Greinar

Kosningastríð í sjónmáli

Greinar

Bandamenn hafa sett bann á flugher Íraks sunnan 32. breiddarbaugs til að vernda byggðir Sjíta í sunnanverðu landinu. Þetta er hliðstætt banni, sem áður hafði verið sett á flugherinn norðan 36. breiddarbaugs til að vernda byggðir Kúrda í norðanverðu landinu.

Ærin tilefni eru að baki hins nýja banns, því að stjórn Saddams Hussein hefur látlaust ofsótt Sjíta frá þeim degi, er Bush Bandaríkjaforseti gafst upp á Persaflóastríðinu. Hún hefur látið sprengjum og eitri rigna á Sjíta til stuðnings villimannlegum hernaði gegn þeim á landi.

Bannið dregur úr möguleikum Írakshers á að athafna sig í byggðum Sjíta. Líklegt er, að hann verði að draga sig í hlé frá fenjasvæðunum, þar sem Sjítar hafa leitað skjóls. Án stuðnings úr lofti getur herinn lítið athafnað sig á slíkum slóðum, þar sem allir hafa harma að hefna.

Ef bandamenn fengjust líka til að stækka verndarsvæðið í norðurhluta landsins suður til 35. breiddarbaugs, væri Kúrdum veitt svipuð vernd. Griðasvæði þeirra nær núna ekki yfir nægilega stóran hluta af byggðum þeirra. Það framlengir flóttamannavandann.

Hins vegar hefur verið brýn þörf á banni á flugher Íraks í hálft annað ár, ekki bara norðan og sunnan ákveðinna breiddarbauga, heldur almennu banni. Ekkert hefur gerzt á síðustu vikum, sem gefur aukið tilefni til banns. Aðrar fjarlægari ástæður eru að baki.

Bush Bandaríkjaforseti hefur lengi talið ranglega, að Persaflóastríðið mundi stuðla að endurkjöri sínu í nóvember á þessu ári. Hann er nú byrjaður að átta sig á, að þessu er þveröfugt farið. Framganga hans í stríðinu verður honum þvert á móti fjötur um fót í kosningum.

Margir Bandaríkjamenn eru að byrja að átta sig á því, sem öllum ætti að hafa verið ljóst í hálft annað ár, að Bush hætti Persaflóastríðinu of snemma. Hann gerði það til að vernda miðstjórnina í Bagdað fyrir klofningi Íraks í þrjá hluta, ríki Sunníta, Sjíta og Kúrda.

Lélegir utanríkisráðgjafar forsetans óttuðust, að veikt og klofið Írak mundi magna nágrannalandið Íran til aukinna áhrifa á svæðinu. Auk þess eru þeir kerfisbundið fylgjandi fjölþjóðaríkjum eins og Írak, Júgóslavíu og Sovétríkjunum, af því að þau minntu á Bandaríkin.

George Bush óttast nú, að myndir af vígreifum Saddami Hussein muni spilla fyrir endurkjörinu og að kjósendur fari að átta sig á, að Íraksher er nú þegar kominn aftur með helminginn af þeim herstyrk, sem hann hafði, þegar bandamenn hófu gagnsókn sína gegn honum.

Ástæða er til að óttast, að örvænting Bandaríkjaforseta út af varanlegu lággengi í skoðanakönnunum leiði til þess, að hann noti hernað í útlöndum til að draga athygli kjósenda frá innanlandsmálum og til að fylkja þjóðinni um þjóðhöfðingjann á hættustund.

Ef bandarískt herlið ræðst á einhvern hátt til afmarkaðrar atlögu gegn her Íraks á tímabilinu fram til kosninganna í nóvember, er eðlilegt að túlka það sem örvæntingarfullt innlegg í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum. Hinar efnislegu forsendur eru ekki raunverulegar.

Hinn rétti tími til að losna við glæpahyski Saddams Hussein var við lok Persaflóastríðsins. Eftir að hafa látið hann, stjórn hans og herafla leika lausum hala í hálft annað ár til viðbótar er um þessar mundir ekki um að ræða nein ný tilefni af hans hálfu til endurvakins stríðs.

Saddam Hussein hefur hunzað Sameinuðu þjóðirnar í hálft annað ár. Aukið bann á flugher hans stafar ekki af, að hann sé að auka þvermóðsku sína einmitt núna.

Jónas Kristjánsson

DV

Óvinir bænda finnast

Greinar

Sauðfjár- og nautgripabændur eru að leita leiða til að losna úr ógöngum kerfis, sem byggt hefur verið upp með gífurlegum kostnaði til að vernda þá fyrir markaðslögmálum, en einkum þó til að byggja upp og viðhalda miklu bákni bændavina í ýmsum höllum Reykjavíkur.

Aðalfundir hagsmunasamtaka sauðfjárbænda og nautgripabænda að undanförnu hafa fjallað um margvísleg atriði, sem bændum eru að verða ljós fyrst núna, af því að þeir hafa of lengi talið gagnrýnendur vera óvini bænda og virkin í bændahöllum vera í sína þágu.

Glöggur sauðfjárbóndi fór til Skotlands og komst að raun um, að þar er sláturkostnaður lamba tæplega fjórðungur af því, sem hann er hér á landi; og að áburðarverð er þar helmingur af því, sem það er hér á landi. Þetta virtust aðalfundarmönnum vera nýjar fréttir.

Sláturkostnaður er hár hér á landi, af því að örlátt sístreymi almannafjár hefur verið notað til að byggja hallir fyrir vinnslu og dreifingu búvöru. Engin markaðslögmál hafa stjórnað kostnaði við rekstur þessarar starfsemi, heldur útreikningar í bændahöllum Reykjavíkur.

Áburðarverð er hátt hér á landi, af því að virkisverðir kerfisins í Reykjavík hafa komið upp áburðareinokun til verndar einstæðri áburðarverksmiðju, sem þeir reka meira eða minna eftir útreikningum um tekjuþörf, en þurfa ekki að reka eftir markaðslögmálum nútímans.

Dæmin um slátrun og áburðargerð eru angar af þeirri staðreynd, að fjáraustur í landbúnaði hefur að litlu leyti ratað til bænda, en að mestu brunnið upp í hátimbruðu kerfi, sem svokallaðir bændavinir hafa byggt upp til að stýra landbúnaði og til að vinna búvöru og dreifa henni.

Nú koma sauðfjárbændur á fund og ræða í fullri alvöru um, að frelsi eigi að ríkja í vinnslu og dreifingu búvöru. Sumir leggja jafnvel til, að komið verði upp búvörumarkaði til að lækka milliliðakostnað. Þetta er þungur áfellisdómur yfir bákninu í bændahöllunum.

Undanfarin ár hafa ríkið og báknið tekið saman höndum í afar dýrum auglýsingaherferðum til að reyna að koma í veg fyrir, að neytendur minnki kaup á dilkakjöti. Þetta hefur ekki tekizt. Sauðfjárbændur sjá því fram á mikinn niðurskurð á kvóta yfir alla línuna.

Bændur eru nú að byrja að sjá, að verndaða kerfið gerir þeim ókleift að komast að vilja markaðarins og að það seigdrepur þá raunar með minnkaðri eftirspurn. Þeir vilja brjótast í átt til frelsis, sem boðað hefur verið af þeim, sem kallaðir hafa verið óvinir bænda.

Nautgripabændur eru farnir að átta sig á, að neytendur hafa önnur sjónarmið en þeir, sem setja upp gæðamat og verðformúlur og halda að slík pappírsgögn geti leyst markaðsöflin af hólmi. Þeir eru að breyta forsendum flokkunarinnar, en miða þó enn við miðstýringu.

Öðru vísi væri um að litast í landbúnaði, ef gamalkunnug sjónarmið úr leiðurum DV hefðu ráðið ríkjum um langan aldur. Þá væru bændur í hefðbundnum búgreinum miklu færri en þeir eru, en þeir hefðu frjálsari hendur og vissu betur, hvers konar vörur rynnu út.

Í staðinn hafa ráðið ferðinni steindauð sjónarmið. Mikill árangur hefur náðst í að hafa fé af skattgreiðendum og neytendum, en jafnframt hefur orðið til verndað umhverfi, sem gerir bændum nánast ókleift að lifa af hægfara aðlögunargerðir af hálfu báknsins í Reykjavík.

Aðalfundir hagsmunasamtaka bænda benda til, að þeir séu að byrja að skilja, að hinir raunverulegu óvinir bænda eru á skrifstofum í bændahöllum Reykjavíkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiðtogalaus þjóð

Greinar

Varanleg breyting verður á þjóðfélaginu, ef atvinnuleysi verður 4% eða meira eftir áramótin eins og Vinnuveitendasambandið spáir. Alvarlegast er, að koðna mun niður bjartsýni og kjarkur, sem hefur fylgt áratuga langri reynslu þjóðarinnar af rúmlega fullri atvinnu.

Við erfiðar aðstæður hafa áræði og dugnaður fleytt Íslendingum langt. Fólk hefur trúað á framtíðina og talið sig geta búið sig undir hana með ómældri vinnu, sem alls staðar væri á boðstólum. Nú er þetta sérstaka, íslenzka ástand að víkja fyrir vantrú á framtíðina.

Kreppa í hugsun og viðhorfum fylgir kreppu í framtaki og atvinnutækifærum. Menn verða kjarkminni og draga saman seglin, þannig að úr þessu verður vítahringur, þar sem kreppa framkallar meiri kreppu. Við erum að sigla inn í óþekkt ástand af þessu tagi.

Svo illa erum við undir atvinnuleysi búin, að sjóðurinn, sem við höfum myndað að erlendri fyrirmynd til að bæta úr tekjuleysi atvinnulausra, ræður aðeins við helminginn af spáðu 4% atvinnuleysi og greiðir hann þó lægri upphæðir en tíðkast í nágrannalöndunum.

Erfitt er að hugsa þá hugsun til enda, að greiðslufall verði hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og að hér rísi súpueldhús eins og á kreppuárunum miklu. Samt er ríkisstjórnin að hugsa um að ræna fé úr sjóðnum til að skapa óviss atvinnutækifæri með gamalkunnu handafli.

Erfiðleikar líðandi stundar kalla á kjarkmikil stjórnvöld, sem gera róttækar breytingar til að rjúfa vítahringinn. Okkur vantar ríkisstjórn, sem byltir þjóðfélaginu eins og Viðreisnarstjórnin gerði í upphafi sjöunda áratugarins, þegar viðjar vanans voru sprengdar brott.

Viðbrögðin við fyrirsjáanlegum samdrætti í þorskafla eru fyrsta stóra merki þess, að við höfum lélega og hefðbundna ríkisstjórn, sem ekki treystir sér til að taka á vandanum af krafti. Hún komst að niðurstöðu, sem tryggir okkur ekki vaxandi þorskstofn á næstu árum.

Undirrót erfiðleika okkar er, að við notuðum gróða velgengnisáranna til að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í hefðbundnum landbúnaði fyrir um það bil tvo tugi milljarða króna á ári á núverandi verðlagi. Það er dýrasta aðferð, sem til er í greiðslu atvinnuleysisbóta.

Þjóðarbú af íslenzkri stærð ræður ekki við, að 4745 milljónir króna fari árlega í niðurgreiðslur búvöru, 2787 milljónir í útflutningsuppbætur búvöru, 1050 milljónir í beina styrki til landbúnaðar og 479 milljónir í ýmsa þjónustu, sem er umfram aðra atvinnuvegi í landinu.

Ofan á þessa níu milljarða, sem eru 8% fjárlaga ríkisins á þessu ári, kemur svo tólf milljarða árlegt tjón neytenda af því að hafa ekki aðgang að hliðstæðri búvöru á heimsmarkaðsverði. Það er þessi herkostnaður, sem hefur sligað þjóðina og framkallað nýja kreppu.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að taka á þessum vanda, heldur endurnýjar hún og staðfestir búvörusamninga upp á nokkurn veginn óbreyttan fjáraustur. Í staðinn ætlar hún að halda áfram að rústa menntakerfi þjóðarinnar, heilbrigðiskerfi og tryggingakerfi.

Þjóðhagsstjóri hefur sagt, að aflasamdrátturinn einn jafngildi bara kvefi í efnahagslífi þjóðarinnar. Það eru önnur og stærri atriði, sem valda siglingu okkar inn í kreppu og 4% atvinnuleysi. Fyrst og fremst er það kjarkleysi og dugleysi stjórnvalda, sem magna kreppuna.

Því miður eru engin teikn á lofti um, að nokkur pólitískur aðili hafi reisn til að leiða þjóðina út úr ógöngum, hins árlega tveggja tuga milljarða landbúnaðarsukks.

Jónas Kristjánsson

DV

Ódýr röksemdafærsla

Greinar

Ef marka má framsöguræðu utanríkisráðherra í máli Evrópska efnahagssvæðisins, ætlar ríkisstjórnin að fara ódýrar og hálfkaraðar leiðir til að fá samninginn staðfestan. Hún ætlar að beita rökum, sem ekki sannfæra aðra landsmenn en handauppréttingamenn eina.

Sorglegt er, að eitt mikilvægasta þingmál síðustu áratuga skuli ekki fá betri meðferð á Alþingi en hefðbundinn skæting milli manna, sem hafa orðið svo heillaðir af hæfni sinni í pólitískum burtreiðum, að þeir hafa misst sjónar á varanlegri stjórnvizku og orðstír.

Utanríkisráðherra lagði áherzlu á, að samráðherrar sínir í fyrri ríkisstjórn, sem nú sitja í stjórnarandstöðu, hafi þá ekki mótmælt ýmsum atriðum, sem þeir kvarti nú um. Þetta er afbrigði af gömlu lummunni um, að þið í stjórnarandstöðunni eruð ekki hótinu betri en við.

Þetta kann að renna ljúft um kverkar handauppréttingaliðs ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Hinir hiksta, sem hvorki hafa mikið álit á forustumönnum ríkisstjórnarinnar né forustumönnum stjórnarandstöðunnar og vilja fremur, að rætt sé efnislega um málið á Alþingi.

Í tíð fyrri ríkisstjórnar var málið óljósara en það er nú. Ekki eru efnisleg rök fyrir því að hallmæla fyrrverandi ráðherrum fyrir tvískinnung; að hafa þá ekki verið á móti óljósum drögum að niðurstöðu, sem núna er ljósari og sem þeir eru núna fremur andvígir.

Svo virðist sem utanríkisráðherra vilji ekki stjórnarskrárbreytingu vegna þessa máls á þeirri undarlegu forsendu, að breytingar á stjórnarskrám valdi óstöðugleika og ringulreið í stjórnarháttum. Hann vísaði í framsöguræðunni til þess, að svo hafi verið í útlöndum.

Utanríkisráðherra ruglar saman orsök og afleiðingu. Það eru ekki breytingar á stjórnarskrá, sem valda óstöðugleika og ringulreið, heldur eru það óstöðugleiki og ringulreið, sem valda því, að menn telja þurfa að breyta stjórnarskrá til að fækka ágreiningsefnum sínum.

Ennfremur virðist utanríkisráðherra halda uppi þeirri undarlegu kenningu viðskiptaráðherra, að fjögurra lögmanna nefnd, sem utanríkisráðherra skipaði að eigin geðþótta, sé eins konar stjórnarskrárdómstóll, sem hafi í eitt skipti fyrir öll afgreitt það mál.

Fjórmenningar utanríkisráðherra skipta ekki hætishót meira máli en aðrir lögmenn, sem hafa látið í ljósi andstæð sjónarmið. Enda voru rök fjórmenninganna ekki harðari en, að samningurinn fæli í sér lítið valdaafsal og ekki meira en hefðbundið væri orðið.

Það er hart aðgöngu, að léleg frammistaða stjórnmálamanna í fyrri málum skuli vera notuð til að rökstyðja, að þingmenn megi áfram framselja vald í samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Samkvæmt því má aldrei spyrna við fótum á óheillabrautinni.

Utanríkisráðherra vísaði til Sigurðar Líndal prófessors, sem heldur því fram, að búvörulög og fiskveiðistjórnunarlög og raunar mörg fleiri lög feli í sér valdaafsal Alþingis, sem sé stjórnarskrárbrot. En hann dregur einkennilega ályktun af skoðun Sigurðar Líndal.

Ef rökstuddar skoðanir eru meðal fræðimanna um, að stjórnarskráin sé kerfisbundið brotin í hverju stórmálinu á fætur öðru, eiga stjórnmálamenn að taka efnislega á málinu í eitt skipti fyrir öll og fá niðurstöðu um, hvort eigi að stöðva þá þróun og snúa henni við.

Utanríkisráðherra telur hins vegar, að ekki beri að taka mark á endurteknu þrasi og að beita megi hundalógík til að troða Evrópusamningnum upp á þjóðina.

Jónas Kristjánsson

DV

Seinfært reynslunám

Greinar

Verkstjórar stjórnarflokkanna á Alþingi hafa lært af reynslunni, þótt þeir hafi ekki viljað þiggja góð ráð á sínum tíma, þegar varað var í þessum dálki við aflsmunarstefnu í forsætisnefnd Alþingis. Þeir sjá nú, að stjórnarmeirihlutinn tapaði á þessari stefnu í fyrravetur.

Ef stjórnarandstaðan tekur ekki þátt í störfum forsætisnefndar, geta verkstjórar stjórnarflokkanna ekki notað nefndina til að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um tilhögun þingstarfa. Þeir verða því frekar en ella að sæta aðgerðum, sem tefja framgang stjórnarmála.

Þetta var einfalt og augljóst. En verkstjórar stjórnarflokkanna sáu það ekki. Þeir fluttu í staðinn lögskýringar um það eðli lýðræðis, að meirihlutinn ætti að ráða. Nú hafa þeir lært af reynslunni og vita, að diplómatískar aðferðir geta stundum verið heilladrýgri en þrjózkan.

Núna löngu síðar er gaman að lesa í blaðaviðtali við formann þingflokks Alþýðuflokksins, að ófremdarástand hafi ríkt á þinginu í fyrra í kjölfar deilnanna, sem þá stóðu um skipan forsætisnefndar þingsins. Hann telur, að nú verði stjórnarandstaðan ábyrgari.

Dipómatíukennslan á Alþingi er ekki hraðvirk, þótt verkstjórarnir hafi séð ljósið í vandræðamálum forsætisnefndar. Annar höfuðverkur þeirra hefur verið formennska í þeirri nefnd, sem nú á að fjalla um samninginn um þáttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu.

Formaður nefndarinnar hefur lengi verið Eyjólfur Konráð Jónsson, sem er svo vel metinn, að ekki var blakað við honum, þótt flokkur hans lenti um skeið í minnihluta á Alþingi. En Eyjólfur hefur efasemdir um Evrópska efnahagssvæðið og þykir fremur hættulegur.

Einn af grínþáttum síðustu vikna eru fundir forsætisráðherra með formanni utanríkisnefndar, þar sem reynt hefur verið að fá formanninn til að gefa vilyrði um ljúfa meðferð Evrópska efnahagssvæðisins í nefndinni, þrátt fyrir efasemdir formannsins um ýmis efnisatriði.

Greinilegt er, að formaðurinn hefur ekki viljað gefa yfirlýsingar, sem forsætisráðherra telur nægar í þessu viðkvæma máli. Þess vegna var formanninum fórnað. Ríkisstjórnin treysti honum ekki til að koma málinu heilu á húfi út úr nefndinni á tilsettum tíma.

Þetta mál er töluvert flóknara en forsætisnefndarmálið. Skiljanlegt er, að ríkisstjórnin vilji hafa sem bezt tök á mikilvægasta máli Alþingis. Það hlýtur að vera óþægilegt, að stjórnarþingmaður með sjálfstæðar skoðanir sé formaður í nefndinni, sem fjallar um þetta mál.

Í öllu kerfi þykir óþægilegt, að ekki sé hægt að reikna alla. Sjálfstæðar skoðanir eru ekki hátt skrifaðar í kerfi stjórnmálaflokka, hvort sem flokkurinn heitir eftir sjálfstæði eða einhverjum öðrum fagurgala, sem hafður er til skrauts á tyllidögum. Raunveruleikinn er annar.

Evrópska efnahagssvæðið er samt ekki mál, sem heppilegt er að keyra niður í kok á mönnum. Það er flókið og hefur framkallað efasemdir, sem ekki hefur tekizt að andmæla á fullnægjandi hátt. Ríkisstjórnin lemur það í gegn, en það verður á gallsúran hátt.

Sú aðgerð þingflokksins að reka Eyjólf Konráð Jónsson úr formennsku utanríkisnefndar er fyrsta skrefið í slagsmálum, sem munu sundra þjóðinni og eru algerlega á ábyrgð ríkisstjórnar, sem hefur bæði hafnað stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu.

Reynslunámið nær ekki svo langt, að ríkisstjórnin og verkstjórar hennar á þingi megni að gera þjóðina sæmilega sátta við Evrópska efnahagssvæðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Bush er búinn að vera

Greinar

Eftir fjögurra ára embættisferil George Bush Bandaríkjaforseta eru landsmenn hans loksins farnir að átta sig á því, sem fyrir löngu mátti ljóst vera, að hann er óhæfur til starfans. Þeir fella hann í skoðanakönnunum, hverri á fætur annarri, mánuð eftir mánuð.

Hrunið hófst í innanlandsmálum, þar sem Bush hefur gætt hagsmuna hinna ríku og sett kynórakarl í hæstarétt. Hann sagðist vera forseti menntamála og hefur svelt skólakerfið. Hann lýsti stríði gegn eiturlyfjum og hefur skorið niður útgjöld til slíkrar baráttu.

Þótt innri hrörnun Bandaríkjanna í forsetatíð hans sé landsmönnum hans efst í huga, þegar þeir hafna endurkjöri hans, eru þeir líka að byrja að sjá, að saga hans í eigin sérgrein, utanríkismálum, er ein samfelld harmsaga, sem ekki getur flokkast undir slysni.

Komið hefur í ljós, að Saddam Hussein var í náðinni hjá Bush fram undir innrásina í Kúvæt. Árið 1989 fékk hann sextíu milljarða króna lán á vegum Bandaríkjastjórnar til matvælakaupa. Á sama tíma lét leyniþjónustan Saddam Hussein hafa mikilvægar upplýsingar.

Ronald Reagan og George Bush áttu marktækan þátt í að framleiða skrímslið Saddam Hussein. Og þegar fjölþjóðaherinn hafði komið skrímslinu á hné í Persaflóastríðinu, gerði Bush heimsbyggðinni allri þá bölvun að stöðva stríðið og láta skrímslið sleppa með skrekkinn.

Bush lætur Kínastjórn njóta beztu viðskiptakjara, þótt sannað sé, að hún er með forhertustu stjórnvöldum heims og selur Bandaríkjunum vörur, sem framleiddar eru í þrælabúðum. Bush var einu sinni sendiherra í Kína og ímyndar sér ranglega, að hann skilji landið.

Sovétstefna Bush einkenndist fram í rauðan dauðann af stuðningi við kommúnistann og íhaldsmanninn Míkhaíl Gorbatsjov, sem var fylgislaus í heimalandi sínu, og hreinum dónaskap í garð umbótasinnans Borisar Jeltsín, sem hafði unnið sér almennt traust Rússa.

Á sama tíma barðist Bush gegn sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og gerði opinberlega grín að Íslandi fyrir að vera fyrst ríkja til að viðurkenna fullveldi Litháens. Almennt hefur sambandsríkismaðurinn Bush aldrei skilið þörf smáþjóða til að lifa í eigin smáríki.

Þetta endurspeglaðist í Júgóslavíu, þar sem Bush reyndi eftir megni að halda lífi í miðstjórn glæpamanna í Belgrað, löngu eftir að umheimurinn hafði snúið við henni bakinu. Afstaða Bush varð til þess, að stjórnin í Belgrað taldi sig mundu komast upp með óhæfuverk.

Kaldhæðnislegt er, að Bush hefur nú kallað heim hægri hönd sína í harmsögu utanríkismála og á hann að stjórna endurkjöri forsetans. Bjargvættur Bush á að vera James Baker utanríkisráðherra, sem lagði lóð sitt margoft á vogarskál Slobodans Milosevic í Belgrað.

Undir forustu Bakers, sem sá um fyrri forsetakosningarnar, einkenndist baráttan af hálfu Bush af neðanbeltishöggum og mannorðsþjófnaði. Bandaríkjamenn sáu ekki gegnum aðferðina á sínum tíma, en ólíklegt er, að sami óhroði Bakers dugi Bush til endurkjörs.

Hið eina jákvæða, sem situr eftir í minningunni um hrakfallasögu bandarískra utanríkismála í stjórnartíð George Bush, er, að hann er fyrsti forsetinn, sem þorir að láta af 100% stuðningi við Ísrael, ofbeldishneigt smáríki og friðarspilli fyrir botni Miðjarðarhafs.

Bandaríkjamenn eru rétt að byrja að átta sig á, að Bush er ekki skárri í utanríkismálum en í innanríkismálum. Er það gerist, á hann sér ekki viðreisnar von.

Jónas Kristjánsson

DV

Japl og jaml og fuður

Greinar

Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, hefur laukrétt fyrir sér, þegar hún segir, að siðlaust sé núverandi aðgerðaleysi Vesturlanda gegn ofbeldi Serba í Bosníu. Hún er Winston Churchill nútímans og gagnrýnir ráðamenn af tagi Neville Chamberlain.

Thatcher er um leið einkum að gagnrýna þá tvo vestrænu ráðamenn, sem mest hafa reynt að hindra aðgerðir gegn ofbeldi Serba. Það eru eftirmaður hennar, John Major, og George Bush Bandaríkjaforseti, sem báðir eru siðlausir samkvæmt skilgreiningu járnfrúarinnar.

Slíkir menn lítilla sanda og lítilla sæva í utanríkismálum hafa gert óvirkar ýmsar fjölþjóðlegar stofnanir, sem ættu að hafa harðari afskipti af ofbeldi Serba í Bosníu. Þessar stofnanir eru Sameinuðu þjóðirnar og öryggisráð þeirra, Atlantshafsbandalagið og Evrópusamfélagið.

Afskipti þessara fjölþjóðastofnana og ýmissa hjálparstofnana styðja raunar málstað Serba með því að taka á sínar herðar afleiðingarnar af þjóðahreinsuninni, sem þeir hafa verið að framkvæma með ótrúlegri villimennsku í Bosníu og framkvæma enn af fullum þunga.

John Major og George Bush eiga það sameiginlegt með Helmut Kohl Þýzkalandskanslara og Francois Mitterrand Frakklandsforseta að hafa sótzt eftir mannaforráðum í ríkjum, sem hafa tekizt á herðar að vilja ráða miklu um ferð Vesturlanda inn í óræða framtíð.

Bandaríkin hafa komizt upp með að ráða ferðinni í Atlantshafsbandalaginu. Bretland, Frakkland og Þýzkaland hafa komizt upp með að ráða ummyndun Evrópusamfélagsins í miðstýrt tollmúravirki. Þessu framtaki fylgir ábyrgð, einnig hernaðarleg ábyrgð.

Bush og Major, Kohl og Mitterrand axla ekki þessa ábyrgð, þegar þeir hafa forustu um orðaleiki í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og sjá um, að Atlantshafsbandalagið og Evrópusamfélagið haldi að sér höndum. Þeir eru arftakar Neville Chamberlain í nútímanum.

Ályktun öryggisráðsins um leyfi til beitingar hervalds í stuðningi við hjálparstarf er fremur ómerkileg og máttvana tilraun til að slá ryki í augu Vesturlandabúa og fá þá til að ímynda sér, að ráðamenn þeirra séu að gera eitthvað raunhæft í blóðbaðinu á Balkanskaga.

Margaret Thatcher er af öðru og sterkara bergi brotin. Hún veit, að 95% sakarinnar á blóðbaðinu hvíla á Serbum. Hún veit, að það verður að stöðva þá og snúa þeim til baka, svo að einstæð ósvífni þeirra verði ekki fordæmi í öðrum þjóðardeilum í Austur-Evrópu.

Nú horfa mál svo, að Serbar hafa náð feiknarlegum árangri, sem Vesturlönd munu festa í sessi með vopnahléssamningum og friðargæzlusveitum, svo sem dæmin sanna á Kýpur og í Króatíu. Þessi árangur verður öðrum ágengnisþjóðum og -þjóðarbrotum að fordæmi.

Ef raunverulegir leiðtogar á borð við Margaret Thatcher væru við völd í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi, væri búið að taka í taumana. Búið væri að sökkva herflota Serba, eyða herflugvöllum þeirra og herflugvélum og sprengja brýr þeirra.

Ef ekki væru aumingjar við völd í helztu ríkjum Vesturlanda, væri einnig búið að innsigla Serbíu á þann hátt, að þar lenti engin flugvél og þangað færi ekkert farartæki á landi, hvorki með vörur né fólk. Vestrænir flugherir sæju um, að einangrun Serbíu væri alger.

En því miður eru japl og jaml og fuður við völd í helztu forusturíkjum Vesturlanda. Hvergi er sjáanlegur neinn Churchill og hvergi nein Margaret Thatcher.

Jónas Kristjánsson

DV

Verndun sægreifa

Greinar

Þegar stjórnvöld ráðgera að verja 500 milljónum af almannafé til að bæta þorskveiðiskipum aflavonarmissi, er eðlilegt, að spurt sé, hvað hafi áður verið gert í hliðstæðum tilvikum; hvort fordæmi séu fyrir slíkri aðgerð eða hvort fordæmi séu fyrir, að ekkert sé gert.

Aflaheimildir hafa áður verið skertar á ýmsum sviðum og komið misjafnlega niður á skipum með misjafnar tegundir kvóta. Spyrja má, hvort þá hafi skaðinn komið niður á landshlutum, sem eru ekki eins mikið í náð kerfisins og þeir, sem nú bergmála hæsta kveinstafi.

Athyglisvert er, að þrýstingurinn, sem reyndist ríkisstjórninni óbærilegur, kom frá landshluta, sem þekktur er af svo mikilli fjarlægð frá atvinnuleysi, að flytja verður þangað fólk frá útlöndum til að kom í veg fyrir, að afli sæti skemmdum í frystihúsum vegna skorts á fólki.

500 milljón króna styrkurinn frá skattgreiðendum er ekki miðaður við atvinnuástand byggðarlaga, ekki miðaður við afkomu byggðarlaga og ekki miðaður við afkomu fyrirtækja í byggðarlögum. Hann er hreinn styrkur til þeirra sægreifa, sem hafa átt vænan þorskkvóta.

Eðlilegra hefði verið að nota tækifærið til að losna við kvótakerfið í heild með því að gera tvennt í senn, gefa krónugengið frjálst og koma á fót sölu veiðileyfa. En slíkt hafa sægreifarnir ekki mátt heyra nefnt, af því að þeir telja sig eina eiga auðlindir hafsins.

Í herferð stjórnvalda fyrir málstað óhóflegrar veiði er þjóðhagsstjóri leiddur fram og látinn vitna, að þjóðarbúskapurinn fái bara kvef af völdum aflavonarbrests, en ekki lungnabólgu eins og orðið hefði, ef farið hefði verið eftir “ýtrustu” tillögum fiskifræðinga.

Þegar þjóðhagsstjóri notar pólitíska lummu á borð við “ýtrustu”, er eðlilegt að spyrja, hvað þetta orð þýði í samhengi málsins. Ekki er vitað um aðrar tillögur fiskifræðinga en tvær. Önnur kom frá útlendum fræðingum, en hin kom frá innlendum og var sú töluvert vægari.

Ekki er vitað, að til umræðu hafi verið tillögur erlendra fræðimanna um enn minni þorskafla en hinir íslenzku lögðu til. Aðeins voru til umræðu vægustu tillögur fiskifræðinga, en ekki hinar “ýtrustu”. Þannig er innlegg þjóðhagsstjóra aðeins innantómt slagorð.

Af pólitískum afskiptum þjóðhagsstjóra má þó ráða, að aflavonarbresturinn nemi aðeins hálfu öðru prósenti af þjóðartekjum. Af því má ljóst vera, að oft og mörgum sinnum hafa meiri vandræði orðið í þjóðfélaginu, án þess að grátkórum sé úthlutað 500 milljónum króna.

Mikilvæg fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota hundruðum saman víða um land, án þess að stjórnvöld hafi lyft svo miklu sem litla fingri. Samanlögð upphæð þeirra gjaldþrota er margfalt hærri en þau gjaldþrot, sem hugsanlega gætu verið í augsýn hjá nokkrum sægreifum.

Verndun sægreifa felur um leið í sér, að stefnt er að framhaldi á því óeðlilega atvinnuástandi, að flytja verði útlendinga til fiskvinnslustarfa á Vestfjörðum til að forða afla undan skemmdum, á sama tíma og fiskvinnslufólki í öðrum landshlutum er sagt að fara heim.

Stöku sinnum verður vart óska, sem fela í sér, að sjávarútvegurinn verði gerður að stafkarli á borð við landbúnað. Hingað til hafa hliðarspor af því tagi ekki haft varanlegar afleiðingar. 500 milljón króna ölmusan er enn eitt sporið, sem ekki má hafa fordæmisgildi.

Miklu moldviðri hefur verið þyrlað upp til að gera ríkisstjórninni kleift að taka 500 milljónir af skattgreiðendum án þess að þeir sjái landslagið að baki kófinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Samsteypa í smásölu

Greinar

Neytendur urðu fyrir áfalli um helgina, þegar tilkynnt var, að Hagkaup snæddi Bónus með því að taka helmings eignarhluta í honum. Þar með eru yfir 30% íslenzka matvörumarkaðarins komin á eina hendi. Slíkt varðar við samkeppnislög í flestum nágrannalöndunum.

Rökstyðja má, að hagkvæmni sé fólgin í, að fyrirtæki stækki og geti komið sterkar fram gegn þeim aðilum, sem þau kaupa af. Þetta er sama röksemd og við höfum heyrt um önnur fyrirtæki, sem hér á landi hafa ráðandi markaðshlutdeild, er jaðrar við eða er hrein einokun.

Hitt er hrein markleysa, að samruni af þessu tagi sé æskilegur til að erlendir aðilar eignist ekki smásölu á Íslandi. Ekkert liggur fyrir um, að erlendir aðilar séu hættulegir á þessu sviði. Enda nýtur smásala sjálfvirkrar fjarlægðarverndar fyrir erlendri samkeppni.

Erlendis er talið og byggt á hagfræðilegum forsendum, að fyrirtæki verði hættuleg, þegar þau eru komin með 25% eða 30% markaðshlutdeild og eru langstærst á sínu sviði. Þar eru lög um hömlur á slíka stærð sett til að vernda neytendur og aðra viðskiptamenn.

Hin nýja samsteypa starfar á sviði, sem hingað til hefur einkennzt af miklum fjölda fyrirtækja með litla markaðshlutdeild. Nú er svo komið, að einn risi gnæfir hátt yfir alla hina og getur sett þeim stólinn fyrir dyrnar með margvíslegum hætti. Það sýna erlend fordæmi.

Hagkaup og Bónus hafa hingað til verið kunn að samkeppni, sem hefur leitt til lækkaðs vöruverðs og hagsbóta neytenda. Hér í blaðinu hefur verið fullyrt, að hvort þessara fyrirtækja um sig hafi gert launafólki í landinu meira gagn en stéttarfélögin hafa gert samanlagt.

Af forsögu fyrirtækjanna má ef til vill ráða, að málum verði hagað á þann hátt, að neytendur skaðist ekki af samsteypunni. En reynsla er í útlöndum fyrir því, að hagfræðileg náttúrulögmál taka oftast völdin af góðum vilja þeirra, sem ráða ferðinni í fyrirtækjunum.

Til langs tíma má líta á það sem náttúrulögmál, að neytendur og þar með þjóðin öll skaðist á ofurvaldi eins fyrirtækis eða einnar samsteypu á afmörkuðu sviði. Erlendis eru sett mörk til að takmarka þessa hættu og þá miðað við hlutfall, sem er 30% eða lægra.

Einokunarhættan gildir á Íslandi um flutninga á vörum og fólki á sjó og í lofti, um orkuöflun og -dreifingu, bifreiðaskoðun og sorphreinsun, svo að dæmi séu nefnd. Og auðvitað gildir þetta almennt um þjónustufyrirtæki og -stofnanir, sem starfa innan ríkisgeirans.

Eina mynd þessarar hættu sjáum við, þegar risafyrirtæki á borð við Flugleiðir og Eimskip seilast til áhrifa á skyldum sviðum í kringum sig. Flugleiðir hafa gerzt ferðaskrifstofa, bílaleiga og hótelkeðja í krafti ofurvalds síns á markaðinum og ryðja öðrum aðilum út í horn.

Ekki þarf að hafa neinar efasemdir um góðan ásetning þeirra, sem ákváðu að búa til samsteypu úr Hagkaupi og Bónusi, þótt látið sé í ljósi, að reynslan af náttúrulögmálum hagfræðinnar valdi því, að full ástæða sé til að hafa áhyggjur um frekari þróun málsins.

Ef samsteypan verður til þess, að Alþingi mannar sig upp í að setja lög, sem eru hliðstæð þeim lögum í útlöndum, er banna ráðandi markaðshlutdeild einnar samsteypu, má þó segja, að fátt sé svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Og þetta er það, sem nú þarf að gera.

Aðild okkar að fjölþjóðlegum efnahags- og viðskiptastofnunum leiðir vonandi til þess, að við neyðumst til að feta í spor annarra á þessu mikilvæga sviði.

Jónas Kristjánsson

DV

Töfrabúgreinar?

Greinar

Aukin ferðaþjónusta bænda og aukin hrossarækt þeirra er ekki lausn á samdrætti hefðbundins landbúnaðar í sauðfé og nautgripum. Ferðaþjónusta og hrossarækt eru sérhæfðar og þegar ofsetnar atvinnugreinar, sem ekki búa yfir markaði handa mörgum nýliðum.

Á sínum tíma sá kerfið lausn í loðdýrarækt og jafnvel fiskeldi. Strax í upphafi bentu utankerfismenn á, að slíkir draumórar mundu ekki rætast. Reynslan af loðdýrarækt og fiskeldi ætti að kenna mönnum að varast óra kerfisins um gróða af ferðaþjónustu og hrossarækt.

Ekki þarf mikinn hagfræðing til að reikna, að tekjur ferðabænda geta ekki staðið undir miklum stofnkostnaði við búháttabreytingu. Varhugavert er að hvetja bændur til nýsmíða og annarra viðamikilla útgjalda í von um, að ferðamenn komi síðan nánast á færibandi.

Ferðaþjónusta getur orðið arðbær hjá fólki, sem hefur í fyrsta lagi sérstakar aðstæður til að bjóða ferðafólki, svo sem veiði, golf eða útreiðatúra. Í öðru lagi laust húsnæði, sem ekki kostar mikið að breyta. Í þriðja lagi þekkingu og innsæi í umgengni við ferðafólk.

Ef öllum þessum þremur skilyrðum er fullnægt, er auðvitað til mikilla bóta, að vera þegar búinn að starfa í greininni um nokkurn tíma og ná þannig niður stofnkostnaði og öðrum útgjöldum, sem fylgja fljótlega á eftir án þess að miklar ferðaþjónustutekjur komi á móti.

Margir ferðabændur hafa byggt þjónustuna upp með því að hafa öll skilyrði í lagi og með því að taka öll laun sín af öðrum búgreinum á uppbyggingartímanum. Þótt sumum þeirra vegni sæmilega að þessu loknu, er ekki unnt að reikna með, að nýliðum í greininni vegni vel.

Svipaðar reglur gilda um hrossaræktina. Bændur á því sviði þurfa þekkingu og innsæi; þeir þurfa að búa við hagstæð skilyrði í húsum og búnaði, þannig að stofnkostnaður sé að mestu afskrifaður; og þeir þurfa að byggja á traustum ræktunarmerg kynslóðanna.

Sumir hrossabændur geta lifað af starfi sínu og sömuleiðis nokkur fjöldi tamningamanna og þjálfara, svo og ekki sízt örfáir sölumenn, sem finna markað fyrir reiðhross hér heima eða í útlöndum. Þessi markaður hefur vaxið ágætlega, en tekur engum stökkbreytingum.

Í báðum þessum greinum getur fólki vegnað sæmilega við þau skilyrði, sem ríkt hafa undanfarin ár, er markaður hefur vaxið jafnt og þétt. Farsælast er, að byggt verði sem mest á þeim grunni, sem þegar er fenginn, en ekki sé verið að ýta óreyndu fólki á flot.

Greinar af þessu tagi eru háðar sveiflum, sem oft fylgja frjálsum markaði. Tímabundinn samdráttur getur riðið skuldsettum nýliðum að fullu, þótt hinir lifi af, sem eru búnir að koma sér fyrir. Þess vegna á kerfið að fara varlega í að ýta fólki í ferðaþjónustu og hrossarækt.

Reynsla Íslendinga og annarra segir, að bezt sé, að atvinnugreinar þróist og dafni að innan, en ekki með handafli hins opinbera, þar sem menn eru reiðubúnir að taka trú á hverja nýja töfragreinina á fætur annarri. Þetta gildir víðar en í landbúnaði einum.

Ánægjulegt er, að ferðaþjónusta og hrossarækt skuli hafa fest rætur í þjóðfélaginu og geta veitt fólki tekjur, sem það stendur sjálft undir, en ekki skattgreiðendur landsins. En jafnframt er skynsamlegt, að hinir hæfustu fái að vera í friði við að byggja upp þessar greinar.

Offramboð af hálfu nýliða, sem vanir eru sjálfvirkri afsetningu mjólkur og kjöts, verður aðeins til þess, að botninn dettur úr markaðinum og allir verða fyrir tjóni.

Jónas Kristjánsson

DV

Snaróðir Serbar

Greinar

Serbar haga sér verr í Bosníu en Þjóðverjar og Japanir gerðu í hernumdu löndunum í síðari heimsstyrjöldinni. Í skjóli Serbíuhers hreinsa þeir þúsundir bæja og þorpa með því að reka íbúa þeirra á brott, samtals hálfa aðra milljón manns á mjög skömmum tíma.

Þúsundum saman haga Serbar sér eins og brjálæðingar. Þeir setja upp fangabúðir, þar sem óbreyttum borgurum er hrúgað saman og látnir svelta heilu hungri, meðan drukknir varðmenn skemmta sér við að skjóta þá. Þarna er ekki Slobodan Milosevic einn að verki.

Hjá Serbum sameinast þrennt; sagnfræðileg sálarkreppa; meira eða minna stjórnlaus hernaðarforusta og kommúnismi í stjórnarfari. Niðurstaðan er þjóðarbrjálæði, sem ekki lagast, þótt hrakinn verði frá völdum hinn versti meðal jafningja, Slobodan Milosevic.

Prófessorar og menntaðir menn eru meðal annarra í forustu fyrir þessu villidýraliði, sem fer eins og logi yfir akur og eirir engu, hvorki börnum né heimssögulegum listaverkum. Serbar eru sem þjóð og einstaklingar hinn stóri svarti blettur á Evrópu nútímans.

Á sama hátt og Ísraelsmenn virðast Serbar telja, að hremmingar, sem forfeður þeirra urðu fyrir hálfri öld, afsaki á einhvern hátt grimmdar- og fólskuverk þeirra í nútímanum. Þetta sagnfræðilega brjálæði heldur þó Serbum í mun harðari helgreipum en Ísraelsmönnum.

Vesturlöndum ber að beita Serba miklu harðari tökum, þótt ekki sé ráðlegt að fara í stríð á landi við óða menn. En þau geta tekið öll ráð í lofti og á sjó með flugherjum sínum og flotum án þess að leggja sína menn í mikla lífshættu. Einangra þarf Serba algerlega.

Með öflugum aðgerðum í lofti og á sjó, svo og traustu eftirliti á landamærum Serbíu er unnt að koma í veg fyrir, að þeir fái olíu og aðrar nauðsynjar til óhæfuverka sinna. Setja þarf algert og óhikað bann á alla vöruflutninga til og frá Serbíu og hernumdu svæðunum.

Einnig kemur sterklega til greina, að nokkur vestræn ríki taki sig saman um að sprengja í loft upp hernaðarlega mikilvæga staði í Serbíu til að gefa forustumönnum brjálseminnar að smakka á eigin lyfjum. Evrópa hefur nefnilega ekki efni á, að Serbar vinni stríð sitt.

Ef Serbum tekst að hreinsa stór svæði í nágrannaríkjunum til að rýma fyrir sér, mun það hafa geigvænleg áhrif á þjóðrembinga í öðrum ríkjum, þar sem minnihlutahópar búa öfugum megin landamæra. Sérstaklega er þetta hættulegt í Samveldi sjálfstæðra ríkja.

Þar er víða hætt við, að hinir sterkari aðilar á hverjum stað fari að fordæmi Serba og hefji blóðuga útrýmingu í trausti þess, að Vesturlönd séu svo lömuð, að þau geti ekkert gert af viti í málinu. Þá er skammt í nýja vargöld á borð við síðari heimsstyrjöldina.

Vesturlönd hafa komið sér upp mörgum og dýrum stofnunum á borð við Atlantshafsbandalagið, Vestur- Evrópusambandið, Evrópusamfélagið og Öryggisráðstefnu Evrópu, sem allar eiga það sameiginlegt að umgangast vitfirringu Serba með fumi og fálmi.

Einu samtökin, sem hafa marktæk afskipti af málunum, eru Sameinuðu þjóðirnar, sem hafa fámennt gæzlulið í Sarajevo án þess að hafa ráð á því. Öryggisráð þeirra er eina stofnunin, sem reynt hefur af viti að ná samstöðu um refsiaðgerðir umheimsins gegn Serbíu.

Serbar fást ekki niður á jörðina með samningaþófi, ekki frekar en Saddam Hussein. Eina leiðin til að tjónka við þá er að beita efldum refsingum og hreinu valdi.

Jónas Kristjánsson

DV

Hátíð orgs og ælu

Greinar

Svo virðist sem eins konar manndómspróf að hætti náttúruþjóða fari fram á útihátíðum verzlunarmannahelgar. Þar gengur ungt fólk gegnum hreinsunareld, með tilheyrandi þjáningum, sem virðast vera taldar nauðsynlegur þáttur í æviskeiði Íslendings.

Sumir skríða um í spýju sinni og fleiri láta sér nægja hefðbundna timburmenn að þjóðlegum hætti. Þeir, sem hvorugu sinna, verða samt að þjást af meðvitundinni um ælandi og organdi umhverfi sitt, og borga sem svarar heildarverði helgarferðar til erlendrar heimsborgar.

Hátíðir af þessu tagi þekkjast lítið með öðrum þjóðum, þótt þær hafi auðvitað einhver önnur sérkenni í staðinn. Margt er það, sem greinir íslenzkar útihátíðir frá erlendum, en einkum er það ótæpileg neyzla eiturefna á borð við áfengi, sem sker í augu áhorfenda.

Íslenzkar útihátíðir eru orðnar nógu þekktar í útlöndum til að seiða til sín sveit brezkra útvarpsmanna, sem verða að sæta þeim takmörkunum að geta aðeins tekið upp orgið, en ekki sýnt spýjuna. Næsta skref verður að selja útlendingum aðgang að hinni súru og beizku gleði.

Erlendis er til siðs við neyzlu áfengis, að menn reyna að halda haus og hafa vald á hreyfingum sínum og framburði. Hér er hins vegar komin hefð á, að drukkið fólk megi og eigi að slangra um meira eða minna máttlaust og hafa uppi óskiljanlegt muldur, org og vein.

Útihátíðirnar eru partur af þeirri íslenzku hefð að nota svo mikið magn eiturefna á svo stuttum tíma, að menn umhverfist fyrst, missi síðan ráð og rænu og endi í sársaukafullum eftirköstum. Þetta sjá löggæzlumenn og sjúkraliðar um hverja einustu helgi ársins.

Áður voru hvítasunnur helztu hátíðir þessarar hefðar, en hin síðari ár hefur hápunkturinn færst yfir á verzlunarmannahelgar, sem soga ungt fólk þúsundum saman á afmörkuð drykkjusvæði til sveita. Nú er ein slík blessunarlega afstaðin, tiltölulega slysalítil.

Eitthvað er það í íslenzkri þjóðarsál, sem kallar á þátttöku í þjáningum verzlunarmannahelgarinnar. Ef til vill eru ungir Íslendingar svo miklu lokaðri en ungt fólk í öðrum löndum, að þeir þurfi á útrásum af þessu tagi að halda til að halda sönsum afganginn af árinu.

Augljóst er, að grófir drykkjusiðir Íslendinga eru þáttur í þessu. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sýna fordæmi með því að koma áberandi ölvaðir fram í sjónvarpi. Hversdagslegt, fullorðið fólk fylgir á eftir með drykkjuólátum á heimilum sínum og hvað annars.

Ísland er brennimerkt fylliríi. Víman er svo mikill þáttur þjóðlífsins, að hún hefur áhrif á stjórn landsins, stjórn fyrirtækja og stjórn heimila. Hvarvetna má sjá, að fólk hefur misst þessa stjórnartauma úr höndum sér vegna ótæpilegrar notkunar vímuefna, einkum áfengis.

Langsiðaðar þjóðir í sunnanverðri Evrópu haga sér ekki svona, þótt vín sé þar víðast hvar innan seilingar. Við erum skammsiðaðir í samanburði við þær, þótt við séum ekki eins nýir í siðmenningunni og til dæmis Grænlendingar, sem hafa enn stærri áfengisvandamál.

Hér á landi skortir almenningsálit, sem lítur niður á draf og slangur, org og ælu, skemmdarverk og barsmíðar, svo og aðra fylgifiska mikillar og hraðrar notkunar eiturefna. Sumar útihátíðir verzlunarmannahelgarinnar sýna í hnotskurn þessa vöntun í þjóðarsálina.

Hér skortir almenningsálit, fyrirmyndir og uppeldi, sem fælir ungt fólk frá auðséðum þjáningum útihátíðanna og beinir orku þess inn á gleðilegri brautir.

Jónas Kristjánsson

DV

Sýnd veiði, ekki gefin

Greinar

Reynslan sýnir, að lítið hald er í tillögum Alþýðuflokksins um minni útgjöld skattgreiðenda til hefðbundins landbúnaðar. Slíkar tillögur hafa aldrei náð fram að ganga. Því er rétt að taka með varúð fréttum um, að flokkurinn vilji nú tveggja milljarða niðurskurð.

Útgjöld skattgreiðenda til landbúnaðar munu á þessu ári nema rúmlega níu milljörðum króna, þegar búið er að draga frá landgræðslu og menntamál af ýmsu tagi. Þetta eru rúmlega 8% fjárlaga ársins, miklu hærra hlutfall en vestræn ríki verja til hernaðarmála.

Þessir níu milljarðar skiptast í grófum dráttum þannig, að 4745 milljónir fara í niðurgreiðslur, 2787 milljónir í útflutningsuppbætur, 1050 í ýmsa beina styrki og 479 milljónir í ýmsa opinbera þjónustu, sem er hliðstæð þeirri, er aðrir atvinnuvegir verða sjálfir að borga.

Fyrir utan níu milljarðana fara svo 800 milljónir til annarra þarfa landbúnaðarins, sem telja má eðlilegar eða að minnsta kosti ekki umfram það, sem aðrir atvinnuvegir fá hjá skattgreiðendum. Samtals nálgast landbúnaðurinn að vera tíundi hluti fjárlaga.

Níu milljarðarnir nema um 150 þúsund krónum árlega á hverja fjögurra manna fjölskyldu skattgreiðenda. Það er margfalt hærri tala en þekkist í öðrum löndum, sem þó eru fræg af miklum stuðningi við landbúnað, svo sem Norðurlönd og ríki Evrópusamfélagsins.

Fyrir utan níu milljarðana er svo kostnaður neytenda af háu matarverði, af því að þeir hafa takmarkaðan aðgang að innfluttri búvöru. Ýmsir hagfræðingar hafa reynt að meta þetta tjón og hafa komizt að tiltölulega líkum niðurstöðum, sem nema um tólf milljörðum á ári.

Ef menn vilja hugsa, má þeim vera ljóst, að margt mætti færa til betri vegar í þjóðfélaginu, ef þessir fjármunir nýttust til að bæta lífskjör þjóðarinnar og hag atvinnuveganna, jafnvel þótt bændur yrðu settir á föst laun hjá ríkinu til að hlífa þeim fjárhagslega.

Ekki þarf nema fjóra milljarða á ári á móti þessum níu plús tólf milljörðum til að senda 4000 bændum eina milljón á ári hverjum fyrir sig. Samt væri afgangs til annarrar ráðstöfunar meirihluti þess fjár, sem sparaðist af brottfalli ríkisafskipta af landbúnaði.

Þrátt fyrir aðild Alþýðuflokksins að ríkisstjórninni, hafa útgjöld okkar til hefðbundins landbúnaðar aukizt verulega á þessu ári, hvort sem reiknað er í beinum krónum eða hlutfalli af ríkisútgjöldum. Flokkurinn hefur ekki fylgt eftir kröfum sínum í ríkisstjórninni.

Af fenginni reynslu er eðlilegt að telja sýndarmennsku felast í tillögum Alþýðuflokksins um tveggja milljarða niðurskurð, unz annað kann að koma í ljós. Hingað til hefur ást tveggja Jóna á ráðherrastólum komið í veg fyrir, að flokkurinn léti reyna á þetta.

Ekki má heldur gleyma, að þingmenn Alþýðuflokksins hafa misjafna afstöðu til málsins. Einn afturhaldssamasti hagsmunagæzlumaður hins hefðbundna landbúnaðar er einmitt þingmaður Alþýðuflokksins á Austfjörðum, harðari en þingmenn Framsóknarflokksins.

Framsóknarflokkurinn er að því leyti betri en Alþýðuflokkurinn, að menn vita, hvar þeir hafa hann. Alþýðuflokkurinn gerir hins vegar tilraunir til að villa um fyrir fólki og láta líta út fyrir, að hann vilji létta landbúnaðinum af herðum skattgreiðenda og neytenda.

Tillögum Alþýðuflokks um lítils háttar niðurskurð á botnlausu rugli landbúnaðarútgjalda er rétt að taka með hæfilegum efasemdum um raunverulegan vilja að baki.

Jónas Kristjánsson

DV

Suðvestanátt óskast

Greinar

Grínistar fara á kostum þessa dagana í gervi fræðimanna. Veðurfræðingur telur, að aukin suðvestanátt hafi meiri áhrif á nýliðun þorsks en stærð hrygningarstofnsins hafi. Annar telur, að Skeiðarárhlaup í byrjun árs skipti meira máli en stærð hrygningarstofnsins.

Erfitt verður að framfylgja þessum upplýsingum, þótt þær kunni í sjálfu sér að vera réttar. Stjórnmálamenn gætu í bjartsýni talið sér trú um, að bjarga megi þorskstofninum í vetur með vænni kjarnasprengingu í Vatnajökli, en torveldara verður að stjórna vindum.

Þeir, sem setja fram kenningar af þessu tagi, eru ekki að biðja um að vera teknir alvarlega. Kenningar þeirra styðja þó það margendurtekna sjónarmið, að stærðfræðilíkön fiskifræðinga spanni ekki yfir mjög stóran hluta dæmisins, sem þeim er ætlað að leysa.

Hvert lóð á þessa vogarskál styður allt aðra röksemd en þá, sem beitt er af hálfu grínista í gervi fræðimanna og einnota stjórnmálamanna, sem þora ekki að horfast í augu við vandann. Ónákvæmni fiskifræðinnar er ekki röksemd með auknum aflaheimildum, heldur skertum.

Því minna öryggi sem er í reiknilíkönum fiskifræðinga, því varlegar verður að fara í aflaheimildir. Því víðari sem skekkjumörkin eru í reikningunum, þeim mun minna getur komið úr úr dæminu, ekki 175 eða 150 þúsund tonn af þorski, heldur enn minna.

Ef líkur á suðvestlægri vindátt og vetrarhlaupi í Skeiðará væru teknar inn í reiknilíkönin, kæmi ekki út hærri niðurstaða, heldur lægri. Óvissan verður meiri, skekkjumörkin víðari, öryggisfrádrátturinn hærri, og niðurstaðan innan við 100 þúsund tonn.

Þeir, sem mest flagga kenningum um, að fiskifræðin sé léleg, fiskifræðingar lélegir og reikningsaðferðir þeirra lélegar, átta sig ekki á, að allar þessar röksemdir leiða til þeirrar niðurstöðu, að þjóðin hafi ekki ráð á að veiða eins mikið og fiskifræðingarnir leggja til.

Sárt er að skera niður tekjumöguleika og auka líkur á harmleikjum í atvinnulífinu. Slíkt er þó skárri kostur en að spilla möguleikum þjóðarinnar til lífsviðurværis í nálægri og fjarlægri framtíð. Þjóðin hefur ekki efni á að leyfa sér að lifa bara í deginum í dag.

Ein mynd íslenzkrar óskhyggju er, að hugsanleg skekkja hljóti að vera í þá átt, sem dreymandinn vill, að hún verði. Þetta sameinar einnota ráðherra, hagsmunagæzlumenn af Vestfjörðum og grínista í gervi vísindamanna. Því tala menn um 190 eða 230 þúsund tonn.

Deilurnar um, hvort réttara sé að veiða 190 eða 230 þúsund tonn af þorski á næsta ári, fjalla um misjafna ofveiði. Á grundvelli takmarkaðra upplýsinga mæltu fiskifræðingar með 150 og 175 þúsund tonnum. Af öryggisástæðum er rétt að fara nokkuð niður úr þeim tölum.

Ef þjóðin vildi horfast í augu við vanda sinn, mundi hún ekki leyfa meiri veiði en 100 þúsund tonn til að taka sem minnsta áhættu af hugsanlegu hruni helztu auðlindar sinnar. Í stað þess er hún að tala um 190 eða 230 þúsund tonna þorskafla í rússneskri rúlettu.

Kjörorð óskhyggjumannsins er: “Það lafir meðan ég lifi”. Þetta kjörorð er að baki umræðunnar um, að ekki sé fullt mark á fiskifræðingum takandi og að rétt sé að leyfa nógu mikinn afla til að ekki þurfi að taka á öðrum vandamálum í þjóðfélaginu, svo sem smábyggðaröskun.

Eðlilegt er, að óskhyggjumenn snúi sér nú til veðurfræðings síns og biðji hann um að útvega suðvestanátt, svo að hringekja óskhyggjunnar geti snúizt áfram.

Jónas Kristjánsson

DV

Of mörg þorsktonn

Greinar

Þeir, sem vilja leyfa meiri þorskveiði en Hafrannsóknastofnunin mælir með, beita einkum tveimur röksemdum fyrir máli sínu. Þeir segja, að fiskifræði sé of ung fræðigrein og ónákvæm. Og þeir segja, að þjóðin hafi ekki ráð á að fara eftir tillögum stofnunarinnar.

Í þessum hópi fara fremstir forsætisráðherra, hagsmunagæzlumenn Vestfjarða á Alþingi og í ríkisstjórn, svo og forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins, sem er skipstjóri á Vestfjörðum. Þetta eru landsþekktir ábyrgðarleysingjar, sem taka verður með fullri varúð.

Kenningin um, að fiskifræði sé ung fræðigrein, sem hafi stundum spáð rangt eða ónákvæmt að undanförnu, leiðir ekki til þeirrar niðurstöðu, að óhætt sé að veiða meira en Hafrannsóknastofnunin mælir með. Rökrétta niðurstaðan á að vera þveröfug, að veiða skuli minna.

Ef spár Hafrannsóknastofnunar eru með víðum skekkjumörkum, er rangt að gera ráð fyrir, að skekkjan sé í þá átt, að óhætt sé að veiða meira en hún mælir með. Helmings líkur eru á, að skekkjan sé í hina áttina, að ekki sé óhætt að veiða eins mikið og hún mælir með.

Því meira sem menn gera úr meintri ónákvæmni Hafrannsóknastofnunar, þeim mun fleiri tonn af þorski verða þeir að draga frá niðurstöðu hennar til að vera innan við öryggismörk þess, að stofninn hrynji ekki. Slík öryggismörk eru talin sjálfsögð í rekstrarfræðum.

Síðari röksemdin er ný útgáfa af gamalli óskhyggju formanns Framsóknarflokksins, sem sagðist einu sinni vilja gera greinarmun á því, sem þorskurinn þolir, og því, sem þjóðin þolir. Efnislega var hann að segja, að þjóðin hefði ekki efni á að neita sér um óhóflegan afla.

Þessi röksemd stenzt ekki frekar en hin fyrri. Ef þjóðin telur sig ekki hafa ráð á að fara eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar, mun hún á mjög fáum árum verða að sæta náttúrulegum samdrætti, sem er meiri en sá, sem hún þorði upphaflega ekki að horfast í augu við.

Á íslenzku heitir þetta, að forsætisráðherra og hagsmunagæzlumenn Vestfjarða vilji pissa í skóinn sinn. Þeir vilja draga úr stundarþjáningum með því að skera niður stofninn, sem á að standa undir aflabrögðum næstu ára. Þetta er ekki ábyrg afstaða, hvorki fyrr né nú.

Við vorum árum saman svo lánsöm sem þjóð að hafa sjávarútvegsráðherra, sem neitaði að fara eftir rökleysum á borð við þær, sem forsætisráðherra flaggar um þessar mundir. Halldór Ásgrímsson neitaði alveg að bera ábyrgð á, að þjóðin æti útsæði auðlindarinnar.

Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur fetað slóð fyrirrennara síns. Þorsteinn Pálsson hyggst beita af ábyrgð því valdi, sem hann hefur samkvæmt stjórnarskránni, til að ráða niðurstöðunni, þótt hann vilji fyrst hlusta á aðra, alveg eins og fyrirrennari hans gerði.

Sjávarútvegsráðherra er studdur af heildarsamtökum útgerðar, af því að þar sjá menn, að hagsmunir útgerðarinnar eru ekki bara til eins árs, heldur inn í framtíðina alla. Hann er einnig studdur af fyrirennara sínum og öllum þeim, sem vilja ábyrga meðferð málsins.

Rök hinna ábyrgu hvíla á sömu forsendum og rök hinna ábyrgðarlausu, þótt niðurstaðan sé öfug: Þjóðin hefur ekki efnahagslega ráð á öðru en að fara eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar. Og séu skekkjumörkin víð, þarf að fara niður úr þessum tillögum, en ekki upp.

Vonandi er sjávarútvegsráðherra orðinn svo lífsreyndur, að hann taki minna mark á einnota forsætisráðherra en spakmælinu um orðstírinn, sem aldrei deyr.

Jónas Kristjánsson

DV