Greinar

Friðsamt andlát

Greinar

Andláti Sovétríkjanna var formlega lýst á laugardaginn, þegar undirritaður var samningur Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands um nýtt ríkjabandalag hins slavneska kjarna Sovétríkjanna. Jafnframt voru sovézk lög felld úr gildi og sovézkar stofnanir lýstar ógildar.

Nýja ríkjasambandið minnir að nokkru á Evrópubandalagið, því að gert er ráð fyrir nánu samstarfi ríkjanna þriggja, svo sem samræmdri utanríkisstefnu, tollastefnu, samgöngustefnu og umhverfisstefnu, auk þess sem þau mynda með sér fríverzlunarsvæði.

Í samningi Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands er gert ráð fyrir sameiginlegri stjórn ríkjanna þriggja á kjarnorkuvopnum svæðisins og sameiginlegum aðgerðum þeirra til eyðingar þessara vopna. Þá heita ríkin þrjú í samningnum að virða landamæri hvert annars.

Þessi tvö atriði hljóta að skipta miklu, þegar umheimurinn metur afleiðingarnar af andláti Sovétríkjanna. Með helgun núverandi landamæra lýsa ríkin yfir, að ekki verði júgóslavneskt ástand milli þeirra. Rússland ætlar ekki að feta í fótspor útþensluhneigðrar Serbíu.

Mikill fjöldi Rússa býr utan landamæra Rússlands, einkum í Úkraínu, á sama hátt og mikill fjöldi Serba býr utan landamæra Serbíu, til dæmis í Króatíu. Sumir hafa óttazt, að þetta mundi leiða til spennu og átaka á landmærunum, einkum milli Rússlands og Úkraínu.

James Baker, hinn seinheppni utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gekk svo langt á laugardaginn, að hann varaði við, að ástandið í Sovétríkjunum gæti leitt til svipaðs blóðbaðs og í Júgóslavíu, með þeirri viðbót, að kjarnorkuvopnum kynni að verða beitt í borgarastríði.

Þetta voru kaldar kveðjur af hálfu Bandaríkjastjórnar, sem sýknt og heilagt hefur reynt að vernda sambandsstjórnina í Kreml á sama hátt og hún hefur reynt að vernda sambandsstjórn Júgóslavíu. Þetta er liður í bandarísku dálæti á sambandsríkjum yfirleitt.

Með sameiginlegri yfirstjórn kjarnorkuvopna og yfirlýsingunni um eyðingu þeirra eru slavnesku ríkin þrjú ennfremur að lýsa yfir friðsamlegum viðhorfum gagnvart umheiminum. Efnahagslegur stuðningur að vestan verður svo háður framgangi þessarar viljayfirlýsingar.

Það er því ekki ástæða til að senda Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi kaldar kveðjur í stíl Bakers. Miklu fremur er ástæða til að fagna því, að óhjákvæmilegt hrun Sovétríkjanna skyldi leiða til vitsmunalegrar niðurstöðu í efnahagsbandalagi ríkjanna þriggja.

Öll sex árin, sem Gorbatsjov hefur verið forustumaður Sovétríkjanna, hefur mátt ljóst vera, að hann hefði ekki burði til að halda heimsveldinu saman. Í leiðurum DV hefur í sex ár verið varað við oftrú á Gorbatsjov, enda hefur hann verið og er enn trúaður kommúnisti.

Við lýðræðislegar aðstæður er það nánast náttúrulögmál, að þjóðir vilja vera út af fyrir sig í eigin ríki, þótt þær vilji líka vera í ýmsum fjölþjóðasamtökum. Þegar lýðræðisþróun er komin vel á veg, er tilgangslaust að reyna að halda sambandsríkjum og heimsveldum á lífi.

Sundrun Sovétríkjanna hefur nú leitt til þeirrar niðurstöðu, sem heppilegust er, friðsams ríkjabandalags hins slavneska og evrópska kjarna heimsveldisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Ódýrari handboltalausn

Greinar

Komið hafa í ljós hugmyndir um ódýrari leiðir til að halda hér heimsmeistarakeppni í handbolta en áður hafði verið ákveðið að fara. Þessar leiðir ber að skoða í alvöru, því að leiðinlegt er fyrir Ísland að geta ekki staðið við samninga, sem á sínum tíma voru harðsóttir.

Þegar menn fóru að óttast, að framkvæmdir yrðu dýrari en 500 milljónir og færu hugsanlega langleiðina upp í milljarð, kom í ljós, að dæmið var byggt á sandi. Ríkið hafði bara lofað sem svarar 350 milljónum á núverandi verðlagi og Kópavogur réð ekki við afganginn.

Nýir valdhafar í Kópavogi telja dæmið farið úr böndum og hafa stuðning meirihluta bæjarbúa í skoðanakönnun um málið. Enda er auðvelt að sýna fram á, að hagsmunum Kópavogs sé betur borgið með annars konar íþróttahöllum eða annars konar framkvæmdum.

Bæjarfélög á borð við Kópavog þurfa yfirleitt lítil eins vallar hús með takmörkuðu áhorfendasvæði, fremur en stór hús með mörgum völlum og umfangsmiklu áhorfendasvæði. Þau þurfa hús, sem börn og unglingar geta sótt um skamman veg, fremur en langan.

Af þessum ástæðum er hætt við, að um sjálfsblekkingu sé að ræða, ef ráðamenn bæjarfélaga halda, að heimsmeistarahöll nýtist í fjárfestingu að fullu sem skóla- og íþróttahúsnæði. Alltaf verður einhver kostnaðarmunur, sem lendir á þeim, sem tekur að sér ábyrgð.

Athyglisvert er, að ráðamenn Hafnarfjarðar vilja ekki taka að sér hlutverk Kópavogs, heldur vilja, að frumkvæðið komi frá ríkinu og að Hafnarfjörður verði meðreiðarsveinn. En ríkið hefur haldið fast við samninginn, sem felur ekki sér ríkisfrumkvæði í málinu.

Hugsanlegt er að fara megi aðra leið og hengja málið á sýningarskála, sem einkum væri ætlaður fyrir vörusýningar. Slíkur skáli væri hagkvæmastur í Laugardal í Reykjavík, þar sem slík aðstaða er fyrir í smærri stíl og þaðan sem stutt er til hótela og veitingastaða.

Raunar þarf fyrr eða síðar að leggja út í kostnað við að gera Reykjavík að öflugri sýninga- og ráðstefnuborg en nú er. Hótel og veitingahús eru þar fjölmörg, fundarsalir dálítið takmarkaðir og sýningaraðstaða lítil.Ráðstefnu- og sýningagestir eru þeir ferðamenn, sem skila þjóðarbúinu mestum tekjum. Til að verða gjaldgengt á því sviði vantar Ísland enn, helzt í Laugardal, öfluga ráðstefnu- og sýningarmiðstöð, sem getur þjónað mjög misstórum hópum og einkum þó stórum hópum.

Erlend reynsla er fyrir, að ekki þýðir að hafa slíka miðstöð í hálfgerðum svefnbæjum á borð við Kópavog. Hún þarf að vera þar sem eru barirnir og böllin, hótelin og veitingahúsin. En ráðamenn Reykjavíkur hafa ekki enn sett slíka miðstöð efst á óskalista sinn.

Í varfærni sinni taka þeir tillit til, að núverandi aðstaða til ráðstefna og sýninga er fremur lítið notuð. Þeir reikna með, að langan tíma taki fyrir borgina að ná til baka kostnaði við enn meiri aðstöðu, enda mundi hagurinn af henni dreifast til margra óskyldra aðila.

Í erfiðri stöðu er freistandi að reyna að semja við Flugleiðir um skammtímaleigu á væntanlegu flugskýli á Keflavíkurvelli, innrétta það sætum og hreinlætisaðstöðu, sem síðan má flytja annað og nýta. Enda hafa Flugleiðir gagn af, að heimsmeistarakeppni verði hér.

Þetta er engin óskalausn. En skólahúsnæðislausn í svefnbæ hefur reynzt veikburða að mati Kópavogs og sýningarsalarlausn í höfuðborg virðist því miður ekki enn hafa náð fyllingu tímans að mati Reykjavíkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt er hættuleg

Greinar

Ráðgert er, að lækkun vaxta verði hornsteinn nýrrar þjóðarsáttar, sem Vinnuveitendasambandið er að kynna viðsemjendum sínum. Samkvæmt hugmyndafræði þjóðarsáttar á minni vaxtabyrði að gera atvinnulífinu kleift að greiða óbreytt laun, þrátt fyrir aflasamdrátt.

Þetta er eðlilegt framhald fyrri þjóðarsáttar, sem hafði minnkun verðbólgu að hornsteini. Hún náði að þessu leyti tilætluðum árangri, því að verðbólga komst niður fyrir 10% og er núna litlu hærri en í ýmsum nágrannalöndum, sem við miðum oft lífskjör okkar við.

Þjóðarsættum af þessu tagi fylgja vandamál, sem eru misþung á metunum eftir aðstæðum hverju sinni. Slík vandamál felast yfirleitt í einhverri frystingu ástands, sem þjóðarsættum fylgir ævinlega. Frysting ástands er handaflsaðgerð, sem getur hefnt sín, þótt síðar verði.

Dæmigert fyrir þetta er, að síðasta þjóðarsátt var gerð með vitund og vilja landbúnaðarins og fól í sér frystingu á þáverandi ríkisrekstri atvinnugreinarinnar. Þessi ríkisrekstur landbúnaðar mun kosta þjóðina 15-20 milljarða á þessu ári og meira á hinu næsta.

Blóðtaka af þessu tagi gerir þjóðfélaginu erfitt um vik að takast á við raunveruleg verkefni, sem horfa til framtíðar. Að þessu leyti stuðlaði síðasta þjóðarsátt að meiri sóun á verðmætum en hefði orðið með almennilegum ófriði og æskilegri röskun í þjóðfélaginu.

Síðasta þjóðarsátt naut þess, að verð útflutningsafurða hækkaði á tímabilinu. Það þýddi um leið, að gengi krónunnar skekktist ekki. Þess vegna varð þjóðarsáttin ekki til þess, að innflutningur og önnur gjaldeyrisnotkun ryki upp úr öllu valdi og eyðilegði þjóðarsáttina.

Nú eru hins vegar ekki horfur á eins miklum bata í viðskiptakjörum. Til viðbótar kemur svo vandi, sem felst í auknum samdrætti þorskveiða og fleiri greina sjávarútvegsins á næsta ári. Þessi rýrnun mun hafa geigvænleg áhrif á gjaldeyrisöflun og viðskiptajafnvægi.

Þegar hefur gengið skekkzt um 20%. Það er nokkurn veginn hlutfallið, sem skráð gengi yrði að falla um, ef Ísland gerðist aðili að evrópska myntbandalaginu. Það er einmitt vegna þessarar skekkju, að ráðamenn treysta sér ekki til að taka nú þegar þátt í bandalaginu.

Skakkt gengi hefur margvísleg vandræði í för með sér. Augljóst dæmi er, að utanlandsferðir verða ódýrari en þær mundu vera á jafnvægistíma og innfluttar vörur verða ódýrari fyrir kaupendur en þær eru í raun. Þetta stuðlar að því, að þjóðin lifi hraðar um efni fram.

Leiðrétting á gengi krónunnar hefur að sjálfsögðu tilhneigingu til að þrýsta innlendri verðbólgu upp á við og síðan vöxtunum í kjölfarið. Þess vegna er hætt við, að ný þjóðarsátt muni fela í sér frystingu á núverandi krónugengi, jafnvel þótt það sé hættulega skakkt.

Af þessu má ráða, að ný þjóðarsátt muni ekki bara staðfesta framhald á núverandi verðmætabrennslu í landbúnaði, heldur einnig staðfesta framhald á núverandi óhófi í gjaldeyrisnotkun. Að því leyti verða hliðarverkanir nýrrar þjóðarsáttar verri en hinnar fyrri.

Í rauninni felast þjóðarsættir í samkomulagi um lausn brýnna vandamála og frystingu, frestun eða afneitun langtímavandamála. Hlutföll skammtíma- og langtímavandamála eru óvenjulega óhagstæð um þessar mundir og það mun spilla gengi nýrrar þjóðarsáttar.

Eftir langvinna þjóðarsátt er orðið brýnt, að þjóðfélagið taki á vanda, sem hefur hlaðizt upp í rörunum og hafni nýrri útgáfu af hefðbundinni þjóðarsátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Varnarstríð okkar allra

Greinar

Fjórtándu aldar klaustrið í Rozat hefur orðið fyrir skemmdum og sama er að segja um fimmtándu aldar virkið í Sokol. Villa Rastic og Sorkocevic-höllin í Dubrovnik hafa einnig orðið fyrir skemmdum. Eyðilagzt hafa Villa Gradic og Villa Bozdari við Dubrovnik.

Þessi menningarsögulegu hús á strandlengjunni við Dubrovnik höfðu ekkert hernaðarlegt gildi, fyrr eða síðar. Þau voru látin í friði af hermönnum Hitlers í síðari heimsstyrjöldinni og áður af hermönnum Napóleons og enn þar á undan af hermönnum Tyrkjasoldáns.

Villimenn fyrri alda létu í friði Dubrovnik, perlu Adríahafsins, hverrar þjóðar sem þeir voru. Það þarf tuttugustu öldina og Júgóslavíuher til að ráðast að menningarsögunni á þessu svæði. Að því leyti eru Serbarnir, sem stjórna hernum, ólíkir öðrum villimönnum.

Serbastjórar eru að þessu leyti líkir Rauðu herdeildunum í Kína og Rauðu khmerunum í Kambódsíu. Allir þessir hópar eiga það sameiginlegt að vera kommúnistar. Villimenn þurfa að vera haldnir trúarbrögðum af því tagi til að geta ráðizt gegn menningarsögunni.

Herforingjar Júgóslavíu eru undantekningarlítið Serbar og sannfærðir kommúnistar af gamla skólanum, alveg eins og Milosevic, forseti Serbíu, og aðrir ráðamenn Serbíu. Þetta herskáa smáríki Balkanskaga er síðasti útvörður útþenslustefnu kommúnisma í Evrópu.

Athyglisvert er, að Atlantshafsbandalagið er bjargarlaust í máli þessu. Það stafar af, að Bandaríkjastjórn hefur stutt sambandsstjórn Serba í Belgrad gegn sjálfstæðishreyfingum Króata og Slóvena, af því að Bandaríkjastjórn hefur sjúklegt dálæti á sambandsríkjum.

James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var síðast í sumar í Belgrad að lýsa stuðningi við sambandsstjórnina og vara ráðamenn Króatíu og Slóveníu við mótþróa. Þetta er í stíl við stuðning Bandaríkjastjórnar við kommúnistann Gorbatsjov í Sovétríkjunum.

Til skamms tíma reyndi Bandaríkjastjórn að koma í veg fyrir sjálfstæðisbrölt Eystrasaltsríkjanna og talaði niðrandi um lýðræðissinna í Rússlandi, einkum Jeltsín, sem síðar varð Rússlandsforseti. Bandaríkjastjórn heldur enn í dag dauðahaldi í fylgislausan Gorbatsjov.

Stuðningur Bandaríkjastjórnar við yfirlýsta kommúnista í Austur-Evrópu veldur því, að tímabært er að rifja upp sögu Atlantshafsbandalagsins og spyrja, hvort það hafi ekki gengið sér til húðar, þegar forusturíki þess leggst á sveif með villimönnum kommúnismans.

Evrópubandalagið er ekki miklu skárra. Það hefur sí og æ reynt að koma á sáttum milli Serba og Króata, með þeim árangri, að Júgóslavíuher hefur sí og æ fært sig upp á skaftið. Þannig fer, þegar reynt er að rökræða við villimenn, sem líta á rökræður sem ræfildóm.

Auðvitað á Vestur-Evrópa ekki að vera að dekstra villimenn af trúarflokki kommúnista, heldur taka einarða afstöðu gegn þeim, ekki bara í orði, heldur fyrst og fremst í verki. Ráðamenn Serba verða til vandræða alla tíð, þangað til þeir verða hraktir frá völdum.

Árás kommúnista á menningarsöguna í Króatíu lýsir sama hugarfari og sjá má í umgengni kommúnista Austur-Evrópu við umhverfið. Það þarf kerfisbundna villimenn til að eyðileggja vistkerfið á eins hroðalegan hátt og sjá má í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum.

Varnarstríð Króata gegn síðustu leifum þjóðskipulags, sem er fjandsamlegt manninum, menningarsögunni og náttúrunni, er varnarstríð okkar allra.

Jónas Kristjánsson

DV

Hópvinna í barnageymslu

Greinar

Þegar börn og unglingar hafa frelsi til að velja námsgreinar, er ekki við að búast, að nám þeirra henti alltaf nákvæmlega sem grundvöllur að því háskólanámi, sem það vill stunda. Eðlilegt er, að háskóladeildir geri sérkröfur, sem svarað sé í öldungadeildum menntaskóla.

Ef stúdent á málasviði vill verða verkfræðingar, er eðlilegt, að hann verði að taka eina eða tvær annir á stærðfræðisviði til að verða tækur í háskóladeildina. Þetta segir nákvæmlega ekki neitt um, að aukið valfrelsi sé óhentugt í grunnskólum og framhaldsskólum.

Lítið er vitað um, hvaða námsbrautir henti sem inngangur að háskólanámi. Fyrir áratug var málið lauslega kannað í háskólanum og virtist þá sem hefðbundnir skólar og valfrelsisskólar stæðu nokkuð jafnt að vígi. Þessi könnun olli úlfaþyt og varð ekki fram haldið.

Hafi ráðamenn Háskólans einhverja skoðun á undirbúningi nemenda, sem þangað koma, væri eðlilegast, að þeir tækju upp þráðinn frá því fyrir áratug og létu kanna að nýju, hver verða námsafdrif nemenda með mismunandi forsögu. Það á ekki að vera feimnismál.

Hitt er svo önnur saga, að grunnskólar og framhaldsskólar hafa önnur markmið en að rækta háskólastúdenta. Sumpart eru þeir leikvöllur hugmyndafræði, sem ekki býr nemendur undir erfitt háskólanám, heldur stuðlar að jöfnuði nemenda í fúski og leikjum.

Áþreifanlegri sagnfræði og landafræði hefur til dæmis verið breytt í þokukennda samfélagsfræði. Það er örvæntingarfull aðferð til að ná til þeirra nemenda, sem engan áhuga hafa á að læra neitt. Slíkir nemendur móta grunnskóla og framhaldsskóla í vaxandi mæli.

Grunnskólarnir eru að verulegu leyti geymslustofnanir, svo að foreldrar geti unnið í friði. Sem geymslustofnanir eru þeir þó fremur óhentugir, því að skóladagurinn er sundurslitinn, lítil aðstaða er til eiginnáms í skólum, og kennarar eru sí og æ á fundum eða í fríum.

Börn eru sjö ár í barnaskóla til að læra að lesa, skrifa og reikna. Það þætti lítil arðsemi á mælikvörðum atvinnulífsins, jafnvel þótt einnig sé tekið tillit til þess hlutverks skólanna að geyma börn, svo að þau séu ekki í lausagangi heima hjá sér eða úti á götunum.

Framhaldsskólarnir hafa smám saman verið að breytast úr forskóla fyrir háskólanám í eins konar dulbúið atvinnuleysi. Þeir hafa það hlutverk að halda ungu fólki frá vinnumarkaði, enda fetar allur þorri þess skólabrautina, meira eða minna áhuga- eða meðvitundarlítið.

Vinnubrögð í skólum stuðla að því, að fólk sigli átakalítið gegnum þá. Sem dæmi má nefna hópvinnu, sem felur í sér, að einn í hópnum vinnur verkið og skrifar skýrslu um málið. Úr hópvinnu koma fjölmennir hópar af fólki, sem venst því að fljóta áfram á baki annarra.

Stjórnunarfræðin segir, að hópvinna sé ekki líkleg til árangurs. Nefndir, ráð og hópar geta verið til ýmissa hluta nytsamleg, en ekki til að vinna. Verkin eru alltaf unnin af einstaklingum. Þessi staðreynd er bönnuð í félagshyggju, fúski og leikjum skólakerfisins.

Þegar skólar eru að miklu leyti geymslustofnanir og dulbúið atvinnuleysi, þegar þeir sætta sig við litla arðsemi við að kenna lestur, skrift og reikning, og þegar þeir færa sig í auknum mæli yfir í hópvinnu og aðrar tegundir af fúski og leikjum, er ekki von á góðri útkomu.

Þannig eru vandræði skólakerfisins að miklu leyti önnur en þau, sem eru til umræðu, þegar haldin eru kjaftaþing um efnið eða fundið að vangetu háskólanema.

Jónas Kristjánsson

DV

Félagar en ekki limir

Greinar

Við höfum gerzt félagar í nýjum og stærri fríverzlunarsamtökum, en ekki gerzt limir í efnahagsbandalagi. Sá er munurinn á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu. Það er mikill munur á að vera félagi í fjölþjóðasamtökum eða limur í fjölþjóðasamfélagi.

Raunar er Evrópubandalagið rangnefni. Rétt þýðing á nafni þess væri Evrópusamfélagið. Það orð lýsir betur markmiði þess, sameiningu Evrópu í eitt yfirríki með ytri tollmúra og önnur hliðstæð einkenni innri einingar og ytra ofbeldis, samevrópskt heimsveldi.

Samningurinn um efnahagssvæðið skyldar okkur ekki til að reisa tollmúra gagnvart ríkjum, sem eru utan svæðisins, svo sem Bandaríkjunum og Japan. Við getum látið slík ríki njóta sömu viðskiptakjara og ríki efnahagssvæðisins og haldið góðu sambandi til allra átta.

Sá er einmitt einn helzti munur Evrópubandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna, að samtökin gerðu aldrei kröfu til þess, að þátttökuríki hækkuðu tolla sína gagnvart aðilum utan þeirra. Það er munurinn á fríverzlunarhyggju og ofbeldishneigð í viðskiptum.

Við vitum, að Evrópubandalagið hneigist að viðskiptalegu ofbeldi. Við urðum áþreifanlega vör við það í langvinnum samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Við máttum kallast heppin að sleppa með sæmilega stöðu úr þeim hildarleik. Þar héngum við á þrjózkunni.

Ef við hefðum ekki gerzt þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu hefðum við orðið að leggja í stóraukinn kostnað við minna arðbær viðskipti við Bandaríkin og Japan til að dreifa eggjum okkar í fleiri körfur. Við hefðum orðið að taka á okkur sársaukafull umskipti.

Þótt Evrópa sé langbezti markaður okkar um þessar mundir, er þess að vænta, að Bandaríkin og einkum Japan geti orðið enn betri markaður í framtíðinni. Við getum haldið áfram að rækta þau viðskipti, þótt við höfum í bili ákveðið að halla okkur að Evrópu.

Dæmið lítur þannig út, að við getum notið skammtímahagnaðar á þessum áratug af vaxandi frelsi í viðskiptum við Evrópu, og fáum um leið góðan tíma til að undirbúa langtímahagnað á næsta áratug af vaxandi hátekjumarkaði í Bandaríkjunum og Japan.

Við höfum orðið vör við, að Japanir eru reiðubúnir að greiða mjög hátt verð fyrir vörur, sem ekki hafa gengið vel á öðrum markaði. Við þurfum að losna við einokun í afgreiðslu á vöruflugi og ná niður kostnaði í flugfragt til að efla slík viðskipti við Japan.

Það kostar þolinmæði og tíma að vinna nýja markaði. Þann tíma fáum við með þátttöku í evrópskri fríverzlun, sem án efa mun einkenna viðskipti okkar á þessum áratug. En við eigum um leið að hefja viðræður um fríverzlun við Japan og ríki Norður-Ameríku.

Um þessar mundir er verið að reyna að koma upp fríverzlunarsamtökum fyrir Bandaríkin, Kanada og Mexíkó. Við eigum að koma því á framfæri við þessi ríki, að við gætum hugsað okkur að sækja um þátttöku í slíku fríverzlunarsvæði vestur yfir Atlantshaf.

Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu bannar okkur ekki að vera í fleiri fríverzlunarsamtökum á öðrum slóðum. Ef við værum í senn í evrópskum og amerískum fríverzlunarsamtökum, væru okkur enn fleiri leiðir færar til utanríkisviðskipta en nú eru.

Við eigum hvarvetna að hvetja til fríverzlunar og fríverzlunarsamtaka, en hafna aðild að tollmúrasamfélögum og öðrum tilraunum til að framleiða ný heimsveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðin smíðar þröskuldana

Greinar

Þrjú atriði vega einna þyngst í áhyggjum manna af gengi Íslands í evrópsku efnahagssvæði. Öll varða þau fullveldi þjóðarinnar og stöðu Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar. Þessi þrjú atriði eru landakaup útlendinga, aðflutningur vinnuafls og útlend lögsaga dómstóla.

Íslenzk stjórnvöld geta, ef þau vilja, hagað málum á þann veg, að tvö fyrri atriðin verði okkur ekki hættuleg. Síðasta atriðið er ekki eins áþreifanlegt, en ekki síður brýnt skoðunarefni fjölmiðlaumræðunnar og þeirra, sem falið er að annast málin af Íslands hálfu.

Íslenzka ríkið ver milljörðum á hverju ári til stuðnings hefðbundnum landbúnaði. Ef stuðningnum eða hluta hans væri breytt í landakaup, t.d. á þann hátt, að ríkið tæki hlutabréf í jörðum fyrir framlagða peninga, gæti það smám saman hindrað sölu þeirra til útlendinga.

Þar að auki gæti ríkið notað hluta af árlegum stuðningi sínum til að kaupa afréttarlönd, sem það á ekki nú þegar, og jarðir á þeim stöðum, sem skipta mestu máli fyrir ferðaþjónustu. Hætt er við, að fáir útlendingar treysti sér til að keppa við ríkið á þessu sviði.

Á síðustu árum er ríkið farið að kaupa af bændum rétt þeirra til að framleiða hefðbundna búvöru. Ekki er nema stutt skref frá slíkum réttindakaupum yfir í kaup á landi til sameiginlegra afnota fyrir landsmenn eða til framleigu með kvöðum af hálfu landeiganda.

Sem hver annar landeigandi gæti ríkið sett kvaðir, sem eru strangari en þær, sem ríkið getur sett sem yfirvald í landinu. Sem landeigandi getur ríkið séð um, að viðkomandi land renni ekki í leigu til annarra en þeirra, sem eru og hafa lengi verið búsettir í landinu.

Íslenzka ríkið hefur einnig leiðir til að hindra óhæfilega mikinn straum erlends verkafólks til landsins. Ríkið getur beitt áhrifum sínum til þess, að settar verði reglur um, að innlent og erlent starfsfólk þurfi að hafa náð prófi í íslenzku hjá viðurkenndri skólastofnun.

Allir Íslendingar hafa slíkt próf frá skólakerfinu. Útlendingar yrðu að taka ákvörðun um að hafa fyrir því að taka slík próf, nema þeir fengju undanþágu í svipuðu skyni og atvinnuleyfi hafa hingað til verið veitt útlendingum til að leysa tímabundinn skort á vinnuafli.

Formlega séð væru allir jafnir fyrir slíkum lögum um íslenzkukunnáttu, sem sett væru til að koma í veg fyrir sambandserfiðleika milli fólks á vinnustöðum. Og útlendingar, sem nenntu að komast yfir múrinn, væru þrjózkunnar vegna vel tækir í samfélag Íslendinga.

Reglunum verða að fylgja víðtækar undanþágur, svo að erlent fólk geti unnið hér að sérstökum verkefnum í atvinnulífinu, svo sem tímabundnum eða sérhæfðum. Sennilega yrði nauðsynlegt að undanskilja starfsfólk erlendra verktaka, sem taka að sér tímabundin verk.

Erlendir verktakar eru okkur nauðsynlegir til að ná niður verðlagi, alveg eins og erlend flugfélög og tryggingafélög. Þeir hafa líka þann kost, að verk þeirra eru tímabundin, svo að starfsfólk þeirra kemur og fer, að svo miklu leyti sem það er ekki hreinlega innlent.

Sennilega koma fleiri leiðir en þessar til greina, ef þjóð og stjórnvöld telja nauðsynlegt að efla þröskulda gegn þeim erlendum áhrifum, sem væru til þess fallin að breyta þeim grundvallarforsendum þjóðfélagsins, að Ísland eigi að vera fyrir íslenzkumælandi Íslendinga.

Ekki er víst, að slíkir þröskuldar séu heppilegir. En velji þjóðin þröskulda, getur samningurinn um evrópskt efnahagssvæði ekki hindrað hana í að smíða þá.

Jónas Kristjánsson

DV

Drukkið í vinnunni

Greinar

Hér á landi hefur mótazt sú góða siðvenja, að fólk drekki ekki í vinnunni. Innleiðing bjórsins breytti þessu ekki, þótt ástæða væri til að óttast, að hún hvetti til dagdrykkju á svipaðan hátt og sjá má víða erlendis. Slíkar hrakspár hafa einfaldlega ekki rætzt.

Ein undantekning er á þessari góðu reglu. Í stjórnmálum hefur borið nokkuð á einstaklingum, sem fara ekki eftir þjóðarvenjunni. Í rituðum endurminningum kemur fram, að ýmsir stjórnmálamenn hafa vanmetið störf sín nógu mikið til að sinna þeim drukknir.

Áður en sjónvarp kom til sögunnar fylgdu þessu minni vandræði en verða nú. Að vísu gengu milli manna sögur um hneykslanlega hegðun stjórnmálamanna, en fólk hafði ekki beina reynslu af henni á borð við það sem nú má sjá í beinum útsendingum sjónvarpsstöðva.

Aukin nálægð kallar á, að stjórnmálamenn endurskoði viðhorf sín til drykkjuskapar við störf. Þeir þurfa að gæta þess að verða sér og þjóðinni ekki til skammar. Þeim ber að kalla frekar út varamenn, ef hætta er á, að þeir geti ekki sinnt skyldum sínum vegna ölæðis.

Málið verður erfiðara fyrir þá sök, að drykkjunni fylgir dómgreindarbrestur, sem veldur því, að menn telja sig færa í flestan sjó. Stærsta dæmið um það er byltingartilraun harðlínumanna í Sovétríkjunum, sem var framin í ölæði og fjaraði út í brennivínsdauða.

Stjórnmálamenn nota sennilega áfengi sem deyfilyf, af því að það er eina fíkniefnið, sem er löggilt. Þeim ætti þó að vera eins ljóst og öðrum, sem fylgjast með fréttum, að ekkert fíkniefni veldur jafn stórfelldum vandræðum og óhófleg áfengisneyzla gerir.

Þetta er meira vandamál hér á landi en í mörgum löndum, sem hafa lengra tímabil siðmenningar að baki. Stjórnmálamenn drekka víðar en á Íslandi, en þeir haga drykkju sinni á þann hátt, að ekki leiði til vanvirðu á opinberum vettvangi. Þeir geta strammað sig af.

Stundum er eins og stjórnmálamenn setji sig í spor starfsbræðra frá fyrri tíð, þegar almenningur hafði lakari aðstöðu til að fylgjast með daglegri hegðun stéttarinnar. Þetta sýnir dómgreindarskort, sem hugsanlega stafar einmitt af of mikilli, uppsafnaðri áfengisneyzlu.

Það er misskilningur, ef slíkir stjórnmálamenn halda, að þeir komizt upp með þetta. Fólk hefur þá þvert á móti í flimtingum. Það lítur ekki lengur upp til þeirra, heldur lítur niður á þá eins og hverja aðra skrípakarla, sem lauslega má flokka með skemmtilega greindum rónum.

Í nokkur ár hefur verið ástæða til að hafa áhyggjur af, að nokkrir stjórnmálamenn telji í lagi eða þolanlegt, að þeir komi fyrir almannasjónir á þann hátt, að gera megi ráð fyrir, að þeir séu ekki allsgáðir. En nú hefur greinilega keyrt um þverbak á þessu hættulega sviði.

Ein hættan er fordæmisgildið, sem þessi hegðun kann að hafa. Þótt meirihluti fólks líti niður á ölæðismenn á öllum þjóðfélagsstigum, eru alltaf einhverjir, sem þurfa afsökun til að auka drykkju sína eða færa hana yfir í vinnuna. Þeir kunna að vilja dansa eftir höfðinu.

Alvarlegri er þó virðingarbresturinn. Óhjákvæmilegt er, að venjulegt fólk fari að spyrja sig í vaxandi mæli, hvort ástand af þessu tagi sé algengt, hvort teknar séu mikilvægar ákvarðanir í slíku ástandi, og hvort slæma landsstjórn megi ef til vill skýra út frá fylliríi.

Áfengi er hættulegt fíkniefni, sem breytir persónu fólks, ef þess er neytt í nokkrum mæli. Valdamiklum stjórnmálamönnum ber að umgangast það með varúð.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýtt fordæmi í Madrid?

Greinar

Samkvæmt alþjóðalögum er hernámsríki óheimilt að reka íbúa af hernumdum svæðum og ennfremur er því óheimilt að nema land á slíkum svæðum. Á hernumdum svæðum Palestínu hefur Ísraelsríki brotið báðar þessar lagagreinar, síðari lagagreinina mjög gróflega.

Æskilegt er, að þessi staðreynd verði í sviðsljósi í tengslum við friðarráðstefnu Miðausturlanda, sem Bandaríkin hafa með stuðningi Sovétríkja boðað til í Madrid á Spáni. Einnig er mikilvægt, að tækifærið verði notað til að minna á hryðjuverk Ísraels í Palestínu.

Framferði Ísraelsríkis á hernumdum svæðum Palestínu má ekki verða að fordæmi annars staðar, þar sem hliðstæð vandamál geta magnazt vegna þjóðernis- eða trúardeilna, svo sem á þeim svæðum, sem við höfum lengi þekkt undir nöfnunum Sovétríkin og Júgóslavía.

Rússneskir og serbneskir yfirgangsmenn fylgjast vel með gangi mála. Ráðamenn í Rússlandi hafa gert tilkall til landsvæða í öðrum löndum, þar sem Rússar búa, svo sem í Úkraínu. Vegna hneykslunar að vestan hefur þessi krafa verið látin niður falla að sinni.

Serbía hefur komizt upp með að reyna landvinninga í Króatíu, á þeim forsendum, að þar búi mikið af Serbum. Ráðamenn Vesturlanda hafa reynt að benda Serbum á, að þeir komist ekki upp með þetta, en Serbíuforseti og sambandsher Júgóslavíu ekki viljað trúa.

Stefna Serbíuforseta og Júgóslavíuhers er að hrekja Króata burt af hernumdu svæðunum, svo að þar séu Serbar einir eftir. Ætlunin er að neyða Vestur-Evrópu til að sætta sig við orðinn hlut, þegar setzt verður í alvöru við samningaborð að loknum landvinningum.

Meðal ríkja heims er mikil andstaða við tilraunir af þessu tagi til að breyta landamærum, hvort sem það eru ytri landamæri eða innri landamæri í ríkjasambandi. Sem dæmi má nefna, að ríkjum Rómönsku Ameríku hefur að mestu tekizt að útrýma landamæraerjum.

Þótt Afríka hafi lengi verið eitt mesta ófriðarbæli heims, hefur verið þar nokkuð góð samstaða um, að landamæri séu heilög. Undantekningar á því hafa verið fáar og ekki náð fram að ganga. Dæmi um það er misheppnuð tilraun Líbýu til þenjast til suðurs.

Ísraelsríki hefur tekizt að nema land á hernumdum svæðum í Palestínu í skjóli Bandaríkjanna, þrátt fyrir alþjóðalög og alþjóðahefðir. Þetta hefur stuðlað að réttmætri einangrun ríkisins á alþjóðavettvangi og valdið Bandaríkjunum erfiðleikum í vestrænni samvinnu.

Um langt skeið hafa Bandaríkin haldið Ísraelsríki fjárhagslega á floti. Þau hafa líka að meira eða minna leyti kostað flutning fólks frá Sovétríkjunum til Ísraels. Þessir fjármunir hafa að hluta, beint og óbeint, verið notaðir til ísraelsks landnáms á hernumdu svæðunum.

Palestínumenn eiga undir högg að sækja vegna stuðnings þeirra við Saddam Hussein Íraksforseta. Þeir verða látnir gjalda þess á friðarfundunum í Madrid, þar sem yfirvöld í mörgum arabaríkjum eru meira á móti stjórn Saddams Hussein en þau eru á móti stjórninni í Ísrael.

Þess vegna eru horfur á, að alþjóðalög og alþjóðahefðir nái ekki fram að ganga á fundunum í Madrid. Það mun draga úr gildi slíkra laga og hefða og hafa slæm áhrif á alla þá sem áhuga hafa á að beita hryðjuverkum og ofbeldi til útþenslu í stíl Ísraels í Palestínu.

Bandaríkin, betlandi Sovétríki, Ísrael og örfá ólýðræðisleg arabaríki eru ekki réttir aðilar til að rjúfa lög og staðfesta árangur af yfirgangi Ísraels í Palestínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Fríverzlunarsigur í nótt

Greinar

Gott er samkomulagið, sem tókst í nótt milli Efnahagsbandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna. Það er svipaðs eðlis og óformlega samkomulagið, sem náðist næstum því á fundum þessara sömu aðila í júní í sumar og Efnahagsbandalagið gat þá ekki staðið við.

Tollfrelsi á saltfiski og ferskum flökum næst hægar en gert var ráð fyrir í sumar. Niðurstaðan verður þó í stórum dráttum hin sama. Hún felur í sér, að Ísland þarf ekki að gera ráðstafanir til að beina útflutningi sínum í aðrar áttir en til hins auðuga Evrópumarkaðar.

Ef Ísland hefði verið skilið eftir á lokaspretti viðræðnanna um evrópskt efnahagssvæði, hefðum við orðið að beina útflutningi okkar meira til Bandaríkjamarkaðar, sem gefur minna af sér, og til Japansmarkaðar, sem hefði þurft að byggja upp með ærnum sölukostnaði.

Samkomulagið í nótt leiðir af sér, að Ísland verður hluti hins frjálsa Evrópumarkaðar. Landið mun dragast nær Evrópu í viðskiptum. Það er fjárhagslega hagkvæmt, því að Evrópa er markaðurinn, sem borgar mest fyrir flestar vörurnar, sem við höfum að bjóða.

Samt þurfum við ekki að veita erlendum aðilum meiri aðgang að atvinnulífi landsins en lög gera þegar ráð fyrir. Við þurfum ekki að veita erlendum aðilunum neinar umtalsverðar veiðiheimildir í auðlindalögsögu landsins. Við erum eins frjáls og við vorum áður.

Þetta er heilbrigður samningur í anda Fríverzlunarsamtakanna. Hann fjallar um frelsi í viðskiptum, en ekki um afsal landsréttinda. Hvað okkur snertir er hann víkkun á hugsuninni, sem felst í viðskiptasamningnum, er við höfðum áður gert beint við Evrópubandalagið.

Af því að þetta er fríverzlunarsamningur þurfum við ekki að hefja innanlandsdeilur um, hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Samningurinn veldur því, að við þurfum ekkert á slíkri aðild að halda, því að við höfum fríverzlunina, sem skiptir okkur máli.

Ef Ísland hefði verið skilið eftir á fundinum í nótt, hefðu óhjákvæmilega hafizt hér á landi heitar deilur milli þeirra, sem vildu beina aðild að Evrópubandalaginu og hinna, sem höfnuðu slíkri aðild. Nú þarf þjóðin ekki að kljúfa sig í herðar niður í slíkum deilum.

Flestar aðrar þjóðir Fríverzlunarsamtakanna líta á samninginn um evrópskt efnahagssvæði sem formála að fullri aðild sinni að Evrópubandalaginu. Við lítum hins vegar á hann sem endastöð. Hér á landi er enginn jarðvegur fyrir beina aðild að Evrópubandalaginu.

Þótt allar þjóðir Evrópu gangi um síðir í Evrópubandalagið, þurfum við ekki að gera það, úr því að við höfum náð fríverzlun. Við getum haldið áfram að rækta viðskiptafrelsi okkar til annarra átta, svo sem Bandaríkjanna og sérstaklega Japans, sem er framtíðarmarkaður.

Þeir, sem hafa unnið fyrir Íslands hönd að samningum um evrópskt efnahagssvæði, hafa staðið sig mjög vel. Þeir hafa ekki látið taka sig á taugum, þótt samningamenn Evrópubandalagsins hafi beitt þeirri tækni til hins ýtrasta og gjarna leikið sér á yztu nöf.

Þeir, sem hafa unnið fyrir Íslands hönd að samningunum, hafa metið rétt, að Evrópubandalagið mundi bila á síðustu stundu, þegar fulltrúar þess væru búnir að fullvissa sig um, að ekki væri unnt að kreista kúna meira. Íslendingar létu aldrei bugast í pókernum.

Aðild okkar að evrópsku efnahagssvæði felur fyrst og fremst í sér aukið tollfrelsi. Hún felur ekki í sér afsal landsréttinda. Þetta er fríverzlunarsigur.

Jónas Kristjánsson

DV

Betri í bridge en pólitík

Greinar

Sigur íslenzkra bridgemanna í heimsmeistarakeppninni í Japan sýnir, hvað hægt er að gera með því að hafa viðfangsefnið í fókus. Keppnismennirnir eru ekki eðlisbetri spilamenn en þeir voru í sumar, en hafa fetað markvissa þjálfunarbraut, sem færði þeim mismuninn.

Heimsmeistararnir hættu í haust að spila bridge, sem þeir kunnu fyrir. Í stað þess lögðu þeir áherzlu á að byggja upp aðra hluti, svo sem líkamlegt úthald, jákvæðan liðsanda og harðan aga af hálfu liðsstjórans. Þannig mættu þeir til leiks án hins fræga Akkillesarhæls.

Hvort sem fólk spilar bridge í frístundum eða ekki, þá gleðst það yfir sigrinum. Atburðir af þessu tagi eru kærkomnir fámennri þjóð, sem er að reyna að sýna sjálfri sér og öðrum fram á, að hún hafi tilverurétt út af fyrir sig. Við fáum hreinlega meira sjálfstraust.

Bridge er leikur, sem krefst gífurlegrar einbeitingar, rétt eins og skákin. Það er ánægjulegt, að einmitt þessir tveir leikir eða tvær listgreinar hafa fest rætur í hugum Íslendinga. Það bendir til, að margir Íslendingar geti einbeitt sér, geti sett verkefni sín í fókus.

Við höfum á ýmsum öðrum sviðum séð ánægjuleg merki einbeitingar. Í atvinnulífi og tækni hefur borið á nýbreytni og uppfinningum, sem hafa skilað góðum arði. Dæmi um það eru hin fjölmörgu tölvuforrit, sem byggjast á einbeitingu og hugviti margra í greininni.

Ein grein hefur setið eftir hér á landi. Það er pólitíkin, sem sjaldan er í fókus. Það er í henni, að framleiddar eru hvítar bækur með endemis þvaðri um ímyndaða stefnu og starfsáætlun ríkisstjórna, sem stangast fullkomlega á við raunveruleg verk þeirra frá degi til dags.

Í pólitíkinni leyfa menn sér að skrifa með annarri hendi hvítar bækur um, að nú eigi að stórefla neytendamál, en efla með hinni hendinni einokun í flugi og skera niður fjármagn til neytendamála um tugi milljóna. Þetta er lítið, einfalt og gott dæmi um íslenzka pólitík.

Í pólitíkinni standa menn andspænis samdrætti í sameiginlegri tekjuöflun landsmanna og byrja á að gefa sér sem fjárlagaforsendu, að útgjöld til landbúnaðar þurfi að aukast út yfir allan þjófabálk, af því að lögmaður á ríkiskontór segi fáránlegan búvörusamning friðhelgan.

Í pólitíkinni byggist tilvera heils stjórnmálaflokks á yfirlýsingum um nýskipan veiðileyfa í sjávarútvegi, brottfall búvörusamninga og flutning umhverfisverkefna frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis, sem svo er alls ekki fylgt eftir í ríkisstjórn.

Samt er engan veginn svo, að hæfileikar Íslendinga liggi svo eindregið í skák og bridge og tölvum, að ekkert sé afgangs fyrir pólitík. Sem dæmi má nefna, að góðir hlutir hafa verið gerðir í utanríkismálum, svo sem frumkvæði í viðurkenningu á fullveldi Eystrasaltsríkja.

Þá hefur verið haldið vel á málum Íslands í viðræðum við stóra kúgunaraflið í Evrópu. Í viðræðum við Evrópubandalagið um þáttöku Íslands í evrópsku efnahagssvæði hefur ekki verið vikið frá kröfum um sjálfsforræði og auðlindaforræði okkar og um gagnkvæman hag.

Góðir spilamenn í pólítík mundu bæta um betur og setja í fókus, hvað við ætlumst fyrir utan evrópska efnahagssvæðisins; hvernig hægt sé að leggja niður verðmætabrennslu í landbúnaði og í atvinnuvegasjóðum; og hvernig íslenzkt þjóðfélag verði samkeppnishæft.

Ef við værum eins góð í pólitík og við erum í bridge, mundum við ekki gefa út fókuslausar hvítbækur, fullar af þvaðri um góð áform, sem varða veginn til vítis.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðlausir landsfeður

Greinar

Landsfeður ættu að segja okkur, hvernig þeir hyggist bregðast við ýmsum vanda, sem steðjar að þjóðinni, á þann hátt, að hann verði að verkefni til að leysa. Þetta gera landsfeður ekki, af því að þeir vita ekki, hvernig skuli bregðast við, eða vita ekki, að vandinn sé til.

Dæmi um þetta er Evrópska efnahagssvæðið, sem farið er út um þúfur. Komið hefur í ljós, að nokkur ríki innan Efnahagsbandalagsins telja sig þurfa að gæta staðbundinna sjávarútvegshagsmuna og munu ekki fallast á neina niðurstöðu, sem kemur Íslandi að gagni.

Unnt er að skilja þessi þröngu sjónarmið, sem eru hin sömu og ráða landbúnaðarstefnu íslenzkra stjórnvalda. Einangrunar- og haftastefna er eins vinsæl í höfuðstöðvum Evrópubandalagsins og hún er í landbúnaðarráðuneyti Íslands. Af því súpum við seyðið.

Jafnvel þótt bjartsýnismenn geti ímyndað sér, að þjóðir Evrópubandalagsins þurfi íslenzkan fisk, munu viðsemjendur okkar ekki líta þannig á málin. Þeir eru fyllilega færir um að tefla málinu í þá stöðu, að útflutningur á fiski frá Íslandi verði sífellt erfiðari.

Íslenzkir landsfeður ættu því að segja okkur, hvernig þeir hyggist tefla málum í þá stöðu, að við eigum um langan aldur kost á arðbærri fríverzlun við fleiri aðila en í Evrópu einni, sem nú borgar hæst verð, meðal annars vegna þess að ferskur fiskur fer mest þangað.

Landsfeður mættu svara þeirri spurningu, hvort gáfulegt sé að leggja steina í götu á afurðinni, sem gefur bezt, svokölluðum “óunnum” fiski, það er að segja ætum fiski. Þeir mættu líka svara, hvort gáfulegt sé að leyfa Flugleiðum að einoka afgreiðslu á ferskfiskflugi.

Annað dæmi er álverið á Keilisnesi, sem hefur þegar kostað okkur orkuver við Blöndu með hækkun á rafmagnsreikningum heimilanna. Þetta álver átti að reka á undirverði rafmagns. Markmiðið með því virðist af okkar hálfu vera að fá framkvæmdir í landið í örfá ár.

Ef hraður samdráttur í vopnabúnaði risaveldanna leiðir til hruns í hergagnaiðnaði og minnkandi sölu áls í heiminum, má búast við, að álverið verði ekki reist. Hvað ætla landsfeður þá að gera við Blönduver annað en að senda reikninga þess til almennings?

Þriðja dæmið er samdráttur í fiskafla, sem virðist stafa af ofveiði, úr því að fleiri lélegir árgangar hafa komið í röð en áður hefur þekkzt. Landsfeður hafa ekki skýrt fyrir okkur, hvernig þeir hyggist mæta þeim vanda, að útflutningstekjur verði litlar á næstu árum.

Fjórða dæmið er skeytingarleysi landsfeðra um fjármögnun á tveimur risavöxnum vandamálum, sem hafa hlaðizt upp, annars vegar lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna og hins vegar peningabrennslusjóðum, sem landsfeður hafa komið á fót við Rauðarárstíg.

Fimmta dæmið er nýr búvörusamningur, sem landsfeður virðast ætla að þola fyrir okkar hönd, þótt ljóst sé, að hann tekur á hverju ári nokkra milljarða af möguleikum okkar til að fást við vandamál eða verkefni á borð við fjögur dæmin, er hér hafa verið rakin.

Í stað þess að reyna að skilja þessi vandamál, svo að þeir geti sagt okkur frá tillögum um, hvernig megi leysa þau, eru landsfeður önnum kafnir við að kaupa sér Kadillakka; skipuleggja ferðalög til útlanda til að drýgja tekjur sínar; og halda vinum sínum dúfnaveizlur.

Við erum að sigla inn í langvinna kreppu, sumpart af völdum landsfeðra, án þess að þeir geti útskýrt fyrir sjálfum sér eða öðrum, hvernig eigi að mæta henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ógæfuspor

Greinar

Ef ríkisstjórnin væri raunverulega andvíg búvörusamningnum, sem fyrri ríkisstjórn gerði í andarslitrunum, mundi hún afla sér lögfræðiálits, sem segði hana ekki bundna af honum. Hún léti þennan samning ekki standa í vegi skynsamlegra aðgerða í ríkisfjármál-um.

Þótt ríkislögmaður segi þennan samning heilagan, er hann ekkert færari lögmaður en ótal aðrir hér í bæ. Enda var það yfirlýst skoðun og afsökun ráðherranna, sem skrifuðu undir samninginn í vor, að endurskoða mætti hann eftir valdatöku nýrrar ríkisstjórnar.

Búvörusamningur þessi gerir ráð fyrir stórfelldri aukningu ríkisútgjalda til velferðarkerfis landbúnaðarins. Þessi aukning er svo mikil, að hún nægir til að útskýra allan niðurskurð, sem gert er ráð fyrir á öðrum sviðum í nýútkomnu fjárlagafrumvarpi fyrir 1992.

Ríkisstjórnin telur einfaldara fyrir sig að skera niður skóla og heilbrigðisstofnanir og ýmsa þætti velferðarkerfis heimilanna en að horfast í augu við velferðardrekann mikla, sem sogar allt blóð úr þjóðfélaginu. Velferð heimilanna víkur fyrir velferðarkerfi landbúnaðarins.

Þetta er pólitísk ákvörðun, en ekki lögfræðileg. Hún byggist á tveimur staðreyndum. Í fyrsta lagi er Sjálfstæðisflokkurinn í rauninni framsóknarflokkur. Og í öðru lagi er Alþýðuflokkurinn fyrst og fremst hagsmunabandalag nokkurra manna um ráðherrastóla.

Ef ríkisstjórnin hefði ætlað sér að snúa af hörmungabraut fyrri ríkisstjórnar, hefði hún ráðist til atlögu við þrjú vandamál, þar á meðal búvörusamninginn mikla. Hún hefði einnig snúið sér að leiðum til að fjármagna skuldbindingar vegna lífeyris- og atvinnuvegasjóða.

Ríkið er þegar búið að hlaða upp lífeyrisgreiðslu- loforðum upp á 50-60 milljarða króna, þótt nú verði ákveðið að bæta ekki meiru við. Ástandið er orðið þannig, að opinberir starfsmenn þyrftu að borga 25% af launum sínum til að standa undir ellilífeyri sínum.

Ríkið er þegar búið að ábyrgjast greiðslur á 5-8 milljörðum króna, sem brenndir hafa verið í atvinnuvegasjóðum af ýmsu tagi, svo sem Atvinnutryggingasjóði, Framkvæmdasjóði, Byggðasjóði og fleiri slíkum, sem einu nafni hafa verið kallaðir Sjóðasukkið.

Ríkisstjórninni ber auðvitað að leggja fram áætlun um, hvernig vitleysa lífeyrissjóðanna og atvinnuvegasjóðanna verði greidd niður á einhverju árabili. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs bar henni að gera ráð fyrir greiðslu fyrstu afborgana af sjóðasukkinu tvíþætta.

Augljóst er, að eina leiðin til að koma reglu á fjárhag ríkisins er að létta af því byrðunum af velferðarkerfi landbúnaðarins og nota sparnaðinn til að greiða niður skuldir, sem nú er haldið utan við fjárlagafrumvarp til að trufla ekki þægilegar niðurstöðutölur þess.

Í stað þess að takast á við þetta, lætur ríkisstjórnin sem sjóðavandamál lífeyris og atvinnuvega séu ekki til og magnar þar á ofan fjáraustrið í velferðarkerfi landbúnaðarins í stað þess að minnka það. Til að greiða það gerir hún harða hríð að velferð heimilanna í landinu.

Engin þjóðarsátt verður um verk ríkisstjórnar, sem stígur fyrstu sporin á jafn ógæfusaman hátt og þessi stjórn gerir með sáttmála sínum og fjárlagafrumvarpi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir lugu sig inn á þjóðina

Greinar

Ef ríkisstjórn svokallaðrar einkavæðingar yrði við völd í 46 ár, yrði að þeim tíma liðnum ekkert eftir á Íslandi nema opinberi geirinn. Er þá gert ráð fyrir, að hlutur ríkissjóðs belgist út á hverju ári í stíl við það, sem hann á að gera samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi.

Þetta frumvarp er skýrt dæmi um, að stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamennirnir eru nokkurn veginn alveg eins, þótt þeir séu alltaf að auglýsa, að þeir séu öðruvísi en hinir. Allir stækka þeir hlut ríkisins af þjóðarkökunni í heild og styðja þannig miðstýringarstefnu.

Ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að mæta fjárlagahallanum með niðurskurði útgjaldaáætlana, þegar á heildina er litið. Hún framleiðir í þess stað þjónustugjöld, sem hún segir, að séu ekki skattar, en fela í sér sömu aukningu á tekjum ríkisins og skattar hefðu gert.

Orðaleikir fjármálaráðherra fá ekki dulið, að hann er að auka hlutdeild ríkisins á kostnað annarra þátta þjóðarbúsins, svo sem atvinnulífs og heimila. Hann er að auka hlutdeild ríkisins í kökunni úr tæpum 29% í 30%, nákvæmlega í stíl fyrrverandi fjármálaráðherra.

Þegar harðnar í ári, neyðast fyrirtæki og heimili til að spara, svo að þau fari ekki á hausinn. Ríkisvaldið virðist ófært um að herða sultarólina með sama hætti, jafnvel þótt svokallaðir einkavæðingarmenn séu við völd. Ríkið er orðið að óviðráðanlegu náttúruafli.

Þetta birtist í nýju fjárlagafrumvarpi sem framhald á hallarekstri ríkisins, þrátt fyrir aukna fjárheimtu í formi svonefndra þjónustugjalda. Skýrar getur einkavæðing og frjálshyggja ekki orðið gjaldþrota. Hraðar getur stefna nýrrar ríkisstjórnar ekki orðið gjaldþrota.

Ofan á allt þetta getuleysi stendur ríkisstjórnin fyrir alvarlegum tilfærslum innan báknsins. Þetta eru tilfærslur frá velferðarkerfi heimilanna til velferðarkerfis landbúnaðarins. Í frumvarpinu eru milljarðar fluttir frá sjúklingum, barnafólki og skólafólki til kúa og kinda.

Ríkisstjórnin mun reyna að verja mikla og óvenjulega útþenslu landbúnaðarútgjalda sem einstakt tilfelli, er sé liður í endurskipulagningu og verði bara þetta eina ár. Slíka markleysu höfum við heyrt hundrað sinnum áður, þegar talað er um álögur, sem séu tímabundnar.

Við stöndum andspænis því, að verðmætabrennsla í hefðbundnum landbúnaði heldur áfram að vaxa, hvort sem Framsóknarflokkurinn er í ríkisstjórn eða ekki, alveg eins og ríkisgeirinn í heild heldur áfram að vaxa, hvort sem Alþýðubandalagið er í stjórn eða ekki.

Þetta stafar af, að ríkisstjórnina skipa miðstýringarmenn, öðru nafni framsóknarkommar, sem eru að því leyti hættulegri en Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ragnar Grímsson að þeir villa á sér heimildir, telja kjósendum trú um, að þeir hafi annað og þveröfugt í hyggju.

Blekkingar hafa löngum verið hornsteinn íslenzkra stjórnmála, en fátítt er, að ríkisstjórn hafi logið sig inn á þjóðina með jafn grófum hætti og þessi ríkisstjórn, sem upphaflega var orðuð við frjálshyggju og einkavæðingu. Ef kjósendur kyngja henni, munu þeir kyngja öllu.

Í sínu fyrsta fjárlagafrumvarpi hefur þessi ríkisstjórn miðstýringarmanna sameinað framhald á hallarekstri ríkisins; aukna fjárheimtu á hendur almenningi og atvinnulífi; og aukinn hraða í tilfærslunni úr velferðarkerfi heimilanna til velferðarkerfis landbúnaðarins.

Ríkisstjórnarstefna frumvarpsins leiðir til ófriðar á vinnumarkaði, síðan til verðbólgu, næst til gengisfrystingar og loks til hruns. Þjóðin hefur ekki ráð á henni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagsmunir í hafi

Greinar

Óhjákvæmilegt er, að öryggishagsmunir Bandaríkjanna og Íslands stangist á í auknum mæli, því að Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að gera hafið að helzta gereyðingarvopnabúri sínu til þess að halda sérstöðu sinni sem sjóveldi heimsins, þegar öðrum vopnum fækkar.

Gagnkvæmar tilkynningar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um einhliða samdrátt í viðbúnaði eru að mestu á sviðum, þar sem einhvers konar gagnkvæmni verður komið við, þótt allt séu þetta kallaðar einhliða aðgerðir. Þetta er afleitt fyrir þá, sem vilja hreinsa hafið.

Ísland hefur mikla hagsmuni af því, að höfin verði ekki helzta hættusvæðið, ef til átaka kemur. Það magnar líkur á, að eyja á siglingaleiðum herskipa og kafbáta verði skotmark eða nálægt skotmarki í hugsanlegum átökum, sem geta jafnvel orðið fyrir misskilning.

Við þessa hættu bætist svo mengunarhættan, sem fylgir kjarnorkuknúnum og kjarnorkubúnum herskipum og kafbátum. Alvarlegt slys getur haft víðtæk og varanleg áhrif á lífríki hafsins og síðan hliðstæð áhrif á útflutningstekjur og efnahag þjóðarinnar.

Mikilvægt er, að forsætisráðherrar hvers tíma og aðrir valdamenn þjóðarinnar leggi jafnan mikla áherzlu á þessa hagsmuni Íslendinga, þegar þeir hitta Bandaríkjaforseta eða aðra bandaríska valdamenn, en eyði ekki of miklum tíma í hliðarmál á borð við hvalinn.

Þótt hafið hafi að mestu orðið útundan í yfirlýsingum síðustu daga um samdrátt geryðingarvopna og hefðbundins herbúnaðar, hefur Ísland eins og önnur lönd hag af minni spennu og minni viðbúnaði, sem dregur auðvitað úr líkum á, að atómstríð verði fyrir slysni.

Enn meira máli skiptir fyrir Ísland, að hjaðni hin hefðbundna spenna í gagnkvæmum viðbúnaði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Þótt annars konar hætta leysi af hólmi þá hættu, sem fylgir hinni hefðbundnu spennu, kemur hún ekki eins mikið við okkur.

Svo virðist sem minni hætta sé á skipulögðu atómstríði heimsvelda, en meiri hætta á, að skjótráðir smákóngar beiti slíkum vopnum í hryðjuverkastíl. Nægir þar að minna á Saddam Hussein, einræðisherra Íraks, sem hefur reynt af alefli að ná sér í slík vopn.

Bandaríkjastjórn hefur líka áhyggjur af, að óhjákvæmileg sundrun Sovétríkjanna leiði til, að sovézk kjarnorkuvopn falli í hendur meira eða minna óútreiknanlegra þjóðernissinna eða einræðisherra í einstökum ríkjum, sem myndast kunna úr rústum Sovétríkjanna.

Ólíklegt er, að Saddamar Husseinar heimsins beini sjónum sínum að Íslandi, ef þeir hafa hryðjuverk í huga. Þeir munu telja önnur skotmörk hafa meira auglýsinga- eða ógnargildi. Þess vegna snertir hin nýja smákóngahætta okkur minna en sumar aðrar þjóðir.

Þar sem yfirlýsing Bandaríkjaforseta dregur úr hættu á skipulögðu atómstríði, er hún gagnleg okkur eins og mannkyninu yfirleitt. Sama má segja um viðbrögð sovézka varnarmálaráðuneytisins um nærri helmings minnkun heraflans og um miðstýringu hans í Moskvu.

Á aðeins einni viku hefur jörðin orðið mun öruggari dvalarstaður mannkyns. Frumkvæðið kom frá Bandaríkjastjórn og var vel svarað af hálfu Sovétstjórnarinnar. Við getum fagnað frumkvæðinu, þótt hafið hafi orðið að mestu útundan í þessum áformum um samdrátt.

Þetta þýðir líka, að við verðum að efla áherzlur okkar gegn stríðs- og mengunarhættu í hafinu, þótt hagsmunir okkar séu þar aðrir en sjóveldis Bandaríkjanna.

Jónas Kristjánsson

DV