Greinar

Halim Al er ekki Tyrkland

Greinar

Trúarofstæki í Tyrklandi kemur Íslendingum einkennilega fyrir sjónir. Okkar kristni er afar umburðarlynd og frjálslynd og fer eftir siðareglum vestræns þjóðskipulags. Svo er ekki um alla kristni eins og við sjáum af deilum kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi.

Það er skammur vegur frá mótmælatrúarklerkinum Ian Paisly í Belfast til æpandi trúarlýðs fyrir utan dómhús í Istanbul. Hvorir tveggja ákalla guð sinn í mynd gamla testamentisins og biðja um ill örlög vantrúarhunda. Hefðbundnar siðareglur koma þar hvergi nærri.

Ofsatrúarmenn skeyta því engu, þótt þeirra maður hafi brotið lög með því að ræna börnum. Þeir telja höfuðatriði málsins vera, að þeirra maður sé rétttrúaður, en hinn íslenzki mótaðili sé vantrúarhundur. Og þeir hafa hingað til náð sínu fram með frekju og yfirgangi.

Ekki má dæma Tyrkland í heild eftir framferði og árangri minnihlutahóps. Tyrkland er mjög flókið fyrirbæri á mörkum hins vestræna og hins íslamska heims, á mörkum nútíma og miðalda. Þar togast á miklu fjölbreyttari þjóðfélagsöfl en við þekkjum hér á landi.

Tyrkland er arftaki heimsveldis, sem var grísk-kristið fyrir rúmlega fimm öldum og íslamskt fyrir tæpri öld. Þar voru engar vestrænar lýðræðishefðir, þegar soldáninum var rutt úr vegi fyrir sjö áratugum. Menn höfðu mann fram af manni verið þegnar, ekki borgarar.

Með handafli var reynt að gera Tyrki vestræna. Tekið var upp latneskt stafróf, skilið milli ríkis og kirkju, mönnum bannað að ganga með fez á höfði, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Komið var á fót vestrænum lýðræðisstofnunum samkvæmt vestrænni stjórnarskrá.

Í stórum dráttum hefur þetta tekizt vonum framar. Tyrkir kjósa í lýðræðislegum kosningum og stjórnmálaflokkar skiptast á um að fara með völd. Þeir sækjast eftir aðild að stofnunum Evrópu um leið og þeir telja sig geta verið brú frá framförum vesturs til íslams.

Mannréttindi hafa ekki fylgt nógu vel eftir þessari vestrænu byltingu. Meðferð fólks í fangelsum er sums staðar enn af austrænum toga. Og stjórnvöldum hefur gersamlega mistekizt að gera Kúrda og Armeníumenn að gildum og sáttum borgurum í samfélaginu.

Það er fyrst og fremst vegna hinnar inngrónu andstöðu við innleiðingu vestrænna mannréttinda, að Tyrkland hefur ekki verið viðurkennt í evrópsku samfélagi. Atburðir í barnsránsmáli Halims Als eru ekki til þess fallnir að fá Evrópu til að telja Tyrkland vera evrópskt.

Ekki er öll nótt úti í barnsránsmálinu, þótt einstakur héraðsdómari í Istanbul brjóti lög og stjórnarskrá til að dæma trúarofsafólki í hag. Hæstiréttur Tyrklands í Ankara hefur miklu betra orð á sér og reynir miklu frekar að fara eftir hinum vestræna bókstaf laganna.

Ástæða er líka til að taka eftir, að öll útbreiddustu dagblöðin í Tyrklandi hafa sagt satt og rétt frá máli þessu og að margir einstaklingar hafa lagt lykkju á leið sína til að styðja þann málstað, sem fluttur var af íslenzkri hálfu í máli barnaræningjans Halims Als.

Flestir Tyrkir eru eins og fólk er flest. Þeir eru þægilegir í samskiptum og koma vel fram við útlendinga. Skammbyssugengið umhverfis barnaræningjann er ekki dæmigert fyrir Tyrki. Það er bara dæmi um að lýðræðisbylting með handafli skilar ekki fullum árangri.

Trúarofstæki er hins vegar eitt versta fyrirbæri mannkyns. Það einkennir ekki Tyrki og það er til víðar en í löndum íslams, þar á meðal miklu nær okkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir framlengja kreppuna

Greinar

Verðbólguhatur nútímans verður skammlífara en verðbólguást fyrri áratuga. Afleiðingar verðbólguhaturs ráðandi þjóðfélagsafla eru miklu alvarlegri en afleiðingar verðbólguástar, enda eru menn nú farnir að hugsa til verðbólguáranna sem gullaldar í efnahagsmálum.

Verðbólguhatrið lýsir sér nefnilega í því, að menn verða ófærir um að viðurkenna, að verðgildi krónunnar er fallið. Þetta væri ekki vandamál, ef krónan réði sjálf verðgildi sínu eins og hlutabréf eða þorskur á markaði og gæti þannig jafnað sveiflur í efnahag þjóðarinnar.

Í stað þess að láta krónuna í friði hafa menn fryst gengi hennar með handafli og neyðast því um síðir til að fella það með handafli. Áður en menn fást til slíkra læknisverka verður misræmið búið að valda miklum efnahagsskaða, svo sem dæmin sanna einmitt núna.

Kreppan um þessar mundir stafar ekki af aðsteðjandi aðstæðum, heldur er hún að mestu leyti heimatilbúin. Í rúman áratug hefur miklum skuldum verið safnað í útlöndum í skjóli gengisskráningar og peningarnir notaðir til offjárfestingar í landbúnaði og sjávarútvegi.

Offjárfestingin í sjávarútvegi hefur stuðlað að óhófsveiðum og leitt til gæftaleysis. Þess vegna er vandinn í sjávarútvegi um þessar mundir meiri en í öðrum atvinnugreinum. Og með hruni sjávarútvegs hrynur einnig allt annað í hagkerfi, sem byggist á sjávarútvegi.

Ríkisstjórnin og valdatökumenn atvinnumálanefndar munu komast að niðurstöðu, sem felur í sér að velta hluta vandans yfir á börnin og barnabörnin. Það verður gert með því að taka lán í útlöndum til að fjármagna ýmsar brýnar skópissingar, svo sem atvinnubótavinnu.

Það magnar bara kreppuna að nota lánsfé til að fjármagna einnota aðgerðir í atvinnubótaskyni, svo sem til að flýta opinberum framkvæmdum. Lánsfé á eingöngu að nota til aðgerða, sem hafa margfeldisáhrif, svo sem til uppbyggingar í arðbærustu atvinnugreinunum.

Valdatökumennirnir úr samtökum vinnumarkaðarins munu fá því framgengt, að skattar fólks verði hækkaðir til að lina þjáningar fyrirtækja. Í megindráttum verður farið eftir þeirri blekkingu, að þeir, sem þegar borga háa skatta, séu hinir raunverulegu hátekjumenn.

Hinir raunverulegu hátekjumenn sleppa við að borga skatta, bæði þá, sem nú eru til, og hina, sem ríkisstjórnin og valdatökumenn munu finna upp til viðbótar. Skattahækkanir byggja jafnan á þeirri ímyndun, að skattskýrslur séu nothæfur grundvöllur skattlagningar.

Á næstu vikum verður líklega fléttað saman aðgerðum úr gjaldþrotastefnu ríkisstjórnarinnar og skópissingastefnu valdatökumanna samtaka vinnumarkaðarins í atvinnumálanefndinni. Þannig verður kreppan framlengd með hámörkun tilheyrandi þjáninga.

Enginn vill gera það, sem æ fleiri hagfræðingar sjá, að gera þarf. Í fyrsta lagi þarf að létta landbúnaðinum af herðum neytenda og skattgreiðenda með því að leyfa hindrunarlausan innflutning ódýrrar búvöru og hætta ríkisstyrkjum og búvörusamningum og skyldu svindli.

Í öðru lagi þarf að taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi um leið og gengi krónunnar verður gefið frjálst. Með gengislækkun er vegið upp á móti veiðileyfagjaldinu í afkomu sjávarútvegsins. Um leið næst heilbrigðari staða sjávarútvegs í litrófi atvinnulífsins.

Ríkisstjórn og atvinnumálanefnd eru sammála um þann læknisdóm, að bezta ráðið við niðurgangi sé að meina sjúklingnum algerlega að fara á salernið.

Jónas Kristjánsson

DV

Barnið og baðvatnið

Greinar

Fyrirhuguð jarðakaupalög koma ekki aðeins í veg fyrir sölu jarða til útlendinga eftir stofnun Evrópska efnahagssvæðisins. Þau hindra einnig sölu jarða á innlendum markaði. Þau rýra þannig verðgildi jarðanna og skerða stórlega tekjumöguleika aldraðra bænda.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt í þingflokkum hennar. Það felur í sér, að kaupandi skuli hafa unnið við landbúnað í fjögur ár, þar af tvö hér á landi; eða hafa setið jörðina í fimm ár; eða sé nágranni; og gangist undir kröfur um óbreytta nýtingu.

Með þessu er verið að reyna að takmarka kaupendahópinn við nágrannabændur, sem vilja stækka við sig, eða þá, sem koma úr landbúnaði og hyggjast halda áfram hefðbundinni nýtingu jarðarinnar. Þessir kaupendur verða áreiðanlega fáir, enda þarf þjóðin þá ekki.

Að undanförnu hefur ýmsum ráðum verið beitt til að fá menn ofan af hefðbundnum landbúnaði. Sett hefur verið upp kvótakerfi, sem þvingar bændur til að draga saman seglin og helzt að selja ríkinu framleiðslurétt sinn. Fyrirhuguð jarðakaupalög eru andstæð þessu.

Í samdrætti hefðbundins landbúnaðar hafa margir aldraðir bændur aflað sér lífeyris með því að selja jarðir sínar til annarra nota en hefðbundinna. Þær hafa verið teknar til skógræktar eða hrossaræktar eða jafnvel bútaðar niður í sumarbústaðalönd þéttbýlisfólks.

Þrátt fyrir þennan markað hefur verð á jörðum verið lágt og sala treg. Sumar jarðir eru árum saman á sölulista, þótt þær séu ekki langt frá Reykjavík og njóti jafnvel jarðhita. Nýju lögin munu kippa fótunum undan þessum markaði og gera jarðir nánast verðlausar.

Þetta er gott dæmi um, að barninu er kastað út með baðvatninu. Reist er svo há girðing gagnvart útlendingum, að girt er um leið fyrir innlendan markað. Frumvarpið er greinilega samið á vegum hinna stjórnlyndu framsóknarmanna, sem eiga Sjálfstæðisflokkinn.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að herða gömul lög, sem fela í sér, að þjóðin hafi fullan aðgang að landi sínu og umgengnisrétt um það. Ekki megi girða í ár og vötn og ekki girða fyrir hefðbundnar leiðir fólks án þess að setja upp hlið.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að setja almennar reglur, sem fela í sér, að afréttir og óbyggðir séu ekki seljanleg vara. Einnig þarf að fjölga friðlýstum stöðum og stöðum á náttúruminjaskrá og setja skorður við sölu slíkra staða.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að setja reglur um rekstrarform hlunninda, svo sem laxveiði, sem fela í sér, að menn þurfi að tala íslenzku til að vera hlutgengir stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækjanna, sem stofnuð eru um hlunnindin.

Í stað frumvarps, sem eyðileggur jarðamarkaðinn, er betra að setja reglur um tilfærslu á hluta af sköttum þéttbýlinga og útlendinga til þeirra sveitarfélaga, þar sem þeir eiga jarðnæði, svo að eignarhald þeirra veiti auknar tekjur til rekstrar strjálbýlisbyggða.

Með ýmsum hætti má ná þeim árangri, sem frumvarpið stefnir að, án þess að draga úr innlendum jarðamarkaði, sem felst einkum í, að jarðir eru teknar úr hefðbundnum landbúnaði og lagðar til frístundaiðju þéttbýlisbúa. Þá eðlilegu þróun á ekki að stífla.

Það eru heimskra og hugmyndasnauðra manna ráð, sem felast í nýja jarðakaupafrumvarpinu. Það er dæmigert um getuleysi stjórnmála- og embættismanna okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Mikilvæg fríverzlun

Greinar

Evrópska efnahagssvæðið mun efla hag Íslands eins og annarra ríkja Fríverzlunarsamtakanna. Í nágrannalöndunum er talað um 5% hagvöxt af völdum aðildarinnar að þessum stærsta markaði heims, sem spannar um 40% allra heimsviðskipta um þessar mundir.

Við munum njóta lækkunar á tollum á ýmsum mikilvægum afurðum sjávarútvegs. Þar á ofan neyðast íslenzk stjórnvöld til að beita skynsamlegri hagstjórn í meira mæli en verið hefur, þannig að almannahagsmunir víki sjaldnar fyrir sérhagsmunum en verið hefur.

Við fáum að taka þátt í evrópska markaðinum án þess að taka á okkur greiðslur til millifærslusjóða Evrópusamfélagsins. Við þurfum ekki að borga hlut í landbúnaðarstefnu Evrópusamfélagsins og við þurfum ekki að taka þátt í viðskiptastyrjöldum þess út á við.

Við þurfum ekki að gera Ísland að sjálfboðaliða í tollamismunun gagnvart ríkjum utan Evrópu. Við þurfum ekki að hækka tolla gagnvart Bandaríkjunum og Japan til að afla fjár í tollalækkun gagnvart Evrópu. Ef við gerum slíkt, er það í hreinni sjálfboðavinnu.

Vandamál okkar af þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu stafa að litlu leyti af samningi okkar um hana, en að miklu leyti af lélegum og illum undirbúningi aðildarinnar af hálfu ráðamanna þjóðarinnar og embættismanna, svo sem fyrirhuguð tollabreyting sýnir.

Evrópska efnahagssvæðinu fylgja ýmis vandamál, sem ríkisstjórn okkar og embættismenn hafa ekki tekið nógu föstum tökum. Ekkert vitrænt hefur verið gert til að treysta yfirráð þjóðarinnar yfir landi sínu og auðlindum sínum og hamla gegn innflutningi fólks.

Í tilefni aðildar að efnahagssvæðinu eigum við að setja lög, sem skilgreina eignarhald þjóðarinnar á fiskimiðum, þannig að ljóst sé, að þau séu ekki eign skipa eða útgerðarfélaga. Við getum varið auðlindina með því að gera greinarmun á eign og nýtingarrétti.

Í tilefni aðildarinnar eigum við einnig að setja lög, sem skilgreina umgengnisrétt um land, ár og vötn, svo og um félagslegt og óframseljanlegt eignarhald á óbyggðum svæðum, svo sem afréttum. Í stórum dráttum nægir okkur að ítreka fornar reglur um slík málefni.

Í tilefni aðildarinnar eigum við einnig að setja lög, sem skilgreina íslenzku sem ríkismál á þann hátt, að réttur til starfa og búsetu sé háður því skilyrði, að menn tali íslenzku, nema sérstakar undanþágur séu veittar. Þannig má koma í veg fyrir of mikinn innflutning fólks.

Ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig á þessum sviðum. Hún ætlar að láta Alþingi samþykkja í þessum mánuði, að þjóðin gangi á nærklæðunum inn í Evrópska efnahagssvæðið. Hún tekur ekki nógu alvarlega þau vandamál, sem bent hefur verið á, að fylgi efnahagssvæðinu.

Þetta eru sjálfskaparvíti og sjálfboðavinna, en ekki nein skylda okkar gagnvart samningsaðilum í Evrópu. Þetta eru heimatilbúin mál, sem kjósendur þurfa að muna, er ráðamenn leita að nýju eftir umboði til að halda áfram að rugla og drabba málum þjóðarinnar.

Evrópska efnahagssvæðið er í sjálfu sér gott framfaramál, sem á að vera okkur tilhlökkunarefni, þótt við kysum að vera betur undir það búin. Það gefur okkur viðskiptamöguleika og markaðsvonir, sem við getum nýtt okkur, ef við höfum til þess kjark og dug.

Lélegur og illur undirbúningur af hálfu ráðamanna og embættismanna okkar er áhyggjuefni, en ekki næg ástæða til að hafna aðild að mikilvægri fríverzlun.

Jónas Kristjánsson

DV

Fávísleg styrjaldaraðild

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að svara tollmúrastefnu Evrópusamfélagsins með 100% refsitollum á franskar lúxusvörur. Á sama tíma eru íslenzk stjórnvöld að stíga fyrsta skrefið í átt til viðskiptastríðs gagnvart Bandaríkjunum og öðrum ríkjum utan Evrópu.

Í stjórnkerfinu er verið að vinna að nýjum reglum, sem fela í sér flutning gjalda frá vörum Evrópusamfélagsins yfir til varnings frá öðrum stöðum, svo sem Bandaríkjunum og Japan. Þetta getur til dæmis komið niður á japönskum og bandarískum bílum í innflutningi.

Með þessum hættulegu ráðagerðum íslenzkra stjórnvalda er verið að taka upp þau vinnubrögð Evrópusamfélagsins að leggja ekki minni áherzlu á að reisa tollmúra út á við heldur en að lækka tolla inn á við. Þessi verndarstefna stríðir gegn hugmyndafræði fríverzlunar.

Ef íslenzk stjórnvöld vilja halda óbreyttum tekjum, er bezt að gera það með gjöldum, sem leggjast jafnt á vöruna, hvort sem hún er framleidd hér heima og hvaðan sem hún kemur úr heiminum, en vera ekki að hossa Evrópusamfélaginu á kostnað annarra viðskiptavina.

Okkur hefur verið sagt, að þátttaka í Evrópska efnahagssvæðinu feli ekki í sér neina skylduaðild að tollmúrastefnu Evrópusamfélagsins. Tilraunir í stjórnkerfinu til að gera Íslendinga að sjálfboðaliðum í þágu þessarar stefnu stinga í stúf við slíkar fullyrðingar.

Það er stjórn Bush Bandaríkjaforseta, sem ákvað að leita heimildar til gagnaðgerða vegna þvergirðingsháttar Evrópusamfélagsins. Flestir eru sammála um, að stjórn Clintons Bandaríkjaforseta muni að minnsta kosti ganga jafn langt í að halda úti viðskiptastríði.

Evrópusamfélagið á mesta sök á, hvernig komið er fyrir tilraunum til að efla fríverzlun í heiminum. Það semur reglugerðir, sem stríða gegn því, er ríki þess hafa samþykkt í Alþjóðlega tollaklúbbnum GATT. Og það hefur franskan landbúnað fyrir heilaga kú.

Forstjóri Evrópusamfélagsins er franskur miðstýringarsinni, Jacques Delors, sem ætlar sér stóra hluti í franskri pólitík, þegar Evrópa hefur losað sig við hann. Landbúnaðarforstjóri Evrópusamfélagsins hefur ekki fengið að semja um frið vegna ofríkis Delors.

Afstaða Delors og Evrópusamfélagsins gegn tilraunum Alþjóðlega tollaklúbbsins til að efla fríverzlun í heiminum hefur sáð frækornum viðskiptastríðs, þar sem ríki munu raða sér í fylkingar til að hefna sín hvert á öðru. Afleiðingin verður ennþá meiri kreppa en nú er.

Bandarísk stjórnvöld hafa nú ákveðið að láta ekki bjóða sér meira af þvergirðingi Evrópusamfélagsins. Líklegt er, að miðstýringarmenn þess muni reyna að fá aðildarríkin til að svara með auknum verndartollum af sinni hálfu. Þetta verður strax að viðskiptastríði.

Íslenzk stjórnvöld mega ekki glepjast til að reisa neina þá tollmúra, sem stríðandi aðilar í útlöndum geti talið beint gegn sér. Hagsmunir Íslendinga felast í sem víðtækastri fríverzlun í heiminum, en ekki í óviljandi aðild að atkvæðaveiðum Delors á frönsku landsbyggðinni.

Í tæka tíð verður að stöðva tilraunir í stjórnkerfinu til að færa tekjustofna í innflutningi frá afurðum Evrópusamfélagsins til afurða Bandaríkjanna og Japans. Tilraunirnar stríða gegn hagsmunum Íslendinga sem þeirrar þjóðar heims, sem mest er háð fríverzlun.

Þátttaka okkar í viðskiptakerfum má undir engum kringumstæðum leiða til þess, að við förum að taka óbeinan þátt í flokkadráttum, sem verða okkur dýrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Bláþráðarstefna

Greinar

Ríkisstjórninni og málsvörum hennar hefur ekki gengið greiðlega að sannfæra menn um, að rétt sé að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta sýnir skoðanakönnun DV og mótþrói í þingflokkum ríkisstjórnarinnar.

Þetta er ekki séríslenzkt fyrirbæri. Annars staðar í Evrópu hefur komið í ljós, að rótgróinn mótþrói er gegn tilraunum stjórnvalda til að efla fjölþjóðlegt samstarf á þann hátt, að hluti af fullveldi þjóðanna sé fluttur úr landi til miðstýringar mandarínanna í Bruxelles.

Brezka ríkisstjórnin vanmat stuðning þingmanna sinna við aukið samstarf í Evrópusamfélaginu. Áður hafði danska ríkisstjórnin ofmetið gagnið af stuðningi leiðtoga helztu stjórnmálaflokka landsins við sama mál. Einnig hafði franski forsetinn gert svipuð mistök.

Röksemdir gegn þjóðaratkvæðagreiðslu byggjast einkum á, að hér sé óbeint lýðræði í formi þingræðis án sérstakrar hefðar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og að kjósendur mundu margir hverjir hafa ýmislegt annað í huga en efni málsins, þegar þeir greiddu atkvæði.

Síðari röksemdin er ekki þung á metunum, því að á svipaðan hátt mætti rökstyðja, að kjósendur ættu ekki heldur að fá að greiða atkvæði í kosningum, af því að þeir séu með alls konar annarleg og óviðkomandi sjónarmið í huga, þegar þeir athafni sig í kjörklefanum.

Fyrri röksemdin er mikilvægari, af því að þjóðin felur alþingismönnum að fara með lýðræðið milli kosninga. Það veikir hana hins vegar, að núverandi þingmenn voru kosnir við aðrar aðstæður en nú eru og lýstu þá öðrum sjónarmiðum en nú heyrast frá þeim.

Snúningurinn virkar í báðar áttir. Stjórnarskipti hafa orðið. Þeir, sem áður vildu tvíhliða viðskiptasamning við Evrópusamfélagið, vilja nú aðild að Efnahagssvæðinu. Þeir, sem áður undirbjuggu aðild, eru núna andvígir útfærslunni, sem samkomulag náðist um að lokum.

Í rauninni er spurningin um þjóðaratkvæðagreiðslu þess eðlis, að fylgjendur hennar og andstæðingar geta hvorir um sig fundið frambærileg rök fyrir sínum málstað. Það er svo einnig ljóst, að úti í þjóðlífinu ríkir yfirgnæfandi stuðningur við slíka atkvæðagreiðslu.

Það kemur líka í ljós, að stuðningsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu eru ekki endilega andvígir aðild að Efnahagssvæðinu. Margir stuðningsmenn aðildarinnar vilja þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt þeim sé kunnugt um hættuna á, að aðildin verði felld á slíkan hátt.

Einnig kemur í ljós í nýrri skoðanakönnun DV, að stuðningur við Efnahagssvæðið fer heldur vaxandi, enda er líklegt, að dregið hafi úr andstöðu fólks eftir skoðun auglýsinga í fjölmiðlum, þar sem fram kom eindreginn stuðningur helztu áhrifaafla atvinnulífsins við aðildina og trú þeirra á gildi hennar fyrir okkur.

Það er ekki gott veganesti fyrir ríkisstjórn að ná að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu með bláþráðar-meirihluta á Alþingi og þurfa að búa við framhald á mótþróa í eigin stuðningsflokkum. Það er í rauninni allt of fátæklegt veganesti í einu mesta stórmáli áratugarins.

Við stöndum ekki einungis andspænis aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, heldur kemur fljótlega til umræðu, hvort við töpum á að fylgja ekki Norðurlandaþjóðum inn í sjálft Evrópusamfélagið, úr því að samrunaþróun þess hefur blessunarlega stöðvazt að sinni.

Reynsla er fyrir því í nágrannalöndunum, að það borgar sig að hafa fólkið með sér, þegar kemur að örlagaríkum ákvörðunum, sem varða fullveldi þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Valdapatt og kreppusmíði

Greinar

Enginn fer með raunveruleg völd í landinu um þessar mundir. Ríkisstjórnin neitar að taka við þeim úr höndum helztu aðila vinnumarkaðarins, sem hafa farið með þau í rúmar tvær vikur án þess að ná samstöðu um aðgerðir. Hún segist bíða eftir tillögum þeirra.

Þegar á reyndi, þótti launamannaarmi byltingarliðsins sem atvinnurekendaarmurinn ætlaði að seilast of langt í vasa launamanna við að breyta skattlagningu á fyrirtæki yfir í skattlagningu á almenning. Launamannaarmurinn fékk því bakþanka í byltingunni.

Í fyrstu virtist sem valdaránið mundi takast, því að það var stutt þingmönnum úr stjórnarliðinu, sem vildu, að horfið yrði frá þeirri braut að leyfa fyrirtækjum og byggðarlögum að verða gjaldþrota og að halda verðbólgu og krónugengi föstu í aðvífandi kreppu.

Byltingarliðið er ennþá nokkurn veginn sammála um, að rjúfa verði ríkjandi kreddu og innleiða í þess stað fyrri kreddu, sem felur í sér, að fyrirtæki og byggðarlög megi helzt ekki verða gjaldþrota og að nota megi hin hefðbundnu stjórntæki verðbólgu og gengislækkana.

Byltingarliðið var ennfremur sammála um, að eðlilegt væri, að eitthvað af skattabyrðum atvinnulífsins færi yfir á herðar launafólks. Hins vegar virðist byltingin hafa farið af stað, án þess að óformlegt samkomulag væri um, hversu langt mætti ganga á þessu sviði.

Höfuðgarpar byltingarinnar eru í Atvinnumálanefnd, þar sem ráðuneytisstjóri forsætisráðherra stjórnar fundum. Þeir hafa legið niðri á byltingartímanum, en nú eru einstakir byltingarmenn farnir að kalla eftir fundi á þeim dæmigerða vettvangi þjóðarsáttar.

Líklegt má telja, að ríkisstjórninni takist að tefla taugastríðið við atvinnulífið á þann hátt, að samkomulag náist um síðir á vettvangi Atvinnumálanefndar um þjóðarsátt, sem taki jafnmikið eða meira tillit til kreddu ríkisstjórnarinnar en kreddu byltingarsinna.

Við flestar aðstæður er hagstætt að hafa stjórnleysi á borð við það, sem nú ríkir. Engar mikilvægar ákvarðanir eru teknar og þar með sparast kostnaðurinn, sem reynslan sýnir, að fylgir öllum mikilvægum ákvörðunum. Fólk fær að ganga til starfa sinna í friði.

Því miður er núverandi stjórnleysi ekki í anda taóismans, heldur er það bara logn fyrir storm mikilvægra handaflsaðgerða, sem munu gerbreyta aðstæðunum, sem fólk og fyrirtæki starfa við. Þessar handaflsaðgerðir munu taka gildi með nýjum fjárlögum um áramót.

Það er sama, hversu mikið af hvaða kreddum verður ofan á í yfirvofandi handaflsaðgerðum. Niðurstaðan verður enn eitt áfallið fyrir alla, sem vilja áætla fram í tímann fyrir sínar fjölskyldur eða sín fyrirtæki. Hún er enn ein staðfesting þess, að marklaust sé að áætla.

Tæpum tveimur mánuðum fyrir áramót veit enginn, hvort aðstöðugjald verður til um áramót, hver skattþrep verða í tekjuskatti og útsvari, hve mörg þrep verði í virðisaukaskatti og hvaða vörur og þjónusta falli undir hvert þrep. Fjárlagafrumvarpið er nafnið eitt.

Þetta er alger andstæða við friðsælt aðgerðaleysi taóismans og hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Þetta er taugaveiklaða lognið fyrir storm nýrra handaflsaðgerða að hætti miðstýringarhyggju. Þetta er hvatning þess, að fólk og fyrirtæki leggi árar í bát.

Valdapattstaðan og nagandi óvissa um opinbert handafl allra næstu vikna kæfir íslenzkt framtak og framleiðir margfalt meiri kreppu en efni standa til.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðlindir og óskabörn

Greinar

Þótt auðlindir og óskabörn geti verið afar notaleg, geta þau leitt til vandamála við aðrar aðstæður. Stundum er hætta á, að þau verði að dekurbörnum og myllusteinum. Við skulum fyrst skoða dæmi frá útlöndum, því að auðveldara er að sjá arfa í annars garði.

Danir hafa spjarað sig vel í lífinu, þótt þeir eigi ekki auðlindir. Þeir flytja inn mestan hluta af orkunni, sem þeir nota, þar á meðal 90% af kolaþörfinni. Samt hafa þeir eitt allra lægsta orkuverð í Evrópu, mun lægra orkuverð en Íslendingar, sem hafa yfirfljótandi orku.

Norðmenn hafa prísað sig sæla af að hafa fengið happdrættisvinning í olíu- og gaslindum á sjávarbotni. En þeir hafa stillt fjármál sín svo hastarlega á olíuna, að sveiflur í olíuverði hafa valdið umtalsverðum vandræðum og skuldabyrði í Noregi. Olían er eins og ópíum.

Við eru heppin að hafa ekki eigin framleiðslu á bílum og flugvélum. Í stað þess að þurfa að gæla við innlend óskabörn getum við leyft okkur að kaupa bíla og flugvélar frá hverjum þeim löndum, þar sem bezt er boðið hverju sinni. Eins og Danir í kolakaupum.

Íslenzka ríkið er hins vegar í senn eigandi að tveimur óskabörnum, annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Járnblendiverksmiðjunni. Þetta leiðir til innherjaviðskipta, sem felast í, að Landsvirkjun var látið blæða, þegar Járnblendiverksmiðjunni var komið á fót.

Með nokkurri einföldun má segja, að markaðslögmálin ráði mestu um, hver gæfa eða ógæfa er af auðlindum og óskabörnum. Við getum talað um seljendamarkað, þegar eftirspurn er meiri en framboð, og um kaupendamarkað, þegar framboð er meira en eftirspurn.

Þar sem við erum svo heppin að hafa ekki eigin ávaxtarækt á Íslandi, getum við leyft okkur að flytja hvers konar ávexti frá hvers kyns hnattstöðu eftir verði og gæðum hverju sinni. Eigin garðyrkja takmarkar hins vegar möguleika okkar á að fá gott og ódýrt grænmeti.

Af því að við höfum eigin landbúnað á nokkrum afmörkuðum sviðum, sem skrimta við jaðar freðmýrabeltisins, getum við ekki fengið ódýra og góða osta af ótal gerðum og ekki fengið hræódýrt smjör, sem kostar aðeins tíunda hluta af því, sem íslenzkt smjör kostar.

Þegar seljendamarkaður var á siglingum til Íslands, var forfeðrum okkar mikill léttir í að eignast óskabarn í íslenzku eimskipafélagi með eigin skipum og hafnaraðstöðu. Nú getur óskabarnið breytzt í dekurbarn samkvæmt alþekktum markaðslögmálum utan úr heimi.

Dekurbarnatíminn er runninn upp, þegar þau og stuðningsráðuneyti þeirra eru farin að gefa út línurit og töflur til að sýna fram á, hvað sé “sanngjarnt” verð á ýmissi þjónustu þeirra í samanburði við hliðstæða þjónustu fyrr á tímum eða á öðrum stöðum í heiminum.

Helzta einkenni dekurhyggju er, að útreikningar og útskýringar koma í stað raunveruleikans, sem felst í frjálsri samkeppni. Og úrslitaröksemdin er jafnan sú, að dekurbarnið megi ekki við verri afkomu en það hefur nú. Alveg eins og kostnaður sé föst stærð í dæminu.

Samkeppni á hörðum kaupendamarkaði veldur því, að fyrirtækin bæta sig, mæta verðlækkunum með útsjónarsemi, sparnaði og hagræðingu. Í gæludýraheimi vantar þetta aðhald, svo sem sést af því, að Íslendingar borga hærra raforkuverð en þjóð, sem ekki á orku.

Þjóðum vegnar því betur sem þær eru fljótari að átta sig á, hvenær óskabörn breytast í dekurbörn og hvenær verðmætar auðlindir breytast í myllusteina um háls.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimsklassamatur

Greinar

Eitt af helztu dagblöðum Þýzkalands, Frankfurter Allgemeine, gerði matargerðarlist á Íslandi að umræðuefni í langri grein á fimmtudaginn í tilefni þess, að íslenzkir kokkar höfðu unnið bronzverðlaun á ólympíuleikum matargerðar, sem haldnir voru í Frankfurt.

Freddy Langer, höfundur greinarinnar, segir meðal annars, að matgæðingar í Frakklandi og á Ítalíu hafi uppgötvað musteri matargerðarlistar í Reykjavík og komizt að raun um, að ódýrara sé að borða í þeim heldur en í hliðstæðum musterum í heimalöndum þeirra.

Greinarhöfundur gengur svo langt að segja, að engin vond veitingahús séu til á Íslandi. Hann getur þess þó í leiðinni, að skuggahliðar íslenzkrar matargerðar felist í hamborgarabúlum við þjóðveginn, sem selji lélega hamborgara fyrir meira en 20 þýzk mörk á mann.

Í greininni er vikið að því, að Íslendingar þurfi að nota matargerðarmusteri Reykjavíkur sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Í þeim sé að finna auðlind, sem ekki hafi verið nýtt nægilega, þótt sérfræðingar í Evrópu séu af hyggjuviti sínu farnir að átta sig á þeim.

Freddy Langer er að benda á þverstæðu í veitingarekstri á Íslandi. Annars vegar eru til mjög góð veitingahús í Reykjavík, sem eru heldur ódýrari en jafngóð veitingahús á meginlandi Evrópu. Hins vegar eru lélegar okurbúlur á vegi ferðamanna um þjóðvegi landsins.

Svo virðist sem eigendur skyndibitastaða við þjóðveginn fari í Hótel Holt til að skrifa upp verð af matseðlinum til notkunar heima fyrir. Síðan bíði þeir átekta eins og veiðimenn eftir ferðamönnum, sem eiga sér ekki góðrar undankomu auðið á skoðunarferðum um landið.

Verðið á veitingum í Hótel Holti, Við Tjörnina, hjá Þremur frökkum og öðrum stöðum í heimsklassa er lágt, þegar miðað er við gæði. Verðið á veitingum skyndibitastaða er hins vegar hátt á sama mælikvarða. Eðlilega teygju vantar í veitingaverð hér á landi.

Skyndibitamennirnir við þjóðveginn eru að misnota auðlindina, sem felst í aðdráttarafli íslenzkrar náttúru, meðan veitingamenn matargerðarmustera í Reykjavík eru að bjóða útlendingum sanngjörn afnot af viðbótarauðlind, sem ekki rýrnar, þótt af sé tekið.

Matargerðarlistin í Reykjavík er hornsteinn, sem gerir kleift að byggja upp íslenzka ráðstefnuþjónustu, þá tegund ferðaþjónustu, sem gefur mestar tekjur og veldur minnstu álagi á viðkvæma náttúru landsins. Við þurfum að gefa þessu tækifæri aukinn gaum.

Veitingahúsin og kokkarnir eru til, en nýtast ekki nógu vel, því að innlendi markaðurinn er takmarkaður og ferðamannamarkaður sumarsins skammvinnur. Með ráðstefnum utan hásumartímans er unnt að auka nýtingu sjálfstæðra veitingahúsa eins og hótelanna.

Greinin í Frankfurter Allgemeine er ókeypis auglýsing, sem stuðlar að því, að erlendir aðilar sjái kosti þess að halda ráðstefnur í Reykjavík, svo að þátttakendur hafi í leiðinni tækifæri til að kynna sér hina rómuðu og bronzverðlaunuðu matargerðarlist Íslendinga.

Auðvitað er það ferskur sjávarafli, sem hefur gert íslenzkum kokkum kleift að þróa list sína á það stig, að erlendir menn jafna henni við sjálfa matargerðarlist Frakklands. Matargerðin á Íslandi er eðlileg framlenging af greiðum aðgangi okkar að auðlind hafsins.

Í aðvífandi kreppu er okkur hollt að sjá, að til eru vannýtt tækifæri til atvinnu og arðs í tengslum við sjávaraflann. Íslenzkir kokkar eru eitt tækifæranna.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjölbreyttar forsendur

Greinar

Fólki er heimilt að hafa hliðaratriði ofarlega í huga, þegar það gengur til kosninga, eða að hafa ekki kannað mál ofan í kjölinn. Löng hefð er fyrir því í heiminum, að lýðræði standi ekki og falli með því, hvort kjósendur séu með allt á hreinu í staðreyndum og röksemdafærslu.

Gera má ráð fyrir, að margir mundu ekki búa sig undir þjóðaratkvæðagreiðslu með því að setjast á skólabekk í málefnum Evrópska efnahagssvæðisins og að margir mundu jafnvel nota tækifærið til að lýsa andúð sinni á einhverju öðru, til dæmis ríkisstjórninni.

Þetta getur ekki gilt sem röksemd gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópska efnahagssvæðið, nema þá um leið sé verið að rökstyðja andstöðu við atkvæðagreiðslur og kosningar yfirleitt. Í eðli lýðræðis liggur, að fólk velur sjálft forsendur atkvæðis síns.

Íslendingar eru ekki taldir vera hælismatur, þótt rökstyðja megi, að vanhugsun þeirra eða skjönhugsun valdi því, að á Alþingi sitja 63 menn, sem sumir hverjir eru ófærir um að sinna því starfi og sem flestir hafa lítið sem ekkert kynnt sér Evrópska efnahagssvæðið.

Vafasamt er að fullyrða, að alþingismenn séu betur búnir undir að ákveða aðild að svæðinu heldur en almenningur mundi verða, ef hann væri spurður álits í atkvæðagreiðslu. Danir eru upplýstari um slík mál en aðrar þjóðir, einmitt vegna þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekki má heldur gleyma, að þingmenn voru kosnir í síðustu alþingiskosningum með nokkuð öðrum formerkjum en nú gilda. Þá hömpuðu frambjóðendur Sjálfstæðisflokks hugmynd um tvíhliða viðskiptasamning við Evrópusamfélagið í stað aðildar að svæðinu.

Frambjóðendur Framsóknarflokks og Alþýðubandalags studdu hins vegar á þeim tíma þátttöku þáverandi ríkisstjórnar í fjölþjóðlegum viðræðum um Evrópska efnahagssvæðið. Þeir hafa snúizt gegn svæðinu á sama tíma og andstæðingarnir hafa snúizt til stuðnings.

Í kjölfar síðustu kosninga urðu ríkisstjórnarskipti, sem leiddu til valda fylgismenn viðskiptasamnings á kostnað fylgismanna aðildar. Það er lapþunn rökfræði, að þessir skoðanaskiptingar hafi nú umboð til að gerast aðili að svæðinu fyrir hönd íslenzkra kjósenda.

Ekki má heldur gleyma, að illa er staðið að málinu af hálfu stjórnvalda. Enn eru ókomin á borð þingmanna um 35 þingmál, sem eru hluti af aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, og á þó að afgreiða málið í heild fyrir jól. Margir eru réttilega ósáttir við þetta.

Ríkisstjórnin virðist ekki heldur ætla að eiga frumkvæði að ráðstöfunum, sem bent hefur verið á, að nauðsynlegar eða góðar séu til að hamla gegn áhrifum af beinum eða óbeinum kaupum útlendinga á landi, fiskiskipum og fiskvinnslu og atvinnuþátttöku útlendinga.

Eðlilegt er, að margt fólk sé hrætt við að þurfa að ganga á nærklæðunum til frelsisins í Evrópska efnhagssvæðinu, svo sem ríkisstjórnin ætlast til með lélegum undirbúningi sínum. Þetta eitt út af fyrir sig er nægileg forsenda fyrir kröfunni um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Skoðanakannanir hafa sýnt, að djúpstæður klofningur er á Íslandi um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Forustumenn sumra ríkja í Evrópu hafa talið slíkan klofning valda því, að efna þurfi til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál af þessu tagi, svo sem dæmin sanna.

Þjóðaratkvæðagreiðsla kemur í veg fyrir, að kjósendur telji pólitíska fursta og embættismandarína í fílabeinsturnum vera að draga sig inn í iðu óvissunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðherrar styðja eitrið

Greinar

Í fjárlagafrumvarpinu ræðst ríkisstjórnin sérstaklega að lækningastofnunum, sem hafa áfengis- og fíkniefnasjúklinga til meðferðar. Leggja á niður starfsemi, sem svarar til Staðarfells, Gunnarsholts og fíkniefnadeildar Vífilsstaða. Þetta er kúvending í heilbrigðisstefnunni.

Engin tegund lækninga hefur verið áhrifameiri en meðferð áfengis- og fíkniefnasjúklinga. Með skjótri notkun bandarískra vinnubragða hefur náðst árangur, sem felst í, að mörg þúsund útskrifaðir sjúklingar ganga til ábyrgra og sumpart mikilvægra starfa í þjóðfélaginu.

Engin tegund lækninga hefur verið ódýrari en meðferð áfengis- og fíkniefnasjúklinga. Með hinum bandarísku vinnubrögðum hefur tekizt að þurrka Íslendinga þúsundum saman fyrir upphæðir, sem samsvara einni viku á mann í hefðbundnum sjúkrahúsum landsins.

Íslendingar eru mjög næmir fyrir þessum flokki sjúkdóma, svo sem kemur fram í, að fimmti hver einstaklingur í hverjum árgangi þarf einhvern tíma á ævinni að leggjast inn á sjúkrahús af þessu tagi. Það er um það bil tvöföld tíðni á við engilsaxnesku þjóðirnar.

Notkun fíkniefna fer vaxandi hér á landi, meðal annars vegna niðurskurðar stjórnvalda á fjármagni til andófs gegn innflutningi þeirra; vegna trassaskapar yfirvalda við úrvinnslu fíkniefnamála og vegna vægra dóma á heildsölum fíkniefnadreifingarinnar.

Notkun áfengis stendur í stað hér á landi, meðal annars vegna þess, að ríkið telur sig þurfa að ná sem mestum tekjum af drykkjufólki landsins og vegna þess að æðstu menn þjóðarinnar ganga á undan öðrum með slæmu fordæmi í drykkjuskap á opinberum vettvangi.

Afleiðingar þessarar þjóðarfíknar má sjá á degi hverjum í fréttum fjölmiðla. Flestir glæpir, sem drýgðir eru hér á landi, tengjast meira eða minna áfengi eða fíkniefnum. Gildir það bæði um líkamlegt ofbeldi af ýmsu tagi og fjárhagsglæpi af öllu hugsanlegu tagi.

Með samræmdum aðgerðum gegn ofneyzlu áfengis og fíkniefna má draga verulega úr glæpum í þjóðfélaginu og spara þannig fjárhæðir, sem eru margfaldar á við þær, sem aðgerðirnar kosta. Í fjárlagafrumvarpinu hafnar ríkisstjórnin slíkum aðgerðum fyrir sitt leyti.

Í leiðurum DV hefur undanfarið verið bent á margfalt dýrari atriði, sem mættu að skaðlausu falla út úr fjárlagafrumvarpinu. Með því að velja þá liði og hafna aðgerðum gegn áfengis- og fíkniefnavanda þjóðarinnar er ríkisstjórnin að taka ábyrgðarlausa afstöðu.

Ríkisstjórnin tekur til dæmis stuðning við kýr og kindur fram yfir fjárveitingar til að stemma stigu við innflutningi og heildsölu fíkniefna og fjárveitingar til að koma áfengis- og fíkniefnaneytendum aftur til eðlilegra og heilbrigðra starfa í þjóðfélaginu.

Það er ekki fátækt, sem veldur því, að ríkisstjórnin vill einmitt skera sem mest niður á þessum sviðum. Orsökin er rangt val á milli málaflokka, það er afbrigðileg og sjúkleg forgangsröð í fjárlagafrumvarpinu, sem segir mikið um ráðherrana, er standa þar að baki.

Þjóðin stendur andspænis rosalegu vandamáli áfengis og fíkniefna og hefur jafnframt í höndunum tiltölulega ódýr tæki, sem hafa reynzt vel gegn vandamálinu. Ríkisstjórnin er að reyna að draga úr notkun þessara tækja eða taka þau alveg úr höndum þjóðarinnar.

Fjárlagafrumvarpið á eftir að fara um hendur alþingismanna. Vonandi átta þeir sig betur á tvísýnni stöðu þjóðarinnar í þessum efnum en ráðherrarnir gera.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfið verndar ofbeldi

Greinar

Dómarinn, sem sleppti fjórum nauðgurum við fangelsisvist fyrir helgina, hafði áður dæmt mann í tveggja ára fangelsi fyrir 200 þúsund króna plastkortasvik, hvort tveggja samkvæmt lögum. Dómari þessi hefur í ýktri mynd sýnt verðmætamatið í lögum og dómum á Íslandi.

Nauðgunin, sem dómarinn samþykkti, var óvenju ógeðsleg, því að fjórir menn réðust á eina stúlku og héldu henni, meðan einn þeirra nauðgaði henni. Vafalaust mun ákæruvaldið kæra hinn fráleita úrskurð til Hæstaréttar eins og aðra úrskurði þessa dómara.

Þótt dómari þessi sé þekktur fyrir sérkennilega dóma og seinagang í starfi, má ekki gleyma því, að hann gengur laus sem dómari. Hann hefur fengið áminningar, en heldur áfram að dæma. Hinir athyglisverðu úrskurðir hans njóta því töluverðrar verndar í kerfinu.

Ekki má gleyma, að dómarinn úrskurðar innan þess ramma, sem dómara er leyfilegur, bæði þegar hann sleppir nauðgurum og neglir smáþjófa. Hann gengur ekki þvert á lög og dóma, heldur skrumskælir aðeins aldagamalt réttarfar, sem viðgengst á tuttugustu öld.

Lög og dómvenja á Íslandi er arfleifð frá þeim tíma, þegar tilgangur laganna var fyrst og fremst að vernda auð yfirstéttarinnar fyrir ásælni undirstéttanna, en ekki að koma í veg fyrir, að undirstéttarfólk beitti hvert annað ofbeldi. Peningar eru æðstir í þessu verðmætamati.

Ekki þarf að fara í dómsal Hafnarfjarðar til að sjá dæmi um þessa brenglun í verðmætamati. Í dómum Hæstaréttar kemur líka fram, að fjármálaglæpir þykja alvarlegri en ofbeldisglæpir. Þetta er í samræmi við lög, sem eru arfur frá tímum frumstæðara verðmætamats.

Fjölmiðlar taka því miður þátt í þessari brenglun. Maður, sem stelur milljón, en skaðar hvorki sál né líkama neins, fær nafn og mynd í fjölmiðlum, en fjórir menn, sem nauðga stúlku, fá hvorki nafn né mynd. Fjölmiðlar telja milljónina verðmætari en stúlkuna.

Lögreglan er á sömu nótum og fjölmiðlarnir, útvegar myndir af smáþjófum, en leggst á myndir af ofbeldismönnum. Til skamms tíma var Reykjavík fræg fyrir, að þar óðu þekktir ribbaldar um að næturlagi og börðu vegfarendur, næsta óáreittir af lögreglu.

Verðmætamatið lýsir sér einnig í yfirgengilegum stuðningi þjóðarinnar við ölvun og ölæði. Haldnar eru bjórhátíðir, þar sem menn eru hópum saman afvelta og meðvitundarlausir. Alls konar ræfildómur og ofbeldi er afsakað með orðunum: “Hann var fullur, greyið.”

Drykkjurútarnir vaða um allt þjóðfélagið. Sumir sitja í ráðherrastólum, en aðrir sofa í ónotuðum bátum. Sumir verða sér til skammar kjólklæddir í kóngaveizlum, en aðrir nauðga stúlkum og misþyrma. Hafa þeir svo allir nokkuð að iðja í skjóli laga og réttar.

Eftir innreið eiturlyfja í þjóðfélagið hefur vandamálið aukizt. Læknar fá að afgreiða eftirritunarskyldar lyfjaávísanir á færibandi. Og nafgreindir menn aka um á fínum bílum fimm árum eftir að hafa játað innflutning á 65 kílóum af eitri, án þess að hafa sætt neinum dómi.

Alþingi þarf að manna sig upp í hreinsun lagaákvæða um viðurlög við afbrotum: Auka þarf vægi lífs og lima í samanburði við vægi króna og pappíra. Slík hreinsun getur síðan orðið forsenda nútímalegra og siðlegra verðmætamats í úrskurðum héraðsdóma og Hæstaréttar.

Ekki er nóg að beina spjótum að einum dómara í Hafnarfirði, því að sérvizka hans rúmast innan ramma úreltra ákvæða í lögum. Kerfið sjálft hefur brugðizt.

Jónas Kristjánsson

DV

Skaðleg skilaboð

Greinar

Ríkisstjórnin hefði getað notað tækifæri hins árlega fjárlagafrumvarps til að marka þáttaskil í erfiðleikum þjóðarinnar. Hún hefði getað skorið niður þætti, sem eru þjóðinni gagnslausir eða skaðlegir. Hún hefði um leið getað eflt þætti, sem færa þjóðinni kjark og von.

Kreppan í þjóðfélaginu er ekki meiri en svo, að þetta hefði verið kleift, ef ríkisstjórnin hefði yfirsýn og áræði. Þjóðin hefur þegar mætt miklum samdrætti í tekjum sínum. Hún getur áreiðanlega á næsta ári mætt samdrætti, sem spáð er, að nemi aðeins einu prósenti.

Fyrirsjáanleg kreppa felst ekki í þessu eina prósenti, heldur í hugarfari fólks, einkum þeirra, sem taka ákvarðanir fyrir hönd fyrirtækja. Þetta fólk hefur misst kjarkinn. Það sjáum við af sífelldum straumi upplýsinga um uppsagnir starfsfólks og fyrirhugaðar uppsagnir.

Þeir, sem taka svo alvarlegar ákvarðanir, eru ekki að búast við skjótum efnahagsbata. Þeir eru ekki trúaðir á, að Evrópska efnahagssvæðið færi okkur skjóttekinn gróða. Þeir reikna með langri eyðimerkurgöngu og eru að búa fyrirtækin undir að standast hana.

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar felur ekki í sér nein marktæk skilaboð, sem vinnuveitendur geti túlkað sem merki þess, að vorið komi á næsta ári. Það felur þvert á móti í sér þau boð, að stjórnin sjái fyrir sitt leyti ekki neinar greiðar leiðir út úr eyðimörkinni.

Fjárlagafrumvarpið sendir beinlínis neikvæð skilaboð til þeirra, sem misst hafa atvinnu eða eru í þann veginn að missa hana. Þessi skilaboð ríkisstjórnarinnar eru, að atvinnuleysið sé til frambúðar og að öryggisnetið verði fátæklegra en verið hefur að undanförnu.

Hugmyndafræðingar ríkisstjórnarinnar segja henni, að 4% atvinnuleysi þyki lítið í útlöndum og sé nauðsynlegt til að halda aga á þjóðinni til starfa. Hagfræði af þessu tagi tekur ekki tillit til þess, að missir vonar og kjarks er langtum verra mál en agaleysi í starfi.

Ríkisstjórnin hefur verið og er að skera niður möguleika alþýðunnar til að mennta sig út úr erfiðleikunum. Hún hefur verið og er að draga úr stuðningi við þá, sem miður mega sín eða hafa verið óheppnir. Hún hefur óvart stuðlað að aukinni stéttaskiptingu í landinu.

Ráðherrarnir eru svo þröngsýnir, að þeir sjá ekki allt það illa, sem þeir koma til leiðar. Þeir láta aðstoðarmenn krota í tölur á blað á þann hátt, að enginn greinarmunur er gerður á nytsamlegum og gagnslausum atriðum og helzt varðir þeir liðir, sem skaðlegastir eru.

Ríkisstjórnin hyggst halda fullum dampi í varðveizlu kinda og kúa, sem kostar skattgreiðendur átta milljarða á næsta ári og neytendur tólf milljarða. Á þessu sviði sendir ríkisstjórnin þau skilaboð, að hún verji óhagkvæma fortíð gegn framtíðarhagsmunum þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við, að mestur hluti þeirra vandræða, sem hafa kostað kjark og von þjóðarinnar, stafar af, að árlega hafa ríkisstjórnir brennt tuttugu milljörðum króna á altari hins hefðbundna landbúnaðar. Hún hyggst halda brennslunni óbreyttri.

Í stað þess að taka af festu á niðurskurði vandræða og eflingu umbóta hefur ríkisstjórnin tekið þá afstöðu í fjárlagafrumvarpi sínu að skera og skattleggja holt og bolt, sitt lítið á hverjum stað. Þetta er ekki ólíkt því, sem tíðkast hefur hjá yfirvöldum, þegar betur hefur árað.

Erfiðir tímar kalla á kjarkmikinn uppskurð, eins konar hreinsunareld, sem veitir von um græna iðavelli. Fjárlagafrumvarpið er léttvægt á þeim mælikvarða.

Jónas Kristjánsson

DV

Kjarklaust frumvarp

Greinar

Ríkisstjórnin hefur með nýju fjárlagafrumvarpi gert fjármálaráðherra sinn að skattakóngi Íslandssögunnar annað árið í röð. Skattahlutfallið hækkar milli ára úr 26,8% í 26,9%. Fara menn nú senn að sakna fyrrverandi fjármálaráðherra, sem kom hlutfallinu aðeins í 26,3%.

Ráðherrann hefur sér til afsökunar, að dregist hefur saman landsframleiðslan, sem skatturinn er tekinn af og skattahlutfallið miðað við. Alþekkt tregðulögmál ríkisfjármála gerir ríkinu erfitt um vik að draga saman seglin, þegar harðnar í ári hjá þjóðinni í heild.

Ástandið er engan veginn eins og í Færeyjum. Þar varð landsstjórnin óbeint að segja sig til sveitar hjá danska ríkinu og verður að semja ný og raunhæfari fjárlög undir eftirliti hagfræðinga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Hurð landssjóðsgjaldþrots skall þar nærri hælum.

Þótt íslenzku ríkisstjórninni vegni að þessu leyti betur en færeysku landsstjórninni, er fjárlagafrumvarpið markað hugleysi, sem gat gengið í blíðviðrinu, en sker í augu, þegar þjóðarskútan er lent í stórsjó. Það einkennist af uppsöfnuðu kroppi í marga þætti ríkisútgjalda.

Miklu áhrifameira og í rauninni sársaukaminna er að skera stóra og skaðlega útgjaldaliði niður við trog. Þar er efstur og bólgnastur á blaði hinn hefðbundni landbúnaður, sem kostar skattgreiðendur átta milljarða króna á næsta ári og neytendur tólf milljarða að auki.

Með því að skera ríkisútgjöld til hins hefðbundna landbúnaðar og leyfa innflutning ódýrrar búvöru er hægt að bæta lífskjör þjóðarinnar um leið og hallinn á ríkissjóði er strikaður út. Í stað þess kroppar ríkisstjórnin mildilega utan í þennan skaðlega útgjaldalið.

Af því að ríkisstjórnin hefur ekki þor til að hreyfa rækilega við útgjöldum til hefðbundins landbúnaðar, verður hún að ráðast að útgjaldaliðum, sem eru í sjálfu sér nytsamlegir, eins og ýmsum þáttum skólamála og heilsugæzlu, sem stuðla að betri framtíð þjóðarinnar.

Margvíslegt kropp utan í útgjaldaliði minnir að sumu leyti á fyrri tilraunir til flata niðurskurðarins, sem var oft og árangurslaust reyndur á fyrri árum. Er skemmst að minnast, að ekki tókst á þessu ári að skera niður heilbrigðisútgjöld, þrátt fyrir sáran hamagang.

Óhætt er að slá föstu, að margt af slíkum niðurskurði muni ekki ná fram að ganga í reynd, af því að tölum í fjárlagafrumvarpi fylgja ekki fyrirmæli um, hvernig eigi að standa að honum. Enn einu sinni er boðið upp á dansinn: Farið þið fram úr fjárlögum.

Þessu fylgja tilraunir til sjónhverfinga, sem stappa nærri geðklofa, eins og þegar ríkisstjórnin gælir með annarri heilahliðinni við að skera niður vegaframkvæmdir á fjárlögum og með hinni hliðinni við að auka þær jafnframt með sérstökum atvinnubótaaðgerðum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að setja rekstur ferja og flóabáta á vegasjóð og draga þar með úr getu hans til vegagerðar um sömu upphæð. Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar gegn atvinnuleysi á hins vegar að taka lán til að búa til atvinnubótavinnu í vegagerð.

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1993 felur ekki í sér, að látið sé reka á reiðanum eins og fyrsta fjárlagafrumvarp færeysku landsstjórnarinnar. En það felur ekki heldur í sér, að ríkisstjórnin hafi kjark til að haga fjármálum í stíl við erfiða tíma.

Frumvarpið fer bil beggja og kroppar dálítið í marga útgjaldaliði. Það setur þjóðina ekki á hausinn, en gerir henni erfitt fyrir í þrengingum, sem standa fyrir dyrum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vesturlönd og villimenn

Greinar

Sjálfboðaliðar frá löndum Íslams eru farnir að streyma til Bosníu til að hjálpa varnarlitlum trúbræðrum sínum. Þetta er eðlileg og sjálfsögð afleiðing afskipta Vesturlanda, sem hafa leyft útþenslumönnum Serba að fara sínu fram í þjóðahreinsun í Bosníu.

Ekkert væri heldur við því að segja, að einver ríki Íslams, svo sem Tyrkland, tækju formlega upp stríðshanzkann gegn Serbíu. Ef Atlantshafsbandalagið gerir það ekki og ef Evrópusamfélagið gerir það ekki, hlýtur öðrum að vera leyfilegt að taka upp fána réttlætisins.

Í umræðu á Vesturlöndum ber of mikið á sagnfræðilegri útskýringastefnu, sem felst í, að menn telja 50 ára eða 500 ára gamla harmleiki afsaka glæpi afkomendanna í nútímanum, og spakmælastefnu, sem felst í, að menn telja, að ekki valdi Serbar einir, þegar fleiri deila.

Í raun hafa afskipti Vesturlanda óbeint stutt útþenslu- og þjóðahreinsunarstefnu Serba. Vopnabannið skaðar Bosníumenn mest, því að Serbar hafa greiðan aðgang að öllum vígvélum hins gamla Júgóslavíuhers. Þar að auki eiga Bosníumenn ekki neinar hafnir.

Sameinuðu þjóðunum ber að aflétta vopnabanni á Bosníumenn, en herða viðskipta- og samgöngubann á Serbíu og Svartfjallaland. Þeim ber að hraða stríðsglæparéttarhöldum gegn Serbum. Atlantshafsbandalaginu ber að setja flugbann á hervélar Júgóslavíu.

Bandaríkin hafa hvatt til flugbanns og stríðsglæparéttarhöld eru í undirbúningi. Þetta er allt í rétta átt, en gerist ekki nógu hratt. Vesturlönd verða sem fyrst að ná stöðu, sem segir öðrum villimönnum, að þeir geti ekki leikið eftir brjálæði Serba án þess að tapa.

Harðlínumenn þjóðernissinna í Rússlandi hafa hótað þjóðahreinsunum í Eystrasaltslöndunum og víðar, þegar þeir nái völdum í kjölfar vaxandi óvinsælda og stjórnleysis Jeltsíns Rússlandsforseta. Þeir og aðrir slíkir víðar í Austur-Evrópu fylgjast vel með velgengni Serba.

Það er Atlantshafsbandalaginu og Evrópusamfélaginu lífsspursmál, að sú skoðun fái ekki byr undir báða vængi í Austur-Evrópu, að óhætt sé að fara í þjóðahreinsun að hætti Serba. Öryggi Vestur-Evrópu er undir því komið, að Serbum takist alls ekki ætlun sín.

Þess vegna dugar ekki að frysta ástandið eftir landvinninga Serba, svo sem gert var í Króatíu og virðist vera að gerast í Bosníu. Slík frysting staðfestir ríkjandi ástand eftir landvinninga Serba og er raunar í þeirra þágu. Það hefur vont fordæmisgildi í Austur-Evrópu.

Línan þarf að vera hrein og bein. Serbar hafa framið þá svívirðu í nágrannaríkjunum, að þeir verða algerlega að hverfa þaðan, jafnvel þótt sumir þeirra hafi búið þar. Þeir hafa fyrirgert allri gestrisni. Þeir verða að fara frá Króatíu og Bosníu inn fyrir landamæri Serbíu.

Ennfremur þurfa Vesturlönd að setja skýra reglu um, að Serbum verði ýtt frá ungverska landinu Vojvodina og albanska landinu Kosovo, ef þeir hefja þjóðahreinsun þar. Raunar eru Serbar þegar að byrja í Kosovo, þar sem blóðbaðið verður sennilega meira en í Bosníu.

Vesturlöndum er ekki stjórnað af Churchillum, heldur Chamberlainum, sem veifa pappírum með verðlausum undirskriftum, af því að þeir ímynda sér, að hægt sé að leysa Serbíuvandann með japli og jamli og fuðri. Þeir framkalla afskipti íslamskra ríkja af málinu.

Ef landvinningastríð Serba breytist í trúarstríð og verður fyrirmynd annarra villimanna í Austur-Evrópu, geta leiðtogar Vesturlanda sjálfum sér um kennt.

Jónas Kristjánsson

DV