Greinar

Skammlíft einkaframtak

Greinar

Þegar gengið er um miðbæ Reykjavíkur, má hvarvetna sjá minnisvarða hrunins einkaframtaks, glæsilegar hallir, reistar á vegum fyrirtækja, sem ekki eru lengur til. Í kreppu nútímans hrynja einhver slík stórveldi nánast í viku hverri einhvers staðar á landinu.

Úrelding fyrirtækja hefur ekki bara dökkar hliðar. Nýir aðilar koma til skjalanna og nýta hallir, tækjakost og mannafla horfinna fyrirtækja. Stundum er nýi reksturinn nútímalegri og færir eigendum, starfsfólki og þjóðfélaginu meiri arð en gamli reksturinn gerði.

Svo virðist þó vera, að slíkar sviptingar séu mun meiri hér á landi en í nálægum löndum og valdi mörgum aðilum töluverðum búsifjum, ekki sízt þjóðfélaginu í heild. Því veldur, að íslenzk fyrirtæki eru nátengdari persónum og ættum en almennt gerist í útlöndum.

Lífssaga íslenzkra fyrirtækja byrjar oft með hugmyndaríkum athafnamanni, sem fyrstur fetar nýja braut. Vegna vanþekkingar í rekstri og stjórn fatast honum oft flugið. Þetta er algengara nú en áður, af því að svigrúm frumkvöðla er oftast minna en það var.

Þau fyrirtæki, sem lifa af fyrsta stigið, lenda oftast í höndum næstu kynslóðar, sem í mörgum tilvikum hefur hlotið uppeldi í rekstri og stjórn fyrirtækja. Þetta er fólk, sem tekur litla áhættu, en getur oft haldið utan um það, sem frumkvöðullinn hafði áður byggt upp.

Einkenni þessa stigs er, að fleiri fjölskyldur en áður þurfa að lifa á eigninni og að þessar fjölskyldur eru dýrari í rekstri en fjölskylda frumkvöðulsins. Þetta ástand verður síðan óbærilegt í þriðju kynslóð eigenda, sem elst upp í vellystingum og sligar fyrirtækið.

Hallirnar við gömlu verzlunargöturnar í miðbæ Reykjavíkur eru minnisvarði um þennan skamma feril íslenzkra fjölskyldufyrirtækja. Enn átakanlegri verður ferillinn úti á landi, því að þar er oft skortur á hæfum aðilum til að byggja upp að nýju á rústum hins gamla.

Bolvíkingar voru orðnir svo vanir að sækja alla forustu til ættarinnar, að þeir hafa átt erfitt með að fóta sig, síðan ættarveldið hrundi. Þeir koma til Reykjavíkur og ímynda sér ranglega, að dyr sjóða, banka og ráðuneyta standi jafn opnar og dyr ættarinnar stóðu áður.

Byggðarlag getur lent í töluverðum hremmingum og jafnvel hrunið, þegar það stendur úti í kuldanum eftir að hafa hreiðrað um sig í hlýju ættarveldis í marga áratugi. Bæjarbúar koma úr vernduðu umhverfi og kunna tæpast að taka ákvarðanir upp á eigin spýtur.

Sumum fyrirtækjum tekst að rjúfa þennan vítahring ættarveldis. Í sumum tilvikum hefur frumkvöðullinn eða erfingjar hans vit á að víkka hlutafjáreign og stjórn þeirra og ná til aðila utan ættar. Fyrirtækið hættir að snúast um ættina og fer í staðinn að snúast um arðinn.

Íslendingar eiga sérstaklega erfitt með að feta þessa braut, sem liggur að baki flestum öflugum fyrirtækjum í útlöndum. Menn fara ekki að hugsa um fyrirtækin sem arðgjafa, heldur halda áfram að líta á þau sem konungsríki, er veiti forstjórum persónuleg völd og aðstöðu.

Þannig líta menn ekki á hlut í Stöð 2 sem tæki til að njóta arðs, heldur sem tæki til að berjast um völd. Það er dæmi um, að ekki er alltaf nóg að rjúfa vítahring fjölskyldufyrirtækjanna, heldur þarf að stíga fleiri skref til að rækta íslenzkum fyrirtækjum varanlegan jarðveg.

Þjóðfélagið getur stuðlað að endurbótum með lögum um gegnsæi fyrirtækja; lögum, sem opna umhverfinu innsýn í rekstur, bókhald og endurskoðun hlutafélaga.

Jónas Kristjánsson

DV

Hann varð snemma ólæs

Greinar

“Hann varð snemma ólæs,” skrifaði þekktur rithöfundur um kunnan athafnamann í Eyjum. Þetta orðaval má nota til að lýsa svonefndu eftirlæsi, sem felst í, að fólk lærir í skóla að hrafla í lestri, en þarf ekki að halda við kunnáttunni, er það kemur til starfa í samfélaginu.

Í árdaga voru þjóðir ólæsar. Fyrir fáum öldum eða áratugum urðu þær læsar. Nú eru þær að verða eftirlæsar. Sem dæmi um þessar breytingar má nefna, að nýleg könnun leiddi til þeirrar niðurstöðu, að um fjórðungur íslenzkra grunnskólanema geti tæpast talizt læs.

Grunnskólinn á Íslandi snýst að verulegu leyti um að kenna börnum að lesa, reikna og skrifa. Þetta gengur treglega, enda hefur tæknin gert fólki kleift að fara í kringum þetta. Það lætur lyklaborðin skrifa og reikna fyrir sig og fylgist með í útvarpi og sjónvarpi.

Umgengni við tölvur minnir á matseðla veitingahúsa. Menn benda með músinni á þann rétt, sem þeir kjósa af matseðlum tölvunnar. Senn nægir fólki að pota á skjánum í það, sem það vill, eins og þeir þekkja, er hafa prófað íslenzka ferðavakann sér til skemmtunar.

Aukin síma-, tölvu- og skjátækni mun í ört vaxandi mæli gera fólki kleift að lifa lífinu og komast áfram í lífinu án þess að kunna að lesa, reikna og skrifa. Að vísu mun lestrarkunnátta áfram verða aðgöngumiði vel launaðra og vel virtra starfa í þjóðfélaginu.

Með myndrænna efnisvali hafa upplýsingamiðlar á borð við dagblöð lagað sig að breytingunum. Svonefndar fagurbókmenntir eiga hins vegar í vök að verjast í baráttu við draumaverksmiðjur sjónvarps. Bóklestur sem bóklestur er á undanhaldi hér sem annars staðar.

Fyrst urðu afþreyingarbókmenntir að rifa seglin og nú er röðin komin að hinum eiginlegu bókmenntum. Til skjalanna eru að koma kynslóðir, sem eru vanar að nota útvarp og sjónvarp sem afþreyingu og menningartæki og hafa úr meira en nógu að velja á því sviði.

Auðvelt er að rökstyðja, að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Umheimurinn bjóði nægar upplýsingar, næga menningu og næga afþreyingu, þótt bóklestur dragist saman. Nýjum tímum fylgi nýir miðlar. Bækur séu einfaldlega orðnar að úreltu fyrirbæri.

Þetta er ekki svona einfalt. Í fyrsta lagi er í uppsiglingu nýr þáttur í aukinni stéttaskiptingu, sem felst í, að gerendur þjóðfélagsins eru læsir og nota það til að afla sér upplýsinga og menningar, en þolendur þjóðfélagsins eru eftirlæsir og horfa stjarfir á imbakassann.

Upp eru að rísa kynslóðir lágstéttarfólks, sem hefur tilhneigingu til að lenda í vítahring atvinnuleysis, bjórneyzlu og sjónvarpsgláps, af því að þjóðfélagið er orðið svo ríkt og svo tæknivætt, að það hefur efni á að halda öllum uppi, þótt þeir séu meira eða minna úti að aka.

Eftirlæsa og óvirka stéttin ímyndar sér, að hreyfanlegar myndir í sjónvarpi sýni henni veruleikann. Svo er ekki. Saga er sjón ríkari. Frægasta dæmið er Persaflóastríðið, sem var í beinni útsendingu. Þeir, sem vildu fylgjast með því í raun, urðu að nota blöð og útvarp.

Sjónvarpstéttirnar missa sjónar á veruleikanum og telja sér nægja ímynd hans eins og hún kemur fram í sjónvarpi. Þess vegna kjósa sjónvarpsstéttirnar sér pólitíska foringja í samræmi við tilbúnar ímyndir, sem þeir sjá í sjónvarpi, verksmiðjuframleidda persónuleika.

Vaxandi eftirlæsi er þáttur í vítahring, sem eykur stéttaskiptingu í þjóðfélaginu og dregur úr líkum á, að þjóðir hafi vit á að velja sér hæfa menn til forustu.

Jónas Kristjánsson

DV

Undirmáls-yfirstétt

Greinar

Svartsýni hefur náð tökum á hugum þjóða um alla Vestur-Evrópu, þar á meðal Íslendinga. Hún mælist meðal annars í skoðanakönnunum, sem sýna, að fólk er ekki sátt við foringja sína, býst ekki við neinu góðu af þeirra hálfu og gerir sér litlar framtíðarvonir.

Átakavilji fólks er lamaður. Ráðamenn fyrirtækja draga saman seglin og leggja ekki í ný verkefni. Þess vegna eykst atvinnuleysi á Íslandi og festist í sessi um alla Vestur-Evrópu. Ráðamenn þjóða sjá vandamál hrannast upp án þess að þeir hafi mátt til gagnsóknar.

Bretar eru dæmigerðir. Í skoðanakönnunum segist nærri helmingur þjóðarinnar mundu flytjast úr landi, ef hann ætti þess kost. Krúna og kirkja hafa glatað virðingu. Og undirmálsmaðurinn John Major hefur leyst járnfrúna Margaret Thatcher af hólmi í pólitíkinni.

Fríverzlunarmálin í tollaklúbbnum GATT eru líka dæmigerð. Allur þorri hagfróðra manna veit, að lækkun tolla og annarra múra í alþjóðaviðskiptum bætir hag allra og mest þeirrar þjóðar, sem tollana lækkar. Samt er viðskiptastríð í uppsiglingu milli Vesturlanda.

Undirmálsmenn stjórnmálanna eyða tíma sínum í að fylgjast með gengi sínu í skoðanakönnunum og í að mæla hávaða í þrýstihópum, sem ráðast að almannahagsmunum og koma í veg fyrir, að lífskjör innlendra neytenda séu bætt með því að rjúfa tollmúrana.

Við stýri þjóðarskútanna sofa undirmálsmenn á borð við bandarísku forsetana George Bush og Bill Clinton og evrópsku forsætisráðherrana John Major og Helmut Kohl, svo og franska forsetann Francois Mitterrand. Veður og vindar líðandi stundar ráða ferð þeirra allra.

Þeir svara með sjónhverfingum, er heil Evrópuþjóð tryllist svo af sagnarugli sínu, að hún fremur langverstu stríðsglæpi álfunnar á síðustu hálfri öld. Þeir láta Serba að mestu óáreitta, gráa fyrir járnum, en neita fórnardýrum þeirra um vopn og hernaðarstuðning.

Svokallaðir sáttasemjarar, Cyrus Vance og David Owen, flytja tillögur, sem margfalda vegalengd landamæra Serba og verðlauna stríðsglæpi þeirra. Og Atlantshafsbandalagið hefur greinilega fengið hægt andlát í djúpum svefni, þótt eldar brenni við mæri þess.

Íslendingum er líka stjórnað af undirmálsmönnum, en munurinn er sá, að þeir fara með óhófsvöld. Við búum við ráðherralýðræði í þéttu kófi reglugerða. Valdamiklir ráðamenn okkar hafa reynzt ófærir um að stjórna sjálfum sér og hvað þá að leiða heila þjóð.

Ef stöðvað væri peningabrennslukerfið, sem ráðherrar starfrækja í félagi við banka- og sjóðastjóra, væru meira en nógir peningar til í þessu landi. Ef stöðvað væri styrkjakerfið og innflutningsbannið í landbúnaði, mundu lífskjör almennings snögglega stórbatna.

Misheppnaðir ráðamenn sjá þá leið eina að láta almenning og fyrirtæki herða sultaról í sífellu, en hafa ekki áræði til að skera brott meinsemdir kerfisins til að losa þjóðina úr viðjum og færa henni fé og kjark til að takast á við óþrjótandi framtíðarverkefni.

Vestrænir undirmálsleiðtogar horfa stjarfir á sókn Serba gegn vestrænni siðmenningu og sókn sérhagsmuna gegn vestrænni fríverzlun. Íslenzkir undirmálsleiðtogar horfa stjarfir á verðmætabrennslu í sukki peningastofnana og í verndun gæludýra atvinnulífsins.

Kreppan okkar stafar ekki af fiskileysi, heldur af hugmyndagjaldþroti hinnar úr sér gengnu pólitísku yfirstéttar, bæði hér heima og í nágrannalöndunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanhæfir bankastjórar

Greinar

Þegar bankakerfi landsins þarf að nota 6,5 milljarða á hverju ári til að bæta sér upp glötuð útlán, fara bankarnir annaðhvort einfaldlega á höfuðið eða þeir auka svo bilið milli innvaxta og útvaxta, að þeir geti náð þessum milljörðum af skilamönnum í hópi lántakenda.

Í fyrra töldu stjórnendur bankanna, að þeir þyrftu að leggja 6,5 milljarða króna í afskriftasjóði. Þegar þeir eru gagnrýndir fyrir of mikið vaxtabil og þar af leiðandi of háa útlánavexti, vísa þeir til þessarar þarfar og segjast raunar sízt hafa gengið of langt í vaxtabili.

Ekki er lengur deilt um, að bæði nafnvextir og raunvextir séu of háir hér á landi og mun hærri en í sambærilegum löndum. Til skamms tíma var þenslu kennt um þetta. Eftirspurn peninga væri miklu meiri en framboðið og þessi munur væri óvenjulega mikill hér á landi.

Nú hefur stjórnvöldum tekizt að framleiða svo mikla sálarkreppu í atvinnulífinu, að athafnakjarkur fólks hefur minnkað að marki. Þar af leiðir, að eftirspurn peninga er lítil af hálfu atvinnulífs, húsbyggjenda og annarra einstaklinga. Fólk þorir ekki að skulda.

Ríkið hefur lengst af verið fremst í flokki þeirra, sem halda uppi eftirspurn peninga og þar af leiðandi háum vöxtum. Óvissa ríkir um áform ríkisins á þessu sviði. Ástæða er til að óttast opinberar lántökur til atvinnubótavinnu vegna vaxandi þrýstings hagsmunaaðila.

Um nokkurt skeið hafa menn verið nokkurn veginn sammála um, að mikil fyrirferð hins opinbera á lánamarkaði haldi uppi háum vöxtum. Af þessu leiðir, að horft hefur verið til umsvifa ríkisins, þegar talað er um nauðsyn þess, að vextir komist niður úr himinhæðum.

Nú er komið í ljós, að ríkið er bara annar af tveimur stórum sökudólgum í málinu. Hinn aðilinn er bankakerfið, sem hefur framleitt 6,5 milljarða afskriftaþörf á ári með ógætilegri útlánastefnu á liðnum árum. Það er er því ekki nóg, að ríkið dragi saman seglin.

Í bankakerfinu hafa notið forgangs hefðbundin gæludýr og nokkur ný gæluverkefni. Þetta byggist að mestu á, að stjórnendur bankanna hafa ekki starfað eins og bankamenn, heldur eins og stjórnmálamenn. Enda eru margir þeirra afdankaðir ráðherrar eyðsluráðuneyta.

Hin öflugu tengsl stjórnmála og banka hafa framleitt sérkennilegt bankakerfi, sem er svo vanhæft til starfa, að það þarf að leggja 6,5 milljarða til hliðar á ári til að mæta vitlausum útlánum. Þessi spilltu tengsli þarf að rjúfa, svo að heilbrigð viðhorf fái að ráða í bönkum.

Bezta lækningin væri að fá útlenda banka, sem ekki eru tengdir hinu séríslenzka útlánarugli, til að hefja útibúsrekstur hér á landi. Slík útibú ættu að geta boðið minna vaxtabil en hér tíðkast, það er að segja peningaeigendum hærri vexti og skuldunautum lægri vexti.

Það er fáokunin, sem hefur gert bönkunum kleift að varpa afleiðingum af röngum bankastjórum og bankaráðum yfir á herðar fyrirtækja og einstaklinga. Ef samkeppni að utan kæmi til sögunnar, yrðu bankarnir að hætta ruglinu til að standast samkeppni við útlendinga.

Athyglisvert er, að bankastjórar eru sperrtir vel, jafnvel þótt 6,5 milljarða afskriftaþörf hafi sýnt, að flestir eru þeir algerlega vanhæfir til starfa. Þeir telja sig ekki bera neina ábyrgð, alveg eins og stjórnmálamenn axla enga ábyrgð af sínu peningasukki og sínum glæfrum.

Einnig er athyglisvert, að þetta pólitíska kerfi ábyrgðarleysis telur bankastjóra eiga skilið sömu ráðherrakjör og helztu sukkarar og fjárglæframenn ríkisvaldsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Heiðra skulum við skálkinn

Greinar

Evrópusamfélagið sýndi enn einu sinni rétt eðli sitt í fyrrakvöld, þegar það setti höft á ferskan fisk og ferskar fiskafurðir. Þetta staðfestir það, sem oft hefur verið sagt hér, að Evrópusamfélagið er svo hættulegt umhverfi sínu, að við neyðumst til að ganga í það.

Ef við erum í Samfélaginu, geta íslenzkir sérhagsmuna- og þrýstihópar fengið greiðan aðgang að kerfinu í Bruxelles. Fyrir utan það erum við hins vegar hluti af umhverfi þess og erum háðir alls konar duttlungum og frekju sérhagsmuna- og þrýstihópa innan þess.

Í stórum dráttum má segja, að kerfi Evrópusamfélagsins sé eins konar risavaxið landbúnaðarráðuneyti að íslenzkum hætti. Það er sett á stofn til að vernda rótgróna, vel skipulagða og hávaðasama sérhagsmuni gegn almannahagsmunum og sviptingum markaðslögmála.

Rætur Evrópusamfélagsins liggja í Evrópska kola- og stálsambandinu, sem stofnað var eftir stríð til að halda uppi verði í Evrópu og hindra samkeppni frá öðrum heimsálfum. Samfélagið hefur víkkað verkefnið og gætir nú evrópskra sérhagsmuna á breiðri víglínu.

Höfuðmarkmið Samfélagsins er að vernda hin stóru fáokunarfyrirtæki Evrópu gegn japönskum og bandarískum keppinautum. Annað í röð markmiðanna er að vernda hávaðasama sérhagsmuni á sama hátt. Allir þessir aðilar mynda vel skipulagða þrýstihópa .

Franskir sjómenn hafa stælt eftir frönskum bændum þá árangursríku aðferð að haga sér eins og óþæg vandræðabörn, sturta mat á götur og rústa markaðsskála. Þeir ganga berserksgang, unz þeim er hlýtt. Þess vegna er nú búið að setja lágmarksverð á ferskfisk.

Alveg eins og á Íslandi eru neytendur ekki spurðir neins. Kerfinu í Bruxelles er hjartanlega sama, hvort þeir borga meira eða minna fyrir fisk. Aðalatriðið er að friða hávaðahagsmuni. Það verður gert aftur og aftur, þegar þrýstihóparnir færa sig upp á skaftið.

Næst þurfa franskir sjómenn ef til vill meiri vernd. Ef til vill verða það þó fremur fiskvinnslustöðvarnar, sem telja sig þurfa meiri vernd gegn umhverfi Evrópusamfélagsins. Í öllum tilvikum verður í skyndingu breytt þeim aðstæðum, sem íslenzkur sjávarútvegur býr við.

Sjálfsafgreiðsla þrýstihópa er og verður mikil í sjávarútvegi, sem í Evrópusamfélaginu er talinn þurfa svipaða gjörgæzlu og landbúnaður. Við getum á þann einn hátt varizt kárínum að vera ekki hluti af umhverfi Samfélagsins, heldur hluti af innra þrýstihópakerfi þess.

Sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu fáum við greiðari aðgang að evrópskum markaði. Við náum hins vegar því ekki að verða innangarðs á vandræðabarnaheimili þrýstihópanna. Við þurfum að ganga í sjálft Evrópusamfélagið til að verða gjaldgengir á því sviði.

Pólitískar skyldur vegna aðildar verða minni en áður var reiknað með. Bretum og einkum Dönum hefur tekizt að draga allan mátt úr stuðningsmönnum aukinnar samvinnu á sviði stjórnmála, utanríkismála og varnarmála. Fjármál og efnahagsmál verða áfram aðalmálin.

Til þess að fá mjúka lendingu í Evrópusamfélaginu þurfum við sem allra fyrst að taka upp þráðinn, svo að við getum náð samfloti með þeim ríkjum Fríverzlunarsamtakanna, sem hafa sótt um aðild að Samfélaginu. Það er sá hópur ríkja, sem fær ódýrastan aðgang.

Við eigum að gerast aðilar að Evrópusamfélaginu, svo að það skaði okkur ekki. Við höfum sérhagsmuni af að vera innan kerfis, sem er hættulegt umhverfi sínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Mislukkað stjórntæki

Greinar

Ríkisstjórnin fylgir þeim ráðum, að heppilegt sé að hafa nokkurt atvinnuleysi í landinu til þess að fólk haldi betur á spöðunum í vinnunni og geri ekki kröfur um óbreytt lífskjör. Hagfræðin segir, að þetta sé ein auðveldasta og öruggasta leiðin í baráttunni við verðbólguna.

Þetta má ekki segja opinberlega. Til að breiða yfir ábyrgð stjórnvalda er atvinnuleysið kennt utanaðkomandi náttúruafli, sem kallað er kreppa. Hún er sögð stafa af samdrætti útflutningstekna af sjávarútvegi, sem nemur þó ekki nema um þremur milljörðum króna á ári.

Til samanburðar má nefna, að hinn hefðbundni landbúnaður kostar skattgreiðendur níu milljarða á fjárlögum þessa árs, fyrir utan tólf milljarða, sem hann kostar neytendur á þessu ári. Kreppan er blóraböggull upp á 1% af 300 milljarða króna þjóðarframleiðslu á þessu ári.

Þriggja milljarða vasabrotskreppa, fimm prósenta atvinnuleysi og slæmt fordæmi Færeyinga er óspart notað til að gefa þjóðfélaginu frið fyrir kröfum um hærri taxtalaun og stjórnvöldum þar á ofan frið fyrir kröfum um óbreytta velferðarþjónustu hins opinbera.

Sum áhrifin af þessu eru góð. Íslendingar hafa áreiðanlega fremur gott af auknum aga í störfum. Margir standa sig betur í vinnunni, af því að þeir vilja ekki lenda í hópi þeirra, sem sagt er upp. Þetta eflir þá sem einstaklinga, svo og fyrirtækin og þjóðina í heild.

Samt er atvinnuleysi stórhættulegt hagstjórnartæki. Við sjáum það vel í útlöndum, þar sem lengi hefur verið mikið atvinnuleysi. Langvinnt atvinnuleysi gerir fólk óhæft til að hefja vinnu að nýju, þótt hún bjóðist. Atvinnuleysið verður eins konar lífsstíll fátækrahverfa.

Atvinnumissir er stórfellt persónuáfall. Hann tætir í sundur fjölskyldur, spillir heilsu fólks, veldur stóraukinni misnotkun áfengis og annarra fíkniefna, margfaldar afbrot og tjón. Hann eykur álagið á þjónustu hins opinbera á mörgum sviðum velferðar og löggæzlu.

Atvinnuleysi rífur sjálfan þjóðfélagsvefinn, magnar stéttaskiptingu og ábyrgðarleysi. Það felur auk þess í sér gífurlega sóun á hæfileikum og kunnáttu hinna atvinnulausu. Víðast hvar hefur afar lítið verið gert til að endurhæfa atvinnulaust fólk til nýrra verkefna.

Hagfræðikenningar um gildi atvinnuleysis sem hagstjórnartækis vanmeta eða meta alls ekki þessa þætti. Kostnaðurinn við brotnar persónur og brotin samfélög er miklu meiri en hagurinn, sem fæst af meiri aga og minna röfli. Það er bara erfiðara að mæla hann.

Atvinnuleysið á Íslandi er orðið svo mikið, að það er farið að hafa hin skaðlegu áhrif, sem við höfum séð í útlöndum. Tímabært er, að stjórnvöld halli sér frá trúboðum atvinnuleysis meðal ráðgjafanna, án þess þó að falla fyrir háværum kröfum um atvinnubótavinnu.

Atvinnuleysi skánar lítið, þótt það sé dulbúið sem atvinnubótavinna. Þess vegna er rétt að gjalda varhug við tilraunum nokkurra sveitarfélaga til að komast yfir ríkispeninga undir því yfirskini, að verið sé að útvega fólki vinnu. Aðgerðirnar þurfa að vera varanlegri.

Leggja þarf aukið fé í margs konar kennslu fyrir atvinnulausa, svo að þeir geti haslað sér völl á þenslusviðum, þar sem ríkir full atvinna. Þeir þurfa að koma sér upp fagþekkingu, þekkingu á minni háttar rekstri og fjármálum, svo og þekkingu á mannlegum samskiptum.

Ekki má líta á atvinnuleysi sem nauðsynlegan herkostnað við aðgerðir í efnahagsmálum, heldur sem einn versta framtíðarvanda þjóðarinnar um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV

Markvisst aðgerðaleysi

Greinar

Matvælasendingar Sameinuðu þjóðanna til Sarajevo í Bosníu hafa að megintilgangi að sefa samvizku umheimsins og að draga úr hinni hörðu gagnrýni, sem samtökin hafa sætt fyrir aðgerðaleysi sitt í mesta stríðsglæpa- og mannréttindabroti síðustu áratuga.

Þetta kom vel í ljós, þegar yfirvöld í Sarajevo neituðu að taka við mat, á meðan Sameinuðu þjóðirnar hefðu ekki manndóm til að koma mat til innilokaðra svæða í Bosníu. Þessi aðgerð auglýsti vel eymd Sameinuðu þjóðanna og blekkingaleikinn í hjálparstarfi þeirra.

Ráðamenn Vesturlanda vilja ekki hafa afskipti af Bosníu, en komast ekki upp með það vegna almenningsálits. Þess vegna beita þeir fyrir sig fjölþjóðastofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar til að þæfa málin, svo að sífellt sé hægt að fresta aðgerðum gegn Serbíu.

Sameinuðu þjóðirnar eru ekki einu samtökin, sem hafa beðið varanlegan hnekki í Bosníu. Á sama báti er Evrópusamfélagið, sem með Sameinuðu þjóðunum ber ábyrgð á, að þeir Cyrus Vance og David Owen lögðu fram áætlun um að verðlauna Serba fyrir afrekin.

Í friðartillögu Vance og Owens eru stríðsglæpir Serba látnir kyrrir liggja. Í tillögu þeirra er þjóðahreinsunarstefna þeirra formlega staðfest. Þar á ofan er tillagan gersamlga óframkvæmanleg, af því að hún margfaldar vegalengd landamæranna milli Serba og umheimsins.

Einnig beið Atlantshafsbandalagið hnekki í Bosníu, enda verður það lengi að jafna sig, eftir að heimskommúnisminn gufaði upp af sjálfsdáðum. Herstjóri bandalagsins í Evrópu, John Shalikashvili, sagði í Búdapest fyrir helgina, að engra aðgerða þess væri að vænta.

Hershöfðinginn endurómar stefnu fyrrverandi og núverandi Bandaríkjaforseta, að ekki megi hefja styrjaldaraðgerðir gegn Serbum. Á sama tíma heldur allt þetta lið virðingarmanna þeim upptekna hætti að flytja reglubundnar áminningar og hótanir í garð Serba.

Slobodan Milosevic, Zeljki Raznjatovic, Radovan Karadzik og aðrir verstu stríðsglæpamenn Serba hafa fyrir löngu áttað sig á, að ekkert er að marka áminningar og hótanir af hálfu undirmálsmanna á borð við George Bush, Bill Clinton, John Mayor og Helmut Kohl.

Því lengur, sem misheppnuðum leiðtogum Vesturlanda tekst að fresta aðgerðum gegn Serbíu, þeim mun erfiðari verða þær. Alvarlegast er, að helzti stuðningsmaður Vesturlanda í Rússlandi, Boris Jeltsín, er að glutra völdum í hendur afturhaldssamra Serbíusinna.

Stjórn Jeltsíns er komin í vörn heima fyrir og er því farin að beita sér gegn frekari aðgerðum Vesturlanda gegn Serbíu. Það er því orðið erfiðara en áður að ráðast úr lofti á hernaðarlega mikilvæga staði í Serbíu og mynda loftbrú til einangraðra svæða í Bosníu.

Með hverri vikunni, sem líður, aukast líkur á, að þjóðahreinsun Serba verði fordæmi sumum þeirra ótalmörgu þjóða, sem vilja rýmka um sig á kostnað nágrannaþjóðanna. Slíkar þjóðir eru einkum margar í hundrað-þjóða-álfunni, sem áður nefndist Sovétríkin.

Flestum eða öllum valdamönnum Vesturlanda er í rauninni ljóst, að ekkert annað en gagnstríð getur stöðvað Serba, en vilja hins vegar ekki heyja slíkt stríð. Friðarráðstefnur og matvælasendingar eru notaðar til að draga fjöður yfir þessa staðreynd og tefja tímann.

Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusamfélagið og Atlantshafsbandalagið birtast okkur í raunsærra ljósi en áður, eftir markvisst og langvinnt aðgerðaleysi í Bosníu.

Jónas Kristjánsson

DV

Eignarhald á stólum

Greinar

Sjálfsagt þykir, að sá ráðherra Alþýðuflokksins, sem veit sitt af hverju um hagmál, verði aðalbankastjóri Seðlabankans, er Jóhannes Nordal hættir í sumar. Alþýðuflokkurinn er talinn eiga þetta embætti á sama hátt og flokkarnir skipta með sér herfangi á ýmsa vegu.

Svo traust er eignarhald núverandi bankaráðherra á Seðlabankastöðunni, að talað er um, að sá bankastjóri Landsbankans, sem situr í stjórasæti Alþýðuflokksins, flytji sig og vermi sætið um sinn í Seðlabankanum, svo að bankaráðherrann geti nýtt sér allt kjörtímabilið.

Aðrir ráðherrar þurfa ekki heldur að kvíða atvinnuleysi, þótt dagar þeirra séu senn taldir í ráðherraembætti. Umhverfisráðherra er meira að segja sagður eiga kost á sendiherrastöðu í samræmi við þá hefð, að utanríkisþjónustan sé leikvöllur aflóga pólitíkusa.

Sá þingmaður Alþýðuflokksins, sem næst gengur ráðherrum að vegsemd, formaður fjárlaganefndar Alþingis, er talinn eiga fyrsta ráðherraembætti, sem losnar hjá Alþýðuflokknum. Það flækir málið, að hann er líka talinn eiga forstjórastól Tryggingastofnunarinnar.

Það eru ekki vextirnir eða launin eða tómahljóð ríkiskassans, sem pólitíkusar landsins eru að hugsa um á þorranum. Það eru hrókeringar í ráðherrastólum og öðrum valdastólum þjóðfélagsins, er flokkar og pólitíkusar telja sig eiga eins og hvert annað herfang.

Hin sérstæða stjórnmálaspilling á Íslandi er orðin svo rótgróin, að framvinda lýðræðishefðar í nánasta umhverfi þjóðarinnar hefur engin áhrif inn fyrir landsteinana. Íslenzkir pólitíkusar halda áfram eins og alltaf áður að haga sér eins og ránsgreifar frá miðöldum.

Sendiherraembætti og bankastjórastólar, forstjórasófar ríkisins og stofnana í tengslum við ríkið, eru þétt setnir aflóga stjórnmálamönnum, sem taldir eru þurfa að komast í róleg sæti að loknu erilsömu snatti fyrir kjósendur og annarri byggðastefnu þeirra á Alþingi.

Þetta er ein veigameiri skýringanna á, hvers vegna íslenzkir embættismenn eru latir og lélegir. Þeir eru ekki á framabraut í þjóðfélaginu, heldur eru þeir þegar seztir í helgan stein að njóta ávaxta af herfangi stjórnmálanna. Þeir eru eins konar fyrrverandi fyrirbæri.

Þetta séríslenzka ástand fengi ekki staðizt, ef þjóðin væri andvíg kerfinu. Þjóðin er hins vegar sumpart fylgjandi spillingunni og þolir hana sumpart, af því að grundvallarhefðir borgaralegrar hugsunar hafa aldrei fengið tækifæri til að skjóta rótum og blómstra hér á landi.

Hinn dæmigerði Íslendingur hefur þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur. Ef menn bera í brjósti neikvæðar hugsanir í garð spillingar, er frekar um öfund að ræða en réttláta, borgaralega hneykslun. Í þessum jarðvegi þrífast pólitíkusarnir.

Hinn dæmigerði Íslendingur metur þingmenn eftir vegaspottum, sem þeir geta skaffað, og ráðherra eftir flugvöllum, sem þeir geta skaffað. Þess vegna hafa helztu þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra verið í hávegum hafðir í kjördæminu sem samgönguráðherrar.

Þessi aðferð við rekstur þjóðfélags er afar dýr, því að verðmæti renna hvarvetna út í sandinn. Þetta hefur meðal annars leitt yfir okkur kreppuna, sem nú ríður húsum. Hún stafar ekki nema að litlum hluta af þriggja milljarða samdrætti í útflutningstekjum af sjávarafla.

Þegar ekki þykir lengur í lagi, að pólitíkus eigi herfang í Seðlabankastól, má hafa það til marks um, að við séum byrjuð að feta okkur út úr spillingu og kreppu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sigurinn er ósigur

Greinar

Liðskannanir í herbúðum samtaka launþega hafa leitt í ljós, að fólk er ekki eins baráttuglatt og látið hefur verið í veðri vaka. Í samræmi við það hafa seglin verið rifuð á stærstu skútunni. Forusta Alþýðusambandsins er í rauninni farin að falast eftir nýrri þjóðarsátt.

Að venju fer öllu meira fyrir bandalagi opinberra og mest fyrir kennurum. Sú baráttuharka er þó til einskis, því að viðsemjandinn er einmitt sá aðili, sem er harðari en nokkur annar vinnuveitandi í landinu. Það er ríkið sjálft, sem er að verja stefnu ríkisstjórnarinnar.

Að ýmsu leyti má líta á það sem töluverðan árangur hjá ríkisstjórninni að hafa komizt upp með að rífa fyrri þjóðarsátt í tætlur og fá svo fórnardýrin til að biðja um nýja þjóðarsátt á lægri nótum. En það getur líka verið hættulegt að valta yfir almenning hvað eftir annað.

Ríkisstjórnin getur sennilega látið kné fylgja kviði og náð nýrri þjóðarsátt án kauphækkana og með fremur litlum félagsmálapakka, að minnsta kosti mun minni pakka en forustumenn samtaka launafólks hafa verið að fjalla um sem þolanlega lendingu í erfiðri stöðu.

Ef þetta verður raunin, nær ríkisstjórnin að sigla út þetta ár, án þess að verðbólga fari af stað á nýjan leik. Það væri óneitanlega umtalsverður sigur stjórnarstefnunnar og um leið einkar jákvæð stærð í þjóðarbúskapnum. En á móti koma aðrar stærðir, sem eru neikvæðar.

Þótt þjóðin hafi gott af því að reyna að lifa ekki um efni fram, er ekki sama, hvernig farið er að. Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst ráðizt gegn velferðarkerfi almennings, lífskjörum, heilsugæzlu og menntun, en látið velferðarkerfi gæludýra atvinnulífsins í friði.

Haldið er fullum dampi á verðmætabrennslu í hefðbundnum landbúnaði. Ráðherrar halda fullum dampi á hefðbundnu kjördæmapoti. Undir yfirskini einkavæðingar er ríkiseinokun breytt í einkaeinokun og fram haldið hefðbundinni gæzlu sérhagsmuna gæludýranna.

Ríkisstjórnin lætur almenning um allar þjáningar af laxeringu þjóðarbúsins. Þótt margir hafi gott af því að læra að lifa ekki um efni fram, hefði þó verið enn gagnlegra, ef gæludýrin í velferðarkerfi atvinnulífsins og sérhagsmunanna væru látin lifa á eigin verðleikum.

Þótt margir hafi gott af því að læra að lifa ekki um efni fram, er þó ljóst, að sumt fólk hefur ekki þau efni, að því gagnist þessi lexía. Einna verst fara hinir atvinnulausu, sem smám saman missa getuna til að afla sér nýrrar vinnu og verða að lokum ófærir til vinnu.

Þegar upp úr þessari heimatilbúnu kreppu er staðið, mun koma í ljós, að atvinnuleysið hefur breytt svo persónuleika fólks, að það getur ekki hagnýtt sér vinnu, þótt hún bjóðist. Það er reynsla frá útlöndum, að mikla endurhæfingu þarf til að hasla sér völl að nýju.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að mála skrattann á vegginn, til dæmis með því að vísa til Færeyja og vara við færeysku ástandi, svo og að keyra lífskjör þjóðarinnar eins mikið niður og frekast er unnt. Þannig telur hún, að svokallað jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum.

Um leið magnar ríkisstjórnin hina heimatilbúnu kreppu. Hún hefur forustu um að draga kjark úr fólki og hefta það framtak, sem eitt getur lyft þjóðinni upp úr vonleysi og svartsýni. Þessi skuggahlið er þyngri á vogarskálunum er hin bjarta hlið stöðugs verðlags.

Svo langt getur sigurvegari gengið fram í að kúga og kvelja hinn sigraða, að hinn sigraði missi mátt til að standa undir þungri yfirbyggingu sigurvegarans.

Jónas Kristjánsson

DV

Færeyjaundrið upplýst

Greinar

Þótt orsakir færeyska hrunsins séu svipaðar erfiðleikum Íslands, er mikill þyngdarmunur sjáanlegur. Færeyingar hafa gengið miklu hraðar og lengra í glötunarátt. Þar skuldar hvert mannsbarn sem svarar 1,8 milljón íslenzkum krónum, en hér 0,9 milljónir.

Mestu munar, að tíu ára fjárfestingaræði rann á Færeyinga, en stórsjóða-ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var aðeins við völd í þrjú ár. Hún kom að vísu upp kerfi atvinnutryggingarsjóða að færeyskum hætti, en hafði ekki tíma til að ganga eins langt.

Þótt núverandi ríkisstjórn Íslands sé gallagripur, hefur hún sér til málsbóta, að hún hefur vikið okkur af færeysku leiðinni og stefnir í aðrar áttir. Það mun henni takast í þeim mæli, sem henni tekst að koma í veg fyrir skuldaaukningu upp úr 0,9 milljónum á mann.

Færeyska hrunið er afar lærdómríkt fyrir okkur. Við sjáum þar afleiðingar ýmissa gæluhugmynda, sem löngum hafa tröllriðið okkur, einkum framsóknarmönnum helztu íslenzku Framsóknarflokkanna, hvaða nafni sem þeir nefnast. Við eigum nú að geta varað okkur á þeim.

Byggðastefna er alfa og ómega færeyska hrunsins. Byggðastefna í ótal myndum var forsenda vandræðanna, sem hrifsuðu sjálfstæðið úr höndum Færeyinga. Frægustu dæmin eru jarðgöng, jafnvel fyrir 25 manna byggð og allt niður í jarðgöng fyrir sauðfé.

Sumir muna, hversu hrifnir Steingrímur Sigfússon, jarðgangaráðherra Steingríms Hermannssonar, og þúsundir annarra íslenzkra framsóknarmanna voru af framtaki Færeyinga á þessu sviði. Þeir sögðu, að við hlytum að geta þetta, úr því að Færeyingar gætu það.

Hafnir voru smíðaðar og fiskvinnslustöðvar reistar fyrir hverja byggð í Færeyjum, jafnvel þótt 400 manns byggju á öðrum staðnum, 600 manns á hinum og sjö kílómetra malbiksbraut væri á milli. Smábyggðastefna okkar var barnaleikur í samanburði við þá færeysku.

Við megum samt ekki gleyma, að við höfum lengi rekið þessa sömu stefnu, en bara ekki haft ráð á að reka hana eins hart og Færeyingar gerðu í skjóli danskra peninga. Við erum enn haldin þeim órum, að frysta eigi byggð, ekki leyfa neina umtalsverða röskun hennar.

Ekki eru mörg ár síðan framsóknarmenn allra íslenzku Framsóknarflokkanna töluðu og skrifuðu um færeyska undrið. Þar var þjóð með reisn, sem hafði kjark til að leggja fé í að byggja upp samgöngur og atvinnulíf um allt land. Færeyjar voru draumalandið.

Færeyingar gátu greitt tvöfalt verð fyrir afla upp úr sjó og gátu greitt fólki tvöföld laun, þótt þeir seldu á vegum íslenzkra útflutningssamtaka. Þeir bjuggu við helmings vöruverð og helmings skatta á við Íslendinga. Af hverju getum við þetta ekki? spurðu menn.

Nú er skýringin komin í ljós. Færeyingar lifðu ekki bara um efni fram eins og Íslendingar, heldur lifðu í samfelldri veizlu. Meðan Íslendingar misstu aldrei alveg sambandið við veruleikann, lifðu Færeyingar algerlega utan hans, ekki sízt helztu pólitíkusar eyjanna.

Á sama tíma og Halldór Ásgrímsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra okkar, tók mikið mark á fiskifræðingum, tóku færeyskir ráðherrar alls ekkert mark á neinum aðvörunum um ofveiði. Þeir hafa allan þennan tíma verið ríflega steingrímskir í stórhug og bjartsýni.

Ógæfa Færeyinga verður vafalaust til þess að fæla íslenzka stjórnmálamenn frá taumlausri byggðastefnu, stórhug og bjartsýni. Eins dauði er annars brauð.

Jónas Kristjánsson

DV

Forstjórahappdrættið

Greinar

Þegar spádeildarstjóri Veðurstofunnar var skipaður fyrir allmörgum árum, var ráðherra stofunnar úr Framsóknarflokknum. Hann hafði ekki úr vöndu að ráða og tók helzta framsóknarmann stofunnar fram yfir helzta alþýðubandalagsmann hennar, að hefðbundnum hætti.

Sömu menn voru síðan í framboði til Veðurstofustjóra nokkrum árum síðar. Þá hafði taflið snúizt við. Alþýðubandalagsmaður var ráðherra stofunnar. Hann valdi þann, sem tapað hafði í fyrra skiptið, auðvitað alþýðubandalagsmanninn, að hefðbundnum hætti.

Nú hefur enn verið skipað í þessa stöðu. Enn var í framboði framsóknarmaðurinn, sem var heppinn í fyrsta skiptið og óheppinn í annað. Nú er alþýðuflokksmaður ráðherra stofunnar. Hann skipaði þekktan alþýðuflokksmann í embættið, að hefðbundnum hætti.

Þessi saga er spegilmynd íslenzkra stjórnmála. Flokkarnir eru fyrst og fremst eiginhagsmunabandalög, sem eru notuð til að komast í aðstöðu, fjármagn, stöður og spillingu. Þetta fer ekki leynt, enda virðast kjósendur sáttir að kalla við þessa skipan íslenzkra þjóðmála.

Ekki er tekið út með sældinni að vera með í þessum leik, eins og framsóknarmaðurinn títtnefndi hefur komizt að raun um. Gæfuhjólið snýst án afláts. Einn daginn er minn maður ráðherra á réttu andartaki, í tvö önnur skipti er ráðherrann maður hinna á röngu andartaki.

Það er ekki nóg að vera í pólitík til að hreppa stöður. Það eru svo margir í pólitík, að ekki komast allir lysthafendur að jötunni. Þeir taka þátt í happdrætti, þar sem gæfan er fallvölt. En allir eiga þeir þó möguleika, af því að þeir eru stimpluð flokkseign og eiga miða.

Grundvallaratriði þátttökunnar í þessu happdrætti um stöður er að vera í einhverjum stjórnmálaflokki, sem líklegur er til að hafa oftar en ekki ráðherra á því sviði, sem maður starfar við. Bezt er að vera sem fremst í flokknum til að útiloka innanflokkssamkeppni.

Með því að rekast ekki í neinum flokki, fá menn engan happdrættismiða til að spila með. Sá, sem ekki er stimplaður flokki, á engan möguleika. Þetta hefur komið í ljós í hundruð eða þúsund skipta, þegar flokkspólitík hefur verið tekin fram yfir málefnaleg sjónarmið.

Þetta gerist við allar aðstæður, jafnvel þótt verið sé að skipa prófessora, þar sem nokkuð traustir mælikvarðar eiga að vera á málefnalegum grundvelli. Þannig eru beztu menn hraktir til útlanda, en flokksbræður gerðir að smákóngum í þriðja flokks Háskóla Íslands.

Íslendingar eru ekki nema kvartmilljónar þjóð og eiga því erfitt með að manna alla mikilvæga pósta sæmilega hæfu fólki. Með happdrættisaðferð flokkakerfisins er ástandið gert hálfu verra, því að það gengur hiklaust framhjá hæfu fólki í þágu mishæfra flokkskvígilda.

Stundum gengur þetta dæmi upp. Hæft fólk getur fengizt með happdrættisaðferðinni og oft vex fólk í starfi, sem það hefur fengið út á póltík. Samt er aðferðin þjóðhagslega röng, því að hún spillir beztu kröftum þjóðarinnar með því að neita þjóðinni um að hagnýta þá.

Verið getur, að nýi veðurstofustjórinn reynist hinn nýtasti maður í starfi. En hann var ekki ráðinn til þess, heldur vegna þess að hann hefur verið áberandi í stjórnmálaflokki Eiðs Guðnasonar umhverfisráðherra, sem er álíka spilltur og íslenzkir pólitíkusar eru almennt.

Ráðningarsaga embætta Veðurstofunnar er einfalt dæmi um, að íslenzk stjórnmál og stjórnmálamenn hafa ekkert skánað, þótt þjóðfélagið í heild hafi opnazt.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfið skiptir um föt

Greinar

Þegar olíuverð lækkar erlendis, segja forráðamenn íslenzku olíufélaganna, að ekki sé hægt að lækka olíuverð á Íslandi, af því að skip með olíu á nýja verðinu komi ekki til landsins fyrr en eftir tvo eða þrjá mánuði. Nokkur bið hljóti að vera eftir verðbreytingum.

Þegar þessi biðtími er liðinn, telja forráðamenn íslenzku olíufélaganna, að ekki sé hægt að lækka olíuverð á Íslandi, af því að erlendis sjáist merki um, að olíuverð sé að fara að hækka á nýjan leik. Þessar horfur hafa án biðar og umsvifalaust áhrif á verðlag olíufélaganna.

Olíufélögin geta leyft sér þverstæður í röksemdafærslu, af því að þau eru ekki í samkeppni, heldur stunda þau fáokun. Þau þurfa ekki að láta neytendur njóta verðlækkana, af því að þeir geta ekki snúið sér annað en til hins þríhöfða þurs olíuverzlunar á Íslandi.

Þessi fáokun er í svo traustum sessi, að forráðamenn olíufélaganna nenna ekki að framleiða snyrtileg rök fyrir meðferðinni á neytendum. Þeir fullyrða bara á afar veikum forsendum, að dollarinn sé að hækka í verði og að olían sé að hækka í verði erlendis.

Ýmsir fleiri þursar á Íslandi hafa nokkra hausa eins og olíufélögin. Önnur helztu vígi fáokunar á Íslandi eru bankarnir og tryggingafélögin. Bankarnir komast upp með að halda uppi vöxtum til að afla fjár til óskynsamlegra og ósiðlegra lána, sem ekki eru endurgreidd.

Íslenzku tryggingafélögin hafa með sér fáokunarsamráð um að taka að sér lagavald í slysabótum og láta dómsmálaráðuneyti og ríkisstjórn þjónusta sig með lagafrumvörpum til staðfestingar á, að þeim beri ekki að greiða tjón, sem almenningur verður fyrir.

Aðrir þursar hafa bara einn haus. Ein verst þokkaða einokunarstofnun landsins er Bifreiðaskoðun Íslands, sem hefur sankað að sér eignum og peningum með miklum hraða í skjóli ríkisins. Hún var stofnuð undir yfirskini einkavæðingar, en er merkisberi einokunar.

Eftir mikla baráttu er nú verið að setja reglur um afnám einokunar á bifreiðaskoðun. Bílgreinasambandið telur, að þessar reglur séu strangari en evrópskar reglur til að draga úr líkum á, að nýir aðilar hafi bolmagn til að taka upp samkeppni við Bifreiðaskoðun Íslands.

Eitt þekktasta dæmið um einokun er í fluginu. Ríkið úthlutar einkaleyfum til áætlunarflugs með farþega í innanlandsflugi og til útlanda. Þar á ofan hefur til skamms tíma verið í gildi samningur um einkarétt einokunarfélagsins á afgreiðslu flugvéla á Keflavíkurvelli.

Einokun og fáokun eru ekki á undanhaldi, þótt stundum sé talað fallega um nauðsyn á markaðsbúskap og frjálsri samkeppni. Stefna einkavæðingar hefur ekki miðað að aukinni samkeppni, heldur að breytingu nokkurra þátta ríkiseinokunar yfir í einkaeinokun.

Að svo miklu leyti sem ríkisvaldið rekur ekki einkavæðinguna með hangandi hendi, miðar sú stefna í raun að því að búa til matarholur fyrir gæðinga og gæludýr í einkageiranum, en ekki að því að draga úr kostnaði þeirra, sem þjónustuna eða vöruna þurfa að nota.

Lögmál markaðsbúskapar og frjálsrar samkeppni eru höfð að yfirvarpi í tilraunum ríkisvaldsins til að breyta um rekstrarform á einokun og fáokun. Í reynd eru handhafar hins pólitíska valds fyrst og fremst að færa til sérhagsmuni og gæta þeirra gegn almannahagsmunum.

Þetta kerfi er svo traust, að ríkið getur gefið eftir einokun olíuinnflutnings, án þess að olíufélögin láti af samstarfi sínu um varðstöðu gegn almannahagsmunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þúsund rósir blómstri

Greinar

Þótt tuttugu þúsund ný störf, sem þurfa að verða til hér á landi fram að næstu aldamótum, samsvari fjörutíu nýjum álverum, er ekki þar með sagt, að rétt sé að leysa verkefnið með því að reisa fjörutíu álver. Ný álver eru ekki rétta leiðin til að auka atvinnu.

Álver og önnur stórfyrirtæki í orkufrekum iðnaði eru mikilvægur þáttur í þjóðarbúskap, ekki vegna atvinnuaukningar eða til að draga úr atvinnuleysi, heldur vegna þess að þau fela í sér stækkun þjóðarbúsins og fleiri stoðir undir efnahagslífi og vöruútflutningi okkar.

Til þess að stóriðja þjóni hlutverkinu, verður hún að vera reist af erlendum peningum, sem hvorki íslenzka ríkið né íslenzkir aðilar þurfi að fá að láni í útlöndum. Og hún þarf að gera langtímasamning, sem tryggi fjármögnun orkuvera, er reisa þarf vegna stóriðjunnar.

Stóriðja má ekki trufla innlendan peningamarkað, meðal annars af því að það mundi hækka vextina, sem þegar eru háir vegna fjármagnsskorts. Hún má ekki heldur auka skuldabyrði í útlöndum umfram það, sem svarar langtímasamningum stóriðjunnar um orkukaup.

Atvinnuleysi hefur skyndilega tekið við af fullri atvinnu. Í stað stóriðju, sem skapar sárafá störf á hverjar hundrað milljónir króna, mun áherzlan beinast að smáum verkefnum, þar sem nokkur störf verða til fyrir hverja milljón króna í fjárfestingu og lítil vaxtagjöld.

Reynslan segir okkur líka, að erfitt er að búa til atvinnu með opinberu handafli. Við þekkjum sjálf, að forgangsverkefni hins opinbera, allt frá hefðbundnum landbúnaði yfir í laxeldi og loðdýrarækt, hafa reynzt erfið í framkvæmd og glatað mörgum milljörðum króna.

Opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, geta hins vegar reynt að búa til jarðveg, þar sem ný atvinnutækifæri spretta upp með lítilli fjárfestingu og léttri vaxtabyrði. Þessi leið hefur reynzt árangursríkust hjá þjóðum, sem lengsta reynslu hafa af baráttu gegn atvinnuleysi.

Einna hæst ber menntun og endurmenntun. Gefa þarf atvinnulausum ókeypis tækifæri til að mennta sig. Til dæmis erlend tungumál, svo að þeir eigi auðveldara með að afla sérþekkingar í útlöndum. Einnig bókhald og rekstrartækni fyrir bílskúrs- og heimilisiðnað.

Gott er, að opinberir aðilar hafi milligöngu um að útvega ódýrt húsnæði fyrir tilraunir til smáiðnaðar. Eins og í endurmenntuninni er mikilvægt, að ráðamenn séu ekki með skoðanir á, hvaða sérsvið séu vænleg og hvaða ekki, því að þær skoðanir reynast ætíð rangar.

Einna mikilvægast er að lyfta þjóðinni upp úr svartsýni og bölmóði. Atvinnuleysið stafar nefnilega ekki af skorti á tækifærum, heldur af því, að þjóðin er búin að bíta sig of fast í örfáar atvinnugreinar, sem ekki standa lengur einar undir því að útvega öllum næga vinnu.

Atvinnuaukningin fram að aldamótum mun nærri eingöngu felast í stofnun lítilla fyrirtækja með innan við tíu starfsmenn. Hún felst í þúsundum slíkra fyrirtækja, en ekki í tuttugu stóriðjuverum. Til að stofna svo mörg lífvænleg fyrirtæki þarf framtak og þekkingu.

Framtak fæst með því, að fólk leggist ekki í svartsýni og tómlæti, heldur reyni að búa sjálft til tækifæri handa sér. Til þess þarf áræði og hugvit, en opinberir aðilar geta hjálpað með því að útvega ókeypis endurmenntun og ódýrt húsnæði, sem fæst úr gjaldþrotaskiptum.

Ekki dugar að framleiða atvinnu með nokkrum stórum patentlausnum. Baráttan nær árangri í þúsundum ódýrra smálausna í hugviti, þekkingu og sölutækni.

Jónas Kristjánsson

DV

Sneypuför til Malaví

Greinar

Utanríkisráðuneytið og ríkisstjórnin virðast ekki fylgjast með erlendum fréttum. Þótt vestræn ríki hafi í fyrra ákveðið að frysta alla þróunaraðstoð við smáríkið Malaví í Afríku, er utanríkisráðherra okkar kominn þangað af vangá til að afhenda því tvo báta að gjöf.

Malaví hefur einangrast á alþjóðavettvangi vegna óvenjulega mikilla og grófra mannréttindabrota, sem elliær einræðisherra landsins, Hastings Banda, hefur látið fremja og lætur fremja enn þann dag í dag. Ástand mála í landinu er eitt hið versta í allri Afríku.

Eftir lok kalda stríðsins hafa Vesturlönd í vaxandi mæli gert aukin mannréttindi og lýðræði að forsendu fjárhagslegs stuðnings við Afríkuríki. Reynslan hefur sýnt, að þetta er ákaflega áhrifamikil aðferð við að knýja harðstjóra Afríku til að draga úr grimmdarverkunum.

Ef einhver þróunaraðstoð hefur lekið til Malaví á síðustu mánuðum, hefur hún farið afar leynt. Engu utanríkisráðuneyti og engri ríkisstjórn í heiminum hefur dottið í hug að gera út sendinefnd til að hitta ráðamenn þessa ríkis, hvað þá, að utanríkisráðherrar séu sendir.

Verið getur, að íslenzk stjórnvöld telji sig fremur en önnur vestræn stjórnvöld knúin til að standa við loforð við hina hrottalegu stjórn í Malaví. En sé svo, er brýnt að slík framkvæmd sé ekki auglýst með þeirri viðhöfn að senda þangað sjálfan utanríkisráðherra okkar.

Lýsingar á stjórnarfari í Malaví eru því miður ekki prenthæfar. Hinn elliæri Hastings Banda sér óvini í hverju horni og lætur pynda og drepa alla, sem hann grunar um að vera sér ekki hliðholla. Opinberlega segist ríkisstjórnin fleygja andstæðingum fyrir krókódíla.

Það er til marks um ógnaröldina í Malaví, að verðandi mæður þora ekki annað en að afla ófæddra barna sinna skírteinis frá flokki forsetans til þess að koma í veg fyrir, að Hastings Banda láti vinna þeim mein. Nánar þarf ekki að lýsa stjórnarfarinu í Malaví.

Auðvitað þarf mikið að ganga á, til að stjórnendur Alþjóðabankans finni sig knúna til að kalla saman fund vestrænna ríkja, þar sem samþykkt var samhljóða að hætta í heil tvö ár, 1992 og 1993, öllum stuðningi við það helvíti, sem Hastings Banda hefur búið til í Malaví.

Bæði er það, að enginn vestrænn stjórnmálamaður, embættismaður eða bankamaður getur verið þekktur fyrir að hitta ráðamenn í Malaví, og að frysting aðstoðar hefur reynzt einhver allra bezta aðferðin við að fá slíka ráðamenn til að draga úr hermdarverkum sínum.

Mikilvægt er, að ekkert vestrænt ríki rjúfi þessa samstöðu. Þess vegna er fáránlegt, að utanríkisráðherra Íslands skuli fara einmitt til þessa volaða lands til að taka í höndina á heimsþekktum morðingjum og verðlauna þá með gjöfum frá Þróunarstofnun Íslands.

Komið hefur fram, að utanríkisráðuneytið fylgist afar illa með utanríkismálum, einkum alþjóðamálum. Mikilvægt er, að ráðuneyti, sem er svona fáfrótt um ástand mála í heiminum, taki mark á leiðbeiningum og hætti við áform, sem munu skaða stöðu Íslands í heiminum.

Árni Gunnarsson, stjórnarmaður í Þróunarstofnun Íslands, sendi utanríkisráðherra bæði skeyti og fax til að fá hann ofan af sneypuförinni til Malaví. Því miður vildi ráðherrann ekki taka mark á vinsamlegum ábendingum flokksbróður. Hann fór alla leið til Malaví.

Niðurstaðan er, að íslenzka þjóðin greiðir nokkrar milljónir í ferðakostnað, svo að utanríkisráðherra geti orðið henni til minnkunar á alþjóðlegum vettvangi.

Jónas Kristjánsson

DV

Pöntunarþjónusta ríkisins

Greinar

Dómsmálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp, sem felur í sér lækkun útgjalda tryggingafélaganna í slysabætur til fólks. Frumvarp þetta er gott dæmi um, hve auðvelt þrýstihópar eiga með að nota kerfið til að þjóna sérhagsmunum gegn almannahagsmunum.

Frumvarpið er varið með því, að slysabætur séu of miklar fyrir lítil slys og of litlar fyrir mikil slys. Með þessari röksemdafærslu er verið að breiða yfir þá staðreynd, að samanlögð niðurstaða frumvarpsins er að lækka slysabætur til að lækka kostnað tryggingafélaga.

Frumvarpið er varið með því, að það dragi úr kostnaði við lögmenn, lækna og tryggingafræðinga. Með þessari röksemdafærslu er verið að breiða yfir þá staðreynd, að meginniðurstaða frumvarpsins er að lækka slysabætur til fólks til að lækka kostnað tryggingafélaga.

Ef markmið frumvarpsins hefði verið að færa slysabætur frá þeim, sem verða fyrir tiltölulega lítilli örorku, til þeirra, sem verða fyrir tiltölulega mikilli örorku, og að lækka kostnað þjóðfélagsins af lögmönnum og læknum, hefði verið hægt að gera það á einfaldari hátt.

Meðal þess, sem var í fyrstu útgáfu frumvarpsins, var sú sagnfræðilega rökleysa og hreina hjáfræði, að hægt væri að taka upp mál að nokkrum eða mörgum árum liðnum og meta, hvort fjárhagur fólks væri þá annar en verið hefði, ef það hefði ekki lent í slysi.

Frumvarp þetta var óvandað frá upphafi, þótt það sé samið af lagaprófessor. Eftir almenna gagnrýni á síðasta ári voru sniðnir af því nokkrir agnúar áður en það var formlega lagt fram í þessum mánuði. Enn ber það samt skýr merki þess að vera í þágu tryggingafélaga.

Eitt alvarlegasta atriði frumvarpsins er, að það felur í sér þá stefnu, að tryggingafélögunum beri ekki að bæta fólki örorku, nema hún fari yfir ákveðna stærðargráðu. Þetta stríðir gegn almennri réttlætishugsun og mun sennilega mæta nokkurri andstöðu á Alþingi.

Saga þessa máls er skólabókardæmi um óhóflegan aðgang þrýstihópa að kerfinu. Tryggingafélögin eru valdastofnanir, sem hafa með sér óformlegt samstarf um fáokun í þjóðfélaginu. Þau hafa greiðan aðgang að embættismönnum og ráðherrum til snúninga fyrir sig.

Fólk, sem lendir í slysum, myndar hins vegar engan þrýstihóp til mótvægis við fáokunarkerfi tryggingafélaganna. Frumvörp af þessu tagi eru aðeins borin undir tryggingafélögin, en ekki fólkið í landinu eða samtök þess. Þessi leikur er ójafn, svo sem þetta dæmi sýnir.

Niðurstaðan er hin sama og við höfum oft áður séð hér á landi. Fáokunarfyrirtæki misbeita þjónustulipru ríkisvaldi til að færa peninga frá almenningi til sín, í stað þess að beina kröftum sínum að sparnaði í rekstri, svo sem tíðkast í heilbrigðu markaðshagkerfi.

Brýnt er orðið, að sett verði lög um þrýstihópa og heftan aðgang þeirra að opinberum aðilum, svo sem gert hefur verið í Bandaríkjunum. Í því samhengi verði komið á ferli til rannsóknar á, hvernig þrýstihópar beita sér fyrir smíði laga og reglugerða í sína þágu.

Þegar lög og reglugerðir eru í smíðum, þarf um leið að svara spurningum um, hvaða þrýstihópar græða á þessari skriffinnsku og hvaða áhrif þeir hafa haft á framvindu málsins. Jafnframt þarf strax að leita skipulega uppi gagnaðila og spyrja þá álits til mótvægis.

Alþingismenn geta nú hafnað frumvarpinu og þar með sent stjórnkerfinu skilaboð um, að tímabært sé að draga úr pöntunarþjónustu fyrir volduga þrýstihópa.

Jónas Kristjánsson

DV