Greinar

Ríkið afstýrir fríiðnaði

Greinar

Ríkisvaldið leggur steina í götu fríiðnaðar í nágrenni Keflavíkurflugvallar og fælir erlend fyrirtæki frá fjárfestingu á svæðinu, þótt atvinnuleysi á Suðurnesjum sé komið í 5% og muni aukast í vetur vegna stöðvunar varnarliðsframkvæmda og samdráttar í fiskvinnslu.

Stærsti þröskuldurinn í vegi fríiðnaðar er samningur frá síðustu áramótum milli utanríkisráðuneytisins og Flugleiða um fjögurra ára einokun í afgreiðslu vöruflugs á Keflavíkurflugvelli. Erlendir aðilar vilja ekki og munu ekki lenda í klóm slíks einokunarsamnings.

Utanríkisráðuneytið getur að vísu “óskað eftir”, að samningurinn verði endurskoðaður á tímabilinu, en Flugleiðum ber ekki skylda til að verða við þeirri ósk. Þessum mistökum sínum reyndi utanríkisráðuneytið lengi að halda leyndum, en það hefur ekki tekizt.

Fríiðnaðarsvæði eru svæði, þangað sem flytja má tollfrjáls hráefni til að framleiða fullunna vöru, sem síðan er aftur flutt tollfrjálst úr landi. Innlend gjöld leggjast ekki á vöruna, nema hún sé að lokum seld innanlands og sé tollskyld og skattskyld sem slík.

Skipting heimsins í tollmúrasvæði með frjálsum markaði innan svæðanna hefur stuðlað að tilraunum fyrirtækja til að komast með fótinn inn fyrir dyr með þessum hætti. Fyrirsjáanleg aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu getur gert landið að slíkum millilið.

Bandarísk fyrirtæki hafa verið að skoða Ísland sem hugsanlegt fríiðnaðarsvæði. Hugmyndir þeirra hafa í meira en ár velkzt um í aflóga stjórnkerfi Íslands, án þess að nokkur botn hafi fengizt í málið. Bandaríkjamennirnir eru hins vegar reynslunni ríkari í tæka tíð.

Þeir hafa kynnzt stjórnkerfi, sem getur ekki melt nýjungar og leggur heldur steina í götu þeirra til að drepa tímann. Þeir hafa kynnzt stjórnkerfi, sem hyggst mjólka útlenda viðskiptavini í þágu gæludýrs, sem hefur fengið einokun á vöruafgreiðslu Keflavíkurvallar.

Þeir hafa kynnzt embættismönnum og ráðherrum, sem ekki lesa málsgögn, en ímynda sér, að fríiðnaðarsvæði feli í sér útgjöld af hálfu ríkisins, og skilja ekki, að slík svæði byggjast á, að til séu heilbrigðir rammar og vinnureglur, er treysta má, að farið sé eftir.

Fyrst verða leikreglurnar að verða til, þar á meðal frelsi í vöruflugi. Þegar leikreglurnar verða til, getur fríiðnaður skotið rótum og dafnað af sjálfu sér. Leikreglurnar geta aldrei verið gulrót, sem er sýnd veiði, en ekki gefin. Þær verða að vera til í raun og veru.

Bezt er, að helztu atriði leikreglna séu bundin í lögum, þar sem fram komi, hvaða viðskiptafrelsi lagt er til af Íslands hálfu, til dæmis í afgreiðslu vöruflugs og í staðsetningu fríiðnaðarfyrirtækja. Þetta frelsi þarf að vera veruleiki í lögum, ekki loforð um síðari reglugerð.

Hjá kvígildum ráðuneytanna er vafalaust útbreidd skoðun, að ekki beri að hlaupa upp til handa og fóta til að laga leikreglur, sem taldar hafa verið nógu góðar fyrir Íslendinga og hafa til dæmis komið í veg fyrir, að hér myndaðist öflugur fiskútflutningur í flugi.

Ráðherrum og embættismönnum hefur tekizt að auglýsa fyrir umheiminum, að hjá þeim sé fjandsamlegt andrúmsloft í garð fríiðnaðar og að áhugasamir útlendingar verði að hafa svo mikið fyrir því að fá botn í einföld mál hér á landi, að þeir nenni ekki að standa í því.

Þegar stjórnvöld drápu tilraunir Íslendinga til að koma á frjálsu fiskflugi, varð þegar ljóst, að draumar um fríiðnað við Keflavíkurvöll mundu ekki rætast.

Jónas Kristjánsson

DV

Kjarkmissir þjóðar

Greinar

Atvinnuleysi er komið upp í 5% á Suðurnesjum, þar sem það er mest á landinu, og stefnir hærra. Búast má við, að það herði með vetrinum og slái metið frá í febrúar í ár, þegar það komst upp í 7%. Þvílíkar tölur hafa ekki sézt frá því í kreppunni miklu fyrir stríð.

Atvinnuleysi hefur aukizt milli ára úr 1,5% í 5% á Suðurnesjum, en úr 1% í 2,5% í landinu í heild. Annars staðar en á Suðurnesjum er atvinnuleysi að mestu bundið við persónur og tímabil, en á Suðurnesjum er nú komið langvinnt atvinnuleysi að erlendum hætti.

Þegar atvinnuleysi fer yfir 2%, er það orðið meira en nemur lausum störfum á móti. Það hættir að vera bundið við fólk, sem getur ekki unnið eða vill ekki vinna, og fólk, sem tímabundið er atvinnulaust milli starfa. Það verður varanlegt atvinnuleysi án vonar.

Kjarkmissir er nýtt og alvarlegt ástand hér á landi. Við búum í þjóðfélagi, sem hefur verið drifið inn í nútímann á takmarkalausri bjartsýni, sjálfstrausti og trú á, að framtíðin muni verða betri en fortíðin var. Þessi óbilandi trú hefur ýtt þjóðinni til átaka og afreka.

Margt hefur farið forgörðum í kapphlaupi þjóðarinnar til nútíma lífskjara. Heilar atvinnugreinar hafa risið í bjartsýni og hnigið til viðar. Eftir stendur, að Íslendingar eru núna ein ríkasta þjóð heims, þótt þeir hafi verið meðal hinna aumustu í Evrópu um síðustu aldamót.

Fyrir tveimur áratugum var Ísland land hinna endalausu möguleika. Fólk sá fyrir sér fiskeldisstöðvar og loðdýrabú, álver og vetnisver, efnaiðnað og ferðaþjónustu, nánast eins og hver vildi hafa. Tækifærin virtust bíða eftir þeim, sem hefðu kjark til að grípa þau.

Fólk fór í langskólanám í sannfæringu og trausti þess, að þörf væri fyrir það. Landið beið eftir verkfræðingum og hagfræðingum og alls konar öðrum fræðingum. Ríkið hafði jafnvel ráð á að búa til og efla stofnanir fyrir rannsóknir og vísindi af margvíslegu tagi.

Nú er öldin önnur. Ekki er lengur óskað eftir langskólagengnu fólki úti í lífinu. Þar á ofan hefur núverandi menntaráðherra gert ráðstafanir, sem stefna ómeðvitað að því, að langskólanám verði eitt af sportum auðstétta, sem börn almennings hafi ekki efni á.

Unga fólkið sér þetta allt. Það sér óvild ráðamanna í garð langskólamenntunar fyrir alþýðuna. Það sér milljarða niðurskurð framfaramála til að gera ráðamönnum kleift að halda uppi milljarðabrennslu í hefðbundnum landbúnaði. Það missir trú á framtíð sína og sinna.

Ungt fólk er um það bil að hætta að trúa, að lífskjör þess verði betri en lífskjör foreldranna. Þetta er í fyrsta skipti, sem slík bjartsýni á stöðugar framfarir fer forgörðum hér á landi. Með hvarfi trúar fylgir hvarf framtaks og áræðis, sjálfstrausts og þekkingarþorsta.

Unga fólkið sér atvinnuleysið aukast allt í kringum sig. Það fer að líta á það sem eðlilegt ástand, þar sem ein kynslóð tekur við af annarri, án nokkurrar marktækrar þátttöku í þjóðfélaginu. Þetta þola ef til vill tugmilljónaþjóðir, en ekki kvartmilljónþjóð norður í höfum.

Hagfræðingar geta ímyndað sér, að á móti þessu komi aukin iðjusemi þeirra, sem ekki vilja missa vinnu sína, og þar með aukin framleiðni fyrirtækja og bætt samkeppnisaðstaða þeirra á alþjóðlegum markaði. Þetta eru þó smámunir miðað við tjónið af kjarkmissi þjóðar.

Þegar atvinnurekendur missa kjark og þegar unga fólkið missir kjark, svo sem sjá má úti um borg og bý og mest á Suðurnesjum, hefur þjóðin lent í vítahring.

Jónas Kristjánsson

DV

Hermangið hrynur

Greinar

Komið hefur fram, sem spáð var í leiðara DV í maí, að mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins mun ekki öllu lengur nýtast til að halda uppi atvinnu á Suðurnesjum og efla eftirlaunasjóði helztu alfonsa fjallkonunnar í hinum þekktu hermangsfyrirtækjum landsins.

Deildir Bandaríkjaþings hafa sameiginlega komizt að þeirri niðurstöðu, að framlag Bandaríkjanna til mannvirkjasjóðsins verði skorið niður úr 11,5 milljörðum króna í 3,3 milljarða króna á næsta ári. Búast má við, að önnur ríki bandalagsins minnki líka við sig.

Þetta er bara fyrsta skrefið í fyrirsjáanlegum brottflutningi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Enginn pólitískur vilji sést lengur í Bandaríkjunum til að halda úti dýrri herstöð fjarri öllum hugsanlegum átakasvæðum. Ísland er ekki lengur hernaðarlega mikilvægt.

Varnarstöðin á Keflavíkurvelli er rekin samkvæmt beinu samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna, þannig að Atlantshafsbandalagið er aðeins óbeinn aðili. Bandaríkjamönnum hefur þó tekizt að nýta mannvirkjasjóð bandalagsins til að kosta framkvæmdir á staðnum.

Nú er annaðhvort um það að ræða, að áhrif Bandaríkjanna og gæluverkefna þeirra munu minnka í mannvirkjasjóðnum eða að önnur helztu ríki bandalagsins minnka framlög sín í samræmi við bandaríska niðurskurðinn. Í báðum tilvikum situr Keflavík á hakanum.

Þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess, að kalda stríðinu er lokið milli austurs og vesturs. Atlantshafsbandalagið hefur ekki enn látið draga sig inn í gróft útþenslustríð Serba á vesturlandamærunum og mun því tæplega láta draga sig inn í önnur stríð í Austur-Evrópu.

Jafnvel þótt það hefði afskipti af staðbundnum átökum, þá verða þau fjarri Keflavíkurflugvelli. Þau verða ekki á Kólaskaga, heldur á Balkanskaga og í Kákasus. Eina gildi flugvallarins er langsótt og tengist millilendingum í flutningum hergagna frá Bandaríkjunum.

Til slíkra millilendinga þarf góðar flugbrautir og nokkuð af olíubirgðum, sem hvort tveggja er til á Keflavíkurflugvelli. Ekki þarf þvílík mannvirki, sem helztu hermangarar landsins hafa árangurslaust verið að reyna að sníkja hjá Atlantshafsbandalaginu í sumar og haust.

Atlantshafsbandalagið hefur á næstu árum nóg að gera við að halda lífi við nýjar aðstæður og reyna að framleiða handa sér nýtt hlutverk. Það hefur ekki tekizt í Serbastríðinu og verður án efa erfitt. Og Keflavíkurflugvöllur er ekki þáttur í þessari lífsbaráttu.

Við þetta bætist sú mjög svo ánægjulega staðreynd, að Atlantshafsbandalagið getur ekki lengur sætt sig við þá rotnun, að Keflavíkurflugvöllur sé notaður til að mjólka peninga inn á bankareikninga hermangara í Sameinuðum verktökum og Íslenzkum aðalverktökum.

Eina von Íslands til að halda lífi í atvinnu vegna Keflavíkurvallar er að freista erlendra fyrirtækja til að stofna fríhafnarfyrirtæki á Suðurnesjum í tengslum við flugvöllinn. Ríkisstjórnin hefur lagt bjarg í götu þessa með því að endurnýja einokunarsamning við Flugleiðir.

Suðurnesjamönnum ber nú að nota hrun varnarliðsframkvæmda til að knýja þungfæra ríkisstjórn til að láta af hneyksli, sem sker í augu þeirra, er hugsanlega gætu látið freistazt til að framleiða atvinnu. Þessir útlendu aðilar munu aldrei láta Flugleiðir mjólka sig.

Því miður höfðu Íslendingar ekki frumkvæði til að hreinsa spillingu Keflavíkurflugvallar. Það verða útlendingar að gera fyrir okkur. Og þeir eru byrjaðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Nauðugir viljugir

Greinar

Við verðum ekki bara aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, heldur verðum við einnig fyrr eða síðar aðilar að Evrópusamfélaginu sjálfu, þótt það sé meingallað og hvimleitt fyrirbæri. Við fáum engan veginn ráðið við segulmagnað aðdráttarafl hins stóra markaðar í Evrópu.

Samtök atvinnurekenda auglýsa um þessar mundir stuðning sinn við Evrópska efnahagssvæðið. Þau leggja áherzlu á efnahagslegan ávinning af þátttöku í þessu markaðssvæði, sem aðrar þjóðir Fríverzlunarsamtakanna líta á sem biðstofu aðildar að Evrópusamfélaginu.

Þorri utanríkisviðskipta okkar er við ríkin, sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og eru ýmist aðilar að Evrópusamfélaginu eða hafa sótt um slíka aðild. Við munum fylgja í humátt á eftir þessum ríkjum, þótt það skerði sjálfstæði okkar enn frekar en þegar er orðið.

Helzta von okkar er, að atlaga Dana að fyrirhugaðri Maastricht-stjórnarskrá Evrópusamfélagsins, tregur stuðningur Frakka við hana og greinileg óbeit Breta muni leiða til tvískiptingar Evrópusamfélagsins í vægari Rómarhluta og harðari Maastricht-hluta.

Við eigum ekki erindi í þann aukna pólitíska samruna Evrópu, sem felst í Maastricht-stjórnarskránni. Rómar-stjórnarskráin gamla er nógu bölvuð, en er samt sennilega það skásta fyrir okkur í þungri undiröldu viðskiptahagsmuna, sem ber okkur til Evrópu.

Um þessar mundir bendir margt til, að Suður-Evrópa, Þýzkaland og Niðurlönd gangi til nánara samstarfs innan Evrópusamfélagsins að frönskum miðstýringarhætti, en engilsaxneskur og norrænn hluti þess þróist með meiri þjóðríkisstefnu og markaðshyggju.

Við viljum ekki renna inn í evrópska þjóð. Við höfum enga aðra afsökun fyrir tilvist okkar á jörðinni en þá að kunna íslenzku og eiga forfeður, sem hafa staðið vörð á þessari eyju í þúsund ár. Við getum ekki svikið það hlutverk fyrir mola af borðum Evrópumanna.

Það, sem okkur vantar í Evrópu, er fyrst og fremst frjáls markaður og aftur frjáls markaður fyrir afurðir okkar. Á móti verðum við að gefa Evrópu frjálsan aðgang fyrir afurðir sínar, enda mundum við græða á að eiga kost á mun ódýrari landbúnaðarvöru frá útlöndum.

Því er svo ekki að leyna, að til viðbótar mundum við hafa mikinn hag af því að verða að beygja okkur undir evrópskar leikreglur, í stað þess að þurfa að sæta sífelldum geðþóttaákvörðunum meira eða minna óhæfra ríkisstjórna, sem eru að fara með Ísland fjandans til.

Þrátt fyrir slíka kosti megum við ekki gleyma því, að Evrópusamfélagið er fyrst og fremst viðskiptalega ofbeldishneigt og siðblint samstarf mandarína í Bruxelles og þrýstihópa risafyrirtækja Evrópu um að verjast gegn umheiminum og hlaða tollmúra gagnvart honum.

Við höfum fengið að finna fyrir hrammi Evrópusamfélagsins í viðskiptum og eigum að vita, hversu harðdrægt það er. Með því að standa ekki lengi fyrir utan, heldur fara inn fyrir, er líklegt, að mál okkar fái heldur mildari umfjöllun en þau hafa fengið hingað til.

Vangaveltur af þessu tagi skipta máli einmitt um þessar mundir, því að við eigum enn kost á samfloti með Norðmönnum, Finnum og Svíum inn í Evrópusamfélagið í stað þess að bíða eftir Tékkum, Pólverjum og Ungverjum, sem vafalaust fá lakari samninga síðar.

Ef við teljum okkur tefla betur við skrímslið innan þess en utan, eigum við að drífa okkur inn sem hluti af Norðurlandapakka, en ekki bíða eftir Austur-Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Forstjóranetið

Greinar

Samband íslenzkra samvinnufélaga bráðvantar peninga, sem það á fasta í hermangsfyrirtækinu Sameinuðum verktökum. Það getur ekki komið þessari eign í verð, af því að það er í minnihlutahópi hluthafa og getur ekki fengið meirihlutann á sitt band.

Aðalfundur Sameinaðra verktaka er enn eitt dæmið um, að íslenzk hlutafélög eru ekki hliðstæð opnum hlutafélögum í útlöndum og geta því ekki að óbreyttu ástandi orðið hornsteinn tilrauna til að gera hlutafjáreign að marktæku sparnaðarformi fyrir almenning.

Í útlöndum væru Sameinaðir verktakar sennilega opið hlutafélag með skráningu á hlutabréfamarkaði. Menn keyptu og seldu í því hlutabréf eftir gengi hvers dags. Stjórnendur þess hefðu að meginmarkmiði að reka fyrirtækið á þann hátt, að arðgreiðslur héldust háar.

Hér á landi er algengt, að stofnun og rekstur fyrirtækja snúist um allt annað en reglubundinn hagnað og góða skráningu á hlutabréfamarkaði. Hér stofna menn fyrirtæki fremur til að fá góða vinnu við þau og síðan til að nota þessa vinnuaðstöðu til annarra áhrifa.

Hlutafélagaflóra Íslands er eins konar forstjóraveldi. Velgengni fyrirtækja er oft notuð til að bæta kjör forstjóra, en ekki til að greiða arð. Þegar betur gengur, komast forstjórar yfir meira hlutafé með því að kaupa það fyrir slikk af þeim, sem þurfa að losna við það.

Forstjórar ákveða verðið, af því að eigendur hlutabréfa geta ekki fengið eðlilegan arð í samræmi við gengi fyrirtækisins og standa uppi með verðlausa pappíra, þótt fyrirtækið sé efnað. Engir hafa hag af þessum verðlausu pappírum nema forstjórar í aðstöðu.

Fjármagns til kaupa á aukinni aðstöðu sinni afla forstjórar með innherjaviðskiptum af ýmsu tagi, svo sem með því að skattleggja aðföng fyrirtækisins í formi umboðslauna og með stofnun pappírsfyrirtækja, sem kaupa og selja vörur og þjónustu hvert af öðru.

Engin leið er fyrir almenna hluthafa að henda reiður á þessum möguleikum. Stjórnarmenn hafa einnig takmarkaða möguleika til afskipta, ef þeir eru ekki í náðinni hjá forstjóranum og meirihluta hans, meðal annars af því að endurskoðendur hlýða forstjórum í blindni.

Þar á ofan fara forstjórar gjarna með eigið fé fyrirtækjanna. Einnig liðka þeir fyrir helztu stjórnarmönnum til að kaupa sér frið fyrir þeim. Þannig myndast skörp skil milli meirihluta og minnihluta í stjórnum þekktra fyrirtækja, sem fátítt er í útlöndum.

Næsta stig er, að fyrirtæki fara að kaupa hluti í öðrum fyrirtækjum, ekki vegna arðvonar, heldur til að kaupa stjórnarsæti handa forstjórum, auka tekjur þeirra og áhrif. Úr þessu er smám saman ofið hagsmunanet forstjóra, sem sitja í stjórnum hver hjá öðrum.

Þessi iðja blómstrar í skjóli ríkisins, sem veitir einkaleyfi og ýmis fríðindi, er gera fyrirtækjum kleift að lifa góðu lífi, þótt annarleg sjónarmið ráði miklu í rekstri þeirra. Bankar koma og til skjalanna og vernda gróin fyrirtæki forstjóranetsins gegn samkeppnisaðilum.

Þetta forstjóranet er kallað Kolkrabbinn, þótt ekki sé um eitt dýr að ræða, heldur ýmis tengd og misvoldug hagsmunabandalög. Samband íslenzkra samvinnufélaga var einu sinni annar hornsteinn svonefnds helmingaskiptafélags, en er nú komið út í kuldann.

Stjórnmálaöflin, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, munu standa vörð um þetta forstjóraveldi, ef einhverjir kynnu að reyna að hrófla við því.

Jónas Kristjánsson

DV

Víghóll og Maastricht

Greinar

Vandamál mannlífsins eru svipuð í Kópavogi og á meginlandi Evrópu. Menn eru ósammála um allt milli himins og jarðar, en sum mál eru hlaðin meiri tilfinningum en önnur. Svo er um kirkjubyggingu á Víghóli í Kópavogi og nýja stjórnarskrá fyrir Evrópusamfélagið.

Þótt heilu og hálfu þjóðirnar sitji fyrir framan sjónvarp og horfi á flokkaíþróttir, þar sem eitt mark ræður sigri og ósigri, eiga menn erfitt með að sætta sig við eins marks eða eins prósents mun í atkvæðagreiðslum. Menn leita langsóttra ráða til að ómerkja niðurstöðuna.

Svo virðist sem áköfustu stuðningsmenn kirkjubyggingar á Víghól séu að ræða um, hvernig kjósa megi með nýjum og nýjum hætti, unz fengin er niðurstaða, sem gerir kleift að byggja kirkju á þessum stað. Þetta viðhorf er í senn hvorki kristilegt né lýðræðislegt.

Svipuð viðhorf voru til skamms tíma hjá ráðamönnum Evrópusamfélagsins. Þeir neituðu að horfast í augu við lögformlegar afleiðingar af ósigri hinnar nýju Maastricht-stjórnarskrár í þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku og hafa verið að leita annarra leiða.

Samt er deginum ljósara, að eldri Rómar-stjórnarskrá Evrópusamfélagsins verður ekki breytt í nýja Maastricht-stjórnarskrá, nema öll þátttökuríki samfélagsins samþykki það. Danir hafa hafnað og Maaastricht er fallið mál. Þetta var afar lengi að síast inn í kollana.

Ábyrgðarmenn Maastricht-stjórnarskrárinnar í Danmörku, með Poul Schl”ter forsætisráðherra og Uffe Ellemann-Jensen utanríkisráðherra í broddi fylkingar hafa reynt að finna leið til að hafa nýja þjóðaratkvæðagreiðslu með breyttum eða lítillega hliðruðum hætti.

Bak við stefnu þeirra er sú hugsun, að þeir viti sjálfir betur en hinir, hver niðurstaðan eigi að vera og að hún skuli nást með einhverjum hætti, hvað sem hver atkvæðagreiðsla segir. Hið sama er nú uppi á teningnum hjá einstökum safnaðarnefndarmönnum í Kópavogi.

Í Evrópu eru menn farnir að átta sig á, að þessi hugsun gengur ekki upp. Mitterrand Frakklandsforseti blés skyndilega til þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi um Maastricht-stjórnarskrána til að sýna fram á, að fjölmenn þjóð styddi hana með yfirburða meirihluta.

Þessi tilraun til að rétta Maastricht-stjórnarskrána við tókst að því leyti, að meirihluti Frakka studdi hana. Það var lítill meirihluti, svipaður og í Kópavogi, en hann gildir. Hann veldur því, að ráðamenn Evrópusamfélagsins geta reynt að blása lífi í Maastricht.

En í millitíðinni hafa ráðamenn í Evrópu komizt að raun um, að í löndum, þar sem ekki fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla, eru skoðanir manna afar skiptar um ágæti Maastricht-stjórnarskrárinnar. Í Bretlandi yrði hún vafalaust felld og ef til vill einnig í Þýzkalandi.

Ráðamenn þessara ríkja og Evrópusamfélagsins eru að átta sig á, að ekki þýðir að knýja fram meiri samruna Evrópuríkja en borgarar ríkjanna vilja fallast á. Þeir verða að sætta sig við að hægja á ferðinni og meta betur, hvað fólkið í löndum þeirra sættir sig við.

Núverandi biskup og fyrrverandi biskup á Íslandi, dómprófastur og aðrir ráðandi kirkjunnar menn verða einnig að endurskoða, hvort þeir eigi að vera að ýta á eftir vonleysismáli, sem klýfur heila sókn í herðar niður og getur aldrei orðið íslenzkri kirkju til annars en ama.

Af þessu má ráða, að einnig er óviturlegt að gerbreyta ríkjandi ástandi, nema traustur meirihluti sé að baki. Sá meirihluti er hvorki um Maastricht né Víghól.

Jónas Kristjánsson

DV

Æðibuna veldur áhyggjum

Greinar

Ríkisstjórnin hefur tamið sér óvenjulegt verklag, sem líklega er upprunnið við allt aðrar aðstæður í borgarstjórn Reykjavíkur. Hjá borginni eru mál yfirleitt minna pólitísk og meira tæknileg eða verkfræðileg. Og þar er líka hefð fyrir sviplitlum fulltrúum meirihlutans.

Yfirleitt hafa borgarstjórar ekki flutt þetta verklag til ráðuneyta, þótt þeir hafi orðið ráðherrar og jafnvel forsætisráðherrar. Í landsmálum eru mörg mál í eðli sínu miklu flóknari, viðkvæmari og pólitískari að eðlisfari og sjónarmið innan flokka geta verið flókin.

Reynslan sýnir, að verklag ríkisstjórnarinnar nær ekki árangri. Hún lendir í ógöngum með mörg stærstu málin og verður afturreka með sum. Undirbúningur að gerð fjárlagafrumvarps fyrir 1993 er bezta dæmið um, að ríkisstjórnin er á villigötum í aðferðafræði.

Almennt má segja, að samráð séu margfalt brýnni í landsmálum en borgarmálum, bæði út um borg og bý og innan veggja Alþingis. Meira en lítið vafasamt er að setja bráðabirgðalög án þess að ráðgast við þingflokksformenn og kveðja saman fundi í þingflokkum.

Einræðishneigð er þó ekki versta hliðin á verklagi ríkisstjórnarinnar. Lélegur undirbúningur mála er verstur. Vinnuskjöl, hugmyndir, reglugerðir og jafnvel lagafrumvörp verða til hjá aðstoðarmönnum, sem lifa í nokkurn veginn sama fílabeinsturni og ráðherrarnir.

Framan af var æðibuna frægust í ráðuneytum heilbrigðis- og menntamála. Þar var farið með offorsi í vanhugsaðan niðurskurð, sem varð síðan að falla meira eða minna frá, með þeirri heildarniðurstöðu, að sparnaður náðist alls ekki í þessum hávaðasömu ráðuneytum.

Heildarniðurstaða afreka ríkisstjórnarinnar á þessum tveimur sviðum er, að þjónusta við notendur hefur minnkað nokkuð, en kostnaður ríkisins hefur samt ekki minnkað. Velferðar- og jafnréttiskerfið hefur verið skert, en ekki hefur sparast af fé skattgreiðenda.

Í sumar hefur verið hliðstæður hamagangur í fjármála- og forsætisráðuneytunum, einkum vegna undirbúnings fjárlaga. Sparnaðurhugmyndir, sem ráðherrarnir þágu úr höndum aðstoðarmanna sinna, reyndust meira eða minna út í hött og eru óframkvæmanlegar.

Ríkisstjórnin hefur kastað fram hugmyndum og tillögum, sem ekki eru hugsaðar fram á miðjan veg og hvað þá til enda. Þær eru rifnar í tætlur úti í bæ, enda virðast hagsmunaaðilar átta sig betur en ungliðar í fílabeinsturninum á ýmsum hliðaráhrifum þeirra.

Dæmin hafa hrannast upp í fjölmiðlum á ofanverðu sumri. Heildarútkoman er, að ríkisstjórnin hefur fallið frá flestum sparnaðarhugmyndum og einbeitir sér að skattahækkunum. Er nú svo komið, að fjármálaráðherra er orðinn að skattakóngi Íslandssögunnar.

Handarbakavinnubrögðin draga úr möguleikum ráðherra til að komast upp með einræðishneigð. Þingmenn stjórnarflokkanna eru farnir að efast meira og meira um getu einstakra ráðherra og ríkisstjórnarinnar í heild. Í þingflokkum eykst andóf gegn ríkisstjórninni.

Ástandið er orðið slæmt, þegar ríkisstjórnin er farin að halda langvinna fundi um helgar og nætur og þegar forsætisráðherra telur sig verða að láta slíta þingflokksumræðum án þess að geta sagt að til sé nein niðurstaða, sem þingmenn flokksins fáist til að styðja.

Því oftar sem forsætisráðherra telur sig verða að hóta þingmönnum stjórnarslitum, þeim mun minna vægi er í hótuninni og meira saxast á virðinguna.

Jónas Kristjánsson

DV

Skópissingar

Greinar

Mælingar á seiðum sýna, að Ísland fær ekki happdrættisvinning úr sjónum á næsta ári. Þorskstofninn helzt lítill og þolir litla veiði á næstu árum. Ekki er ástæða til að reikna með, að þetta fari að lagast eftir tvö eða þrjú ár og miða efnahagsáætlanir sínar við það.

Ríkisstjórnin hefur samt ákveðið að láta sem þorskaflabresturinn sé skammtímabundið ástand, er megi brúa með tveggja milljarða króna spýtingu í verklegar framkvæmdir hins opinbera á næsta ári, eins milljarðs króna árið 1994 og hálfs milljarðs króna árið 1995.

Gæfulegra væri að spá varanlegri afleiðingum ofveiðinnar á þorski. Betra væri, að ríkisstjórnin aflaði sér og öðrum gleggri sýnar með því að tefla saman upplýsingum um hættur af atvinnuleysi annars vegar og hættur af langvinnri skuldasöfnun í útlöndum hins vegar.

Um leið og fólk fagnar atvinnuauka vegna aukinna ríkisframkvæmda verður það að muna eftir, að reikningurinn verður sendur afkomendum okkar, þegar þeir þurfa eftir tíu ár að borga erlendar skuldir, sem mislukkaðir foreldrar eru að stofna til um þessar mundir.

Ríkisstjórnin er í hlutverki hins misheppnaða foreldris, sem gefst upp á sparnaði í heimilisútgjöldunum og ýtir vandamálinu til hliðar og fram á veg með því að hækka virðisaukaskatt um tæplega milljarð á ári og auka erlendar skuldir um tvo milljarða á ári.

Þegar ríkisstjórn er lítil og vandinn stór, má búast við skópissingum af þessu tagi. Röksemdafærsla ráðherranna dregur dám af þessu. Forsætisráðherra segist geta aukið ríkisumsvif, af því að hann hafi áður náð svo miklum árangri í niðurskurði ríkisumsvifa á sama ári.

Samkvæmt þessu mati ráðherrans er eðlilegt, að fólk fari í megrun í þeim tilangi að geta bætt á sig aftur til að verðlauna sig fyrir árangurinn í megruninni. Slíkt gera sumir raunar, en án þess að fara með rökleysur til að útskýra, hvers vegna þeir hafi misst tökin.

Svo virðist sem ríkisstjórnin nenni ekki lengur að hafa fyrir framleiðslu nothæfra röksemda fyrir einstökum skrefum á undanhaldinu. Hún er þreytt á vandamálunum og hún er þreytt á fjölmiðlunum, sem stundum spyrja nýrra spurninga eftir hvert innantómt svar.

Eftir óskipulegt undanhald í virðisaukaskattinum er staðan nú þannig, að með afnámi endurgreiðslna á innskatti og með öðrum hliðaraðgerðum vill stjórnin ná tæplega milljarði króna í hreinar viðbótartekjur eftir að búið er að draga frá lækkun skatthlutfallsins um 1%.

Þessa hækkun virðisaukaskattsdæmisins um tæpan milljarð kallar ríkisstjórnin lækkun virðisaukaskatts. Ekki er auðvelt að sjá, hverjir eigi helzt að láta blekkjast af óframbærilegum málflutningi af þessu tagi. Hugsanlega eru ráðherrarnir bara að sefa sjálfa sig.

Í reynd mun kostnaður almennings ekki lækka um einn fjórða úr prósenti vegna lækkunar skattahlutfalls um eitt prósent, heldur munu seljendur halda þessu litla broti hjá sér. Hitt, sem lendir í afnámi endurgreiðslnanna, mun yfirleitt hækka um 15% í verði til fólks.

Margt hefði ríkisstjórnin getað gert vitlegra í skattahækkunum en einmitt þetta, en svona verður niðurstaðan, þegar ráðherrar telja kjarna málsins felast í að geta reynt að snúa út úr því, að þeir hafa svikið kosningaloforð um alls engar skattahækkanir á kjörtímabilinu.

Svona hringsnúningum og tvísögnum lenda menn í, þegar þeir neita að spara þjóðinni milljarða með því að leggja niður pilsfaldakerfi úreltra atvinnuhátta.

Jónas Kristjánsson

DV

Bóndabeygja

Greinar

Til skamms tíma töldu Íslendingar almennt, að framtíðin mundi verða sér og þjóðinni hagstæð, að möguleikarnir væru miklir fyrir alla, sem vildu taka til hendi. Fólk var bjartsýnt og taldi sér flesta vegi vera færa. Jákvæður andi sveif yfir vötnum þjóðfélagsins.

Bjartsýnin gekk stundum út í öfgar. Menn réðust í verkefni af vanefnum og reistu sér hurðarás um öxl. Sum dæmin gátu alls ekki gengið upp, hvernig sem á hefði verið haldið. Miklir fjármunir og mikil fyrirhöfn og mikið hugvit fór forgörðum í þessum sviptingum.

Oftar var þó bjartsýnin og sjálfstraustið nægilega temprað til að ná árangri um skamman eða langan tíma. Þannig hafa síðustu áratugir einkennzt af mikilli fjárfestingu, miklum framförum og ört vaxandi þjóðartekjum. Íslendingar rifu sig upp úr kreppu og fátækt.

Nú virðist nokkurra áratuga tímabili bjartsýni, áræðis og framfara vera lokið. Atvinnurekendur verða gjaldþrota hrönnum saman. Hinir, sem eftir standa, eru svo hræddir um hag fyrirtækja sinna, að þeir ráðgera að draga saman seglin á næstu mánuðum og misserum.

Þetta kemur fram í könnunum, sem samtök þeirra hafa verið að láta gera. Í þeim kemur fram, að menn gera ráð fyrir litlum fjárfestingum og auknum uppsögnum starfsfólks. Niðurstaðan er sú, að spáð er þrengri kreppu og vaxandi atvinnuleysi á komandi ári.

Sama svartsýni og kjarkleysi kemur fram í væntingum unga fólksins. Ekki er lengur talið öruggt, að langskólanám leiði til öruggrar atvinnu á góðum lífskjörum. Verkfræðingar og hagfræðingar ganga atvinnulausir eins og aðrir, svo og læknar og lögfræðingar.

Stöðnun undanfarinna ára hefur stuðlað að hugarfarsbreytingunni. Fólk hefur séð lífskjör sín rýrna árlega og býst ekki við neinum bata á næstu árum, enda er um þessar mundir fylgt hagstefnu fastgengis, verðhjöðnunar og samdráttar í opinberum framkvæmdum.

Ekki bætir úr skák, að fólk sér, að yfirstéttin hefur vikið sér undan að taka með öðrum þátt í þessum erfiðleikum. Þetta hefur þau óbeinu og mjög skaðlegu áhrif, að tilfinning fólks rýrnar fyrir því, að það eigi hluta í þjóðfélaginu og sameiginlega hagsmuni með því.

Ekki dugar að kenna sögumanni um ótíðindin. Gjaldþrotin héldu áfram að hrannast upp, þótt ekki væri sagt frá þeim. Atvinnurekendur héldu áfram að draga saman seglin, þótt ekki væri sagt frá uppsögnum starfsfólks. Ríkisstjórnin héldi áfram samdráttarstefnunni.

Ísland er lítið þjóðfélag, sem má ekki við miklum hremmingum af þessu tagi. Samdráttur getur hreinsað kalvið úr þjóðlífsskóginum, til dæmis í atvinnulífinu, og þannig orðið til nokkurs gagns, ef hann verður ekki svo langvinnur, að burðarásarnir falli líka.

Langvinn kreppa drepur kostina, sem einkenndu framfaratímabil liðinna áratuga. Bjartsýni hverfur og áræði með. Væntingar rýrna og þar með tilfinning fyrir eigin þátttöku og hlutdeild í þjóðfélaginu. Þunglyndi og tilfinningar tilgangsleysis leggjast á unga fólkið.

Þótt grisja megi kalviði og rifja upp gamlar kennisetningar um nauðsyn á stöðugu gengi og verðlagi, um leið og ríkisstjórn vill þrengja að skólagöngu fólks og að öllum þeim, sem miður mega sín í þjóðfélaginu, getur þessi grisjun fljótlega orðið afar skaðleg.

Við erum að komast í svo mikla andlega bóndabeygju, að betra er að magna bjartsýni og áræði en halda fast í kennisetningar ríkisstjórnarráðgjafa.

Jónas Kristjánsson

DV

Á nærklæðum til Evrópu

Greinar

Utanríkisráðherra telur, að Íslendingar séu heimskari en Svisslendingar. Þeir fá að velja eða hafna Evrópska efnahagssvæðinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem utanríkisráðherra telur, að komi ekki til greina hér á landi, af því að almenningur hafi ekki kynnt sér málið.

Utanríkisráðherra telur, að Íslendingar séu heimskari en Frakkar og Danir, er fá í þjóðaratkvæðagreiðslu að velja eða hafna nýrri Maastricht-stjórnarskrá fyrir Evrópusamfélagið, sem er álíka flókið mál fyrir þá og aðild að Evrópska efnahagssvæðinu er fyrir okkur.

Þótt menn vildu fylgja ráðherranum í ofangreindum atriðum, af því að menn þekkja ekki nógu vel til aðstæðna í Sviss, Danmörku og Frakklandi, er samt ekki hægt að taka undir hliðstæða kenningu ráðherrans um, að kjósendur séu heimskari en þingmenn okkar.

Þingmenn vita ef til vill aðeins betur en almenningur, sem spurður er á götunni, hvað ýmsar útlendar skammstafanir tákni. En þeir hafa ekki kynnt sér efni samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, ef frá eru skildir nokkrir þingmenn, sem hafa áhuga á málinu.

Ef 63 þingmenn eru færir um að velja eða hafna Evrópska efnahagssvæðinu með einföldum meirihluta, er þjóðin í heild fær um að gera slíkt hið sama. Ástæðan fyrir því, að hún er ekki spurð, er, að ráðherrar óttast, að hún felli samninginn um þetta efnahagssvæði.

Skoðanakannanir sýna, að umræðan innan þings og utan hefur leitt til, að fylgjendum og andstæðingum Evrópska efnahagssvæðisins hefur fækkað, en hinum óákveðnu hefur fjölgað. Þetta er afar eðlilegt, því að ýmsir lausir endar eru smám saman að koma í ljós.

Með vaxandi upplýsingum verður erfiðara að gera upp hug sinn til þessa samnings. Menn eru að byrja að átta sig á, að sérstakur, tvíhliða samningur milli Íslands og Evrópusamfélagsins verður ekki gerður fyrr en eftir að Alþingi hefur staðfest heildarsamninginn.

Smám saman er líka að koma í ljós, að ríkisstjórnin og stuðningsþingmenn Evrópska efnahagssvæðisins hafa ekki undirbúið lög og reglur, sem geti sannfært kjósendur um, að útlendir aðilar nái ekki tökum á verðmætum, sem felast í íslenzku landi og fiskimiðum.

Hér í blaðinu hefur verið bent á, hvernig megi tryggja þjóðareign þessara verðmæta, þótt ekki sé mismunað milli útlendinga og Íslendinga. Þær hugmyndir hafa hins vegar ekki verið teknar upp af ríkisstjórninni og koma því ekki til álita í mati á samningnum.

Skynsamleg afstaða almennings til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið fælist í að segja, að gæði hans fari eftir lögum og reglum um eignarhald á landi og fiskimiðum og eftir innihaldi tvíhliða samnings við Evrópusamfélagið um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir.

Þar sem ríkisstjórnin hefur ekkert af þessum atriðum á þurru, er eðlilegt, að fólk, sem annars er fylgjandi fjölþjóðlegu viðskiptasamstarfi, sé annaðhvort tvístígandi eða beinlínis andvígt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta mál varðar ekki vanþekkingu.

Mikill fjöldi óákveðinna í skoðanakönnunum um þetta mál táknar alls ekki, að þjóðin sé minna fær en þingmenn hennar um að taka afstöðu til þess, heldur einfaldlega, að undirbúningur málsins er ekki nægur af hálfu utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar.

Ekki er ósamræmi í, að menn vilji fara alklæddir til þessa samstarfs, en hafni því að fara þangað á nærklæðunum, svo sem ríkisstjórnin hyggst láta þjóðina gera.

Jónas Kristjánsson

DV

Stuðlað að þjóðahreinsun

Greinar

Fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Rússlandi sagði nýlega á fundi, að Eistlendingar skyldu flýja yfir til Svíþjóðar áður en það yrði of seint, því að annars yrðu þeir fluttir nauðugir til Síberíu. Þetta var Vladimir Zhirinovskíj, sem nýtur töluverðs fylgis í Rússlandi.

Boris Jeltsín var á hátindi vinsældanna, þegar hann vann Zhirinovskíj í forsetakosningum. Nú gengur allt á afturfótunum hjá Jeltsín, þannig að ekki er unnt að treysta því, að í næstu forsetakosningum vinni hann sigur á fulltrúa þjóðernissinnaðra öfgamanna.

Annar þekktur og áhrifamikill stjórnmálamaður í hópi rússneskra þjóðernissinna er Viktor Alksnis. Hann sagði nýlega í útvarpi til rússneskumælandi fólks í Eystrasaltslöndunum, að Rússland mundi brátt geta innlimað þau. Hann fylgist vel með árangri Serba.

Öfgamenn í Rússlandi eru hrifnir af þjóðahreinsunarstefnu Serba. Þeir sjá, að Serbar komast upp með að taka landsvæði, þar sem þeir eru í miklum minnihluta, og reka íbúana á brott með ógeðslegum ofbeldisverkum. Þetta vilja þeir líka gera á valdasvæði Rússlands.

Opinberlega hafa þeir hótað íbúum Eystrasaltsríkjanna, að þeim verði smalað til Síberíu, ef þeir hafi sig ekki á brott til Svíþjóðar. Sama þjóðahreinsunarstefna kemur fram gegn Moldóvum við landamæri Rúmeníu og gegn mörgum tugum minnihlutahópa í landinu.

Fleiri eru þeir, sem fylgjast með þjóðahreinsun Serba í Króatíu og Bosníu. Í Kákasusfjöllum berjast Armenar og Azerar og reka almenning á brott til skiptis. Nýstofnað Slóvakíuríki mun senn fara að beita ofbeldi gegn ungverskum minnihluta við landamæri ríkjanna.

Ekki þarf að leita svona langt frá Serbum til að finna árangurinn af útþenslustefnu þeirra. Þeir eru í miklum minnihluta í Kosovo, en eru farnir að beita þjóðahreinsun gegn albanska meirihlutanum. Sami hryllingur er á byrjunarstigi gegn Ungverjum í Vojvodina.

Allt byggist þetta á, að þjóðernissinnaðir hryðjuverkamenn sjá, að Vesturlönd láta þetta kyrrt liggja, en senda hjálparstofnanir til að taka ábyrgð á fólkinu, sem hrakið er á brott. Haldnir eru fáránlegir friðarfundir út og suður, en ekkert raunhæft gert í málinu.

Slobodan Milosevic ætlar að komast upp með það í Kosovo og Voyvodina, sem hann hefur komizt upp með í Króatíu og Bosníu. Hið sama ætlar hinn rússneski Zhirinovskíj að gera í Eystrasaltsríkjunum og Moldóvíu, er hann kemst til valda í næstu forsetakosningum.

Forsenda alls þessa er japl og jaml og fuður þeirra, sem ráða ríkjum á Vesturlöndum, einkum helztu ráðamanna Evrópusamfélagsins og Bandaríkjanna. Þetta eru lúðar, sem hvorki sjá siðleysið né óhagkvæmnina í að leyfa Serbum að halda uppteknum hætti í Bosníu.

Herveldi Vesturlanda eiga að lýsa algeru siglinga- og flugbanni á Serbíu og Svartfjallaland, banna flug hervéla Serba, eyða flugvöllum þeirra og öðrum hernaðarlega mikilvægum stöðum. Þau eiga að hervæða Bosníumenn gegn Serbum. Þetta er augljós skylda þeirra.

Miklum árangri má ná án þess að taka þátt í skæruhernaði á landi. Með ofangreindum hernaðaraðgerðum Vesturlanda er um leið sagt við Slobodan Milosevic og Vladimir Zhirinovskíj og alla aðra, sem áhuga hafa á að hefja þjóðahreinsun, að það dæmi gangi ekki upp.

Hingað til hefur fát og fálm ráðamanna Vesturlanda þvert á móti stuðlað að því að efla þann ásetning Serba að beita þjóðahreinsun hvarvetna við landamæri sín.

Jónas Kristjánsson

DV

Án ábyrgðar

Greinar

Menn hafa ekki orðið upplýstari um stöðu ríkisfjármála, þótt þeir hafi reynt að fylgjast með deilu núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra um halla ríkisfjármála á valdatíma þeirra. Helzt er, að menn hafi sannfærzt um, að alltaf sé unnt að framleiða nýjar tölur.

Mikilvægt er, að Ríkisendurskoðunin stuðli ekki að slíku moldviðri með kæruleysislegri útgáfu á tölum. Þegar hún breytir um reikningsaðferðir, þarf hún að hafa kafla um, hvernig gamla reikningsaðferðin hefði komið út, til að létta fólki samanburð milli ára.

Raunar eru sífelldar breytingar á reikningsaðferðum til þess fallnar að rugla fólk í ríminu og gera lukkuriddurum stjórnmálanna kleift að þyrla upp ryki til að hylja mistök sín. Festa í reikningsaðferðum er nauðsynleg á þessu sviði, svo sem raunar í öðrum fræðigreinum.

Stundum er eins og stjórnmálamenn og embættismenn taki óvart saman höndum um að flækja mál sem mest fyrir fólkinu í landinu. Hin óskráða og ómeðvitaða vinnuregla þeirra virðist hljóða svo: “Af hverju hafa hlutina einfalda, þegar hægt er að hafa þá flókna.”

Embættismenn hafa verið að vinna að hugmyndum um ríkissparnað. Ein hugmynd þeirra er að flytja 775 milljón króna verkefni til sveitarfélaga án þess að flytja tekjur til þeirra á móti. Þetta er gamalkunn aðferð til að spara fyrir hönd allra annarra en sjálfs sín.

Erfitt er að taka þá embættismenn alvarlega, sem framleiða tillögur um tilfærslu á útgjöldum, þegar þeir eru beðnir um tillögur um sparnað útgjalda. Þeir virðast vera brenndir sama ábyrgðarleysinu og lukkuriddararnir, sem örlögin gera að ráðherrum í þessu landi.

Fjármálaráðherra hótaði fyrir helgina, að ríkisstjórnin mundi framvegis gefa út bráðabirgðalög í þinghléum, þótt sá ósiður hafi verið lagður niður í nálægum löndum og þótt stjórnarskrá og þingskapalögum hafi verið breytt hér í fyrra til að gera bráðabirgðalög óþörf.

Ef fjármálaráðherra telur, að setja hefði átt meiri takmörk við ræðutíma þingmanna, þegar þing er kallað saman til að afgreiða mál, sem áður voru leyst með bráðabirgðalögum, á hann að vinna slíkum hugmyndum fylgi innan þingsins, en ekki hunza þingskapalögin.

Öll röksemdafærsla ráðherrans í máli þessu var samfelld hundalógík. Stjórnarskránni hefur verið breytt og ný þingskapalög hafa verið sett, beinlínis til að gera bráðabirgðalög óþörf. Það er út í hött að koma á eftir og segjast ekki geta notað þessar nýju reglur.

Ef ráðherra telur, að ekki sé hægt að nota nýleg lög, af því að þau séu svo seinvirk og af því að stjórnarandstaðan tali of mikið, ætti hann að láta af þeim sið að brjóta lýðræðishefðir um leið og þær verða til og fá sér heldur vinnu á öðrum vettvangi en sjálfs lýðræðisins.

Raunar gildir það um flesta oddvita stjórnmálanna innan stjórnar og utan, svo og um marga helztu embættismenn ríkisins, að ástæða er til að óska sér, að þeir störfuðu á einhverjum öðrum vettvangi, þar sem ætla mætti, að minna tjón hlytist af völdum þeirra.

Engin ein meinsemd í efnahagslífi þjóðarinnar er verri en getuleysi stjórnmálamanna og embættismanna á sviði ríkisfjármála, enda er ríkið stærsta fyrirtæki landsins. Ráðherra fram af ráðherra hafa ríkisfjármálin verið í steik og virðast fremur fara versnandi.

Æðsta stjórn ríkisins hefur of lengi verið mörkuð ábyrgðarleysi og hentistefnu burtreiðarmanna, sem telja ráðherradóm ekki vera starf, heldur lífsstíl.

Jónas Kristjánsson

DV

Hin hliðin á hjálpinni

Greinar

Að minnsta kosti helmingur innfluttra hjálpargagna í Sómalíu kemst ekki til skila. Sumir hafa nefnt enn hærra hlutfall og taka þá með í reikninginn matvæli, sem kaupmenn komast yfir og læsa inni til að geta selt í smáum skömmtum á háu verði á svörtum markaði.

Ekkert bendir til, að íslenzkt hjálparstarf sé svo einstakt, að það lúti öðrum lögmálum en aðstoð annarra þjóða til Sómalíu. Þess vegna eru forustumenn íslenzka hjálparstarfsins á hálum ís, þegar þeir segja beinlínis, að hjálpin frá Íslandi komist öll til skila.

Ríkisstjórnir Vesturlanda hafa til skamms tíma vanrækt að sjá um ytri skilyrði þess, að vestrænt hjálparstarf í Sómalíu komi að öðru gagni en að friða samvizku fólks á Vesturlöndum, er lítur á aðild sína að hjálpinni sem eins konar blint guðsþakkarverk að gömlum sið.

Þetta kann að vera að breytast, því að Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusamfélagið hafa ákveðið að senda fámennt herlið til Sómalíu til að vernda hjálpargögn gegn óaldarflokkum, sem hingað til hafa tekið að minnsta kosti helmings toll af öllum hjálpargögnum.

Brezka tímaritið Economist hefur lagt til, að reynt verði að komast hjá þessari skattlagningu bófanna með því að kaffæra Sómalíu í mat, svo að hann verði verðlaus og allir hafi nóg af honum. Rauði krossinn og aðrar hjálparstofnanir hafa staðið gegn þessari hugmynd.

Í rauninni á hjálparstarfið í Sómalíu þátt í að halda úti óaldarflokkunum, sem hafa nóg að bíta og brenna vegna yfirtökunnar á hjálpargögnum og vegna tekna, sem þeir hafa af sölu þeirra. Þessar tekjur eru sumpart notaðar til vopnakaupa til enn frekara ofbeldis.

Þannig getur hjálparstarf að sumu leyti snúizt upp í þverstæðu sína, eins og raunar hefur líka gerzt í Júgóslavíu. Þar auðveldar tilvist hjálparstarfsins Serbum að framkvæma þjóðahreinsunina. Hjálparstofnanir taka við ábyrgðinni á fólkinu, sem hrakið er brott.

Þetta er mikið og vaxandi vandamál, því að ribbaldar læra alltaf betur og betur að leika á hjálparstofnanir og misnota þær. Brýnt er, að vestrænar stofnanir fari að skoða betur, hvernig og hvenær eigi að hjálpa fólki, svo að áhrifin séu ekki þau að gera illt verra.

Löng harmsaga er af því, einkum í Afríku, að vestrænt þróunarstarf hefur haft þveröfug áhrif. Eitt frægasta dæmið er stuðningur Norðurlanda við Tanzaníu, sem hefur stuðlað að stjórnarfari, er hefur gert þetta eðlisríka land að einu af eymdarsvæðum álfunnar.

Í Sómalíu er þjáning svo gífurleg, að erfitt er að tala með rökum um hina hliðina á hjálparstarfinu. Ef til vill er bezt að loka augunum og gefa til að friða samvizkuna. En raunveruleg verður hjálpin fyrst, þegar Vesturlönd hafa beitt hervaldi til að gera hana kleifa.

Hins vegar hafa aðstandendur söfnunar á Íslandi talað svo óvarlega um árangur starfs síns, að nauðsynlegt er að benda á, að í nálægum löndum vita menn betur og ræða opinberlega um, hvernig megi læra af reynslunni og standa betur að málum nú og í náinni framtíð.

Telja má ljóst, að Serbar nota hjálparstarfið í Bosníu til að ýta ábyrgðinni af landflótta fórnardýrum sínum á herðar alþjóðlegra stofnana og að óaldarflokkar Sómalíu lifa beinlínis á hjálparstarfinu og nota það til að halda sveltandi almenningi í heljargreipum sínum.

Menn forðast að viðurkenna hina köldu staðreynd, að vestræn mannúð þrífst ekki, nema kaldrifjaðir morðingjar fái að horfa um leið inn í vestræn byssuhlaup.

Jónas Kristjánsson

DV

Verndun þjóðareignar

Greinar

Leiðir eru til að koma í veg fyrir, að erlendir aðilar eignist landið og auðlind þess í hafinu í kjölfar aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þær eru aðrar en girðingarnar, sem alþingismenn eru að ræða um að setja upp og hafa ekki skaðleg hliðaráhrif eins og þær.

Girðingar hafa þann galla, að þær mega ekki mismuna innlendum og erlendum aðilum, nema menn vilji eiga á hættu, að þeim verði hnekkt fyrir erlendum dómstólum, sem við höfum meira eða minna játast undir. Smíði slíkra girðinga er lögfræðilega vandmeðfarin.

Jafnvel þótt unnt sé að smíða heldar girðingar á grundvelli kröfu um langvinna búsetu í landinu og á öðrum hliðstæðum forsendum, er hætt við, að þær hindri eðlileg viðskipti innanlands, því að þær verða um leið girðingar gegn hversdagslegum viðskiptum.

Betra er að fara aðrar leiðir, sem byggja á allt öðrum forsendum og varða ekki sérstaklega gráa svæðið um mismunun innlendra og útlendra aðila. Þessar leiðir hafa einnig þann kost að vera mikilvægar af öðrum þjóðfélagslegum ástæðum en þjóðernislegum einum.

Í sjávarútvegi þarf að greina milli sjálfrar auðlindarinnar, sem íslenzka efnahagslögsagan nær yfir, og aðildar að fyrirtækjum, sem nýta þessa auðlind. Skilgreina þarf lögformlega, að þjóðin eigi auðlindina, en hún sé ekki eign fiskiskipa eða fyrirtækja í sjávarútvegi.

Á þessum grunni þarf þjóðin að koma á fót sölu veiðileyfa á frjálsum uppboðsmarkaði, samhliða frjálsri gengisskráningu, svo að útgerðarfélög hafi ráð á að greiða auðlindarskattinn, sem felst í kostnaði við veiðileyfin. Á þennan hátt á þjóðin áfram alla auðlindina.

Margir hagfræðingar hafa einmitt lagt til, að slíkt kerfi verði látið leysa kvótakerfið af hólmi, enda hefur það sjáanlega gengið sér til húðar. Þeir reisa þessar skoðanir á efnahagslegum forsendum, en við getum engu síður bætt við hinum þjóðernislegu forsendum.

Ef þjóðin á skilyrðislaust auðlindir hafsins, má okkur vera sama, hvort erlendir aðilar eigi meira eða minna í skipum eða útgerðarfélögum, vinnslustöðvum eða dreifingarfyrirtækjum, sem borga sig inn í dæmið. Við höldum okkar auðlindartekjum eigi að síður á þurru.

Í landbúnaði þarf að gera þrennt. Í fyrsta lagi þarf að verða lagalega ljóst, að afréttarlönd geti aðeins verið í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Þau séu raunverulegur almenningur í skilningi gamalla laga. Setja þarf lög um, að þessi lönd megi alls ekki ganga kaupum og sölum.

Í öðru lagi þarf að ítreka og skerpa gömul lög um fullan og frjálsan rétt manna til að fara gangandi eða ríðandi um landið, meðal annars með ám og vötnum, án þess að á vegi þeirra verði hliðalausar girðingar, sem landeigendur setja upp til að ýta fólki af löndum sínum.

Í þriðja lagi þarf að leggja niður hvers konar stuðning ríkisins við landbúnað og nota féð að hluta til að kaupa jarðir í því skyni að taka þær úr ábúð. Þar með er í senn dregið úr umfangi landbúnaðar og samfélagið eignast eitthvað fyrir peningana, sem það leggur fram.

Með þessum þremur aðferðum má taka mjög mikið landsvæði af sölumarkaði og tryggja frjálsan aðgang þjóðarinnar að öðrum svæðum, án þess að amast þurfi við, að útlendingar geti eignast skika hér og þar eins og innlendir þéttbýlisbúar hafa gert um langt skeið.

Þótt við tökum þátt í Evrópska efnahagssvæðinu, getum við haldið áfram að eiga auðlind hafsins og frjálsan umgang um landið, ef farið verður að þessum ráðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gorbatsjov-dagar bænda

Greinar

Bændur tala ekki lengur einum rómi fyrir hinu sjálfvirka afsetningar- og verðlagningarkerfi, sem hefur verndað þá fyrir umhverfi sínu í liðlega þrjá áratugi. Sumir vilja sættir við neytendur og skattgreiðendur og enn aðrir vilja horfast í augu við veruleikann.

Á nýloknum fundum samtaka bænda í sauðfjár- og nautgriparækt og stéttarsambands þeirra komu fram sjónarmið, sem flokka mætti í þrennt. Í fyrsta lagi skjaldborg um fortíðina, í öðru lagi undanhald fyrir nútímanum og í þriðja lagi sókn inn í framtíðina.

Miðstefnan hefur tekið völdin hjá forustumönnum samtakanna. Þeir telja, að ekki sé pólitískur vilji í þjóðfélaginu til að leggja auknar byrðar á neytendur og skattgreiðendur til þess að sauðfjár- og nautgripabændur geti haldið áfram að framleiða eins og þá lystir.

Miðstefnumenn vilja taka mið af, að komið hefur í ljós, að sífellt verður dýrara fyrir neytendur og skattgreiðendur að sjá um, að allir bændur geti framleitt eins og þeim þóknast í skjóli þess, að þeir geti losað sig við allar afurðirnar og það á fastákveðnu verði.

Miðstefnumenn telja henta bændum að fallast á takmörk framleiðslumagns á móti því, að þjóðfélagið haldi áfram að verja um 8% af ríkisútgjöldum til stuðnings landbúnaði, sumpart í nýju formi, og sætti sig við, að neytendur fái ekki ódýrari afurðir frá útlöndum.

Þetta er einmitt stefna stjórnvalda um þessar mundir. Kostnaði skattgreiðenda er haldið óbreyttum, en peningunum er varið á annan hátt, sem síður hvetur til offramleiðslu. Jafnframt er kostnaði neytenda haldið óbreyttum, hátt yfir því, sem þekkist í útlöndum.

Sumir eru ósáttir við undanhaldið og vilja halda til streitu hinum ótakmarkaða framleiðslurétti, sem gilti í þrjá áratugi. Þeir neita að horfast í augu við kvótaskerðinguna, sem fer senn að verða tilfinnanleg, og saka forustumenn sína um svik við málstað landbúnaðarins.

Aðrir bændur eru hvorki á því, að halda beri dauðahaldi í steinrunna fortíð, eins og gert var til skamms tíma, né að rétt sé að fara á skipulegu undanhaldi, eins og byrjað er að gera um þessar mundir. Þeir vilja taka örlögin í eigin hendur og sækja inn í framtíðina.

Sumir þeirra hafa þegar gert þetta fyrir eigin reikning með því að færa sig úr hefðbundnum búgreinum yfir í starfsemi, sem er utan hins flókna landbúnaðarkerfis og nýtur ekki stuðnings neytenda og skattgreiðenda. Í þessum hópi eru ferðabændur og hrossabændur.

Aðrir standa upp á aðalfundum sauðfjár- og nautgripabænda og mæla með frjálsum markaði, meira að segja uppboðsmarkaði. Einn þeirra kvað upp úr með, að frjáls verzlun væri hluti af lýðræðinu og að hæpið væri fyrir menn að byggja afkomu sína á styrkjum.

Líkja má stöðu hefðbundins landbúnaðar við ástand Sovétríkjanna á Gorbatsjovs-tímanum. Þá hafði steinrunnu kerfi verið hafnað þar eystra og við tekið millibilsástand skipulegs undanhalds, áður en kerfið hrundi og friðsöm bylting lýðræðis og auðhyggju tók við.

Líklegt er, að skipulega undanhaldið verði ekki langvinnt í landbúnaði á Íslandi fremur en það var í sovézkum kommúnisma. Það leiðir til hraðrar tekjurýrnunar allra bænda, en ekki til þeirrar grisjunar, sem ein getur haldið uppi lífskjörum þeirra, sem eftir standa.

Millileiðin mun bresta. Annaðhvort reyna bændur að komast til baka á flótta inn í verndað gróðurhúsið eða þeir reyna að brjótast út úr því til frelsis.

Jónas Kristjánsson

DV