Greinar

Blaðurfulltrúar

Greinar

Lengi hefur hugtakið og orðaleikurinn “blaðurfulltrúi” verið notað í gamni yfir þá, sem beinlínis eru ráðnir af stórum stofnunum og fyrirtækjum til að reka úr túninu, ef óviðkomandi aðilar eru að ráfa inn á yfirráðasvæði þess, sem greiðir blaðurfulltrúanum laun.

Þekkt dæmi af þessum toga var lengi vel Póstur og sími. Þar var árum saman blaðurfulltrúi, sem tók til penna, í hvert sinn sem lesendabréf eða önnur athugasemd birtist um stofnunina í fjölmiðli. Þema svaranna var, að engin gagnrýni ætti nokkurn rétt á sér.

Í nokkur ár hafa nýir menn stjórnað Pósti og síma og viljað breyta ímynd einokunarfyrirtækisins. Nú er ekki lengur hafður þar hefðbundinn blaðurfulltrúi til að útskýra, að þjóðinni sé fyrir beztu, að henni sé nauðgað, heldur fremur lögð áherzla á að lofa bót og betrun.

Áður var því til dæmis haldið fram af Pósti og síma, að þjóðin hefði bara ama og óþægindi af sundurliðun símreikninga. Nú segist stofnunin hins vegar vera að undirbúa slíka reikninga, en hinn góði vilji hennar sé heftur af þriðja aðila, sem sé óviðkomandi stofnuninni.

Flugleiðir eru um þessar mundir sú einokunarstofnun, sem helzt telur sig þurfa á því að halda, að rekið sé úr túninu. Þar er ráðinn sérstakur fulltrúi til að lofa ekki bót og betrun, heldur útskýra öll vandamál í burtu, þannig að þau eigi í raun að teljast öllum fyrir beztu.

Á sama tíma og Póstur og sími er að reyna að losa sig frá einokunarímyndinni, eru Flugleiðir orðnar svo samgrónar sinni einokun, að hvorki gerist þar seinkun né vélarbilun, að ekki sé unnt að útskýra, að það sé óbeint og stundum jafnvel beinlínis í þágu farþega.

Flugleiðir eru einokunarfyrirtæki í hlutafélagsformi. Ríkið var lengi eignaraðili og heldur með ýmsum hætti verndarhendi yfir stofnuninni. Það hefur veitt henni undanþágur frá ýmsum gjöldum og leyfir starfsmönnum hennar að hafa áhrif á gang mála í Flugráði.

Mikilvægast í ástarsambandi ríkis og Flugleiða er einokunin, sem stofnuninni er veitt á ýmsum sviðum, svo sem í áætlunarflugi innan lands og utan, svo og í afgreiðslu flugvéla frá öðrum aðilum. Þessa einokun ver stofnunin og blaðurfulltrúi hennar með klóm og kjafti.

Þessa dagana er einokunarstofnunin að amast við, að fólk hafi aðgang að miklu ódýrara millilandaflugi en hægt er að fá hjá henni sjálfri. Hún klagar út og suður, að fólk skuli aftur geta komizt til útlanda fyrir kristilegar fjárhæðir eftir nokkurt hlé á því sviði.

Á sama tíma er blaðurfulltrúi Flugleiða að útskýra, að þjóðinni sé fyrir beztu, að einokunarstofnunin fórni sér í að halda uppi einokun á vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli, svo að ríkið þurfi ekki að vasast í að finna nýja lausn á því máli. Og svo hækka gjöldin jafnt og þétt.

Einokun Flugleiða á vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli hamlar gegn, að Íslendingar geti beitt vöruflugi til að nýta markaðstækifæri fyrir ýmsar sjávarafurðir í Bandaríkjunum og Japan. Ráðamenn Flugleiða láta jafnan reka úr túninu, þegar þetta er nefnt.

Þar sem menn vita, að meira mark er takandi á rökum þriðju aðila, sem ekki hafa hagsmuna að gæta, heldur en launaðra fulltrúa einokunarstofnana, hefur blaðurfulltrúi Flugleiða nú flúið inn í síðasta vígið og segir gagnrýnendur vera að þjóna sínum illu hvötum.

Framganga Flugleiða í heild sýnir, að fyrirtækið hyggst ekki bæta ráð sitt eins og Póstur og sími, heldur halda dauðahaldi í forréttindi sín í ríkisnáðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Varðveizla ímyndar

Greinar

Ráðamenn Vesturlanda hafa tekið fálega sjálfstæðisyfirlýsingum þjóðþinganna í Slóveníu og Króatíu og sumir hverjir hafa hreinlega harmað þær. Bandaríkjastjórn segist ekki muni viðurkenna þessi ríki, og ríki Evrópubandalagsins hafa siglt í kjölfar stóra bróður.

Við slíkum viðtökum mátti búast. Ráðamenn Vesturlanda hafa einnig neitað að styðja við bakið á þjóðum Eistlands, Lettlands og Litháens, þótt þeir hafi verið varfærnari í orðavali í málum Eystrasaltsríkjanna en ríkja Júgóslavíu. Menn vilja ekki fleiri landamæri.

Ekki er langt síðan formaður þingflokks framsóknarmanna kallaði sjálfstæðishreyfingar Eystrasaltsríkjanna “mótþróalið” og utanríkisráðherra Svía hrósaði Sovétstjórninni fyrir umburðarlyndi og varkárni gagnvart þessum “minnihlutahópi öfgamanna”.

Þegar vestræn sjónarmið gagnvart þjóðum Eystrasalts eru svona krumpuð, er ekki von á góðu gagnvart þjóðum Júgóslavíu, sem virðast okkur fjarlægari. Samt er ekki umtalsverður munur á rétti Slóvena og Króata til sjálfstæðis og rétti Eista, Letta og Litháa.

Eystrasaltsríkin voru að vísu lögð undir Sovétríkin með einhliða ofbeldi Rauða hersins og sæta núna einhliða ögrunum vopnaðra sveita frá Sovétríkjunum. Júgóslavía var mynduð á flóknari hátt úr rústum austurrísk-ungversku og tyrknesku fjölþjóðaríkjanna.

Íbúarnir voru ekki spurðir álits, þegar sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar ákváðu að telja sér trú um, að ein Júgóslavía yrði friðsælli nágranni en sérstök ríki einstakra þjóða. Þeir hafa raunar fyrst fengið tækifæri til þess núna og ekki villt á sér heimildir.

Vestrænir stjórnmálamenn hafa enga sagnfræðilega heimild til að ímynda sér, að unnt sé að halda Júgóslavíu saman. Mjög sérstök skilyrði þurfa að vera fyrir því, að fjölþjóðaríki hangi saman. Þau eru gerviríki, sem eru siðferðilega og andlega háð samþykki íbúanna.

Júgóslavía er pólitískur tilbúningur, ímyndun af samningaborði stjórnmálamanna. Ríkið spannar mörg tungumál og nokkur trúarbrögð. Slík fjölbreytni rúmast ekki í einu ríki og hrópar á skiptingu landsins eftir tungumálum og trúarbrögðum, svo sem nú er að gerast.

Sagnfræðin kennir okkur, að tunga og trú eru öflugustu sameiningar- og sundrungaröfl nútímans. Fjölþjóðaríki liðast sundur í einingar sínar, þegar lýðræði kemst á það stig, að fólkið getur sjálft ákveðið að verða eigin gæfu smiðir. Það er nú að gerast í Júgóslavíu.

Á sama tíma og slík hreinsun á sér stað, sameinast ríki svo í fríverzlunar- og efnahagsbandalögum til verkefna, sem eru þjóðríkjum ofviða. Ekki er lengur rúm fyrir fjölþjóðaríki í þessu mynztri þjóðríkja annars vegar og fríverzlunar- og efnahagsbandalaga hins vegar.

Það er kannski ekki von, að evrópskir stjórnmálamenn skilji þetta, úr því að þeir muna ekki einu sinni í Salzburg, hvað þeir sögðu vikunni fyrr í Lúxemborg, svo sem Íslendingar hafa orðið áþreifanlega varir við. Gæðastaðall fjölþjóðastjórnmála er tilfinnanlega lágur.

Tilraunir vestrænna leiðtoga til að halda ímyndinni um Júgóslavíu munu í bezta falli verða árangurslausar og í versta falli hvetja hinn serbneska Júgóslavíuher til að reyna að beita Króata og Slóvena meira ofbeldi en Rauði herinn hefur beitt í Eystrasaltsríkjunum.

Ef Ísland verður beðið um að viðurkenna sjálfstæði Slóveníu og Króatíu, er rétt að játa því á sama hátt og gagnvart Litháen. Það verður okkur til sóma og gæfu.

Jónas Kristjánsson

DV

Skaðleg afskiptasemi

Greinar

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur verið á ferðinni í Júgóslavíu til að veita sambandsstjórninni í Belgrað siðferðilegan stuðning og til að vara stjórnendur Króatíu og Slóveníu við að lýsa einhliða yfir sjálfstæði þessara ríkja, svo sem þær hafa verið að undirbúa.

Stuðningur Bandaríkjanna við sambandsstjórnina í Belgrað er hluti af mynztri, sem er öflugt í utanríkisstefnu Bandaríkjanna um þessar mundir. Hann minnir á stuðninginn við sambandstjórn Gorbatsjovs í Kreml gegn stjórnum einstakra ríkja í Sovétríkjunum.

Þetta lýsir sér einnig í, að forseti Bandaríkjanna lét í stríðslok við Persaflóa í vetur búa svo um hnútana, að Ba’ath flokkur Saddams Hussein Íraksforseta héldi áfram völdum í Írak til að hamla gegn því, að landið leystist upp í aðgreind ríki Kúrda, Sjíta og Súnníta.

Meginþráðurinn í þessari viðleitni Bandaríkjamanna er sannfæringin um, að sambandsríki séu af hinu góða, og sannfæringin um, að rof á sambandi muni leiða til staðbundins ófriðar, sem skaði hinn bandaríska frið, Pax Americana, sem ríkir í heiminum þessa dagana.

Hvort tveggja á sér rætur í sögu Bandaríkjanna. Þar sleit hluti ríkjanna sig úr lögum við sambandið og stofnaði nýtt. Það gátu hin ríkin ekki sætt sig við og efndu til blóðugrar borgarastyrjaldar, sem leiddi til þess, að brotthlaupsríkin voru innlimuð á nýjan leik.

Hinir sigruðu sættu sig að lokum við þessa niðurstöðu, svo að Bandaríkin eru núna ein og órjúfanleg heild. Í bandarískri skólasagnfræði, sem minnir á sagnfræði Jónasar frá Hriflu í skólum hér á landi, hefur alríkisstefnan orðið að meira en klisju, að trúaratriði.

Bandaríska reynslan er sér á parti. Annars staðar hafa slík mál farið á annan veg. Undirþjóðir og landfræðilegir minnihlutahópar, sem tala önnur tungumál og hafa önnur trúarbrögð en meginþjóðin, hafa yfirleitt ekki sætt sig við þvingaða aðild að sambandsríkjum.

Lykillinn er fólginn í, að Suðurríkjamenn tala í stórum dráttum sömu tungu og hafa í stórum svipuð trúarbrögð og Norðurríkjamenn. Þessari sérstöðu er ekki til að dreifa á þeim stöðum í heiminum, þar sem Bandaríkjastjórn óttast sundrungu af völdum undirþjóða.

Katalúnar, Valensar, Galísar og Baskar eru allir að varpa af sér spánska ríkismálinu og heimta meiri sjálfstjórn innan Spánar. Ríkisstjórn Spánar hefur áttað sig á kraftinum í þjóðrækni tungunnar og hefur gefið eftir í veigamiklum þáttum til að halda sameiginlegan frið.

Svo vel hefur ekki gengið annars staðar. Vallónum og Flæmingjum hefur ekki tekizt að sameinast í Belgíu. Norður-Írland er enn í hers höndum. Indland lafir saman naumlega. Kákasusfjöll eru orðin að vígvelli margvíslegra sérþjóða. Eþiópía liggur í rústum.

Meginreglan er, að hver þjóð vill vera út af fyrir sig í ríki með sitt tungumál, sína trú og siði. Ef takast á að hemja slíkar þjóðir í sambandsríki, þarf sambandsríkisstjórnin að skipta völdum með stjórnum þjóðríkjanna og veita margvíslegar eftirgjafir til að halda friði.

Af þessum ástæðum mun sendimönnum Bandaríkjanna mistakast að telja hugvarf Slóvenum og Króötum, Kúrdum og Sjítum, Lettum, Litháum og Eistlendingum. Og bandarísk afskiptasemi magnar viðkomandi sambandsstjórnir í andstöðu við sjálfstjórnarhreyfingar.

Sagnfræðileg sérstaða Bandaríkjanna leiðir þannig ekki til friðar í erlendum sambandsríkjum, heldur eykur fremur líkur á blóðbaði og alþjóðlegu öryggisleysi.

Jónas Kristjánsson

DV

Góður Evrópubyr

Greinar

Viðræðurnar um evrópskt efnahagssvæði hafa lagzt í farveg, sem er fremur hagstæður Íslendingum. Á undanhaldi er krafa Evrópubandalagsins um veiðiheimildir við Ísland á móti tollfrelsi fyrir íslenzkar sjávarafurðir. Nú er talað um “gagnkvæmar” veiðiheildir í smáum stíl.

Norskt tilboð braut ísinn í viðræðunum í Luxemborg. Það fól í sér, að Normenn tækju að sér, frekar en Íslendingar, að mæta að nokkru leyti kröfum Spánverja um að fá auknar veiðiheimildir norður í höfum. Þetta tilboð bjargaði viðræðum vikunnar í Luxemborg.

Norðmenn gerðu okkur mikinn greiða með þessu tilboði. Á bak við það felst skilningur þeirra á, að sjávarútvegur gegnir ekki sama þjóðhagslega hlutverki í olíu- og iðnaðarríki á borð við Noreg og hann gerir í tiltölulega einhæfu sjávarútvegsríki á borð við Ísland.

Í framhaldi af þessu fleyttu samningamenn Íslands hugmynd um, að Spáverjar fái á Íslandsmiðum kvóta, sem samsvarar 2.600 tonnum af þorski, gegn því að Íslendingar fái jafngildan kvóta hjá löndum Evrópubandalagsins. Með þetta tilboð skildu menn sáttir að kalla.

Evrópubandalagið hefur ekki fallizt á þetta, en andinn í viðræðunum er orðinn allt annar. Hafa verður þó í huga, að það voru stjórnmálamenn, sem gáfu tóninn í Luxemborg, og þeir hafa jafnan reynzt Íslendingum eftirlátari en embættismenn bandalagsins í Bruxelles.

Búast má við, að embættismenn bandalagsins reyni nú enn að framleiða vandamál í hinum tæknilegu viðræðum um frágang málsins, sem fyrirhugaðar eru í Salzburg í næstu viku. Málið er því engan veginn komið í höfn. Það hefur hins vegar nokkuð góðan byr að sinni.

Hér eftir sem hingað til verður okkur til styrktar í viðræðum af þessu tagi, að krafa Evrópubandalagsins um veiðiheimildir fyrir tollívilnanir var í eðli sínu órökrétt. Hún getur hæglega leitt til krafna á borð við, að Íslendingar fái aðgang að appelsínulundum í Valensíu!

Eins og oft og lengi hefur verið bent á í leiðurum DV er orðið “gagnkvæmni” lykill að árangri í viðræðum við Evrópubandalagið. Gegn tollaívilninum komi tollaívilnanir og gegn veiðiheimildum komi veiðiheimildir eða aðrar jafngildar heimildir á svipuðu sviði.

“Gagnkvæmar” veiðiheimildir eru þar að auki gagnlegt orðalag um nánast ekki neitt, því að Evrópubandalagið getur ekki boðið neinar marktækar veiðiheimildir í hinum ofveiddu fiskistofnum sínum á móti jafngildum veiðiheimildum í efnahagslögsögu Íslendinga.

Í Salzburg mun embættismönnum Evrópubandalagsins reynast erfitt að setja fótinn fyrir langþráð efnahagssvæði í Evrópu með því að hanga í órökréttum kröfum, sem stjórnmálamennirnir hafa gefið á bátinn. Þess vegna er ástæða til hóflegrar bjartsýni á framhaldið.

Ef allt gengur að óskum, munu embættismenn málsaðila árita niðurstöðu 28. júlí í Helsinki. Síðan munu ráðherrar undirrita í haust endanlegan samning, sem fer fyrir Alþingi til endanlegrar staðfestingar. Búast má við, að innanlands verði sæmilegur friður um málið.

Ef hins vegar dæmið gengur ekki upp með þeim hætti, sem hér hefur verið lýst, fer allt í bál og brand. Íslendingar munu ekki fallast á kröfurnar um einhliða veiðiheimildir í lögsögu Íslands og munu heldur standa fyrir utan efnahagssvæðið en láta slíkt yfir sig ganga.

Á þessu stigi er ekki sérstök ástæða til slíkrar svartsýni. Málið hefur að vísu ekki verið leyst, en það hefur runnið í farveg, sem virðist stefna að farsælum endi.

Jónas Kristjánsson

DV

Efnahagslífið laxerar

Greinar

Gjaldþrot Álafoss markar tímamót í átökum tveggja sjónarmiða um efnahagsstefnu þjóðarinnar. Lokið er nokkurra ára tímabili harðskeyttrar velferðarstefnu í atvinnulífinu. Markaðslögmálin eru að nokkru leyti aftur komin til skjalanna með nýrri ríkisstjórn.

Velferðarstefnan miðar að verndun hefðbundinna fyrirtækja á borð við Álafoss og hefðbundinna atvinnugreina á borð við landbúnað. Í flestum tilvikum eru þetta láglaunafyrirtæki og láglaunagreinar, sem með forgangi sínum tefja innreið nýrra hálaunagreina.

Markaðsstefnan segir hins vegar, að hefðbundin láglaunafyrirtæki og hefðbundnar láglaunagreinar megi fara á hausinn, því að minna heft markaðslögmál muni sjá um, að nútímalegri hálaunafyrirtæki og hálaunagreinar leysi hin hefðbundnu smám saman af hólmi.

Löngum hefur verið tvískinnungur í afstöðu Íslendinga til þessarra tveggja meginsjónarmiða, þótt afkoma þjóðarinnar hafi áratugum saman hangið á erlendum markaðsaðstæðum íslenzkra sjávarafurða. Við höfum fetað hægar en aðrir í átt til markaðsbúskapar.

Hér á landi eru margir hræddir við óvissu markaðarins. Menn vilja heldur reikna hlutina. Ágætt dæmi um reiknistefnu í sjávarútvegi og landbúnaði eru verðlagsráð, þar sem ríkisvald og hagsmunaaðilar koma saman á fundi til að leika hlutverk markaðslögmála.

Ef kvartað er um há þjónustugjöld á Keflavíkurflugvelli, setjast menn niður við að reikna, hver gjöldin séu og eigi að vera í samanburði við ýmsa staði í útlöndum. Kerfinu dettur síðast af öllu í hug, að láta megi markaðinn ráða með því að afnema einokun á þessu sviði.

Reiknistefna Íslendinga gefur möguleika á einu fráviki frá verndarstefnu hefðbundinnar atvinnu. Það felst í, að reiknimenn hins opinbera megi efla nýjar greinar að ofan með svipaðri góðsemi opinberra sjóða. Þannig var þjóðinni ýtt út í fiskeldi og loðdýrarækt.

Með síðustu ríkisstjórn varð velferðarstefnan gjaldþrota. Sú stjórn efldi sjóðakerfi hefðbundinnar atvinnu meðal annars með Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði. Þeir verða gjaldþrota eins og aðrir slíkir sjóðir og eins og mörg fyrirtækjanna, sem höfðu forgang að fé.

Um leið urðu einnig gjaldþrota hinar nýju greinar, sem voru reiknaðar að ofan og nutu hliðstæðs aðgangs að peningum og hinar hefðbundnu greinar. Velferðarstefnan og reiknistefnan biðu sameiginlegt skipbrot, enda stangast báðar á við erlend markaðslögmál.

Þessi umskipti hafa enn ekki komið fram af fullum þunga, því að fiskiðnaðurinn er rétt að byrja að verða gjaldþrota. Frystitogarar og fiskmarkaðir og ferskfiskþróun hafa á skömmum tíma gert fjárfestingu í fiskiðnaði í landi meira eða minna verðlausa um allt land.

Það er ekki beinlínis ást á markaðslögmálum, sem veldur því, að ný ríkisstjórn neitar að borga meira í hina og þessa Álafossa. Það stafar fyrst og fremst af því, að engir peningar eru lengur til. Fyrri ríkisstjórn var búin að dauðhreinsa alla möguleika á því sviði.

Velferðar- og reiknistefna hlýtur að víkja fyrir markaðsstefnu, því að vestræn fríverzlunarþjóð hefur ekki efni á langvinnu sukki með peninga. Velferðar- og reiknistefna hefur nýlega hrunið til grunna í Austur- Evrópu og riðar til falls í Sovétríkjunum og Íslandi.

Þótt hin nýja ríkisstjórn feti markaðsbrautina fremur af illri nauðsyn en af beinni sannfæringu, eru umskiptin samt raunveruleg. Efnahagslífið er að laxera.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfið þjónar Flugleiðum

Greinar

Flugleiðir hafa náð þeirri aðstöðu, að hið opinbera tekur hagsmuni þeirra fram yfir almannahagsmuni, hvenær sem Flugleiðir telja sig þurfa á því að halda. Flugleiðir hafa fulltrúa í Flugráði og eru í mjög nánu og innilegu sambandi við samgönguráðuneytið.

Nýjasta málið í langri röð er einokun Flugleiða á afgreiðslu flugvéla á Keflavíkurvelli. Flugleiðir hafa notað þessa einokun til að ýta samkeppni í burtu og þannig meðal annars komið í veg fyrir, að íslenzkir atvinnuvegir eigi kost á ódýru vöruflugi til útlanda.

Um tíma opnaðist hér markaður Japansviðskipta með millilendingu flugvéla, fyrst frá Flying Tigers og síðan frá Federal Express. Þessa samkeppni drápu Flugleiðir í skjóli einokunar sinnar á vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli. Nú er sömu aðferð beitt gegn Pan American.

Óeðlilegt er, að eitt flugfélag hafi slíka aðstöðu til að stjórna möguleikum þjóðarinnar á að nýta sér æskilega og nauðsynlega samkeppni í flugi. Öll þjónusta í landi, hvort sem er við skip eða flugvélar, á að vera í höndum þriðju aðila, sem ekki hafa annarra hagsmuna að gæta.

Það skiptir engu máli, þótt vilhallir embættismenn samgönguráðuneytisins rembist við að reyna að trúa útreikningum Flugleiða um, að afgreiðslugjöld séu ekki of há hér á landi í samanburði við útlönd. Slíkir útreikningar leiða alltaf til hinnar pöntuðu niðurstöðu.

Afgreiðsla flugvéla á að vera frjáls og afgreiðslugjöld eiga að ráðast af markaðsaðstæðum. Það á ekki að vera í verkahring Flugleiða eða stuðningsliðs þeirra í samgönguráðuneytinu að reikna, hver þessi gjöld eigi að vera. Slík verðákvörðun er úrelt sovétfyrirbæri.

Athyglisvert er, að verndarmúrinn, sem hið opinbera slær um hagsmuni Flugleiða gegn hagsmunum neytenda og framleiðenda, er aldrei hærri en þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við völd. Sá flokkur hefur reynzt vera sverð og skjöldur einokunar gróinna fyrirtækja.

Þingflokkur sjálfstæðismanna, sem minnir mjög á Alþýðubandalagið, lýsti beinlínis yfir andstöðu við skerðingu á einokun Flugleiða fyrir nokkrum árum, þegar vísir að samkeppni var í millilandaflugi og til umræðu var að veita fleiri áætlunarleyfi til annarra.

Á svipuðum tíma gengu tveir fulltrúar Flugleiða ekki af fundi í Flugráði, sem rétt hefði verið af siðsemisástæðum, þegar hagsmunamál eigin flugfélags var í húfi, heldur greiddu atkvæði gegn áætlunarleyfi til annarra aðila og mynduðu beinlínis meirihlutann í ráðinu.

Til þess að geta nýtt okkur upprennandi markaði, sem eru langt í burtu, svo sem Japan, þurfum við að eiga aðgang að stórum flugvélum með mikla burðargetu og leyfa viðkomandi aðilum að haga afgreiðslu flugvélanna hér á landi á þann hátt, sem þeim þykir hagkvæmastur.

Ekki má heldur gleyma, að núverandi kerfi gagnkvæmrar einokunar meira eða minna ríkisrekinna eða ríkisstuddra flugfélaga stríðir gegn Rómarsáttmála Evrópubandalagsins. Einkaréttarkerfi í flugi verður þess vegna fyrr eða síðar afnumið, hvað sem hver segir hér.

Þótt Evrópubandalagið hafi hingað til leyft, að einokunarflugfélög skipti með sér Evrópumarkaði og haldi þar uppi háu verði í skjóli einokunarhringsins IATA, hefur dómstóll Evrópubandalagsins úrskurðað, að þetta sé ólöglegt, ekki í samræmi við Rómarsáttmálann.

Hæfileg æfing fyrir aðild okkar að Evrópumarkaði er, að við skerum okkur ekki lengur úr hópi annarra og afnemum einokun eins flugfélags á flugafgreiðslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Banvæn ríkisfaðmlög

Greinar

Eitt einkenni er meira áberandi en flest önnur, þegar fyrirtæki og heilar atvinnugreinar fara á höfuðið hér á landi. Það er, að þessir aðilar hafa notið óeðlilega hlýrra faðmlaga hins opinbera, sjóða þess, styrkjakerfis, ríkisbanka og ráðuneyta. Slík faðmlög eru banvæn í eðli sínu.

Álafoss er nýtt dæmi um álögin, sem fylgja heitum faðmlögum ríkisvaldsins. Það hefur pumpað í fyrirtækið hlutafé, styrkjum og lánum og meira að segja sent ýmsa helztu montkarla efnahagslífsins til að sitja í stjórn þess. Þetta dæmi gat ekki farið öðru vísi en illa.

Frægasta dæmið um ríkisfaðmlög er Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem löngum hefur haft óheftan aðgang að ráðherrum og stærsta banka landsins. Þessa miklu ást hefur Sambandið ekki þolað. Það er nú að grotna í sundur og leysast upp í frumeiningar sínar.

Heil atvinnugrein er nú að fara á höfuðið eftir hlý faðmlög hins opinbera. Það er fiskeldið, sem hefur um árabil verið helzta tízkugrein stjórnmálanna. Undir fána þessa dekurbarns hafa menn vaðið í sjóði og banka og sitja núna uppi með átta milljarða króna hrun.

Afleiðingar faðmlaga ríkisins lýsa sér í ótal myndum. Ein er heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins, sem er að verða eign ríkis og læknafélags, af því að það var orðið svo vant sjálfvirkri peningahlýju húsdýrs hins opinbera, að það getur ekki lifað úti í náttúrunni.

Þessa dagana er varla hægt að opna svo dagblað eða skrúfa frá útvarpi og sjónvarpi, að ekki fréttist af nýjum gjaldþrotum og neyðarópum frá fyrirtækjum og atvinnugreinum, sem ekki geta staðið við fjárskuldbindingar sínar. Þessi hrina á sínar eðlilegu skýringar.

Þegar fráfarandi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum síðari hluta ársins 1988, var stigið risaskref í átt til velferðarríkis atvinnuveganna. Þá voru slegnir margir milljarðar í útlöndum til að koma á fót Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði.

Þessir nýju sjóðir bættust við fyrri Framkvæmdasjóð og Byggðasjóð og ríkisbankana. Í þessum stofnunum öllum sitja stjórnmálamenn og sérstök stétt ábyrgðarlausra embættismanna og hafa hamast við að faðma að sér einstök fyrirtæki og heilar atvinnugreinar.

Á sama tíma var fólkið í Austur-Evrópu unnvörpum að kasta af baki sér hliðstæðu velferðarkerfi atvinnulífsins, sem fólst eins og hér í, að ríkið sá fyrirtækjunum fyrir lifibrauði, en markaðurinn var skekktur og skældur. Við fórum í austur meðan aðrir fóru í vestur.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var versta ríkisstjórn Íslandssögunnar af því að hún vann skipulegar en aðrar að uppbyggingu velferðarríkis atvinnuveganna. Í meira mæli en aðrar ríkisstjórnir lét hún byggja gróðurhús utan um atvinnuvegi og fyrirtæki.

Þótt velferðarkerfi kunni að vera nothæft í félagsmálum, er það algerlega óhæft sem rammi utan um atvinnulíf. Fyrirtæki blómstra aðeins úti í náttúrunni, þar sem skiptast á skin og skúrir, sumar og vetur; þar sem síbreytilegar markaðsaðstæður efla fólk til dáða.

Hinn hefðbundni landbúnaður er dæmi um atvinnugrein, sem er orðinn svo fastur í álögum hins opinbera, að hann er orðinn að hreinni félagsmálastofnun. Faðmlög ríkisins við aðrar atvinnugreinar eru einnig að gera þær ófærar um að lifa samkvæmt markaðslögmálum.

Helzti lærdómur núverandi gjaldþrotahrinu er, að faðmlög hins opinbera eru hættuleg í atvinnulífinu og að hlýjustu faðmlög þess eru í eðli sínu banvæn.

Jónas Kristjánsson

910618

Kerfið þjónar Flugleiðum

Flugleiðir hafa náð þeirri aðstöðu, að hið opinbera tekur hagsmuni þeirra fram yfir almannahagsmuni, hvenær sem Flugleiðir telja sig þurfa á því að halda. Flugleiðir hafa fulltrúa í Flugráði og eru í mjög nánu og innilegu sambandi við samgönguráðuneytið.

Nýjasta málið í langri röð er einokun Flugleiða á afgreiðslu flugvéla á Keflavíkurvelli. Flugleiðir hafa notað þessa einokun til að ýta samkeppni í burtu og þannig meðal annars komið í veg fyrir, að íslenzkir atvinnuvegir eigi kost á ódýru vöruflugi til útlanda.

Um tíma opnaðist hér markaður Japansviðskipta með millilendingu flugvéla, fyrst frá Flying Tigers og síðan frá Federal Express. Þessa samkeppni drápu Flugleiðir í skjóli einokunar sinnar á vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli. Nú er sömu aðferð beitt gegn Pan American.

Óeðlilegt er, að eitt flugfélag hafi slíka aðstöðu til að stjórna möguleikum þjóðarinnar á að nýta sér æskilega og nauðsynlega samkeppni í flugi. Öll þjónusta í landi, hvort sem er við skip eða flugvélar, á að vera í höndum þriðju aðila, sem ekki hafa annarra hagsmuna að gæta.

Það skiptir engu máli, þótt vilhallir embættismenn samgönguráðuneytisins rembist við að reyna að trúa útreikningum Flugleiða um, að afgreiðslugjöld séu ekki of há hér á landi í samanburði við útlönd. Slíkir útreikningar leiða alltaf til hinnar pöntuðu niðurstöðu.

Afgreiðsla flugvéla á að vera frjáls og afgreiðslugjöld eiga að ráðast af markaðsaðstæðum. Það á ekki að vera í verkahring Flugleiða eða stuðningsliðs þeirra í samgönguráðuneytinu að reikna, hver þessi gjöld eigi að vera. Slík verðákvörðun er úrelt sovétfyrirbæri.

Athyglisvert er, að verndarmúrinn, sem hið opinbera slær um hagsmuni Flugleiða gegn hagsmunum neytenda og framleiðenda, er aldrei hærri en þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við völd. Sá flokkur hefur reynzt vera sverð og skjöldur einokunar gróinna fyrirtækja.

Þingflokkur sjálfstæðismanna, sem minnir mjög á Alþýðubandalagið, lýsti beinlínis yfir andstöðu við skerðingu á einokun Flugleiða fyrir nokkrum árum, þegar vísir að samkeppni var í millilandaflugi og til umræðu var að veita fleiri áætlunarleyfi til annarra.

Á svipuðum tíma gengu tveir fulltrúar Flugleiða ekki af fundi í Flugráði, sem rétt hefði verið af siðsemisástæðum, þegar hagsmunamál eigin flugfélags var í húfi, heldur greiddu atkvæði gegn áætlunarleyfi til annarra aðila og mynduðu beinlínis meirihlutann í ráðinu.

Til þess að geta nýtt okkur upprennandi markaði, sem eru langt í burtu, svo sem Japan, þurfum við að eiga aðgang að stórum flugvélum með mikla burðargetu og leyfa viðkomandi aðilum að haga afgreiðslu flugvélanna hér á landi á þann hátt, sem þeim þykir hagkvæmastur.

Ekki má heldur gleyma, að núverandi kerfi gagnkvæmrar einokunar meira eða minna ríkisrekinna eða ríkisstuddra flugfélaga stríðir gegn Rómarsáttmála Evrópubandalagsins. Einkaréttarkerfi í flugi verður þess vegna fyrr eða síðar afnumið, hvað sem hver segir hér.

Þótt Evrópubandalagið hafi hingað til leyft, að einokunarflugfélög skipti með sér Evrópumarkaði og haldi þar uppi háu verði í skjóli einokunarhringsins IATA, hefur dómstóll Evrópubandalagsins úrskurðað, að þetta sé ólöglegt, ekki í samræmi við Rómarsáttmálann.

Hæfileg æfing fyrir aðild okkar að Evrópumarkaði er, að við skerum okkur ekki lengur úr hópi annarra og afnemum einokun eins flugfélags á flugafgreiðslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þreföld ráðherraspilling

Greinar

Þegar Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra lét skattgreiðendur borga hálfrar milljónar króna veizlu, sem hann hélt körfuboltamönnum suður með sjó fjórum dögum fyrir síðustu kosningar, fór hann langt út fyrir alla ramma, sem gilt hafa um leyfilega spillingu ráðherra.

Í fyrsta lagi var málefni veizlunnar alls ekki á sviði iðnaðarráðuneytis hans. Ef einhver opinber aðili á að halda slíka veizlu, er það menntaráðherra, sem fer með íþróttamál í ríkisstjórninni og kemur fram fyrir hönd hins opinbera gagnvart íþróttahreyfingunni.

Í öðru lagi er ekki venja, að menntaráðuneyti eða iðnaðarráðuneyti haldi sigurliðum veizlur í tilefni loka Íslandsmóts í körfubolta. Með því að halda veizluna fór Jón Sigurðsson ekki aðeins út fyrir verksvið sitt, heldur rauf þar á ofan hefðir um tilefni veizluhalda.

Ef Jón Sigurðsson hefði verið menntaráðherra og ef venja hefði verið að halda slíkar veizlur fyrir sigurlið í körfubolta, er enn eftir þriðji mælikvarðinn á, hvort rétt hafi verið að halda slíka veizlu í kjördæmi ráðherrans fjórum dögum fyrir alþingiskosningar.

Almenna siðferðisreglan er, að gráa svæðið milli góðra siða og siðleysis þrengist, þegar kringumstæður verða grunsamlegar, svo sem var í þessu tilviki, er veizlugestir voru kjósendur í kjördæmi ráðherrans og áttu eftir að ganga að kjörborðinu eftir fjóra daga.

Iðnaðarráðherra gerðist með veizlu sinni brotlegur á þrefaldan hátt. Hann fór í fyrsta lagi út fyrir verksvið sitt sem ráðherra. Hann fór út í nýja tegund veizluhalda, sem ekki er hefð fyrir. Og hann rauf í þriðja lagi reglur um meðferð slíkra mála í kosningaundirbúningi.

Með því að láta skattgreiðendur borga veizluna gerði iðnaðarráðherra ekki greinarmun á sér sem umboðsmanni framkvæmdavaldsins og sem frambjóðanda Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi. Það er ein algengasta tegund spillingar í þjóðfélaginu um þessar mundir.

Hin tegund spillingar, sem ráðherrar detta stundum í, er að gera ekki greinarmun á sér sem umboðsmanni framkvæmdavaldsins og sem einstaklingi. Sami ráðherra fór út af siðferðiskortinu, þegar hann bauð skólasystkinum til freyðivínsveizlu á Breiðafirði í fyrra.

Í alvöruríkjunum umhverfis okkur er gerður greinarmunur á því, er menn gera sem ráðherrar, sem flokksmenn og sem einstaklingar. Ríkið borgar fyrir þá sem ráðherra, flokkurinn fyrir þá sem frambjóðendur og sjálfir borga þeir fyrir sig sem bekkjarbræður.

Starfsmannastjóri Bandaríkjaforseta fór út af sporinu eins og hinn íslenzki iðnaðarráðherra. Hann notaði flugvélar hersins í þágu flokks síns og sjálfs sín. Nú hefur flokksreikningurinn verið sendur viðkomandi flokki og hertar hafa verið reglur um meðferð mála af þessu tagi.

Ekkert slíkt gerist hér á landi, af því að íslenzka ríkinu er stjórnað af siðleysingjum. Þessir siðleysingjar eru valdir til áhrifa af siðlausum kjósendum, sem gera sér litla sem enga rellu út af þessu og dilla rófunni, ef ruður af spillingunni falla þeim í skaut sem veizlugestum.

Þegar upp kemst um ráðherraspillingu í nágrannaríkjum okkar beggja vegna Atlantshafs, er gripið til gagnaðgerða til að treysta siðaramma og minnka gráu svæðin. Hér á landi láta menn sér fátt um finnast, af því að hér ríkir þriðja heims siðferði hjá almenningi.

Þegar almenningur og stjórnmálamenn líta á ríkissjóð sem herfang, er óhjákvæmilegt að fjármálastjórn verður lakari en venja er hjá vestrænum þjóðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Sigurhátíð hinna sigruðu

Greinar

Hina raunverulegu sigurvegara Persaflóastríðsins vantar á undarlegar sigurhátíðir, er haldnar hafa verið víðs vegar um Bandaríkin að undanförnu. Það eru forsetinn í Írak og emírinn í Kúvæt, sem eru sigurvegarar stríðs, þar sem Bush Bandaríkjaforseti er hinn sigraði.

Emírinn í Kúvæt og ættmenn hans eru farnir að feta sig áfram til svartra miðalda í ríki, sem Bush Bandaríkjaforseti afhenti þeim á silfurfati. Það hófst við stríðslok með dauðasveitum og er nú komið út í skríparéttarhöld og dauðadóma, sem felldir eru á færibandi.

Stuðningur Vesturlanda við Kúvæt og Saúdi-Arabíu gegn yfirgangi Íraksforseta hefur ekki leitt til, að afturhaldsstjórnir þessara ríkja hafi stigið skref í átt til mann- og lýðréttinda. Þvert á móti hefur sigur emíra og kónga verið notaður til að magna miðaldir í þessum ríkjum.

Bandaríkjamenn eru búnir að gleyma orðbragði, er Bush Bandaríkjaforseti notaði með réttu um Saddam Hussein Íraksforseta, sem Bush sagðist mundu hrekja frá völdum. Það tókst Bush ekki. Enginn endir er enn fyrirsjáanlegur á ógnarstjórn Husseins í Írak.

Forseti Íraks gat meira að segja notað Persaflóastríðið til að festa sig og ætt sína í sessi. Hann hefur getað ofsótt sjíta og Kúrda harkalegar en áður. Nú er svo komið, að Kúrdar lifa mest á litlu verndarsvæði, sem er ekki nema brot af hinum hefðbundnu löndum þeirra.

Ósigur Bush Bandaríkjaforseta og Bandaríkjanna í Persaflóastríðinu fólst fyrst og fremst í, að dauðasveitum Íraksforseta var hleypt í gegn með alvæpni, þegar þær voru búnar að gefast upp. Ef þær hefðu verið teknar til fanga, væri Saddam Hussein núna búinn að vera.

Vesturlönd studdu Bush og Bandaríkin í stríði þeirra við Persaflóa, af því að menn vonuðu, að það leiddi til aukins lýðræðis á þessu svæði, sem stjórnað var af óargadýrum og miðaldaemírum. Niðurstaðan er sú, að lýðræði er fjarlægara Persaflóa en fyrir stríð.

Bush sveik Vesturlönd með stuðningi sínum við miðaldagengið í kónga- og emíraríkjum Persaflóa og við óargadýrin í Ba’ath-flokknum í Írak. Ef hann er eins konar sigurvegari í Persaflóastríðinu er það sem svikari við vestrænan málstað lýðræðis og mannréttinda.

Sérkennilegast í máli þessu er, að Bandaríkjamenn skuli ekki hafa áttað sig á, að stríðinu var klúðrað fyrir þeim. Þeir hafa að undanförnu dansað um af fögnuði á sigurhátíðum út af niðurstöðu, sem var ekki sigur, heldur ósigur fyrir Bandaríkin og pólitíska forustu þeirra.

Bush Bandaríkjaforseti hefur eytt möguleikum á, að slík fjölþjóðastríð verði háð af hálfu Vesturlanda í náinni framtíð. Vesturlandabúar munu framvegis ekki treysta Bandaríkjunum fyrir fé og herliði til að taka þátt í klúðri á borð við niðurstöðu Persaflóastríðsins.

Að baki harmleiksins liggur annars vegar vaxandi einangrun Bandaríkjamanna í þjóðarsjálfmiðjun. Þeir fylgjast ekki með því, sem gerist í öðrum löndum og setja sig ekki inn í tungumál, þjóðernishyggju og hugarfar fólks á svæðum, sem þeir eru að skipta sér af.

Hins vegar liggur að baki vaxandi gjá milli þeirra, sem gabba, og hinna, sem eru gabbaðir. Tækni ímyndafræðinga fer sívaxandi. Geta almennings til að sjá gegnum tækni ímyndafræðinga fer síminnkandi. Þess vegna ímynda Bandaríkjamenn sér, að þeir hafi sigrað.

Af þessum ástæðum er ástæða til að sakna þess, að Saddam Hussein og al Sabah emír voru ekki á heiðurspalli við nöturlegar sigurhátíðir Bandaríkjamanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðarverðlaunað ofbeldi

Greinar

Friðarverðlaunanefnd Nóbels var sér og norska stórþinginu til skammar, af því að hún greindi ekki á milli andartaks og eilífðar. Hún tók stutt tímabil sem mælikvarða á gildi stjórnmálamanns og situr uppi með að hafa veitt Gorbatsjov Sovétforseta verðlaunin.

Friðarverðlaunanefndir geta veitt móður Theresíu slík verðlaun, af því að hegðun hennar á morgun verður hin sama og hún var í gær. Hið sama gildir ekki um tækifærissinnaðan stjórnmálamann, sem stuðlar að friði annan daginn og efnir til ófriðar hinn næsta.

Friðarverðlaun hafa slæm áhrif á tækifærissinnaðan og samvizkulausan stjórnmálamann á borð við Gorbatsjov. Hann tekur verðlaunin sem staðfestingu þess, að um sinn hafi hann náð hámarksáhrifum á friðarkantinum og að nú sé lag til að sinna ófriðarmálum betur.

Gorbatsjov stuðlar að ófriði, þegar það hentar honum. Þegar hann telur sig þurfa að refsa Armeníumönnum fyrir óhlýðni við miðstjórnarvaldið, lætur hann Rauða herinn berjast með Azerum, þótt slík hlutdrægni magni ófrið á afar viðkvæmu svæði í Kákasusfjöllum.

Þegar Gorbatsjov telur henta sér að minna Litháa á, að þeir hafi lélega samningsaðstöðu gegn Moskvuvaldinu, sendir hann öryggissveitir innanríkisráðuneytisins, sem frægar eru af fyrra ofbeldi, til svokallaðra “eðlilegra” æfinga við þinghús Litháens í Vilníus.

Þegar Gorbatsjov forseti var búinn að gefa þjóðum Austur-Evrópu frelsi, veðjuðu vestrænir leiðtogar á hann sem mann vestursins í Sovétríkjunum. Þess vegna hefur Gorbatsjov sífellt verið hampað, þótt hann sé um þessar mundir einn helzti þröskuldur í vegi þjóða sinna.

Þegar Gorbatsjov er ofbeldismegin í tækifærisstefnu sinni, reyna vestrænir leiðtogar með Bandaríkjastjórn í broddi fylkingar að útskýra vandamálið í burtu. Þeir láta Gorbatsjov komast upp með að segjast ekki hafa vitað um ofbeldi öryggislögreglu og hersveita.

Augljóst er, að forseti ríkis hlýtur að halda mjög fast um tauma hers og lögreglu á svæðum, þar sem allt getur farið í bál og brand. Að halda því fram, að her og öryggislögreglu stjórni vondir karlar, sem Gorbatsjov ráði ekki við, er bull og raunar vísvitandi rangt.

Ímyndaðar hagkvæmnisástæður valda því, að vestrænir leiðtogar styðja ofbeldishneigðan Sovétforseta og reyna að gera lítið úr ofbeldi hans. Þeir ímynda sér, að hann haldi ríkinu saman. Þeir telja sig búa við meira öryggi en ella með Gorbatsjov í æðsta valdastóli.

Raunveruleikinn er allt annar. Gorbatsjov rekur nefnilega efnahagsstefnu, sem er meira að segja lakari en fyrri harðlínustefna, þannig að efnahagur Sovétríkjanna rústast nú hraðar en gerðist á tíma Brezhnevs flokksformanns. Gorbatsjov er skaðlegri en Brezhnev.

Möguleikar Austur-Evrópu á efnahagslegum framförum byggjast á, að þar hefur fyrra þjóðskipulagi og gömlum flokksbroddum verið fleygt út. Í Sovétríkjunum hefur hvorugt verið gert. Þar er verið að reyna að fara millileið undir stjórn hinna óhæfu flokksbrodda.

Millileið Gorbatsjovs er versta efnahagsleiðin. Hún mun soga til sín stjarnfræðilegar summur í vestrænni fjárhagsaðstoð, sem fer öll í súginn. Vestrænir peningar eiga betur heima í þeim hlutum Austur-Evrópu og Sovétríkjanna, sem kasta kerfinu og körlunum.

Gorbatsjov er maður ofbeldis og fortíðar. Að púkka upp á hann með friðarverðlaunum og vestrænu fé leiðir pólitíska og efnahagslega ógæfu yfir Sovétríkin.

Jónas Kristjánsson

DV

Moka þarf ofan í skurði

Greinar

Skurðgröftur mýra felur í sér verstu náttúruspjöll, sem hinn hefðbundni landbúnaður hefur valdið hér á landi, næst á eftir ofbeit og uppblæstri. Þessi skurðgröftur er víða langt umfram það, sem nýtt er til ræktunar og virðist raunar sums staðar vera alveg tilgangslaus.

Stórvirkum skurðgröfum hefur verið beitt á landið og það rist djúpum rákum þvert í gegnum landslagið. Þessi mannvirki, sem rista heilar hlíðar, sjást víða úr mikilli fjarlægð og fela í sér mikla sjónmengun, til viðbótar við eyðingu hins fjölbreytta lífríkis mýranna.

Þessi spjöll eru orðin að mjög svo sýnilegu einkennistákni íslenzks landbúnaðar, hrikalegur minnisvarði um landbúnaðarstefnu, sem rekin hefur verið áratugum saman, án nokkurs minnsta tillits til stöðugrar gagnrýni, sem þessi miður þjóðholla iðja hefur sætt.

Skurðgröftur mýra hefur verið rekinn sem atvinnubótavinna á kostnað skattgreiðenda, ýmist í hamslausri bjartsýni á útþenslumöguleika í framleiðslu óþarfra afurða eða beinlínis í kaldrifjaðri misnotkun á sjálfvirku peningaflæði, nema hvort tveggja sé í senn.

Þegar rituð verður harmsaga hins hefðbundna landbúnaðar á síðari hluta aldarinnar, er brýnt að rekja, hverjir bera ábyrgð á þessum áberandi mistökum, sem eyða lífríki, spilla útsýni og koma engum að gagni. Það verður stór þáttur í ljótri ábyrgðarsögu landbúnaðar.

Hver á svo að borga, þegar þjóðin kemst að raun um, að hún verður að láta moka aftur ofan í þessi ljótu sár og reyna að ganga svo frá málum, að mýrarnar geti lifnað við að nýju? Ekki munu landbúnaðarráðherrar og strjálbýlisþingmenn bjóðast til að taka upp veskin.

Þótt erfitt verði að draga einstaklinga til fjárhagslegrar ábyrgðar fyrir að hafa á þennan og annan hátt sóað umtalsverðum hluta af aflafé þjóðarinnar í gagnslaust og skaðlegt daður við hefðbundinn landbúnað, situr eftir hin blýþunga siðferðilega ábyrgð landbúnaðarsinna.

Svo gegndarlaust hefur landeyðingarstefna hins hefðbundna landbúnaðar verið rekin, að þjóðargjöfin mikla frá 1974 var beinlínis notuð til að hleypa fleira fé á fjall. Við stöndum nú andspænis þeirri staðreynd, að búið er að éta alla þjóðargjöfina og raunar meira til.

Enn þann dag í dag nemur árleg landeyðing umfram landgræðslu 1000 hekturum á hverju ári. Á móti 2000 hekturum, sem vinnast, tapast annars staðar 3000 hektarar. Samt er enn þann dag í dag rekin rammasta beitilandsstefna undir yfirskini landgræðslu og landverndar.

Ill meðferð hins hefðbundna landbúnaðar á landinu, bæði ofbeit heiða og eyðing mýra, er ljós öllu umhverfisáhugafólki, sem hingað til lands kemur og lítur í kringum sig. Skammt er í, að alþjóðarómur stimpli Íslendinga sem mesta umhverfishneyksli vestrænna ríkja.

Á sama tíma lætur formaður þess stjórnmálaflokks, sem harðast hefur gengið fram í að kalla á peninga skattgreiðenda til að auka og margfalda þessa mengun, sig dreyma um að selja ímynd Íslands sem vistfræðilegrar paradísar norður í höfum. Svo ruglað getur rím orðið.

Á undan ímynd kemur innihald. Fyrsta skref okkar í átt til drauma fyrrnefnds flokksformanns ætti að felast í að stöðva misnotkun okkar á landinu. Við þurfum að stöðva taprekstur á gróðurbúskap og fara að byggja upp höfuðstólinn, sem okkur hefur verið trúað fyrir.

Í stað þess að fórna 20 milljörðum árlega í landeyðingu landbúnaðar ættum við í alvöru að fara að verja fé til að alfriða afrétti og moka ofan í skurðina.

Jónas Kristjánsson

DV

“Afspyrnuerfitt” siðferði

Greinar

Samkvæmt ummælum nýskipaðs fjármálaráðherra er íslenzkt þjóðfélag mun flóknara en hið bandaríska. Að minsta kosti segist hann telja “afspyrnuerfitt” að setja hér hliðstæðar reglur um varnir gegn ráðherraspillingu og settar hafa verið í Bandaríkjunum.

Vestanhafs er gerður greinarmunur á kostnaði, er ráðherrar valda sem ráðherrar fyrir hönd ríkisins; sem flokksbroddar fyrir hönd flokks síns; og sem einstaklingar. Reikningur fyrir tvö síðartöldu atriðin er sendur viðkomandi aðilum, flokki og einstaklingi.

Þegar bandarískur ráðherra fer á pólitískan fund og notar samgöngutæki ríkisins við það tækifæri, er reikningur sendur viðkomandi stjórnmálaflokki. Þegar bandarískur ráðherra býður skólabræðrum sínum í hanastél, er ætlazt til, að hann borgi sjálfur.

Raunar talar Friðrik Sófusson ekki í alvöru, er hann segir “afspyrnuerfitt” að gera það hér á landi, sem þykir sjálfsagt í Bandaríkjunum, sem eru þúsund sinnum fjölmennari. Hann hefði getað reynt að finna skárri afsökun fyrir íslenzkri spillingu, en nennti því ekki.

Fjármálaráðherra hefur svo litlar áhyggjur af þessu máli, að honum finnst ekki taka því að finna frambærilega útúrsnúninga. Þess vegna slær hann bara fram þverstæðu raunveruleikans. Það er um leið stuðningsyfirlýsing hans við pólitíska spillingu á Íslandi.

Þegar fjármálaráðherra var áður ráðherra, mælti hann hin fleygu orð: “Ef ráðherra getur ekki boðið nokkrum bekkjarbræðrum sínum í glas, þá er ekki mikið eftir.” Hann var að afsaka misnotkun sína á peningum skattborgaranna til persónulegra þarfa.

Ekkert er það, sem bannar ráðherrum að bjóða bekkjarbræðrum, vinum eða ættingjum í glas. Hann tekur bara upp veskið og borgar, alveg eins og allir aðrir gera, sem bjóða bekkjarbræðrum, vinum eða ættingjum í glas. Hvorugt málið varðar ríkið að neinu leyti.

Spilling ráðherrans felst í, að hann sér engan mælanlegan mun á sínum persónulega fjárhag og fjárhag ríkisins. Þetta er svipuð spilling og er í garði margra íslenzkra stjórnmálamanna, þótt enginn hafi varið hana á jafn barnslegan hátt og núverandi fjármálaráðherra.

Hversu flókið, sem ráðherrann segir þetta vera, er þó ljóst, að einfaldara er hér en í Bandaríkjunum að greina sundur; hvenær ráðherra býður skólabræðrum, vinum og ættingjum; hvenær hann býður flokksbræðrum; og hvenær hann fer með risnu fyrir ríkishönd.

Þrátt fyrir orð ráðherra, er ljóst, að tiltölulega auðvelt er hér á landi að gera greinarmun á ferðum ráðherra fyrir hönd ríkisins; fyrir hönd flokks hans; og loks í hans eigin þágu. Núverandi fjármálaráðherra kærir sig bara ekki um slíka afskiptasemi.

Af fyrri og síðari ummælum núverandi fjármálaráðherra er ljóst, að hann mun ekki beita sér fyrir breytingum á reglum, sem fráfarandi forsætisráðherra játaði, að væru “ferðahvetjandi” og felast í, að hreinar tekjur ráðherra aukast í hlutfalli við aukin ferðalög þeirra.

Áhugaleysi ráðherrans á breytingum stafar meðal annars af, að hann hefur eins og sumir aðrir ráðherrar tekið eftir, að bekkjarbræðurnir hneykslast ekki, heldur slefa af hrifingu yfir að fá að njóta mola af gnægtaborði spillingarinnar, þegar þeim er boðið í drykk.

Áhugaleysið endurspeglar skilning á, að upp til hópa eru Íslendingar á þriðja heims stigi og hafa þann einan áhuga á spillingu að komast til þáttöku í henni sjálfir.

Jónas Kristjánsson

DV

Eigi skal gráta Björn bónda

Greinar

Ólöf ríka skildi strax, að ekki þýddi að velta sér upp úr því, sem tapazt hafði, heldur skipti mestu að safna liði fyrir næstu orrustu. Hún hefði strax hætt að gráta hvalveiðar og snúið sér að verndun annars veiðiskapar, sem nú er okkur miklu brýnna og mikilvægara verkefni.

Seint og um síðir eru íslenzk og norsk stjórnvöld að komast að raun um, að barátta fyrir hvalveiðum er löngu orðin vonlaus. Hvorugt landið lætur sjávarútvegsráðherra sinn taka þátt í fundum ársþings Alþjóða hvalveiðiráðsins í Reykjavík í þessari viku.

Þetta endurspeglar, að embættis- og ráðamenn hafa skilið, að hvalastríðið er tapað á vettvangi Alþjóða hvalveiðiráðsins og vísindanefndar þess. Það endurspeglar líka, að ekki hefur verið tekið neitt mark á óbeinum hótunum okkar manna um stofnun nýs hvalveiðiráðs.

Þegar Íslendingar undirrituðu sitt gamla baráttumál, hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, var ekki gert ráð fyrir þeim möguleika, að Alþjóða hvalveiðiráðið gæti orðið okkur andsnúið. Lagakróka- og orðhengilsmenn okkar finna enga leið úr þeim ófyrirséða vanda.

Íslenzka þjóðin er hins vegar þeirrar skoðunar, að við eigum að hefja hvalveiðar að nýju, hvað sem hver segir. Hetjuskapurinn verður ekki skafinn af þjóð Þorgeirs Hávarssonar, sem frægur varð af að hanga lengi dags í hvönn og fyrirgaf aldrei björgunarmanni sínum.

Í stað þessarar hugsjónar er brýnt, að Íslendingar snúi sér af alefli að verndun réttar fiskimanna til að veiða fisk. Umhverfisverndarfyrirtæki á borð við Grænfrið eru farin að skipuleggja fiskveiðar við Kaliforníu og lýsa skoðunum á loðnuveiði við Norður-Noreg.

Orrustan um rétt til fiskveiða verður ekki eins erfið og orrustan um hvalveiðar. Fiskur skipar ekki sama rúm og hvalur og selur gera í sálarlífi heilla þjóða. Röksemdafærsla, sem mætir daufum eyrum, þegar talað er um hval, kann að heyrast, þegar talað er um fisk.

Gegn okkur verður teflt þeirri skoðun, að veiðiskapur eigi aðeins að þolast sem sjálfsþurftarbúskapur frumstæðra þjóða, en ekki sem nútíma markaðsbúskapur. Gegn okkur verður teflt þeirri skoðun, að skipulagðar markaðsveiðar taki mat frá öðrum í fæðukerfi sjávar.

Ef menn halda, að þetta sé grín, ættu þeir að kynna sér ný lög í Kaliforníu um rétt fiska gegn rétti veiðimanna. Upp er vaxin kynslóð, sem telur, að matur eigi að koma úr pökkum, og heldur, að lífsstíll sé ókeypis og fáist, þótt allir stundi handíð af ýmsu tagi.

Við munum í framtíðinni þurfa að hafa fyrir því að sannfæra umheiminn um, að skipulagður veiðiskapur okkar sé eðlilegt lifibrauð okkar. Við þurfum að gera bandalag við aðrar fiskveiðiþjóðir um að koma fiskveiðisjónarmiðum á framfæri á öflugan og sannfærandi hátt.

Vísir er kominn að slíku samstarfi. Þann vettvang eigum við að efla sem mest við megum. Við þurfum á því að halda, að umheimurinn virði sjónarmið okkar, því að við ætlumst til, að hann kaupi af okkur fiskafurðir. Líffstíll okkar er alveg upp á umheiminn kominn.

Sem þjóð eigum við að hætta að eyða orku, tíma og fé í vonlaust stríð um hval, en snúa okkur af sama krafti að stríði, sem við getum hugsanlega unnið, en vinnum ekki, ef við bítum okkur fast í að heyja stríð fortíðarinnar. Okkur ber að snúa vörnum okkar að fiskveiðum.

Í lífsstríði sem öðru stríði skiptir máli að átta sig á, hvenær skuli hætta að berja hausnum við stein og fara að snúa sér að baráttu, sem getur skilað árangri.

Jónas Kristjánsson

DV

Engir hveitibrauðsdagar

Greinar

Illa er komið fyrir nýrri ríkisstjórn strax í upphafi ferils hennar. Hún nýtur engra hveitibrauðsdaga í hagkvæmnishjónabandi sínu. Samkvæmt skoðanakönnun DV í gær hefur hún einungs helming af fylgi kjósenda, minnsta fylgi, er mælzt hefur hjá nýrri ríkisstjórn.

Algilt hefur verið, að nýjar ríkisstjórnir fái að minnsta kosti rúmlega 60% gengi í fyrstu skoðanakönnunum eftir stjórnarmyndun. Metið átti ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen, sem hafði 90% fylgi í upphafi og naut hveitibrauðsdaga fram undir andlátið.

Enn verri er staða annars stjórnarflokksins, Alþýðuflokksins, sem má þola fylgishrun úr 15% niður í 10%. Þetta bendir til, að gæfa Alþýðuflokksins verði minni í þessari ríkisstjórn en hún var í hliðstæðu stjórnarmynztri á viðreisnartíma sjöunda áratugarins.

Viðreisnarstjórnin var byltingarstjórn á sínum tíma. Hún ruddist fram með nýjungar, sem frelsuðu Ísland úr verstu Framsóknarhlekkjum kreppustefnunnar og lögðu grundvöll að velmegun þjóðarinnar nú á tímum. Hún stóð á skýrum hugmyndafræðilegum grunni.

Viðreisnarstjórnin entist líka í meira en áratug. Alþýðuflokkurinn þoldi stjórnarsamstarfið í þrjú kjörtímabil, þótt hörð hríð væri gerð að honum frá vinstra afturhaldinu. Slík festa í stjórnarmynztri hefur hvorki þekkst fyrr né síðar á lýðveldistímanum.

Ríkisstjórn hinna sömu stjórnmálaflokka, sem nú hefur setzt að völdum, hefur engan hugmyndafræðilegan grunn. Til dæmis er hún laus við frjálshyggju, þótt tilhneiginga í þá átt hafi gætt í báðum flokkunum, ekki síður í Alþýðuflokknum en Sjálfstæðisflokknum.

Hugsjónalaus ríkisstjórn nýtur engra hveitibrauðsdaga. Þjóðin sér enga breytingu frá fyrri ríkisstjórn til hinnar nýju. Enda er þetta í stórum dráttum nákvæmlega sama ríkisstjórn, efnislega séð, og sú sem fór frá völdum. Það eru bara nýir menn í ráðherrastólum.

Það eru einmitt ráðherrastólarnir, sem eru hornsteinn þessarar ríkisstjórnar. Steingrímur Hermannsson gat aðeins boðið Alþýðuflokknum þrjá stóla í nýrri, fjögurra flokka vinstri stjórn. Davíð Oddsson gat hins vegar boðið honum fimm stóla í tveggja flokka stjórn.

Þetta var tilboð, sem Alþýðuflokkurinn þóttist ekki geta hafnað. Hinn óljósi málefnasamningur, sem smíðaður var í skyndingu, skiptir nauðalitlu máli í þessu samhengi, enda hefði hann alveg eins getað verið málefnasamningur hjá fjögurra flokka vinstri stjórn.

Myndun þessarar ríkisstjórnar markar í rauninni þáttaskil í stjórnmálasögu okkar. Ekki er lengur umtalsverður munur á athöfnum stjórnmálaflokka, þótt ytri málabúnaður sé stundum misjafn. Stjórnmál á Íslandi snúast ekki lengur um málefni. Þau snúast um stóla.

Þótt þessi ríkisstjórn sé mynduð af sömu stjórnmálaflokkum og mynduðu viðreisnarstjórnina, er fjarri lagi að kenna hana við nýja viðreisn. Hún er eins langt frá viðreisn og hugsazt getur. Hún er íhalds- og hagsmunastjórn, sem mun gæta þess að breyta sem allra fæstu.

Almenningur er þegar búinn að finna lyktina af hinni nýju ríkisstjórn og finnst hún ekki góð. Þess vegna sýndi skoðanakönnun DV í gær, að þetta er fyrsta ríkisstjórnin, sem ekki nýtur neinna hveitibrauðsdaga hjá þjóð sinni. Og öruggt má telja, að hún verði ekki langlíf.

Svona fer, er skammtímamenn ganga í hagkvæmnishjónaband um ráðherrastóla og kjötkatla. Svona fer, er þjóð gælir við loddara, kosningar eftir kosningar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvað græðum við?

Greinar

Eitt mikilvægustu lögmála auðhyggjunnar er, að samningar um kaup og sölu leiði til gagnkvæms gróða beggja samningsaðila. Verzlunin sem slík leiði til verðmætisaukningar. Fáar kennisetningar í hagfræði hafa raunar fengið eins mikla staðfestingu og þessi.

Velsæld Vesturlanda í nútíma byggist einkum á viðskiptafrelsi, sem hefur leitt til hagkvæmrar verkaskiptingar og stanzlausra uppfinninga. Verkaskiptingin og uppfinningarnar, sem viðskiptafrelsið leiðir af sér, hafa framleitt gífurlegan auð, sem ekki er frá neinum tekinn.

Samningar þjóða um fríverzlun byggjast á þessari reynslu. Þar á meðal er aðild okkar að Fríverzlunarsamtökunum og viðskiptasamningur okkar við Evrópubandalagið. Báðir þessir samningar hafa fært okkur auð, um leið og aðrir samningsaðilar hafa grætt.

Okkar stefna í alþjóðaviðskiptum hefur verið einföld. Við viljum frjálsan og tollfrjálsan aðgang með söluvörur okkar á erlendan markað, hvort sem hann heitir Evrópskt efnahagssvæði, Fríverzlunarsamtök, Evrópubandalag, Bandaríkin, Japan eða heimurinn allur.

Sjálf höfum við ekki reist tollmúra og bannmúra gegn erlendum söluvörum öðrum en þeim, sem taldar eru vera í samkeppni við hefðbundinn landbúnað sauðfjár og nautgripa á Íslandi, svo og garðyrkju. Eðlilegt er, að erlendir samningsaðilar heimti þessa múra rifna.

Eitt hið merkasta við lögmál auðhyggjunnar er, að við mundum sjálf græða mest á að hleypa erlendum landbúnaðarafurðum án tollmúra inn í landið. Við fengjum ódýrari matvöru en við fáum núna og verkaskipting þjóða eftir aðstæðum þeirra yrði skýrari en ella.

Öðru máli gegnir um kröfur um aðild að auðlindum sjávar við Ísland. Á því sviði erum við komin út fyrir umræðu um venjuleg viðskipti, um til dæmis markað fyrir markað, og farin að tala um atriði, sem er hornsteinn tilveru okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.

Í raun er ekki erfitt að verjast kröfu um aðgang að fiskimiðum. Við neitum einfaldlega að afhenda frumburðarrétt okkar og við það situr. Ef ríki Evrópubandalagsins heimta hins vegar aðgang fyrir búvöru að íslenzkum markaði, verða gagnrök okkar fljótt þrotin.

Við búum nú þegar við harla gott frelsi í útflutningi sjávarafurða okkar. Helzti þröskuldurinn felst í tollum Evrópubandalagsins á frystum og söltuðum fiski. Við viljum fá þennan toll lagðan niður, en við förum ekki að kaupa þá fríverzlun dýru verði í auðlindum okkar.

Tollar Evrópubandalagsins hafa fært okkar bónus, sem fáir gera sér grein fyrir. Tollarnir hafa hjálpað okkur til að uppgötva að nýju verðgildi ferskfisks í samanburði við verksmiðjufisk. Við höfum grætt mikið á að leggja aukna áherzlu á flytja fiskinn út ferskan.

Samt leggjum við stein í götu útflutnings á ferskfiski. Við refsum seljendum ferskfisks með því að rýra veiðiheimildir þeirra og við skömmtum leyfi til útflutningsins. Ef við ryddum þessum eigin hömlum úr vegi, yrði útflutningsgróði okkar enn meiri en hann er nú.

Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu getur fært okkur lækkun eða afnám tolla á freðfiski og saltfiski. Það er ávinningur, en svo lítill ávinningur umfram þá fríverzlun, sem við búum við núna, að ekki er unnt að kaupa hann með aðgangi að höfuðstóli íslenzks sjálfstæðis.

Ef við græðum á samningi eins og aðrir, eigum við að vera með. Ef okkur verður hins vegar meinað að græða, eigum við að standa fyrir utan Efnahagssvæðið.

Jónas Kristjánsson

DV