ef þau loforð yrðu gefin, væru þau marklaus, því að Bandaríkjamenn mundu beita þá viðskiptalegum þvingunum til að falla frá þeim. Sama gildir um aðra viðskiptavini.

Tómt mál er að tala um að taka upp hvalveiðar í ábataskyni. Við fáum enga útlenda kaupendur að hvalaafurðum og við missum fjölda kaupenda á öðrum sviðum, einkum í útflutningi fiskafurða. Hvalveiðar mundu einar sér framkalla meiri kreppu en þá, sem við búum nú við.

Við höfum næg vandræði af núverandi kreppu, þótt við bætum ekki annarri ofan á. Við höfum nóg af sviðum til að efla hugsjónir okkar og sjálfstæðisvitund, þótt við séum ekki að lemja haus við stein á þessu afmarkaða sviði, sem hefur alls ekkert fjárhagslegt gildi.

Því miður er íslenzka þjóðin ekki þessarar skoðunar. Hún getur ekki sætt sig við, að ruglað og ofbeldishneigt fólk í Bandaríkjunum ráði ferðinni í þessu máli. Hún getur ekki sætt sig við, að talsmenn heilagra hvala ráði ferð Íslendinga. Hún vill fremja fjárhagslegt harakiri.

Farsælla væri fyrir fámenna þjóð á borð við Íslendinga að velja sér hugsjónir við hæfi og reyna að haga seglum eftir vindi á þann hátt, að sem greiðastur aðgangur sé fyrir afurðir sínar á erlendan markað. Það þýðir, að við verðum stundum að taka tillit til útlendinga.

Mikilli vinnu og peningum hefur verið varið í þá ímyndun, að hvalur sé á sviði rökhyggju og vísinda. Árum saman stóðum við fyrir svokölluðum vísindaveiðum, þótt við tímum ekki að styðja önnur vísindi. Við gengum úr alþjóða hvalveiðiráðinu og stofnuðum annað.

Engri vinnu eða peningum hefur verið varið til að finna, hver eigi að kaupa hvalkjötið og hvernig við eigum að verja aðra markaði okkar fyrir viðskiptaþvingunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiðtogalaus Vesturlönd

Greinar

Bandaríkin réðust án dóms og laga á höfuðstöðvar leyniþjónustu Íraks fyrir viku. Árásin var sögð hefndaraðgerð vegna ósannaðrar aðildar og forustu leyniþjónustunnar að meintum undirbúningi að misheppnaðri tilraun til morðs á George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseta.

Fullyrðingarnar um samsæri Íraka koma frá ótrúverðugum stofnunum, sem hafa áður hagrætt sannleikanum. Þær hafa gefið Bill Clinton Bandaríkjaforseta misheppnað tækifæri til að reyna að bæta vonda stöðu sína í skoðanakönnunum með því að leika stríðshetju á ódýran hátt.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af þeirri uppgötvun bandarískra markaðsfræðinga, að bæta megi stöðu forseta í skoðanakönnunum með ómarkvissum hernaðaraðgerðum gegn vondum öflum úti í heimi. Röðin getur síðar komið að sjávarútvegsráðuneytum hvalveiðiþjóða.

Að vísu virðast Bandaríkjamenn ekki eins vitlausir og markaðsfræðingar forsetans halda, því að ekki tókst að lappa upp á fylgið með loftárásinni á Bagdað. Eftir stendur, að Bandaríkjamenn hafa valið sér enn einn forsetann, sem markaðssetur sig með hernaðaraðgerðum.

Fjölmennustu þjóðir Evrópu geta ekki státað af betri árangri í vali leiðtoga. Helmut Kohl, kanzlari Þýzkalands, leggur til dæmis lykkju á leið sína til að þurfa ekki að samhryggjast Tyrkjum og öðrum útlendingum, sem verða fyrir barðinu á krúnurökuðum nýnazistum.

Þetta gerir Kohl af því að markaðsfræðingar hans segja, að þýzkir útlendingavinir kjósi hvort sem er krata, en koma þurfi í veg fyrir, að öfgamenn í útlendingahatri safnist í sérstakan stjórnmálaflokk eða efli róttækan keppinaut gegn Kohl til forustu í hans eigin flokki.

Það lýsir Kohl vel, að ríkisstjórn hans hafði forustu um viðurkenningu nýrra ríkja á rústum Júgóslavíu, lét sér síðan nægja að styðja fasistastjórn Tudjmans í Króatíu gegn afleiðingum þessarar sömu viðurkenningar, en leyfði íslömum í Bosníu hins vegar að sigla sinn sjó.

Að vísu má segja Kohl það til hróss, að hann hefur viljað létta vopnasölubanni af Bosníumönnum, svo að þeir geti frekar varizt serbneskum villilýð, en hefur ekki fengið það fyrir tveimur þjóðarleiðtogum, sem eru ekki síður ömurlegir, Francois Mitterrand og John Major.

Frakkar hafa valið sem forseta persónugerving franskra stjórnmála eftirstríðsáranna, Mitterrand, sem er í sífelldri leit að ódýru valdatafli. Frægust var sýndarmennskan, þegar hann fór í snögga ferð til Sarajevo til að slá sér upp á kostnað annarra vestrænna leiðtoga.

Munurinn á Mitterrand og Major er einkum sá, að hinn fyrri er rotinn í gegn, en hinn síðari er tómur í gegn. Forsætisráðherra Bretlands er gerólíkur forvera sínum, hefur enga mælanlega kjölfestu í grundvallarsjónarmiðum og hagar seglum eftir sérhverjum andvara.

Frakkar og Bretar hafa snúið baki við þessum leiðtogum sínum eins og Bandaríkjamenn hafa misst trú á sínum leiðtoga. Þetta bendir til, að hin pólitíska markaðssetning á Vesturlöndum sé á villigötum og að fólk vilji raunverulega leiðtoga á borð við Margaret Thatcher.

Þetta þýðir einnig, að hæfileikar, sem duga mönnum vel til að brjótast til valda í flokksapparati og að vinna sigur í örfáum kosningum, eru ekki þeir hæfileikar, sem gera menn að þjóðarleiðtogum. Þetta getur bent til, að brotalöm sé í aðferðafræði vestræns leiðtogavals.

Afleiðing þessa er, að fjölmennustu þjóðir Vesturlanda eru í rauninni leiðtogalausar um þessar mundir og að Vesturlönd eru sem heild að sama skapi leiðtogalaus.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfi í klípu

Greinar

Íslenzka ríkið hefur tapað hverju málinu á fætur öðru fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, nú síðast vörninni gegn Sigurði Á. Sigurjónssyni leigubílstjóra. Aðeins einn af níu dómurum studdi ríkið. Það var auðvitað forseti Hæstaréttar Íslands, sem áður hafði brotið á Sigurði.

Kominn er tími til, að Alþingi og Hæstiréttur taki sér tak. Ekki er nóg að breyta afmörkuðum lögum til samræmis við fellda dóma, heldur verða þessar stofnanir að temja sér ný og betri vinnubrögð, svo að ekki þurfi að draga þær hvað eftir annað fyrir útlendan dóm.

Síðasta málið var óvenju gróft, því að þar elti íslenzka kerfið fórnardýrið uppi. Alþingi lét hagsmunaaðila úti í bær skipa sér fyrir verkum og setti lög gegn Sigurði. Hæstiréttur dæmdi síðan eftir þessum lögum, sem augljóslega stönguðust á við það, sem kallað er réttarríki.

Þetta er angi af þriðja heims ástandi, sem verður að breyta og hlýtur að verða breytt, af því að Íslendingar eru svo heppnir að búa í heimshluta, þar sem talið er óhjákvæmilegt, að farið sé eftir rótgrónum, vestrænum leikreglum í umgengni ríkisvaldsins við smælingjana.

Alþingi er afgreiðslustofnun fyrir ríkiskerfið og samþykkir hugsunarlaust flest það, sem þaðan kemur, bæði þau mál, sem kerfið framleiðir til að efla stöðu sína í þjóðfélaginu, og málin, sem það tekur að sér fyrir þá þrýstihópa, er njóta velvildar og stuðnings kerfisins.

Á sama hátt er Hæstiréttur afgreiðslustofnun fyrir ríkiskerfið samkvæmt gamalli hefð. Hann hefur jafnan verið hallur undir ríkið og telur það alltaf hafa rétt fyrir sér. Nokkur dæmi um það eru rakin í bók, sem lögmaður sigurvegarans ritaði um vinnubrögð Hæstaréttar.

Raunar er dómskerfið í heild meira eða minna lamað á Íslandi. Látið er viðgangast, að hálfruglaðir menn fremji undarlega dóma, og algengt er, að dómarar komi litlu í verk. Seinagangur í dómskerfinu stafar ekki af aðstöðuleysi dómara, heldur af leti þeirra og áhugaleysi.

Hin einföldustu mál eru oft að velkjast árum saman í dómskerfinu, ekki sízt ef sterki aðilinn, hvort sem hann er ríkið eða auðfélag, ákveður að þreyta smælingjana til uppgjafar með því að beita öllum úrræðum til tafa. Því þora menn ekki að reyna að gæta réttar síns fyrir dómi.

Ofan á öll þessi vandræði bætist fornt og krumpað verðmætamat, sem setur auðgildi ofar manngildi. Menn fá þunga dóma fyrir þjófnað og skjalafals, en létta dóma og skilorðsbundna fyrir handrukkanir, líkamlegt ofbeldi, sifjaspell, nauganir og limlestingar af ýmsu tagi.

Þetta er arfur frá fyrri öldum, þegar yfirstéttin var alls ráðandi og setti lög til verja eignir sínar, en lét sig litlu varða, hvort undirstéttin stundaði ofbeldi innan síns hóps. Lögin endurspegla þetta enn, svo og túlkun dómstóla á lögunum. Hið auma Alþingi lætur kyrrt liggja.

Hvorki Alþingi né Hæstiréttur hafa tekið mark á gagnrýni. Þessar stofnanir fara sínu fram, enda telja þær lítið mark takandi á pöplinum. Hins vegar er hugsanlegt, að tekið verði mark á gagnrýni, ef hún kemur frá fjölþjóðlegum og óumdeildum dómstólum, sem hafa víða yfirsýn.

Hæstiréttur þarf að setja sig betur inn í vestræna og nútímalega hugmyndafræði réttarfars og hafa hliðsjón af henni. Alþingi þarf að hreinsa lög til samræmis við þessa sömu hugmyndafræði. Dómstólar almennt þurfa að losna við vanhæfa dómara og koma hinum að verki.

Þetta gerist, þegar Alþingi og Hæstiréttur, ráðuneyti og dómstólar átta sig á, að tímabært sé orðið að hætta að verða sér til skammar á fjölþjóðlegum vettvangi.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiðin er fær, en ekki bezt

Greinar

Leiðin er fær, sem ríkisstjórnin hefur valið fyrir ferð þjóðarinnar um mögru árin. Flestir hagsmunaaðilar skilja, að gera verður nokkurra ára hlé á ofveiði þorsks. Flestir aðilar vinnumarkaðar skilja, að ekki verður komizt hjá rýrari lífskjörum og auknu atvinnuleysi.

Dæmið gengur upp í stórum dráttum, ef stjórnvöld treysta sér til að koma svipuðum böndum á smábátaeigendur og þau hafa komið á aðra útgerð og ef þau treysta sér til að neita opinberum starfsmönnum um svipaða miskunn og þau hafa neitað öðru launafólki í landinu.

Þetta er merkileg þjóðarsátt, sem mun koma í veg fyrir, að Íslendingar lendi í færeyska vítahringnum. Þótt við höldum að einhverju leyti áfram að lifa um efni fram, er eðlismunur á því og hinum gersamlega óraunhæfu lífskjörum Færeyinga. Við munum halda frelsinu.

Við erum seig, þegar syrtir í álinn, þótt við höfum ekki reynzt hafa bein til að þola góða daga. Þeir eiginleikar, sem komu í veg fyrir, að við gætum nýtt okkur velgengni síðustu áratuga, hjálpa okkur til að standast mótlæti síðustu ára og nokkurra næstu ára í viðbót.

Þjóðarsáttin felur meðal annars í sér, að lækkað verði risið á velferðarkerfi almennings. Það verður til dæmis dýrara að veikjast og dýrara að afla sér þekkingar. Þjónusta hins opinbera á þessum sviðum mun verða dýrari og lakari en hún hefur verið til skamms tíma.

Þetta felur í sér aukna stéttaskiptingu, því að þeim fjölgar, sem ekki hafa ráð á að veikjast eða afla sér þekkingar. Mikið og vaxandi atvinnuleysi mun einnig stuðla að aukinni stéttaskiptingu í landinu. Þjóðarsáttin framleiðir þannig ný vandamál, þegar hún leysir önnur.

Athyglisvert er, að yfirstéttin í landinu hyggst ekki taka neinn umtalsverðan þátt í að bera byrðar þjóðarsáttarinnar. Bankastjórar og bankaráðsmenn hyggjast til dæmis ekki draga neitt úr laxveiðiferðum, sem bornar eru uppi af vaxtamun, er nemur tvöföldum alþjóðastaðli.

Aukin stéttaskipting virðist vera innifalin í þjóðarsáttinni, alveg eins og hún felur í sér, að hvorki verði sagt upp búvörusamningi, né gerðar neinar tilraunir til að draga úr ríkisrekstri landbúnaðar, sem kostar neytendur tólf milljarða á ári og skattgreiðendur níu milljarða.

Ef raunverulega syrti í álinn, mundi þjóðin vafalaust knýja fram, að yfirstéttin tæki líka á sig byrðar af samdrætti og að velferðarkerfi gæludýragreina viki fyrir verndun grundvallaratriðanna í velferðarkerfi almennings. Samkvæmt þjóðarsátt er ekki komið að slíku enn.

Þetta má hafa til marks um, að þjóðfélagið er ekki komið nálægt hruni af völdum kreppunnar. Jafnvel þótt þorski fækkaði enn og kreppan ykist, eru til ónotuð vopn í lífsbaráttu þjóðarinnar. Þegar þau verða gripin, er það merki um, að kreppukornið sé orðið að alvörukreppu.

Þótt þjóðarsátt sé betri en engin sátt, eru ýmsar hættur fólgnar í að velja leið, sem eykur stéttaskiptingu, minnkar öryggisnet velferðar, dregur úr kjarki fólks og minnkar líkur á, að það afli sér menntunar í framtíðargreinum. Þessi leið laskar sjálfa þjóðfélagsgerðina.

Kjósendur allra flokka og félagsmenn flestra almannasamtaka á borð við stéttarfélögin hafa ákveðið að þessar hættulegu leiðir og ekki aðrar skuli vera farnar til að verjast kreppunni. Almenningur hefur ákveðið að þola, að fokdýru velferðarkerfi gæludýranna verði áfram hlíft.

Ef í ljós kemur, að herkostnaður sé meiri af leiðinni, sem valin var með þjóðarsátt, en af öðrum álitlegum leiðum, getur þjóðin engum öðrum en sjálfri sér um kennt.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvöfalt dýrara að lifa

Greinar

Sumar vörur eru ekki dýrari á Íslandi en í Bretlandi og Bandaríkjunum. Aðrar eru mun dýrari hér á landi en í nágrannaríkjunum tveimur. Þessi gömlu sannindi voru nýlega staðfest í rækilegri verðkönnun í Hagkaupi í Reykjavík, Safeway í London og Publix í Flórída.

Niðurstöður könnunarinnar, sem voru birtar í DV á laugardaginn, sýna, að tvöfalt dýrara er að lifa á Íslandi en í nágrannaríkjunum sunnan og vestan hafs. Vörur, sem kostuðu samtals 4136 krónur í Reykjavík, kostuðu 2293 krónur í London og 1722 krónur í Flórída.

Ef við gætum fundið leið til að lækka vöruverð á Íslandi niður að því, sem tíðkast utan Norðurlanda, mundum við bæta lífskjör hverrar fjölskyldu um tugi þúsunda króna á mánuði. Slíkt kæmi sér einkum vel á þessum síðustu og verstu tímum kjararýrnunar og atvinnuleysis.

Óhagstæð innkaup vegna fámennis þjóðarinnar eru þröskuldur í vegi slíkrar viðleitni. Af dæmum má þó sjá, að unnt er komast yfir þann þröskuld. Þannig eru ananassneiðar í dós, græn epli og ferskur ananas ódýrari hér á landi en í hinum suðlægari viðmiðunarlöndum.

Hreinlætisvörur eru heill vöruflokkur, sem er ódýr hér á landi. Engin skynsamleg ástæða er fyrir því, að sumir aðrir vöruflokkar skuli verða miklu dýrari og jafnvel margfalt dýrari hér á landi en í viðmiðunarlöndunum, svo sem leikföng, framköllun og gallabuxur.

Með tíðum, umfangsmiklum og skýrt fram settum verðkönnunum heima og erlendis gæti ríkið beitt óbeinum þrýstingi til verðlækkunar í innflutningsverzlun. Verðlagsstofnun gerði dálítið að því fyrir nokkrum árum, en hefur því miður látið deigan síga upp á síðkastið.

Við samanburðinn milli Íslands, London og Flórída sker í augu, að flestar vörur, sem sæta innflutningsbanni á Íslandi, eru tvöfalt eða margfalt dýrari hér en í viðmiðunarlöndunum. Verndun innlends landbúnaðar er meginskýringin á því, hversu dýrt er að lifa á Íslandi.

Hagfræðingar hafa áætlað herkostnað neytenda af innflutningsbanni búvöru og fengið út, að hann nemi um tólf milljörðum króna árlega. Þessi hrikalega upphæð er fyrir utan níu milljarða árlegan kostnað skattgreiðenda af styrkjum til landbúnaðar og niðurgreiðslum.

Við sjáum nú fram á mörg mögur ár vegna samdráttar í sjávarútvegi, sem hingað til hefur staðið undir velmegun þjóðarinnar. Verið er að skera niður velferðarkerfi heimilanna, spilla lífskjörum almennings og senda þúsundir manna út í varanlegt víti atvinnuleysis.

Ef ríkið hætti afskiptum sínum af landbúnaði, hætti innflutningsbanni, niðurgreiðslum og styrkjum, væri hægt að gera allt í senn, stöðva niðurskurð á velferð heimilanna, bæta lífskjör þjóðarinnar langt umfram það, sem bezt var áður, og leggja niður atvinnuleysið.

Gróði ríkis og skattgreiðenda annars vegar og neytenda hins vegar mundi endurspeglast í betri stöðu fyrirtækja, meiri veltu í þjóðfélaginu, meiri bjartsýni og stórhug athafnamanna. Þannig mundi atvinnuleysi hverfa og gjaldeyrir nást til kaupa á erlendri búvöru.

Afnám afskipta ríkisins af landbúnaði er hvorki sársaukalaust né ókeypis. Hitt liggur í augum uppi hverjum þeim, sem sjá vill, að þau vandræði yrðu hverfandi í samanburði við þau vandræði, sem leysast mundu í kjölfar afnáms þessara afskipta, er nema 21 milljarði á ári.

Þegar syrtir í álinn, er kominn tími fyrir þjóðina til að taka sönsum og leggja af þá sjálfseyðingarhvöt, sem felst í núverandi afskiptum ríkisins af landbúnaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Nú þarf að kúvenda

Greinar

Margt þarf að breytast, svo að unnt verði að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi við fámenni og einangrun Íslands fram eftir næstu öld. Hætt er við, að blóminn úr ungu kynslóðunum reyni að flytjast á brott, ef við festumst í gömlum atvinnugreinum og atvinnuháttum.

Til þess að framtakssamt fólk vilji festa rætur hér á landi, þurfum við að líta til atvinnugreina og atvinnuhátta framtíðarinnar. Við þurfum að búa svo um hnútana, að ungt fólk geti horft með bjartsýni fram á veg og hafi menntun, aðstöðu og kjark til að nýta sér hana.

Við þurfum á hverjum tíma að leggja mesta áherzlu á þróun hátekjugeira á borð við gerð hugbúnaðar fyrir tölvur. Sumpart er hægt að reisa þá á grunni tækniþekkingar úr hefðbundnum greinum. Tölvuþróun í tengslum við siglingar og sjávarútveg er gott dæmi um það.

Mikilvægt er, að sem mestur hluti atvinnulífs Íslendinga sé í nýjum greinum vaxtar og hárra tekna og sem minnstur í gömlum greinum, þar sem keppa þarf við ódýra vöru og þjónustu frá láglaunalöndum. Við þurfum að breyta ört til að verða í fararbroddi lífskjara.

Við eigum ekki að keppa að stækkun atvinnugreina, þar sem ómenntað fólk stendur daglangt við færibönd, heldur keppa að stækkun greina, þar sem hámenntað fólk selur hugvit og þekkingu til þeirra þjóða, sem hafa ekki náð að hlaupa eins hratt og við inn í framtíðina.

Við þurfum að gera fiskvinnsluna eins sjálfvirka og mögulegt er og selja útlendingum þekkingu okkar á því sviði. Við eigum fremur að efla hönnun en beina framleiðslu. Við eigum að losa okkur sem hraðast við sem mest af hefðbundum landbúnaði í vonlausri samkeppni.

Við sætum um þessar mundir átta þúsund manna atvinnuleysi og þurfum að útvega tólf þúsund störf til viðbótar handa þeim, sem koma á vinnumarkað á sjö árum, sem líða til aldamóta. Þetta verður erfitt, því að sjávarútvegur mun ekki gefa mikið svigrúm á næstu árum.

Þessi þörf fyrir samtals tuttugu þúsund störf segir ekki alla söguna. Ef takast á að ná þeim markmiðum, sem hér hefur verið lýst, þarf að færa að minnsta kosti tíu þúsund störf frá úreltum greinum á borð við landbúnað, ýmsum færibandagreinum og annarri útgerð láglauna.

Við eigum ekki að sóa tugum milljarða á hverju ári til að varðveita atvinnugreinar og atvinnuhætti fortíðarinnar. Við eigum að nota þessa peninga til að mennta þjóðina í hátæknigreinum, efla trú hennar á framtíðarmöguleikana og þor hennar til að takast á við þá.

Við eigum alls ekki að láta atvinnuleysi líðandi stundar hrekja okkur út í þann vítahring að fara í auknum mæli að greiða niður láglaunastörf af ýmsu tagi og búa til þykjustuverkefni á því sviði. Slíkt dregur okkur bara dýpra niður í svaðið, sem við þurfum að lyfta okkur úr.

Ef við höldum áfram áherzlu á hefðbundinn landbúnað, gæludýrasukk og aukna atvinnubótavinnu, munum við standa andspænis 15-20% atvinnuleysi um aldamótin, vonleysi og atgervisflótta. Atvinnuleysi líðandi stundar má ekki mæta með vörn, heldur eingöngu með sókn.

Til þess að svo megi verða, þurfa bæði landsfeður og aðrir Íslendingar að lyfta ásjónu sinni úr holunni og líta upp í framtíðina. Við verðum að breyta og snúa flestum áherzlum í stjórnmálum og þurfum sennilega að skipta að verulegu leyti um pólitíska yfirstétt í landinu.

Framtíð okkar felst í þekkingaröflun í fjármálum, rekstri og nýjum atvinnugreinum; í þjálfun við hönnun hugbúnaðar og tækja; og í eflingu kjarks og bjartsýni.

Jónas Kristjánsson

DV

Við lúrum á aurum

Greinar

Ríkisstjórnin telur, að þjóðin hafi engan veginn verið blóðmjólkuð. Hún telur, að einstaklingar og fyrirtæki lúri enn á aurum, sem nýta megi til svokallaðra sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. Hún ætlar þess vegna að finna upp nýja skatta og hækka suma þá, sem fyrir eru.

Um mánaðamótin verður lagður 14% skattur á ferðaþjónustu og fjölmiðlun. Næsta vetur verður farið að innheimta fjármagnstekjuskatt. Og almennt er reiknað með, að tekjuskattur verði hækkaður um áramótin, enda ætlar ríkisstjórnin að ná í nokkra milljarða til viðbótar.

Um leið hyggst ríkisstjórnin halda áfram að fjármagna hluta hallarekstrar síns með lántökum á innlendum markaði. Hún mun halda áfram þeirri áralöngu hefð, að ríkið hafi sem umsvifamikill lántakandi forustu um að auka eftirspurn peninga og hækka vexti í landinu.

Núverandi fjármálaráðherra er þegar orðinn skattakóngur Íslandssögunnar og mun slá persónulegt met sitt á þessu ári. Ríkisstjórnin í heild hefur slegið Íslandsmet í stækkun hlutdeildar hins opinbera í þjóðarbúskapnum á kostnað hlutdeildar fyrirtækja og einstaklinga.

Afrek stjórnarinnar á þessu sviði byggjast að nokkru leyti á þeirri skoðun, að hér sé engin kreppa, heldur eins konar sefjun, sem byggist á fjölmiðlafári. Innifalið í skoðuninni er, að atvinnuleysi hafi fyrir löngu verið orðið tímabært og megi gjarna aukast að útlendum hætti.

Ríkisstjórnin telur atvinnuleysi einna mikilvægustu leiðina til að halda kröfuhörku almennings í skefjum og afla vinnufriðar til að hækka skatta og minnka þjónustu við almenning. Eiginlega má segja, að hún telji almenning vera stærsta vandamál yfirstéttarinnar í landinu.

Stefnan hefur gengið svo vel, að verkalýðsrekendur fallast á, að innihald nýrra þjóðarsátta felist í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um, að hún ætli að einhverju leyti að standa við fyrri yfirlýsingar sínar úr eldri þjóðarsáttum. Nýju loforðin eru eins marklaus og hin gömlu voru.

Í fyrrahaust reyndi ríkisstjórnin að klípa utan af velferðarkerfinu, einkum í heilsugæzlu og menntastofnunum. Hún telur, að stækkun ríkisgeirans eigi ekki að skila sér í aukinni þjónustu við almenning, heldur eigi hún að nýtast grundvallarhugsjón ríkisstjórnarinnar.

Þessi grundvallarhugsjón felst í að halda merki hefðbundins landbúnaðar hátt á lofti. Í því skyni leggur stjórnin á þessu ári níu milljarða króna á herðar skattgreiðenda og tólf milljarða króna til viðbótar á herðar neytenda. Þetta er eitt af Íslandsmetum hennar.

Enda má vera augljóst, að sú þjóð er ekki fátæk, sem telur sig hafa efni á að brenna árlega 21 milljarði króna á altari kúa og kinda. Hún ætti ekki að vera að kvarta og kveina um peningaleysi og vaxtabyrði, atvinnuleysi og óáran. Slíka þjóð má auðvitað mjólka enn frekar.

Ekki má gleyma því, að þjóðin hefur sjálf valið sér leiðtoga til að leggja niður skóla og heilsugæzlustöðvar, svo að auka megi peningabrennslu í hefðbundnum landbúnaði og ýmsum gæluverkefnum hins opinbera. Þjóðin hefur fengið þá ríkisstjórn, sem hún á skilið.

Í stórum dráttum hefur í kosningum og kjarasamningum verið staðfest þjóðarsátt um að færa þjóðfélagsgerðina í auknum mæli frá velferðarríki heimilanna yfir í velferðarríki gæludýranna. Meðan þessi þjóðarsátt er í gildi, ætti fólk ekki að vera kvarta yfir kreppu.

Smíði nýs fjárlagafrumvarps mun í sumar markast af þeirri vissu fjármálaráðherra og ríkisstjórnar, að þjóðin lúri enn á aurum, sem hafa megi og beri af henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Aidid og Milosevic

Greinar

Aidid stríðsherra í Sómalíu er afsprengi þjóðahreinsarans Milosevics í Serbíu. Aidid sá, hvað Milosevic komst upp með í Króatíu og Bosníu, og taldi sér einnig kleift að ögra vestrænum siðareglum. Það hefur kostað og mun kosta miklar fórnir að leiðrétta þann misskilning.

Munurinn á þessum tveimur stöðum er fyrst og fremst sá, að í Sómalíu eru Bandaríkin í fyrirsvari vestrænna siðareglna, en í Bosníu og Króatíu er Vestur-Evrópa í fyrirsvari. Það er magnþrota Evrópa þjóðríkja Kohls, Mitterrands og Majors og það er Evrópusamfélag Delors.

Aidid er fyrsta vandamálið, sem siglir í kjölfar uppgjafar vestræns samfélags fyrir fjöldamorðingjunum og stríðsglæpamönnunum í kringum Milosevic í Serbíu. Með því að taka hart á Aidid í Sómalíu eru Bandaríkin að reyna að stöðva flóðgáttina, sem Serbar opnuðu.

Serbar eru nú að undirbúa enn meira blóðbað í Kosovo, enda vita þeir, að viðvaranir og hótanir Vesturlanda hafa reynzt og munu reynast gersamlega innihaldslausar. Það blóðbað verður að verulegu leyti skrifað á reikning linra forustumanna stærstu Evrópuríkjanna.

Síðan mun Milosevic beina athyglinni að Vojvodina, þar sem Ungverjar búa. Það verður lærdómsríkt fyrir aðra harðlínukomma, sem ráða ríkjum í Slóvakíu og Rúmeníu og langar til að dreifa huga fólks með því að hreinsa ungverska þjóðernisminnihluta heima fyrir.

Þjóðahreinsanir eru hafnar í sumum ríkjum Kákasus og munu bresta á víðar í þeim ríkjum, sem spruttu upp í kjölfar andláts Sovétríkjanna. Sigur á glæpaflokki Aidids í Sómalíu nægir ekki sem fordæmi til að vega upp á móti ósigri fyrir glæpaflokki Milosevics á Balkanskaga.

Athyglisvert er getuleysi Evrópusamfélagsins á þessu sviði. Það er hernaðarlega máttlaust, þótt það sé sérstaklega ofbeldishneigt í viðskiptum við umheiminn, reisi tollmúra gegn Austur-Evrópu og þriðja heiminum og hamli gegn samkomulagi um alþjóðlegar tollalækkanir.

Uppgjöf Vestur-Evrópu fyrir fjöldamorðingjum og fjöldanauðgurum Milosevics sýnir, að Evrópa er ófær að sameinast á æðra plani og mun áfram velta sér upp úr viðskiptaþröngsýni Evrópusamfélagsins undir yfirborði blaðurs um ódáinsakra Maastricht-samkomulags.

Uppgjöf Atlantshafsbandalagsins fyrir mestu stríðsglæpamönnum síðustu áratuga sýnir, að tilverurétti þess lauk með hruni Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins. Atlantshafsbandalagið hefur misst af tækifæri til framhaldslífs á breyttu sviði og mun ekki ná því aftur.

Öll vestræn framganga í máli Milosevics einkennist af vilja- og getuleysi þjóðarleiðtoga og sáttasemjara, sem hafa misst sjónar á helztu forsendum vestræns samfélags. Þeir haga seglum eftir vindi án þess að hafa neitt markmið fyrir stafni. Þeir sitja, en stjórna ekki.

Með markvissum aðgerðum fyrir hálfu öðru ári hefði Vestur-Evrópa getað komið í veg fyrir blóðbaðið á frumstigi þess. Í stað aðgerða var hafið fáránlegt ferli friðarsamninga og málamiðlunar, sem gaf Serbum tækifæri og tíma til að efna til martraðarinnar í Bosníu.

Það hefði kostað Vestur-Evrópu litlar fórnir að stöðva Milosevic, þegar hann réðst á menningarsöguna í Dubrovnik og gaf umheiminum óhugnanlega innsýn í þjóðargeðveiki Serba. Núna neita vestrænir leiðtogar að taka afleiðingunum af þeim fyrri mistökum sínum.

Afleiðing getuleysis og viljaleysis vestrænna ráðamanna endurspeglast ekki bara í blóðbaði Milosevics í Bosníu, heldur einnig í blóðbaði Aidids í Sómalíu.

Jónas Kristjánsson

DV