Greinar

Hávaðamengun

Greinar

Símaviðskiptavinir þurfa oft að bíða nokkra stund eftir samtali í símakerfi fyrirtækja og stofnana. Þeir eiga í auknum mæli á hættu að sæta áreitnum og skipulegum hávaða meðan þeir bíða. Hávaðinn kemur yfirleitt frá útvarpsstöðvum, sem tengd eru símakerfum.

Þetta virðist fyrst og fremst gert, af því að tæknin gerir það kleift. Ekki stafar þetta af því, að viðskiptavinir telji þetta þægilegt eða telji þögnina svo óþægilega, að þeir taki áreitinn og skipulegan hávaða fram yfir hana. Ótti við þögn er ennþá minnihlutaeinkenni.

Að vísu er sumt fólk, einkum ungt fólk, svo innantómt og háð áreitnum og skipulegum hávaða, að það fer að titra af taugaveiklun, ef það heyrir þögn. Slíkir fíklar róast ekki fyrr en sett er í gang útvarpstæki eða annað tæki, sem framleiðir áreitinn og skipulegan hávaða.

Þetta kemur niður á hinum óbrengluðu. Ekki er einu sinni friður fyrir hávaðafíklum í heilsuræktarstöðvum, þar sem þreyttir félagsmenn stéttarfélaga endurhæfa sig með líkamlegri þjálfun. Stjórnendur slíkra stöðva ganga í lið með hávaðafíklum gegn eðlilegu fólki.

Þetta gera þeir með því að útvarpa sjálfir þessum áreitna og skipulega hávaða og með því að veita aðgang að útvarpstækjum, þar sem þeir ráða ferðinni, er vilja skrúfa hávaðatakkana sem hæst, þótt þeir séu í miklum minnihluta meðal viðstaddra viðskiptavina.

Fólk þarf að átta sig á, að eðlilegt og upprunalegt ástand felst í þögn og ýmsum óhjákvæmilegum hljóðum, svo sem brimgný, goluþyt og lækjanið, en að hinn áreitni og skipulegi hávaði úr útvarps- og hljómflutningstækjum er mengun á hinu eðlilega og upprunalega ástandi.

Á tímum tæknialdar er engin ástæða til að þurfa að þola slíka hávaðamengun. Með vasatækjum, sem kosta 2000-4000 krónur, og heyrnartækjum, er kosta 100-200 krónur, getur hver, sem óskar eftir fráviki frá þögn, haft þann hávaða, er hann kærir sig helzt um.

Í fyrirtækjum og stofnunum, þar sem sumir starfsmenn og viðskiptamenn vilja áreitinn og skipulegan hávaða, ættu þeir að geta öðlazt hann með hjálp slíkra tækja og án þess að trufla hina, sem enn eru óbrenglaðir að þessu leyti. Þannig er víða tekið á málinu.

Fráleitt er að telja rétt hávaðafíkla meiri í samfélaginu en hinna. Fráleitt er að hafa á almannafæri tæki, sem menn geta gengið í til að framleiða áreitinn og skipulegan hávaða. Og fráleitt er að útvarpa slíkum hávaða um opin hátalarakerfi eða inn á símalínur.

Á þeim stöðum, þar sem búast má við komu fólks, er sækist eftir áreitnum og skipulegum hávaða og getur ekki án hans verið, er hægt að selja 2000 króna vasatæki með einnota, 100 króna heyrnartólum, svo að það trufli ekki annað fólk með hávaðafíkn sinni.

Eðlilegt er og fyllilega tímabært, að um áreitna og skipulega hávaðamengun séu settar reglur á borð við aðrar reglur um mengunarvarnir. Það er verðugt verkefni fyrir aðgerðalítið umhverfisráðuneyti, ef það nennir að sinna öðru en ferðaþjónustu til Rio de Janeiro.

Á meðan er rétt, að eðlilegt fólk beiti þrýstingi í málinu með því að draga úr viðskiptum við fyrirtæki og stofnanir, sem varpa áreitnum og skipulegum hávaða um sali og símalínur og jafnvel út á stéttar, en beina þeim að fyrirtækjum, sem virða rétt fólks til þagnar.

Við megum ekki vera svo þjökuð af aldagamalli kúgun, að við gefum hávaðafíklum bardagalaust eftir einn af mikilvægari þáttunum í friðhelgi einkalífsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Bændur hafna lausagöngu

Greinar

Viðhorf fólks í sveitum til hefðbundins landbúnaðar breytist smám saman, þegar þar þróast nýir og arðbærari atvinnuhættir, sem eru lítið eða ekkert á herðum neytenda og skattgreiðenda. Ný sjónarmið í sveitum eiga samleið með sjónarmiðum fólks í þéttbýli.

Í Ölfushreppi hefur meirihluti sveitafólks ritað undir áskorun um hömlur á lausagangi sauðfjár. Þetta fólk vill, að sauðfjáreigendur, sem eru á 10-20 bæjum í sveitinni, girði kringum fé sitt, svo að það verði ekki til vandræða í almenningslöndum eða á landi annars fólks.

Undirskriftafólkið hefur margt hvert horfið frá hefðbundnum búskap, sem byggist á lausagöngu, og hallað sér að öðrum búgreinum, svo sem ferðaþjónustu, garðyrkju og hrossarækt, svo og annarri atvinnu, sem líkist hverri annarri atvinnu í þéttbýlisstöðum landsins.

Það hefur lengi vakið furðu þeirra, sem ekki stunda lausagöngu búfjár, að meirihlutinn skuli þurfa að girða eigur sínar til að verjast vágestum hins hefðbundna landbúnaðar, en minnihlutinn skuli komast upp með að hleypa sauðfé sínu á vegi og viðkvæman gróður.

Nágrannar sauðfjárbænda í sveitum sæta þessum vandræðum í meira mæli en þéttbýlisfólk. Undirskriftirnar úr Ölfusi sýna í hnotskurn, hver þróunin er. Smám saman mun bann við lausagöngu búfjár breiðast frá þéttbýli yfir í sveitir nýrra atvinnuhátta.

Sömu bændur og stóðu fyrir undirskriftum Ölfusinga eru að berjast fyrir banni við lausagöngu búfjár í öllu landnámi Ingólfs, það er að segja Reykjavík, Reykjaneskjördæmi og í Árnessýslu vestan Ölfusár. Afturhaldið í landinu getur ekki lengi staðið gegn slíku banni.

Þegar afnumið hefur verið bann við innflutningi hefðbundinnar búvöru og lagðar niður framleiðsluhvetjandi aðgerðir á borð við útflutningsuppbætur, niðurgreiðslur og ýmsa beina styrki og fyrirgreiðslur, þarf þjóðin ekki nema brot af þeim sauðfjárfjölda, sem nú er í landinu.

Slíkar aðgerðir eru brýnar, af því að þjóðin mun fyrr eða síðar uppgötva, að hún hefur ekki ráð á að brenna 20 milljörðum króna árlega í innflutningsbanni og framleiðsluhvetjandi aðgerðum í hefðbundnum landbúnaði, heldur þurfi hún að nota þessa peninga í annað.

Af þessu leiðir, að þjóðin á að geta losað sig við sauðfé úr nágrenni þéttbýlis, úr sveitum nýrra atvinnuhátta og af viðkvæmum móbergssvæðum, þar sem nú ríkir landeyðing, svo sem á afréttum Þingeyjarsýslu, Gullbringusýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu.

Meðan eldgos og frost, vatn og vindar voru ein um landspjöll hér á landi, var Ísland allt viði vaxið milli fjalls og fjöru og landnámsmenn gerðu meira að segja til kola á Kili, svo sem sést af fornleifum og jarðvegssýnum. Það þurfti sauðfé og öxi til að eyðileggja landið.

Þótt margt sé vel gert í landgræðslu, erum við enn á undanhaldi fyrir landeyðingu. Árlega tapast um 1000 hektarar gróðurs umfram það, sem græðist að nýju. Lausagöngubann búfjár er mikilvægur þáttur í að snúa þessu við og endurheimta gróðurfar landnámsaldar.

Bann við lausagöngu búfjár í landnámi Ingólfs mun fljótt hafa hagstæð áhrif á gróður á mjög stóru svæði, sem er afar viðkvæmt, allt suðvestur frá Reykjanestá norðaustur að Þingvöllum. Á þessu svæði eru meðal annars illa farnir afréttir Ölfuss og Grafnings.

Þegar bændur eru sjálfir farnir að sjá, að þeir skaðast af lausagöngu búfjár, er vonandi þess ekki langt að bíða, að heilum landshlutum verði lokað fyrir ágangi.

Jónas Kristjánsson

DV

Einkavæðing á villigötum

Greinar

Frumvarpið um breytingu ríkisbanka í hlutafélög hefur mætt harðri andspyrnu í stjórnarflokkunum, einkum í Alþýðuflokknum, þótt skýrum stöfum segi í stjórnarsáttmála, að þetta skuli gera. Mótbyrinn stafar af, að einkavæðing hefur fengið á sig illt orð.

Dæmi Bifreiðaskoðunar Íslands vegur þungt á metunum. Þar var dæmigerðri hallærisstofnun hins opinbera breytt í einkaokurbúlu í skjóli ríkisverndaðrar einokunar. Nú á að fella þessa einokun niður, en skaðinn af hlutafélaginu er skeður í almenningsálitinu.

Í huga fólks eru líka efasemdir um nokkur önnur nýleg einokunarfyrirtæki, sem rekin eru í hlutafélagaformi. Dæmi um það eru Sorpa og Endurvinnslan, sem hafa gert almenningi á ýmsan hátt flóknara að losna við úrgang, svo sem sýnir dæmið um gömlu jólatrén.

Umræðan um svonefndan kolkrabba hefur líka valdið mótbyr. Fólk sér til dæmis fyrir sér, að hlutabréf í núverandi ríkisbönkum féllu í skaut aðila á borð við Íslenzka aðalverktaka, Eimskipafélagið, Skeljung og Sjóvá-Almennar, sem séu eins konar ríki í ríkinu.

Draga má í efa, að þjóðarsátt sé um að einkavæða ríkisfyrirtæki. Miklu nær væri að tala um að markaðsvæða þau. Fólk vill ekki, að ríkiseinokun sé breytt í einkaeinokun, heldur að verð á vöru og þjónustu verði lækkað með því að markaðsvæða ríkisfyrirtæki.

Slíkum árangri má ná á ýmsan hátt. Það er unnt með breytingu ríkisfyrirtækja í hlutafélög og sölu hlutafjárins. En einnig má ná slíkum árangri á allt annan hátt; með því að leyfa erlendum fyrirtækjum að keppa við einokunar- eða fáokunarstofnanir og -fyrirtæki.

Sala Ríkisskipa hefur farið vel af stað og leitt til aukinnar samkeppni í vöruflutningum og lægra verðs á sumum sviðum. Koma Scandia á innlenda tryggingamarkaðinn hefur leitt til aukinnar samkeppni í tryggingum og lægra verðs á sumum tryggingum almennings.

Einkafyrirtæki, sem starfa í skjóli ríkisins, eru ekki betri en hliðstæð ríkisfyrirtæki. Það er markaðsvæðingin, sem skilar þjóðfélaginu arði, ekki einkavæðingin ein út af fyrir sig. Þetta höfðu menn ekki í huga, þegar þeir hleyptu Bifreiðaskoðun Íslands lausri á almenning.

Ráðagerðum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu virðast ekki fylgja neinar áætlanir um að markaðsvæða einkaeinokunina, hvort sem hún er hjá Íslenzkum aðalverktökum, Flugleiðum, vinnslu- og dreifingarstöðvum landbúnaðar eða bara hjá landbúnaðinum sjálfum.

Eindregin friðhelgi einkaeinokunar vekur grunsemdir um, að markmið einkavæðingar ríkisfyrirtækja sé ekki markaðsvæðing þeirra í þágu almennings, heldur einkavæðing einokunarinnar, svo að ýmsir armar kolkrabbans geti makað krókinn í stað ríkisins sjálfs.

Af ýmsum slíkum ástæðum er eðlilegt, að margir, þar á meðal forustufólk í Alþýðuflokknum, telji brýnna að setja ný lög gegn einokun og hringamyndun en lög um breytingu banka í hlutafélög. Lögin um einokun og hringamyndun eru beinlínis í anda markaðsvæðingar.

Hins vegar er allt óljóst um, hvort hlutafélagaform á ríkisbönkunum tveimur felur í sér markaðsvæðingu. Fólk vill fá tíma til að skoða, hvort það felur í sér eflda fáokun kolkrabbans eða raunverulga dreifingu peningavalds með aukinni samkeppni milli fjármálastofnana.

Nær væri að byrja á að efla lög gegn ein- og fáokun og að markaðsvæða Íslenzka aðalverktaka, Flugleiðir, vinnslustöðvar landbúnaðar og landbúnaðinn í heild.

Jónas Kristjánsson

DV

Umhverfiskeisari á ferð

Greinar

Umhverfisráðuneytið hefur pantað fjörutíu sæti til Rio de Janeiro í einum pakka. Um leið segja talsmenn ráðuneytisins, að ekki sé víst, hversu margir fari. Tilboðsverð í ferðina er þó miðað við þessi fjörutíu sæti, svo að einhver alvara hlýtur að vera að baki tölunnar.

Ráð hefur verið fyrir gert, að umhverfisráðstefnan í Rio sé aðeins til undirritunar á skjölum, sem unnið hefur verið að á öðrum fundum, þar á meðal þeim, sem að undanförnu hefur verið í New York. Þar er verið að ljúka við smíði textans, sem undirritaður verður.

Þegar sætin fjörutíu voru pöntuð, var ekki búizt við, að seinkun yrði á textasmíðinni. Þau voru því ekki pöntuð með það í huga, að vinna þyrfti einhver afrek í samningamakki á ráðstefnunni í Rio. Þau voru bara pöntuð sem hlunnindi fyrir embættismenn og maka þeirra.

Ekki þarf fjörutíu manns til að ýta á einn hnapp í Rio. Þetta er fyrst og fremst fínimannsfundur, þar sem tugir þjóðarleiðtoga fá tækifæri til að belgja sig út í ræðustól og flytja hjartnæmar umhverfisverndarræður til birtingar í ríkissjónvarpi viðkomandi lands.

Það mun taka rúma viku að flytja alla þessa langhunda. Ótrúlegt er, að einhver vinna verði að tjaldabaki við að ljúka þeim fáu atriðum, sem enn var ólokið í New York, þegar þessi leiðari var skrifaður. Þegar er búið að afgreiða atriðin, sem varða sérhagsmuni Íslands.

Ef umhverfisráðherra fer til Rio með fjörutíu manna fylgdarliði eins og rómverskur keisari að fornu, er hann ekki að gera þjóðinni gagn, heldur er hann að bruðla með peninga þjóðar, sem ekki hefur efni á fyrri útgerð sinni í velferðarmálum almennings í landinu.

Fjörutíu sæta pöntunin til Rio er dæmi um óstjórnlega ferðagleði umhverfisráðherra, sem hefur linnulítið verið á flandri síðan hann varð ráðherra. Hann reynir svo að telja fólki trú um, að kostnaður við þetta sé tittlingaskítur í samanburði við mikilvægi umhverfismála.

Í rauninni er ráðherra með ferðum sínum að útvega sér kaupauka, því að ráðstöfunartekjur hans aukast með hverjum degi, sem hann er á ferðalagi. Þótt hann stjórni langminnsta ráðuneytinu, hefur hann komið sér í fremstu röð farfugla ríkisstjórnarinnar.

Ferðasukk ráðherrans og hrokavarnir hans í fjörutíu sæta málinu sýna, að hann hefur eins og raunar fleiri stjórnmálamenn misst sjónar á, að hann er einn af mörgum umboðsmönnum smáþjóðar, sem telur aðeins fjórðung milljónar og býr við erfiðan fjárhag.

Á sama tíma og starfsmenn ráðuneytisins eru að reyna að selja öðrum ráðuneytum og aðilum úti í bæ þau sæti, sem það hefur ekki mannskap til að fylla, er verið að skera niður heilu deildirnar á sjúkrahúsum og flæma hundruð ungmenna frá langskólanámi.

Komið hefur í ljós, að helztu farfuglar ríkisstjórnarinnar ná sér í kaupauka, sem nemur hundruðum þúsunda króna á ári, og sumir ná yfir milljón krónum á ári á þennan hátt. Meðal annars fara sumir þeirra á fundi systurflokka í útlöndum á kostnað almennings.

Þjóðin getur sjálfri sér um kennt. Sem umboðsmenn hefur hún valið sér spillta eiginhagsmunamenn, er líta á ráðherradóm sem aðild að herfangi og halda því jafnvel fram, að kostnaður við bruðlið og fínimannsleikinn sé tittlingaskítur í samanburði við ýmislegt annað.

Fjörutíu manna hópferðin til Rio er eðlilegur hápunktur þeirrar stefnu, að ráðherrar séu eins konar keisarar, sem megi leika á hörpu meðan Róm brennur.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvort ræða skuli

Greinar

Dæmigert fyrir íslenzka stjórnmálaumræðu er, að undanfarna daga hefur mjög verið deilt um, hvort ræða skuli um hugsanlega aðild Íslands að Evrópubandalaginu eða ekki. Umræðan snýst að íslenzkri hefð meira um formsatriði en innihald þessa mikilvæga máls.

Á Alþingi er rætt um, hvort hugleiðingar um aðild að Evrópubandalaginu séu innanríkismál eða utanríkismál á þessu stigi og hvort utanríkisráðherra hafi farið á svig við stjórnarstefnuna með því að ræða þetta viðkvæmnismál í nýrri skýrslu sinni um utanríkismál.

Inn í umræðuna fléttast hugleiðingar um, hvort rétt sé að máta flík áður en hún sé keypt eða hvort yfirhöfuð sé rétt að máta flík, sem ekki standi til að kaupa. Á þessum gáfulegu nótum ramba þingmenn og flokksleiðtogar um ræðustól Alþingis fram á rauða nótt.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið lagzt gegn aðild að Evrópubandalaginu og færð að því margvísleg rök. Það er framlag til nauðsynlegrar umræðu um slíka aðild. Á sama hátt eru hugleiðingar utanríkisráðherra nauðsynlegt framlag til umræðunnar.

Auðvitað á að ræða aðild að Evrópubandalaginu, hvort sem menn telja umræðuna innan- eða utanríkismál og hvort sem menn vilja kaupa flík eða ekki kaupa flík. Umræðan um bandalagið á raunar að vera einn mikilvægasti þáttur þjóðmálaumræðunnar hér á landi.

Aðstæður eru alltaf að breytast og sömuleiðis mat á aðstæðum. Komið hefur í ljós, að nærri öll ríki Fríverzlunarsamtakanna líta á Evrópska efnahagssvæðið sem biðsal aðildar að Evrópubandalaginu. Við höfum hins vegar litið á efnahagssvæðið sem okkar endastöð.

Hver verður staða okkar, ef þróunin stefnir í þá átt, að Ísland og Lichtenstein verði ein vesturevrópskra ríkja utan við Evrópubandalagið um næstu aldamót og ef þá verði Austur-Evrópa á leið inn í bandalagið? Verður hafþjóðin frjálsari eða einangraðri en ella?

Spurningin verður áleitnari, ef Evrópubandalaginu tekst enn einu sinni að klúðra nýgerðum samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Það getur leitt til, að nærtækari verði tillögur um, að við sækjum um aðild að Evrópubandalaginu í samfloti með öðrum fyrir áramót.

Því er haldið fram, að við verðum að sækja um aðild til að komast að raun um, hvort við getum náð sómasamlegum samningi um fiskimiðin. Þar á ofan er því haldið fram í vaxandi mæli, að við höfum hingað til ofmetið hættuna á útlendum aðgangi að fiskimiðum okkar.

Sjávarútvegsráðherra Danmerkur segir, að regla Evrópubandalagsins um, að ekki megi spilla innbyrðis stöðugleika, komi í veg fyrir, að portúgölsk eða spænsk veiðiskip geti farið að blanda sér í hefðbundnar veiðar Íslendinga í 200 mílna fiskveiðilögsögunni.

Í nýútkominni prófritgerð Ketils Sigurjónssonar lögfræðings er bent á möguleika Íslendinga á neitunarvaldi í sjávarútvegsmálum innan Evrópubandalagsins; leiðir til að hindra kvótatöku útlendinga; og styrki bandalagsins til eftirlits og fiskveiðistjórnar.

Á móti ýmsum slíkum sjónarmiðum er svo bent á, að ekki sé víst, að um sé að ræða fyllilega fjárheldar girðingar, svo að notað sé orðaval formanns Framsóknarflokksins. Um þessi atriði og önnur slík þarf að fá fleiri álitsgerðir og efla umræðu innan Alþingis og utan.

Ef aðildarumsókn verður nytsamur þáttur í þessari leit, verður samt að tryggja, að hún leiði ekki til, að við rennum sjálfkrafa og óvart inn í Evrópubandalagið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný kynslóð ókomin

Greinar

Launafólk í landinu getur bætt kjör sín verulega og án þess að leggja út í herkostnað á borð við verkföll. Þetta getur fólk með því að skipta um forustu í stéttarfélögum og stéttasamböndum. Til skjalanna þarf að koma forusta nútímafólks, sem sér gegnum gamlar klisjur.

Hin hefðbundna aðferð kjarabaráttu felst í að heimta hærri laun í viðræðum við forustumenn samtaka atvinnurekenda og blása til verkfalla, ef tregt gengur að semja. Þessi aðferð hefur gefizt verr og verr á síðustu áratugum og er nú orðin nánast vonlaus með öllu.

Í gamla daga voru kauphækkanir einfaldlega hirtar til baka með verðbólgu og gengislækkunum. Síðan vísitölur og rauð strik komu til skjalanna hefur þurft flóknari leiðir til að eyða lífskjarabatanum, en allar ríkisstjórnin hafa fundið þær, ef þær hafa lagt sig fram.

Þetta hafa margar gamlar verkfallshetjur séð og eru því tregar til átaka af þessu tagi. Í staðinn hafa komið græningjar á borð við forustumenn kennara, sem hafa hvað eftir annað þurft að reka sig á nákvæmlega þá hluti, sem fyrir löngu voru kunnir í einkageiranum.

Langt er síðan náðist jafnvægi í hlutdeild lífskjara almennings í þjóðarbúskapnum. Síðan hefur ekki verið hægt að afla bættra lífskjara með því að sækja þau til atvinnurekenda. Þessi lexía hefur verið fyrir allra augum í nokkra áratugi, en samt skilizt fremur treglega.

Í seinni tíð hefur kjarabarátta einkum beinzt að félagsmálapökkum ríkisstjórna og loforðum þeirra um að stela ekki nýfengnum kaupmætti. Þessi aðferð hefur ekki gefizt miklu betur en hin fyrri, svo sem sést af því, að lífskjör hafa farið dalandi á síðustu árum.

Kjaraviðræður síðustu vikna eru hápunktur þessarar aðferðar. Þær hafa að litlu leyti falizt í kröfum á hendur harðskeyttum atvinnurekendum og að miklu leyti í kröfum um félagsmálapakka frá lingerðri ríkisstjórn. Þessi leið sprakk, af því að skotið var yfir markið.

Nú eru forustumenn launafólks að reyna að prófa gömlu aðferðina að nýju, en hafa ekki erindi sem erfiði, af því að forustumenn atvinnurekenda eru fastir fyrir. Hótanir um verkföll eru léttvægar, af því að við núverandi aðstæður treystir margt fólk sér ekki í átök.

Svo kann þó að fara, að verkföll séu nauðsynleg til að fólk skilji, að forustumenn launafólks eru ekki færir um að gæta hagsmuna almennings. Þeir eru stirðnaðir í gömlum hugarheimi kauphækkana og félagsmálapakka og geta með engu móti séð möguleika stöðunnar.

Nú á tímum er hægt að bæta lífskjör með því að leggja niður einokun og viðskiptahömlur. Með afnámi innflutningsbanns og einokunar í landbúnaði einum er hægt að bæta kjörin sem svarar 26.000 krónum á mánuði á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Ef launafólk hætti að tefla fram klisjungum, sem hafa sannað vangetu sína, og veldi nútímafólk til forustu í kjaramálum, væri auðvelt að bæta lífskjörin, án þess að það sé á kostnað atvinnurekenda eða ríkissjóðs. Til þess þarf bara nýtt fólk með nýjan hugsunarhátt.

Bætt kjör á Íslandi felast í afnámi viðskiptahafta, þar á meðal í fjölþjóðlegu samstarfi, svo sem með samningum í GATT, alþjóðlega fríverzlunarklúbbnum, og samningum um fríverzlun við helztu viðskiptablokkir heims, svo sem Evrópubandalagið, Bandaríkin og Japan.

Launakjör byrja fyrst að batna að nýju, þegar til forustu er komin í stéttarfélögum ný kynslóð, sem skilur nútímann. Á þeirri kynslóð örlar því miður ekki enn.

Jónas Kristjánsson

DV

Óhæfir afturhaldsmenn

Greinar

Pálmi í Hagkaupi hefur gert meira fyrir íslenzka launþega en samanlagðir íslenzkir verkalýðsrekendur. Hann hefur lækkað útgjöld heimilanna og þar með bætt lífskjörin í landinu. Hann og Jóhannes í Bónusi gegna nú því hlutverki, sem verkalýðsrekendurnir valda ekki.

Með einni stefnubreytingu gætu verkalýðsrekendur komið sér upp fyrir þá Pálma og Jóhannes í gagnsemi fyrir félagsmenn í stéttarfélögum. Þeir gætu sett á oddinn kröfuna um, að ríkið hætti að láta neytendur og skattgreiðendur borga 20 milljarða á ári í landbúnað.

Þetta gera verkalýðsrekendur ekki, enda eru þeir önnum kafnir við að tryggja sem bezt, að ekki falli niður biðlaun til opinberra embættismanna, sem eru einkavæddir og taka tvöföld laun í hálft ár. Hjarta verkalýðsrekendanna slær nefnilega ekki hjá almenningi.

Verkalýðsrekendur bera meira að segja ábyrgð á búvörusamningnum, sem gerður var fyrir ári og tryggir 20 milljarða verðmætabrennslu á hverju ári fram til ársins 1998. Verkalýðsrekendur tóku búvörusamninginn inn í þjóðarsátt sína um að hækka ekki kaupið.

Verkalýðsrekendur hafa áratugum saman verið inni á gafli í því ferli, sem byggt hefur upp skrímslið, sem brennir 20 milljörðum á hverju ári. Þeir hafa skipað sæti í fimm og sex og sjö manna nefndum, sem hafa séð um sjálfvirkan ríkisrekstur á búvöruskrímslinu.

Talan 20 milljarðar felur í sér sjálfstætt mat nokk-urra þekktra hagfræðinga í Háskólanum og Seðlabankanum á tjóni þjóðfélagsins af innflutningsbanni búvöru og af útgjöldum ríkisins til uppbóta, styrkja og niðurgreiðslna í landbúnaði og milliliðakerfi hans.

Þessir 20 milljarðar samsvara 26.000 krónum á mánuði á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þetta er herkostnaður heimilanna af samsæri landbúnaðarins og verkalýðsrekenda um þjóðarsátt, sem felur fyrst og fremst í sér frystingu á kaupi almennings.

Verkalýðsrekendur Verkamannasambandsins, Alþýðusambandsins, bandalags opinberra, kennara og háskólamanna eru sammála um að neita fjögurra manna fjölskyldunni um 26.000 króna sparnað á hverjum mánuði. Þeir mega ekki heyra þetta nefnt.

Þegar Neytendasamtökin og einstök aðildarfélög þess eru að byrja að vakna til meðvitundar um þetta meginhneyksli þjóðfélagsins og farin að byrja að amast við því, bregðast reiðir verkalýðsrekendur víða um land við á þann veg að segja sig út neytendafélagi staðarins.

Verkalýðsrekendur landsins eru afturhald, sem styður annað afturhald í landinu. Þeir hafa ekki minnsta áhuga á velferð almennings, heldur á stöðu sinni í goggunarkerfi, sem þeir hafa byggt upp með stjórnvöldum og þar sem þeir leika hlutverk stjórnarandstöðunnar.

Þess vegna eru verkalýðsrekendur um þessar mundir að reyna að setja allt á annan endann í tilraunum til að koma í veg fyrir, að ráðagerðir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum nái fram að ganga. Þeir eru að taka þátt í pólitískum menúett.

Félagsmenn stéttarfélaga bera auðvitað ábyrgð á þessari vitleysu. Þeir hafa kosið yfir sig verkalýðsrekendur, sem eru að leika ákveðið hlutverk í pólitískum menúett í goggunarkerfi stjórnvalda, en hafna því að taka til hendinni í hagsmunamálum lágtekjufólksins.

Um Pálma í Hagkaupi og Jóhannes í Bónusi verður vænn kafli í lífskjarasögu aldarinnar, en tæpast málsgrein neðanmáls um verkalýðsrekendur líðandi stundar.

Jónas Kristjánsson

DV

Með hunda á hendinni

Greinar

Ríkisstjórnin hefur þegar gengið of langt til móts við kröfur þrýstihópa vinnumarkaðarins og má ekki ganga lengra. Hún hefur í fáti boðið hefðbundinn félagsmálapakka, sem nemur 600-800 milljónum króna í kostnaði og verður fjármagnaður með nýjum lánum í útlöndum.

Í stað þess að semja sín á milli hafa afætur afkomendanna ginnt ríkisstjórnina til að leggja byrðar af lífskjörum þeirra á herðar komandi kynslóða, sem eiga að endurgreiða lánin. Með orðunum afætur afkomendanna er hér átt við þrýstihópana beggja vegna borðsins.

Þrýstihópar vinnumarkaðarins eru skipaðir þrautreyndum pókerspilurum, sem hafa reynzt ofjarlar reynslulítilla ráðherra. Forsætisráðherra virðist trúa því, að upplausn blasi við, ef ríkið taki ekki svona mikinn þátt í að koma á nýjum heildarsamningum um kjör.

Aldrei hefur ríkisstjórn verið jafn grátt leikin af pókerspilurum vinnumarkaðarins. Þeir neituðu að ræða sín í milli nema fyrst kæmi á borðið félagsmálapakki frá ríkisstjórninni. Venjulega hafa slíkir pakkar komið fram á lokastigi samninga til að leysa endahnútinn.

Rökin fyrir afskiptum af kjarasamningum, sem felast í félagsmálapökkum ríkisstjórna, er, að þeir komi á vinnufriði með því að brúa lítið bil, sem eftir stendur að loknum árangursríkum samningaviðræðum, sem eru langleiðina en ekki alla leiðina komnir í höfn.

Að þessu sinni er ekki verið að brúa neitt bil, því að ekki er einu sinni ennþá vitað, hvert bilið verður. Pókerspilarar þrýstihópanna hafa tekið félagsmálapakkanum eins og hverju öðru útspili. Þeir heimta miklu meira og eru ekkert að flýta sér að gera pókerinn upp.

Ríkisstjórnin lét taka sig á taugum. Ekkert bendir til þess, að fólk vilji taka á sig herkostnað verkfalla til að koma kostnaði af lífskjörum sínum yfir á herðar afkomendanna. Verkfallsógn út á léleg spil er ódýr blekking, sem ekki verður staðið við, þegar á reynir.

Með taugaáfallinu er ríkisstjórnin að fórna árangri, sem hún hefur náð á ýmsum sviðum. Hún glatar tækifæri til að draga úr hluta ríkisins í þjóðarbúinu, þrátt fyrir mikla fyrirhöfn, er einn ráðherrann lýsti svo, sem hann stæði blóðugur upp að öxlum í niðurskurði.

Með taugaáfallinu er ríkisstjórnin að fórna sigri sínum á verðbólgunni. Með félagsmálapakkanum mun aukast þensla í þjóðfélaginu og kaup á innfluttum vörum, svo og eftirpurn lánsfjár og þar með vextir. Verðbólgan mun aftur byrja að lyfta sér upp úr núllinu.

Áhættuna tekur ríkisstjórnin af ótta við upplausn, sem engin hefði orðið, af því að fólk vill ekki fara í verkfall. Taugaáfallið veldur því, að hún þorir ekki einu sinni að taka biðlaun af embættismönnum, sem halda áfram í starfi hjá einkavæddum ríkisfyrirtækjum.

Ef ríkisstjórnin hefði haldið sínu niðurskurðarstriki og sagt þvert nei, hefði það verið í samræmi við stefnu hennar. Margir hefðu þá virt ríkisstjórnina fyrir stefnufestu, þótt aðrir hefðu heldur kosið félagsmálapakkana. Vinsældir nást ekki einungis með vinsældakapphlaupi.

Taugaveiklun ríkisstjórnarinnar lýsir sér í öðrum myndum. Til dæmis lét hún saltfiskeinokunina hræða sig til að stöðva leyfi til óháðra útflytjenda, með röngum upplýsingum um, að þeir væru að undirbjóða einokunina. Ríkisstjórnin liggur flöt fyrir þrýstihópum.

Vondur er félagsmálapakki ríkisstjórnarinnar, en verra er, ef hún bætir við þann pakka til að þjónusta pókerspilara, sem hafa hunda eina á hendinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Játning í sjálfshrósi

Greinar

Bankastjóri Landsbankans hrósar sér af að hafa lagt 3,6 milljarða á fjórum árum í afskriftasjóð bankans til að mæta töpuðum lánum. Um leið játar hann óbeint að hafa hagað lánum bankans á þann hátt, að nauðsynlegt sé að skattleggja skilamenn svona hastarlega.

Það eru viðskiptavinir bankans, sem borga 3,6 milljarðana. Það gera þeir í formi mismunar á innláns- og útlánsvöxtum, sem er helmingi meiri hér á landi en í nálægum löndum. Þessi aukagjaldheimta bankanna spillir samkeppnisaðstöðu íslenzkra fyrirtækja.

Auðvitað ber bönkum að leggja til hliðar fjárhæðir til að verja sig áföllum, þegar illa gengur í atvinnulífinu. Brýnasta skylda hvers banka er að fara ekki sjálfur á hausinn. En langbezt er að geta haft slíkar afskriftir í hófi með því að haga lánveitingum skynsamlega.

Íslenzkum bönkum hefur farið mikið fram á allra síðustu áratugum. Mjög hefur dregið úr pólitískum lánveitingum þeirra til gæludýra kerfisins, enda hefur atvinnumönnum í bankafræðum fjölgað á kostnað afdankaðra stjórnmálamanna í æðstu stöðum bankanna.

Pólitísk fyrirgreiðsla til gæludýra, einkum þeirra, sem geta flokkað sig undir byggðastefnu, hefur færzt til sérstakra sjóða, sem hafa það verkefni að ná peningum úr arðbærri umferð og brenna þeim í hóflitlum lánum til pólitískra bjartsýniskasta af ýmsu tagi.

Hluti af óeðlilega miklum vaxtamun í bönkum stafar einmitt af því, að þeir þurfa að leggja fé á 2% raunvöxtum inn í Seðlabankann, svo að sá banki geti þjónustað hluta af peningabrennslukerfi sjóðanna. Sú bindiskylda í Seðlabanka er úrelt leif af gamalli spillingu.

Þrátt fyrir framfarir bankakerfisins er ástandið engan veginn nógu gott. Svo virðist sem ekki sé enn komin næg samkeppni milli þeirra um skynsamlegar lánveitingar. Þess vegna þarf Landsbankinn að fórna milljarði á ári til að mæta lánum, sem ekki endurgreiðast.

Til mikilla bóta væri, ef erlendir bankar fengjust til að setja upp útibú hér á landi, svo sem þegar hefur gerzt í tryggingakerfinu. Innrás erlends tryggingafélags hefur þegar lækkað verð á bílatryggingum. Innrás erlendra banka mundi vafalítið minnka vaxtamun í bönkunum.

Svo virðist sem þrír bankar dugi ekki til að fella samkeppni í eðlilegan farveg. Talan þrír felur í sér fáokun, sem er betri en einokun, en samt langt frá samkeppnislögmálum markaðarins. Að þessu leyti minna bankarnir á olíufélögin og tryggingarfélögin í landinu.

Sem dæmi um erfiðleikana við að koma íslenzkum bönkum í faglegt nútímahorf er, að ríkisvald og sumir bankar töldu sig geta náð samstöðu um að nota vaxtalækkun sem hluta af útspili ríkisvaldsins til aðila vinnumarkaðarins til að auðvelda nýja kjarasamninga.

Búnaðarbankanum má segja til hróss, að hann neitaði að taka þátt í kjarapóker, sem kemur bönkunum ekki við. Hann lækkaði sína vexti um 2% fyrir hálfum öðrum mánuði, meðan aðrir bankar héldu að sér höndum til að leyfa ríkisstjórninni að spila á vextina.

Þegar bankar telja sig geta frestað sjálfsagðri vaxtalækkun til að gera ríkisstjórninni kleift að veifa gulrót framan í aðila vinnumarkaðarins, er bankarekstur greinilega enn ekki kominn á faglegt stig. Framboð og eftirpurn, en ekki kjarapóker, eiga að ráða vöxtum.

Samkeppni að utan er sennilega eina leiðin til að létta pólitískum herkostnaði bankanna af herðum skilamanna, svo að vextir og vaxtamunur verði hóflegir.

Jónas Kristjánsson

DV

Slegizt um safnahús

Greinar

Brýnna er að lina húsnæðisþrengsli Hæstaréttar en forsætisráðuneytisins, því að húsnæði Hæstaréttar hefur verið óbreytt áratugum saman, þrátt fyrir fjölgun mála og dómara, en ráðuneytið hefur smám saman getað ýtt öðrum ráðuneytum úr stjórnarráðshúsinu.

Ennfremur er ódýrara að flytja Hæstarétt fyrir 100 milljónir í safnahúsið við Hverfisgötu en að byggja yfir hann fyrir 300 milljónir króna. Það tekur auk þess skemmri tíma að flytja Hæstarétt yfir götuna en að hanna og byggja nýtt hús á ótilgreindum stað.

Þetta hefur raunar þótt sjálfsögð afleiðing af flutningi Landsbókasafnsins í Þjóðarbókhlöðuna nýju á Melavelli og flutningi Þjóðskjalasafnsins í Mjólkursamsöluna við Laugaveg. Flestir telja, að safnahúsið við Hverfisgötu henti vel sem dómhús, til dæmis Hæstaréttar.

Landsbókasafnið er fallega hannað hús með virðulegum svip, sem hæfir æðsta dómstigi landsins. Alþingi og ríkisstjórn búa þegar í gömlum og virðulegum húsum, en þriðja valdsvið ríkisins hefur skort hliðstætt húsnæði fyrir virðulegustu stofnun sína, Hæstarétt.

Með því að flytja Hæstarétt í safnahúsið er tiltölulega varanlega séð fyrir húsnæðisþörfum stofnunarinnar, enda er það sanngjarnt, því að sú stofnun hefur setið eftir á sama tíma og húsnæði Alþingis og einkum ríkisstjórnar hefur þanizt út um allar trissur.

Húsnæðisþörf Alþingis má leysa með því að kaupa skrifstofuhús Pósts og síma við Austurvöll og nota fyrir skrifstofur. Það hús má tengja neðanjarðar við gamla Alþingishúsið, sem yrði áfram fundarsalur. Því þarf ekki að byggja hið forljóta verðlaunahús Alþingis.

Póstur og sími rekur sama sem enga almannaþjónustu í Kvosinni. Sú stofnun þarf ekki nema sem svarar rými einnar verzlunar á þeim slóðum, en getur að öðru leyti haft sínar skrifstofur hvar sem er í borginni. Eðlilegt er, að stofnunin víki fyrir Alþingi við Austurvöll.

Raunar er afleitt, þegar opinberar stofnanir eða bankar þenja sig út í gömlum borgarkjörnum og hrekja á brott aðra starfsemi, sem gæðir slíka kjarna lífi. Það eru einkum bankarnir, sem hafa eyðilagt Kvosina í Reykjavík. Betra er að hafa skrifstofublokkir annars staðar.

Það er nýtt af nálinni, að forsætisráðuneytið telji sig þurfa meira pláss eftir að hafa hrakið önnur ráðuneyti úr stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Ef það er rétt, kemur vel til greina að hafa hluta ráðuneytisins í húsinu fyrir aftan, þar sem áður var menntaráðuneytið.

Forsætisráðuneytið ásælist safnahúsið við Hverfisgötu. Það er skiljanlegt, því að það hús getur auðvitað hentað til slíkra nota. En betra er að spilla ekki fyrir fyrri hugmyndum um flutning Hæstaréttar þangað og leysa heldur meintan vanda ráðuneytisins á annan hátt.

Stjórnendur forsætisráðuneytisins vilja byggja yfir Hæstarétt til að losna við keppinautinn um hús Landsbókasafnsins, þótt ráðuneytisstjórinn haldi fram, að ekkert samhengi sé þar á milli. Ummæli hans verða túlkuð sem hefðbundinn tunguklofi embættismanns.

Eini kosturinn við ásælni forsætisráðuneytisins er, að hún flýtir fyrir opnun Þjóðarbókhlöðunnar á Melunum. Ráðuneytið mun af hefðbundnum tvískinnungi ekkert til spara til að ná fram vilja sínum og þægindum, en sér eftir hverri krónu, sem fer í Hæstarétt.

Forsætisráðuneytið mun hafa sitt fram, en hefur af því lítinn sóma, enda er hann ekki æðsta boðorð þess. Þetta er eins og við er að búast af fyrri reynslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Flæmingur og skætingur

Greinar

Verðlagsstjóri fer undan í flæmingi, þegar hann er spurður um óvenjulega viðskiptahætti Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, og hann fer undan í skætingi, þegar hann telur sig þurfa að svara rökfastri gagnrýni á verðmyndun afurða frá vinnslustöðvum mjólkuriðnaðarins.Verðlagsstjóri hefur löngum verið hallur undir milliliði landbúnaðarins. Hann hefur að mestu látið þá í friði, þótt hvergi sé meiri ástæða til að halda uppi varðgæzlu fyrir neytendur vegna verðstýringar, samkeppnishamla og vafasamra viðskiptahátta af ýmsu tagi.

Verðlagsstjóri taldi á sínum tíma Grænmetisverzlun landbúnaðarins vera utan verksviðs síns, þótt hún væri illræmdust allra einokunarstofnana. Hann tók með silkihönskum á margföldun eggjaverðs í skjóli einokunar, sem komið var á fót fyrir rúmlega fjórum árum.

Vinnuregla verðlagsstjóra hefur verið að hafa ekki frumkvæði að rannsóknum og eftirliti á verðmyndun og viðskiptaháttum milliliða landbúnaðarkerfisins og láta draga sig með semingi út í slíkt, ef ekki verður undan vikizt vegna krafna frá fórnardýrum þessa kerfis.

Verðlagstjóri varði að eigin sögn tveimur dögum í síðustu viku í að hlusta á varnir Mjólkursamsölunnar, áður en hann gaf sér tíma til að hlusta á vitni þeirra aðila, sem sökuðu einokunarstofnunina um óheiðarlegar tilraunir til að bola samkeppnisaðila út af markaði.

Meðan verðlagsstjóri ræddi lon og don við vini sína í Mjólkursamsölunni, hlóðust upp sönnunargögn í fjölmiðlum. Kaupmenn báru vitni um viðskiptahætti einokunarstofnunarinnar og birt voru ljósrit af reikningum frá henni til stuðnings gagnrýninni.

Rannsóknarnefnd verðjöfnunar, sem starfaði á vegum iðnaðarráðuneytisins, hefur skilað skýrslu, sem felur í sér gagnrýni á vinnubrögð verðlagsstjóra og vina hans í svokallaðri fimmmannanefnd, sem er ábyrg fyrir vitleysunni í verðmyndun hjá milliliðum landbúnaðar.

Skýrslan sýnir ljóslega, hvernig mjólkuriðnaðurinn og mjólkurdreifingin hleður undir sig eignum í skjóli einokunar og sjálfvirkra verðhækkana. Eiginfjárstaða þessarar greinar er í skjóli verðlagsstjóra orðin 65%, margfalt betri en tíðkast í öðrum atvinnuvegum.

Skýrslan sýnir ljóslega, hvernig mjólkuriðnaðinum er gefinn kostur á að blanda og rugla saman fjárfestingar- og rekstrarkostnaði við framleiðslu niðurgreiddra einokunarafurða og afurða, sem framleiddar eru í samkeppni við aðra, svo sem brauðs, ávaxtasafa og jógúrtar.

Verðlagsstjóri og fimm manna nefnd hans hafa ekki gert tilraun til að fá metið óhlutdrægt, hver sé raunverulegur stofnkostnaður og rekstrarkostnaður við þætti á borð við brauðgerð, ísgerð og jógúrtgerð annars vegar og við hefðbundnar niðurgreiðsluvörur hins vegar.

Blandaður rekstur af þessu tagi, þar sem annar þátturinn er greiddur af þjóðfélaginu, hlýtur að kalla á nákvæma sundurgreiningu, þótt verðlagsstjóri hafi látið hana undir höfuð leggjast af kerfislægri tillitssemi hans við einokunarstofnanir milliliða landbúnaðarins.

Verðlagsstjóri hafnar niðurstöðum nefndar iðnaðarráðuneytisins og segir skýrslu hennar fulla af reikniskekkjum, rangtúlkunum og aðdróttunum, sem muni vekja úlfúð og leggjast illa í menn. Virðist hann þar eiga við vini sína í vinnslustöðvum landbúnaðarins.

Vegna alls þessa er ekki hægt að gera ráð fyrir, að verðlagsstjóri gæti hagsmuna neytenda, þegar í húfi eru einokunarhagsmunir milliliðakerfis landbúnaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV

Núllrekstur sjávarútvegs

Greinar

Núllrekstur hefur áratugum saman verið stefna íslenzkra stjórnvalda í sjávarútvegi. Þrír aðilar hafa tekið höndum saman um að framkvæma þessa stefnu, ríkisstjórnir, Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki. Með þessu hefur verið aflað fjár til annarra þarfa þjóðfélagsins.

Þjóðhagsstofnun hefur fengið reikninga fyrirtækja í sjávarútvegi og reiknað út, hversu langt frá núlli meðalreksturinn sé. Seðlabankinn hefur séð um að ofmeta gengi krónunnar, svo að gengið lækki ekki fyrr en sjávarútvegurinn er kominn nokkuð niður fyrir núllið.

Seðlabankinn er ekki sökudólgurinn í máli þessu, heldur þjóðin sjálf, sem vill komast yfir verðmætin, sem sjávarútvegurinn aflar. Hún stendur að baki þingflokkanna, er hafa komið á fót ríkisstjórnum af ýmsu tagi. Þessar ríkisstjórnir hafa allar viljað núllrekstur.

Þjóðfélagið í heild hefur blóðmjólkað sjávarútveginn til að fólk geti lifað góðu lífi í öðrum atvinnuvegum og til að þjóðin rekið umfangsmikið velferðarkerfi, sem einkum beinist að hefðbundnum landbúnaði og að frystingu byggðar í því ástandi, sem það er á hverjum tíma.

Það broslega í þessu er, að hagsmunagæzlumenn sjávarútvegsins hafa ekki gert bandalag við hagsmunagæzlumenn Reykjavíkursvæðisins um að létta af þessari blóðmjólkun, heldur hafa þeir gert bandalag við hagsmunagæzlumenn landbúnaðar og byggðastefnu.

Þrýstihópar sjávarsíðunnar hafa stutt þetta kerfi, af því að hún hefur fengið ruður af nægtaborði byggðastefnunnar. Hún hefur verið litli bróðir í sníkjubandalagi með þeim aðilum, sem hafa skipulega rænt hana afrakstrinum af mikilli framleiðni í sjávarútvegi.

Ráðamenn eru sammála um, að sjávarútvegur megi ekki lúta lögmálum markaðskerfis. Þeir eru sammála um, að hann eigi að koma út á núlli samkvæmt reikningum í Þjóðhagsstofnun og að gengi krónunnar megi ekki lækka fyrr en mínus er kominn í sjávarútveg.

Með skráningu á gengi krónunnar tekst þjóðinni að lifa um efni fram á kostnað sjávarútvegs. Stundum eru gerðar um þetta þjóðarsáttir, þar sem ríkið ábyrgist gagnvart forustumönnum launafólks og fyrirtækja, að verðlag hækki lítið og krónugengi lækki ekki.

Miðstýring sjávarútvegs hefur farið vaxandi. Veiðar eru reyrðar í viðja kvótakerfis og reynt er að hamla gegn þróun arðbærustu þáttanna með því að takmarka útflutning á ferskum fiski. Stofnanir og nefndir og ráð og ráðuneyti stjórna stóru sem smáu í sjávarútvegi.

Í stað núllrekstrar, gengisverndar og annarrar miðstýringar ætti að koma á fót markaðsbúskap og auðlindaskatti í sjávarútvegi. Á þann hátt fengi sjávarútvegurinn að njóta afraksturs af framleiðni sinni og þjóðfélagið gæti skattlagt auðlindina á takmarkaðan hátt.

Þjóðin er þessu andvíg, af því að hún vill halda áfram að lifa um efni fram í skjóli gengisskráningar og að ná tugum milljarða á hverju ári til að brenna á altari hefðbundins landbúnaðar og byggðastefnu. Um allt þetta er þjóðarsátt, sem sjávarútvegurinn haggar ekki.

Gengislækkunarhugmyndir eiga sérstaklega lítinn hljómgrunn um þessar mundir, af því að verðbólga er næstum horfin og komandi kjarasamningar snúast sennilega um varðveizlu lífskjara á óbreyttu verðstigi. Ytri aðstæður eru sjávarútvegi á þann hátt óhagstæðar.

Sjávarútvegur verður alltaf utangarðs dráttardýr í þjóðfélagi miðstýringar og þjóðarsátta, gengisverndar og núllrekstrar, landbúnaðar og byggðastefnu.

Jónas Kristjánsson

DV

Viðskiptahættir einokunar

Greinar

Skýrt hefur verið frá dæmi, sem styður fullyrðingu Baulu um, að Mjólkursamsalan bjóði kaupmönnum afslátt, ef þeir hætti að selja vörur frá Baulu. Þetta dæmi er í stíl miður skemmtilegra viðskiptahátta, sem hafa einkennt þetta einokunarfyrirtæki áratugum saman.

Mjólkursamsalan hefur notað einokunaraðstöðu sína til að halda niðri keppinautum og til að ryðjast inn á nýja markaði. Þannig breyttist ís úr dýrri vöru í ódýra, þegar Kjörís fór að keppa við Mjólkursamsöluna. Þannig setti hún upp eina stærstu brauðgerð landsins.

Rekstur Mjólkursamsölunnar er víðtækur og reikningar hennar á þann veg, að erfitt er að meta, hvaða kostnaður fylgir hvaða vörutegund. Auðvelt er fyrir hana að meta tiltölulega hátt þann kostnað, sem fylgir vörum, sem eru niðurgreiddar af skattgreiðendum.

Þetta þýðir, að auðvelt er að meta tiltölulega lágt þann kostnað, er fylgir vörum, sem eru í samkeppni við vörur annarra. Þetta gildir um ýmsan vélakost, svo sem átöppunarvélar, sem notaðar eru fyrir mjólk og safa. Þetta gildir um flutninga vörunnar til smásala.

Ef Mjólkursamsalan metur tiltölulega hátt kostnað sinn við niðurgreiðslu- og einokunarvörur á borð við mjólk, hefur það áhrif til hækkunar á útreikningum kerfisins á því, hversu dýr mjólk skuli vera. Mjólkursamsalan fær þennan meinta kostnað greiddan að fullu.

Gróðann af þessu getur Mjólkursamsalan svo flutt til og notað til að greiða niður þær vörur sínar, sem eru í samkeppni við aðra, svo sem brauð, ávaxtasafa, ís og jógúrt. Þannig getur hún með tilfærslum náð óeðlilegri samkeppnisaðstöðu og bolað öðrum út af markaði.

Á sínum tíma koma greinilega í ljós, að fæðing Kjöríss leiddi skyndilega til þess, að ís Mjólkursamsölunnar hætti að hækka í takt við aðrar vörur hennar og er nú orðinn að tiltölulega ódýrri vöru. Jafnframt hefur hún reynt að bola Kjörís burt með að kaupa upp ísbúðir.

Á fleiri sviðum hefur komið í ljós, að Mjólkursamsalan hundsar hagsmuni neytenda. Með myndatöku tókst á sínum tíma að sanna, að hún dagstimplaði mjólk átta daga fram í tímann, þótt aðeins þrír dagar væru leyfilegir og alls fjórir með undanþágu heilbrigðisyfirvalda.

Einokunaraðstöðu sína hefur Mjólkursamsalan meðal annars notað til að reisa sér mikið musteri á Bitruhálsi. Sú höll er reist á kostnað mjólkurneytenda samkvæmt áðurnefndu útreikningskerfi, sem færir Mjólkursamsölunni gríðarlegt mjólkurverð á silfurdiski.

Í höllinni eru brugguð ráð, sem sífellt leiða til kvartana um óeðlilega viðskiptahætti af hálfu Mjólkursamsölunnar. Kaupmenn hafa kvartað um, að hún hóti lélegri og seinni afgreiðslu á mjólkurvörum, ef þeir hossi ekki brauðum hennar á kostnað brauða frá bökurum.

Mesta furða er, að Kjörís skuli árum saman hafa lifað af óframkvæmanlega samkeppni við Mjólkursamsöluna. Og engin furða er, þótt Baula sé að kikna undan samkeppninni. Ef þessi tvö fyrirtæki hverfa, getur Mjólkursamsalan að nýju hækkað verð á ís og jógúrt.

Á tímum markaðsbúskapar er Mjólkursamsalan alger tímaskekkja í atvinnulífinu. Markaðshyggjumenn ættu að beina kröftum sínum að afnámi hennar í stað þess að sóa þeim í tilraunir til að búa til einkaeinokun úr ríkiseinokun í stíl Bifreiðaskoðunar Íslands.

Ef vinnsla, dreifing og sala á mjólkurvörum verður frjáls, mun verð þeirra lækka, því að þá þurfa neytendur ekki að greiða stríðskostnað Mjólkursamsölunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Holdanautin afskrifuð

Greinar

Nú er komið að lokum Galloway-martraðarinnar, sem hefur kostað skattborgara landsins meira en hundrað milljónir króna. Landgræðslustjóri hefur tekið af skarið, neitar að ala meira af slíkum nautgripum í Gunnarsholti og vill losna við þetta vandræðakyn úr ræktun.

Gunnar Bjarnason ráðunautur hafði rétt fyrir sér í þessu eins og ýmsu öðru, þegar hann mælti gegn því, að þetta lélega nautakyn yrði flutt til landsins og sett upp rándýr einangrunarstöð í Hrísey. Landbúnaðarkerfið hlustaði ekki á þessa gagnrýni frekar en aðra.

Komið hefur í ljós, að Galloway-gripir eru skapþungir og jafnvel illskeyttir í fjósi. Það veldur íslenzkum bændum nokkrum erfiðleikum og er meginástæða þess, að landgræðslustjóri og nautgripanefnd Búnaðarþings vilja nú falla frá hinum langvinnu mistökum.

Landbúnaðarkerfið hefur minni áhyggjur af hinu, sem er alvarlegra, að Galloway-kjötið er mun lakara en kjötið af gamla íslenzka nautakyninu. Landbúnaðarkerfið hefur löngum ætlazt til, að neytendur snæði það, sem að þeim er rétt, án þess að vera með múður.

Oft hefur verið bent á, að holdanautakjötið væri bæði seigt og vont. Í umsögnum DV um veitingahús hefur fólk verið varað við að panta nautakjöt, nema á þeim veitingastöðum, sem eingöngu bjóða feitt og annars flokks kjöt af hinu hefðbundna íslenzka nautakyni.

Það er annað dæmi um ruglið í landbúnaðarkerfinu, að ólseigir sultarskrokkar eru settir í fyrsta verðflokk, en feitir skrokkar með meyru kjöti eru settir í annan verðflokk. Svona haga menn sér, þegar þeir eru orðnir alveg sambandslausir við þarfir markaðarins.

Galloway-holdanautin voru aldrei miðuð við þarfir markaðarins. Ef hugað hefði verið um neytendur, hefði verið valið betra nautakyn, svo sem Angus, sem hefur rutt Galloway úr Bretlandi eða hið franska Charolais, sem margir telja bragðbesta nautakjöt í heimi.

Ef nú verður reynt að flytja nýtt nautakyn til landsins, er óþarfi að nota til þess rándýra einangrunarstöð í Hrísey, sem kostar í rekstri sjö milljónir króna árlega. Flytja má til landsins frjóvguð egg og hefja ræktunina í tilraunastöðinni á Keldum, þar sem aðstaða er góð.

Ímyndaðar öryggiskröfur voru notaðar til að kaupa atkvæði á Norðurlandi eystra, þegar ákveðið var að reisa einangrunarstöð í Hrísey. Koma þurfti upp húsakynnum og búnaði, sem þegar var til á Keldum, og ráða starfsfólk, sem ekki hefði þurft að ráða á Keldum.

Nokkrar verstu hliðar núverandi landbúnaðarkerfis komu fram í holdanautamálinu. Valið var úrelt kyn, sem útlendir bændur vildu ekki nota, mun lakara en það, sem til var fyrir hér á landi. Valið var kyn, sem valfrjálsir neytendur í öðrum löndum höfðu áður hafnað.

Þetta er miðstýrt kerfi, þar sem markaðslögmál eru að engu höfð. Nokkrir valdamiklir og ábyrgðarlausir karlar ákveða, hvaða nautakjöt Íslendingar eigi að borða og að styðja skuli í leiðinni byggð í Hrísey. Þeir ákveða í fílabeinsturni að kasta fé skattgreiðenda á glæ.

Þessir karlar í Bændahöllinni ákváðu, að nautgripir, sem eru vanir kulda og vosbúð á afskekktum og einangruðum heiðum í Skotlandi, hlytu að henta íslenzkum bændum, sem þó hafa gripi sína yfirleitt í sæmilega hlýjum fjósum. Á þessum grunni var búin til martröð.

Eftir meira en hundrað milljón króna tjón þjóðarinnar hefur svo komið í ljós, að enginn vill hafa neitt af holdanautunum að segja, hvorki neytendur né bændur.

Jónas Kristjánsson

DV

Nunnur til bjargar

Greinar

Nunnurnar í Landakoti hafa tekið af skarið og komizt að niðurstöðu, sem er þjóðinni hagkvæm. Þær hafa veitt sameiningarmáli Borgarspítala og Landakotsspítala í þann tiltölulega farsæla farveg, að alls ekki verður af hinni dýru og óhagkvæmu sameiningu að sinni.

Sjónarmið nunnanna í Landakoti munu reynast farsælli en handarbakavinnubrögð í ráðuneyti og nefndum og ráðum, er gerðu sameininguna að farsa, sem tók skyndilegum vendingum vikulega eða oftar, án þess að málsaðilar gætu útskýrt hinn meinta sparnað.

Þegar aðstoðarmaður ráðherra túlkaði kurteislegt neitunarbréf þeirra sem jáyrði, var mælir farsans orðinn fullur. Nunnurnar sögðu þá einfaldlega nei, svo ekki varð um villzt. Og stjórnvöld höfðu áður samþykkt, að þær mættu eiga síðasta orðið.

Nunnurnar hafa með beitingu neitunarvalds komið í veg fyrir, að ríkið fjárfesti um milljarð í sameiningu Borgarspítala og Landakots, og þar af tæplega hálfan milljarð á þessu þrengingarári ríkissjóðs. Neitunin linar fjárskortsþjáningar ríkisins og heilbrigðisgeira þess.

Að sinni verður niðurstaðan sú, að bráðaþjónusta leggst niður á Landakotsspítala og verður aðeins veitt á Landspítala og Borgarspítala. Hið dýra úthald bráðaþjónustunnar verður því á tveimur stöðum í stað þriggja. Af því mun hljótast nokkur sparnaður.

Jafnframt verður nýtt aðstaða og þekking, sem til er á Landakotsspítala á ýmsum sérsviðum, þannig að í stórum dráttum verður óbreyttur rekstur á spítalnum að öðru leyti en því, að bráðaþjónustan leggst niður. Hann verður spítali, sem tekur sjúklinga af biðlistum.

Eftirtektarverðast er í sameiningarfarsanum, hversu langt var hægt að komast gegnum kerfið með þá firru, að sameining upp á milljarð í kostnaði leiddi til sparnaðar, þótt ljóst megi vera, að vextirnir einir af milljarðinum nema tæpum hundrað milljón krónum á hverju ári.

Svo virðist sem farsinn hafi átt upptök sín í heilbrigðismálanefnd Sjálfstæðisflokksins, þar sem sameinaðir voru hagsmunir Borgarspítala af ríkisfjármögnun á stækkun hans, og hagsmunir smákónga af Landakotsspítala af að komast í öruggari haga í Fossvogi.

Hugmyndin fékk stuðning í ráðuneyti heilbrigðismála, sem á fleiri sviðum hefur reynzt styðja undarleg og annarleg sjónarmið, eins og kom fram í deilunni um náttúrulækningahælið í Hveragerði. Ráðuneytismenn göbbuðu ráðaherra sinn til að keyra málið áfram.

Heilbrigðisráðherra fór af sínum alkunna krafti og sínu alkunna offorsi í sameiningarmálið, þótt hann væri þar aðeins peð í tafli ráðuneytis og hagsmunaaðila úti í bæ. Fyrir bragðið lenti hann í spjótalögum víglínunnar og mæddist af sárum í almenningsálitinu.

Ekki tók betra við, þegar reikniglöggur maður, sem er aðstoðarmaður ráðherra, tók að sér að hvíla ráðaherrann í vonlausu stríði fyrir vonlausum málstað. Þá komst farsinn á það stig, að enginn vissi lengur, hver hafði umboð fyrir hvern og hver hafði samþykkt hvað.

Hvorki ráðherra né aðstoðarmaður hans hafa sjálfir neina innri sannfæringu eða trú á sameiningunni, sem þeir hafa haft svo mikið fyrir að reyna að knýja fram. Þeir eru nánast hinir nytsömu sakleysingjar í málatilbúnaði, sem stofnað var til í innanflokksnefnd úti í bæ.

Sem betur fer fékk farsinn farsælan enda eins og hjá Moliïere. Það var fyrst og fremst að þakka nunnunum, sem höfðu vit fyrir ráðamönnum og sérfræðingum.

Jónas Kristjánsson

DV