Greinar

Einnota og ábyrgðarlausir

Greinar

Ef ráðherra fær utan úr bæ tilmæli eða sníkjur, sem eiga ekki erindi til ráðuneytisins, heldur til Byggðastofnunar, og hann framsendir þetta með fylgbréfi til stofnunarinnar, virðist forstjóri hennar hingað til hafa talið, að um eins konar útgjaldafyrirmæli að ofan sé að ræða.

Yfirlýsingar forstjóra Byggðastofnunar gefa örlitla innsýn í hugarheiminn, sem hefur komið lánveitingum fyrirgreiðslusjóða upp í 45 milljarða. Þar ber enginn neina ábyrgð. Menn sitja bara í fínum jakkafötum á fínum kontórum og grýta peningum út um víðan völl.

Að baki bréfa og símtala milli stjórnmálamanna og skömmtunarstjóra liggur fyrirgreiðsluæði, er helgast af þokukenndri lögbók, sem kölluð er “atvinnustefna”, þegar önnur rök þrjóta. Lögbókin gerir ekki ráð fyrir neinni ábyrgð skömmtunarstjóra í opinberum sjóðum.

Í fínimannsleik stjórnmálamanna og skömmtunarstjóra stafar hið óhefta peningaaustur meðal annars af því, að stjórnmálamennirnir og skömmtunarstjórarnir eru einnota. Þeir lifa í núinu og virðast ekki gera sér neina grein fyrir, að sagan muni vega þá og meta.

Stjórnmálamenn og skömmtunarstjórar fara ekki eftir spakmæli Hávamála um orðstírinn, sem aldrei deyr. Þeir eru í fínimannsleik líðandi stundar og fá andlega fullnægingu af að útvega peninga til þeirra, sem ganga með betlistaf milli banka og sjóða hins opinbera.

Skömmtunarstjórarnir vísa frá sér allri ábyrgð og kasta henni ýmist til útgjaldafíkinna ráðherra eða til hugtaksins “atvinnustefnu”. Í stétt skömmtunarstjóra vantar greinilega heilsteypt fólk með ríka sjálfsvirðingu og skilning á mikilvægi orðstírs, sem aldrei deyr.

Stjórnmálamennirnir vísa einnig allri ábyrgð frá sér, ýmist til skömmtunarstjóranna eða til “atvinnustefnunnar”. Þannig hefur orðið til 45 milljarða króna vítahringur, sem á eftir að valda afkomendum okkar miklum endurgreiðslum og erfiðleikum á næstu áratugum.

Forsætisráðherra er réttilega sakaður um að hafa stundað fyrirgreiðslustefnu sem borgarstjóri. Samkvæmt spakmælinu um, að batnandi manni sé bezt að lifa, hefur hann samt lagt til atlögu við vítahring sjóðakerfisins. Hann er fluttur úr gamla glerhúsinu.

Reglan um, að ekki megi kasta steinum úr glerhúsi, nær ekki yfir þá, sem hafa skipt um vettvang og ákveðið að byrja nýtt og betra líf. Þess vegna skyggir fortíðin ekki á tilraunir forsætisráðherra til að koma böndum á fyrirgreiðslukerfi opinberra skömmtunarstjóra.

Ekkert bannar fínimönnum skömmtunarkerfisins að segja af sér og byrja nýtt líf sem ábyrgir borgarar. Þeir gætu til dæmis sótt aftur um stöður skömmtunarstjóra með loforðum um, að “gera þetta aldrei aftur” og taka í þess stað upp vinnubrögð sem standast dóm sögunnar.

Þótt stjórn Framkvæmdasjóðs hafi tekið þátt í að firra sig ábyrgð með tilvísun til “atvinnustefnu” stjórnmálamanna, hefur hún eigi að síður sýnt þann manndóm að stöðva lánveitingar sínar, að lýsa yfir óbeinu gjaldþroti sjóðsins og að undirbúa formlegt andlát hans.

Viðbrögð yfirmanna Byggðasjóðs eru önnur og neikvæðari, enda hafa forstjóri og stjórnarformaður sjóðsins verið í fylkingarbrjósti “atvinnustefnunnar”, sem vísað er til, þegar varin er lánastefna, sem á sér enga stoð í hefðbundinni rekstrarhagfræði eða þjóðhagfræði.

Þeir verða ekki dregnir fyrir lög og dóm, en þeir verða dregnir fyrir sagnfræðilegt og siðferðilegt mat, þar sem hinir einnota og ábyrgðarlausu fá engan orðstír.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórnlyndisflokkurinn

Greinar

Frjálshyggja á erfitt uppdráttar hér á landi, þrátt fyrir mikla umræðu. Helzt er það í Alþýðuflokknum, sem hún á hljómgrunn, svo sem fram kemur í afstöðu ráðherra flokksins til sölu veiðileyfa í sjávarútvegi og aukinnar þátttöku lyfjanotenda í kostnaði við lyf.

Nokkrir hagfræðingar, sem hafa verið á leið frá Alþýðubandalaginu yfir í Alþýðuflokkinn, hafa sett fram hugmynd um 500 daga átak til að koma upp markaðsbúskap í atvinnulífinu. Það er athyglisvert, að slíkar hugmyndir koma ekki frá Sjálfstæðisflokknum.

Í þeim flokki, sem hefðbundið er að telja lengst til hægri í stjórnmálunum, á frjálshyggja sér fáa formælendur. Helzt eru það fræðimenn, tengdir flokknum, sem hafa sett fram hugmyndir um markaðsbúskap í tengslum við tillögur um sölu veiðileyfa í sjávarútvegi.

Broslegt er, að svokallaður Eimreiðarhópur, sem setti frjálshyggju fram á kerfisbundinn hátt fyrir tveimur áratugum, hefur nú tvístrast á leið til “stjórnlyndis”, svo notað sé orðfæri frjálshyggjumanna. Sumir Eimreiðarmanna eru orðnir kerfiskarlar stjórnlyndis.

Örlög þessara manna hafa meðal annars falizt í að verða fyrirgreiðsluþingmenn landbúnaðarkjördæma eða forstjórar einokunarstofnana í útflutningsgreinum. Sannast þar, að langar setur við kjötkatla þjóðfélagsins draga úr lyst manna á breytingum á þjóðfélaginu.

Sjálfstæðisflokkurinn sem heild er miklu fremur stjórnlyndisflokkur en frjálshyggjuflokkur. Sterkari rótin að meiði hans er gamli Íhaldsflokkurinn, þar sem kerfiskarlar voru fjölmennir. Samfara stjórnlyndi ríkir í flokknum sterk þrá til hins mikla leiðtoga.

Flokksbundnum sjálfstæðismönnum líður vel á landsfundum, þar sem er mikil eining og mikið klapp undir fánaborgum og lúðraþyt. “Flokkur allra stétta” er í eðli sínu korpórasjónsflokkur á borð við hinn mjög svo stjórnlynda fasistaflokk Mussolinis á Ítalíu.

Ef skyggnzt er í þingflokk sjálfstæðismanna, má sjá, að öllum þorra hans eru markaðslögmál lokuð bók. Þetta eru kjördæmapotarar, sem vilja nefndir á ráð ofan og eru sælastir, ef þeir fá sæti í þessum stofnunum. Þeir styðja yfirleitt einokun gegn samkeppni.

Ef litið er framhjá orðaflaumi í stefnuskrám, má sjá, að í reynd styður Sjálfstæðisflokkurinn eflingu ríkisvaldsins til styrktar atvinnurekendum, sem eiga í erfiðleikum, af því að þeir hafa orðið undir í hægfara þróun sögunnar. Þetta er svonefndur pilsfaldakapítalismi.

Þar að auki er Sjálfstæðisflokkurinn mjög hallur undir hin stóru fyrirtæki, sem hafa aflað sér hálfgerðrar einokunar á starfsvettvangi sínum. Hann er flokkur Eimskipafélagsins, Flugleiða, olíufélaganna og tryggingafélaganna, svo að þekkt dæmi séu rakin.

Sjálfstæðisflokkurinn er yfirleitt andvígur röskun í þjóðfélaginu. Hann styður einokun, sem fyrirtæki og stofnanir hafa smám saman aflað sér. Hann styður úreltan atvinnurekstur, af því að hann er hefðbundinn. Hann er yfirleitt andvígur tillögum frjálshyggjunnar.

Það er í anda Sjálfstæðisflokksins, að menn séu góðir hver við annan, hjálpi bágstöddum fyrirtækjum, veiti fyrirgreiðslur í atvinnulífinu, starfi saman stétt með stétt, ruggi ekki bátnum með nýjum hugmyndum og líti upp til hins mikla leiðtoga, ef hann finnst.

Í ríkisstjórninni koma því frjálshyggjuhugmyndir einkum frá Alþýðuflokknum. Það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem reyna að bregða fæti fyrir þær.

Jónas Kristjánsson

DV

Ófarir í eltingaleik

Greinar

Eltingaleikurinn við austurríska steinhöggvara gæti verið uppistaða í nýrri grínmynd um löggulíf. Knúnir af daglegum fréttum um framgang Mörtls og félaga fara eftirlitsmenn af ýmsu tagi á vettvang og ná engum árangri, því að Mörtl gefur þeim jafnan langt nef.

Þegar beðið er um að fá að skoða farteskið, er því hafnað. Þegar krafizt er, að Mörtl mæti á ákveðnum stað, mætir hann ekki. Þegar settur er á hann yfirfrakki, fer hann án hans. Þegar steinhöggvarar eru stöðvaðir í tolli, senda þeir sýnishorn sín í pósti.

Sumir þættir eftirlitsvaldsins standa meira að segja með steinhöggvurum, enda eru þeir hér á vegum Bifreiðastöðvar Íslands, sem ber á þeim alla ábyrgð. Í sérstakri undanþágunefnd veitti Birgir Þorgilsson ferðamálastjóri Mörtl leyfi til að halda áfram iðju sinni!

Þetta er dæmigert þriðja heims vandamál, sem felst í, að útlendingar umgangast okkur eins og apa og komast upp með það. Þýzk ferðaskrifstofa var formlega vöruð við að senda hingað stjórnlausan ferðahóp, en tók ekkert mark á því, af því að hún taldi sig mundu sleppa.

Þessi hópur slapp tiltölulega ódýrt frá vandanum. Hið sama er að segja um hina frægu útlendinga, sem fóru á fjallatrukk inn á Kjalveg áður en hann var opnaður og voru sóttir þangað í þyrlu. Þeir greiddu 2000 króna sekt og hafa sagt þá gamansögu víða um heim.

Sumir Íslendingar skilja ekki, af hverju er verið að amast við þessu fólki. Öldum saman hefur ekkert verið sagt, þótt heimamenn og gestir taki sjaldgæfa steina og steingervinga, brjóti dropasteina, geri þarfir sínar í bergvatnsár og stundi berserksakstur um víðan völl.

Vandamálið felst í, að nú gengur þetta ekki lengur. Ísland er illu heilli orðið ferðamannaland, þar sem fjöldi manna hefur hagsmuni og lifibrauð af ferðafólki. Álag á viðkvæmum hálendisstöðum er orðið óhóflegt. Reglur og eftirlit miðast ekki við þetta mikla og nýja álag.

Raunasögur þessa sumars gefa Alþingi og ríkisstjórn rækilegt tilefni til að nota næsta vetur til að gefa út ný lög og reglugerðir um ýmis atriði, sem varða umgengni við Ísland. Það er verðugt verkefni fyrir dugmikinn umhverfisráðherra að taka forustu í því máli.

Um töku steina og steingervinga, svo og plantna, sem margar hverjar eru sjaldséðar, þurfa að gilda nákvæmar reglur eins og þegar gilda um töku fugla og eggja. Við brotum á slíku, svo og við brotum á reglum um aðra umgengni, þarf að setja hörð viðurlög.

Við þurfum að breyta þeirri þriðja heims ímynd, að hér búi þjóð, sem láti vandalisma yfir sig ganga, og koma okkur upp þeirri ímynd, að vandalar komist ekki upp með moðreyk hér á landi. Við megum ekki láta innlenda hagsmunaaðila spilla þessari breytingu.

Umfram allt þurfum við sem þjóð að átta okkur á, að þetta er alvörumál, en ekki meinsemi. Við megum ekki láta þætti þessa máls vera í höndum manna, sem ekki skilja það og geta ekki hreyft sig fyrir silkihönskum sínum og þriðja heims undirgefni við útlendinga.

Það er ekki eingöngu vegna útlendinga, að við þurfum að setja strangar umgengnisreglur og fylgja þeim eftir í alvöru. Við þurfum líka að mannast sjálfir. Hin gamla, kærulausa umgengni fyrri fámennis- og einangrunartíma gengur ekki á fjölmennis- og ferðatíma nútímans.

Við skulum láta ófarirnar í hinum skondna eltingaleik við Mörtl verða kornið sem fyllir mælinn, svo að við séum á næsta sumri búin að ná tökum á verkefninu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þráður leysir málin tvenn

Greinar

Við höfum lent í vandræðum með tvo mikilvæga samninga við útlendinga, annars vegar um evrópskt efnahagssvæði og hins vegar um nýtt álver á Íslandi. Hvorugt málið er endanlega úr sögunni, en saman kalla þau á endurmat okkar á stöðu samningaskákanna.

Annars vegar sjáum við fram á, að Evrópubandalagið er ófært um að gera gagnkvæma samninga á jafnréttisgrundvelli. Það getur bara gleypt umhverfi sitt, ekki samið við það. Í bandalaginu ráða ferðinni þrengstu sérhagsmunir í líkingu við íslenzkan landbúnað.

Hins vegar sjáum við fram á, að erlend álfélög eru ófær um að greiða meira fyrir orku á Íslandi en sem svarar fjármagnskostnaði okkar af að taka lán vegna virkjana. Varla má heita, að peningar fáist upp í orkuverið við Blöndu, þótt það eigi að þjóna nýju álveri.

Álmálið er í þeirri vonlausu og fáránlegu stöðu, að áratugum saman er ekki fyrirsjáanlegur neinn arður af orkusölu til Keilisness, aðeins endurgreiðsla á fjármagnskostnaði. Samt er verið að tala um að fórna ódýrustu virkjanakostum okkar í þágu álversins.

Að selja orku til Keilisness á fjármagnskostnaðarverði er álíka heimskulegt og að veita togurum frá ríkjum Evrópubandalagsins aðgang að fiskimiðum okkar. Viðskipti af slíku tagi eru verri en engin viðskipti, því að okkur ber skylda til að ná gróða af auðlindum okkar.

Ríkisstjórnin mun væntanlega haga sér rétt í málum evrópska efnahagssvæðisins. Haldið verður áfram að reyna samninga í haust, en ekki í neinni örvæntingu. Við munum ekki bjóða frekari eftirgjafir. Við munum jafnframt sætta okkur við, að samningar náist ekki.

Við Evrópubandalagið höfum við gert nothæfan viðskiptasamning, sem við höldum áfram að nota, þótt við gerumst ekki aðilar að evrópsku efnahagssvæði og látum ekki hvarfla að okkur að gerast aðilar að sjálfu Evrópubandalaginu, þótt nágrannaþjóðirnar geri það.

Við getum svo í vaxandi mæli farið að sveifla nýrri gulrót fyrir framan viðsemjendur okkar í Evrópubandalaginu, hvort sem er í marghliða eða tvíhliða viðræðum um aukið viðskiptafrelsi sjávarafurða. Við getum boðizt til að selja þeim orku um streng yfir Íslandshaf.

Auknar kröfur um mengunarvarnir og um aðgerðir gegn eyðingu ózonlags, svo og almennt gegn gróðurhúsaáhrifum, eru farnar að valda auknum erfiðleikum við notkun á kolaorku og kjarnorku. Kaup á vatnsorku verður í auknum mæli talinn fýsilegur kostur.

Okkar samningsaðstaða gagnvart Evrópubandalaginu og öðrum viðskiptavinum byggist á, að við höfum á boðstólum fisk og orku. Hvort tveggja ætlum við að eiga sjálf hér eftir sem hingað til, en selja öðrum það, sem hægt er nota hverju sinni af þessum auðlindum.

Í staðinn viljum við annars vegar fá fríverzlun með afurðir okkar og hins vegar markaðsverð fyrir þær, hvort sem þær eru fiskur eða orka. Þetta er afar einföld og hógvær samningakrafa. Og við getum vel tekið lífinu með ró, unz Evrópubandalagið áttar sig.

Til þess að skákin teflist svona, megum við ekki fórna taflstöðu okkar í orkumálum á altari þráhyggju um að semja verði við Atlantsál um smánarverð fyrir ódýrustu vatnsorku landsins. Við þurfum að eiga þessa orku aflögu til að veifa framan í Evrópubandalagið.

Sérfræðingar eru ört að komast á þá skoðun, að sala á orku um þráð til meginlandanna sé að verða einn álitlegasti kostur okkar á lifibrauði í framtíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópumartröð

Greinar

Svo getur farið, að Íslendingar sitji eftir með Svisslendingum og Liechtensteinum í þriggja ríkja fríverzlunarklúbbi, þegar önnur ríki Fríverzlunarsamtakanna eru gengin í Evrópubandalagið. Svíþjóð og Austurríki hafa sótt um aðild, Noregur og Finnland fylgja á eftir.

Þessi staða er þolanleg. Við búum þegar við fríverzlunarsamning við Evrópubandalagið um tollfrjálsan aðgang flestra sjávarafurða okkar annarra en saltfisks. Við höfum hingað til getað búið við þennan samning og munum geta það áfram, þótt við sitjum einir á báti.

Aðildarumsóknir Svíþjóðar og Austurríkis spilla fyrir viðræðum um evrópskt efnahagssvæði. Þær styrkja embættismenn Evrópubandalagsins í þeirri sannfæringu, að útlend ríki eigi að koma á hnjánum til bandalagsins, en ekki að halda uppi hörðu samningaþrasi.

Embættismenn Evrópubandalagsins vita, að þeir þurfa ekki að semja við ríki Austur-Evrópu um aðild, þegar þar að kemur. Þeir telja sig munu geta lesið fyrir skilmálana án nokkurra samningaviðræðna. Þar verður um að ræða eins konar skilyrðislausa uppgjöf.

Þeir vita líka, að flest ríki Fríverzlunarsamtakanna munu fyrr eða síðar koma á hnjánum til bandalagsins, þótt ekki náist samkomulag um evrópskt efnahagssvæði að þessu sinni. Þetta stuðlar að svo mikilli hörku þeirra, að þeir taka ekki mark á eigin stjórnmálamönnum.

Við þetta bætist svo, að samgangur embættismanna Evrópubandalagsins við hagsmunaaðila í ríkjum bandalagsins er oft meiri og nánari en við hina veiku stjórnmálamenn ríkjanna. Þrýstihóparnir og embættismannagengið mynda í rauninni samstæðan hóp.

Þetta ástand minnir mjög á íslenzka landbúnaðarráðuneytið, sem er fyrst og fremst framlengdur armur hagsmunasamtaka, en ekki ráðuneyti í hefðbundnum stíl. Við vitum, að ráðuneytið brjálast, ef hróflað er við þrýstikerfinu, og að það hagar sér sem ríki í ríkinu.

Munur Íslands og Evrópubandalags er fyrst og fremst, að þar eru sjávarútvegsmál deild í landbúnaðarráðuneyti og lúta þar sömu hagsmunalögmálum og íslenzkur landbúnaður hér. Óheft verndarstefna nær þar til sjávarútvegs, sem við viljum hins vegar, að lúti fríverzlun.

Þegar við bætist, að utanríkisráðherrar ríkjanna, sem hafa reynt að semja um evrópskt efnahagssvæði, geta ekki náð samkomulagi um, hvað þeir hafi náð samkomulagi um á furðufundinum í Lúxemborg í júní, er ekki von á, að embættismenn taki mark á þeim.

Enn bætist við sá vandi, að hingað liggur straumur ráðamanna, allt frá dönskum utanríkisráðherra yfir í franskan forseta, sem lýsa yfir skilningi á málstað Íslendinga og stuðningi við hann. Á sama tíma fréttum við, að þessi ríki vinni í raun gegn þessum málstað.

Af allri þessari martröð má ráða, að okkur dugir ekki að skrifa undir ófullgert samkomulag, sem embættismönnum sé ætlað að ljúka. Slík hreingerning embættismanna mun örugglega verða okkur til bölvunar. Þess vegna eigum við að neita að undirrita málamyndaplagg.

Ef hins vegar eftir þessa helgi næst skyndilega síðustu stundar samkomulag stjórnmálamanna, sem verður í samræmi við túlkun okkar manna á niðurstöðu Lúxemborgarfundarins í síðasta mánuði, getum við sætzt á að verða aðilar að evrópsku efnahagssvæði.

Við skulum samt gera okkur grein fyrir, að líkur eru ekki miklar á slíkri túlkun, og gera ráð fyrir að þurfa að vera áfram utan evrópsks efnahagssamstarfs.

Jónas Kristjánsson

DV

Ribbaldar og pylsuvagnar

Greinar

Þráhyggja er oft góð og stundum bráðnauðsynleg. Það gildir þó ekki um þá síbylju lögreglustjórans í Reykjavík, að fremsta ráðið gegn ofbeldi og ólátum að næturlagi í miðbæ Reykjavíkur sé að loka pylsuvögnum svæðisins þremur klukkustundum fyrr en nú er gert.

Síbylja af þessu tagi útskýrir að nokkru, hvers vegna lögreglunni í Reykjavík hefur veitzt erfitt að hafa hemil á ástandinu. Yfirmenn hennar eru í öngstrætum kenninga, sem ekki varða í raun að umtalsverðu leyti það vandamál, sem er til umræðu, ofbeldi og ólæti.

Meira vit var í þeirri óbeinu játningu lögreglustjórans í Reykjavík, að hingað til hafi lögreglan látið viðgangast, að “þekktir ribbaldar og misindismenn, sem eru líklegir til líkamsrárása” hafi nokkurn veginn frjálsan aðgang að tilraunadýrum í miðbæ Reykjavíkur.

Nú á að byrja að fylgjast með ferðum þessara hættulegu manna og stöðva aðgerðir þeirra á frumstigi. Í framhaldi af því er svo rétt að spyrja, hvort yfirvöld lögreglu og dómsmála geta ekki útvegað þjóðinni varanlegan frið í styrjöldinni, sem ribbaldar heyja gegn henni.

Í gamla daga voru menn gerðir útlægir, ef atferli þeirra var langt utan ramma samfélagsins. Ef til vill eru tæknilegir og lagalegir erfiðleikar við svo róttækar aðgerðir, en þær hljóta þó að vera freistandi fyrir eyþjóð, sem á auðvelt með að kanna mannaferðir til landsins.

Flestar aðrar hliðar næturlífsvandræða Reykjavíkur eru utan eiginlegs áhrifasviðs lögreglunnar. Fólk má koma saman á opinberum vettvangi, það má slaga og þrugla og slefa af góðsemi í eyru hvert annars. Slíkt er ekki lögreglumál, heldur brestur í þjóðarsálinni.

Íslendingar þurfa að breyta hugarfari sínu. Við verðum að hætta að útskýra hegðun manna með orðunum: “Hann var fullur, greyið.” Við verðum að koma upp þjóðarsamkomulagi um, að það sé skammarlegt að afklæðast persónuleikanum og haga sér eins og apar.

Boð og bönn eru lítil vörn í þessu samhengi. Ef yfirvöld láta færa lokunartíma pylsuvagna fram um þrjá tíma, geta þau í sama tilgangsleysi látið loka þeim um kvöldmatarleytið. Þau geta líka látið loka vínveitingastöðum um kvöldmat. Það leysir ekki vandamálið.

Hluti af ölæðisvanda Íslendinga felst í, að við kunnum ekki á frelsið, af því að það er svo nýfengið. Áratugum saman ríkti hér óbein bannstefna, sem hafði þá hliðarverkun, að fólk vandist því, að Stóri bróðir hefði vit fyrir því. Og nú vill Stóri bróðir meiri bönn að nýju.

Við getum ekki búið í vernduðu umhverfi á meðan aðrar þjóðir takast á við frelsið og hafa náð á því mun betri tökum en við. Við þurfum að læra að lifa lífinu eins og aðrar þjóðir, þótt sölustaðir víns og matar séu á öðru hverju götuhorni. Þetta er einfalt hugarfarsmál.

Sumir þurfa að hætta að nota áfengi, aðrir að minnka við sig og enn aðrir að sjá fótum sínum betri forráð, þótt þeir noti áfengi. Við þurfum að siðmenntast í stíl þeirra þjóða, sem hafa lengri reynslu af frelsi. Boð og bönn eru ekki rétta leiðin til að gera fólk að manni.

Því meiri tíma sem yfirvöld lögreglu og borgar eyða í að kljást við afgreiðslutíma öldurhúsa og jafnvel pylsuvagna, þeim mun meira dreifist athyglin frá hinu raunverulega hugarfarsvandamáli. Betra væri, að þessi yfirvöld einbeittu sér að ribböldum og ofbeldismönnum.

Yfirlýsing um hertar aðgerðir gegn þessum hættulegu mönnum er spor í rétta átt. Vonandi er hún undanfari þess, að fólk geti gengið óttalaust um borgina.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimalagað peningaleysi

Greinar

Ríkisstjórnin þurfti ekki að æfa sig í sjónhverfingum, þegar hún var að mata fjölmiðla og almenning á fréttum af undirbúningi frumvarps til fjárlaga ríkisins á næsta ári. Margt af því, sem hún er að vinna að, er til bóta og hefði fengið hljómgrunn, án nokkurs dulargervis.

Blekkingar ríkisstjórnarinnar hafa einkum verið tvenns konar. Áður hefur hér í leiðara verið fjallað um aðra tegundina. Hún felst í, að loforð um óbreytta skatta eru efnd á þann hátt, að lögð eru á fólk og fyrirtæki gjöld fyrir ýmsa þjónustu, sem þessir aðilar fá.

Hin tegundin hefur meira verið í fréttum hér í blaðinu að undanförnu. Hún felst í, að ríkisstjórnin reynir að gera sem mest úr erfiðleikum sínum til þess að fá fólk til að sætta sig við niðurskurð þjónustu og hækkuð þjónustugjöld, og geri ekki of miklar kjarakröfur.

Þegar fjármálaráðherra talar um 25 milljarða vanda ríkissjóðs á næsta ári, 1992, er hann búinn að tína til 5 milljarða fortíðarvanda vegna óráðsíðu fyrri ríkisstjórnar, 2 milljarða í tekjutap vegna samdráttar í þjóðarbúinu og 4 milljarða fjárlagahalla á yfirstandandi ári, 1991.

Stærsti hluti 25 milljarða vandans felst þó í tillögum ráðherra núverandi ríkisstjórnar. Þær fara samanlagt tæpa 15 milljarða fram úr forsendum gildandi fjárlaga. Það skiptist þannig, að eldri lög heimta 7 milljarða, nýleg lög 3 milljarða og ný óskhyggja 4 milljarða.

Mikill hluti vandans felst því í hefðbundnum verkum á borð við að skera niður óskir ráðherra um ný útgjöld og að fresta eða hætta við mál, sem ný og gömul lög gera ráð fyrir. Þetta er ekki nýtt af nálinni og er ekki tilefni sérstakrar samúðar í garð stjórnarinnar.

Ráðherrarnir eru misjafnlega áhugasamir um þetta verk. Heilbrigðisráðherra hefur riðið á vaðið með niðurskurði á þátttöku ríkisins í lyfjakostnaði og er að koma á fót gjaldheimtu fyrir legu á sjúkrahúsum, að vísu á þann hátt, að ríkið skammti undanþágur út og suður.

Landbúnaðarráðherra er hins vegar svo tregur, að ríkisstjórnin hefur skipað honum annan ráðherra til aðstoðar. Landbúnaðarráðherra vill ekki heyra á þessa aðstoð minnst og talar um að beita sjónhverfingum á borð við “að breyta uppsetningu fjárlagafrumvarpsins”.

Svipaður tónn er í sjávarútvegsráðherra, sem sagði: “Ég hef verið að leita leiða til sparnaðar með tilfærslum.” Á bak við þessar tilvitnanir í tvo ráðherra er gömul ráðherraspeki um, að losna megi við vandamál með því að færa þau til og hagræða þeim í bókhaldi.

Í sparnaðaráformum ríkisstjórnarinnar er athyglisvert, hve mikil áherzla er lögð á niðurskurð velferðar hjá almenningi, svo sem í heilbrigðiskerfinu, og lítil áherzla á niðurskurð velferðar hjá atvinnuvegum, svo sem í landbúnaði. Þetta minnir nokkuð á Gorbatsjov.

Forseti Sovétríkjanna situr yfir gjaldþrota ríkisbúi og gengur með betlistaf um Vesturlönd. Á sama tíma heldur hann uppi 20% hlutdeild stríðsvélarinnar í ríkisbúinu. Þetta er margfalt meira fé en það, sem hann segir vanta til að koma þjóðarhag af stað að nýju.

Hér á landi er líka verið að skera til blóðs á ótal sviðum, meira eða minna til að koma í veg fyrir eða fresta niðurskurði á okkar stríðsvél, það er að segja á ríkisrekstri landbúnaðar. Þar væri hægt að ná öllum sparnaðinum, en því miður er bannhelgi á slíkum sparnaði.

Þótt viðurkenna beri, að ríkisstjórninni sé fjár vant, er rétt að skoða vandann í víðara samhengi, svo að sjá megi, að hann er meira eða minna heimalagaður.

Jónas Kristjánsson

DV

Apabúr í Austurstræti

Greinar

Næturlíf um helgar er ekki mikið í miðbæ Reykjavíkur í samanburði við ýmsa miðbæi í útlöndum. Í miðbænum í Madrid á Spáni er hundrað sinnum stærra flatarmál fullt af mörg hundruð sinnum fleira fólki, sem heldur virka daga uppi dampi til klukkan fimm að morgni.

Aðaltorgið í Madrid, Plaza de Puerta del Sol, er iðandi af fólki allan sólarhringinn nema milli fimm og sjö á morgnana. Þetta er þeirra Lækjartorg, miðstöð strætisvagna og neðanjarðarlesta. En bragurinn á góðviðrisnótt er annar en hann er á Lækjartorgi Íslendinga.

Í Madrid og annars staðar á meginlandi Evrópu er ekki til siðs, að fólk ráfi slyttingslega um götur og torg eins og aumingjar. Þar ekki til siðs, að fólk veifi áfengisflöskum, gargi og þrugli. Þar er ekki til siðs, að fólk slefi af góðsemi í eyrað á náunganum eða berji hann til óbóta.

Á meginlandi Evrópu er til siðs, að fólk, sem er að skemmta sér, ber sig vel. Sumt er undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna, en það hagar sér samt ekki mjög ólíkt öðru fólki. Það lætur að minnsta kosti ekki eins og apar. Það verður sér ekki til stórskammar.

Á Íslandi hefur hins vegar mótazt sú venja, að ungir sem gamlir geta afklæðzt persónuleikanum og hagað sér eins og fávitar. Þetta gera hinir fullorðnu heima hjá sér og unglingarnir úti á götu. Þetta er meinsemd, sem einkennir Íslendinga umfram margar aðrar þjóðir.

Sumir Íslendingar eru svo ruglaðir í ríminu, að ódrukknum finnst það bara fyndið að sjá ölæðishegðun sína á myndbandi, í stað þess að fyrirverða sig og verða að gjalti, svo sem efni standa til. Hér á landi vantar innri staðal fyrir hegðun fólks á almannafæri.

Víðar en á Íslandi er til fólk, sem kann ekki með áfengi að fara eða slettir úr klaufunum af öðrum ástæðum. Munurinn er sá, að þar er þjóðfélagslegt samkomulag um, hvaða hegðun sé innan marka og hver sé utan þeirra. Slangur, slef og garg eru utan þeirra.

Þetta er ekki unglingavandamál, því að hinir fullorðnu eru ekkert skárri. Heima hjá sér gefa þeir fordæmið, sem unglingar apa eftir á Lækjartorgi og í Austurstræti. Til þess að komast fyrir rætur meinsins þarf að koma upp mannasiðum hjá Íslendingum almennt.

Það er dæmigert fyrir óþolandi hugarfar Íslendinga, að lögreglustjóraembættið í Reykjavík skuli láta viðgangast, að miðbærinn sé eins og apabúr á nóttunni. Enn verra er, að það skuli láta viðgangast, að miðbærinn sé vígvöllur ribbalda og ofbeldismanna.

Hinn nýi borgarstjóri Reykjavíkur ætlar að láta verða eitt af sínum fyrstu verkum að semja við löggæzlu ríkisins um að hreinsa miðbæ Reykjavíkur af ófögnuði næturlífsins. Það er mikilvægt skref í rétta átt og felst í, að yfirvöld fari að neita að sætta sig við ástandið.

Hreinsun miðbæjarins leysir ekki þetta séríslenzka vandamál. Hún færir það að einhverju leyti til. Mergur málsins er þó sá, að hún væri angi af tilraun þjóðarinnar til að koma upp siðareglum í hegðun fólks, svo sem tíðkast meðal siðaðara þjóða í útlöndum.

Smám saman þurfum við að koma því inn hjá okkur sjálfum, að hvert okkar hefur persónuleika og virðingu, sem ekki má í ölæði kasta fyrir hunda og manna fætur. Annaðhvort þarf fólk að “halda” drykknum, svo notað sé amerískt orðalag, eða láta drykkinn eiga sig.

Við skulum hreinsa torg og götur, heimili og sálarkima, svo að næturlíf okkar geti færzt í heilbrigðara mynztur, sem við sjáum harvetna utan landsteinanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Dvergarnir sjö

Greinar

Þegar leiðtogar sjö helztu auðríkja heims hittast og fá í heimsókn leiðtoga annars helzta herveldisins, ætti að vera unnt að stíga mikilvæg skref í framfara- og velferðarmálum mannkyns. Það segir sorgarsögu um forustu þeirra, að ekkert slíkt skuli hafa gerzt í London.

Eina markverða niðurstaða forustumannanna var tillaga um, að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna verði komið upp eftirliti með sölu hergagna og skráningu á viðskiptum með þau. Ef staðið verður við hugmyndina, mun hún vafalaust stuðla að öryggi í heiminum.

Hins vegar sker í augu, að leiðtogar sjö helztu auðríkja heims skuli ekki geta komið sér saman um að leysa viðskiptahnútinn, er embættismenn þeirra hafa hnýtt í svonefndum Uruguay-viðræðum á vegum tollfrelsissamtakanna Gatt um samdrátt viðskiptahindrana.

Ástandið er orðið þannig, að þrjár helztu aflstöðvar heimsviðskipta, Bandaríkin, Evrópubandalagið og Japan, standa í harðnandi viðskiptastríði, sem mun leiða til nýrra og hærri hindrana í vegi heimsviðskipta, er munu draga verulega úr hagþróun um allan heim.

Það eru þröngir sérhagsmunir á borð við landbúnað, sem gætt er í ráðuneytum málsaðila þessa viðskiptastríðs. Sérhagsmunirnir halda niðri lífskjörum í auðríkjunum og takmarka möguleika þriðja heimsins og Austur-Evrópu á að hagnast á sölu landbúnaðarafurða.

Ennfremur sker í augu, að leiðtogar sjö helztu auðríkja heims skuli ekki geta komið sér saman um rismiklar aðgerðir til verndunar vistkerfis mannkyns, svo sem gegn eyðingu ózonlags, gegn gróðurhúsaáhrifum og gegn mengun af völdum iðnaðar og orkuvinnslu.

Það er til lítils að bókfæra 2% hagvöxt á hverju ári, ef það er svo hastarlega á kostnað vistkerfis mannkyns, að jörðin verði um síðir næsta óbyggileg. Það er verkefni leiðtoga sjö helztu auðríkja heims að taka öfluga forustu í að tryggja framtíð mannkyns í umhverfi sínu.

Ef leiðtogarnir sjö plús einn væru mikilmenni og starfi sínu vaxnir, mundu þeir hafa höggvið í London á hnúta alþjóðaviðskipta og umhverfisverndar. En því miður eru þetta allt saman andlegir dvergar, hversdagslegir pólitíkusar eins og við þekkjum þá á Íslandi.

Þriðja stóra verkefnið, sem leiðtogar auðríkjanna ættu að taka á sínar herðar, en gera ekki, er skýr og skynsamleg afstaða til óska þjóða um að segja skilið við sitt ríkisvald. Júgóslavía og Sovétríkin eru nýjustu dæmin um fjölþjóðaríki, sem eru orðin óstarfhæf.

Leiðtogum auðríkjanna dugar ekki að hætta að tönnlast á klisjum um friðhelgi fjölþjóðaríkja og fara að muldra í barm sér nýjar klisjur um hlutverk “þjóða” Júgóslavíu. Þeir þurfa að taka markvissari og jákvæðari afstöðu til óska þjóða um frelsi sér til handa.

Hvort sem litið er til Spánar eða Indlands, Tékkóslóvakíu eða Korsíku, Eþíópíu eða Súdan, Burundi eða Írak, eru þjóðir að rísa gegn því að vera kúgaðar til þátttöku í ríki, sem þær óska að segja skilið við. Þetta skapar gífurlega hættu á staðbundnu blóðbaði.

Að baki leiðtoga sjö helztu auðríkja heims er afl þeirra hluta, sem gera skal. Frá þeim ætti að koma jákvæð forusta, sem hinn vestræni heimur getur fylgt inn í 21. öldina; forusta í auknu viðskiptafrelsi, í hertri umhverfisverndun og í uppstokkun úreltra landamæra.

Fundurinn í London er merkastur fyrir, að meðal sjö eða átta útvalinna er ekki lengur neinn, sem reynir að takast á við raunveruleg verkefni heimsleiðtoga.

Jónas Kristjánsson

DV

Gjöld á skatta ofan

Greinar

Ríkisstjórnin gerir skarpan greinarmun á gjöldum og sköttum. Loforð sitt um að hækka ekki skatta ætlar hún að efna með því að hækka gjöld. Hún segir þetta ólíkt, af því að gjöldin borgi menn fyrir þjónustu, sem þeir fá, en skattarnir fari í þjónustu fyrir aðra.

Af hyggjuviti sínu sér hún, að sumir eiga erfitt með að borga gjöld, alveg eins og þeir hafa hingað til átt erfitt með að borga skatta. Í þeim hópi eru til dæmis ráðherrar, sem setja almennar reglur um skatta af hlunnindum og undanskilja sjálfa sig slíkum reglum.

Ein leiðin til að leysa þennan vanda er að koma á fót skömmtunarstofum, svo sem nú er verið að gera í Tryggingastofnun. Þar getur fólk fengið skírteini, sem veitir undanþágu frá greiðslu fyrir lyf í apótekum. Sælar minningar eru um þessa aðferð frá tímum kreppunnar.

Fólk á nú að útvega sér vottorð frá lækni um, að það þurfi mikið á lyfjum að halda. Gegn slíku vottorði getur það fengið lyfjaskírteini í Tryggingastofnuninni, alveg eins og fólk gat í gamla daga keypt sér mjólk og skó út á skírteini. Þá var það Eysteinn, en nú er það Davíð.

Önnur aðferð, sem hentar ráðherrum, er borga lægri skatta en aðrir af sömu tekjum, er að koma upp útgáfu skírteina í skattakerfinu. Fólk getur þá gengið með skattaskírteini upp á, að það borgi vinnukonuútsvör og hafi því ekki efni á skólagjöldum og sjúkrahúsvist.

Svona kerfi þjónustugjalda með undanþágum samkvæmt skírteinum er að ýmsu leyti svipað stighækkandi tekjusköttum, einkum ef það byggist á skattskýrslum. Munurinn er, að skattar eru greiddir til almannaþarfa, en gjöld eru greidd fyrir þjónustu, sem fólk fær.

Kenningakerfið að baki tilfærslunnar úr sköttum yfir í gjöld byggist á þeirri skoðun, að nauðsynlegt sé, að fólk geri sér grein fyrir verðgildi þjónustunnar, sem það fær úr almannasjóðum. Þetta er stundum kallað Thatcherismi og vekur jafnan hatrammar stjórnmáladeilur.

Hinn hversdagspólitíski kjarni þessa máls er þó sá, að yfirfærsla er ágæt sjónhverfing til að ná meiri peningum af fólki, þegar ráðamenn hafa lofað að hækka ekki skatta. Þeir framleiða þá bara ný gjöld, sem koma í stað nýju skattanna, er annars hefðu verið lagðir á fólk.

Af því að stjórnmálamenn okkar eru svo hjartahlýir, að þeir vilja ekki, að fólk neiti sér vegna fátæktar um lyf eða sjúkrahúsvist eða börnum sínum um skólavist, koma þeir samhliða upp skömmtunar- og skírteinastofum. Gjaldakerfið verður því flóknara en skattakerfið.

Stjórnmálamenn hafa reynslu af opinberu skömmtunarkerfi í öðrum geira félagsmálakerfisins. Það er velferðarríki atvinnulífsins, sem haldið hefur verið uppi með opinberum sjóðum og bönkum, er hafa brennt tugum milljarða og ýtt þjóðinni út á barm gjaldþrots.

Í síðustu viku var ein skömmtunarnefnd hins opinbera að úrskurða, að hin fræga Silfurstjarna og nokkur önnur fiskeldisfyrirtæki yrðu að sinni undanþegin heildargjaldþroti greinarinnar. Þau fá úr sjóðakerfinu sérstaka fyrirgreiðslu, sem önnur fyrirtæki fá ekki.

Óþarfi er að spyrja, hvort peningavanda ríkisins verður að einhverju leyti mætt með því að hætta að fórna 15-20 milljörðum af árlegu ráðstöfunarfé þjóðarinnar til að halda úti uppblæstri og niðurgreiðslum, uppbótum, styrkjum og innflutningsbanni á hefðbundinni búvöru.

Ný gjaldheimta ofan á fyrri skattheimtu er óbrigðult merki um, að ný ríkisstjórn treystir sér ekki til að skera niður fituna á félagsmálastofnun landbúnaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV

Dularfullur bíladraumur

Greinar

Baráttan fyrir aukinni bílaumferð í kvosinni hefur koðnað niður í sólskininu. Reykvíkingar og aðkomumenn spóka sig sumir hverjir í Austurstræti og á Laugavegi í stað þess að fara í Kringluna. Þetta hefur um stundarsakir eflt viðskipti í gamla miðbænum.

Ágreiningur varð í borgarstjórn um opnun Austurstrætis fyrir bílaumferð, því að ýmsir, sem vildu styðja kaupmenn, skildu ekki áhuga þeirra á að fá bíla í stað fólks í þessa götu. Góða veðrið gerði borgarfulltrúum kleift að beita hinni vinsælu aðferð að fresta málinu.

Þegar byrjar að rigna og blása í haust, færist verzlunin aftur inn í Kringlu og kaupmenn í gamla miðbænum byrja að heimta bíla á nýjan leik. Þá verður enn að taka málið upp á pólitískum vettvangi og þá rætist sennilega hinn sérkennilegi draumur um bíla í Austurstræti.

Æskilegt er að hleypa bílunum í þessa götu, ekki af því að það sé skynsamlegt, heldur af því að stundum er ekki hægt að hafa vit fyrir mönnum án þess að láta þá hafa sitt fram. Þá geta þeir af eigin reynslu áttað sig á, að bílar í Austurstræti efla ekki viðskipti.

Kaupmenn í gamla miðbænum minn á mann, sem raknar úr roti og heldur, að þeir, sem standa yfir honum, hafi rotað hann. Kaupmenn hafa jafnvel haldið fram, að fjölgun kaffistofa og veitingahúsa, svo og stefnulítið rölt ungmenna hafi fælt veltuna á brott.

Þetta er órökrétt skoðun. Hin raunverulega ástæða fyrir hnignun verzlunar í gamla miðbænum er Kringlan, þar sem fólk getur ekið inn undir þak og verzlað í logni og þurru verði, í stað þess að hætta sér út í stormgjár hins hefðbundna verzlunarhverfis miðbæjarins.

Velgengni Kringlunnar sýnir, hvað fólk vill ekki. Það vill ekki rok og rigningu, svell og snjóalög. Í meira en áratug hefur hér í blaðinu verið hvatt til, að gamli miðbærinn yrði lífgaður að hætti Kringlunnar, með því að byggja gegnsætt þak yfir Austurstræti og Laugaveg.

Fólk vill geta komizt í eigin bílum eða strætisvögnum í bílageymslur, sem liggja að Austurstræti og Laugavegi. Það vill geta farið undir þaki úr bílageymslunum inn á þessar götur og gengið um þær í eilífu, þurru sumri, eins og hefur ríkt þessa dagana í borginni.

Í stað þess að taka undir sjónarmið af þessu tagi, láta kaupmenn eins og þeir séu að rakna úr roti. Þeir ímynda sér, að lausn vandræða sinna felist í að opna Austurstræti fyrir bílum. Þvert á móti felst lausnin í að loka fleiri götum og byggja yfir þær gegnsætt þak.

Þar sem þeir eru rökheldir, er rétt, að þeir fái að hafa sitt fram. Í vetur mun strax koma í ljós, að opnun Austurstrætis eykur ekki verzlun. Þá munu þeir líklega átta sig á stöðunni og heimta lokun þess á nýjan leik. Að öðrum kosti munu þeir ekki koma meira við sögu.

Í máli þessu er þáttur borgaryfirvalda daprastur. Hinir kjörnu fulltrúar hafa horft á gamla miðbæinn fjara út innan um dauðar langhliðar banka og opinberra stofnana og ekki getað mannað sig upp í róttækar aðgerðir til að sprauta lífi í hverfið á nýjan leik.

Enn er ekki of seint að grípa í taumana, því að gamli miðbærinn er í eðli sínu skemmtilegri dvalarstaður en Kringlan, af því að hann er tilviljanakenndur og óskipulagður. Það, sem vantar, er að hlífa viðskiptavinum við íslenzri veðráttu, roki og rigningu, svelli og snjókomu.

Það eru ekki göngugötur, heldur ranghugmyndir kaupmanna og borgaryfirvalda, sem flýta fyrir hægu andláti gamla miðbæjarins sem verzlunarmiðstöðvar.

Jónas Kristjánsson

DV

Árbær í Atlantshafi

Greinar

Við höfum svigrúm til að mæta aflarýrnun í sjávarútvegi og öðrum erfiðleikum, sem steðja að efnahag og fjárhag þjóðarinnar um þessar mundir. Við þurfum bara að sætta okkur við tilhugsunina um, að sviptingar af slíku tagi kosta töluverða röskun á búsetu og atvinnu.

Þar sem fiskveiðar eru í eldlínu þessara vandræða, er ljóst, að ekki verður unnt að leggja á þær meiri byrðar næstu árin. Þvert á móti verður að gera þeim kleift að laga sig að þrengri aðstæðum. Til dæmis geta þær ekki lengur staðið undir núverandi smábyggðastefnu.

Treysta má stöðu fiskveiða með því að lina hömlur á útflutningi á ferskfiski. Nú er reynt að halda slíkum útflutningi í skefjum með skömmtun leyfa og með refsifrádrætti á veiðikvóta. Þetta stríðir gegn efnahagslögmálinu um mestan afrakstur af minnstri fyrirhöfn.

Ennfremur má auka framleiðni í fiskveiðum með því að fækka skipum. Það gerist á sjálfvirkan hátt með því að draga úr hömlum á sölu aflakvóta, svo að útgerðir, skipstjórnarmenn og sjómenn geti keypt nægan kvóta til að gera út beztu skipin, en öðrum sé lagt.

Með útflutningsfrelsi og kvótasölufrelsi er tiltölulega auðvelt að búa til heilbrigðan ramma utan um fiskveiðar. Ekki þarf peninga úr vösum skattgreiðenda, heldur bara afnema nokkrar reglur, sem hamla gegn, að við getum notað okkur breytta tækni og viðskiptahætti.

Erfiðara verður að eiga við fiskvinnsluna, því að umtalsverður hluti hennar er orðinn óþarfur. Sumpart er frystingin að flytjast út á sjó, sumpart að leggjast niður og sumpart að færast yfir í neytendaumbúðir. Óhjákvæmilegt er, að þessu fylgi mikil röskun.

Hingað til hefur það verið opinber ríkistrú og þjóðartrú, að búseta og atvinnuhættir skyldu vera í einhverju fyrra ástandi, eins konar Árbæjarsafn í Atlantshafi. Efnahagsvandræði þjóðarinnar stafa miklu meira af þessum trúarbrögðum en af samdrætti í þorskafla.

Í niðurgreiðslum, uppbótum, styrkjum og innflutningsbanni eru brenndir 15-20 milljarðar króna á ári í landbúnaði. Á síðustu árum hafa slíkar aðgerðir skotið rótum í sjávarútvegi og munu hafa hliðstæða bölvun í för með sér, ef ekki verður gripið strax í taumana.

Smábyggðastefna er hornsteinn trúarbragðanna. Í krafti hennar hefur verið raðað á ströndina hafnarmannvirkjum og vinnslustöðvum, sem nýtast ekki nema að litlum hluta. Þessi sjávarpláss, vinnslustöðvar þeirra og þjónustufyrirtæki ramba nú á barmi gjaldþrots.

Engir peningar eru til að leysa þennan vanda. Tímabili stjórnlausrar skuldasöfnunar er lokið. Til málamynda verður slett nokkrum hundruðum milljóna hér og þar, svo sem í fiskeldi og loðnubræðslur, en vandræðin munu samt aukast. Aðstoðin verður til einskis.

Þjóðin verður að horfast í augu við, að Ísland er ekkert Árbæjarsafn, sem hægt er að frysta í einhverju fyrra ástandi. Búseta og atvinnuhættir verða að fá að raskast með eðlilegum hætti, svo að við getum fylgt öðrum þjóðum eftir á vegi þeirra til velmegunar og farsældar.

Svo vel vill til, að hugljómun á þessu sviði býr yfir tvöföldum ávinningi. Annars vegar sparar hún stórfé og hindrar skuldasöfnun og skattahækkun. Hins vegar gerir hún sjávarútveginn í heild og aðra mikilvæga atvinnuvegi færa um að lifa góðu lífi í nýju umhverfi.

Öll efnahagsvandræði líðandi stundar munu hverfa eins og dögg fyrir sólu, ef þjóðin og valdið sætta sig við, að röskun sé ekki bara nauðsynleg, heldur líka æskileg.

Jónas Kristjánsson

DV

Missti andlit og kjark

Greinar

Herinn í Júgóslavíu hefur orðið fyrir áfalli; og ráðamenn Vesturlanda átta sig betur en áður á, að sundrung Júgóslavíu verður ekki hindruð. Þróun tveggja síðustu vikna hefur að þessu leyti verið hagstæð íbúum Júgóslavíu, þrátt fyrir átök og mannfórnir í ríkinu.

Fyrir tveimur vikum var útlitið mun dapurlegra. Þá voru ráðamenn Vesturlanda yfirleitt eindregið andvígir sjálfstæðishreyfingu Slóvena og Króata. Bandaríkin höfðu forustu í því viðhorfi. Þetta endurspeglaðist rækilega í vestrænum fjölmiðlum, flestum öðrum en DV.

Fyrir tveimur vikum birtust hér í blaðinu leiðarar, þar sem því var haldið fram, að stuðningur Vesturlanda við stjórn Júgóslavíu væri byggður á röngum forsendum og mundi ekki ná árangri. Júglóslavía mundi klofna í þjóðríki, og það væri í rauninni hið bezta mál.

Andstaða Bandaríkjanna við sundrungu Júgóslavíu byggðist á þeirri trúarkreddu úr bandarískum reynsluheimi, að sambandsríki séu í eðli sínu góð, en þjóðríki Evrópu séu frumstæðari útgáfa af lýðræðisríkjum. Því hafa bandarísk stjórnvöld dálæti á fjölþjóðaríkjum.

James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gerði hlé á ráfi sínu um Miðausturlönd, þar sem Ísraelsmenn hafa haft hann að fífli, og fór til Belgrad að stappa stálinu í sambandsmenn. Þessi illræmda ferð bar eins lítinn árangur og ferðir hans um Miðausturlönd.

Hér í blaðinu var hins vegar ekki bent nógu skýrt á, að stjórnvöld sumra Evrópuríkja mundu leggjast gegn sjálfstæðishreyfingum Slóvena og Króata, svo að eigin þjóðarbrot færu ekki að dæmi þessara þjóða. Þessi stjórnvöld vildu ekki flytja inn vandræði frá Júgóslavíu.

Spánverjar óttuðust áhrifin á Katalóna, Valensa, Galísa og Baska. Frakkar óttuðust áhrifin á Korsíka. Tékkar óttuðust áhrifin á Slóvaka og Sovétar óttuðust áhrifin á langa röð þjóða og þjóðarbrota innan landamæranna. Þarna voru hreinir eiginhagsmunir í húfi.

Það hefur líka komið í ljós á tveimur vikum, að stjórnvöld Spánar, Frakklands, Tékkóslóvakíu og Sovétríkjanna hafa lagt sig fram um að varðveita upphaflega andstöðu Vestur- og Austur-Evrópu við sjálfstæði Slóvena og Króata, en hafa orðið að láta í minni pokann.

Fyrir tveim vikum var hlegið, ef því var haldið fram, að viðurkenna bæri sjálfstæði Slóveníu og Króatíu, enda var slíku ekki haldið fram, nema af sérvitringum eins og á DV. Tveim vikum síðar eru vestræn stjórnvöld farin að ræða í alvöru um slíka viðurkenningu.

Hér í leiðurum DV var fyrir tveim vikum haldið fram, að það yrði Íslendingum bæði til sóma og gæfu að viðurkenna sjálfstæði Slóveníu og Króatíu, ef um það yrði beðið. Þá var slíkt talið vera fífldirfska, en núna þætti það ekki vera nema eðlilegt og sjálfsagt.

Það var sambandsherinn í Júgóslavíu, sem kom til hjálpar með því að beita ofbeldi. Frumhlaup hans sýndi fram á tvennt. Í fyrsta lagi ættu Vesturlönd ekki að styðja gamla harðlínukomma í Júgóslavíu. Í öðru lagi mundi hernum ekki takast að vinna borgarastríð.

Í fyrstu átökunum reyndust Slóvenar hafa undirtökin, enda gerðust menn unnvörpum liðhlaupar í hernum. Mæður hermanna gerðu hróp að harðlínukommum. Ráðamenn Vesturlanda vöknuðu upp af fyrra siðleysi, er fjölmiðlar fóru að flykkjast inn á sömu línu og DV.

Vestrænir ráðamenn hafa færzt nær almenningsálitinu. Og sambandsherinn, sem missti andlitið í Slóveníu í síðustu viku, er nú líka búinn að missa kjarkinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórnlítil hlutafélög

Greinar

Tillögur brezks verðbréfafyrirtækis um bættan hlutafjármarkað á Íslandi eru góðra gjalda verðar. Þær ná þó einungis yfir hluta vandamálsins, það er að segja opin fyrirtæki, sem eru nálægt því að vera skráð á hlutafjármarkaði. Slík fyrirtæki eru fá hér á landi.

Auðvitað er brýnt, að kaup og sala hlutafjár fari hér á landi fram með svipuðum hætti og tíðkazt hefur í löndum með þróaðan hlutabréfamarkað. Um leið megum við ekki gleyma, að mestur hluti íslenzkrar atvinnustarfsemi fer fram í meira eða minna lokuðum félögum.

Starfshættir slíkra félaga eru alvarlegra vandamál heldur en starfshættir opnu félaganna. Við verðum nærri daglega vör við afleiðingar þess í stjarnfræðilegum gjaldþrotum, sem sagt er frá í fréttum. Umfang gjaldþrotanna er ótrúlega mikið í samanburði við veltuna.

Svo virðist sem bókhald íslenzkra fyrirtækja sé ekki í þeim skorðum, að stjórnendur þeirra og lánardrottnar geti gert sér grein fyrir stöðunni. Ennfremur virðast endurskoðendur fyrirtækjanna ekki hafa neina umtalsverða sýn yfir þessa stöðu eða þróun hennar.

Sumir endurskoðendur haga sér sem þjónar framkvæmdastjóra eða stjórnarformanna fyrirtækjanna, er þeir vinna fyrir. Dæmi eru um, að þeir neiti stjórnarmönnum um aðgang að upplýsingum úr bókhaldi, svo að ekki sé minnst á réttleysi almennra hluthafa.

Ein afleiðing þessa er, að bankar og sjóðir geta ekki treyst upplýsingum endurskoðenda og verða að leggja út í dýrar athuganir á stöðunni. Þá tekur við næsta vandamál, sem felst í afskiptum stjórnmálamanna af bönkum og sjóðum, sem yfirleitt eru ríkisstofnanir.

Þegar fagmenn lögðu árið 1988 fram skýrslu um, að enginn grundvöllur væri fyrir öllu því fiskeldi, sem var í undirbúningi, og að sumar greinar hennar væru algerlega vonlausar, ákváðu stjórnarmenn og forstjórar Framkvæmdasjóðs að stinga skýrslunni undir stól.

Þannig var framleitt sjö eða átta milljarða fjárhagstjón í fiskeldi án þess að montkarlar í stjórn og framkvæmdastjórn Framkvæmdasjóðs hafi verið látnir sæta nokkurri ábyrgð fyrir að halda áfram að lána og fyrir að halda um leið leyndri skýrslu um stöðu mála.

Í alvöruþjóðfélagi alvörufyrirtækja eiga aðvörunarbjöllur að hringja fyrr og hærra en nú tíðkast. Skarpari venjur þurfa að vera um bókhald. Og endurskoðendur þurfa að setja sér strangar siðareglur, því að öðrum kosti má alveg eins sleppa þeim úr eftirlitskeðjunni.

Ekki er hægt að hindra, að fyrirtæki verði gjaldþrota. Hins vegar er unnt að koma í veg fyrir, að gjaldþrot verði eins stjarnfræðileg og þau hafa orðið að undanförnu. Til þess þarf að kanna ferlið, sem leiðir til slíkra gjaldþrota, svo sem hjá Álafossi og í fiskirækt.

Slík athugun mun vafalítið leiða í ljós, að gera þurfi endurskoðendur sjálfstæðari og ábyrgari; að gera þurfi stjórnarmenn og framkvæmdastjórnarmenn lánastofnana sjálfstæðari og ábyrgari, og að leggja beri niður ríkisábyrgðir og önnur pólitísk afskipti af atvinnurekstri.

Bókhaldarar og endurskoðendur eru nú í vasa forstjóra og lánastofnanir eru í vasa stjórnmálamanna. Í öllum þessum vítahring virðist helzt hald í fagmönnum lánastofnana, ef skýrslum þeirra er þá ekki stungið undir stól, svo sem sýnir dæmi Framkvæmdasjóðs.

Gaman væri að hafa hér fínan hlutabréfamarkað. En vandamál íslenzkra hlutafélaga eru mun stórkarlalegri og frumstæðari en fram kemur í ensku tillögunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Stóri bróðir í Tölvunefnd

Greinar

Tölvunefnd telur sig vera að varðveita friðhelgi einkalífs manna með því að standa í vegi fyrir, að símnotendur geti fengið fullnægjandi upplýsingar á símreikningum. Það er einmitt í verkahring nefndarinnar að gæta þess, að tölvur séu ekki gerðar að Stóra bróður.

Svo virðist sem Tölvunefnd hafi áhyggjur af uppljóstrunum um framhjáhald í síma eða af einhverjum öðrum erfiðleikum innan fjölskyldna. Ekki getur hún verið að vernda venjulegt fólk, sem hringir í annað fólk af eðlilegum ástæðum, misjafnlega markvisst og dýrt.

Sá, sem hringir eða hringir ekki í annað fólk, þarf ekki á hugleiðingum Tölvunefndar að halda, heldur vill hann vita, hvernig símreikningur hans verður til, svo sem í hvaða númer hann hefur hringt, svo að hann viti, hvort reikningurinn sé réttur. Svona einfalt er það.

Ef símreikningar framtíðarinnar skýra aðeins, hvenær hringt var og hve lengi, verður takmarkað gagn að sundurliðun símreikninga. Á bandarískum símreikningum eru skráð símanúmerin, sem hringt er, svo og í Bretlandi og víðar í Evrópu, hvað sem Tölvunefnd segir.

Ef Evrópubandalagið er með þessi mál til umfjöllunar á sömu nótum og Tölvunefnd hér á landi og á svo mikilvægan hátt, að Tölvunefnd telur sig þurfa að feta í fótspor bandalagsins, er Stóri bróðir örugglega farinn að banka óþægilega á dyr okkar, með aðstoð Tölvunefndar.

Afskiptasemi Tölvunefndar af sundurliðun símreikninga er gott dæmi um, hvernig varðveizla lítilmagnans gegn Stóra bróður breytist í andhverfu sína, þegar góðviljaðir embættismenn eru að reyna að ákveða, hvað sé símnotendum og einkalífi þeirra fyrir beztu.

Að þessu leyti minnir Tölvunefnd mjög á Stóra bróður sameykið Verðlagsstofnun-Neytendasamtök, er hefur reynt að hamla gegn tæknilegri þróun, sem er neytendum til hagsbóta. Minnisstæð er annars vegar strikamerkingin og hins vegar krítarkortin.

Nokkrar matvörubúðir hafa tekið upp á að merkja vöruverð skýrum stöfum á hillur í stað smárra stafa á límdum verðmiðum. Þær nota strikamerkingar til að láta viðskiptavininn hafa sundurliðaða renninga við kassann. Þeir vita nú loks, hvað þeir hafa keypt.

Tvíeykið heimtaði, að haldið yrði áfram verðmerkingu vörunnar, sem hefði eytt sparnaðinum af hinni nýju tækni. Reynslan sýnir, að viðskiptavinir telja sig ekki þurfa á slíku að halda, heldur eru ánægðir með hinar auknu upplýsingar, sem nýja tæknin veitir.

Tvíeykið hefur líka verið að juða í að koma á tvenns konar verði í verzlunum eftir því, hvort greitt sé með peningum eða ávísun annars vegar og krítarkorti hins vegar. Markmið Stóra bróður er, að hinir fyrri greiði ekki óbeina vexti af viðskiptum hinna síðari.

Á sama tíma hefur komið í ljós, að sum fyrirtæki telja sér beinlínis hag af hinum einföldu og traustu kortaviðskiptum og veita jafnvel afslátt í hina áttina, það er að segja ef menn borga með korti. Því er farsælast, að markaðurinn fái að ráða þessari ferð.

Tvíeykið Verðlagsstofnun-Neytendasamtök vitnar til Svíþjóðar alveg eins og Tölvunefnd vísar til Evrópubandalagsins. Hvort tveggja eru þetta öflug vígi Stóra bróður, sem reynir að hafa vit fyrir fólki á sem flestum sviðum. Hagsmunir fóks eru hins vegar allt aðrir.

Með afskiptum af símreikningum er Tölvunefnd að skaða símnotendur eins og tvíeykið skaðar neytendur með afskiptum af strikamerkjum og krítarkortum.

Jónas Kristjánsson

DV