Greinar

Stálu kosningum

Greinar

Stálu kosningum

Gistivinum Davíðs Oddssonar í Úkraínu virðist hafa tekizt að stela forsetakosningunum þar í landi. Viktor Janukovits forsætisráðherra hefur verið tilkynntur sigurvegari, þótt útgönguspár og allar erlendar eftirlitsstofnanir telji, að hann hafi fengið 35-40% atkvæða, en keppinauturinn 60-65%.

Um þetta eru nánast allir sammála, jafnt Evrópusambandið sem Bandaríkin. Á öðru máli eru aðeins leifar Sovétríkjanna, einkum Vladimír Pútín, einræðisherra Rússlands, og Alexander Lukashenko, einræðisherra Hvíta-Rússlands, sem eru að reyna að varðveita leifar hins gamla þjóðskipulags Sovétríkjanna.

Því miður er lítið hægt að gera í málinu. Bandaríkin eru meira en upptekin af árásinni á Írak og Evrópusambandið er ekki orðið herveldi. Meirihluti kjósenda í Úkraínu hefur því ekki erlendan stuðning gegn glæpahyskinu, sem ræktað hefur vinur Davíðs, Leoníd Kuchma, fráfarandi forseti landsins.

Í leifum Sovétríkjanna í Evrópu er alls staðar stjórnað með glæpum, þar á meðal morðum. Kuchma hefur látið skera á háls þá blaðamenn, sem hann telur ekki vera halla undir sig. Fjölmiðlungar í Úkraínu eru þjónar forsetans, rétt eins og Davíð og menn hans vilja, að þeir hagi sér hér á landi.

Þótt Úkraína sé í Evrópu, hefur ekki verið neinn pólitískur vilji í álfunni til að viðurkenna hana sem slíka. Í stað þess að einangra glæpalýðinn, sem stjórnar landinu, hafa einstaka ráðamenn verið að læðast í Kænugarð til að gefa morðingjunum gæðastimpil, þar á meðal okkar eigin Oddsson.

Svíþjóð, Eystrasaltsríkin og nokkur önnur ríki Mið-Evrópu hafa reynt að reka áróður innan Evrópusambandsins fyrir því, að dinglað sé freistingu aðildar framan í mafíósa Úkraínu. Það hefur ekki tekizt. Evrópusambandið hefur nóg með að gleypa Mið-Evrópu og getur ekki meira að svo komnu máli.

Svo virðist sem ráðamenn Vesturlanda standi rétt að máli Úkraínu. Þeir neita að viðurkenna úrslitin, en hóta ekki neinu, sem þeir geta ekki staðið við eða vilja ekki standa við. Heimspólitíkin er í þeirri stöðu, að hún vinnur gegn því, að meirihluti Úkraínumanna fái vestrænt stjórnarfar.

Sigurvegarinn er Vladimír Pútín, sem hefur endurreist einræði í Rússlandi, tryggt undirgefni nágrannaríkjanna og flutt vinnubrögð rússnesku mafíunnar ekki bara til Úkraínu og Hvíta-Rússlands, heldur einnig til Rúmeníu og Búlgaríu, þar sem rússneskir dólgar ráða ferðinni í atvinnulífinu.

Ekki verður gaman, þegar Leoníd Kuchma og Viktor Janukovits í Kænugarði byrja að krefjast þess að fá að endurgjalda heimsókn Davíðs Oddssonar og fríðs föruneytis til Úkraínu.

Jonas Kristjansson

DV

Gegnsætt fé og frítt

Greinar

Engan vanda leysir að fela ríkisendurskoðanda að fylgjast með fjárreiðum stjórnmálaflokka. Ríkisendurskoðandi er ekki umboðsmaður kjósenda og nýtur ekki trausts þeirra. Kjósendur eru litlu nær, þótt embættismaður kerfisins stimpli á bókhald flokka og segi ekkert vera athugavert við það.

Munurinn á bananalýðveldinu Íslandi og alvöruríkjum beggja vegna Atlantshafsins er ekki sá, að trúnaðarmaður kerfisins sjái þar gögn, en ekki hér. Munurinn er ekki sá, að þar séu greiðslur bannaðar, en ekki hér. Munurinn er ekki sá, að þar séu sett einhver mörk á fjárhæðir, en ekki hér.

Gegnsæið er það, sem skiptir máli. Það, sem vantar hér á landi, er, að fólk fái sjálft að vita, hvernig pólitísk öfl eru fjármögnuð. Menn eru ekki að biðja um bönn við slíkum greiðslum eða takmarkanir á upphæðum, heldur að fá að vita um þessa hluti eins og þeir vita um annað í gangverkinu.

Þekkingin veitir frelsið, ekki takmarkanir, bönn eða makk milli ríkisendurskoðanda og atvinnurekenda hans. Það nægir í flestum tilvikum, að greiðslukerfið sé gegnsætt. Þá er ekki aðeins talað um flutning fjármagns, heldur einnig flutning reikninga, þegar fyrirtæki borga útgjöld fyrir stjórnmálin.

Við erum að tala um launagreiðslur starfsmanna og greiðslur fyrir húsnæði og þjónustu á borð við síma. Við erum að tala um þá miklu samfléttingu efnahagslegra hagsmuna, sem eru undirstaða tilveru tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Við viljum vita, hver á þessa flokka.

Við erum orðin þreytt á yfirlýsingum erindreka um, að þeirra fyrirtæki hafi gefið smáflokkum smáupphæð, en stórum flokkum ekkert. Við vitum, að þetta er lygi. Við vitum nú þegar, að margar milljónir hafa runnið frá olíufélögunum til tveggja stjórnmálaafla, sem stóðu fyrir fáokun á benzínverzlun.

Annars staðar taka menn svona hluti alvarlega. Í Þýzkalandi féll trausti rúinn Helmut Kohl, því að hann brá huliðshjálmi yfir greiðslur til flokks síns. Þar í landi gilda lög um gegnsæi í fjárreiðum stjórnmálaflokka. Ísland er raunar eina ríkið, þar sem bananaflokkum hefur tekizt að hindra gegnsæi.

Tillaga viðskiptaráðherra um að fela ríkisendurskoðanda að skoða málið er marklaus með öllu. Hún felur í sér tilraun til að varpa huliðshjálmi yfir upplýsingar, sem fólkið í landinu á skilið að fá sjálft að vita um. Hún er enn ein sjónhverfingin, sem kjósendur þurfa að þola í þessu landi.

Ekki er heldur verið að biðja um birtingu upphæða ofan við hálfa milljón. Það er verið að tala um, að allar fjárreiður stjórnmálanna í fé og fríðu verði gerðar öllum heyrinkunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hamingjan sem hvarf

Greinar

Fyrir tæplega hálfri öld sátu kaupsýslumenn í hádeginu á Grilli, Holti eða Nausti og létu færa sér séreldaðan mat. Sumir voru þar í hverju hádegi. Nú standa þeir í biðröð á Vox til að sækja sér forunnin mat. Í mesta lagi einu sinni í viku. Það eru því ekki kaupsýslumennirnir, sem hafa grætt.

Fyrir tæplega hálfri öld fór venjulegt fólk í skóla eða á sjúkrahús án þess að borga krónu. Úrvalið var að vísu minna en núna, en allir vissu, að þeir fengju beztu þjónustu, sem völ var á. Og unga fólkið var sannfært um, að það fengi góða vinnu að loknu nokkurn veginn sama hverju námi sem var.

Lífið var einfaldara fyrir tæplega hálfri öld. Fólk var bjartsýnt. Það hafði trú á framtíð sína og vissi, að kerfi velferðar mundi hjálpa því, ef illa færi. Veikt fólk fengi sín lyf og sína lækningu án þess að borga neitt. Þannig var velferð fátækrar þjóðar orðin góð fyrir tæpleg hálfri öld.

Síðan hefur gengið á ýmsu, en flest ár hefur verið aukinn hagvöxtur, oft um og yfir 5% á mann á hverju ári, eins og er um þessar mundir. Þjóðin ætti að vera og er raunar orðin margfalt ríkari en hún var, þegar hún var um það bil að skilja við úrelt hagkerfi kreppuára og blessaðs stríðsins.

Þrátt fyrir allan hagvöxtinn í tæplega hálfra öld er velferð þjóðarinnar á undanhaldi. Skólagjöld hafa verið tekin upp og fara sífellt hækkandi. Lyfjagjöld hafa verið tekin upp og fara sífellt hækkandi. Fólk fær tæpast vinnu, þótt það mennti sig. Og fátækir kennarar segjast þurfa áfallahjálp.

Hvað gerðist? Hvert fóru allir peningarnir, sem þjóðin hefur grætt? Af hverju getur fólk ekki lifað góðu lífi á hálfri vinnu? Af hverju þurfa hjón að vera hvort um sig í fullri vinnu úti í bæ? Af hverju er ekkert val í þjóðfélaginu annað en að lúta leiðinlegum atvinnurekendum hálfa vakandi ævina?

Við ættum kannski að spyrja nokkra forsætisráðherra þessarar hálfu aldar, hvað hafi orðið um kerfið. Við vitum þó, að ekki þýðir að spyrja þá tvo síðustu, sem enn eru við völd, því að þeir eru of önnum kafnir við að rústa velferðarkerfið til að gefa svör. Og nú síðast eru þeir að lækka skatta.

Kannski er skýringin sú, að gírugt fólk vilji frekar fá meira fé í vasa en greiða til samfélagsins. Kannanir benda þó til, að fólk sé tilbúið að leggja hærri hluta af mörkum, ef það yrði til að bæta skilgreinda þjónustu. En menn hafa ekki lengur trú á, að þjónustan batni, þótt skattar hækki.

Hvort sem skattalækkunin er góð eða vond, þá vitum við, að hún verður notuð til að skera velferðina enn frekar og færa þjóðina enn lengra frá hamingju og öryggi fyrri áratuga.

Jónas Kristjánsson

DV

Írar flýja heim

Greinar

Krárnar eru hálfar og auðum íbúðum fjölgar í fjölbýlishúsum Íra í New York. Í meirihluta írskra stórfjölskyldna þar í borg er einhver farinn heim til Írlands eða að undirbúa brottflutning. Bandaríkin eru ekki lengur fyrirheitna landið í augum soltinna Íra. Þeir sjá nú betra líf í gamla landinu.

Írland varð efst á blaði í nýrri könnun um, hvar sé bezt að lifa í heiminum. Áður hafði Frakkland notið þessa heiðurs í annarri könnun. Kanada og Nýja-Sjáland eru á uppleið, enda líta þangað hýru auga margir þeir Bandaríkjamenn, sem telja, að stjórn Bush sé að fara með Bandaríkin til andskotans.

Slíkar kannanir eru vafasamar heimildir, en segja okkur þá sögu, að efnahagsleg velgengni, mæld í þjóðartekjum á mann, er ekki góður mælikvarði á hamingju almennings. Menntun og heilbrigði, góður matur og frjálslynt stjórnarfar og margt fleira þarf að taka til greina í samanburði á ríkjum.

Þótt Bandaríkin hafi haft 3% hagvöxt upp á síðkastið, en Evrópusambandið 2%, verður að hafa í huga, að Evrópa gerir meira fyrir framtíðina. Í Bandaríkjunum þurfa fyrirtæki að sýna hagnað ársfjórðungslega og taka því lausnir til skamms tíma fram yfir langtímalausnir á borð við umhverfisvernd.

Evrópubúar spara, en Bandaríkjamenn alls ekki. Í staðinn taka Bandaríkjamenn lán í útlöndum. Erlendir peningar og lækkandi gengi dollars standa undir hagvexti þar í landi. Og félagsleg velferð er á miklu lægra plani en í Vestur-Evrópu, þar sem hagstefnan hefur verið félagslegur markaðsbúskapur.

Þótt Evrópa og Bandaríkin séu greinar af meiði vestrænnar markaðshyggju, er hún tempraðri í Evrópu. Dólgsleg auðhyggja Bandaríkjanna á ekki upp á pallborðið í Evrópu, þar sem hægri sinnaður flokkur á borð við kristilega demókrata í Þýzkalandi gaf þjóðinni félagslega kanzlarann Ludwig Erhard.

Stöðugt ris evrunnar er gott dæmi um, að evrópsk mildi er efnahagslega frambærileg hagfræðistefna. Ekki þarf að rústa jafnrétti í menntun, heilbrigði og annarri velferð til að vera samkeppnishæfur á alþjóðlegum markaði. Ekki þarf að rústa umhverfinu til að geta staðið sig á líðandi stund.

Ísland flýtur með í félagslegum markaðsbúskap Evrópu. Lög og reglugerðir Evrópusambandsins gilda hér á landi í auknum mæli. Fáir stjórnmálamenn hampa bandarískum lausnum á kostnað evrópskra, þótt suma dreymi um að einkavæða menntun og heilsugæzlu og draga á annan hátt úr félagslegri velferð.

Á næstu árum mun spenna vaxa milli vaxandi dólgaauðvalds í Bandaríkjunum og félagslegs markaðsbúskapar í Evrópu. Í þeim átökum mun okkur farnast eins og Írum, sem nú flýja heim.

Jónas Kristjánsson

DV

Condoleezza Rice

Greinar

Fréttaskýrendur sögðu á sínum tíma, að Colin Powell væri eini fullorðni maðurinn innan um róttæklinga stjórnar George W. Bush. Hann væri hirðirinn, sem gengi um glervörubúðina og sópaði hana, þegar fílar harðlínumanna hefðu brotið allt og bramlað. Hann einn talaði tungumál, sem Evrópumenn skildu.

Powell var einangraður í ríkisstjórninni. Hann var til dæmis hræddur við innrásina í Írak og vildi samráð við bandamenn í Atlantshafsbandalaginu. Hann vildi halda starfinu og beið við símann eftir kosningar, en forsetinn hringdi aldrei. Bush taldi vera orðið tímabært að losa sig við fílahirðinn.

Í staðinn er kominn öryggisfulltrúinn Condoleezza Rice, sem hugsar eins og forsetinn og botnar málstirðar setningar hans. Hún er trúarofstækismaður, sem situr á morgunfundum forsetans með Guði, þar sem lögð er harðlína gagnvart útlendingum, einkum villutrúarmönnum af meiði Múhameðs.

Nú eru engar efasemdir lengur í ríkisstjórn George W. Bush. Aðstoðarmaður Rice verður róttæklingurinn John Bolton, mesti haukurinn í Washington. Lögregluráðherra verður Alberto Gonzales, heimilisvinur Bush, sem samdi lögfræðiskýrslu um, að Genfarsáttmálinn væri úreltur og pyndingar væru í lagi.

Utanríkisstefnu Bandaríkjanna er stjórnað af Bush forseta, Rice utanríkisráðherra, Cheney varaforseta og Rumsfeld stríðsráðherra með stuðningi Gonzales lögregluráðherra, Bolton aðstoðarutanríkisráðherra, Goss leyniþjónustustjóra og ofbeldisprédikurunum Abrams og Wolfowitz.

Heimsmynd hinnar nýju ríkisstjórnar er hrein og einföld. Bandaríkjamenn eru fulltrúar Guðs á jörð, yfir allt mannkyn hafnir. Þeir mega haga sér eins og þeir vilja, ráðast inn í þriðja heims ríki á upplognum forsendum. Þeir mega stunda stríðsglæpi og fjöldamorð, af því að Guð hefur sagt það.

Evrópumenn eru taldir hafa yfirgefið Guð og eru ekki taldir marktækir. Ekki einu sinni Tony Blair í Bretlandi fær neitt fyrir að sleikja ökla Bush í fjögur ár. Það er ekki í sjóndeildarhring ráðamanna Bandaríkjanna að þakka öðrum ríkjum fyrir neitt. Þau eiga að hlýða kalli eftir þörfum.

Barnalegt er að trúa blint, að George W. Bush muni efna loðin loforð um að flytja ekki flugvélar frá Keflavík. Það eykur ekki líkurnar, að Davíð Oddsson biðji niðurlægðan Colin Powell um það, því að róttæklingar nýju stjórnarinnar fyrirlíta Powell og samningastefnu hans gagnvart Evrópu.

Condoleezza Rice er dæmi um, að Bandaríkin eru orðin að mestu ógn nútímans við mannkynið og framtíð þess. Fólk, sem annars staðar væri á hæli, er við stjórnvöl Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Árni og Fíladelfía

Greinar

Framsóknarflokkurinn var ekki að reyna að koma í veg fyrir borgarstjóra á vegum Samfylkingarinnar, enda var niðurstaða samsæris gegn Degi B. Eggertssyni samfylkingarmanni, að samfylkingarkonan Steinunn Valdís Óskarsdóttir varð borgarstjóri og verður ein af stjörnum Samfylkingarinnar.

Grundvöllur plottsins var, að Halldór Ásgrímsson er veikur foringi, sem á erfitt með að ákveða sig, svo sem komið hefur í ljós, þegar hann hefur legið langtímum saman yfir skiptum á ráðherrum innan flokksins. Ungir potarar hafa náð eyrum hans og komizt inn í tómarúmið til að láta að sér kveða.

Þetta eru einkum aðstoðarmenn ráðherra, Árni Magnússon félagsráðherra og forustumenn trúfélags Fíladelfíu. Þessir menn ákváðu að misnota borgarstjóravanda R-listans til að koma til valda bæjarstjóra Framsóknarflokksins í Hveragerði út á það, að hann væri bróðir þingkonu úr Samfylkingunni.

Það var skortur á dómgreind að ætla, að bæjarstjóri úr sveitarfélagi, sem er með öll fjármál í hers höndum, geti dugað í embætti borgarstjóra í Reykjavík. Enda þýddi ekki að halda fram Orra Hlöðverssyni. Hann hafði ekki einu sinni allan styrk Framsóknar, hvað þá hinna afla R-listans.

Árni og Fíladelfía tefldu þessa vonlausu skák mjög hart og settu fram kenninguna um, að Framsókn mætti ekki ala upp leiðtoga fyrir Samfylkinguna í sæti borgarstjóra. Þetta trikk dugði til að fella Dag, en potarar höfðu þá ekki frambærilegan frambjóðanda og urðu mát fyrir Steinunni.

Raunar er það íhugunarefni fyrir Reykvíkinga, að Árni Magnússon og Fíladelfía voru að plotta með mál borgarinnar undir því yfirskini, að taflmennska þeirra væri að undirlagi Halldórs Ásgrímssonar, sem var úti að aka í þessu máli sem oftar. Frekja og dómgreindarleysi fylgdust að í skákinni.

Einnig er íhugunarefni fyrir Reykvíkinga, að sértrúarfélag er farið að plotta með mál borgarinnar. Ekki virðist vera neinn trúarvinkill eða Guðsvinkill á skákinni, heldur er raunin sú, að framapotarar úr Framsókn hafa tekið völd í Fíladelfíu eins og í ýmsum stjórnum félaga og stofnana.

Fyrir alla er íhugunarefni, að í tómarúminu kringum Halldór Ásgrímsson hafa risið upp potarar, sem eru önnum kafnir við að hanna atburðarásir í nánu og fjarlægu umhverfi. Þetta er harðskeytt lið, sem vinnur eftir reglunni um, að sá, sem er ekki með mér, er á móti mér. Honum skal vísað úr himnaríki.

Hinir lélegu skákmenn vísuðu líka Kristni H. Gunnarssyni úr himnaríki flokksins og eru nú að fá hann tvöfaldan í hausinn aftur. Dómgreindarskertir munu þeir áfram valda tjóni.

Jónas Kristjánsson

DV

Huldumaður í olíunni

Greinar

Millistjórar í samráðum olíufélaganna segjast hafa dottið inn í andrúmsloft, sem var þar á þeim tíma, og ekki áttað sig á, að það væri mafíuloft. Höfuðpaurarnir sjálfir segja, að mafíuloftið hafi verið leifar frá fyrri tíma, þegar ríkið stjórnaði olíufélögunum, til dæmis með verðlagsskorðum.

Þetta firrir engan persónulegri ábyrgð á samsæri gegn þjóðinni, en vísar okkur veginn til forsendunnar að baki glæpanna. Olíufélögin voru eins og tryggingafélögin og flugfélögin og einkum bankarnir hluti af valdakerfi tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Það sprengir ímyndunaraflið að reyna að telja sér trú um, að forstjórar olíufélaganna hafi verið verri en starfsbræður þeirra hjá tryggingafélögunum, flugfélögunum og bönkunum og öllum atvinnugreinum, þar sem tvö eða þrjú hálfpólitísk fyrirtæki áttu meginþorra markaðarins í skjóli stjórnmála.

Einu sinni var hér tími helmingaskipta. Þá átti kolkrabbinn 60% af atvinnulífinu og smokkfiskurinn 40%. Þessi skipan komst á, þegar ríkið skipulagði atvinnulífið og skammtaði því tækifæri með verðlagsákvæðum, fjárhagsráði, margfaldri gengisskráningu og öðru því, sem einu sinni hét Eysteinska.

Kolkrabbinn og smokkfiskurinn blómstruðu í skjóli tveggja stjórnmálaflokka og studdu þá til valda með fjármunum og aðstöðu. Þetta vissu allir í þá daga, en ekkert var gert með það, rétt eins og dómstólar munu komast að raun um, að enginn olíuforstjóri skuli lenda í fangelsi fyrir samráðin.

Það er söguleg tilviljun, að Samkeppnisstofnun tók olíuna í gegn. Ef til vill fékk forstjórinn höfuðhögg og fór að trúa lögum og rétti. Þegar pólitíska tvíeykið komst að raun um, hvert hann var að fara, var dregið úr fé stofnunarinnar og minnkuð starfsgeta hennar, meðal annars til að fyrna málið.

Svipuð rannsókn verður því ekki gerð á tryggingafélögunum, flugfélaginu og allra sízt á bönkunum, þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sátu og ákváðu, hverjir skyldu fá peninga og hverjir frystir úti. Ástæðan er auðvitað huldumaðurinn að baki stjórnmálaflokkanna tveggja.

Huldumaðurinn er Hinn íslenzki kjósandi. Hann hefur áratugum saman vitað, hvernig þjóðfélaginu og atvinnulífinu var stjórnað og lét sig það engu skipta. Hann var og er sáttur. Hann hefur stutt helmingaskiptafélagið til valda og gerir það aftur, þegar kemur að næstu kosningum og þarnæstu.

Þegar leitað er dólgsins, sem ræktaði mafíuloftið í olíunni og öðrum lykilgreinum þjóðfélagsins, verður Hinn íslenzki kjósandi sá aðili, sem helzt ætti að setja á Litla-Hraun.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjöldamorð í Falluja

Greinar

Fjöldamorð Bandaríkjahers í Falluja eru hafin. Þar eru nú um 200.000 óbreyttir borgarar. Til þess að frelsa þá undan 1.500-2.000 skæruliðum, mun bandaríski herinn drepa um 20.000 óbreytta borgara til viðbótar þeim 100.000, sem hann hefur áður drepið í loftárásum og öðrum fjöldamorðum í Írak.

Ekkert af þessu fólki hefur gert Bandaríkjunum neitt til miska, ekki einu sinni stjórn Saddam Hussein. Bandaríski herinn er í krossferð gegn trúarbrögðum, sem eru bandarískum trúarofstækismönnum ekki að skapi. Þetta eru viðurstyggileg manndráp, sem ráðamenn Íslands styðja með ráðum og dáð.

Frá og með loftárássinni á Dresden fyrir sex áratugum við lok síðari heimsstyrjaldarinnar hafa breytzt hlutföll fallinna í styrjöldum. Í gamla daga voru óbreyttir borgarar helmingur fallinna. Síðan Bandaríkjamenn komust til áhrifa í heiminum hefur hlutfall óbreyttra borgara meðal fallinna farið upp í 90%. Svo var í Víetnam og svo er núna í Írak.

Bandaríkjamenn og raunar margir Íslendingar, sérstaklega fréttamenn, telja loftárásir á borgir og bæi, þar sem flugmenn sjá ekki fórnardýr sín, ekki vera stríðsglæpi. Bandaríkjamenn neita raunar að fallast á það sjónarmið, að nokkrar stríðsaðgerðir þeirra í geti verið stríðsglæpir.

Blaðamenn Vesturlanda hafa gersamlega brugðist skyldum sínum gagnvart blóðbaðinu í Írak. Þeir stóðu sig vel í Bosníu og Kosovo, en núna tala þeir bara og skrifa eins og ekki sé til neinn almenningur í Írak. Þeir skrifa alls ekki neitt um börnin, sem reyna að fela sig fyrir bandarískum sprengjum.

Íslenzkum fréttamönnum og blaðamönnum kemur greinilega ekkert við, hvernig daglegt líf gengur fyrir sig í Falluja. Þeir skrifa ekki um hetjudáðir manna, sem reyna að koma slösuðum börnum á spítala. Gegnum Reuter og Associated Press lepja þeir veruleikafirringuna upp úr stríðsglæpamönnum.

“We will win the hearts and minds of Falluja by ridding the city of isurgents. We’re doing that by patrolling the streets and killing the enemy.” Þessi ummæli hermanns segja allt sem segja þarf um firringuna, sem íslenzku starfsliði fjölmiðla hefur gersamlega mistekizt að koma á framfæri.

Eftir nokkra mánuði verður umfang fjöldamorðanna í Falluja orðið ljóst og þá verður líka ljóst, að þau leiða ekki til fækkunar andófsmanna í Írak. Smám saman er þjóðin að rísa upp gegn drápsglöðu hernámsliði og leppstjórn þess, sem lýtur forustu Íjad Allavi, gamals njósnara fyrir Bandaríkin.

Skelfilegt er, að fjöldamorðin í Írak skuli vera studd vilja forsætis- og utanríkisráðherra Íslands og með háværri þögn blaðamanna, sem heyra ekki óp barnanna í sprengjurústunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjölmiðlar blekkja

Greinar

Þegar glæpamenn sjá ekki þá, sem þeir drepa, virðast flestir telja það ekki vera hryðjuverk. Þetta gildir eins um þá, sem segja eða skrifa okkur erlendar fréttir. Einkum telja þeir þá, sem skipuleggja loftárásir eða framkvæma þær, ekki vera hryðjuverkamenn. Þetta sjónarmið er brezkt og bandarískt.

Adolf Eichmann var dæmdur fyrir fjöldamorð gegn gyðingum, þótt hann sæti allan tímann við skrifborðið og sæi aldrei fórnardýrin. Hið sama á auðvitað að gilda um þá, sem láta drepa eða drepa óbreytta borgara í loftárásum. Þar á meðal brezk og bandarísk yfirvöld hermála og stjórnmála almennt.

Þegar loftárásum er beint að byggðu bóli, borg eða þorpi, er ljóst, að óbreyttir borgarar verða fyrir hnjaski. Frá þessu er ekki eða mjög lítið sagt í fjölmiðlum. Það kom okkur því á óvart, að brezka læknatímaritið Lancet skuli segja okkur, að 100.000 manns hafi fallið í innrás og hernámi Íraks.

Rannsóknin, sem þessi tala byggist á, var framkvæmd á vegum Johns Hopkins Bloomberg læknaskólans í Baltimore. Írak var skipt í svæði og kannað á þúsund heimilum, hvert mannfall og fæðingar hefðu verið í fjölskyldunni. Með hefðbundnum líkindareikningi vísindarannsókna kom í ljós talan 100.000.

Einnig kom í ljós, að meirihluta hinna föllnu voru konur og börn, að loftárás var dánarorsök í öllum þorra tilvika og að manndrápslíkur höfðu margfaldazt 58 sinnum frá því á valdatíma Saddam Hussein. Bandaríkjamenn eru, eins og í Víetnam, að frelsa Íraka með því að drepa þá holt og bolt.

Lancet hefur farið hefðbundnar leiðir við birtingu Johns Hopkins skýrslunnar, sent hana öðrum fræðimönnum til að fá athugasemdir um vinnubrögð. Ekkert kom í fram, sem breytir tölunum, er hér hefur verið lýst. Því má vera ljóst, að grimmdarverk Bandaríkjamanna og Breta í Írak eru gífurleg.

Associated Press er bandarísk fréttastofa og Reuter er brezk fréttastofa. Þær eru báðar hallar undir það sjónarmið, að manndráp úr lofti séu “collateral damage”, en ekki glæpur gegn mannkyni. Það stafar auðvitað af, að þetta eru þeir glæpir, sem einkum þessi tvö ríki hafa stundað um áratugi.

Íslenzkir blaðamenn í erlendum fréttum fá fréttir sínar frá AP og Reuter og hafa ætíð verið hallir undir bandarísk og brezk sjónarmið. Það er hins vegar ekkert í alþjóðlegum samningum eða almennu siðferði, sem undanskilur loftárásir frá öðrum aðferðum við að murka lífið úr saklausu fólki.

Íslenzkir fjölmiðar bregðast okkur, þegar þeir fjölyrða um hryðjuverk á vegum lítilmagnans, en leyna fyrir okkur, að nú eru Bandaríkin margfaldur heimsmeistari í hryðjuverkum.

Jónas Kristjánsson

DV

Borgarstjórinn hættir

Greinar

Borgarstjórinn hættir

Borgarstjórinn hefur tekið til varna á sjónvarpsstöðvum og reynt að gera lítið úr hlutdeild sinni í stórfelldu samsæri olíurisanna gegn þjóðinni, fyrirtækjum hennar og stofnunum. Hann kemur vel fyrir, en getur ekki talað framhjá þeirri staðreynd, að hann var sjálfur á bólakafi í þessu samsæri.

Borgarstjórinn hefur ekki gefið Reykjavíkurlistanum réttar upplýsingar á sínum tíma, þegar málið var tekið þar fyrst fyrir. Eins og í sjónvarpsviðtölum fimmtudagsins hefur hann skautað yfir óþægilegu kaflana um aðild sína, enda virðist hann ekki enn gera sér grein fyrir pólitískri stærð málsins.

Þótt hann verði ekki gerður ábyrgur fyrir dómstólum, verður hann gerður ábyrgur fyrir dómstóli götunnar, það er að segja kjósenda, sem vilja, að fulltrúar sínir séu hafnir yfir þær gerðir, sem lýst er í skýrslu Samkeppnisstofnunar. Gerðar eru meiri kröfur til stjórnmálamanna en til markaðsstjóra.

Kjósendur eru undarlegt fyrirbæri. Þeir láta sér sæma að halda áfram að kaupa benzín hjá samsærisfélögunum, jafnvel þótt komið sé til sögunnar olíufélag, sem er utan hópsins og hefur keyrt niður benzínverð. Þetta er alveg sama viðhorfið og þegar reynt var að lækka verð á bílatryggingum og flugi.

Fólk er fífl, eins og einn samsærismanna benti á. En það á eingöngu við um viðskipti. Kjósendur vilja stunda viðskipti, þar sem þeir eru kvaldastir, hjá olíufélagi, flugfélagi og tryggingafélagi sínu. En ekki má rugla saman dauflegum viðbrögðum fólks á markaði og viðbrögðum þeirra í pólitík.

Þegar kemur að stjórnmálamönnum, vilja kjósendur, að þeir hafi sæmilega hreinan skjöld. Þeir sjá ekki fyrir sér, að samsærismaður gegn almenningi geti lengi verið borgarstjóri. Þótt kjósendur vilji ekki færa til viðskipti sín, eru þeir ekki tilbúnir til að fyrirgefa samráðin í kjörklefanum.

Reykjavíkurlistinn mun í næstu kosningum hafa nóg að gera við að útskýra mistök sín í skipulagsmálum, svo sem aðgerðarleysið á stórslysahorni Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Hann hefur ekki ráð á að styðja við bakið á borgarstjóra, sem er greinilega orðinn að pólitískri byrði.

Reykjavíkurlistinn getur ekki fylkt sér að baki borgarstjóra af þessu tagi, þótt hann sé þægilegur maður og allur af vilja gerður til að vinna vel. Sumir af ráðamönnum listans kunna að þurfa tíma til að láta umfang málsins síast inn, en óhjákvæmilega gefast þeir að lokum upp á eitraða peðinu.

Fyrr eða síðar áttar annað hvort Reykjavíkurlistinn eða borgarstjórinn sig á því, að sameiginlegt dæmi þeirra gengur ekki lengur upp. Bezt er, að borgarstjórinn verði fyrri til.

Jónas Kristjánsson

DV

Nóttin verður löng

Greinar

Bandaríkjamenn hafa líklega endurkjörið Bush sem forseta, veitt honum meirihluta í báðum deildum þingsins og gefið honum tækifæri til að pakka íhaldsmönnum í hæstarétt, sem mun hafa áhrif áratugi fram í tímann. Allt þetta mun fela í sér, að stjórnarhættir forsetans verða enn harðari en áður.

Öllu mannkyni eru þetta skelfileg tíðindi, þótt kannanir hafi lengi sagt hið sama. Einkum er vont fyrir samstöðu Vesturlanda, að meirihluti Bandaríkjamanna skuli styðja róttæka stefnu, sem annars staðar á Vesturlöndum er talin langt utan við heilbrigða skynsemi og pólitískt litróf.

Bandaríkjamenn hafa ekki áhyggjur af fjöldamorðum hersins í Írak, þar sem 100.000 óbreyttir borgarar hafa verið myrtir, einkum í loftárásum, þar sem þúsund börn eru drepin á degi hverjum. Þeir hafa lengi litið á útlendinga sem hunda og á íbúa þriðja heimsins sem réttmæt skotmörk í loftárásum.

Bandaríkjamenn hafa ekki áhyggjur af rökréttu samhengi. Þeir trúa, að Saddam Hussein og Írak hafi verið í tengslum við Osama bin Laden og Al Kaída og beri ábyrgð á 11. september hryðjuverkunum. Þeir hlusta ekki á neinar staðreyndir, sem allar segja, að þeir hafi Írak alveg fyrir rangri sök.

Bandaríkjamenn eru hryðjuverkamenn heimsins. Allir aðrir hryðjuverkamenn komast samanlagt ekki þangað sem Bandaríkin hafa hælana. Við munum áfram búa við heimsveldi, sem lítur á sinn vilja sem lög heimsins og er óhrætt við að kvelja og drepa fólk, sem óvart verður í vegi fyrir hernaði þeirra.

Bandaríkjamenn hafa í nokkur ár ekki viljað hlusta á Evrópu og gera það enn síður næstu fjögur árin. Þeir telja, að Bush njóti sérstakrar náðar Guðs og taki við fyrirmælum frá honum. Þeir eru sáttir við trúarofstæki og krossferðir, enda líta þeir sömu augum á múslima og Hitler leit á gyðinga.

Bandaríkjamenn hafa engar áhyggjur af versnandi ástandi lífríkis jarðar. Þeir munu ekki taka þátt í samstarfi alls heimsins um viðnám gegn auknum koltvísýringi, heldur halda áfram að velta sér upp úr skítnum með þá hugsjón á oddinum, að Bandaríkin hafi ekki efni á að hreinsa upp eftir sig.

Sum ríki munu áfram reyna að nudda sér utan í Bandaríkin eins og hundar nudda sér utan í húsbónda sín. Þar á meðal verða Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson. Víðast annars staðar mun almenningsálitið koma í veg fyrir, að ráðamenn geti gengið í lið með stríðsóðri þjóð í einstefnuakstri.

Bandaríkin hafa tekið við hlutverki Sovétríkjanna sem hið illa afl heimsins. Úrslitin í Bandaríkjunum voru skelfileg. Við þurfum nú að búa okkur undir, að nóttin verður löng.

Jónas Kristjánsson

DV

Keppni deyr alltaf

Greinar

Tölvupóstur stjórnenda olíufélaganna um samráð þeirra gegn viðskiptamönnum segir allt, sem segja þarf um hugarfarið á þeim bæjum. Brotaviljinn var eindreginn, nauðsynlegt þótti að leggja meiri áherzlu á “framlegð” en samkeppni og það sem athyglisverðast er, viðskiptamenn voru taldir vera “fífl”.

Umsjónarmenn samráðanna hafa viðurkennt brot sitt og ákveðnar hafa verið sektir, sem eru langt innan við þær upphæðir, er olíufélögin höfðu af fólki, fyrirtækjum og stofnununum. Þegar upp er staðið, eiga þau að halda eftir töluverðum hagnaði af svindlinu, sem er merkileg staðreynd.

Líklega verður áfrýjað til dómstóla, enda telja olíufélögin, að málið sé fyrnt. Sé svo, er tvennu um að kenna. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin skorið Samkeppnisstofnun niður við nögl í framlögum, væntanlega til að draga úr rannsóknarhraða svo að gæludýr kolkrabba og smokkfisks slyppu fyrir horn.

Í öðru lagi hefur Samkeppnisstofnun þá ekki verið með lögfræðina á hreinu og hefði átt að takmarka umfang rannsóknarinnar nægilega til þess að vinnu yrði lokið fyrir tilsettan tíma. Ekki er nóg að vísa á fjárveitingar ríkisins, ætlast er til, að embættismenn kunni á dagatal.

Allt er mál þetta frábært skólabókardæmi um örlög samkeppni á frjálsum markaði. Samkeppni leiðir til fækkunar í hverri grein. Þegar ráðandi fyrirtæki eru orðin þrjú, kemur fyrr eða síðar að því, að ráðamenn þeirra fara að bera saman bækur, hvort sem þeir gera það í Öskjuhlíð eða í tölvupósti.

Markaðshyggjumenn hafa aldrei getað skýrt, hvað muni gerast, þegar samkeppni hefur leitt til fákeppni og er í þann mund að breytast í fáokun. Engin leið er að halda fram, að hugarfar forstjóra og millistjórnenda í öðrum greinum fáokunar geti lengi verið hreinna en í olíu og benzíni.

Um tíma getur verið góð samkeppni, þótt fá fyrirtæki keppi, eins og nú keppa tvö fyrirtæki um farþega í millilandaflugi. Fyrr eða síðar leiðir slík samkeppni samt til þreytu annars aðilans eða beggja, sem leiðir til uppgjafar eða uppkaupa eða samstarfs, sem endar svo með samráði og einokun.

Samfélagið getur dregið mikilvæga lexíu af þessu. Það þarf að styðja til valda stjórnmálamenn, sem hafa að markmiði að búa svo um hnútana, að auðvelt sé að stofna og flytja inn fyrirtæki til að taka upp samkeppni við fáokunina, í flugi, í tryggingum, í smásölu, í bönkum, í flutningum, í benzíni.

Auðvitað verðum við að hafa miklu öflugra eftirlit og meiri sektir á þessu sviði, en áhrifameira er að búa til umhverfi, þar sem ung og innflutt fyrirtæki hafa svigrúm til að rísa.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópusigur

Greinar

Sameinuð Evrópa vann mikinn sigur á miðvikudaginn, þegar þing Evrópusambandsins kúgaði nýjan forsætisráðherra sambandsins, José Manuel Barroso, til að falla frá umdeildum ráðherralista sínum og taka sér nokkurra vikna hlé til að ganga frá nýjum lista, sem þinginu verður þóknanlegri.

Þetta táknar, að lýðræði er að leka inn í Evrópusambandið með auknu þingræði. Veikt og smáð þing er smám saman að taka til sín meiri völd. Fyrir fimm árum felldi það Santer forsætisráðherra og alla stjórn hans undir lok ferils hennar. En á miðvikudaginn féll hin ófædda stjórn Barroso.

Þetta skiptir máli fyrir alla Evrópu, líka fyrir þær þjóðir, sem standa utan bandalagsins. Þetta dregur til dæmis úr líkum á, að Ísland gerist aðili. Enda sagði Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, að hann óttaðist, að þingræði væri að skríða inn í sambandið og gera það að sambandsríki.

Persson komst einmitt að kjarna málsins. Með auknum áhrifum þings Evrópusambandsins fara stjórnmálaöfl og kjósendur að taka meira mark á þinginu og leggja harðar að sér við að fá kjörna þangað sína menn. Þar með mun aukast áhugi fólks á Evrópu og áhrif álfunnar aukast í baráttu við þjóðríkin.

Hingað til hafa embættismenn og óbeinir aðilar frá stjórnum aðildarríkjanna ráðið mestu í Evrópusambandinu. Þingið er hins vegar kosið beint af fólkinu. Dómgreindarbrestur Barroso fólst í að vanmeta hina nýju hreyfingu í átt til aukins lýðræðis. Hér eftir verður hann lamaður stjórnandi.

Hingað til hafa stjórnir og stjórnmálamenn aðildarríkja Evrópusambandsins komist upp með að kenna andlitslausum mönnum í Bruxelles um flest, sem aflaga hefur farið í ríkjum Evrópu. Ef þjóðir Evrópu átta sig á, að þær eru að kjósa beint fulltrúa til valda í Evrópu, minnkar lygasvigrúmið.

Á síðustu stundu áttaði Barroso sig loksins á, að ekki bara krataþingmenn, heldur líka frjálslyndir þingmenn, mundu hafna ráðherralista hans, einkum vegna Rocco Buttiglione, róttæks afturhaldsmanns frá Ítalíu, sem hann ætlaði að skipa ráðherra réttlætismála, þvert gegn stefnu Evrópusambandsins.

Ekki þýðir fyrir hægri sinnaðan og dómgreindarskertan Barroso að stýra Evrópu í andstöðu við krata og frjálslynda með því að skipa í stjórnina ítalskan hatursmann kvenna og homma, hollenzkan umboðsmann hergagnahagsmuna og lettneska konu, sem er í vandræðum heima fyrir vegna fjárglæfra.

Smám saman verður Evrópa að lýðræðisríki, tvö skref áfram, eitt skref afturábak og sjö skref út á hlið. Þegar Evrópa nær eyrum kjósenda, mega gömul þjóðríki fara að vara sig.

Jónas Kristjánsson

DV

Terrorisminn

Greinar

Handrukkun er aðferð neðanjarðarhagkerfis dópsala til að halda uppi sínum lögum og sínum rétti gegn lögum og rétti almannavalds í landinu. Hótanir handrukkara ógna grunni þjóðfélagsins, því að þær knýja fólk til að taka ótta við handrukkara fram yfir ótta við almannavaldið í landinu.

Svo langt gengur þetta, að lögreglumaður á Keflavíkurvelli neitar að kæra handrukkara fyrir líkamsárás. Við slíkar aðstæður þýðir lítið fyrir froðusnakk lögreglunnar að mæla með því í Moggaviðtali á fimmtudaginn, að fólk fari að kæra handrukkun. Hann verður fyrst að sannfæra starfsbræðurna.

Viðtalið við froðusnakkinn sýnir uppgjöf lögreglunnar. Hún kann betur við sig í ofsóknum gegn hugleiðslufólki í Falun Gong eða andstæðingum stórvirkjana, heldur en í baráttu við hina raunverulega terrorista landsins, þá sem eru að reyna að kollvarpa þjóðskipulaginu með innleiðingu handrukkunar.

Yfirmenn lögreglunnar eiga að kynna sér, hvernig farið var að í Bandaríkjunum, þegar mönnum var farið að ofbjóða yfirgangur mafíunnar og stuðningur lögreglumanna við hana. Mafíósar voru einfaldlega hundeltir dag og nótt og teknir fyrir litlu glæpina, þegar ekki var hægt að sanna þá stóru.

Al Capone var settur inn til margra ára fyrir of hraðan akstur og annað slíkt, sem óhjákvæmilega kemur í sarpinn, þegar vel er fylgzt með terroristum neðanjarðarhagkerfisins. Í stað þess að leyfa neðanjarðarhagkerfinu að terrorisera almenna borgara var lögreglan látin terrorisera mafíuna.

Að svo miklu leyti sem yfirmenn lögreglunnar skortir heimildir til að ráðast hart, fljótt og örugglega gegn handrukkurum og yfirmönnum þeirra, þá getur hún farið fram á þær við dómsmálaráðuneytið, sem getur síðan kallað á þverpólitískan stuðning við nauðsynlegar lagabreytingar.

Í stað þess að hefja slíkt ferli sendir lögreglan froðusnakk á vettvang Moggans til að segja, að ástandið sé ekki eins slæmt og af sé látið; þetta séu meira hótanir handrukkara heldur en athafnir; þetta sé ekki verra en á Norðurlöndunum; fólk eigi ekki að kaupa dóp. Allt eru þetta undanbrögð.

Neðanjarðarhagkerfið er farið að vaða svo uppi, að siðblint ríkissjónvarp Sjálfstæðisflokksins varð á fimmtudagskvöldi að sérstöku málgagni vélhjólaklúbbsins Fáfnis, þar sem menn lifa af tekjum utan skattkerfisins og reyna að komast inn í alþjóðahreyfingu Vítisengla. Hvað með skattrannsókn þar?

Bezta leiðin til að láta landslög sigra neðanjarðarlög er svo, að ríkið yfirtaki sölu fíkniefna og kippi þannig rekstrargrundvelli undan fíkniefnakóngum og handrukkurum.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzkir hermenn

Greinar

Erlendar fréttastofur segja, að íslenzkir hermenn hafi særzt í sjálfsmorðsárás í Kabúl í Afganistan. Utanríkisráðuneytið íslenzka segir þetta hafa verið friðargæzluliða. Það er orð, sem Atlantshafsbandalagið notar til að gera lítið úr aðild þess að vopnuðu hernámi Bandaríkjanna á fjarlægu landi.

Verkaskipting hernámsins felst í, að hermenn bandalagsins þora ekki út fyrir höfuðborgina Kabúl. Bandaríkjamenn stunda hins vegar stríðsglæpi víðs vegar um Afganistan með því að varpa sprengjum úr lofti að venjulegu fólki í von um, að sprengjurnar hitti forsprakka Talíbana eða Osama bin Laden.

Íbúar höfuðborgarinnar hafa ekki beðið um þetta hernám og hafa svipuð viðhorf og hernumið fólk hefur annars staðar.

Íslenzku hermennirnir mega raunar ekki koma í sum hverfin, af því að Atlantshafsbandalagið er svo hatað, að sumir eru fúsir til að fórna lífi sínu í sjálfsmorðsárásum á það.

Afganistan kemur Evrópu og þar á meðal Íslandi lítið við. Helzta breytingin í kjölfar hernámsins er, að framleiðsla fíkniefna hefur margfaldazt, svo að þau flæða yfir Evrópu í gífurlegu magni. Í raun er það hlutverk íslenzkra hermanna að stýra flugvelli, þaðan sem fíkniefni flæða til Íslands.

Halldór Ásgrímsson stríðsmálaráðherra hefur aldrei þurft að fara sjálfur í stríð, ekki frekar en George W. Bush, sem kom sér undan Víetnam, þegar hann var á herskyldualdri. Slíkar skrifborðs-stríðshetjur eiga auðvelt með að senda unga menn í hættuleg stríð til að gæta annarlegra fjármálahagsmuna.

Halldór og Davíð Oddsson spurðu ekki þig eða mig um leyfi til að senda íslenzka skrifstofumenn í stríð. Þeir ákváðu það sín í milli og bera fulla ábyrgð á afleiðingunum. Þessi aðild hefur ekki bætt ástandið í Afganistan, sem utan við Kabúl er verra en það var á valdaskeiði illræmdra Talíbana.

Sjálfsmorðsárás á Íslendinga minnir okkur á, að afskipti okkar af þessu fátæka og fjarlæga landi er ekkert grín. Við erum að taka þátt í undirgefinni þjónustu hernaðarbandalags við sérbandaríska hagsmuni, sem er þegar orðin okkur til vansæmdar og á eftir að verða okkur til enn meiri skammar.

Við eigum ekki að taka þátt í að opna flóðgáttir fíkniefna frá Afganistan til Evrópu. Við eigum ekki að taka þátt í að kristna eða siða á annan hátt fjarlægar þjóðir, sem hafa allt önnur lífsviðhorf. Við eigum ekki að taka þátt í verkum, sem bera krossmark haturs á trúarbrögðum annarra.

Aðild Íslendinga að hernámi, sem leiðir til fjöldamorða á venjulegu fólki og aukins fíkniefndavanda í Evrópu og Íslandi felur í sér stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

Jónas Kristjánsson

DV