Greinar

Keisarinn fær sitt

Greinar

Þar sem Íslendingar hafa ekki her, ættu skattar að geta verið heldur lægri hér en hjá öðrum þjóðum, sem telja sig sjálfar þurfa að halda uppi vörnum með dýrum tækjakosti. Nágrannaþjóðir okkar verja margar hverjar um 5% þjóðartekna til sviðs, sem við sleppum við.

Þar sem skattar í ríkjum Evrópubandalags og Efnahagssamvinnustofnunarinnar OECD eru um 40% þjóðarframleiðslu, ættu 35% að nægja hér í skattahlutfall. Í raun eru skattar hér á landi þó hinir sömu og þeir eru að meðaltali í ríkjum Evrópubandalags og OECD.

Deila má um, hvað séu skattar og hvað ekki. Þess verður að gæta, þegar borin er saman skattbyrði milli landa, að sömu liðir séu í dæminu í báðum tilvikum. Í ofangreindum hlutfallstölum hefur það verið gert á þann hátt, að tryggingar almennings eru taldar með.

Ef ýmsir liðir af slíku tagi eru dregnir frá, koma út lægri prósentutölur. Það gerði fjármálaráðherra, þegar hann boðaði landsmönnum fagnaðarerindið um, að skattar væru mjög lágir hér á landi. En hann dró þessa liði aðeins frá í hinni íslenzku hlið dæmisins.

Ef sömu liðir eru dregnir frá tölum nágrannaþjóðanna, kemur í ljós, að þær lækka svipað og þær gera hér á landi. Skattbyrðin er því hin sama hér á landi og í löndum Evrópubandalagsins og Efnahagssamvinnustofnunarinnar, þótt dæmið sé reiknað á ýmsa vegu.

Það er aðeins í Danmörku og Svíþjóð, að skattar eru umtalsvert hærri en þeir eru hér á landi. Ef við höldum okkur við útreikningana, sem sýna 40% skattbyrði hér á landi, er sambærileg skattbyrði 50­55% í þessum tveimur löndum. Þar með eru talin útgjöld til hermála.

Forsætisráðherra sagði á þingi framsóknarmanna um helgina, að hækka yrði skatta hér á landi, ef þjóðin vildi halda uppi almannaþjónustu í þeim mæli, sem nú er gert. Að öðrum kosti yrði að draga úr þjónustunni, sem opinberir aðilar veita borgurum landsins.

Óbeint var forsætisráðherra með þessu neyðarópi að afsaka, að ríkisstjórn hans hefur rekið ríkissjóð með fjögurra milljarða króna halla á þessu ári og hefur lagt fram á Alþingi fjárlagafrumvarp, sem felur í sér tæplega fjögurra milljarða króna halla á næsta ári.

Forsætisráðherra meinti með þessu, að hallinn á ríkissjóði væri ekki stjórninni að kenna, heldur þjóðinni, sem heimtaði fína þjónustu, en tímdi ekki að borga skattana, sem þyrfti til að standa undir þjónustunni. Þetta er freistandi ályktun, en eigi að síður röng.

Hið rétta er, að við borgum minna en Danir og Svíar, en hið sama og meðaltal auðþjóða gerir. Hið rétta er, að við borgum hið sama og aðrir, jafnvel þótt við spörum okkur 5%-in, sem aðrar þjóðir láta renna til hermála. Samt fáum við ekki meiri þjónustu hjá ríkinu.

Við fáum ekki meiri þjónustu fyrir skattana okkar, af því að hér á landi er beinn og óbeinn stuðningur við hefðbundinn landbúnað þyngri á hverjum skattborgara ríkisins. Íslenzkur meðalskattgreiðandi borgar meira en útlendur í styrki, uppbætur og niðurgreiðslur.

Okkar skattbyrði er sambærileg við skattbyrði annarra þjóða, af því að við jöfnum upp sparnað okkar af að hafa ekki her með því að bera þyngri byrðar af stuðningi við hefðbundinn landbúnað, sem kemur þannig fjár hagslega í staðinn fyrir eigin her Íslendinga.

Vilji forsætis- og fjármálaráðherra krækja í meira fé úr vasa fólks, ættu þeir hreinlega að játa, að þeir séu þurftarfrekari en starfsbræður þeirra í útlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV

Klippa hálsbindi

Greinar

Skortur menntaskólanema á mælskulist hefur verið tilefni blaðadeilu undanfarnar vikur. Svo virðist sem lið hafi unnið mælskukeppni á klósettbröndurum og með því að klippa hálsbindi af fundarstjóra, en annað lið hafi tapað með því að láta hið síðarnefnda hjá líða.

Keppni af þessu tagi virðist felast í, að keppendur draga um, hvort þeir mæli með eða móti umræðuefni, sem þeim er sett fyrir. Þetta getur verið ágæt þjálfun fyrir verðandi lögfræðinga, því að þeir lenda oft í að verja eða sækja mál án þess að geta valið sér málstað.

Samt mundi málflytjanda gagnast lítt að segja klósettbrandara í dómsal eða klippa hálsbindi af dómara. Ýkjur menntaskólanema í þessu minna á aðrar ýkjur, sem einkenna þá. Tolleringar voru í gamla daga meinlaust rugl, sem núna er búið að afskræma á ýmsa vegu.

Kappræður í mildara formi en nú virðast tíðkast hafa löngum einkennt málfundafélög í skólum. Íslendingum virðist henta vel hin lögfræðingslega hugsun, að mælska felist í að fá erfiðan málstað í fangið og þurfa að bera hann fram með margvíslegri hundalógík.

Meira að segja er sagt, að lögfræði útúrsnúninga hafi einkennt Íslendinga öldum saman. Er þá vísað til þeirrar þjóðaríþróttar fyrri alda að sigla til Kaupinhafnar með tapað mál og þjarka þar út með seiglunni breyttan úrskurð langþreyttrar konungshirðar.

Halldór Laxness orðar það svo: “Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða, hvenær sem komið er að kjarna máls.”

Þess verður vart meðal þekktra stjórnmálamanna íslenzkra, að þeir hafi snemma tekið í skóla trú á yfirburði sína í þessari sérgrein mælskulistar og líti á sig sem burtreiðamenn, er hafi sælastan sigur af því að snúa sem bezt og mest út úr sem erfiðustum málstað.

Svo gaman hafa tveir flokksformenn af því að hlusta á hundalógík sjálfra sín, að þeir hafa ferðazt saman um landið á svokölluðu “rauðu ljósi”, til að landsmenn geti klappað riddaramennsku burtreiðamanna lof í lófa. En þeir klippa þó ekki bindið af fundarstjóranum.

Annar þeirra heldur sem ráðherra fund með blaðamönnum svo sem á þriggja mánaða fresti. Þar leggur hann sig fram um að sanna, að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Nú síðast sannaði hann með sjónhverfingum, að skattar væru óvenjulega lágir hér á landi.

Eftir hvert svona bað fara málsaðilar og fjölmiðlar úti í bæ að reyna að kafa niður í sjónhverfinguna. Þegar þeir eru búnir að finna hið rétta og gagnstæða í málinu, er ráðherrann búinn að missa áhugann og farinn að undirbúa nýja leiksýningu, nýjar burtreiðar.

Raunar er íslenzk þjóðmálaumræða svo fámenn, að samkomulag myndast ekki um, á hvaða lágmarksplani hún skuli vera. Þetta er ólíkt því, sem er í ýmsum nágrannalöndum, þar sem þegjandi samkomulag er um, að staðreyndir séu raktar og ekki sé snúið út úr.

Mælskulist í tali og skrifuðu máli felst ekki í séríslenzkri þjóðaríþrótt orðhengilsháttar og langsóttra lögskýringa. Hún felst ekki í að fara að tala um annað, þegar sést í kjarna máls, eða í að klippa hálsbindi.

Hún felst í að raða upp staðreyndum í þeirri röð, að ljós sé röksemdin, sem staðreyndirnar segja sjálfar.

Jónas Kristjánsson

DV

Höft og tollar hefna sín

Greinar

Ef við viljum ekki aðild að Evrópubandalaginu og viljum ekki heldur leggja neitt marktækt af mörkum til að efla fríverzlun á vegum Tollasamvinnustofnunarinnar GATT, ættum við samt að reyna að geta útskýrt fyrir sjálfum okkur og öðrum, hvað við viljum yfirleitt.

Tilboð Íslands í tollasamvinnupúkkinu felur ekki í sér minnkun stuðnings við hefðbundinn landbúnað. Það felur í sér, að annars vegar er slakað á niðurgreiðslum, útflutningsuppbótum og innflutningsbanni, en hins vegar teknar upp beinar byggðagreiðslur til bænda.

Við erum ekki einir um að reyna að leysa vandamálið með því að færa það til. Sjónhverfingar af þessu tagi eru algengar og viðurkenndar í alþjóðlegu samstarfi, svo sem í Fríverzlunarsamtökunum og Evrópubandalaginu. Tilboð annarra ríkja í GATT eru svipaðs eðlis.

Lýsing Halldórs Laxness í Innansveitarkróníku á hin um dæmigerða Íslendingi, sem hangir í aukaatriðum og fyllist skelfingu, ef komið er að kjarna málsins, á líka við um aðrar þjóðir. Fleiri en við missum málið, ef rök og skynsemi eru sett á oddinn. Líka í EB og GATT.

Brezkir hagfræðingar hafa reiknað út, að tólf sinnum dýrara sé að vernda innlenda framleiðslu en að laga sig að fríverzlun. Öll rök hníga að því, að verndarstefna skaði mann sjálfan meira en aðra. Samt eru Bretar eins og aðrir alltaf að reyna að vernda hið gamla.

Tollar og innflutningshöft fela í sér, að innlendum neytendum er neitað um ódýra vöru frá útlöndum. Hótanir um að halda uppi tollum og höftum eða auka jafnvel tolla og höft eru í raun fremur ofbeldi gegn innlendum neytendum en gegn erlendum framleiðendum.

Samt sitja fulltrúar um 100 ríkja á fundum í GATT og tefla um tilboð og hótanir. Allir vita, að lægri tollar og höft eru meira í eigin þágu en annarra og að hærri tollar og höft skaða mann sjálfan meira en hina. Samt er málinu teflt út í sameiginlegan ósigur allra.

Fremur slæmar horfur eru í viðræðunum í GATT um minnkun tolla og hafta. Bandaríkin eru tilbúin með margvíslega múra, sem þau hóta, að reistir verði, ef Evrópubandalagið heldur áfram dauðri verndarhendi yfir hefðbundnum landbúnaði í aðildarríkjum þess.

Fiskur hefur ekki átt upp á pallborðið í þessum deilum, sem og í öðrum viðræðum um tolla. Flestir aðrir en Íslendingar líta á fisk sem eins konar landbúnaðarafurð, sem beri að vernda sem mest. Ekkert bendir til, að höft á alþjóðlegri fiskverzlun verði minnkuð.

Tilboð Íslands um innflutning á osti og pylsum er betra en ekki neitt, en hjálpar raunar lítið upp á sakirnar. Við megum búast við, að hömlur á fiskverzlun verði ekki minnkaðar og að margar þjóðir taki smám saman upp byggðastefnuverndun í eigin útgerð og fiskvinnslu.

Við bætum ekki þá stöðu með því að halda áfram að neita okkur um ódýra búvöru frá útlöndum. Því dýrari sem erlend höft verða okkur, þeim mun brýnna er fyrir okkur að fara að hagnast á meintri þörf annarra þjóða til að losna við óseljanlegar birgðir af búvöru.

Við þurfum meira en flestar aðrar þjóðir á milliríkjaverzlun að halda. Alþjóðleg hreyfing í átt til aukinna hafta mun skaða okkur meira en aðra. Þess vegna eigum við að byrja á að rífa niður okkar tolla og höft, jafnvel þótt aðrar þjóðir vilji alls ekki gera slíkt hið sama.

Ef við viljum ekki verða próventukarlar Evrópubandalagsins og viljum róa einir í heimsins ólgusjó, verðum við að hafna haftaklisjum og fara að taka rökum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fisk fyrir búvöru

Greinar

Evrópubandalagið hefur löngum verið okkur erfitt og á eftir að verða okkur erfitt. Ríki, sem áður tolluðu ekki saltfisk frá okkur, Portúgal og Spánn, eru nú látin tolla saltfiskinn að skipun bandalagsins. Og næst vill bandalagið komast inn í fiskveiðilögsögu okkar.

Samt hefur Evrópubandalagið mikið aðdráttarafl. Þýzkaland og Bretland, sem bæði eru í bandalaginu, hafa leyst Bandaríkin af hólmi sem helztu kaupendur útflutningsafurða okkar. Við erum alltaf að verða háðari útflutningi til landa Evrópubandalagsins.

Evrópskar myntir hafa verið að styrkjast í samanburði við bandaríska dollarann. Þess vegna hafa útflytjendur séð sér hag í að færa viðskipti frá Bandaríkjunum til Evrópubandalagsins. Viðskiptin hafa líka færst í hendur þeirra, sem eru sérhæfðir í Evrópumarkaði.

Auk þess er evrópski markaðurinn á hærra stigi en hinn bandaríski. Neytendur í Evrópu taka dýran ísfisk fram yfir frysta fangafæðu, svo að við fáum meira fyrir fiskinn, þótt við spörum okkur alveg að fara með hann í dýrt ferðalag um vinnslulínur frystihúsanna.

Æskilegt hefði verið að geta byggt upp Japansmarkað til hliðar við Evrópumarkaðinn, svo að við hefðum þrenns konar ólíkan markað fyrir útflutningsafurðir okkar. Þá værum við ekki eins háð hverjum einstökum markaði fyrir sig, ekki eins háð Evrópubandalaginu.

En Japan er langt í burtu og kostar flug. Við höfum verið svo vitlaus að afhenda Flugleiðum einokun á vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli, svo að Flying Tigers, sem reyndu að fljúga með hágæðavörur okkur til Japans, hröktust að mestu í burtu undan óheyrilegum gjöldum.

Staðan er því sú, að í útflutningi okkar er bandaríska sólin að hníga til viðar og japanska sólin er ekki enn risin, en hin evrópska er hæst á lofti. Þess vegna er okkur mjög brýnt að leita allra leiða til að opna hvimleiða tollaog haftamúra Evrópubandalagsins.

Við getum ekki boðið veiðiheimildir í staðinn. Ef verzlunarfrelsi væri í veiðiheimildum, mundi hið sama gerast og þegar trillukarlar fengu kvótann í sumar. Þeir seldu frumburðarrétt sinn í hendur togaraútgerðar. Hið sama munum við gera, þegar útlendingar koma.

Samkvæmt hagfræðilögmálum væri það mjög hagkvæm lausn. Gallinn er bara, að sú hagkvæmni er í þágu annarra en þeirra, sem hafa dafnað í skjóli einokunar á íslenzkum fiskimiðum, það er að segja okkar sjálfra. Hagfræðilögmálin gilda ekki fyrir okkur.

Sjálfstætt þjóðfélag á Íslandi, með eigin tungumáli, stendur og fellur með einokuninni, sem við höfum komið okkur upp á 200 mílna fiskveiðilögsögu. Daginn, sem við seljum þann frumburðarrétt, erum við komin sem sérstök þjóð á leið út úr veraldarsögunni.

Við gætum hins vegar boðið Evrópubandalaginu tollfrjálst innflutningsfrelsi á óseljanlegri búvöru bandalagsins í skiptum fyrir afnám tolla og hafta á fiskinum frá okkur. Neytendur á Íslandi mundu græða á slíku samkomulagi, svo að gróði okkar yrði tvöfaldur.

Því miður er enginn meirihluti meðal þjóðarinnar fyrir því að breyta erfiðu vandamáli í stórgróða og þar af leiðandi enginn skilningur meðal ráðamanna á hinum stórkostlega möguleika, sem við hefðum í viðræðum um býtti á sjávarvörufrelsi og búvörufrelsi.

Meðan við neitum okkur um að hugsa svona skynsamlega erum við dæmd til að sogast nauðug viljug inn í Evrópubandalag, sem er okkur alls ekki að skapi.

Jónas Kristjánsson

DV

Algildar leikreglur

Greinar

Efnislegir fjársjóðir Vesturlanda verða ekki skildir frá hinum mannúðlega og veraldlega hugarheimi að baki. Stjórnvöld í Austur-Evrópu og í Sovétríkjunum eru að átta sig á, að ríkidæmi næst ekki nema teknar verði upp vestrænar leikreglur á borð við mannréttindi.

Trúhneigðir og íhaldssamir olíufurstar á Arabíuskaga hafa hingað til haldið, að þeir gætu reist tæknivætt peningaþjóðfélag án þess að taka upp leikreglur mannréttinda og lýðréttinda, sem urðu til á Vesturlöndum og eru hornsteinn stofnskrár Sameinuðu þjóðanna.

Aðrir veraldlegir furstar á þessum slóðum, svo sem Saddam Hussein Íraksforseti, eru hvorki trúhneigðir né íhaldssamir. En þeir sækja sér afl í útbreitt hatur fólks á hinum vestræna hugarheimi, sem hefur ruðzt með sjálfvirkri frekju inn í rótgróin hugarheim þess.

Heimur íslams er þríklofinn. Þar eru í einum hópi hryðjuverkamenn og siðleysingjar á borð við Saddam Hussein. Í öðrum eru trúhneigðir afturhaldsmenn á borð við olíufurstana. Í þriðja hópnum eru þeir, sem vilja sameinast Vesturlöndum í hugarheimi nútímans.

Fyrir þúsund árum var heimur íslams fremri heimi kristninnar. Þá sköruðu íslamskir verkfræðingar og vísindamenn og viðskiptahöldar fram úr kristnum starfsbræðrum sínum. En síðan stukku Vesturlönd fram úr með því að koma sér upp veraldlegu þjóðfélagi.

Ekkert bannar í sjálfu sér, að slík breyting geti líka orðið í löndum íslams. Leikreglurnar í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna eru ekki í eðli sínu aðeins vestrænar, heldur eru þær alheimslegt skref á þróunarbraut mannkyns. Mann- og lýðréttindi henta öllum þjóðum heims.

Með hernaðarbandalagi Vesturlanda við Egyptaland og Tyrkland gegn Írak er stutt við bakið á öflum í þessum löndum, sem vilja feta slóðina í átt til hinna algildu leikreglna. Tyrkland er komið langleiðina í átt til lýðræðis og Egyptaland rambar á rúmlega miðri leið.

Einnig má búast við, að hinir trúhneigðu afturhaldsmenn, sem ráða ríkjum á Arabíuskaga, sjái, að betra sé að leyfa kosningarétti, málfrelsi og öðrum grundvallaratriðum úr stofnskrá Sameinuðu þjóðanna að síast inn fremur en að fórna samstarfinu við Vesturlönd.

Brýnt er, bæði fyrir Vesturlönd og fyrir hugsjónir Sameinuðu þjóðanna, að spennan milli austurs og vesturs verði ekki leyst af hólmi af spennu milli vesturs og íslams. Mikilvægt er, að nútímaöfl í ríkjum íslams verði studd gegn myrkum öflum afturhalds, reiði og haturs.

Þess vegna ber Vesturlöndum að beita sér af fullri alvöru í Persaflóastríðinu.Í fyrsta lagi verða Bandamenn að vinna sigur í því stríði. Í öðru lagi þarf að tefla framhaldið á þann hátt, að hinir raunverulegu sigurvegarar verði ríki á borð við Egyptaland og Tyrkland og að lýðræði eflist í afturhaldsríkjunum á Arabíuskaga.

Ef Saddam Hussein og aðferðir hans halda velli, mun hugarheimur nútíma siðmenningar eiga erfitt uppdráttar í löndum íslams á næstu árum og jafnvel áratugum. Þá mun magnast spenna vesturs og íslams og verða enn hættulegri en kalda stríðið var á sínum tíma.

Það er ekkert einkamál fyrir Vesturlandabúa að vilja lifa í siðmenningarheimi, þar sem sérhver hefur atkvæði og frelsi til að skrifa, taka til máls og taka þátt í hvers kyns félagsskap, pólitískum sem öðrum: svo og frelsi frá ofbeldi af hálfu ríkisins og stofnana þess.

Eftir að Austur-Evrópa hefur áttað sig á, að siðmenning þarf ekki að vera einkaeign Vesturlanda, er röðin komin að heimi íslams að átta sig á slíku hinu sama.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýjar hömlur á fisk

Greinar

Hefðbundinn landbúnaður er fleiri þjóðum óþægur ljár í þúfu en Íslendingum einum. Talsmenn landbúnaðarins hér á landi minna stundum á, að nokkrar aðrar þjóðir styðji landbúnað sinn með upphæðum, sem séu svipaðar á hvern bónda og þær eru hér á landi.

Þar sem hefðbundinn landbúnaður í þessum fáu löndum, svo sem Noregi og Svíþjóð, er minni hluti atvinnunnar en hann er hér á landi, gildir þó, að hvergi í heiminum er stuðningur við landbúnað eins þungur á hvern skattgreiðanda og neytanda og hann er hér á landi.

Augljóst er þó, að styrkir til landbúnaðar tíðkast víða í auðugum iðnaðarríkjum og eru hvergi illræmdari en einmitt í Evrópubandalaginu. Þar var samstarf milli þjóða að ýmsum framfaramálum keypt afar dýru verði, verndun bænda í Vestur-Þýzkalandi og Frakklandi.

Tangarhaldið, sem landbúnaðarráðherrar ríkja Evrópubandalagsins hafa á fjármálum þess, kemur bezt í ljós af, að þrír fjórðu hlutar af fjárlögum þess fara í greiðslur vegna hefðbundins landbúnaðar. Þetta ástand hefur lítið sem ekkert lagazt á undanförnum árum.

Með því að tolla innflutning á búvöru heldur Evrópubandalagið uppi óeðlilega háu verði í ríkjum bandalagsins. Með því að selja offramleiðsluna á niðursettu verði reynir það að losna við hana í samkeppni við landbúnaðarríki, sem reyna að keppa á alþjóðamarkaði.

Evrópubandalagið stundar þannig óheiðarlega viðskiptahætti gagnvart landbúnaðarríkjum á borð við Bandaríkin, Argentínu, Ástralíu og Nýja-Sjáland, svo og mörg ríki þriðja heimsins, sem geta framleitt búvöru á mun ódýrari hátt en gert er í Vestur-Evrópu.

Hér á landi brauðfæðir starfsmaður í landbúnaði sem svarar tíu manns. Í löndum Evrópubandalagsins brauðfæðir starfsmaðurinn tvöfalt fleiri eða sem svarar tuttugu manns. Í Bandaríkjunum brauðfæðir hver starfsmaður í landbúnaði sexfalt eða sextíu manns.

Samanburðurinn sýnir, að í Bandaríkjunum eru mun betri aðstæður til landbúnaðar en í Vestur-Evrópu, svo að ekki sé borið saman við Ísland, sem kúrir norður í höfum. Fyrir neytendur hlýtur að vera hagstætt að fá að nota sér hagkvæmni landbúnaðarríkjanna.

Það er einmitt eitt meginmarkmið svokallaðra Uruguay-viðræðna í tollasamtökunum GATT. Þar hefur verið um nokkurt skeið stefnt að því að fá lækkaða og brotna tollmúra og innflutningshöft á búvöru, svo að neytendur um allan heim fái að njóta lága verðsins.

Bandaríkin hafa í GATT lagt til, að þátttökuríkin lækki útflutningsuppbætur á búvöru um 90% og niðurgreiðslur á búvöru um 75%, hvort tveggja á tíu árum. Evrópubandalagið treystir sér ekki til þess og er veikum mætti að reyna að koma saman pakka upp á 30% niðurskurð.

Ísland stendur sig enn verr en Evrópubandalagið. Okkar menn hafa skilað inn tilboði, sem felur í sér nokkurn veginn óbreytt ástand. Alveg eins og hjá Evrópubandalaginu var landbúnaðarráðherra falið að setja fram tilboðið. Það var því ekki von á góðu.

Bandaríkin og hagkvæm landbúnaðarríki heimsins munu ekki gera sér þessa afgreiðslu að góðu. Bandaríkin hafa þegar komið sér upp heimildum, sem leyfa forseta þeirra eða skylda hann til að taka upp refsingar gegn ríkjum, sem mismuna búvöru frá Bandaríkjunum.

Tregða Evrópubandalagsins og ríkja á borð við Ísland getur leitt til viðskiptastríðs, með hömlum á innflutningi iðnaðarvöru frá Evrópu og á fiski frá Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Pílagrímar í Bagdað

Greinar

Pílagrímar streyma til Bagdað í vaxandi mæli. Við sjáum á skjánum ýmsa fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem þeim er fagnað af Saddam Hussein. Erindi þeirra er að fá lausa nokkra gísla, en Saddam Hussein tekur bara nýja í staðinn, þegar þeir eru farnir.

Saddam Hussein notar pílagrímsferðir vestrænna stjórnmálamanna til að sýna Írökum, að hann sé orðinn aðalnúmerið í heiminum. Hann notar þær líka til að telja sjálfum sér trú um, að andstyggileg vinnubrögð hans séu þau, sem nái árangri gagnvart Vesturlöndum.

Kurt Waldheim, forseti Austurríkis, var fyrstur á vettvang. Þá sögðu menn, að þar hæfði skel kjafti, er margsaga lygalaupur úr síðari heimsstyrjöldinni brosti framan í stríðsglæpamann ársins. Fortíð Waldheims hefði átt að fæla aðra frá fótsporum hans í Bagdað.

Jesse Jackson, fyrrum forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, kom næstur. Ekki var heldur ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af pílagrímsferð hans, því að hann er mikill lýðskrumari og var greinilega að búa til það, sem hann hélt að væri auglýsing fyrir sig.

Vandinn jókst hins vegar, þegar nokkrir fyrrverandi forsætisráðherrar sigldu hver á eftir öðrum, Edward Heath frá Bretlandi, Jasuhiro Nakasone frá Japan og Willy Brandt frá Þýzkalandi. Nakasone var í Bagdað á sunnudaginn og Brandt á að vera þar í dag.

Ekki er hægt að saka þessa menn um að vera að útvega sér ódýran uppslátt í fjölmiðlum, þótt það fáist í kaupbæti. Og erfitt er fyrir ríkisstjórnir landa þeirra að amast opinberlega við pílagrímsferðum þeirra, því að þeir teljast vera prívatmenn í einkaerindum.

Hins vegar eru pílagrímsferðir af þessu tagi óneitanlega orðnar að vandamáli. Þær draga úr líkum á, að Saddam Hussein komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegra fyrir sig sé að láta herinn hverfa frá Kúvæt. Þær sannfæra hann um, að hann sé á réttri leið.

Pílagrímsferðir geta líka magnað efa í heimalöndum pílagrímanna. Þegar menn sjá Edward Heath, Jasuhiro Nakasone og Willy Brandt taka í höndina á Saddam Hussein, fara sumir að efast um, að hann sé eins afleitur og af er látið. Þeir halda, að hann sé enginn Hitler.

Þar á ofan gætu pílagrímarnir orðið fyrir slysi. Annað hvort verða bandamenn að fresta gagnsókn, meðan pílagrímar eru í Bagdað eða taka áhættuna af, að þeir gætu lent í loftárás. Þannig flækja pílagrímarnir nauðsynlegar hernaðaráætlanir bandamanna við Persaflóa.

Liðnir eru rúmir þrír mánuðir síðan her Saddams Husseins tók Kúvæt herskildi. Hafnbann og efnahagsþvinganir hafa ekki haft mikil áhrif og munu seint hafa úrslitaáhrif. Á meðan hefur hver dagur í för með sér hættu á, að eining bandamanna fari að minnka.

Enn eru fastir fyrir hinir arabísku hornsteinar bandalagsins gegn Saddam Hussein, Egyptaland, Tyrkland og Saúdi-Arabía. Langvinnt þrátefli getur hins vegar grafið undan ríkisstjórnum þessara landa, því að almenningur getur sveiflazt til stuðnings við Saddam Hussein.

Ráðamenn þessara ríkja skilja eins og Bush Bandaríkjaforseti, að Saddam Hussein er ekki manngerð, sem er fær um að taka þátt í því, er kallast “diplómatísk” lausn. Þeir skilja líka, að hann er harðlæstur inni í fílabeinsturni, sem pílagrímarnir geta ekki opnað.

Fyrr eða síðar verður að láta til skarar skríða við Persaflóa. Pílagrímsgöngur vestrænna stjórnmálamanna til Bagdað spilla á meðan stöðu bandamanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Miðflóttaafl tungumála

Greinar

Þegar leigubílar í Barcelona eru lausir, stendur ekki lengur “libre” á skiltinu í glugganum, heldur “lliure” upp á katalúnsku. Verið er að breyta götuskiltum úr því, sem við köllum spönsku yfir á katalúnska tungu. Sama er að segja um matseðla veitingahúsa.

Þegar ferðamaður í Barcelona reynir að gera sig skiljanlegan á eins konar spönsku, er hann vorkunnsamlega spurður, hvort hann tali kastilísku, en svo er spánska kölluð í Katalúníu. Samtalið færist venjulega yfir í ensku, sem margir Katalúnar taka fram yfir kastilísku.

Hið sama er að gerast í Valensíu, þar sem töluð er katalúnsk mállýska. Báðar þessar tungur eru á milli frönsku og hefðbundinnar spönsku, sem töluð er á hásléttum Kastilíu. Í humátt á eftir fylgja svo Galisíumenn, sem tala enn aðra tungu, er minnir á Portúgal.

Baskar á norðurströnd Spánar eru harðastir allra í að afneita kastilísku. Jafnvel í ferðamannabæ á borð við San Sebastian er búið að taka niður kastilísku götuskiltin og setja upp ný á baskamáli. Þannig hafa sértungumálin blómstrað í nýfengnu lýðræði á Spáni.

Á Bretlandseyjum hefur í nokkur ár verið sjónvarpað á velsku, sem er keltneskt mál í Wales. Nú er komin hreyfing á annað keltneskt mál, kornísku, sem töluð er lítils háttar á skaganum fyrir sunnan, í Cornwall. Bókmenntatímarit á kornísku kemur nú út tvisvar á ári.

Upplausnin í Sovétríkjunum hefur leitt til nýrrar áherzlu á tungumál minnihlutahópa, sem haldið var niðri, meðan miðstjórnaraginn var þrúgandi. Trúarbrögð og tungumál eru fremst á oddi þeirra, sem reyna að efla sjálfstæði gagnvart valdamiðjunni í Kreml.

Sjálft móðurlandið, Rússland, er að liðast í sundur, því að einstök héruð hafa lýst yfir fullveldi eða eru að undirbúa það. Tartaraland, sem er suðaustur af Moskvu, hefur lýst yfir fullveldi gagnvart Rússlandi, sem hefur lýst yfir fullveldi gagnvart Sovétríkjunum.

Málin verða enn flóknari, þegar Baskírar, sem eru í suðurhluta Tartaralands, lýsa yfir fullveldi gagnvart Törturum, sem lýsa yfir fullveldi gagnvart Rússum, sem lýsa yfir fullveldi gagnvart Sovétríkjunum. Þannig eru víða minnihlutahópar innan í minnihlutahópum.

Samkvæmt einni mælingaraðferð eru töluð tæplega 200 tungumál í Sovétríkjunum. Það eru því ekki aðeins fimmtán lýðveldi í Sovétríkjunum, sem óska eftir sjálfstæði, heldur ótal sjálfsstjórnarsvæði innan lýðveldanna og jafnvel svæði innan sjálfsstjórnarsvæðanna.

Gorbatsjov forseti er að reyna að halda Sovétríkjunum saman með því að taka tillit til óska tungumálasvæðanna um sjálfsstjórn, þó þannig að utanríkismál og hermál, samgöngur og myntslátta, orka og hráefni, svo og skattheimta verði áfram í höndum Kremlverja.

Ólíklegt er, að honum takist þetta, því að miðflóttaafl tungumálasvæðanna mun hrifsa til sín meira af því valdi, sem verður til skiptanna, og sum svæði munu hreinlega yfirgefa ríkjasambandið að fullu. Miðstjórnin í Kreml hefur ekki lengur aga eða tök á þróun mála.

Í vörninni fyrir hönd ríkisheildarinnar munu Kremlverjar reyna eins og Kastilíumenn á Spáni eru að reyna að gera, að læra af Svisslendingum, sem hefur tekizt að halda uppi einingu í landi sínu með því að dreifa töluverðum hluta miðstjórnarvaldsins til kantónanna.

Tími fjölþjóðavelda er liðinn. Með vaxandi lýðræði munu tungumál og trúarbrögð ráða, hvernig fólk raðast saman í ríki og í aðrar einingar fullveldis.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaðmálshyggju afneitað

Greinar

Miðstjórn Alþýðubandalagsins ákvað um helgina að hverfa frá vaðmálssósíalisma undanfarinna áratuga og leita aftur til hagfræðihyggju, en að þessu sinni til vestrænnar hagfræðihyggju án leiðsagnar frá Karli Marx. Flokkurinn hyggst bera nýja ímynd í næstu kosningum.

Forveri Alþýðubandalagsins var hagfræðilega sinnaður flokkur, svo sem vel kom fram í þátttöku Sósíalistaflokksins í nýsköpunarstjórn fyrir rúmlega fjórum áratugum. Þá gátu hagfræðisinnar til hægri og vinstri haft með sér samstarf um fráhvarf frá vaðmálssósíalisma.

Við stofnun Alþýðubandalagsins runnu inn í Sósíalistaflokkinn ýmis þjóðernisleg og dreifbýlisleg sjónarmið, sem hafa einkennt flokkinn fram að þessu. Vaðmálsstefna Þjóðvarnarflokksins gamla hefur allar götur síðan verið mjög áberandi í Alþýðubandalaginu.

Nú hefur blaðinu verið snúið við. Krafan um brottför hersins er orðin að varfærnislegu orðalagi um nýja öryggisstefnu friðar og alþjóðlegs samráðs. Andstaðan við útlent auðvald hefur breytzt í kröfur um viðskiptafrelsi, Evrópuviðræður og jafnvel stuðning við nýja álverið.

Landbúnaðarráðherra er helzti fulltrúi vaðmálssósíalista í forustusveit flokksins. Hann segir miðstjórnarfundinn ekki hafa tekið afstöðu til staðarvals álvers á Suðurnesjum. En með því að taka ekki afstöðu til staðarvals, tók flokkurinn afstöðu með orðinni staðreynd.

Áður hafði Alþýðubandalagið flúið frá Karli Marx inn í draumaheim þann, sem Gísli Gunnarsson sagnfræðingur gaf heitið vaðmálssósíalisma. Þar keppti Alþýðubandalagið við Framsóknarflokkinn í yfirboðum um verndun gamalla atvinnuhátta og gamallar búsetu.

Þegar vestræn markaðshyggja tók hagfræðivöld í Austur-Evrópu í fyrravetur, taldi formaður Alþýðubandalagsins, að tímabært væri orðið að hætta flótta frá hagfræðinni og taka einfaldlega upp vestræna hagfræði. Stefna hans hafði sigur á miðstjórnarfundinum.

Með afnámi hinnar gömlu stefnuskrár frá 1974 er Alþýðubandalagið fyrst og fremst að breyta ímynd sinni. Ólafur Ragnar Grímsson vill heyja kosningabaráttu komandi vetrar undir nútímalegum merkjum og gera flokkinn samstarfshæfan við Sjálfstæðisflokkinn.

Þar með hefur innihald Alþýðubandalagsins ekki breytzt á einni nóttu. Þar er enn fullt af þjóðvarnarmönnum og vaðmálssinnum. En þeir hafa hægar um sig. Og áherzlan hefur óneitanlega flutzt frá þeim yfir til hagfræðisinnaðra stuðningsmanna formannsins.

Um þessar mundir er verið að grafa undan Hjörleifi Guttormssyni í flokknum á Austfjörðum og undirbúa skipti á þingmannsefni flokksins í því kjördæmi. Ef það tekst, hafa nýju mennirnir í flokknum losnað af þingi við hávaðasamasta fulltrúa vaðmálshyggjunnar.

Þótt stefnuskrár séu í sjálfu sér ekki mikils virði, er óhjákvæmilegt, að róttæk stefnubreyting Alþýðubandalagsins mun smám saman færa flokkinn nær miðju íslenzkra stjórnmála. En það gerist ekki í þvílíku vetfangi, sem felst í afnámi gamallar stefnuskrár.

Fyrst og fremst er Alþýðubandalagið að verða tækifærissinnaðri flokkur í líkingu við Alþýðuflokkinn. Það er í vaxandi mæli að fiska á miðum hinnar pólitísku miðju og gera forustumönnum sínum kleift að gera tækifærissinnuð stjórnarbandalög til allra átta.

Samt er ein afleiðingin sú, að þjóðmálaumræðan í landinu mun mjakast frá tilfinningasemi vaðmálshyggjunnar og færast nær því, sem gildir á Vesturlöndum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hlaupið inn í spilavítið

Greinar

Núverandi álráðherra var drjúgur með sig, er hann seldi Útvegsbankann fyrir þremur árum. Hann lét ríkið leggja fram sem svarar 685 milljónum króna til að koma eignastöðu bankans upp í núll og taka á sig sem svarar 942 milljónum krónum vegna lífeyrisréttar starfsmanna.

Við undirritun kaupsamnings lagði núverandi álráðherra fram sem svarar 1309 milljónum til að liðka fyrir sölu bankans í hendur hlutafélags. Enn varð ríkið að borga sem svarar 346 milljónum vegna nokkurra gjaldþrota viðskiptavina, sem voru á herðum gamla bankans.

Áfram neyddist álráðherrann til að láta skattgreiðendur taka á sig sem svarar 288 milljónum króna vegna lífeyris bankastjóra. Á móti á ríkið von í 150 milljónum úr gömlum gjaldþrotum og hefur svo fengið bókað sem svarar 1105 milljónum í endanlegt söluverð bankans.

Allar upphæðirnar eru reiknaðar á núverandi verðlagi. Niðurstaða samlagningar og frádráttar sýnir, að ríkið hefur tapað rúmlega þremur milljörðum króna á sölu bankans, þótt ráðherrann teldi sér og sumum öðrum á sínum tíma trú um, að hann væri í góðu braski.

Þetta sýnir, hve erfitt er að stunda spákaupmennsku. Íslendingar hafa oft farið flatt á því, ekki sízt þegar ríkið hefur forgöngu í spádómum. Skemmst er að minnast opinberra spádóma um gott framtíðarverð á eldislaxi og refaskinnum, svo og um virkjunarkostnað Blöndu.

Gömul og gild reynsla er fyrir, að spádómar rætast ekki. Það gildir líka um spádóma á vegum Landsvirkjunar og ríkisstjórnar. Enginn heilvita maður mundi veðja matarpeningum fjölskyldunnar á grundvelli bjartsýnna spádóma frá Landsvirkjun eða ríkisstjórn.

Stóri glannaskapurinn í samningsdrögunum um nýtt álver er að hengja orkugreiðslur þess algerlega á heimsmarkaðsverð á áli. Það getur að vísu gefið rosalegan happdrættisvinning, en getur líka valdið miklu tapi. Og útreikningar sýna, að nánast engu má skeika í spánni.

Í leiðara DV fyrir réttri viku voru rakin ýmis rök með og móti spádómum um hátt heimsmarkaðsverð á áli. Til viðbótar við þá miklu óvissu koma svo efasemdir um, að virkjunarkostnaður verði nákvæmlega sá, sem Landsvirkjun gerir ráð fyrir í sínum bjartsýnu spám.

Til dæmis er vafasamt að sleppa Blöndu úr dæminu á þeirri forsendu, að virkjunin þar sé rugl. Er það ekki Landsvirkjun, sem er sjálf að reisa orkuverið? Er ekki einmitt verið að virkja Blöndu á grundvelli spádóma Landsvirkjunar um virkjunarkostnað og orkumarkað?

Ekki þarf heldur að gera mikinn ágreining um afskriftatíma og útreikninga á afslætti frá orkuverði til að fá út úr dæminu, að orkuverð til nýs álvers verði rúmlega einu mills lægra en fyrirhugað er, jafnvel þótt allar aðrar forsendur Landsvirkjunar séu notaðar.

Einnig er spurning, hvers vegna nýting nýs álvers sé áætluð 98%, mun hærri en hjá Ísal. Einnig má ímynda sér, að nýtingin fari að nokkru eftir sveiflum á heimsmarkaðsverði áls til að ná niður meðalorkuverði. Og hvað um lántökukostnað og endurlánakostnað?

Að öllu samanlögðu er unnt að búa til heldur minna bjartsýna spá, sem gerir ráð fyrir, að þjóðfélagið þurfi um 20 mills fyrir orkuna, ef fjárfestingardæmið eigi að ganga upp, en muni í reynd ekki fá nema 15 mills, ef heimsmarkaðsverð á áli verður örlítið lægra en nú er.

Þvílíkt fjárhættuspil hefur Íslendingum aldrei verið sýnt. Spilafíkn okkar er þó slík, að margir munu vilja fara á hlaupum inn í spilavítið án frekari umhugsunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Uppgjör er óhjákvæmilegt

Greinar

Mikill liðsafnaður Bandaríkjanna og nokkurra ríkja íslams og Vestur-Evrópu í eyðimörk Arabíuskaga hlýtur að vera til undirbúnings öflugrar gagnárárásar á Írak og Saddam Hussein. Herútboðið er miklu meira en þarf til að verja Saúdi-Arabíu gegn frekari útrás Írakshers.

Skákklukkan við Persaflóa gengur fremur á bandamenn en á Saddam Hussein. Harðstjórnarríki hafa tilhneigingu til að þola langt hafnbann. Bandamenn munu eiga erfitt með að grafa sig niður í sandinn til margra mánaða dvalar, meðan beðið er árangurs af hafnbanni.

Ef Saddam Hussein lætur her sinn hörfa frá Kúvæt, en heldur eftir olíusvæði og tveimur eyjum við botn flóans, hefur hann unnið sigur í Persaflóastríðinu. Hann mun þá blómstra í landi sínu og bíða betra færis, þegar hann verður kominn með kjarnorkuvopn í hendurnar.

Írak verður að greiða Kúvæt skaðabætur fyrir að hafa rænt og ruplað landið. Hussein verður að fara frá völdum í Írak. Eyðileggja verður allar stöðvar í Írak, þar sem undirbúin er smíði kjarnorkuvopna. Allt annað en þetta þrennt fæli í sér ósigur bandamanna.

Spurningin er, hvort bandamenn hafa herafla og samtakamátt til að ná sigri í Persaflóastríðinu. Um það eru deildar skoðanir. Saúdi-Arabía, Egyptaland og Tyrkland eru mikilvægustu bandamannaríkin meðal ríkja íslams. Enginn bilbugur virðist á þeim að sinni.

Óljóst er, hversu mikils virði eru yfirburðir bandamanna í lofti. Menn minnast, að í síðari heimsstyrjöldinni tókst Þjóðverjum ekki að sigra Breta með loftárásum og bandamönnum ekki heldur að kúga Þjóðverja til uppgjafar, þrátt fyrir gífurlegar loftárásir.

Menn minnast líka lofthernaðar Bandaríkjanna í Norður-Kóreu og Víetnam og Sovétríkjanna í Afganistan. Í engu þessara tilvika var hægt að nýta yfirburði í lofti til sigurs á landi. Þess vegna efast margir um, að hægt sé að vinna úr lofti sigur á Saddam Hussein.

Fylgjendur lofthernaðar segja, að ekki þurfi að koma til styrjaldar á landi, því að Saddam Hussein muni brotna, þegar herbækistöðvar landsins; flugvellir; hernaðarlegar verksmiðjur; aðsetur leyniþjónustu, hers og ríkisstjórnar verði snögglega eyðilögð úr lofti.

Einnig er bent á, að gísling Vesturlandabúa hafi ekki snúið vestrænu almenningsáliti gegn uppgjöri bandamanna við Saddam Hussein og Írak. Miklu frekar hafi gíslatakan sannfært almenning um, að ryðja þurfi Íraksforseta úr vegi með öllum þeim ráðum, sem tiltæk eru.

Bandamenn eru í þeirri einstæðu aðstöðu að nánast öll heimsbyggðin stendur með þeim. Gorbatsjov Sovét forseti hefur gefið Bush Bandaríkjaforseta grænt ljós. Saddam Hussein getur ekki vænt neins hernaðarlegs eða siðferðilegs stuðnings, sem máli skiptir.

Hussein er ekki eini harðstjórinn, sem undirbýr smíði kjarnavopna. Víðar í þriðja heiminum stefna harðstjórar óðfluga að slíkum vopnum. Hussein er ekki eini harðstjórinn, sem beitir efnavopnum. Herskáir harðstjórar munu víðar verða hættulegir í náinni framtíð.

Sigur bandamanna yfir Saddam Hussein, hrun ríkisstjórnar hans og eyðing vopnabúnaðar er eina leiðin til að sýna herskáum harðstjórum þriðja heimsins fram á, að þeir muni ekki komast upp með að safna sér kjarnorkuvopnum og efnavopnum til að kúga umhverfi sitt.

Jafntefli við Persaflóa væri sigur Husseins og freisting fyrir aðra. Þess vegna er óhugsandi, að hinn mikli liðsafnaður bandamanna leiði til annars en uppgjörs.

Jónas Kristjánsson

DV

Samskotabaukurinn

Greinar

Í fyrsta skipti í sögunni hafa Bandaríkin ekki efni á að halda úti stríði, sem þau hafa ákveðið að taka forustu í. Þau hafa beðið bandamenn sína í Evrópu, Japan og á Arabíuskaga að borga mikinn hluta af brúsanum af viðbúnaðinum gegn Saddam Hussein Íraksforseta.

Innheimtan hefur gengið vel, hraðast og mest hjá íslömsku ríkjunum. Nokkru hægar, en vel þó, hefur gengið í Evrópu. Meira að segja hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að verja 150 milljónum til afmarkaðra verkefna, sem ekki verða beinlínis talin til hernaðar.

Mikil fjárþörf og mikill stuðningur kalla á réttindi. “Enga skatta án atkvæðisréttar,” sögðu Bandaríkjamenn á sínum tíma, þegar þeir sögðu skilið við brezku krúnuna. Nú vilja bandamenn hafa afskipti af, hvernig yfirvofandi stríð við Saddam Hussein verði þróað.

Í viðbrögðum heimsbyggðarinnar við ofbeldi Saddams Hussein hefur komið í ljós, að Bandaríkin eru eina heimsveldi jarðarinnar. Þau eru eina ríkið, sem getur skundað og vill skunda á vettvang, þegar samfélag þjóðanna þarf á skjótum lögregluaðgerðum að halda.

Jafnframt hefur komið í ljós, að hin nýríka Vestur-Evrópa og hið nýríka Japan standa á brauðfótum um leið og viðskiptalífinu sleppir og alvara lífsins byrjar. Í ljós kom, að Evrópubandalagið var bara risavaxin sjoppa, sem gat ekki sýnt neinn áþreifanlegan mátt.

Hrun kalda stríðsins hefur gert Sovétríkin að eins konar yngri bróður Bandaríkjanna í friðargæzlu í heiminum. Bush Bandaríkjaforseti taldi sig þurfa að skreppa til Helsinki til að ráðfæra sig við Gorbatsjov Sovétforseta og segja honum, hvað hann hygðist fyrir.

Þetta er að mörgu leyti heppileg þróun. Pax Americana eða hinn bandaríski friður er tempraður samráðum við ýmsa aðra aðila, sem eru að taka þátt í að byggja upp á jörðinni heim mannréttinda, eins og þau eru skilin á Vesturlöndum og í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna.

Hins vegar er afar óheppilegt, að lögreglustjórinn á svæðinu sé eins staurblankur og komið hefur í ljós. Það stafar af algerlega óraunhæfri fjármálstefnu Bandaríkjastjórnar, sem tekin var upp í tíð Ronalds Reagan forseta og hefur síðan haldizt hjá arftaka hans.

Fjárhagur Bandaríkjanna er í rúst eftir stefnu lágra skatta og mikillar eyðslu. Fjárhagslega minnir staða Bandaríkjanna mjög á stöðu Spánar árið 1588, þegar flotinn ósigrandi lét úr höfn til að tugta sjóræningjann Francis Drake og gera innrás í land brezkra villimanna.

Í vetfangi hrundi Spánarveldi, sem um hálfrar annarrar aldar skeið hafði óumdeilanlega verið sjálft heimsveldið, með herskipaflota á öllum heimshöfum. Að baki heimsveldisins var óhófseyðsla, hruninn efnahagur og skert samkeppnisgeta í iðnaði og verzlun Spánar.

Þannig fór líka fyrir Sovétríkjunum, sem voru til skamms tíma hitt heimsveldið til mótvægis við Bandaríkin. Það þarf nefnilega rosatekjur til að standa undir því að vera heimsveldi, sem þarf að múta út og suður til að gæta hagsmuna sinna á margs konar vettvangi.

Rómarveldi grotnaði innan frá. Spánarveldi grotnaði innan frá. Sovétveldi grotnaði innan frá. Bandaríkjaveldi er að grotna innan frá. Út á við hélt það jöfnu í Kóreu, en tapaði hrapallega í Víetnam og Líbanon.

Til að bjarga Pax Americana verða ríkin, sem vilja taka þátt í að verja nútíma mannréttindi, að byggja upp varanlegt samstarf um hernað og fjármögnun hernaðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðizt á hrossaverzlun

Greinar

Félagi hrossabænda hefur á fimm árum tekizt að auka útflutning á reiðhrossum úr 300 á ári upp í rúmlega 1000 á ári, án þess að skattgreiðendur séu látnir borga neinar útflutningsbætur. Þannig hefur tekizt að gera arðbæra eina grein landbúnaðarins.

Árangurinn í útflutningi reiðhrossa byggist á, að hin dauða hönd ríkisins hefur hvergi komið nærri. Búnaðarfélag Íslands hefur ekki sinnt þessum útflutningi, en hefur hins vegar á öðrum vettvangi verið önnum kafið við að spilla fyrir einkarekstri í hrossarækt.

Búnaðarfélagið sér um matskerfi á kynbótahrossum, sem hefur lengi verið umdeilt, en aldrei eins hastarlega og á þessu sumri. Matskerfið endurspeglar illa söluverðmæti reiðhrossa og byggist raunar á einkar óljósum forsendum, ræðst mest af einkasmekk ráðunautanna.

Þegar nýr og sérvitur ráðunautur kom til skjalanna hjá Búnaðarfélaginu á þessu sumri, sprakk allt í loft upp. Frægasti búgarður íslenzkra hrossa í heiminum sendir ekki lengur rauðblesóttu Kirkjubæjarhrossin á sýningar, þar sem ráðunautar Búnaðarfélagsins dæma.

Frægasti ræktandi íslenzkra hrossa í heiminum, sem hefur sett Sauðárkrók á landakort heimsbyggðarinnar, neitaði á landsmóti hestamanna í sumar að taka við verðlaunum annars sætis fyrir hryssu, sem þegar er sannað, að er ein af meginhryssum þessarar aldar.

Fulltrúar hrossabænda úr öllum fjórðungum komu sér saman um að skipa nefnd til að óska eftir, að nýi ráðunauturinn yrði gerður óskaðlegur. Ekki er vitað annað en, að næstum allir hrossabændur, sem hafa náð góðum árangri í sölu á reiðhrossum, hafi stutt óskina.

Búnaðarfélagið hefur ákveðið að hafna þessu. Ennfremur hefur það tilkynnt, að það muni hefna sín á hrossabændum með því að setja hinn umdeilda ráðunaut yfir útflutning á hrossum. Þetta eru skýr svör um, að pupullinn eigi ekki að abbast upp á yfirvaldið.

Ráðherrann getur komið í veg fyrir, að hin dauða hönd Búnaðarfélagsins og sérvitri ráðunauturinn eyðileggi hinn arðbæra útflutning á hrossum. Hins vegar vekur ugg, að hann hefur nýlega lýst óánægju með svokallað skipulagsleysi í útflutningi reiðhrossa.

Sumir bændur í Þistilfirði og víðar, sem ekki hafa náð árangri í hrossarækt, munu vafalaust fagna, ef ráðherra og Búnaðarfélag koma upp útflutningskerfi, sem gerir öllum kleift að losna við hrossin sín á þann hátt, að skattgreiðendum verði falið að greiða mismuninn.

Ef ráðherra hjálpar Búnaðarfélaginu til að búa til félagsmálapakka utan um hrossarækt og hrossaútflutning, má reikna með, að hrossabændur gefist upp og kyssi vöndinn. Til þess er leikur Búnaðarfélagsins gerður. Kerfið telur óeðlilegt, að menn séu með múður.

Búnaðarfélagið er ríkisrekin stofnun, sem er starfrækt með svipuðu hugarfari og ýmis ráðuneyti. Þetta hugarfar opinberra smákónga hefur lýst sér í viðbrögðum hér og þar í kerfinu við bréfum frá Umboðsmanni alþingis, svo sem rakið hefur verið hér í blaðinu.

Þegar pupullinn kom til yfirvaldsins fyrr á öldum, var látið nægja að salta bænarskrárnar. Nú sparkar yfirvaldið í pupulinn. Ofbeldishneigð hefur bætzt við valdhrokann. Þess vegna hefnir Búnaðarfélagið sín með því að siga hinum umdeilda ráðunauti á útflutninginn.

Meðan Austur-Evrópa er að taka upp vestræn markaðslögmál eru íslenzkir kerfiskarlar að reyna að taka upp aflagða siði austræna í útflutningsverzlun hrossa.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðherralýðræði

Greinar

Að fyrirmælum landbúnaðarráðherra er ríkiskerfið enn að hefna sín á starfsmönnunum, sem sögðu upp stöðum sínum við rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá. Þrír starfsmenn voru teknir af launaskrá 1. september, þótt uppsögnin hafi miðast við 1. október.

Að sögn fjármálastjóra skógræktarinnar var farið svona með þungaða konu í þessum hópi, af því að frá henni vantaði “nýtt” vottorð um þungun hennar. Hann sagði, að þessi mál yrðu leiðrétt síðar, en fólkið yrði að biðja skrifstofuna um að fá mál sín leiðrétt.

Áður hafði ráðherra látið Ríkisendurskoðun leita saumnálarleit í heystakki að yfirsjónum fyrrverandi forstöðumanns rannsóknarstöðvarinnar. Úr því kom nánast ekki neitt, en ráðherra sá samt ástæðu til að reyna að koma spillingarorði á forstöðumanninn.

Miklu nær væri að fá Ríkisendurskoðun til að amast við spillingu ráðherranna, sem láta til dæmis ráðherrabílstjóra bíða í ráðherrabílum heilu kvöldin fyrir utan hús, þar sem ráðaherrafrúr eru í gestaboði. Spilling ráðherranna fer ekki leynt, heldur er henni hampað.

Á laugardaginn var fjallað hér í blaðinu um hrokann, sem ráðherrar og ráðuneytisstjórar sýna athugasemdum frá Umboðsmanni alþingis. Oddamenn framkvæmdavaldsins svara seint og ekki bréfum hans og vísa til pantaðra álitsgerða innan úr ráðuneytunum.

Athyglisvert er, að harðast ganga fram í þessu ráðherrar Alþýðubandalagsins. Þeir virðast telja ráðherradóm hliðstæðan völdum smákónga í Afríku. Til dæmis hefur fjármálaráðherra kvartað yfir umsvifum umbans og reynt að fá lækkaðar fjárveitingar til embættis hans.

Valdshyggjumenn eiga óeðlilega greiða leið til valda í stjórnmálum hér á landi. Þetta á við um alla stjórn málaflokka, þótt valdbeitingarstefna komi skýrast fram hjá ráðherrum Alþýðubandalagsins. Sjálfstæðisflokkurinn er sagður bíða eftir “sterkum manni” á toppinn.

Hjá vestrænum lýðræðisþjóðum felst lýðræði ekki aðeins í, að kosið sé á nokkurra ára fresti, heldur er vald til framkvæmda takmarkað á ýmsan hátt, einkum í lögum um meðferð þess og um dreifingu ákvarðana á fleiri staði. Við viljum hins vegar “sterka menn”. Meðan Austur-Evrópa er að varpa frá sér miðstýringu úr ráðuneytum erum við að efla miðstýringu. Gott dæmi er útflutningur á ferskum fiski, sem er skipulagður og bannaður að ofan. Annað dæmi er, að lög frá Alþingi fela einkum í sér “heimildir” til ráðherra.

Ef einhver vandamál koma upp hér á landi, finnst fólki eðlilegast, að þeim sé vísað til “sterkra manna”, það er að segja til ráðherra. Mörgu fólki virðist finnast það þolanlegt, þótt þetta sérkennilega ráðherralýðræði leiði til ofstjórnar, hroka og ofbeldisaðgerða.

Ráðherralýðræðinu fylgir ofstjórn á borð við Aflamiðlun; hroki á borð við fyrirlitninguna á Umboðsmanni alþingis; og ofbeldisaðgerðir eins og gagnvart forstöðumanni og starfsfólki stöðvarinnar á Mógilsá. Þetta er frumstæði strengurinn í þjóðarsálinni.

Embættismannahrokinn á Íslandi minnir á átjándu öldina og ráðherraofbeldið á þriðja heiminn. Hvort tveggja er okkur til mikils trafala í vestrænum nútíma, svo sem þjóðir og stjórnmálamenn Austur-Evrópu hafa fyrir sitt leyti komizt að raun um og eru að afnema.

Vonandi leiðir hefndarþorsti landbúnaðarráðherra gagnvart Mógilsárfólki til, að Íslendingar átta sig betur á, að ráðherralýðræðið er úrelt og hættulegt fyrirbæri.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýr happdrættismiði

Greinar

Kenningin um framtíðargróða Íslendinga af álveri á Keilisnesi byggist á spá um, að álverð verði framvegis hærra en það hefur nokkru sinni verið, að árinu 1988 undanskildu. Í spánni er reiknað með, að heimsmarkaðsverð áls verði framvegis 1900 dollarar á tonn.

Íslenzk stjórnvöld hafa oft stuðzt við spár af slíku tagi. Einu sinni voru bændur hvattir með lánum og styrkjum til að fara út í refarækt, af því að spár um heimsmarkaðsverð voru svo góðar. Einu sinni voru at hafnamenn af sömu ástæðum hvattir út í laxeldi.

Landsvirkjun hefur fengið sér spána hjá James F. King. Forsætisráðherra hefur að vísu sagt DV, að spámaðurinn hafi til þessa ekki verið heppinn í spádómum sínum. Og Gunnar S. Andrésson við Cornell-háskóla hefur skrifað í DV, að eftirspurn áls muni minnka.

Aðrir eru þeirrar skoðunar, að verð muni haldast hátt. Financial Times telur, að eftirspurnin muni aukast um 2% á ári í Evrópu næstu fimm árin. Þannig sýnist sitt hverjum. En hin raunverulega niðurstaða er, að verð áls hefur verið, er og verður mjög ótryggt.

Samningur íslenzka ríkisins og Atlantals gerir á þessu stigi ráð fyrir, að orkuverð til álversins ráðist af heimsmarkaðsverði á áli, ekki innan ákveðins ramma eins og í samningnum við Ísal, heldur upp úr þaki og niður úr gólfi eftir ástandi á heimsmarkaði hverju sinni.

Ef spámaður Landsvirkjunar hefur örlítið rangt fyrir sér, verður dúndurtap á sölu orku til Atlantals. Hann þarf ekki að hafa eins rangt fyrir sér og þeir, sem á sín um tíma spáðu um verð á refaskinnum og eldislaxi. Honum dugar að skeika um 10% til að setja málið í tap.

Svo miklar sveiflur hafa hingað til verið í verði áls á heimsmarkaði, að svona nákvæm spá, sem nánast engu má skeika, jafngildir því, að Ísland taki þátt í happdrætti, þar sem miðinn kostar 42 milljarða króna, sem samningamenn Íslands ætla ekki að borga sjálfir.

Bjartsýnismenn hafa sér til huggunar línurit um sveiflur á verði áls. Þetta línurit sýnir, að í stórum drátt um og að gleymdum sveiflum hefur verðið farið hækkandi. Það hefur þrefaldazt úr um það bil 600 dollurum á tonnið árið 1971 í 1800 dollara á tonnið árið 1990.

Hugsanlegt er, að vinningur fáist úr þessu glannalega happdrætti. En það er afar sérkennilegur rekstur á lítilli þjóðarskútu að keyra upp svona stórt happdrætti. Í skynsamlegum og varfærnislegum rekstri ábyrgra manna væri frekar reynt að setja þak á tap og gróða.

Núverandi samningamenn Íslands verða löngu hættir afskiptum af happdrættum, þegar hinn ímyndaði gróði kemur í ljós. Ætlunin er að veita Atlantal mikinn afslátt af orkuverði fyrstu tíu árin. Þann tíma er næstum öruggt, að orkusalan verður rekin með miklu tapi.

Ef ætlunin er að múta Eyfirðingum og annarri landsbyggð til að sætta sig við, að álverið rísi suður með sjó, verða peningar til slíks tæpast aflögu fyrr en árið 2006, ef standast hinar bjartsýnu spár um verð áls og orku. Ef greiða á mútur strax, verður tapið meira.

Dæmið er svo tæpt, að umhverfisráðherra er farinn að gefa í skyn, að álverinu verði sleppt við að setja upp vothreinsibúnað. Umhverfisráðherrann hefur raunar aldrei haft neinn áhuga á umhverfismálum öðru vísi en sem einhverjum óþægindum í sambandi við iðnað.

Eins og dæmið lítur út þessa dagana fer að verða rétt af þjóðinni að leggjast á bæn til að óska þess, að álverið verði fremur reist í Kanada en á Keilisnesi.

Jónas Kristjánsson

DV