Greinar

Íslenzkir gíslar

Greinar

Þeir bera ábyrgðina, sem hafa í vinnudeilu frumkvæði að vandræðum eða tjóni þriðja aðila, en ekki sá aðili, sem tregðast við að fallast á kröfur frumkvæðismanna um betri kjör. Þetta gildir um flugmenn, kennara, lækna og verzlunarmenn eins og aðra slíka hópa.

Hitler hélt fram gagnstæðri kenningu, þegar hann lét her sinn ráðast inn í Pólland við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann sagði, að Pólverjar bæru ábyrgð á vandræðum stríðsins, af því að þeir höfðu neitað að fallast á fáeinar kröfur, sem hann taldi hógværar.

Æ síðan hefur kenning Hitlers verið tekin sem dæmi um rökleysu eða hundalógík. Hún lifir þó góðu lífi í launabaráttu á Íslandi, þótt nýfallinn dómur um ábyrgð verzlunarmanna í afgreiðsluverkfalli á vandræðum flugfarþega kunni að hafa dregið úr henni að sinni.

Ákveðnast settu samtök kennara fram rökleysuna á fundum, sem þeir héldu fyrir þremur árum, þegar þeir háðu eitt kjarastríð sitt af mörgum við stjórnvöld. Þá átöldu fundarmenn “stjórnvöld harðlega fyrir að etja kennurum enn einu sinni út í verkfallsaðgerðir”.

Um skeið var það orðið að náttúrulögmáli, að kennarar færu í verkfall á tíma, sem hentaði námsfólki illa. Kennarar vöndu sig á að taka nemendur að gíslum í kjarabaráttu sinni. “Nemendur lifa það af að lenda í svolitlum hrakningum,” sagði talsmaður kennara.

Að loknu verkfalli kennara fyrir þremur árum tóku þeir ríkisvaldið haustaki með undirritun samkomulags um, að nemendum skyldi ekki hleypt milli bekkja án námsmats og samráðs við kennara. Samningurinn fjallaði beinlínis um, að taka megi nemendur í gíslingu.

Lymskulegast hafa læknar og sérfræðingar sjúkrahúsa beitt kennisetningu Hitlers. Það var fyrir tæpum tíu árum. Þá stofnuðu þeir innheimtu, sem sendi sjúkrahúsum einhliða verðskrár. Ef læknir var kallaður út, var litið svo á, að verðskráin væri staðfest.

Ráðamenn sjúkrahúsa stóðu andspænis þeim vanda, að kalla þurfti sérfræðinga til aðstoðar. Þá var um að velja að gera það alls ekki eða fallast óbeint á einhliða verðskrá lækna. Þannig urðu til þau rosalaun fyrir sérfræðiþjónustu, sem vakið hafa deilur að undanförnu.

Rangt kann að vera að nudda læknum upp úr vinnubrögðum þeirra fyrir tíu árum. Um þessar mundir kvarta þeir sáran yfir orðbragði fjármálaráðherra. Ekki má þó gleyma, að undirrót vandans er vel útfærð aðferð lækna við að beita Póllandskenningu Hitlers.

Stéttarfélag verzlunarmanna hefur verið dæmt til að greiða skaðabætur til flugfarþega, sem varð fyrir óþægindum vegna verkfallsaðgerða verzlunarmanna. Engum datt í hug, að flugfélagið væri skaðabótaskylt. Spurning er, hvort ekki sé hægt að túlka dóminn víðar.

Ef nemandi færi í skaðabótamál út af töpuðum námstíma, mundi hann beina málinu að samtökum kennara en ekki að ríkinu. Æskilegt væri að reyna á þetta í næsta kennaraverkfalli til að leggja áherzlu á, að ábyrgð á vandræðum þriðja aðila liggur einhvers staðar.

Fólk þarf að gera sér grein fyrir, að kennarar í verkfalli bera ábyrgð á tjóni nemenda, en ekki ríkisvaldið, sem tregðast við að borga meira fé. Ennfremur, að læknar í taxtastríði bera ábyrgð á tjóni sjúklinga, en ekki ríkisvaldið, sem tregðast við að borga meira fé.

Þetta er svipaðs eðlis og, að það var Hitler, en ekki einhver Pólverji, sem bar ábyrgð á afleiðingum innrásarinnar í Póllandi. Ábyrgðin er á gerandanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Myndmál er myllusteinn

Greinar

Jafnvel atvinnumenn í blaðamennsku létu sig hafa það að sitja lon og don fyrir framan gervihnattasjónvarpið og gleðjast yfir að geta fylgzt með stríði í beinni útsendingu. Þeir sáu stillimynd af fréttamanni, sem sagðist vera að rétta hljóðnema út um hótelgluggann.

Efnislega höfðu aðrir fjölmiðlar yfirburði í Persaflóastríðinu. Dögum og vikum saman var ekkert að gerast, sem hægt var að festa á mynd, nema myndir af sködduðum mannvirkjum í Tel Aviv, sem voru alger aukageta í merkilegu stríði, sem verður skráð í herfræðibækur.

Stóru sjónvarpsstöðvarnar eru háðar takmörkunum hins fjölmenna liðs, sem er á bak við hvert skot í sjónvarpi. Aðrir fjölmiðlar gátu frekar nýtt sér hið mikla magn upplýsinga, sem barst frá alþjóðlegum fréttastofnunum, sem höfðu kraftmeiri fréttaöflun en sjónvarpið.

Myndmálið er myllusteinn um háls sjónvarpsins, þegar kemur að atburðum á borð við Persaflóastríð. Erfitt er að gera atburði að fréttum í sjónvarpi, nema til sé af þeim kvikmynd. Fréttirnar verða helzt að sveigjast að leiksviðinu í kringum akkerismenn sjónvarps.

Niðurstaða þess varð sú, að sjónvarpsfíklar sátu fyrir framan skjáinn sinn og sáu endalausar endurtekningar á stillimynd úr safni af Peter Arnett, sem sagðist tala úr hótelherbergi í Bagdad, og aðrar hliðstæðar stillimyndir eða akkerismyndir úr hótelgarði í Riyad.

Þetta minnti á endalausu myndirnar af hurðarhúninum í Höfða, er heimsveldastjórar voru þar á fundi. Sjónvarpsefni fundarins var langur leikþáttur um fréttastjór-ann, sem af einhverjum óskýranlegum ástæðum var af sumum talinn þriðji valdamesti maður landsins.

Eðli sjónvarps er afþreying og leikhús. Fréttaflutningur þess er því marki brenndur. Þess vegna eru sjónvarpsfréttir mun lakari upplýsingamiðill en útvarpsfréttir, sem ekki eru háðar hinum grimmu takmörkunum leikhússins. Þetta gildir hér sem annars staðar.

Vikum og jafnvel mánuðum saman hafa sjónvarpsfréttir verið fylltar af endalausu, daglegu viðtali við fimm menn, fyrst og fremst fjármálaráðherra, en einnig forsætisráðherra, utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra og landbúnaðarráðherra. Þetta er rosalega þreytandi.

Meðan sjónvarpsfíklar horfa á hatta og hálsbindi fimm pólitíkusa til að geta síðar rætt um hatta og hálsbindi fimm pólitíkusa, fá fréttafíklar raunverulegar upplýsingar úr öðrum fjölmiðlum. En það merkilega er, að margir halda, að þeir sü að sjá fréttir í sjónvarpi.

Ef atburðir gerast svo hratt, að þeir eru fréttaefni mörgum sinnum á dag eða jafnvel í sífellu, er útvarpið sá fjölmiðill, sem í tímahraki segir bezta sögu. Það er athyglisvert, að mikill hluti fólks hefur misst sjónar á þessu og treystir eingöngu á fréttaleikhúsið.

Ef menn vilja hins vegar fá mikið magn upplýsinga, en sætta sig við að fá það ekki nema einu sinni eða tvisv-ar á dag, hafa prentaðir fjölmiðlar mikla yfirburði. Enda er greinilegt, að útbreiðsla sjónvarps dregur úr hlustun á útvarp, en hefur engin áhrif á dagblöð.

Í Persaflóastríðinu kom í ljós, að bezt var að fá stöðugar upplýsingar úr útvarpsstöðvum á borð við brezku gufuna og að áreiðanlegustu upplýsingarnar komu tvisv-ar á dag í prentuðum fjölmiðlum. Í Persaflóastríðinu kom í ljós, að sjónvarp er aðallega leikhúsafþreying.

Samt er fólk hugfangið af að hafa orðið vitni að stríði “í beinni útsendingu”. Sjónvarpsfíklar gera sér ekki grein fyrir, að það voru þeir, sem misstu af stríðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir milljarðar á dag

Greinar

Alþingismenn eru sem betur fer hættir störfum og farnir heim í hérað til kosningabaráttu. Undir lokin kostaði þingið um það bil tvo milljarða á dag. Töfin á þingslitum fram yfir helgi hækkaði til dæmis niðurstöður lánsfjárlaga úr 15 milljörðum í 25 milljarða.

Síðustu dagar alþingis einkenndust af stjórnlausum kosningatitringi. Ef það hefði fengið að starfa fram eftir þessari viku, hefðu fleiri óskhyggjumál náð fram að ganga á lokasprettinum, því að alþingismenn mega ekkert aumt sjá, einkum þegar kosningar eru í aðsigi.

Lánsfjárlagafrumvarpið hóf göngu sína í desember og nam þá 12 milljörðum. Um miðjan marz byrjaði það að tútna út. Fimmtudaginn 14. marz var það komið yfir 15 milljarða. Mánudaginn 18. marz náði það 21 milljarði og kvöldið eftir náðist 25 milljarða niðurstaða.

Lánsfjárlagafrumvarpið segir allt, sem segja þarf um afdrif þjóðarsáttarinnar, sem ríkisstjórnin hefur lengi gumað af. Þessi sátt er núna búin að vera, því að kosningaskjálftinn hefur sett af stað verðbólguhjól, sem ný ríkisstjórn verður að glíma við eftir kosningar.

Umsvif ríkisins á lánamarkaði munu stóraukast í kjölfar lánsfjárlaganna nýju. Áður var talið, að ríkið mundi þurfa 60% af öllum sparnaði í landinu. Nú er ljóst, að hlutfallið verður enn hærra. Það verður því minna til skiptanna fyrir aðra, sem telja sig þurfa lán.

Til að ná markmiðum lánsfjárlaga þarf komandi ríkisstjórn að bjóða góða kosti á lánamarkaði, það er að segja háa vexti. Þetta er í samræmi við almenn lögmál um framboð og eftirspurn, enda hafa bæði Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki varað við þessari atburðarás.

Að svo miklu leyti sem ríkið tekur lánsfé sitt á erlendum markaði eykst peningamagn á innlendum markaði. Sú þensla eykur verðbólguna eins og aukin eftirspurn innlends fjármagns. Í báðum tilvikum er óhjákvæmilegt, að verðbólgu- og vaxtaskriða renni af stað.

Næstu daga munu hagfræðingar leika sér að spám um þessa framvindu. Niðurstöður þeirra verða að einhverju leyti misjafnar, en grunntónninn verður þó hinn sami. Þeir verða sammála um, að lánsfjárlögin rjúfi viðkvæmt jafnvægi þjóðarsáttarinnar um litla verðbólgu.

Þetta örlagaríka hrun þjóðarsáttar á lokadögum Alþingis er fyrst og fremst mál ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar á þingi. Ríkisstjórnin skilur við með engin þau tromp á hendinni, sem hún hefur státað mest af á stuttum og fremur glæfralegum ferli.

Undir öðrum og heilbrigðari kringumstæðum hefðu aðstandendur ríkisstjórnar getað mætt kjósendum og sagt: “Þótt margt hafi illa gengið, tókst okkur þó að halda verðbólgunni í skefjum.” Ljóst er orðið, að þetta munu þeir ekki geta sagt, nema vera vísvitandi að ljúga.

Þeirri spurningu er svo ósvarað, hvort það svari kostnaði að reyna að kaupa sér frið hjá kjósendum með kosningabruðli á borð við hin nýju lánsfjárlög, þegar margir kjósendur munu jafnframt átta sig á, að kosninga-víxillinn setur punktinn aftan við skeið þjóðarsáttar.

Á þessu stigi er ekki auðvelt að spá, hvort verði þyngra á metunum hjá fleiri kjósendum, gleði þeirra yfir hlutdeild sinni í dreifingu herfangs lánsfjárlaga, eða reiði þeirra yfir ábyrgðarlausu brotthlaupi ríkisstjórnarinnar frá eina afrekinu, sem hún gat státað af.

Hins vegar er strax hægt að fagna því, að þingmenn gera ekki meira ógagn á þessu kjörtímabili og að dagar núverandi ríkisstjórnar eru loksins, loksins taldir.

Jónas Kristjánsson

DV

Vilja heyra vaxtaævintýri

Greinar

Íslendingar eru á móti vöxtum án þess að hugsa nánar út í það. Það er helzt aldrað fólk, sem hefur sparað, er lítur jákvæðum augum á vexti, svo og umsjónarmenn lífeyrissjóða og annarra fjármagnsstofnana, en þeir eru svo fáir sem kjósendur, að þeir teljast varla.

Hinir eru miklu fleiri, sem þurfa að greiða niður skuldir sínar eða muna eftir erfiðleikum sínum við það. Ennfremur eru fyrirtæki svo lítil hér á landi, að starfsmenn þeirra vita oft tiltölulega vel um, að vaxtabyrði getur verið umtalsverður þáttur í rekstri þeirra.

Fátítt er á Vesturlöndum, að efnahagsumræða geti snúizt um, hvaða vextir sü sanngjarnir. Erlendis er litið á vexti sem gangráð, en ekki sem þátt velferðarkerfisins. Þar eru vextir hækkaðir til að hamla gegn verðbólgu og lækkaðir, þegar verðbólga minnkar.

Hér er umræðan á mun lægra stigi. Lengst í því gengur forsætisráðherra, sem hélt því fram um daginn, að bankagróðinn sýndi, að vextir væru of háir. Hið rétta er, að bankagróði sýnir frekar, að munur inn- og útvaxta sé of mikill eða að þjónustugjöld sü of há.

Þegar forsætisráðherra getur, án þess að blikna eða blána, kennt óskyldu atriði um bankagróða, er engin furða, þótt hann haldi líka fram, að háir vextir auki verðbólgu. Enginn hagfræðingur í heiminum heldur slíku fram, nema ef verið hefði Magni Guðmundsson.

Svo sérstæð er þessi skoðun, að samráðherra forsætisráðherrans, það er bankaráðherrann, sagði um daginn á Alþingi, að hún væri röng. Hann sagði það ekki berum orðum, en orðaði það á þá leið, að skoðun Seðlabankans væri rétt, það er að segja gagnstæð skoðun.

Svo sérstæð er vaxtaskoðun forsætisráðherra, að Þjóðhagsstofnun er sammála Seðlabankanum um, að hún sé röng. Þetta kom fram í svari stofnunarinnar hér í blaðinu á föstudaginn. Hefur stofnunin þó yfirleitt reynt að styðja yfirboðara sinn, forsætisráðherrann.

Steingrími Hermannssyni er nákvæmlega sama um, hvað hagfræðingar Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar eru að segja. Honum er enn frekar sama um, hvað hagfræðingar í Háskólanum og ýmsum stofnunum úti í bæ eru að segja. Hann veit, að fólk vill heyra ævintýri.

Gengi stjórnmálamanna á borð við forsætisráðherra byggist á sama veikleika fólks og gengi stjórnmálaflokka á borð við Framsóknarflokkinn. Þetta gengi hvílir á traustum grunni vanþekkingar og óskhyggju meðal kjósenda almennt. Vextir eru einfaldlega óvinsælir.

Gengi slíkra stjórnmálamenna og stjórnmálaflokka fer líka eftir hinni séríslenzku hugmynd, að verkefni stjórnmálamanna sé fólgið í að stýra öllu að ofan, smáu sem stóru. Það vantar ekki mikið á, að menn ætlist til, að þjóðarleiðtogar stjórni veðri og vindum.

Markaðslögmál eru fjarlæg Íslendingum. Sjálfvirkir gangráðar eru langt utan hugmyndaheims okkar. Íslendingar ætlast fremur til, að traustir menn komi saman á fund í nefnd og stjórn og ákveði með pennastriki, hvernig hlutirnir skuli ganga, að beztu manna yfirsýn.

Íslendingar taka engum rökum, hvorki vitsmunalegum né peningalegum. Ef þeim finnst blóðugt að borga vexti, vilja þeir einfaldlega, að forsætisráðherra lækki vextina og afnemi þá helzt með öllu. Þetta veit ráðherrann og talar því algerlega út úr hól um hagfræði.

Forsætisráðherra er annar vinsælasti stjórnmálamaður landsins og jafnframt nákvæmlega sú tegund stjórnmálamanna, sem utangátta rökleysuþjóð á skilið.

Jónas Kristjánsson

DV

Gott fólk eða vont?

Greinar

“Eru því flestir aumingjar og illgjarnir, þeir sem betur mega”, orti Bólu-Hjálmar um nágranna sína. Hann var fremur bitur maður, svo sem skáldskapur hans sýnir á köflum. En dálítill sannleikur er í orðum hans, því að mannkynið er langt frá að vera fullkomið.

Til mannkyns verður að telja Saddam Hussein, sem er með verstu mönnum, er hafa komizt til áhrifa. Hann sameinar grimmd og geðveiki í slíkum mæli, að minnir á Timur i Leng, sem varð frægur að endemum á 14. öld. Báðir létu hlaða kesti úr líkum fórnardýra sinna.

Um allan heim er verið að brjóta siðalögmál og reglur, sem byggjast á þeim. Saddam Hussein er ekki einn um hituna, þótt hann sé kunnastur þessa dagana. Hér á landi er töluvert af smáglæpamönnum, sem reyna að afla sér viðurværis með því að brjóta siðalögmál.

Ofbeldi hefur verið beitt á götum Reykjavíkur undanfarnar vikur. Vegfarendur geta átt á hættu, að ókunnugir ráðist fyrirvaralaust að þeim og misþyrmi þeim svo, að þeir bíði þess aldrei bætur. Löggæzlan heldur ekki uppi lögum og reglu á sumum stöðum og tímum.

Enn algengara er, að menn ljúgi og steli, svo sem stjórnmálin sýna. Ráðherrar heyja kosningabaráttu sína af almannafé og stæra sig jafnvel af því, að geta haldið fram röngum fullyrðingum á sannfærandi hátt. Eftir þessu höfði dansa svo limir stjórnmálalífsins.

Hugsjónakerfi, sem stefna að fullkomnu þjóðfélagi, gera ekki ráð fyrir mannlegum breyskleika. Tilraunir til að framkvæma slík kerfi leiða yfirleitt til valdatöku manna, sem þykjast vera beztir allra, en eru í rauninni verstu skúrkar, svo sem sovézka dæmið sannar.

Í Bandaríkjunum má oft þekkja pólitíska þrjóta á því, að þeir vefja sig þjóðfánanum og kyrja þjóðsönginn, svo notað sé líkingamál. Glæpamenn beita oft því bragði að stilla sér fremst í sveit þeirra, sem hampa fögrum og einkum þó viðurkenndum undirstöðureglum í siðum.

Lýðræði er afar heppileg aðferð til að hafa hemil á vandamálinu. Hæfni lýðræðis stafar ekki af, að það byggist á góðsemi og siðsemi fólks, heldur á því, að lýðræði skiptir um valdhafa á friðsaman hátt. Brottrekstur ráðamanna er grundvallaratriði í siðuðu þjóðfélagi.

Telja má Ísland vera í stórum dráttum siðað sem ríki, því að valdamenn koma og fara. Írak er hins vegar ekki siðað, af því að það kostar blóðbað og borgarastyrjöld að losna við geðsjúkan grimmdarsegg úr valdastóli. Sovétríkin eru einhvers staðar þarna á milli.

Engin tilviljun er, að lýðræði hefur þrifizt bezt á Vesturlöndum, þar sem samhliða hefur verið beitt markaðshyggju í viðskiptum. Markaðsbúskapur er afar sniðug aðferð við að virkja eigingirni manna til heilla fyrir samfélagið, þannig að ótrúleg verðmæti skapast.

Þar sem byggt er á ríkisrekstri eða samvinnubúskap í atvinnulífi, síast smám saman inn vandræði, sem rækilega hafa verið kortlögð í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Það stafar af, að fögur fyrirheit sósíalisma og samvinnu duga ekki í heimi, þar sem gott og vont býr í fólki.

Markaðshyggjan byggist á raunhæfu mati á ófullkomleika mannkyns og felur í sér leið til að fella þrá manna í gróða og völd að sameiginlegum hagsmunum samfélagsins. Hún er vélin, sem knýr áfram velferðarríki lýðræðis og gerir þau að fyrirmynd þriðja heimsins.

Gott og vont býr í öllu fólki, ekki bara nágrönnum Bólu-Hjálmars. Lýðræði og markaður eru beztu leiðirnar til að búa til siðaðar auðþjóðir úr þessu hráefni.

Jónas Kristjánsson

DV

Búvöruruglið framlengt

Greinar

Búvörusamningur landbúnaðarráðherra gefur tóninn um, hvernig haldið verður á málum landbúnaðarins út þessa öldina. Þjóðarsáttarmenn samtaka launamanna og vinnuveitenda voru ginntir til að leggja drög að honum og enginn stjórnmálaflokkur mun stöðva hann.

Þótt formaður Alþýðuflokksins hafi sagt, að búvörusamningurinn sé siðlaus og stórgallaður, hefur sú ein breyting orðið á samningnum, frá því að hann kom frá þjóðarsáttarmönnum, að hann er orðinn dýrari og verri en fyrr, kostar rúmlega fjórum milljörðum meira.

Þetta stafar af, að landbúnaðarráðherra tók meira mark á athugasemdum frá voldugum hagsmunasamtökum landbúnaðarins en áhrifalitlum Alþýðuflokki, sem að venju hefur lyppast niður eftir nokkurt gelt, nákvæmlega eins og spáð hafði verið hér í blaðinu.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn fer í ríkisstjórn eftir kosningar, mun hann staðfesta samninginn, enda lýsti flokkurinn á landsfundi stuðningi við samninginn í því ástandi, sem hann kom frá þjóðarsáttarmönnum. Samtök landbúnaðarins eru því með pálmann í höndunum.

Samkvæmt búvörusamningnum verður farin afar dýr leið að samdrætti í framleiðslu búvöru. Hún er svo dýr, að ekkert sparast, heldur verður kostnaður meiri en ella, fyrstu árin að minnsta kosti. Er þá aðeins miðað við þau kurl, sem þegar eru komin til grafar.

Alvarlegasti galli búvörusamningsins er, að hann gerir enga tilraun til að markaðstengja landbúnaðinn. Áfram er gert ráð fyrir lokuðu og ofanstýrðu kerfi, sem ekki miðar við alþjóðlegt markaðsverð. Hagsmuna neytenda er hvergi gætt í hinum nýja búvörusamningi.

Búvörusamningurinn gerir ráð fyrir, að niðurgreiðslum og útflutningsbótum verði breytt í beina styrki til bænda. Jafnframt hyggst ríkið borga sauðfjárbændum til að hætta eða minnka við sig. Hvort tveggja er til bóta, en felur þó í sér óbreytt útgjöld skattgreiðenda.

Miklu eðlilegra hefði verið að keyra samhliða á báða þætti málsins, neytenda og skattgreiðenda. Ef kerfisbreytingunni hefði fylgt afnám innflutningsbanns í áföngum, gætu neytendur notið góðs af henni, jafnvel þótt byrði skattgreiðenda héldist óbreytt enn um sinn.

Þar sem fólkið í landinu er í senn neytendur og skattgreiðendur, hefði hin dýra aðferð við að draga úr búvöruruglinu orðið almenningi bærilegri en hún er samkvæmt búvörusamningnum. Með lægra matarverði hefði verið auðveldara að afsaka hina miklu skattbyrði.

Fólkið í stéttarfélögunum mætti hugleiða, að það voru umboðsmenn þess í Sjö manna nefnd, sjálfir verkalýðsrekendurnir, er gáfu tóninn að búvörusamningi, sem felur ekki í sér neina fyrirsjáanlega lækkun á matarkostnaði heimilanna eða skattgreiðslum heimilanna.

Fólkið í landinu mætti svo um leið hugleiða, að alls enginn stjórnmálaflokkur í komandi kosningabaráttu er reiðubúinn að standa gegn búvörusamningi, sem felur ekki í sér neina fyrirsjáanlega lækkun á matarkostnaði heimilanna eða skattgreiðslum heimilanna.

Þeir, sem horfa til framtíðar, mættu svo hugleiða, að búvörusamningurinn felur í sér orðalag, sem mun verða notað til að standa gegn því, að Ísland nái hagkvæmum samningum um fiskveiðar og fiskútflutning í viðræðum um fríverzlun og efnahagsbandalög í umheiminum.

Engin lækning fæst á búvöruruglinu án þess að leyfa innflutning á búvöru. Nýi samningurinn tekur ekki á þeim vanda, né gerir það nokkur stjórnmálaflokkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Reynt að vinna friðinn

Greinar

Bush Bandaríkjaforseti hefur látið falla orð, sem benda til, að hann og stjórn hans átti sig á, að mun erfiðara verður að vinna friðinn heldur en stríðið, sem var undanfari friðarins. Hann hefur meira að segja sagt, að Ísrael verði að láta af hendi land fyrir frið.

Stríðsbandalag Vesturveldanna við nokkur öflugustu ríki íslams, Egyptaland, Sýrland og Saúdi-Arabíu, hefur rofið skörð í bandaríska varnarmúrinn um þrengstu sérhagsmuni Ísraels. Í náinni framtíð má búast við mun betra jafnvægi í bandarískri Palestínustefnu.

Bandaríkin geta þrýst á Ísrael með því að hætta að halda ríkinu uppi með peningum og hergögnum, svo sem þau hafa gert hingað til. Ef bandaríski stuðningurinn hverfur, stendur hryðjuverkastjórn Yitzhak Shamir í Ísrael berskjölduð í stjórnlausri frekju sinni.

Stærsta vandamálið í Miðausturlöndum hefur lengi verið skilyrðislaus stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael, á hverju sem þar hefur gengið. Áróðurs- og ímyndastofnunin Aipac hefur, í þágu Ísraelsríkis, löngum haft heljartök á bandarísku almenningsáliti.

Ef þessi fjötur rofnar, er unnt að undirbúa, að Bandaríkin, Egyptaland, Sýrland og Saúdi-Arabía semji við Ísrael á svipaðan hátt og Egyptaland gerði fyrir nokkrum árum og að Ísrael skili Palestínumönnum aftur landi, sem það tók af þeim í síðasta stríði.

Í þessum tilfæringum er brýnt, að Palestínumenn friðþægi fyrir stuðninginn við óargadýrið í Bagdad með því að fórna Jasser Arafat og koma sér upp nýrri forustu, sem ekki hefur óhreinkazt af Saddam Hussein. Arafat veðjaði á rangan hest og verður að hætta.

Margt bendir einnig til, að Bandaríkjastjórn átti sig á, að hún verður að fara gætilega í stuðningi við hina nýju bandamenn sína í löndum íslama. Hún hefur þegar tekið á beinið emírinn í Kúvæt og sagt honum, að hann og ætt hans þurfi að veita Kúvætum aukið lýðræði.

Fremur sennilegar upplýsingar benda til, að ættmenn emírsins í Kúvæt hafi komið á fót dauðasveitum til að drepa andspyrnumenn, sem börðust gegn hernámsliði Saddams Hussein og kæra sig síður en svo um að fá afturhaldsstefnu emírsins á bakið á nýjan leik.

Emírinn í Kúvæt er svipuð söguskekkja og kóngurinn í Saúdi-Arabíu og aðrir sjeikar á Arabíuskaga. Ef Vesturveldin halla sér um of að þessu sællífisliði, munu þau um síðir uppskera óbeit arabísks almennings, sem fyrr eða síðar heimtar vestræn lýð- og mannréttindi.

Meiri óvissa er um velgengni stefnu Bandaríkjanna gagnvart Írak. Gegn vilja Breta og Frakka hleyptu Bandaríkjamenn herliði Íraks í gegn án þess að taka af því vopn. Þessi vopn eru nú notuð til að bæla niður uppreisnir gegn Saddam Hussein víðs vegar um Írak.

Bandaríkjastjórn hefur með þessu tekið mikla áhættu. Hún þykist þess fullviss, að Írakar muni velta Saddam Hussein úr sessi. Hún veit, að betra er, að þeir geri það sjálfir heldur en að útlendingar geri það. Þeim mun minni líkur eru á, að hann verði píslarvottur.

Jafnframt er Bandaríkjastjórn að reyna að koma í veg fyrir, að uppreisnarmenn sjíta í Írak verði allsráðandi í landinu. Hún óttast eins og súnnítar á Arabíuskaga, að þeir muni halla sér að trúbræðrum sínum í Íran og verða andsnúnir súnnítum og Vesturlöndum.

Bandaríkjastjórn má ekki truflast um of af hagsmunum kónga og emíra á Arabíuskaga, sem vilja ekki lýðræði í Írak, heldur nýjan og vinveittari harðstjóra.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir eru klárari en við

Greinar

Nýsjálendingar hafa að því leyti svipaðar aðstæður og Íslendingar, að sjávarútvegur þeirra verður að keppa á erlendum markaði án þess að vera á framfæri hins opinbera eins og sjávarútvegur margra fiskveiðiþjóða, svo sem Norðmanna og þjóða Evrópubandalagsins.

Nýsjálendingar hafa að því leyti verri aðstæður en Íslendingar, að landbúnaður þeirra verður að keppa á erlendum markaði án þess að vera á framfæri hins opinbera eins og landbúnaður flestra þjóða Vestur-Evrópu, þar á meðal Íslands, sem gengur einna lengst allra.

Nýsjálendingar hafa fundið leiðir til að láta sjávarútveg og landbúnað standa sig sem hornsteina þjóðarbúsins. Þeir hafa tekið erfiðar ákvarðanir, sem við höfum ekki treyst okkur í hér á landi. Þeir hafa gert á atvinnulífinu uppskurð, sem við höfum neitað okkur um.

Langsamlega mikilvægasti þátturinn í velgengni Nýsjálendinga á þessu sviði er, að þeir hafa afnumið opinberan stuðning við atvinnugreinarnar. Þeir hafa að vísu kvótakerfi í sjávarútvegi, en leggja ekki hömlur á, að hann gangi kaupum og sölum til hæstbjóðandi.

Fyrir sex árum var ástand landbúnaðar í Nýja-Sjá-landi að sumu leyti svipað og á Íslandi. Samanlagður ríkisstuðningur nam þriðjungi af verðmæti framleiðslunnar, svipað hlutfall og þá ríkti í Vestur-Evrópu. Þá hófu Nýsjálendingar í áföngum að afnema stuðninginn.

Til þess að vera samkeppnishæfir á erlendum markaði fá nýsjálenzkir bændur aðeins einn fimmta hluta þess verðs, sem vesturevrópskir bændur fá, og einn þriðja hluta þess verðs, sem bandarískir bændur fá. Þetta hefur nýsjálenzkum bændum tekizt að lifa af.

Þeir hafa neyðzt til að hagræða markaðsmálum sínum. Þeir flytja minna af dilkskrokkum úr landi og meira af tilbúnum sjónvarpsréttum lambakjöts. Þeir flytja minna úr landi af einföldum brauðosti og meira af sérhæfðum ostum. Og þeir auglýsa “hreint land”.

Nýsjálendingar höfðu ekki efni á að bera landbúnaðinn á bakinu, af því að þeir þurftu að lifa á honum. Þeir tóku hann af bakinu á sér á sex árum. Og það merkilega hefur gerzt, að landbúnaðurinn lifir áfram og leggur sitt af mörkum í nýsjálenzka þjóðarbúið.

Heimsmarkaðsverð á búvöru stjórnast ekki af niðurgreiðslum og uppbótum Evrópubandalagsins. Hinar opinberu aðgerðir í Vestur-Evrópu miðast við að losa bandalagið við búvöru á sama verði og ýmsar þróaðar landbúnaðarþjóðir geta án nokkurs stuðnings ríkisins.

Í þessum hópi eru lambakjötsframleiðendur á borð við Nýsjálendinga og Ástrali, nautakjötsframleiðendur á borð við Argentínumenn og kornvöruframleiðendur á borð við Bandaríkjamenn. Þar eru líka ýmsar þjóðir þriðja heimsins og Austur-Evrópu, þar sem laun eru lág.

Við getum ekki keppt við Nýsjálendinga í lambakjöti og ull. Þar hefur hver bóndi 1650 kindur, en hér 355. Þar fær hver bóndi 16,8 tonn af kjöti, en hér 6,9. Þar fær hver bóndi 6,6 tonn af ull, en hér 0,62. Við getum því aðeins keppt, að við finnum okkur verðmæta sérstöðu.

Þá sérstöðu höfum við hins vegar í sjávarútvegi. En við notum hana ekki eins vel og Nýsjálendingar nota sína af því að við höfum komið á fót stirðu og mann-freku skömmtunarkerfi, þar sem kvótar mega af byggðaástæðum ekki ganga frjálsum kaupum og sölum.

Við ættum að skoða betur, hvað Nýsjálendingar hafa verið að gera. Þeir hafa lent í mun meiri erfiðleikum en við og hafa unnið sig mun betur úr vandanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Búvörur fyrir fisk

Greinar

Evrópubandalagið kann fyrir haustið að slá af kröfum sínum um fiskveiðirétt í efnahagslögsögu Íslands, en engin umtalsverð merki slíks hafa sézt enn. Viðræður Fríverzlunarsamtakanna við bandalagið um evrópskt efnahagssvæði hafa að þessu leyti gengið fremur illa.

Viðræðunum átti að ljúka fyrr í vetur, en hafa dregizt á langinn. Búizt er við, að samkomulag náist ekki fyrr en í haust. Evrópubandalagið hefur sem fyrr reynzt þungt á bárunni, enda er ekki laust við, að sumir ráðamenn þess kæri sig lítið um fyrirhugað efnahagssvæði.

Embættismennirnir, sem ráða miklu um ferð Efnahagsbandalagsins í viðræðunum, vilja draga úr sjálfstæði einstakra bandalagsríkja og efla völd miðstjórnarinnar. Það er eðli embættismanna að vilja sem minnsta valddreifingu, af því að hún skerðir völd þeirra.

Vegna þessa hafa margir ráðamenn bandalagsins áhyggjur af evrópsku efnahagssvæði, sem væri losaralegra í sniðum en hið miðstýrða bandalag, drægi nokkurn dám af Fríverzlunarsamtökunum og leyfði einstökum ríkjum Evrópu meira neitunarvald og sjálfsforræði.

Enn hafa samstarfsþjóðir okkar í Fríverzlunarsamtökunum ekki fórnað hagsmunum Íslands. Enginn veit, hvað gerist í lokahrinu viðræðnanna í haust, en ekki er ástæða til að fara á taugum vegna þess. Við verðum bara að gæta þess vel, að þeir bili ekki.

Norðmenn hafa valdið okkur erfiðleikum með kröfu um sömu reglur fyrir sig og Íslendingar fái, hvað varðar fiskinn. Þetta er fráleitt, því að þar er sjávarútvegur hluti af ríkisstyrktri byggða- og landbúnaðarstefnu, en hér er hann sjálfur hornsteinn þjóðfélagsins.

Norðmenn lifa á olíu og gasi, stóriðju og siglingum. Þeir geta leyft sér að nota sjávarútveg sem eins konar grein af ríkisbúskapnum til að halda byggð á afskekktum stöðum, til dæmis í nágrenni Sovétríkjanna. Við þurfum hins vegar að lifa á sjávarútvegi.

Samhliða viðræðunum um efnahagssvæði Evrópu þurfum við að leggja áherzlu á beinar viðræður við pólitíska aðila, sem hafa áhrif á stefnu Evrópubandalagsins. Við þurfum að reyna að grafa undan pólitískum stuðningi við samningshörku embættismannanna.

Þetta má gera með gagnkvæmum heimsóknum ráðherra, svo sem sjávarútvegsráðherra okkar hefur gert. Með seiglu og lagi er hægt að koma á framfæri, að bezt sé, að hver fyrir sig hafi frið til að stunda sérgrein sína í samkeppni við ríkisrekna atvinnuvegi annarra.

Svo vel vill til, að Evrópubandalagið hefur boðið upp á aðra lausn en þá, að erlend skip fái að veiða í lögsögu Íslands. Hún felst í, að á móti lækkun og afnámi tolla á íslenzkum fiski komi leyfi til innflutnings til Íslands á landbúnaðarvörum frá löndum Evrópubandalagsins.

Við höfum tvöfaldan ávinning af þessari leið. Við fengjum að hafa sjávarútveginn í friði og fengjum ódýrari mat en við fáum nú. Innlendir hagfræðingar hafa reiknað, að gróði íslenzkra neytenda af innflutningsfrelsi búvöru muni nema um 13 milljörðum á ári.

Þetta er raunar eina leiðin, sem við höfum til að ná árangri gagnvart Evrópubandalaginu, hvort sem er í sameiginlegu viðræðunum um evrópskt efnahagssvæði eða í beinum viðræðum okkar við bandalagið um aðild okkar að því eða um nýjan viðskiptasamning við það.

Innflutningsfrelsi búvöru á móti varðveizlu fiskveiðilögsögu er lykill árangurs í mikilvægustu milliríkjaviðræðum okkar síðan við tókum öll mál í eigin hendur.

Jónas Kristjánsson

DV

Gorbatsjov fælir

Greinar

Rússneskumælandi kjósendur í Lettlandi og Eistlandi greiddu atkvæði með sjálfstæði í opinberri skoðanakönnun um helgina. Stuðningurinn varð meiri en sjálfstæðissinnar reiknuðu með, meðal annars vegna stuðnings meirihluta kjósenda á rússneskum svæðum.

Í Lettlandi er helmingur íbúanna ekki af lettneskum ættum, heldur rússneskum og einnig pólskum. Búast hefði mátt við efasemdum þessa fólks um sjálfstæði, sem hugsanlega gæti gert rússneskumælandi fólk að annars flokks borgurum í sjálfstæðu, lettneskumælandi ríki.

Þeir, sem eru aðfluttir og eiga rússnesku að móðurmáli, hafa hingað til haft ákveðin forréttindi í Eystrasaltsríkjunum. Sovétstjórnin hefur reynt að magna þetta fólk gegn sjálfstæði með grýlunni um, að því muni farnast illa í sjálfstæðum þjóðríkjum við Eystrasalt.

Sjálfstæði fékk 75%-80% fylgi í Lettlandi eins og í Eistlandi, þar sem styrkur heimatungumálsins er meiri. Þetta segir einfaldlega, að ofan á eðlilega þjóðernisvitund Letta og Eista bætist við sú trú hinna, sem ekki eru af þessum þjóðum, að sjálfstæði leiði til betra lífs.

Jafnvel þótt Rússar í Eistlandi og Lettlandi sjái fram á að þurfa að læra tungumál staðarins og laga sig að háttum heimaþjóðanna, vilja þeir ekki vera í skjóli móðurlandsins. Þetta verður ekki skilið nema með hliðsjón af efnahagslegum væntingum rússneskra kjósenda.

Rússar í Eistlandi og Lettlandi átta sig á, að Sovétríkin eru efnahagslega komin að fótum fram. Þeir kjósa heldur að efla sjálfstæði Eistlands og Lettlands í von um, að sjálfstæð geti þessi ríki tekið upp hagstefnu, sem leiðir til farsældar og efnahagslegs öryggis fólks.

Stjórn Gorbatsjovs er um þessar mundir að gera illt verra í efnahagsmálum Sovétríkjanna. Þar var til skamms tíma alveg einstaklega óhæfur fjármálaráðherra, Valentin Pavlov, sem lét prenta rúblur í óða önn til þess að gera ríkinu kleift að vera með 10% halla.

Gorbatsjov verðlaunaði Pavlov fyrir öngþveitið í ríkisfjármálunum með því að gera hann að forsætisráðherra. Fyrsta verk Pavlovs í nýja embættinu var að innkalla rúblurnar sínar og eyða þar með traustinu, sem einhverjir kunna að hafa borið til gjaldmiðilsins.

Síðan bætti Pavlov um betur. Hann setti fram broslega samsæriskenningu um, að vestrænir bankar hefðu safnað rúblum til að steypa Gorbatsjov úr sessi. Þessu fylgdu vanstilltar stríðsyfirlýsingar hans gegn vestrænum bröskurum, meðalgöngumönnum og gróðapungum.

Í rauninni hafa Vesturlönd í óða önn verið að reyna að hjálpa Sovétríkjunum og tryggja Gorbatsjov í sessi. Miklu fjármagni hefur verið varið til að hjálpa honum til að efla væntingar fólks, svo að Sovétríkin yrðu traust ríki og helzt góður bandamaður í alþjóðamálum.

Hinn nýi yfirmaður sovézku leyniþjónustunnar, Vladimir Kryusjov, hefur sagt, að hin vestræna fjárhagsaðstoð miði við að grafa undan Sovétríkjunum. Þannig hefur Gorbatsjov valið til æðstu valdastarfa þá menn, sem helzt eru andvígir vestrænni kaupsýslu.

Innreið Pavlovs og Kryusjovs leiðir að sjálfsögðu til þess, að vestrænir bankar, fyrirtæki og ríkisstjórnir kippa að sér hendinni. Það tekur því ekki að hjálpa Gorbatsjov, ef menn fá í staðinn ásakanir um glæpi og leyniþjónustan er send í útibú vestrænna fyrirtækja.

Stuðningur Rússa í Eistlandi og Lettlandi við sjálfstæði þessara ríkja stafar af, að þeir skilja, að Gorbatsjov er að fara með Sovétríkin á hausinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Dapur endir á dýru stríði

Greinar

Nú er friður brostinn á Persaflóasvæðið og hætturnar farnar að magnast á nýjan leik. Sannast mun, að marg-falt erfiðara verður að vinna friðinn heldur en stríðið. Markmið bandamanna eru svo ólík og þverstæð, að fremur ólíklegt er, að niðurstaðan verði góð.

Vegna vestrænna olíuhagsmuna tekur stjórn Bandaríkjanna allt of mikið tillit til hagsmuna hinna afturhaldssömu emíra við Persaflóann og hinna róttæku afturhaldsmanna í konungsætt Saúda. Þessir hagsmunir minnka líkur á, að reynt verði að efna til lýðræðis í Írak.

Þess sjást nú merki, að bandarísk stjórnvöld eru að frysta úti landflótta stjórnmálamenn frá Írak með því að neita að tala við þá. Þetta er gert í þágu Saúda og emíra, sem óttast, að lýðræði í Írak muni þrýsta á lýðræðisþróun í afturhaldsríkjunum við Persaflóa.

Saúdar vilja ekki, að minnihlutahópar Sjíta og Kúrda fái aukna aðild að stjórn Íraks. Þeir vilja helzt, að herforingi úr röðum Súnníta taki við völdum og haldi áfram að vera á varðbergi gegn Sjítum og Kúrdum, sem hafa sætt miklum ofsóknum á valdaskeiði Saddams Hussein.

Í meira samræmi við hagsmuni Vesturlanda væri að efla lýðræðissinna til valda í Írak og reyna að koma á fót stjórnkerfi, sem taki tillit til Sjíta og Kúrda og veiti þeim hlutfallslega sanngjarna aðild að stjórn landsins. Svo virðist sem Saúdar muni koma í veg fyrir þetta.

Bandaríkjastjórn hyggst ná markmiðum sínum með því að halda suðurhluta Íraks á sínu valdi og halda áfram efnahagsþvingunum meðan þrýst verður á stjórnarbreytingu í Írak. Hún vill hrekja Saddam Hussein frá völdum, en vill ekki sleppa lýðræði inn í staðinn.

Við munum senn fá að heyra gamla ruglið um, að Írakar sü svo frumstæðir, að þeim henti ekki lýðræði, heldur þurfi þeir sterka stjórn herforingja, alveg eins og sagt var um Grikki í Morgunblaðinu fyrir áratug, þegar herforingjaklíka hafði völd þar í landi.

Þvert á móti er mikill fjöldi Íraka vel menntaður eins og raunar margir fleiri íslamar. Styrjöldin við Persaflóa var gullið tækifæri til að stuðla í Írak að svipuðu hálfgildings-lýðræði og því, sem hefur smám saman verið að halda innreið sína í Tyrkland og festa rætur þar.

Vinnubrögð Bandaríkjastjórnar hafa leitt til, að óargadýrið Saddam Hussein er enn við völd í skjóli morðsveitanna í kringum hann. Ekkert bendir til, að hann sé fær um að læra eitthvað og gleyma einhverju. Hann byrjar umsvifalaust að framleiða ný vandamál.

Eftir ósigur Saddams Hussein í árárarstríðinu gegn Íran kom í ljós, að hann gat haldið fólkinu í landinu í skefjum, þótt mannfallið í herjum hans væri margfalt meira en það hefur orðið í árásarstríði hans gegn Kúvæt. Hann mun halda dauðahaldi í völd og ógnarstjórn.

Þjáningar Íraka munu því framlengjast um ófyrirsjáanlegan tíma. Ef Saddam Hussein verður hrakinn frá völdum, kemur til skjalanna annar herforingi, sennilega úr Ba’at stjórnmálaflokknum, sem er afar fjandsamlegur lýðræði og öðrum vestrænum hugmyndum yfirleitt.

Niðurstaðan af þessu verður, að engin markverð póli-tísk opnun verður í Írak eða við Persaflóa, en hins vegar verður borgið skammtíma olíuhagsmunum Vesturlanda og hagsmunum yfirstéttarinnar í afturhaldsríkjum svæðisins, þar á meðal emírsins í Kúvæt.

Ekki hafði fyrr verið unninn sigur á vígvellinum við Persaflóa en merki fóru að sjást um, að bandamenn mundu tapa friðnum. Það væri dapur endir á dýru stríði.

Jónas Kristjánsson

DV

Þreytt samstarf norrænt

Greinar

Úti í hinum stóra heimi er gert góðlátlegt grín að norrænu samstarfi. Vikuritið Economist taldi einu sinni 23 norrænar embættismannanefndir, 152 aðrar nefndir og hópa Norðurlandaráðs og 2000 norræn samstarfsverkefni, þar á meðal um varðveizlu leðurhúsgagna.

Við þekkjum ekki mörg dæmi þess, að önnur eins fyrirhöfn skili jafnlitlum árangri. Norrænt samstarf kostar yfir 8 milljarða króna á ári og hefur ekki skilað neinu síðan á sjötta áratugnum, þegar vegabréfsskoðun var afnumin og samið var um ýmis gagnkvæm réttindi.

Síðan eru liðnir meira en þrír áratugir og ekkert hefur gerzt annað en, að flugfélögin blómstra, með fullar vélar stjórnmála- og embættismanna á leið til funda-og veizluhalda af margvíslegu norrænu tagi, þar sem meðal annars er rætt um varðveizlu leðurhúsgagna.

Norrænt samstarf megnaði ekki einu sinni að lækka tolla milli Norðurlanda. Það gerðist ekki fyrr en suðlægari ríki á borð við Austurríki og Sviss, Spán og Portúgal, Bretland og Írland, komu til skjalanna í samstarfi á breiðari grundvelli í Fríverzlunarsamtökum Evrópu.

Nú eru flest þessi ríki gengin í Evrópubandalagið, sem er orðin valdamiðja Evrópu. Norðurlönd sitja áfram á sínum hjara veraldar, stunda norrænar veizlur sínar og aðrar skrautlegar umbúðir utan um ekki neitt eða þá langvinna draumóra um norræna gervihnetti.

Norðurlandaráð og ráðherrafundir Norðurlanda eru getulaus fyrirbæri út á við. Er Eystrasaltsríkin biðja um stuðning, segja þessar norrænu stofnanir ja og humm. Hið eina, sem gert hefur verið af norrænu viti í málum þessara ríkja, er einkaframtak Íslendinga.

Íslenzka veizlugengið á norrænum vettvangi hefur nú fengið ágætan skell, er frændur þess á hinum Norðurlöndunum hafa tekið frá því formennsku í nefndum. Vonandi verður nokkur sparnaður af brottrekstrinum, því að utanferðum hlýtur að fækka við embættamissinn.

Samstarf Norðurlanda í menningarmálum hefur ekki menningargildi, því að það miðast við að halda listamönnum uppi sem eins konar launuðum embættismönnum utan við hinn kröfuharða listamarkað. Enda hafa Norðurlönd dottið út af heimskorti listasögunnar.

Halldór Laxness sagði einu sinni í blaðaviðtali, að Ísland hefði í bókmenntum ekki neitt til Norðurlanda að sækja. Við værum nokkur hundruð árum á undan þeim og yrðum að bera okkur saman við stórveldin, þar sem hin raunverulega bókmenntasaga er að gerast.

Norrænu fólki hefur gengið vel í lífinu. Notalegt þjóðfélag hefur verið búið til á Norðurlöndum. En þessi þægilegi heimur er í auknum mæli að verða afdalur í umheiminum, einangrað fyrirbæri, sem skiptir litlu um framvindu mála í pólitík, efnahag og listum.

Norrænt samstarf hefur í meira en þrjá áratugi verið næsta marklaust. Það sogar samt til sín fé, tíma og krafta, sem ættu frekar að beinast að samskiptum okkar við hinn raunverulega umheim. Við eigum ekki að láta frysta okkur niður í steingeldum félagsskap.

Norrænt samstarf er svo fyrirferðarmikið, að rekstur Alþingis leggst nánast niður í hvert sinn, sem haldið er þing Norðurlandaráðs. Í þessari viku er hið norræna gengi íslenzkra stjórnmála í Kaupmannahöfn að hjálpa við að framleiða auknar umbúðir utan um ekki neitt.

Miklu nær væri að einbeita okkur að eflingu samskipta okkar við hinar raunverulegu miðstöðvar valda, efnahags, menningar og lista í hinum stóra heimi.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðið er ekki um Kúvæt

Greinar

Tvisvar hefur framvinda stríðsins við Persaflóa ógnað tökum bandamanna á sjálfri framvindunni. Í fyrra skiptið gerðist það, þegar eldflaugar Saddams Hussein hittu ísraelskar borgir. Þá var um tíma hætta á, að Ísrael flæktist inn í stríðið, en því tókst að afstýra.

Í síðara skiptið reyndi Gorbatsjov Sovétforseti að leika tveimur skjöldum með því að lýsa almennum stuðningi við markmið bandamanna, en búa um leið til lausn, sem hefði þýtt, að Sovétríkin hefðu Saddam Hussein að skjólstæðingi og birgðu hann vopnum að nýju.

Þetta tókst ekki. Bandamenn höfnuðu milligöngu Gorbatsjovs á kurteisan hátt og héldu áfram ætlunarverki sínu. Hingað til hefur allt gengið í samræmi við þá kenningu, að Írakar standi ekki að baki Saddam Hussein, heldur þjóni honum af ótta og skelfingu.

Venjulegir hermenn og liðsforingjar í her Saddams Hussein hafa engar vöflur. Þeir hreinlega gefast upp um leið og þeir eru vissir um, að eftirlitsmenn harðstjórans skjóti þá ekki í bakið. Einu hermennirnir, sem verjast, eru í sérþjálfuðum lífvarðasveitum foringjans.

Úr því að bandamenn hafa komizt yfir þröskulda Ísraels og Sovétríkjanna, er mikilvægt, að þeir komist líka yfir þriðja þröskuldinn, Kúvæt. Það er að segja, að þeir líti ekki á frelsun Kúvæt sem niðurstöðu stríðsins, heldur felist hún í að hrekja Saddam Hussein frá völdum.

Stríðinu má ekki ljúka með því einu, að bandamenn nái Kúvæt á sitt vald og komi þar á skaplegu stjórnarfari. Stríðinu lýkur nefnilega ekki í raun fyrr en gengi Saddams Hussein hefur verið komið frá og efnt hefur verið til réttarhalda yfir helztu mönnum þess.

Enginn minnsti vafi er á, að Saddam Hussein og fylgismenn hans hafa framið bæði stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu, þar á meðal glæpi gegn vistkerfi mannkyns. Margir aðrir hafa að vísu framið slíka glæpi, en þetta gengi er eitt hið versta, sem sézt hefur.

Réttarhöld mundu hjálpa fólki til að átta sig á, hve hroðalegt er stjórnarfar í sumum löndum. Þau mundu líka hjálpa öðrum harðstjórum til að átta sig á, að slíkt stjórnarfar getur um síðir haft alvarlegar afleiðingar fyrir harðstjórann sjálfan og sérsveitir hans.

Þetta stríð hefur kostað mikið og á eftir að kosta mikið enn. Mikilvægt er, að sem mest fáist fyrir fórnirnar, sem færðar hafa verið. Sigurinn yfir Saddam Hussein ber að nota til að koma á betri venjum í samskiptum þjóða og í samskiptum yfirvalda við borgarana.

Samkvæmt stofnskrá og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru til reglur um lýðréttindi, sem ekki eiga að þurfa að vera sérstaklega vestrænar, heldur hafa algilt innihald. Þessar reglur mættu gjarna síast í gegn í heimi íslams og í þriðja heiminum.

Á velgengnistíma Saddams Hussein var hann studdur minnihluta íslama, nema í Jórdaníu og hugsanlega í einhverjum ríkjum Norður-Afríku. Í fjölmennustu ríkjunum, svo sem Egyptalandi og Tyrklandi, var ekki nein umtalsverð andstaða gegn aðgerðum bandamanna.

Þegar kemur í ljós, að Saddam Hussein er pappírstígrisdýr, mun stuðningur við hann hjaðna meðal íslama um allan heim. Mikilvægt er að nota fall hans til að koma á framfæri því sjónarmiði, að mannréttindi og lýðréttindi henta íslömum eins og öðru fólki.

Úr því að bandamenn komust yfir þröskulda Ísraels og Sovétríkja í Persaflóastríðinu geta þeir líka komizt yfir þann þriðja, að stríðið snúist bara um Kúvæt.

Jónas Kristjánsson

DV

Mastrið bilaði ekki

Greinar

“Ég tel, að ástandið hjá sjómönnum hafi skánað mikið við, að langbylgjumastrið á Vatnsenda fauk niður. Eftir það voru allir veðurfréttatímar sendir út á stuttbylgju í gegnum Gufunes og við sjómenn erum allt í einu farnir að heyra þær.”

Þetta sagði einn sjómaðurinn í viðtali við DV eftir ofsaveðrið mikla í upphafi þessa mánaðar. Sjónarmið hans hafa síðan endurspeglazt víða í fréttum og greinum, þar sem tæknimenn og sjómenn hafa fjallað um, hvort við þurfum nýtt langbylgjumastur fyrir milljarð.

Víðast hvar hefur verið fjallað um þetta á vitrænan hátt, nema í sölum Alþingis. Þar hóf Árni Johnsen umræðu utan dagskrár um, hvílík vá væri fyrir dyrum sjómanna. Þingmenn kepptust síðan hver um annan þveran um að lofa milljarði í langbylgjumastur.

Daginn eftir umræðuna utan dagskrár gaf Svavar Gestsson menntamálaráðherra út svofellda yfirlýsingu: “Ný langbylgjustöð verður byggð og það verður hafizt handa við undirbúning strax.” Þessi viðbrögð Alþingis og ríkisstjórnar sýna óþarfa æðibunugang á þeim bæjum.

Rétt er að hafa í huga, að mastrið mikla á Vatnsendahæð féll ekki í óveðrinu af því að það væri orðið 60 ára gamalt og fúið. Það féll ekki heldur af því, að eigandi þess hefur ekki hirt um að halda því við í 20 ár. Það féll, af því að festing á stagi bilaði niðri við jörð.

Ef menn hirða um slíkt, er mjög einfalt mál að halda við festingum á stögum, ef þeir hafa einhverjar raunverulegar áhyggjur af mannvirkjum sínum. Það kostar sáralitla peninga, meðan menn eru að gamna sér við skýjaborgir um nýtt mastur fyrir einn milljarð.

Einnig er gott að hafa í huga, að Ríkisútvarpið gat reist nýtt mastur, ef það hefði í rauninni talið slíkt vera þvílíkt forgangsmál, sem nú er gefið í skyn. Á liðnum áratugum hefur stofnunin fjárfest gífurlega í öðru, þar á meðal í kastala sínum við Efstaleiti í Reykjavík.

Langbylgjan er orðin svo úrelt, að framleiðsla senditækja er um það bil að leggjast niður. Í Bandaríkjunum hafa miðbylgja og örbylgja tekið við. Í öllum þorra útvarpstækja, sem hér á landi hafa verið seld um langan aldur, hefur alls ekki verið nein langbylgjumóttaka.

Stuttbylgjusendingarnar, sem tóku við, þegar stagfestingin brotnaði á Vatnsendahæð, eru mörgum sinnum ódýrari lausn. Einnig kemur til greina, að efla búnaðinn á strandstöðvum Landssímans til að koma þar fyrir veðurspám og tilkynningum til sjómanna.

Loks fer að koma að því, að gervihnattastöðvar leysi landstöðvar af hólmi. Það er mjög freistandi leið, því að hún er óháð truflunum, sem verða á raforkudreifingu hér á landi, ef eitthvað er að veðri, enda virðist dreifikerfið vera miðað við suðlægari slóðir.

Við eigum nóga kosti í þessu máli, aðra en að reisa nýtt langbylgjumastur fyrir milljarð króna. Vandinn er miklu fremur fólginn í að velja milli nokkurra annarra leiða, sem hver fyrir sig hefur kosti umfram hinar. Þær geta jafnvel farið saman að töluverðu eða öllu leyti.

Athyglisvert er, hversu auðvelt er að æsa þingmenn og ráðherra til örlætis á peninga, sem þeir eiga ekki. Á Alþingi og í ríkisstjórn ríkir þvílík óreiðustefna í meðferð fjármuna, að menn voru tilbúnir til að kasta milljarði í skyndilega geðsveiflu 4. og 5. febrúar.

Nýtt landbylgjumastur er óþarft. Það vissu þeir, sem létu hjá líða að styrkja stagfestingar á Vatnsendahæð, svo að forngripurinn mætti standa í önnur 60 ár.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammtíma-raunsæi

Greinar

Utanríkisráðherrar Evrópubandalagsins hafa ákveðið að frysta ekki lengur fjárhagsaðstoð bandalagsins við Gorbatsjov Sovétforseta. Fyrir hönd Vestur-Evrópu hafa þeir fetað í fótspor Bush Bandaríkjaforseta, sem einnig hefur veðjað á, að framtíð sé falin í Gorbatsjov.

Pólitísk framganga Bandaríkjastjórnar og flestra stjórna í Vestur-Evrópu gagnvart Sovétríkjunum segir lýðræðisöflum og sjálfstæðisöflum Sovétríkjanna að hafa sig hæg. Um leið segir hún afturhaldsöflum Sovétríkjanna, að þau hafi frjálsar hendur til kúgunar.

Viðhorf af þessu tagi eru mótuð af svokölluðum “raunsæismönnum” í utanríkisráðuneytum vestrænna ríkja. Eðlilegast væri að kalla þau “skammtímaviðhorf”, því að þau fela nánast undantekningarlaust í sér stuðning við ríkjandi ástand og valdhafa hvers tíma.

Reagan Bandaríkjaforseti og Kissinger utanríkisráðgjafi voru á sínum tíma helztu talsmenn svokallaðrar “raunsæisstefnu” gagnvart harðstjórum úti í heimi. Þeir voru til dæmis sá Drakúla greifi, sem bjó til Frankenstein þann, sem við þekkjum sem Saddam Hussein.

Eftir innreið klerkaveldis í Persíu ákvað Bandaríkjastjórn að setja hald sitt og traust á Saddam Hussein í Írak til jafnvægis við klerkana í Persíu. Ekkert var hlustað á þá, sem sögðu, að það væri að fara úr öskunni í eldinn að halla sér að enn verri harðstjóra.

Í kjölfar Reagans og Kissingers sigldu svo vopnasalar Vesturlanda. Saddam Hussein átti olíupeninga eins og skít og keypti hvað sem var, einnig búnað til undirbúnings efna- og eiturhernaðar, svo og kjarnorkustyrjaldar. Þannig var vakinn upp sá draugur, sem nú er barizt við.

Reagan og Kissinger studdu einnig Suharto í Indónesíu, einn versta harðstjóra tuttugustu aldar. Bush hefur erft þá raunsæisstefnu, sem á eftir að verða Vesturlöndum dýr, þegar reikningar Indónesa við Suharto-gengið verða gerðir upp um síðir, líklega á þessum áratug.

Raunsæisstefnan stuðlaði einnig að stuðningi við helztu fúlmenni Suður- og Mið-Ameríku. Afleiðingin er auðvitað sú, að almenningur í þessum heimshluta lítur á Bandaríkin sem hið illa afl. Tjónið, sem Kissinger hefur valdið, verður seint mildað og hvað þá bætt upp.

Bush Bandaríkjaforseti er með fjölda uppvakninga á bakinu. Hann hefur persónulega lagt áherzlu á, að halda góðu sambandi við stjórnvöld í Kína og efla samskiptin við þau á nýjan leik eftir andartaks hlé, sem varð við blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar árið 1989.

Meðan leikin var heimsveldaskák Bandaríkjanna og Sovétríkjanna höfðu hinir svokölluðu “raunsæismenn”, það er að segja “skammtímamenn” sér lélega afsökun í, að harðstjórarnir mundu halla sér að Sovétríkjunum, ef Bandaríkin veittu þeim ekki stuðning.

Þessi afsökun gildir ekki lengur, því að Sovétstjórnin er horfin frá taflborði heimsveldastefnu og einbeitir sér að kúgun innan eigin landamæra. Það er því liðin tíð að meiri og minni háttar Frankensteinar eigi sér öruggt skjól sem eins konar peð í alþjóðlegu valdatafli.

Stríðið við Persaflóa er alvarleg áminnig um gjaldþrot hinnar svokölluðu “raunsæisstefnu” í alþjóðamálum. Miklu nær væri að haga samskiptum Vesturlanda við stjórnir í öðrum heimshlutum í samræmi við stöðu þeirra á kvarða mannréttinda og lýðræðis.

Ef Vesturlönd hætta að moka peningum og vopnum í hvers konar harðstjóra, mun það fljótt leiða til stórkostlegrar sveiflu í átt til lýðræðis og mannréttinda.

Jónas Kristjánsson

DV