Greinar

Umbinn í ruslafötunni

Greinar

Framkvæmdavaldið í landinu telur sig vita betur en umboðsmaður alþingis um, hvort það hafi farið út fyrir lög í stjórnsýslunni. Í flestum tilvikum ákveða ráð herrar og ráðuneytisstjórar að taka ekki mark á niðurstöðum umboðsmannsins og svara ekki bréfum hans.

Að þessu leyti er íslenzkt framkvæmdavald öðruvísi en framkvæmdavald á Norðurlöndum, þaðan sem upprunnið er embætti umboðsmanns alþingis. Komið hefur fram, að þar þykir sjálfsagt að fara eftir niðurstöðum umboðsmanns, nema knýjandi nauðsyn beri til annars.

“Það fer alveg eftir því, hvers eðlis álitið er, hvað við gerum. Það geta verið jafn margar ástæður til mismunandi viðbragða og fjöldi álita. Við skoðum þau alltaf og reynum að bregðast við eins og við á og eftir því, hvað réttast er á hverjum tíma,” sagði ráðuneytisstjóri.

Í þessum hrokafullu ummælum embættismannsins felst, að hann telur sig vita, hvað er “réttast”. Hann er æðsti dómstóll um eigin gerðir og þarf ekkert á stofnunum alþingis að halda. Þessi ummæli segja raunar allt, sem þarf að segja um ástand íslenzkrar stjórnsýslu.

Hér á landi umhverfist ungmenni við að verða að hrossaræktaráðunauti. Hann temur sér á svipstundu framkomu átjándu aldar valdsmanns, sem talar niður til pupulsins. Slíkt virðist loða við íslenzka stjórnkerfið, þótt menn hafi losnað við það í nágrannalöndunum.

Enginn hefur dregið í efa hæfni umboðsmanns alþingis eða vinnubrögð hans. Sérstaklega hefur verið tekið fram, að hann starfi á líkan hátt og starfsbræður hans á Norðurlöndum. Menn eru í stórum dráttum sammála um, að hann sé einn færasti lögfræðingur landsins.

Samt er niðurstöðum hans í bezta falli svarað á þann hátt, að ráðherra og ráðuneytisstjóri panta andstætt álit frá lögfræðistrák viðkomandi ráðuneytis og er það látið gilda. Enda litu embættismenn átjándu aldar svo á, að þeir einir hefðu alltaf rétt fyrir sér.

Verst hefur framganga valdshyggjuráðherranna fjögurra verið. Það eru fjármálaráðherra, landbúnaðarráðherra, menntaráðherra og viðskiptaráðherra. Þeir hafa svo mjög hunzað niðurstöður umboðsmannsins, að ekki verður hjá því komizt að kalla það skipulega andstöðu.

Fjármálaráðherra hefur lagt króka á leið sína til að reyna að fá dregið úr starfsemi umboðsmannsins með því að fá lækkaðar fjárveitingar til embættis hans. Í þingræðu útskýrði ráðherrann þetta með því, að of mikill tími færi í að svara bréfum umboðsmannsins.

Landbúnaðarráðuneytið hefur ekkert mark tekið á því, þótt umboðsmaður álíti búfjártalningu þess hafa verið ólöglega. Ráðuneytisstjórinn, sem hefur síðan misnotað gögn úr talningunni í óþökk bænda, segir bara, að talningin sé þegar “gerður hlutur”.

Viðskiptaráðherra hefur tekið undir þá skoðun Seðlabankans, að umboðsmaðurinn hafi rangt fyrir sér, þegar hann sagði meðferð bankans á máli Ávöxtunar hafa verið vítaverða. Ráðherrann tók sérstaklega fram, að umboðsmaðurinn væri alls enginn dómari.

Menntaráðherra hefur nú í tæpan mánuð legið á þeirri niðurstöðu umboðsmanns, að ólöglegt sé að taka efnisog bókagjöld af nemendum í skyldunámi. Ráðherrann hefur komið fram í sjónvarpi og sagzt hafa álit annarra lögfræðinga fyrir því, að gjaldheimtan sé í lagi.

Í andstöðunni við umba fer saman pólitísk ofbeldishneigð nokkurra ráðamikilla stjórnmálamanna og almennt átjándu aldar hugarfar æðstu embættismanna.

Jónas Kristjánsson

DV

“Ekki fór ég”

Greinar

Þegar venjuleg fyrirtæki lenda í óvæntum ágangi viðskiptavina, hlaupa allir starfsmenn upp til handa og fóta. Bókarinn leggur frá sér kladdann og hleypur í afgreiðsluna. Allir reyna, þótt þeir hafi sérhæft sig í öðru, að hjálpast að við að láta viðskiptavininn ekki bíða.

Leiðarahöfundur minnist að hafa horft á þekktan skókaupmann hlaupa haltan um himnastiga á lagernum til að sjá um, að viðskiptavinir fengju sitt í grænum hvelli. Hjá ríkinu segir forstjórinn: “Ekki fór ég að flytja mig í þetta,” þegar viðskiptavini ber óvænt að garði.

Viðhorf forstjóra Húsnæðisstofnunar er dæmigert fyrir ríkið og stofnanir þess. Sjálfur var hann of fínn til að taka til hendinni í húsbréfadeild og taldi suma aðra starfsmenn líka of fína: “Það er nú erfitt að flytja arkitekt í þetta,” sagði hann til frekari útskýringar.

Álagið á Húsnæðisstofnun ríkisins vegna tilkomu húsbréfa var ekki leyst með því að færa fólk um tíma milli deilda. Samt hlýtur að hafa minnkað álagið á öðrum deildum stofnunarinnar, úr því að viðskiptavinir flytja sig af hefðbundinni lánaleið yfir í húsbréfin.

Álagið á Húsnæðisstofnun ríkisins var ekki leyst með því að semja við starfsfólk um, að það frestaði sumarfríum fram yfir versta álagstímann. Sumarfrí ganga fyrir öðru hjá stofnunum hins opinbera, því að innra markmið stofnana er annað en þjónusta við almenning.

Ríkisstofnanir eru í rauninni settar á stofn til að gefa helztu gæludýrum stjórnmálaflokkanna kost á fínum stöðum forstjóra og deildarstjóra. Þær eru settar á stofn til að veita lægra settum, en þóknanlegum letingjum aðstöðu til að fá mánaðarleg laun, sumarfrí og þægindi.

Á margan hátt var unnt að mæta hinu skyndilega álagi vegna húsbréfanna. Í síðari hluta maí varð ljóst, að álagið yrði mjög mikið. Þá var unnt að grípa til samninga við bankana um, að þeir tækju strax að sér að afgreiða umsóknir um húsbréf, svo sem ráð er fyrir gert.

Ráðamenn í einkafyrirtæki hefðu fórnað nokkrum kvöldum og helgum í vor til að ná skyndilegum samningum við annað fyrirtæki um að taka að sér álagið. En hjá ríkinu gerast hlutirnir ógnarlega hægt, af því að fínu mennirnir nenna tæpast að taka til hendinni.

Húsbréfavandinn var svo magnaður með óþarflega bjartsýnum fullyrðingum húsbréfadeildar um, hversu mikinn tíma mundi taka að afgreiða mál. Fólk tók mark á þessum yfirlýsingum og lenti svo í vandræðum, þegar deildin var langt frá því að standa við gefin loforð.

Húsnæðisstofnunin er ekkert verri en aðrar stofnanir. Hún hefur bara lent í endurteknum kollsteypum á húsnæðislánakerfinu og hefur því vakið meiri athygli en margar aðrar. Áður fyrr var Bifreiðaeftirlitið fræg vandræðastofnun og Tollstjóraskrifstofan er það enn.

Húsnæðisstofnun er heldur ekki einni um að kenna, þótt hún hafi þjónað illa viðskiptavinum húsbréfadeildar. Ráðherra og ráðuneyti eiga að vita, að undirbúa þarf framkvæmd málsins, þegar lagt er í hverja kollsteypuna á fætur annarri í húsnæðiskerfi ríkisins.

Húsnæðisstofnun hefur að undanförnu tekið við 800 símtölum af um 6000 hringingum um húsbréf á dag eða 13% hringinganna. Augljóst er, að þetta hefur valdið húsbréfafólki óskaplegum kostnaði og tímasóun, auk hins hreina fjárhags, tafa- og húsnæðisvanda þess.

Athyglisvert og lærdómsríkt er, að málsaðilar í Húsnæðisstofnun virðast gera sér litla grein fyrir, hvað sé athugavert við meðferð stofnunarinnar á málinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Mannaskipti, ekki þjóðnýting.

Greinar

Ekkert bendir til, að opinberir embættismenn hefðu getað, gætu nú eða mundu geta rekið Flugleiðir skár en núverandi stjórnendur fyrirtækisins. Það er ekki aðalsmerki embættismanna að vera fljótir að átta sig á nýjum aðstæðum.

Aukning hlutafjár ríkisins í Flugleiðum úr 6% í 20% mun vafalaust leiða til aukinna opinberra áhrifa á reksturinn, síður en svo til góðs. Það væri hættulegt skref í átt til þjóðnýtingar, banabita allrar rekstrarhagkvæmni.

Í stað hugmyndarinnar um aukningu hlutafjár ríkisins ætti ríkisstjórnin miklu frekar að krefjast skipta á stjórnendum Flugleiða. Hún ætti að stuðla að því að fá þar inn úr atvinnulífinu menn, sem starfsfólk og skattgreiðendur treysta.

Núverandi stjórnendur hafa að vísu ekki staðið sig eins illa og embættismenn mundu hafa gert. En þeir hafa þó staðið sig ákaflega illa síðustu árin. Þeir hafa stundað valdatafl í stað þess að sjá um rekstur fyrirtækisins.

Að minnsta kosti fimm ár eru síðan stjórnendur Flugleiða áttu að vera búnir að sjá, að samtök olíuframleiðsluríkja hefðu tögl og hagldir á olíumarkaðnum, – að eldsneyti mundi halda áfram að hækka ört á næstu árum.

Um svipað leyti hefði þeim átt að vera ljóst, að nauðsynleg tilfærsla eldsneytisverðs yfir í farmiðaverð mundi hafa áhrif á farþegafjöldann. Þá þegar var nauðsynlegt að byrja að haga seglum eftir vindi, fyrir tíð Carters og Lakers.

Ef stjórnendur Flugleiða hefðu þá þegar hafið samdrátt með því að hætta nýjum ráðningum og grenna bákn sitt í smáum stíl, væri nú ekki þörf á fjöldauppsögnum og hætta á þjóðnýtingu. Þá hefði aðlögunin tekið þægilega langan tíma.

Að minnsta kosti hálft þriðja ár er síðan stjórnendur Flugleiða áttu að vera búnir að sjá, að Carter Bandaríkjaforseti og Laker flugforstjóri voru menn, sem taka þurfti mark á. Sem fagmenn áttu þeir raunar að vita þetta mun fyrr.

Þegar Carter flautaði til verðstríðs í Bandaríkjunum og á Norður-Atlantshafinu áttu stjórnendur að sjá útbreidda sæng Loftleiðaævintýrsins. Þá þegar var ljóst, að nokkrir stórir mundu lifa af þennan slag upp á líf og dauða.

Hin hrikalega áhætta komst í opinbera umræðu hér á landi þegar árið 1978. Þá sögðu stjórnendur Flugleiða, að ástandið væri tímabundið og ekki alvarlegra en svo, að þeir réðu við það. Þetta var auðvitað tómt rugl.

Það var ekki fyrr en á miðju ári 1979, að farið var að fækka starfsliði og þá á þann einstaklega klaufalega hátt, sem æ síðan hefur einkennt Flugleiðir. Þar kom til skjalanna hinn svonefndi nýi stjórnunarstíll.

Svo var það ekki fyrr en á miðju þessu ári, að farið var að draga verulega úr framboði sæta á flugleiðum, sem lengi höfðu verið rekna með roknatapi, þótt hvert sæti væri skipað. Þetta heitir að fljóta sofandi að feigðarósi.

Á þessum tíma myndaðist tap, sem sennilega nemur rúmum tíu milljörðum króna. Þetta tap hefði ekki myndazt, ef stjórnendur Flugleiða hefðu hagað seglum eftir vindi síðustu fimm árin. Tapið er þeim að kenna, en ekki starfsfólki og enn síður gagnrýnendum úti í bæ.

Íslendingum er hlýtt til Flugleiða og vilja, að þær komist yfir hrunið. Það gerist bezt með mannaskiptum, svo framarlega sem embættismennska og þjóðnýting svífur ekki yfir vötnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fljótfærni í flugi.

Greinar

Ríkisstjórn Íslands hefur fyllzt ótrúlegri gjafmildi gagnvart útlendingum. Hún ætlar að verja 4,5 milljörðum króna á þremur árum til að efla samgöngur milli Evrópu og Ameríku, en ekki milli Íslands og útlanda.

Fyrir sömu upphæð gæti ríkisstjórnin gefið nærri 20.000 Íslendingum vetrarfarseðla til Bandaríkjanna, fram og til baka. Það samsvarar rúmlega 200 sætum á viku þá sjö mánuði á ári, sem vetrarfargjöld gilda.

Þetta dæmi sýnir, að ríkisstjórnin getur á ýmsan hátt stuðlað að flugsamgöngum við útlönd og að atvinnu í flugmálum, ef hún á 4,5 milljarða handbæra. Luxemborgarflugið er engan veginn eina hugsanlega haldreipið.

Flug milli Luxemborgar og Bandaríkjanna verður ekki rekið af neinu viti án breiðþotu, sem kemst alla leið í einum áfanga. Hvar sitja þá eftir hagsmunir Íslendinga á skeri þeirra nyrzt í Atlantshafinu?

Steingrímur Hermannsson hefur þar á ofan sagt, að Boeing 747 sé betri en Douglas DC 10, þar sem hún nýtist líka til vöruflutninga. Hann er kominn svo á kaf í þjóðnýtinguna, að hann er farinn að velja milli breiðþota.

Steingrímur hefur rétt mat á flugvélategundum, raunar mun betra en hrakfallabálkar Flugleiða. En ummæli hans sýna þó, að breiðþotur eru í sviðsljósi björgunaraðgerðanna í Luxembourg þessa síðustu samningadaga.

Hvernig dettur mönnum líka í hug, að Luxemborgarar fáist til að láta af hendi sína 4,5 milljarða króna, nema notaðar séu hagkvæmustu flugvélarnar, breiðþotur? Og þær tapa stórfé á króknum til Íslands.

Ríkisstjórnin má ekki einblína um of á peninga Luxemborgara. Freistingar í þá átt geta leitt til lausna, sem eru meira en helmingi dýrari en þær, sem fundnar yrðu án þátttöku Luxemborgara og án Luxemborgarflugs.

Með framtaki sínu er ríkisstjórnin líka að þvinga upp á Flugleiðir einmitt því flugi, sem fyrirtækið vildi helzt leggja niður. Þar með flytur ríkisstjórnin ábyrgðina til sín. Hún býr til Iandbúnaðarkerfi í flugi.

Um leið hyggst ríkisstjórnin auka hlut sinn í Flugleiðum úr 6% í 20%. Hinni efnislegu þjóðnýtingu fylgir þannig fyrsta skrefið í átt til formlegrar þjóð- nýtingar. Allt er þetta í meira lagi vafasamt.

Auðvitað er rétt að reyna að halda í skefjum samdrætti í atvinnu að flugmálum. Þetta er framtíðargrein, en ekki fortíðargrein eins og landbúnaðurinn. En 4,5 milljarða eða 20.000 farseðla blóðgjöf getur verið í ýmsu formi.

Aðalatriðið er, að Íslendingar, en ekki útlendingar fái þessa 20.000 farseðla. Blóðgjöfin verður öll að fara í að stuðla að samgöngum Íslands við umheiminn, einkum veikustu samgöngunum, við Bandaríkin og Vesturálfu.

Ríkisstjórnin gæti til dæmis niðurgreitt farseðla til Bandaríkjanna. Hún gæti gefið flugþjónustu sína. Hún gæti leyft fleirum að spreyta sig á flugi vestur um haf. Einokun er ekki sjálfsagt náttúrulögmál.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hlaupa í fang Luxemborgara er fljótfærnisleg. Sú aðferð er ef til vill betri en engin, en aðeins ef til vill. Ríkisstjórnin átti að gefa sér tíma til að hugleiða fleiri leiðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestrænt Rússland

Greinar

Stefna markaðsbúskapar er hársbreidd frá sigri í Sovétríkjunum. Gorbatsjov forseti getur tæpast lengur hallað sér að Ryzhkov forsætisráðherra, sem hefur ár angurslaust leitað að millileið milli vestræns hagkerfis og þess hagkerfis, sem ríkt hefur í Sovétríkjunum.

Jeltsín Rússlandsforseti stjórnar ferðinni. Hann hefur safnað að sér sveit efnahagsráðgjafa, sem hefur gert svonefnda 500 daga áætlun um að koma á vestrænum markaðsbúskap á hálfu öðru ári. Forustumaður hópsins er Shatalín, sem einnig nýtur trausts Gorbatsjovs.

Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir, að á fyrstu 100 dögunum verði ráðuneytin gömlu lögð niður, sala ríkiseigna hefjist til hlutafélaga og að fjárveitingar til útlendra skjólstæðinga á borð við Kastró lækki um 76%, til hersins um 10% og til leyniþjónustunnar um 20%.

Síðan á byltingin að halda áfram stig af stigi, unz vestrænt markaðskerfi verði komið eftir hálft annað ár. Ef Sovétstjórnin fellst ekki á þetta, segist Jeltsín gera þetta í Rússlandi einu. Ráðamenn ýmissa annarra ríkja sovétsambandsins hyggjast feta í fótspor Jeltsíns.

Gorbatsjov situr á girðingunni. Annars vegar hefur hann lýst stuðningi við 500 daga áætlunina. Hins vegar hefur hann lýst stuðningi við Ryzhkov forsætisráð herra, sem hefur tekið við af Ligatsjev sem forustumaður þeirra, er vilja vernda völd flokksins.

Í rauninni er Gorbatsjov áhrifalítill um gang mála. Fólkið í landinu styður Jeltsín, þrátt fyrir ótta þess við óvissu hins frjálsa markaðar. Þótt þrjár kynslóðir þekki ekki annað en öryggi miðstýringar og samyrkju, virðist þorri manna styðja vestræna byltingarstefnu Jeltsíns.

Gorbatsjov er óvinsæll heima fyrir, en er í senn vinsæll á Vesturlöndum og eina haldreipi hers og leyniþjónustu Sovétríkjanna. Hann er nógu greindur til að sjá, að bylting hers og leyniþjónustu leysir engan vanda. Hann veit, að hér eftir verður erfitt að snúa til baka.

Það bezta, sem Gorbatsjov getur gert, er að reyna að ríða ölduna til vesturs. Hann getur notað stöðu sína til að reyna að koma í veg fyrir gagnbyltingu hers og leyniþjónustu og reynt um leið að afla sér vinsælda heima fyrir með því að halla sér að Jeltsín og hagfræðingunum.

Styrkur Jeltsíns felst annars vegar í persónuvinsældum hans og hins vegar í yfirþyrmandi stærð Rússlands í ríkjasambandinu. Eftir sigur Jeltsíns í Rússlandi er orðið næsta ólíklegt, að her og leyniþjónusta Sovétríkjanna leggi til atlögu gegn honum og fjölmennasta ríkinu.

Að vísu getur allt gerzt, þegar heimsveldi hrynur, svo sem nú er að gerast í Sovétríkjunum. Her og leynilögregla geta gripið til örþrifaráða, ef þessar valdastofnanir sjá sína sæng útbreidda. Það er orðið meginhlutverk Gorbatsjovs að koma í veg fyrir slíkt stórslys.

Ekki bætir úr skák, að skortur er á brauði í Sovétríkjunum, þótt lokið sé sæmilegri kornuppskeru. Í margvíslegum hörmungum fólks á liðnum áratugum hefur oftast verið hægt að fá brauð. Enginn getur útskýrt, hvers vegna brauð kemst nú ekki til skila í ríkisbúðirnar.

Einhverjum verður kennt um brauðskortinn. Ef það verða Jeltsín og hagfræðingarnir, getur komið bakslag í byltinguna. Ef það verða Ryzhkov og embættismennirnir, þora Gorbatsjov, her og leynilögregla ekki annað en að hallast á sveif með Jeltsín og hagfræðingunum.

Líklega getur fátt komið í veg fyrir, að Rússland, Eystrasaltsríkin og ýmis fleiri Sovétríki stökkvi með Austur-Evrópu inn í vestrænan nútíma á 500 dögum.

Jónas Kristjánsson

DV

12 milljónir á bónda á ári.

Greinar

Kvótakerfi og fóðurbætisskattur eru ekki beztu leiðirnar til samdráttar í framleiðslu mjólkurvöru og dilkakjöts. Þær koma of mikið niður á launum bænda án þess að hafa nógu mikil áhrif á framleiðslumagnið.

Bezt er að byrja á að stöðva stuðning við fjárfestingu í sauðfjár- og nautgripabúskap. Þar með er höggvið að rótum meinsins, áratuga offjárfestingu í landbúnaði. Samt heggur þessi leið ekki að launum bænda.

Fjárfesting í landbúnaði nemur nú 16 milljörðum króna eða nærri 4 milljónum króna á hvern bónda. Þessi fjárfesting er að verulegu leyti í sauðfjár- og nautgripabúskap. Og hún er að verulegu leyti á kostnað ríkis og opinberra sjóða.

Sparnað ríkis og sjóða af þessari aðgerð má nota til að hvetja bændur til að draga saman seglin eða bregða búi. Það má gera mikið fyrir upphæðir, sem nema árlega milljónum króna á hvern bónda í landinu.

Hluta upphæðarinnar má nota til að borga bændum fyrir að fækka búfé. Að baki þeirrar leiðar liggur hin ömurlega staðreynd, að þjóðfélagið sparar á að borga bændum fyrir að gera ekki neitt til að þurfa ekki að standa undir framleiðslunni.

Annan hluta má nota til að kaupa jarðir bænda og taka þær úr ábúð. Væru þær þá væntanlega ekki keyptar lægra verði en svo, að það dygði fyrir íbúð í þéttbýli. Einnig má styrkja bændur til náms í atvinnugreinum þéttbýlis.

Þriðja hlutann má nota til að styðja bændur til að skipta um búgreinar, taka upp greinar, sem eru samkeppnishæfar án styrkja, útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna og innflutningsbanns. Þar eru fiskirækt og ylrækt ofarlega á baugi.

Þetta fyrsta skref mundi á nokkrum árum leiða til lækkunar og síðan hvarfs útflutningsuppbóta vegna minni framleiðslu á dilkakjöti, smjöri, ostum og mjólkurdufti. Sparnaðinn má nota til að flýta þróuninni.

Útflutningsuppbæturnar eru nú 8,5 milljarðar á ári eða um 2 milljónir króna á hvern bónda. Þetta fé má nota til að auka greiðslur til fækkunar bústofns, til kaupa á jörðum, til námsstyrkja bænda og til nýrra búgreina.

Eins má nota þessar fúlgur til að reisa á opinberan kostnað iðngarða í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa vinnslu landbúnaðarafurða. Húsnæðisskortur stendur iðnaði víðast fyrir þrifum. Iðngarðar eru lykill að smáiðnaði.

Iðngarðar um land allt mundu draga til sín starfskrafta úr landbúnaði og vinnslu landbúnaðarafurða. Þeir mundu milda þá röskun, sem fylgir samdrætti í framleiðslu og vinnslu dilkakjöts og mjólkurvöru.

Þegar framleiðslan er komin niður fyrir innanlandsneyzlu, er kominn tími til þriðja skrefsins, afnáms niðurgreiðsla og innflutningsbanns landbúnaðarafurða í áföngum. Það er stærsta og merkasta skrefið.

Innflutningur hræódýrra landbúnaðarafurða á heimsmarkaðsverði frá Efnahagsbandalaginu og Bandaríkjunum mun gera stjórnvöldum kleift að halda niðri vöruverði og vísitölu, þótt niðurgreiðslur minnki og hverfi.

Með afnámi niðurgreiðsla sparar ríkið til viðbótar 25 milljarða króna eða 6 milljónir á hvern bónda. Þá verður líka framleiðsla dilkakjöts og mjólkurvöru komin niður í þann helming eða þriðjung, sem raunverulegur markaður er fyrir hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Látum markaðinn dæma.

Greinar

Á Íslandi þurfum við ekki meiri landbúnað en svo, að hann standist þríþætt afnám niðurgreiðslna, útflutningsuppbóta og innflutningsbanns. Við þurfum aðeins þann landbúnað, sem hentar frjálsum innanlandsmarkaði.

Við getum spáð í þörfina með því að gera okkur í hugarlund, að innlendar landbúnaðarvörur væru ekki niðurgreiddar og að frjáls væri innflutningur á erlendum landbúnaðarafurðum. Það er eini rétti mælikvarðinn.

Við mundum draga verulega úr dilkakjötsneyzlu við eðlilega verðmyndun milli þess annars vegar og fisks, kjúklinga og svínakjöts hins vegar. Við mundum ekki borða nema helming eða þriðjung núverandi framleiðslu.

Við þurfum semsagt ekki nema helming eða þriðjung núverandi sauðfjár í landinu. Um leið mundum við stöðva ellefu alda rányrkju landsins. Við mundum í fyrsta sinn snúa vörn í sókn við að klæða landið.

Mjólkurneyzla mundi minnka nokkuð við eðlilegt verðsamræmi hennar og annarra drykkja, svo sem ávaxtasafa. Innflutt smjör og innfluttir ostar mundu verða alls ráðandi á markaðinum, því að innlendu vörurnar eru margfalt dýrari.

Sveiflur í framleiðslumagni mjólkur mundu jafnast með sveiflum í verði á markaðinum, alveg eins og gerist nú í grænmetinu. Og framleiðslan mundi flytjast nær þéttbýli til bættrar samkeppnisaðstöðu gegn innfluttri mjólk.

Offramleiðsla mjólkurvara er um þessar mundir svipuð og offramleiðsla dilkakjöts. Því má spá, að raunverulega sé ekki þörf fyrir nema helming eða þriðjung af núverandi fjölda nautgripa í mjólkurframleiðslu.

Búast má við, að eggjaframleiðsla geti staðizt erlenda samkeppni, ef hún er stunduð við þéttbýli eða í nágrenni þess. Þar að auki mundi eggjaneyzla njóta góðs af brottfalli niðurgreiðslna annarra afurða.

Afnám niðurgreiðslna mundi í enn meira mæli flytja kjötneyzlu yfir til kjúklinga og svínakjöts. Það gæti eflt þann landbúnað, ef hann svo aftur á móti gæti staðizt samkeppni við innflutt svínakjöt og kjúklinga.

Íslenzk ylrækt virðist að mörgu leyti vera orðin samkeppnishæf gegn innflutningi. Auk þess býður hún upp á mun betri vörur en þær, sem inn hafa verið fluttar. Ylrækt fyrir innanlandsmarkað ætti að vera unnt að auka.

Ræktun loðdýra er hafin hér á landi og hefur komizt í gegnum ýmsa byrjunarerfiðleika. Byrjað var á minknum og nú er refurinn kominn til skjalanna. Sennilega má enn auka fjölbreytni og magn loðdýraræktar hér á landi.

Mestir möguleikar eru þó í ýmiss konar fiskeldi, einkum í nágrenni sjávar og jarðhita. Slík starfsemi er enn á byrjunarstigi hjá okkur, en gæti orðið glæsileg atvinnugrein, ef vel verður á spilunum haldið.

Í stórum dráttum eru landbúnaðarvandamál Íslendinga eingöngu í framleiðslu dilkakjöts og mjólkurafurða. Aðrar greinar hafa möguleika á að standast erlenda samkeppni, sumar meira að segja á erlendum markaði.

Herkostnaður okkar af tvöfaldri eða þrefaldri framleiðslu dilkakjöts og mjólkurafurða er vægast sagt hrikalegur. Honum hefur verið lýst í leiðurum Dagblaðsins að undanförnu. Þær þrjár Kröflur á ári þarf að stöðva, – nú þegar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sinn er siður

Greinar

Þegar við förum til fjarlægra landa með framandi siði, tökum við tillit til þarlendra umgengisvenja. Við notum til dæmis ekki áfengi á almannafæri í löndum íslams. Vesturlandabúar eiga líka að ætlast til hins sama, þegar íslamar setjast að á Vesturlöndum.

Því miður hafa sum vestræn þjóðfélög, til dæmis hið brezka, látið gott heita, þótt íslamskir íbúar hvetji til þess, að rithöfundurinn Salmon Rushdie sé drepinn. Hvatning til manndrápa er ólögleg á Vesturlöndum og ber að vísa þeim gestum úr landi, sem ekki virða það.

Vesturlönd hafa í stórum dráttum komið sér saman um siðareglur í mannlegum samskiptum. Samið hefur verið um, að efnavopn skuli ekki notuð í hernaði, að með stríðsfanga skuli fara með ákveðnum hætti og að óbreyttir borgarar séu ekki teknir í gíslingu.

Siðareglur Vesturlanda eru grunnmúraðar í stjórnarskrám og hefðum, sem segja, að allir megi kjósa, allir megi segja skoðanir sínar og virt skuli löng röð almennra mannréttinda, sem tryggja hag almennings og minnihlutahópa gegn lögreglu- og ofbeldisaðgerðum.

Með sáttum austurs og vesturs í Evrópu má reikna með, að smám saman gildi siðareglur Vesturlanda í samskiptum manna í milli, milli stjórnvalda og almennings og milli ríkja um því nær allt norðurhvel jarðar. Að þessu leyti marka árin 1989 og 1990 tímamót.

Í heimi íslams eru margir fylgjandi siðareglum af þessu tagi. Þeir telja, að vestrænn nútími sé engin uppfinning Satans, heldur áminning til þjóða íslams um, að þær hafi setið eftir í þróuninni í um það bil fimm aldir. Þannig hugsa til dæmis margir Tyrkir og Egyptar.

Ennfremur eru til íslamar, sem hafna vestrænum sjónarmiðum yfirleitt. Í þeim hópi hafa margir trú á Saddam Hussein sem lausnara, er feti í fótspor arftaka spámannsins, sem fóru blóðuga sigurför um Miðausturlönd og Norður-Afríku fyrir tæpum tólf öldum.

Saddam Hussein hefur frá vestrænu sjónarmiði brotið nærri allar siðareglur í samskiptum manna, þjóða og ríkja. Fram að innrásinni í Kúvæt komst hann upp með þetta. Hann hafði séð, að Vesturlönd gerðu ekkert, þótt hann beitti efnavopnum í Kúrdistan og Íran.

Hann hafði líka séð, að það borgaði sig að taka vestræna gísla, sem hægt var að selja vestrænum ríkisstjórnum. Áður voru gíslar teknir einn og einn, en nú hafa þeir verið teknir hundruðum og þúsundum saman. Nýja siðareglan segir, að það megi taka gísla.

Með því að taka vestræna gísla hefur Saddam Hussein flutt Persaflóastríðið til Vesturlanda. Hann hefur ekki aðeins ráðist á íslamskt nágrannaríki. Hann hefur líka ráðist á Vesturlönd almennt. Þannig hefur hann sagt Vesturlöndum stríð á hendur, þar á meðal Íslandi.

Ef Persaflóastríðinu lýkur með, að Saddam Hussein dregur her sinn frá Kúvæt og fær í staðinn eitthvað, sem gerir honum kleift að halda velli heima fyrir sem eins konar sigurvegari, hefur hann unnið gíslastríðið við Vesturlönd. Öll fúlmenni heims munu taka eftir því.

Persaflói er prófsteinn á nýfengna samstöðu norðursins. Staða Vesturlanda í umheiminum verður óbærileg, ef þau vinna ekki sigur í stríðinu við Saddam Hussein. Þau verða að brjóta hann á bak aftur, hrekja hann frá völdum og halda yfir honum stríðsglæparéttarhöld.

Að loknu slíku uppgjöri geta íslamar í alvöru farið að taka afstöðu til, hvort þeir vilji taka þátt í nútímanum eða frjósa inni í fimm alda gömlu hugarfari.

Jónas Kristjánsson

DV

Enn ein byggðaröskun

Greinar

Ný sveifla byggðaröskunar er að ganga í garð um þessar mundir. Sveiflan beinist að þéttbýlinu við sjávarsíðuna, sem hingað til hefur megnað að halda hlut sínum gagnvart Reykjavíkursvæðinu. Þessi röskun byggist á breyttum markaðsaðstæðum í útflutningi sjávarafurða.

Í nokkra áratugi hafa fiskvinnslustöðvar og þá einkum frystihús verið hornsteinn þjóðarhags. Á þessum tíma fólst gildi stöðvanna í, að þær tóku viðkvæman ferskfisk og gerðu hann geymsluhæfan, svo að unnt var að flytja hann langan veg vestur um haf á ríkan markað.

Nú er farið að frysta fiskinn enn ferskari en áður. Það er gert um borð í frystitogurum, sem geta landað hvar sem er. Fjárfestingin í frystitækjum skipanna er ekki föst á sama hátt og tækin í húsunum. Það er hægt að sigla með skipin til Reykjavíkur. Strax í dag.

Um leið hafa samgöngur og samgöngutækni batnað svo, að unnt er að koma ferskfiski á auðugan markað, án þess að verðgildi hans rýrni að ráði á leiðinni. Þetta hefur farið saman við aukna kaupgetu Vestur-Evrópubúa, sem vilja fisk fremur ferskan en frystan.

Með ýmsum ráðum er reynt að hefta þessa þróun. Einna eindregnast kemur hún fram í opinberu kerfi aflamiðlunar, sem skammtar leyfi til útflutnings á ferskum fiski. Slík skömmtunarstofa útflutningsleyfa er sérkennilegt fyrirbæri, sem minnir á kreppuárin.

Betri árangur hefur náðst í sálræna varnarstríðinu. Fundin hafa verið upp nýyrði og þau gerð að klisjum í munni sljórra fréttamanna. Ferskur fiskur er til dæmis sagður “óunninn” alveg eins og að hann þurfi á einhverri vinnslu að halda til að verða nothæf vara.

Ímyndunin endist skammt, því að ferskur fiskur er orðinn dýrari en svokallaður “unninn” fiskur. Í Evrópu er þorskur kominn í 140 krónur á kílóið og karfi og ufsi eru komnir í 100 krónur. Þetta þýðir, að fyrirhöfn við frystingu er farin að rýra verðgildi “hráefnisins”.

Við þetta bætist, að fiskur, sem frystihús og söltunarhús fá, fer í vaxandi mæli um gólf innlendra fiskmarkaða, sem gefa sjómönnum og útgerð mun hærra verð en fiskverð opinberu nefndanna gefur. Þorskurinn er kominn í 100 krónur, ufsinn og karfinn í 50 krónur.

Fiskmarkaðirnir hafa einkum náð fótfestu á Reykjavíkursvæðinu. Þeir soga að sjálfsögðu til sín skipin, sem ekki fá skammtað leyfi til útflutnings á ferskum fiski. Þannig eru það mörg samverkandi atriði, sem grafa undan stöðu fiskvinnsluhúsa við sjávarsíðuna.

Auðvitað er mjög gott fyrir þjóðarbúið í heild, að ferskur fiskur skuli hafa hækkað svona mikið í verði og að ekki þurfi lengur að varðveita geymsluþol hans með dýrum aðferðum. En hliðaráhrifin af happafengnum verða ekki jafn ánægjuleg fyrir alla landsmenn.

Landsmálin hafa í nokkra áratugi að nokkru leyti mótast af ágreiningi um, hversu miklu megi verja af sameiginlegu aflafé til að reyna að koma í veg fyrir, að fólk flyttist úr sveitum landsins til sjávarsíðunnar. Þetta varnarstríð hefur verið dýrt og fremur árangursrýrt.

Skömmtun aflamiðlunar á leyfum til útflutnings á ferskum fiski er eitt fyrsta skrefið í nýju stríði við nýtt vandamál af þessu tagi, nýja röskun. Fleira verður reynt, til dæmis að koma í veg fyrir, að fólk við sjávarsíðuna noti húsnæðislánafé sitt á Reykjavíkursvæðinu.

Búast má við, að dýrt varnarstríð gegn röskun í þjóðfélaginu af völdum breyttrar stöðu ferskfisks verði jafn rýrt í eftirtekjum og fyrri varnarstríð af slíku tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Keilisnes eða Kanada

Greinar

Lokið er langvinnu sjónarspili um staðarval nýs álvers og farið að tala um það, sem máli skiptir, orkuverðið. Svo skammt er það mál komið, að seðlabankastjóri upplýsti í fréttaviðtali, að forsætisráðaherra gæti ekki haft skoðun á því, þar sem hann vissi lítið um það!

Ef viðræður um orkuverð til nýs álvers eru svo skammt komnar í fyrstu viku septembermánaðar 1990, að forsætisráðherra hefur enn ekkert í höndum til að byggja á neinar skoðanir um verðið, á mikið vatn eftir að renna til sjávar, áður en álverið verður reist.

Fyrir löngu gátu menn gengið að því vísu, að hinir erlendu eigendur álversins mundu telja heppilegast að reisa það á Keilisnesi suður með sjó. Sérfræðingaskýrslan um staðarval er svo eindregin, að eigendurnir hljóta að hafa vitað fyrir löngu, hvert hún mundi stefna.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið vakin athygli á, að ósæmileg væru vinnubrögð iðnaðarráðherra í sjónarspilinu um staðarval. Að tilhlutan ráðuneytisins hefur verið búið til um álverið langvinnt undirboða-kapphlaup gróðafíkinna sveitarfélaga.

Þetta var auðvitað í þágu hinna erlendu eigenda, sem hafa verið að dunda við að tefla saman sveitarfélögum, ekki til að velja stað, heldur til að ná sem hagkvæmustum kjörum á Keilisnesi. Iðnaðarráðuneytið hefur komið fram sem sjónhverfingamaðurinn í þessu sjónarspili.

Langt er síðan ljóst var, að Karl Steinar Guðnason gæti bezt tryggt álverinu vinnufrið. Engum dettur í hug að reisa álver nema hafa tryggan vinnufrið um smíði þess og rekstur. Nýja álverið getur gert kjarasamning undir einum hatti við launþegafélögin suður með sjó.

Áður en í ljós kom, að Karl Steinar og menn hans væru lífsreyndari en norðanmenn og austanmenn, var vitað, að í Reykjaneskjördæmi einu hefði álverið aðgang að starfskröftum án þess að þurfa sérstaklega að sprengja upp launamarkaðinn vegna fámennis í héraði.

Stóra málið er auðvitað ekki þetta, heldur orkuverðið. Hér í blaðinu hefur lengi verið varað við, að hugmyndir samningsaðila um verðið eru fremur lágar og fremur áhættusamar. Svo virðist sem viðræðurnar stefni að niðurstöðu, sem er Íslendingum óhagstæð.

Bæði hér og annars staðar hefur verið lögð áherzla á, að Íslendingar megi ekki taka mikla áhættu af álframleiðslu. Við ættum til dæmis ekki að vera hluthafar í slíku veri, heldur einbeita okkur að sölu rafmagns. Og orkuverðið má ekki verða of háð sveiflum á verði áls.

Þótt orkuverð fylgi álverði, verður að setja þeirri sveiflu einhver mörk, sem tryggi, að eigendur Landsvirkjunar lendi ekki í stórfelldum vandræðum við að greiða vexti og afborganir af lánum til orkuvera, ef álverð hrynur af einhverjum utanaðkomandi ástæðum.

Ef þar á ofan er ætlunin að veita álverinu verulegan afslátt af orkuverði, jafnvel fyrstu tíu árin, er enn nauðsynlegra en ella að setja reikningsdæmið þannig upp, að gert sé ráð fyrir lágu heimsmarkaðsverði á áli. Ef það dæmi gengur ekki upp, er bezt að gleyma álverinu.

Við erum að tala um að nota alla hagkvæmustu virkjunarkostina í þágu þessa álvers. Við getum ekki notað þá til annarra arðbærari nota, ef við sitjum uppi með samning við álver, sem fær orkuna á lágu sveifluverði. Hvar virkjum við þá fyrir vetnisver eða orkukapal

Fleyg eru þau ummæli Suðurnesjamanna, að álverið verði reist á Keilisnesi eða í Kanada. Við skulum ekki vera viss um, að fyrri kosturinn sé betri fyrir okkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Röskun í landbúnaði

Greinar

Oddamenn bænda á þingi stéttarsambands þeirra virtust gera sér grein fyrir, að bændum mundi fækka í kjölfar minnkandi sölu á búvöru. Í ályktun þeirra er talað um rúmlega þúsund manna fækkun í sauðfjárrækt. Er þá ekki gert ráð fyrir innflutningsfrelsi.

Þeir virtust líka gera sér grein fyrir, að bann við innflutningi á búvöru kunni að verða linað í náinni framtíð því að þeir ályktuðu um, að jöfnunargjald yrði sett á innfluttu vöruna. Líklega grunar þá, að neytendur og skattgreiðendur muni einhvern tíma varpa af sér okinu.

Þótt þeir geri sér grein fyrir, að vandinn er til, vanmeta þeir hann. Þeir ímynda sér til dæmis, að kúabúskapur sé í jafnvægi, þótt skynsamlegt sé að flytja inn miklu ódýrari og fjölbreyttari osta og margfalt ódýrara smjör en hér er framleitt í skjóli einokunar.

Oddamenn bænda eru enn þeirrar skoðunar, að skipulag að ofan muni bjarga hag atvinnugreinarinnar, þótt hún sé nú í rústum eftir þriggja áratuga ríkisrekstur. Þeir ályktuðu um “styrkari heildarstjórn” mjólkuriðnaðarins og vilja fá stjórn á ýmsar hliðarbúgreinar.

Framleiðsla á svínakjöti er utan þessa kerfis, enda er verð á svínakjöti það búvöruverð, sem næst kemst verði á alþjóðlegum markaði. Slagsmálin um landbúnaðarstefnuna hafa undanfarin misseri einkennzt af tilraunum til að koma einokun á svínakjötið.

Landbúnaðarráðherra er töluvert afturhaldssamari en oddamenn bænda eru almennt. Hann hefur tekið eftir, að blómleg sala er á hrossum til útlanda. Hann hefur lýst yfir, að brýnt sé að koma opinberu skipulagi á þessa sölu, því að milliliðir maki krókinn.

Hingað til hefur ríkið lítið sinnt útflutningi hrossa, nema að skattleggja hann til að halda uppi stóðhestastöð í Gunnarsholti, sem fræg varð fyrir nokkrum árum fyrir að senda hross í dóma á óvenjulega þungum skeifum og botnum til að hækka kynbótaeinkunnir.

Einnig borgar ríkið dómskerfi Búnaðarfélags Íslands. Það kerfi tekur lítið sem ekkert mið af söluhæfni hrossa eins og hún endurspeglast í markaðsverði, heldur byggist á meira eða minna óáþreifanlegum smekk ríkisstarfsmanna, sem standa í einkastríði við hrossabændur.

Verra er þó, ef aukið skipulag af hálfu ríkisins mun felast í, að bændum verði ýtt út í hrossarækt eins og þeim var ýtt út í loðdýrarækt fyrir nokkrum árum. Hrossarækt er afar flókin listgrein, sem ekki verður arðbær öðrum en þeim, sem kunna vel til verka.

Sama er að segja um ferðaþjónustu bænda. Þótt mörgum ferðabændum hafi gengið vel og þeir hafi gott samstarf um áhrifaríka sölumennsku, er ekki þar með sagt, að hver sem er geti farið út í ferðaþjónustu. Það er vandasöm sérgrein, sem ekki dugir að ýta mönnum út í.

Ef meira eða minna óviðbúnum bændum er ýtt út í að fara að reyna að lifa á hrossarækt eða ferðaþjónustu, er hætt við, að það skaði ekki aðeins þá sjálfa, heldur dragi einnig niður þá, sem fyrir eru í greininni. Það mun bara búa til enn eitt ríkiskerfi offramboðs.

Tilraunir ríkisins og hagsmunastofnana landbúnaðarins til að koma kerfi sínu yfir á svínabændur, hrossabændur og ferðabændur munu á þeim sviðum leiða til hliðstæðra vandræða og nú tröllríða bæði bændum og þjóðinni í sauðfjárrækt, nautgriparækt og lðdýraækt.

Öllum má vera ljóst, að mikil röskun verður í landbúnaði. Í allra þágu er, að hún fái að gerast hratt og í friði, án byrða á þreytta neytendur og skattgreiðendur.

Jónas Kristjánsson

DV

Teflt um ljós og myrkur

Greinar

Ef Saddam Hussein og Ba’ath-flokkurinn í Írak sleppa fyrir horn í pattstöðunni við Persaflóa, má búast við frekari fréttum frá Írak eftir um það bil fimm ár. Þá mun Saddam Hussein eða arftaki hans hrista nýsmíðuð atómvopn framan í umheiminn til að fá sitt fram.

Saddam Hussein hefur áður komizt að raun um, að hann getur notað efnavopn gegn umheiminum og gegn minnihlutahópum í eigin landi. Hann hefur áður komizt að raun um, að Vesturlandabúar fara á taugum, ef óvinir þeirra taka gísla. Það er vopnið, sem hann beitir nú.

Ef taugastríðið leiðir til samkomulags um, að her Íraks hverfi frá Kúvæt, en Írak haldi samt einhverjum olíulindum, halda Saddam Hussein og Ba’ath-flokkurinn stöðu sinni heima fyrir. Patt í styrjöldinni verður túlkað sem sigur, alveg eins og patt í stríðinu við Íran.

Verið getur, að vestrænn ótti við átök og harmleik leiði til samkomulags um, að Saddam Hussein fái að halda andlitinu. Slík niðurstaða er mun verri en átök og harmleikur, því að hún leiðir til enn verri átaka og meiri harmleiks, þegar Írak hefur eignazt atómvopn.

Saddam Hussein hefur áður beitt efnavopnum eins og honum þóknast. Hann beitir nú gíslavopnum eins og honum þóknast. Hann mun beita atómvopnum eins og honum þóknast. Hann verður eftir fimm ár í enn betri aðstöðu en nú til að breiða út stjórnarfar sitt.

Tíminn rennur smám saman út í sandinn. Almenningur í Bandaríkjunum verður þreyttur á þessu stríði, eins og hann varð þreyttur á varðgæzlunni í Líbanon og stríðinu í Vietnam. Og almenningur í Vestur-Evrópu mun tregðast við að taka á sig hluta af herkostnaðinum.

Japan og Vestur-Evrópa skaðast meira en Bandaríkin á valdadraumum Saddams Husseins. Þessir auðugu bandamenn eru samt ófærir um að gæta hagsmuna lýðræðis við Persaflóa. Ef Bandaríkin bila líka, hafa Vesturlönd í heild beðið ósigur gegn trylltu smáríki.

Við sjáum fyrir okkur rifrildið, sem byrjar, ef Íslendingar verða beðnir um að leggja af mörkum sitt litla brot af herkostnaðinum við Persaflóa, svo að við tökum fjárhagslega þátt í að verja það þjóðskipulag, sem við njótum. Við höfum alltaf viljað, að aðrir borgi.

Hinn mikli her Bandaríkjanna sekkur í sandinn í Arabíu. Þar verður smám saman farið að líta á hann sem hernámslið. Saddam Hussein hefur þegar náð nokkrum árangri við að æsa íslama gegn þeim prinsum, sem leyfi vantrúarhundum að saurga helgistaði.

Þótt tímans rás hafi þannig ýmsar hættur í för með sér, hafa líka vaknað ýmsar vonir. Stjórnvöld í hinum fjölmennu ríkjum Egypta og Tyrkja hafa komið fram á mjög ábyrgan hátt í stríði þessu og virðast njóta til þess töluverðs stuðnings meðal almennings í þessum löndum.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu, að íslamskar þjóðir geti eins og kristnar hagnýtt sér kosti lýðræðis, úr því að Japanir og fleiri þjóðir í Austurlöndum hafa getað það. Til þess þurfa þær að hafna trúarofstæki íslamsklerka og þjóðernisofstæki Saddams Husseins.

Ef Saddam Hussein og Ba’ath-flokkurinn sleppa fyrir horn í þessu stríði, munu íslamar víða um lönd telja samvizkulausar ofbeldis- og klækjaleiðir vænlegri til árangurs en leiðir þeirra þjóða, sem komnar eru nokkuð á veg til lýðræðis, svo sem Tyrkja og Egypta.

Við Persaflóa hefur verið sett upp taflborð, þar sem mannkynið teflir um meira eða minna lýðræði, meiri eða minni mannréttindi, meira eða minna ljós.

Jónas Kristjánsson

DV

Konungsbréf

Greinar

Hinn allranáðugasti viðskiptaráðherra hefur ákveðið af sinni alkunnu mildi og góðvild að gefa þegnum sínum frelsi til að stunda milliríkjaviðskipti á sama hátt og innanlandsviðskipti. Af því að við kunnum ekki með frelsi að fara gerist þetta í áföngum á þremur árum.

Aftur lifum við á tímum hinna menntuðu einvalda. Við höfum ekki lengur Danakóng til að bjarga okkur undan þeirri verzlunaráþján, sem íslenzkir framsóknarmenn þess tíma komu upp í samstarfi við hörmangara. Í staðinn höfum við allranáðugasta viðskiptaráðherra.

Í kjallaragrein ráðherrans hér í blaðinu á föstudaginn stóð meðal annars, að konungsbréf hans fæli í sér “róttækustu breytingar á gjaldeyrisreglum landsmanna um þriggja áratuga skeið” eða síðan gjaldeyrisleyfi til innflutnings voru afnumin að mestu í upphafi Viðreisnar.

Samkvæmt konungsbréfinu megum við eftir þrjú ár taka út ótakmarkaðan ferðagjaldeyri eða námsmannagjaldeyri. Við megum þá fjárfesta í útlöndum og útlendingar fjárfesta hér. Arðinn má þá flytja milli landa. Við megum þá taka lán í útlöndum og eiga þar fé á banka.

Það er því í stórum dráttum rétt, að þetta er róttæk breyting. Krónan verður alvörumynt eftir þrjú ár. Að vísu verður hægar sagt en gert að kaupa 5.000 króna hlutabréf í Shell í Rotterdam. Við munum ekki geta haft beint samband við kauphallarmann í Amsterdam.

Til þess að kaupa 5000 króna bréfið þurfum við að fá uppáskriftir á nokkrum stöðum í Reykjavík. Ennfremur þurfum við að nota Seðlabankann sem kauphöll. Það er að vísu gott fyrir bankann, því að þar er mikið af starfsfólki, sem útvega þarf verkefni við hæfi.

Sá er svo munurinn á konungsbréfi hins menntaða einvalds og byltingu Viðreisnar, að þá starfaði stjórnin eftir almennri lýðræðishefð Vesturlanda, þar sem ætlazt er til, að valdið komi að neðan og lýsi sér í lögum, sem meirihluti fulltrúa almennings setur á Alþingi.

Samhliða þessari hefð höfum við komið okkur upp menntuðu einveldi, sem felst í, að ráðherrar gefa út reglugerðir út og suður. Oftast eru þetta góðviljaðar reglugerðir, samdar af fróðum embættismönnum, alveg eins og konungsbréfin í tíð menntaðra Glücksborgara.

Þetta er meira eða minna viðurkennt af Alþingi. Það setur í vaxandi mæli óljós lög, sem eru full af götum, er ráðherrar eiga að fylla upp í með reglugerðum. Alþingi hefur afsalað sér hluta af valdinu að neðan til valdsins að ofan. Konungsbréf fylla skarð laganna.

Gallinn er, að nýr einvaldsherra kemur eftir þennan. Við getum ekki frekar en í gamla daga treyst því, að röð menntaðra einvalda verði endalaus. Það, sem einn herrann færir þegnum sínum, getur annar tekið af þeim. Það er af því að vald konungsbréfa kemur að ofan.

Meira traust hefði verið í góðvilja ráðherrans, ef byltingin hefði fengið að koma að neðan, í lögum frá Alþingi. Nýr einvaldsherra á erfiðara með að fara í kringum lög en að gefa út nýtt konungsbréf gegn gömlu konungsbréfi. Ráðherrar hafa slegizt með reglugerðum.

Íslendingar eru aðeins að nokkru leyti borgarar í vestrænum skilningi. Að hinu leytinu erum við enn þegnar einvaldskonunga. Við fylgjum ekki vestrænni hugmyndafræði um uppruna valdsins nema að nokkru leyti og það meira að segja að minnkandi hluta.

Gjaldeyrisbreytingin er róttæk, að sögn ráðherrans. Við erum orðin svo ónæm fyrir lýðræðishefð, að byltingar gerast í konungsbréfum og ekki í landslögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Flugferðir verða dýrari

Greinar

Tímabundin einokun á millilandaflugi Íslendinga hófst í gær, þegar Flugleiðir tóku við leiðum, sem Arnarflug hafði haft til Amsterdam og Hamborgar. Nokkur hætta er á, að einokun þessi verði varanleg, því að Flugleiðir hafa óskað eftir að fá að vera einar um hituna.

Ráðamenn félagsins telja, að einokun auðveldi þeim að fá einokunarfélagið SAS til að kaupa hlutafé í félaginu, sem tapar mjög á Ameríkuflugi. Yrði flugið til Amsterdam í gær þá fyrsta skrefið til hægfara yfirtöku norræna félagsins á Íslandsflugi, í skjóli fjármögnunar.

Því miður er lítið hald í samkeppni, sem leiðir af gagnkvæmum loftferðasamningum. Á því sviði tefla erlend stjórnvöld fram gæludýrum sínum á borð við SAS og Lufthansa, sem árum saman hafa verið fremst flugfélaga í flokki hins illræmda IATA-einokunarhrings.

Ef Flugleiðir verða með allt millilandaflug, með smávægilegri viðbót frá flugfélögum á borð við SAS og Lufthansa, er 100% öruggt, að engin samkeppni verður, hvorki um verð né annað. SAS og Lufthansa hafa aldrei haft forustu um að lækka verð á neinni þjónustu.

Helzta von Íslendinga um lág fargjöld felst í, að eitthvert flugfélag utan IATA-einokunarhringsins sæki um flugleyfi hingað í skjóli þess, að einokunarfélag viðkomandi lands hafi ekki sýnt áhuga á að nýta sér réttinn, sem gagnkvæmir loftferðasamningar eiga að veita.

En ýmislegt má gera til að bregða fæti fyrir framtak af slíku tagi. Flugleiðir verða á vaktinni og reyna að fá systurfélög sín í einokunarhringnum til að taka upp þráðinn, ef eitthvert utangarðsfélag hyggst ógna Flugleiðum. Þá má þæfa málið og eyða því í ráðuneytum.

Ekki er vefengjanlegt, að starf Arnarflugs hefur haldið niðri verði Flugleiða á þeim leiðum, sem hafa verið í óbeinni samkeppni við leiðir Arnarflugs. Kílómetragjaldið á þeim leiðum hefur verið lægra en á hinum leiðunum, sem eru fjarri leiðum Arnarflugs.

Áhrif aukinnar einokunar munu þó ekki verða mest á þessu sviði, þar sem miðað er við full fargjöld. Fólk mun fljótlega finna, að fækka mun sérstökum tilboðum, sem verið hafa mjög algeng, og að tilboðin verða ekki eins hagstæð og þau hafa verið á undanförnum árum.

Þetta er ekki spá út í loftið, heldur fjallgrimm vissa, sem byggist á aldagömlum lögmálum samkeppni og einokunar. Það verður dýrara en áður að fljúga milli Íslands og annarra landa. Einkum mun fækka ódýrum tilboðum, sem hinir efnaminni hafa helzt notað sér.

Ráðherrar Alþýðubandalags hafa flýtt þessari þróun og nokkrum sinnum lagt lykkju á leið sína til að efla einokun í millilandaflugi. Það er skiljanlegt, því að þeir eru fulltrúar stjórnmálastefnu, sem vill, að athafnalíf sé ríkisrekið eða í austurþýzkum “kombínötum”.

Sjónarmið samkeppni í flugi hafa helzt haft hljómgrunn í Bandaríkjunum. Helmingi minna kostar að fljúga milli New York og Washington en kostar að fljúga nákvæmlega sömu vegalengd í Evrópu milli London og Frankfurt. Og helmings munur er enginn smámunur.

Heljargreipar einokunar í Evrópuflugi eru farnar að linast. Dómstóll Evrópubandalagsins hefur úrskurðað, að samkomulag flugfélaga um verð á flugleiðum stríði gegn Rómarsáttmála bandalagsins. Hagsmunaðilar heyja nú varnarstríð um málið að tjaldabaki í Bruxelles.

Svo kann að fara, að um síðir færi Evrópubandalagið okkur aftur samkeppnina og lágu fargjöldin, sem ráðherrar Alþýðubandalagsins hafa verið að leika grátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Skaðlegt hlutafélag

Greinar

Bifreiðaskoðun Íslands sameinar verstu hliðar ríkisrekstrar og einkarekstrar. Hún er rekin sem hlutafélag, er metur sjálft fjárþörf sína, en hefur um leið einokun á sínum markaði, þannig að bifreiðaeigendur geta ekki snúið sér neitt annað til að fá aðalskoðun á bílum.

Afleiðingin er, að skoðunargjald bíla hefur á hálfu öðru ári hækkað um 200­300%. Aðeins brot af skýringunni felst í, að virðisaukaskattur hefur verið lagður á bifreiðaskoðun. Hinu er ekki að neita, að skoðun er vandaðri en áður og þjónusta er betri en áður.

Kunn er saga úr afgreiðslu gamla Bifreiðaeftirlitsins, sem Bifreiðaskoðunin leysti af hólmi. Óþolinmóður bíleigandi sagði stundarhátt: “Ég er viss um, að þetta er stirðasta og versta ríkisfyrirtæki í öllu landinu.” Afgreiðslustúlkan svaraði að bragði: “Tollurinn er verri.”

Þótt þjónusta hafi batnað, skoðun orðið vandaðri og virðisaukaskattur fundinn upp, er út í hött, að skoðun bíla hækki um 200­300% á einu ári. Það var því þarft verk Neytendasamtakanna að gagnrýna hækkunina, sem hlýtur að stríða gegn svokallaðri “þjóðarsátt”.

Athyglisvert er, að Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur lítið látið í sér heyra um þetta mál. Það félag er svo steindautt úr öllum æðum, að það lætur möglunarlítið yfir sig ganga allar hækkanir á benzíni og innflutningsgjöldum. Ekki veitti af að moka þar út eymdinni.

Dómsmálaráðuneytið hafði, undir þáverandi forustu Jóns Sigurðssonar iðnaðarráðherra, frumkvæði að Bifreiðaskoðun Íslands. Þingmenn gleyptu hugmyndina án þess að skilja, hvað í henni fælist. Snöggur framgangur málsins er skólabókardæmi um vinnubrögð Alþingis.

Huglatir þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast hafa verið svo heillaðir af orðinu “hlutafélag”, að þeir héldu sig vera að samþykkja einkavæðingu á hluta af ríkisbákninu. Þeir sáu í hillingum, að skoðun bifreiða mundi að mestu færast inn á bílaverkstæði landsins.

Þvert á móti var málum svo hagað, að hin nýja ríkisstofnun í hlutafélagsformi fékk einkarétt á skoðun bifreiða. Hún hefur frá fyrstu stund verið haldin bygginga- og innkaupaæði, sem endurspeglast að sjálfsögðu í gjöldum þeim, sem fórnardýr hennar verða að greiða.

Samkvæmt bréfi frá dómsmálaráðuneytinu eru gjaldskrár fyrirtækisins byggðar á fjárhagsáætlunum þess og miðaðar við, að tekjur hrökkvi fyrir gjöldum. Þetta er skólabókarformúla um, hvernig ekki á að stunda ríkisrekstur og hvernig ekki á að stunda einkarekstur.

Ríkisrekstur hefur aðhald að ofan, því að Alþingi hefur það hlutverk að skera niður óskalista ríkisstofnana. Einkarekstur hefur aðhald að utan, því að samkeppnisaðilar sjá um, að viðkomandi fyrirtæki geti ekki miðað tekjur sínar við óskalista um útgjöld.

Bifreiðaskoðun Íslands hefur hvorki aðhaldið, sem venjulegar ríkisstofnanir hafa að ofan, né aðhaldið, sem einkafyrirtæki hafa frá ytri markaðslögmálum. Hún er fáránlegt fyrirbæri, sem sameinar flest það versta úr rekstrarformunum, sem notuð eru á Vesturlöndum.

Leggja ber þessa stofnun niður sem fyrst og flytja skoðunina til bílaverkstæða landsins. Samhliða þeim þarf að vera til fámenn ríkisstofnun, sem fylgist með, að bílaverkstæði vandi sig við skoðun. Einnig þarf að rannsaka, hvernig slysið gerðist, þingmönnum til lærdóms.

Loks ber að draga til ábyrgðar þá kerfiskarla, sem fullyrtu á sínum tíma, að Bifreiðaskoðun Íslands mundi í senn leiða til betri þjónustu og lægri skoðunargjalda.

Jónas Kristjánsson

DV