Greinar

Hver sagði það?

Greinar

Sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í frjálshyggju hefur lengi verið Hannes H. Gissurarson, sem er starfsmaður ríkisháskóla og fær til viðbótar ýmsar greiðslur af borði opinberra stofnana, er styrkja hann til ritstarfa og kaupa þar á ofan af honum hundruð eintaka ritsmíðanna.

Því er haldið fram, að Hannes geti ekki verið málsvari frjálshyggju, þar sem hann sé dæmigerður kerfiskarl, er hafi bæði atvinnu sína og bitlinga hjá stofnunum hins opinbera. Með þessu er verið að rugla saman aðstöðu manna í núinu og skoðunum þeirra á framtíðinni.

Í frönsku byltingunni voru ýmsir helztu talsmenn þriðju stéttar sjálfir af fyrstu og annarri stétt. Þeir voru aðalsmenn, sem höfðu hugmyndafræðilega og pólitíska forustu fyrir tilraunum borgarastéttarinnar til að fá afnumin aldagömul fríðindi og forréttindi aðals og klerka.

Algengt er, að þeir, sem harðast ganga fram í þágu hagsmuna hinna lægst launuðu og annarra þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, séu sjálfir hálaunaðir. Það gerir þá alls ekki vanhæfa, heldur veitir þeim frelsi til að hafa víðsýnar og sjálfstæðar skoðanir á þjóðmálum.

Þannig geta helztu talsmenn samtaka láglaunafólks sjálfir verið hálaunamenn. Þeir geta samt verið þeirrar skoðunar, að launamunur í þjóðfélaginu sé of mikill. Þeir geta samt unnið af alefli að minnkun þessa launamunar í þágu skjólstæðinga sinna í stéttarfélögunum.

Auðvitað getur verið, að hátekjur svonefndra verkalýðsrekenda valdi því, að þeir missi sambandið við raunveruleika hins almenna félagsmanns og verði vanhæfir til starfa. En það getur líka verið, að þeir séu svo hæfir, að borga þurfi þeim vel til að halda þeim í starfi.

Það er mál stéttarfélaganna, hvernig þau mæta þessu tvíeggjaða ástandi, sem felst í, að annars vegar þurfa þau að borga góðum mönnum há laun til að halda þeim og hins vegar að taka áhættuna af, að smám saman kunni hálaunin að grafa undan getu þeirra til að standa sig.

Íslendingar eiga erfitt með að skilja þetta. Fólk á erfitt með að greina á milli skoðana og verka manna annars vegar og stöðu þeirra í lífinu hins vegar. Ef eitthvað er sagt af viti, er ekki litið á innihald þess, heldur er spurt: Hver sagði það og hvers vegna sagði hann það?

Efagjarnar spurningar af slíku tagi eiga auðvitað rétt á sér, en þær mega ekki stjórna viðhorfum fólks til skoðana og verka. Þegar Hannes H. Gissurarson talar eða skrifar, eiga menn fyrst og fremst að meta innihaldið, en ekki þrjózkast við að horfa á kerfiskarlinn sem talar.

Þetta er alveg eins og þegar ritstjóri styður málstað lítilmagnans, þá er nærtækara að líta á innihald textans en horfa á há laun ritstjórans. Eins og ritstjórinn nýtur þess, að flestir horfa aðallega á innihaldið, eiga orð og gerðir Hannesar og verkalýðsrekenda að njóta hins sama.

Frjálshyggja er merkilegt kenningakerfi, sem er raunar einn af hornsteinum vestrænnar siðmenningar. Margir telja, að okkur muni farnast enn betur, ef við færum meira eftir kenningum frjálshyggju og markaðsstefnu og útfærðum þær á fleiri sviðum en gert hefur verið.

Þegar frjálshyggja og markaðshyggja eru til umræðu, ber mönnum að líta á efnisatriði málsins, þar á meðal öfluga rökhyggju hennar og góða reynslu Vesturlandabúa af henni. Hitt skiptir nánast engu máli, hvort einn talsmanna hennar sé sjálfur í opinbera geiranum.

Almennt hefðu Íslendingar gott af að gera skarpari mun á skoðunum og verkum annars vegar og hins vegar á persónum og margvíslegu hlutskipti þeirra í lífinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Hrafnlaus hómilíu-kastali

Greinar

Hrafn Gunnlaugsson verður ekki Seðlabankastjóri, þótt hann geti án efa gegnt því embætti með endurbættum hætti. Embættið er eign annars aflaflokks, sem býður upp á Jón Sigurðsson álversráðherra, er einnig hefur góða reynslu af skömmtun almannafjár til gæludýra.

Jón Sigurðsson leysir af hólmi Jóhannes Nordal, sem hefur verið fulltrúi Alþýðuflokksins í bankastjórninni. Þess vegna á sá flokkur stólinn, en ekki einhver annar aflaflokkur, þótt samstarfsflokkurinn í ríkisstjórninni hafi fleiri kvígildi á framfæri sínu um þessar mundir.

Auðvelt er að vera Seðlabankastjóri, því að bankinn er nokkurn veginn alveg óþörf stofnun, sem ríkisstjórnir hafa notað til að draga fé úr bankakerfinu til gæluverkefna af ýmsu tagi, svo sem afurðalána í landbúnaði. Ekki þarf því að taka tillit til hæfileika lysthafenda.

Fráfarandi Seðlabankastjóra verður tæplega minnst fyrir hinar árlegu og marklausu hómilíur á aðalfundi bankans, heldur fyrir að hafa tekizt að breyta bankanum úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum í risavaxinn kastala með 600 milljón króna árlegum rekstrarkostnaði.

Seðlabankanum hefur að mestu mistekizt bankaeftirlitið, svo sem sjá má af gjaldþroti Útvegsbankans og árlegum milljarðaafskriftum tveggja stærstu viðskiptabankanna. Þetta stafar sennilega af, að Seðlabankinn hefur ekki sinnt því að afla sér stjórntækja til eftirlits.

Seðlabankanum hefur algerlega mistekizt að skrá krónugengið, svo sem sjá má af langri sorgarsögu gjaldmiðilsins. Það er alltaf erfitt fyrir stofnun að leika hlutverk markaðsafls. Slíkt verður bara sýndarmennska, svo sem dæmið sannar. Gengi krónunnar á að skrá sig sjálft.

Seðlabankinn hefur hins vegar haft forustu um að efla fínimannsleik í bankakerfinu, þar sem laxveiðar og ytri umbúnaður leysir af hólmi þörfina á góðum bankastjórum til að reka stofnanir sínar eftir þeim heilbrigðu rekstrarvenjum, sem kerfi markaðsbúskapar stefnir að.

Ef bankaeftirlitið væri gert virkt og flutt úr bankanum og ef hætt yrði að skrá gengi krónunnar með handafli, væri ekkert eftir handa Seðlabankanum að gera. Þess vegna mætti gefa bankann til Færeyja, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að þar er engin góð laxveiðiá.

Arftaki bankastjórans er einkum þekktur fyrir að hafa verið mánaðarlega í hálft annað ár á fremsta hlunni samnings um nýtt álver. Það væri verðugt verkefni fyrir nýjan framkvæmdastjóra sjónvarps að klippa saman og sýna hinar upphöfnu yfirlýsingar ráðherrans í málinu.

Frammistaða ráðherrans í yfirlýsingaflaumi álversóranna bendir til, að hann geti auðveldlega tekið við flutningi hinna árlegu hómilía Seðlabankans, þar sem þjóðin er hvött til að herða sultaról sem mest hún má, á meðan aflaflokkar stjórnmálanna leika lausum hala.

Alþýðuflokkurinn er að komast í þrot með að útvega fólk í embættin, sem falla honum í skaut við skiptingu aflans. Sérfræðingur flokksins í aukinni ofveiði á þorski er orðinn að veðurstofustjóra og fjárlaganefndarstjórinn er að velja milli ráðherradóms og Tryggingastofnunar.

Í þessu kerfi eru einstök mál leyst með því, að Landsbankinn segir upp 130 fulltrúum pöpulsins, en stjórarnir, sem stóðu fyrir óráðsíunni, eru ósnertanlegir með öllu. Þeir passa meira að segja upp á að ekkert bili í fyrirhuguðum laxveiðiferðum sínum með Lúðvík Jósepssyni.

Verst er, að ekki skyldi vera hægt að gera Hrafn að seðlabankastjóra. Hann hefði flutt hinar árlegu hómilíur af miklu meiri tilþrifum en geta þeir Jóhannes og Jón.

Jónas Kristjánsson

DV

Velgengni í sjávarútvegi

Greinar

Þótt flest fyrirtæki í sjávarútvegi séu rekin með halla og mörg með miklum halla, eru sum rekin með hagnaði. Meðaltalstölur um afkomu í sjávarútvegi breiða yfir þá staðreynd, að mikill gæfumunur er á fyrirtækjum í þeirri grein, meiri en í flestum öðrum greinum.

Í fyrra var meðaltapið í sjávarútvegi tæplega 2%. Nítján beztu fyrirtækin voru þá rekin með rúmlega 5% hagnaði og 43 lökustu fyrirtækin með rúmlega 10% tapi. Þessar tölur sýna hyldýpi milli fyrirtækja. Þær eru úr könnun Þjóðhagsstofnunar, sem birt var fyrr í vetur.

Um þessar mundir er afkoman verri í sjávarútvegi. Meðalhallinn er kominn úr 2% upp í 5% á ári. Samt eru til fyrirtæki í sjávarútvegi, sem verða rekin með hagnaði á þessu ári eymdar og kreppu. Því má spyrja, af hverju þetta geti ekki gilt um fleiri fyrirtæki í greininni.

Einar Oddur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi, var um daginn spurður hér í blaðinu, hvernig stæði á þessum mikla gæfumun fyrirtækja í sjávarútvegi, ef finna mætti í skýringunni einhverja töfralausn fyrir þjóðfélagið.

Einar Oddur benti á mismunandi skip, mismunandi aðstæður, mismunandi fólk, mismunandi heppni og mismunandi forstjóra. Hann lagði áherzlu á, að gæfan í sjávarútvegi væri yfirleitt ekki kyrr á sama stað. Vel væri farið að ganga á Akureyri en lakar í Hornafirði.

Einar Oddur skýrði langvinna velgengni Útgerðarfélags Akureyringa með því, að fyrirtækið hefði fyrir rúmum þremur áratugum fengið tvo ágæta framkvæmdastjóra. Þeir hefðu komið fyrirtækinu í jafna og mikla vinnslu og smám saman safnað upp miklu eigin fé.

Eðlilegt er að telja lausn vandans í sjávarútvegi felast í að kvóti og rekstur renni smám saman til þeirra fyrirtækja, sem hafa svo hæfa forstjóra, að þeim græðist jafnvel fé á kreppuárum. Sala á kvóta þurfi að vera frjáls, svo að þessi tilflutningur verði sem örastur.

Mönnum verður tíðrætt um gæfu í sjávarútvegi og tala þá gjarna um gæfuna sem eitthvert náttúrulögmál, er komi að utan og ofan. Þess vegna sagði Einar í viðtalinu við DV, að ekki þýddi að láta sjávarútveginn renna til þeirra fyrirtækja, sem bezt ganga á hverjum tíma.

Hitt mun sönnu nær, að hver er sinnar gæfu smiður. Vandræði sjávarútvegs felast einmitt að töluverðu leyti í, að hann er rekinn af mönnum, sem ráða ekki við verkefni sitt. Í fámennu þjóðfélagi er skortur á hæfum mönnum, sem geta rekið sjávarútvegsfyrirtæki með hagnaði.

Um tuttugu sjávarútvegsfyrirtæki standa upp úr. Ef fimmtíu lökustu fyrirtækin væru ekki að flækjast fyrir og taka upp dýrmætan kvóta, væri líklega hægt að reka um þrjátíu sjávarútvegsfyrirtæki á landinu með sæmilegum hagnaði. Ef til væru þrjátíu hæfir forstjórar.

Svo vel vill til, að góðu fyrirtækin tuttugu í sjávarútvegi eru í öllum landshlutum. Helzt er, að sterk fyrirtæki vanti á Snæfellsnes, Vestfirði sunnanverða, í Hornafjörð og í Norður-Þingeyjarsýslu. Ef hægt væri að fjölga góðu fyrirtækjunum í þrjátíu, gætu sum þeirra verið þar.

Ef sala á kvóta væri gefin alveg frjáls, væri flýtt fyrir þeirri þróun, að kvótinn safnaðist til þeirra fyrirtækja, sem standa á beztum grunni og eru bezt rekin. Þetta felur í sér mikla röskun, en hún er óhjákvæmileg, ef menn vilja reisn í sjávarútvegi, hornsteini þjóðfélagsins.

Ef gæfan snýr baki við einhverju hinna góðu fyrirtækja, er annaðhvort skipt um forstjóra eða annað fyrirtæki kemur til skjalanna. Hver er sinnar gæfu smiður.

Jónas Kristjánsson

DV

Umhverfisfirring

Greinar

Skoðanakönnun bæjarstjórans á Seltjarnarnesi um framtíð svokallaðs Nesstofusvæðis fjallar að mestu leyti um fjármál. Í forsendum könnunarinnar tönnlast hann á, að ná megi sem svarar verði fjögurra einbýlishúsa af sölu lóða á mjög viðkvæmu og merkilegu náttúrusvæði.

Bitur reynsla er af umhverfisfirringu á þessum slóðum. Á Valhúsahæð hefur nokkrum fuglategundum verið útrýmt með tilgangslausum framkvæmdum við þrjú einbýlishús, sem enginn vill kaupa, íþróttavöll, sem enginn vil nota, og tvö hringleikahús fyrir áramótabrennu.

Í fjármáladæmi bæjarstjórans er ekki gert ráð fyrir fjölþættu tjóni, sem kemur á móti framkvæmdagleði hans. Það tjón felst bæði í missi ómælanlegs lífsrýmis, hreyfingarfrelsis og náttúrunautnar, svo og í lækkun verðgildis húsanna, sem fyrir eru á Seltjarnarnesi.

Sumt af þessum kostnaði lendir á bæjarsjóði. Tekjur af lóðasölu eru ekki hagnaður. Á móti kemur kostnaður við þjónustu við fleiri bæjarbúa. Byggja þarf skóla og aðrar þjónustustofnanir og síðan að reka þær. Bæjarstjórinn mun því ekki græða neitt einbýlishúsaverð.

Fjölmennur borgarafundur á Seltjarnarnesi í fyrra mælti nærri einróma með því, að svæðið umhverfis Nesstofu yrði gert að fólkvangi. Sami fundur samþykkti skoðanakönnun meðal bæjarbúa. En bæjarstjóranum hefur tekizt að snúa út úr málinu í framkvæmd könnunarinnar.

Með boðun könnunarinnar fylgir greinargerð, þar sem áherzla er lögð á þær fjárhagslegu falsanir, sem fjallað er um hér að ofan. Þar á ofan er ranglega fullyrt, að fyrirhugaðar framkvæmdir séu allar í samræmi við skýrslu Náttúrfræðistofnunar um náttúrufar á Seltjarnarnesi.

Bæjarstjórinn skákar þar í því skjóli, að hann hefur ekki enn dreift þessari skýrslu til bæjarbúa, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um það. Hann hefur opinberlega sagt, að það verði gert í sumar, en þá er telur hann sig vera sloppinn fyrir horn með hina fölsuðu skoðanakönnun.

Stjórn Náttúrugripasafns Seltjarnarness birti í Morgunblaðinu í fyrradag grein, þar sem hraktar eru lífseigar rangfærslur bæjarstjórans í þessu máli. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar er nefnilega einmitt varað við, að byggt sé umhverfis Nesstofu og í nágrenni Bakkatjarnar.

Hver einasta af tillögum bæjarstjórans felur í sér röskun á aðstreymi jarðvatns í Bakkatjörn, enda fela þær allar í sér framkvæmdir á náttúruminjasvæði, nákvæmlega eins og framkvæmdir hans á Valhúsahæð. Gildir þá einu, hvort það er rask vegna vega eða húsa.

Eftirtektarvert er, að Félagsfræðistofnun Háskólans lætur ginnast til að rýra álit fólks á skoðanakönnunum almennt með því að beygja sig undir vilja bæjarstjórans, gerast erindreki hans og vísa til rangrar greinargerðar hans í kynningarbréfi hennar til íbúa svæðsins.

Samkvæmt meðferð Félagsfræðistofnunar á málinu getur hagsmunaaðili fengið hana til að velja og orða spurningar í þágu hagsmunaaðilans, til dæmis með því að hafa marga vonda kosti á móti einum góðum og ýta fólki til að velja annan kost, ef hinn góði næst ekki.

Það var með eftirgangsmunum, að uppreisnarmönnum í stjórnmálaflokki bæjarstjórans og öðrum áhugamönnum um varanlega auðlegð í lífsrými, hreyfingarfrelsi og náttúrunautn tókst að koma í könnunina einni spurningu um fólkvanginn, sem var tilefni hennar.

Þrátt fyrir allt svindl hafa þar með íbúar Seltjarnarness tækifæri til að koma í veg fyrir, að firringin á Valhúsahæð endurtaki sig við Nesstofu og Bakkatjörn.

Jónas Kristjánsson

DV

Frumstæð þjóð

Greinar

Formaður norræna kvikmyndasjóðsins hefur staðfest, að menntaráðherra Íslands hafi beitt sig og sjóðstjórnina óeðlilegum þrýstingi til að fá sjóðinn til að styrkja síðustu kvikmynd skjólstæðings forsætisráðherra Íslands. Þrýstingurinn kom fram í bréfi “á vegum ráðherrans”.

Formaður sjóðsins hefur líka staðfest, að hann og sjóðstjórnin hafi aldrei fyrr sætt þrýstingi af þessu tagi. Eigi að síður féllst stjórnin á að veita rúmlega átta milljóna styrk út á sautján milljóna króna styrkbeiðni Hrafns Gunnlaugssonar til gerðar bíómyndarinnar Hin helgu vé.

Formaðurinn segir óhugsandi, að menntaráðherra annars lands en Íslands hefði komið fram á þennan hátt. Með þessu er formaðurinn að segja, að Íslendingar séu á lægra siðferðisstigi en Norðurlandabúar. Taka verði tillit til þess og sýna hinum frumstæðu þolinmæði.

Því hefur löngum verið haldið fram í leiðurum þessa blaðs, að siðgæðishugmyndir væru frumstæðari á Íslandi en í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafs, Norðurlöndum og engilsaxnesku löndunum. Þessi skoðun virðist nú vera viðurkennd í nágrannalöndunum.

Atburðarásin í styrkveitingu Norræna kvikmyndasjóðsins sýnir, að á Norðurlöndum er litið niður á Íslendinga sem frumstæða ribbalda, er kunni sér ekki hóf í að ota sínum tota. Að því leyti eru þeir taldir vera eins og skrumskæling úr bíómynd eftir Hrafn Gunnlaugsson.

Hálmstráið, sem menntaráðherra Íslands notaði í þrýstingnum á Norræna kvikmyndasjóðinn, var að halda því fram, að formaður sjóðsins hefði í faxi til skjólstæðings forsætisráðherra lofað honum styrki til verksins. Formaður sjóðsins neitar að hafa lofað nokkru í faxinu.

Niðurstaða formanns sjóðsins er, að framvegis muni hann ekki þora að segja við kvikmyndaleikstjóra, að honum líki hugmyndir hans, af ótta við, að slík ummæli verði síðar túlkuð sem loforð um styrk. Óbeint segir hann, að ekki megi rétta Íslendingum litla fingurinn.

Mál þetta varpar skýru ljósi á siðleysi íslenzkra ráðamanna, af því að það rekst á siðvenjur í nágrannalöndunum. Það staðfestir í augum umheimsins, að Ísland sé eins konar Ítalía norðursins, sem ekki geti staðið undir sömu siðferðiskröfum og gerðar eru á Norðurlöndum.

Siðleysi menntaráðherra í máli þessu felst í að misnota aðstöðu sína til að hygla skjólstæðingi forsætisráðherra. Sami ráðherra misnotaði aftur aðstöðu sína til að bola framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins í frí til að hygla þessum sama skjólstæðingi forsætisráðherrans.

Svipað siðleysi kemur fram í eignarhaldi stjórnmálaflokkanna á bankastjórastólum og meira að segja forstjórastóli Veðurstofunnar, svo að nýleg dæmi séu rakin. Það kemur fram í, að litið er svo á ráðherra, að þeir megi haga sér eins og eins konar miðalda-lénsgreifar.

Ábyrgð þjóðarinnar á málinu felst í að velja sér stjórnmálaflokka og -foringja, sem ekki þættu gjaldgengir í nágrannalöndunum. Þetta stafar af, að þjóðin hefur ekki siðferðilegan þroska til að hafna spilltum stjórnmálaflokkum og -foringjum með hugarfari lénsgreifa.

Kjósendur telja þolandi, að fjármálum foringja, flokka og ríkis sé ruglað saman og að mismunandi reglur gildi um Jón og séra Jón. Kjósendur telja þolandi, að ráðherrar séu eins og smákóngar sem skaffi og skammti skjólstæðingum. Kjósendur telja þolandi að búa við hermang.

Meðan þjóðin sættir sig við þetta ástand munu ráðherrar halda áfram að haga sér sem fyrr. Og Ólafur G. Einarsson segir vafalaust ekki af sér sem ráðherra.

Jónas Kristjánsson

DV

Hrafninn flýgur

Greinar

Ekkert var ofsagt í ummælum Hrafns Gunnlaugssonar um ríkisútvarp allra landsmanna. Ástand stofnunarinnar er lakara en hann lýsti því í þrautleiðinlegum og innhverfum sjónvarpsþætti, sem starfsmenn stofnunarinnar töldu eiga erindi við landsmenn á bezta hlustunartíma.

Hrafn gat ekki virðingarleysis Ríkisútvarpsins gagnvart íslenzku talmáli, sem sést af því, að það hefur eingöngu einn málfarsráðunaut, þótt stóru dagblöðin tvö hafi á sínum snærum tíu manns í fullu starfi og með mikið úrskurðarvald við að vernda íslenzkt ritmál.

Hrafn sagði, að Ríkisútvarpið væri stöðnuð stofnun. Það er hverju orði sannara, en segir þó ekki allan sannleikann. Réttara væri að lýsa stofnuninni sem steinrunninni. Hún væri gersamlega bjargarlaus, ef hún væri tekin úr vernduðu umhverfi þvingaðra afnotagjalda.

Hrafn sagði Ríkisútvarpið þjást af atgervisflótta. Það er fremur vansagt en ofsagt, eins og sést bezt af, að þar þarf að minnsta kosti tvo menn til að sinna sem svarar hverju einu starfi á Stöð 2. Í mannafla er stofnunin engan veginn hæf til samanburðar við umhverfi sitt.

Þann fyrirvara má þó hafa á lýsingunni, að hún á misvel við einstakar deildir Ríkisútvarpsins. Fréttastofa Gufunnar er að mörgu leyti ágæt deild, sem þjónar vel hlutverki sínu, en er reyrð í viðjar úreltra vinnureglna frá tímum stofnanalegri fjölmiðlunar en nú tíðkast.

Við gagnrýni Hrafns má bæta með því að segja Ríkisútvarpið vera algera tímaskekkju. Það stendur sig ekki frá sjónarhóli markaðshyggju og ekki heldur frá öðrum sjónarhóli, svo sem varðveizlu íslenzkrar tungu. Það ber flest af kunnum einkennum andvana einokunarstofnunar.

Ríkisútvarpið er fyrir löngu hætt að vera eign allra landsmanna, ef það hefur einhvern tíma verið það. Það hefur verið að breytast í eins konar sjálfseignarstofnun starfsmanna, svo sem sést af formi og skipulagi þrautleiðinlegrar og innhverfrar þáttaraðar þess um sjálft sig.

Eðlilegt er, að starfsmannafélag slíkrar stofnunar reki upp ramakvein, þegar hluti sannleikans er sagður um stofnunina og frammistöðu starfsmanna. Einnig er eðlilegt, að það mótmæli sjálfsögðum tillögum Hrafns um, að dagskrárgerð verði boðin út í meira mæli en áður.

Í heilbrigðum fyrirtækjum er fólk rekið fyrir það, sem það gerir eða gerir ekki. Það er ekki rekið fyrir rangar skoðanir og þaðan af síður fyrir réttar skoðanir. Brottrekstrarsök Hrafns er táknræn sjálfslýsing afvegaleiddrar stofnunar, sem er upptekin af sjálfri sér.

Það er dæmigert fyrir Ríkisútvarpið, að sem stofnun þolir það ekki að heyra sannleikann eða hluta sannleikans um það sjálft. Það er orðið svo háð hinu verndaða umhverfi í gróðurhúsi þvingaðra afnotagjalda, að það þolir alls ekki tjáningarfrelsi innanhússmanns.

Hrafn Gunnlaugsson vex af brottrekstrinum, en Ríkisútvarpið minnkar. Brottreksturinn er þó ekki með öllu illur, því að hann mun opna augu fleiri manna fyrir því, að stofnunin er tímaskekkja, sem leggur óþarfa byrði á skattgreiðendur á tímum nægs framboðs af fjölmiðlun.

Þegar Ríkisútvarpið loksins verður selt, er rétt að gera það í hlutum, svo að eitthvað fáist fyrir þá hluta þess, sem markaðsgildi hafa, svo sem fréttastofur útvarps og sjónvarps. Fæstar aðrar deildir þess eru söluhæfar og verða væntanlega lagðar niður í fyllingu tímans.

Vonandi flýtir frumhlaup Ríkisútvarpsins fyrir því, að tímaskekkjan hverfi af vettvangi, skattgreiðendum til hægðarauka og frjálsri notkun fjölmiðla til framdráttar.

Jónas Kristjánsson

DV

Serbíusöfnun

Greinar

Margir hefðu ekki tekið þátt í fatasöfnun Rauða krossins í vetur, ef þeir hefðu vitað, að hjálpin yrði send til Serba, þeirrar þjóðar, sem hefur haldið úti villimannlegasta stríði, sem háð hefur verið í Evrópu í manna minnum. Eftir þessum svikum Rauða krossins verður munað.

Öll aðstoð, sem Serbum er send, nýtist þeim til að halda áfram fjöldamorðum og fjöldanauðgunum, þjóðahreinsun og samningsrofum, sem hafa einkennt árásarstríð þeirra í nágrannaríkjum Serbíu. Öll aðstoðin nýtist þeim til að hefja sama leikinn í Kosovo og Vojvodina.

Allt tal um skipta ábyrgð á stríðinu á Balkanskaga er álíka fáránlegt og að kenna Pólverjum og Bretum um upphaf annarrar heimsstyrjaldarinnar. Og allt tal um, að hjálpin fari til saklausra Serba er fáránlegt, því að þjóðin í heild lætur sér villimennskuna vel líka.

Styrjöldin á Balkanskaga er árásar- og útþenslustríð Serba. Rauði krossinn á að einbeita sér að hjálp við þær þjóðir, sem verða fyrir barðinu á ógeðslegu framferði þeirra. Rauði krossinn á að ekki að safna undir fölsku flaggi og senda aðstoðina beint til árásaraðilans.

Dapurlegt er til þess að hugsa, að íslenzk börn hafa verið virkjuð til stuðnings við árásar- og útþenslustríð, sem er af hálfu Serba háð með svo ógeðslegum hætti, að það er engan veginn prenthæft. Íslenzki Rauði krossinn ber ábyrgð á þessari misnotkun íslenzkra barna.

Hér eftir verður ekki hægt að treysta Rauða krossinum. Ef hann gengst fyrir söfnunum, verður þjóðin fyrst að fá gullvægar tryggingar fyrir því, að árásar- og útþensluþjóðir séu ekki studdar. En bezt væri fyrir Rauða krossinn að hafa hægt um sig í náinni framtíð.

Því miður hafa hjálparstofnanir komizt upp með að veita rangar eða villandi upplýsingar um, hvað verður um það fé eða vörur, sem safnað er. Það kom fram í Sómalíu, að hjálpin þangað fór að mestu til glæpaflokka og að fjölþjóðaher varð að lokum að skerast í leikinn.

Við ættum að hætta að gefa í blindni til hjálparstofnana á borð við Rauða krossinn. Reynslan sýnir, að þær gefa rangar og villandi upplýsingar um, hverjir fái hjálpina. Í vetur héldu menn, að Króatar og íslamar fengju hana. En þeir fengu næstum ekki neitt frá Íslandi.

Einasta vonin um frið á Balkanskaga er, að alþjóðlega viðskiptabannið á Serbíu hafi þær afleiðingar, að efnahagslífið brotni, svo að þjóðin hafi ekki lengur mátt til stríðsglæpa sinna og annarra glæpa gegn mannkyninu. Þess vegna má alls engin hjálp berast Serbum.

Forustumenn Rauða kross Íslands hafa kosið að leika fífl og vísa ábyrgðinni til útlendinga, sem hafi ákveðið, að íslenzka hjálpin ætti að fara til níu staða í Serbíu. Þetta svar nægir ekki, því að það er Rauði kross Íslands sem hafði Íslendinga að fífli í söfnuninni í vetur.

Með framferði sínu drepur íslenzki Rauði krossinn vilja margra til að taka þátt í hjálparstarfi. Fólk leggur af mörkum vegna samúðar með þeim, sem verða fyrir styrjöldum eða náttúruhamförum. Og það vill, að þolendur njóti hjálparinnar, en ekki gerendur hörmunganna.

Við erum sem gefendur ekki skuldbundin til að hlíta því, þótt Rauði krossinn í Lausanne telji sig ekki geta gert upp á milli aðila. Við skulum snúa okkur að hjálparstofnunum, sem geta sannfært okkur um, að hjálpin berist þeim, sem við höfum samúð með, en ekki öðrum.

Eftir svikin við okkur í vetur er eðlilegt, að Rauði krossinn verði framvegis undir smásjá, þegar hann hyggst virkja góðvild Íslendinga eða misnota hana.

Jónas Kristjánsson

DV

Eitraðir vindar

Greinar

Rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að fréttir fjölmiðla af framferði stjórnvalda og hers í El Salvador hafa verið réttar og að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur beitt kerfisbundnum lygum til að hylma yfir geðsjúkum morðingjum.

Á níunda áratugnum létu stjórnvöld í El Salvador myrða 75.000 manns og hrekja eina milljón manna á vergang. Síðari talan samsvarar því, að 50.000 Íslendingar væru hraktir frá heimilum sínum. Harðast gekk fram í þessu Roberto d’Aubuisson, leiðtogi stjórnarflokksins.

Til verstu illverkanna var notuð sérstök morðsveit, sem þjálfuð var í Bandaríkjunum á vegum bandaríska hersins. Hún nauðgaði meðal annars bandarískum nunnum og myrti þær. Hún myrti bandaríska jesúítapresta og sjálfan erkibiskup landsins, Oscar Arnulfo Romero.

Um allt þetta var fjallað í fjölmiðlum á sínum tíma. Stjórnir Reagans og Bush Bandaríkjaforseta kölluðu þetta fjölmiðlafár. Það gerði líka Wall Street Journal í sérstökum viðhafnarleiðara, þar sem ráðizt var á blaðamenn fyrir vilhallan fréttaflutning frá El Salvador.

Margt yfirstéttarfólk trúði á Wall Street Journal, af því að það er fremur leiðinlegt blað, skrifað af hagfræðingum, en ekki blaðamönnum. Klisjan um fjölmiðlafárið á greiðan aðgang að fólki, sem hefur komið sér vel fyrir í lífinu og vill ekki láta trufla samvizku sína.

Af ráðherrum og embættismönnum forsetanna Reagans og Bush gengu harðast fram Alexander Haig, Jeane Kirkpatrick og Thomas O. Enders. Embættisfærsla þessa fólks verður nú rannsökuð í Bandaríkjunum í framhaldi af niðurstöðu Salvadornefndar Sameinuðu þjóðanna.

Nefndin fór rækilega ofan í saumana á fárinu í El Salvador. Hún kannaði 25.000 tilvik og yfirheyrði 2.000 vitni. Niðurstaða hennar var sú, að þetta hefði ekki verið neitt fjölmiðlafár, heldur blákaldur sannleikurinn. Morðæði réði ferðinni hjá stjórn og her El Salvadors.

Ronald Reagan og George Bush, Alexander Haig og Jeane Kirkpatrick var fullkunnugt um þetta ástand. Þeim var líka ljóst, að brjálæðið var kostað af bandarískum stjórnvöldum. Þeim mátti öllum vera ljóst, að svik þeirra mundu komast upp um síðir. Samt lugu þau í sífellu.

Sóðaleg framkoma Wall Street Journal, bandarískra forseta og embættismanna úr flokki repúblikana í máli El Salvadors sýnir ljóslega, að lýðræðislegt stjórnkerfi kemur ekki í veg fyrir, að á Vesturlöndum komist til valda meira eða minna forhertir siðleysingjar.

Stjórnin í El Salvador er sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Þar er við völd Alfredo Christiani forseti úr flokki geðsjúklingsins d’Aubuissons. Í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna lét Christiani þing landsins náða í skyndingu alla glæpamenn hersins með einu pennastriki.

Allt fram á síðustu daga hefur Christiani forseti notið aðstoðar varnarmálaráðherra, sem áður var yfirmaður morðsveitarinnar. Það er René Emilio Ponce, sem til skamms tíma var helzti skjólstæðingur bandarískra stjórnvalda og bandaríska hersins í El Salvador.

Sem betur fer eru hinir eitruðu vindar hættir að blása um utanríkisráðuneyti og forsetahöll Bandaríkjanna. Bill Clinton er að því leyti líkur Jimmy Carter, að hann mun ekki láta viðgangast glæpi bandarískra stjórnvalda gegn mannkyninu að hætti þeirra Reagans og Bush.

Mál þetta er enn eitt sönnunargagn þess, að margtuggna klisjan um fjölmiðlafár felur jafnan í sér tilraun valdamanna til að breiða yfir mistök sín og glæpi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt um kreppu

Greinar

Launafólk vill ekki stofna til átaka til að hamla gegn mikilli og sífelldri kjaraskerðingu. Forustufólk Alþýðusambandsins hefur metið stöðuna í kreppunni og telur heppilegast að fresta samningum til hausts, af því að samningsaðstaðan sé alls engin um þessar mundir.

Atkvæðagreiðsla kennara og annarra opinberra starfsmanna sýndi, að jafnvel þeir, sem við mest atvinnuöryggi búa, eru ekki tilbúnir til átaka, þrátt fyrir eindregna hvatningu forustuliðsins. Ráðin voru tekin af þessum launþegarekendum, sem áttuðu sig ekki á veruleikanum.

Ekki er nóg með, að launafólk skilji, að minna er til skiptanna í þjóðarbúinu við núverandi ástæður, heldur er það um leið ekki fáanlegt til að draga pólitískar ályktanir af slæmri útreið sinni í heimatilbúinni kreppu, sem stjórnmálamenn og sérfræðingar hafa fært þjóðinni.

Kvartmilljón manna þjóð hefur ekki ráð á að borga rúmlega tuttugu milljarða á ári til að halda uppi kúm og kindum, tíu milljarða á ári til að varðveita útveggjasteypu og fimm milljarða á ári til að greiða tjónið af fyrirgreiðslurugli ráðamanna í pólitík og lánastofnunum.

Allar þessar tölur liggja á borðinu. Kýr og kindur kosta níu milljarða á fjárlögum og tólf að auki í innflutningsbanni. Árlegur herkostnaður við steypu hefur rækilega verið skjalfestur. Tjónið í lánastofnunum kemur skýrt fram í afskriftum og nú síðast í Landsbankafári.

Almenningur er svo sem ekki ánægður með þessa meðferð fjármuna, en sættir sig við hana. Að minnsta kosti heldur fólk áfram að hafa lítil afskipti af stjórnmálum önnur en að kjósa stjórnmálaflokka og -foringja, sem í flestum peningalegum atriðum eru hver öðrum líkir.

Ekki má heldur gleyma, að margir þeirra, sem hafa greind og þekkingu til að átta sig á ruglinu, hafa komið sér sæmilega fyrir í lífinu. Þeir skipa yfirstétt og vel stæða millistétt, sem geta varið kjör sín, þótt almenningur verði fyrir búsifjum af völdum verðmætabrennslunnar.

Klofningur þjóðfélagsins lýsir sér vel í, að meðaldýrir bílar seljast illa, ódýrir bílar betur og dýrir bílar allra bezt. Óhóf og munaður blómstra sem aldrei fyrr við hliðina á vaxandi örbirgð hinna, sem hafa beðið eða eru að bíða lægri hlut í samdrætti og harðnandi lífsbaráttu.

Yfirstéttin hefur brugðizt þjóðinni. Stjórnmálamenn standa fyrir gálausri meðferð fjármuna, studdir ráðamönnum lánastofnana. Sérfræðingagengið í kringum ráðherrana lætur verðmætabrennsluna í friði. Sérfræðingar byggingaiðnaðarins halda áfram að nota steypu.

Yfirstéttin í samtökum launafólks hefur líka brugðizt. Hún hefur gefist upp gagnvart heimasmíðaðri kreppu í stað þess að krefjast þess, að tækifærið verði notað til að stöðva verðmætabrennslu í landbúnaði og í lánveitingum til gæluverkefna og gæludýra atvinnulífsins.

Ef fólk tæki af festu á málum af þessu tagi, kastaði út andvana forustuliði sínu í stéttarfélögum og stjórnmálum og veldi sér nýja forustu, væri hægt að skera niður ruglið og láta alla njóta miklu betri lífskjara. En því miður sér almenningur ekki samhengið í erfiðleikunum.

Þess í stað heldur íslenzk undirstétt áfram að líta upp til yfirstéttarinnar, alveg eins og forfeður hennar litu áður upp til kóngsins og hirðarinnar. Undirstéttin setur ekki skilyrði fyrir undirgefni sinni og gerir alls engar sjáanlegar kröfur til árangurs í starfi yfirstéttarinnar.

Þannig hefur verið og verður áfram þjóðarsátt um að halda friðinn og trufla ekki það ferli, sem hefur leitt þjóðina út í kreppu og á eftir að magna kreppuna enn frekar.

Jónas Kristjánsson

DV

Varnarstríð gegn myrkrinu

Greinar

Borís Jeltsín þorði ekki að leysa upp rússneska þingið og efna til nýrra kosninga fyrir rúmu ári, þegar hann var á hátindi valda sinna. Hann taldi sig verða að ná árangri í efnahagsmálum, áður en hann gæti lagt verk sín undir dóm þjóðarinnar í almennum kosningum.

Í heilt ár hefur Jeltsín reynt að semja við þingið um völdin í landinu. Það hefur honum ekki tekizt, enda er þingið arfleifð frá tímum kommúnismans, að mestu skipað fortíðardraugum, sem grafa undan framförum, af því að þeir óttast að missa völd og peninga.

Barátta forseta og þings er ekki barátta innan ramma lýðræðishefðar. Jeltsín einn hefur umboð frá þjóðinni úr beinum lýðræðiskosningum. Þingið hefur ekki slíkt umboð, því að það var skipað á valdatíma kommúnista. Það er spillt og úrelt stofnun, sem þarf að endurnýja.

Nú er þetta verk miklu erfiðara en það hefði verið fyrir rúmu ári. Gamla yfirstéttin hefur náð áttum eftir sviptingar fyrri ára. Hún kann á kerfið og hefur brugðið fæti fyrir umbætur Jeltsíns. Honum er sumpart kennt um, að lífskjör hafa versnað af þessum ástæðum.

Jeltsín ræður ekki lengur ferðinni. Her og lögregla eru orðin að dómurum í skákinni milli forsetaembættis og þings. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Aukin áhrif vopnaðra sveita eru ávísun á ferli, sem leiðir í átt til bananalýðveldis að hætti þriðja heimsins.

Gegn vilja Jeltsíns hefur rússneski flugherinn gert loftárásir á nágrannaríkið Georgíu. Hann getur ekki haldið uppi eðlilegum samskiptum við nágrannaríki, af því að vopnaðar sveitir ríkisins fara sínu fram. Þannig eru hin raunverulegu völd að leka úr greipum hans.

Hætta er á, að Jeltsín sigri ekki í skákinni, þótt hann hafi betur í viðureigninni við fortíðardrauga þingsins. Það verða herforingjar, sem vinna sigur, ef Jeltsín neyðist til að reiða sig á þá. Það boðar aukinn ófrið á landamærum Rússlands og aukna stríðshættu í Evrópu.

Vesturlandabúar geta lítið gert annað en að veita Jeltsín siðferðilegan stuðning. Ekki má endurtaka gróf mistök Norðurlandaráðs, sem bauð til sín helzta andstæðingi Jeltsíns, Rúslan Kashbúlatov þingforseta. Lýðræðisöflin í Rússlandi standa að baki Jeltsíns.

Endurreisn Rússlands er miklu erfiðari en endurreisn annarra ríkja Austur-Evrópu. Efnahagskerfið er enn í höndum gæludýra gamla tímans. Valdastofnanir ríkisins eru þétt skipaðar fólki, sem kann ekki að breyta, vill ekki breyta eða er beinlínis að maka krókinn.

Erlend fjárfesting hefur gefizt illa. Reynslan sýnir, að Rússar kunna ekki að notfæra sér hana. Þess vegna kemur vestræn fjárhagsaðstoð ekki að notum. Framfarir að vestrænum hætti verða að koma að innan. Fólk verður að skilja og skynja vestrænan markaðsbúskap.

Í stað vestræns markaðsbúskapar hefur risið braskmarkaður, óheftur þjófnaður á þjóðareign og alger spilling á Sikileyjarvísu. Fremstir í flokki hafa verið kerfiskarlar Kashbúlatovs sem nota aðstöðu sína í kerfinu til að blóðmjólka það og kenna síðan Jeltsín um ástandið.

Þannig hafa efnahagsvöld lekið úr höndum Jeltsíns eins og hernaðarvöldin. Ákvarðanir hans um helgina voru lokatilraun hans til að stöðva lekann. Hann hefur ákveðið að snúa sér beint til þjóðarinnar og biðja um aukið og endurnýjað umboð til að stjórna landinu.

Takist tilraunin ekki, hverfur Rússland aftur inn í myrkur fortíðar. Takist hún aðeins með stuðningi hersins, verður Rússland aftur hættulegt umhverfi sínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Persona non grata

Greinar

Boris Spasskíj braut bann Sameinuðu þjóðanna við samskiptum við Serbíu á sviði viðskipta, íþrótta og menningar, þegar hann tefldi við Bobby Fischer í Belgrað í fyrra. Ótvírætt er, að bannið náði til skákeinvígis þeirra, sem telst til glæpa gegn samfélagi þjóðanna.

Hömlulaus gróðafíkn leiddi Fischer og Spasskíj út á þá ógæfubraut að þiggja boð heimsþekkts glæpamanns á sviði bankaviðskipta um að rjúfa víðtækt samskiptabann við það ríki, sem síðustu misserin hefur gengið lengst allra ríkja í ógeðslegum stríðsglæpum.

Einvígi Fischers og Spasskíjs var ekki aðeins formlegt brot á formlegri ákvörðun, sem samþykkt var samhljóða í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það var einnig brot gegn óformlegum siðareglum, sem alls staðar á að halda í heiðri. Það var glæpur gegn mannkyninu.

Spasskíj hefur óhreinkað sig svo á þessu máli, að dularfullt er, að til tals skyldi koma, að hann kynnti skák í skólum og tefldi tveggja skáka einvígi við Friðrik Ólafsson, sem er framkvæmdastjóri eins af þremur hornsteinum þjóðskipulags Íslendinga, sjálfs Alþingis.

Fischer er þegar byrjaður að taka út hluta refsingarinnar fyrir sinn ömurlega þátt í auglýsingaskrumi í þágu siðlauss árásarríkis. Hann getur ekki snúið aftur til Bandaríkjanna, því að þar verður hann tekinn fastur og látinn sæta opinberri ákæru fyrir landráð.

Sakarefni Fischers varða í Bandaríkjunum sem svarar 15 milljarða króna sekt og tíu ára fangelsi. Svo alvarlegum augum er þar í landi litið á framgöngu Fischers. Hann er því dæmdur til að lifa sem vansvefta útlagi á sífelldum flótta undan hugsanlegri kröfu um framsal.

Spasskíj nýtur þess, að frönsk stjórnvöld hafa ekki nennt að framfylgja skyldu sinni gagnvart eigin stuðningi við aðgerðir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann fékk að fara aftur til þess lands, sem skaut yfir hann skjólshúsi, þegar hann hrökklaðist af heimaslóð.

Hins vegar teflir Spasskíj ekki fyrir hönd Frakklands í landsliðseinvíginu við Ísland, sem nú stendur yfir í Reykjavík. Samkvæmt skákstyrk sínum ætti hann að tefla á öðru borði, ef allt væri með felldu. En okkur hefur verið sýnd sú kurteisi að tefla honum ekki fram.

Þar með var málið einfalt gagnvart Skáksambandinu. Frakkar leystu sjálfir mál Spasskíjs gagnvart Íslandi. Þá kemur upp sú einkennilega og siðblinda hugmynd að bjóða heimskunnum siðleysingja sérstaklega til að tefla við Friðrik og jafnvel kynna skák í skólum.

Skáksamband Íslands er að hluta til á framfæri þjóðarinnar samkvæmt ákvörðunum teknum á Alþingi. Eðlilegt er, að endurskoðaður verði stuðningur skattgreiðenda við stofnun, sem gengur þvert á stuðning Íslands við réttmætar refsiaðgerðir á alþjóðavettvangi.

Skáksambandið er auðvitað frjálst að því að hafa engar siðareglur að leiðarljósi. En þjóðfélagið í heild er líka frjálst að því að hafna stuðningi við félagsskap, sem gengur þvert gegn almennri siðgæðisvitund og alþjóðlegum samþykktum, sem Ísland styður á formlegan hátt.

Í staðinn getur Skáksambandið beðið Spasskíj að láta eitthvað af hendi rakna af blóðpeningunum, sem hann fékk í Serbíu í fyrra. Eðlilegt er að slíkir aðilar rotti sig saman um meðferð fjármuna af því tagi og ónáði ekki aðra, sem virða almennar og alþjóðlegar siðareglur.

Spasskíj hefur í taumlausri gróðafíkn valið sér ömurlegt hlutskipti. Ef hann lætur sjá sig í skólum, verður hann persona non grata í augum margra Íslendinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Gætu ekki skúrað gólf

Greinar

Þeir bankastjórar og bankaráðsmenn Landsbankans, sem hafa verið þar nógu lengi til að bera ábyrgð á óeðlilega miklu útlánatjóni bankans, eiga auðvitað að segja af sér. Þeir hafa hagað sér eins og bankinn sé félagsmálastofnun fyrir gæludýr kerfisins í atvinnulífinu.

Í skjóli ábyrgðar skattgreiðenda á skuldbindingum Landsbankans hafa hinir ábyrgðarlausu stjórnendur hans ekki getað fullnægt kröfum nýlegra laga um trausta eiginfjárstöðu, þótt bankinn hafi rúman vaxtamun til að afla sér árlegra milljarða í afskriftasjóð.

Bankaeftirlitið hefur lengi varað við slæmri stöðu Landsbankans. Það er því ekki vonum seinna, að ríkisstjórnin grípur til þess ráðs að knýja Alþingi til að heimila blóðgjöf, sem á að hindra, að bankinn fljóti í átt til gjaldþrots. Ríkisstjórnin gat ekki komizt hjá þessu.

Hitt er út í hött, að sukkarar bankans fái að halda áfram að sukka með fé hans. Þess vegna hefði ríkisstjórnin átt að setja það skilyrði fyrir innspýtingunni, að allir þeir ráðamenn bankans, sem tóku þátt í útlánafylliríi síðustu ára, fái reisupassann sinn hér og nú.

Hversdagslegur samdráttur í sjávarafla hefur valdið því, að sum veð bankans eru ótryggari en þau voru. Þetta skýrir þó ekki nema hluta af sukkinu, enda mætti ætla, að menn sem eru á rosakaupi við að passa milljarða, reyni að hafa vaðið fyrir neðan sig í útlánum.

Við megum ekki gleyma, að gæzlumenn banka eru taldir svo mikilvægir, að starfskjör þeirra eru ekki í neinu samhengi við lífskjör þjóðarinnar. Þegar þeir láta af störfum, fá sumir þeirra nítján sinnum meiri lífeyri en verkamönnum er talið bera eftir starfslok.

Ætlast mætti til, að fyrir þessi sérstæðu starfskjör kynnu yfirmenn banka og raunar annarra lánastofnana eitthvað fleira fyrir sér en að velja réttar flugur í laxveiðitúra. En því miður eru þeir svo veruleikafirrtir, að þeir gætu ekki einu sinni skúrað gólf á Sóknarkaupi.

Stundum eru ráðamenn banka afsakaðir með, að þeir verði að fara að tilmælum ráðherra og kjördæmapotara á Alþingi. En í lögum banka eða ráðningarsamningum ráðamanna þeirra segir ekki, að þeir eigi að lúta pólitískri eða félagslegri fjarstýringu utan úr bæ.

Getuleysi bankastjóra og bankaráðsmanna Landsbankans er svipað og í ýmsum fleiri lánastofnunum hins opinbera, einkum sjóðum, sem stofnaðir voru til að þjónusta gæluverkefni kerfisins. Gæzlumenn þessara sjóða hafa ekki heldur verið látnir víkja úr starfi.

Sömu sögu er að segja af tilsjónarmönnum, sem ríkið skipar stundum til að tryggja, að allt fari vel í umsvifamiklum stofnunum. Stjórnarsæti Álafoss voru jafnan skipuð helztu efnahagsvitringum kerfisins, enda varð úr því eitt hrikalegasta gjaldþrot sögunnar.

Helztu valdamenn þjóðmála og fjármála mynda eins konar klúbb, sem svífur í skýjum ofan við íslenzkan raunveruleika. Í þessari paradís eilífs sumars eru peningar alltaf sem sandur og ábyrgð er aldrei nein. Næst jörðinni komast klúbbfélagar á laxárbökkum.

Fámenn þjóð ætti í erfiðleikum við að manna allar mikilvægar stöður, svo að sómasamlegt sé, jafnvel þótt beztu menn væru jafnan valdir. Í samtryggingarkerfi, sem gengur svo langt, að menn eru ráðnir eftir póltík til að spá fyrir veðri, tekst þetta afar sjaldan.

Björgun Landsbankans er enn eitt dæmið um, að þjóðmál og fjármál eru í höndum ábyrgðarlausrar yfirstéttar, sem gæti ekki einu sinni skúrað bankagólfin.

Jónas Kristjánsson

DV

Steypa er innanhússefni

Greinar

Níu milljarðar króna munu framvegis fara á hverju ári í að gera við og klæða steypuskemmdir í húsum, sem byggð hafa verið á allra síðustu áratugum. Ekkert bendir til, að steinsteyptu húsin, sem verið er að reisa um þessar mundir, muni þurfa miklu minna viðhald.

Þetta er bit upp á tæplega hálfan hinn hefðbundna landbúnað, sem kostar 21 milljarð á ári. Þetta er tvöfalt meira en árleg byrði af samanlögðu tjóni af orkuverinu í Blöndu, laxeldisævintýri, loðdýrarækt og öðrum gæluverkum hins opinbera, er kosta fjóra milljarða á ári.

Um tveir áratugir eru síðan menn komust að raun um, að ekki væri allt með felldu í steyptum húsum á Íslandi. Fyrst var talað um alkalískemmdir, síðan frostskemmdir og nú er talað um kalskemmdir. En ekkert raunhæft hefur verið gert til að leysa vandann.

Samt er sagt, að unnt sé að byggja steinsteypt hús á landinu. Er vísað til þess, að það hafi tekizt fyrir stríð og að það hafi tekizt í orkuverum. Ef spurt er, hvers vegna ekki sé þá steypt eins og fyrir stríð eða eins og gert sé í orkuverum, verður fátt um bitastæð svör.

Enginn skortur er hins vegar á sökudólgum. Skeljasandur og kísilryk í sementi eru nefnd til sögunnar. Sömuleiðis sjávarsandur í steypu og uppskriftir í steypustöðvum af annars konar og lakari steypu en hinni ófáanlegu steypu, sem farið hefur í orkuver.

Ennfremur er nefnd til sögunnar langvinn steypuhræring í þar til gerðum bílum, steypuþeyting með þar til gerðum tækjum á vinnustað og almennur handagangur í öskjunni að hætti íslenzkra byggingamanna. En áratugir hafa liðið, án þess að botn fáist í málið.

Einn af sökudólgunum, sem hefur komið í ljós upp á síðkastið, er aukin einangrun innan á steinsteyptum veggjum. Hún flýtir fyrir kali steypunnar. Þess vegna er nú talið, að framvegis muni nást betri árangur, ef einangrað sé utan á steypuna, en ekki innan á hana.

Líta má á þjóðfélagið í heild sem allsherjar tilraunastöð í steypufræðum. Í stað þess að takmarka notkun þessa hættulega efnis við rannsóknastöðvar, meðan leitað er að nothæfri vöru, er steypa notuð villt og galið úti um borg og bý. Allir eru gerðir að tilraunadýrum.

Þessi umsvifamikla tilraun hefur leitt til viðhaldsmarkaðar, sem nemur níu milljörðum króna á hverju ári. Fyrirferðarmiklir á þeim markaði eru töframenn, sem selja ýmis galdraefni, er sum hver gera málið illt verra og engin koma í staðinn fyrir vandaða vinnu.

Fræðimenn á þessu sviði eru orðnir sammála um, að vel framkvæmd viðgerð geti enzt í átta ár. Viðgerðin getur út af fyrir sig verið í lagi að þessum tíma liðnum, en gamla steypan fyrir innan hefur haldið áfram að skemmast. Þess vegna verða viðgerðir að Kleppsvinnu.

Í flestum tilvikum reynist til lengdar hagkvæmast að setja einangrun utan á skemmda steypu og klæða síðan einangrunina með plötum, sem sérstaklega eru gerðar til að verjast veðrum og hafa raunar ekki annað hlutverk. En vanda þarf til vals og frágangs platna.

Með þessu er verið að viðurkenna, að við íslenzkar aðstæður sé steypa svipað innanhússefni og timbur. Eins og klæða varð timburhúsin í gamla daga með bárujárni, verði nú að klæða steypuhúsin með einhverjum þeim plötum, sem hafa leyst bárujárnið af hólmi.

Þannig er með ærnum kostnaði unnt að lagfæra mistök fortíðarinnar. En á sama tíma er á hverjum degi verið að framkvæma ný mistök með nýrri steypu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sanngjörn kreppa

Greinar

Hver lýðræðisþjóð fær þá kreppu, sem hún á skilið, á sama hátt og hún fær þá forustu, sem hún á skilið. Kreppan á Íslandi er algerlega heimatilbúin. Hún á sér engar ytri forsendur í efnahagsástandi þeirra ríkja, sem við skiptum mest við. Þjóðin ber sjálf ábyrgð á henni.

Samdráttur í verðgildi sjávarafla hefur hingað til ekki verið slíkur, að unnt sé að afsaka kreppuna með honum einum. Þriggja milljarða samdráttur sjávarútvegs í þrjúhundruðogsjötíu milljarða þjóðarbúi er ekki næg forsenda fyrir kreppunni, sem við búum nú við.

Að svo miklu leyti sem samdráttur í sjávarafla er hluti af forsendu kreppunnar, þá er hann líka þjóðinni að kenna. Hún hefur leyft forustuliði sínu að heimila ofveiði á flestum mikilvægustu fisktegundunum, þrátt fyrir ítrekaðar tillögur fiskifræðinga um minni veiði.

Þjóðin er svo forstokkuð, að hún er reiðubúin að hlusta á glæframenn útskýra, að fiskveiðifræði sé svo skammt á veg komin, að ekki þurfi að taka mark á tillögum fiskifræðinga. Þess vegna má ætla, að gæftaleysi muni magnast og verða viðameiri þáttur kreppunnar.

Íslendingar eru ekki reiðubúnir til að breyta efnahagslegum og pólitískum trúarsetningum sínum og munu þess vegna verða að sætta sig við sívaxandi kreppu. Líklegast er, að kreppan byrji ekki að sjatna, fyrr en öll sund eru orðin lokuð að færeyskum hætti.

Þetta kemur greinilega fram í tillögum aðila vinnumarkaðarins til ríkisstjórnarinnar um tilfærslu atvinnuleysis frá árunum 1993 og 1994 til áranna þar á eftir. Þessar tillögur bera þess engin merki, að flytjendur hafi hugmynd um, hvaðan á sig stendur veðrið.

Ofan á tilfærslu atvinnuleysis biðja aðilar vinnumarkaðarins um ný kraftalæti stjórnvalda, þótt dæmin sýni, að fyrri kraftalæti hafa leitt til orkuvers í Blöndu, laxeldis- og loðdýraævintýra og annnara gæluverkefna, sem hafa samtals brennt fjóra milljarða árlega.

Aðilar vinnumarkaðarins minnast ekki einu orði á þá níu milljarða, sem árlega eru teknir af fé skattgreiðenda til að brenna í hefðbundnum landbúnaði, og ekki heldur á þá tólf milljarða, sem árlega eru teknir af fé neytenda til að brenna í hefðbundnum landbúnaði.

Aðilar vinnumarkaðarins endurspegla þjóðarsálina eins og stjórnmálamennirnir endurspegla hana. Við stöndum einfaldlega andspænis því, að þjóðarsátt er um að halda áfram að brenna árlegum milljörðum í hefðbundnum landbúnaði og í ríkishandafli gæluverkefna.

Þetta er þjóðarsátt um kreppu. Þetta er þjóðarsátt um að breyta smávægilegum samdrætti í tekjum sjávarútvegs í risavaxna sálarkreppu, sem dregur kjark úr forstjórum og ræstingafólki, sjóðastjórum og opinberum starfsmönnum, svo að enginn þorir neinu lengur.

Kreppan er ekki enn komin á það stig, að þjóðin sé fáanleg til að kippa grundvellinum undan henni. Þjóðin vill áfram fá að þjást. Fólkið vill áfram vera á lágum launum og forstjórarnir vilja áfram stunda taprekstur. Enginn getur bannað þjóðinni að pynda sjálfa sig.

Þessi bjargfasta sjálfspyndingarstefna þjóðarinnar mun fljótlega leiða til þess, að ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins munu formlega skrifa undir enn eina þjóðarsáttina, þar sem hvergi verður vikið í alvöru að forsendunum, sem hafa komið núverandi kreppu af stað.

Forustumenn, sem þjóðin hefur valið sér, munu undirrita skjal, sem þjóðin á skilið. Þess vegna er ekki nema sanngjarnt og eðlilegt, að kreppan blómstri enn frekar.

Jónas Kristjánsson

DV

Vítaverðar tillögur

Greinar

Þegar málskraf og óskhyggja hafa verið skorin utan af tillögum aðila vinnumarkaðarins til ríkisstjórnarinnar, stendur eftir tillaga um, að teknir verði 2,2 milljarðar að láni í útlöndum til að flytja hluta af atvinnuleysi þessa árs og næsta árs til áranna, sem koma þar á eftir.

Með þessu leggja aðilar vinnumarkaðarins til, að þjóðin geri hvort tveggja í senn, stingi höfðinu í sandinn og pissi í skóinn sinn. Tillagan fjallar ekki um, að dregið verði úr atvinnuleysi, heldur verði það fært milli tímabila. Í tillögunni felst, að frestur sé á illu beztur.

Til að borga þetta á samkvæmt tillögunum að taka skammtímalán í útlöndum að færeyskum hætti, jafnvel þótt leitun sé að þeim, sem ekki telur fyrri lántökur þegar vera komnar yfir hættumörk. Slík höfuðverkjartafla gagnast ekki, ef sjúkdómurinn geisar áfram.

Þessi kjarni í tillögum aðila vinnumarkaðarins er ekki aðeins heimskulegur, heldur vítaverður. Það sýnir bezt ábyrgðarleysi og flottræfilshátt í þjóðmálunum, að þekktir menn skuli leggja nafn sitt við annað eins endemi og þessa 2,2 milljarða króna höfuðverkjartöflu.

Leiðtogar aðila vinnumarkaðarins eru annað hvort veruleikafirrtir eins og leiðtogar opinberra starfsmanna eða taka alls ekkert mark á eigin tillögum. Vandamál atvinnuleysis og versnandi lífskjara byggjast á forsendum, sem eru utan áhrifasviðs þessara tillagna.

Formaður vinnuveitenda sagði nýlega á fundi, að þjóðin hefði í einn áratug sóað sem svarar fjórum milljörðum króna á hverju ári í Blönduvirkjun, fiskeldi, loðdýr, ull og fleira þjóðlegt. Ef þjóðin hættir að sóa slíkum fjármunum, stígur hún fyrsta skrefið fram á veg.

Formaður vinnuveitenda gat þess ekki, að þjóðin hefur sóað, sóar enn og ætlar framvegis að sóa sem svarar níu milljörðum á hverju ári af fé skattgreiðenda í hefðbundinn landbúnað og sem svarar tólf milljörðum á hverju ári af fé neytenda í sama þjóðlega tilgangi.

Formaður vinnuveitenda og aðrir félagar hinnar pólitísku yfirstéttar í landinu hafa staðið fyrir þessari rúmlega tuttugu milljarða árlegri sóun í landbúnaði, sem veldur því, að atvinnuleysi er nú komið upp í hærri tölur en nemur samanlagðri atvinnu í landbúnaði.

Þjóðin er auralaus til átaka í atvinnuaukningu og lífskjarabótum af því að hún hefur sóað meira en tuttugu milljörðum árlega til hefðbundins landbúnaðar. Fjögurra milljarða árleg viðbótarsóun í Blöndu, refi og fleira þjóðlegt er bara viðbót ofan á stóra sukkið.

Er þjóðin ræðst gegn verðmætabrennslunni, munu vandamál atvinnuleysis og fátæktar leysast smám saman af sjálfu sér. En það gerist ekki fyrr en hún losar sig við hina pólitísku yfirstétt, sem ráfar veruleikafirrt í ríkisstjórnum, á Alþingi og í hagsmunasamtökum.

Ekkert bendir til, að á neinum þessara valdastóla sitji nokkur, sem muni í náinni framtíð lyfta höfðinu upp úr sandinum. Því meiri jarðskjálftar sem verða í atvinnu og efnahag, þeim mun fastar mun pólitíska yfirstéttin einbeita sér að málskrafi og óskhyggju.

Þjóðin hefur lengi hagað sér þannig í vali yfirmanna sinna í þjóðmálum og félagsmálum, að hún kemst ekki hjá vaxandi atvinnuleysi og versnandi lífskjörum, hvort sem haldið verður áfram á vegi sjónhverfinga eða loksins farið að skera á grundvallar-meinsemdirnar að baki.

Með uppskurði hefur hún þó von um betri tíð eftir nokkur ár. Vítaverðar tillögur aðila vinnumarkaðarins færa ekki með sér minnstu von um slíka tíð.

Jónas Kristjánsson

DV