Greinar

Ný stéttaskipting

Greinar

Fyrir fjórum áratugum voru þekktust verkföll verkamanna í Dagsbrún. Síðar urðu smáhópar á borð við mjólkurfræðinga og flugliða kunnastir þeirra, sem lögðu niður vinnu. Upp á síðkastið hafa kennarar einkum verið duglegir við að fara í verkfall og sýna það, sem marxistar kölluðu stéttvísi.

Fyrir einni öld hefðu kennarar verið taldir í miðstéttinni eins og mjólkurfræðingar og flugliðar, það er að segja hvorki “vinnandi” stétt né yfirstétt, heldur virðuleg stétt þar á milli. Slíkar stéttir hefðu í þá daga ekki talið vera hugsandi að fara í verkfall, hvað þá í verkfallsvörzlu.

Lengi hafa félagsvísindamenn talið okkur trú um, að meiri menntun almennings og fjölgun skrifborðs- og þjónustustarfa væri að búa til þjóðfélag miðstéttarinnar. Fámennir 10% hópar væru á jöðrunum sem yfirstétt og undirstétt, en á milli væri komin 80% breiðfylking miðstéttar nútímafólks.

Ný brezk rannsókn bendir til, að þetta sé ekki aðalmálið. Mælingar sýna sífellt stækkandi hóp Breta, sem telur sig vera í stétt “vinnandi” fólks. Fyrir 50 árum töldu 46% sig vera í þeirri stétt, árið 2000 voru þeir komnir upp í 58% og nýjasta mælingin sýnir, að 68% Breta telja sig til hennar.

Menn telja sig ekki lengur til miðstéttar, þótt þeir hafi meira en 350.000 krónur á mánuði í fjölskyldutekjur. Menn telja sig ekki lengur til miðstéttar, þótt þeir eigi nýlegan bíl og búi í snyrtilegu húsnæði í góðu hverfi. Skilgreining fólks á lífi sínu og tilveru hefur breyzt í tímans rás.

Undirrótin að þessu er velgengni margra hópa, sem áður töldust vinna hörðum höndum, til dæmis iðnaðarmanna og byggingafólks, sem hafa lengi haft meiri tekjur en skólagengið fólk á borð við kennara. Töluverð röskun og skörun hefur orðið á tekjuskiptingu gömlu stéttanna.

Í framhaldi af brezku rannsóknunum fóru félagsfyrirtæki þar í landi að skipta því, sem áður var kallað miðstétt, í tíu mismunandi hópa fólks, til dæmis The Hornby Set, sem styður krata og Arsenal, er tæknilega sinnað og vel skipulagt. Notting Pillbillies eru svo vel stætt fólk í lopapeysum.

Þannig má lengi telja í gamansömum tón, sjáið nánar á vefnum www.theclassof2004.co.uk. Vafalaust á þessi brezka flokkun ekki við íslenzkar aðstæður, en trúlega er svipað að gerast hér, þjóðfélagið er að verða flóknara og sumir hópar kunna snögglega að átta sig á, að þeir fara halloka í lífinu.

Samanburður kennara á stöðu sinni í samanburði við stöðu ýmissa annarra hópa hefur gert þá róttækari og fúsari til aðgerða en áður var. Stjórnmálin þurfa að átta sig á því.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofstækisþjóð

Greinar

Hálf bandaríska þjóðin er í þann mund að kjósa George W. Bush sem forseta í annað fjögurra ára kjörtímabil. Hún ógnar þar með helztu forsendum friðsællar framtíðar mannkyns á jörðinni, ekki bara í fjögur ár, heldur langt fram á veg. Hún leiðir okkur inn á braut ótta, haturs og grimmdar.

Hálf bandaríska þjóðin er stríðsóð. Hún lætur sig engu varða, þótt forsendur Íraksstríðs hafi reynzt vera falskar eða falsaðar. Hún lítur á sig sem fórnardýr og telur hernum heimilt að stunda hryðjuverk á saklausu fólki í öðrum löndum, enda lítur hún á útlendinga almennt sem skepnur.

Hálf bandaríska þjóðin heldur, að Saddam Hussein hafi staðið að 11. september hryðjuverkinu, þótt nýjar staðreyndir segi annað. Þær koma henni yfirleitt ekki við. Hún tekur trú fram yfir staðreyndir. Hálf bandaríska þjóðin telur, að guð stjórni Bush og að hann geti því ekki gert nein mistök.

Hálf bandaríska þjóðin er haldin trúarofstæki, alin upp í trúarsöfnuðum endurfæddra, þar sem Bush hætti fertugur að drekka viskí og fór að telja sér trú um, að guð talaði við sig. Hann og hálf þjóðin telja, að Bush sé eins konar messías, sem guð hafi sent til bjargar guðs eigin þjóð.

Hálf bandaríska þjóðin telur loftárásir á saklaust fólk ekki vera hryðjuverk, heldur réttláta hefnd guðs yfir múslímum og öðru vondu fólki. Þessu fólki má misþyrma á ýmsa vegu, þvert gegn alþjóðlegum sáttmálum, enda telur bandaríska þjóðin ekki, að alþjóðlegir sáttmálar gildi um guðs eigið land.

Hálf bandaríska þjóðin telur í lagi að stunda óheftar árásir á vistkerfi heimsins. Hún vill ekki vera með í Kyoto-bókun umheimsins. Hún er svo skammtímasinnuð, að hún tekur hagvöxt líðandi stundar fram yfir framtíðarhag. Aðgerðir þessarar ofstækisfullu þjóðar hindra gagnið af aðgerðum allra hinna.

Hálf bandaríska þjóðin telur Evrópu svo fáránlega, að annar forsetaframbjóðandinn verður árangurslaust að reyna að halda því leyndu, að hann kunni að tala frönsku. Hálf bandaríska þjóðin telur jafnvel Englendinga vera undirþjóð linkindar gagnvart hinum illu öflum heimsins, sem þurfi að tortíma.

Hálf bandaríska þjóðin er svo andvíg útlöndum yfirleitt, að hún telur fráleitt, að forsetinn hafi eitthvert samráð við útlendinga, ekki einu sinni Evrópumenn. Allir útlendingar eiga að sitja og standa eins og Bandaríkjaforseti skipar fyrir, annars eru þeir taldir óvinir guðs eigin þjóðar.

Vandinn er ekki bara George W. Bush, heldur hálf bandaríska þjóðin, sem árið 2004 er orðin drukkin af valdi á sama hátt og hálf þýzka þjóðin var orðin drukkin af valdi árið 1939.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkið selji dópið

Greinar

Lögleg yfirvöld víða í Bandaríkjunum misstu völdin í hendur ítalskra bófaflokka á þriðja áratug síðustu aldar vegna banns við sölu á áfengi, sem stóð í þrettán ár. Það var ekki fyrr en mörgum áratugum síðar, að yfirvöldum tókst að ná völdum af mafíunni, sem hafði blómstrað í skjóli bannsins.

Sama sagan er aftur uppi á teningnum á vesturlöndum. Þá var það áfengið, en nú eru það fíkniefnin. Bann við sölu þeirra hefur rutt bófaflokkum til rúms. Þeir keppa við lögleg yfirvöld um sálir unga fólksins og hafa náð þeim árangri, að menn þora ekki fyrir sitt litla líf að segja til þeirra.

Líta verður á birtingu íslenzks lista yfir meinta starfsmenn undirheima fíkniefna sem eins konar neyðaróp manns, er sér, að yfirvöld eru að missa völd í hendur fíkniefnakónga, sem ánetja börn hans. Flest bendir raunar til, að við séum á sömu afvegaleið og Bandaríkin á þriðja áratug síðustu aldar.

Afnám banns við áfengi breytti litlu um áfengisvandann. En það gaf löglegum yfirvöldum færi á að losa borgarana undan áþján áfengiskónga. Afnám banns við fíkniefnum mundi breyta litlu um fíkniefnavandann. En það mundi gefa löglegum yfirvöldum færi á losa borgarana undan fíkniefnakóngum.

Bezt er að hefja ríkisrekstur fíkniefnasölu á sama hátt og ríkisrekstur áfengissölu. Þá tekur ríkið brauðið af kóngum fíkniefnaheimsins og tryggir gæði efnanna. Mestu máli skiptir þó, að slíkt mundi losa fíkniefnanotendur undan ofurvaldi neðanjarðarhreyfingar, sem grefur undan ríkinu.

Ef fíklarnir geta keypt efnin hjá ríkinu, fellur niður milljarða hagkerfi, sem snýst um innflutning, heilsölu og smásölu fíkniefna, innheimtu skulda og varðveizlu þessa neðanjarðarhagkerfis gegn eftirliti ríkisins. Það er til mikils að vinna og lausnin felst í ríkisrekstri fíkniefna.

Úr því að ríkið selur hættulegasta fíkniefnið, það er að segja áfengi, og hefur af því stórfelldar tekjur, ætti ekki að vera neitt siðferðilega athugavert við, að það taki líka yfir sölu fíkniefna. Hægri sinnaða hagfræðiritið Economist hefur lagt til, að fíkniefni verði tekin frá undirheimunum.

Fyrr eða síðar verður þjóðfélagið að gera harðari uppreisn gegn undirheimunum en að birta nokkur nöfn á vefnum. Eina virka aðferðin gegn barónum undirheimanna er að taka af þeim lifibrauðið með því að lögleiða fíkniefni og flytja sölu þeirra af götunum inn í lyfjabúðir eða áfengisverzlanir.

Svarti markaðurinn grefur undan þjóðskipulaginu jafnt á Íslandi sem í öðrum löndum. Undanfarið hefur hratt hallað undan fæti. Kominn er tími til, að ríkið taki í taumana.

Jónas Kristjánsson

DV

Klukkan tifar hraðar

Greinar

Þegar hitinn á daginn er enn um 12 stig í miðjum október, er eðlilegt, að fólk telji í fyrsta lagi, að aukinn hraði sé í hækkun hita af völdum aukins koltvísýrings í loftinu, og í öðru lagi, að þetta sé í rauninni hið bezta mál, að minnsta kosti fyrir Íslendinga á jaðri hins byggilega heims.

Að minnsta kosti fyrri skoðunin er rétt. Mælingar sýna, að árin 2002 og 2003 voru ár aukins koltvísýrings og aukins hita, sérstaklega á norðurhveli jarðar. Við vitum, að árið 2004 verður enn róttækara að þessu leyti. Úreltar eru orðnar fyrri spár fræðimanna um þróun mála í andrúmslofti jarðar.

Vísindaráðgjafi brezka ríkisins, David King, lýsti yfir því á þriðjudaginn, að ríkisstjórnir verði þegar í stað að gera ráðstafanir til að hindra öngþveiti. Við höfum ekki ráð á að halda að okkur höndum, sagði hann. Kyoto-bókunin er ekki nóg, hún er bara byrjun. Við þurfum strax að herða aðgerðir.

Hingað til hefur verið talið, að mannkynið hefði nokkurra áratuga svigrúm til að grípa til aðgerða gegn menguninni. Nú segja fræðimenn hins vegar, að einungis sé um örfá ár að tefla. Ef aukning koltvísýrings og hækkun hitastigs heldur áfram í tvö ár í viðbót, sé vandinn að fara úr böndum.

Það gerist nefnilega fleira en, að hitinn hækki. Ísbreiður heimskautanna og Grænlands bráðna mun hraðar og hafið fer að ganga á land. Sérlegur ráðgjafi síðustu stjórnar íhaldsmanna í Bretlandi, Tom Burkie, sagði nýlega, að klukkan sé farin að tifa hraðar og hætta sé á að sprengiverkun mengunar.

Ef vatnið eykst í úthafinu og yfirborð þess hækkar, steðjar hættu að öllum strandbyggðum, þar á meðal stórborgum við sjávarsíðuna. Íslendingar verða að taka á þeim vanda eins og aðrar þjóðir. Hækkun hitastigs þýðir ekki bara fleiri daga til að rölta fáklæddir um miðborgina og sleikja rjómaís.

Hingað til hafa margir talið áætlanir Sameinuðu þjóðanna vera ýktar á þessu sviði, þar á meðal átrúnaðargoð margra Íslendinga, Daninn Bjørn Lomborg. Nú er hins vegar komið í ljós, að spárnar voru ekki of háar, heldur hafa þær verið of lágar. Hættuna ber hraðar að garði en grænfriðungar sögðu.

Sem betur fer ætlar Rússland að staðfesta Kyoto-bókunina um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda í auðríkjum heimsins. Þá tekur hún gildi, gegn vilja örfárra ríkja, einkum Bandaríkjanna, sem telja sig ekki hafa ráð á að taka þátt í þessu fyrsta skrefi í átaki gegn hættulegri mengun.

Fleira er slæmt við aukinn hita en hækkað yfirborð sjávar. Straumar færast til í hafinu og færa til þorskinn, sem heldur sig á mörkum heitra og kaldra strauma í hafinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Froskur í potti

Greinar

Matthew McAllester, stríðsfréttaritari Miami Herald í Írak, er ekki sammála Halldóri Ásgrímssyni, stríðsmálaráðherra Íslands, um ástandið í landinu. McAllester þarf líka sjálfur að lifa þar. Hann lýsti í grein í blaðinu á mánudaginn , hvernig aðstæður hafa hríðversnað síðustu mánuðina.

Fyrir ári gat McAllester ekið til Falluja og skýrt frá átökum, talað við reiða borgara, fengið sér hádegismat á þekktu veitingahúsi og ekið síðan aftur til Bagdað. Núna dettur honum ekki í hug að reyna þetta. Hann segir í blaðinu, að slíkt mundi jafngilda tilraun til sjálfsvígs.

Um áramótin bjó McAllester úti í bæ í íbúð með öðrum fréttamanni. Í apríl fluttu þeir í varið hótel, því að blaðamenn töldu ekki lengur öruggt að búa úti í bæ. Nú er farið að ráðast á hótelin líka. Sprengjuárás var gerð á Ishtar Sheraton hótelið í miðborginni á fimmtudaginn var.

Fréttamaðurinn segist bara fara úr húsi, þegar brýn nauðsyn krefji. Hann segir, að það sé hættulegt að vera úti á götu í Bagdað. Hann segir, að innfæddir hjálparmenn blaðamanna, bílstjórar og túlkar, segi ekki fjölskyldum sínum og vinum frá því, hvar þeir starfi. Þeir óttist um öryggi sitt.

McAllester er hættur að semja um að hitta fólk á tilgreindum stöðum, af ótta við, að upplýsingar um stað og stund leki til hryðjuverkamanna. Hann fer inn í bíl við hótelið, ekur á stað, sem hann telur líklegan, hleypur þar inn í húsið og vonast til, að viðmælandi hans sé viðstaddur á þeim tíma.

Fréttamaðurinn getur ekki lengur heimsótt vini sína meðal heimamanna. Hann óttast, að samneyti þeirra við útlending geti leitt til hefndaraðgerða þeirra, sem hata allt, sem útlent er, jafnvel blaðamenn. Hann segir, að það sé orðið næstum ógerlegt að stunda blaðamennsku í þessu ástandi.

Það er mat McAllester, að ástand öryggismála í Írak sé verra en það var í Sómalíu á sínum tíma og sé farið að líkjast því, sem er í Tsjetsjeníu, þar sem hvorki blaðamenn né starfsmenn hjálparstofnana þora að vera. Hann segir, að sér líði eins og froski í potti, sem sé á hægri leið í suðu.

Halldór Ásgrímsson talar eins og fífl um ástandið í Írak, þegar hann segir allt með kyrrum kjörum í 70 héruðum af 75 alls. Hann móðgar um leið alla þá fréttamenn og starfsmenn hjálparstofnana, sem eru á staðnum og vita betur. Halldór er bara þræll Bandaríkjastjórnar og lepur upp úr henni lygina.

Með stuðningi Halldórs við stríðið og hernámið ber hann sjálfur ábyrgð á hryðjuverkum hersins, morðum á yfir 10000 óbreyttum borgurum. Ekki bað hann þig eða mig um leyfi.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanir menn

Greinar

Frjálsu forsetakosningarnar í Afganistan fóru út um þúfur. Af þvoðist blekið, sem sett var á hendur kjósenda, svo að þeir kysu ekki aftur og aftur. Þegar það kom í ljós um hádegisbil á kosningadaginn drógu flestir mótframbjóðendur núverandi forseta sig til baka og fordæmdu kosningarnar.

Fyrir kosningarnar var vitað um stórfellt kosningasvindl. Skráðir kjósendur urðu að lokum nokkurn veginn eins margir og þeir, sem kosningarétt áttu að hafa. Þar sem engin leið var að skrá mikinn fjölda kjósenda, er talið líklegt, að verulega margir hafi verið tvískráðir eða margskráðir.

Forsetakosningarnar á laugardaginn áttu að tákna kaflaskil í sögu hins stríðshrjáða Afganistans. Þær snerust samt aðeins um að staðfesta lepp Bandaríkjanna í embætti með lélegri eftirlíkingu vestrænna hefða. Þingkosningar hafa ekki farið fram í landinu og verða ekki fyrr en um mitt næsta ár.

Ástandið í Afganistan er orðið mjög alvarlegt. Friðargæzla Atlantshafsbandalagsins er nánast eingöngu stunduð í Kabúl, höfuðborginni, þar sem konur sitja enn í fangelsi fyrir að sýna á sér andlitið. Fyrir utan Kabúl ráða herstjórar og ribbaldar, sem tóku völdin að undirlagi Bandaríkjanna.

Staða kvenna hefur lagazt í höfuðborginni, þótt hún sé langt frá upprunalegum markmiðum. Utan höfuðborgarinnar hefur staða þeirra versnað. Kvenhatur herstjóranna er ekki minna en kvenhatur talíbana var fyrir innrás Bandaríkjanna með stuðningi herstjóranna, sem talíbanar höfðu áður sigrað.

Talíbönum hafði tekizt að draga verulega úr framleiðslu fíkniefna á valdaskeiði sínu. Nú er framleiðslan komin upp úr sögulegu hámarki. Fíkniefni eru orðin meira en þrír fjórðu hlutar þjóðarframleiðslunnar, af því að herstjórar og ribbaldar ráða lögum og lofum hvarvetna utan Kabúl.

Ekki hefur tekizt að hafa hendur í hári helztu foringja talíbana og enn síður í foringja al Kaída. Osama bin Laden leikur enn lausum hala í fjöllunum milli Afganistan og Pakistan. Eftir þriggja ára hernám er Afganistan í rúst og orðið að skólabókardæmi um misheppnað, bandarískt stríð.

Ísland styður hernám Afganistans. Atlantshafsbandalagið sér um friðargæzluna í Kabúl og þorir ekki út fyrir borgina. Íslendingar sjá um flugumferðarstjórn á vegum bandalagsins. Rétt eins og aðildin að stríðinu gegn Írak var þessi aðild Íslands að ömurlegu stríði ákveðin án pólitískrar umræðu.

Afganir hröktu Alexander mikla og Gengis Kan af höndum sér. Þeir niðurlægðu heimsveldi Breta og Rússa. Þeir mun losa sig við Bandaríkjamenn og Íslendinga. Þetta eru vanir menn.

Jónas Kristjánsson

DV

Hafna erfðabreyttu

Greinar

Evrópa er orðin svo græn í hugsun, að þýzk stjórnvöld hafa lengi verið grænni en Vinstri grænir á Íslandi. Jafnvel í Miðjarðarhafslöndum á borð við Ítalíu eru menn almennt farnir að lesa á umbúðir matvæla. Og um eitt eru allir sammála: Þeir vilja alls ekki kaupa erfðabreytt matvæli.

Mál standa allt öðru vísi á Íslandi, svipað og vestan hafs. Á Íslandi er rekið hávaðasamt fyrirtæki í erfðabreytingum, sem jafnan tekur til sóknar, þegar minnst er á erfðabreytt matvæli. Á Íslandi hefur verið leyft að nota erfðabreytt korn, sem engum í Evrópu og víðar dytti í hug að leyfa.

Um skeið bannaði Evrópusambandið erfðabreytt matvæli, en er byrjað að leyfa þau núna, svo framarlega sem þess sé getið á umbúðum. Hins vegar þýðir ekkert að reyna að selja þau. Kaupmenn vilja þau alls ekki og verzlanakeðjur telja, að þau muni koma óorði á sig og neita harðlega að taka þau í sölu.

Bandaríkin hafa kært Evrópusambandið og vilja ekki, að merkja þurfi erfðabreytt matvæli sérstaklega. Þau vilja ekki, að neytendur í Evrópu fái að velja og hafna. Þau vilja troða erfðabreyttum matvælum í kyrrþey ofan í Evrópumenn gegn vilja þeirra sjálfra. Þau heimta upplýsingaskort.

Höfnunin snýst um eindreginn vilja neytenda og kaupmanna í Evrópu. Þetta hefur haft áhrif í heimsviðskiptum. Evrópa gefur tóninn. Ýmis lönd í þriðja heiminum hafa hafnað erfðabreyttu korni og sojabaunum og hafa leyst Bandaríkin af hólmi sem seljendur matvæla úr þessum hráefnum til Evrópu.

Svo eindreginn er vilji Evrópumanna, að menn lesa texta á umbúðum og telja ekki koma annað til greina, en að sagt sé satt og rétt, að erfðabreytt efni séu í innihaldinu, ef um þau er að ræða. Jafnvel Ítalir, sem lengi hafa verið taldir rólegir í tíðinni, lesa umbúðir og neita erfðabreyttum mat.

Deilan milli Bandaríkjanna og Evrópu snýst ekki lengur bara um, hvort erfðabreytt matvæli séu hættuleg. Flestir telja ekki hafa enn sannazt neitt athugavert við þau. Deilan snýst fyrst og fremst um, hvort Evrópumenn megi hafa upplýsingar til að hafna erfðabreyttum mat, ef þeir vilja hann ekki.

Í Evrópu hefur lengi verið mikil umræða um náttúruvernd, sjálfbæran landbúnað og réttlæti í kjörum starfsmanna í landbúnaði, rétt eins og umræða um olíusparnað og verndun vistkerfis, sem Bandaríkjamenn virðast kæra sig lítið um. Það er hluti gjárinnar, sem myndast hefur innan vesturlanda.

Eins og stundum áður hafa Íslendingar, fjölmiðlar jafnt sem almenningur og kaupmenn, ákveðið, að þessi umræða skipti sig litlu og umræðan um erfðabreyttan mat skipti sig alls engu.

Jónas Kristjánsson

DV

Staðlausir stafir

Greinar

Nýi GPRS síminn minn er í þráðlausu sambandi við fistölvuna mína og veraldarvefinn. Hvar sem erlend símafélög eru í reikisambandi við íslenzk símafélög er hægt að vera í sambandi, hvar sem er, á kaffihúsi, á bekk eða í lestinni. Maður les póstinn og svarar honum, skoðar fréttir dagsins.

Með hverju árinu hefur orðið auðveldara að ferðast með vinnuna meðferðis. Staðsetning er ekki sami þáttur í lífi margra og áður var. Þessi leiðari er skrifaður á svölum við Rialto-brú í Feneyjum. Ég er búinn að sjá Moggann og Fréttablaðið á vefnum og veit, að pólitíkin er við það sama.

Líf ferðamannsins batnaði mest, þegar plastkortin komu til sögunnar og gerðu okkur kleift að ferðast án þess að vera með veskin bólgin af seðlum. Ég man enn þá tíma, þegar gjaldeyrir var skammtaður og menn voru að kaupa dollara á svörtum til að geta lifað af á ferðalögum utan landsteina.

Ódýru flugfélögin voru önnur bylting. Nú ferðast maður til útlanda fyrir tæpar 20.000 krónur fram og til baka og til nánast hvaða staðar sem er í Evrópu fyrir 10.000 krónur til viðbótar, ef maður millilendir á lággjaldaflugvellinum Stansted norður af London. Ferð til Feneyja kostar 27.000.

Veraldarvefurinn er mikilvægur þáttur í lágum fargjöldum. Þar er hægt að skoða áætlanir, líta á tilboð og panta far, án þess að flugfélagið sé að eyða peningum í sölumennsku og þjónustu. Með því að afgreiða okkur sjálf á vefnum náum við sambandi við margvísleg og ótrúlega freistandi ferðatilboð.

Einnig er hægt að velja hótel á vefnum. Hótel Þrír strútar við Karlsbrú í Prag hafði mynd af hótelinu á vefnum. Með því að pota í glugga mátti sjá mynd af herbergjunum fyrir innan. Þannig gat ég valið mér herbergi og athugað, hvort það væri laust og á hvaða verði, þegar ég ætlaði að koma til Prag.

Nú er hægt að fá prentaða af vefnum leiðsögn um, hvernig maður fer milli tveggja staða í Evrópu, hvernig maður kemst út af flugvelli á rétta leið og hvað langur kafli er ekinn á hverju vegarnúmeri. Langtímaveðurfréttir prentar maður líka af vefnum, hálfan mánuð fram í tímann. Þær pössuðu jafnvel.

Mér finnst samt GPRS þjónustan vera eitt af stóru skrefum ferðamannsins. Hún kostar að vísu, að ég þarf að vera í vinnunni pínulítið meira á hverjum degi, en hún kemur í veg fyrir, að ég komi að uppsöfnuðum netpósti og verkefnum, þegar ég kem að skrifborðinu eftir einnar viku fjarveru.

Þegar blaðamenn segja eitthvað merkilegt, er stundum sagt með þjósti, að þeir fari með staðlausa stafi. Og altjend hefur tæknin núna gert mig staðlausan, er ég skrifa þetta.

Jónas Kristjánsson

DV

Fenjalífið

Greinar

Þótt menn komi ekki til Feneyja í leit að náttúrunni, hafa Feneyingar gott náttúruminja- og náttúrufræðisafn, auðvitað með áherzlu á líf í fenjum. Þeir gera vel við það í 800 ára gamalli Tyrkjakrá, Fondacio Turchi, býzanskri höll, sem er eitt mest áberandi mannvirkið við Stóraskurð, Canal Grande.

Þótt menn komi til Íslands í leit að náttúrunni, hverum og eldfjöllum, fossum og hrauni, jöklum og hestum, bjóðum við ekki náttúruminja- og náttúrufræðisafn. Reykjavík er eina stórborgin, sem ég hef komið í, er ekki býður ferðafólki upp á slíkt safn, þegar eitthvað er að veðurfari utan dyra.

Ferðamenn geta þolað Reykjavík í rigningu í einn eða tvo daga. Í Feneyjum geta þeir hins vegar skoðað söfn vikum saman, því að þau eru í annarri hverri götu, og kirkjur á öðru hverju horni, margar hverjar fullar af málverkum frægra meistara fyrri alda. Samt hafa þeir líka náttúruminjasafn.

Hér í Feneyjum eru alls engir bílar, enda sofa menn vel við dauft skvamp og nudd af hnjaski gondóla við tréstaurana, sem þeir eru festir við. Fyrir fólk eru bátar einu farartækin og fyrir vörur eru það bátar og hjólbörur. Enda hafa Feneyjar ekkert efnahagslíf, annað en það, sem snýst um ferðamenn.

Bílar eru bannaðir í fleiri borgum, til dæmis Dubrovnik í Króatíu, en það eru bara þorp í samanburði við Feneyjar, sem öldum saman var eitt af heimsveldunum. Ýmsar borgir hafa lokað gömlum borgarhlutum fyrir bílum, en hér er öll borgin lokuð, öll. Það gerir Feneyjar sérstaklega ferðamannavænar.

Göngugötuhverfi í borgum með kaffihúsum, veitingastofum og öðrum slökunarstöðum eru athvarf þeirra, sem hafa nógan tíma, svo sem ferðamanna. Á slíkum stöðum er dýrt að reka fyrirtæki, sem þurfa aðföng. Feneyjar eru dýrar. Þar er efnahagslífið haft í felum í hverfinu Mestre uppi á landi.

Reykjavík getur ekki hermt eftir sögufrægum stórborgum, af því að þar er eitthvað að veðri helminginn af árinu og borgarstjórn skortir hugrekki til að yfirbyggja Laugaveg. Því flýr reykvískt borgarlíf inn í möllin að bandarískum hætti. Meira að segja ferðamenn flykkjast inn í möllin.

Feneyjar hafa annað fram yfir Reykjavík. Öldum saman hefur engum stjórnmálamanni dottið í hug að þétta byggð með því að byggja ný hús innan um gömul. Ef borgarfulltrúi frá Reykjavíkurlistanum kæmi hingað til Feneyja, væri hann talinn vera geðveikur og fluttur í viðeigandi “hospitale”.

Ár eftir ár kem ég til Feneyja, fæ mér svalir við Stóraskurð og skrifa úti á svölum með útsýni til Rialto-brúar. Feneyjar hafa allt, sem Reykjavík hefur ekki, jafnvel náttúrusafn.

Jónas Kristjánsson

DV

Gölluð glansmynd

Greinar

Gölluð glansmynd

Aldraðir munu smám saman hætta að vera baggi á samfélaginu, af því að við höfum sérstakt lífeyriskerfi, þar sem fólk safnar sjálft fyrir lífeyri, sem safnast upp, en streymir ekki gegnum kerfið frá vinnandi fólki og skattgreiðendum til eftirlaunafólks. Þetta ágæta kerfi er þegar farið að virka.

Eftir nokkra áratugi mun meirihluti þeirra, sem hætta að vinna, áfram hafa óbreytt lífskjör af uppsöfnuðum lífeyri sínum. Þeir munu geta keypt vörur og þjónustu, hvernig sem árar að öðru leyti. Þeir munu verða kjölfesta samfélagsins, því að peningar þeirra munu hringsóla í efnahagslífinu.

Erlendu gegnumstreymis- og ríkisrekstrarkerfin gera ekki ráð fyrir þeirri staðreynd, að vestrænar þjóðir eru farnar að eldast. Senn verða of fáir vinnandi menn og skattgreiðendur að sjá fyrir of mörgum gamalmennum. Slík kerfi geta að lokum ekki þjónað hlutverki sínu og verða að skera niður lífeyri.

Uppsöfnunarkerfið gildir því miður ekki um alla. Ríkið tekur ekki þátt í því. Það á ekki fyrir skuldbindingum sínum við Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, heldur hyggst spýta inn í hann peningum úr gegnumstreymi fjármagns á hverjum tíma. Það hyggst láta skattgreiðendur framtíðarinnar borga sukkið.

Auðvitað á ríkið að leggja jafnóðum inn fyrir skuldbindingum sínum eins og aðrir vinnuveitendur í þjóðfélaginu. Þannig myndast traust tekjuflæði, óháð sviptingum á borð við misræmi í aldursþróun þjóðarinnar, sem hafa áhrif á tekjur ríkisins. Engin ástæða er til, að ríkið skerist úr leiknum.

Uppsöfnunarkerfið gildir ekki heldur fyrir öryrkja og atvinnulausa. Lífeyrir er ekki reiknaður í bótum á þessum sviðum. Auðvitað þarf að meðhöndla þessar tekjur fólks eins og aðrar tekjur þess, svo að öryrkjar og atvinnuleysingjar séu ekki upp á ríkið komnir, þegar þeir komast á aldurinn.

Ríkisvaldið hefur tækifæri til að laga stöðu sína gagnvart ríkisstarfsmönnum, öryrkjum og atvinnuleysingjum, þegar það selur Símann. Tekjurnar af sölunni má nota til að greiða fyrir uppsafnaðar syndir fortíðarinnar á þessum þremur sviðum og hafa framvegis hreint borð frá degi til dags.

Það er gott þjóðfélag, sem tryggir framtíðina og jöfnuð í framtíðinni. Það er gott þjóðfélag, sem hefur jafnvægi í uppgjöri kynslóðanna, þannig að hver kynslóð borgi fyrir sig og taki eins og áður þátt í að hjálpa jafnöldrum, sem lenda í vandræðum í lífinu. Ísland getur orðið gott þjóðfélag.

Glansmyndin, sem nýlega var gefin af væntanlegri stöðu aldraðra í þjóðfélaginu, má ekki láta menn gleyma, að allt of margir eru enn utan við ódáinsakra uppsöfnunarkerfis.

Jónas Kristjánsson

DV

Innhverf gíslataka

Greinar

Verkföll eru ekki úrelt. Þau eru löglegt vopn þeirra, sem telja sig vera minni máttar í kjarasamningum. Þar sem afl peninganna er alltaf að aukast á kostnað afls vinnunnar, þar sem vinnukaupendur eru að verða sterkari en vinnuseljendur, má búast við, að verkfallsvopnið verði notað í framtíðinni.

Verkföll koma alltaf niður á þriðja aðila. Einkum verða smælingjar að líða fyrir þau, því að hinir hafa frekar einhverja útvegi fyrir sig. Þannig hellti Dagsbrún niður mjólk á Bæjarhálsi í gamla daga og var sökuð um að spilla heilsu barna. Þá voru meiri tilþrif í átökunum en núna

Verkfall er öðrum þræði gíslataka. Í verkfalli er alltaf skipuð undanþágunefnd. Það er viðurkenning á gíslatökueðli verkfalla. Sum gíslataka er talin óviðeigandi. Önnur er talin vera á gráu svæði og er það hlutverk undanþágunefndar að setja slík tilvik öðru hvoru megin við undanþágulínuna.

Þótt verkfall og gíslataka í tengslum við það sé löglegur verknaður, er hann afar fátíður hjá flestum hópum. Í gamla daga vakti athygli, að mjólkurfræðingar og flugliðar voru oftar í verkfalli en aðrir. Fólki fannst það vera til marks um, að kröfugirni þessara hópa væri komin út fyrir velsæmi.

Nú á tímum eru það kennarar, sem eru taldir vera of oft í verkfalli. Þess verður vart, að þeir njóta lítils stuðnings í samfélaginu. Menn telja líka gerræðislega að málum staðið, námsgögn nemenda séu ólöglega lokuð inni og neitað sé undanþágum til fatlaðra hópa, sem njóta almennrar samúðar.

Verkfall kennara er talið vera á of hörðum nótum. Sem dæmi um það gefur helzti forustumaður þeirra viðmælendum sínum einkunnir um greindarstig. Sjálfsagt er hann að tryggja heimalandið fremur en að afla málstaðnum fylgis úti í bæ. En það er einmitt innhverfan, sem einkennir verkfall kennara.

Kennarar virðast vera orðnir svo sér á parti í samfélaginu, að þeir telja brýnna að stunda hópefli með gassagangi inn á við, heldur en að eiga vitrænt samtal við samfélagið um málefni verkfallsins. Að minnsta kosti eru talsmenn kennara meira fráhrindandi út á við en þeir hafa áður verið.

Auðvitað er matsatriði hverju sinni, hvernig haldið er á verkfallsmálum. Stundum er hópeflið talið mikils virði, þar á meðal núna. Stundum eru almannatengslin talin mikils virði, en svo er ekki núna. Sem betur fer virðast kennarar þó vera farnir að endurskoða harðneskjuna í gíslatökunni.

Þótt forustumenn kennara komi óorði á verkfallsvopnið, hefur ekki verið sýnt fram á, að það sé óþarft. Einstök framkvæmd hefur alltaf og mun alltaf verða deiluefni í samfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Líf í bíl og borg

Greinar

Reykjavík hefur aldrei verið þröng Evrópuborg. Hún hefur aldrei verið, er ekki og verður engar Feneyjar eða gotneski miðbærinn í Barcelona. Hinir frægu túristabæir Evrópu eru dauðir og orðnir að söfnum, en Reykjavík er efnahagshjarta íslenzka ríkisins, borg bíla, umferðar, mislægra gatnamóta.

Reykjavík mun ekki batna við að verða þrengd að evrópskum stöðlum. Ákvörðun um búa til þrengsli verður að taka, þegar hverfi er skipulagt, ekki löngu síðar. Að þétta ofan í fyrri byggð er áreiti, sem leiðir til ósamkomulags, ófriðarefna og á endanum til málaferla, þar sem menn heimta skaðabætur.

Þar á ofan leiðir þétting byggðar til erfiðari umferðar um æðar, sem voru hannaðar áður en gert var ráð fyrir þéttingu byggðar. Miklar nýbyggingar upp af Skúlagötu, við Mýrargötu og fyrir utan Ánanaust kalla á umferðarmannvirki, sem ekki hefur enn verið gert ráð fyrir í skipulagi borgarinnar.

Undarlegust er andstaða borgaryfirvalda við mislæg mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Með sömu röksemdum og nú eru hafðar uppi gegn þessum mislægu gatnamótum, hefði verið hægt að stöðva öll hin fjölmörgu mislægu gatnamót, sem reist hafa verið á borgarsvæðinu af minni þörf en þessari.

Gersamlega er fráleitt að halda fram, að bíll, sem ekið er viðstöðulaust á 60 km hraða meginþorra leiðar hans um bæinn, valdi meiri mengun en bíll, sem þarf að stöðva nokkrum sinnum, láta standa kyrran í gangi nokkrum sinnum og síðan að auka ferðina frá núll og upp í 60 km nokkrum sinnum.

Öllu viti bornu fólki má vera ljóst, að skrykkjótt umferð um gatnaljós veldur meiri mengun en viðstöðulaus umferð um mislæg gatnamót. Samt hafa oddvitar Reykjavíkurlistans haldið fram röngum staðreyndum á prenti um þetta mál og gera enn. Það eru ekki skoðanir, heldur röng meðferð staðreynda.

Þá er tryggingafélögunum ljóst, að meiri slys verða á hornum umferðarljósa en mislægra gatnamóta. Þessi fyrirtæki borga brúsann og eiga að vita, hvað er þeim sjálfum fyrir beztu. Eina umræðuhæfa röksemdin gegn mislægum gatnamótum er, að þau flytji vandann til. Slíkt gildir um öll mislæg gatnamót.

Úr því að Reykjavíkurlistinn hefur víðs vegar um borgina séð ástæðu til mislægra gatnamóta, sem flytja umferðarvandann til, hljóma röksemdir hans eins og flugusuð, þegar fulltrúar hans tala um flutning umferðarvandamála eingöngu vegna mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Mislæg gatnamót kalla alltaf á aðrar framkvæmdir. Þessi mislægu og mjög svo brýnu gatnamót kalla á lokun móta Lönguhlíðar, á bílahús við Tjörnina og undir Þingholtum.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir draumar

Greinar

Tveir draumar

Þriðjungur Bandaríkjamanna er hættur að trúa á bandaríska drauminn um, að hver sé sinnar gæfu smiður, að allir geti rifið sig upp úr fátækt með stefnufestu, þolinmæði og mikilli vinnu. Margir átta sig á, að þeir hafa puðað alla ævi án þess að finna öryggi og frið á leiðarenda ævinnar.

Stéttaskipting hefur harðnað í Bandaríkjunum. Yfirstéttin endurnýjar sig sjálf í auknum mæli. Lífskjörum meðaljónsins hrakar og öryggisleysi hans magnast. Barnadauði er meiri en í Evrópu og ævilíkur styttri, fátækt meiri og fjöldi fanga margfalt hærri. Bandaríkin færast nær þriðja heiminum.

Á sama tíma og bandaríski draumurinn er að verða gjaldþrota undir ofstækisstjórn George W. Bush forseta er að rísa nýr draumur austan hafsins, evrópski draumurinn, sem rís hæst í félagslegum markaðsbúskap. Skoðanakannanir sýna, að fólki líður betur í mildri Evrópu en í grimmum Bandaríkjunum.

Á þessu ári var reynt að skrá evrópska drauminn í fyrstu stjórnarskrá Evrópusambandsins. Hún á eftir langt ferli, en ljóst er, að þar er risið samfélag upp á hálfan milljarð manns, sem þénar meira en Bandaríkin og á 61 af af 140 stærstu fyrirtækjum heims, meðan Bandaríkin eiga bara 40.

Evrópumenn vinna til að lifa, meðan Bandaríkjamenn lifa til að vinna. Frí eru miklu meiri í Evrópu, vinnudagar styttri og vinnuvernd meiri. Samt er framleiðni meiri í helztu ríkjum Evrópu, svo sem Frakklandi og Þýzkalandi, heldur en í Bandaríkjunum og í evrópskum útnára þeirra á Bretlandseyjum.

Bandaríkjamenn hampa einstaklingsfrelsi, en Evrópumenn hampa samfélagi. Innifalið í því er virðing fyrir umhverfinu, tillit til langtímahagsmuna og sjálfbærrar þróunar. Þar taka menn þreytandi sáttaferli fram yfir hótanir og styrjaldir. Þar er ríkisvaldið jarðbundið, en vestan hafs sækir það í trúna.

Evrópa er ekkert himnaríki. Evrópusambandið er spillt og flókið embættismannakerfi. En það hefur fært Íslandi endalausa röð af reglugerðum, sem takmarka svigrúm stjórnvalda til að stýra okkur að eigin geðþótta. Það hefur búið til góðar leikreglur fyrir líf fólks um alla álfuna.

Evrópski draumurinn er hæfari til að mæta 21. öldinni en bandaríski draumurinn, býr ekki til suðupott þjóða eins og sá bandaríski hefur gert, heldur leggur hann áherzlu á, að þúsund plöntur blómstri með ótal tungumálum, siðum og sögu í þjóðfélagi, þar sem mildin er meira metin en harkan.

Evrópski draumurinn hafnar græðgi og grimmd hins tryllta markaðshagkerfis. Með félagslegum markaðsbúskap reynir hann að styðja fólk til að verða sinnar eigin gæfu smiðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Pakkað í Hæstarétt

Greinar

Enn er verið að pakka í Hæstarétt. Um daginn var frændi Hertogans valinn fram yfir aðra umsækjendur, sem allir voru hæfari en frændinn. Nú á að ráða spilavin Hertogans fram yfir aðra umsækjendur, sem Hæstiréttur telur flesta hæfara en spilavininn. Frændi Hertogans skilaði auðvitað séráliti.

Í langvinnri tíð þessarar ríkisstjórnar hafa pólitískar skipanir færzt í vöxt. Eindregnar er pakkað í Hæstarétt, Ríkisútvarpið, Símann og aðrar stofnanir ríkisins en áður þótti sæma. Hæfileikar skipta minna máli, enda gerast nú opinber klögumál annarra umsækjenda tíðari en áður var.

Sem dæmi um aukna spillingu ríkisstjórnarinnar má nefna, að nú nægir ráðherrum ekki að hafa sérstaklega ráðna pólitíska aðstoðarmenn sér á hægri hönd í ráðuneytunum, heldur þykjast þeir líka vilja velja sér pólitíska ráðuneytisstjóra. Þeir draga þannig úr gildi embættismannakerfisins sem kjölfestu.

Með hverju árinu sem líður eykst þessi tegund spillingar núverandi ríkisstjórnar. Forsendan er auðvitað, að oddamenn hennar telja sig hafa reynslu fyrir, að kjósendur láti sig hana litlu varða eða hafi gleymt henni, þegar kemur að næstu kosningum. Landsfeður okkar telja spillinguna vera ókeypis.

Björn Bjarnason er dæmigerður flokksjálkur, sem lét sér ekki bregða við að skipa óhæfan frænda Hertogans í Hæstarétt. Geir Haarde hefur ekki enn fengið eins eindreginn stimpil flokksjálks, en flestir veðja þó á, að hann taki spilafélaga Hertogans fram yfir þá, sem fagmenn hafa talið vera hæfari.

Spilafélaginn er umdeildur sérvitringur í þjóðfélaginu, sem þekktastur er fyrir skemmtilegar greinar, sem hann skrifar til stuðnings Hertoganum, hvenær sem einhver andmælir stjórnsýslu hans og gerðum. Þá hefur hann skrifað mikið af hlutlausum lögfræðiálitum, sem þjóna alveg sama tilgangi.

Flestir telja við hæfi, að spilafélaginn haldi áfram að skrifa í Morgunblaðið og skila hlutlausum lögfræðiálitum, hvenær sem Hertoginn þarf á því að halda. Komið hefur í ljós, að umdeildara er, hvort skynsamlegt sé, að hæfni hans í þrætubókarlist eigi beint erindi í dóma Hæstaréttar.

Flest bendir til, að kjósendur sætti sig við, að núverandi stjórnarsamstarf verði langvinnt, kosningar eftir kosningar. Jafnframt sætti þeir sig við, að smám saman dofni tilfinning ríkisstjórnarinnar fyrir leikreglum, sem gilda umhverfis hið sérstæða Íslands. Við verðum smám saman suðuramerískt ríki.

Við erum komin áleiðis. Síminn kaupir sjónvarpsstöð fyrir Hertogann, Hannes Hólmsteinn selur sjónvarpinu raðir af lélegum syrpum. Hæstiréttur verður einlitur á næsta kjörtímabili.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiðinlegir leiðtogar

Greinar

Milda þjóðremban, sem einkennir stjórnmál hér á landi, hefur enn birzt okkur í bók, sem ríkisvaldið gefur út, af því að markaðshagkerfið veit, að hún selst ekki. Bókin segir okkur, að forsætisráðherrar landsins á síðustu öld hafi allir verið góðir, en Hannes Hafstein og Davíð Oddsson þeirra beztir.

Montið er viðkunnanlegur stíll fráfarandi forsætisráherra, vel metinn af þjóðinni. Hann reisti sér monthús fyrir borgina í Tjörninni og innréttaði sér monthús í gamla Landsbóksafninu. Ráðhúsið og Þjóðmenningarhúsið voru, eins og nýja bókin er, birtingarmyndir hins roggna stjórnarfars.

Auðvitað eru íslenzkir tómatar betri en aðrir tómatar, en lambakjötið tekur þó öllu fram um víða veröld. Auðvitað er íslenzkur fiskur bezti fiskur í heimi, en súr hvalur og úldinn hákarl taka öllu fram. Auðvitað eru Íslendingar bezta þjóð í heimi, en sjálfstæðismenn eru auðvitað beztir allra.

Ætla má af bókinni góðu, að tímamót séu í veraldarsögunni, þegar hertoginn stígur af upphöfnu hásæti sínu og hleypir Framsókn að. Staðreyndin er hins vegar sú, að lífið heldur áfram sinn vanagang. Ríkisstjórnin hefur verið við völd frá ómunatíð og hyggst áfram verða við völd til ómunatíðar.

Einn helzti kostur lýðræðis er jafnan talinn vera, að skipt er um stjórnir átakalítið. Kjósendur verða leiðir á einum leiðtoga og velja sér annan í fastri leikreglu, sem kölluð er kosningar. Hér á landi vilja kjósendur fremur hafa sömu ríkisstjórnina aftur og aftur með litlum mannaskiptum.

Montbókin og forsætisráðherraskiptin sýna, að ekkert hefur breytzt í þessum efnum. Roggin smáþjóð mun áfram hafa þá stjórn og það stjórnarfar, sem henta henni. Næsta skref er að komast inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og eru í því skyni stofnuð sendiráð um allar trissur, jafnvel í Afríku.

Ekki eitt einasta atriði mun breytast við stólaskipti Davíðs og Halldórs Ásgrímssonar. Við munum áfram styðja stríðsglæpi Bandaríkjanna víða um heim. Við munum áfram forðast aðild að Evrópusambandinu. Við munum selja Símann, sem ekki mun lenda í höndum kolkrabbans fremur en aðrar seldar ríkisstofnanir.

Eins og aðrar ríkisstjórnir mun þessi áfram gera margt gott og annað miður. Með daufgerðari forsætisráðherra mun þó örar fjölga þeim, sem að lokum verða leiðir á endalausri samstjórn samvaxinna stjórnarflokka. Fyrr en ella kemur að því, að nógu margir kjósendur nenna ekki að endurkjósa þá.

Þótt montin stjórn henti rogginni smáþjóð, munu kjósendur að lokum átta sig á, að þeir eru orðnir hundleiðir á samstarfi um ríkisstjórn, sem fyrir löngu hefur gengið sér til húðar.

Jónas Kristjánsson

DV