Greinar

Sunnudagafoss

Greinar

Það var sterk persóna, sem átti Gullfoss og neitaði að láta hann í té til orkuöflunar, þegar verkfræðingahættu bar að höndum snemma á öldinni. Annar einstaklingur í sömu sporum hefði ef til vill fórnað fossinum fyrir nokkra skildinga, landi og þjóð til óbætanlegs tjóns.

Nú hafa ríki og stofnanir á þess vegum fyrir löngu eignazt allan nýtingarrétt á fossum landsins. Þar með ætti brask með fossa að vera úr sögunni. Því miður hefur það síður en svo leitt til minni hættu á, að verkfræðingar fái að spilla nokkrum frægustu fossum landsins.

Fyrir nokkrum áratugum gældu opinberir verkfræðingar við hugmynd um að virkja Gullfoss á þann hátt, að hleypt yrði vatni á fossinn á sunnudögum, svo að hægt yrði að skipuleggja skoðunarferðir þrátt fyrir nýtinguna. Hugmyndin var að sjálfsögðu hlegin í hel.

Þessi draugur er enn kominn á kreik. Nú er fórnardýrið Dettifoss, kraftmesti og hrikalegasti foss landsins. Draugurinn var vakinn upp á draumóraráðstefnu verkfræðinga og embættismanna um að leggja hund til útlanda til flutnings á niðurgreiddu rafmagni.

Verkfræðingar ættu að takmarka drauma sína við virkjanir, sem eru í samræmi við orkuþörf þjóðarinnar. Stóriðjudraumar hafa reynzt okkur dýrt spaug, svo sem Blönduvirkjun sannar. Órar um rafmagnshunda á sjávarbotni munu geta orðið okkur margfalt dýrari.

Þjóðin greiðir niður rafmagn til járnblendiverksmiðju á Grundartanga, sem rambar á barmi gjaldþrots, og pumpar þar á ofan í hana opinberu fé á nokkurra mánaða fresti. Og það er umdeilanlegt bókhaldsatriði, hvort orkan til álversins í Straumsvík stendur undir sér.

Hingað til hefur reynzt seintekinn gróðinn af stóriðjunni, enda hefur hún að mestu blómstrað í skjóli opinbers handafls, en ekki verið náttúruleg útvíkkun á íslenzku atvinnulífi eða á þekkingu og hugviti, sem þróast á löngum tíma á helztu vaxtarsvæðum atvinnulífsins.

Ef verkfræðingar og embættismenn eru að reyna að reikna gróða í óra sína, er lágmarkskrafa, að þeir haldi útreikningunum innan ramma verðmætamats þjóðarinnar. Ef rafmagnssala til útlanda kostar virkjun Dettifoss, er farsælast að gleyma henni umsvifalaust.

Náttúruverndarráð er annað dæmi um, að ekki er allt fengið með opinberu tangarhaldi á málefnum þjóðarinnar. Sú opinbera stofnun hefur stundum vakið óhagkvæma athygli, eins og þegar hún losaði sig við landvörð fyrir að bægja opinberum veiðiþjófum frá Veiðivötnum.

Nú hefur forstjóri þessarar opinberu stofnunar sagt í viðtali við DV, að halda verði Dettifossi í “ásættanlegu vatnsmagni yfir ferðamannatímann”. Þar með er gamli draugur hugmyndarinnar um sunnudagafossa kominn að nýju á kreik, en nú í formi sumarfossa.

Ummæli forstjóra íslenzkrar náttúruverndar sýna, að sá málaflokkur er síður en svo öruggur í faðmi hins opinbera. Það verður ekki Náttúruverndarráð, sem bjargar Dettifossi. Fólkið í landinu verður sjálft að kveða niður ótrúlega seigan draug sumar- og sunnudagafossa.

Við erum svo heppin þjóð, að við þurfum ekki að velja. Við eigum meira en nóga orku til okkar þarfa, bæði vatnsorku og jarðhita, án þess að þurfa að fórna neinum frægum fossi. Við getum meira að segja komið á fót margvíslegri stóriðju án slíkra örþrifaráða.

Draumar fá stundum eigið líf, ef ekki er gripið í taumana í tæka tíð. Þjóðin þarf að senda skýr skilaboð um andstöðu við sumar- og sunnudagaútgáfu af Dettifossi.

Jónas Kristjánsson

DV

Hún hefur gefizt upp

Greinar

Hallinn nemur átján milljörðum á drögum fjárlagafrumvarps næsta árs. Á fundi sínum í dag mun ríkisstjórnin reyna að horfast í augu við óvættina og hefja fálm við að koma henni niður fyrir tíu milljarða. Það væri samt gífurlega mikill halli, enn eitt Íslandsmet.

Tíu eða átján milljarða hallinn stafar ekki af aðgerðum til að auðvelda sjávarútveginum að lifa af fyrirsjáanlegan aflabrest. Ef ríkisvaldið hleypur undir bagga meðan þorskstofnarnir hafa ekki náð sér, mun fjárlagahallinn vaxa upp úr tölunum, sem hér hafa verið nefndar.

Svo virðist sem ráðherrar telji sig hafa sparað í botn á þessu ári og treysti sér ekki til að spara meira á næsta ári. Þar við bætist, að fjármálaráðherra hefur ekki bein í nefinu til að knýja fram aukinn niðurskurð. Ríkisstjórnin er því máttvana gagnvart óvætt fjárlagahallans.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin muni einkum beita skattahækkunum og lántökum til að minnka hallann. Þannig mun hún stækka ríkisgeirann af minnkandi þjóðarköku. Það er ekki gæfuleg leið, enda dregur hún úr getu atvinnulífsins til að standa undir yfirbyggingunni.

Þetta þrýstir líka vöxtum upp á við. Af síðustu tilboðum í ríkisvíxla má ráða, að ríkið mun vafalítið halda þeim upptekna hætti að hafa forustu í slagsmálum lántakenda um peninga lánveitenda. Ríkisstjórnin mun því gera að engu vonir manna um frekari lækkun vaxta.

Þannig mun ríkisstjórnin beita skaðlegum aðferðum við að ná fjárlagahalla næsta árs úr átján milljörðum í tíu. Síðan mun hún missa nokkra milljarða til baka, þegar hún reynir að verja sjávarútveginn falli í kjölfar óhjákvæmilegra aðgerða til að stöðva ofveiði á þorski.

Ríkisstjórnin mun reyna að afsaka sig með aðild sinni að síðustu þjóðarsátt, sem setur skorður við sparnaði. Samkvæmt henni lofaði ríkisstjórnin að verja tveimur milljörðum til skópissinga í formi atvinnubótavinnu og til handaflsaðgerða í von um nýsköpun í atvinnulífi.

Athyglisverðast er, að ríkisstjórn, sem hefur fyrst allra ríkisstjórna alveg misst tökin á ríkisfjármálunum, lætur sér alls ekki detta í hug að höggva í þá rúmlega tuttugu milljarða, sem hinn hefðbundni landbúnaður kúa og kinda kostar þjóðarbúið á hverju einasta ári.

Þetta er í samræmi við þjóðarsáttina. Aðilar vinnumarkaðarins létu sér alls ekki detta í hug, að neitt samhengi væri milli vaxandi þjóðareymdar annars vegar og rúmlega tuttugu milljarða árlegrar sóunar þjóðfélagsins í varðveizlu úreltra atvinnuhátta og ofbeitar.

Tilraunir sjórnvalda til að draga úr óheyrilega dýrri offramleiðslu á búvöru hafa ekki leitt til sparnaðar, hvorki hjá skattgreiðendum né neytendum. Hinir fyrrnefndu eru í ár látnir greiða níu milljarða á fjárlögum og hinir síðarnefndu tólf milljarða í of háu vöruverði.

Meðan þjóðin sem heild sættir sig við tvo framsóknarflokka í ríkisstjórn, þrjá framsóknarflokka í stjórnarandstöðu og nokkra framsóknarflokka til viðbótar hjá aðilum vinnumarkaðarins, mun hún sökkva dýpra í fen atvinnuleysis og fátæktar, vonleysis og landflótta.

Þessi þjóðarvilji endurspeglast meðal annars í ríkisstjórn, sem hefur enga stjórn á fjármálum ríkisins, slær hvert Íslandsmetið á fætur öðru í fjárlagahalla, fer senn að slá Íslandsmet í sköttum og hefur forustu um að flytja þjóðfélagið aftur í tímann til mun lakari lífskjara.

Ríkisstjórnin, sem á fundinum í dag horfist í augu við átján milljarða halla á drögum fjárlagafrumvarps, veldur ekki hlutverkinu og hefur gefizt upp við að reyna það.

Jónas Kristjánsson

DV

Glatað jarðsamband

Greinar

Samkvæmt kenningu nýja heilbrigðisráðherrans eru góð mál jafnan óvinsæl. Hann var þá að þrjózkast við að verja hústurna í miðbæ Hafnarfjarðar, sem helmingur kjósenda hafði mótmælt skriflega. Nú kemst hann í félagsskap, þar sem svona kenning hefur hljómgrunn.

Formenn stjórnarflokkanna hafa notað þessa kenningu til að afsaka lítið fylgi og mikla andstöðu. Þessi hroki er sjúkdómur, sem sækir á suma stjórnmálamenn, sem komast áfram. Hann leiðir venjulega til þess, að stjórnmálamenn glata jarðsambandi og síðar völdum.

Þótt sumir menn hafi reynzt fljótir að svara fyrir sig í kappræðu og snúa út úr gagnrýni, ætti það ekki að gefa þeim tilefni til að ímynda sér, að þeir séu merkari og gáfaðri en annað fólk, og því síður til að telja sér trú um, að þeir geti stjórnað ríkinu á farsælan hátt.

Fyrirlitning á kjósendum er hættulegur sjúkdómur, jafnvel þótt raða megi upp dæmum um, að þeir séu fljótir að gleyma og sætti sig við einkavinavæðingu og aðra spillingu ráðamanna. Hugsanlega er hægt að ganga fram af fólki, þótt það hafi reynzt seinþreytt til vandræða.

Skoðanakannanir benda til, að hinir sjálfsánægðu leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu séu orðnir afar óvinsælir. Fólk ber ekki lengur traust til þeirra, sem stunda pólitískar burtreiðar og slá um sig með slagorðum og útúrsnúningum í málfundastíl frá menntaskólaárunum.

Þumbaralegur Halldór Ásgrímsson nýtur meira trausts en skrumkenndur Steingrímur Hermannsson. Alvörugefin Jóhanna Sigurðardóttir nýtur meira trausts en gleiðgosalegur Jón Baldvin Hannibalsson. Þetta eru merki þess, að kjósendur séu að læra af reynslunni.

Ólafur Ragnar Grímsson er óvinsæll, en nýtur skorts á hæfileikafólki í flokki sínum. Það skjól hefur Davíð Oddsson ekki í sama mæli, enda nýtur broslaus Þorsteinn Pálsson meira trausts en borgarstjórastjarnan, er sumir töldu vera eins konar Ólaf Thors endurborinn.

Menn virtu Halldór Ásgrímsson fyrir þrjózkuna, þegar hann var sjávarútvegsráðherra og virðast að sinni vilja láta Þorstein Pálsson njóta hins sama. Jóhanna Sigurðardóttir nýtur sömuleiðis virðingar fyrir að berjast af hörku fyrir því, sem hún telur vera grundvallarsjónarmið.

Með þessu er alls ekki sagt, að Halldór Ásgrímsson, Þorsteinn Pálsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafi jafnan réttar fyrir sér en Ólafur Ragnar Grímsson, Steingrímur Hermannsson, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson. En stíll hinna síðarnefndu er að eldast illa.

Faðmlög sjónvarps hafa stuðlað að hnignun og hruni flokksformanna og helztu ráðherra. Fréttatímar eru að nokkru byggðir upp af daglegum viðtölum við nokkra menn, sem hafa munninn fyrir neðan nefið og komast upp með útúrsnúninga í málfundastíl menntaskóla.

Smám saman verða áhorfendur leiðir á þessu stagli og fara um leið að sjá í gegnum málfundatæknina. En þá eru hinir sjálfumglöðu orðnir fastir í sjónvarpsnetinu, geta hvorki hætt að blaðra né breytt framgöngu sinni. Traustið lekur smám saman burt og kemur ekki aftur.

Það er síður en svo gott veganesti fyrir nýja ráðherra að vera þekktir að svipuðum stælum og þeim, sem hafa gert þjóðina afhuga leiðtogum stjórnmálaflokkanna. Hvort tveggja er að verða úrelt, málfundatækni menntaskólaáranna og jafnvel fyrirlitningin á kjósendum.

Svo kann að fara, að þjóðin missi skyndilega þolinmæðina á sama hátt og Ítalir. Þegar það gerist, verður gamla og málglaða stjórnmálaaðlinum sópað af borðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Stólar & stöður hf.

Greinar

Alþýðuflokkurinn er þessar vikur að ná ýmsum helztu markmiðum stjórnarsamstarfsins. Tveir ráðherrar flokksins fá úthlutað af ránsfeng flokkakerfisins og formaður fjárveitinganefndar fær sama hlut af þessum ránsfeng fyrir að láta öðrum eftir ráðherraembætti.

Jón Sigurðsson bankaráðherra fær á næstunni úthlutað hægum sessi seðlabankastjóra, Eiður Guðnason umhverfisráðherra fær fljótlega úthlutað friðarstóli sendiherra í Osló og Karl Steinar Guðnason fær síðar í sumar úthlutað legubekk forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins.

Stjórnmálaflokkarnir telja ekkert athugavert við, að flestar toppstöður opinbera geirans séu skipaðar fólki, sem hefur það eitt sér til ágætis að vera í stjórnmálaflokknum, sem samkvæmt kvótakerfi flokkanna og flokksstimpli ráðherra telst eiga stólinn og stöðuna.

Kjósendur eru sáttir að kalla við þessa tilhögun og ætlast ekki heldur til neinna afreka af þeim, sem fá úthlutað af ránsfeng flokkanna. Samkvæmt íslenzkri málvenju heita vel launuð embætti “stólar” og lakar launuð embætti “stöður”. Þau heita alls ekki “störf”.

Íslendingar stukku úr miðöldum inn í nútíma án þess að sæta eldskírn hinnar borgaralegu byltingar, sem afnam forréttindi yfirstéttarinnar og kom á fót sérstæðu kerfi valddreifingar og siðvæðingar, sem oft er kallað lýðræði. Við erum enn þegnar, ekki orðnir borgarar.

Þess vegna telja margir Íslendingar ásættanlegt náttúrulögmál, að til sé í landinu yfirstétt, sem ekki þurfi að réttlæta stöðu sína með afreksverkum, heldur sé bara til eins og af guðs náð. Bankastjórar verða þó helzt að kunna til verka í laxveiði og geta stundað villt útlán.

Með stuðningi kjósenda hafa íslenzkir stjórnmálamenn komizt upp með að halda áfram að haga sér eins og ránsgreifar frá miðöldum. Markmið þeirra er að komast í skammvinnt sæluríki ráðherradóms til að nota þá vist til að útvega sér varanlegra embætti opinbert.

Þetta er þjóðhagslega óhagkvæm aðferð við að skipa toppstöður. Íslendingar eru fámenn þjóð og hafa ekki efni á að hafna hæfum mönnum á þeim forsendum, að þeir eru annað hvort ekki á framfæri stjórnmálaflokks eða ekki á framfæri rétta flokksins þá stundina.

Þetta er líka þjóðhagslega óhagkvæm aðferð við að reka stjórnmálaflokka. Í rauninni verða þeir málefnalega hver öðrum líkir, því að öll orka ráðamanna þeirra fer í myndun eiginhagsmunabandalaga um að komast í aðstöðu og peninga, stöður og stóla, spillingu og lax.

Þannig verða minni spámenn veðurstofustjórar og tímabundnir framkvæmdastjórar sjónvarps, en hinir meiri verða seðlabankastjórar, sendiherrar í Osló og forstjórar Tryggingastofnunar. Sameiginlegt þeim öllum er, að þeir eru ekki manna hæfastir til embættisins.

Á öllum þessum sviðum eru til ágætir fagmenn, sem ekki verða kallaðir til afreka, af því að þeir eru ekki hluthafar í félaginu Stólar & stöður. Við eigum ágæta fagmenn í fjármálum, mannasiðum, rekstrartækni og stjórnun, sem eru hæfari hinum útvöldu ránsgreifum.

Sumarið 1993 er mögnuð staðfesting á seiglu hins séríslenzka miðaldakerfis ábyrgðarlausrar yfirstéttar. Í einum pakka fær duglegasti spillingarflokkurinn úthlutað á næstu vikum fjölmörgum gullum af sameiginlegum ránsfeng flokkanna. “Stólar & stöður hf.” eru í blóma.

Svona verður ástandið áfram, þjóðinni til ófarnaðar og ógæfu, meðan hún sættir sig við stjórnmálaflokka, sem eru reknir eins og hlutafélag um stóla og stöður.

Jónas Kristjánsson

DV

Aukið sjónvarp

Greinar

Eitt af því, sem gæta þarf við nýtingu á nýjum geira ljósvakans til aukins sjónvarps, er kostnaður við móttöku rása á geiranum. Æskilegt er, að notendur geti notað sama loftnetið við að taka við þeim 23 rásum, sem rúmast á geiranum, og sama afruglarann til að ná myndinni.

Þetta þýðir, að rétthöfum rásanna ber að koma sér saman um sendingarstað og afruglunarkerfi, jafnvel þótt þeir standi að öðru leyti í samkeppni. Sameiginlegt afruglunarkerfi kemur alls ekki í veg fyrir, að hver rétthafi fyrir sig geti haft eigin læsingar á sínu efni.

Annað brýnt atriði er, að ekki sé mörgum af þessum 23 rásum fórnað til að senda samhliða fleiri en eina útsendingu af sömu gervihnattarásinni. Mikilvægt er að nýta sem bezt hvern þann geira ljósvakans, sem bætist við, því að mikill kostnaður fylgir hverjum nýjum geira.

Þetta þýðir, að þeir rétthafar rásanna, sem hyggjast nota þær að einhverju leyti til viðstöðulauss endurvarps efnis frá gervihnöttum, ættu að koma sér saman um þetta endurvarp. Sameiginlegt endurvarp kemur ekki í veg fyrir samkeppni í eigin dagskrám rétthafanna.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að ekki sé fórnað rásum til að raka dreifarnar, það er að ná til skuggasvæða á Faxaflóasvæðinu. Til þess að fullnýta rásirnar 23 er skynsamlegt að nota kapal til að koma efninu til þessara svæða í stað þess að taka þrjár rásir undir hverja sendingu.

Þetta er rökrétt afleiðing þess, að geirinn, sem senn verður tekinn í notkun, er stundum kallaður “kapall í lofti”. Líta ber á hann sem eins konar ódýran kapal, sem ekki er fullkomin lausn og getur kallað á hefðbundinn kapal í jörð til uppfyllingar á skuggasvæðum geislans.

Þetta þýðir, að rétthafar rásanna ættu að koma sér saman um lagningu hefðbundins kapals um skuggasvæðin, þegar komið hefur í ljós, hver þau eru. Þetta þriðja atriði er eins og fyrri atriðin tvö fyrst og fremst þjóðhagslegt sparnaðar- og hagvæmnisatriði, sem hafa ber í huga.

Með því að nýta rásirnar 23 sem bezt er hægt að gera skömmtunina til rétthafanna sem minnsta. Forðast ber mistökin frá núverandi sjónvarpsgeira, sem er illa nýttur og hefur komið á fót tvíokun Ríkisútvarpsins og Íslenzka sjónvarpsfélagsins í aðgangi að núverandi loftnetum.

Þegar geiri springur, verður mismunun milli rétthafa. Þeir, sem ekki komast fyrir á eldri geira, verða að fara yfir þann þröskuld, að notendur hafa ekki móttökubúnað. Þeir rétthafar, sem fara á nýjan geira, hafa því snöggtum lakari aðstöðu en þeir, sem eru á gamla geiranum.

Þetta þýðir ekki aðeins, að nýta ber hvern nýjan geira sem bezt, heldur einnig, að hver nýr geiri er verðminni en þeir, sem fyrir eru í notkun. Þetta skiptir máli, ef stjórnvöld taka upp þá nýju stefnu að selja eða leigja réttinn til að nota ljósvakann til sjónvarps.

Slík stefnubreyting er hugsanleg, alveg eins og stjórnvöld gætu farið að selja eða leigja aðgang að fiskimiðunum, sem eru miklu takmarkaðri auðlind en ljósvakinn í loftinu. Slíkt væri pólitísk ákvörðun, sem yrði þá að beita af víðsýni og réttlæti og til eflingar samkeppni.

Ef sú verður niðurstaðan, er rétt að verðleggja núverandi sjónvarpsgeira Ríkisútvarpsins og Íslenzka sjónvarpsfélagsins margfalt dýrar en geirann, sem nú hefur verið ákveðið að opna. Þegar þriðji geirinn verður síðar opnaður, ber að verðleggja hann enn lægra en hina fyrri.

Atriðin, sem hér hafa verið nefnd, eru viðráðanleg. Hinn nýi sjónvarpsgeiri getur því farið vel af stað og orðið til að auka fjölbreytni sjónvarpskosta almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Seðlabankanum að kenna

Greinar

Seðlabankinn ber ábyrgð á skjótfengnum tekjum nokk-urra aðila, sem stunduðu öruggt gjaldeyrisbrask áður en markaðsskráning gengis var tekin upp um mánaðamótin. Fyrir þann tíma var gengisskráning bankans svo barnaleg, að spákaupmenn í gengi áttu auðveldan leik.

Um langt árabil hefur verið lagt til í leiðurum DV, að Seðlabankinn hætti að skrá þykjustugengi sitt og gefi gengisskráningu gjaldmiðla frjálsa. Þetta hefur nú loksins gerzt að nokkru, en aðeins vegna þess að komið hefur í ljós dæmi um stórfellda brotalöm í kerfinu.

Raunar var það fréttastofa Reuters, sem skráði gengi gjaldmiðla fyrir Seðlabankann. Síðdegismat Reuters á stöðu gjaldmiðla var notað í Seðlabankanum við opnun gjaldeyrisdeilda morguninn eftir. Þeir, sem áttuðu sig á þessu, gátu notað svigrúmið til gróðamyndunar.

Spákaupmenn notuðu upplýsingar fjármálaþjónustu Reuters til að færa milli gjaldeyrisreikninga fyrir lokun bankanna og biðu svo í rólegheitum eftir gróðanum, sem birtist í síðbúinni gengistöflu Seðlabankans morguninn eftir. Þetta var nærri gulltrygg spákaupmennska.

Athyglisvert er, að viðskiptabankarnir, sem höfðu tapað stórfé á þessu um árabil, skyldu ekki átta sig fyrr en á þessu ári. Það er gott dæmi um, að þeir eru ekki nógu vel reknir, svo sem útlánastefna þeirra og hrikalegar afskriftir hafa einnig sýnt á undanförnum árum.

Alvarlegast er þetta mál þó fyrir Seðlabankann. Það er stofnun, sem aðalbankastjórinn töfraði upp úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum og gerði bókstaflega að stærsta virki blýantsnögunar í þjóðfélaginu. Þar sitja um 150 manns með 600 milljón króna árlegum kostnaði.

Seðlabankinn hefur haft einkar óljós verkefni og sinnt þeim illa. Hann hefur séð um tilfærslu á fjármagni af almennum lánamarkaði yfir á sérréttindaborð stjórnvalda, með milljarðatjóni fyrir þjóðarbúið. Og hann hefur þótzt vera að skrá gengi krónunnar í alvöru gjaldmiðlum.

Nú hefur komið í ljós, að Seðlabankinn framkvæmdi þessa gengisskráningu með því að nota síðdegistölur Reuters, liggja á þeim í um það bil sautján klukkustundir og birta þær síðan að morgni. Seðlabankinn afsalaði þannig gengisskráningarhlutverkinu í hendur Reuters.

Þetta gaf gjaldeyrisbröskurum það svigrúm, sem þeir þurftu til að græða á tá og fingri, í fyrsta lagi á kostnað bankanna og síðan óbeint á kostnað viðskiptavina bankanna, er þurfa að borga brúsann með óheyrilegum vaxtamun, sem er einsdæmi meðal auðþjóða heims.

Frammistaða Seðlabankans á þessu sviði kemur ekki á óvart. Þetta er ekki bara gagnslaus stofnun, heldur beinlínis skaðleg. Við þurfum enga stofnun til að skrá gengi, sem á að skrá sig sjálft, og enga stofnun til að gera peninga arðminni með því að taka þá af markaði.

Við getuleysið í meðferð mála, sem virki blýantsnagara hefur sankað að sér, bætist svo fordæmið, sem Seðlabankinn hefur löngum gefið stjórnendum í bankakerfinu, þar sem sameinast lífsstíll stórbokka og getuleysi í starfi. Seðlabankinn hefur leitt fínimannsleikinn.

Veruleikafirring bankastjóra og bankaráðsmanna, sem birtist í, að bankar reka saklaust láglaunafólk úr starfi tugum samam, en hlífa hverjum einasta stórbokka og fást ekki einu sinni til að fella niður laxveiðiferðir þeirra, á hornstein sinn í sandkassa Seðlabankans.

Gengisbraskið var lítið dæmi um þetta. Það var ekki spákaupmönnum að kenna, heldur Seðlabanka, sem gegndi ekki hlutverkum, er hann sankaði að sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt hin mesta?

Greinar

Formenn stjórnarflokkanna, forsætisráðherra og utanríkisráðherra ríkisstjórnarinnar, hafa afhent frumkvæði efnahagsaðgerða í hendur sjávarútvegsráðherra. Þetta gerðu þeir með yfirlýsingum í fjölmiðlum um helgina. Forsætisráðherra gerði það með greinilegri fýlu.

Áhorfendur skildu þetta svo, að það væri mátulegt á ráðherra, sem ónáðaði samráðherra sína á þann hátt, að stofnun á hans vegum legði til minnkun á þorskafla niður í 150 þúsund tonn, þótt forsætisráðherra væri sjálfur búinn að segja, að þjóðin þyldi ekki niðurskurð.

Sjávarútvegsráðherra lét sér ekki bregða við þessar geðstirðu yfirlýsingar og kvaðst vera sammála: “Það er miklu hagkvæmara að hafa báða þætti málsins til meðferðar í sama ráðuneyti, bæði nýtingarstefnuna og það, sem lýtur að efnahagslega þættinum,” sagði hann.

Sjávarútvegsráðherra minnti á það í leiðinni, að samráðherrar hans hefðu nú loksins fallizt á ársgamlar tillögur hans um nýtingu aflaheimilda, þótt þeir hefðu neitað að gera það fyrir ári. Nú er þessi stefna sjávarútvegsráðherra múruð í bráðabirgðalögum, er sett voru fyrir helgi.

Óneitanlega er undarlegt að flytja frumkvæði í stjórn efnahagsmála á þennan hátt úr forsætisráðuneytinu yfir í sjávarútvegsráðuneytið. Það setur forsætisráðherra og utanríkisráðherra í erfiða stöðu, þegar þeir þurfa að fjalla um efnahagstillögur sjávarútvegsráðherra.

Ef þeir taka tillögunum dræmt eða illa, verður sagt, að þeir séu enn í fýlu. Ef þeir taka þeim vel, verður sagt, að sjávarútvegsráðherra sé klettur ríkisstjórnarinnar. Erfitt er að spá um, hvort verði þeim sárara, því að hrifning þeirra á sjávarútvegsráðherra er takmörkunum háð.

Þetta hefur forsætisráðherra verið sagt. Hann lagði því til í ríkisstjórninni eftir yfirlýsingahelgina, að efnt yrði til starfshóps ríkisstjórnar, stjórnarandstöðu og aðila vinnumarkaðarins til að leita leiða til að laga stöðu sjávarútvegsins í kjölfar samdráttar í þorskveiðikvóta.

Þetta er góð hugmynd, þótt hún sé þeim annmörkum háð, að forsætisráðherra hefur sjálfur hafnað óskum stjórnarandstöðunnar um, að Alþingi verði kvatt saman til að ræða hina nýju stöðu. Það er því eins líklegt, að stjórnarandstaðan telji sig áður hafa verið afskrifaða.

Auðvitað væri þægilegt fyrir ríkisstjórnina, ef hún fengi stjórnarandstöðuna og samtök vinnumarkaðarins til að fara yfir efnahagstillögur sjávarútvegsráðherra og slípa þær, áður en forsætisráðherra og utanríkisráðherra gera þær að sínum. Og það gæti verið gott fyrir þjóðina.

Með tillögunni um afskipti stjórnarandstöðu og vinnumarkaðar af yfirstjórn efnahagsmála hefur forsætisráðherra stigið hálft skref í átt til þjóðstjórnar. Spurningin er þá, hvort ekki beri að taka þessa aðila inn í ríkisstjórn, svo að úr verði söguleg þjóðarsátt hin mesta.

Þótt sjávarútvegsráðherra sé með félagsmálaráðherra annar af tveimur ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem vinna mál sín af kostgæfni, er hætt við, að tillögur hans um lausn efnahagsmála mótist of mikið af hagsmunum sjávarútvegs og dreifbýlisdeildar Sjálfstæðisflokksins.

Því er ágætt, að unnt sé að tempra frumkvæðið, sem sjávarútvegsráðherra hefur verið falið í efnahagsmálum. Ef hægt er að fá stjórnarandstöðu og vinnumarkað til að manna starfshóp til að fara yfir tillögur hans, eru nokkrar líkur á, að þjóðin geti snúið bökum saman.

Þetta mikla efnahagsáfall kallar á mikla þjóðarsamstöðu um að taka allan skellinn niður í 150 þúsund tonn og finna efnahagsleiðir til að þreyja nokkur mögur ár.

Jónas Kristjánsson

DV

150 þúsund tonn

Greinar

Flestir talsmenn hagsmunaaðila í sjávarútvegi hafa tekið af raunsæi tillögum Hafrannsóknastofnunar um 150 þúsund tonna þorskveiði á næsta fiskveiðiári. Þeir telja óhjákvæmilegt, að farið verði eftir tillögunum, þótt það kosti mikinn samdrátt þjóðartekna í næstu tvö ár.

Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambandsins, segir: “Það er ekki hægt að berja hausnum við steininn. ŠEf menn hunza þessar tillögur, er hætta á, að stofninn hrynji.” Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands útvegsmanna, tekur í sama streng:

“Šég tel, að fiskifræðingar viti bezt um ástand fiskistofna. ŠVið verðum að leita allra leiða til að reyna að fara eftir þessum tillögum. ŠVið erum í þessari alvarlegu stöðu í dag, þar sem við höfum hingað til tekið of lítið mark á tillögum fiskifræðinga.”

Eins og oftar áður reynast hagsmunaaðilar í sjávarútvegi fremur hafa langtímasjónarmið í huga heldur en stjórnmálamennirnir, sem flestir eru ófærir um að hugsa lengra en til næstu kosninga, í þessu tilviki til tveggja ára. Þess vegna munu stjórnmálamennirnir bregðast.

Sjávarútvegsráðherra hefur þegar gefið falskan tón með því að segja óskynsamlegt að veiða meira en 175 þúsund tonn af þorski. Það er röng lýsing á afleiðingum slíkrar ofveiði. Hrapallegt væri að veiða slíkt magn, en óskynsamlegt að veiða meira en 150 þúsund tonn.

Við 175 þúsund tonna veiði mun veiðistofninn halda áfram að minnka og hrygningarstofninn standa í stað, auk þess sem tekin er veruleg áhætta af endanlegu hruni þorskstofnsins, ef nýliðun heldur áfram að vera eins slæm og verið hefur. Slík ofveiði mun fljótt hefna sín.

Ef farið verður eftir 150 þúsund tonna tillögunni, má hins vegar gera ráð fyrir, að þorskstofninn fari að vaxa að nýju og að auka megi veiðina að tveimur árum liðnum. Á fáum árum yrðu heildartekjur þjóðarinnar orðnar meiri en þær verða með veiði, sem er umfram tillögurnar.

Þetta mundi gerast mun hraðar, ef þorskveiðin yrði færð niður í 125 þúsund tonn í þrjú ár. Þá mætti búast við, að veiðin gæti aftur farið yfir 225 þúsund tonn á ári undir lok áratugarins, það er að segja eftir svo sem tvö ár til viðbótar, sem er um það bil fimm ár héðan í frá.

Hafrannsóknastofnunin hefði raunar átt að mæla með 125 þúsund tonna hámarksafla, af því að það er hagfræðilega skynsamlegasta leiðin til að byggja sem hraðast upp verðmætan þorskstofn á nýjan leik. Það má sjá af reiknilíkönum, sem hafa verið gerð af þessu tilefni.

Meira að segja mundi borga sig að taka erlend lán til að brúa bilið milli 125 þúsund og 150 þúsund tonna þorskafla og fækka þannig mögru árunum á síðari hluta áratugarins. Vextir af slíkum lánum yrðu mun minni byrði en tekjutapið af völdum fyrirsjáanlegrar ofveiði.

Það væri þá hlutverk stjórnmálamanna að fara í 150 þúsund tonn sem málamiðlun milli langtímastefnu og skammtímastefnu. Nú er hætt við, að þeir fari í 175 þúsund tonn, sem er mjög hættuleg leið og fjárhagslega óhagkvæm, þegar litið er fimm ár eða lengra fram í tímann.

Forsætisráðherra hefur gefið í skyn, að farið verði fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunar, jafnvel enn lengra en sjávarútvegsráðherra hefur sagt. Ummæli beggja markast af þröngum sjóndeildarhring skammsýnismanna, sem miða allt við kosningar eftir tvö ár.

Þjóðin hefur lengi barið höfðinu við steininn, lifað á ofveiði líðandi stundar og jafnvel hlustað á pólitíska skottulækna í fiskifræði. Nú er komið að skuldadögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Í Tevtóborgarskógi

Greinar

Uppgjöf Vesturlanda fyrir barbörum Milosevics markar tímamót í vestrænni sögu, sem minnir á ósigur Rómverjans Varusar í Tevtóborgarskógi. Á hátindi velgengninnar kemur í ljós, að værukær Vesturlönd hafa hvorki siðferði né kjark til að verja hinn vestræna frið.

Uppgjöfin varð formleg á varnarmálaráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles í fyrradag. Þar kom í ljós, að Vesturlönd hyggjast fallast í raun á landvinninga Serba í Bosníu og framlengja marklausar hótanir sínar um aðgerðir gegn auknum landvinningum þeirra.

Vesturlönd bera ábyrgð á blóðbaðinu í Bosníu á þrennan hátt. Þau voru með hótanir, sem slunginn leiðtogi barbaranna vissi, að ekki yrði staðið við. Þau settu vopnasölubann á Bosníumenn, svo að þeir gátu ekki varið sig fyrir illþýði Serba, sem var grátt fyrir járnum.

Í þriðja lagi stóðu Vesturlönd fyrir langdregnum vopnahlés- og friðarviðræðum, er gáfu nauðgarasveitum Serba svigrúm og tíma til þjóðahreinsunar á svæðum, sem þeir unnu af Bosníumönnum. Sáttasemjarar Vesturlanda sýndu ótrúlegan barnaskap á þessu ömurlega ferli.

Allt þetta var fyrirsjáanlegt fyrir hálfu öðru ári, þegar illþýði Serba hóf skipulegar árásir á sjálfa menningarsöguna í Dubrovnik. Þá var strax spáð nokkrum sinnum í leiðurum þessa blaðs, hvernig fara mundi, ef Vesturlönd áttuðu sig ekki á eðli barbarismans hjá Milosevic.

Eftir uppgjöf Atlantshafsbandalagsins getum við slegið föstu, að því hefur ekki tekizt að finna sér nýtt hlutverk eftir andlát Sovétríkjanna og mun ekki takast það. Þess vegna er einsýnt að leggja bandalagið niður og spara Vesturlöndum kostnaðinn af atvinnuleysingjanum.

Eftir uppgjöfina getum við slegið föstu, að hernaðarlegu forustuhlutverki Bandaríkjanna meðal Vesturlanda er lokið. Eftir óvænta uppgjöf Bandaríkjahers í Persaflóastríðinu var spáð í leiðurum þessa blaðs, að Bandaríkin mundu ekki framar heyja stríð að eigin frumkvæði.

Í staðinn koma samráð Norður-Ameríku og Vestur- Evrópu, sem engan veginn vill taka við hlutverki Bandaríkjanna. Úr þessu verður patt, sem hefur haft hörmulegar afleiðingar í Bosníu, næst í Kosovo, síðar í Kákasus, unz eldar brenna á öllum mærum hins vestræna friðar.

Eftir uppgjöfina getum við slegið föstu, að tími leiðtoga er liðinn á Vesturlöndum. Í stað frú Thatcher eru komnir lagnir og liprir undirmálsmenn á borð við Clinton og Mayor, Kohl og Mitterrand. Þeir eru skammtímamenn í hugsun og vilja lengst hugsa til næstu kosninga.

Það er misskilningur, að slíkir menn séu farsælli en raunverulegir leiðtogar, sem hneigist til að rasa um ráð fram. Það eru Chamberlainar nútímans sem soga til Vesturlanda vandamál á borð við Serbíu, alveg eins og gamli Chamberlain magnaði Hitler með undanlátssemi.

Heimurinn er ekki þannig, að vestræn sjónarmið hafi endanlega sigrað og þjóðir Vesturlanda geti búið sælar að sínu. Þvert á móti er ástandið að verða eins og þegar heimsveldi Rómar stóð sem hæst. Þá byrjaði strax það ferli, sem leiddi til hruns hins rómverska friðar.

Vesturlandabúar þurfa að fara að átta sig á, að stjórnmálamenn á borð við Clinton og Mayor, Kohl og Mitterrand og samningamenn á borð við Vance og Owen eru ónytjungar. Við þurfum líka að átta okkur á, að stofnanir á borð við Atlantshafsbandalagið eru sjálfdauðar.

Vestræn menning stenzt ekki, nema haldið sé fast við langtímasjónarmið hennar og barbarisma sé haldið í skefjum í Tevtóborgarskógum hins vestræna friðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfsgagnrýni í kerfinu

Greinar

Hin árlega Íslandsskýrsla efnahagsþróunarstofnunarinnar OECD er ekki Stóridómur útlendinga um árangur eða árangursleysi íslenzkra stjórnvalda í efnahagsmálum. Þessi skýrsla er að verulegu leyti samin í opinberum stofnunum á Íslandi, einkum í Þjóðhagsstofnun.

Hinir íslenzku höfundar skýrslunnar láta þýða á ensku úrdrátt úr sumu af því helzta, sem þeir láta frá sér fara á innlendan markað. Þeir velja þetta efni með hliðsjón af því, sem þeir vita um vestræna hagfræði eins og hún er stunduð í þessum virðulega klúbbi auðþjóða heims.

Þegar íslenzku höfundarnir hafa ritskoðað sjálfa sig, tekur OECD skýrsluna og athugar, hvort hún sé í samræmi við kennisetningar vestrænnar hagfræði. Í samræmi við það er skýrslan snyrt og gefin út undir merkjum og stimpli hinnar virðulegu stofnunar í París.

Að svo miklu leyti sem gagnrýni felst í þessari skýrslu, er um eins konar sjálfsgagnrýni að ræða. Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hafa þarna tækifæri til að koma á framfæri áminningum um ýmis atriði, sem þeir hafa ekki fengið framgengt innanbúðar í kerfinu.

Þar sem innihald þjóðarsátta hefur verið og er enn skemmtileg blanda af óskhyggju og veruleikafirringu, kemur ekki á óvart, að í þessari margfrægu ársskýrslu er varað við aðild ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum og þeim pökkum, sem hún leggur á samningaborðið.

Þegar Þjóðhagsstofnun er búin að þýða þessi sannindi á ensku og síðan þýða þau til baka á íslenzku með stimpli frá París, hljóðar áminningin svona: “Það er einnig mjög mikilvægt, að stjórnvöld fórni ekki festu í ríkisfjármálum fyrir frið á vinnumarkaði og litlar launahækkanir.”

Þessa fórn hefur ríkisstjórnin einmitt fært. Hún hefur lagt tvo milljarða á samningaborðið til að fá helztu samtök launafólks til að semja um engar launahækkanir í hálft annað ár. Ríkisstjórnin hefur tekið pólitískan veruleika fram yfir efnahags- og peningalegan veruleika.

Önnur mikilvæg áminning Þjóðhagsstofnunar, sem fyrst er búið að þýða á ensku og síðan aftur á íslenzku, hljóðar svo: “Samverkandi áhrif umhverfisþátta og ofveiði valda því, að allt eins má reikna með, að áfram verði óhjákvæmilegt að draga úr sókn í þorskstofninn.”

Þetta þýðir, að hagfræðingar kerfisins hafa gert sér grein fyrir, að skera verður niður aflakvóta á þorski í haust. Þeir vita, að stjórnvöld hafa ár eftir ár farið töluvert framúr tillögum Hafrannsóknastofnunar með hræðilegum afleiðingum fyrir þorsk og þjóð.

Forsætisráðherra telur, að taka verði pólitískan veruleika fram yfir fiskifræði- og efnahagslegan. Hann fylgir kenningu forvera síns um að gera mun á því, sem þorskurinn þoli og þjóðin þoli. Í skýrslunni reyna hagfræðingarnir að slá föstu, að þessi röksemd gengur ekki upp.

Skýrslan er ekki síður merkileg fyrir þau atriði, sem ekki eru í henni. Hagfræðingar íslenzka kerfisins hafa sem heild ekki enn áttað sig á stöðu hins hefðbundna landbúnaðar í þungamiðju efnahagsvandræðanna, þótt þar sé fórnað yfir 20 milljörðum króna á hverju ári.

Tala þessi kemur með því að taka meðaltal af tölum, sem hafa komið frá hagfræðingum, sem gegna mikilvægum stöðum í kerfinu. Þótt þeir séu hver fyrir sig þeirrar skoðunar, að landbúnaðurinn sé dýrasti dragbíturinn, taka þeir sem kerfi ekki á málinu í skýrslu sinni.

Meðan hagfræðingar kerfisins taka ekki á landbúnaði eins og þeir taka á ofveiði og þjóðarsáttum, er þægilegt fyrir kerfið að fórna áfram 20 milljörðum á ári hverju.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt

Greinar

Þjóðarsátt náðist í morgun um vinnufrið í landinu í hálft annað ár. Aðilar að sáttinni eru að venju ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins. Sáttin byggist á yfirlýsingu, sem ríkisstjórnin bauð fyrir nokkru og nægði þá ekki til að ná mikilvægustu málsaðilunum um borð.

Dagsbrún og Verkamannasambandið eru komin inn í þjóðarsáttina og gera hana sterka. Fyrir utan standa Sjómannasambandið og samtök opinberra starfsmanna. Þau samtök skipta minna máli, af því að þau geta ekki truflað gangverkið í þjóðfélaginu að neinu ráði.

Ef veiðiflotinn stöðvast um tíma, má líta á það sem hagkvæmt innlegg í torsótta viðleitni til að hamla gegn ofveiði. Nokkurra mánaða stöðvun veiða væri raunar himnasending fyrir framtíð þjóðfélagsins. Þess vegna munu sjómenn ekki fá neitt út úr verkfallsaðgerðum.

Þjóðfélagið stendur hvorki né fellur með vinnuframlagi opinberra starfsmanna, þegar mikið er í húfi. Treyst er á verðmætasköpun atvinnulífsins, en ekki afkastagetu opinbera geirans. Þess vegna munu opinberir starfsmenn ekki fá neitt út úr hugsanlegum verkfallsaðgerðum.

Ríkisstjórnin lofar ekki að beita handafli gegn vöxtum, heldur að haga málum sínum á þann veg, að stuðlað geti að náttúrulegri lækkun vaxta vegna betra samræmis milli framboðs og eftirspurnar. Um leið lofar ríkisstjórnin að verja tveimur milljörðum í atvinnuaukningu.

Erfitt verður að samræma þetta tvennt. Tveggja milljarða innspýting kallar á fjármögnun ríkisvaldsins og annarra aðila, sem telja sig geta aukið umsvif sín af völdum atvinnuskapandi aðgerða og sérstakra verkefna á vegum stjórnvalda. Þetta þrýstir vöxtum upp, ekki niður.

Á einfaldri íslenzku þýðir þetta, að ríkisstjórnin mun annaðhvort ekki standa við tvo milljarðana eða ekki standa við aðgerðir til vaxtalækkunar. Hvorug leiðin kallar á uppsagnarákvæði þjóðarsáttarinnar, sem fjalla bara um gengi og þjóðartekjur, fiskverð og aflabrögð.

Hættulegasta atriði þjóðarsáttarinnar er, að samningsaðilar, þar á meðal fjármálaráðuneytið, skrifa undir, að aflakvótar á næsta fiskveiðiári, sem hefst í haust, verði ekki minni en á þessu fiskveiðiári. Þetta er í rauninni krafa um efnahagslegt sjálfsmorð þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin skrifar undir þetta sem vinnuveitandi, en ekki sem stjórnvald. Hún getur því væntanlega vikið sér undan því að heimila sömu ofveiði á næsta ári og hún hefur leyft á þessu ári. Hún getur það, ef hún vill, með því að vísa til tillagna Hafrannsóknastofnunar.

Líta verður á málsgreinina um óbreytta aflakvóta eins og hvert annað rugl, sem þurfi að vera í þjóðarsáttum, af því að þjóðin sé svo veruleikafirrt, alveg eins og óskhyggja um vaxtalækkun þurfi að vera í þjóðarsáttum, af því að þjóðin vilji fá að lifa í sjálfsblekkingu.

Nytsemi þjóðarsátta af þessu tagi felst ekki í rökréttu innra samræmi þeirra, sem er ekki neitt. Gagnið felst í, að öflugustu stofnanir þjóðfélagsins koma sér saman um að halda friðinn í langan tíma, í þessu tilviki í hálft annað ár. Augljósar þverstæður blikna fyrir þeim ljóma.

Að baki þessarar sáttar eins og hinna fyrri er hin jákvæða staðreynd, að sterkustu öfl þjóðfélagsins hafa meiri áhuga á að vinna saman að uppbyggingu nýrra verðmæta heldur en að berjast til ólífis um skiptingu þeirra verðmæta, sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.

Þjóð, sem byggir bjartsýni sína að nokkru leyti á sjálfsblekkingu, getur eigi að síður náð settu marki, ef hún er eins samhent og jákvæð og þjóðarsáttin sýnir.

Jónas Kristjánsson

DV

Með pípuhattinn

Greinar

Þjóðarleiðtoginn með pípuhattinn hefur verið neyddur til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um eins flokks kerfið, sem lengi hefur verið við lýði í Malaví. Hér á landi er þessi þjóðarleiðtogi betur þekktur sem Jónas frá Hriflu þeirra Afríkumanna að áliti utanríkisráðherra Íslands.

Hjá Ngwazi Hastings Banda fer þjóðaratkvæðagreiðslan fram á þann hátt, að kjörkassar eru tveir, annar fyrir seðla með eins flokks kerfinu og hinn fyrir seðla á móti því. Eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna hefur ekki tekizt að koma í veg fyrir þessa tilhögun.

Kjörkassarnir eru sagðir eiga að vera inni í kjörklefunum. En bófaflokkar Bandas eru þegar farnir að hóta fólki því, að þeir geti séð það og ljósmyndað, ef það stingi atkvæðaseðli sínum í kjörkassa mótatkvæðanna. Fólk þorir því ekki að kjósa á móti skjólstæðingi Íslands.

Erlendis er Banda einkum þekktur fyrir að vera svo langt út af korti mannréttinda, að einungis einn vestrænn stjórnmálamaður hafi virt að vettugi bann hins siðaða heims við heimsóknum valdamanna til Malavís. Það er utanríkisráðherra Íslands, er var þar í febrúar.

Maðurinn með pípuhattinn hefur sett lög um, að þriðjungur Malavíbúa fái ekki að kjósa. Það eru þeir, sem eru 18-21 árs að aldri. Sú athyglisverða undantekning er á þessari reglu, að þeir mega kjósa, ef þeir eru félagar í ungliðahreyfingu einræðisflokks Bandas.

Af því að utanríkisráðuneyti Íslands fylgist mjög lítið með erlendum fréttum, varð það fyrir þeirri ógæfu að senda utanríkisráðherra með fríðu föruneyti í mikla reisu í febrúar til Malavís til að afhenda formlega tvo báta, sem Íslendingar hafa gefið glæpaflokki Bandas.

Vestræn ríki eru hætt að senda aðstoð til Malavís, af því að það er í flokki ríkja, sem mest þurfa á nýju stjórnarfari að halda. Hafi verið um að ræða leifar eldri loforða um aðstoð, hefur afhendingin farið fram í kyrrþey, svo að Banda fái ekki að baða sig í sviðsljósinu.

Maðurinn með pípuhattinn setti nýlega lög um, að bófaflokkar hans væru friðhelgir fyrir kærumálum vegna ofbeldis gegn stjórnarandstæðingum. Í kjölfarið hefur byrjað óöld mannrána, pyndinga og morða á vegum rauðskyrtunga stjórnarflokks Ngwazi Hastings Bandas.

Utanríkisráðherra Íslands er nokkuð sama um, hvaða málstað hann hefur að verja og hefur raunar gaman af að hafa hann sem erfiðastan. Hann telur sig færan í flestan sjó og nýtur þess að ögra því sem eftir er af stjórnmálaflokki þeim, er studdi hann til áhrifa á Íslandi.

Þess vegna hætti Jón Baldvin Hannibalsson ekki við sneypuför sína og Þrastar Ólafssonar til Malavís í vetur, þegar upp komst um fáfræði ráðuneytisins, heldur fullyrti, að maðurinn með pípuhattinn væri hinn merkasti maður og nánast Jónas frá Hriflu þeirra Afríkumanna.

Enginn annar utanríkisráðherra á Vesturlöndum né nokkurt vestrænt utanríkisráðuneyti hefur hliðstæða skoðun á þessum geðveika og miskunnarlausa einræðisherra, sem oft er notaður sem skrípamynd af þeirri álfu, er alið hefur af sér Idi Amin og Mobutu Sese Seko.

Frá endalokum kalda stríðsins hafa Vesturlönd reynt að koma frá þessum Jónasi frá Hriflu, enda eru menn sammála um, að hann sé hataður af öllum þorra manna í Malaví. Efnahagsaðstoð hefur verið stöðvuð til að þrýsta á brottför einræðisherrans og innleiðingu lýðræðis.

Erlendis er hlegið að heimsku ráðuneytis og hroka ráðherra á Íslandi, þar sem ferðahvetjandi ráðherralaun leiða til stuðnings við manninn með pípuhattinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Þorskveiðiseglin rifuð

Greinar

Forsætisráðherra sagði í eldhúsdagsumræðunni á mánudaginn, að ekki væri hægt að skera meira niður leyfilegan þorskafla en þegar hefði verið gert. “Við getum ekki tekið stærri dýfur en við höfum þegar tekið,” sagði hann og fullyrti um leið, að stofninn færi vaxandi.

Í raun fer íslenzki þorskstofninn minnkandi um þessar mundir, af því að ekki hefur verið tekið fullt mark á tillögum fiskifræðinga. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins bera mesta ábyrgð á núverandi ofveiði, því að þeir höfðu í fyrra frumkvæði að 8% hækkun á leyfilegu aflamarki.

Forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra eru samflokksmenn eins og var í næstu ríkisstjórn á undan þessari. Þá lék þáverandi forsætisráðherra svipað hlutverk ábyrgðarleysis, þegar hann, sem frægt er, vildi gera greinarmun á því, sem þorskurinn þyldi og þjóðin þyldi.

Sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar fetað í fótspor forvera síns í Framsóknarflokknum, en ekki haft innanflokksstuðning til að reka hófsemisstefnu. Helzti andstæðingur hans á því sviði er forsætisráðherra, sem hefur knúið fram skammtímasjónarmiðin.

Grundvallaratriði málsins er, að enginn munur er á því, sem þorskurinn þolir og þjóðin þolir. Ef stundarhagsmunir verða áfram látnir ráða ferðinni, verður þorskstofninn eyðilagður á tiltölulega fáum árum og þjóðfélagið fær loksins að horfast í augu við alvörukreppu.

Hafrannsóknastofnunin mælti í fyrra með 190 þúsund tonna þorskafla á einu ári. Í raun fer þorskveiðin 20% upp úr því magni, í 230 þúsund tonn. Þetta er afleiðing léttúðugra og ábyrgðarlítilla stjórnmálamanna, sem neita að horfast í augu við blákaldan veruleika ofveiðinnar.

Þekkingin, sem bætzt hefur við frá í fyrra, gefur ekki tilefni til bjartsýni. Til dæmis benti togararallið í vetur til, að ekki yrði hægt að veiða nema 150-160 þúsund tonn á ári í nánustu framtíð. Ekki hefur frétzt af neinum upplýsingum, sem bendi til annars en hnignunar stofnsins.

Í sjávarútveginum búast menn við, að Hafrannsóknastofnunin muni í nýjum veiðitillögum lækka tölur sínar frá því í fyrra. Ef farið verður eftir ókomnum tillögum hennar, má búast við, að þorskafli eins árs fari úr 230 þúsund tonnum og nokkuð niður fyrir 180 þúsund tonn.

Pólitísk málamiðlun milli þess, sem fiskifræðingar telja þorskinn þola, og þess, sem stjórnmálamenn telja þjóðina þola, hefur gefizt illa um langt árabil. Þorskstofninn hefur verið í samfelldri úlfakreppu og ekki getið af sér neinn góðan hrygningarárgang í tæpan áratug.

Einn af fræðimönnum okkar sagði nýlega í viðtali við DV, að flotinn væri helmingi stærri en hann ætti að vera. Hann sagði, að friða þyrfti þorskinn alveg til aldamóta og leggja síðan þriðjungi flotans, svo að sóknin yrði bærileg upp úr aldamótum. Hann er að tala um sjö mögur ár.

Gróft reikningsdæmi lítur þannig út, að þjóðin neiti sér samtals um eina milljón tonna af þorski í sjö ár til að koma stofninum upp í stærð, sem þolir 250 þúsund tonnum meiri veiði en hann þolir nú. Þjóðin mundi þá ná milljón tonnunum til baka á aðeins fjórum árum.

Að fara eða fara ekki eftir tillögum fræðinga er dæmigerður munur milli langtímahagsmuna, sem gefa meiri arð í heild, og skammtímahagsmuna, sem felast í að ýta vandamálum á undan sér; skrapa það, sem ekkert er; og vera á sífelldu undanhaldi fyrir veruleikanum.

Vonandi tekst forsætisráðherra ekki að knýja fram hugmyndir um óbreytta ofveiði á þorski, því að þær leiða að lokum til gjaldþrots og glötunar þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Pára, pára, pára

Greinar

Umboðsmenn Sameinuðu þjóðanna og Evrópusamfélagsins eru ánægðir með sig núna. Þeir Cyrus Vance og David Owen hafa fengið helztu sérfræðinga heimsins í undirritun ótal friðar- og vopnahléspappíra til að pára í annað sinn undir plagg um skiptingu Bosníu.

Markmið allra hinna tuganna af undirskriftum serbneskra árásar- og útþenslumanna hefur hingað til einungis verið tvennt. Í fyrsta lagi að vinna tíma til að halda áfram þjóðahreinsun í nágrannalöndum Serbíu. Og í öðru lagi að tefja fyrir auknum refsiaðgerðum.

Ef eitthvað annað en þetta tvennt hefur knúið umboðsmenn Serba til að pára nafnið sitt enn einu sinni á friðar- og vopnahlésplagg, þá er það sú stefnubreyting Bandaríkjastjórnar eftir forsetaskiptin, að ráðgjafar Clintons hafa síðustu vikur mælt með hernaðaríhlutun í Bosníu.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafa lýst efasemdum um ágæti nýjasta friðarsamningsins í Bosníu. Þeir segja, að engin ástæða sé til að draga úr undirbúningi hertra refsiaðgerða og fyrstu hernaðaraðgerða, fyrr en Serbar hafa staðið í verki við þau plögg, sem þeir skrifa undir.

Þetta er annar tónn en hjá Vance og Owen, sem hafa sýnt ótrúlegan barnaskap í samskiptum sínum við Serba. Þessi barnaskapur jaðrar við stríðsglæpi, því að hann hefur auðveldað Serbum að halda ótrauðir áfram þeim fólskuverkum, sem öllum er kunnugt um, er vita vilja.

Að baki Vance og Owens eru þeir, sem þyngsta ábyrgð bera á hryllingnum, leiðtogarnir John Mayor, Helmut Kohl og Francois Mitterrand, svo og George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti. Þeir settu vopnakaupabann á Bosníumenn á sama tíma og Serbar höfðu gnægð vopna.

Er þessi ömurlega saga verður rituð, fer ekki hjá því, að hún staðfesti, að ofangreindir landsfeður hafa bakað Vesturlöndum mikinn kostnað. Hún felst í, að glæpir Serba hafa fordæmisgildi, sem mun verða notað víðar í heiminum og valda Vesturlöndum miklum útgjöldum.

Ofan á óhagkvæmnina bætist svo siðleysið, sem Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur afhjúpað með kröftugra orðbragði en notað er í forustugreinum dagblaða. Mayor, Kohl, Mitterrand og Bush hafa komið Vesturlöndum á kaldan klaka siðleysis.

Þegar Serbar réðust á sjálfa menningarsögu Vesturlanda með sprengjukasti á Dubrovnik fyrir hálfu öðru ári, mátti öllum þegar ljóst vera, að ekki var um neina venjulega brjálæðinga að ræða. Síðan hafa þeir fært sig upp á skaftið með sérhverri undirskrift sinni.

Markmið þjóðarleiðtoga Vesturlanda og umboðsmanna þeirra í framleiðslu vopnahlés- og friðarpappíra hefur verið að reyna að láta svo líta út sem þeir væru að gera eitthvað fyrir nágrannaþjóðir Serba og vestræna sjálfsvirðingu án þess að vera að gera neitt í raun.

Eitt hafa Serbar þó gert fyrir Vesturlandabúa. Þeir hafa framkallað aðstæður, sem gera okkur kleift að sjá gegnum eigin valdhafa og stofnanir þær, sem þeir styðjast við. Við sjáum, að evrópsk ríkjasamtök og sjálft Atlantshafsbandalagið eru vitagagnslaus í hermálum.

Eftirlitsflug Atlantshafsbandalagsins yfir Bosníu er eitt nýjasta dæmið um sjónhverfingar, sem ráðamenn Vesturlanda hafa reynt að nota til að breiða yfir staðreyndir eigin eymdar. Þetta eftirlitsflug er ekkert annað en kostnaðarsamur og áhrifalaus skrípaleikur.

Það eina, sem Serbar óttast, er, að stjórn Clintons hefji lofthernað gegn þeim og útvegi Bosníumönnum vopn gegn þeim. Því pára þeir og pára nöfnin sín á plögg

Jónas Kristjánsson

DV

Skipta þarf um þing

Greinar

Ef Borís Jeltsín Rússlandsforseti hamrar ekki járnið meðan það er heitt, er farið síðasta tækifærið til að knýja fram vestrænar umbætur í stjórnmálum og efnahag landsins. Þær verða að víkja fyrir ægivaldi þingsins, þótt þær hafi verið staðfestar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Rúslan Khasbúlatov þingforseti hefur að hefðbundnum hætti kommúnista túlkað sér í hag niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar og segir brýnt, að þingið skipi ríkisstjórn fram hjá forsetanum. Ekki er hið minnsta sáttahljóð í honum eða öðrum fulltrúum gamla kerfisins.

Því lengra sem líður frá þjóðaratkvæðagreiðslunni, þeim mun erfiðara verður fyrir Jeltsín að nýta sér sigurinn í henni. Þess vegna er fráleitt að ætla, að honum takist að ná málamiðlun við kommúnista þingsins, án þess að gefa eftir stjórnmála- og efnahagsumbæturnar.

Rússneska þingið er arfur frá tímum kommúnismans og er enn á þeim nótum. Það hefur hagað sér og mun haga sér eins og það sé hinn raunverulegi valdhafi í landinu. Þessi stefna styðst við gömul form, sem giltu á tíma kommúnisma sovétanna, þótt þau væru þá ekki notuð.

Jeltsín er hins vegar kjörinn forseti eftir lýðræðislegum leikreglum eins og við þekkjum þær á Vesturlöndum. Hann hefur nú í þjóðaratkvæðagreiðslu fengið ótvíræða traustsyfirlýsingu sem forseti. Og efnahagsumbætur hans hafa fengið svipaða traustsyfirlýsingu.

Þar sem stjórnlagadómstóll Rússlands er arfur frá kommúnismanum, úrskurðaði hann, að ekki væri að marka, þótt meirihluti kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni óskaði eftir þingkosningum hið fyrsta. Dómstóllinn setti ítarlegri skilyrði, sem ekki var hægt að uppfylla.

Jeltsín verður að byggja á þeim mun, sem felst í lýðræðislegum og lýðræðislega staðfestum völdum hans og hins vegar í sagnfræðilegum völdum stofnana, sem voru skipaðar á tímum kommúnismans, hafa lítinn stuðning í rússnesku nútímaþjóðfélagi og endurspegla það ekki.

Kashbúlatov og meirihluti þingmanna eru fulltrúar hinna gömlu forréttindastéttar, sem beitir núna öllum klækjum og útúrsnúningum til að varðveita aðstöðu sína sem nómenklatúru í landinu og aðstöðu sína til að blóðmjólka þjóðarbúið til eigin peningalegra hagsbóta.

Með gamla þingið á móti sér, með gamla stjórnlagadómstólinn á móti sér, með seðlabanka ríkisins á móti sér, með skriffinna embættakerfisins á móti sér, með forstjóra ríkisfyrirtækjanna á móti sér, er Jeltsín dæmdur til að tapa málamiðlunum um efnahagsumbætur.

Jeltsín á ekki aðra leið til að nýta sigurinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni í þágu rússneskrar framtíðar en að boða til þingkosninga, svo að nýtt þing endurspegli þjóðarviljann á sama hátt og forsetaembættið gerir. Allar samningatilraunir hans eru ella dæmdar til að mistakast.

Með nýju þingi getur Jeltsín höggvið á hnútinn og fengið nýjan stjórnlagadómstól, nýjan seðlabanka, nýja skriffinna og nýja forstjóra. Líklegt má telja, að meirihluti Rússa muni í þingkosningum styðja frambjóðendur vestrænna umbóta í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Staða Jeltsíns er tvíeggjuð. Annars vegar hefur hann og umbótastefna hans unnið eindreginn sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar hikar hann við að taka rökréttum afleiðingum sigursins. Í stað þess að senda þingið heim, er hann enn að leita málamiðlunar við það.

Þjóðaratkvæðagreiðslan gaf Rússum lykil að framtíðinni. Nú er það á færi Jeltsíns eins að finna skrána, svo að ljúka megi upp dyrunum. Hann þarf að skipta um þing.

Jónas Kristjánsson

DV