Greinar

Sænska leiðin valin

Greinar

Eftir vel heppnaða notkun íslenzku leiðarinnar við að viðurkenna fullveldi Eystrasaltsríkjanna hyggst utanríkisráðuneyti Íslands nú nota sænsku leiðina gagnvart Slóveníu og Króatíu í Júgóslavíu til að þurfa ekki að vera á undan öðrum og veigameiri ríkjum.

Sænska aðferðin felst í að telja, að ríkisstjórnir, sem eru lýðræðislega kjörnar og hafa almannafylgi að baki sér, séu ekki dómbærar um, hvað sé ríkinu fyrir beztu, heldur þurfi á því alvarlega athugun, sem getur tekið allan þann tíma, sem þarf til að hindra ákvörðun.

Ísland hafnaði þessari leið, þegar ákveðið var að viðurkenna fullveldi Eystrasaltsríkjanna. Þá var talið, að þjóðir og ríkisstjórnir ríkjanna gætu sjálfar metið, hvort viðurkenning kæmi þeim að gagni eða ekki, og að ástæðulaust væri að reyna að hafa vit fyrir þeim.

Nú er annað uppi á teningnum. Utanríkisráðherra fer undan í flæmingi, þegar utanríkisráðherra Króatíu biður um viðurkenningu. Hann segir, að Austurríki verði að vera á undan, alveg eins og nauðsynlegt hefði verið, að Finnland yrði á undan að viðurkenna Eistland.

Utanríkisráðherra okkar segir líka, að Evrópubandalagið verði að fá að skoða málið í friði fyrir okkur, alveg eins og nauðsynlegt hefði verið að láta Norðurlandaráð skoða mál Eystrasaltslanda í friði, áður en við færum að rugga bátnum með ótímabæru upphlaupi.

Ef við hefðum beðið eftir Finnlandi eða Norðurlandaráði, þegar við vorum að skoða mál Eystrasaltslanda, hefðum við ekki brotið ísinn eins og við gerðum. Á báðum þessum stöðum var andstaða gegn viðurkenningu, einmitt á þeim forsendum, sem við notum gegn Króatíu.

Ef við bíðum nú eftir Austurríki eða Evrópubandalaginu, brjótum við ekki ísinn og skiptum auðvitað engu máli. Það er út af fyrir sig í lagi, ef menn hafa fengið nóg af þeirri ævintýramennsku, sem réð ferð okkar, þegar Eystrasaltsríkin fengu viðurkenningu.

Ekki verður hins vegar séð, að reynslan af fullgildingu Eystrasaltsríkja sé tilefni til að láta af íslenzku stefnunni og taka upp sænska varfærnisstefnu. Þvert á móti ætti sú reynsla að hvetja okkur til að halda áfram á þeirri braut, sem varð okkur til metnaðar og gæfu.

Við eigum að stefna að viðurkenningu Slóveníu og Króatíu, ef ríkisstjórnir þessara ríkja fara fram á það við okkur. Þetta eru lýðræðislega kjörnar stjórnir, sem biðja ekki um fullgildingu nema vera fullvissar um, að almenningur í landinu sé samþykkur slíkri ósk.

Málið er enn brýnna en það var í Eystrasaltsríkjum, þar sem Slóvenía og Króatía hafa sætt miklu harðvítugra ofbeldi Júglóslavíuhers en Eistland, Lettland og Litháen máttu sæta af hálfu Rauða hersins í Sovétríkjunum og sveita sovézka innanríkisráðuneytisins.

Íslendingar eru fámenn þjóð, sem skiptir litlu í alþjóðlegum samskiptum. Sem lítil þjóð höfum við um leið meira frelsi en sumar stærri til að taka fljótvirkari ákvarðanir um grundvallaratriði í samskiptum þjóða, sem búa við lýðræðislegt og opið fjölvaldakerfi.

Ef sú venja skapast, að Íslendingar verði fyrstir þjóða til að viðurkenna þær þjóðir, sem á lýðræðislegan hátt kjósa að segja skilið við fjölþjóðaríki, sem haldið er saman með þvingunum, þá erum við að efla virðingu og sóma okkar á alþjóðavettvangi, hvað sem sænskir segja.

Næsta skref á þeirri leið er, að utanríkisráðherra hætti að tala um, að aðrir en Slóvenar og Króatar hafi meira vit en þeir á því, hvað sé þeim fyrir beztu.

Jónas Kristjánsson

DV

Umhverfisóbeit

Greinar

Seltjarnarnesbær lét nýlega ýta jarðvegi yfir setlög og steingervinga frá síðjökultíma við Svartabakka. Þessi setlög voru á náttúruminjaskrá. Yfirmönnum Seltjarnarnesbæjar var kunnugt um tilvist þessarar náttúruminjaskrár, en hafa ekki áhuga á að fara eftir henni.

Fyrr í sumar lét Seltjarnarnesbær ýta jarðvegi yfir skógræktarreit Kvenfélags Seltjarnarness vestan við íþróttavöllinn. Að baki beggja þessara aðgerða liggur athafnaþrá, sem lætur ekki beizla sig af mannasiðum og hefðum í umgengni við gróður og náttúru landsins.

Seltjarnarnesbær hefur árum saman unnið að hnignun Valhúsahæðar sem útivistarsvæðis. Þar skiptust áður á jökulsorfnar klappir og náttúrulegur gróður, sem börn og fullorðnir notfærðu sér. Nú er búið að raska meirihluta hæðarinnar og draga úr mannaferðum.

Árásin á hæðina er þríþætt. Gerður hefur verið íþróttavöllur, sem enginn notar. Byggð hafa verið einbýlishús, sem enginn vill kaupa. Og gerðar hafa verið tvær risagryfjur fyrir áramótabrennur, sem notaðar verða í mesta lagi einu sinni á ári, ef báðar nýtast.

Ekki eru allir sammála um, hvort fjórða atriðið eigi heima í þessum flokki árása Seltjarnarnesbæjar á náttúru hæðarinnar. Það er kirkjan, sem ekki var byggð á góðu svæði í suðurhlíðum hæðarinnar, heldur nálægt toppi hennar, þar sem hún rýfur útsýnishringinn.

Nú er svo komið, að eini hluti hæðarinnar, sem börn og fullorðnir kæra sig um að nota, er norðvesturhornið, sem hrammur bæjaryfirvalda hefur ekki enn náð til. Þetta er löng sorgarsaga, sem byggist á óbeit bæjaryfirvalda á náttúru, sem þau virðast telja vinstri sinnaða.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við langræknar ráðagerðir bæjarstjóra Seltjarnarness um að byggja frekar en orðið er á svæðinu umhverfis Nesstofu og leggja þar stóra bílahraðbraut gegnum Bakkatjörn og út undir Seltjörn og Snoppu í nágrenni Gróttu.

Á þessum slóðum var til skamms tíma fjölbreytt fuglalíf, sem hefur verið á undanhaldi, einkum eftir að kríunni fækkaði svo, að náttúruleg löggæzla hennar hvarf að mestu úr sögunni. Þarna hafa verið æðarfugl, maríuerla, þúfutittlingur, tjaldur og músarindill.

Áhugafólk hefur reynt að hlúa að tilvist þessara fugla og náttúrunnar, sem þeir þurfa. Einkum hefur verið reynt að verja varp æðarfugls í Gróttu, sem hefur verið friðuð. Þetta hefur verið erfitt, en samt hefur tekizt að vernda leifar þessarar skemmtilegu fuglabyggðar.

Endur fyrir löngu var gert aðalskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, áður en hugtakið náttúruvernd varð til. Illu heilli var þar gert ráð fyrir hraðbraut kringum nesið og aukinni byggð umhverfis Nesstofu. Þetta skipulag hefa bæjaryfirvöld Seltjarnarness verndað.

Ef bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi fá að ráða ferðinni, verður nesið allt steypt og malbikað frá fjalli til fjöru. Það verður eyðilagt eins og Kársnesið í Kópavogi. Íbúar á Seltjarnarnesi skilja þetta fremur illa og endurkjósa jafnan berserki malbiks og steinsteypu til bæjarforráða.

Brýnt er, að fólk, sem skilur þessi mál betur en bæjaryfirvöld og kjósendur á Seltjarnarnesi, taki ströndina við Seltjörn og Bakkatjörn í fóstur, svo og leifar Valhúsahæðar, og taki saman höndum um að hamla gegn frekari yfirgangi náttúru- og umhverfisandstæðinga.

Ef malbiks- og steinsteypuliðið verður stöðvað við Nesstofu, má hafa það til marks um vatnaskil á leið þjóðarinnar frá braggabúskap til heimsmennsku.

Jónas Kristjánsson

DV

Sovét-Reykjavík

Greinar

Goðsögnin er hrunin um góða stjórn Reykjavíkurborgar og traust kerfi embættismanna hennar. Byggingarsaga Perlunnar á Öskjuhlíð og ráðhússins í Tjörninni sýnir lélega stjórn borgarinnar og ótraust kerfi embættismanna, reykvískum borgurum til mikils peningatjóns.

Raunar minnir Reykjavík mjög á kerfi, sem verið er að reyna að leggja niður í Rússlandi. Það er eins flokks kerfi með náinni sambúð embættismanna og Flokksins, sem leiðir til allsherjar ábyrgðarleysis og gífurlegrar sóunar á meðferð útsvars- og hitaveitupeninga.

Að mati þessa samtvinnaða kerfis Flokksins og framkvæmdavalds Reykjavíkur er enginn ábyrgur fyrir óhæfilega dýrri byggingarsögu þessara tveggja húsa. Fyrrverandi borgarstjóri er ekki ábyrgur og ekki heldur hinn litlausi borgarstjórnarmeirihluti hans.

Að mati þessa samtvinnaða kerfis er borgarverkfræðingur og hitaveitustjóri ekki heldur ábyrgir, ekki heldur verkefnisstjórar og hönnunarstjórar húsanna tveggja. Allt þetta kerfi verður látið standa óbreytt eins og ekkert hafi í skorizt, enda er ástandið næsta sovézkt.

Athyglisvert er, að kjarni varnarinnar fyrir óráðsíu stjórnmála- og embættismannanna, sem ráða fyrir Reykjavík, felst í, að gagnrýnendur séu andvígir mannvirkjum af þessu tagi yfirleitt og að fátt muni gleðja augað, ef músarholusjónarmið þeirra mundu ráða.

Að vísu eru sumir gagnrýnendur andvígir því, sem þeir kalla monthús. En aðrir eru einfaldlega andvígir vinnubrögðum, sem fela í sér, að kostnaðaráætlanir upp á hálfan þriðja milljarð hækka í tæpa fimm milljarða á skömmum tíma, þegar raunveruleikinn síast í ljós.

Svo virðist sem þessi tvö hús hafi meira eða minna verið hönnuð út í loftið og síðan notuð á byggingarstigi sem tilraunadýr fyrir æfingar hönnuða, í stað þess að hanna húsin fyrst og byggja þau svo. En þá hefði ekki verið hægt að reisa þau fyrir síðustu kosningar.

Meðan þessi teiknivinna með loftpressum stóð í blóma, gættu embættis- og stjórnmálamenn borgarinnar þess að veita varfærnar upplýsingar um fram kominn og áætlaðan kostnað. Þess vegna hefur hvert reiðarslagið komið í kjölfar annars á byggingartímanum.

Með vandaðri undirbúningi í samræmi við alþjóðlega staðla hefði mátt reisa húsin fyrir lægri upphæð, líklega fyrir um það bil hálfum milljarði minna af peningum útsvarsgreiðenda og hitaveitugreiðenda. Þannig hefði mátt hindra, að sukkið bættist ofan á montið.

Merkilegast í þessu öllu saman er, að greiðendur útsvars og hitaveitu í Reykjavík, þegnar Bubba kóngs, láta sér fátt um finnast. Þeir flykkjast í Perluna, dásama höfðingsskapinn að baki henni og hneykslast á, að menn séu að fárast um, þótt dýrðin “kosti eitthvað”.

Munurinn á Reykvíkingum og Rússum felst í, að hinir síðarnefndu hamast við að reyna að höggva sundur samtvinnað kerfi eins flokks og embættismanna, en hinir fyrrnefndu eru sáttir við að láta misþyrma sér í fjármálum. Þannig er Sovét-Reykjavík enn í blóma.

Þótt hinn nýi borgarstjóri hafi látið stöðva að sinni framkvæmdir við Perluna, bendir ekkert til, að hann hyggist breyta hinu sovézka ástandi. Hann hefur sérstaklega tekið fram, að verðlauna eigi framkvæmdastjórn hússins með því að leyfa henni að starfa áfram.

Montið og sukkið hefur þó haft það gott í för með sér, að horfin er goðsögnin um góða stjórn Reykjavíkur og kemur ekki aftur fyrr en sovézka kerfið leggst niður.

Jónas Kristjánsson

DV

Sæmd er gróði

Greinar

Þjóðum líður betur, ef þær halda reisn sinni. Þær eru sáttari við sjálfar sig en ella, ef þær haga sér þannig út á við, að til sóma er. Skiptir þá litlu, hvort fjárhags- eða efnahagstjón verður af sæmdinni eða ekki. Sumar þjóðir sæta hörmungum og jafnvel blóðbaði fyrir sóma sinn.

Er Íslendingar urðu fyrstir til að viðurkenna Eystrasaltsríkin án orðhengilsháttar, var almannarómur fyrir, að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og niðurstöðu málsins. Menn létu sér lynda, að sovézki sendiherrann færi heim og að saltsíldaráhætta væri tekin.

Danir fylgdu fast á eftir og höfðu einnig sóma af sinni afstöðu. Svíar guldu hins vegar þáverandi ríkisstjórnar, þar sem fremstur fór forsætisráðherra, sem sagði sjónarmið Íslendinga óskiljanleg, og næstur utanríkisráðherra, sem fór hrakyrðum um frelsisbaráttu Litháa.

Viðskiptaáhætta Íslendinga bliknar svo vitanlega í samanburði við sómann, sem Eystrasaltsþjóðirnar hafa sjálfar af sinni sjálfstæðisbaráttu. Skiptir þá litlu, þótt miklar fjárhags- og efnahagsþrengingar hljótist að sinni af skilnaðinum við miðstýrt yfirríkið í austri.

Höfundur þessa leiðara var í síðustu viku í Eistlandi, þar sem sovézkir landamæraverðir stimpluðu vegabréfsáritun frá sendiráði eistneska lýðveldisins í Helsinki. Þessi stimplun var ljóst dæmi um, að yfirríkið hefur í raun viðurkennt núverandi fullveldi Eistlands.

Virka fólkið í Eistlandi er unga fólkið, sem hratt oki Ráðstjórnarríkjanna af baki sér. Hinum nýju fjölmiðlum er til dæmis stjórnað af ungu fólki, sem hafði hugrekki til að brjóta upplýsingum og skoðunum leið framhjá ritskoðurum og leynilögreglu og flokkskerfi.

Í krafti hugrekkis síns hefur unga fólkið tekið völdin í löndum Eystrasalts. Það gerir sér grein fyrir, að fátækt mun lengi enn verða almenn, en það hefur strax öðlazt þá reisn, sem skiptir öllu máli, þegar spurt er um, hvort þjóðir geti staðið undir sjálfstæði og fullveldi.

Ungur maður, fæddur í Englandi af eistneskri móður, fór úr góðu markaðsstarfi í London til að taka þátt í ævintýri Eystrasaltslanda, þótt hann vissi, að þar þarf skömmtunarseðla fyrir flestum nauðsynjum og að mánaðarlaun hans mundu nema 1200 íslenzkum krónum.

Þessi maður bar höfuðið hátt eins og margt annað ungt fólk í Eystrasaltslöndunum um þessar mundir. Það hefur ekkert handa milli, en á framtíðina fyrir sér, óflekkað af aðild að Flokknum illa, sem lá eins og mara forneskjunnar yfir allri Austur-Evrópu til skamms tíma.

Þótt margir stjórnmálamenn Eistlands hafi sýnt mikið hugrekki, fer ekki milli mála, að enginn raunsæismaður kemst með tærnar þar sem hugsjónamaðurinn Landsbergis í Litháen hefur hælana. Eistlendingar vita, að hann var sá, sem aldrei vék einn millímetra af leið.

Þjóðir Eystrasaltsríkja munu komast langt á kraftinum, sem fylgir reisn og stolti. Vegartálmar úr granítbjörgum við þinghúsið í Tallinn verða um langan aldur veglegri minnisvarðar en höggmyndir hins félagslega raunsæis, sem Eistar munu fljótlega færa á brott.

Gaman er að komast að raun um, að unga fólkið, sem er að taka völdin í Eistlandi, gerir sér ljósa grein fyrir frumkvæði Íslands í máli þeirra. Það veit, að Ísland braut ísinn, þegar önnur Norðurlönd tvístigu undir sænskri forustu og umheimurinn tilbað Gorbatsjov.

Ekki er að efa, að við erum enn sáttari við okkur en áður að undirritaðri viðurkenningu á fullveldi Eystrasaltsþjóða. Gróði verður ekki alltaf mældur í fé.

Jónas Kristjánsson

DV

Ögrunum Ísraels svarað

Greinar

Bush Bandaríkjaforseti hefur fryst í fjóra mánuði beiðni Ísraelsstjórnar um 600 milljarða króna lánsábyrgð til að byggja húsnæði yfir innflytjendur frá Sovétríkjunum. Frystingin stafar af, að fullvíst er talið, að féð verði notað á hernumdum svæðum Palestínu.

Þessi frysting er fyrsta merkið um, að gjafa- og lánadrottinn Ísraels, Bandaríkjastjórn, ætli ekki að sætta sig öllu lengur við útþenslustefnu Ísraels í Palestínu og tilraunir Ísraelsstjórnar til að spilla væntanlegri friðarrráðstefnu ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Komið hefur nokkrum sinnum í ljós, að hingað til hefur Ísraelsstjórn notað styrki og lán frá Bandaríkjunum til að koma innflytjendum frá Sovétríkjunum fyrir í hinum herndumdu löndum í Palestínu. Þetta er tilraun til að nema þar land og svæla Palestínumenn á brott.

Bandaríkjastjórn hefur oft beðið Ísraelsstjórn um að láta af þessari iðju, sem er ill í sjálfu sér, auk þess sem hún dregur úr líkum á friðarsamningum í púðurtunnu botnalanda Miðjarðarhafs. Ævinlega hefur Ísraelsstjórn látið þessi tilmæli sem vind um eyru þjóta.

Ariel Sharon, húsnæðisráðherra Ísraels, hefur nokkrum sinnum gengið svo langt að ögra James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna með því að nota komur hans til Ísraels til að tilkynna nýjar húsnæðisframkvæmdir fyrir Ísraela á hernumdu svæðunum.

Rechavan Zeevi, ráðherra án ráðuneytis í stjórn Ísraels, hefur sakað Bush um gyðingahatur. Það er gamalkunn og sjálfvirk lýsing af opinberri hálfu á hugarfari þeirra, sem dirfast að hamla gegn eða mæla á móti frekju og yfirgangi Ísraels sem ríkis og þjóðfélags.

Ísrelsstjórn hefur sigað fimmtu herdeild sinni í Bandaríkjunum á þingmenn til að reyna að koma í veg fyrir, að frystingin nái fram að ganga á Bandaríkjaþingi. Þrýstistofnun fimmtu herdeildarinnar, Aipac, hefur mikil afskipti af bandarískum stjórnmálum.

Bandaríkjamenn hafa löngum látið sér lynda, að Aipac hefði mikil áhrif á val þingmanna með því að styðja suma með peningum og níða skóinn niður af öðrum. Þessar járngreipar hafa vonandi linast, úr því að huglítill Bandaríkjaforseti treystir sér í andóf.

George Bush hefur raunar gefið í skyn, að hann muni beita neitunarvaldi, ef bandaríska þingið lætur undan þrýstingi fimmtu herdeildarinnar. Jafnframt hefur komið í ljós, að þeim þingmönnum hefur fjölgað, sem treysta sér til að verjast fimmtu herdeildinni.

Eini gallinn við ákvörðun Bandaríkjaforseta er, að hún er tengd óbeinum hótunum um, að Ísraelsstjórn hagi sér sómasamlega við væntanlegt samningaborð í botnalöndum Miðjarðarhafs. Þrýstingur af því tagi hefur tilhneigingu til að hefna sín um síðir.

Réttari stefna væri að frysta ekki fyrirgreiðsluna, heldur hætta alveg við hana. Ennfremur ætti Bandaríkjastjórn að láta af öllum stuðningi við Ísrael, að fenginni þeirri reynslu, að skjólstæðingurinn hafi með langvinnu framferði sínu fyrirgert rétti til stuðnings.

Það er ófært, að spenna vesturs og ríkja Íslams sé sífellt mögnuð af hlutdrægum stuðningi Bandaríkjastjórnar við ríki, sem færir sig jafnt og þétt upp á skaftið í yfirgangi og hreinni útþenslustefnu gagnvart nágrönnum sínum. Þessi stuðningur skaðar Vesturlönd.

Vonandi er ábyrgðarfrysting Bush þó merki þess, að vindátt sé að snúast í Bandaríkjunum; að ríkisstjórnin þar fari að vanda betur til skjólstæðinga sinna.

Jónas Kristjánsson

DV

Herská Stór-Serbía

Greinar

Landvinningastríð Serba í Króatíu hefur skýrt stöðuna á því vandræðasvæði Balkanskagans, sem til skamms tíma var haldið í óeðlilegu ríkjasambandi, er nefndist Júgóslavía. Árás Serba setur varanlegan endapunkt við ríkjasambandið og hugtakið Júgóslavíu.

Yfirgangur Serba kemur í kjölfar heimsóknar James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Serbíu í sumar, þegar hann lýsti bandarískum stuðningi við hugtakið Júgóslavíu og varaði Króata og Slóvena við mótþróa og öðrum tilburðum til sjálfstæðis.

Skaðleg afskipti Bandaríkjastjórnar af þessu máli eiga sér tvær skýringar. Í fyrsta lagi hafa bandarísk stjórnvöld dálæti á ríkjandi ástandi í útlöndum, hvert sem það er hverju sinni. Þau andæfa breytingum, er raska hefðbundnum uppdráttum í utanríkisráðuneytinu.

Í öðru lagi hafa Bandaríkjamenn ríka þörf fyrir að réttlæta tilveru yfirþjóðlegra sambandsríkja á borð við Bandaríkin. Júglóslavía er sambandsríki og þar með eiga íbúar þar að bandarísku áliti að vera til friðs með sama hætti og íbúar Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna.

Þessar tvær kórvillur í utanríkisstefnu Bandaríkjanna skýra stuðning þeirra við Gorbatsjov gegn Jeltsín, við Sovétríkin gegn Rússlandi, við Saddam Hussein gegn Kúrdum og sjítum. Stuðningur þeirra við Júgóslavíu er rökréttur þáttur í heildarrugli utanríkismála.

Í ríkjum Evrópubandalagsins eru ráðamenn smám saman að gera sér grein fyrir því, sem fyrir löngu var vitað, að Júgóslavía eigi enga framtíð fyrir sér og að viðurkenna beri sjálfstæði þeirra þjóða, sem vilja stofna eigin ríki á rústum tímaskekkjunnar á Balkanskaga.

Hingað til hafa ráðamenn þessara ríkja látið sér nægja að vera með hótanir um að viðurkenna fullveldi Slóveníu og Króatíu. Sambandsher Serba tekur ekkert mark á þessum hótunum, enda eru þær endurteknar í síbylju, án þess að neinar aðgerðir fylgi í kjölfarið.

Sífur ráðamanna í ríkjum Evrópubandalagsins sýnir, hve veikt bandalagið er pólitískt, þótt það sé efnahagslega sterkt. Það getur sett Serbíu í efnahagsfrystingu, en það getur ekki fengið Serba til að taka nokkurt mark á sér. Svo skýr geta takmörk peningavaldsins verið.

Samt eru aðgerðir sambandshers Serba mjög hættulegar. Við getum ímyndað okkur hliðstæðu við, að Rauði herinn færi í landvinningastríð fyrir Rússa á hendur Úkraínu eða Eystrasaltslöndum. Sambandsher Sovétríkjanna kemur ekki fram á svo ábyrgðarlausan hátt.

Það er vont fyrir Vestur-Evrópu, að á landamærum hennar sé taumlaus her, sem fer sínu fram án tillits til löglegra stjórnvalda, og hlítir engum ráðum, heldur stefnir leynt og ljóst að því að innlima erlend landsvæði í Stór-Serbíu, sem senn verður komið á laggirnar.

Getuleysi Vestur-Evrópu er þeim mun grátlegra fyrir þá sök, að fyrr í sumar var hægt að hræða serbneska sambandsherinn frá þegar framkvæmdri innrás í Slóveníu. Hann flúði þaðan undan hótunum að vestan. Þeim sigri hefði Vestur-Evrópa átt að fylgja harðar eftir.

Nú hefur sambandsher Serba áttað sig á veikleika Vestur-Evrópu og hagar sér í samræmi við það í Króatíu. Senn líður að því, að draumurinn um Stór-Serbíu víkkar í landvinningastríð á hendur Slóvenum, Makedóníumönnum og hverjum þeim, sem stendur í veginum.

Því miður eru ekki miklar horfur á, að Vestur-Evrópa hafi pólitíska eða hernaðarlega burði til að koma í veg fyrir, að draumurinn rætist um herskáa Stór-Serbíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Smámennatímar

Greinar

Ekkert ríki eða ríkjabandalag er nú á tímum fært um þá yfirsýn, sem þarf til að geta gefið öðrum, svo að það sjálft megi verða ríkt. Þetta gátu Bandaríkin á tíma Marshall-aðstoðarinnar eftir síðari heimsstyrjöldina, en þetta getur Evrópubandalagið ekki í hringiðu nútímans.

Aðstæður í heiminum eru svipaðar og þær voru fyrir hálfum fimmta áratug. Austur-Evrópa er skyndilega orðin að mestu leyti frjáls og getur nýtt sér aðstoð. Hið sama má segja um ýmis svæði þriðja heimsins, þar sem menn eru að hverfa frá fyrri miðstýringarstefnu.

Fyrir tæpri hálfri öld voru við völd í Bandaríkjunum menn á borð við utanríkisráðherrana George Marshall og Dean Acheson, sem sáu, að framtíðarhagsmunir Bandaríkjanna voru háðir því, að ríkið gæfi Vestur- Evrópu fé og aðra hjálp í formi Marshall-aðstoðar.

Gjafmildi Bandaríkjanna eftir heimsstyrjöldina stuðlaði að evrópsku efnahagsundri og lyfti um leið velmegun í Bandaríkjunum. Þaðan komu tækniþekkingin og viðskiptatengslin, sem urðu enn verðmætari söluvara, þegar Evrópumenn urðu nógu ríkir til að kaupa hana.

Nú eru slík stórmenni hvergi sjáanleg í valdastólum Bandaríkjanna, heldur smámenni ein, sem eru meira eða minna framleidd á auglýsingastofum, enda höfum við nú fengið í röð þá Ronald Reagan og George Bush. Enn síður er stórmenni að finna í Evrópubandalaginu.

Eitt smámennið er Mitterrand Frakklandsforseti, sem hefur um þessar mundir forustu um að koma í veg fyrir, að Austur-Evrópa geti nýtt sér nýfengið frelsi með því að selja Vestur-Evrópu ódýra búvöru. Stefna Mitter-rands er hin sama og mandarína Evrópubandalagsins.

Ódýr búvara er um þessar mundir hið eina, sem Austur-Evrópa getur selt til að afla sér gjaldeyris til uppbyggingar. Iðnaður Austur-Evrópu er að mestu handónýtur af langvinnum ríkisrekstri. En Austur- Evrópa fær ekki að afla sér nauðsynlegs gjaldeyris.

Ef Mitterrand og mandarínar Evrópubandalagsins hefðu yfirsýn yfir hagsmuni Vestur-Evrópu, mundu þeir sjá, að innflutningur ódýrrar búvöru frá Austur- Evrópu mundi bæta lífskjör í Vestur-Evrópu og gera álfunni kleift að græða á viðskiptum við Austur-Evrópu.

Í stað þess gera mandarínar og þrýstihópar með sér samsæri um að vernda vesturevrópskan landbúnað gegn kraftaverki, sem mundi jafnast á við Marshall- aðstoð, ef það næði fram að ganga. Þeir eru jafn lítilla sæva og íslenzkir stjórnmála- og embættismenn.

Á meðan þröngir sérhagsmunir í Frakklandi ráða ferð Evrópubandalagsins í ofbeldi þess gagnvart hinum nýfrjálsu ríkjum Austur-Evrópu eru aðrir enn þrengri sérhagsmunir í Írlandi að stjórna ofbeldi bandalagsins gegn fiskveiðiríkjum í norðri, þar á meðal Íslandi.

Á þriðja staðnum eru þröngir sérhagsmunir í Evrópubandalaginu að koma í veg fyrir, að utanríkisviðskipti veraldar verði gerð frjálslegri með nýju samkomulagi í GATT-fríverzlunarsamtökunum. Alls staðar í senn er bandalagið að bregða fæti fyrir framtíðina.

Ef ráðamenn Evrópubandalagsins og nokkrir helztu valdamenn Vestur-Evrópu hefðu yfirsýn á borð við Marshall og Acheson, mundu þeir sjá, að hagsmunir aðildarríkja bandalagsins byggjast ekki á að nauðga umhverfi sínu, heldur á því að styrkja það til dáða.

Við lifum á tímum smámenna, sem ekki geta gripið tækifæri aukins lýðræðis í austri og suðri. Íslendingar munu eins og aðrir líða fyrir þessa skammsýni.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópu-þröskuldur

Greinar

Erfiðleikar Evrópubandalagsins í samskiptum við Ísland og Noreg endurspeglast í öðrum erfiðleikum þess út á við, einkum gagnvart nýfrjálsum ríkjum Austur- Evrópu og í alþjóðlegum fríverzlunarviðræðum á vegum GATT-samkomulagsins, sem kenndar eru við Uruguay.

Þótt til sé gullvæg setning, sem segir, að sjaldnast valdi einn, þá tveir deili, þá beinist athyglin auðvitað mest að þeirri stofnun, sem jafnan er öðrum megin borðsins, þegar slík vandamál koma upp. Sú stofnun er Evrópubandalagið, sem getur bara étið, ekki samið.

Velgengni Evrópubandalagsins byggist meðal annars á þátttöku efnahagsrisa á borð við Þýzkaland og stærð markaðarins innan bandalagsins. Þess vegna vilja mörg ríki, svo sem Svíþjóð og Austurríki, komast inn í bandalagið, þótt það kosti afslátt af fullveldi þeirra.

Evrópubandalagið hefur getað melt ríki, sem koma inn. Það getur hins vegar ekki gert fjölþjóðasamninga út á við. Mestu veldur þar, að þrýstihópar eiga greiðan aðgang að stjórnmálamönnum og embættismönnum bandalagsins, einkum í landbúnaði og sjávarútvegi.

Við getum betur skilið þetta, ef við ímyndum okkur þá hliðstæðu, að íslenzka landbúnaðarráðuneytið ætti að gera viðskiptasamninga við útlönd fyrir Íslands hönd. Þá mundi sérhagsmuna hefðbundins landbúnaðar vera gætt í hvívetna, á kostnað íslenzkra neytenda.

Íslenzka landbúnaðarráðuneytið mundi í slíkum viðræðum gæta þess, að ekki yrði innflutningur á neinni þeirri vöru, sem ekki er flutt inn núna. Niðurstaðan yrði auðvitað sú, að ekki yrði af neinum samningum og landbúnaðurinn héldi áfram að sliga þjóðina.

Þetta sama dauðahald í sérhagsmuni þrýstihópa höfum við séð í viðræðum Efnahagsbandalagsins við Fríverzlunarsamtökin um evrópskt efnahagssvæði. Þær viðræður fóru út um þúfur, af því að embættismenn og þrýstihópar landbúnaðar og sjávarútvegs réðu ferð.

Evrópa stendur nú á tímamótum, sem Evrópubandalagið mun klúðra. Það eru samskiptin við Austur- Evrópu, sem byggja vonir sínar um framfarir á að geta komið tiltölulega ódýrum landbúnaðarafurðum sínum í verð. Aðra frambærilega vöru hefur austrið ekki.

Sérshagsmunir hefðbundins landbúnaðar í Evrópubandalaginu hafa hingað til og munu áfram koma í veg fyrir skynsamlegan samning milli austurs og vesturs í Evrópu um frjálsari verzlun landbúnaðarafurða. Þetta mun setja lýðræðisþróun í austri í aukna hættu.

Svipað hefur verið uppi á teningnum og verður uppi í fríverzlunarviðræðum GATT-samtakanna. Þar er þó enn meira í húfi, því að viðskiptastríð milli þríhyrningsins Bandaríkja-Japans-Evrópubandalags er í aðsigi, ef ekki fæst skjót niðurstaða í ágreiningsefnunum.

Enn og aftur er það evrópskur landbúnaður, sem liggur þversum í vegi samkomulags um alþjóðlega fríverzlun. Þótt Bandaríkin og Japan eigi nokkra sök á erfiðri framvindu mála í GATT-viðræðunum, hvílir þó meginsökin á Evrópubandalaginu og samningamönnum þess.

Athyglisvert er, að í öllum þessum ágreiningsefnum Evrópubandalagsins við umheiminn eru samningamenn þess ekki að gæta hagsmuna evrópskra neytenda, sem mundu hagnast á að fá fiskafurðir frá Íslandi og Noregi og búvöru frá Austur-Evrópu og öðrum álfum.

Nú er kominn tími til, að stjórnendur Evrópubandalagsins skilji, hvernig þröngir sérhagsmunir eru að stefna friði og farsæld mannkyns í tvísýnu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðja heims ráðherra

Greinar

Sighvatur Björgvinsson heilbrigðisráðherra lætur skattgreiðendur borga áróðursauglýsingar fyrir nýjum reglum hans um lyfjakaup. Enginn virðist hafa getað komið í veg fyrir þessa óvæntu spillingu hans, hvorki embættismenn né samráðherrar hans í ríkisstjórn.

Þetta er alveg ný tegund af spillingu, sem ekki hefur tíðkazt hér á landi fyrr en á þessu ári, er tveir ráðherrar Alþýðubandalagsins, þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Svavar Gestsson, létu skattgreiðendur borga áróðursauglýsingar fyrir ágæti verka sinna í ríkisstjórn.

Ástæða var til að vona, að siðleysi þeirra Ólafs og Svavars væri einstakt fyrirbæri. Auglýsingar þeirra væru mistök, sem ekki yrðu endurtekin af öðrum. Þetta er nefnilega afar óheppileg tegund af spillingu, af því að hún leiðir fljótt út í algerar ógöngur vítahrings.

Auðvelt er að sjá afleiðingarnar, ef siðleysi Sighvats og forgöngumanna hans breiðist út í stjórnmálunum. Þá verður helzta markmið allra stjórnmálamanna að komast í aðstöðu til að láta ríkið, það er að segja skattgreiðendur, borga áróðurskostnað sinn og flokka sinna.

Siðleysi af tagi þeirra Sighvats, Ólafs og Svavars þekkist hvergi á byggðu bóli Vesturlanda. Þetta er dæmigert þriðja heims siðleysi, þar sem ræningjaforingjar líta á pólitískan frama sem ávísun á hlutdeild í herfangi. Þetta rústar efnahag þjóða þriðja heimsins.

Alvarlegast er, að þetta hörmulega hugarfar er ekki bundið við þremenningana eina. Samráðherrar þeirra í ríkisstjórn hafa ekki séð ástæðu til að tala um fyrir þeim, enda er full ástæða til að óttast, að sumir þeirra hugsi sér gott til glóðarinnar, þegar kosningar nálgast.

Ekki eru heldur við að styðjast neinar skrifaðar reglur, sem banni siðleysi af þessu tagi. Stjórnmálamenn hafa verið tregir við að setja slíkar reglur gegn spillingu, þar sem ruglað er saman hagsmunum ríkis, hagsmunum flokks og hagsmunum stjórnmálamanns.

Á Norðurlöndum og í engilsaxneskum löndum eru strangar reglur um, hver sé kostnaður, sem fylgi athöfnum manna sem ráðherrar, hver sé kostnaður, sem fylgi athöfnum þeirra sem flokksforingjar, og hver sé kostnaður, sem fylgi athöfnum þeirra sem einstaklingar.

Við slíka sundurgreiningu er brýnt, að settar séu reglur um, hver séu mörk milli þátttöku í pólitískri umræðu og eðlilegrar fræðslu á vegum ráðuneytis, svo sem við útgáfu upplýsingarita. Áróðursauglýsingar Sighvats eru greinilega röngum megin við þessi mörk.

Þegar ráðherra telur sig þurfa að standa í áróðursstríði við þá undirdeild Alþýðubandalagsins, sem gengur undir nafninu Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, er hann að leggja út í kostnað, sem á að falla á Alþýðuflokkinn, en ekki á skattgreiðendur í heild.

Hliðstætt mál er svo, hvort félagsmenn í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja eigi að greiða hina hliðina á þessu áróðursstríði til að létta fjárhag Alþýðubandalagsins. Félagsmönnum bandalagsins ber að taka afstöðu til þessa auglýsingastríðs rétt eins og skattgreiðendum.

Því miður hefur það komið skýrt fram á mörgum sviðum, að Íslendingar sem heild kæra sig kollótta um pólitíska spillingu af þessu tagi. Margir menn hér á landi hafa þær einu áhyggjur af pólitískri spillingu að komast ekki í aðstöðu til að stunda hana sjálfir.

Meðan Íslendingar hafa þriðja heims viðhorf til spillingar í stjórnmálum fá þeir óhjákvæmilega í hausinn rándýra stjórnmálamenn með þriðja heims siðferði.

Jónas Kristjánsson

DV

Inn og út um glugga

Greinar

Á yfirborðinu virðist svo sem lýðræði sé á sigurgöngu í heiminum um þessar mundir. Það hefur náð öruggri fótfestu í Austur-Evrópu og hefur síðustu vikur verið að skáka alræðisöflum út af borðinu í Sovétríkjunum og þeim þjóðríkjum, sem munu leysa þau af hólmi.

Hrun alræðis í Sovétríkjunum flýtir um leið fyrir endalokum margra harðstjóra í þriðja heiminum, sem hafa hangið í völdum á þeirri einföldu aðferð að etja saman heimsveldunum tveimur. Vestrið er farið að gera lýðræðiskröfur til viðskiptaríkja sinna í suðri.

Þegar er komið í ljós í Austur-Evrópu, að þar mun lýðræði eiga sér öflugan málsvara á næstu árum. Þar þykir fólki svo vænt um nýfengið lýðræði, að það gerir sér grein fyrir, hve mikilvægt er að vernda það og magna. Það er meðvitað um, hvað felst í lýðræði.

Búast má við, að þungamiðja lýðræðisástar færist frá vestrinu yfir til austurs, því að ýmis bilunareinkenni eru farin að sjást í vestri. Meðan lýðræðið hefur stokkið inn um austurglugga hins evrópsk-ameríska samfélags, er það að læðast út um vesturglugga þess.

Bilunareinkennin eru skýrust í Bandaríkjunum, sumpart vegna þess að þar er einna lengst, samfelld reynsla af lýðræði. Augljóst dæmi um þetta er hin litla þátttaka í kosningum, um eða innan við 40%. Hér á landi erum við gæfusamari með upp undir 90% þátttöku.

Kosningabarátta í Bandaríkjunum er að mestu leyti orðin barátta um peninga frá velgerðarfólki og -fyrirtækjum. Hún er um leið orðin að sjónvarpsstríði milli auglýsinga og einnar málsgreinar yfirlýsinga frambjóðenda. Ímyndafræði hefur leyst hugmyndafræði af hólmi.

Úrkynjun lýðræðis í Bandaríkjunum hefur skýrast komið fram í vali á lélegum og sumpart afspyrnu lélegum forsetum. Að minnsta kosti allar götur frá og með Kennedy hafa forsetar þar í landi fremur verið ímyndir en innihald; verið framleiðsluvara ímyndafræðinga.

Bilið breikkar stöðugt milli þeirra, sem gabba, og hinna, sem gabbaðir eru. Tækni markaðsfræðinga og ímyndafræðinga eykst sífellt, en geta fólks til að vara sig á vörum þeirra og vörumerkjum eykst engan veginn að sama skapi. Fólk verður þrælar vörumerkja og klisja.

Fólk kaupir ekki gæði, heldur vörumerki, í gallabuxum. Fólk velur ekki gæði í stjórnmálamanni, heldur ímyndir og klisjur. Fólk lætur í auknum mæli teymast af þeim, sem ráðnir eru til að draga það á asnaeyrum. Það lifir sátt í vellystingum praktuglega.

Um leið hefur stéttaskipting farið vaxandi. Fjölmennur minnihluti býr við vonlausar aðstæður í eiturlyfja- og glæpahverfum, meðan hinir sælu girða sig betur af í sérstökum hverfum. Hinir ríku kæra sig kollótta um hina aumu. Græðgi vex og almannasamúð minnkar.

Á sama tíma og fyrsti heimurinn eða vestrið er að fara sigurför um annan heiminn eða austrið og er farinn að róta til í þriðja heiminum eða suðrinu, er þriðji heimurinn eða suðrið að ná öflugri fótfestu í stórborgum Bandaríkjanna. Og þar lætur fólk sér fátt um finnast.

Við sjáum anga af sömu vandræðum hér á landi. Fólk hleypur í vaxandi mæli á eftir ímyndunum, klisjum og vörumerkjum. Bilið milli tekjuhárra og tekjulágra fer vaxandi. Græðgi er að öðlast aukna þjóðfélagslega viðurkenningu og ofbeldi fer vaxandi á almannafæri.

Ríkjandi skipan er ekki endanleg eða varanleg á sjálfvirkan hátt. Ef svo fer sem horfir, verður austrið þungamiðja lýðræðis, sem byrjað er að grotna í vestri.

Jónas Kristjánsson

DV

Jeltsín er hættulegur

Greinar

Boris Jeltsín Rússlandsforseti hefur beitt tilskipanavaldi sínu ótæpilega undanfarna daga. Hann gerði sig meðal annars um tíma að yfirmanni sovézka heraflans, þótt sjálfur gegni hann embætti á vegum Rússlands sem lýðveldis, en ekki Sovétríkjanna sem ríkjasambands.

Allar þessir gerðir hans kunna að hafa verið nauðsynlegar við hinar óvenjulegu aðstæður, sem myndast, þegar verjast þarf hallarbyltingarmönnum, sem eru á ólöglegan hátt að reyna að ná undirtökum í þjóðfélaginu. Árás þeirra þarf að svara með gagnárás lýðræðisinna.

Hitt er svo gömul saga, að allt vald spillir og gerræðisvald gerspillir. Einhvers staðar á þessu bili er hið ótæpilega tilskipanavald Jeltsíns. Vandinn er sá, að valdið breytir persónu þeirra, sem með það fara, og því miður sjaldnast til góðs, svo sem veraldarsagan sýnir.

Nýlegt dæmi er um ríki, sem upprunalega þótti til fyrirmyndar í sínum heimshluta, en lenti fyrir rúmum tveimur áratugum í þeirri óbeinu ógæfu að hafa betur í valdastreitu við nágrannanna. Það er Ísrael, sem smám saman hefur breyzt í ruddafengið útþensluríki.

Yfirvöld Rússlands hafa boðað, að þau áskilji sér allan rétt til landamæra gagnvart þeim ríkjum Sovétríkjanna, sem liggja að Rússlandi og hyggjast segja sig úr ríkjasambandinu eða hafa gert það. Þetta er vegna Rússa í þessum löndum, einkum í Úkraínu og Kazaskhstan.

Slæmt er, ef úr rústum Sovétríkjanna rís útþenslugjarnt Rússland, sem gerir landakröfur á hendur nágrönnum sínum og getur stutt þær mesta safni kjarnorkuvopna, sem til er í heiminum. Því er ljóst, að menn þurfa að vera vel á verði gagnvart Rússlandi Jeltsíns.

Yfirlýsing Rússa hefur strax í upphafi slæm áhrif á Serba og Júgóslavíuher, sem eru að reyna að ná undir Serbíu þeim hlutum Króatíu, sem eru byggðir Serbum. Yfirlýsingin styður Serba og Júgóslavíuher í þeirri trú, að ofbeldi þeirra þjóni sanngjörnum þjóðernismálstað.

Ekki er núna vitað, hvort Jeltsín muni ná tökum á tilskipanaáráttu sinni, þegar hættan af ofbeldi harðlínumanna er liðin. En ekki er tímabært að fullyrða, að alhvítt ljós hafi leyst kolsvart myrkur af hólmi austur í Garðaríki, þótt horfur séu óneitanlega mjög góðar.

Alveg eins og góðir hlutir geta falið í sér slæmar hættur, þá geta slæmir hlutir haft í för með sér góð hliðaráhrif. Það getur jafnvel verið ástæða til að fagna slæmum tíðindum, af því að þau muni kalla á nýja atburðarás, sem leiði til betra ástands en var í upphafi.

Meðan aðrir fjölmiðlar grétu hallarbyltingu harðlínumanna í Sovétríkjunum, var hér í leiðara lýst ánægju með, að hallarbyltingin setti andstæður Sovétríkjanna í skýrara ljós, hreinsaði þokuna og sýndi okkur, hverjir væru hinir raunverulegu ráðamenn þar eystra.

Hallarbyltingin hefur gert lýðræðissinnum kleift að finna þá, sem voru með landráð í hjarta. Hún gerir lýðræðissinnum nú kleift að hreinsa í einu vetfangi meirihluta yfirmanna í her, ríkislögreglu og leynilögreglu og vonandi einnig meirihluta yfirmanna hergagnaiðnaðar.

Illir atburðir breyttust í andhverfu sína, þegar nútímafólk náði undirtökum í vörninni gegn harðlínumönnum. Það góða, sem náðst hefur, er ekki varanlegt, fremur en hið illa, ef forustumenn lýðræðissinna láta ekki fljótlega af valdshyggju og útþenslustefnu.

Jeltsín fer með kjarnorkuvopn og tilskipanavald. Sagan sýnir, að slíkir menn verða oftast hættulegir, hversu góðir sem þeir virðast vera í upphafi leiks.

Jónas Kristjánsson

DV

Dagur stolts og gleði

Greinar

Gærdagurinn var dagur stolts og gleði. Þá voru undirrituð skjöl, sem marka mesta reisn íslenzkra utanríkismála frá stofnun lýðveldis. Samningar Íslands við Eystrasaltsríkin eru fordæmi, sem önnur ríki Vestur- og Austur-Evrópu munu fylgja á næstu dögum og vikum.

Fyrra frumkvæði Íslands í endurnýjaðri viðurkenningu Litháens sem sjálfstæðs og fullvalda ríkis var hornsteinn hins sögulega atburðar í Höfða í gær. Það frumkvæði og góð verkstjórn utanríkisráðherra okkar í málinu var forsenda hinna ágætu samninga í gær.

Skyndilega höfðu aðstæður myndazt til að skáka Eystrasaltsríkjunum öllum í senn inn í samfélag ríkjanna. Ísland var eina ríkið í heiminum, sem gat umsvifalaust framkvæmt réttlætið, af því að undirbúningur var mun lengra kominn af okkar hálfu en annarra þjóða.

Samningarnir í gær eru Eystrasaltsríkjunum gagnlegir. Með þeim rennur af stað viðurkenningaskriða, sem ekki verður stöðvuð. Með undraverðum hraða verða Eystrasaltsríkin fullgild. Það hefði tekið nokkru lengri tíma, ef frumkvæði Íslands hefði ekki verið til.

Utanríkismál eru ekki bara þröng hagsmunastreita, heldur einnig tæki til að búa til betri og tryggari heim. Lítið ríki getur lagt lóð á vogarskál réttlætis og friðar og þar með stuðlað að sáttara umhverfi, sem almennt séð tryggir rétt smáríkja í samfélagi ríkjanna.

Um leið og við erum til góðs sem þjóð með aðild að samningum þessum, þá erum við að staðfesta réttarstöðu okkar sem sjálfstæðs ríkis. Við sýnum umheiminum, að við höfum tilverurétt og getum tekið sjálfstæðar ákvarðanir sem eru samfélagi þjóða til gagns.

Mikilvægt er, að ekki séu öll ríki í fjölþjóðlegum samfélögum á borð við Evrópubandalagið, svo að frumkvæði til góðs koðni ekki niður í málfundafélögum utanríkisráðherra. Og mikilvægt er að láta ekki heldur norræna samvinnu hefta frumkvæði af þessu tagi.

Heimurinn þarf á að halda smáríkjum, sem ekki verða að bíða eftir niðurstöðum funda í Skagen eða Br”ssel. Heimsveldi og fjölþjóðasamsteypur þurfa oft að gæta innra samræmis og ytri hagsmuna og geta því ekki, að mati ráðamanna þeirra, gert það, sem réttlætið býður.

Eiginhagsmunir og skammsýni ráða mjög ferðinni í utanríkismálum heimsins. Sérstaklega er áberandi, hvernig utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur niðurlægzt, síðan þau urðu ein eftir sem heimsveldi. Þetta hefur komið fram í stórum stíl á þessu ári.

Bandaríkin klúðruðu stríðinu við Írak á síðustu stundu vegna flókinna ímyndana um hagsmuni Bandaríkjanna. Þau hafa einnig haldið dauðahaldi í stuðning við Gorbatsjov Sovétforseta, sem er fyrirlitinn um öll Sovétríkin og er ófær um að koma á efnahagsumbótum.

Eiginhagsmunir og skammsýni ráða líka Evrópubandalaginu, þótt þar séu fremur smáaurar í fyrirrúmi en valdadraumar. Þetta sáum við í átakanlegri mynd, er Evrópubandalagið gat ekki staðið við samkomulag, sem það hafði gert við ríki Fríverzlunarsamtakanna.

Við erum sem þjóð bezt komin að sinni utan fjölþjóðasamfélaga á borð við Evrópubandalagið, sem soga til sín frumkvæði í utanríkismálum, niðurlægja það í seinvirkum málfundaklúbbum sérfræðinga í eiginhagsmunum og vatna það út í nánast ekki neitt eða í andhverfu sína.

Við getum að vísu rækt illa okkar sjálfstæðu utanríkisstefnu og orðið okkur til vansæmdar. En sjálfstæðið sem slíkt er bezta hvatningin til að standa sig vel.

Jónas Kristjánsson

DV

Gorbatsjov er einskis virði

Greinar

Sem eftirmenn valdaræningjanna í Sovétríkjunum hefur Gorbatsjov Sovétforseti skipað aðstoðarmenn þeirra, sem meira eða minna eru sama sinnis og valdaræningjarnir. Hann hefur ekki skipað neina menn, sem gengu fram fyrir skjöldu til að hindra valdaránið.

Þetta segir allt, sem segja þarf um Gorbatsjov Sovétforseta. Hann er og verður fulltrúi þeirrar yfirstéttar, sem hefur rústað efnahag og álit Sovétríkjanna. Hann er að reyna að halda í völd nómenklatúrunnar með mildari aðferðum en valdaræningjarnir töldu beztar.

Það var Gorbatsjov sjálfur sem studdi til áhrifa einmitt þá menn, sem stóðu fyrir hinu misheppnaða valdaráni. Það voru hans eigin skjólstæðingar, sem ætluðu að taka völdin. Valdaráninu var ekki beint gegn Gorbatsjov, heldur lýðræðisöflum í ríkjum Sovétríkjanna.

Nú mun Gorbatsjov reyna að færa klukkuna aftur á bak til þess tíma, sem var fyrir byltingu. Hann mun reyna að nýju að finna leið til að bæta efnahag Sovétríkjanna án þess að láta af hagstefnu, sem er í eðli sínu ófær um að bæta haginn. Hann leggst í gamla farið.

Almennt er viðurkennt, að ráðamenn Austur-Evrópu muni eiga í miklum erfiðleikum með að bæta hag sinna landa, þótt þeir séu sannfærðir markaðshyggjumenn og hafi því ekki hugmyndafræðilegan myllustein um hálsinn á sama hátt og Gorbatsjov og fylgismenn hans.

Hagþróun er vonlaus í Sovétríkjunum meðan Gorbatsjov er þar við völd með gömlum flokksmönnum, herforingjum, lögreglustjórum og leynilögreglustjórum. Þetta hafa ráðamenn á Vesturlöndum átt afar erfitt með að skilja. Þeir hafa stutt hann gegn lýðræðissinnum.

Seinheppnir ráðamenn á borð við Bush Bandaríkjaforseta og Mitterrand Frakklandsforseta hafa opinberlega komið fram á móðgandi hátt við Jeltsín Rússlandsforseta til að auglýsa stuðning sinn við Gorbatsjov. Þeir tóku ranga ákvörðun, svo sem ráðamönnum er lagið.

Munurinn á Jeltsín og Gorbatsjov er þríþættur. Í fyrsta lagi hefur Jeltsín reynzt standa eins og klettur úr hafinu gegn draugum fortíðarinnar, sem hafa alltaf verið við barm Gorbatsjovs, eru það enn og verða áfram. Það var á Jeltsín, sem valdaránið brotnaði.

Í öðru lagi er Jeltsín maður fólksins, en Gorbatsjov maður nómenklatúrunnar. Jeltsín kærir sig ekki um villur, lúxusbíla og flokksmannabúðir fyrir sjálfan sig. Hann skynjar fólkið og hagar sér í samræmi við það, en Gorbatsjov er og verður í fílabeinsturni flokksins.

Í þriðja lagi hefur Jeltsín haft lag á að laða að sér færustu sérfræðinga í Sovétríkjunum. Mánuðum saman hefur legið samfelldur straumur slíkra manna úr herbúðum Gorbatsjovs yfir í herbúðir Jeltsíns. Eftir sitja undirmálsmenn og kerfiskarlar hjá Gorbatsjov.

Jeltsín hefur þannig reynzt vera í fyrsta lagi staðfastur, í öðru lagi vinsæll og í þriðja lagi ráðþægur. Gorbatsjov hefur hins vegar verið á sífelldu iði og bandalögum út og suður, fyrirlitinn af flestum heima fyrir, og ófær um að hlusta að nokkru gagni á vestræna hagfræði.

Vestrænir ráðamenn mega nú ekki ítreka fyrri mistök og fara að hjálpa Gorbatsjov við að tína saman leifar nómenklatúrunnar til að hanga í vinnubrögðum og ímyndunum fortíðarinnar. Þeim ber að beina athyglinni að Jeltsín og hans mönnum, sem hugsa vestrænt.

Sovétríkin og Gorbatsjov eru siðferðilega, hugmyndafræðilega og efnahagslega hrunin. Í stað þeirra eru að rísa vestræn lýðræðisríki og menn á borð við Jeltsín.

Jónas Kristjánsson

DV

Stórræði í skötulíki

Greinar

Sovézkir harðlínumenn klúðruðu hallarbyltingu sinni. Þeir höfðu rangar hugmyndir um viðhorf og viðbrögð manna og skildu ekki hinn almenna stuðning við Borís Jeltsín Rússlandsforseta. Þess vegna náðu þeir ekki þeim tökum á þjóðfélaginu, sem þeir reiknuðu með.

Þegar Jeltsín Rússlandsforseti steig upp á skriðdrekann á mánudag urðu þáttaskil í byltingunni. Við það varð hann að segli mótþróans. Þá minnkuðu líkur á, að valdaránsmenn gætu á ný stillt Gorbatsjov upp sem leppi, svo sem þeir virðast hafa talið sig mundu geta.

Vandræði hallarbyltingarmanna stöfuðu af, að ekkert stóð að baki þeim nema ógnin ein. Þeir voru ekki studdir neinni marktækri hugmyndafræði. Þeir voru ekki studdir neinni marktækri efnahagsstefnu. Þeir höfðu ekkert marktækt fylgi meðal þjóða sambandsríkisins.

Aðfaranótt miðvikudags krömdust rússneskir borgarar undir skriðdrekum í Moskvu. Það var meira áfall fyrir Rauða herinn en svipuð fólskuverk í Prag, Búdapest, Tíblisi og Vilnius, því að fórnardýrin voru ekki Tékkar, Ungverjar, Georgíumenn eða Litháar.

Þegar Rauða hernum var sigað á sína eigin móðurþjóð, Rússa, slitnaði síðasta haldreipi hugmyndafræðinnar. Enda hefur komið í ljós, að valdaránsnefndin gat ekki reitt sig á stuðning einstakra hermanna og yfirmanna þeirra og kunni ekki að mæta slíkum vanda.

En það má hafa til marks um, að Sovétríkin hafa fetað götuna fram til mannlegrar hugsunar, að hvorki var sjálfkrafa hægt að siga hermönnum á almenning né gátu allir valdaránsmenn haldið heilsu sinni og samstöðu, þegar þeir sáu fram á, að blóð mundi renna.

Valdaránsmenn eru ekki greindir menn í venjulegum skilningi. Þeir komust í valdastöður sínar út á að geta potað sér áfram innan í kerfinu. Þeir eru árangursríkir kerfiskarlar, sem eru gagnslitlir, þegar þeir koma úr kerfinu út í næðing og sviptivinda byltingarinnar.

Valdaránsmenn voru að gæta hagsmuna forréttindastéttar, sem hefur lifað í fílabeinsturni og getur ekki mætt nýjum aðstæðum. Þeir voru einangraðir frá umhverfi sínu og klúðruðu því hallarbyltingunni, sem þeim virtist í upphafi vera einföld lausn á vandanum.

Í valdaráninu fólust fjörbrot deyjandi yfirstéttar, sem hefur reynzt óhæf um að varðveita fyrri lífskjör landsmanna. Í byltingarnefndinni voru einmitt þeir menn, sem hafa stjórnað efnahag landsins á síðustu árum og hafa misst hungurvofuna inn á gafl til almennings.

Nómenklatúran í Sovétríkjunum getur ekki sakað lýðræðisinna eða hagfræðinga um ófarirnar í efnahagsmálum. Hún verður sjálf að svara til saka, því að það er hún sem hefur verið við völd og það er hún, sem var að reyna að varðveita þau með hallarbyltingu.

Almenningur í Sovétríkjunum gat spurt tveggja spurninga. Annars vegar, hvað yrði um lýðræðisþróunina. Hins vegar, hvort valdaránsnefndin mundi skaffa. Og það var flestum ljóst, að henni mundi hvorki fylgja frelsi né brauð, heldur ánauð og hungur í senn.

Hallarbylting tekst því aðeins, að menn taki henni eins og hverju öðru hundsbiti. Hún tekst ekki, þegar andófsöfl stilla saman strengi. Þá standa byltingarmenn andspænis allt öðru vandamáli, það er að segja blóði, sem sumir þeirra vildu ekki fá á hendur sínar.

Hallarbylting harðlínumanna reyndist vera í skötulíki. Það sýnir, að ofan á vondan málstað voru þeir alls ekki færir um að standa í stórræðum á götuvígjum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hallarbylting

Greinar

Í Sovétríkjunum gátu þrír menn komið saman og sett forseta ríkisins frá völdum með því að lýsa hann óhæfan til starfa vegna veikinda, og það án þess að þremenningarnir hefðu neitt stjórnskipulegt hlutverk til slíkra ákvarðana. Þetta er dæmigerð hallarbylting.

Sviptingar af slíku tagi gerast aðeins í þeim ríkjum þriðja heimsins, sem standa á mestum brauðfótum. Sovétríkin eru einmitt eitt slíkt þriðja heims ríki. Enda er auðvelt að skipta um forseta, þegar þeir sækja ekki vald sitt til neinnar þjóðar, heldur til klíkunnar.

Ef þremenningunum tekst að framkvæma hallarbyltingu með svona einföldum hætti, er ljóst, að í rauninni stóð ekki neitt vald á bak við Gorbatsjov sem forseta. Hann naut engrar virðingar heima fyrir, en var sífellt að leita að einhverri miðjuleið, sem ekki var til.

Þjóðir Sovétríkjanna rísa ekki upp til stuðnings við hinn brottrekna forseta, af því að þeim er hjartanlega sama um hann. Þær styðja að vísu enn síður þremenningana, en þeir njóta meiri stuðnings af því tagi, sem hentar í þriðja heiminum, hjá her og ríkislögreglu.

Gorbatsjov var fyrst og fremst línudansari, sem reyndi að tefla saman framfarasinnum og harðlínumönnum á þann hátt, að miðjumaðurinn Gorbatsjov væri alltaf á toppnum. Klapplið hans var þó ekki heima fyrir, heldur á Vesturlöndum, einkum í Bandaríkjunum.

Ráðamenn og fjölmiðlar í Bandaríkjunum vilja gjarna túlka umheiminn út frá bandarískum reynsluheimi. Þar vestra er mikið látið með persónur manna og einkum þó forseta. Gorbatsjov féll að þessum reynsluheimi eins og hann kæmi tilbúinn úr pakka frá auglýsingastofu.

Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi að setja traust sitt á einn mann. Það er hrein firra að gera slíkt, þegar þessi eini maður er forsvarsmaður ríkis, sem hvorki fer eftir hefðum og reglum lýðræðisríkja, né hefur siðferðilega og efnahagslega burði og festu á við Vesturlönd.

Margoft hefur verið reynt að benda klappliði Vesturlanda á, að Gorbatsjov væri forgengileg vara. Miðjan, sem hann þættist vera fulltrúi fyrir, væri ekki til. Baráttan stæði í raunveruleikanum milli lýðræðissinna og gömlu harðlínumannanna, sem nú hafa styrkt völd sín.

Einkum er áberandi, að efnahagsstefna Gorbatsjovs hefur hvorki verið fugl né fiskur. Hún var að því leyti lakari en gamla harðlínustefnan, að hún tætti miðstýringu efnahagskerfisins í sundur, en mannaði sig ekki í að gefa markaðsöflunum færi á að hlaupa í skarðið.

Lengi notuðu harðlínumenn Gorbatsjov til að sýna umheiminum mannlega ásýnd eða ímynd Sovétríkjanna. Hann var meðal annars notaður til að beina athygli og stuðningi Vesturlanda frá raunverulegum lýðræðis- og markaðssinnum í Sovétríkjunum.

Nú telja harðlínumennirnir að baki þremenninganna, að þessi ímynd hafi runnið sitt skeið, sennilega af því að Gorbatsjov hafi misst tökin í samkeppni við valdamiðstöðvar lýðræðissinna í einstökum ríkjum Sovétríkjanna. Nú telja þeir, að spyrna verði við fótum.

Þessi breyting er að sumu leyti góð. Hún skvettir köldu vatni framan í dáleidda Vesturlandabúa, sem mynduðu klapplið Gorbatsjovs. Hún setur andstæður Sovétríkjanna fram í skýrara og raunsærra ljós. Hún hreinsar þokuna í kringum ímynd og persónu forsetans.

Nú sjáum við hina raunverulegu ráðamenn Sovétríkjanna, arftaka Bresnjevs, og gerum okkur ekki eins miklar grillur um, hvar á vegi Sovétríkin eru stödd.

Jónas Kristjánsson

DV