Greinar

Stundin er runnin upp

Greinar

Friðardúfur og nytsamir sakleysingjar á Vesturlöndum hafa stuðlað að sannfæringu Saddams Hussein Íraksforseta um, að hann komist upp með að innlima Kúvæt. Hann heldur, að Vesturlandabúar séu svo aðframkomnir friðarsinnar, að þeir þoli ekki að sjá stríð.

Á svipaðan hátt töfðu friðardúfur og nytsamir sakleysingjar endalok kalda stríðsins um heilan áratug eða svo. Þótt Sovétríkin hafi fyrir löngu verið komin efnahagslega að fótum fram, héldu ráðamenn þeirra, að þeir gætu splundrað varnarsamvinnu Vesturlanda.

Munurinn á Gorbatsjov og Brezhnev er ekki, að Gorbatsjov sé betri maður. Hann er hins vegar yngri í valdastóli en Brezhnev var og einkum þó greindari. Hann sá, að vestrænum ríkjum varð ekki þokað og að friðardúfur og nytsamir sakleysingjar voru áhrifalítill hópur.

Þess vegna gafst Gorbatsjov upp á að þvinga Vestur– Evrópu til eftirgjafa á borð við yfirlýsingu Norðurlanda um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Þess vegna gafst hann upp á að fjármagna leppa sína í Austur-Evrópu. En hann þykist mega halda Eystrasaltsríkjunum.

Gorbatsjov veit, að vestrænum löndum tekst ekki að ná samstöðu í Sameinuðu þjóðunum gegn ofbeldi hans í Lithaugalandi. Og sjálfur hefur fulltrúi hans neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, rétt eins og fulltrúi Dengs hins kínverska hefur þar.

Gorbatsjov og Deng eiga það sameiginlegt að treysta sér til að láta skriðdreka sína brölta yfir fólk, sem þeir telja vera þegna sína. Í Sameinuðu þjóðunum er engin samstaða um að mæta einræðisherrum af því tagi á velli, sem þeir telja vera sinn eigin heimavöll.

Saddam Hussein er að því leyti verri og hættulegri, að hann treystir sér til að innlima nágrannaríki. Það er meira en forverar Gorbatsjovs gerðu, þegar þeir réðust inn í Pólland, Tékkóslóvakíu og Ungverjaland, því að þeir afhentu völdin í hendur innlendra leppa.

Vesturlönd hafi hvorki hernaðarmátt né áhrifamátt á alþjóðavettvangi til að velta Gorbatsjov og Deng. Þau hafa heldur ekki aðstöðu til að velta minni háttar einræðisherrum, sem halda sig að mestu innan landamæranna, svo sem Gaddafi í Líbýu og Assad í Sýrlandi.

Bandaríkjunum hefur hins vegar tekizt að slá skjaldborg um tilverurétt Kúvæts sem aðildarríkis Sameinuðu þjóðanna. Misjafn sauður er í því bandalagi, þar á meðal Assad Sýrlandsforseti. Þátttaka hans er óhjákvæmileg afleiðing af alþjóðlegu eðli stríðsins við Persaflóa.

Stríðið þar hefur nú staðið í fimm mánuði og loksins er komið að gagnsókn liðs ríkja Sameinuðu þjóðanna, undir forustu Bandaríkjanna. Miklu máli skiptir, að af gagnsókninni verði í þessari umferð, því að Saddam Hussein og hans menn verða ella hálfu illskeyttari.

Nú getur Saddam Hussein ekki gert mikinn usla á Vesturlöndum og hann getur tæpast ráðizt á Ísrael, nema fara fyrst inn í Jórdaníu. Þetta takmarkar átakasvæðið verulega. Eftir fimm ár getur hann hins vegar dreift stríðinu víðar, ef hann verður ekki stöðvaður nú.

Friðardúfur og nytsamir sakleysingjar á Vesturlöndum hafa valdið skaða með því að koma inn hjá Saddam Hussein, að bandamenn hafi ekki innri mátt til að hefja gagnsókn. Hið sama hafa gert afdankaðir stjórnmálamenn, sem hafa verið í pílagrímsferðum til Bagdad.

Sem betur fer bendir allt til þess, að friðardúfur og nytsamir sakleysingjar geti ekki stöðvað réttmæta og tímabæra gagnsókn bandamanna við Persaflóa.

Jónas Kristjánsson

DV

Æsigrein yfirlæknis

Greinar

Í fróðlegri æsigrein hér í blaðinu á miðvikudaginn bendir yfirlæknir á Borgarspítalanum á ýmis atriði, sem geta verið gagnleg vitneskja fyrir pupulinn, ef hann þarf einhvern tíma að leita til slysadeildar spítalans, sjálfs sín vegna eða til að leita týnds aðstandanda.

Í fyrsta lagi er gott, að pupullinn átti sig á, að slysadeildin er stór stofnun, sem ekki er hægt að að ná sambandi við í heilu lagi. Ef pupullinn hringir til dæmis í svonefnda göngudeild, svarar hún aðeins fyrir göngudeild, en ekki fyrir aðrar undirdeildir slysadeildar.

Ef pupullinn spyr að fyrra bragði, hvort til séu á slysadeild aðrar undirdeildir með öðru bókhaldi yfir viðskiptavini, er hugsanlegt, að göngudeild geti útvegað puplinum símanúmer viðkomandi deilda. Ekki kemur þó fram í æsigrein yfirlæknisins, hvort svo sé.

Þetta er í samræmi við venju í æruverðugu fyrirbæri, sem kallað er kerfið. Sem dæmi um það má nefna, að forsætisráðherra hefur látið semja frumvarp til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda, svo að pupullinn í blaðamannastétt sé ekki yfirvöldum til ónæðis.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir, að blaðamaður geti fengið upplýsingar hjá stjórnvaldi, ef hann getur sagt, um hvaða skjal stjórnvaldsins hann sé að ræða og hvað skjalið heiti í bókhaldi viðkomandi stjórnvalds, það er að segja viti, hvert sé svarið við spurningu sinni.

Ekki er hægt að ætlast til, að slysadeild hafi frekar en aðrar stofnanir kerfisins á reiðum höndum upplýsingar á einum stað um, hvaða pupull hafi notið þjónustu stofnunarinnar. Þetta er útskýrt af stakri þolinmæði í æsigrein yfirlæknisins, sem þekkir málið vel.

Í æsigreininni kemur fram, að svokallað göngudeildarfólk er skráð á aðeins einum stað. Sjúkradeildir og upplýsingastofa í aðalanddyri hafa ekki þessar upplýsingar handbærar. Ef hins vegar væri hringt í aðra stofnun, Landsspítalann, væri kannski hægt að fá þær.

Það gæti skapað mikið ónæði í upplýsingastofu í aðal-anddyri, ef hún þyrfti að veita upplýsingar út og suður um atriði, sem varða aðra staði á Borgarspítalanum. Þá þyrfti líka að fræða starfsfólk um slík mál, þótt það hafi raunar nóg annað að gera en að tala við ruglukolla.

Eftir lestur æsigreinarinnar ætti puplinum að vera deginum ljósara, hvernig beri að haga sér næst, þegar aðstandandi týnist og menn óttast, að hann hafi orðið fyrir slysi. En það er svo aftur á móti atriði, sem viðskiptavinir slysadeildar ættu að forðast í lengstu lög.

Ef pupull lætur aka yfir sig, svo að hann brotnar á ýmsa vegu og fær höfuðhögg, svo að hann ruglast í ríminu eða missir minni tímabundið, er ekki heppilegt, að hann ónáði slysadeild, því að það er algerlega honum að kenna, ef hann vill ekki láta sína nánustu fá fréttir.

Sérstaklega er mikilvægt, að pupullinn sé ekki undir áhrifum áfengis, þegar hann kemur sér í slys eða önnur vandræði af því tagi. Ekki er hægt að ætlast til, að slysadeild Borgarspítalans láti slíkan pupul hafa sömu meðferð og venjulegan pupul, sem er ódrukkinn með öllu.

Það ætti öllum að vera ljóst, að drukkinn pupull hefur ekki sömu réttindi og ódrukkinn pupull. Til dæmis þarf drukkinn pupull að gera ráð fyrir, að yfirlæknir skrifi æsigrein, þar sem fram komi undir rós, að viðkomandi sé tæpast hæfur til að hafa borgaraleg réttindi.

Æsigrein yfirlæknisins var mjög tímabær ábending til pupulsins, sem virðist eiga í ótrúlegum erfiðleikum með að átta sig á jafn einföldum hlut og kerfinu sjálfu.

Jónas Kristjánsson

DV

Rykský við Persaflóa

Greinar

Til eru færir samningamenn, sem tala annan daginn út og hinn daginn suður. Þeir varpa reykbombum inn í umræðurnar. Þeir neita staðfastlega að gefa eftir á neinu sviði, unz komið er yzt fram á hengiflugið. Þeir þreyta andstæðinga sína og ná oft miklum árangri.

Saddam Hussein Íraksforseti er einn slíkra samningamanna. Hann spilar á Kúvætdeiluna eins og fiðlu. Hann hefur haldið nágrannaríki hernumdu í meira en fimm mánuði og hefur ekki enn verið látinn svara til saka fyrir það. Bandalagið gegn honum hangir á bláþræði.

Hlutskipti Bandaríkjastjórnar er ekki öfundsvert. Í hópi bandamanna eru Frakkar, sem eiga utanríkisráðuneyti í Quai des Orfevres, þar sem mikið er lagt upp úr undirferli af ýmsu tagi. Sá, sem á vini á þeim slóðum, þarf raunar ekki á neinum óvinum að halda.

Ekki er langt síðan útsendarar Frakka sprengdu skip í höfn í Nýja-Sjálandi. Eftir að samið hafði verið um málið, sviku þeir samkomulag við Nýsjálendinga um, að þeir héldu tilræðismönnunum í fangelsi um tiltekinn tíma. Þetta er einfalt dæmi um franska utanríkisstefnu.

Nú vill franska utanríkisráðuneytið koma til skjalanna, þegar fundurinn í Genf milli utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Íraks hefur farið út um þúfur. Það vill finna lausn, sem skapi því sjálfu sérstöðu af hálfu Vesturlanda í heimi hinna róttækari ríkja íslams.

Meðal bandamanna eru einnig ýmis illa útreiknanleg ríki íslams, sem gætu hlaupizt undan merkjum, ef Saddam Hussein verður nógu snjall í tali út og suður á allra síðustu dögum fyrir stríð. Hann getur til dæmis boðizt til að flytja her sinn frá Kúvæt, með skilyrðum.

Hægt er að hugsa sér óteljandi afbrigði tilboða af hálfu Saddams Hussein. Hann getur til dæmis stungið upp á gagnkvæmum brottflutningi herafla Íraks og bandamanna í áföngum á löngum tíma. Hann getur til dæmis stungið upp á íslömskum toppfundi um málið.

Frá hans sjónarmiði er hann að vinna tíma til að festa núverandi ástand í sessi og deyfa átakamátt bandalagsins gegn honum. Hann getur notað tækifærið og mun nota það til að tala um atriði, sem eru vinsæl í heimi íslams, svo sem hörmulegt hlutskipti Palestínumanna.

Ef kemur til stríðs, geta Bandaríkin ekki reitt sig á ríki á borð við Frakkland og Sýrland. Bandalag, sem dugar til að halda uppi viðskiptabanni, kann að riðlast nokkuð, þegar kemur að alvarlegri málum á borð við stríð. Taflmennska Saddams Hussein beinist að þessu.

Í menúett baktjaldamakksins er merkilegt, hve lengi reyndir samningamenn eru reiðubúnir að trúa, að unnt sé með rökum og útskýringum að fá aðilann hinum megin við borðið til að gera það, sem samningamenn og diplómatar eru vanir: Að komast að niðurstöðu.

Þaulreyndir samningamenn virðast vera til í að trúa, að hægt sé að taka Saddam Hussein á orðinu. Þeir liggja yfir ummælum hans til að túlka í þau einhvers konar haldreipi, jafnvel þótt hann segi eitt í dag og annað á morgun og verði raunar aldrei tekinn á orðinu.

Eina leiðin til að mæta samningamönnum af tagi Saddams Hussein er að semja alls ekki við þá. Versta staðan, sem hægt er að lenda í gagnvart slíkum samningamönnum, er að halda, að maður neyðist til að semja. Gangvart þeim er stríð betra en samningar.

Því miður eru lausir endar á lofti og svo mörg rykský og reykbombur á leiðinni, að vaxandi hætta er á, að gervilausnir komi í stað styrjaldar við Persaflóa.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríð er bezt

Greinar

Berum orðum má tæpast segja það, en staðreynd er það samt, að mesta hættan við Persaflóa er, að ekki verði stríð. Nokkrar líkur eru á, að Saddam Hussein Íraksforseta takist að skjóta sér undan stríði með ýmsum sjónhverfingum rétt fyrir miðjan þennan mánuð.

Reikna má með, að hann leggi fram á síðustu stundu óljóst tilboð um, að draga her sinn til baka frá mestum hluta Kúvæt einhvern tíma í náinni framtíð, gegn ýmsum skilmálum, svo sem um samdrátt bandaríska hersins í Sádi-Arabíu og um alþjóðaráðstefnu um Palestínu.

Þótt árásarstefna Saddams Hussein hafi hingað til beinzt að öðrum ríkjum íslams, Íran og Kúvæt, er hætt við, að hann geti orðið að eins konar hetju Palestínu með því að fara að tala meira um hana. Með sjónhverfingum getur hann sáð sundrungu í raðir bandamanna.

Tætingslegt er bandalagið gegn honum og sumpart lítt geðugt. Þar í hópi er annálað hryðjuverkaríki á borð við Sýrland, sem hefur orðið Vesturlöndum til mikilla vandræða og á eftir að verða það. Þar í hópi er líka annálað miðaldaríki á borð við Sádi-Arabíu.

Sovétríkin koma að litlu gagni í bandalaginu gegn Hussein, því að stjórn Gorbatsjovs er á hraðri leið til afturhalds og aukinna áhrifa hers og leynilögreglu. Meira að segja er lítið hald í vesturevrópsku ríki á borð við Frakkland, sem gjarna fer eigingjarnar sérleiðir.

Almenningsálitið á Vesturlöndum styður enn stríð við Persaflóa, þótt myndazt hafi andstöðuhópar. Helzt er það heima fyrir í Bandaríkjunum, að Bush forseti á erfitt með að halda liðinu saman. En stuðningurinn getur fjarað út, þegar sjónhverfingar Saddams byrja.

Saddam getur komizt upp með að halda hluta af Kúvæt. Hann getur komizt upp með að greiða ekki tjón-ið, er hann hefur valdið Kúvætum. Hann getur komizt upp með að verða forustumaður ríkja íslams í baráttu þeirra gegn kúgum Ísraelsríkis á Palestínumönnum.

Ef ekki verður að þessu sinni stríð við Persaflóa, leiðir það til sigurs Saddams Hussein á einu eða fleirum framangreindra sviða. Honum nægir að ná sjáanlegum árangri á einu þeirra til að verða heima fyrir fastari í sessi en fyrr og hættulegri umhverfi sínu en fyrr.

Ódýrast er að stöðva Saddam Hussein núna, þótt það kosti stríð, sem ýmsir horfa nú til með hryllingi. Miklu dýrara og blóðugra verður að stöðva hann síðar, þegar hann er búinn að koma sér betur fyrir, búinn betri efna- og eiturvopnum og jafnvel kjarnavopnum.

Einnig skiptir máli, hvort forusta íslamskra ríkja lendir hjá ríkjum, sem standa nálægt vestrænu þjóðskipulagi, svo sem Egyptalandi og Tyrklandi, eða hvort heimur íslams færist meira í mót Saddams Hussein. Ef hann sigrar, munu önnur ríki íslams líkja eftir Írak.

Loks er brýnt, að Bandaríkin nái árangri í lögreglustjórahlutverkinu, sem þau hafa tekið að sér í máli þessu. Ef þeim mistekst, er líklegt, að þau hverfi meira inn í sig og að enginn verði til að taka forustu fyrir Vesturlöndum gegn uppgangi bófa víða um heim.

Eftir hvarf Sovétríkjanna af vettvangi heimsveldanna eru Bandaríkin eina heimsveldið, sem getur tekið að sér forustu í mikilvægum og óþægilegum málum, er varða öryggismál þjóða heims. Baráttan við Saddam Hussein er fyrsta prófraun þeirra sem síðasta heimsveldisins.

Þótt stríð séu vond, eru þau ekki svo vond, að Vestur-lönd megi þess vegna neita sér um löggæzluvald til að gæta grundvallarreglna í samskiptum ríkja og þjóða.

Jónas Kristjánsson

DV

Þing og þjóð án ábyrgðar

Greinar

Ásgeir Hannes Eiríksson alþingismaður hefur lagt fram á þingi frumvarp til laga um, að ekki megi taka til meðferðar lagafrumvörp, sem hafa í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð, nema einnig sé í frumvarpinu ákvæði um samsvarandi tekjur handa ríkissjóði.

Ásgeir vill með þessu, að ráðherrar og þingmenn verði allt í einu ábyrgir í flutningi tillagna. Á því er misbrestur, svo sem Sighvatur Björgvinsson, formaður fjárveitinganefndar, kvartaði um í síðustu viku. Menn vilja góðu málin, en hirða lítt um kostnaðinn af þeim.

Tillaga Ásgeirs minnir á hugmyndir, sem komið hafa fram um, að notendur heilbrigðisþjónustu, svo sem sjúkrahúsa og niðurgreiddra lyfja, verði látnir handfjatla reikninga með tölum um raunverulegan kostnað af þjónustunni, sem þeim finnst sjálfsagt að fá.

Nóg væri, að ráðherrar og þingmenn yrðu skyldaðir til að útskýra í greinargerð, hver væri kostnaðurinn við framkvæmd á tillögum þeirra og frumvörpum, og að Alþingi yrði sjálft skyldað til að láta skoða kostnaðinn sérstaklega og taka efnislega afstöðu til hans.

Slíkt yrði eins mikil bylting til bóta og reikningarnir, sem lagt hefur verið til, að notendum heilbrigðisþjónustu verði sýndir. Leiðin í frumvarpi Ásgeirs getur hins vegar leitt til, að upp þjóti margs konar eyrnamerktir tekjustofnar, svo að af verði skógur af smásköttum.

Í frumvarpinu reynir Ásgeir að taka á vandamáli, sem ekki er bundið við ráðherra og þingmenn eina. Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra kvartaði fyrr í þessari viku um tvískinnung þjóðarinnar. Hún vildi í senn aukna þjónustu ríkisins og minni skatta til ríkisins.

Í skoðanakönnunum hefur margsinnis komið fram, að þjóðin styður endalausa röð af góðum málum, sem kosta mikið fé, og vill jafnframt létta af skattbyrði eða að minnsta kosti ekki taka á sig aukna byrði. Þjóðin sem heild er óraunsæ, rétt eins og ráðherrar og þingmenn.

Að vísu er til ein leið til að auka þjónustu ríkisins og minnka skattana til ríkisins. Það er að leggja niður stuðning ríkisins við hinn hefðbundna landbúnað, afnema innflutningsbann, útflutningsbætur, niðurgreiðslur og beina styrki, sem alls sóa 20 milljörðum á ári.

Meirihluti þjóðarinnar getur hins vegar ekki notað þessa röksemdafærslu með aukinni þjónustu og lægri sköttum, af því að hann styður innflutningsbann, niðurgreiðslur og beina styrki. Það eina, sem meirihlutinn vill afnema, er einn milljarður í útflutningsuppbætur.

Þar sem meirihluti þjóðarinnar og stjórnmálamenn upp til hópa hafa með sér þjóðarsátt um óraunsæi í fjármálum, stendur Alþingi nú andspænis afgreiðslu fjár laga með miklum halla, sem nemur sjö til átta milljörðum á A- og B-hluta og átta til níu milljörðum á C-hluta.

A-hlutinn felst í hinum formlegu fjárlögum. B-hlutinn eru stofnanir ríkisins, sem fjallað er um í fjárlögum. C-hlutinn er svo það, sem felst í lánsfjárlögum, þar sem áætlaðar eru lántökur opinberra sjóða. Samanlagður halli á öllum þremur liðum er svonefndur þensluhalli.

Alls mun sá halli nema sextán milljörðum á næsta ári, ef svo fer sem horfir við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga. Það er um 4,4% af landsframleiðslu og ætti samkvæmt fyrri reynslu að fara upp í 6,8%, þegar öll kurl verða komin til grafar, helmingi meira en í ár.

Reikningurinn af sextán milljarða þensluhalla ársins verður sendur afkomendum okkar, en við ætlum sjálf að borga vextina með aukinni verðbólgu, hærri raunvöxtum og erfiðari varðstöðu um svokallaða þjóðarsátt.

Jónas Kristjánsson

DV

“Okkar maður” í Kreml

Greinar

Vesturveldin hafa ákveðið, að Gorbatsjov Sovétforseti sé eina vonin um sæmilegan frið í austri og gera sitt bezta til að styðja miðstjórnarvald hans í Kreml. Þau styðja því ekki sjálfstæðishreyfingar í einstökum Sovétríkjum, svo sem í Eystrasaltsríkjunum þremur.

Röksemdafærslan að baki vestræns stuðnings við Gorbatsjov er, að Sovétríkin rambi á barmi blóðugra átaka og að harðlínumenn úr her og leynilögreglu muni taka völdin, ef Gorbatsjov falli. Þess vegna sé Vesturlöndum nauðsynlegt, að Gorbatsjov haldi völdum.

Gorbatsjov er þegar farinn að virkja her og leynilögreglu til að verja sig falli í þeirri átt. Harðlínumenn úr þessum flokkshollu stofnunum hafa verið settir yfir innanríkisráðuneytið, þar á meðal lögregluna. Þar með er stjórnarfarið aftur á leið til fortíðarinnar.

Gorbatsjov hefur hlaðið að sér formlegum völdum að undanförnu, en hefur þó ekki stjórn á neinu. Stjórnir einstakra ríkja virða að vettugi lög og reglugerðir frá Kreml. Þing einstakra ríkja hafa sett eigin lög um, að heimalög séu Kremlarlögum æðri, ef þau stangast á.

Þjóðerni er orðið að hornsteini tilverunnar á upplausnartíma. Þjóðernistilfinningar hafa magnazt svo, að sums staðar hefur leitt til blóðsúthellinga. Víða eru þjóðernisminnihlutar innan í þjóðernisminnihlutum og flækir það erfiða stöðu Kremlverja enn frekar.

Afturhaldsmenn flokksins sitja á skrifstofum með stimplana og reyna að magna öngþveitið, svo að her og leynilögregla taki völdin. Þeir reyna líka að koma í veg fyrir, að matvæli komist til stórborganna Moskvu og Leníngrad, þar sem flokksleysingjar hafa völd.

Afstaða Vesturlanda er skiljanleg. Utanríkisráðuneyti stórvelda hneigjast að stuðningi við valdhafa hvers tíma í löndum þriðja heimsins. Þau telja sig vita, hvar þau hafi þessa valdhafa, “okkar menn”, sem margir hverjir eru lítt frambærilegir eða jafnvel hreinir bófar.

Fyrst og fremst er það óttinn við óvissuna, sem stjórnar stuðningi Vesturlanda við miðstjórn Gorbatsjovs. Menn sjá fyrst og fremst fyrir sér upplausnina, sem jafnan fylgir falli einræðis og alræðis, en líta síður til þess jákvæða, sem síðar kann að rísa á rústum þess.

Miklar birgðir kjarnorkuvopna í Sovétríkjunum eru vestrænt áhyggjuefni, ef margir smákóngar rísa á rústum Kremlarveldis. Ekki er hægt að sjá fyrir, hvar þau lenda, ef ríkjasambandið leysist upp. Og sumir smákóngarnir kunna að reynast illa útreiknanlegir.

Gorbatsjov er Vesturlöndum einnig mikilvægur bandamaður í baráttunni gegn Íraksstjórn Saddams Hussein. Það er því ekki bara vegna kjarnorkuvopnanna, að hernaðarfræðingar vestrænna ríkisstjórna vilja standa við bakið á hinum valta alræðisherra.

Af öllum þessum ástæðum miðast hjálp Vesturlanda handa Sovétríkjunum einkum við að halda lífi í Kremlarveldi Gorbatsjovs. Aðstoðin hefur að markmiði, að borgarbúar í Moskvu og Leníngrad svelti ekki og leiðist ekki til uppþota. En hún hefur ekkert efnahagsgildi.

Aðstoð Vesturlanda stefnir líka að því að draga úr hljómgrunni fyrir valdatöku afla innan hers og leynilögreglu, um leið og Gorbatsjov reynir að beina athygli þessara afturhaldssömu flokksstofnana að baráttu við svartamarkaðsbrask og skipulega viðskiptaglæpi.

Um leið skjóta Vesturlönd stoðum undir miðstýrða skömmtunarstjórn og fresta því, að Sovétríkin taki nauðsynlegt stökk út í óvissu markaðshagkerfisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Seinþroska þjóð

Greinar

Þótt leyfi til innflutnings búvöru hafi ekki verið mikið til umræðu hér á landi fyrr en á þessu ári, er nærri þriðjungur þjóðarinnar reiðubúinn til að fallast á hann. Þetta eru 31% á móti 64%, sem vilja áfram bann. Þetta bendir til, að sjálfsrefsingarstefnu séu takmörk sett.

Stuðningur við innflutning minnkar, þegar spurningin er tengd byggðaröskun, fer í 16% á móti 77%. Hann eykst hins vegar, þegar spurningin er tengd aðgangi að ódýrari búvöru, fer í 40% á móti 54%. Þessar sveiflur sýna vel, að svigrúm er til breyttra sjónarmiða.

Stuðningur þjóðarinnar við niðurgreiðslur er enn í naumum meirihluta, 47% á móti 43%. Þessi meirihluti byggist á, að þjóðin hefur enn sem komið er neitað sér um að fallast á það sjónarmið, að niðurgreiðslur séu fyrir landbúnað, en ekki fyrir neytendur í landinu.

Hin eina róttæka stefnubreyting þjóðarinnar í málefnum hins hefðbundna landbúnaðar er, að hún vill hætta uppbótum á útflutta búvöru. Aðeins 10% styðja útflutningsuppbæturnar, sem eiga á næsta ári að nema 1300 milljónum króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi.

Ef ríkisvaldið gerir fyrir hönd neytenda og skattgreiðenda nýjan búvörusamning við landbúnaðinn, er brýnt, að tekið verði tillit til þeirrar staðreyndar, að þjóðin er þegar orðin afhuga útflutningsuppbótum. Enda hefur ríkissjóður nægum brýnni verkefnum að sinna.

Þjóðinni er ekki alls varnað í sjálfsbjargarviðleitni, úr því að hún vill losna við 1.300 milljón króna árlegan bagga. En þetta verður að skoða í samhengi við, að fólk vill áfram bera skatt, sem nemur 5.700 milljón króna árlegum niðurgreiðslum og endurgreiddum söluskatti.

Fyrir sama framlag úr ríkissjóði væri hægt að styrkja hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu um 91.200 krónur á ári. Þessa peninga gæti fólk notað til að kaupa aðra matvöru en hina niðurgreiddu, til dæmis fisk og kornvöru. Á þessu hafa Íslendingar ekki áttað sig enn.

Viðhorf Íslendinga til hins hefðbundna landbúnaðar eru enn svipuð og þau eru í höfuðríkjum Evrópubandalagsins, svo sem Þýzkalandi og Frakklandi, en ólík því sem þau eru í Bretlandi og Bandaríkjunum, enda er fyrirferð landbúnaðar svipuð hér og á meginlandinu.

Í löndum, þar sem landbúnaður hefur enn um og yfir 7% mannaflans, svo sem hér og í helztu löndum Evrópubandalagsins, á atvinnugreinin og byggðasjónarmiðin, sem henni fylgja, nógu mikil ítök í fólki til að ráða ferðinni, þegar hagsmunir landbúnaðar eru í húfi.

Í löndum, þar sem landbúnaður er kominn niður í 2% mannaflans, svo sem í Bretlandi og Bandaríkjunum, er auðveldara að fá skilning fólks á sjónarmiðum hagsmuna heildarinnar. En jafnvel í slíkum löndum er ótrúleg seigla í hagsmunagæzlu hefðbundins landbúnaðar.

Íslenzkir hagfræðingar hafa í vaxandi mæli beint sjónum sínum að hinni feiknarlegu verðmætabrennslu, sem er í hefðbundnum landbúnaði okkar. Þeir hafa komizt að raun um, að engin verðmætasköpun er í greininni, þótt bændur leggi á sig mikla fyrirhöfn.

Íslenzkir hagfræðingar hafa með mismunandi reikningsaðferðum fundið út, að innflutningsbann búvöru kostar okkur 10­15 milljarða króna á hverju ári, ofan á þá 7,5 milljarða, sem fara í annan stuðning við landbúnaðinn. Þetta er samtals um 20 milljarða sóun á ári.

Meirihluti fólks hefur ekki enn áttað sig á þessu. Hann er enn að væla um léleg lífskjör, en er um leið ófáanlegur til að horfast í augu við meginorsök vandans.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðherra og reglugerð

Greinar

Enn einu sinni hefur verið lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp um takmörkun á upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart almenningi. Er það nokkru lakara en hin, sem ekki urðu útrædd á sínum tíma. Það er samið af kerfiskörlum og ber þess greinileg merki.

Í þetta sinn gerir frumvarpið ráð fyrir, að hver ráðherra fyrir sig hafi sjálfdæmi í sinni sök. Áður gerðu slík frumvörp ráð fyrir, að unnt væri að kvarta undan upplýsingatregðu og leyndarstefnu ráðherra við fimm manna nefnd, skipaða af Alþingi og Hæstarétti.

Frumvarpið heitir hinu undarlega nafni: “Frumvarp til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda”. Þessi þversagnakennda nafngift minnir á bók Georges Orwell, “1984″, þar sem pyndingaráðuneytið hét ástarráðuneyti og hernaðarráðuneytið hét friðarráðuneyti.

Í nýja frumvarpinu er beinlínis tekið fram í 8. grein, að hver ráðherra fyrir sig geti tekið aftur með reglugerð þær almennu yfirlýsingar um upplýsingaskyldu, sem felast í 1. og 2. grein þess. Þar með er hin svokallaða upplýsingaskylda orðin að hreinum ráðherrageðþótta.

Einnig er beinlínis tekið fram í 11. grein frumvarpsins, að forsætisráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Þetta dálæti á reglugerðum, sem kemur fram í 8. og 11. grein frumvarpsins, er dæmigert fyrir hugarfarið hjá kerfiskörlum.

Hin ljúfu kerfisorð, “reglugerð” og “ráðherra”, koma einnig fyrir í 1. grein frumvarpsins, þar sem tekið er fram, að forsætisráðherra megi, ef hann langar til, setja reglugerð um, að frumvarpið gildi um stofnanir, sem kostaðar eru af ríkinu eða hafa stjórnvaldsverkefni.

Til þess að fyrirbyggja misskilning er sérstaklega tekið fram í 10. grein frumvarpsins, að ákvæði eldri laga um þröngan eða engan aðgang að upplýsingum skuli gilda áfram, þótt þessi nýju lög komi til skjalanna. Þau eiga sem sagt ekki að auka svigrúm frá fyrri lögum.

Samkvæmt 2. grein frumvarpsins verður ósk um gögn að vera skrifleg, en hingað til hafa þær yfirleitt verið munnlegar og jafnvel settar fram í síma. Og samkvæmt sömu grein verður fyrirspyrjandi að vita fyrirfram, hvað sé í hverju skjali og hvað skjölin heita.

Ekki eru í opinberum stofnunum aðgengilegar skrár um skjöl, heiti þeirra og efnisyfirlit. Og frumvarpið gerir ekki ráð fyrir, að stofnanir verði skyldaðar til að hafa á boðstólum slíkar skrár. Menn verða því fyrirfram að vita um svör við því, sem þeir eru að spyrja um.

Frumvarpið er gegnsýrt því, að kerfiskörlum í ráðuneytum finnst óbærilegt, að almenningur eða fjölmiðlar séu með nefið niðri í málum, sem eru til meðferðar í kerfinu. Þeir vilja hafa sín leyndarmál í friði. Margnotuð klisja þeirra er: “Þetta er ekkert fjölmiðlamál”.

Nefndin, sem samdi frumvarpið um takmörkun á upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart almenningi, segist í greinargerð hafa kynnt sér bandarísk lög og haft hliðsjón af norrænum. Hún ákvað að taka ekki mark á bandarísku lögunum og útvatna hin norrænu.

Frumvarpið minnir á, að brýnt er orðið að veita viðnám gegn þeirri þjóðfélagsskipan ráðherraveldis og geðþótta-reglugerða, sem hvarvetna er unnið að í ríkiskerfinu og gert hefur Alþingi að afgreiðslustofnun fyrir meira eða minna opnar heimildir handa ráðherrum.

Reglugerðir handa ráðherrum eru orðnar svo sjálfsagður hornsteinn þjóðfélagsins, að mati kerfiskarla, að frumvarpssmiðir segjast hafa unnið að réttarbót.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjölskyldumál á torgum

Greinar

Að venju eru Íslendingar sammála um, að minnstu máli skipti, hvað hagfræðingurinn sagði í Seðlabankanum, heldur hver sagði það og hvernig það var sagt. Einkum þykir hneykslanlegt, að hann skuli hafa kallað loft fimleika Þjóðhagsstofnunar sínu rétta nafni.

Málinu hefur verið ýtt út af borðinu, af því að upplýst er, að það var bara hagfræðingur, en ekki Seðlabankastjóri, sem sagði, að keisarinn væri ekki í neinum fötum. Enda er notalegt að vita, að Seðlabankastjóri muni aldrei segja, að neinn sé ekki í neinum fötum.

Að einu leyti víkur afgreiðsla málsins frá hefðbundinni íslenzku. Venjulega hafa menn ekki bara áhuga á, hver sagði hlutinn og hvernig, heldur líka hvers vegna. Ekki var sett fram samsæriskenning um, að álitinu úr Seðlabanka sé ætlað að koma höggi á ríkisstjórnina.

Upphaflega var umræðuefnið, hvort allt færi til fjandans í þessu landi, ef ekki næðu fram að ganga bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar gegn kjarasamningum, sem hún hafði nýlega undirritað. Þjóðhagsstofnun hafði gefið út reikniæfingu, sem benti til harmleiks.

Loftfimleikar Þjóðhagsstofnunar eru gamalkunn fölsun, sem felst í uppreikningi á einstökum atburði á þann hátt, að gert er ráð fyrir, að ekkert gerist annað í Íslands sögunni og veraldarsögunni en þessi eini atburður. Þannig reiknaði stofnunin út 40% verðbólgu á næsta ári.

Sanngjarnt var að kalla þetta loftfimleika, enda eru svona útreikningar ekki gerðir af neinum hagfræðingi, sem er annt um virðingu sína. Þetta var líka ekkert annað en hefðbundin þjónusta Þjóðhagsstofnunar við kerfið, ­ sjónarspil svokallaðrar þjóðarsáttar.

Gaman var að sjá fóstbræðurna úr Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu stika inn í kastala Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar til að mótmæla efnislegri umfjöllum um þjóðarsátt þeirra. Í þetta sinn fékk verkalýðsrekandi ríkisstarfsmanna ekki að fara með.

Í þjóðarsáttinni hefur myndazt ákveðin goggunarröð, svo sem venjulega gerist í stórfjölskyldum. Forsætis- og fjármálaráðherra mega gogga fóstbræðurna tvo og minni háttar ráðherra. Fóstbræðurnir mega svo gogga minni háttar verkalýðsrekendur og hagfræðinga.

Í goggunarröð þjóðarsáttar eru fóstbræðurnir á sama þrepi og minni háttar ráðherrar sjávarútvegs og landbúnaðar, sem mega gogga forstjóra ýmissa stofnana kerfisins, svo sem einokunarstofnana útflutnings og heildarsamtaka útgerðar, fiskvinnslu og landbúnaðar.

Ef minni háttar forstjóra í þessu sáttarkerfi stórfjölskyldunnar dettur í hug að kæra meðferð mála hér á landi til fjölþjóðlegra dómstóla, er það tekið óstinnt upp í fjölskyldunni, svo sem kom vel fram í leiðara Tímans á föstudaginn var. Þar var Palli kommi tekinn í gegn.

Á nútímamáli Tímans heitir þetta svo, að stórfjölskyldan “frábiður sér” utanstefnur af slíku tagi, sem þýðir, að menn vilji engar slíkar hafa. Við eigum að hafa að engu erkibiskups boðskap, svo að ekki fari fyrir okkur eins og forfeðrum okkar í lok þjóðveldisaldar.

Engu máli skiptir stórfjölskylduna, þótt íslenzk stjórnvöld hafi undirritað fjölþjóðlegt samkomulag af ýmsu tagi, meðal annars um, að skjóta megi til erkibiskups margvíslegri valdníðslu íslenzkra stjórnvalda, svo sem þeirri að setja bráðabirgðalög á eigin undirskrift.

Í stórfjölskyldu íslenzka fasismans er ekki til siðs að bera vandamál fjölskyldunnar á torg, heldur eru þau afgreidd með þögulli þjóðarsátt eða þjóðarsefjun.

Jónas Kristjánsson

DV

Versnar fyrst ­ batnar svo

Greinar

Hinar alþjóðlegu viðræður í Bruxelles um lækkun tolla og hafta fóru út um þúfur í fyrrinótt. Verndarstefna mun nú eflast á nýjan leik. Fulltrúar 107 ríkja samþykktu að breiða yfir þessa staðreynd með kurteislegu orðalagi um, að málið verði tekið upp síðar.

Tolla- og viðskiptastofnunin GATT hefur beðið mikinn hnekki. Víða um heim eru reiðir stjórnmálamenn tilbúnir með tillögur um að hefna sín á útlendingum með lagafrumvörpum um aukna verndun innlendra atvinnuvega. Mest hætta er á þessu í Bandaríkjunum.

Ef samkomulag hefði náðst í fyrrinótt, var til heimild þar vestra um að staðfesta niðurstöðuna í heilu lagi. Sú heimild er nú að renna út, svo að bandaríska þingið verður að fjalla um einstaka liði samkomulags, sem hugsanlega yrði gert síðar í vetur á vegum GATT.

Allir vita, að þetta er fyrst og fremst Þýzkalandi og Frakklandi að kenna. Þessi tvö höfuðríki Evrópubandalagsins hafa reynzt ófáanleg til að brjóta niður múrana í kringum landbúnaðinn. Af þessum ástæðum er nú um allan heim litið á Evrópubandalagið sem vonda karlinn.

Formlega séð bauðst bandalagið til að lækka tollmúra sína og höft um 30%, en efnislega fól tilboðið í sér 15% lækkun frá núverandi ástandi. Þetta var ekki nóg fyrir Bandaríkin og önnur hagkvæm landbúnaðarríki á borð við Ástralíu, Nýja-Sjáland, Uruguay og Argentínu.

Í fyrstu munu áhrifin verða slæm. Tollmúrar verða hækkaðir og lífskjör almennings munu versna. Mest verða áhrifin á landbúnaðarafurðir og fiskafurðir, sem alls staðar nema á Íslandi eru flokkaðar með búvöru. Þetta getur skaðað helztu útflutningsafurðir okkar.

Skaði okkar fælist fyrst og fremst í, að sjávarútveginum í Bandaríkjunum tækist að koma tollum á innfluttan fisk, til dæmis frystan. Bandaríska þingið er til alls víst í þessum efnum, þótt þessa dagana sé ekkert vitað um, hvar verndarsinnaðir þingmenn muni bera niður.

Ef mál þokast á þennan veg í Bandaríkjunum, getum við ekkert gert til varnar. Sovétgrýlan er úr sögunni. Bandarískum þingmönnum er hjartanlega sama um, hvort eftirlitsstöð er á Keflavíkurflugvelli eða ekki. Þeir taka heldur ekkert mark á stjórninni í Washington.

Almennt má líka segja, að aukin verndarstefna og hefndarstefna í alþjóðaviðskiptum mun skaða okkur, þótt erfitt sé að spá um, hvernig það gerist í einstökum tilvikum. Þjóðir, sem eru háðar utanríkisviðskiptum, tapa þjóða mest á innflutningshöftum og tollum.

Helzta von okkar er, að Þjóðverjum og Frökkum bregði svo í brún við afleiðingar af þvermóðskunni í Bruxelles, að tök landbúnaðarins á Evrópubandalaginu fari að linast. Aðrir atvinnuvegir og neytendur sjái betur, hvað landbúnaðurinn er þeim þungur í skauti.

Hugsanlegt er, að evrópskir neytendur rísi loksins upp til varnar, þegar þeir sjá tjón sitt af völdum haftastefnunnar. Brezku neytendasamtökin hafa tekið upp harðari stefnu gegn verndun landbúnaðar. Hér á landi hafa Neytendasamtökin fetað feimnislega í sömu átt.

Hrunið í viðræðunum í fyrrinótt mun lemja þá staðreynd inn í hausinn á mörgum, að niðurgreiðslur, útflutningsuppbætur og aðrir styrkir við landbúnað eru hæsti þröskuldurinn á vegi mannkyns til betri lífskjara. Hrunið kann því að leiða til góðs í framtíðinni.

Fríverzlun og lífskjör biðu skammtímahnekki í viðræðunum í Bruxelles. Ástand mála var slíkt, að það verður að versna, áður en það byrjar að batna aftur.

Jónas Kristjánsson

DV

Að öfunda spillinguna

Greinar

Venjulegur Íslendingur hefur það helzt við spillingu að athuga, að hann hafi ekki aðstöðu til að taka þátt í henni sjálfur. Menn öfundast út í ráðherra fyrir að næla sér í kaupauka með því að vera sem mest á ferðalögum, en gera ekkert í málinu sem kjósendur.

Þegar komst upp um kaupaukasvindl ráðherra fyrir rúmu ári, höfðu íslenzkir kjósendur þá milli tannanna skamma hríð. Það hafði engin áhrif. Nýbirt skýrsla um ferðalög ráðherra sýnir, að þeir hafa hert ferðalagasvindlið, síðan það var til umræðu í fyrrahaust.

Meginþráðurinn í svindlinu er, að ráðherrar fundu upp á því að láta ríkið borga alla ferðareikninga sína ofan á dagpeningana, sem ráðherrar fengu til að borga sömu reikninga. Þannig fóru þeir að ferðast eftir reikningi og fengu dagpeningana í hreinan kaupauka.

Hliðarþráður í svindlinu er, að ráðherrar láta gilda um skattlagningu ferðareikninga sinna aðrar reglur en þeir hafa sjálfir ákveðið, að gildi um aðra landsmenn. Ferðakostnaður ráðherra er allur skattfrjáls, en annarra Íslendinga aðeins upp að vissu marki, mun lægra.

Athyglisvert er, að tveir nýir ráðherrar, sem komu með nýjum stjórnmálaflokki inn í ríkisstjórnina fyrir rúmu ári, hafa tekið til óspilltra málanna í þátttöku í spillingunni. Annar þeirra hefur unnið það afrek að gista fyrir 80.000 krónur á nótt, samkvæmt bókhaldi.

Verið getur, að þessi gróska í spillingu stafi sumpart af, að ráðherrar telji, að hinar ljúfu gistinætur séu skammgóður vermir og að bezt sé að njóta þeirra sem mest, meðan ráðrúm sé til. Það getur skýrt, af hverju ráðherrar dauðvona flokks eru svona ferðaglaðir.

Forsætisráðherra hefur játað hér í blaðinu, að kerfið sé ferðahvetjandi. Það sést vel af því, að ráðherrann, sem er mest á ferðinni, hefur á þessu ári fengið fyrst alla reikninga borgaða og síðan skattfrjálsar 2,3 milljónir í hreinan kaupauka fyrir sig og ráðherrafrúna.

Ef þessi sami ráðherra væri alltaf í útlöndum, fengi hann allan kostnað borgaðan og síðan meira en 7 milljónir króna í skattfrjálsan kaupauka á hverju ári. Hver mánuður í útlöndum er ráðherranum meira en 500 þúsund krónum verðmætari en aðrir mánuðir ársins.

Ráðherraspillingin lýsir sér í ótal myndum. Til dæmis hefur forsætisráðherra sagt, að það sé fáránlegt, að hann og félagar hans greiði hlunnindaskatt af notkun ríkisbíls. Ef það er fáránlegt, af hverju hefur hann þá komið upp slíkum hlunnindaskatti á aðra landsmenn?

Ráðherrar hafa skammtað sjálfum sér margfalt betri kjör við öflun lífeyrisréttinda en gilda um aðra landsmenn. Með þessum hætti einum nær forsætisráðherra sér í aukatekjur, sem jafngilda 138.000 krónum á mánuði fyrir utan allar aðrar tekjur með öðru svindli.

Öll eru mál þessi upplýst. Um þau hefur verið rækilega fjallað í fjölmiðlum. En þjóðin gerir ekkert með það. Nýlega héldu tveir stjórnarflokkanna aðalfundi sína, án þess að nokkur viðstaddra reyndi að hafa uppi mótbárur gegn spillingu sinna manna í ríkisstjórninni.

Mikill hluti kjósenda álítur líka, að eðlilegt sé, að menn noti aðstöðu sína sér og sínum til framdráttar eins og í þriðja heiminum. Kjósendur úti á landi ætlast líka til, að seta stjórnmálamanns við ríkiskatlana leiði til fyrirgreiðslu við byggðarlagið og kjördæmið.

Siðferðilega eru Íslendingar á stigi þriðja heimsins. Þess vegna komast ráðherrar upp með stjarnfræðilegt hugmyndaflug við að krækja sér í viðbótaraura.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðarsátt fasista

Greinar

Viðhorf Íslendinga til þjóðmála minna að ýmsu leyti á viðhorf fasistanna gömlu á Ítalíu. Hér er algengt, að menn líti á þjóðfélagið sem eina stóra fjölskyldu eða jafnvel einn líkama, sem þurfi að vinna saman, til dæmis í þjóðarsátt, en megi ekki eyða orku í slagsmál.

Stærsti stjórnmálaflokkur Íslands hefur oft sagzt vera “flokkur allra stétta” og hefur stundum beitt gömlu slagorði fasista um “stétt með stétt”. Svipaðar hugmyndir gegnsýra aðra stjórnmálaflokka okkar, til dæmis þá, sem mynda núverandi ríkisstjórn þjóðarsáttar.

Í hugmyndafræði íslenzka fasismans vinna gagnstæðir þrýstihópar saman undir forustu ríkisins og með stuðningi þess. Ríkisvaldið er aðili að kjarasamningum, sem gerðir eru milli heildarsamtaka á vinnumarkaðinum, og tekur á sig skuldbindingar í þágu þjóðarsáttar.

Launum fólks og verðbólgunni er núna haldið niðri með þjóðarsátt milli ríkisstjórnarinnar, Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Þetta er íslenzka stórfjölskyldan.

Landbúnaðurinn hefur löngum verið viðamesta dæmið um samtvinnun ríkisvalds og þrýstihópa. Þar hefur verið reynt að draga fulltrúa frá samtökum launafólks og neytenda inn í ákvarðanir um þróun verðlags og að fá landbúnaðinn í staðinn inn í þjóðarsátt.

Landbúnaðurinn er meira eða minna rekinn með hálfsjálfvirkum aðgerðum í sex manna nefndum og sjö manna nefndum og með aðild atvinnugreinarinnar að þjóðarsátt. Ákvarðanir í samráðshópum af ýmsu tagi, en ekki markaðslögmál, ráða afkomu landbúnaðar.

Á sama hátt er verið að slíta sjávarútveginn, einkum fiskiðnaðinn, úr samhengi við markaðinn og byggja upp samráðskerfi í stíl þjóðarsáttar. Eitt nýjasta dæmið um það er aflamiðlun, þar sem ríkið og þrýstihóparnir koma sér saman um, hve mikinn fisk megi flytja út ísaðan.

Í stórum dráttum stuðlar allur þessi fasismi, öll þessi þjóðarsátt að því að festa hlutina í fyrra jafnvægi. Úr þessu verður til velferðarkerfi atvinnulífsins, þar sem markaðslögmál eru meira eða minna aftengd. Menn ákveða í staðinn sameiginlega, hvað sé “sanngjarnt”.

Þróazt hefur ákveðin verkaskipting í oddamennsku í samstarfi stóra bróður og þrýstihópanna. Þjóðhagsstjóri juðar málum til og frá í nefndum og ráðum, sem varða sjávarútveg. Seðlabankastjóri fer í mál, sem varða alvörufyrirtæki á borð við orkuver og álver.

Stundum vill þjóðarfjölskylda þessi eða þjóðarlíkami brjótast út úr hefðum vanans. Þá eru teknar sameiginlegar ákvarðanir um að taka upp nýjar atvinnugreinar með fyrirgreiðslu stóra bróður. Þannig var farið á handahlaupum inn í fiskeldi og loðdýrarækt.

Hér morar allt í útflutningsráðum og þróunarráðum af ýmsu tagi, í líkingu við það, sem var í Bretlandi fyrir tíma Thatchers og hefði orðið þar aftur, ef Heseltine hefði tekið við. Í þessum ráðum sitja ríkisvald og þrýstihópar og reyna þróun og “átak” með handafli.

Þegar Austur-Evrópa hvarf frá þessum fasisma og ákvað að prófa markaðsbúskap, hélt Alþýðubandalagið, að það ætti líka að skipta um skoðun. Fljótlega mun það komast að raun um, að slíkt er ekki vænlegt til fylgis hér á landi. Þá mun það aftur falla í fjölskyldufaðminn.

Verðhækkanir á fiski í útlöndum hafa um langt skeið og munu enn um sinn gera Íslendingum kleift að sigla fasistasjó þjóðarsáttar um “velferð” atvinnulífsins.

Jónas Kristjánsson

DV

500 daga átak

Greinar

Þrír hagfræðingar, sem til skamms tíma voru kenndir við Alþýðubandalagið, hafa lagt fram 500 daga áætlun um leið Íslands til markaðsbúskapar. Þeir eru af ráðnum hug að líkja eftir frægri 500 daga áætlun sovézkra hagfræðinga um leið Sovétríkjanna til markaðsbúskapar.

Það hastarlega í málinu er, að Sovétríkin eru nær því en Ísland að leggja út í 500 daga kapphlaup í átt til markaðsbúskapar. 500 dagarnir hafa verið samþykktir í stærsta lýðveldinu, Rússlandi, en framsóknarmaðurinn Ryzhkov þvælist fyrir í stjórn ríkjasambandsins.

Markaðsbúskapur er orðinn að sjálfsagðri hugmyndafræði í Sovétríkjunum á sama tíma og Íslendingar eru meira eða minna frosnir í skipulagshyggju, sem hefur náð fullkomnun í núverandi sjávarútvegsráðherra. Miðstýringarárátta tröllríður Íslandi enn.

Komið hefur í ljós í könnunum, að naumur meirihluti þjóðarinnar styður enn þann dag í dag framsóknarflokksstefnu allra stjórnmálaflokka um höft á borð við þau, að bannaður skuli innflutningur á þeirri búvöru, sem hægt er með ærnum kostnaði að framleiða heima.

Við erum að reyna að slípa nýjar reglugerðir um höft við, að fiskur sé seldur til útlanda í dýru ástandi, það er að segja ísaður. Við fáum fyrir hjartað, þegar minnzt er á erlendar fjárfestingar á Íslandi. Og hinn hefðbundni landbúnaður er friðhelgur sem fyrr.

Á sama tíma og Sovétmenn og einkum Rússar eru farnir að hreinsa út hjá sér, erum við að setja upp ný höft á borð við þau að banna innflutning á jólatrjám nema samkvæmt undanþágu hjá miðstýringarmönnum landbúnaðarráðuneytis. Við ætlum að sitja ein eftir.

Athyglisvert er, að það eru þrír hagfræðingar, sem til skamms tíma voru kenndir við Alþýðubandalagið, sem setja fram hugmynd um, að við hlaupum eins og Rússar út í markaðskerfi. Svo frosnir eru flokkarnir, að slíkar hugmyndir koma ekki frá Sjálfstæðisflokki.

Það eru aðallega hagfræðingar við Háskóla Íslands, sem hafa sett fram hugmyndir um að fara að þíða efnahagsfrostið hjá okkur. Og nú hafa þrír hagfræðingar, sem sagðir eru til vinstri, birt framkvæmdaáætlun markaðshyggjunnar í vinstra tímaritinu Þjóðlífi.

Skynsemi á þessu sviði virðist um þessar mundir helzt eiga aðgang að fólki, sem rambar á milli Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins. Hún á takmarkaðan aðgang að Sjálfstæðisflokknum, sem er hugmyndafræðilega orðinn að geldum hentistefnuflokki kerfisins.

Um Framsóknarflokkinn og Kvennalistann þýðir ekki að tala í þessu samhengi. Fyrrnefndi flokkurinn hefur frá ómunatíð verið fulltrúi hinnar hreinu ríkishyggju, miðstýringar. Kvennalistinn hefur í vaxandi mæli komið sér fyrir á sömu slóðum í stjórnmálum.

Hugtök á borð við hægri og vinstri eru að úreldast. Úti í heimi hafa flest stjórnmálaöfl leitað í átt til hins félagslega markaðsbúskapar, sem Ludwig Erhard gerði að efnahagsundri í Vestur-Þýzkalandi. Okkar efnahagsundur er hins vegar happdrætti í fiskverði í útlöndum.

Mikill hluti Íslendinga lítur eins og ítalskir fasistar á þjóðfélagið sem eins konar þjóðarlíkama, þar sem ein stór fjölskylda gerir þjóðarsátt um stórt og smátt, svo sem um, að sanngjarnt sé að vextir séu lágir og að fólk þurfi ekki að raska atvinnuháttum sínum og búsetu.

Ef hinn séríslenzki korpórasjónismi fer ekki að víkja fyrir alþjóðlegri markaðshyggju í 500 daga átaki, endum við með Albaníu sem síðasti móhíkaninn í Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Okkar maður í Reykjavík

Greinar

Graham Greene lætur söguhetjuna í “Okkar manni í Havana” endursegja efni upp úr opinberum skýrslum og öðru prentuðu máli og skálda síðan upp heimildarmenn, sem hann telur síðan yfirboðurum sínum í London trú um, að hafi látið sig hafa upplýsingarnar.

Leyniþjónustur stórvelda eru sérkennilegt fyrirbæri, sem hafa ekki sérstaklega gott orð á sér fyrir nákvæmar upplýsingar, enda hafa þær oftar en ekki spáð rangt um framvindu mála. Þekktastar slíkra eru stofnanirnar KGB í Sovétríkjunum og CIA í Bandaríkjunum.

Stofnanir af þessu tagi eru mjög stórir mammútar, sem lúta lögmálum Parkinsons nákvæmar en aðrar opinberar stofnanir, af því að þær eru ekki undir eins mikilli smásjá og hinar opnu stofnanir ríkisins. Þær reyna að framleiða verkefni handa sér og þenja sig út.

Útsendarar slíkra stofnana eru margir og eiga óhægt um vik. Þeir þurfa að réttlæta laun sín og helzt að sýna nægan árangur í starfi til að geta klifið metorðastigann í kerfi Parkinsons. Þeir þurfa að framleiða skýrslur í stríðum straumum, hvort sem tilefnin eru mikil eða lítil.

Fyrir þá, sem stunda njósnir í opnu þjóðfélagi eins og tíðkast á Vesturlöndum, er áreiðanlega árangursríkast að fylgjast með opnum skýrslum og opnum fjölmiðlum, því að þar standa svart á hvítu níu hlutir af hverjum tíu, sem sagðir eru eða gerðir eru og marktækir eru.

Það virðist hins vegar löðurmannlegt fyrir njósnara að verða að játa, að hann hafi ekkert fyrir njósnum sínum, heldur sitji eins og kontóristi við endursagnir upp úr opnum upplýsingum. Betra er að fá sér svokallaða trúnaðarmenn, sem gera málið dálítið spennandi.

Það er til dæmis allt annað og líflegra að útlista fyrir yfirmönnum í Moskvu, að maður hafi farið úr íbúð sinni í fjölbýlishúsi fram á myrkvaðan stigagang til að hvíslast þar á við svokallaðan trúnaðarmann. En á íslenzkri tungu mundi slíkt framferði flokkast undir ölæði.

Sumir starfsmenn í erlendum sendiráðum hafa njósnir að starfi, einkum í of stóru og útbelgdu sendiráði á borð við Sovétríkjanna. Hins vegar hlýtur verkefnaskortur að vera mikill, því að hér er varla nokkuð merkilegt að njósna um, nema viðbúnaður á Keflavíkurvelli.

Magnús Þórðarson, fulltrúi NATO á Íslandi, sagði um þetta í DV: “Starfsmenn sendiráðsins hafa tilhneigingu til að mikla sambönd sín fyrir yfirmönnum sínum í von um starfsframa … Því getur venjulegt og alvanalegt upplýsingasamtal orðið að trúnaðarsambandi.”

Vafasamt er að taka mark á æsifréttum um óeðlilegt samband íslenzkra stjórnmálamanna við erlenda njósnara. Skemmst er að minnast upphlaupsins, sem varð, þegar rokufrétt barst frá Noregi um, að Stefán Jóhann Stefánsson hefði verið í tengslum við CIA.

Í það skipti fóru nornaveiðarnar út um þúfur, þegar fjölmiðlar könnuðu málið betur og moldviðrið lægði. Svo mun einnig verða í þetta sinn, þótt upplýst verði, að einhverjir nafngreindir stjórnmálamenn séu á upploginni trúnaðarmannaskrá hjá KGB í Moskvu.

Mesta afrek “okkar manns í Havana” var að senda leyniþjónustu sinni verkfræðiteikningar af ryksugu, sem olli miklum heilabrotum. Þeir í sendiráðinu ættu að senda heim loftmynd af fiskeldisstöð til að skapa atvinnu handa sérfræðingum í eldflaugaskotpöllum!

Skáldsaga Grahams Greene og raunveruleikinn eiga það sameiginlegt, að leynilegar upplýsingar eru yfirleitt lakari en þær upplýsingar, sem liggja á borðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Líf að loknu köldu stríði

Greinar

Það bezta við stóra Evrópufriðarsamninginn í París var, að hann var orðinn úreltur, áður en hann var undirritaður af 34 þjóðarleiðtogum. Fyrir fundinn var orðið ljóst, að herveldin kæra sig ekki einu sinni um að hafa allan þann herbúnað, sem samningurinn leyfir þeim.

Sem dæmi má nefna, að samningurinn heimilar Varsjárbandalaginu að hafa 8000 skriðdreka í Mið-Evrópu. Sovétríkin ætla greinilega ekki að hafa neina skriðdreka á þessu svæði. Pólland og Tékkóslóvakíu munu sennilega hafa 2000 skriðdreka samtals á svæðinu.

Þar á ofan er tómt mál að tala um skriðdreka Varsjárbandalagsins, því að það er dautt, þótt formlegt andlát verði ekki tilkynnt fyrr en á næsta ári. Hinar nýju ríkisstjórnir í Austur-Evrópu kæra sig ekki um frekari aðild, en vilja komast í Atlantshafsbandalagið.

Bandaríkjamenn hafa verið að flytja helminginn af Evrópuherafla sínum til Arabíu, þar sem styrjöld er í aðsigi. Ósennilegt er, að heraflinn skili sér til baka nema að litlum hluta, þegar styrjöldinni er lokið. Spennan og öryggisleysið hefur greinilega flutzt frá Evrópu.

Atlantshafsbandalaginu hefur mistekizt að finna sér nýtt hlutverk, eftir að óvinurinn í austri fór að flosna upp. Til greina hefði komið, að það reyndi að víkka athafnasvæðið út frá Evrópu, en ekki eru horfur á því, úr því að það gat ekki haslað sér völl við Persaflóa.

Athyglisvert er, að stuðningur við Atlantshafsbandalagið kemur nú einkum frá austri, þar sem Vaclav Havel, forseti Tékkóslóvakíu, og margir fleiri sjá í því von um öryggi í tómarúminu, sem hefur myndazt í Austur-Evrópu við hrun Varsjárbandalagsins og Sovétríkjanna.

Öryggisstofnun Evrópu, sem nú verður komið á fót í Prag, mun stuðla að auknu öryggi í Evrópu, en ekki tryggja það. Öryggi Evrópu verður í framtíðinni ógnað á annan hátt en áður var. Því verður ógnað af ófriði, sem stafar af innanríkisátökum og ógnað að utan.

Dæmi um ógnun að utan höfum við í útþenslustefnu ríkisstjórnar Íraks, sem réðst fyrst til atlögu gegn Íran og innlimaði síðan Kúvæt. Ríkisstjórn Íraks safnar og beitir eiturvopnum, er að undirbúa framleiðslu kjarnavopna og hyggst efla hryðjuverk á Vesturlöndum.

Dæmi um ógnun að innan höfum við í vaxandi sundrungu í fjölþjóðaríkjum í Evrópu, Sovétríkjunum og Júgóslavíu. Í slíkum ríkjum er hugsanlegt, að herinn taki völdin, óvinsælar herstjórnir verði valtar í sessi og þar af leiðandi hernaðarlega óútreiknanlegar.

Nýir valdhafar í austri, svo sem Vaclav Havel, hafa áhyggjur af þessu. Nauðsynlegt er fyrir Vesturlönd að vera viðbúin vandræðum af því tagi. Þau þurfa að vera undir það búin að mæta óvæntri ógnun hryðjuverkastjórna að utan og herstjórna innan úr Evrópu.

Atlantshafsbandalagsins er áfram þörf til að mæta óvæntri ógnun hugsanlegra herstjórna í ríkjum á borð við Sovétríkin og Júgóslavíu. Hlutverk bandalagsins fer ört minnkandi, en það hverfur ekki alveg. Öryggisstofnunin nýja leysir ekki varnarbandalög alveg af hólmi.

Eftir hina miklu hreinsun ógnvekjandi vopna úr Mið-Evrópu verður erfiðara en áður að ryðjast fram með landheri og koma varnaraðila í opna skjöldu. Það verður svo verkefni eftirlitsstofnunar í Vín að fylgjast með vígbúnaði og fylgjast með tilfærslu á vígbúnaði.

Þótt kalda stríðinu sé formlega lokið, er nauðsynlegt að huga að vörnum Evrópu inn á við og út á við og efla stofnanir, sem geta stuðlað að öryggi álfunnar.

Jónas Kristjánsson

DV