Greinar

Kúrdar eru kosningapeð

Greinar

Bush Bandaríkjaforseti er að láta kanna, hvernig unnt sé að ljúka Persaflóastríðinu, sem hann hætti við fyrir réttu ári. Ímyndarfræðingar hans telja slæmt fyrir hann að taka þátt í öðrum forsetakosningum, ef Saddam Hussein verður enn við völd í Írak á næsta vetri.

Til skamms tíma hefur almenningsálitið í Bandaríkjunum talið Bush hæfan í utanríkismálum, þótt dæmin sýni hið gagnstæða. Ímyndarfræðingar forsetans telja, að framhaldslíf Saddams Hussein í Bagdað eigi verulegan þátt í að minnka traust bandarískra kjósenda.

Bandaríska utanríkis- og leyniþjónustan eru nú að æsa Kúrda og Sjíta til nýrrar uppreisnar gegn Saddam Hussein. Núna er flaggað gylliboðum um, að í þetta sinn muni Bandaríkin ekki leyfa Saddam Hussein að nota flugher sinn og þyrlur gegn uppreisnarmönnum.

Eins og fyrri daginn eru Kúrdar og Sjítar peð á skákborði lélegra manngangsmanna í Washington. Þar hefur frá því í stríði verið reynt að tefla málum í þá stöðu, að Saddam Hussein fari frá, en við taki hugnanlegri maður úr valdahópi Ba’athista og haldi ríkinu saman.

Samkvæmt stefnunni í Washington er hætta á, að klerkaveldið í Íran flæði til vesturs, ef Írak veikist of mikið eða klofnar í aðskilin ríki hinna þriggja meginþjóða landsins. Þess vegna studdu Bandaríkin Saddam Hussein í árásarstríðinu gegn Íran á níunda áratugnum.

Samkvæmt stefnunni lét Bush í Persaflóastríðinu stöðva sókn bandamanna til Bagdað og hleypa her Saddams Hussein undir vopnum úr herkvínni. Schwarzkopf herstjóri og yfirmenn bandamanna voru furðu lostnir, en fengu ekki að gert. Stríðinu var hætt í miðju kafi.

Þegar svo kom í ljós, að þetta dugði ekki til hallarbyltingar í Ba’ath flokknum, æsti Bush Kúrda og Sjíta til uppreisnar. Þeir töldu sér vísan stuðning Bandaríkjastjórnar, en voru sviknir um hann, því að Bush vildi ekki hleypa þeim of langt gegn ríkiseiningu Íraks.

Kúrdar sættu óárreittum lofthernaði af hálfu stjórnarhers Saddams Hussein, guldu mikið afhroð og flúðu tugþúsundum saman á fjöll. Þær hörmungar standa enn og einmitt vegna þeirra er skákmaðurinn Bush Bandaríkjaforseti sannkallaður stríðsglæpamaður.

Nú er Bush að reyna að nota peðin á nýjan leik, að þessu sinni til að koma í veg fyrir, að Bandaríkjamenn átti sig á, að hann tapaði persónulega sigri bandamanna í Persaflóastríðinu. Hann vill, að hin sviknu peð treysti sér á nýjan leik og hjálpi sér í kosningabaráttunni.

Saddam Hussein virðist að öðru leyti traustur í sessi, enda hefur hann hreinsað svo til í kringum sig, að einungis ættmenn hans eru við stjórnvölinn í landinu. Hann mun ótrauður halda áfram að reyna að byggja upp kjarnorkuvopn og ógna olíulindum við Persaflóa.

Stjórnarfarið í Kúveit hefur lítið skánað við frelsunina. Í stað ógnarstjórnar Íraka hefur verið endurvakin afturhaldsstjórn fremur ógeðfelldrar og duglausrar furstaættar, sem er andvíg vestrænni hugmyndafræði, beitir sér gegn lýðræði og ofsækir útlendinga.

Það er því fremur lítið, sem stendur eftir þetta dýra Persaflóastríð, sem bandamenn Bandaríkjanna greiddu að fullu, annað en að ekki sé hægt að treysta Bandaríkjastjórn, þegar lélegir manngangsmenn í Washington þykjast sjá leikfléttur á skákborði alþjóðastjórnmála.

Ef aðvífandi kosningar í Bandaríkjunum verða til að lina hörmungar Kúrda, sem hafa verið geymdir á fjöllum í nokkur misseri, er þó ekki allt unnið fyrir gýg.

Jónas Kristjánsson

DV

Útborgað í pútnahúsi

Greinar

Samkvæmt áratuga gömlu samkomulagi tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna skal vera hermang í þessu landi. Samkvæmt þessu samkomulagi er þessa dagana verið að dreifa hundruðum milljóna til þeirra, sem fengu hlutabréf í hermanginu eða hafa erft þau.

Hluthafar hermangsins njóta þess núna, að stærsti hluthafi þess, Samband íslenzkra samvinnufélaga, er nánast gjaldþrota og þarf á reiðufé að halda. Þess vegna er ríkið að kaupa sig inn í hermangið og moka fé í hluthafana, sem fyrir eru. Þetta hefur ruggað bátnum.

Ef ríkið hefði ekki þurft að hjálpa Sambandinu, hefði hermangið fengið að dafna áfram hér eftir sem hingað til. Þetta er sérkennilegt hermang, sem fer fram fyrir opnum tjöldum, en ekki undir borðum. Því má segja, að kjósendur hafi sífellt verið að samþykkja það.

Árum og áratugum saman hafa kjósendur skellt skollaeyrum við kvörtunum í fjölmiðlum út af hermanginu í kringum Íslenzka aðalverktaka og Sameinaða verktaka. Engin pólitísk samstaða hefur myndazt um að þurrka þennan hórdómsblett af þjóðinni.

Spilling hermangsins felst fremur í öðru en dreifingu peninga til hluthafa. Rotið andrúmsloft hermangsins hefur spillt þjóðarsálinni. Hermangið hefur stuðlað að því ástandi, að menn hafa einkum þær áhyggjur af spillingu, að þeir fái ekki sjálfir aðgang að henni.

Stjórnendur hermangsfyrirtækjanna eru inni á gafli í stjórnmálunum. Þeir hafa viðurkennt, að þeir veiti peningum til stjórnmálaflokka. Og þeir bjóða ráðherrum til laxveiði, svo sem frægt er orðið. Ef hægt er að tala um kolkrabba í þjóðfélaginu, þá er það hermangið.

Langt er síðan farið var að benda á, að forkastanlegt sé hvers konar hermang og einkum þessi skipan hermangs á vegum forréttindastéttar. Umræðan kom með nýjum fjölmiðlum, sem ekki eru tengdir stjórnmálaflokkum. Tillögur til úrbóta eru margar og misgóðar.

Sumir hafa lagt til, að ríkið taki sjálft að sér að reka pútnahús Aðalverktaka og Sameinaðra verktaka, svo að gróðinn fari í sameiginlegan sjóð fremur en í vasa yfirstéttarinnar. Sá galli er á þessu, að þar með yrði ekki bara yfirstéttin, heldur þjóðin öll að gleðikonu.

Ef ríkið færi að reka pútnahúsin, mundi öfundin minnka, en spillingin blómstra áfram. Betra er að hætta hermangi yfirleitt og fara að bjóða verkefni varnarliðsins út á opnum og alþjóðlegum verktakamarkaði í samræmi við heilbrigðar siðsemisreglur markaðskerfisins.

Ef samkomulag er milli Bandaríkjanna og Íslands um, að fyrra ríkið borgi eins konar leigu fyrir aðstöðu sína hér á landi, er heiðarlegra að framkvæma slíkt með hlutdeild í gerð hernaðarlega mikilvægra samgöngutækja, svo sem flugvalla, vega og fjarskiptakerfa.

Við búum undir spilltri yfirstétt, sem lifir á ríkisverndaðri einokun á borð við hermangið eða á ríkisstuddri fáokun á borð við olíufélögin. Eitt merkasta óleysta verkefni kjósenda er að varpa þessari einokun og fáokun af herðum sér og lofta út í þjóðfélaginu.

Því miður er ástæða til að óttast, að reiði margra út af útborgunardegi í pútnahúsum varnarliðsins stafi ekki af því að þeir vilji lofta út, heldur séu þeir að öfundast út af því, að Jón erfingi skuli fá skattlausan happdrættisvinning, sem Jón arflausi fær ekki.

Það er kjósenda ákveða að afnema hermang og spillingu einokunar og fáokunar í þjóðfélaginu. Það verður ekki gert á grundvelli öfundar, heldur betra hugarfars.

Jónas Kristjánsson

DV

Lögverndað eitur

Greinar

Landlæknir hefur ákveðið að halda verndarhendi yfir svefnlyfinu Halcion, sem hefur verið bannað í Bretlandi, Noregi og Finnlandi vegna rökstudds gruns um hættulegar aukaverkanir, sem geti leitt til geðbilunar og ofbeldisafbrota sumra þeirra, sem ánetjast lyfinu.

Þetta er í stíl við dálæti Íslendinga á ýmsum lyfjum, sem notuð eru sem fíkniefni. Þetta dálæti kemur meðal annars fram í, að mikill hluti þeirra, sem lagðir eru inn á slysadeild Borgarspítalans vegna inntöku eiturefna, hefur neytt lyfja, sem þeir fá samkvæmt lyfseðlum.

Erlendis eru eitranir af slíku tagi einkum af völdum heróíns eða kókaíns, amfetamíns eða kannabis, sem eru seld á svörtum markaði. Hér á landi gegna lögleg lyf hlutverki fíkniefna, enda virðist aðgangur að slíkum lyfjum meira eða minna auðveldur og aðhaldslítill.

Enginn af þeim 155 einstaklingum, sem komu til slysadeildar vegna eitrunar, hafði notað kókaín eða heróín. Aðeins sex höfðu notað amfetamín eða kannabis. Afgangurinn hafði verið á löglegum eiturlyfjum, ýmist áfengi eða lyfjum eða hvoru tveggja í senn.

Flest fólk, sem er til vandræða í þjóðfélaginu vegna síbrota af ýmsu tagi, er áfengis- og lyfjafíklar. Þjóðfélagið hefur stuðlað að þessu með því að leyfa, að dælt sé róandi lyfjum í fanga á Litla-Hrauni, þannig að þeir verða ekki síður háðir þeim en hinu hefðbundna áfengi.

Því má halda fram, að betra sé að hafa fíkniefnavandamálið á lyfseðlunum heldur en á svarta markaðnum. Þá sé betra að fylgjast með því og halda því í skefjum. En í raun er lítið sem ekkert fylgst með, hverjir eru í hve miklum mæli á hinum löglega eiturlyfjamarkaði.

Halcion er eitt þeirra róandi lyfja, sem notuð hafa verið af fíklum, og hefur einkum verið vinsælt í Vestmannaeyjum. Það hefur þó fallið í skuggann fyrir benzodíazepíni af ýmsu tagi. En öll þessi róandi og svæfandi lyf hafa reynzt vanabindandi eins og önnur eiturlyf.

Því er nú haldið fram af ábyrgum læknum og fræðimönnum í Bandaríkjunum, að fyrirtækið, sem framleiðir Halcion, hafi í um það bil áratug sumpart falsað niðurstöður rannsókna og sumpart haldið þeim leyndum til að leyna vitneskju um aukaverkanir þessa lyfs.

Með tilliti til hins gífurlega kostnaðar og hörmunga, er þjóðfélagið sætir vegna ofnotkunar löglegra lyfja, sem fólk fær afgreidd samkvæmt lyfseðli, verður að teljast sérkennilegt, að heilbrigðisyfirvöld og landlæknisembættið skuli ekki taka þessi mál fastari tökum.

Algengt er, að fólk, sem orðið er háð áfengi, er flutt yfir í lyfjaþrældóm og ástand þess þannig gert enn verra en það var. Þetta tengist útbreiddri trú meðal sálfræðinga, að unnt sé að kenna fíklum að nota lyf og áfengi í hófi, þótt það stríði gegn niðurstöðum rannsókna.

Töluvert er þegar vitað um hættur af efnum þeim, sem breyta hugarfari og sálarástandi. Því ætti strax að þrengja að notkun róandi lyfja og svefnlyfja, sem eru stór og vaxandi grein af þessum persónubreytandi efnum. En því miður virðast yfirvöld ekki skilja þetta enn.

Halda má fram, að lyf þessi geti verið bráðnauðsynleg við ákveðnar aðstæður. En ekki verður betur séð en að töluvert svigrúm sé til að þrengja notkun þeirra með betra eftirliti með útgáfu lyfseðla og strangara aðhaldi með læknum þeim, sem þjóna fíklamarkaðnum.

Læknar taka lítið mark á hvatningu landlæknis um að gefa fremur út ávísanir á veikari útgáfu af Halcion en hina sterkari. Silkihanzkar landlæknis virka ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Undraland

Greinar

Alþingi er komið fram yfir fjárlög í útgjöldum fyrsta mánaðar ársins, af því að fundir þess hafa verið fleiri og lengri en gert var ráð fyrir. Töluverð næturvinna starfsliðs og nokkurt pappírsflóð fylgir næturfundum á borð við þá, sem hafa verið tíðir að undanförnu.

Ef sérkennileg hugmynd fjármálaráðuneytisins um brottfall launagreiðslna við slíkan framúrakstur hefði náð fram að ganga, væru alþingsmenn væntanlega fyrstu fórndardýrin. En óneitanlega hefði verið gaman að sjá hugmyndina framkvæmda á launum þingmanna.

Sumt gerist skondið við þessa miklu fundi Alþingis. Þar þegir heilbrigðisráðherra þunnu hljóði vikum og raunar mánuðum saman, en stekkur svo í miðri atkvæðagreiðslu upp í ræðustól til að veitast á ómaklegan og ósmekklegan hátt að forvera sínum í embætti.

Ráðamenn Alþingis ættu að velta fyrir sér, hvort það kunni ekki að skaðast af tíðum sjónvarpssendingum frá undarlegum atburðum á Alþingi. Stundum styðja þessar myndir þá skoðun sumra úti í bæ, að Alþingi sé eins og tossabekkur eða málfundur í gagnfræðaskóla.

Undarlegir atburðir gerast víðar en á Alþingi. Eitt helzta hermangsfyrirtækið fann leið til að dreifa 900 milljónum til hluthafa sinna á sama tíma og ríkisspítalarnir voru í óða önn að skera niður 550 milljón króna útgjöld með því að leggja niður ýmsa þjónustu.

Oft hefur verið krafizt þess, að hermang verði lagt niður hér á landi og í stað þess boðin út verkefni á heiðarlegan hátt. 900 milljónirnar hljóta að ýta undir þá skoðun, að tímabært sé að hreinsa þjóðfélagið af þeim svarta bletti, sem hermangið hefur sett á það.

Sumir óvæntir atburðir nýbyrjaðs árs eru ekki eins sorglegir og þessi. Það hefur til dæmis gerzt sennilega í fyrsta skipti, að hagsmunaaðilar, sem telja að sér vegið í sparnaðaráformum stjórnvalda, virðast átta sig á, hvers vegna þeir lenda undir niðurskurðarhnífnum.

Rektor Háskóla Íslands og að minnsta kosti einn skólastjóri hafa kvartað um, að stjórnvöld séu að draga úr menntun landsmanna, af því að þau þori ekki að takast á við hið raunverulega fjárhagsvandamál þjóðfélagsins, gífurlegan peningaaustur í landbúnað.

Þetta er einmitt ástæðan fyrir árás stjórnvalda á menntun eins og árás þeirra á öryrkja, gamalt fólk, sjúklinga og barnafólk. Á samdráttartíma verða smælingjarnir undir, þegar varðveitt er velferðarkerfi í atvinnulífinu. Þjóðin hefur hingað til neitað að sjá þetta.

Ummæli skólastjóranna tveggja eru óvenjuleg og gleðileg. Hins vegar mun þorri skólamanna ekki enn sjá neitt samhengi milli landbúnaðarstefnu og smábyggðastefnu stjórnvalda annars vegar og niðurskurðar í skólamálum hins vegar. Orsakasamhengi eru óvinsæl.

Skoðanakannanir hafa sýnt, að meirihluti þjóðarinnar er sæmilega sáttur við velferðarkerfi atvinnulífsins, sem hefur náð fullkomnun í landbúnaði. Þess vegna er ekki hægt að segja annað en, að þjóðin eigi fyllilega skilið þá útreið, sem hún er að fá hjá stjórnvöldum.

Á sama tíma og hremmingar kerfisins koma niður á öryrkjum, gamalmennum, námsmönnum, sjúklingum og barnafólki safnast þjóðin saman á fjölmenna fundi, ekki til að finna lausn á vanda velferðarinnar, heldur til að mótmæla aðild Íslands að meira viðskiptafrelsi.

Þjóð, sem rökræðir með frásögnum af skældum hrútum, er hún nefnir í höfuð fólks, sem henni er illa við, hefur nákvæmlega það Alþingi, sem hún á skilið.

Jónas Kristjánsson

DV

Minna gildi herstöðvar

Greinar

Gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur snöggminnkað og mun áfram minnka á næstu árum, ef ekki verða snögg skipti á stjórnarfari í Rússlandi. Eftirlit með hernaðarskipum, -kafbátum og -flugvélum verður ekki eins brýnt og var á dögum Sovétríkjanna.

Lýðræðislegt Rússland hefur erft hernaðarmátt Sovétríkjanna í Murmansk og á Kólaskaga. Þaðan hafa komið og munu koma þau hernaðartæki, sem talið hefur verið og talið verður skynsamlegt að fylgjast með í nágrenni við íslenzku hliðin í Norður-Atlantshafi.

Meðan enn er hætta á bakslagi í Rússlandi heldur herstöðin á Keflavíkurflugvelli hluta af fyrra gildi sínu. Mikil óánægja er með verðhækkanir í Rússlandi. Afturhaldsöflum í her og kommúnistaflokki landsins gæti tekizt að virkja hana til gagnbyltingar.

Ef Rússum tekst að varðveita nýfengið lýðræði, dregur smám saman úr möguleikum afturhaldsaflanna á að hrifsa til sín völd. Um leið minnkar hættan við íslenzku hliðin á Norður-Atlantshafi og verður fljótlega fyrst og fremst fræðilegs eðlis, en ekki raunveruleg.

Átök í sunnanverðum erfðaríkjum Sovétríkjanna og á Balkanskaga skipta litlu hér norður í höfum. Erfðadeilur og önnur eftirmál heimsveldishrunsins hafa ekki og munu ekki hafa áhrif á öryggi á Íslandi og hafsvæðum þes. Sá vandi verður austar og sunnar í álfunni.

Staðreyndin er einfaldlega sú, að dauður er “vondi” karlinn í tilveru Atlantshafsbandalagsins og varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þetta bakar bandalaginu tilvistarvanda og varnarliðinu tilvistarhrun. Þannig veit enginn, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.

Í sjónmáli er nýr óvinur vestursins. Sá verður erfiðari viðfangs en Sovétríkin, því að hann hefur meiri innri sannfæringarkraft og hefur önnur markmið en hinn fyrri óvinur. Þetta er Íslam, eini marktæki hemillinn á útbreiðslu vestræns lýðræðis um allan hnöttinn.

Hættan frá Íslam kemur einkum fram á suðurmörkum hins vestræna heims, við Miðjarðarhaf og Svartahaf, fjarri Íslandi og varnarliði þess. Atlantshafsbandalagið mun varðveita tilverurétt sinn með því að beina sjónum sínum frá norðri til þessara suðlægu átta.

Hryðjuverkahætta, sem einkum stafar frá Íslam, mun einnig fara vaxandi með aukinni spennu vesturs og Íslams. Hættan er ekki bundin við suðurmörk vestræns lýðræðis. Hana getur borið niður hvar sem er, til dæmis á Íslandi, en einkum í stórborgum Vesturlanda.

Skynsamlegt væri að beina viðbúnaði á Keflavíkurflugvelli í auknum mæli gegn hugsanlegum árásum fámennra hryðjuverkahópa. Sá viðbúnaður hlýtur að vera allt annars eðlis en hinn hefðbundni viðbúnaður, sem var miðaður við atómstríð vesturs og austurs.

Minnkandi gildi herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og breytt viðfangsefni í vörnum landsins munu kalla á endurskoðun varnarmála. Betri efnisrök verða fyrir því, að Íslendingar taki sjálfir að sér eftirlit og hryðjuverkavarnir að töluverðu eða öllu leyti.

Þar sem Norður-Atlantshafið er ekki lengur í spennumiðju alþjóðamála, er komin ný staða, sem kann að auðvelda Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu að komast að raun um, að bezt sé, að Íslendingar taki við leifunum af hlutverki Keflavíkurflugvallar.

Ekki þýðir að láta eins og ekkert hafi í skorizt, þótt kalda stríðið hafi hrunið. Gildi Keflavíkurflugvallar verður óhjákvæmilega annað og minna en verið hefur.

Jónas Kristjánsson

DV

Án virðingar og aga

Greinar

Ríkisstjórnin nýtur ekki virðingar og trausts svokallaðra stuðningsmanna sinna á Alþingi. Þeir standa margir hverjir uppi í hárinu á henni. Hún á í erfiðleikum í hverju málinu á fætur öðru, allt frá sjómannaafslætti og námsgjöldum yfir í síldarsölu og sölu Ríkisskipa.

Verkstjórn af hálfu stjórnarflokkanna er ekki greindarleg á því þingi, sem nú stendur. Óþarfa yfirgangur þingforseta og þingflokksformanna gagnvart stjórnarandstöðu, til dæmis í vali í stjórnunarstöður, veldur því, að samstarf um rennsli mála er lítið sem ekkert.

Er oddvitar stjórnarflokkanna kjósa að hunza stjórnarandstöðuna með þeim hætti, sem gerðist í haust, er þeim mun nauðsynlegra fyrir þá að hafa aga á sínum eigin mönnum. Það hefur brugðizt og nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna hlíta ekki hefðbundnum aga.

Mál eru orðin svo brengluð á Alþingi, að ein þingnefnd er farin að senda bænarskrár út í bæ eins og hver annar þrýstihópur. Hún hefur beðið Seðlabankann um að skipta um skoðun á því, hvort rétt sé af ríkinu að ábyrgjast síldarkaupalán Landsbanka til Rússa.

Hefðbundið er, að þingnefndir taki við frumvörpum og tillögum, sem koma fram; kalli á munnlegar og skriflegar athugasemdir utan úr bæ; síi sjónarmið þrýstihópanna; og geri síðan breytingar á þessum frumvörpum og tillögum fyrir endanlega afgreiðslu þeirra á þingi.

Þingnefndir eru þjónustunefndir þings, innanhússnefndir þess. Ef þær taka nú upp þann sið að fara sjálfar að þrýsta á aðila úti í bæ, er hætt við, að sumir aðilar úti í bæ hætti alveg að skilja, hvaðan á sig stendur veðrið. Hvernig ber að túlka bænarskrár þingnefnda?

Bandormur ríkisstjórnarinnar er lykillinn að framkvæmd stefnu hennar á þessu ári. Hann tafði afgreiðslu fjárlaga fyrir jól og er sjálfur enn ekki kominn í gegn. Dapurlegt gengi hans er bezta dæmið um, að ríkisstjórnin hefur ekki náð tökum á lífi sínu og vegferð sinni.

Tímabært er, að ráðherrar stjórnarflokkanna, verkstjórar þeirra á Alþingi og uppreisnargjarnir þingmenn þeirra komi saman til að finna nýjar vinnureglur um meðferð ágreiningsefna innan stjórnarliðsins, ef hinar gömlu duga ekki lengur í nýju virðingarleysi.

Þrennt þarf að koma til. Þingmenn verða að reyna að hafa hemil á sjálfstæði sínu eða fella það í einhvern formfastan farveg, sem gerir kleift að starfrækja ríkisstjórn í þessu landi. Þá þarf að vera á Alþingi verkstjórn, sem tengir saman ríkisstjórn og þingmenn.

Í þriðja lagi verður ríkisstjórn að starfa þannig, að hún njóti sæmilegs trausts, bæði inni á þingi og úti í bæ. Það gerir þessi ríkisstjórn alls ekki. Raunar hefur hún hafið feril sinn að þessu leyti með meiri hrakföllum en nokkur önnur ríkisstjórn á síðasta mannsaldri.

Ráðherrarnir eru persónulega ekki nógu siðaðir og hafa til dæmis ekki breytt undarlegum tekjuöflunarleiðum sínum. Þeir hafa ekki afnumið ferðahvetjandi greiðslur til sín. Sumir eru ölvaðir á almannafæri. Allt þetta smækkar ráðherrana í almenningsálitinu.

Í niðurskurði ríkisgeirans hefur ríkisstjórnin ekki treyst sér til að leggja til atlögu við hina sterku, það er að segja forréttindagreinar atvinnulífsins, og beinir spjótum sínum eingöngu að hinum veiku, börnum, gamalmennum, sjúklingum, öryrkjum og námsmönnum.

Siðblind ríkisstjórn með brenglaða útgáfu af frjálshyggju nýtur ekki trausts og nær ekki þeim aga á Alþingi, sem framkvæmdavaldi er brýnn í þingræðiskerfi.

Jónas Kristjánsson

DV

Bush skilur ekki útlönd

Greinar

Saddam Hussein og flokkur hans eru enn við völd í Írak, þótt ár sé liðið frá gagnárás bandamanna í stríðinu við Persaflóa. Sá maður, sem Bush Bandaríkjaforseti kallaði Hitler nútímans, heldur um þessar mundir sigurhátíðir í Bagdad til að minnast sigurs í þessu stríði.

Þegar fyrri bandamenn hófu gagnárás gegn Hitler á sínum tíma, hættu þeir ekki fyrr en þeir höfðu komið honum frá völdum og tryggt lýðræðissinnum völd í Þýzkalandi. Það land er nú orðið að þungamiðju í vestrænu samfélagi. En Írak er verra en það var.

Það var persónuleg ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta að stöðva gagnárásina á Saddam Hussein og flokk hans. Hann gerði það gegn ráðum bandamanna og gegn ráðum sinna eigin herstjóra. Hann ákvað að lýsa yfir sigri, sem ekki var tímabær, og fara heim með liðið.

Það var líka persónuleg ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta að hvetja Kúrda til uppreisnar gegn Saddam. Þeir fóru eftir því og reiknuðu með aðstoð hans. En þá leyfði hann Saddam Hussein að halda landher sínum og flugher undir vopnum til að reka Kúrda á flótta.

Hin ótímabæru stríðslok voru alvarleg mistök manns, sem skortir skilning á alþjóðamálum. Að hann skyldi þar á ofan verða upphafsmaður að nýjum harmleik Kúrda er ekkert annað en stríðsglæpur, sem mannkynssagan mun láta Bush standa reikningsskap fyrir.

Stríð Bush Bandaríkjaforseta við Persaflóa leysti ekki pólitísk vandamál þar og allra sízt í Kúveit. Þar er aftur komin til valda fádæma íhaldssöm furstaætt, sem einbeitir sér að því að brjóta niður lýðræðistilhneigingar, er brutust út í andófinu gegn hernámi Íraka.

Utanríkismál Bush eru raunar samfelld harmsaga. Nýjasti ósigur hans var sneypuförin til Japan, þar sem hann mætti með lið vælukjóa úr atvinnulífinu á borð við Lee Iacoca og uppskar fyrirlitningu Japana, sem vita, að vandræði Bandaríkjanna eru heimatilbúin.

Í júní í fyrra æsti utanríkisráðherra Bandaríkjaforseta Serba til stríðs gegn Slóvenum og Króötum með yfirlýsingu í Belgrad um, að varðveita bæri einingu Júgóslavíu. Stjórn Bush hefur verið allra stjórna síðust að átta sig á, að dagur sambandsríkja er liðinn.

Í ágúst í fyrra lýsti Bush Bandaríkjaforseti því sjálfur yfir í höfuðborg Úkraínu, að framtíð þess lands væri falin í sovézka sambandinu, sem nú hefur verið afnumið. Allt fram á síðasta dag hélt Bush dauðahaldi í það pólitíska lík, sem Gorbatsjov hefur lengi verið.

Bush og ráðgjafar hans hundsuðu sjálfstæðisvilja Eystrasaltsþjóða alveg eins og Úkraínumanna, Slóvena og Króata. Hvarvetna í Austur-Evrópu hefur stjórn hans verið síðust allra að átta sig á óumflýjanlegum breytingum. Hvergi hefur örlað á bandarískri forustu.

Bush, ráðgjafar hans og landsmenn eru haldnir þeirri firru, að hann sé hæfur í utanríkismálum. Svo langt gengur auðnuleysi hans á því sviði, að hann hefur misreiknað einmitt það land, sem hann ætti að þekkja bezt, því að hann var sendiherra þar. Það er rauða Kína.

Bush lætur hina óvenjulega ógeðfelldu valdamenn í Kína njóta beztu viðskiptakjara í Bandaríkjunum. Þeir launa honum með því að gera ekki neitt af því, sem hann mælir með, og reyna fremur að ganga þvert á ráðleggingar hans. Þeir hafa betur í þeirri skák.

Vesturlöndum kemur illa, að sjálft forusturíki þeirra skuli smám saman vera að afsala sér forustu með því að vera kerfisbundið úti að aka í utanríkismálum.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammtímamenn

Greinar

Churchill og de Gaulle löguðu ekki skoðanir sínar að því, sem þeir lásu í skoðanakönnunum. Þeir héldu fast við sitt og sættu sig við að fara frá völdum. Síðan kölluðu þjóðir þeirra aftur á þá, þegar harðnaði á dalnum. Þess vegna eiga þeir báðir sess í mannkynssögunni.

Nú á tímum er minna um, að þjóðarleiðtogar leiði þjóðir. Í vaxandi mæli eru forustumenn þjóða leiddir af stundarfyrirbærum á borð við skoðanakannanir. Þeir hafa engin sérstök sjónarmið, en reyna að haga seglum á þann hátt, að þeir vinni næstu kosningar.

Skammtímamenn og einnota hafa í auknum mæli leyst langtímamenn af hólmi. Margir stjórnmálamenn nútímans beygja sig eftir meintum þörfum hvers tíma, þar á meðal duttlungum líðandi stundar og sérhagsmunum þeim, sem háværastir og frekastir eru hverju sinni.

Gott dæmi um breytinguna er tollfrelsisklúbburinn GATT, sem komið var á fót af víðsýnum stjórnmálamönnum eftir stríð. Þeir sáu, að allar þjóðir mundu græða á að lækka tolla og minnka aðrar samkeppnishindranir, þótt einstakir sérhagsmunir yrðu að víkja.

Nú vantar þessa yfirsýn. Stjórnmálamenn, allt frá Evrópubandalaginu til Íslands, eru ófærir um að þróa GATT áfram til enn meiri framtíðargróða fyrir alla. Þeir eru þvert á móti fastir á bólakafi í þjónustu við mjög þrönga sérhagsmuni. Þeir eru að drepa GATT.

Ætla mætti, að stjórnmálamenn, sem hafa náð langt, öðluðust yfirsýn með því að hugleiða stöðu sína í sögunni. Ætla mætti, að þeir leiddu hugann að því, hvað verði sagt að þeim látnum eða hvað verði sagt um þá á næstu öld. Ætla mætti, að þeir vildu eignast orðstír.

Í stað þess eru þeir uppteknir við skammtíma á borð við háværa þrýstihópa, sveiflu í næstu skoðanakönnunum eða í mesta lagi niðurstöðu næstu kosninga. Þeir vilja sigra í bardögum og gera það oft, en tapa styrjöldunum að baki. Þeir minna á Phyrros og Hannibal.

Iðkendur stjórnmála eru farnir að meta árangur sinn eftir því, hvernig þeir geti sloppið fyrir horn frá degi til dags. Þeir hafa enga þolinmæði, ekkert úthald til að spá í, hver verði staða mála að tíu eða tuttugu árum liðnum. Þeir lifa í skammtímanum og velkjast um í honum.

Bandaríkin eru lengst komin á þessari braut. Þar er forseti, sem hefur enga yfirsýn eða siðferðiskjarna, en getur unnið kosningar. Þar er atvinnulífinu meira eða minna stjórnað af mönnum, sem ekki sjá lengra en til næsta aðalfundar, næstu birtingar reikninga.

Af þessum ástæðum fara Bandaríkin halloka í viðskiptasamkeppni við Japan. Af þessum ástæðum er þar í landi rekin hallastefna í efnahagsmálum, sem byggist á að eyða því í dag, sem aflast kann á morgun. Þessi stefna kom með Reagan og hefur haldizt með Bush.

Okkar menn fara í humátt á eftir þessu. Þeir hrökkva í kút í hvert sinn, sem þröngir sérhagsmunir reka upp vein. Þeir grípa skjálfandi höndum um niðurstöður skoðanakannana. Þeir eru svo einnota, að þeir sjá varla fram til næstu kosninga. Þeir bara sitja meðan sætt er.

Ráðherrar þessarar stjórnar og nokkurra næstu á undan henni hafa flestir sérhæft sig í að taka tillit til þrýstihópa og bjarga stjórnarsetu sinni fyrir horn frá degi til dags. Þeir berja ekki í borðið og segja nei, líklega af því að þá skortir grundvallarsjónarmið.

Ráðamönnum ber að stjórna og standa og falla með gerðum sínum. Reyni þeir bara að sitja, er hætt við að orðstír þeirra verði lítill í eftirmælum sögunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfspyndingarstefna

Greinar

Fáir rísa upp til andmæla, þegar stjórnvöld bregða hnífi sínum á kjör sjúklinga, gamals fólks, öryrkja og námsmanna. Allt ætlar hins vegar af göflunum að ganga, þegar stjórnvöld eru að reyna að spara eitthvað á sviði byggðamála og annarra atvinnubótamála.

Það eru helzt starfsmenn þeirra stofnana, sem niðurskurðurinn beinist gegn, sem rísa upp til andmæla, svo sem kennarar og skólastjórar eða læknar og hjúkrunarkonur. Meirihluti almennings í landinu lætur sig hins vegar litlu varða um fjármál þessara stofnana.

Þetta er meginskýringin á, að ríkisstjórninni hefur tekizt eða er að takast að ná fram niðurskurði í heilbrigðismálum, tryggingamálum og menntamálum, sem nemur nokkur hundruð milljónum króna hér og þar. Þetta eru nefnilega mjúku málin, sem þjóðin hafnar.

Ríkisstjórninni tekst hins vegar ekki að fresta borun gata í fjöll eða atvinnubótavinnu í ríkisframkvæmdum. Hún bakar sér andstöðu meirihluta fólks, ef hún reynir að hrófla við ríkisrekstri landbúnaðarins. Fjármálaumræðan á Alþingi endurspeglar þessar staðreyndir.

Verst láta Íslendingar, þegar senda þarf álit ríkisstjórnarinnar á tillögum GATT-forstjórans um aukna og ódýrari strauma vöru og þjónustu um heiminn. Þá eru haldnir fundir um allt land til að koma í veg fyrir, að neytendastefna GATT nái fram að ganga hér á landi.

GATT er tolla- og viðskiptafélag rúmlega 100 ríkja. Níu af hverjum tíu krónum heimsviðskipta eru á sviðum, sem þessi stofnun lætur til sín taka. Hún er sjálfur hornsteinn þeirrar velmegunar, sem alþjóðleg viðskipti hafa fært Vesturlöndum á síðustu áratugum.

Það er meira eða minna fyrir tilstilli GATT, að ekki er innflutningsbann á íslenzkum fiskafurðum í öðrum löndum til að vernda sjávarútveg. Það er meira eða minna fyrir tilstilli GATT, að ekki eru háir tollar á íslenzkum fiski til að vernda útveg í öðrum löndum.

Engin þjóð í heiminum hefur grætt eins mikið á GATT og Íslendingar, ef miðað er við íbúafjölda. Engin þjóð á eins mikið undir því, að stefna GATT í utanríkisviðskiptum haldi áfram að eflast, en koðni ekki niður í nýju andrúmslofti verndarstefnu og viðskiptastríðs.

Í fimm ár hefur verið þjarkað án árangurs í GATT um frekari útvíkkun frelsis. Hún hefur strandað á sérhagsmunum, einkum landbúnaðar, sem víða um heim eru teknir fram yfir almannahagsmuni. Tillaga forstjórans er úrslitatilraun til að knýja fram niðurstöðu.

Þegar sjálf tilvera GATT er í húfi og heimsbyggðin stendur andspænis hættu á aukinni verndarstefnu og nýju viðskiptastríði, koma Íslendingar saman á hverjum fundinum á fætur öðrum til að heimta, að Ísland taki þátt í að grafa undan tillögum GATT-forstjórans.

Það er dæmigert fyrir Íslendinga að láta sig litlu skipta, þótt rifuð séu segl í heilbrigðismálum, velferðarmálum og menntamálum, svo skiptir nokkrum hundruðum milljóna, en vilja ekki láta snerta á milljarðasparnaði í velferðar- og verndarkerfi í atvinnulífinu.

Það er dæmigert fyrir okkur, sem höfum ekki efni á núverandi úthaldi í heilbrigðisstofnunum, elli- og örorkupeningum, svo og í skólahaldi, að við höfum efni á að vernda fortíðina í atvinnumálum og stuðla að sundrungu í alþjóðaviðskiptum, sem skaðar fiskútflutning.

Ef stjórnvöld taka þátt í að bregða fæti fyrir lokatilraun GATT-forstjórans, haga þau sér samkvæmt þjóðarvilja, sem vill sjálfspyndingu, en ekki langtímagróða.

Jónas Kristjánsson

DV

Höfuðóvinurinn er íslam

Greinar

Íslam verður Vesturlöndum og hugmyndaheimi okkar hættulegri höfuðóvinur en Sovétríkin voru. Í stað járntjalds um þvera Evrópu er að myndast öflugra tjald, sem liggur um þvert Miðjarðarhaf og Svartahaf, milli Vesturlanda í norðri og íslamskra landa í suðri.

Roðinn í austri varð að gjalti í ljóma Vesturlanda, enda var ágreiningurinn fremur um leiðir en markmið. Sovétríkin gáfust upp, þegar ljóst varð, að kerfi þeirra var lakari leið til að ná sama árangri og Vesturlönd kepptu að. Austrið rann inn í vestrið á síðasta ári.

Íslam er annars eðlis en austrið. Múhameð spámaður býður annars heims trúarbrögð í stað þessa heims trúarbragða Marx spámanns og arftaka hans. Múhameð býður hugmyndafræði, sem er í mikilli sókn í þriðja heiminum og etur þar til kapps við vestræna hugmyndafræði.

Lýðræði í vestrænum skilningi á erfitt uppdráttar í heimi íslams, þótt það renni ljúflega um nærri alla Austur-Evrópu og búi við vaxandi gengi í þeim hluta þriðja heimsins, sem ekki er íslamskur. Þessi þröskuldur milli vesturs og íslams er alls ekki að lækka.

Í sumum ríkjum íslams er valdabarátta milli vestrænt hugsandi fólks og strangtrúarmanna. Í Tyrklandi eru völdin í höndum hinna vestrænu og í Egyptalandi eru þeir í ótryggri valdastöðu. Víðast annars staðar í heimi íslams eru strangtrúarmenn í öflugri sókn.

Þeir unnu mikinn kosningasigur í fyrri umferð þingkosninga í Alsír. Skoðanakannanir benda til, að í seinni umferðinni nái þeir nægilegum meirihluta til að breyta stjórnarskránni. Og það var einmitt kosningamál þeirra að breyta Alsír í klerkaveldi á grundvelli Kóransins.

Þetta mun í framkvæmd leiða til hörkulegs réttarfars og villimannlegra refsinga að mati Vesturlandabúa. Það mun leiða til vaxandi ójafnaðar milli karla og kvenna. Það mun leiða til markvissrar herferðar gegn vestrænu gildismati í efnahagsmálum og mannréttindamálum.

Armar íslams teygja sig líka til Vesturlanda. Þekktur rithöfundur verður að fara huldu höfði á Vesturlöndum, af því að klerkar íslams hafa lýst hann réttdræpan og hafa lagt fé til höfuðs honum. Vesturlönd geta ekki tryggt honum eðlilegt líf á grunni vestræns öryggis.

Svo langt ganga þessi áhrif, að íslamskir trúarleiðtogar á Vesturlöndum taka undir morðhótanir klerkanna. Eftir áramótin ítrekaði íslamskur trúarleiðtogi í Bretlandi, að íslömum væri skylt að hafna brezkum lögum, ef þeir telja þau brjóta í bága við reglur íslams.

Ástandið er orðið alvarlegt, ef ríkisborgarar í vestrænum ríkjum lýsa opinberlega yfir, að fólk eigi ekki að taka mark á lögum viðkomandi ríkis. Slíka leiðtoga ber hiklaust að svipta borgararétti og senda til íslamskra klerkaríkja, þar sem þeir eiga betur heima.

Vesturlönd mega ekki verða svo lin, að þau sætti sig við, að eigin borgarar hvetji til beinna brota á lögum og stjórnarskrá. Hugmyndaheimur Vesturlanda gerir ráð fyrir, að andóf og önnur andstaða við ríkjandi reglur fari eftir fastmótuðum leikreglum vestræns lýðræðis.

Vesturlönd þurfa líka að vera viðbúin að taka afstöðu til straums fólks, sem mun flýja ríki íslams af efnahagslegum og trúarlegum ástæðum. Vaxandi klerkaveldi mun fylgja aukin grimmd og aukin fátækt, sem mun ýta við fólki, er telur sér henta betur vestrænt líf.

Erfiðast verður að fást við íslamska hryðjuverkamenn, sem munu koma sér upp skæðari vopnum, þar á meðal atómsprengjum, er rúmast í ferðatöskum.

Jónas Kristjánsson

DV

Einokun í jólagjöf

Greinar

Jólagjöf utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar var fjögurra ára framlenging á einkarétti Flugleiða til afgreiðslu á vöruflugi á Keflavíkurflugvelli. Að sögn talsmanns Flugleiða er framlengingin á svipuðum nótum og fyrri einokunarsamningur.

Flugleiðir hafa notað þessa einokun til að reka brott þau flugfélög, sem hafa reynt að koma á fót ódýru vöruflugi milli Íslands og fjarlægra landa. Þannig hafa Flugleiðir á síðustu árum losnað við Flying Tigers, Pan American og Federal Express af Keflavíkurflugvelli.

Lág farmgjöld í flugi eru helzta forsenda þess, að við getum komið dýrustu sjávarafurðum okkar á beztu markaði í fjarlægum löndum. Án þeirra getum við ekki nýtt Japansmarkað að neinu gagni, þann markað, sem að öðru leyti virðist hafa mesta þróunarmöguleika.

Lág farmgjöld í flugi eru líka helzta forsenda þess, að við getum komið upp fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Engum erlendum forstjóra mun detta í hug að ræða við Íslendinga um notkun slíks svæðis nema tryggt sé frjálst samkeppnisverð í vöruafgreiðslu.

Það er náttúrulögmál í viðskiptum, að lág gjöld þrífast ekki við einokun. Sú staðreynd hefur lengi verið kunn á Vesturlöndum og upp á síðkastið einnig í Austur-Evrópu. Þess vegna er alls staðar beitt samkeppni til að útvega lægsta verð, sem fáanlegt er hverju sinni.

Aðeins hér á landi láta embættismenn og stjórnmálamenn sér detta í hug að hægt sé á einhvern annan hátt að finna lágt verð. Hér á landi telja valdamenn enn frambærilegt, að unnt sé að láta verðútreikninga og meinta sanngirni koma í stað verðmyndunar í samkeppni.

Ekki hefur enn verið í alvöru reynt að koma á fót einokun Eimskipafélags Íslands á vöruafgreiðslu í Reykjavíkurhöfn. Önnur skipafélög mega afgreiða sig sjálf og óháðir aðilar geta boðið vöruafgreiðslu hverjum sem er. Þannig ætti þetta að vera á Keflavíkurvelli.

Í hinum nýja einokunarsamningi er ákvæði um endurskoðun, ef komið verði á fót fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Þar kann að vera undankomuleið fyrir síðari ríkisstjórn, sem hugsanlega verður ekki eins fjandsamleg frjálshyggju í atvinnulífinu og þessi.

Að vísu þyrfti slík ríkisstjórn að sannfæra erlenda aðila, sem hugsanlega vildu taka þátt í fríiðnarsvæði, um, að hún muni falla frá ástarsambandinu, sem einkennt hefur samlíf Flugleiða og hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarri. Og það verður afar erfitt.

Af biturri reynslu allra erlendra aðila, sem hafa reynt að koma upp ódýru vöruflugi til Íslands og frá því, munu aðrir draga þá ályktun, að íslenzkum stjórnvöldum sé ekki treystandi til að leyfa markaðslögmálum að njóta sín í vöruafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli.

Í hinum nýja einokunarsamningi er ekkert ákvæði um endurskoðun, ef íslenzkur sjávarútvegur uppgötvar, að einokunin kemur í veg fyrir eðlilega þróun í tækni Íslendinga við að koma sjávarafurðum í sem hæst verð á erlendum markaði. Menn verða að bíða í fjögur ár.

Einokunarsamningurinn sýnir, að valdakerfið tekur hagsmuni Flugleiða fram yfir hagsmuni almennings og atvinnuvega. Það kemur líka fram í einokun á flugleiðum innanlands og utan, í takmörkunum á leiguflugi, svo og í undanþágum frá greiðslu ýmissa gjalda.

Með nýja einokunarsamningnum hefur utanríkisráðherra og ríkisstjórnin lýst frati á strauma frjálsræðis, sem einkenna atvinnulíf umheimsins í auknum mæli.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegn Serbíu-Hitler

Greinar

Samkvæmt yfirlýsingu utanríkisráðherra mun Ísland fylgja í kjölfar Þýzkalands og lýsa yfir í þessari viku, að Ísland muni með nótuskiptum viðurkenna Slóveníu og Króatíu sem sjálfstæð ríki, ef uppfyllt verði nokkur auðveld skilyrði um lýðræði og rétt minnihlutahópa.

Þýzkaland hefur raunar ekki sett nein skilyrði fyrir sinni viðurkenningu, enda má líta svo á, að Slóvenía og Króatía hafi þegar uppfyllt skilyrðin, að svo miklu leyti sem hægt er að ástunda lýðræði og mannréttindi, þegar verið er að verjast gegn landvinningastríði.

Tregðan við að viðurkenna Slóveníu og Króatíu segir ekki fagra sögu af áhuga vestrænna þjóða á lýðræði og mannréttindum í Austur-Evrópu. Útþenslustefna Serbíuforseta og serbneskra yfirmanna Júgóslavíuhers hefur óbeint verið studd sterkum öflum á Vesturlöndum.

Verstur er þáttur Bandaríkjastjórnar. James Baker utanríkisráðherra hefur margoft lýst stuðningi við kommúnistana í Júgóslavíu. Hann var í sumar á ferð þar til að vara Slóveníu og Króatíu við sjálfstæðisbrölti. Og nú neita Bandaríkin viðurkenningu.

Þetta minnir á, hversu treg Bandaríkin voru að viðurkenna Eystrasaltsríkin og hversu eindregið þau hafa stutt kommúnistann og fylgisleysingjann Gorbatsjov í varnarstríði hans gegn lýðræðisöflum í lýðveldum þess svæðis, sem áður var heimsveldið Sovétríkin.

Afstaða Bandaríkjastjórnar skýrir, hvers vegna Atlantshafsbandalagið, sem stofnað var til að hefta útbreiðslu kommúnismans í Evrópu, hefur orðið að horfa í aðgerðaleysi á vopnaða og blóðuga útþenslu síðustu móhíkana kommúnismans í Evrópu, stjórnenda Serbíu.

Aðild Javier Perez de Cuellar, forstjóra Sameinuðu þjóðanna, að Serbíubandalagi Bandaríkjastjórnar á síðustu vikum valdaferils hans verður ekki skýrð á neinn vitrænan hátt. Annaðhvort eru það elliórar eða þjónustulund gagnvart eina heimsveldinu, sem eftir er.

Þótt segja megi, að aldrei valdi einn, þegar tveir deili, er blóðbaðið í Króatíu fyrst og fremst af völdum Slobodan Milosevic Serbíuforseta. Hann er kommúnisti, sem hefur ræktað völd sín með því að beita aðferðum Hitlers og höfða til lægstu þjóðernishvata Serbíumanna.

Í blóðbaðinu er Serbíu-Hitler studdur af herforingjum, sem líka eru tilfinningalausir kommúnistar, og eru líka að bjarga starfi sínu, því að ekkert rúm eða fé er fyrir útblásinn her í þeim lýðveldum, sem eru að rísa á rústum ríkis, sem áður hékk saman á kommúnisma.

Það er út í bláinn, þegar ráðamenn í Bandaríkjunum, Sameinuðu þjóðunum og jafnvel í Evrópubandalaginu gefa í skyn, að þessir kommúnistar verði enn verri viðskiptis, ef Slóvenía og Króatía öðlast viðurkenningu. Þeir geta alls ekki orðið verri en þeir eru í raun.

Hitt er líklegra, að Milosevic og herforingjarnir leggi niður rófuna, ef Vesturlönd sýna einarðlega, að þau ætli ekki að láta þá komast upp með landvinningastríð sitt. Þeir eru að því leyti eins og Saddam Hussein, að þeir túlka sáttatilraunir sem vestræna linkind.

Bandaríkin, Nató og Sameinuðu þjóðirnar hafa svívirðu af máli þessu, en Evrópubandalagið sleppur fyrir horn á síðustu stundu. Og Ísland fyllir betri hópinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Eigin gæfu smiðir

Greinar

Tvíhliða viðræður Íslands við Evrópubandalagið um nýjan eða breyttan viðskiptasamning verða næsta verkefni okkar á sviði utanríkisviðskipta, ef evrópska efnahagssvæðið er úr sögunni í núverandi mynd, svo sem líkur benda til eftir rothögg Evrópudómstólsins.

Evrópubandalagið breytir ekki stjórnarskrá sinni til að standa við samninginn um evrópskt efnahagssvæði. Hins vegar kann það að líta mildum augum á, að efni hans verði tekið upp í tvíhliða fríverzlunarsamningum við þau ríki, sem ekki hugsa sér að ganga í bandalagið.

Raunar er Evrópubandalaginu siðferðilega skylt að leysa málið eftir að hafa tvisvar sinnum klúðrað því. Sú verður væntanlega meginforsendan, sem samningamenn okkar gefa sér, þegar þráðurinn verður tekinn upp að nýju í tvíhliða eða marghliða viðræðum.

Ljóst er, að Ísland mun ekki stíga lengra skref til evrópskrar sameiningar en stigið var með hinu andvana fædda efnahagssvæði. Við fórum þar út á yztu nöf, enda er engin þjóðarsátt um árangur þeirrar göngu, heldur er þjóðin klofin í herðar niður í afstöðu til hennar.

Við munum til dæmis ekki geta sætt okkur við, að slátrari evrópska efnahagssvæðisins, Evrópudómstóllinn, fái meiri lögsögu yfir Íslandi. Enginn pólitískur vilji er á Íslandi fyrir slíku afsali fullveldis. Við viljum áfram hafa lykilinn að gæfu okkar í eigin höndum.

Við munum ekki feta braut Svía, Finna og Austurríkismanna inn í Evrópubandalagið. Við erum fámennari þjóð og getum ekki leyft okkur að ganga eins langt í afsali fullveldis. Okkar fullveldi er ekki sterkara en svo, að við þurfum að vaka yfir því nótt og dag.

Evrópubandalagið hefur marga kosti. Það hefur forustu í ýmissi lagasetningu, til dæmis í umhverfismálum. Það er að koma á fót Evrópumynt, sem við ættum að taka upp í stað krónunnar. Það er þó fyrst og fremst frjáls markaður, sem við viljum vera í tengslum við.

Evrópubandalagið hefur líka galla, sem fæla okkur frá. Það er skriffinnskubákn, sem hefur tilhneigingu til að heyja viðskiptastríð út á við. Það er bákn, sem tekur örlagaríkar ákvarðanir, þar sem kvartmilljón manna á Íslandi skipta jafnlitlu og íbúarnir í Cardiff í Wales.

Við viljum ekki vera eins og Cardiff í Wales. Við viljum reka sérstakt þjóðfélag, alveg eins og Litháar og Króatar. Við viljum þetta, þótt leiða megi rök að því að ódýrara væri að haga málum á annan hátt. Við teljum, að þjóðríki sé heppileg eining, þótt lítil sé.

Nú hefur nýtt stríð tekið við af kalda stríðinu. Það er stríðið milli þjóðríkja og sambandsríkja, þar sem deyjandi Sovétríki, deyjandi Júgóslavía, Bandaríkin og forstjóri Sameinuðu þjóðanna mynda bandalag til að reyna að koma í veg fyrir fæðingu þjóðríkja.

Þetta bandalag er dauðadæmt, því að hinn stríði straumur sögunnar liggur í átt til þjóðríkja, sem vilja vera eigin gæfu smiðir, en eru fús til samstarfs við aðra um fríverzlun og önnur hagkvæmnismál, sem ekki skerða fullveldi þjóðríkjanna að neinu marki.

Evrópubandalagið er punkturinn eftir Evrópustríðin, eldra fyrirbæri en vakning þjóðríkja, sem einkennir nútímann. Það hefur í krafti stærðar öðlazt sitt eigið hreyfiafl, sem gerir það eftirsóknarvert fyrir marga, svo sem Svía og Finna. Við erum ekki í þeim aðdáendahópi.

Þegar Svíar og Finnar verða orðnir enskumælandi Evrópumenn, ætla Íslendingar áfram að vera íslenzkumælandi Íslendingar og sinnar eigin gæfu smiðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Marklausir með lífsstíl

Greinar

Þegar illa árar, reynir mest á forustuna. Þá er gott að hafa stjórnskörunga á borð við Winston Churchill, sem rísa hæst, þegar þrautirnar eru mestar, og hrífa fólk með sér til sameiginlegra átaka gegn aðsteðjandi erfiðleikum. Slíka vantar okkur núna í kreppunni.

Við höfum hins vegar fjármálaráðherra, sem er búinn að setja um bílafríðindi ráðherra nýja reglugerð, er felur í sér frávik frá því, sem gildir um aðra forstjóra í þjóðfélaginu, og leiðir til, að ráðherrar borga ekki nema fjórðung af því, sem ríkisskattstjóri taldi rétt.

Þegar þessi sami fjármálaráðherra kemur með mæðusvip í sjónvarp og segir ástandið svo alvarlegt, að allir hópar þjóðfélagsins þurfi að leggja sitt af mörkum, er ekki ljóst, hvort rétt sé að hlæja eða gráta. Þarna er á ferð marklaus maður með marklausa prédikun.

Það er einmitt einkennisgalli núverandi rikisstjórnar, að hún sáir ekki trausti í hjörtu fólks. Hún er ekki skipuð stjórnskörungum, sem geta fengið þjóðina til að taka möglunarlítið á sig nýjar byrðar. Hún er skipuð eiginhagsmunastrákum, sem ekki njóta virðingar.

Hinn einkennisgalli ríkisstjórnarinnar er, að ráðherrar virðast telja starf sitt vera léttara en það er í raun. Þeir virðast fremur líta á ráðherratignina sem eftirsóttan lífsstíl en sem verkefni, sem þurfi að fást við. Þeir eru að leika ráðherra en ekki að starfa sem ráðherrar.

Þetta lýsir sér í, að verk ríkisstjórnarinnar reynast illa unnin, þegar þau koma fyrir Alþingi. Hún leggur fram bandorm tillagna um álögur út og suður og niðurskurð út og suður án þess að hafa rætt málin við þá aðila, sem helzt eiga að sæta álögum og niðurskurði.

Þegar virðingarlítil ríkisstjórn vinnur verk sín illa, mætir hún andófi og uppreisn utan þings og innan. Hennar eigin þingmenn hlaupa í allar áttir undan ábyrgðinni af verkum hennar. Afleiðingin er, að bandormur hennar um álögur og niðurskurð fer út um þúfur.

Ráðherrar verða að láta undan síga og falla frá hverju málinu á fætur öðru; falla frá tilfærslu kostnar af málum fatlaðara til sveitarfélaga, falla frá auknum skólagjöldum, falla frá frestun jarðgangna á Vestfjörðum, falla frá verulegum hluta af minnkun sjómannaafsláttar.

Það hriktir í flestum þáttum bandormsins nema niðurskurði barnabóta, af því að barnafólk á sér ekki málsvara á borð við þá, sem berjast gegn álögum og niðurskurði á öðrum sviðum. Hvert á fætur öðru bila áform ríkisstjórnarinnar um minni taprekstur ríkisins.

Komið hefur í ljós, að ráðherrarnir hafa meira eða minna látið hjá líða að tryggja málunum stuðning eða hlutleysi. Sveitastjórnir og samtök þeirra höfðu ekki hugmynd um ráðagerðir ríkisstjórnarinnar á þeirra sviði fyrr en þær birtust í margumræddum bandormi.

Þannig fer tvennt saman hjá ríkisstjórninni. Hún vinnur ekki verk sín af nauðsynlegri kostgæfni til að tryggja þeim brautargengi. Og hún nýtur ekki þeirrar virðingar innan og utan þings, að menn víki úr vegi til að auðvelda henni að koma málum sínum fram.

Svona fer fyrir strákum með lífsstíl. Svona fer fyrir þeim, sem gæta þess vendilega að leggja ekki niður dagpeningakerfi, sem er ferðahvetjandi fyrir ráðherra, af því að þeir vilja ekki draga úr lífsstíl sínum. Þeir halda lífsstíl sínum, en glata trausti og virðingu annarra.

Verst er, að ráðherrarnir virðast sáttir við þá stöðu, að þeir séu að leika ráðherra, án þess að mark sé tekið á þeim, svo framarlega sem þeir fái bara að leika sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandormur þjóðarviljans

Greinar

Þótt bandormur ríkisstjórnarinnar sæti andstöðu á Alþingi og jafnvel einstakra stjórnarþingmanna, er hann í töluverðu samræmi við ýmis helztu áhugamál þjóðarinnar, sem kærir sig kollótta um samdrátt í velferð lítilmagnans, í heilsugæzlu og í skólahaldi.

Það er í samræmi við vilja þjóðarinnar, að bandormurinn snertir nærri ekkert óskabarn hennar, hinn hefðbundna landbúnað. Þjóðin vill á þeim vettvangi óbreytt ástand, sem kostar hana um tólf milljarða á ári í innflutningsbanni og átta milljarða í innlendum stuðningi.

Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri lýsir meirihluti hinna spurðu yfir því, að ekki megi flytja inn búvöru í samkeppni við hina innlendu, jafnvel þótt það lækki vöruverð til neytenda. Þannig lýsir þjóðin því yfir, að hún sé reiðubúin að bera þessar byrðar.

Úr því að stærsti útgjaldaliður neytenda og skattgreiðenda er friðhelgur, má búast við, að þeim mun meira verði undan að láta á öðrum sviðum, þegar harðnar á dalnum. Niðurskurður hlýtur að verða þeim mun þyngri á öðrum sviðum sameiginlegra útgjalda.

Einnig hefur komið í ljós, að þjóðin hefur mikinn áhuga á, að til samgöngubóta verði boruð göt í fjöll. Samgöngur eru annað hjartans mál hennar næst á eftir landbúnaði. Enda hefur ríkisstjórnin aðeins treyst sér til eins árs frestunar framkvæmda á þeim vettvangi.

Ekki er heldur líklegt, að nein markverð andstaða verði við, að helmingur vandamálsins verði galdraður á brott með flötum niðurskurði ríkisútgjalda. Það er gamalkunn og vinsæl aðferð, sem hefur ævinlega falizt í, að niðurskurður verður í raun alls enginn.

Fáir gráta, þótt sveitarfélög verði fyrir kárínum, sem samtals nema tæpum milljarði króna. Sveitarfélög eru ópersónuleg fyrirbæri eins og ríkið sjálft og eru hvort sem er á hausnum eins og ríkið. Það er bara sveitarstjórnarfólkið, sem barmar sér yfir milljarðinum.

Þjóðinni er nokkurn veginn sama, þótt fjárveitingar til Háskólans leggist niður á 22 árum, ef svo fer fram, sem nú horfir. Henni er líka sama um annan niðurskurð í skólamálum og í heilsugæzlu, svo ekki sé talað um barnabæturnar, sem aðeins á að skera um 10%.

Það velferðarkerfi, sem Íslendingar vilja í rauninni hafa, er ekki velferðarkerfi heimilanna, heldur hins hefðbundna atvinnulífs. Menn vilja, að ríkisvaldið framleiði seðla handa opinberum sjóðum til að sjá um, að atvinnurekstur leggist ekki niður eða færist til.

Bandormur ríkisstjórnarinnar er fyrsta aðgerðin til að mæta mögru árunum, sem gengin eru í garð. Þessi mögru ár eru heimasmíðuð og eru leidd af vilja þjóðarinnar. Þau stafa af hátimbruðu velferðarkerfi atvinnulífsins og einkum þó hins hefðbundna landbúnaðar.

Þegar búið er að verja milljörðum til að framleiða laxeldisstöðvar með handafli og milljörðum til að tryggja, að hvert einasta frystihús landsins verði áfram í rekstri, má búast við timburmönnum á borð við þá, sem bandormi ríkisstjórnarinnar er ætlað að lina.

Þegar búið er að byggja upp varnarkerfi til að draga úr möguleikum á, að ferskur fiskur sé seldur dýru verði úr landi, má búast við slíkum timburmönnum. Þeir stafa einfaldlega af því, að undanfarnar ríkisstjórnir hafa verið önnum kafnar við að framkvæma þjóðarviljann.

Með bandormi ríkisstjórnarinnar hefur þjóðin fengið það, sem hún vill og á skilið. Hún sækist eftir sjálfspyndingum og hefur fengið þær. Í því felst lýðræðið.

Jónas Kristjánsson

DV