Greinar

Ráðizt á heilsuhæli

Greinar

Ef Náttúrulækningafélagið fylgir eftir uppsögn starfsfólks með lokun heilsuhælisins í Hveragerði, mun koma í ljós, að þjóðfélagið þarf meira á hælinu að halda en það á þjóðfélaginu. Þá verður farið að leita að sökudólgum uppákomunnar, sem varð í kerfinu í síðustu viku.

Fyrir Náttúrulæknifélagið er eðlilegast að nota þetta tækifæri til að stefna að samstarfsslitum við ríkisvaldið og breyta heilsuhælinu í heilsuhótel, þar sem erlendir heilsuleysingjar geta fengið að borga fyrir heilsubót, sem er meiri en fæst víðast annars staðar í kerfinu.

Einnig er brýnt, að Náttúrulækningafélagið höfði mál gegn Læknafélaginu, sem hefur nú hafizt handa í annað sinn síðan það rak Sigvalda Kaldalóns úr félaginu sællar minningar. Tímabært er að fara að sækja einokunarfélög stétta til skaðabóta fyrir brottrekstrarhótanir.

Læknafélagið hefur hótað félagsmönnum brottrekstri, ef þeir sæki um störf á hælinu. Ef þetta ofbeldi félagsins stenzt gagnvart lögum, er brýnt að setja lög á Alþingi, sem banna slíkt ofbeldi stéttarfélaga. Það eru fleiri en læknar, sem verða siðblindir í félagsskap.

Ágreiningur lækna hælisins við hjúkrunarstjóra og hælisstjórn byggist á yfirfærslu AA-áfengisvarna á ofát, svo sem gert er í svokölluðum OA-samtökum. AA- aðferðin er raunar áhrifamesta og gagnlegasta lækningaaðferð, sem tekin hefur verið í notkun hér á landi.

Vísindalega séð verður AA-aðferðin ekki talin vera fyllilega sönnuð, þótt nærri fari. Meiri óvissa er um OA-yfirfærsluna, en hún er hættuminni en margt annað og ætti að njóta velvildar vafans. Að líkja þessum aðferðum við kukl er hroki úr læknum, sem lítið kunna.

Ef gera ætti fulla sönnunarkröfu á hendur öllum aðferðum við lækningar, er ljóst, að Bláa lónið á sér enga framtíð í kerfinu. Ef á að gera slíka kröfu á hendur öllum lyfjum, sem læknar vísa á, er hætt við að mikil hreinsun verði og ef til vill brýnni en sum önnur.

Ríkisendurskoðun hefur brotið bókhald hælisins til mergjar. Hvað snertir persónulegar ávirðingar hefur hún skýrt frá, að forstjórinn noti dýran forstjórabíl og hafi mikinn símakostnað. Ennfremur, að starfsfólk fái að borða í mötuneyti hælisins og kaupa þaðan mat.

Ef ekki er um annað að ræða af slíku tagi, ætti Ríkisendurskoðun að færa heilsuhælinu skrautritað skjal fyrir að vera til fyrirmyndar í skorti á persónulegri græðgi þess fólks, sem ber félagslega ábyrgð á rekstri heilsuhælis Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði.

Stóra málið í þessu dæmi er fjármögnun stofnkostnaðar. Um hana hefur lengi verið fjallað um í daggjaldanefnd og hafa menn ekki verið á eitt sáttir um þá málsmeðferð, sem hefð er komin á eftir mörg ár og áratugi. Hún hefur hingað til ekki verið talin glæpsamleg.

Sjúkrahús í eigu ríkisins fá fé til stofnkostnaðar á fjárlögum ríkisins. Þess vegna er stofnkostnaður þeirra ekki reiknaður til daggjalda. Stofnkostnaður við uppbyggingu hælisins í Hveragerði er hins vegar ekki á fjárlögum, þar sem það er ekki í eigu ríkisins.

Að grunni til er hælið í Hveragerði gjöf hugsjónafólks til Náttúrulækningafélagsins og árangur happdrættis þess félags. Eftir að þrengdist um á happdrættismarkaði hefur frekari uppbygging komið að mestu frá hinum umdeildu viðbótardaggjöldum, sem sumir segja ólögleg.

Ef ríkið og Læknafélagið ræna hælið hefðbundnum starfsvettvangi þess, mun þjóðfélagið tapa, en í staðinn munu græða útlendingar, sem hafa efni á að borga.

Jónas Kristjánsson

DV

Davíð og Gorbatsjov

Greinar

Davíð Oddsson hefur komizt að raun um, að erfiðara er að fást við lénsherrana í þingflokki sjálfstæðismanna en áður var að fást við liðsforingjana í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna og að agaleysi þingflokksins getur líka hlaupið í hlýðinn borgarstjórnarflokk.

Davíð hefur rekið sig á kerfisbundinn vanda, sem á rætur í kjördæmaskipuninni. Efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í hverju kjördæmi má heita öruggur um þingsæti, hvað sem tautar og raular. Hann sækir vald sitt til kjördæmis, en ekki til flokksformanns.

Efsti maður á lista flokksins í hverju kjördæmi þarf helzt að skaffa, ef kjördæmið er ekki Reykjavík eða Reykjanes. Hann þarf að gæta þess, að kjördæmið verði ekki út undan, þegar úthlutað er herfangi hafnarsporða og skólahúsa. Það gerir hann traustan í sessi.

Þingmaðurinn þarf ekki að vera vinsæll meðal almennings í héraði. Hann þarf að hafa sæmilegt traust meðal helztu oddvita sinna heima í héraði og vera duglegur við að leysa vanda sveitarstjórna. Að öðru leyti þarf hann ekki að vinna sig í álit meðal kjósenda.

Sverrir Hermannsson var svo óvinsæll, að fylgishlutdeild Sjálfstæðisflokks á Austurlandi minnkaði kosningar eftir kosningar, meðan hann var efsti maður listans, og varð að lokum langminnst á landinu. Samt var hann traustur í sessi, varð ráðherra og síðan bankastjóri.

Þegar Sverrir var hættur, byrjaði fylgishlutdeild flokksins í kjördæminu að vaxa á nýjan leik. Hið sama gerist sennilega með fylgishlutdeild flokksins á Norðurlandi eystra, sem hefur minnkað undir forustu Halldórs Blöndal. Þegar hann hættir, fer fylgið aftur að vaxa.

Það var ekki Egill á Seljavöllum, sem var verðlaunaður með ráðherratign fyrir aukna fylgishlutdeild á Austurlandi. Það var Halldór Blöndal, sem fékk ráðherraverðlaun fyrir ósigur á Norðurlandi eystra og fyrir met í útstrikunum. Markaðslögmálin eru skrítin í pólitík.

Þingflokkur sjálfstæðismanna er fullur af svona smákóngum. Þeir réðu því, að andstæðingar Davíðs Oddssonar frá formannskjöri fengu þrjú ráðherraembætti af fimm, og að enginn stuðningsmaður Davíðs náði slíku embætti. Þingflokkurinn fór sínu fram gegn vilja Davíðs.

Smákóngar, sem sækja vald sitt heim í hérað, en ekki til flokksformanns, réðu því líka, að frambjóðandi formannsins til formennsku í utanríkismálanefnd féll fyrir fyrrverandi talsmanni flokksins í nefndinni. Hann fékk fimmtán atkvæði gegn ellefu atkvæðum hins.

Ofan á allt þetta á hinn nýi formaður afar erfitt með að standa við samkomulag við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn. Halldór Blöndal neitar að láta af hendi landgræðslu og skógrækt til hins nánast verkefnislausa umhverfisráðuneytis. Og við þessa neitun situr.

Í gömlum smákóngaklúbbi á borð við þingflokk sjálfstæðismanna gilda óskrifuð lögmál um starfsaldur og langvinna slípun í samstarfi smákónga. Í þessum hópi er hinn nýi formaður eins og hver annar nýliði, sem siða þarf og laga að venjum og háttum þingflokks.

Á sama tíma hefur losnað svo um tök formannsins á liði hans í borgarstjórn, að það neitar að samþykkja borgarstjóraefni hans. Því máli hefur nú verið skotið á frest, meðan reynt verður að sætta málið. Þegar kötturinn er farinn, bregða mýsnar á leik.

Valdasöfnun Davíðs minnir á Gorbatsjov í Sovétríkjunum, sem hleður á sig titlum, en fær samt ekki við neitt ráðið, því að ýmsir smákóngar ráða ferðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Samflotið er gleymt

Greinar

Spánverjar hafa hér á landi verið gerðir að blóraböggli í umræðunni um kröfu Evrópubandalagsins um veiðiheimildir í efnahagslögsögu Íslands. Þeir eru sagðir sýna svo mikla óbilgirni, að viðræður um evrópskt efnahagssvæði séu um það bil að fara út um þúfur.

Erlendis beinist gagnrýnin ekki síður að Íslendingum. Til dæmis vara sænskir fjölmiðlar við því, að ólund Íslendinga í fiskveiðimálum sé þröskuldur í vegi þess, að önnur ríki álfunnar nái saman. Þannig er Íslendingum stillt upp við vegg á svipað hátt og Spánverjum.

Sérstök áhugamál Íslendinga og Spánverja gera viðræður Evrópubandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna flóknari en ella. Samt má ekki gleyma, að það eru samningamenn annarra ríkja, sem hafa teflt málinu í þá stöðu, að sjávarútvegsmál mæta afgangi.

Það hentar hinum stóru í samningaviðræðunum að gera Spánverja og Íslendinga að blóraböggli. Það auðveldar til dæmis Svíum að segja eftir á, að Íslendingar geti sjálfum sér um kennt að hafa verið skildir eftir, þegar komið verður á fót evrópsku efnahagssvæði.

Þótt réttlæti skipti litlu í samningum þessum, er réttlæting afar mikilvæg. Hinir stóru aðilar telja sig þurfa að geta útskýrt, af hverju Íslendingar verða skildir eftir, þótt oft hafi verið fullyrt, að ríki Fríverzlunarsamtakanna mundu ekki láta neinn félagann sitja á hakanum.

Fulltrúar Íslands hafa löngum fjallað um, að Íslendingar mundu hafa mikið gagn af ákvörðun Fríverzlunarsamtakanna um strangt samflot ríkja þess í viðræðum um evrópskt efnahagssvæði. Nú er komið í ljós, að hin fagra ákvörðun um samflot er gleymd og grafin.

Nú er opinberlega talað um það sem hvern annan sjálfsagðan hlut, að Íslendingar og Svisslendingar kunni að hætta við aðild og að önnur ríki Fríverzlunarsamtakanna gerist aðilar að efnahagssvæðinu. Klofningurinn, sem reynt var að forðast, er orðinn að staðreynd.

Þetta þýðir, að efnahagssvæðið verður skammvinnt forspil að inngöngu Svía og Austurríkismanna og síðan Finna og Norðmanna í sjálft Evrópubandalagið. Svisslendingar og Íslendingar munu hins vegar sitja eftir í tilgangslitlum rústum Fríverzluanrsamtakanna.

Enginn, sem kynnir sér málin, efast um, að sjónarmið Íslendinga eru sanngjörn, enda í samræmi við, að jafnvægi sé í samningum. Við fáum svo lítið út úr þeim umfram það, sem við höfum þegar í viðskiptasamningi, að veiðileyfi handa Spánverjum koma ekki til geina.

Okkar menn í viðræðunum hafa boðið betri aðgang Evrópuþjóða að íslenzkum markaði fyrir sínar iðnaðar- og búvörur gegn betri aðgangi okkar að Evrópu með okkar sjávarútvegsvörur, svo sem saltfisk. Þetta er sanngjarnt boð um markað gegn markaði.

Krafa Evrópubandalagsins um veiðiheimildir við Ísland er allt annarrar ættar, enda hefur bandalagið ekki boðið okkur slíkar heimildir hjá Spánverjum gegn þeim heimildum, sem þeir krefjast af okkur. Þetta vita allir, en því miður skiptir réttlæti og sanngirni litlu máli.

Ef við verðum skildir eftir af hálfu annarra ríkja Fríverzlunarsamtakanna, þrátt fyrir fyrra samkomulag, verður reynt að kenna þrjózku okkar um, hvernig fór. Undirbúning þess má þegar sjá í sænskum fjölmiðlum, sem endurspegla líklega sænsku samninganefndina.

Ávinningur okkar af efnahagssvæðinu er svo lítill, að við megum ekki láta taka okkur á taugum í þeim mótbyr, sem við höfum á lokastigi viðræðnanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Efnahagssvæði er torsótt

Greinar

Utanríkisráðherrar ríkja Evrópubandalagsins reyndust ófáanlegir til að falla frá kröfu um veiðiheimildir í lögsögu Íslands, þegar þeir hittust í Bruxelles á mánudag til að undirbúa annan fund hinn sama dag með utanríkisráðherrum ríkja Fríverzlunarsamtakanna.

Sumir þessara utanríkisráðherra höfðu áður haft góð orð um það, hver í sínu lagi, að sjónarmið Íslendinga um engar veiðiheimildir í efnahagslögsögunni væru skiljanleg og sanngjörn í sérstöðu Íslands. Góð orð þeirra reyndust lítils virði, þegar á hólminn kom.

Í ljós kom, að ekki eru allir viðhlæjendur vinir, ekki frekar í fjölþjóðamálum en í öðrum stjórnmálum. Það er ótryggt að telja sig eiga fasteign í brosi, svo sem DV hefur áður bent á, þegar Evrópubandalagið hefur verið til umræðu. Já í gær getur þýtt nei á morgun.

Evrópska efnahagssvæðið strandar þó ekki á þessu máli einu. Hér í blaðinu hefur verið bent á, að meðal ráðamanna Evrópubandalagsins sé ekki áhugi á slíku svæði. Þeir telja, að það muni tefja tilraunir þeirra til að steypa Evrópubandalaginu í samstæðrari heild.

Ráðamenn Evrópubandalagsins telja sig verða að gera sér upp áhuga á evrópsku efnahagssvæði. Slíkar viðræður hafa einnig þann kost í augum þeirra, að þær tefja fyrir, að þeir þurfi að taka efnislega afstöðu til áhuga ríkja Austur-Evrópu á aðild að bandalaginu.

Ráðamenn Evrópubandalagsins telja sig eiga allra kosta völ, því að þeir þurfi hvorki á ríkjum Fríverzlunarsamtakanna né Austur-Evrópu að halda. Þessir aðilar þurfi hins vegar á Evrópubandalaginu að halda, svo sem sjáist af áhuga margra ríkja á beinni aðild að því.

Við höfum lélega samningsaðstöðu, af því að Evrópuviðskipti okkar eru tæplega mælanleg í samanburði við önnur Evrópuviðskipti. Ráðamönnum bandalagsins er sama, hvort við lifum áfram í velsæld fríverzlunar eða föllum niður í fátækt einangrunar og ytri tollmúra.

Við þetta bætist, að ýmsir ráðamenn Evrópubandalagsins telja heppilegt að kúga veiðiheimildir út úr Íslendingum, öðrum til viðvörunar og eftirbreytni. Þeir vilja, að umheimurinn, þar með Japan og Bandaríkin, skjálfi fyrir hinu volduga tollmúrabandalagi.

Ekki kemur til greina, að við veitum veiðiheimildir. Þess vegna er skynsamlegt að búa sig undir þann möguleika, að við verðum ekki aðilar að evrópsku efnahagssvæði, ef það verður að veruleika, og enn síður aðilar að sjálfu Evrópubandalaginu, þótt aðrir hlaupi inn.

Við getum reynt að benda Evrópubandalaginu á, að áhugavert sé að ræða við okkur um sölu á raforku um streng til Evrópu. Þetta er nýtt atriði, sem lítið hefur verið talað um, en má flagga meira í náinni framtíð. Það mundi gefa okkur meiri tekjur en ný álver.Við ættum líka að sætta okkur við tilhugsunina um tollfrjálsan innflutning á erlendri búvöru á móti tollfrjálsum fiskútflutningi. Við mundum spara milljarða á hverju ári með því að setja sauðfjár- og kúabændur á eftirlaun og hætta landeyðingu á afréttum landsins.

Meðan við erum að tregðast við að sætta okkur við þessa tilhugsun, er gæfulegast að einblína ekki á aðild að efnahagssvæðum eða efnahagsbandalögum, heldur reyna að verja fríverzlunarsamninga, sem til eru, svo sem viðskiptasamninginn við Evrópubandalagið.

Okkur henta hvorki efnahagssvæði né afmörkuð og tollmúruð efnahagsbandalög, heldur gagnkvæm og víðtæk fríverzlun til allra átta, yfir öll höf.

Jónas Kristjánsson

DV

Beitilandsstofnun

Greinar

Á móti 2000 hekturum, sem árlega eru klæddir gróðri hér á landi, tapast 3000 hektarar, þannig að árlegt heildartap á gróðri er um 1000 hektarar, einkum af völdum ofbeitar sauðfjár. Þetta minnir á fátæku löndin sunnan við Sahara í Afríku, þar sem eyðimörkin færist í aukana.

Þetta breytist ekki fyrr en raunveruleg landgræðslustofnun á vegum umhverfisráðuneytis kemur í stað beitilandsstofnunarinnar í Gunnarsholti, sem rekin er á vegum landbúnaðarráðuneytisins, er lítur á sig og stofnanir sínar sem hagsmunaaðila sauðfjárræktar.

Beitilandsstofnunin í Gunnarsholti notaði þjóðargjöfina frá 1974 að mestu til að gera bændum kleift að reka fleira sauðfé á fjall en afréttir hefðu annars þolað. Sauðféð hnappaðist á uppgræðslusvæðin eins og í rétt að hausti og át gjöfina nokkurn veginn jafnóðum.

Beitilandsstjórinn í Gunnarsholti hefur stutt þá, sem reyna að bera blak af sauðfénu. Hann hefur talað um gróðureyðingu af völdum eldgosa og ills árferðis, rétt eins og slíkt hafi ekki tíðkazt fyrir landnám, þegar gróður var tvöfalt víðáttumeiri en hann er núna.

Sumir trúa ekki, að landið hafi við landnám verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Sönnunargögn eru þó til fyrir því, að á landnámsöld var gert til kola á Kili, svo að þar hefur þá verið sæmilegt kjarr. Breytingin, sem varð við landnám, fólst í skógarhöggi og sauðfjárbeit

Beitilandsstofnunin hefur ekki heldur staðið sig við að varðveita friðlönd, sem henni hefur verið trúað fyrir. Hún hefur ekki höfðað mál gegn sauðfjármönnum, sem rifu landgræðslugirðingu á Auðkúluheiði, né þeim, sem hafa beitt friðaða Austurafrétt á vorin.

Stofnanir á borð við Landgræðslu ríkisins nýtast ekki til landgræðslu, af því að þær taka meinta hagsmuni landbúnaðarins alltaf fram fyrir hagsmuni þjóðarinnar. Og ekkert vit færist í umhverfismál, fyrr en þau verða leyst úr álögum sauðfjárræktarráðuneytisins.

Íslenzkar heiðar geta aftur orðið blómlegar eins og þær voru við landnám. Það sjáum við bezt á Hornströndum og Ströndum norðanverðum, sem hafa breytzt í gróðurvin við hvarf sauðfjárræktar úr héraði. Það þarf einfaldlega að friða heiðarnar fyrir þjóðaróvininum.

Brýnast er að loka viðkvæmum móbergssvæðum, svo sem afréttum Gullbringu- og Kjósarsýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Þingeyjarsýslu, en einnig er of mikið álag á afréttum Skagafjarðar og Húnavatnssýslna. Loka þarf svæðum til að þau nái að gróa.

Enginn árangur er hins vegar af þeirri stefnu Alþingis, landbúnaðarráðuneytis og beitilandsstofnunarinnar í Gunnarsholti að dreifa fræi og áburði úr lofti yfir opin afréttarsvæði. Sauðféð étur þetta allt. Þannig fór forgörðum hin mikla þjóðargjöf frá 1974.

Af þessum ástæðum er brýnt, að landgræðsla losni úr álögum landbúnaðarráðuneytisins og öðlist frelsi í umhverfisráðuneyti, þar sem hagsmunir sökudólgsins eru ekki hafðir í hávegum. Að öðrum kosti er marklaust að hafa sérstakt umhverfisráðuneyti á Íslandi.

Því miður virðist svo sem hin nýja ríkisstjórn muni engu breyta í betra horf í þessu efni. Heiðursmannasamkomulag flokksformanna nær skammt, þegar illvígir hagsmunir eru í húfi. Þess vegna mun málið verða kjaftað í hel með því að setja það í nefnd á nefnd ofan.

1000 hektara gróðurtapi á ári verður ekki snúið í 1000 hektara gróðurauka á ári fyrr en eftir að landgræðsla ríkisins hefur verið frelsuð úr klóm sauðfjárræktar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ruðum kastað í pakkið

Greinar

Bifreiðaskoðun Íslands er nánast fullkomið dæmi um orð og borð íslenzkra stjórnmála. Menn kvarta um okur hennar og heimta afslátt, svo að þeytt er í þá ruðum af nægtaborði þessarar einokunarstofnunar, sem sameinar allt hið versta úr ríkis- og einkarekstri.

Samkvæmt rökum formanns Neytendasamtakanna má ráða, að vandamálið felist í, að Bifreiðaskoðunin græði peninga. Ef það er vandamálið, er einfaldast fyrir stofnunina að færa sig yfir í rekstrarvenjur ríkisfyrirtækja og gera reksturinn óhagkvæmari og arðminni.

Bifreiðaskoðun Íslands getur ráðið fleiri silkihúfur og möppudýr til að snúast í kringum sig. Hún getur brennt peningum eins og hvert annað ríkisfyrirtæki. Ef hún gerði það, mundi formaður Neytendasamtakanna ekki geta sótt neinar ruður í hennar garð.

Vandamál Bifreiðaskoðunarinnar er ekki fólgið í, að hún græði peninga. Vandamálið felst í sjálfri tilvist stofnunarinnar, sem er alger tímaskekkja í nútímaþjóðfélagi. Tilvistin hlýtur að leiða til vandræða, annaðhvort í okri eða sukki. Okrið er illskárri kosturinn.

Bifreiðaskoðun Íslands er rekin sem einkafyrirtæki, hlutafélag, er metur sjálft fjárþörf sína, en hefur um leið algera og ríkisverndaða einokun á sínum markaði. Bifreiðaeigendur geta ekki snúið sér neitt annað til að fá aðalskoðun á bílum og verða að greiða skráð gjöld.

Ef stofnunin væri rekin eins og hvert annað ríkisfyrirtæki, hefði hún sama aðhald og önnur slík fyrirtæki; fjármálaráðuneytið bannaði því mannaráðningar og hlutaðist til um kjör starfsmanna, skæri niður fjárhagsáætlanir og neitaði því um leyfi til framkvæmda.

Bifreiðaskoðun Íslands hefur hvorki aðhaldið, sem venjulegar ríkisstofnanir hafa að ofan, né aðhaldið, sem einkafyrirtæki í samkeppni hafa frá ytri markaðslögmálum. Þannig sameinar hún verstu eiginleika þessara tveggja rekstrarforma í eitt fáránlegt fyrirbæri.

Auðvitað felst lausnin í að leggja niður þessa einokunarstofnun og flytja skoðunina til bílaverkstæða landsins, sem eru hluti af markaðskerfinu. Samhliða þeim þarf að vera til fámenn eftirlitsstofnun ríkisins, sem fylgist með, að bílaverkstæði vandi sig við skoðun.

Núverandi iðnaðarráðherra var dómsmálaráðherra á sínum tíma og kom þá á fót þessari sérkennilegu stofnun. Alþingi samþykkti, að henni yrði komið á fót. Þá vakti athygli, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ímynduðu sér, að þeir væru að einkavæða ríkisgeirann!

Meðvitundarleysi þingmanna á sínum tíma minnir mjög á nærsýni Neytendasamtakanna. Þingmenn gerðu sér enga grein fyrir eðli stofnunarinnar, sem þeir voru að samþykkja, og formaður Neytendasamtakanna gerir sér ekki heldur neina grein fyrir því.

Hér í blaðinu var á sínum tíma varað við stofnun Bifreiðaskoðunarinnar. Síðan hefur nokkrum sinnum verið hér í blaðinu bent á, að ferill stofnunarinnar væri eins og vænta mátti. Svipuð gagnrýni hefur víðar komið í ljós. Samt fást menn ekki til að skilja vandann.

Menn væla um okur stofnunar, sem þeir áttu að koma í veg fyrir, að yrði stofnuð. Menn væla líka um of háa vexti, þótt þeir hafi stutt ríkissukkið, sem leiddi til hækkunar vaxta. Að því leyti minnir neytendaformaðurinn á formann bandalags opinberra starfsmanna.

Niðurstaðan er sú, að kerfið bítur á jaxlinn, kastar ruðum í pakkið og einsetur sér að framleiða fegurri reikninga á næsta ári. Meinsemdin verður bara verri.

Jónas Kristjánsson

DV

Tækifæri til siðvæðingar

Greinar

Hinn nýi dómsmálaráðherra hefur ógilt þrjár stöðuveitingar fyrrverandi dómsmálaráðherra og hefur þá fjórðu til endurskoðunar. Allar voru þessar stöður veittar á elleftu stundu, þegar ráðherrann var að fara frá völdum, og allar féllu þær í hlut flokksfólks hans.

Þótt menn kalli ekki allt ömmu sína í pólitískri spillingu á Íslandi, keyrði um þverbak hjá fyrrverandi dómsmálaráðherra. Afturköllun stöðuveitinganna er dæmi um, að takmörk séu fyrir því, hvað hægt sé að ganga langt gegn góðum siðum í meðferð ráðherravalds.

Afturköllunin má hins vegar ekki leiða til, að nýir ráðherrar telji sig almennt geta ógilt gerðir forvera sinna, ef þeim líkar þær ekki. Þess vegan er mikilvægt, að ekki verði látið við ógildinguna sitja, heldur verði settar reglur um, hvernig ógilda megi ráðherraðgerðir.

Íslendingar eru svo frumstæðir í siðferði, að losarabragur býður hættunni heim. Bezt er, að til séu sem skýrastar reglur um, hver séu mörk réttrar beitingar og misbeitingar ráðherravalds og í hvaða tilvikum megi ógilda gerðir ráðherra, sem hafa misst embætti sitt.

Setja þarf reglur um ýmislegt fleira, sem hingað til hefur verið talið á gráu svæði milli siðferðis og siðleysis, einkum í þeim tilvikum, að ráðherrar hafa hneigzt til að ganga á lagið í siðleysi. Aukin þáttaka ríkissjóðs í kosningabaráttu ráðherra er skýrt dæmi um þetta.

Ferðalög starfsmannastjóra forsetaembættis Bandaríkjanna hafa leitt til umræðu þar í landi um, hver séu mörk ferðalaga í opinberri þágu, í flokksþágu og einkaþágu. Einnig hefur komið í ljós, að þar í landi eru til reglur um aðskilnað þessara þriggja ferðategunda.

Æskilegt er, að hin nýja ríkisstjórn setji hér á landi svipaðar reglur, er geri ráð fyrir, að stjórnmálaflokkar endurgreiði ríki, þegar ráðherra ferðast til flokksfunda og að hann endurgreiði sjálfur ríkinu, þegar hann ferðast í einkaerindum, ef ríkið hefur lagt út fyrir ferðunum.

Aðgerðaleysi í þessu efni vekur ugg um, að hin nýja ríkisstjórn hafi takmarkaðan áhuga á bættu siðferði í stjórnmálum og að einstakir ráðherrar séu jafnvel að gæla við að misnota aðstöðu sína á svipaðan hátt og sumir ráðherrar fráfarandi ríkisstjórnar urðu frægir af.

Ef ekki er gripið í taumana, hafa slík atriði tilhneigingu til að versna smám saman. Eftirmenn telja sig geta hagað sér eins og fyrirrennarar og sumir túlka mál á þann veg, að þeir ganga í raun heldur lengra. Siðleysi er ennfremur afar smitnæmur sjúkdómur.

Svipaðar reglur þarf að setja um veitingar og aðra risnu. Setja þarf mörk milli þess, sem gert er í þágu ríkisins, í þágu flokksins og í þágu sjálfs ráðherrans, svo að ríkið sé ekki að greiða flokksveizlur og einkaboð ráðherra, svo sem tíðkaðist í tíð fráfarandi ríkisstjórnar.

Ekki er síður mikilvægt, að settar verði á blað einfaldar reglur um, hver séu mörk kynningarstarfs ráðuneyta og áróðurs ráðherra í kosningabaráttu. Misnotkun ráðherravalds til útgáfu á bæklingum fyrir Alþýðubandalagið keyrði um þverbak í síðustu ríkisstjórn.

Ef tækifærið verður ekki notað til siðvæðingar núna eftir kosningar, er hætt við, að freistingin læðist að sumum núverandi ráðherrum, þegar næst dregur að kosningabaráttu. Bezt er að leysa málið strax, því að allir tapa að lokum, ef spillingin nær að festa sig í sessi.

Því miður bendir fátt til, að hin nýja ríkissjórn hyggist setja siðareglur um meðferð ráðherravalds, svo að átæða er til að óttast, að hún lendi líka í svínastíunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Óbreytt stjórnarfar

Greinar

Nýja ríkisstjórnin ætlar greinilega að feta í spor síðustu ríkisstjórnar. Hvorki í málefnasamningi nýju ríkisstjórnarinnar né í yfirlýsingum ráðherra hennar má finna neitt, sem bendir til markverðra frávika frá því stjórnarfari, sem hér hefur verið á undanförnum árum.

Þjóðarsátt á vinnumarkaði, kvótakerfi í sjávarútvegi, búvörusamningar í landbúnaði og andstaða við aðild að Evrópubandalaginu voru þau meginatriði í stefnu síðustu ríkisstjórnar, sem helzt gátu talizt umdeilanleg. Á öllum þessum sviðum verður stefnan óbreytt.

Segja má, að vaxtastefna hinnar nýju ríkisstjórnar sé nær hefðbundinni hagfræði. Hafa verður þó í huga, að tregða síðustu ríkisstjórnar við að halda jafnvægi í vöxtum byggðist fyrst og fremst á ótta við, að hækkun vaxta hefði slæm áhrif á kjósendur í kosningunum.

Nú eru kosningarnar að baki, kjósendur farnir heim og aftur kominn grundvöllur fyrir heilbrigðri vaxtastefnu. Efast má um, að gamla stjórnin hefði haldið áfram að tefja vaxtahækkun, ef hún væri nú við völd og stæði andspænis hruni á sölu ríkisvíxla.

Á undanförnum misserum hefur ríkisvaldið talið sig þurfa stóraukið lánsfé. Þessi þrýstingur á lánamarkað hlýtur að leiða til hækkunar vaxta, þótt síðasta ríkisstjórn hafi neitað að horfast í augu við þá afleiðingu gerða sinna, af hefðbundnum ótta við kjósendur.

Í Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki er mikil andstaða við búvörusamning í landbúnaði og kvótakerfi í sjávarútvegi. Þessarar andstöðu sér engin merki í fyrstu sporum hinnar nýju ríkisstjórnar. Þvert á móti eru öll teikn á lofti um óbreytta og úrelta stefnu í þeim efnum.

Sjávarútvegsráðherra hinnar nýju ríkisstjórnar hefur sérstaklega tekið fram, að kvótakerfið verði óbreytt að sinni, þótt fræðimenn hafi stutt góðum rökum, að umtalsverðra breytinga sé þörf. Og eignarhaldi útgerðarmanna á auðlind þjóðarinnar verður ekki haggað.

Landbúnaðarráðherra nýju stjórnarinnar var í stjórnarandstöðu þekktur að yfirboðum í fjárheimtum hins hefðbundna landbúnaðar á hendur skattgreiðendum og neytendum. Erfitt er að sjá, að hann muni raska hinni sjálfvirku verðmætabrennslu í landbúnaði.

Vera kann, að nýja ríkisstjórnin setji skorður við fjármálasukki, sem tíðkaðist á síðari hluta ferils fráfarandi fjármálaráðherra. En það eru embættismenn í fjármálaráðuneyti, en ekki nýju ráðherrarnir, sem hafa lagt til, að settar verði skorður við óhóflegri seðlaprentun.

Ekkert bendir til, að nýja stjórnin hyggist takast á við losaralegar starfsreglur, sem gerðu fráfarandi dómsmálaráðherra kleift að setja Íslandsmet í spillingu. Hún ætlar ekki heldur að setja reglur um að skilja á milli ferða- og risnukostnaðar ríkis, flokka og einstaklinga.

Nýja ríkisstjórnin minnir um fæst á fyrri Viðreisnarstjórn þessara sömu flokka. Sú stjórn keyrði í gegn merkustu umbætur hagsögunnar, en nýja stjórnin hyggst breyta sem fæstu. Hún minnir meira á helmingaskiptastjórnir Sjálfsstæðis- og Framsóknarflokks.

Ríkisstjórnin er fyrst og fremst hagkvæmnishjónaband. Steingrímur Hermannsson hefði aðeins getað boðið Alþýðuflokknum þrjú ráðherrasæti í fjögurra flokka vinstri stjórn. Davíð Oddsson gat hins vegar boðið honum fimm ráðherrasæti. Þetta er kjarni málsins.

Efnislega skiptir litlu, hvaða flokkar eru við stjórn. Þeir eru nokkurn veginn alveg eins. Ráðherraefnin eru hins vegar önnur og um það snúast íslenzk stjórnmál.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki einir í heiminum

Greinar

Eftir íslenzku þingkosningarnar var í nokkrum japönskum dagblöðum á ensku hægt að fylgjast daglega með úrslitum og stjórnarmyndunartilraunum. Þetta var ekki hægt í bandarísku dagblaði, sem þó er gefið út fyrir fjölþjóðamarkað, International Herald Tribune.

Þetta stafar ekki af, að dagblaðið sé svo lélegt, heldur af þröngum sjóndeildarhring Bandaríkjamanna. Þar eru erlendar fréttir fjölþjóðafréttir og aðrar fréttir, er varða hagsmuni Bandaríkjanna, en ekki fréttir, sem eru bundnar við einstök lönd, svo sem kosningar á Íslandi.

Þeir, sem eru staddir í Japan og hafa áhuga á evrópskum íþróttum, geta fylgzt með þeim í hinum enskskrifuðu dagblöðum þar. Þeir geta það miklu síður í bandaríska alþjóðablaðinu International Herald Tribune, sem er upptekið af amerískum hornabolta og öðru slíku.

Þessi mismunur stafar af, að Japanir líta ekki á sig sem sjálft mannkynið, heldur íbúa eyjar út í hafi, háða umheiminum á ýmsa vegu. Þetta gera Íslendinga líka og þess vegna eru íslenzkir fjölmiðlar fullir af erlendum fréttum, sem hvorki varða Ísland beint eða óbeint.

Af framgöngu Bandaríkjamanna í útlöndum má sjá, að sumir þeirra eru beinlínis hneykslaðir, ef starfsfólk í erlendum ferðaiðnaði, svo sem á flugvöllum í Japan, getur ekki gert sig skiljanlegt á ensku. Þeir gera beinlínis kröfu til þess, að viðmælendur sínir tali á ensku.

Þessi sjálfsmiðjun Bandaríkjamanna veldur miklum erfiðleikum. Fulltrúar landsins læra ekki erlend tungumál og vita því minna en aðrir um hugsanir og skoðanir fólks í öðrum löndum. Þess vegna misreiknar bandarísk utanríkisþjónusta útlendinga hvað eftir annað.

Bandaríkjaforseti og bandaríska utanríkisráðuneytið byggðu á sínum tíma upp Saddam Hussein Íraksforseta sem mótvægi við erkiklerkana í Íran. Þegar hann tapaði Persaflóastríðinu vildu Bandaríkjamenn ekki eiga á hættu að Kúrdar og sjítar tækju völd í Írak.

Þess vegna var 700 skriðdrekum, 1500 brynbílum og öðrum stríðstólum sleppt úr herkví bandamanna, gegn vilja Frakka og Breta. Þessi vopn réðu úrslitum um, að Saddam Hussein tókst að brjóta uppreisnarmenn á bak aftur og efna til harmleiksins á svæðum Kúrda og sjíta.

Bush Bandaríkjaforseti var um tíma sendiherra í Kína og hefur síðan talið sér trú um, að hann hefði sérstakt vit á málefnum Kína. Afleiðingin er sú, að hinir elliæru glæpamenn, sem ráða ríkjum þar í landi, njóta beztu kjara og velvildar í viðskiptum við Bandaríkin.

Ceaucescu Rúmeníuforseti var annar vildarvinur Bandaríkjanna og naut hinna sömu reglna um beztu kjör í viðskiptum. Það var ekki fyrr en Rúmenar tóku Ceaucescu af lífi, að bandarísk stjórnvöld áttuðu sig á, hvernig fólk hugsaði í þessu fjarlæga landi.

Gorbatsjov hefur lengi verið í náðinni hjá Bandaríkjastjórn, þótt auðvelt sé að sjá, að hann skilur ekkert í efnahagsmálum og hefur sama sem engan stuðning almennings í Sovétríkjunum. Stjórn hans er dæmd til að mistakast að stemma stigu við hruni Sovétríkjanna.

Bandaríkjamenn urðu að hrökklast við illan leik frá Vietnam. Þeir urðu líka að hrökklast frá Líbanon. Nú hefur þeim tekizt að breyta sigri bandamanna í gífurlegan harmleik, sem mun árum og áratugum saman varpa miklum skugga á stjórnarferil George Bush forseta.

Slíkum vandræðum linnir ekki fyrr en Bandaríkjamenn hætta að líta á sig sem mannkynið og byrja að skoða sjálfa sig sem aðila að samfélagi þjóðanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Þetta er ykkur að kenna

Greinar

Kosningabaráttan var stutt, tæpar þrjár vikur, og snerist lítið um kosningaloforð, sem ekki er ætlunin að efna. Þar með eru taldir kostir kosningabaráttunar, sem var bæði dýr og leiðinleg, snauð af nokkru því, sem gæti vakið kjósendur til eldmóðs eða einbeitingar.

Steingrímur Hermannsson reyndi að flytja kosningabaráttuna suður á Rínarbakka með að gefa í kyn, að aðrir hefðu landráð í huga með ráðagerðum um inngöngu í Evrópubandalagið. Þetta tókst ekki, af því að hinir sögðust vera einangrunarsinnaðri en Framsókn.

Það er hins vegar fróðlegt mat á einangrunarstefnu kjósenda, að allir stjórnmálaflokkar auglýstu vanþóknun sína á Evrópubandalaginu og sumir fordæmdu jafnvel Evrópska efnahagssvæðið, sem Evrópubandalagið og Fríverzlunarsamtökin eru að reyna að koma á fót.

Yfirleitt var í kosningabaráttunni ekki gert ráð fyrir mikilli greind kjósenda. Lengst gekk Ólafur Ragnar Grímssonm, sem hélt uppteknum hætti, boðaði blaðamannafundi og hellti rugli og beinum ósannindum um fjármál ríkisins ofan í sjónvarpsfréttamenn.

Dæmi Ólafs sýnir, að enn er ríkt í stjórnmálamönnum, að þeir geti slegið fram hverju sem er, studdu marklausum tölum, töflum og línuritum, þótt fullyrðingar þeirra séu jafnóðum slegnar í kaf af töluglöggu fólki, sem ekki hefur hagsmuna að gæta í kosningabaráttunni.

Það er rétt hjá burtreiðamönnum kosninganna, að fólk lætur sig lítt varða um efniskjarna, en hefur þeim mun meiri áhuga á ýmsum aukaatriðum, en mest þó á þröngt afmörkuðum sérhagsmunum á borð við gat í fjall, lengdan hafnargarð og ríkisábyrgð á fjárglæfrum.

Pólitískur vanþroski er mikill hér á landi, svo sem endurspeglast í kosningabaráttunni. Utan Reykjavíkursvæðisins er því miður enn þann dag í dag algengast, að fólk líti á stjórnmál sem aðferð til að komast yfir peninga úr sameiginlegum sjóðum og dreifa herfanginu.

Nýju flokkarnir hafa ekki brotið hina hefðbundnu ramma, heldur hafa þeir tilhneigingu til að yfirbjóða gömlu flokkanna í óraunsæi og rugli. Þeir virðast ekki munu hafa árangur sem erfiði, enda ættu fimm flokkar að nægja utan um næsta óáþreifanlegan mismun.

Áhugi kjósenda á þröngum sérhagsmunum fer saman við jafnaðargeð þeirra andspænis spillingu stjórnmálamanna, sem nota sameiginlega sjóði í auknum mæli til að greiða kosningabaráttu flokka sinna, til að bæta eigin fjárhagsstöðu og til að hygla gælufyrirtækjum.

Kvennalistinn er eini fimmflokkurinn, sem ekki er spilltur, en hefur svo að öðru leyti á móti sér að vera með óvenju afturhaldshneigða stefnu. Þetta má orða svo, að ástæða sé til að óttast, að gömlu flokkarnir efni ekki loforð sín og að Kvennalistinn efni loforð sín.

Eftir kosningar verður ekki auðvelt að tína aftur saman þræðina. Samtals námu kosningavíxlar lánsfjárlaga þrettán milljöðrum ofan á þann tólf milljarða halla, sem þar var áður fyrir. Samtals nam seðalprentun fjármálaráðherra níu milljörðum króna á kosningavertíðinni.

Þessir kosningavíxlar munu leiða til verðbólgu og vaxtahækkana eftir kosningar, sama hvaða flokkar verða við stjórn, og hvað sem hinir sömu flokkar fullyrtu fyrir kosningar. Það verður mikið verk að basla saman nýrri þjóðarsátt, þegar víxlarnir gjaldfalla.

Það er hart aðgöngu, að kjósendur skuli vera svo skyni skroppnir, að kosningabarátta skuli þurfa að vera með þeim hætti, sem raun hefur orðið á að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Bush ber ábyrgðina

Greinar

Erfitt verður fyrir Evrópubandalagið að dæma Saddam Hussein Íraksforseta fyrir stríðsglæpi, nema honum fylgi annar valdamaður, sem hefur stutt hann dyggilega að undanförnu og studdi hann dyggilega fram á síðasta dag fyrir stríð. Það er George Bush Bandaríkjaforseti.

Þegar Íraksher var í rauninni búinn að gefast upp og var innilokaður á flótta í herkví bandamanna, töldu brezkir og franskir herstjórar, að sleppa ætti hermönnum Saddams án vopna úr herkvínni. Þeir tóku því af þeim vopnin, um leið og þeir hleyptu þeim í gegn.

Herstjórar Bandaríkjamanna voru hins vegar látnir sleppa þeim með öllum hergögnum úr kvínni. Nú er áætlað, að þannig hafi Schwarzkopf verið látinn hleypa í gegn 700 skriðdrekum, 1.400 brynvögnum og 340 fallbyssum. Þetta er nú uppistaða í sláturtækjum Saddams.

Það var ákvörðun beint að ofan að vernda kjarnann í hernaðarmætti hins sigraða. Bush tók þessa óskynsamlegu ákvörðun til að bæta stöðu súnníta og Ba’ath- flokksins, sem eru fulltrúar miðsóknarafls gegn miðflóttafli Kúrda í norðri og sjíta í suðri.

Bush og ráðgjafar hans skilja illa þjóðernisstrauma. Þeir þágu ráð konungsættarinnar í Saúdí-Arabíu og annarra furstaætta á Arabíuskaga, sem vildu ekki, að völd Kúrda, sjíta og lýðræðissinna ykjust í Írak, heldur vildu bara hallarbyltingu innan yfirstéttarinnar.

Þegar Íraksher gekk miður að fást við Kúrda og sjíta, tók Bush aðra örlagaríka ákvörðun, sem sneri stríðsgæfunni og breytti henni í sláturtíð. Bandaríkjaforseti ákvað að veita herþyrlum Saddams undanþágu frá fyrra banni við hernaði úr lofti gegn uppreisnarmönnum.

Þannig leiddi Bush hörmungar yfir Kúrda og sjíta. Hann tefldi valdaskák, sem stefndi að framhaldi á stjórn súnníta og Ba’ath-ista, með eða án Saddams Hussein. Hann hleypti fyrst hergögnum þeirra úr herkvínni og leyfði þeim síðan að beita þyrlum á uppreisnarmenn.

Fyrir og eftir stríð hefur stjórn Bush Bandaríkjaforseta neitað fulltrúum landflótta lýðræðissinna frá Írak um áheyrn. Hann vill ekki, að þeir trufli valdaskákina. Í þessu fylgir hann ráðum arabískra konunga og emría, sem vilja framhald miðaldastjórnarfars á svæðinu.

Bush lét nýlega reka embættismann, sem hafði skýrt bandarískri þingnefnd frá því, hvernig stjórn hans hafði sífellt neitað að hlusta á mótbárur og aðvarnir rétt fyrir stríð og hlaðið í þess stað vopnum og fjármagni á fulltrúa hins ríkjandi ástands, það er Saddam Hussein.

Vafalaust hefur komið Bush og utanríkisráðuneyti hans á óvart, hvað skjólstæðingurinn var harðskeyttur og her hans öflugur, þegar vopnunum var beint gegn eigin fólki. Í þokubotnum Washingtonbogar hafa menn reiknað með, að valdataflið yrði ekki svona blóðugt.

Mistök í valdatafli breyta ekki því, að Bandaríkjaforseti og utanríkisráðuneyti hans bera ábyrgð á blóðbaðinu í Írak. Blóð Kúrda og sjíta er á höndum Bush, hvort sem Evrópubandalgið setur upp stríðsglæparéttarhöld gegn skjólstæðingi hans einum sér eða ekki.

Menn fá ekki syndaflausn með að fleygja matarpökkum eins og poppkorni á gönguleiðir flóttamanna. Menn ná ekki heldur þeim árangri í valdatafli, sem stefnt var að með því að hleypa hergögnun Saddams úr herkvínni og skilja herþyrlur hans undan flugbanni.

Vanmat Bush á lýðræði, rangt mat hans á eftirstríðsstöðunni og tvenn örlagarík mistök í herfræðum hafa breytt Bush sigurvegara í Bush stríðsglæpamann.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýrar kosningar

Greinar

Þetta verða dýrar kosningar. Með hjálp stjórnarandstöðunnar fór ríkisstjórnin á taugum í marz og hefur gefið út hvern kosningavíxilinn á fætur öðrum. Samanlagt munu víxlarnir eyðileggja markmið þjóðarsáttarinnar og koma verðbólguöflum af stað á nýjan leik.

Ljósast er þetta af seðlaprentuninni. Fyrstu þrjá mánuði ársins hefur ríkissjóður farið úr 300 milljóna inneign í Seðlabanka niður í 8,6 milljarða skuld. Staðan hefur versnað um níu milljarða á þessum tíma. Á síðasta ári versnaði hún um þrjá milljarða á sama tíma.

Samt eru kosningaloforðin ekki enn gjaldfallin. Sparifjáreigendur eru hins vegar þegar farnir að halda að sér höndum. Þeir kaupa ekki ríkisvíxla, af því að þeir vita, að vextir þeirra eru of lágir og munu hækka eftir kosningar, þegar nýtt umboð vanþroska kjósenda er fengið.

Forsætisráðherra kemur stundum inn í raunveruleikann og er alltaf jafn hissa á, hvað allt sé ómögulegt, alveg eins og hann sé öllum stundum á öðrum hnöttum. Hann nöldrar um, að vextir séu of háir, og kemur þannig í veg fyrir nýjan sparnað til kaupa á ríkisvíxlum.

Önnur atriði hafa áhrif á tregðu sparifjáreigenda. Traust ríkissjóðs hefur minnkað. Menn óttast, að einn góðan veðurdag segi fjármálaráðherra, að framvegis muni hann borga 2% vexti, en ekki 6%. Eða þá, að hann segist alls ekki ætla að borga þessa ósanngjörnu víxla.

Fordæmið er fengið úr viðskiptum fjármálaráðherra og forsætisráðherra við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn. Fyrst sömdu þeir um ákveðin kjör og skrifuðu undir. Síðan tilkynntu þeir, að ekki mundi verða farið að samningum, og fengu það staðfest fyrir dómi.

Taugastríð pólitíkusa undir lok alþingis í marz hækkaði niðurstöðutölur lánsfjárlaga úr 12 milljörðum í 25 milljarða. Þetta var bein afleiðing þess, að kosningar voru framundan, en veldur því um leið, að ríkisstjórnin hefur ekki lengur neinar ekta rósir í hnappagatinu.

Samtals munu þessi áform stjórnvalda um auknar lántökur hins opinbera hækka vexti um 1,5% eftir kosningar og auka verðbólguna úr 7-8% í 12%. Þar með eru forsendur þjóðarsáttar foknar á braut. Þegar sjást merki um aukna ókyrrð á vinnumarkaði og peningamarkaði.

Það er í stíl við ruglið í pólitíkinni, að forsætisráðherra hefur flutt kosningabaráttuna suður á Rínarbakka. Hann segir kosningarnar vera þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópubandalaginu. Búast má við, að kjósendur trúi þessu sem hverju öðru nýju neti hans.

Ekki er að sjá, að stjórnarandstaðan hefði gert mikið betur. Hún hneigist fremur til yfirboða en tilrauna til að segja kjósendum sannleikann um, að kosningavíxlarnir séu hefndargjöf. Enginn talar um þau mál, sem raunverulega skipta þjóðina máli um þessar mundir.

Enginn þorir að tala um afnám opinbers stuðnings við hefðbundinn landbúnað og afnám innflutningsbanns á búvöru. Enginn þorir að tala um, hvað við getum boðið Evrópubandalaginu til að komast á frían tollasjó án þess að þurfa að láta veiðiheimildir af hendi.

Enginn þorir að tala um, að sjávarútvegurinn stendur á krossgötum, þar sem frystitogarar og fiskmarkaðir heima og erlendis eru að taka við af gamla kerfinu. Þetta getur fært þjóðfélaginu mikinn gróða um leið og það kippir fótum undan mörgum sjávarplássum.

Enginn þorir að tala um neitt, sem máli skiptir. Enda virðast kjósendur una því, að einkum sé fjallað um orðaleiki og aukatariði, en hvergi komið að kjarna máls.

Jónas Kristjánsson

DV

Menn og hagsmunir

Greinar

Stjórnmál snúast í stórum dráttum um þrennt, málefni, menn og hagsmuni. Síðasta atriðið, hagsmunirnir, skiptist svo aftur í stórum dráttum i þrennt, persónulega hagsmuni, flokkshagsmuni og hagsmuni aðila úti í bæ, aðallega fyrirtækja og samtaka af ýmsu tagi.

Málefni eru heldur léttvæg í baráttunni fyrir kosningarnar, sem verða eftir viku. Stærsti flokkurinn hefur uppgötvað, að hann nálgast guðsríki að stærð og þarf því margar vistarverur. Hann hefur því loðna stefnuskrá og minnist lítið á hana til að styggja engan.

Næststærsti flokkurinn beitir aðferðum Gorbatsjovs og segir kosningarnar vera þjóðaratkvæði um aðild að Evrópubandalaginu. Kjósendur eiga að telja sér trú um, að þessi flokkur sé líklegri en aðrir til að hafna aðild að Evrópubandalaginu, ef hún kemur síðar til álita.

Önnur málefni eru að mestu eins hjá flokkunum, ekki aðeins hjá þeim, sem munu koma mönnum á þing, heldur einnig hjá hinum, sem litla von hafa. Kvennalistinn er þó meira í mjúkum málum og í þvílíku afturhaldi í hörðum málum, að fé mun ekki aflast í mjúk mál.

Það eru menn, en ekki málefni, sem eru á oddi kosningabaráttunnar. Stærsti flokkurinn býður loksins upp á mann á móti manni næstststærsta flokksins. Kosningarnar snúast í raun um þessa tvo menn og hvor þeirra lendir í betri stjórnarmyndunarstöðu eftir kosningar.

Annað hvort myndar Steingrímur Hermannsson svipaða stjórn og nú, án þáttöku Sjálfstæðisflokksins, en með Kvennalista í stað Borgaraflokks, eða að Davíð Oddsson myndar stjórn með einum litlu flokkanna, líklega Alþýðuflokknum, sem er í þægilegri aðstöðu.

Erfitt er að hugsa sér, að rúm sé fyrir þessa menn báða í sömu ríkisstjórn, því að hvorugur þeirra getur haft hinn sem forsætisráðherra fyrir ofan sig. Er þess skemmzt að minnast, hversu friðlaus Steingrímur var með Þorstein sem forsætisráðherra fyrir þremur árum.

Þótt mennirnir séu hafðir á oddinum, leika hagsmunir þó undir niðri stærra hlutverk í kosningabaráttunni. Mikilvægastir eru þar persónulegir hagsmunir landsfeðranna og helztu hirðmanna þeirra í ráðuneytunum. Þeir þola ekki að missa beztu sætin við kjötkatlana.

Lífsstíll margra hangir á bláþræði í kosningunum. Hirðmennska gefur mun meiri tekjur en fengjust á vinnumarkaði, svo og aðstöðu til að hlutast til um hagi aðila úti í bæ. Peningar og völd eru nautnalyf, sem ráðherrar og hirðmenn eiga erfitt með að venja sig af.

Þetta veldur því, að þeir, sem ræða stjórnarmyndun eftir kosningar, hafa yfirþyrmandi hagsmuni af að komast að samkomulagi. Þess vegna munu þau málefni, sem voru léttvæg fyrir kosningar, verða einskis virði, þegar ráðherra- og hirðmannaefnin berjast um stólana.

Hagsmunir stjórnmálaflokka eru ekki eins áberandi, en skipta þó máli og eru vaxandi þáttur stjórnmálanna, ekki sízt eftir að ráðherrar Alþýðubandalagsins hafa kynnt nýjar leiðir fyrir stjórnmálaflokka til að komast yfir almannafé til útgáfu auglýsinga og bæklinga.

Ástandið er orðið svo spillt, að stjórnaraðilar ferðast milli kosningafunda með dýrum hætti á kostnað almennings, gefa út áróður sinn á kostnað almennings og halda pólitíska fundi á kostnað almennings, en stjórnarandstæðingar verða að borga allt sitt sjálfir.

Loks lifa fyrirtæki og atvinnugreinar á, að ekki sé raskað velferðarríki fyrirtækja, sem sýgur lífskjörin frá fólki. Um slíka hagsmuni snúast kosningarnar líka.

Jónas Kristjánsson

DV

Veruleikinn er betri

Greinar

Lífseig er sú skoðun meðal manna, sem eiga að vita betur, að kenningar séu betri en raunveruleiki. Er þó markmið raunvísinda falið í að komast að raunveruleikanum. Kenningar gagnast við upphaf tilrauna til að komast að raunveruleika, en koma ekki í stað hans.

Ef við viljum komast að raun um, hversu góðar eru mismunandi aðferðir við skoðanakannanir, ber okkur fyrst og fremst að líta á reynsluna. Hún sýnir, að kenningar úr stærra og flóknara þjóðfélagi eins og Bandaríkjunum gilda ekki að fullu og óbreyttu hér á landi.

Hér dugir minna úrtak til að ná yfirsýn yfir helztu línur, af því að fjölbreytni skoðana er minni hér á landi. 600 manna úrtak er gott til að fá yfirsýn yfir helztu línur í stjórnmálum, en 1200 manna úrtak nægir ekki til að spá þingmannatölu í öllum kjördæmum landsins.

Hér á landi er síminn betra tæki til að ná til fólks en hann er í Bandaríkjunum, þar sem stéttaskipting er mun meiri en hér á landi og flutningar fólks meiri en hér. Þess vegna hefur síminn reynzt vel hér á landi, í samanburði við þjóðskrá, þegar úrtak er valið.

Þessari umræðu hefur nokkrum sinnum skotið upp hér á landi, einkum þegar til skjalanna koma nýir menn, sem ekki hafa fylgzt nógu vel með. Þeir einblína á kenningar upp úr bandarískum heimi, en átta sig síður á, að hér á landi er áratuga reynsla í skoðanakönnunum.

Einn slíkur birtist á þremur síðum Morgunblaðsins á sunnudaginn. Þar er enn einu sinni fullyrt, að 1200 manna úrtak sé hæfilegt og að þjóðskrárúrtak sé betra en símaúrtak. Ennfremur, að kannanir Félagsvísindastofnunar háskólans séu betri en kannanir annarra.

Áratuga reynsla er hér á landi fyrir allt öðru. George Gallup sagði eitt sinn, að bezti mælikvarðinn á nákvæmni í aðferðafræði sé fólginn í að bera niðurstöður könnunar, sem er nálægt kosningum, saman við kosningaúrslitin. Þetta er einfaldlega dómur reynslunnar.

Eftir þessari mæliaðferð eru kannanir Félagsvísindastofnunar ekki eins frambærilegar og kannanir annarra aðila. Eftir þessari mæliaðferð eru kannanir DV betri en annarra aðila, af því að þær hafa kosningar eftir kosningar sýnt minnst frávik frá kosningaúrslitum.

Nokkrir stjórnmálamenn, Morgunblaðið og aðstandendur Félagsvísindastofnunar hafa lengi haft áhuga á að komið yrði á skipulagi, sem felur í sér, að þær aðferðir, sem lakar hafa reynzt, fái löggildingu, en ekki hinar, sem betur hafa reynzt. Þessi skoðun er enn á ferð.

Ríkt er í mönnum að reyna að skipuleggja allt milli himins og jarðar. Of langt er gengið, þegar reynt er að koma á fót löggildingu ákveðinna vinnubragða í vísindum, sem hafa reynzt vel vestra, og banni við öðrum slíkum vinnubrögðum, sem hér hafa gefizt enn betur.

Sömu aðilar hafa yfirleitt einnig þá skoðun, að banna beri birtingu niðurstaðna í skoðanakönnun í dálítinn tíma fyrir kosningar, til dæmis í eina viku. Slíkt gæfi kosningastjórum flokkanna auðvitað betra tækifæri til að veifa útblásnum hugmyndum um fylgi sinna manna.

Rökrétt framhald af slíkri ritskoðun er, að bannaðar verði í fjölmiðlum ýmsar aðrar fréttir, sem hugsanlega gætu haft áhrif á skoðanir fólks og úrslit kosninga. Niðurstöður skoðanakannana eru eins og hverjar aðrar fréttir, sem geta hugsanlega haft áhrif á gang mála.

Sjónarmiðin, sem lýst var á þremur síðum Morgunblaðins, eru skref í átt til fortíðarmyrkurs, í dulargervi fræðimennsku, en fara á svig við íslenzkan veruleika.

Jónas Kristjánsson

DV

Bush styður Saddam

Greinar

Bush Bandaríkjaforseti ber ábyrgð á fjöldamorðum hers Saddams Hussein á Kúrdum og sjítum. Hann lét stöðva landhernaðinn í Írak of snemma og leyfði Íraksher að sleppa úr herkvínni með hergögn sín. Þetta gerði hann til að vernda stjórn súnníta á landinu.

Til að bæta gráu ofan á svart gaf Bush í skyn, að bandamenn teldu æskilegt, að uppreisnarmenn í Írak steyptu stjórn Saddams Hussein af stóli. Þar með leiddi hann uppreisnarmenn til slátrunarinnar, sem nú stendur yfir á vegum skjólstæðings hans í Írak, Saddams.

Er uppreisnarmenn voru komnir fram í dagsljósið, kippti Bush að sér hendinni. Hann keyrði yfir ákvarðanir Schwarzkopfs, herstjóra síns, og leyfði Saddam Hussein að beita þyrluher sínum að fullu gegn uppreisnarmönnum. Þannig leiddi Bush Kúrda og sjíta í gildru.

Þetta er eins og DV spáði í leiðara fyrir rúmum mánuði, þegar lauk landhernaði bandamanna í Írak. Þá var enn einu sinni ítrekað hér, að Bush vildi ekki treysta lýðræði í löndum við Persaflóa, heldur styðja við bak miðaldaemíra og harðstjóra gegn Íransklerkum.

Komið hefur í ljós í liðnum mánuði, að Bush er hættur að þiggja ráð evrópskra ráðamanna og hallar sér eingöngu að konungsættinni í Saúdí-Arabíu. Miðaldaprinsarnir og Bush eru sammála um, að einhver herforingi úr röðum súnníta eigi að ráða fyrir Írak.

Að vísu telja Bush og miðaldaprinsarnir, að betra sé, að Saddam Hussein haldi ekki völdum, heldur verði steypt af einhverju öðru óargadýri úr röðum herstjóra súnníta. Að mati Bush og prinsanna má ólgan í Írak ekki leiða til, að völd Kúrda og sjíta aukist.

Ennfremur er prinsum Saúdí-Arabíu og furstadæmanna við Persaflóa mjög illa við, að vestrænir lýðræðisstraumar hafi áhrif á svæðinu. Þeir vilja til dæmis alls ekki, að lýðræðislegra stjórnarfari verði komið á í Kúvæt eftir að landið var unnið úr höndum Írakshers.

Flest bendir til, að emírsættin í Kúvæt ætli að halda fast í fyrri miðaldavöld sín, jafnvel þótt hún geti, vegna uppljóstrana í fjölmiðlum, ekki framkvæmt áætlanir sínar um dauðasveitir gegn lýðræðissinnum. Hún fer að öðru leyti sínu fram í skjóli Bush Bandaríkjaforseta.

Bush er ekki einn um þessa stefnu. Hann er studdur af stofnun, sem Bandaríkjamenn kalla Þokubotna, það er að segja utanríkisráðuneyti landsins. Þar hafa verið elduð mörg mistökin í utanríkisstefnu Bandaríkjanna á síðustu áratugum og þetta mál er eitt þeirra verstu.

Komið hefur í ljós, að utanríkisráðuneytið studdi Saddam Hussein alveg fram að fyrsta degi stríðs hans gegn Kúvæt. Það studdi hann til árásarstríðs gegn Íran, lokaði augum fyrir notkun hans á efnavopnum gegn Kúrdum og rosalegu vígbúnaðarkapphlaupi hans.

Utanríkisráðuneyti og forsetaembætti Bandaríkjanna hafa skipulega hunzað lýðræðisöfl meðal írakskra útlaga og jafnvel kerfisbundið neitað þeim um áheyrn. Þetta gilti fyrir innrásina í Kúvæt, sem útlagarnir höfðu réttilega spáð, og gildir enn þann dag í dag.

Bush Bandaríkjaforseti var fyrir rúmum mánuði sigurvegari stríðsins við Persaflóa. Frá þeim tíma hefur hann notað aðstöðu sína sem sigurvegari til að hjálpa hinum sigraða við að kveða Kúrda og sjíta í kútinn í eitt skipti fyrir öll. Hans ábyrgð er þung sem blý.

Það eru fleiri en Saddam Hussein, sem hafa gerzt sekir um hrikalega glæpi gegn mannkyninu. Bush Bandaríkjaforseti er einn af verra taginu.

Jónas Kristjánsson

DV