Greinar

Íslenzka á undanhaldi

Greinar

Kynslóðirnar tala minna saman en áður var, þegar þjóðlíf og atvinnuhættir voru með fábreyttara lagi. Foreldrar eru sjaldan heima og uppeldisvenjur nútímans eru frjálslegri en áður. Börn og unglingar fá uppeldi sitt að meira eða minna leyti hjá jafnöldrum sínum.

Reynt hefur verið að láta skólana taka við umtalsverðum hluta af uppeldishlutverki foreldra. Í stórum dráttum tekst það sæmilega, svo sem sést af því, að þjóðfélagið heldur áfram að blómstra. Á sumum sviðum hefur þó orðið merkjanleg afturför í uppeldi.

Íslenzkukunnátta er eitt af því, sem hrakað hefur. Fyrir þremur áratugum mátti reikna með því að óathuguðu máli, að umsækjendur um starf í blaðamennsku kynnu sæmilega íslenzku. Nú verður hins vegar að gera ráð fyrir því fyrirfram, að þeir kunni hana ekki.

Líklegt er, að vangeta skólakerfisins á þessu sviði stafi sumpart af nýtízkulegri óbeit þess á öllu, sem erfitt er. Málfræði og setningarfræði hafa orðið að víkja fyrir óáþreifanlegu snakki um bókmenntir og marklausri hópvinnu, þar sem einn vinnur fyrir alla.

Skólanemendur venjast því að geta flotið meira eða minna áhuga- og meðvitundarlítið upp skólastigann með þátttöku í fúski og leikjum og á baki annarra í svokallaðri hópvinnu, sem stjórnunarfræðilega er sannað, að skilar ekki árangri, er jafnast á við einkavinnu.

Sumpart stafar vangeta skólakerfisins á þessu sviði, að það lítur enn á íslenzku sem ritmál fyrst og fremst. Skólanemendur fá lítil tækifæri til að þjálfast í að tjá sig á skipulegan og frambærilegan hátt í mæltu máli. Þetta hefur dýpkað gjána milli talmáls og ritmáls.

Þetta misræmi heldur svo áfram í fjölmiðlunum, sem óbeint taka við uppeldishlutverki á sviði íslenzkrar tungu, þegar skólunum sleppir. Annars vegar eru blaða- og bókaútgáfur með á sínum snærum fjölmennar sveitir handrita- og prófarkalesara, sem hreinsa texta.

Á DV einu eru um fimm störf fólgin í að laga texta, einkum þann, sem berst blaðinu í auglýsingum, greinum og bréfum utan úr bæ. Þannig verður textinn, sem lesendur sjá, mun vandaðri en hann var í upphafi. Svipaða sögu er að segja um flest annað prentað mál í landinu.

Á hinn veginn eru svo talaðir fjölmiðlar, sem ekki virðast leggja áherzlu á síu af þessu tagi. Ríkisútvarpið hefur aðeins einn málfarsráðunaut fyrir útvarp og sjónvarp. Ekki er vitað um neinn slíkan á einkastöðvunum. Afleiðingar áhyggjuleysis láta ekki á sér standa.

“Valvan” fór “tvem” sinnum “erlendis” og var “talva” “evst” á lista, er hún “verzlaði” gjafir í fríhöfninni. Fábjánalegt orðaval af þessu tagi heyrist nær daglega í útvarpi og sjónvarpi, án þess að þær stofnanir geri neina alvarlega tilraun til að útrýma ruglinu.

Enn alvarlegra er raunar, að hefbundin hrynjandi íslenzku er að víkja fyrir útlendri hrynjandi. Plötusnúðar hafa tamið sér enska hrynjandi, sem fellur illa að íslenzku. Fréttamenn, sem koma úr námi frá Norðurlöndum, söngla sumir norska og sænska hrynjandi.

Útvarps- og sjónvarpsstöðvar ættu að verja svipaðri orku og fé til grisjunar og hreinsunar á talmáli og útgefendur blaða og bóka gera á ritmáli. Að öðrum kosti er hætta á, að talmál fjarlægist ritmál enn frekar og stefni hratt í átt til útlendra orða og útlendrar hrynjandi.

Í heimi aukinna samvelda og ríkjabandalaga felst tilveruréttur sjálfstæðrar þjóðar fyrst og fremst í tungumáli og þjóðarsögu. Og íslenzk tunga er á undanhaldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópuþrýstingur

Greinar

Norrænt samstarf með hefðbundnu sniði hefur gengið sér til húðar. Við blasir norrænt samstarf innan Evrópubandalagsins og sérstakt samstarf við löndin sunnan og austan Eystrasalts, Þýzkaland, Pólland og baltnesku ríkin, hvort tveggja án beinnar aðildar Íslands.

Á þingi Norðurlandaráðs kom skýrt fram, að þeir, sem eru á leið inn í Evrópubandalagið, telja, að verkefni muni flytjast frá Norðurlandaráði til bandalagsins. Má ráðið þó ekki við mikilli fækkun raunverulegra verkefna, því að mest stundar það atvinnubótavinnu.

Ár og dagur er síðan eitthvað kom af viti úr samstarfi 23 norrænna embættismannanefnda, 74 norrænna stofnana, 152 norrænna nefnda og úr 2000 norrænum verkefnum. Það er því ekki mikið misst, þótt Norðurlandaráð og fylgifiskar þess fái hægt andlát.

Áhugi norrænna stjórnmálaforingja beinist hreint og beint að Evrópubandalaginu og að nokkru leyti að Eystrasaltsráðinu, sem hefur verið stofnað án beinnar aðildar Íslands. Við erum að eingangrast í tilgangslitlu Norðurlandaráði og fáliðuðum Fríverzlunarsamtökum.

Mjög er þrýst af norrænni hálfu á íslenzka stjórnmálamenn að draga Íslendinga inn í Evrópubandalagið. Því er haldið fram, að norrænt samstarf muni rísa að nýju á iðavöllum bandalagsins, en að öðrum kosti blasi við hnignun í einangrun utan fyrirheitna landsins.

Sterk bein þarf til að þola þennan þrýsting, jafnvel þótt ekki séu ljósir hinir beinu viðskiptahagsmunir okkar af aðildinni umfram það, sem fæst af þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu. Okkur hefur ekki tekizt að koma upp iðnaði til að ráðast á Evrópumarkaðinn.

Enn eru í fullu gildi flestar efasemdir, sem áður hafa verið notaðar gegn bandalagsaðild. Landbúnaðarstefna bandalagsins er óhugnanlega dýr í rekstri og fjandsamleg neytendum. Hún mun á næstunni leiða til alvarlegra viðskiptaátaka í vestrænu samstarfi.

Evrópubandalagið er alls ekki lýðræðisleg stofnun. Þing þess er valdalítil og fremur ábyrgðarlítil ráðgjafarsamkoma. Það fær litlu ráðið gegn ofurveldi stjórnlyndra embættismanna, sem eru í nánu samstarfi við þrýstihópa stórfyrirtækja og samtaka stórfyrirtækja.

Embættismenn og þrýstihópar Evrópubandalagsins eru að reisa tollvirki, sem stefnt er gegn Bandaríkjunum og Japan og mun leiða til vandræða í alþjóðaviðskiptum á næstu árum. Bandalagið er árásargjarnt og þverlynt í viðskiptum, svo sem við höfum fengið að reyna.

Efnislega á fiskveiðiríki á borð við Ísland lítið erindi í ólýðræðislegt og verndarsinnað tollvirki, sem starfar eins og risavaxið landbúnaðarráðuneyti. En viðskiptahagsmunir kunna fyrr eða síðar að þvinga okkur til að sækja um aðild, þótt það sé okkur þvert um geð.

Þegar íslenzkur landbúnaður uppgötvar, að Evrópubandalagið er himnaríki fyrir úrelta atvinnuvegi, og þegar Íslendingar uppgötva um leið, að þeir hafi ekki lengur ráð á hefðbundnum landbúnaði, er hætt við, að við finnum ómótstæðilega þörf á að ganga inn í virkið.

Þegar það hefur gerzt, mun koma í ljós, að embættismenn Evrópubandalagsins líta á íslenzka hagsmuni eins og hverja aðra skiptimynt í víðara samhengi. Við munum missa yfirráð yfir auðlindum okkar, fiski og orku, ef við verðum ekki þeim mun betur á varðbergi.

Það verður upphafið að endalokunum, þegar við erum orðnir feitir bandalagsþrælar. Affarasælla er, að Ísland sé sín eigin þungamiðja og miðpunktur heimsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Sparnaður séra Jóns

Greinar

Engin vettlingatök duga, þegar rekstrarhalli fyrirtækis er kominn upp fyrir einn tíunda hluta af veltu þess. Vafasamt er, að einkafyrirtæki stæðist slíka raun í nokkur ár, enda gæti það ekki látið prenta fyrir sig peninga í Seðlabankanum eins og ríkið lætur gera.

Ríkissjóður var í fyrra rekinn með 11% halla, 12,5 milljörðum af 112 milljarða veltu. Í heild nam lánsfjárþörf hins opinbera 40 milljörðum króna. Sú tala ein nemur 11% af landsframleiðslu og er þá eftir að bæta við annarri lánsfjárþörf atvinnulífs og einkaaðila.

Við þessar óvenjulegu aðstæður er einkennilegt, að ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar skuli kjósa að staðfesta búvörusamning, sem felur í sér meira en milljarðs raunaukningu á þessu ári í útgjöldum til uppbóta og uppbótaígilda af ýmsu tagi til landbúnaðarins.

Við þessar óvenjulegu aðstæður er einkennilegt, að ríkisstjórnin skuli kjósa að halda næstum fullum dampi á ferðahvetjandi launaaukum ráðherra, svo og á öðrum lúxusútgjöldum, sem tengjast kostnaði ríkisins við halda uppi ráðherrum á ferð og flugi um land og heim.

Við þessar óvenjulegu aðstæður er einkennilegt, að ríkisstjórnin skuli kjósa að láta skoða hið risastóra hús Sambands íslenzkra samvinnufélaga sem hugsanlega vistarveru heilbrigðisráðuneytisins, er hyggst færa út kvíarnar á sama tíma og það lokar deildum sjúkrahúsa.

Ofan á ýmsar slíkar furður hefur nú bætzt sú hugmynd, að ríkið taki þátt í að reisa og ábyrgjast hér á landi 40-100 milljarða verksmiðju til að framleiða sjóhelda rafmagnskapla. Er þetta virkilega rétti tíminn til að tala um upphæðir af svo stjarnfræðilegu tagi?

Milligöngumaður hins opinbera í máli þessu er hinn frægi eyðslufíkill, sem nefnist Landsvirkjun. Sú stofnun hefur afrekað að reisa heilt orkuver við Blöndu, án þess að fyrirsjáanlegur sé neinn kaupandi að orkunni. Orkunotendur borga mánaðarlega brúsann af Blönduruglinu.

Ef verkfræðingar úti í bæ fá góða hugmynd, er sanngjarnt og eðlilegt, að þeir útvegi sér fjármagn og framkvæmi hana í ábataskyni. Hins vegar er hættulegt að ónáða ólæknandi eyðslufíkla, ríkið eða Landsvirkjun, með slíkum hugmyndum ofan á fyrra sukk þeirra.

Af dæmunum, sem hér hafa verið rakin, má sjá, að ríkisstjórnin og flokkar hennar gera sér ekki fyllilega grein fyrir peningavandræðum ríkisins, jafnvel þótt fjármálaráðherra haldi mánaðarlegan blaðamannafund um þau og brýni þar fyrir mönnum sparnað og ráðdeild.

Svo virðist sem ráðherrar telji ríkið geta haldið ráðherrunum uppi með óbreyttum tilkostnaði, svo og sjálfum ráðuneytunum og húsakosti þeirra, en niðurskurður komi eingöngu fram í fremstu víglínu, í þjónustu ríkisins við almenning, svo sem sjúkrahúsum og skólum.

Svo virðist sem ráðherrar telji kýr og kindur svo heilaga gripi, að ástæða sé til að efla útgjöld þeirra um meira en milljarð á sama tíma og skorið er niður í þjónustu við almenning. Svona misræmi er ekki trúverðugt og stuðlar að því, að sparnaður náist ekki að fullu.

Við núverandi aðstæður þurfa allir að leggjast á eitt og hinir æðstu að feta á undan með góðu fordæmi. Ráðherrarnir verða að spara fyrst og mest, síðan sjálf ráðuneytin og loks þjónustustofnanir hins opinbera. Á þann hátt fæst þjóðin til að skilja stærð vandamálsins.

Og þegar árleg lánsfjárþörf hins opinbera er komin í 40 milljarða, er óheppilegt, að ráðherrar láti sig dreyma upphátt um 40-100 milljarða rafkapalverksmiðju.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjöldamorðingi látinn

Greinar

Einn mesti fjöldamorðingi eftirstríðsáranna dó á sóttarsæng í Bogota í síðustu viku. Það var Roberto d’Aubuisson, sem bar meira eða minna ábyrgð á morðum 40.000 borgara í El Salvador árin 1979-1985 og starfaði í skjóli öfgasinnaðra bandarískra stjórnvalda.

Sendiherra Jimmy Carters Bandaríkjaforseta í El Salvador sagði á sínum tíma, að d’Aubuisson væri geðveikur fjöldamorðingi. Eftir brottför Carters úr Hvíta húsinu fékk d’Aubuisson að leika lausum hala með fullum stuðningi og fjárhagsaðstoð Bandaríkjastjórnar.

Helztu verndarar d’Aubuissons voru Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti; George Bush, þáverandi varaforseti og núverandi forseti, og Jeane Kirkpatrick, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og núverandi dálkahöfundur hjá Pressunni.

Meðal þeirra, sem d’Aubuisson lét myrða, voru Oscar Arnulfo Romero erkibiskup, bandarískar nunnur og bandarískir landnýtingarráðunautar. Mesta óbeit hafði hann á verkalýðsforingjum, læknum og öllum þeim, sem reyndu að hjálpa fátæka fólkinu í landinu.

Algengt var, að d’Aubuisson kæmi fram í sjónvarpi og réðist á nafngreinda einstaklinga. Nokkrum dögum síðar höfðu þeir allir verið drepnir af morðsveitum hans. Þannig var aðild hans á allra vitorði, þótt öfgamenn Bandaríkjastjórnar létu sér fátt um finnast.

Hinn geðveiki Roberto d’Aubuisson varð forseti þingsins í El Salvador og síðan forsetaframbjóðandi, enda var hann ekki minni ræðuskörungur en Hitler. Þegar hann dó í síðustu viku, var flokkur hans við völd í landinu, en hafði þá að mestu látið af morðum.

Hyldjúp gjá er milli ríkra og fátækra í El Salvador. Annars vegar eru landeigendur og annað auðfólk, en hins vegar er sauðsvartur almúginn. Yfirstéttin er svo hægrisinnuð, að hún telur það kommúnisma, ef læknir eða sjúkraliði reynir að hjúkra fátækum leiguliða.

Athyglisverð er samstilling hugarfarsins hjá þessari yfirstétt annars vegar og hinum róttæku hægrisinnum, sem um langt árabil hafa verið við völd í Bandaríkjunum. Af bandarískri hálfu er dálkahöfundurinn Jeane Kirkpatrick fulltrúi þessa sérkennilega hugarfars.

Þessi fyrrverandi sendiherra er kunnasti málsvari þeirrar stefnu Ronalds Reagans og George Bush, að mannréttindi skipti engu máli í samanburði við mikilvægi þess að berjast gegn kommúnisma í Rómönsku Ameríku og annars staðar í þriðja heiminum.

Samkvæmt þessari stefnu eru það morðingjarnir á hverjum stað, sem ákveða í samræmi við þarfir sínar, hvað sé kommúnismi og hverjir séu kommúnistar. Þess vegna hefur stefnan valdið ólýsanlegum hörmungum í Rómönsku Ameríku, bakgarði Bandaríkjanna.

Athyglisverðast í þessu samhengi róttækrar hægri mennsku í Bandaríkjunum og Rómönsku Ameríku er, að meðal auðstétta og landeignafólks í öllum löndum eru hópar, sem bera sjúklegt hatur í brjósti á fátæklingum og öllum þeim, sem hugsanlega gætu rýrt auðinn.

Í siðuðu samfélagi Vesturlanda fær þetta hatur ekki útrás á blóðugan hátt. En þar er þó hugarfarið að baki hið sama og í ofbeldis- og morðæði hliðstæðra hópa í Rómönsku Ameríku. Þetta eru hin raunverulega hættulegu öfl í þjóðfélaginu, einnig hinum vestrænu.

Bandaríkjastjórn hefur ekki reynt að bæta fyrir brot hins nýlátna vinar síns eða annarra skrímsla, sem hún hefur ræktað í bakgarði sínum í Rómönsku Ameríku.

Jónas Kristjánsson

DV

Vandanum ekki vaxnir

Greinar

Forustumenn samtaka launafólks reyna að fóta sig á hálum ís óvenju langvinnra viðræðna um nýja kjarasamninga. Stundum tala þeir um, að bæta verði lífskjörin, en oftar þó um, að gera þurfi ráðstafanir til að tryggja atvinnuöryggi starfsfólks í helztu hallærisgreinum.

Forustumenn atvinnurekenda eiga þægilegri daga. Þeir endurtaka bara í síbylju, að ekki megi raska neinu; ekki hækka kaupið hjá fólki; ekki lækka gengi; ekki gera neitt, sem hækki verðbólgu og komi í veg fyrir, að vextir atvinnulífsins geti haldið áfram að lækka.

Sá sannleikur felst í síbylju atvinnurekenda, að öryggi og lífskjör hneigjast til að stangast á. Lífskjör batna í kjölfar þess, að hallærisfyrirtæki og hallærisatvinnugreinar fara á hausinn og rýma til fyrir fyrirtækjum, sem horfa til framtíðar og geta borgað betri laun.

Um leið missir fólk atvinnu í röskuninni, sem fylgir uppstokkun af þessu tagi. Það fólk á oft erfitt með að fá vinnu í nýjum framtíðargreinum, ýmist vegna aldurs eða skorts á þekkingu; jafnvel þótt samhliða sé skortur á starfskröftum í nýjum greinum, sem borga betur.

Vinnuveitendasambandið er talsmaður hins ríkjandi ástands, hvert sem það er á hverjum tíma. Það vill ekki, að fyrirtæki, sem standa að sambandinu, fari á hausinn. Það vill, að verðbólgan hverfi, vextirnir lækki, gengið haldist og að starfsfólk hafi óbreytt lífskjör.

Sumpart nýtur sambandið stuðnings samtaka launafólks. Verkamannasambandið hefur hvatt til banns við útflutningi á arðbærum ferskfiski til að varðveita láglaunastörf í óarðbærum fiskvinnslustöðvum, jafnvel þótt verðgildi fisks minnki við að fara um stöðvarnar.

Aðilar vinnumarkaðsins hafa enga lausn á þeim vanda, sem felst í, að varðveizla ríkjandi ástands leiðir til lakari lífskjara og óarðbærra fyrirtækja og síðan til samdráttar, sem felur í sér aukið atvinnuleysi. Þetta óhagstæða ferli er í fullum gangi fyrir allra augum.

Að svo miklu leyti sem starfsemi er í sjálfu sér arðbær, leggst hún ekki niður, þótt fyrirtæki fari á hausinn og til skjalanna komi hæfari eigendur með minni fjármagnskostnað. Að svo miklu leyti sem hún er óarðbær, er gott, að hún leggist niður og rými fyrir annarri betri.

Aðilar vinnumarkaðarins, svo og ríkisstjórn og kjósendur eiga erfitt með að horfast í augu við þetta. Dæmi um það er hinn hefðbundni landbúnaðar, sem rekinn er með hrikalegum kostnaði af hálfu neytenda og skattgreiðenda, er nemur nálægt 20 milljörðum árlega.

Athyglisvert er, að forustumenn launafólks líta ævinlega framhjá hagsmunum neytenda og tryllast meira að segja, þegar Neytendasamtökin mæla með tillögum frá tolla- og viðskiptasamtökunum GATT, sem fela í sér bættan hag neytenda og þar með launafólks.

Forustumenn atvinnurekenda og launafólks neita líka að horfast í augu við, að utanaðkomandi og óumflýjanlegar breytingar hafa verið að gerast í rekstrarumhverfi fiskvinnslunnar í landinu. Þess vegna vilja þeir vernda hefðbundna fiskvinnslu eins og landbúnað.

Í langvinnum viðræðum þessara aðila beinast kröfur þeirra fremur að ríkinu en mótaðilanum. Verkalýðsrekendur heimta lægri vexti og bann við útflutningi á ferskfiski. Atvinnurekendur heimta lægri vexti og að skattbyrði verði flutt af fyrirtækjum yfir á launafólk.

Á grundvelli þessa vandræðagangs er farið að stefna að tímabundnu allsherjarverkfalli í marz. Því má fullyrða, að málsaðilar eru ekki starfi sínu vaxnir.

Jónas Kristjánsson

DV

Með brauki og bramli

Greinar

Heilbrigðiskerfi Íslendinga er ekki það dýrasta í heimi, þótt heilbrigðisráðherra hafi nokkrum sinnum sagt það á síðustu vikum. Samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum reikningsaðferðum, sem notaðar eru af Efnahags- og framfarastofnuninni, erum við ekki dýrust.

Heilbrigðisráðherra hefur hins vegar pantað sér skýrslu frá Hagfræðistofnun háskólans, þar sem kemur fram, að kostnaður hins opinbera af heilbrigðiskerfinu sé meiri hér á landi en annars staðar og hafi aukizt nokkru hraðar hér á landi er annars staðar.

Sama hagfræðistofnun hefur líka fundið, með tilþrifum í reiknikúnstum, að nokkurra milljarða sparnaður fáist árlega, ef skólatími verði lengdur og gerður samfelldur. Þetta gerði hún að beiðni menntaráðherra þeirrar ríkisstjórnar, sem var næst á undan þessari.

Niðurstöður stofnunarinnar um heilbrigðismálin hefðu verið trúverðugri, ef betur hefði verið skýrt, hvers vegna hinar sérstæðu reikningsaðferðir hennar ættu að teljast betri en þær, sem tíðkast hjá Efnahags- og framfarastofnuninni og öðrum alþjóðlegum stofnunum.

Niðurstöðurnar hefðu líka verið trúverðugri, ef stofnunin og heilbrigðisráðherra sem túlkur niðurstaðna hefðu gert skarpari mun á kostnaði hins opinbera og heildarkostnaði þjóðarinnar, svo að neytendur upplýsinga hefðu áttað sig betur á sérstöðu útreikninganna.

Staðreyndin er, að í kostnaði við heilbrigðismál erum við á svipuðu róli og flestar aðrar þjóðir í norðanverðri Evrópu, töluvert ódýrari en Bandaríkjamenn og töluvert dýrari en Bretar og Japanir. Okkar heilbrigðiskostnaður er alls ekki óvenjulegur eða afbrigðilegur.

Niðurskurður heilbrigðismála um hálfan milljarð króna á þessu ári stafar ekki af, að kostnaður við þau hafi farið úr böndum. Niðurskurðurinn stafar einfaldlega af, að ríkisstjórnin þarf að útvega meira en milljarð til að borga stóraukin útgjöld til landbúnaðar.

Allur niðurskurður velferðarkerfisins, hvort sem er í heilbrigðismálum, skólum, tryggingum eða á öðrum sviðum, sem varða hagsmuni peningalítils almennings, fer beinlínis í að auka útgjöld ríkisins til velferðarkerfis hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda.

Nær væri að játa þetta samhengi heldur en að framleiða villandi upplýsingar um, að sjúkrahús og skólar séu of dýrar stofnanir. Þjóðin þyrfti að geta séð, hvers konar velferð hefur forgang og dregið af því þá rökréttu niðurstöðu, að búvörusamningur er ekki ókeypis.

Hinn sami heilbrigðisráðherra, sem flaggar villandi tölum, er að reyna að spara með því að leggja einn milljarð í endurbætur á Borgarspítalanum, svo að hann geti tekið við hlutverki Landakotsspítala. Af þessum milljarði þarf sennilega að greiða tæpan hálfan á þessu ári.

Það er alveg sama, hvernig reiknuð er hagkvæmni sameiningar Borgarspítala og Landakotsspítala. Niðurstaðan er mjög mikill kostnaður, mikil óhagkvæmni. Ódýrasta leiðin í stöðunni er að reka spítalana á aðskilinn hátt enn um sinn alveg eins og verið hefur.

Kenningin um sparnað af sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala var vanhugsuð. Það var fljótræði að ráðast í bramboltið, sem við höfum verið vitni að í vetur. Með slíkum vinnubrögðum mun heilbrigðisráðherra takast að gera íslenzka kerfið dýrast í heimi.

Þótt ýmislegt megi laga í heilbrigðisgeira ríkisins, er spítalabrauk og -braml ráðherrans ekki til þess fallið að útvega peninga til að sóa í búvörusamning.

Jónas Kristjánsson

DV

Gestapó nútímans

Greinar

Ísraelsríki hefur valtað yfir friðargæzlulið Sameinuðu þjóðanna í Líbanon alveg eins og það valtaði yfir Davíð Oddsson forsætisráðherra í opinberri kurteisisheimsókn hans. Ráðamenn Ísraels láta sig litlu varða um lög og hefðir í alþjóðlegum samskiptum.

Fátítt er, að friðargæzlusveitir Sameinuðu þjóðanna verði fyrir árásum. Enda er slíkt ekki fallið til að auka möguleika á notkun slíkra sveita á viðkvæmum svæðum, sem nóg er til af í heiminum. Fordæmi Ísraels spillir fyrir möguleikum Sameinuðu þjóðanna í friðargæzlu.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á aldarfjórðungi. Gamlir hryðjuverkamenn hafa tekið völdin í Ísrael og njóta til þess almannastuðnings. Ríkið hefur á þessum tíma breytzt úr lýðræðisríki í hálfgert skrímsli, sem er til sífelldra vandræða í einstefnu eiginhagsmuna.

Ísraelsríki stundar dagleg hermdarverk á hernumdu svæðunum í Palestínu. Herflokkar fara um og drepa fólk, hneppa í varðhald og pynda það til dauða. Þeir aka jarðýtum yfir heimili fólks og ávaxtagarðana, sem eru lifibrauð þess. Þetta eru gestapó-sveitir nútímans.

Ógeðfellt er, að íslenzkur forsætisráðherra skuli hafa farið í opinbera heimsókn til þessara hryðjuverkamanna. Það er þó nokkur huggun, að hann skuli hafa fengið makleg málagjöld, af því að gestgjafar hans kunna ekki einföldustu reglur um hlutverk gestgjafa.

Á sama tíma og Ísrael krefst þess, að eltir séu uppi menn, sem grunaðir eru um hermdarverk fyrir hálfri öld, krefst ríkið þess í þágu hagsmuna sinna að fá að stunda hermdarverk í nútímanum. Það fordæmir 50 ára gamalt gestapó, en rekur sjálft daglegt gestapó.

Sjálfsagt er að reyna að koma lögum yfir einstaklinga, sem drýgðu fáheyrð fólskuverk fyrir hálfri öld. Hins vegar er fáránlegt af íslenzkum forsætisráðherra að taka við slíkum kröfum frá ríki, sem þverbrýtur alþjóðalög um meðferð fólks á hernumdum svæðum.

Ísrael er orðið að æxli í Miðausturlöndum. Það kemur í veg fyrir, að unnt sé að koma á vitrænni sambúð milli hins vestræna heims kristninnar og hins austræna heims íslams. Þetta hefur gerzt, af því að Ísrael hefur of lengi notið blinds stuðnings af hálfu Vesturlanda.

Ábyrgðin á breytingu Ísraels í eitt stórt og hamslaust ég-ég-ég hvílir fyrst og fremst á Bandaríkjunum. Þaðan hafa runnið peningarnir, sem hafa gert Ísrael kleift að gera að vild innrásir í nágrannaríkin og sem hafa gert Ísrael kleift að stunda landnám á hernumdum svæðum.

Með eindregnum stuðningi við vígvæðingu og útþenslu Ísraels hafa Bandaríkin valdið Vesturlöndum óbætanlegum vandræðum, sem eiga enn eftir að aukast í náinni framtíð. Bandaríkin hafa vakið upp hryðjuverkadraug, sem erfitt verður að kveða niður.

Ráðamönnum Vesturlanda ber af vaxandi þunga að gera ráðamönnum Bandaríkjanna grein fyrir, að stuðningur þeirra við Ísrael í deilum Miðausturlanda skaðar hagsmuni og hugsjónir Vesturlanda. Ísrael á að vera paríi á borð við Serbíu, Írak, Haiti og Burma.

Engar horfur eru á, að Ísraelsmenn hverfi til betri siða. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn þar í landi hefur nú skipt um leiðtoga. Í stað tiltölulega friðsams Peresar er kominn tiltölulega herskár Rabin. Þannig er þjóðfélag Ísraels smám saman að verða herskárra.

Okkur Íslendingum ætti raunar ekki að bera nein skylda til að halda stjórnmálasambandi við ríki, sem ekki er húsum hæft í fjölþjóðlegum samskiptum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gestgjafasprengja

Greinar

Ekki kemur til greina, að Eðvald Hinriksson verði framseldur til Ísraels til að sæta þar ákæru fyrir stríðsglæpi. Ísrael er hryðjuverkaríki, sem þverbrýtur alþjóðalög á hverjum degi. Þar býr herraþjóð, sem umgengst fólk á hernumdum svæðum eins og hunda.

Davíð Oddsson forsætisráðherra var eindregið varaður við að fara í opinbera heimsókn til ofbeldisríkis á borð við Ísrael, enda hafa gestgjafarnir launað honum greiðann. Þeir komu honum í opna skjöldu með því að sprengja í andlit hans kærubéf um stríðsglæpi.

Einnig að öðru leyti hafa stjórnvöld Ísraels haft forsætisráðherra okkar að fífli. Þeir leiddu hann til borgarstjóra Betlehems, svo að forsætisráðherra gæti talið sér trú um, að hann hefði heyrt báðar hliðar Palestínudeilunnar. Er ferðin til Ísraels orðin hin mesta sneypuför.

Hefðbundið er, að forustumenn Sjálfstæðisflokksins líti með sérstakri velþóknun til Ísraels. Það er arfur frá þeim tíma, er sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum stuðlaði að stofnun Ísraelsríkis. En þá var þjóðfélag Ísraels ekki enn farið að rotna af eigin ofbeldi.

Á hinn bóginn hafa leiðtogar Sjálfstæðisflokksins alltaf stutt Eðvald Hinriksson. Morgunblaðið hélt uppi langvinnu andófi gegn ásökunum Þjóðviljans. Helzti liðþjálfi Davíðs á Alþingi var til skamms tíma enn að rita langhunda gegn Árna Bergmann Þjóðviljaritstjóra.

Með því að draga forsætisráðherra til Ísraels og afhenda honum kærubréfið í sviðsljósi alþjóðamála hafa ráðamenn Ísraels tryggt, að íslenzkir embættismenn geta ekki stungið bréfinu undir stól. Ísland verður að grafa upp mál, sem menn héldu, að væri úr sögunni.

Þótt Ísrael sé ekki fínn pappír, er ekki hægt að segja hið sama um Wiesenthal-stofnunina, sem hefur leitað uppi stríðsglæpamenn úr síðari heimsstyrjöldinni. Þótt gerð hafi verið mistök í þeirri stofnun, hefur hún í stórum dráttum orð á sér fyrir áreiðanlegar upplýsingar.

Ísraelsfararnir Davíð Oddsson forsætisráðherra og Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra verða nú að opna að nýju mál, sem klýfur Sjálfstæðisflokkinn í stuðningi hans við Ísraelsríki annars vegar og Eðvald Hinriksson hins vegar. Þetta er vond staða, sem ekki verður flúin.

Ísland var til skamms tíma friðsælt ríki á hjara veraldar. Nú verður friðurinn rofinn með endurvöktum fréttum af fjarlægum atburðum frá villimennsku síðari heimsstyrjaldar. Við hefðum viljað vera áfram í friði, en getum það ekki, af því að skyldan kallar á annað.

Okkar stjórnvöld geta ekki stungið óþægilegum málum undir stól eins og gert var í Argentínu og víðar í Suður-Ameríku, þar sem leitað hefur verið stríðsglæpamanna. Óhjákvæmilegt er, að ákæran á hendur Eðvald Hinrikssyni fái rækilega réttarfarslega meðferð.

Það felur í sér, að starfsmenn og vitni Wiesenthal- stofnunarinnar verða að fá tækifæri til að koma fyrir íslenzkan dómstól og bera fram gögn og rök fyrir máli sínu. Það felur í sér, að íslenzka dómskerfið verður að taka að sér að reyna að komast til botns í málinu.

Sennilega er málið ekki fyrnt að íslenzkum lögum, því að það varðar lífstíðarfangelsi. Að öðrum kosti munu Ísraelsmenn leggja aukna áherzlu á framsal, því að slíkir glæpir eru örugglega ekki fyrndir þar í landi. Togstreita af því tagi mundi verða okkur til ama.

Gegn ráðum góðra manna álpaðist forsætisráðherra til Ísraels og lét sprengja mál þetta í andlit sér. En kannski höfum við samt gott af að láta raska ró okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Höfðingjasiðfræði

Greinar

Fjármálaráðherra segist ekki vera sáttur við, að opinberir starfsmenn misnoti opinber faxtæki til að koma mótmælum sínum á framfæri við fjármálaráðuneytið. Hann er hins vegar fyllilega sáttur við að misnota sjálfur aðstöðu sína á hundraðfalt grófari hátt.

Fjármálaráðherra mælti á sínum tíma hin fleygu orð, sem hafa orðið einkennisorð íslenzkrar spillingar: “Ef ráðherra getur ekki boðið nokkrum bekkjarbræðrum sínum í glas, þá er ekki mikið eftir”. Það fer honum því ekki vel að reyna að siða opinbera starfsmenn.

Eins og svo margir þeirra, sem hafa verið ráðherrar á síðustu árum, lifir fjármálaráðherra í tvískinnungsheimi, þar sem þjóðinni er skipt í tvennt. Annars vegar er sauðsvartur almúginn og hins vegar nokkrir stjórnmálamenn, sem ekki þurfa að lúta siðalögmálum.

Í þessum einkennilega hugarheimi ráðherrans er í lagi, að hann dveljist í margra daga sumarleyfi í Thailandi á ríkiskostnað. Þar á ofan er að hans mati í lagi, að hann fái á meðan kaupauka, sem hann fær ekki, þegar hann er að vinna á skrifstofunni í Arnarhvoli.

Athyglisvert er, að ráðherrar skuli skerða ferðahlunnindi sín minna en annarra ferðagarpa hins opinbera, þegar harðnar á dalnum. Samt eru hlunnindi ráðherranna beinlínis ferðahvetjandi, því að þau aukast í réttu hlutfalli við aukið flandur þeirra í útlöndum.

Lengi og oft hefur verið bent á, að ráðherrar ættu ekki að fá í senn allan ferðakostnað borgaðan og sérstakan launaauka þar á ofan á ferðatímanum. Fjármálaráðherra hefur ekki gert neina tilraun til að breyta þessu, enda er hann hinn ánægðasti með aðstöðu sína.

Ráðherrar eru nú farnir að jafna sig eftir áfallið í brennivínsmáli forseta Hæstaréttar. Misnotkun þeirra á veizluaðstöðu og veizluföngum ríkisins er að aukast á nýjan leik. Þetta sést af tölum um vaxandi viðskipti ríkisins við Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins.

Fjármálaráðherra segir, að “afspyrnuerfitt” sé að fara hér á landi eftir sömu reglum og gilda í Bandaríkjunum, þar sem ríkið sendir stjórnmálaflokkum reikninga fyrir veizlu- og ferðakostnaði á vegum flokka; og ráðherrum reikninga fyrir einkakostnaði af því tagi.

Ofan á persónulega spillingu ráðherra verður sífellt fyrirferðarmeiri hin flokkslega spilling þeirra. Í síðustu ríkisstjórn höfðu ráðherrar Alþýðubandalagsins forustu um að koma kostnaði við áróðursherferðir, kosningabæklinga og kosningafundi yfir á herðar ríkisins.

Þessi tegund siðleysis hefur haldizt í tíð núverandi ríkisstjórnar. Einkum hefur heilbrigðisráðherra verið iðinn við að sóa ríkisfjármunum í slíka spillingu. Kvartanir utan úr bæ hafa ekki hin minnstu áhrif. Að ræða spillingu við ráðherra er eins og að stökkva vatni á gæs.

Í hugarheimi slíkra ráðherra eru þeir æðri lögum og reglum, sem gilda um þjóðina. Þeir hafa sérreglur um sín eigin hlunnindi í ferðalögum, bifreiðum og veizluhöldum. Þeir telja sig arftaka aðalsins og líta á þjóðfélagið sem herfang, er hafi fallið þeim í skaut.

Þetta hugarfar tengist náið þeirri ofbeldishneigðu skoðun, sem nýtur vaxandi útbreiðslu hjá ráðherrum, að þeim eigi að leyfast að nota aðstöðu sína til að “valta yfir” þá, sem standa í vegi þeirra, svo sem heilbrigðisráðherra hefur gert í málefnum Landakotsspítala.

Þegar ráðherra, sem sér ekkert athugavert við eigin spillingu, kvartar opinberlega um óeðlilega faxnotkun opinberra starfsmanna, er hræsnin komin á hátt stig.

Jónas Kristjánsson

DV

Bjargvættur einokunar

Greinar

Utanríkisráðherra hefur álpazt til að verða helzti bjargvættur einokunar á Íslandi. Hann framlengdi hermangseinokun Íslenzkra aðalverktaka til fjögurra ára og hann framlengdi flugafgreiðslueinokun Flugleiða til fjögurra ára. Í báðum tilvikum var þetta tímaskekkja.

Almenningur eru betur upplýstur en áður um spillingu einokunar. Komið hefur í ljós, að 90% fólks hafna einokun Íslenzkra aðalverktaka og að 75% fólks vilja, að framkæmdir varnarliðsins verði boðnar út, fremur en að hermangið verði víkkað til fleiri gæludýra.

Flugafgreiðslueinokunin er ekki síður alvarleg. Á Keflavíkurvelli hafa Flugleiðir misnotað aðstöðuna til að hrekja á brott hvert útlenda flugfélagið á fætur öðru, sem hefur reynt að fljúga á ódýran hátt með íslenzkar sjávarafurðir til fjarlægra landa, svo sem til Japans.

Utanríkisráðherra var fyllilega kunnugt um, að þessar framlengingar voru báðar siðlausar. Honum var fyllilega kunnugt um, að hann gat brotið blað í sögunni með því að styðja réttlæti og markaðsbúskap, en hann kaus að leggja sitt lóð á vogarskál spillingar og sóunar.

Einokun af tagi Íslenzkra aðalverktaka og Flugleiða dregur úr sjálfsvirðingu þjóðarinnar og framleiðir rotnun í þjóðfélaginu. Um slíka einokun verður heldur aldrei neinn friður, því að svo mörgum er siðleysi hennar ljóst, að hún fær ekki endalaust að vera í friði.

Í báðum tilvikum hefur einokunargróðinn verið notaður til að búa til kolkrabba, sem seilist til áhrifa á öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Þannig hafa Flugleiðir lagt undir sig vaxandi hluta ferðaskrifstofumarkaðarins, bílaleigumarkaðarins og hótelmarkaðarins.

Á sama tíma og utanríkisráðherra breiðir vængi sína yfir spillingu einokunar, er hreyfing í átt til afnáms einokunar. Fólk er vakna upp við vondan draum og sjá, að einkavæðing einokunarfyrirtækja ríkisins hefur í reynd leitt til stóraukinna útgjalda þjóðarinnar.

Mest er talað um dæmi Bifreiðaskoðunar Íslands, sem hefur farið hamförum í óbeizlaðri græðgi. Einnig hefur verið vakin athygli á, að einokun Sorpu veldur miklum kostnaðarauka í þjóðfélaginu, svo og að ekki er allt með felldu í tekjuöflunarkerfi Endurvinnslunnar.

Merkilegt er, að ráðamönnum þjóðarinnar skyldi detta í hug, að einkavæðing ríkiseinokunar væri til bóta. Það, sem er til bóta, er markaðsvæðing ríkisfyrirtækja. Hún gerist á þann hátt einan, að einkaréttur ríkisfyrirtækja er afnuminn um leið og þau eru seld.

Einkavæðing ein út af fyrir sig flytur spillinguna bara til hliðar og fyllir vasa gæludýra úti í bæ. En markaðsvæðing afnemur spillingu og eflir þjóðarhag. Þess vegna ber ríkinu að bjóða út framkvæmdir varnarliðsins og leyfa flugfélögum að afgreiða sjálf vörur sínar.

Utanríkisráðherra og blaðurfulltrúi hans segja, að afgreiðslueinokun á Keflavíkurvelli megi afnema, þegar komið verði á fót fríhöfn þar syðra. Orsakasamhengið er öfugt. Smám saman verður unnt að rækta fríhöfn, eftir að einokun á þessu sviði hefur verið afnumin.

Utanríkisráðherra framlengdi einokunarsamninga gæludýra sinna, einmitt þegar þjóðin á í miklum erfiðleikum og þarf að skera niður þjónustu á mörgum sviðum, svo sem í heilsugæzlu og menntamálum. Þetta sýnir vel, hver er forgangsröðin í þjóðfélaginu.

Framlengingarnar á Keflavíkurvelli eru dæmi um, að ráðherrar taka þrönga og spillta hagsmuni gæludýra fram yfir almannahagsmuni og almannasiðferði.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrýstingur er rökum betri

Greinar

Einstaka sinnum verður opinber umfjöllun til þess, að stjórnvöld landsins, Alþingi og ríkisstjórn, bæta ástand mála. Svo virðist sem Bifreiðaskoðun Íslands sé í hópi þeirra hneykslismála, þar sem stjórnvöld taki við sér og framkvæmi breytingartillögur utan úr bæ.

Algengast er, að stjórnvöld láti tillögur utan úr bæ sem vind um eyru þjóta. Gott dæmi um það er sala veiðileyfa í sjávarútvegi. Á því sviði hefur verið ítarleg umræða, sem nærri öll er á einn veg, með sölu veiðileyfa. En umræðan nær engu sambandi við stjórnvöld.

Um sölu veiðileyfa hafa margir fræðimenn samið blaðagreinar, sem samanlagt mynda álitlegan bunka. Gefin hefur verið út bók með helztu tillögum háskólamanna í málinu. Svör við þessari breiðsíðu hafa verið sjaldséð, flutt af hagsmunaaðilum í hópi sægreifa.

Engin hreyfing hefur sézt af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar, enda fjallar málið meðal annars um hagsmuni útgerðarinnar af að fá ókeypis aðgang að helztu auðlind þjóðarinnar. Sérhagsmunir af slíku tagi njóta næstum alltaf töluverðrar verndar af hálfu stjórnvalda.

Það, sem gerðist í máli Bifreiðaskoðunar Íslands, er, að öflugustu þrýstihópar landsins, Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, sáu sér allt í einu hag í að benda stjórnvöldum á einokunarfyrirtækið sem dæmi um, hvernig fé er haft af fólki og fyrirtækjum.

Ef þessir tveir þrýstihópar fylgja málinu eftir, má heita ljóst, að afnám einokunarinnar verði að þessu sinni hluti af pakkanum, sem stjórnvöld leggja venjulega fram til að greiða fyrir heildarkjarasamningum í landinu. Minni hagsmunir munu víkja fyrir meiri.

Frá því fyrir stofnun Bifreiðaskoðunar Íslands hefur rækilega verið bent á hættuna, sem felst í að breyta ríkiseinokun í einkaeinokun. Þingmenn og ráðherrar og embættismenn höfðu engan áhuga á þessum ráðleggingum utan úr bæ. Umræðan féll í grýttan jarðveg.

Bifreiðaskoðun Íslands hefur í takmarkalítilli græðgi staðfest allar viðvaranir, sem fram komu í fjölmiðlum. Hún hefur staðfest, að einkavæðing er gagnslaus og beinlínis hættuleg, nema hún fylgi markaðslögmálum. Það eru þau, sem gilda, en ekki eignarformið.

Umræða um slík mál hefur engin áhrif. Stjórnvöld á Íslandi taka ekki rökum. En þau hlusta, þegar þrýstihópar setja slík mál í kröfur sínar um að fá frá stjórnvöldum pakka til að liðka fyrir kjarasamningum. Þrýstingur voldugra samtaka hefur áhrif, en rök alls ekki.

Hvað mundi gerast, ef Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið teldu henta sér að fórna hagsmunum landbúnaðarkerfisins? Hvað mundi gerast, ef þessi tvenn samtök heimtuðu, að stjórnvöld léttu landbúnaðarkostnaði þjóðfélagsins af herðum fólks og fyrirtækja?

Áratugum saman hafa verið leidd rök að því, að óbærilegur væri herkostnaður þjóðfélagsins af innflutningsbanni landbúnaðarafurða og öðrum stuðningi stjórnvalda við innlendan landbúnað. Þessi herkostnaður nemur nú orðið líklega um 20 milljörðum króna á ári.

Þessi rök bíta ekki hið minnsta á þingmenn, ráðherra og embættismenn, ekki frekar en rökin um sölu veiðileyfa í sjávarútvegi og ekki frekar en rökin um afnám einokunar Bifreiðaskoðunar Íslands. Það, sem skiptir stjórnvöld hins vegar máli, er afstaða þrýstihópanna.

Leiðin til áhrifa liggur ekki um rök og ræðu í fjölmiðlum, heldur um aðild að kröfugerð þrýstihópanna í landinu. Stjórnvöld láta undan þrýstingi, en ekki rökum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hryðjuverkafólk heimsótt

Greinar

Íslenzkum forsætisráðherra hefur ekki ennþá dottið í hug að fara í opinbera heimsókn til Serbíu, útþensluríkis, sem hefur tekið land af öðru ríki og hrakið íbúa þess brott. En Davíð Oddssyni forsætisráðherra dettur í hug að fara í opinbera heimsókn til Ísraels.

Eðlilegra er, að íslenzkur ráðherra fari í opinbera heimsókn til ríkja, er haga sér nokkurn veginn sæmilega í umgengni við umheiminn, svo sem til vestrænna ríkja. Stórfelldir viðskiptahagsmunir geta þó leitt til slíkra samskipta, svo sem við Sovétríkin sálugu.

Engum dettur í hug, að íslenzkur ráðherra fari til Serbíu eða til Íraks eða til Indónesíu eða til Burma, svo að nefnd séu nokkur þau ríki, þar sem ofbeldi er mikilvægur þáttur ríkisvaldsins. Opinberar heimsóknir nota stjórnvöld slíkra ríkja sér til réttlætingar.

Framferði Ísraelsstjórnar á hernumdum svæðum Palestínu brýtur í bága við alþjóðalög, sem segja, að ekki sé heimilt að reka íbúa af slíkum svæðum eða nema þar land. Hvort tveggja hefur Ísrael gert í ríkum mæli, meðal annars með fjárstuðningi frá Bandaríkjunum.

Landnám Ísraela í Palestínu er aðeins hluti af hinu gegndarlausa ofbeldi og hryðjuverkum, sem stjórnvöld, her og landnemar Ísraela standa fyrir gagnvart Palestínumönnum. Þetta hefur kostað hundruð Palestínumanna lífið og gert líf tugþúsunda óbærilegt.

Framkoma Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum minnir á SS og Gestapo. Ísraelar skjóta til bana unglinga, sem kasta grjóti. Ísraelar pynda Palestínumenn til dauða. Ísraelar láta jarðýtur eyða heimilum fólks og ávaxtagörðum þess. Ísraelar ræna heimilum þess.

Þetta eru ekki bara hryðjuverk ríkisvalds, heldur þjóðfélagsins. Ísraelar líta margir hverjir á sig sem herraþjóð að hætti Hitlers og líta á Palestínumenn sem eins konar húsdýr eða hunda. Þessi rotnun þjóðfélags Ísraela hefur gerzt mjög hratt á síðasta áratug.

Stundum er ofbeldi Ísraelsmanna afsakað eða útskýrt í burtu með tilvísun til þess, að fyrri kynslóð þeirra hafi sætt ofbeldi fyrir hálfri öld, nákvæmlega eins og reynt er að afsaka eða útskýra í burtu ofbeldi Serba með tilvísun til hálfrar aldar gamals ofbeldis.

Þessi flótti úr nútímanum yfir í sagnfræðina er ekki góður leiðarvísir um, hvernig eigi að standa að umgengni milli þjóða árið 1992. Um samband þjóða gilda alþjóðleg lög og viðurkenndar siðareglur að vestrænum hætti, en Ísrealar þverbrjóta þetta í vaxandi mæli.

Opinberar heimsóknir hafa tilhneigingu til að festa stjórnendur ofbeldisríkja í þeirri trú, að þeir séu á réttri leið og að umheimurinn muni láta ofbeldi þeirra kyrrt liggja. Þess vegna er heimsókn Davíðs Oddssonar til Ísraels afar skaðleg og til vansæmdar Íslendingum.

Um langt skeið hafa íslenzkir ráðherrar forðazt að setja slíkan gæðastimpil á hryðjuverkastjórn Yitzhak Shamirs í Ísrael. Þorsteinn Pálsson villtist þangað í opinbera heimsókn fyrir tveimur árum, þegar hann hafði lítið að gera í stjórnarandstöðunni hér heima.

Vont er að oddamaður stjórnarandstöðu fari í opinbera heimsókn til Ísraels. En mun verra er, að forsætisráðherra skuli gera það. Og afleitt er, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ganga fram fyrir í skjöldu í slíkum stuðningi við helztu hryðjuverkamenn Miðausturlanda.

Brýnt er, að ekkert tækifæri verði látið ónotað til að sýna hryðjuverkamönnum fram á, að verk leiði til þess, að heiðarlegt fólk forðist umgengni og samneyti við þá.

Jónas Kristjánsson

DV

Stór, gömul og þreytt

Greinar

Hross eru tryggð á grundvelli upplýsinga um nafn, lit og aldur. Ef brúnn hestur á svipuðum aldri drepst í hesthúsahverfinu, getur tryggingafélagið ekki efazt um, að það sé hinn tryggði hestur. Þetta veldur svo háu tjónahlutfalli, að hrossatryggingar eru mjög dýrar.

Ef eigandi reiðhrossa hefur samband við tryggingafélag og óskar eftir að tryggja hross á grundvelli upplýsinga um frostmerkingu, þannig að útilokað sé að rugla saman hrossum, getur hann ekki fengið lægra iðgjald á grundvelli minni áhættu af hálfu tryggingafélagsins.

Þetta litla dæmi um kölkun tryggingafélaga sýnir í hnotskurn, hvernig hin stóru, gömlu og þreyttu tryggingafélög landsins nýta sér ekki tryggingastærðfræði til að flokka niður áhættu, svo að unnt sé að bjóða fólki lægri tryggingar, ef það er með sitt á hreinu.

Frægari dæmi og dýrari eru á öðrum sviðum. Tryggingafélög flokka húsnæði mjög gróflega í áhættuflokka, en gera engan greinarmun á mikilli og lítilli brunahættu. Þannig er algengt, að frystihússtjórar, sem engum eldvörnum sinna, greiði sömu iðgjöld og aðrir.

Þegar svo kviknar í frystihúsunum, þar sem eldvarnir eru í megnasta ólagi, þrátt fyrir ótal aðvaranir eftirlitsaðila, greiðir tryggingafélagið hið sama og ef allt hefði verið í stakasta lagi. Þetta veldur því, að frystihússtjórar sjá sér ekki hag í að borga fyrir eldvarnir.

Sama er að segja um misjafnan frágang húsa gagnvart foktryggingu. Til eru opinberir staðlar um, hvernig eigi til dæmis að ganga frá þakjárni, svo að það fjúki ekki. Sumir fara eftir þessum reglum og aðrir ekki, en allir borga sama iðgjaldið og allir fá tjónið greitt.

Talsmenn hinna stóru, gömlu og þreyttu tryggingafélaga landsins segja, að ekki sé aðstaða til að skoða eldvarnir í hverju húsi, og virðast þar með ekki taka mark á eldvarnaeftirlitinu. Útlenda tryggingafélagið, sem hingað er komið, lætur hins vegar skoða hvert hús.

Eðlileg samkeppni tryggingafélaga, sem ekki hefur verið hér á landi til skamms tíma, á að hafa áhættuflokkun svo nákvæma, að tryggjendur sjái sér hag í því að hafa allt í lagi til þess að lenda í sem lægstum iðgjaldaflokki og vera öruggir um, að tryggingafélagið borgi tjón.

Ef útlenda tryggingafélagið nær í betri viðskiptavini með því að bjóða þeim lægri iðgjöld á þeim forsendum, að minni líkur séu á tjóni hjá þeim en hjá hinum, sem eru með allt niður um sig, eru markaðslögmálin í fyrsta sinn farin að njóta sín í tryggingum hér á landi.

Markaðslögmál í tryggingum hafa einkum tvíþætt gildi. Í fyrsta lagi græðir viðskiptavinurinn sjálfur á lækkuðum iðgjöldum. Og í öðru lagi græðir þjóðfélagið í heild á því, að tjón minnkar, þar sem ástand hinna tryggðu hluta verður betra en ella hefði orðið.

Innreið Skandia í íslenzkan heim stórra, gamalla og þreyttra tryggingafélaga verður vonandi til þess að breyta langvinnri fáokun í eðlilega samkeppni. Það verður þá gott dæmi um gróða þjóðfélagsins af því að opna íslenzkan markað fyrir erlendri samkeppni.

Við getum gert okkur í hugarlund, hvernig margt mundi lagast hér á landi, ef erlend samkeppni ryddi fáokun í burtu á fleiri sviðum, svo sem í bönkum, olíufélögum og flutningum á sjó, svo ekki sé talað um einokunina, sem er í flugi og innflutningsbannið í landbúnaði.

Samkeppnin getur leitt til, að tryggingafélög hrökkvi af svefni, hætti að hossa brúnum hrossum og síbrennandi frystihúsum og fari að stunda alvörutryggingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Forréttindavernd

Greinar

Verndun forréttinda er rauði þráðurinn í athöfnum ríkisstjórnarinnar. Hún mætir samdrætti með því að slá skjaldborg um velferðarkerfi forréttinda í efnahagslífinu og ræðst með þeim mun meiri þunga að velferðarkerfi þeirra, sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Íslenzkir aðalverktakar munu áfram mega stunda hermang í ríkisstjórnarskjóli. Utanríkisráðherra hefur lýst því yfir, að ekki verði hreyft við því rotna kerfi næstu árin. Ekki er stefnt að því að leggja hermangið niður, heldur hleypa fleiri peningamönnum í það.

Flugleiðir munu áfram mega stunda sína einokun á beztu flugleiðum innan lands og utan. Þær munu áfram mega hrekja flugfélög af Keflavíkurvelli með einokun sinni á flugafgreiðslu. Þær munu áfram fá að stjórna Flugráði og þenja sig út í ferðamálum landsins.

Hinn hefðbundni landbúnaður fær á þessu ári töluvert aukinn hlut af ríkisútgjöldunum. Þetta er sagt vera gert í hagræðingarskyni eins og hefur verið sagt svo oft áður. Aukin peningabrennsla í landbúnaði skýrir ein allan samdrátt í heilbrigðis- og skólamálum.

Munur þessarar og næstu ríkisstjórna á undan henni er, að þessi hefur spyrnt við fótum og stöðvað hægfara þróun eins áratugar í átt til markaðsbúskapar, sem hófst með svokölluðum Ólafslögum Jóhannessonar árið 1979, þegar komið var á raunvöxtum fjárskuldbindinga.

Raunvextirnir drápu versta forréttindafyrirtæki landsins, Samband íslenzkra samvinnufélaga, og leiddu mikla grósku í atvinnulífið. Lán voru ekki lengur gjafir til gæludýra, heldur varð að nota þau í arðbær verkefni, sem gátu staðið undir verðtryggðum lánum.

Með aukinni þátttöku í vestrænu viðskiptasamstarfi neyðast stjórnvöld til að láta kyrrt liggja, þótt erlend fyrirtæki komi inn á markaðinn til hagsbóta fyrir neytendur. Það hefur gerzt í tryggingum og gerist vonandi fyrr eða síðar í stöðnuðu bankakerfi landsins.

Ríkisstjórnin getur til langs tíma ekki verndað fáokun í bönkum, tryggingafélögum, olíufélögum og skipafélögum, af því að hún er bundin erlendum samningum. En hún gerir sitt ýtrasta til að vernda einokun eins og dæmi Íslenzkra aðalverktaka og Flugleiða sýna.

Sala ríkisfyrirtækja er sama marki brennd. Fordæmið er Bifreiðaeftirlitið, sem breytt var í rándýrt einkafyrirtæki, Bifreiðaskoðun Íslands, sem hefur einokun á sínu sviði. Við búum ekki við einkavæðingu markaðsbúskapar, heldur einkavæðingu einokunarbúskapar.

Þannig verður Sementsverksmiðjan seld. Tækifærið verður ekki notað til að hefja frelsi í sementsverzlun, heldur verður peningamönnum afhent sementseinokun, sem ríkið hefur nú. Afleiðingin verður stórhækkun á verði sements eins og varð á skoðun bifreiða.

Hefðbundin frjálshyggja í efnahagsmálum gerir ráð fyrir, að losað sé um höft, svo að samkeppni aukist til hagsbóta fyrir neytendur. Ráðgerð einkavæðing af hálfu ríkisstjórnarinnar fylgir ekki þessu lögmáli, heldur miðar að aukinni misnotkun á opinberum höftum.

Ekki er rúm fyrir lítilmagnann í þessu velferðarkerfi stórfyrirtækja og landbúnaðar, sem rekið er hér á landi. Þess vegna er fjár aflað í stóraukinn ríkisrekstur landbúnaðar með því að skera niður við trog velferðarkerfi almennings, einkum heilbrigðismál og skólamál.

Núverandi ríkisstjórn er ein mesta afturhaldsstjórn, sem verið hefur við völd í mannsaldur. Hún er eins konar fornleif frá einokunartíma 18. aldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Velferð kolkrabbans

Greinar

Ekki hefur tekizt á sannfærandi hátt að staðsetja svonefndan kolkrabba í þjóðfélaginu, þrátt fyrir mikla umræðu um hann í bókum, tímaritum og fjölmiðlum. Af mörgum er talið, að hann sé safn nokkurra ætta, sem hafi sölsað undir sig völdin og auðinn í þjóðfélaginu.

Peningar liggja að nokkru leyti í ættum hér á landi eins og annars staðar. Ef Ísland hefur sérstöðu í því efni, þá felst hún í, að íslenzkum peningaættum hefur haldizt verr á fé sínu en útlenzkum. Algengt er, að íslenzk fjármálaveldi hrynji í annarri eða þriðju kynslóð.

Þá er athyglisvert, að margir þeir menn, sem helzt eru sakaðir um að stjórna kolkrabba ættaveldisins, eru sjálfir ættlitlir menn eigin rammleiks. Af ýmsum slíkum ástæðum er ekki sannfærandi að tala um kolkrabbann sem sameiginlegt veldi 14 eða 15 peningaætta.

Rökin fyrir kolkrabbanum verða trúverðugri, þegar þau beinast að samspili ríkisvaldsins og öflugra fyrirtækja, sem blómstra í skjóli einokunar eða fáokunar. Þessi hagsmunatengsli opinbera geirans og einkageirans liggja aðeins að hluta til um þekktar peningaættir.

Ríkisvaldið hefur verndað fyrirtæki með því að slá um þau einokunarrétti eða stutt þau með því að slá um þau fáokunarrétti. Þannig starfa hermangsfyrirtækin Íslenzkir aðalverktakar og Sameinaðir verktakar, svo og Flugleiðir í skjóli einokunar, sem ríkið veitir þeim.

Flugleiðir hafa einkarétt á helztu flugleiðum innan lands og utan, svo og á flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Í krafti einokunar sinnar hefur fyrirtækið smám saman sölsað undir sig mikinn hluta af veltu hliðargreina, svo sem ferðaskrifstofa, hótela og bílaleiga.

Sem dæmi um innilegt samlíf ríkis og Flugleiða má nefna, að af fjórum aðal- og varamönnum, sem samgönguráðherra skipar í Flugráð, eru þrír starfsmenn Flugleiða. Og þegar starf flugmálastjóra losnar, þykir ráðuneytinu sjálfsagt að skipa í það Flugleiðamann.

Í sumum tilvikum hefur ríkið stuðlað að fáokun, svo sem í olíusölu, þar sem ríkið hefur haft forustu um, að allir keyptu sem einn af Sovétríkjunum. Í öðrum tilvikum hefur einokun eða fáokun fremur blómstrað vegna dugnaðar forstjóra, svo sem í Eimskipafélagi Íslands.

Yfirburðastaða á borð við þá, sem hermangsfyrirtækin hafa, svo og Flugleiðir og Eimskip, olíufélögin og tryggingafélögin, hefur í flestum tilvikum verið notuð til að kaupa hlut í öðrum fyrirtækjum eða kaupa þau upp. Þannig varð til hinn margumtalaði kolkrabbi.

Það er pólitísk ákvörðun, hvort hér sé slíkur kolkrabbi. Einn frægasti kolkrabbinn er í andarslitrunum, einkun vegna þess að teknir voru upp raunvextir í þjóðfélaginu. Samband íslenzkra samvinnufélaga var orðið forréttindum svo vant, að það þoldi ekki raunvexti.

Með því að afnema einkarétt á hermangi, flugi og flugafgreiðslu má höggva þann kolkrabba, sem nú blómstrar. Með frelsi til samkeppni af hálfu erlendra skipafélaga, tryggingafélaga, olíufélaga og flugfélaga má koma í veg fyrir, að innlendir risar misnoti aðstöðu sína.

Við sjáum þetta nú þegar í tryggingunum. Þar hafa félög, sem áratugum saman hafa veinað um of lág iðgjöld, allt í einu getað lækkað þau. Það stafar af, að komið er á markaðinn nýtt félag, sem er utan samtryggingarkerfis fáokunarinnar, sem hér var fyrir.

Hinn raunverulega kolkrabba er að finna í hugarfari kjósenda, sem sætta sig við, að umboðsmenn þeirra reki velferðarkerfi stórfyrirtækja og landbúnaðar.

Jónas Kristjánsson

DV